Brunnastaðir – Skjaldarkot – Halakot – Hausthús – Grænaborg – Vogar
Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.
Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir „þrjótur, slæpingi; seppi“. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.
Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.
Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.
Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.
Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp á Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.
Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.
Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.
Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.