Búrfellshraun í Urriðakotsdölum.
Árið 2007 fjalla Árni Hjartarson og Ingibjörg Kaldal um „Verndargildi jarðminja í Urriðakotssdölum“ [Urriðavatnsdölum].
Hér á eftir er getið um það helsta í skýrslunni, sem unnin var fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar. Umfjöllun um hella er að mestu sleppt, enda villugjörn.
Stutt yfirlit um jarðfræði svæðisins.
Hæðirnar beggja megin við Urriðakotshraun eru úr síðkvarterum grágrýtishraunlögum (Helgi Torfason et al. 1993). Norðan til í Urriðaholti og Vífilstaðahlíð er svonefnt Reykjavíkurgrágrýti sem myndar undirstöður undir miklum hluta höfuðborgarsvæðisins allt utan frá Engey og Viðey og suður um Álftanes og Hafnarfjörð. Ofan á það leggst Breiðholtsgrágrýtið. Báðar þessar myndanir eru beltótt dyngjuhraun, fremur ferskt, með misþykkum hallalitlum flæðieiningum (hraunbeltum) úr þéttu bergi með þunnum kargalögum í milli. Holufylling er lítil en þó er brúnleitur leir víða í sprungum og glufum. Lögin eru um 100–200 þús ára gömul, komin frá ýmsum eldstöðvum en upptök þeirra flestra eru óþekkt. Neðsti hluti þeirra ber víða vott um hraða vatnskælingu og hafa grágrýtishraunin því líklega runnið í sjó.
Berggrunnurinn er nokkuð sprunginn og misgenginn en ekki er að sjá að sprungurnar gangi út í hraunið á svæðinu sem hér er til umfjöllunar. Það er ekki fyrr en syðst í Selgjá að komið er í yngri höggun, þ.e. sem hefur verið virk eftir að Búrfellshraunið rann (Jón Jónsson 1965, Guðmundur Kjartansson 1973). Þar ganga Hjallamisgengið svokallaða og nokkur minni misgengi því tengt austan aðalmisgengisins þvert yfir hraunið. Jón Jónsson telur Hjallamisgengið vera alls um 12 m í hrauninu en utan þess er það allt að 65 m. Af því má ráða að höggun hefur verið virk þar löngu áður en hraunið rann og hún hefur haldið áfram eftir að það rann. Í hrauninu eru misgengisbrúnir allar mjög skarpar en í grágrýtisholtunum eru þær máðar af ísaldarjöklinum.
Víðast hvar þekja laus jarðlög berggrunninn en þó má sjá berar klappir eins og t.d. milli Grunnavatna, í Víkurholti og í Hádegisholti. Jökulruðningur hylur víða holt og hæðir en annar staðar er hann þunnur og ósamfelldur. Í holtunum vestan Urriðakotshrauns er varla hægt að tala um jökulruðning heldur er þar mest um veðraðan berggrunn. Grettistök, sem ísaldarjökullinn hefur rifið laus og flutt til, sjást þó víða og eru sum þeirra allvegleg (mynd 2). Af jökulkembum og jökulrákuðum klöppum má sjá að síðasta skrið jökulsins á svæðinu var til norðvesturs frá Bláfjallasvæðinu út á Faxaflóa. Ummerki hæstu sjávarstöðu í ísaldarlokin eru í um 35 m hæð yfir sjó sunnan Urriðavatns en í um 40 m y.s. við Vífilsstaðavatn (fara hækkandi til norðausturs á þessu svæði) (Skúli Víkingsson o.fl. 1995, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson 2005). Sjór hefur því að öllum líkindum náð inn í skarðið milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í ísaldarlokin.
Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Sá hluti sem þessi skýrsla fjallar um nefnist Urriðakotshraun. Samkvæmt örnefnaskrám nær það frá Vífilsstaðahrauni og inn að Selgjá. 2.3.1 Aldur hraunsins
Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar af því og birti í grein í Náttúrufræðingnum. Ein er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins, en aldursgreining á honum gaf 7240 ±130 14C ár. Þegar umreiknað er yfir í raunaldur (Stuvier og Reimer 1993) fæst að fjörumórinn er um 8100. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr.
Upptök.
Gígurinn, Búrfell, er það eldvarp sem næst er byggð á höfuðborgarsvæðinu. Hann er af þeirri gerð sem nefnist eldborg, en eldborgir einkennast af því að gosið hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Bergið í Búrfellshrauni er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Ólivínhnyðlingar finnast víða í hrauninu. Um þetta sem og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna.
Í upphafi gossins rann hraunið til vesturs í átt að Kaldárseli því misgengisstallar vörnuðu því leið skemmstu leið í átt til strandar. Guðmundur Kjartansson nefnir að hugsanlegt sé að hluti þess hafi runnið í sjó við Straumsvík en sé nú hulinn yngri hraunum. Nýlegar boranir við skoplhreinsistöð austur af álverinu leiða í ljós að svo er. Þar kemur hraunið fram neðst í borholunni SVK-02. Þar er yfirborð hraunsins á 15,5 m dýpi, sem er 8 m undir sjávarmáli. Seinna í gosinu, þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig, komst það yfir misgengisþröskuld við Kaldá og gat þá runnið niður með Ásfjalli og til Hafnarfjarðar. Þegar enn lengra leið á gosið komst hraunið yfir misgengisstalla við Smyrlabúð og flæddi eftir það niður með Vífilsstaðahlíð og til sjávar í Arnarnesvogi. Sjór stóð lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.
Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2.
Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson (1978) álítur meðalþykkt hraunsins vera um 20Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ. Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3.
Hrauntraðir
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins.
Búrfellsgjá á sér fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill er gjáin þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið sker hraunið eru gjár og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir gjánna eru víða 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgja eru veggirnir þó lægri. Undir gjárveggjunum eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.
Hraunhellar.
Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins (sjá kafla 4.3). Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er >20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta (Björn Hróarsson 1990). Önnur skilgreining sem stundum er notuð af hellarannsóknamönnum er sú að hraunhellir sé “samheiti allra holrúma í hraunum þar sem myrkur ríkir” (Björn Hróarsson 2006).
Þekktir hraunhellar í Búrfellshrauni (Björn Hróarsson 2006):
Nafn Lengd – m. aths.
Kaldárselshellar Nokkrar hraunbólur, fjárskjól
Hreiðrið 60
Ketshellir 30 Í Smyrlabúðarhrauni
Kershellir/Hvatshellir 50 Í Smyrlabúðarhrauni
Setbergsselshellir 15
Þorsteinshellir (Sauðahellirinn syðri)
Selgjárhellir (Skátahellir syðri) 237
Skátahellir nyrðri Skúti
Vífilsstaðahellir 22 Maríuhellar
Urriðakotshellir 22 Maríuhellar
Draugahellir 80 Maríuhellar
Jónshellir (Jónshellar) 79
Hraunsholtshellir (Arneshellir) Skúti
Niðurstöður.
Urriðakotshraun er merkileg náttúrusmíð eins og segja má um öll hraun á Íslandi og fágætt landslagsform þegar litið er til jarðarinnar í heild. Það er hins vegar ekki hægt að segja að það sé ósnortið í dag og verður að skoðast í því samhengi. Um hraunið liggja akvegir, göngustígar, reiðvegir og raflínur og auk þess var umtalsverð efnistaka um tíma í Bruna skammt sunnan við Dyngjuhól. Þar hefur nú verið útbúið útivistarsvæði. Einnig hefur töluvert verið gróðursett af trjám á kafla í hrauninu. Mest af þessum framkvæmdum eru snyrtilega gerðar og falla víðast hvar vel að hrauninu en helst má setja út á reiðveginn, en dæmi eru um að rutt hafi verið úr hraunkollum við lagningu hans. Slík sár eru ákaflega ljót og áferð hraunsins þar spillt. Hraunið í heild er skemmtilegt útivistarsvæði og býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum. Hinar jarðfræðilegu minjar eru, eins og rakið hefur verið hér að framan, hraunsvigður, hrauntraðir, fallegir hólar og hryggir, sprungur og gjár og ekki síst hraunhellar. Þetta þarf allt að vernda.
Heimild:
-Árni Hjartarson Ingibjörg Kaldal – Urriðavöllur; Verndargildi jarðminja í Urriðakotsdölum. Unnið fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar, ÍSOR – febrúar 2007.