Búri

Fyrir tólf árum [skráð 2005] byrjaði Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, svæðisfulltrúi Hellarannsóknarfélags Íslands á Suðurlandi, að líta eftir hugsanlegum helli á svæði því, sem Búri fannst síðan á. Hann leit inn í hraunrás mikils jarðfalls og skoðaði hann það vel og vandlega, bæði til norðurs og suðurs, en ekki var að sjá að framhald væri á hraunrásinni sem þar var og virtist hafa lofað góðu. Hann gafst þó ekki upp eins og góðra hellamanna er siður, forfærði grjót í syðri enda jarðfallsins og við það opnaðist þröngt gat niður í kjallara.
GuðmundurGuðmundur var einn við þessa iðju sína svo honum fannst ráðlegast að fara ekki niður að svo komnu máli. Það var líka skynsamlegt hjá Guðmundi. Guðmundur hafði myndavél meðferðis, teygði sig eins langt niður og honum var unnt – og smellti af. Enga fyrirstöðu var að sjá á myndinni þegar filman hafði verið framkölluð.
Og svo leið og beið. Það var hins vegar ekki fyrr en í maímánuði 2005 að HERFÍsfulltrúinn Björn Hróarsson með FERLIRsfélaga á hælunum lét sig síga niður um þrönga gatið – og sjá, niðri var heljarinnar hvelfing með miklum ís- og klakamyndunum. Á meðan aðrir dáðust að dýrðinni hélt Björn för sinni áfram inn rásina, enda öllu vanur. Hann hélt áfram og frumskoðaði Búra að hluta. Í kjölfar þeirrar FERLIRsferðar var birt eftirfarandi leiðarlýsing á vefsíðunni:
“Gengið var í fylgd fulltrúa HERFÍs um Leitarhraun ofan við Hlíðarendahjalla. Markmiðið var að leita að opinu á Búra, en í leiðinni var ætlunin að skoða opið á Árnahelli, Gjögrinu og Fjallsendahelli.Björn Hróarsson - fyrstu niður eftir frumopnun
Leitarhraunið kom úr Leitinu utan undir Bláfjöllum fyrir um 4300 árum síðan. Þar er stór gígur. Hraun úr honum rann bæði til suðurs og norðurs. M.a. er hluti hraunsins í Elliðaárhólma úr honum sem og hraunið sem Þorlákshöfn stendur á. Þar í er Gjögrið – stór niðurfall, sem Gjögurhraun er nefnt eftir. Arnarhreiðrið er einnig í því hrauni. Sá hellir hefur verið gerður aðgengilegur að tilstuðlan HERFÍSfélaga og stuðningi góðra manna og félaga. Þótt niðurfallið í Gjögrið virðist stórt er hellirinn sá ekki að sama skapi stór. Hins vegar er geysilega falleg hraunmyndun í honum. Fallegur rauður flór kemur út undan berginu inni í hellinum og steypist fram af lágri brún. Myndar hraunið þar myndarlegan hraunfoss. Farvegurinn hefur leitað niður undir hraunið og sést bláleitt gapið vel. Hægt er að komast inn í niðurfallið undir steinbrú úr grónu jarðfalli við hlið Fjallsendahellis.
Fjallsendahellir liggur hægra megin inn úr jarðfallinu. Rásin liggur um 100 metra í boga upp í gegnum hraunið. Efra gatið er í í 89 metra beinni sjónlínu norðan við neðra opið. Þegar skammt er komið er inn í Fjallsendahelli er hlaðinn veggur þvert fyrir hellinn. Hefur hann líklega verið hlaðinn til að koma í veg fyrir að fé leitaði lengra upp í hann, en skv. örnefnalýsingum fyrir Hlíðarenda var hellirinn notaður sem fjárskjól. Neðsti hluti hans er nokkuð sléttur.
Efra opið er nokkuð djúpt, en hægt er að komast inn í það í gegnum jarðfall skammt ofar.
Haldið var upp að opi Árnahellis. Hellirinn sjálfur er lokaður með járnhlera. Reynt var að grennslast fyrir um hugsanlegt aðgengi annars staðar um jarðfallið, en hún reyndist árangurslaus, að þessu sinni a.m.k. Síðar var gerð hin ágætasta FERLIRsferð í Árnahelli með HERFÍs þar sem dropsteina- og hraunstráabreiðurnar voru barðar augum. Í þeirri ferð óx skilningurinn á mikilvægi þess að loka hellum með viðkvæmum og einstökum jarðfræðimyndunum.
BúriÞá var haldið á ný upp Leitarhraun og reynt að hafa uppi á opi Búra. Björn Hróarsson hafði séð jarðfallið á loftmynd, en Guðmundur Brynjar Þorsteinsson, formaður suðurdeildar HERFÍs, hafði kíkt á aðstæður og forfært grjót úr syðri hluta hans[, sem fyrr sagði í inngangi]. Við það hafi komið í ljós illkleift og óráðið op niður á við.
Efri hluti hraunrásar Búra [í nefndu jarðfalli] reyndist vera um 50 metra langur. Hann er um 7 metra hár, um 9 metra breiður [sjá efstu myndina]. Hrun er í þessum hluta, en víða má sjá fallega rauðleit hraunlögin, sem svo lítið haldreipi reyndist vera í. Við athugun virðist vera kjallari undir rásinni, en það mun verða fjandanum erfiðara að komast þangað niður. [Gerð var þó tilraun til þess í annarri FERLIRsferð og tókst þá að opna gat niður í hraunrás. Í henni er grjót, sem þarf að forfæra. Það verkefni bíður betri tíma].
Í neðri hluta rásarinnar er gatið, sem Guðmundur Brynjar fann. Eftir að hafa forfært svolítið meira grjót frá opinu skellti Björn sér niður líkt og slanga í hellagallanum. Ekki leið nema sekúndubrot frá því að hann hvarf sjónum efrimanna að fagnaðarhljóð heyrðust undir niðri. Björn var greinilega kominn í feitt.
FERLIRsfélagar fylgdu í kjölfarið, hver á fætur öðrum. Þegar niður var komið blasti við mikil hvelfing, fimmtíu metra löng, fimmtán metra há og um tuttugu metra breið. Klakamyndanirnar í hvelfingunni þetta vorið voru engum líkar. Mannhæðahá klakastykki þöktu gólf og um fimm metra löng grýlukerti héngu niður úr loftum. Ef álfabyggð væri til þá hlyti hún að líta svona út. Allar tiltækar myndavélar voru rifnar á á loft og flassblossar lýstu upp hellinn. Um stund var líkt og um dagsbirtu væri að ræða þarna niðri í hyldjúpunum.
Björn hvarf lengra niður rásina – og var lengi í burtu. Þegar hann kom aftur svaraði hann spurningum einungis á þann veg að hellirinn væri ókannaður. Björn hefur hingað til þótt orðvar maður í lýsingum sínum á nýfundum hellum svo af tilsvörunum mátti ráða fullvissu þess að þarna kynni eitthvað miklu áhugaverðara að leynast. Ekki er óvarlegt að álykta að í Búra kunni að leynast svör við spurningum, sem menn hafa hingað til ekki kunnað að spyrja.

Myndun í Búra

Þessi ferð lýsti vel fjölbreytni FERLIRsferða, óvæntum mætingum væntinga og sannfæringunni um fjölbreytileika íslenskrar náttúru, sem landið hefur upp á að bjóða.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.”
Nú þurfti að fara aðra ferð í Búra. Í för var Guðmundur Brynjar, sá sem hafði fundið hellinn á sínum tíma.
Haldið var með snúningi niður um þröngt opið og síðan niður eftir hellinum.  Búri er mikill hellir. Mikið hrun er í honum og fara þurfti tvisvar í gegnum þröng op áður en komið var í meira rými. Smám saman fóru hliðar, loft og jafnvel gólf upprunarlegu rásarinnar að koma í ljós. Þá tók hver hvelfingin við af annarri. Lofthæð var um 20 metrar og breidd á milli veggja var um 12 metrar. Ekki var mögulegt að taka ljósmyndir í gímaldinu til að sýna stærð þess. Flassljósið dó hreinlega út í víðáttumyrkrinu. Það þarf að gera með viðeigandi búnaði. Myndir með venjulegri vél urðu þarna einungis svartar. Flassið náði ekki einus sinni milli veggja.
Svelgur innst í BúraÞegar neðar dró varð rásin algerlega heil og ein sú stærsta og fallegasta í hraunhelli á Íslandi. Haldið var enn niður á við eftir litlum gófum hraunfossi og síðan gengið um sali, sem myndu prýða hvaða konungshöll úti í hinum um stóra heimi. Þá lækkaði rásin, en var alltaf um tveggja mannhæða há til lofts og víð til beggja veggja. Eftir göngu í bugðum og beygjum gapti hyldjúpur svelgur við framundan. Lengra varð ekki komist að sinni. Dýpið á svelgnum er um þrettán metrar. Á botni hans er rauðleitt slétt gólf og langir separ niður úr loftinu. Niðri virðist vera hringiða hraunsstrauma og rásir inn undir bergið. Hvað þar er niðri veit enginn, en staðurinn, aðkoman og dýpið á hellinum lofar mjög góðu. Líklegt má telja að þarna séu heilar rásir, algerlega ókannaðar. Þær geta legið hvert á land sem er. [Björn fór síðar með leiðangur í hellinn þar sem sigið var niður í svelginn og hann kannaður.

Búri - á bakaleiðinni

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.
Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.
Frábært veður (annars skiptir það litlu máli þegar inni í hella er komið). Ferðin tók 5 klst og 5 mín. Gangan um Búra tók um 4 klst og 4 mín.
Sjá meira um ferðalagið og nýrri uppötvanir í Búra í stórvirki Björns Hróarssonar; Íslenskir hellar – 2006 (sjá meira HÉR).
Sjá MYNDIR.
Í Búra