Í Hamri 1951 er fjallað um Sléttuhlíð ofan Hafnarfjarðar; “Byggðin í Sléttuhlíð 25 ára“.
“Eg hef oft séð það í blöðum og tímaritum, að minnst hefur verið á afmæli hjá félögum og einstaklingum, er um 25 ára starf eða meira er að ræða. Mér hefur því komið til hugar, að minnast lítillega á eitt brautryðjendastarf, sem ég býst við að mjög sé gleymt.
Fyrir 25 árum, fóru tveir bjartsýnir ungir menn upp í svokallaða Sléttuhlíð, sem er um klukkutíma gang frá bænum. Þessir ungu menn voru Jón Gestur Vigfússon, verzlunarmaður og Magnús Böðvarsson, bakari. Vildu þeir leita til fjallanna með fjölskyldur, sínar til þess að geta látið þær njóta útivistar og hressandi fjallalofts.
Þeir fengu leyfi þáverandi forráðamanna bæjarins, til að byggja sumarskála í Sléttuhlíð, en þó með því skilyrði að ekki mætti girða, eða gera neitt fyrir þann blett sem þeim var úthlutaður. Fjáreigendur risu nú heldur betur upp á móti þessu og fannst víst þeirra kostir þrengdir til muna. En 12. júlí 1926, fluttu þeir Jón og Magnús þó með fjölskyldur sínar í nýjan skála, sem þeir höfðu byggt sér og nefndu hann Sléttuhlíð.
Undu þessar fjölskyldur kyrrðinni og fjallafegurðinni vel, þó margir væru örðugleikarnir í fyrstu, slæmur vegur, þar sem vegur var, en sums staðar fjárslóðir eingöngu. Vatnið þurfti að sækja að rennustokksendanum, sem var löng og erfið leið.
Í átta sumur voru þessar fjölskyldur samvistum í Sléttuhlíð og undu hag sínum vel.
Svo fór hlíðin að byggjast smátt og smátt. Hinn ötuli garðvörður Hellisgerðis Ingvar Gunnarsson var næstur og svo kom hver af öðrum, þannig að nú eru orðnir yfir 20 bústaðir í hlíðinni, kominn góður vegur yfir hraunið og vatnsleiðsla í alla bústaðina, fyrir utan margt annað, sem eykur á þægindin.
Jón Gestur og fjölskylda hans er búin að hafa sumardvöl þarna í 25 ár hinn 12. júlí í sumar eins og að framan segir, og er Jón búinn að gera lóð sína að einhverjum fallegasta bletti í nágrenni Hafnarfjarðar, með ötulli árvekni og framúrskarandi áhuga á ræktun hlíðarinnar. Hefur hann hlynnt vel að þeim gróðri, sem fyrir var og plantað út ógrynni af plöntum af margs konar tegundum og er yndislegt að vera þarna uppfrá á fögrum sumardegi. En Jón hefur ekki verið einn í þessu starfi, hann á ágætis konu, frú Sesselju Magnúsdóttur, sem er ein af hinum
kunnu Skuldarsystkinum hér í bæ. Hafa þau hjón lagt sinn stóra skerf, þjóðinni til handa í ýmsu fleiru en skógræktinni. Þau eiga 12 mannvænleg börn sem öll eru að verða uppkomin. Eg óska þessum vinum mínum hjartanlega til hamingju með þessi merku tímamót. -S.
Heimild:
-Hamar, V. árg. 13. tbl., 29. júní 1951, Byggðin í Sléttuhlíð 25 ára.