FERLIR fær margar póstsendingar; ábendingar og fyrirspurnir, bæði frá áhugafólki um minjar og sögu sem og öðrum er einfaldlega vilja njóta alls fróðleiksins (texta og ljósmynda) á vefsíðunni.

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Hér er ein ágæt ábending er lítur að tæknihliðinni: “Reynir heiti ég og hef nú nokkrum sinnum sent þér póst í leit að upplýsingum. Ég les nú flest allar færslurnar og langar að koma með smá innskot. Myndirnar sem að fylgja textunum eru oft ansi áhugaverðar og langar manni að skoða þær nánar. Það væri gaman að geta smellt á myndirnar til að geta stækkað þær svolítið til að geta séð þær nánar. Bara svona smá vinsamleg ábending….”
FERLIR sendi vefþjónustufulltrúanum ábendinguna með eftirfarandi fyrirspurn: “Spurning hvort þetta er eitthvað, sem hægt er að framkvæma?”
Svar kom um hæl: “Þetta er ekkert mál, tekur okkur um 1 tíma í vinnu að gera þetta.”
Niðurstaðan: Ef smellt er á myndina hér að ofan má sjá árangurinn. Einnig eru myndasíður (Myndir) búnar þessum möguleika.

Rebbi

Myndanir í Rebba.

Búri

FERLIR fer jafnan fyrirfram ákveðnar leiðir, að vísu vandlega undirbúnar. Gamlar frásagnir, lýsingar, mögulegar uppgötvanir eða annað eru jafnan hvatinn að ferðunum. Áður hefur undantekningarlaust verið samið um hið ágætasta veður á göngusvæðinu. Stundum hefur óálitlegt “gluggaveðrið” heima villt fólki sýn, en á göngustaðnum undrast það iðurlega umskiptin.
Reynt við ókleifan hamarinnÞá var komið að FERLIRsferð nr. 1111. Af því tilefni var ákveðið að fara í óhefðbundna göngu. Fólk, sem tekið hefur þátt í rúmlega ellefu hundruð gönguferðum við allar aðstæður öll árin – og lifað þær af – hlaut að geta nánast allt. Hafa ber í huga að FERLIR hefur aldrei tapað manni og enginn hefur slasast (a.m.k. ekki varanlega) í göngunum, en hins vegar hafa sumir fengið bata einhverra meina sinna og allir þátttakendur hafa notið hins undirliggjandi “mottós” félagsskaparins; “að vita meira, og meira, meira í dag en í gær”. Og hvað er meira virði í lífinu en heilsutengd þekking? Til útskýringar er rétt að minna á að tilgangurinn með ferðunum, auk heilsusamlegrar  hreyfingar í fögru landslagi, er að afla fróðleiks um liðna tíð, helst þannig að eitthvað nýtt (gamalt) og áður óþekkt uppgötvist hverju sinni.
Það var sem sagt í ferð 1111. ferðinni, sem láta átti reyna á þolgæðið – og þjálfunina. Áætlunin var þessi: “Klífa á ókleifan hamar himnabjarganna í hæstu hæðir, hverfa síðan niður undir yfirborð jarðar og skríða þar niður í svelginn djúpa”. Um framhaldið var ekkert getið, enda virtist uppskrift dagsins nánast fyrirfram óframkvæmanleg.
En FERLIRsfélagar hafa aldrei áður beygt út af áætlun. Þær hafa a.m.k.hingað til sannað sig að hafa verið raunhæfar – og framkvæmanlegar. Á staðnum var búnaður er hæfði áætluninni; bæði klifur- og sigbúnaður.
Fyrst var tekist á við ókleifan hamarinn. Vetur konungur gerði ferðina mögulega. Hann hafði myndað mjóan ísfoss niður um hömrumgirtar suðurhlíðar Einskismannsdals. Upp þennan skammtímafoss fetuðu FERLIRsfélagar hamarinn, skef fyrir skref – uns efstu brún var náð. Að vori væri veðrunin horfin. Uppáferðin tók ekki nema tvær klst, og hefði a.m.k. einhver einhvern tímann orðið ánægð/ur með þann árangur.
Efst á brún Einskisdalshlíðar var takinu sleppt af klifbúnaðinum. Niðurgangan að handan virtist auðveld – þangað til komið var að hamraveggnum. Sú leið var ekki árennilegri en afturbakaleiðin. En með sigbúnaðinum tókst þó að komast niður að handan. Og áfram verður haldið… í ferð nr. 1112…

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

Ferlir

2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);

Strandarhæð

Strandarhæð – Árnavarða.

FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.

FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).

FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið ” af “skráningarskyldum” minjum.

Njarðvík

Njarðvík – brunnur.

FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.

FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.

Njarðvíkursel

Innri-Njarðvíkursel.

FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.

FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.

Grindavíkurvegur

Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.

Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að “opinbera” minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri “opinberun”, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).

Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…

Ferlir

Ferlir á ferð í Selvogi.

Kind

Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs).

Umleitun

Tilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem “Óbrennishólahraun” og “Óbrynnishólahraun”. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér heyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá “hugskeyti” frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.

VitneskjaFERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 140 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 60 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 180 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar “Bókin mikla – Reykjanesskinna” kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
Handan

FEELIR

Föstudaginn 1. maí árið 2020 varð FERLIR tuttugu og eins árs. Þennan dag fyrir jafnmörgum árum hittust nokkrir starfsfélagar í Lögreglunni í Reykjavík við Kaldársel. Ætlunin var að skoða nærumhverfið með tillliti til sögu svæðisins, minjar og náttúru þess; hvort sem varðaði flóru eða fánu. Jafnframt var takmarkið að nýta áhugavert svæði, Reykjanesskagann (fyrrum landnám Ingólfs) til hreyfingar og útivistar, ekki síst sem tilbreytingu frá hinu daglega amstri vinnunnar.
Selvogs-Jói mætti þá við öllu búinn að teknu tilliti til áður birtrar auglýsingar; “ætlunin er að feta yfir læki, kafa í hella og fara á fjöll”

Hver FERLIRFERLIRsferðin rak síðan  aðra í framhaldinu. Í dag eru þær orðnar fleiri en þrjú þúsund talsins – með hlutfallslega miklum uppsöfnuðum fróðleik, að ekki sé talað um öll hreyfingarígildin (lýðheilsugildin).

Fljótlega var FERLIRsvefnum komið á fót, í árdaga allra vefsíðugerða. Til þess fékkst styrkur til kaupa á fartölvu frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans til að vinna texta, myndir og birta. Alla tíð síðan hafa öll sveitarfélögin í fyrrum landnámi Ingólfs, utan Grafningshrepps, auk einstakra fyrirtækja, stutt viðhald vefsíðunnar (þ.e. greitt tilfallandi hýsingargjöldin frá ár til árs). Þeim hefur á móti staðið til boða að nota allt efni hennar þegnum sínum að kostnaðarlausu, hvort sem um er að ræða í leik eða starfi. Það á jafnframt við um alla aðra er áhuga hafa á útivist og vilja fræðast um fólkið er byggt hefur landssvæðið til þessa.

Á þessu tímabili hefur reynst nauðsynlegt vegna tækniframfara og hýsingarkrafna að uppfæra vefsíðuna þrisvar sinnum, nú síðast með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Vandinn hefur jafnan falist í að nýta eldra uppsafnað efni og aðlaga það að breyttum breytanda. Í dag standa slíkra breytingar yfir…

Vonandi mun áhugasömu fólki um svæðið nýtast innihald vefsíðunnar til langrar framtíðar.

HÉR má sjá nokkrar ljósmyndir frá fyrstu FERLIRsferðunum…

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

FERLIR

FERLIRstóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ferlir

Ferlir í Selvogi.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.

Ferlir

Ferlir á Sveifluhálsi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.

Ferlir

Ferlir við Markastein.

Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ferlir í Bálkahelli.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflög, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við þekkingarfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Áhugasömu fólki um Reykjanesskagann hefur jafnan verið boðið velkomið í hópinn.

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.