Fornasel

Gengið var um Brunntorfur að Gjáseli í Almenningum. Þangað er um 20 mín. gangur eftir slóða að skógræktinni sunnan Rallycross-brautarinnar við Krýsvíkurveginn og áfram í gegnum gróið hraun sunnan við Hrauntungur.

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Selið er við svonefndar Gjár. Stekkur er norðan undir hraunhól, sem selið stendur á og vatnsstæðið er í grónum hólnum vestan við seltóftirnar. Líklega er um að ræða fornt sel frá Þorbjarnarstöðum. Stígur liggur upp í það frá bænum, framhjá því og áfram upp í Fornasel, sem er þarna ofar og austar. Vörður eru við stíginn í gegnum Gjárnar og er heil varða á fallegum stað skammt neðan við selið. Skammt vestan við Gjásel eru tveir skúta með hleðslum fyrir, Kápuskjól og Kápuhellir. Á milli þeirra liggja landamerki Þorbjarnastaða og Straums, yfir Jónshöfða.

Stígnum var fylgt upp í Fornasel. Þangað er u.þ.b. 15 mín. gangur. Vel gróið er í kringum Fornasel, stekkur sunnan við hólinn, sem það stendur á og stórt og vatnsmikið vatnsból svo til í miðju tóftanna.

Fornasel

Fornasel.

Þarna eru tóftir tveggja rýmis húsa, auk þess sem stök tóft stendur skammt sunnar. Það mun hafa verið eldhúsið. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.
Í bakaleiðinni var gengið í gegnum hinn mikla furu- og greniskóg í Brunntorfum og komið við í Þorbjarnarstaðaborginni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Vigdís og Elisabet

Vinaskógur er skógarlundur í landi Kárastaða í Þingvallasveit, skammt frá Þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Til Vinaskógar var stofnað í kjölfar átaks í landgræðslu árið 1989. Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands var verndari átaksins og átti jafnframt hugmyndina að Vinaskógi. Að ósk Vigdísar var skóginum fundinn staður þar sem erlendir þjóðhöfðingjar sem heimsækja Ísland gætu komið og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar og var staðsetning Vinaskógar valin með tillitil til þess að hinir erlendu gestir gætu komið þar við á leið sinni til Þingvalla en heimsókn þangað er fastur liður í opinberum heimsóknum erlendra þjóðhöfðingja til Íslands.

Fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem gróðursetti í Vinaskógi var Elísabet II Bretadrottning, þann 26. júlí 1990. Í kjölfarið hefur fjöldi erlendra þjóðhöfðingja gróðursett í Vinaskógi, t.d. allir þjóðhöfðingjar Norðurlanda á Lýðveldishátíðinni árið 1994. Einnig hafa ýmsir aðrir þekktir einstaklingar gróðursett í Vinaskógi og má þar nefna Yoko Ono árið 1991.

Vinaskógur

Vinaskógur – upplýsingar.

Ilmbirki og reyniviður eru einu trjátegundirnar sem gróðursettar hafa verið í Vinaskógi en aðrar tegundir hafa breiðst þar út af sjálfsdáðum.

Fyrstur erlendra þjóðhöfðingja sem heimsótti Vinaskóg og gróðursetti þar tré var, sem fyrr sagði, Elísabet önnur Englandsdrottning, þann 26. júní 1990. Síðan hafa margir þjóðhöfðingjar, sem og aðrar samkomur, gróðursett þar tré með eða án forseta Íslands en á þann hátt hefur Vinaskógur öðlast mikla sérstöðu.

Vinaskógur er á vesturmörkum jarðarinnar Kárastaða í Þingvallasveit, ekki lang frá hinum helga stað Þingvöllum sem tekin var á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004.

​Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu skógarins.

Vinaskógur

Vinaskógur – merki á stöpli.

​Vinaskógur er í raun smár, ungur skógarlundur og um hann liggur greiðfær stígur. Áhugavert er að skoða hvaða þjóðahöfðingjar og aðrar samkomur hafa heimsótt skóginn, en listi yfir þá er að finna á bautasteinum á staðnum.

​Einvörðu hefur verið gróðursett ilmbirki og reyniviður á svæðinu. Gulvíðir og loðvíðir hafa svo breiðst út af sjálfsdáðum.

Til Vinaskógur var stofnað í tilefni Landgræðsluskógaátaksins en þáverandi forseti frú Vigdís Finnbogadóttir var verndari þess. Að hennar ósk var fundinn staður þar sem forsetinn gæti komið með erlenda þjóðhöfðingja og gróðursett tré í nafni vináttu og friðar.
Síðan hefur Forseti Íslands verið verndari Vinaskógar.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson var hvatamaður að því að aðkoma og aðstaða í Vinaskógi var endurbætt á árunum 2002-2004.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Vinask%C3%B3gur
-https://www.skogargatt.is/vinaskogur

Vinaskógur

Vinaskógur – stöplar með skiltum þeirra sporgöngumanna (-kvenna) Elísabetar árið 1990.

Lónakot
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot má sjá tilgreind nokkur mannvirki vestan vesturtúngarðsins og austan Réttarkletta. Þar segir m.a. að gata liggi vestur með sjónum og að „gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum.
Lónakot

Vagnvegur milli Lónakots og Réttarkletta (Svínakots).

Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
Ætlunin var að staðsetja framangreinda staði m.v. lýsinguna.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Lónakotsvörin sést enn vestan og neðan við vesturtúngarðinn. Túngarðurinn sjálfur var reyndar færður utar, en ef miðað er við leifarnar af hlaðna garðinum liggur vörin þar neðan við. Fast vestan hennar er Mávahella, stór flöt hraunklöpp er stendur upp úr sjónum við meðalsævi.
Beint upp og vestan við Mávahellu er Brimþúfan. Frá henni er ágætt útsýni yfir að Nípu. Hún er strýtumyndaður hóll svo til alveg niður við ströndina og eina verulega kennileitið með henni uns komið er að Réttarklettum.

Nípuskjól

Nípuskjól.

Til að gera leitina að Nípurétt og Nípuskjóli ekki allt of auðvelda var svæðið næði neðan og ofan við kannað gaumgæfilega – ef ske kynni að einhverjar mannvistarleifar kynnu að leynast þar.
Við Réttarkletta eru gerði, garðhleðslur, skjól og tóftir. Gróið er í kring. Skammt vestra og svolítið ofar er hlaðið fjárskjól fyrir skúta.

Austan við Réttarkletta, ofan garðs, er hlaðið með grunnu, en ílöngu, jarðfalli. Þarna hefur væntanlega verið aðhald um tíma. Svo til beint norðvestur af því er Nípurétt.

Nípurétt

Nípurétt.

Annars sést réttin vel þegar gengið er eftir stígnum ofan við ströndina milli Lónakots og Réttarkletta. Hún er skammt austan við hraunhrygg austan Réttarkletta. Réttin hefur verið ferköntuð. Austurveggurinn stendur heillegur, en aðrir veggir eru að mestu fallnir. Réttin hefur verið vel staðsett m.t.t. fjárrekstra ofan við ströndina, en féð hefur væntanlega þá, líkt og nú, sótt talsvert í fjöruna. Engin hólf eða dilkar eru í réttinni.

Skammt suðvestar, sunnan undir klapparhæð, og syðst í lægðinni sem þarna er sunnan Nípu, er Nípuskjól. Veggir hafa verið hlaðnir út frá klapparbakkanum og reft yfir. Dyr snúa mót suðri.

Réttarklettar

Réttarklettar – uppdráttur ÓSÁ.

Ef gömlu vagngötunni er fylgt milli Lónakots og Réttarkletta má vel sjá hvernig hún hefur verið unnin. Bæði hefur verið hlaðið í kanta við bakka og brotið úr skörðum. Að vísu hefur sjórinn kastað grjóti upp á og yfir götuna á köflum, en tiltölulega auðvelt er að feta sig eftir henni enn þann dag í dag.
Tækifærið var notað til að skoða tóftir Lónakotsbæjarins, Norðurfjárhúsanna, brunnsins sunnan bæjarhólsins og Lónakotsréttina suðaustan við túnhliðið.

Strandsvæðið milli Straums og Hvassahrauns, þ.m.t. Lónakotssvæðið, er tilvalið til útivistar. Það hefur að geyma fjöldan allan af minjum fyrri tíma. Það sem þyrfti að gera er að merkja þær helstu svo gönguferðir um svæðið gætu bæði verið fólki til fróðleiks og ánægju. Umhverfið þarna má segja að sé einstakt og það einungis í örskotsfjarlægð frá mesta þýttbýli landsins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá fyrir Lónakot. Gísli Sigurðsson skráði. Örnefnastofnun Íslands.

Nípa

Nípa og Nípurétt.

 

Knarrarnessel

Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mín. gangur er að því.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megin tóft með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn áheiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóftir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóftirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóftirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur vatnsstæði í heiðinni þetta sumarið. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selið.

Knarrarnessel

Stekkur í Knarranesseli.

Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkerflugvélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóftir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýuppþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður Knarrarnesselstíginn að Klifgjá, yfir hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum. Við vörðuna var greni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k. Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu, en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.
Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um Reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel (Breiðagerðissel) og sunnan Fornuselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Sléttuhlíð

Á vefsíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um Sléttuhlíð ofan bæjarins: „Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Kotið var nokkurn veginn þar sem Flensborgarskóli stendur í dag á Hamrinum. Hjáleigubændur í Hamarskoti höfðu selstöðu í Hamarskotsseli, sem var nánast samtengt Setbergsseli vestan Háanefs og norðan Sléttuhlíðarhorns. Þar er merkilegur hellir í hraunrás sem er opinn í báða enda og var í eina tíð nefndur Selhellir. Sitthvoru megin við hellisopin voru selin; að norðan var Setbergssel en að sunnan var Hamarskotssel. Hellinum var skipt í tvennt með grjóthleðslu sem enn sést móta fyrir, þó hún sé að mestu hrunin. Með þessu móti gátu báðir aðilar nýtt hellinn sem geymslu fyrir afurðirnar sem unnar voru í seljunum.

Setbergssel

Op Ketshellis (Selhellis).

Sléttuhlíðin hefur verið vel gróin í eina tíð og þar óx lengi vel kjarnmikið birkikjarr sem menn nýttu til eldiviðar og beitar. Þegar kom fram á annan tug 20. aldar var kjarrið illa farið af mikilli beit og hrístöku auk þess sem landið var víða farið að blása. Kræklóttir runnar voru það eina sem eftir var og flest benti til að landið ætti eftir að eyðast að fullu þegar Einar Sæmundsen skógarvörður skoðaði svæðið að beiðni bæjarstjórnar 1917. Kjarrið var mun smávaxnara en annars staðar í nágrenninu, aðeins um tveggja álna hátt. Þrátt fyrir það var ákveðið að nýta kjarrið til eldiviðar, enda mikill skortur á kolum vegna langvarandi styrjaldarástands í Evrópu. Fátækir kotungar í Hafnarfirði höfðu stundað lyngrif í hrauninu umhverfis Sléttuhlíð áratugum eða jafnvel öldum saman þannig að víða voru ljót sár í landinu. Hitagildi sortulyngsins var mest auk þess sem útfénaðurinn sem var þarna á vetrarbeit fúlsaði við því vegna beiskju. Þar af leiðandi þótti sortulyngið ekki eins góð beitijurt og t.d. kræki- og bláberjalyng eða beitilyng og sjálfsagt að nýta það til upphitunar.

Kaldársel

Kaldársel – vatnsleiðslan yfir Lambagjá.

Sléttuhlíð fékk nýtt hlutverk þegar framkvæmdum við vatnslögnina frá Kaldárbotnum lauk haustið 1918. Forsaga málsins tengist Vatnsveitu Hafnarfjarðar í Lækjarbotnum, sem tók til starfa 1909. Á tæpum áratug jókst vatnsþörf bæjarbúa til muna svo að Lækjarbotnalindin annaði ekki eftirspurninni. Þá var var ákveðið að leiða vatn frá Kaldárbotnum í opnum stokki um 1,5 km leið. Jón Ísleifsson verkfræðingur reiknaði það út að ef vatnið yrði látið seytla niður í hraunið vestan Sléttuhlíðar ætti það eftir að fljóta neðanjarðar og koma fram í Lækjarbotnum. Þar sem stokknum sleppti við sunnanverðan Sléttuhlíðardal steyptist vatnið fram af brekkubrúninni og myndaði lítinn foss. Síðan rann vatnið í lygnri lækjarsprænu milli hrauns og hlíðar og endaði í smátjörn við miðja Sléttuhlíð. Þar hripaði vatnið niður í hraunið og eins og gert var ráð fyrir.

Lækjarbotnar

Gamla vatnsleiðslan í Lækjarbotnum.

Þessi snjalla hugdetta féll ekki öllum í geð, en engu að síður þótti bæjaryfirvöldum á það reynandi að kosta vatnslögnina og treysta á hyggjuvit verkfræðingsins. Og viti menn, sex dögum síðar fór að hækka í vatnsveitunni í Lækjarbotnum og einum mánuði eftir að vatni var hleypt á stokkinn var vatnsrennslið því orðið verulegt svo að vatnsveitu bæjarins var borgið um sinn.

Nú fengu menn aukinn áhuga á Sléttuhlíðinni og sumarið 1925 byggðu Jón Gestur Vigfússon og Magnús Böðvarsson samliggjandi sumarhús nærri Sléttuhlíðarhorni. Ætlun þeirra var að rækta landið og búa fjölskyldum sínum sumardvalastað á þessum fallega stað þar sem enn var nokkuð eftir af kjarri.

Sléttuhlíð

Sumarbústaður Jóns Gests, í Sléttuhlíð.

Árið eftir fengu þeir formlega úthlutað sitthvorum hektaranum og fjórum árum síðar fengu þeir leyfi til að girða landspildurnar af og hefja skipulega trjárækt. Ekki leið á löngu áður en þeir fengu að stækka ræktunarreiti sína og girðingarnar. Árið 1929 var Ingvari Gunnarssyni kennara og helsta ræktunarmanni Hellisgerðis úthlutað samsvarandi landi undir sumarbústað og trjárækt í Sléttuhlíð, eilítið sunnan við bústaði félaga sinna. Þar sem þessir heiðursmenn og fjölskyldur þeirra hófu sáningu á þriðja áratug tuttugustu aldar hefur landið tekið miklum stakkaskiptum og minnir núna meira á skandinavískar sveitir en hafnfirskt beitiland.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð.

Fjáreigendur og aðrir sem greiddu hagtoll fyrir leyfið til að beita sauðfé sínu og hrossum innan bæjargirðingar Hafnarfjarðar voru að vonum ekki ánægðir með þessa nýju landnámsmenn sem kepptu við þá um nýtingu landsins. Hrísbeitin var að hluta til tekin frá búsmalanum og beitilandið skert að miklum mun. Þess vegna kom ósjaldan fyrir að girðingarnar við sumarhúsin voru illa leiknar og jafnvel sundurklipptar þegar kom fram á sumar. Illa gekk að færa sönnur á hver eða hverjir ættu sökina á þessum spellvirkjum og kom nokkrum sinnum til verulegs ágreinings vegna slíkra mála og sýndist sitt hvorum.

Ingvar Gunnarsson

Ingvar Gunnarsson.

Þegar Ingvari Gunnarssyni var úthlutað landi undir sumarbústað sinn og ræktunarreit var það gert að skilyrði að þeir sem fengju lóðir undir bústaði í utan bæjarlandsins, þ.m.t. í Sléttuhlíð, mættu ekki selja eða leigja þau landsvæði án samráðs við bæjarstjórn, sem taldi sér samt ekki skylt að kaupa upp eignirnar þó þær væru falboðnar.

Á kreppuárunum var ekki mikil ásókn bæjarbúa í sumarbústaðalóðir enda höfðu menn annað við þá litlu fjármuni að gera sem þeir höfðu handbæra. Árið 1937 var ákveðið að úthluta Barnaskóla Hafnarfjarðar 1 hektara lands í norðanverðri Sléttuhlíð, rétt sunnan Sléttuhlíðarhorns. Meginástæðan var sú að skógræktarsvæðið sem girt hafði verið í Undirhlíðum 1934 var þá nánast fullnýtt og skólinn þurfti meira land til að halda ræktunarstarfinu áfram. Það skipti líka máli að með þessari úthlutun var ætlunin að bjarga því birkikjarri sem eftir var í Sléttuhlíð og auka við skógarsvæðið með því að planta út grenitrjám og öðrum tegundum sem voru óðum að nema hér land.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Á stríðsárunum urðu fjárráð almennings betri en áður hafði þekkst og voru ýmsir ágætlega aflögufærir. Þetta átti sinn þátt í að 1941 sóttu 13 aðilar um sumarbústaðalóðir í Sléttuhlíð hjá Girðinganefndinni. Tveir sóttu um lóðir utan girðingar, sjö vildu fá lóðir sunnan skógræktarreits Barnaskólans og fjórir innan hans. Var málinu skotið til heilbrigðisnefndar sem taldi öll tormerki á að úthluta fleiri lóðum í Sléttuhlíð, nema gerðar yrðu ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengum neysluvatnsins sem rann bæði ofan og neðanjarðar í hrauninu. Lagt var til að hverjum bústað fylgdi rotþró úr steinsteypu og komið yrði fyrir stáltunnu með traustu loki fyrir allan úrgang. Þetta voru skilyrði sem bæjarstjórn gat ekki fallist á og var málinu skotið til ríkisins en í kjölfar þess var ákveðið að úthluta ekki fleiri lóðum að sinni.

Jón Magnússon

Jón Magnússon í Skuld.

Ein undantekning var þó gerð sumarið 1945 þegar Jóni Magnússyni í Skuld var úthlutað landi við syðsta Klifsholt. Hann reisti þar bústað sinn sem hann nefndi Smalaskála og hóf mikið ræktunarstarf. Landið sem Jón fékk til afnota var nánast örfoka hvammur sem stendur nokkru sunnar og ofar í landinu en bústaðirnir í Sléttuhlíð. Framan við Smalaskálahvamm rann vatnið í Kaldártréstokknum og þess vegna var talin minni hætta á mengun en í hrauninu við Sléttuhlíð. Nokkru seinna fengu fleiri aðilar sumarhúsalóðir á svipuðum slóðum sem flestir standa enn.

Á tímabilinu 1949-1951 var unnið að því að leggja nýja vatnsleiðslu frá Kaldárbotnum niður í Hafnarfjörð, um 7 km leið. Þegar því verki var lokið þótti einsýnt að nú væri hættan á mengun neysluvatns liðin hjá þar sem Lækjarbotna vatnsveitan var orðin óþörf. Næstu árin fjölgaði sumarbústöðum nokkuð ört í landi Sléttuhlíðar þar til svæðið þótti fullbyggt. Þegar kom fram á áttunda áratuginn voru uppi hugmyndir um að veita leyfi fyrir byggingu nokkra bústaða norðan við Sléttuhlíðarhorn. Vegur var lagður í áttina að seljunum, en þegar til átti að taka var hætt við allt saman svo lítið varð úr framkvæmdum.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – loftmynd 2002.

Árið 1979 fékk Skógræktarfélag Hafnarfjarðar töluvert landsvæði til umráða í sunnanverðu Gráhelluhrauni og við Sléttuhlíð. Ákveðið var að skipta landinu í litlar spildur sem var úthlutað til 24 einstaklinga og fjölskyldna þeirra auk 11 félaga og stofnana sumarið 1980. Á þessum reitum má ekki reisa nein mannvirki, eingöngu stunda ræktun. Margir af helstu máttarstólpum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar tóku þetta merka starf að sér og hafa plantað út tugum þúsunda trjáplantna á aldarfjórðungi, eins og svæðið ber með sér.

Eftir að búfé var úthýst úr upplandi Hafnarfjarðar og Setbergs á seinni hluta 20. aldar hefur landið fengið kærkominn frið til að jafna sig eftir aldalanga þrautbeit. Afleiðingar þessarar friðunar sjást greinilega því kjarrlendið breiðir verulega úr sér. Mest ber á birkitrjám en stöku einiberjarunnar og víðikjarr hafa náð sér vel á strik. Útplöntun erlenda trjátegunda hefur einnig sett sterkan svip á landið og lúpínubreiður teygja sig um holt og hæðir þar sem áður var örfoka land. Lynggróðurinn hefur víða fengið að vaxa óárreittur í hrauninu líkt og annað blómskrúð.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust.

Fjölbreytileiki og gróska jarðargróðursins í Sléttuhlíð og næsta nágrennis er með eindæmum og vel þess virði að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða árið um kring. Þetta er kjörið útivistarsvæði sem ber að vernda og efla í hvívetna. Frumkvöðlarnir sem hófu ræktunarstarfið á þessum slóðum fyrir nær sjö áratugum og sporgöngumenn þeirra eiga heiður skilinn fyrir framtakssemina og þrautseigjuna við að breyta ásjón þessa lands og um leið veðurfarslegum skilyrðum þess.“ -(JG tók saman)

Heimildir:
-Saga Hafnarfjarðar I-III, Ásgeir Guðmundsson.
-Harðsporar, Ólafur Þorvaldsson.
-Græðum hraun og grýtta mela, Lúðvík Geirsson.
-https://skoghf.is/slettuhlie-sveitaromantik-vie-baejarmoerkin/

Sléttuhlíð

Í Sléttuhlíð að haustlagi.

Járnbrautarvegur

Á vefsíðu Hraunavina má lesa eftirfarandi um „Veginn sem aldrei varð„:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Garðahrauni / Hafnarfjarðarhrauni.

„Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.

Járnbraut

Járnbrautavegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.

Járnbraut

Járnbraut.

Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm.

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll framundan.

Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri. Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1900-1905. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.

Hafnarfjörður

Vinnuflokkur Sigurgeirs við Norðurbraut í Hafnarfirði.

Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann.
Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.

Járnbraut

Járnbrautarvegur – skjól verkamanna.

Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé. Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.

Miðaftansvarða

Miðaftansvarða / Miðdegisvarða.

Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.

Er glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.

Miðaftansvarða

Ártal á Miðaftansvörðu. Ártalið er frá því að bæjarverkfræðingur Hafnarfjarða, Björn Árnason, lét steypa með landamerkjavörðunni.

Þegar farið var að moka burt hrauninu þar sem nú er iðnaðarhverfið í Molduhrauni hafði enginn rænu á að vernda þennan vegaspotta, þrátt fyrir að Ómar Ragnarsson hefði farið þarna um í einum af Stiklu þáttum sínum. Nú eru aðeins fáein ár þar til það litla sem eftir er af veginum verður 100 ára og þá njóta minjarnar sjálfkrafa verndar samkvæmt fornminjalögum. Það breytir ekki því að þessi merki kafli í vegasögu okkar verður áfram í hættu þar sem sveitastjórnir hér á landi eru þekktar fyrir allt annað en fara eftir lögum um fornminjar, náttúrvernd, hvað þá um hverfisvernd sem þær setja sjálfar.“ – (JG tók saman)

Heimildir:
-https://www.hraunavinir.net/vegurinn-sem-aldrei-var%C3%B0/
-Blaðagreinar frá 1898-1918.
-Frásögn Gísla Sigurðsson.

Atvinnubótavegur

Skilti við Atvinnubótaveginn.

Spákonuvatn

Gengið var frá norðvesturhorni Trölladyngju í dýrindisveðri.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Sogasel var skoðað í Sogaselsgíg, en þar eru rústir nokkurra húsa á a.m.k. þremur stöðum frá selstíð Kálfatjarnar, auk stekkjar og réttar. Ein rústin er sýnilega elst, en jafnvel er talið að Krýsuvík hafi haft þarna í seli um tíma. Utan við gíginn er enn ein rústin.

Gengið var áleiðis upp Sogadal, skoðuð heitavatnsuppspretta í hlíðinni og síðan upp að Spákonuvatni á Núpshlíðarhálsi, niður Grænavatnseggjar og að Grænavatni. Haldið var með vatninu og kíkt eftir hugsanlegum hleðslum norðan við það, en mjög gróið er þar við vatnið.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Uppi í hlíðinni gætu verið óljósar hleðslur og einhver mannanna verk gætu einnig verið þar við vatnið. Gengið var að Selsvallafjalli og beygt til austurs með hálsinum ofan við Krókamýri. Farið var á ská niður hálsinn og vegurinn genginn með Djúpavatni þar sem áð var á Lækjarvöllum norðan við vatnið. Að því búnu var gengið með hálsinum og frammeð Fíflvallafjalli. Við enda þess er mikill gígur. Vel sést hvar Rauðamelsselstígur liggur þaðan yfir hraunið að Hrútafelli og vestur fyrir það, en sunnan við fellið er vatn, sem Lækjarvallalækurinn hefur myndað utan í grónum völlum. Loks var gengið um Hörðuvelli, niður með eldgígum og hrauntröðum uns komið var að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Helgafell

Gengið var á móbergsfjallið Helgafell ofan við Hafnarfjörð. Gangan að fjallinu er auðvel frá Kaldárseli.

Helgafell

Helgafell – heppilegasta gönguleiðin.

Slóðanum milli Kaldárhnúka var fylgt upp á slétt helluhraunið vestan við fjallið og síðan gengið að skágili austan við megingilið á norðvestanverðu fjallinu þar sem komið er að því. Þar upp liggur aflíðandi greiðfær stígur. Mjög auðvelt er að ganga þar upp í kvosina í fjallinu. Úr henni er síðan ágætt að ganga upp á sjálfa öxlina og upp á topp. Þetta er bæði stysta og þægilegasta leiðin upp. Þegar komið er upp úr kvosinni sést hellir, en í honum er læknir sagður hafa legið um hríð fyrir alllöngu síðan. Nasagóðir segja að enn megi finna meðalalyktina í hellinum. Útsýni er fagurt af fjallinu (339 m.y.s.) yfir næstfegursta bæ á byggðu bóli.
Að þessu sinni var gengið til baka niður hina hefbundu leið á og af fjallinu, niður norðuröxlina gegnt Valahnúkum.
Frábært veður. Gangan að fjallinu og upp á topp tók u.þ.b. ½ klst.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Junkaragerði

Gengið var um Junkaragerði í Höfnum sunnan Skiptivíkur, skoðaðar tóftir Sólheima og Traðarhúss, auk Kalmanstjarnar, sem brann ekki alls fyrir löngu. Annars eru Junkaragerðin tvö á Suðurnesjum; annars vegar þessi í Höfnum og hins vegar ofan og vestan við Stórubót í Grindavík. Hér verður á göngunnu m.a. rifjaðar upp sagnir og þjóðsögur úr Junkaragerðinu í Höfnum.

Junkaragerði

Gamla Junkeragerði.

Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið og kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn – brunnur.

Sagnir af Galdra-Jóni eru tengdar Junkaragerði í Höfnum. Bærinn var var fyrrum hjáleiga frá Kalmanstjörn og hefur verið búið þar samfleytt í margar aldir. Var það eitt með elstu býlum í Höfnum. Jón Þórðarson í Junkaragerði varð fullra 70 ára, dó líklega 1819. Hann var gáfaður en dulur og harður í horn að taka. Sem unglingur flæktist hann með kaupfari til Noregs og komst alla leið norður til Finnmerkur og dvaldist þar eitt eða tvö ár og var það mál gamalla manna að Jón hefði numið fræði sín hjá Finnum.

Sögurnar af Jóni voru á hvers manns vörum í gamla daga. Með afbrigðum var Jón sagður mikill aflamaður til sjávarins og þótti það ekki einleikið hve drjúg var stundum kösin á skiptivellinum. Þá er hásetar Jóns fóru að gera að afla sínum, var það álit þeirra allra að fiskurinn væri stundum miklu meiri en þeim hafði virst hann vera í skipinu.

Kalmannstjörn

Kalmannstjörn.

Jón var hinn mesti hófsemdarmaður í hvívetna. Neytti hann aldrei víns nema á hátíðum, og aldrei gaf hann hásetum sínum í staupinu eða út í kaffið, sem kallað var; en það var þó algengur siður í Höfnum, að húsbændur gáfu hjúum og hásetum vel í kaffið, er vel fiskaðist eða mikið var að gera í landi, og var þá unnið með brennivínskrafti, sem kallað var.
Eitt sinn svaraði Jón gamli því til er hann var spurður hvaðan hann hafi fengið brennivín það er ölvaði hann. Jón gamli hló við og sagði:
Kalmannstjörn„Keflavíkurkaupmennirnir sjúga blóðið úr Suðurnesjabændunum, en ég sýg brennivínið úr beykikoppum þeirra í staðinn.“
Jón Þórðarson var smiður góður, en mest fékkst hann þó við járnsmíðar. En þó að hann væri alla daga í smiðjunni, þá þurfti hann aldrei að kaupa kol. Sótti hann þau árlega á hestum suður á Reykjanes, en hvernig sem reynt var að njósna um ferðir Jóns, er hann fór í þessar kolaferðir, þá tókst mönnum aldrei að rekja slóð hans þrátt fyrir það, þótt öll leiðin sé ægisandur einn.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Vissu menn aldrei um þessar ferðir Jóns, fyrr en hann var kominn aftur með kolin. Er það óyggjandi sannleikur, að karlinn sótti kolin á Reykjanes, og voru margir menn í Höfnum, er sáu kolin hjá Jóni.

Meðal þeirra var Brandur Guðmundsson í Kirkjuvogi, sem sagði að hann hefði oftar en einu sinni séð kolin hjá Jóni. Sagði Brandur, að þetta hefðu verið falleg steinkol, en aldrei gat hann fremur en aðrir fengið það upp úr Jóni, hvar á Reykjanesi kolin væru að finna. Þó var það eitt sinn, að bóndanum á Kalmanstjörn tóks að gjöra Jón gamla vínhreifan um jólin, og var þá ekki dregið úr hömlu að reyna að veiða karlinn, en þó að karl væri kenndur, varðist hann allra frétta, en sagði þó svo að lokum, að ekki þyrfti að leita langt frá Sýrfelli. Annað hafðist aldrei upp úr Jóni gamla um kolin á Reykjanesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Fyrir austan bæinn Junkaragerði er hæð sú, er nefnist Stóri-Dilkur. Hæð þessi er gróðurlaus á alla vegu, há og glögg frá umhverfinu af sjó að sjá.

Í gamla daga bjó einhverju sinni í Junkaragerði bóndi sá er Eyvindur hét. Hann var vænn yfirlitum, mikill að vexti og burðum og fáskiptinn um hag annarra. Hann var ókvæntur er saga þessi gerðist og stundaði sjó sumar og vetur og græddist fé. Hann var talinn hafa draumkonu, er varaði hann við veðrum og þóttust hjú hans hafa séð hana hverfa stundum frá svefnstofu hans á nóttum. Fór það þá stundum þannig að búsýsla hans og sjósókn varð mjög næturblendin.

Junkaragerði

Junkaragerði – uppdráttur ÓSÁ.

Eitt sinn er Eyvindur leitaði til Dilksins. Sá hann þá bygging er hann gat eigi lýst. Var það líkast mörgum húsum er stóðu í röðum hvert aftur af öðru, og æ hærra, er aftar dró. Það næsta og mesta var opið og bjart þar inni. Þar stóð bláklædd og fögur kona. Var hálsmál hennar, ermar og faldur bryddað rauðum borðum. Hún bauð Eyvind velkominn og leiddi hann inn í stóran sal. Þar voru rósofnir stólar með háum bökum og drekahöfðum til hliða en úr loftinu héngu skálar í löngum festum og loguðu ljós í hring á börmunum. Alls staðar bar skraut fyrir augað en umhverfis ríkti annarlegur blær sem eins og eyddi öllum hávaða.
Álfkona reyndi að freysta hans, en allt kom fyrir ekki. Eyvindur þóttist þá ætla að grípa til hennar, en við það sortnaði honum fyrir augum og áköf suða greip eyru hans en þegar það hvarf, stóð hann utan í Dilkinum og við það hraðaði hann sér sem mest hann mátti heim til bæjar.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Eftir þessa nótt var Eyvindi brugðið. Hann festi eigi hugann við neitt og allt fór úrhendis í búskap hans. Oft lagði hann leiðir sínar til Dilksins, en allt kom það fyrir ekki. Þá var það vetrarkvöld eitt árið eftir að Eyvindur kom heim neðan frá naustum og lagði sig. Jafnskjótt og hann gleymdi sér, dreymdi hann að aldraður maður kæmi að rúmi hans og mælti:
„Illa ferst dóttur minni við þig er hún hefir gert þig afhuga öllu öðru en sér en læsir þó jafnframt fyrir þér bústað sínum. Skaltu nú minnast þess að sjáir þú eitthvað óvenjulegt á himninum í vetur, skalt þú þann sama dag, seint að kvöldi, ganga til Dilksins og mun ég þá greiða þar fyrir þér.“

Junkaragerði

Junkaragerði – Dilkurinn.

Leið svo tíminn fram yfir Kyndilmessu. Þetta kvöld á vökunni brá Eyvindur sér út en kom ekki aftur. Var hans leitað oft og lengi en aldrei fannst hann né kom fram eftir þetta og var það hald manna að hann hefði náð til álfkonunnar í Dilkinum og hún tekið hann í fulla sátt. Nokkrum vikum seinna bar svo við, er komið var út í skemmu Eyvindar að þar var veizlumatur mikill er enginn kannaðist við og var það álitin sending úr brúðkaupi hans til hjúa sinna. En lengi var það svo í Junkaragerði að rifjuð var upp sagan um Eyvind og hvarf hans í bústaði álfanna í Stóra-Dilkinum.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir/Junkaragerdi/
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=231
-http://www.leoemm.com/hafnahreppur.htm

Junkaragerði

Junkaragerði – loftmynd.