Krýsuvík

Guðni Gíslason skrifaði í Fjarðarfréttir 2023 um „Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi“ í Hafnarfirði. Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti og Minjastofnun var með málið í skoðun. Í ritstjórnarpisli í inngangi umfjöllunarinnar segir hann m.a. um þátt bæjaryfirvalda í Hafnarfirði:

Guðni Gíslason

Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.

„Greinilegt er að taka þarf til í meðferð skipulagsmála í Hafnarfirði. Klúður og ógagnsæi virðist sífellt aukast og menn virðast ekki lengur muna hvort deiliskipulag byggist á aðalskipulagi eða öfugt eins og nýlegar aðalskipulagsbreytingar í Hamraneshverfinu sýna. Þrátt fyrir að ekki sé búið að gera deiliskipulag finnst embættismönnum allt í lagi að veita framkvæmdaleyfi, sem segja lítið um hvað má og hvað ekki, og finnst ekki að það þurfi að kynna t.d. lagningu reiðvega eða vega í ósnortnu landi. Þetta skapar hættur þar sem minjaskráning er ófullkomin og minjar ekki skráðar vegna þess að sá sem skráir hefur ekki fyrir því að ráðfæra sig við þá sem þekkja til í bæjarlandinu. Það sakar ekki að vanda sig.“

HamranesÍ umfjöllunni segir: „Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsing arnar á síðustu öld.

Var með í Ratleik Hafnarfjarðar

Ratleikur

Bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Rósu Guðbartsdóttur, afhent Ratleikskortið.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleiks kortið þar sem fjárskjólið er merkt.
Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

Fjárskjól eyðilagt án nokkurra heimilda
HamranesVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Minjastofnun benti á minjarnar
Í bréfi til umhverfis og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunar innar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

Hvað varð um ábendinguna
HamranesSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minja stofnunar hafi ekki komist til skila í skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjastofnun með málið í skoðun

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna bygginga fram kvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“
Í pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Fleiri minjar sem ekki eru merktar í skipulagi

Leynir

Skjól í Leyni. Nú horfið.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu.
Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamels námurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól. Óskráð.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjar landinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrir hugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.“

Samtrygging aðila innan minjavörslunnar, s.s. Minjaráðs, virðist slík að nánast ómögulegt er fyrir venjulegt fólk að mótmæla eða vekja athygli á því sem miður fer þegar fornleifarnar eru annars vegar.
Ekkert hefur a.m.k. heyrst frá Minjastofnun vegna framangreindrar eyðileggingar fornminjanna í Dalnum.

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.03.2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Guðni Gíslason, bls. 10.

Hafnarfjörður

Heiðarbrunnur. Flókavarða ofar. Óskáð fornleif í Hafnarfirði.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 2012 var viðtal við Ómar Smára Ármannsson um jarðrask það er fylgdi borunarframkvæmdum HS-orku á Reykjanesskaganum þar sem hvorki væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða né minjaverndar.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaganum – fyrirliggjandi fornleifaskráning.

Viðtalið er að mörgu leyti merkilegt, ekki síst í ljósi þess að síðan það var tekið fyrir 13 árum hefur HS-orka hafið borun í Krýsuvík þar sem fyrirtækið byrjaði á því á fyrsta degi að eyðileggja fornar minjar, fyrrum brennisteinsnámuhús Krýsuvíkurbónda frá því á 18. öld, þrátt fyrir að athygli jarðfræðings fyrirtækisins hafði skömmu áður verið vakin á tóftunum, standandi á vettvangi. Auk þess hafði viðmælandi fornleifaskráð allar brennisteinsminjar á Reykjanesskaganum, án þess þó að HS-orka hefði sýnt þeirri fyrirliggjandi vinnu hinn minnsta áhuga.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði gefið leyfi til framkvæmdanna án þess að krefjast eðlilega áður fornleifaskráningar á svæðinu sem verður að teljast verulega ámælisvert. Ekki er vitað hvort sú sérstaka stofnun Fornleifavernd ríkisins hafi æmt hið minnsta eða skræmt vegna alls þessa. Og hvers vegna eiga verktaktar að fá að ákveða hversu mikið jarðsrask vegna einstakra framkvæmda verður hverju sinni? Hafa ber í huga að fæstar ákvarðanir þeirra hafa hingað til verða að teljast vitsmunalegar, enda, að því er virðist, einungis byggðar á eigin hagsmunum.

Minnka mætti rask með minni borteigum

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson Krýsuvík.

„Þetta snýst ekki um hvort það eigi að virkja eða ekki heldur að það verði gert þannig að menn geti verið sáttir við framkvæmdirnar,“ segir Ómar
Smári Ármannsson um fyrirhugaðar jarðhitaboranir á Reykjanesskaganum. Hann segir augljóst að við nýlegar og eldri virkjunarframkvæmdir á Suðurnesjum og víðar hafi ekki verið vandað nægilega vel til verka, hægt hefði verið að hafa borstæðin eða borteigana undir jarðborana mun minni, leggja vegi og pípur og reisa virkjanamannvirki þannig að minna beri á þeim í landslaginu.

Sogin

Sogadalur – efra borplanið.

Ómar Smári er vel þekktur fyrir áhuga sinn á náttúru og minjum Reykjanesskagans, einkum í tengslum við ferðahópinn Ferlir en einnig vegna þess að hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu. Morgunblaðið fór í vikunni með Ómari um þrjú svæði á Suðurnesjum; að Trölladyngju og Sogum, Eldvörpum og Krýsuvík. Á öllum þessum svæðum, og raunar víðar á Suðurnesjum, stendur til að virkja jarðhita og svæðin raðast öll í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Sogadalur

Sogadalur – neðra borplanið.

Við Trölladyngju eru tvær nýlegar tilraunaborholur HS orku. Önnur þeirra og sú nýrri (frá 2006) er uppi í hlíð, við gönguleiðina að Sogunum sem er vinsælt útivistarsvæði og rómað fyrir náttúrufegurð. Þar var gert borplan sem Ómar og blaðamaður mældu að væri 45×70 metrar að stærð eða rúmlega 3.000 fermetrar. Það sem upp úr stendur af borholunni sjálfri – en hún reyndist reyndar ónothæf – er ekki nema 2,5×5 metrar.

Ómar Smári fylgdist með framkvæmdunum á sínum tíma og hann segir ljóst að planið hefði mátt vera mun minna, í það minnsta helmingi minna, ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Hægt hefði verið að leggja plan undir borinn en síðan flytja aðföng að honum eftir því sem þurfti.

Sogadalur

Sogadalur – hér má sjá óskráða selið ofarlega t.v. sem naumlega slapp við vegslóðann og efra borplanið neðst t.h.

Rafstöðina hefði mátt hafa annars staðar og leggja raflínu meðfram veginum. Pípur hefði mátt hafa á neðra borplaninu og flytja þær upp eftir og varahlutir og vinnuskúra hefði sömuleiðis mátt hafa þar. Þess í stað hefði jarðýta gert ljótt sár í hlíðina og síðan hefði hundruðum tonna af möl verið ekið á staðinn til að útbúa óþarflega stórt borplan.
Hafa yrði í huga að jafnvel þótt borholan hefði virkað væri endingartími jarðhitavirkjana ekki nema 50-60 ár. Illgerlegt eða ómögulegt væri að fjarlægja ummerki um holuna að þeim tíma liðnum. Þá minnir hann á að rökin með virkjunum séu gjarnan þau að þær skapi atvinnu. „En það fá ekki færri vinnu við að virkja þótt borstæðið sé lítið,“ segir hann.

Sést yfir fornminjar

Sogadalur

Sogadalur – seltóft skammt frá vegarlagningunni upp á efra borplanið.

Ómar Smári tekur fram að hann er ekki andvígur því að auðlindirnar séu nýttar. Vinnubrögðin við borholurnar við Trölladyngju og víðar séu á hinn bóginn þannig að þau hljóti að draga úr stuðningi við virkjanir.
„Hér sjá menn bara eyðileggingu og hugsa: Verður þetta allt svona?“ Hann bendir einnig á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að borstæðinu hafi ekki farið yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni. Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis þá og þegar hann var
lagður. Leyfið fékkst eftir á og þá hjá viðeigandi sveitarfélagi. Sjaldan eru allar tóftir skráðar.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Það gildir t.d. um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan, þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð.“
Þriðja svæðið sem farið var um var Eldvörp en þar vill HS Orka bæta við fimm borteigum, þar af tveimur sem eru á skilgreindu iðnaðarsvæði. Einn borteigur er þar fyrir, ríflega 3.100 fermetrar auk um 1.200 fermetra svæðis meðfram veginum sem var raskað.

Eldvörp

Eldvörp.

Ómar Smári segir að í Eldvörpunum verði að fara sérstaklega varlega enda sé svæðið ríkt af fegurð og sögu en um leið afar viðkvæmt. Ástundi menn sömu vinnubrögð og hingað til lítist honum hins vegar ekki á blikuna.

Ætla að fara varlega

Eldvörp

Eldvörp – borholuplan. Ekkert af nefndum borholuplönum á Reykjanesskaganum hafa komið framkvæmdaraðilum til góða úr því sem komið er.

Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, segir að við Eldvörp standi til að fara eins varlega og framast sé unnt. Til standi að beita skáborun og bora í um 1.000-1.200 metra frá teigunum, miðað við lóðlínu, sem sé það mesta sem hægt sé að gera í jarðlögum sem þessum.
En hvað þá með stærð borteiganna? Ásbjörn segir að undanfarin ár og áratugi hafi menn reynt að taka sem minnst svæði undir borteiga. „Það er fyrst og fremst verktakinn sem ákvarðar hvað hann þarf til að hann geti unnið verkið sómasamlega. Það hefur allt kapp verið lagt á að hafa umfangið eins lítið og
kostur er.“

Eldvörp

Eldvörp – nýtt og nánast óþarfa borstæði.

Nokkuð frá Eldvörpunum er annar og mun stærri borteigur, um 6.000 fermetrar að stærð, samkvæmt lauslegri mælingu. Á honum eru tvær niðurdælingarholur fyrir Svartsengi og Ásbjörn segir að það hafi verið sú stærð sem þurfti fyrir tvær holur. Þá tekur Ásbjörn fram að HS Orka vinni náið með Grindavíkurbæ að undirbúningi framkvæmda við Eldvörp. Svæðið sé hverfisverndað og ekki verði hróflað við gígunum, enda séu þeir friðaðir. Teigarnir verði að mestu við núverandi veg og pípur og annað lagðar meðfram honum.

Eldvörp

Eldvörp – borplan. Hvenær skyldi „hraunhellur/hraungrýti verða lagðar þarna yfir? Hvers vegna ekki að minnka borteigana svo eftirkostnaðurinn verði minni en ella, af fenginni reynslu.

Meðal þess sem hefur verið rætt um að gera er að leggja hraunhellur/hraungrýti yfir þá borteiga sem ekki nýtast, þ.e. ef holurnar gefa ekki af sér orku. Þá megi nánast afmá ummerki um rask, líkt og hafi verið gert við hús Bláa lónsins. Slíkt sé ekki hægt að gera við vinnsluholur því þær þurfi að hreinsa reglulega með bortæki.
Deiliskipulagstillaga að framkvæmdum í Eldvörpum er nú til meðferðar hjá Grindavíkurbæ.

Óskráðar fornminjar

Ómar Smári bendir á að tilviljun ein hafi ráðið því að vegurinn sem liggur upp að efra borstæðinu við Trölladyngju hafi ekki verið lagður yfir gamalt sel en tóftir þess kúra í hlíðinni.

Krýsuvík

Krýsuvík – borsvæðið á upphafsdögum þess. Hér er búið að afmá fornminjar, bæði vegna ástæðu og án líklegra eftirmála.

Raunar hafi vegurinn verið lagður án gilds framkvæmdaleyfis. [Bæjarstjórn Voga gaf út leyfið, en þegar bent var á að umráðasvæðið væri innan marka Grindavíkur gaf bæjarstjórn Grindavík út afturvirkt framkvæmdarleyfi án nokkurrar umhugsunar.] Þessar fornminjar hafi raunar hvergi verið skráðar. Hið sama eigi við um tóftir í Krýsuvík sem að óbreyttu muni fara undir borplan. Þar séu auðsjáanlega fornminjar sem hvergi hafi verið skráðar eða rannsakaðar. Aðspurður segir Ómar Smári að með tillögu HS orku vegna borunar í Krýsuvík hafi fylgt fornleifaskráning sem unnin var af Fornleifavernd ríkisins. „Í skýrslunni eru þessar tóftir ekki tilgreindar og það eru ekki nógu góð vinnubrögð,“ segir Ómar Smári.

Krýsuvík

Krýsuvík. Grænavatn t.v. og Gestsstaðavatn t.h.

Þá mætti auðveldlega hafa borplanið á öðrum stað, aðeins nokkrum tugum metra frá séu ónýt útihús sem mætti rífa og nota svæðið sem borplan.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 105. tbl. 05.05.2012, Minnka mætti rask með minni borteig – Óskráðar fornminjar, texti: Rúnar Pálmason, bls. 12-14.

Sogasel

Selin í og við Sogagíg, Sogalækur og vegslóðinn upp að efra borstæðinu. – Uppdráttur ÓSÁ.

Selflatir

FERLIRsfélagar óku frá Villingavatni að Grafningsrétt á Selflötum.

Selflatir

Selið á Selflötum.

Á flötunum eru leifar sels frá Úlfljótsvatni. Þegar það var skoðað var augljóst að um dæmigerða selstöðu á Reykjanesskaganum var um að ræða; þrjú rými með baðstofu, búri og eldhúsi, auk vestanverðum stekks. Selið er greinilega byggt upp úr eldri selstöðu eða jafnvel selstöðum. Selsstígurinn sést enn þar sem hann liggur frá selstöðunni til austurs, áleiðis að Úlfljótsvatni.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel – uppdráttur ÓSÁ. Startjörnin ofar, selsstígurinn t.h. og selshúsin og stekkurinn neðar.

Þá var ætlunin að finna og skoða Ingveldarsel, selstöðu frá Villingavatni, norðan undir Útlfljótsvatns-Selfjalli. Gengið var til vesturs upp með norðanverðu Selfjalli, upp á efstu axlir þar sem útsýni birtist inn Langadal með Súlufell í norðri. Þarna undir hlíðinni, í skjóli fyrir austanáttinni, birtist Ingveldarsel á lyngþakinni brekku. Neðan og norðan við það var lítil seftjörn.
Selið sjálft hafði verið byggt skv. forskriftinni; baðstofa í miðju og búr fyrir innan. Hliðstætt eldhús var við suðurendann og torfhlaðinn stekkur austan tóftanna. Tóftirnar voru nánast orðnar jarðlægar. Ágætt útsýni var frá selinu niður að Villingavatni. Selstígurinn lá til austurs og beygði síðan til norðausturs niður hlíðarnar.

Í örnefnalýsingu Þorgeirs Magnússonar (fæddur að Villingavatni 27.03 1896 og bjó þar frá 1925 til 1948) segir: „Ingveldarsel: Smá starartjörn með mýri í kring, upp af Svartagilsflötum. Síðasta selið sem notað var. [Sennilega kennt við Ingveldi Gíslad., afasystur skrásetjara.] Sokkabandsskarð er fyrir vestan Ingveldarsel í Seldal.“
Tækifærið var notað og selið myndað og uppdregið.

Tilbakagangan var auðveld, enda öll undan fæti.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel.

Kaldársel

Við affall Kaldár í Kaldárbotnum er skilti; „Kaldárssel í 100 ár (1925-2025)„. Á því er eftirfarandi upplýsingar:

Kaldársel

Kaldársel – skilti.

„Sumarbúðirnar í Kaldárseli eiga sér fallega sögu sem spannar rúma öld. Eftir messu í Bessastaðakirkju á annan hvítasunnudag 1921 var haldinn KFUM-fundur þar sem stofnaður var sumarbústaðarsjóður. Félagsmenn úr Hafnarfirði lögðu þá fram 100 krónur í sjóðinn og tveir ungir piltar bættu við 5 krónum hvor. Eftir þetta tóku fleiri félagar þátt og ákváðu að hittast mánaðarlega til bæna og framlag til sjóðsins.

Kaldárssel

Kaldársel – unnið við stækkun fyrsta skálans 1945.

Árið 1925 hafði sjóðurinn vaxið í nær 400 krónur og þá hófust framkvæmdir. Hafnarfjarðarbær gaf félaginu leyfi til að nota svæðið í kringum gamla Kaldárselið með skilyrði um að það yrði eingöngu fyrir starfsemi KFUM. Hafist var handa við að ryðja veg frá kirkjugarðinum fyrir ofan Hafnarfjörð upp að hraunhálsi vestan við selið og flytja þannig byggingarefni á svæðið með hjálp velviljaðra eigenda flutningabíla.

Frá enda vegarins þurfti að bera efnið um 1,5 km leið yfir hálsinn að byggingarstaðnum. Sjálfboðaliðar komu saman í hvassviðri og rigningu seint í maí og kláruðu verkið af miklum dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel á fyrstu starfsárum sumarbúðanna Selið sést h.m. við skálann, þá komið með yfirbyggt ris.

Skálinn var vígður 25. júní 1925. Hann var þá 14 álnir á lengd og 10 á breidd, með svefn- og borðsal, eldhúsi og litlu herbergi. Skáladyrnar snéru í suður að Kaldá sem hverfur svo ofan í hraunið. Við skálann var reist fánastöng þar sem íslenski fáninn blakti þegar fólk var í Selinu.

Tuttugu árum síðar var byggt við skálann vestan megin og hann tvöfaldaður að stærð. Vinsældir sumarbúðanna jukust í sífellu og var því aftur hafist handa við stækkun skálans sem lauk árið 1967.

Kaldársel

Kaldársel – Börn að leik í Kaldá.

Enn var ekkert rafmagn á staðnum á þessum árum en búið var að skipta út gömlu kolaeldavélinni sem áður sá skálanum fyrir hita, í stað hennar var komin gasvél og heitt vatn frá olíuhtun. Allt í allt var þrisvar sinnum farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaður bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júni 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum loks fyrir rafmagni og hita.

Í heila öld hafa börn átt þess kost að dvelja í sumarbúðunum í Kaldárseli, þar sem þau hafa fengið tækifæri til að auðga andann og leika sér.

Kaldársel

Kaldárssel 2025.

Náttúran í kring með hrauni, árfarvegi, hellum og fjöllum, hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af dagskránni. Áhersla hefur verið lögð á jákvæð samskipti og kristnifræðslu. Frá árinu 2017 hefur Vinasetrið verið hluti af starfinu en það er helgardvöl fyrir börn sem þurfa séstakan stuðning. Þar hefur verið unnið út frá þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt og eigi skilið kærleika og umhyggju líkt og hefur einnig verið leiðarljós í starfi sumarbúðanna í Kaldárseli.“

Hafnfirðingar hafa jafnan notið þess að koma að Kaldárseli, en viðmót staðarhaldara hefur því miður breyst til hins verra síðustu árin. Það skýrir líklega staðsetningu skiltisins að hluta, þ.e. við affall Kaldár en ekki í nánd við sjálft Kaldársel.

Kaldársel

Kaldárssel – skilti.

Álftanesvegur

Ragnheiður Traustadóttir skrifaði grein í Árbók Hins íslenska forleifafélags árið 2010 undir fyrirsögninni „Ófeigskirkja nýtur vafans„.
Á þeim tíma var fyrirhuguð lagnings nýs Álftanesvegar í gegnum Garðahraun, sem ranglega var af sumum nefnt „Gálgahraun“. Gálgahraun er norðan Garðahrauns, utan framkvæmdarsvæðisins.
Árbók 2010Eitt af því sem andstæðingar vegarlagningarinnar bentu m.a. á að nefndur meintur álfasteinsstandur, „Ófeigskirkja“, myndi fara undir veginn. Umfjöllunin er ekki síst áhugaverð fyrir það að leggja þurfti í allnokkra vinnu fornleifafræðings með tilheyrandi kostnaði við að afla heimilda og raka fyrir tilvists sagðs kletts, sem í raun var fyrir löngu, skv. skráðum heimildum, horfinn undir annan eldri veg.
Eina heimildin sem lögð var til grundvallar hinni nýju meintu staðsetningu voru oftúlkuð orð „afa“ heimildarmanns, sem aldrei hafði staðsett örnefnið að öðru leyti en því að það hafi síðar „færzt yfir á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“. Hin meinta „Ófeigskirkja“ leit ekki út fyrir að vera „gervigígur“, en með góðum vilja mætti heimfæra staðinn upp á Grænhól (hraunhól) þar skammt norðvestar. Við rannsókn á þeim hól komu hins í ljós verksummerki eftir refaskyttur (strigapokar og glerflöskur).

Ragnheiður Traustadóttir

Ragnheiur Traustadóttir.

Hafa ber í huga að bæði Garða- og Gálgahraunið er alsett klettum, sem hver og einn gætu risið undir væntingum sem „álfakirkja“. Hið fyndna er þó að bæði stjórnendur og meðlimir nafngreindra „náttúrusamtaka“ tóku þátt af einhverri ómeðvitaðri meðvirkni í vitleysunni um nánast ekkert sem grundvöllur var fyrir þá og þegar vegarþræturnar stóðu yfir. Hafa ber í huga að áköfustu mótmælendurnir á staðnum voru handteknir þegar til framkvæmdanna kom á vettvangi og þeir færðir til hliðar um stund, sakaðir um óhlýðni við fyrirmæli lögreglu, en hvorki Jónatan né forsvarsfólk „náttúrusamtakanna“ var þar á meðal.

„Nógu flókið getur verið að meta varðveislugildi fornleifa sem engin mannaverk eru á þótt ekki séu jafnframt áhöld um hvort viðfangsefnið sé hið rétta.
ÓfeigskirkjaHraunklettur í Gálgahrauni, sem átti að jafna við jörðu vegna vegaframkvæmda á Álftanesi, fékk sömu meðferð hjá þjóðminjavörslunni og fornar leiðir skammt þar frá, þrátt fyrir að ekki yrði ályktað með neinni vissu að hann nyti verndar samkvæmt þjóðminjalögum sem álagablettur eða staður eða kennileiti sem tengdist siðum, venjum, þjóðtrú og þjóðsagnahefð til forna.
Varúð er rauður þráður þjóðminjalaganna. Kletturinn í Gálgahrauni, sem bent var á að héti Ófeigskirkja, virðist hafa verið látinn njóta vafans þegar skilmálar voru ákveðnir fyrir því að Vegagerðin mætti ryðja honum burt.

Ábending um álfaklett

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðasson.

Vorið 2009 var fyrirhugað vegarstæði tekið út vegna ábendinga Jónatans Garðarssonar um minjastaði sem ekki var getið í fornleifaskráningu í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Einn af þessum minjastöðum var Ófeigskirkja sem Jónatan tengdi við álfatrú.
Jónatan er áhugamaður um verndun hraunsins, uppalinn í nágrenninu og gjörkunnugur umhverfinu, ekki síst fyrir þær sakir að hafa gengið um svæðið barn með afa sínum, Sigurði Eiríkssyni, sem fluttist til Hafnarfjarðar árið 1930. Sigurður var áhugasamur um örnefni, landamerki og kennileiti og miðlaði hann Jónatan mörgu af því sem hann vissi sannast.

Heimildir um Ófeigskirkju

Álftanesvegur

Gamli  og nýi Álftanesvegur.

Ófeigskirkju er eftir því sem næst verður komist fyrst getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Garðahverfi sem var vafalítið tekin saman á 6. áratug síðustu aldar: „Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.“
Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar árið 1964 segir: „Ófeigskirkja: Svo hét klettur á Flatahrauni austarlega. Gegnum hann var farið með Álftanesveginn fyrri.“
Örnefnaskráning Kristjáns Eiríkssonar frá árinu 1976 til 1977 styðst m.a. við lýsingu Gísla „og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra“: „Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn“.

Deilt um hvort kletturinn standi

Ófeigskirkja

Meint Ófeigskirkja í Garðahrauni.

Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju benda til að hún hafi þegar árið 1910 horfið undir Álftanesveginn. Jónatan Garðarsson bar brigður á það. Afi hans hafi sagt kirkjuna „enn við „götuna“ og „stíginn“ því hún væri þar sem Engidalsstígur og Flatahraunsgata kæmu saman við Engidal“. [Hér er rétt að geta þess að Engidalsstígur lá um Engidal að Flatahrauni, nákvæmlega á þeim stað þar sem nefnd Ófeigskirkja á að hafa verið. Þar er núverandi vegastæði gamla Álftanesvegarins.]
Jónatan lét þess getið að afa hans hafi fundist Gísli Sigurðsson „stundum ónákvæmur og nefndi Ófeigskirkjuna sem dæmi“.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson sagnfræðingur birti athugasemd við þessa skoðun á vefsíðu Hraunavina, sem beittu sér gegn umræddum fyrirætlunum Vegagerðarinnar á Álftanesi. Jónatan var í stjórn þeirra samtaka og í tengslum við þau fór hann fyrir leiðangri út í hraunið sem Guðlaugur Rúnar tók þátt í. Í upphafi leiðangurs var litið á smáklett sem Jónatan telur vera Ófeigskirkju og hól sem nefndur er Grænhóll. Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni um Garðastaðarland sem varðveitt er á Örnefnastofnun að brotist hafi verið með akveginn gegnum klapparhyrnu mikla er nefnist Ófeigskirkja.“

Efi um helgi hraunmyndunarinnar

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja Hraunavina.

Á vefsíðu Hraunavina er tekið fram að Ófeigskirkja sé fagurmótaður hyrndur „álfaklettur“ og víðar á Netinu má sjá ámóta fullyrðingar úr samtíma um að einhvers konar helgi umljúki hraunklett þennan eða átrúnaður.18 Hinn 25. apríl 2009 var fjölmenni viðstatt þegar Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði helgaði klettinn.
Í framangreindum örnefnalýsingum er hvergi greint frá átrúnaði í sambandi við Ófeigskirkju. Kirkjuheitið kann að sjálfsögðu að benda til tengsla við trúarbrögð en ekki er loku fyrir það skotið að það vísi til forms eða útlits á hraunmynduninni. Úr því verður ekki skorið úr þessu, þegar líkur eru á að nafnið hafi færst frá einum kletti, sem brotinn var, á annan.

Niðurstaða vettvangsrannsóknar

Ófeigskirkja

Hin meinta Ófeigskirkja að mati náttúruverndarsinna.

Með hliðsjón af framangreindu var það niðurstaða vettvangsrannsóknarinnar að svo rýrar heimildir væru um hraunklett þennan að af þeim yrði ekki ályktað með vissu að hann nyti verndar samkvæmt ákvæðum þjóðminjalaga um álfatrú til forna. Enn fremur léki vafi á hvort klettur sá, sem nú nefndist Ófeigskirkja, væri hinn sami og fékk það heiti í öndverðu.
Önnur rök kynnu að vera fyrir því að reyna að sneiða hjá klettinum við lagningu Álftanesvegar, því að hann hefði augljóslega gildi fyrir stóran hóp fólks, en slík ákvörðun gæti ekki byggst á þjóðminjalögunum.

Samantekt og niðurstöður

Ófeigskirkja

Meint Ófeigskirkja.

Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju eru innan við 100 ára gamlar en örnefnið kann að vera umtalsvert eldra en það. Hvað sem því líður getur Ófeigskirkja ekki notið verndar þjóðminjalaga nema hún teljist vera kennileiti sem tengist „siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð“ eins og það er orðað í 9. gr. laganna.
Þess er hvorki getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar né Gísla Sigurðssonar að nokkurs konar helgi umlyki hana. Þó má telja öruggt að slík athugasemd hefði verið látin fylgja, væri því trúað að í henni hefðu búið álfar. Við þetta bætist að sterkar líkur benda til þess að hraunklettur sá sem um var deilt hafi erft heitið Ófeigskirkja eftir annan klett sem fór undir Álftanesveg fyrir réttri öld.

Heimildakönnun bendir því tvímælalaust til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Ófeigskirkju fyrr en nýlega.
Fornleifavernd ríkisins féllst á að kletturinn yrði fjarlægður.

Ragnheiðir Traustadóttir hafði jafnframt skrifað greinagerð árið 2009 um að hvaða leyti tilteknar fornminjar verða fyrir raski vegna fyrirhugaðra gatnaframkvæmda í Gálgahrauni; „Ófeigskirkja og fornminjar við Álftanesveg„:

Ófeigskirkja
ÓfeigskirkjaÓfeigskirkju er eftir því sem næst verður komist fyrst getið í örnefnaskrá Ara Gíslasonar um Garðahverfi sem var vafalítið tekin saman á 6. áratug síðustu aldar. Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu.
Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar árið 1964 segir: Ófeigskirkja: Svo hét klettur á Flatahrauni austarlega. Gegnum hann var farið
með Álftanesveginn fyrri.
Örnefnaskráning Kristjáns Eiríkssonar frá árinu 1976 til 1977 styðst m.a. við lýsingu Gísla „og var hún borin undir kunnuga í hverfinu og síðan samin ný lýsing að fyrirsögn þeirra“. Ófeigskirkja nefndist klettur, sem brotinn var, þegar Álftanesvegurinn var lagður 1910. Hefur nafnið færzt á gervigíg aðeins norðan við Álftanesveginn. Íbúðarhúsið Hraun er skammt vestan við hann.
Í bók Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar um Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar segir um þennan stað – og enn vísað til Gísla:
Álftanesstígur lá frá Garðaholtsenda austur yfir Flatahraun sunnan Ófeigskirkju í Engidalshorn. Og: Ófeigskirkja var klapparhyrna í Flatahrauni.
Ritaðar heimildir um Ófeigskirkju benda til að hún hafi þegar árið 1910 horfið undir Álftanesveginn. Jónatan Garðarsson ber brigður á það. Afi hans, fyrrnefndur Sigurður Eiríksson, hafi sagt kirkjuna „enn við „götuna“ og „stíginn“ því hún væri þar sem Engidalsstígur og Flatahraunsgata kæmu saman við Engidal“. Hann lætur þess getið að afa hans hafi fundist Gísli Sigurðsson „stundum ónákvæmur og nefndi Ófeigskirkjuna sem dæmi“.

Ófeigskirkja

„Meint“ Ófeigskirkja.

Guðlaugur Rúnar hefur birt athugasemd við þessa skoðun á vefsíðu Hraunavina, www.hraunavinir.net, sem beita sér gegn umræddum fyrirætlunum Vegagerðarinnar á Álftanesi. Jónatan situr í stjórn þeirra samtaka og í tengslum við þau fór hann fyrir leiðangri út í hraunið sem Guðlaugur Rúnar tók þátt í.
Í upphafi leiðangurs var litið á smáklett sem Jónatan telur vera Ófeigskirkju og hól sem nefndur er Grænhóll. Gísli Sigurðsson segir í örnefnalýsingu sinni um Garðastaðarland sem varðveitt er á Örnefnastofnun að brotist hafi verið með akveginn gegnum klapparhyrnu mikla er nefnist Ófeigskirkja.
Í niðurlagi færslu sinnar segir Guðlaugur Rúnar: Handrit Gísla, sem varðveitt er á Örnefnastofnun, var á sínum tíma yfirfarið og leiðrétt af Úlfhildi Kristjánsdóttur frá Dysjum. Gísli nefnir heimildarmennina Magnús Brynjólfsson á Dysjum, Guðmann Magnússon hreppstjóra, Valgeir á Hausastöðum og Ólafíu systur hans, Tryggva í Grjóta og Gísla Guðjónsson í Hlíð. Örnefnaskráin var einnig lesin fyrir þau eftir að hún var fyrst skráð og létu þau sér vel líka. Er því undarlegt að enginn þeirra hafi tekið eftir því sem Gísli ritar um Ófeigskirkju.
Á vefsíðu Hraunavina er tekið fram að Ófeigskirkja sé fagurmótaður hyrndur „álfaklettur“ og víðar á Netinu má sjá ámóta fullyrðingar úr samtíma um að einhvers konar helgi umljúki hraunklett þennan eða átrúnaður.

Ófeigskirkja

„Ófeigskirkja“ flutt.

Bæjarstjórinn í Garðabæ, Gunnar Einarsson (fyrrum skólabróðir Jónatans Garðasonar í Flensborg), reyndi að bera smyrls á sárin. Hann lagði til að hin meinta „Ófeigskirkja“ yrði hífð úr hinu nýja vegstæði og hún lögð til á hraunbungu norðan hans – þar sem hún hefur verið síðan, án þess að nokkur sem um nýja veginn fer, sé hið minnsta meðvitaður um hina mögulegu meintu tilvist hans eða tilgang…

Sjá meira um „Ófeigskirkju“ HÉR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 101. árg. 01.01.2010, Ófeigskirkja nýtur vafans – Ragnheiður Traustadóttir, bls. 117-122.
-Ófeigskirkja og fornminjar við Álftanesveg, greinagerð um að hvaða leyti tilteknar fornminjar verða fyrir raski vegna fyrirhugaðra gatnaframkvæmda í Gálgahrauni – Ragnheiður Traustadótir, 2009, bls. 5-7.

Álftanesvegur

Álftanesvegur – loftmynd.

Íslendingabók

Halldór Hermannsson (1931-2009) skrifaði í Skírni árið 1948 um „Ara Þorgilsson fróða“ og Íslendingabók:

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148). Ari var sonur Þorglis Gellissonar frá Helgafelli og sonarsonur Gellis Þorkelsonar, prests frá sama svæði. Báðir höfðu látist fyrir aldur fram og skilið eftir ungan Ara einn. Sjö ára gamall var Ari tekinn í Haukdælaættina, sem stjórnaði Íslandi á miðöldum á þjóðveldistímanum. Ættin er rakin til Ketilbjarnar Ketilssonar sem nam land í Mosfelli í Grímsnesi. Ættin var áberandi á tíundu til þrettándu öld sem höfðingjar á Sturlungaöld og sem þátttakendur í kristniboði um allt Ísland. Gissur Þorvaldsson, leiðtogi Haukdæla á þrettándu öld, var gerður að jarli yfir Íslandi af Noregskonungi.
Ari var nemandi kennarans Teits Ísleifssonar, sem var sonur Ísleifs Gissurarsonar,  fyrsta biskups Íslands. Eftir að Ari hafði lært klassíska menntun var hann vígður til prests á Stað á Snæfellsnesi, sem nú er þekktur sem Staðastaður.

„Einn merkasti maður, sem Ísland hefur alið, er Ari Þorgilsson. Ari fæddist, líklega á Helgafelli, árið 1067 (eða 1068) og lést árið 9. nóvember 1148. Hann var vel ættaður. Langafi hans var Þorkell Eyjólfsson og langamma Guðrún Ósvífursdóttir, sem fræg er af Laxdælu, og eins og eðlilegt er í litlu mannfélagi, var hann skyldur eða tengdur mörgum helztu ættum í landinu, og sjálfur hefur hann rakið ætt sína í beinan karllegg til goðborinna fornkonunga. Það er því vel sagt, að þekkingin ein á ævi og afrekum forfeðra hans hefði verið nóg til að gera hann að sagnfræðingi.
Ari fór frá Haukadal, þegar hann var rúmlega tvítugur, 1088 eða 1089. Í Kristnisögu er hann talinn meðal höfðingja, sem voru prestvígðir af Gissuri biskupi.
Tvö eru til rit frá þriðja áratug tólftu aldar, sem virðast skyld að uppruna. Svo stendur í Kristinna laga þætti Grágásar (Konungsbók, I, 1852, bls. 36): „Svá settu þeir Ketill byskup ok Þorlákr byskup at ráði Özurar erkibyskups ok Sæmundar ok margra kennimanna annarra kristinna laga þátt, sem nú var tínt ok upp sagt.“
Í greinargerð þeirri, sem Ari fróði skrifaði um Íslendingabók sína, segir hann: „Íslendingabók görða ek fyrst byskupum árum Þorláki ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar viðr auka, þá skrifaða ek þessa of it sama far, fyr útan ættartölu ok konunga ævi, ok jókk því, es mér varð síðar kunnara, ok nú es gþrr sagt á þessi en á þeiri. En hvatki es missagt es í frœðum essum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynisk.“
Fyrsti kapítuli (Frá Íslands byggð) segir frá, hvenær Ísland byggðist og frá Ingólfi, hinum fyrsta landnámsmanni; frá gróðri landsins og Pöpum, sem voru þar fyrir, er Norðmenn komu þangað; ennfremur frá því, er Haraldur hárfagri lagði skatt á þá, sem fluttu til Íslands, og er sagt, að það væri upphaf landauranna, sem þeir urðu að gjalda, er síðar fóru milli landa.
Hin eldri gerð Íslendingabókar er því miður glötuð, og er það tilfinnanlegt tjón. Svo er þó almennt talið, að það sé sú bók, sem Snorri Sturluson lýsir í formálanum fyrir Heimskringlu. Það er nauðsynlegt að taka hér upp þá lýsingu til samanburðar.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.

Svo ritar Snorri: „Ari prestr hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstr manna hér á landi at norrœnu máli frœði, bæði forna ok nýja; ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslands byggð ok lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hverr hafi sagt, ok hafði þat áratal fyrst til þess, er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga.“
Íslendingabók, sem við höfum, er sannkallað meistaraverk og á ekki sinn líka í miðaldabókmenntum og þó lengra sé leitað niður á við. Hún fullnægir eiginlega vísindalegum kröfum nútímans til sagnaritunar. Heimildir hafði Ari engar skrifaðar, en í stað þess leitar hann til munnlegra frásagna þeirra manna, er samtíða voru viðburðunum eða höfðu sannar sögur af þeim frá eldri mönnum, og heimildarmenn sína nefnir hann alla.
Af formála Ara er það auðséð, að biskuparnir Ketill og Þorlákur hafa beðið hann að semja Íslendingabók. Þegar hann hafði lokið ritinu, sýndi hann það biskupunum og Sæmundi fróða; líkaði þeim það vel og vildu hafa það eins og það var (svá at hafa) að öðru en því, að þeir vildu auka nokkru við það og sleppa ættartölu (sjálfsagt hér safnheiti fyrir ættartölur) og konunga ævi. Það hefur þeim þótt standa fyrir utan tilgang ritsins.

Íslendingabók

Íslendingabók var fyrsta ritaða sagan um Ísland þar sem ítarlega er fjallað um kristnitöku, þróun réttarkerfisins og siðareglur Alþingis. Íslendingabók lýsir einnig byggðum á Grænlandi og Vínlandi og inniheldur ættartölur og sögur fyrstu landnemanna á Íslandi. Sagnfræðingar telja hana áreiðanlegustu frásögnina sem til er af sögu Íslendinga á fyrri árum.

Þess vegna reit Ari hina síðari Íslendingabók um hið sama efni, og bætti nokkru við, sem hann hafði fengið frekari upplýsingar um, og sleppti því, sem biskuparnir vildu láta sleppa. Þar sem hin fyrri bók er glötuð, er ómögulegt að vita, hverju biskuparnir vildu láta bæta við og hverju Ari bætti við frá eigin brjósti, ekki heldur neitt ákveðið um ættartölurnar né konunga ævi.
Það stendur líkt á með Íslendingabók, við getum ekki með fullri vissu tímasett ritun hennar nákvæmar en frá biskupstíð biskupanna, sem höfðu hvatt til þess, að hún var samin. Fyrri gerð hennar hafa menn þó almennt talið að væri frá miðjum þriðja áratug tólftu aldar, en seinni gerðina telja flestir ritaða eftir Alþing 1134. Sennilegt er þó, að Ari hafi skrifað fyrstu gerð Íslendingabókar milli þinga 1122-23.

Íslendingabók

Íslendingabók – Samkvæmt orðum Ara í upphafi hinnar varðveittu Íslendingabókar eru frá hans hendi tvær gerðir bókarinnar. Hin eldri var borin undir biskupa landsins, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og sjálfan Sæmund fróða. Þeir lögðu til breytingar, vildu fella brott ættartölur og konungaævi (hvað svo sem það nákvæmlega var) og kannski eitthvað fleira. Kvaðst Ari hafa skrifað seinni gerðina í samræmi við þessar athugasemdir.
Athyglisvert er að þegar miðaldamenn vitna í Ara fróða, svo sem Snorri Sturluson, virðast þeir alltaf vera að vísa til eldri gerðarinnar en ekki þeirrar yngri sem meir var að skapi biskupanna og Sæmundar. Hvernig stendur á því? Hefði ekki átt að vera búið að taka þá gerð úr umferð?
Íslendingabók eins og við þekkjum hana úr pappúrsuppskrift Jóns í Villingaholti er um margt einkennilegt rit. Mörgum fræðimönnum hefur þótt hún minna frekar á safn minnisgreina en heillegt rit. Fyrirsögnin á pappírsuppskriftinni „Schedæ Ara prests fróða’“ gefur strax tilefni til heilabrota. Hún getur ekki verið komin úr penna Ara sjálfs. Óljóst er hvað latínuorðið „schedæ“ hefur merkt í þessu samhengi, kannski minnisgreinar.

Það er sjálfsagt Ari, sem hefur sett yfirskriftina Incipit libellus Islandorum yfir rit sitt. Þetta hefur orðið til þess, að sumir ritskýrendur hafa haldið því fram, að hann hafi kallað fyrri gerðina liber (bók) en hina seinni libelhcs (bækling) af því að hún hafi verið svo miklu minni. Það er engin ástæða til að ætla, að svo hafi verið. Formáli hans sýnir, að hann hefur kallað báðar gerðirnar Íslendingabók og hefur sjálfsagt notað sama latneska nafnið um báðar, enda eru öll líkindi til, að á þeim hafi ekki verið svo ýkjamikill stærðarmunur. En það er annar latneskur titill, sem bók hans hafði í hinum fyrstu prentuðu útgáfum af henni. Það er Schedæ. Ástæðan til þess var sú, að báðar afskriftir síra Jóns í Villingaholti hafa yfirskriftina Schedæ Ara prests fróda, og við enda þeirra hefur hann skrifað þetta: „Þessar Schedæ Ara prestz fróda og frásögn er skriffud epter hans eigin handskrifft á bókfelle (ad menn meina) í Willingahollti aff Jóne preste Ellendssyne Anno Domini 1651 mánudaginn næstan epter Dominicam Jubilate. Jón Ellendsson p. Mpp.“
Það er nú talið víst, að handritið, sem skrifað var eftir, hafi ekki verið eiginhandarrit Ara; það hefur líklega verið skrifað um 1200. En hvaðan stafar þessi titill? Hann getur ekki verið frá Ara, því að ekki hefði hann kallað sig sjálfur „fróða“. Schedæ þýðir í raun og veru minnisgreinar, sem ennþá hafa ekki verið færðar inn í bók, eins og Isidor frá Sevillia skýrir orðið í sinni Etymologiæ, en það rit var þekkt á Íslandi snemma.
Í fornritum, sem varðveitzt hafa, er þess hvergi getið, að Ari hafi skrifað Landnámu, nema í eftirmálanum við Landnámu Hauksbókar. Þar ritar Haukur lögmaður svo: „Nú er yfir farit um landnám þau, er verit hafa á Íslandi, eptir því sem fróðir menn hafa skrifat, fyrst Ari prestr inn fróði Þorgilsson ok Kolskeggr inn vitri. En þessa bók ritaða [ek] Haukr Ellinzson eptir þeiri bók, sem ritat hafði herra Sturla lögmaðr, inn fróðasti maðr, ok eptir þeiri bók annarri, er ritat hafði Styrmir inn fróði, ok hafða ek þat ór hvárri, sem framar greindi, en mikill þori var þat, er þær sögðu eins báðar, ok því er þat ekki at undra, þó þessi Landnámabók sé lengri en nökkur önnur.“
Þeir, sem ritað hafa um Landnámu, hafa venjulega veitt ættvísinni þar mesta athygli. Það hafa víst verið til menn frá fyrstu byggð Íslands, sem hafa fengizt við að rekja ættir manna og leggja þær á minnið, og á endanum var svo mikið af því fært í letur. Það eru ekki ættartölurnar, sem gera Landnámu frumlega, heldur það, að ættirnar eru tengdar við staði. Grundvöllur hennar er staðfræðilegur, og í hlutarins eðli urðu nöfn og ættir landnámsmannanna óaðskiljanlegt frá staðfræðinni. Það er auðvelt fyrir menn, sem hafa gott minni, að muna ættartölur án þess að hafa ef til vill nokkurn tíma þekkt eða séð nokkurn mann af ættinni. Öðru máli gegnir um staði eða sveitir, sem menn hafa aldrei augum litið; það er ekki auðvelt að muna það í réttri röð eða gera sér grein fyrir útliti þeirra og takmörkum, og ef menn reyna að lýsa þessu munnlega eða skriflega, þá er hætt við, að mjög fipist fyrir þeim.

Haukadalur

Haukadalur undir Laugafelli – uppeldisstaður Ara.

Nú eru flestir á einu máli um það, að staðfræðin í Landnámu sé merkilega góð, svo að höfundinum skjátlist furðulega sjaldan, og þó eru sumir, sem álíta, að þessi frábæra staðfræðilega þekking eigi rót sína að rekja til upplýsinga frá ýmsum mönnum hvaðanæva af landinu, sem höfundurinn hafi náð í og síðan fært í eina heild.
Rit eins og Landnáma hlýtur þegar í upphafi að hafa verið áformað af einum manni, og enginn er líklegri til að hafa gert það en Ari fróði, eins og Haukur lögmaður segir.

Ari Þorgilsson

Afritanir landnámu að mati Sveinbjarnar Rafnssonar.

Nú vildi svo til, að einmitt um þær mundir, sem ætla má, að Ari hafi verið að safna efninu í Landnámu, fór fram staðfræðileg skipting landsins í kirkjusóknir. Þegar biskupsstóll hafði verið settur í Skálholti og tíundarlögin samþykkt af Alþingi 1096 eða 1097, varð að koma föstu skipulagi á biskupsdæmið. Biskup átti að ákveða takmörk kirkjusóknanna. Þetta varð ekki gert heima í Skálholti, biskup og aðstoðarmenn hans urðu að ferðast um landið til að koma þessu á. Það hefur verið mikið verk og erfitt, en þó fara engar sögur af því; það hefur sjálfsagt farið fram með friði og spekt, og því ekki þótt í frásögur færandi.

Landnáma

Landnáma. Landnámabók eða Landnáma er elsta heimild um landnám Íslands, byggð á Íslendingabók Ara Þorgilssonar. Hún hefur að geyma upptalningu landnámsmanna Íslands. Hún telur einnig upp ættir landnámsmanna, 3000 eiginnöfn og 1400 örnefni. Hún er upprunalega talin hafa verið rituð á fyrri hluta 12. aldar en það eintak er glatað. Til eru fimm endurskrifanir á henni:
Sturlubók; endurskrifuð á 17. öld af Jóni Erlendssyni upp úr aldagömlum skinnhandritum eftir Sturlu Þórðarson sem brunnu í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728.
Hauksbók; skrifuð af Hauki Erlendssyni um 1299 en einungis eru til 18 blöð af henni sjálfri en Jón Erlendsson gerði eftirrit sem er fullkomlega varðveitt.
Melabók; talin vera rituð um 1272 af Snorra Markússyni lögmanni á Melum.
Skarðsárbók; pappírshandrit frá fyrri hluta 17. aldar skrifað af Birni Jónssyni á Skarðsá.
Þórðarbók; einnig 17. aldar pappírshandrit skrifað af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal.

Nú lítur út fyrir, eins og áður hefur verið tekið fram, að Ari hafi verið handgenginn Gissuri biskupi, og því liggur nærri að ætla, að hann hafi tekið þátt í þessu
verki, og að þaðan stafi hin mikla staðfræðilega þekking, sem Landnáma ber svo ljóst vitni um. Ari hefur líklega ferðazt um þrjá fjórðunga landsins, en af einhverjum ástæðum ekki um Austfirðingafjórðung og því notið þar aðstoðar Kolskeggs Ásbjarnarsonar.
Það er næsta ótrúlegt, að Gissur biskup og aðstoðarmenn hans hafi lagt alla sóknaskiptinguna og allt, sem henni var samfara, á minnið. Þeir hljóta að hafa fært það að meira eða minna leyti í letur. Sama má segja um Ara, ef hann var þar með í för. Hann hefur ritað minnisgreinar um allt það, sem hann sá og heyrði á ferðum sínum. Síðan hefur hann fært það allt til bókar, og þannig hefur Landnáma orðið til. Hvenær hann lauk við hana, er ekki auðið að segja með vissu, en líklegt er, að hann hafi verið að safna fróðleik svo lengi sem honum entist aldur.
Annars lítur út fyrir, að Landnáma hafi verið lítið þekkt á tólftu öld, enda fengust menn þá mest við að rita helgar þýðingar og konunga sögur. Um aldamótin 1200 fara menn að veita meiri athygli íslenzkum fræðum, og má vera, að það sé því að þakka, að þá tók Styrmir fróði Landnámu Ara til meðferðar og gerði hana kunna, og svo byrja menn fyrir alvöru að rita íslendingasögur.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Engin þjóð á slíka heimild um uppruna sinn eins og Íslendingar þar sem er Landnámabók. Því miður er Frum-Landnáma ekki lengur til, og næsta gerð hennar, Styrmisbók, er líka glötuð að öðru en því, að hún hefur verið tekin upp í Sturlubók, Hauksbók og Melabók. í öllum þessum gerðum hafa ættartölurnar verið stórum auknar, en staðfræðinni hefur líklega verið tiltölulega lítið breytt.
Við höfum beðið mikið tjón við það, að svo mikið af fornritum okkar hefur glatazt eða einungis varðveitzt í brotum. Ég held, að einna tilfinnanlegasta tjónið hefði verið, ef Islendingabók hefði týnzt með öllu. Þar skall þó hurð nærri hælum. Brynjólfur biskup fann á 17. öld skinnhandrit af henni, líklega frá því um 1200, og lét síra Jón í Villingaholti gera tvær afskriftir af því; síðan hvarf gamla handritið og hefur aldrei komið aftur í leitirnar. Ef Íslendingabók hefði ekki þannig verið bjargað, hefðum við haft næsta óljósar hugmyndir um Ara; við hefðum þekkt hann bara af formála Snorra og tilvitnunum til hans hér og hvar í ritum.

Staðarstaður

Staðarstaður á Snæfellsnesi.

Til allrar hamingju höfum við Íslendingabók hina síðari, og hún gefur okkur skýra mynd af höfundinum og vinnubrögðum hans — þessum gáfaða, hógværa og vandvirka fræðimanni, sem gerir sitt ítrasta til að leita sannleikans, svo að hann geti sagt sem sannast og réttast frá. Þannig varð hann faðir íslenzkrar sagnaritunar og lagði grundvöllinn að íslenzkum bókmenntum. Á þeim grundvelli var gott að byggja, því að hann var traustur. Þetta getum við aldrei nógsamlega þakkað Ara fróða.“

Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1948, Ari Þorgilsson fróði – Halldór Hermannsson, bls. 5-29.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson prestur – minnisvarði í kirkjugarðinum á Staðarstað á Snæfellsnesi.

Þjóðminjasafnið

Í Tímariti Máls og menningar árið 1966 er viðtal við Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörð, undir fyrirsögninni „Ísland hefur enga forsögu„:

Tímarit Máls og menningar 1966„Kristján Eldjárn er löngu þjóðkunnur. Hann fæddist 6. des. 1916 að Tjöm í Svarfaðardal, lauk stúdentsprófi á Akureyri 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1936—39, kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1939—41, lauk meistaraprófi í íslenzkum fræðum frá Háskóla Íslands 1944 og doktorsprófi við sama skóla 1956. Gerðist safnvörður í Þjóðminjasafni 1945, skipaður þjóðminjavörður 1947. Hefur gert allmarga uppgrefti hér á landi og tekið þátt í fornleifarannsóknum á Grænlandi og víðar erlendis. Gaf út bókina Gengið á reka 1948, Kuml og haugfé 1956, Staka steina 1958 og Hundrað ár í Þjóðminjasajni 1962. Hefur auk þess skrifað margar greinar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags og nokkuð í erlend tímarit.
Hin síðari ár hefur margt verið ritað um forsögu og uppruna Íslendinga og komið fram nýstárlegar kenningar sem vakið hafa ágreining, en jafnframt aukinn áhuga almennings. Hér í tímaritinu hafa m.a. birzt greinar um þetta efni að undanförnu. Það hefur nú snúið sér til Kristjáns Eldjárns og leitað í spurningaformi álits hans sem fornleifafræðings á elztu sögu Íslendinga.

Hvað er fornleifafrœði? Er hún vísindi eða skáldskapur?

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Fornleifafræði er vísindi, og má segja að hún sé á mörkum þess sem nú er kallað hugvísindi og raunvísindi. Sumir hafa reyndar illan bifur á þessum orðum og vilja láta hugvísindin kallast frœði og raunvísindin aðeins vísindi. En fornleifafræðin er þá bæði fræði og vísindi. Fráleitt væri að kalla fornleifafræðina skáldskap, þótt niðurstöður hennar hafi oft orðið tilefni skáldskapar, og þá á ég við raunverulegan skáldskap eins og hjá Johannes V. Jensen, til dæmis að taka, en ekki heilaspuna, sem ýmist kallar sig skáldskap eða
vísindi, en er hvorugt. Og sjálfsagður hlutur er það, að fornleifafræðingi er nauðsynlegt að hafa auðuga innlifunargáfu, geta séð sýnir, en fari hann að sjá ofsjónir hættir hann að vera fræðimaður og verður þó ekki skáld að heldur. Það eru til fornleifafræðingar sem líkt og aldrei koma aftur upp úr holunni sem þeir hafa grafið sig niður í, aðrir sem aldrei virðast geta tyllt tá á fast land. Hvorirtveggju eru jafnómögulegir.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Það er ekki áhlaupaverk að skapa heild, samhangandi menningarsögu úr þeim einhæfu brotabrotum, sem varðveitzt hafa. En húsið er þó að verða fokhelt, svo verður það tilbúið undir tréverk og einhvern tíma verður hægt að mála og dúkleggja. Ég þarf varla að taka fram, að ég er hér að tala um fornleifafræði almennt, ekki íslenzka fornleifafræði.

Nokkrir hafa leitt hugann að forsögu Íslands. Ég minnist skrifa Einars Benediktssonar. Hann kynnti sér hella á Suðurlandi og sagðist geta sannað með rökum að margir þeirra vœru eldri en hin norrœna landssaga. Hefur sú fullyrðing verið hrakin?
Það er einkennilegt og eiginlega sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig þessi hellarómantík Brynjúlfs frá Minna-Núpi (blessuð sé og verði hans minning hér í Þjóðminjasafni) og Einars Benediktssonar hefur runnið inn í Íslendinga. Menn halda dauðahaldi í þessar getgátur og hafa þær fyrir helgar kýr.

Einar taldi sig hafa fundið í einum hellinum, í Hellnatúni í Asahreppi, rómverskt letur frá 4. öld. Hefur það verið tekið til frekari athugunar?

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Já, vissulega. Matthías Þórðarson rannsakaði fjölmarga manngerða hella í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og skrifaði um þá framúrskarandi skýra greinargerð í Árbók fornleifafélagsins 1930—31. Það sem Einar Benediktsson sá í Hellnatúnshelli og las S J G IV og þýddi Saeculo Jesu Generationis Quarto, er í rauninni fangamark S J S, Sigurðar Jónssonar eða þvíumlíkt, vafalítið frá 17. eða 18. öld.

Þú komst einu sinni svo að orði um Jón Sigfússon á Bragðavöllum, þann er fann fyrsta rómverska peninginn, að hann hafi lengt sögu Íslands um 500 ár aftur í tímann. Hafa rannsóknir leitt eitthvað í ljós síðan er gefi vitneskju um þetta tímabil eða fylli þar í eyðurnar?
Það er langt síðan ég skildi, hvílík gífuryrði ég hafði látið mér um munn fara um þessa lengingu íslenzkrar sögu aftur í tímann. Ekkert hefur heldur komið í ljós síðan, sem réttlætt gæti svo glannaleg orð.

Rómverskir

Rómverskur peningur. Rómverskur koparpeningur fundinn á Bragðavöllum í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Peningurinn er sleginn í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu í tíð Aurelians keisara er ríkti í Rómaveldi á árunum 270-275 eftir Krist. Peningurinn fannst árið 1933 í uppblásnum og eyddum fornbæjarrústum hjá Bragðavöllum og þar hafði fundist annar rómverskur peningur árið 1905. Aðrir hlutir, sem fundist hafa á þessum stað, eru hins vegar dæmigerðir norrænir gripir, sem algengt er að finna í fornbæjarústum hérlendis, perlur úr steinasörvi, klébergsbrot úr pottum og einfaldir smáhlutir. Þessir peningar hafa orðið kveikjan að þeirri hugmynd, að Rómverjar hinir fornu hafi komið til Íslands á 3. eða 4. öld eftir Krist og haft hér einhverja viðdvöl. Það verður þó vart ráðið af þessum peningum né öðrum rómverskum, sem hér hafa fundist. Engar aðrar rómverskar minjar hafa fundist hér og peningar eru vafasamir til tímasetningar nema aftur í tímann. Þriðji rómverski peningurinn fannst einn sér fyrir mynni Hvaldals austanvert við Lón í Austur-Skaftafellssýslu og hinn fjórði fannst árið 1966 við rannsóknir á byggðarleifum frá söguöld í Hvítárholti í Hrunamannahreppi.

Þú taldir allar líkur benda til um rómversku peningana sem fundust á Austfjörðum, að þeir hefðu borizt með brezk-rómversku skipi er þangað hefði hrakizt um 290 þegar mynt þessi var algeng. Nú hefur fundizt nýr rómverskur peningur á allt öðrum stað, Hvítárholti í Hreppum, ekki við strendur heldur inni í landi. Getur þá lengur gilt sama skýring og áður, eða hafa Rómverjar verið hér víðar á ferð kringum 300, og hví þá ekki höggvið letur í hella eins og Einar Benediktsson þóttist sjá?

Ég held enn að það sé engan veginn fráleitt, að skip frá rómverska skattlandinu Britanníu hafi hrakizt hingað til lands um 300 e. Kr. og rómversku peningarnir þrír frá Austfjörðum hafi þá orðið hér eftir, og þá sennilega miklu fleiri, og landnámsmenn hafi svo fundið þá, þegar þeir komu til landsins mörg hundruð árum seinna. Satt að segja finnst mér þetta eðlileg skýring. Peningurinn frá Hvítárholti er eins og hann væri úr sömu pyngju og hinir, og það held ég víst að hann sé. Allir þessir peningar hafa að líkindum komið hingað til landsins í sama sinn. Hitt er svo annað mál, að þeir hafa vel getað borizt hingað á annan hátt en þann, sem ég nefndi. Einhver Íslendingur eða landnámsmaður á leið til Íslands hefur getað verið í Englandi og komizt yfir hrúgu af þessum gömlu peningum þar og haft þá með sér hingað út. Önnur hvor þessara skýringa mun vera sú rétta.
Þegar við héldum víkingafundinn hér í Reykjavík 1956, vorum við svo heppnir að hafa með okkur hinn heimsfræga og stórsérkennilega fomleifafræðing, prófessor Gordon Childe. Í blaðaviðtali var hann að því spurður, hvernig á því stæði, að aldrei hefðu fundizt minjar eftir steinaldarmenn á Íslandi. Gordon Childe svaraði stutt og laggott: „Lélegir fornleifafræðingar“.

Landnáma

Landnáma.

Þú vilt ekki teygja fornfrœðina of langt út í skáldskap. Víkjum þá að þeim tímum sem nœr liggja. Fram á okkar daga treystu menn á Ara fróða og Landnámu og á sanngildi Íslendingasagna. Nú eru ýmsir farnir að vefengja þessi sögulegu frœði, gera sér nýjar hugmyndir um uppruna Íslendinga og halda því fram að hér hafi verið mannabyggð fyrir landnámstíð, jafnvel heil þjóð legið í felum. Geta ekki fornleifarannsóknir gefið hér gildandi úrskurð? En áður en kemur að beinu svari við því, viltu kannski segja mér eitthvað almennt um fornleifarannsóknir hér á landi?
Fornleifarannsóknir á Íslandi hófust með Sigurði Vigfússyni, þótt í smáum stíl væri, síðan gerði Daníel Bruun höfuðsmaður og Finnur Jónsson prófessor nokkra uppgrefti, sem voru á miklu fullkomnara stigi faglega séð en rannsóknir Sigurðar, sem von var til.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1877-1961).

Þá komu svo rannsóknir Matthíasar Þórðarsonar, en þær urðu aldrei eins miklar og hann hefði viljað, því að varla er von að önnum kafinn embættismaður, eins og hann var, komi miklu slíku til leiðar. Stærsta átakið í íslenzkum fornleifarannsóknum varð þó einmitt á hans dögum, rannsóknirnar í Þjórsárdal 1939, en í þeim tóku þátt fornleifafræðingar frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð auk Íslendinga; Matthías Þórðarson hafði yfirumsjón með verki allra þessara manna. Á síðustu tveimur áratugum hefur verið unnið nokkuð að uppgröftum eftir því sem tími okkar fáu safnmanna hefur leyft, og þótt ekki sé meira, hafa þó þessar rannsóknir leitt margt í ljós, sem á ýmsan hátt varpar ljósi á menningarsögu Íslendinga.

Þið hafið grafið upp marga fornmenn og fundið ýmsa muni eftir þá. Hvaða fundi telur þú merkasta?
Jú, grafir frá heiðni eru einmitt drýgsta uppsprettan. Það finnst venjulega eitthvað af slíkum gröfum á hverju ári, og þá reynum við að komast sem fyrst á staðinn til þess að rannsaka þær. En það er hér eins og í flestum löndum öðrum nú orðið, að það eru jarðýtur, sem finna grafirnar, og það eru ekki mjúkar á þeim krumlurnar.
Kuml og haugféMér telst nú til, að fundarstaðir þekktra heiðinna kumla hér á landi sé 147, en einstakar grafir nær 290, því að oft eru fleiri grafir á sama fundarstaðnum, það köllum við kumlateiga. Hvað merkilegast sé af þessu öllu veit ég ekki. Til að nefna eitthvað skal ég telja fram kumlið, sem ég rannsakaði í litlum hólma í Úlfljótsvatni, rétt hjá Kaldárhöfða sumarið 1946, og bátkuml, sem Þór Magnússon safnvörður rannsakaði í Vatnsdal í Patreksfirði 1964. Íslenzkar fornmannagrafir upp og ofan eru heldur fátæklega úr garði gerðar, þegar borið er saman við önnur lönd á norrænu menningarsvæði á svonefndri víkingaöld.

Hvaða bendingar gefa þessar rannsóknir, í fyrsta lagi um uppruna Íslendinga?
Við skulum reyna að setja okkur í þau spor, að alls engar ritaðar heimildir væru til um það, hvenær og hvaðan Ísland byggðist, og yrðum að reyna að gera okkur grein fyrir þessu af fornleifum einum saman. Við mundum þá hiklaust komast að þeirri niðurstöðu, að landið hefði verið óbyggt allnokkuð fram á víkingaöld Norðurlanda, en síðan byggzt skyndilega frá Norðurlöndum nær miðju því tímabili eða ekki allfjarri 900. Síðan hefði hér heiðni haldizt um sinn, en þjóðin verið orðin kristin um einni öld síðar. Ég sé ekki betur en þetta fallist í faðma við okkar fornu sögur í stórum dráttum.

Barði Guðmundsson

Barði Guðmundsson (1900-1957).

Barði Guðmundsson véfengdi ekki að Íslendingar hefðu að meginstofni komið frá Noregi, en fœrði rök að því að verið hefði annar þjóðflokkur en sá sem nú byggir Noreg, með aðra siði og kominn austan eða sunnan að, frá baltnesku löndunum. Hvaða bendingar gefa fornleifafundir hér í þessa átt?
Greftrunarsiðir voru svipaðir um öll Norðurlönd á víkingaöld og verkfærakostur og skartgripir og vopnabúnaður líka. Þó er nokkur munur á, einkum í tízkubundnum smáatriðum í skartgripagerð. Flestar íslenzkar grafir eru með þeim ummerkjum, að þær hefðu getað eins vel fundizt í Noregi eða jafnvel í Svíþjóð eða Danmörku. Þó held ég, að sterkastur sameiginlegur svipur sé með íslenzkum og norskum legstöðum heiðinna manna. En svo kemur hitt, að hér hafa fundizt fáeinir forngripir, sem eiga sér lítt eða ekki samsvörun í Noregi, þótt allur þorrinn sé alveg eins og þar. Ekki er ólíklegt, að íslenzkir kaupmenn hafi siglt skipum sínum til verzlunarstaða við Eystrasalt, t.d. til Birka í Leginum, ellegar kaupmenn þaðan hafi komið hingað. Verzlun Íslendinga hefur áreiðanlega ekki verið einskorðuð við Noreg á söguöld. En það er reyndar eitt atriði í íslenzkum greftrunarsiðum, sem er sérkennilegt. Hér virðist áreiðanlega aldrei hafa verið viðhöfð líkbrennsla, en á Norðurlöndum var hún eins algeng á víkingaöld og jarðsetning, þó fátíðust í Danmörku.

Rómverskir peningar

Fundir rómverskra peninga hér á landi.

Aðrir halda fram stœrri hlut Íra í landnámi íslands. Hvaða minjar hafa fundizt hér eftir Kelta?
Líklega hafa margir Írar flutzt hingað á landnámsöld, eins og ævinlega hefur verið almennt talið. En minjar um þá hafa engar fundizt né heldur neina aðra Kelta.

Og hvað er þá að segja um mannlíf hér fyrir landnámsöld? Reynist kannski svo að Íslendingabók og Landnáma hafi rétt fyrir sér, að landnámsmenn hafi komið hér að óbyggðu landi?
Ég er ekki reiðubúinn til að véfengja okkar fornu heimildir, að hér hafi verið írskir munkar, þegar norrænir menn komu hingað, sennilega þó aðeins fáeinir menn á Suðausturlandi. Þetta má kannski kalla mannlíf, en annað mannlíf hefur ekkert verið hér á landi fyrir landnámsöld. Landnámsmennirnir komu hér að óbyggðu landi, eins og sögurnar segja. Einmitt þess vegna nefndust þeir landnámsmenn. Ísland hefur enga forsögu.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landmámsbæjar í Aðalstræti.

Gerðist ekki fornleifafundur hér í sjálfri Reykjavík sem bendir til byggðar alllöngu fyrir landnámstíð?
Fornleifarannsóknir hafa litlar verið hér í Reykjavík.

Hvað um þá röksemd Benedikts frá Hofteigi að landnámsmenn hafi ekki getað flutt með sér allan þann bústofn sem snemma er talinn í eigu Íslendinga?
Benedikt frá Hofteigi er mikill áhugamaður um frumsögu Íslands eins og aðra sögu. Hann hefur stundum sneitt að íslenzkum fornleifafræðingum, að þeir séu athafnalitlir, en alltaf hefur hann gert það mannúðlega, og sá tími er nú sem betur fer liðinn, að menn leggi fæð hver á annan eða rífist eins og rakkar, þótt þeir séu ekki sammála um fræðileg efni. Menn eru hættir að hatast ævilangt út af stafsetningu.

Benedikt Gíslason

Benedikt Gíslason frá Hofteigi (1894–1989).

Góðkunningi minn Benedikt mun því áreiðanlega ekki þykkjast við mig, þótt ég segi frá einu tilsvari, sem ég ætla að hafa eftir honum. Ég spurði hann einu sinni hvaða skýringu hann gæti gefið á því, að aldrei fyndist neitt, alls ekki sú minnsta agnarögn, af minjum eftir hina miklu og menntuðu þjóð, sem hann telur hafa búið hér á landi áður en landnámsmenn komu til landsins, kannski hundrað þúsund manna þjóð. Af hverju finnast aldrei neinar minjar eftir hana? Benedikt svaraði hiklaust:
„Það er af því að þið leitið ekkert að þeim.“

Björn Þorsteinsson grefur upp forna heimild um að Ísland sé nefnt Íraland, telur þá hafa búið í Fœreyjum á 8. öld, en síðan þokað sér hingað norður með búsmala og tekið að nema hér land. Bendir ekkert til að fyrir landnámstíð hafi hér verið aðrir Írar en þeir einsetumenn sem Ari nefnir?
Nei, ég segi það aftur, engar slíkar minjar hafa fundizt, ekki tangur né tetur. Ég hef leyft mér að kalla þessa trú á þjóð hér á landi fyrir landnámsöld andatrú hina nýju. Þetta er eiginlega spíritismi.

Snældursnúður

Snældusnúður úr steini, fundinn við rannsóknir á Bergþórshvoli 1927.

Og ef við víkjum nú lítilsháttar að sögutímanum. Er ekki svo að ýmsar rannsóknir sem þið hafið gert staðfesti sannleiksgildi fornsagnanna, t.a.m. Njálu?
Sigurður Vigfússon vildi nota fornleifarannsóknir fyrst og fremst til þess að sanna Íslendingasögumar. Nú teljum við hlutverk hennar vera að safna heimildum að menningarsögu. En þá er vitanlega vel, ef hún getur stöku sinnum varpað ljósi á almenna sögu eða bókmenntasögu. Stundum getur hún fyllt upp í einhverja sögulega eyðu, og einstöku sinnum, ef til vill, sannað eða afsannað eitthvað, sem stendur í fornsögum. Það var til dæmis skemmtilegt að koma niður á brunarústir frá söguöld á Bergþórshvoli, ekki sízt þar sem þær voru jafngreinilegar og þær voru, þótt ekki væru þær nema af fjósi.

Kristján EldjárnHvaða vísindagreinar standa fornleifafrœðinni nœst, eða eru henni helzt til stuðnings?
Fornleifafræði er menningarsaga og hlýtur vitanlega að haldast í hendur við almenna sögu, svo langt sem ritaðar heimildir ná. Ég hef þegar nefnt sem dæmi, hvernig fornleifafræði getur lagt veigamikið orð í belg um upphaf Íslandsbyggðar. Auk þess styðst fornleifafræði við þjóðfræði, sem svo er kölluð, etnografi, en að því er tekur til sjálfra fornleifarannsóknanna verður að styðjast við náttúruvísindi almennt, einkum þó jarðfræði. Þetta á við alls staðar, um alla fornleifafræði, einnig hér á landi, þótt við séum í þessari einkennilegu sérstöðu að hér er engin forsaga og allar okkar fornleifarannsóknir snúast um efni frá sögulega þekktum tíma. En stefnumark fornleifafræðinnar er fyrst og fremst menningarsaga.

Kristján Eldjárn

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir nútímafólki á fundarstaðinn.
Svona er fornleifafræðin vaxin enn í dag…

Þeir sem véfengt hafa norskt œtterni Íslendinga, hafa ekki sízt vitnað til bókmenntanna, viljað frekar rekja einkenni þeirra til Íra eða Herúla, eins og Barði. Menn hafa engan sambœrilegan skáldskap fundið í Noregi, en hvað er þá að segja um allar hinar nýju rúnarislur í Bergen?
Við erum nú orðnir svo langorðir, að ég verð að hliðra mér hjá að fjölyrða um þetta efni. Þó skal ég segja, að fornleifafundirnir í Björgvin, sem fram hafa komið á síðustu árum, ekki sízt hinar fjölmörgu og margvíslegu rúnaristur, eru einhver merkilegustu tíðindi þessarar fræðigreinar hér á Norðurlöndum á síðustu árum.

Nú langar mig til að víkja að starfi þínu við Þjóðminjasafnið. Hvenœr varðstu þjóðminjavörður?
Ég varð þjóðminjavörður 1. des. 1947, en hafði þá áður verið safnvörður hjá Matthíasi Þórðarsyni um tveggja ára skeið.

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Hvernig hefur þér fallið við nýju bygginguna?
Nýja byggingin olli tímamótum í sögu safnsins, eins og að líkum lætur. Það er ómetanlegt að safnið hefur sitt eigið hús, og nú orðið er það orðin eins og hver önnur fjarstæða að Þjóðminjasafninu væri holað niður einhvers staðar eða einhvers staðar. Húsið hefur sína kosti og galla, eins og gefur að skilja, það hafa öll hús. Mannkynið hefur verið að byggja hús alla sína tíð, en samt er alltaf sama vandamálið að búa til gott hús. Aðalvandamálið með okkar hús er að það er of lítið. Ég mundi segja, að það væri nógu stórt fyrir Þjóðminjasafnið, ef Listasafn ríkisins þyrfti ekki að vera hér. Nauðsynlegt er að byggja sérstakt Listasafnshús.

Þjóðminjasafnið

Á Þjóðminjasafninu.

Hver eru helztu verkefni safnsins? Hvað eru starfsmenn margir?
Verkefni safnsins eru mörg, en safnmennirnir fáir. Auk mín eru fjórir safnverðir með fullu starfi og einn með hálfu starfi og bókari, sem í raun og veru er allt í senn bókari, gjaldkeri og skrifstofustúlka. Þeim embættum, sem við safnmennirnir gegnum, fylgir alls engin lagaleg skylda til að gera neinar fornleifarannsóknir, þótt við teljum það siðferðilega skyldu og sjálfsagðan hlut að gera það sem efni og ástæður leyfa á því sviði. Það er stundum öskrað á okkur með frekju og jafnvel ásökunum um að við gröfum ekki þetta og gröfum ekki hitt, eins og við værum að svíkja okkar starf. Þetta er hreinn misskilningur. Ekkert rannsóknarembætti í fornleifafræði er til. Við erum safnverðir og minjaverðir, og því fylgir meira veraldarvafstur en margur hyggur.

Árbók fornleifingafélagsins

Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1969.

Árbók fornleifafélagsins? Á hvern hátt er hún á vegum safnsins?
Það er von þú spyrjir, eins og ég hagaði orðum mínum. Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað árið 1879, æruverðugt félag að aldri. Markmið þess var að stuðla að fornleifarannsóknum á Íslandi og gefa síðan út ársrit um þau efni. Árbók fornleifafélagsins hefur komið út síðan, þótt rannsóknirnar hafi færzt yfir á hendur Þjóðminjasafnsins. Þú fyrirgefur þótt ég smygli hér inn þessari litlu auglýsingu, en þetta rit er sem sagt eina málgagnið fyrir íslenzka fornleifafræði og er á vissan hátt árbók Þjóðminjasafnsins ekki síður en félagsins.

Hvernig er háttað stuðningi hins opinbera? Hafið þið nœgilegt fé til rannsóknarstarfa?
Allt okkar fé kemur frá því opinbera. Erfitt er að svara því, hvort við höfum nóg fé til rannsóknarstarfa. Vitanlega höfum við lítið fé, en fornleifafræðingar, sem gætu stjórnað uppgröftum, eru líka fáir. Ég hef ekki ástæðu til annars en halda, að hægt væri að fá meira fé hjá því opinbera til fornleifarannsókna, en þær gera sig ekki sjálfar, þó að peningar séu fyrir hendi. Við komumst ekki yfir öllu meira en við gerum eins og sakir standa.

Safnið hefur stœkkað mikið? Ef þú lítur yfir þessi ár, hvað finnst þér hafa áunnizt? Hvernig er framtíðarviðhorfið?

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins. Dæmi um geymd til varðveislu, hvorki til nokkurs tilgangs né varðveislugildis!

Þjóðminjasafnið er geymslustaður minja og sýningarstaður en auk þess rannsóknarstaður að nokkru leyti. Það heldur jafnt og þétt áfram að vaxa og færa út kvíarnar á ýmsum sviðum, og svo mun verða í framtíðinni. Hér er nú orðið svo miklu meira umleikis á öllum sviðum heldur en þegar ég kom að stofnuninni fyrir rúmum tuttugu árum, að það er varla hægt að þekkja þetta fyrir sömu stofnun. Líklega heldur þessi vöxtur áfram, ég vona það, eins og ég vona að það verði æ meiri menningarstofnun eftir því sem tímar líöa. En líklega þarf fljótlega nýja og fullkomnari sundurgreiningu starfa og að skipta þeim niður á fleiri hendur.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn varð síðar forseti landsins (Kristján Þórarinsson Eldjárn (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982).

Þú býst við að verkefnin greinist í stjórnarstörf og frœðistörf. Hvort mundirðu kjósa þér fremur?
Ég get búizt við því, að sú skipting verði í framtíðinni. Sú stefna er alls staðar ríkjandi. Hvernig eiga menn, sem allan liðlangan daginn og allan ársins hring eru á kafi í ys og erli dagsins, eru með leyfi að segja eins og útspýtt hundsskinn, að stunda rannsóknarstörf og skriftir? Hvort ég mundi sjálfur kjósa af þessu, sem þú nefndir? Hvað skal segja? Ég er nú orðinn svo vanur því að vera eins konar þjóðareign, að líklega fer að verða vonlítið fyrir mig að prótestera og vilja fara að rannsaka og skrifa eða jafnvel flytja háskólafyrirlestra.“

Heimild
-Tímarit Máls og menningar, 4. tbl. 01.02.1966, „Ísland hefur enga forsögu“ – Viðtal við dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, bls. 352-365.

Kaldárhöfðii

Kumlið á Kaldárhöfða – uppdráttur.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, skrifaði grein í Skírni árið 1994 undir yfirskriftinni „Íslenskar fornleifar – Fórnarlömb sagnahyggjunnar?„:

Skírnir

Skírnir 1994 – forsíða.

„Frá því að Íslendingar fóru að gefa fornleifum gaum að einhverju marki í lok síðustu aldar og í byrjun þessarar, hafa þeir jafnan talið að þær væru bæði fáar og fátæklegar og harla ómerkilegar fyrir vitneskju okkar um sögu landsins. Í þessari grein mun ég andæfa þessu viðhorfi og halda því fram að íslenskar fornleifar geymi miklar og merkilegar upplýsingar sem nái langt út yfir sögu Íslands. Í framhaldi af því held ég því fram að íslensk fornleifafræði geti átt sér bjarta framtíð og skipað veglegan sess í evrópskri fornleifafræði, enda hafi hún efnivið sem fá lönd hafa önnur. Þetta er þó því skilyrði háð að fræðimenn hér á landi stundi fornleifafræði sem sjálfstæða grein vísinda en ekki sem ósjálfstætt hjálpargagn annarra fræðigreina.

Fornleifafrœði og sagnabyggja
Einfaldasta skilgreining á fornleifafræði er að hún sé sú fræðigrein sem fáist við áþreifanlega hluti úr fortíð og dragi af þeim ályktanir um hlutskipti mannsins á þeim tíma sem minjarnar rekja uppruna sinn til. Starf fornleifafræðings felst einkum í uppgreftri, skráningu og túlkun fornminja.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Markmið fræðigreinarinnar er að auka skilning okkar á fortíðinni. Þó ekki með hreinum lýsingum á gripum og húsum, heldur viljum við skilja ástæðurnar fyrir því að gripir og hús litu út eins og þau gera og af hverju þau tóku breytingum. Við viljum einnig vita um daglegt líf þess fólks, sem ber ábyrgð á hinni áþreifanlegu arfleifð. Hvernig nýtti það umhverfi sitt, hvernig lagaði það sig að breyttum aðstæðum og hvers vegna skóp það þessa sérstæðu menningu? Af hverju eiga breytingar sér stað yfirleitt? Getum við lært eitthvað af fortíð okkar?
Oft hefur verið staðhæft að Íslendingar þekki upphaf sitt betur en aðrar þjóðir, þar á meðal greftrunarsiði forfeðranna og þróun hýbýlahátta. Forsenda þessarar skoðunar er sú hugmyndafræði sem gegnsýrt hefur íslenska fornleifafræði frá upphafi og ég nefni sagnahyggju. Sagnahyggja er það viðhorf að ritaðar heimildir séu þýðingarmeiri en fornleifar fyrir sögu landsins. Sagnahyggjan kemur hvað skýrast fram hjá þeim sem telja Íslendingabók og Landnámabók mikilvægustu heimildir okkar um upphaf byggðar í landinu.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916–1982).

Kristján Eldjárn skrifar í anda sagnahyggjunnar: „Sú fornleifafræði, sem hægt er að stunda hér á landi, hlýtur að flokkast undir miðaldafornleifafræði, það er rannsókn fornleifa frá tímum, sem eru að einhverju leyti lýstir af rituðum heimildum“. Í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé skrifar Kristján ennfremur: „Eru fornleifar tímabilsins [þ.e.a.s. frá landnámsöld] engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“.
Árið 1817 bað dönsk nefnd, Commissionen for oldsagers opbevaring, Íslendinga um yfirlit yfir fornleifar í landinu. Skrifaði hún til allra presta í landinu í þessu erindi. Þegar afraksturinn er athugaður er athyglisvert hve fáar fornleifarnar eru taldar og hversu ómerkilegar mörgum finnst þær vera. Svo ómerkilegar að á þær er ekki minnst yfirleitt.
Á seinni hluta 19. aldar, eftir að Hið íslenska fornleifafélag var stofnað árið 1879, var mikill fornleifaáhugi ríkjandi hér heima sem og erlendis. Fræðigreinin var þó ekki orðin til í þeim skilningi að hún væri kennd að einhverju marki í háskóla, þó að það hafi verið að breytast um þessar mundir.

Landnáma

Landnáma.

Munurinn á þeim sem voru að fást við íslenska fornleifafræði og þeim sem fengust við evrópska var að höfuðheimildir Íslendinga voru ritaðar heimildir svo sem Íslendingasögur, Íslendingabók og Landnámabók. Erlendis voru það fornleifarnar sjálfar og gripir sem þær geymdu sem voru hið leiðandi afl í fræðunum. Hinar rituðu heimildir réðu algerlega ferðum hinna íslensku könnuða í leit þeirra að efnislegri staðfestingu hinna rituðu heimilda. Orðið könnuður er raunar lýsandi fyrir það starf sem þessir menn sinntu, enda fóru þeir vítt og breitt um Ísland í leit sinni að minjum heimildanna. Hinar rituðu heimildir stýrðu ferðum manna um landið.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson (1811–1879).

Jón Sigurðsson forseti var einn áhrifamesti sagnfræðingur og stjórnmálamaður 19. aldar og mótaði hann að miklu leyti þá hefð að beita sögulegum röksemdum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sjálfur var hann að sumu leyti persónugervingur sjálfstæðisbaráttunnar. Hann hlaut því að hafa mikil áhrif á frumkvöðla íslenskrar fornleifafræði sem og aðra þá er fengust við sögu Íslands. Ísland var í bullandi sjálfstæðisbaráttu, eins og reyndar fleiri ríki í Evrópu, og sú staðreynd hafði mikil áhrif á sagnfræðina hér sem erlendis. Saga Íslands, og þá einkum sá tími sem glæsilegastur var talinn, fornöldin og þjóðveldistíminn, var notuð í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum með beinum tilvísunum í einstaka atburði og kappa.
Einn athafnamesti fræðimaðurinn á þessu sviði um aldamótin var án efa Brynjúlfur Jónsson, kennari, frá Minna-Núpi í Rangárvallasýslu. Hann er einna þekktastur alþýðufræðimanna þeirra tíma, en eitt helsta einkenni þeirra er að, viðfangsefnið er yfirleitt ekki sett í stærra samhengi, fáar ályktanir dregnar, ekki settar fram neinar rannsóknarniðurstöður, og kenningar um markmið og framvindu sögunnar koma naumast fyrir.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838-1914).

Brynjúlfur fór óteljandi ferðir um landið og skoðaði fornleifar, en gróf lítið. Áhugi hans á fornsögunum var áberandi og stýrði algerlega vali hans á viðfangsefnum.
Í lok 19. aldar komu til landsins fyrstu íslensku sagnfræðingarnir, sem höfðu haft sagnfræði sem aðalgrein við háskóla. Árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður og maður ráðinn til kennslu- og rannsóknarstarfa á háskólastigi í sagnfræði, eða í íslenskum fræðum eins og greinin hét þá. Miðstöð íslenskrar sagnfræði færðist á þessum tíma frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og þjóðernishyggja og rómantík settu svip á umræðuna.
Fyrstu fornleifafræðingarnir, sem höfðu haft fornleifafræði sem aðalfag við háskóla, komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um miðbik 20. aldar og er Ólafía Einarsdóttir, síðar lektor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, trúlega fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Hún lauk fornleifafræðinámi árið 1950 við University College í London. Ólafía hafði engin teljandi áhrif á fornleifafræðina hér á landi enda sneri hún sér að öðrum viðfangsefnum stuttu síðar.

Þorkell Grímsson

Þorkell Grímsson (1929-2010). Mynd frá Stöng, 1965, Ingólfur Stefánsson, Gísli Gestsson, Þorkell Grímsson og Hrólfur Ásmundsson.

Næstur til að ljúka námi í þessum fræðum var ugglaust Þorkell Grímsson, en hann lauk license-és-lettres námi í Montpellier í Frakklandi árið 1953. Hann lagði stund á fjórar greinar, listasögu, almenna sögu, fornleifafræði og forsögulega fornleifafræði, auk undirbúningsnáms í eitt ár. Eftir námið í Frakklandi dvaldi Þorkell í Þýskalandi, Danmörku og Englandi um hríð við nám í áðurnefndum fræðum. Nám Þorkels hefur óneitanlega yfirbragð klassískra fræða, þar sem ritaðar heimildir eru ekki síður mikilvægar en fornleifar. Þorkell starfaði fyrst í skamman tíma við Minjasafn Reykjavíkur (síðar Árbæjarsafn), en réðst síðan til Þjóðminjasafns Íslands árið 1958.

Þór Magnússon

Þór Magnússon.

Þriðji í röðinni er Þór Magnússon, síðar þjóðminjavörður. Hann lauk fil. kand. prófi í fornleifafræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 1962. Lokaritgerð hans fjallaði um þróun hýbýla á Íslandi frá öndverðu fram á síðmiðaldir og jafnvel lengur. Þór var settur safnvörður við Þjóðminjasafnið árið 1964 og fastráðinn 1965. Árið 1968 varð hann síðan þjóðminjavörður Íslands.
Sá sem hefur haft mest áhrif á íslenska fornleifafræði er dr. Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands. Kristján dvaldist í Kaupmannahöfn árin 1936-39 og lagði þar stund á tungumál fyrst um sinn en sneri sér síðan að fornleifafræði í byrjun árs 1937. Um sumarið sama ár bauðst honum að taka þátt í rannsóknarleiðangri til Grænlands sem aðstoðarmaður og dvaldi hann þar við fornleifauppgröft í tæpa þrjá mánuði. Sumarið 1939 tók hann þátt í samnorrænu fornleifafræðiverkefni í Þjórsárdal, sem var langstærsta verkefni af þessu tagi sem ráðist hafði verið í á Íslandi fram að því.
Kuml og haugféSíðla sumars það ár skall seinni heimsstyrjöldin á og Kristján varð um kyrrt á Íslandi án þess að ljúka námi í fornleifafræðum. Árið 1941 hóf hann nám í íslenskum fræðum við Háskóla íslands og lauk meistaraprófi í norrænum fræðum árið 1944. Doktorsritgerð sína Kuml og Haugfé ver Kristján við sama skóla árið 1956 og virðist Matthías Þórðarson hafa verið aðalstoð Kristjáns í þeim skrifum, en í formála ritgerðarinnar þakkar hann honum, Jóni Steffensen lækni og Gísla Gestssyni safnverði fyrir veittan stuðning ýmisskonar.
Kristján hóf störf fyrir Þjóðminjasafnið sumarið 1939 og var fastráðinn aðstoðarmaður þjóðminjavarðar árið 1945. Frá 1. desember 1947 var hann skipaður þjóðminjavörður og gegndi því embætti til ársins 1968, er hann varð forseti. Segja má að Kristján sé faðir íslenskrar fornleifafræði og hafi borið ægishjálm yfir aðra Íslendinga á þessu sviði. Enginn annar einstaklingur hefur náð að rjúfa þá rannsóknarhefð sem hann skóp og fáum af niðurstöðum hans hefur verið ögrað svo að heitið geti. Kuml og haugfé. Úr heiðnum sið á Íslandi, doktorsritgerð Kristjáns, er rit ritanna í íslenskri fornleifafræði. Hún er skrifuð í umhverfi þar sem hinar rituðu heimildir höfðu forgang, eins og merkja má af tilvitnuninni hér að framan. Ritgerðin er því einskonar afurð sagnahyggjunnar. En hún er einnig undir allsterkum áhrifum frá Noregi, bæði í sagnfræði og fornleifafræði.

Sprengisandur

Sprengisandur – varða, ein af mörgumer urðu upphafið af fornleifaskráningum hér á landi.

Hugmyndir Sveinbjarnar Rafnssonar, prófessors og formanns fornleifanefndar árin 1990-94, um fátækleika íslenskra fornleifa eru einnig afurðir sagnahyggjunnar, en ég mun víkja að þeim síðar. Annarskonar dæmi um sagnahyggju er gerð Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Í þeirri byggingu ríkir mikil rómantísk trú á glæsileika fortíðarinnar, eins og hún kemur okkur gjarnan fyrir sjónir í Íslendingasögunum. Þar er hátt til lofts og skreytingar miklar. Gaflar rísa þar tignarlegir og þráðbeinir um fjögurra metra háir og gætu þeir verið að segja okkur að áður hafi meira að segja torfið verið betra til húsagerðar en síðar varð.
Það má ekki gleyma því að sagnahyggjan er fullkomlega eðlilegur þáttur í íslenskri fornleifafræði eins og hún hefur þróast. Hún á tilurð sína að þakka þeirri staðreynd að á Íslandi var fornleifafræði áður fyrr nær ætíð stunduð af áhugamönnum eða aðilum sem voru sannfærðir um sannleiksgildi hinna rituðu heimilda.

Skálafell

Tóft í Skálafelli. Væntanlega kornskáli Ingólfs, hins fyrsta „landmámsmanns“.

Upphaf fræðigreinarinnar sjálfrar má tengja beint við áhuga manna á fornsögunum og þau tengsl hafa varla slitnað enn. Helstu frumkvöðlar í íslenskri fornleifafræði voru ekki aldir upp við fornleifafræðilegan hugsunarhátt. Hjá þeim skipuðu fornleifarnar sjálfar og gripir ekki þann sess sem tíðkaðist erlendis. Menntun þeirra var á sviði tæknifræði, íslenskra eða norrænna bókmennta, sagnfræði og jarðfræði. Í þessum hópi voru bændur, prestar, kennarar og listamenn.
Þeir örfáu sem luku síðar grunnnámi í fornleifafræði fyrir árið 1980 og héldu heim til Íslands voru án reynslu í fornleifarannsóknum í þeim löndum þar sem þeir námu fræðin.

Kuml

Kuml eftir fornleifauppgröft.

Aðrir sem ekki höfðu lokið grunnnámi í fornleifafræðum, en hófu störf á Íslandi eftir sem áður voru einnig án reynslu yfirleitt. Reynslu sína fengu þeir hinsvegar allir seinna á Íslandi, og yfirleitt undir beinni stjórn þeirra er eldri voru eða jafnvel hjá sjálfum sér. Þannig var sagnahyggjunni haldið við mann fram af manni og var afraksturinn stöðnun.
Bakgrunnur íslenskra fornleifafræðinga er því óneitanlega margbreytilegur og undirstaðan mismikil. Í heildina verður að teljast að margbreytileiki sé að vissu marki af hinu góða þegar til lengdar lætur, en þegar til styttri tíma er litið vill það bregða við að persónulegur rígur og mismunandi hugmyndir um eðli fornleifafræðinnar sé mest til vandræða. Þegar þetta tvennt fer saman eru mál ekki efnileg.

Uppgröftur og saga, saga og uppgröftur

Jónas Hallgrímsson

Jóns Hallgrímsson (1807-1845).

Þá sjaldan er íslenskar fornleifar voru rannsakaðar með uppgreftri á 19. öld var það undantekningalaust vegna þess að þeirra var getið í heimildum. Nefni ég t.d. rannsókn Jónasar Hallgrímssonar skálds á Þingnesi árið 1841, en tilgangur þeirrar rannsóknar var að finna Kjalarnesþingi stað. Er sú rannsókn sennilega sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Áður höfðu ýmsir verið að pota í fornleifar, aðallega hauga eins og haug Gunnars á Hlíðarenda, en yfirleitt var um beina eyðileggingu að ræða og aldrei voru almennilegar skýrslur um þær framkvæmdir birtar.
Einnig er vert að geta rannsóknar á Þingvöllum árið 1880, sem var sú fyrsta og síðasta sem þar hefur verið gerð með uppgreftri en henni stjórnaði Sigurður Vigfússon gullsmiður. Sigurður var einn af fyrstu umsjónarmönnum Forngripasafnsins, síðar Þjóðminjasafn Íslands, og er hann stundum talinn fyrstur til að stunda fornleifauppgröft á Íslandi. Tilgangur rannsókna þeirra Jónasar og Sigurðar var að staðfesta hugmyndir manna um þinghald til forna. Hvorug rannsóknin gaf nokkuð til kynna, sem gagnast gat kenningum manna um það efni.

íslenskur söguatlas

Íslenskur söguatlas – kápa.

Í nýju og metnaðarfullu riti, Íslenskum söguatlas, er ýjað að því að Ísland sé eitt af fáum löndum í heiminum sem þekki upphaf sitt og að sú saga sé varðveitt í rituðum heimildum. Þessi ríkjandi skoðun hefur oft verið sett á blað. Ef heimildaskrá bókarinnar er athuguð kemur í ljós að aðeins þrír „fornleifafræðingar“ fá þar inni og eru það þeir Brynjúlfur Jónsson (frá Minna-Núpi), dr. Kristján Eldjárn og dr. Sveinbjörn Rafnsson prófessor í sagnfræði. Er ein grein tilgreind eftir hvorn þeirra Brynjúlf og Kristján, en fjórar heimildir eru eftir Sveinbjörn og er engin þeirra um fornleifafræði. Athyglisvert er að doktorsritgerð Kristjáns frá árinu 1956, Kuml og haugfé, er ekki nefnd. Athyglisvert er að fornleifarannsóknir fóru fram á Vesmannaeyjum síðast árin 1971-1983, er ekki getið í Íslenskum söguatlas. Var þar þó um að ræða einn viðamesta uppgröft sem fram hefur farið á Íslandi. Enginn núlifandi íslenskur fornleifafræðingur nema Sveinbjörn Rafnsson er kynntur til sögunnar í heimildaskránni. Því verður að draga þá ályktun að leitað sé í smiðju sagnfræðinga og að hugmyndir þeirra um upphaf Íslandsbyggðar séu ríkjandi varðandi íslenska forsögu og fornleifafræði.

Fátæklegar eru fornleifarnar og rýr er arfleifðin!

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Sú rótgróna skoðun að íslenskar fornleifar séu fáar og fátæklegar hlýtur að hamla fornleifarannsóknum, sem og áhuga fræðimanna og möguleikum þeirra á að fjármagna slíkar rannsóknir þar sem fjárveitingavaldið veit ekki betur en að slíkum peningum sé ekki sérlega vel varið. Og hver nennir að leggja lag sitt við ómerkilegar þústir og þúfur sem eru aðeins hjákátlegt endurvarp stórkostlegra tíma þegar hetjur riðu um héruð og hjuggu mann og annan? Í bókum er geymd hin sanna mynd fortíðarinnar, sem hinar væskilslegu fornleifar megna ekki að lýsa eða gera grein fyrir.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli.

Íslendingasögurnar eru í hæsta máta gagnslitlar sem vitnisburður um forsögu þessa lands, en það rýrir á engan hátt gildi þeirra sem bókmennta. Landnáma, Íslendingabók og Íslendingasögurnar eru fyrst og fremst heimildir um þann tíma sem skóp þær, þá siði og þær venjur sem ríktu á ritunartíma þeirra.
Ég legg áherslu á að ég er að ræða um forsögu þessarar þjóðar eða 9. og 10. öldina. Varðandi aðrar aldir eiga fornleifafræði og sagnfræði að gegna sínu hlutverki sem sjálfstæðar greinar og hönd í hönd ef þurfa þykir. Dæmi um góðan árangur rannsókna þar sem sagnfræðilegum og fornleifafræðilegum aðferðum er beitt, svo til jöfnum höndum, eru rannsóknirnar á Sámstöðum, Stöng og í Viðey.
Þess má geta að víkingaöldin telst til miðalda á Bretlandseyjum og í Mið- og Suður-Evrópu, en hún tilheyrir forsögulegum tíma á Norðurlöndum. Þannig er verulegur áherslumunur á því hvernig menn nálgast þessi tímabil á þessum svæðum. Á Bretlandseyjum og annarsstaðar í Mið- og Suður-Evrópu eru til ritaðar samtímaheimildir og víðast hvar eldri en víkingaöld, en slíkar heimildir eru alls ekki til á Íslandi frá landnámsöld og skeikar fleiri hundruð árum. Því verður að skilgreina upphaf byggðar í landinu sem forsögulegan tíma og hann verður að nálgast með viðeigandi aðferðum og hugarfari.

Ísland og umheimurinn

Torfbær

Torfbær.

Ástæður þess að fornbæir eru jafn vel varðveittir hér á landi og raun ber vitni eru trúlega margar, en aðalástæðan er vafalaust sú tegund landbúnaðar sem hér hefur ríkt til svo langs tíma. Á Íslandi hefur plógurinn ekki farið þeim hamförum sem hann hefur gert í Evrópu. Kornrækt var varla stunduð hér á landi í neinum mæli og landið því sloppið bærilega frá þeirri bætiefnaviðbót og því skordýraeitri sem nauðsynlegt hefur verið talið erlendis. Þessi efni fara gjarnan illa með fornleifar og innihald þeirra.
Hér hefur einnig átt sér stað landeyðing sem hægt er að tengja við ákveðna tegund af skepnuhaldi og sú landeyðing hefur valdið mikilli jarðvegsþykknun á stöku stað og hlíft þeim fornleifum sem undir eru. Jarðvegsþykknun hefur líka orðið vegna eldgosa.

Litla Brekka

Litla Brekka – síðasti torfbærinn í Reykjavík. Bærinn stóð við Suðurgötu.

Byggðaþróun í landinu er trúlega þáttur sem þjónað hefur fornleifum vel, en víða hefur verið byggð í afdölum og á öðrum afskekktum stöðum í fyrndinni sem lagðist af eftir tiltölulega skamman tíma og var aldrei aftur upp tekin. Þessar leifar eru flestar frá landnámsöld og eru trúlega margar, án þess að tölu verði á þær komið. í þessu sambandi er vert að minna á umræðuna hér að framan um skráningarstöðuna, en skráning á svokölluðum föstum fornleifum (bæjarhólum, kumlum, beitarhúsum, fjósum, vörum o.s.frv.) hefur aðeins farið fram á örfáum stöðum hér á landi.
Ísland er annað tveggja landa í veröldinni þar sem þjóð á sér upphaf á seinni hluta járnaldar (400-1050 e. Kr.), en Nýja Sjáland byggðist einnig á níundu öld. Þó er sá munur á að Nýja Sjáland var numið aftur löngu seinna af mönnum úr gerólíkum menningarheimi en þeim sem fyrir var í landinu. Þessum séríslensku aðstæðum er vert að gefa gaum því þær gefa marga einstaka möguleika sem sjálfsagt er að nýta sér.

Papey

Papey – fornleifauppgröftur við Hellisbjarg.

Ísland er norðlægt land og að sumu leyti afar mikilvægt fyrir rannsóknir á þessum hluta jarðarinnar. Ísland og Færeyjar eru einu löndin þar sem landnám norrænna manna varð til frambúðar. Annars staðar hvarf búsetan með öllu eða týndist inn í þjóðarbrot sem fyrir voru í landinu. Á báðum stöðum er aðeins um landnám eins hóps að ræða sem þýðir að þegar rannsaka á þætti eins og þróun verktækninnar, þróun hýbýla, þróun landbúnaðarhátta, aðlögun í nýju landi, þróun stjórnsýslunnar svo eitthvað sé nefnt, er ekki um neina truflandi þætti að ræða. Það þarf ekki að glíma við þann vanda sem skapast þegar eldri minjar blandast þeim yngri sem dæmi eru um annarsstaðar þar sem búseta hefur varað í fleiri aldir á sama stað og oft af mismunandi menningarlegum uppruna.

Hvað er til ráða?

Urriðakot

Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; fornt sel frá Hofstöðum.

Ef íslensk fornleifafræði á að geta vaxið úr grasi og þróast á svipaðan hátt og annarsstaðar í heiminum verða ýmsar forsendur að vera til staðar, sem nú vantar. Varla vex fræðigreinin af eða í sjálfri sér og alls ekki sem hjálparhella annarrar fræðigreinar. Fornleifar, lausar sem fastar, eru meginundirstaðan undir forsögu þjóðarinnar og fornleifafræðin meginfræðigreinin er fæst við þá sögu.
Með ákveðnum rétti er hægt að halda því fram að íslensk fornleifafræði sé ekki til því hér hefur engin kennsla í greininni farið fram, menntun verið af skornum skammti og engin eiginleg rannsóknastofnun til. Engin sjálfstæð þjóð í Vestur-Evrópu (og þó víðar væri leitað) er án háskóladeildar í fornleifafræði. Engin önnur þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáa fornleifafræðinga á launum og Ísland og engin þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáar fastar stöður í greininni og Ísland. Þetta þýðir að enginn eðlilegur farvegur er til fyrir málefnalega umræðu og nauðsynlega þróun fræðigreinarinnar. Allt verður hendingum háð.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson – fornleifauppgröftur að Stöð.

Við höfum litið á fornleifafræði sem tiltölulega takmarkaða vísindagrein enda fornleifarnar sem slíkar „engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“. Að auki eru þær bæði „fáar og fátæklegar“. Þegar þessi viðhorf eru ráðandi er eðlilegt að fornleifafræði eigi sér ekki ýkja mikla möguleika sem sjálfstæð fræðigrein.
Ef Ísland vill verða hluti af alþjóðlegu fornleifafræðiumhverfi verðum fornleifafræðingarnir sjálfir að vinna og vera duglegri við að koma niðurstöðum sínum á framfæri til fræðimanna, almennings og ráðamanna. Við verðum sjálf að skilgreina markmið okkar og leiðir og sjálf að gefa fornleifafræðinni það inntak sem hún getur haft hér á landi.

Þjóðminjasafnið

Í Þjóðminjasafninu.

Efla þarf sérstaklega Þjóðminjasafn Íslands, bæði að fé, mannafla og tækjum. Deild innan Háskóla Íslands myndi hafa heillavænleg áhrif á starf Þjóðminjasafnsins og önnur þau söfn sem stunda fornleifafræði og virka hvetjandi á faglegt starf þar í fornleifafræðum.
Fræðigrein sem ekki nýtur sjálfstæðis, ber takmarkaða virðingu fyrir sjálfri sér og viðfangsefnum sínum og er varla til, á erfitt með að taka þátt í þverfaglegu samstarfi við aðrar fræðigreinar á jöfnum grundvelli. En það er einmitt í viðfangsefnum hennar og þverfaglegu samstarfi sem framtíðarhorfur íslenskrar fornleifafræði liggja.“

Vefsíðuhöfundur varð þess heiðurs aðnjótandi að starfa með Bjarna að uppgreftri landnámsbæjarins í Vogum (Höfnum) um nokkurra vikna skeið í lok síðustu aldar…

Heimild:
-Skírnir, 01.09.1994, Íslenskar fornleifar: Fórnarlömb sagnahyggjunnar? – Bjarni F. Einarsson, bls. 377-400.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

Garðahverfi

Í Archaeologia Islandica 1998 spyr Orri Vésteinsson m.a. um „Hvað er stekkjarvegur langur?„:

Arc 1998

Archaeologina Islandica 1998 – forsíða.

„Allt frá því fyrir 1980 hefur töluverð umræða verið um það meðal fornleifafræðinga og safnamanna að nauðsynlegt sé að gera gangskör að því að skrá fornleifar á Íslandi. Skráningin snýst fyrst og fremst um að þær upplýsingar sem safnað er hafi eitthvert áþreifanlegt gildi fyrir stærri hóp en þann sem hefur atvinnu af því að láta sér annt um menningarminjar. Í þessari grein verður fjallað um hvernig fornleifaskráning getur komið að gagni við rannsóknir á menningarsögu, en einnig verður gerð grein fyrir helstu markmiðum fornleifaskráningar og fjallað um hvernig skráningunni þarf að vera háttað til að þær upplýsingar sem safnað er nýtist til fulls.
Tryggja þarf að skráningargögnin komi að sem mestu gagni. Í því sambandi verður að hafa í huga hverjir munu nota gögnin og í hvaða tilgangi — en þar fyrir utan er fyrirsjáanlegt að stórt gagnasafn um minjastaði verður mjög fljótlega frábært rannsóknargagn fyrir byggða- og menningarsögu.

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson, fornleifafræðingur.

Það eru ekki bara fornleifafræðingar sem geta þurft að kynna sér gögn um staðsetningu, gerð og ástand minjastaða. Skráningargögn þurfa að vera aðgengileg og skiljanleg öllum sem hafa áhuga á menningarsögu, bæði fræðimönnum úr öðrum vísindagreinum og fróðleiksfúsum almenningi.
Allir sem koma nálægt skipulagsgerð eða annarri áætlanagerð um framkvæmdir sem og þeir sem að framkvæmdum standa þurfa einnig að geta fengið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu minjastaða. Þetta þýðir að skráningarmenn geta ekki látið eftir sér að skrá eingöngu eftir sínu eigin höfði og áhugamálum ef þeir vilja að upplýsingarnar sem þeir safna komi að fullum notum fyrir verndun minjastaða.

Gamlasel

Gamlasel frá Villingavatni efst í Gamlaselsgili – stekkurinn t.h. Við sérhverja fjarlæga selstöðu bæja var óhjákvæmilega stekkur. Auk hans má í sérhverju seli á Reykjanesskaganum (þrjú rými; baðstofu, búr og eldhús) finna vatnsstæði (á eða læk), selsvörðu og/eða kví, auk nátthaga og oftlega smalaskjóls.

Það er list að lýsa landslagi og leiðum á svo skýran hátt að ókunnugir sjái fyrir sér staðhætti og geti ratað á þá staði sem verið er að fjalla um. Slíku listfengi er hins vegar sóað á hinn ört vaxandi hóp hönnuða og annars tæknimenntaðs fólks sem mestu ræður núorðið um mannvirkjagerð og jarðrask í landinu. Slíkt fólk kýs yfirleitt frekar að nálgast upplýsingar af þessu tagi á stafrænu eða myndrænu formi og það er því mikilvægt að gögnum um staðsetningu minjastaða sé einnig safnað á þann hátt. Þar á ég bæði við kort með nákvæmum tilvísunum og eins hnit sem auðvelt er að varpa yfir í staðbundin hnitakerfi.
Samkvæmt 18. gr. þjóðminjalaga er skylt að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skráning fornleifa er því liður í að framfylgja þjóðminjalögum. Það er ekki skýrt í lögunum hversvegna löggjafinn vill að til sé skrá um fornleifar, en það er hins vegar augljóst að þekking á staðsetningu, gerð og ástandi minjastaða er forsenda þess að hægt sé að vernda fornleifar í landinu.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Skilvirk minjavarsla hlýtur að vera meginmarkmið fornleifaskráningar. Það er ekki hægt að vernda minjastaði nema við vitum að þeir séu til og hvar þeir eru. Það er heldur ekki hægt að gera áætlanir um minjavörslu nema fyrir liggi þekking á fjölda, ástandi og gerð minjastaða. Þegar þekkingin liggur ekki fyrir eru slíkar ákvarðanir skot út í loftið og ávallt tekin sú áhætta að verið sé að eyðileggja minjastaði sem hafa varðveislugildi. Taka má sem dæmi að standi til að leggja veg yfir stekkjartóft þá væri auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að ekki væri stór skaði skeður þó hún viki. Nóg sé af stekkjunum um land allt og langt þangað til þeir verði allir upp urnir.
Það er alveg rétt og við mætti bæta að stekkir hafi tæplega mikið rannsóknargildi – við vitum vel til hvers þeir voru notaðir og erfitt að sjá hvernig hægt er að flækja það mál að ráði. Það hefur hins vegar komið í ljós við fornleifaskráningar að þar sem stekkir eru mjög fjölbreytilegir að gerð, bæði er lögun þeirra með ýmsu móti og stærðin mismunandi. Það er ekki skýrt af hverju þessi munur stafar og bændur þeir sem rætt hefur verið við hafa yfirleitt lýst yfir undrun sinni á að stekkir skuli ekki allir vera eins og stekkurinn þeirra.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Þangað til við komumst að því af hverju hin fjölbreytilega gerðfræði stekkja stafar og þangað til við vitum hversu margir fulltrúar eru til fyrir hverja gerð tökum við þá áhættu að mikilsverðar heimildir um menningarsögu okkar glatist í hvert skipti sem við leyfum stekkjartóft að hverfa undir veg eða sumarbústað.
Það kann einhverjum að finnast hálfhlægilegt að hafa áhyggjur af málum sem þessu þar sem minjavarsla á Íslandi er langt frá því að vera í stakk búin til að vernda einstaka stekki hvað þá meira. Kerfið er svo ófullkomið að það kemur einfaldlega ekki til þess að taka þurfi illa ígrundaðar ákvarðanir — eftirlitið er ekkert og eyðilegging fornleifa heldur áfram eftir sem áður. Ef
eitthvað hefur dregið úr eyðileggingu minjastaða síðustu árin er það vegna samdráttar í landbúnaði en ekki efldrar minjavörslu.

Heimristekkur

Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Við hljótum hins vegar að stefna að markvissari verndun fornleifa á Íslandi og við skráningu fornleifa er því nauðsynlegt að taka mið af hugsanlegum þörfum skilvirkari minjavörslu jafnvel þó að langt sé í að hún verði að veruleika. Það má einnig færa rök fyrir því að fornleifaskráning sé ekki einungis forsenda minjavörslu, með því að safna upplýsingum um fornleifar og vera þannig tæki í höndum þeirra sem vernda vilja minjastaði, heldur sé hún bein minjavernd.
Bændur eru auðvitað sú þjóðfélagsstétt sem stendur fyrir hvað stórfelldastri eyðileggingu menningarminja, en það er yfirleitt ekki af illgirni eða fautaskap, heldur einfaldlega af því að þeim hefur ekki verið leitt fyrir sjónir að öðru fólki finnist tóftabrot og rústabungur í landi þeirra merkilegar. Þegar það hefur einu sinni verið gert eru þeir langoftast reiðubúnir til að taka tillit til minjanna og verða oft á tíðum mjög áhugasamir um varðveislu þeirra.

Borgarkotsstekkur

Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Á þennan hátt eflir fornleifaskráning meðvitund um fornleifar en það er auðvitað langódýrast og einfaldast ef hægt er að byggja minjavörslu á áhuga heimamanna. Það er jafnframt eðlilegast því minjarnar hafa eða ættu að hafa mest gildi fyrir þá sem næst þeim búa.
Við höfum ekki hugmynd um hversu mikið af fornleifum verður uppblæstri að bráð á ári hverju, né höfum við forsendur til að meta hversu skaðvænleg áhrif stóraukin skógrækt í landinu hefur á fornleifar. Ef við ætlum einhvern tíma að geta spornað gegn eyðileggingu fornleifa hvort heldur sem er af völdum náttúruafla eða af mannavöldum verðum við að hafa aðgang að upplýsingum um umfang eyðileggingarinnar.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011 (friðuð). Fornleifarnar hafa hins vegar verið klæddar skógi.

Það er hæpinn málstaður á Íslandi í dag að berjast gegn skógrækt en ef við hefðum í höndum tölulegar upplýsingar um hversu margir minjastaðir væru í hættu vegna trjáræktar þá ættum við mun auðveldara með að fá skógræktarfólk til taka mark á sjónarmiðum minjavörslu.
Ekki er hægt að rannsaka minjastað eða kynna hann fyrir ferðamönnum eftir að búið er að setja jarðýtur á hann. Það hjálpast hins vegar allt að í þessu máli, því að efld meðvitund um fornleifar, hvort heldur sem er með heimsóknum fornleifaskrásetjara, markvissri kynningu eða rannsóknum, mun skila sér í bættri varðveislu minjastaða.

Baðsvellir

Baðsvallasel í miðjum Selskógi.

Kynning á fornleifum er siðferðileg skylda okkar sem erum svo lánsöm að mega hlaupa um holt og móa í leit að minjastöðum; okkur ber að gera þau gögn sem við söfnum aðgengileg fyrir almenning og það stendur einnig upp á okkur að setja skráningarupplýsingarnar í menningarsögulegt samhengi svo að þær komi að sem mestum notum fyrir sem flesta. Sem mögulegir áningarstaðir ferðamanna hafa minja staðir einnig efnahagslegt gildi en skipuleg og yfirgripsmikil skráningarvinna er forsenda þess að hægt sé að velja úr heppilega minjastaði sem eru bæði áhugaverðir og þola ágang.

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Saga landsins og menningararfur er í síauknum mæli notuð sem söluvara fyrir erlenda ferðamenn og oft á tíðum er sú markaðssetning meira af vilja en mætti og stundum afar óvönduð. Ferðamálafrömuðum er tæplega neinn akkur í að kynna fortíð landsins eða ákveðinna staða á þann ófullkomna hátt sem oft er raunin, en þeir munu halda áfram á þeirri braut uns vandaðri upplýsingar eru gerðar aðgengilegar. Léleg og óvönduð landkynning er á góðri leið með að verða vandamál sem dregið gæti úr tekjum Íslendinga af erlendum ferðamönnum, en ein af leiðunum til að hamla gegn slíkri þróun er að auka upplýsingasöfnun og þar með talið fornleifaskráningu.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu.

Skipuleg gagnasöfnun eins og fornleifaskráning er auðvitað forsenda þess að hægt verði að stunda ýmiskonar rannsóknir. Heildstætt gagnasafn um minjastaði auðveldar mjög starf fornleifafræðinga þegar kemur að því að finna staði sem áhugaverðir væru til að rannsaka nánar. t.d. með uppgrefti.
Mikilvægt er að skipuleggja fornleifaskráningu þannig að gögnin nýtist öllum sem best og komi að fullum notum hvort sem er við verndun, kynningu eða rannsóknir. Engin fornleifaskráning er fullkomin en ef stefnumörkun er skýr og aðferðafræðin liggur ljós fyrir á skráningarvinnan að verða markvissari og leiðréttingar auðveldari.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Hefðbundin fornleifaskráning hefur fyrst og fremst miðað að því að skrá minjastaði sem sýnilegir eru á yfirborði. Þar hefur líklega ráðið mestu um að það er auðvitað nærtækast og jafnframt að sýnilegir minjastaðir eru augljóslega meira spennandi við fyrstu sýn en minjastaðir sem búið er að slétta yfir eða byggja á.

Það er hins vegar ljóst að mannvirkjaleifar sem sýnilegar eru á yfirborði eru aðeins brot af öllum þeim fornleifum sem til eru í landinu og jafnframt að slíkir staðir eru næsta tilviljanakennt úrtak af öllum minjastöðum. Á þessari öld hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir í landbúnaði og stór hluti láglendis hefur verið ræstur fram og sléttaður undir tún.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda.

Á milli 1940 og 1980 voru svo til öll tún á Íslandi gerð véltæk og stór landflæmi sem áður höfðu verið móar og mýrar brotin undir tún, en á milli 1917 og 1990 hafa tún að jafnaði meira en tífaldast að stærð. Þessar miklu framkvæmdir og breytingar á landslagi hafa haft í för með sér að stór hluti fornra mannvirkja hefur annað hvort farið forgörðum eða spillst. Þær fornleifar sem verst hafa orðið úti eru einmitt þær sem mest var til af áður — það er bæjarhólar og útihús innantúns. Það leiðir af þessu að flestar þær fornleifar, sem enn eru sýnilegar, eru leifar mannvirkja sem voru í jaðri atvinnu- og efnahagslífs í gamla landbúnaðarsamfélaginu.

Leynir

Byrgi í Leyni. Nú horfið undir framkvæmdir.

Allar mannvistarleifar njóta lagaverndar og gildir þar einu hvort þær eru sýnilegar á yfirborði eða ekki og því er jafnmikilvægt að skrá þær sem ósýnilegar eru og hinar sem enn sjást á yfirborði. Á það má einnig benda að minjar sem huldar eru sjónum eru jafnvel í meiri hættu en þær sem sýnilegar eru því að líklegra er að þær verði fyrir raski af ógáti eða vanþekkingu. Frá sjónarmiði framkvæmdaaðila sem komast vilja hjá því að rekast á fornminjar við jarðrask er því brýnt að til séu upplýsingar um staðsetningu minja sem ekki eru sýnilegar á yfirborði.

Það eru auðvitað ýmis vandkvæði á því að skrá minjar sem ekki eru sýnilegar og vonlítið að hægt verði að komast að staðsetningu allra slíkra staða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með skipulegri heimildaöflun er hins vegar hægt að komast nærri um staðsetningu allmargra slíkra staða og einnig má styðjast við óbeinar vísbendingar eins og landslag og gróðurfar til að meta almennar líkur á að mannvistarleifar finnist á tilteknum landsvæðum. Við getum aðeins fengið heildarmynd af mannvirkjagerð og efnahagslífi á hverri jörð ef við reynum að skrá allar mannvistarleifar sem þar eru, hvort sem þær eru sýnilegar eða ekki.
Langflestar fornminjar á Íslandi tengjast búsetu og hefðbundnum búskaparháttum og bendir flest til að mannvirkjagerð því tengd hafi verið í nokkuð föstum skorðum lengst af þeim tíma sem landið hefur verið byggt. Búseta hefur – eftir því sem við best vitum — verið stöðug og ekki er sýnilegt að stórfelldar breytingar hafi orðið í skiptingu landsins í jarðir a.m.k. frá því á hámiðöldum þegar ritheimildir koma til sögunnar. Flestar fornleifar hafa því orðið til í mjög fastmótuðu samhengi og það er nauðsynlegt að skrá upplýsingar um þetta samhengi jafnhliða hinni eiginlegu fornleifaskráningu.

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Með samhengi fornleifanna er átt við byggðamynstur, skiptingu byggðarlaga í jarðir og skiptingu jarða í býli; einnig hagræn og náttúrufarsleg atriði eins og staðsetningu og gæði bithaga eða engja. Aðeins með því að gera okkur grein fyrir eignarhaldi og landnotkun höfum við forsendur til að skilja af hverju hús stóðu þar sem þau stóðu, af hverju byggð hélst á sumum stöðum en öðrum ekki og af hverju byggð var reynd á sumum stöðum en öðrum ekki — en slíkar spurningar eru liður í að skilja hvernig Íslendingar lifðu af þessu landi allar þessar aldir. Sjálfsævisögur hafa reynst mikilsverðar heimildir í þessu samhengi — það er nánast regla að á þriðju eða fjórðu síðu í sjálfsævisögum fólks sem fætt er um eða fyrir síðustu aldamót er sagt frá hvar höfundur sat yfir ám, hvernig háttað var fráfærum og upplýsingar um kúahaga og grasatekju fljóta einnig oft með. Þegar slíkar upplýsingar hafa verið færðar inn á kort fara strax að skýrast staðsetningar mannvirkja sem áður virtist óskiljanlega dritað niður um holt og móa. Á grunni slíkra upplýsinga má jafnvel gera ýmsar áhugaverðar athuganir og verður hér í lokin gerð grein fyrir lítilli tölfræðilegri úttekt sem gerð var á lengd stekkjarvegar.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Ég er fæddur svo seint á 20. öld að hið litla sem ég veit um sveitalíf og gamla búskaparhætti hef ég þurft að læra af öðrum, og mest af bókum, eftir að ég komst á fullorðinsár. Það er ekki óskaplega langt síðan ég gerði mér grein fyrir til hvers stekkir voru hafðir eða hver væri munurinn á þeim og kvíum. Þó mér hafi nú loksins skilist hlutverk þessara mannvirkja hefur lengdareiningin stekkjarvegur valdið mér heilabrotum. Ég velti því til að mynda fyrir mér hvort tilvist þessa hugtaks væri vísbending um eitthvert aðdáunarvert samræmi í mannvirkjagerð eða hvort það væri einhver einföld og augljós ástæða fyrir því að vegalengdin milli bæjar og stekkjar væri yfirleitt svipuð.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Af fjölda þekktra stekkja í tiltekinni sveit er u.þ.b. þriðjungur þeirra enn sýnilegir. Auðvelt er að reikna út vegalengdina á milli þessara staða. Yfirleitt er augljóst hvaða bæ stekkur tilheyrði eða til eru góðar heimildir um það. Stekkjarvegir eru mjög mislangir, stystur var hann 213 metrar en lengstur 1276 metrar. Meðaltalið var 575 metrar en tíðustu gildin voru í kringum 400 metrana og virðist það sennilegasta nálgunin á þeirri vegalengd sem hugtakið stekkjarvegur felur í sér. Líklegast er auðvitað að hugtakið hafi verið eins og mörg önnur vegalengdarhugtök í gamla landbúnaðarsamfélaginu verulega teygjanlegt og ekki átt að vera mikið nákvæmara en að vera lengra en fjósvegur en styttra en bæjarleið.
Þetta teljast varla menningarsöguleg stórtíðindi en þetta minnir okkur á að fornleifaskráning getur hjálpað okkur til að skilja betur ýmsa ólíka þætti í menningu Íslendinga.

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

Þó að gaman sé að hafa hugmynd um lengd stekkjarvegar þá má hugsa sér fleiri samhengi þar sem sú vegalengd getur verið nytsamleg. Það er t.d. áberandi að lengstu stekkjarvegirnir voru á þeim jörðum sem dýrast voru metnar og er þar um allgóða fylgni að ræða. Ef þessi athugun prófast á stærri gagnasöfnum þá er hér komin sjálfstæð vísbending um gæði jarða. Samhengið er líklega það að jarðir sem dýrar voru metnar gátu fóðrað fleira sauðfé, og fleira sauðfé hefur þurft stærri bithaga sem hafa þar með teygt sig lengra frá bæ en á jörðum með færra sauðfé og minni dýrleika. Næsta skrefið í þessum rannsóknum verður að mæla stærð stekkjanna og bera saman við tölur um fjölda sauðfjár á jörðum á 18. og 19. öld. Ef fylgni er milli allra þessara talna þá verður hægt að nota þau hlutföll sem líkön á aðrar jarðir þar sem sambærilegar upplýsingar eru ekki þekktar og líka á eldri tímaskeið, og með því reynt að endurgera búfjárfjölda og stærð bithaga á fornbýlum.

Eldvörp

Eldvörp – minjar (geymslubyrgi) sem ekkert hafa verið sannsakaðar.

Rannsóknir í menningarsögu eru ekki langt á veg komnar á Íslandi og hafa til skamms tíma einskorðast við ritheimildir og munnlegar heimildir og hafa rannsóknarspurningarnar verið mótaðar af fólki sem sjálft stóð með annan fótinn í gamla landbúnaðarsamfélaginu og hafði þar með ekki forsendur til að skilja hvað við sem yngri erum skiljum ótrúlega lítið. Markviss og kerfisbundin fornleifaskráning er augljós leið til draga fram nýjar heimildir og þróa nýjar rannsóknarspurningar sem eru skiljanlegar og áhugaverðar fyrir hinn sístækkandi hóp malbiksbúa. Þær kynslóðir sem höfðu persónulega reynslu af hefðbundnum búskaparháttum eru óðum að hverfa og að þeim gengnum höfum við ekki aðrar heimildir en það sem tókst að skrifa niður eftir þeim og þær leifar sem þær skildu eftir í jörðinni.

Kaldársel

Kaldársel (nú horfið síðan 1925) – tilgáta ÓSÁ.

Fornleifarnar eru að hverfa næstum því jafn hratt og örugglega og fólkið og því er brýnt að sporna gegn eyðileggingunni með fornleifaskráningu sem bæði forðar upplýsingum frá glötun og er forsenda skilvirkrar minjaverndar.“

Frá því að hin framangreindu ágætis áhríningarskrif voru sett á prent árið 1998 hefur a.m.k. tvennt gerts; annars vegar hefur fornleifaskráningum fjölgað til muna og þær gerðar aðgengilegri, settar fram t.d. í þeim tilgangi að minnka líkur á eyðileggingu þekktra fornleifa, og hins vegar hefur þeim embættismönnum og verkfæðingum fjölgað, sem ekkert mark taka á slíkum fyrirliggjandi gögnum.

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekkur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá ber einnig þess að geta, í ljósi af framangreindum skrifum, að stekkir voru ekki bara stekkir, þ.e. óumbreytanlegir, frá einum tíma til annars, s.s. frá upphafi landnáms til byrjun 20. aldar er þeir að lokum lögðust af – sjá HÉR. Máli skiptir um hvaða einstaka tímatal er um að ræða. Þegar seljabúskapurinn stóð sem hæst voru stekkirnir jafnan í selstæðum fjarri bæjum, en þegar fjaraði undan selsbúskapnum færðust stekkirnir nær bæjunum og jafnvel heim að túnmörkum undir hið síðasta. Þar með styttist stekkjarvegurinn úr nokkrum kílómetrum í nokkuð hundruð eða jafnvel tugi metra. Máli skiptir því við hvaða tímabil er miðað þegar fjallað er um mælingar á „stekkjarveginum“…
Annars skiptir lengd „stekkjarvegarins“ minnsta máli í framangreindri umfjöllun.  Hins vegar ánægjulegt til þess að vita selsstígunum sé gefinn séstakur gaumur því lengst af í fyrrum fornleifaskráningu var þeirra jafnan hvergi getið. Þá ber að taka skrifin um gildi fornleifanna, skráningu og varðveislu þeirra þess alvarlegar!

Heimild:
-Archaeologia Islandica, 1. tbl. 01.01.1998, Hvað er stekkjarvegur langur? – Orri Vésteinsson, bls. 47-57.

Garðastekkur

Garðastekkur, heimasel sem varð að rétt. Stekkurinn (gróinn) er neðst t.v. á myndinni.

Fremstohöfði

Í fornum lögum og ritum um Landamerki og Landamerkjabækur er kveðið á mikilvægi bæði staðfestingar slíkra merkja sem og skrár um mögulegar tilfærslur þeirra.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Varða hefur nú verið eyðilögð.

Skylt var við sölu fyrrum að ganga á merki um land, skóga, engjar, reka, veiði og afrétti, ef til væru, og öll auðæfi (þ.e. ítök eða gæði), sem landinu ætti að fylgja, svo og auðæfa (ítaka), sem aðrir ættu í það land eða ættu að fylgja því í öðrum löndum samkvæmt landbrigðaþætti Grágásar. Ekki var skylt að ganga til merkja, ef firðir lágu fyrir eða ár, sem netnæmir fiskar gengu í, deildu landi, nema ef eyrar (réttara: eyjar) lágu fyrir landi og skyldi kveða á um þær. Sýna skyldi merki í eyjum, sem væru í sameign. Ekki var skylt að ganga á fjöll, þar sem vatnaskil væru milli héraða. Það varðaði fjörbaugsgarð, ef menn leyndu merkjum eða villtu fyrir mönnum eða færðu merkin.

Hádegishóll

Hádegishóll – landamerkjavarða.

Ákvæði landabrigðabálks Jónsbókar eru efnislega samhljóða en gagnorðari. Merkjaganga var áskilin innan tólf mánaða frá sölu. Þar er einnig lýst eignaskiptum á jörðum: „Meður skafti eða taugu á jörðum að skipta innan garðs en sjónhendingum utan garðs. Marksteina skal þar niður setja og grafa sem þeir verða ásáttir og leggja hjá þrjá steina og eru þeir kallaðir lýritar. Svo skulu héraðsmenn jörðum skipta með þeim mönnum öllum er þar eigu hlut í að vel megi hver síns njóta, og engi þeirra þurfi kvikfé sitt heiman yfir annars land að reka. … Um þveran dal skal í sundur skipta ef það er dalland, nema þar falli á sú að eigi gangi kvikfé yfir og sé þeim jafnhægt til, þá er rétt að skipta að endilöngum dalnum.

Jónsbók

Jónsbók hin forna.

Í gildandi ákvæðum Jónsbókar segir um landamerki í 16. gr.:

Um landamerki
Nú ganga menn á landamerki, ok verða eigi ásáttir, þá skulu þeir lögfesta til þeirra ummerkja, er þeir segja rett vera, er þar eíga land til móts, fyrí utan eðr ofan. En ef þeir lögfesta eigi innan 12 mánaba síðan þeir hafa á merki gengit, þá eiga þeir þess máls aldri uppreist.
Nú lögfestir maðr yiir merki fram, þar sem rétt var til gengit, bæti hinum skaða þann allan, sem hann hafði af því ok öfundarbót með, eptir 6 manna dómi. Ef maðr lögfestir haga sinn, þá skal sá maðr, er land á þar næst, láta reka bú sitt allt í þat horn landsins sem firrst er lögfestu hins. En ef fleiri menn hafa lögfest, þá skal hann láta reka í miðjan haga sinn fé sitt um aptna. Hann skal hafa rekit þat úr haga hins, þá sól er í austri miðju, þat sem hann mátti finna, þat heita hirðis rismál. Hann skal hafa menn til sitja at um at daga, ok ef svá er gjört, þá er hann sýkn saka, þó at hagi hins beitist. Hvergi á maðr at bæta fyri hagabeit, nema lögfest sé, utan hann láti reka at landi eða í land hins, svá at hann vildi at hagi hins beitist, þá bæti fyri skaða, ok landnám með, þeim er gras á. Svá ef hann varðar miðr við þar sem lögfest er en fyr var skilt, ok svá ef hann fær eigi þann mann til hirðis, er skynsömum mönnum virðist at vel megi gæta, ef hann vill.“

Kristján V

Kristján V. (1646 – 1699) var konungur Dansk-norska ríkisins frá 1670 til dauðadags. Hann var sonur Friðriks 3. og Soffíu Amalíu af Brunswick-Lüneburg. Hann giftist árið 1667 Charlotte Amalie af Hessen-Kassel og átti með henni átta börn, þar á meðal ríkisarfann Friðrik. Hann var fyrsti erfðakonungur Danmerkur sem tók við samkvæmt Konungslögum Friðriks 3.
Kristján lét lögtaka Dönsku lög 1683 og Norsku lög 1687.

Hafa ber í huga að framangreint ákvæði Jónsbókar frá 1281 er enn í fullu gildi hér á landi.

Kristján V. setti lög um landamerki, en norsku lögin þau kváðu ekki á um ákvörðun landamerkja nema dómþing skyldi halda í þeirri þingsókn, sem umdeild eign lægi. Hins vegar segir að „Hver [sá] sem tæki upp, flytti eða setti landamerkjastein eða þoll (þ.e. staur) án löglegrar meðferðar, hann fremdi svik og ætti konungur hönd hans (þ.e. varðaði handarmissi)“.

Frumvörp um landamerki komu fram á Alþingi árin 1877 (ekki útrætt), 1879 (fellt) og 1881, sem samþykkt var með breytingum.
Landamerkjalögin nr. 5/1882 voru staðfest 17. mars 1882. Hver landeigandi var skyldur til þess að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sína, hvort sem hann bjó á henni eða ekki. Sama gilti um umsjónarmenn jarða, sem ekki væru eign einstakra manna. Sama regla gilti um afrétti og aðrar óbyggðar lendur, eftir því sem við yrði komið. Þar sem ekki væru glögg landamerki, sem náttúran hefði sett, svo sem fjöll, gil, ár eða lækir, en sjónhending réði, skyldi setja marksteina eða hlaða vörður á merkjum með hæfilegu millibili eða hlaða merkjagarð eða grafa merkjaskurð. Eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldi skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar og geta ítaka eða hlunninda, sem aðrir ættu í land hans, svo og þeirra sem jörð hans ætti í annarra manna lönd. Merkjalýsinguna skyldi hann sýna hverjum, sem ætti land til móts við hann, og eigendum lands, sem hann teldi jörð sína eiga ítak í. Skyldu þeir rita samþykki sitt á lýsinguna, hver fyrir sína jörð. Þegar samþykki hefði verið fengið og áritað, átti að afhenda hana sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi.

Landmælingar

Lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1957.

Sýslumaður skyldi kanna á manntalsþingi, hvort þessum ákvörðunum hefði verið fullnægt. Við brotum lágu sektir, sem skyldu renna í sveitarsjóð. Hefðu menn ekki fullnægt ákvæðunum í 5 ár frá gildistöku laganna, átti að tvöfalda sektirnar fyrir hvert ár sem liði úr því. Sýslumaður átti að hafa löggilta landamerkjabók til þess að skrá í allar merkjalýsingar, samninga og dóma um merki, sem væru lesnir á þingi. Í lögunum voru einnig ítarleg ákvæði um ágreiningsmál og merkjadóm.6 Frestur til þess að fullnægja ákvæðum laganna frá 1882 var framlengdur um tvö ár með lögum nr. 31/1887.

Viðbrögð við þessum lögum þóttu ekki mjög snörp. Árið 1917 var á Alþingi lagt fram frumvarp til merkjalaga en fellt með rökstuddri dagskrá: Næsta mál yrði tekið fyrir í trausti þess, að fram til næsta reglulegs þings rannsakaði ríkisstjórnin nauðsyn á endursamningu laganna og leggði fram frumvarp um það efni, ef nauðsyn virtist vera.

Garður

Garður – landamerki við Grænugróf.

Árið 1919 lagði ríkisstjórnin fram landamerkjafrumvarp, sem Einar Arnórsson lagaprófessor hafði samið ásamt ítarlegri greinargerð hans, eftir að lagadeild Háskóla Íslands hafði farið yfir hvort tveggja. Frumvarpið tók einhverjum breytingum í meðförum Alþingis og var staðfest sem lög um landamerki o.fl. nr. 41/1919, 28. nóvember. Eigendum eða fyrirsvarsmönnum jarða var skylt að setja merki milli jarða,– þar sem eigi væru glögg merki af völdum náttúrunnar. Sama gilti um merki milli jarða og afrétta eða óbyggðra lenda, ef sá krefðist, sem land ætti að afrétti eða lendu. Þá varð einnig skylt að setja merki um lönd hjáleigna, húsmannabýla og þurrabúða utan kaupstaða og löggiltra kauptúna, ef skipt land fylgdi þeim, svo og um aðrar lendur eða landhluta, sem skipt væri úr landi jarðar.

Móklettar

Móklettar – áletrun (landamerki) á mörkum Ísólfsskála.

Merkjaskrá skyldi gera og sýna hverjum, sem ætti land á móti, og aðilum ítaka og hlunninda. Samþykkta merkjaskrá skyldi afhenda hreppstjóra, sem athugaði, hvort allir aðilar hefðu ritað á hana samþykki sitt, og fengi hana síðan sýslumanni til þinglesturs á næsta manntalsþingi. Ekki þyrfti að endurnýja merkjaskrá, sem gerð hefði verið löglega og hún þinglesin. Landeiganda var skylt að halda við löglega settum merkjum. Í hverju lögsagnarumdæmi skyldi vera löggilt landmerkjabók og valdsmaður rita í hana alla þinglýsta gerninga og dóma um landamerki. Jafnframt var valdsmönnum boðið að fylgjast með því, hvort merkjaskrám hefði verið þinglýst og fylgjast með hvort lögunum væri framfylgt. Jafnframt áttu hreppstjórar að hafa gætur á hinu sama.

Fótalaus

Fótalaus – „M“.

Lög voru sett um landamerki o.fl. árið 1919. Lögin tóku gildi 1920: Í þeim var m.a fjallað um gerð landamerkja, merkjalýsing og viðhald. Þar segir m.a: „Þar sem eigi eru af völdum náttúrunnar glögg merki milli jarða, er eigendum þeirra eða fyrirsvarsmönnum skylt að setja slík merki, svo sem með girðingum, skurðum eða vörðum með hæfilegu millibili, enda hafi eigi áður verið sett greinileg merki, er löglega sé við haldið. Sama er um merki milli jarða og afrétta eða annarra óbyggðra lendna, ef sá krefst þess, er land á að afrétti eða lendu. Með sama hætti skal og setja merki um lönd hjáleigna, húsmannabýla og þurrabúða utan kaupstaða og löggiltra kauptúna, ef skipt land fylgir þeim, svo og um aðrar lendur eða landhluta, sem skipt er úr landi jarðar.

Öskjuhlíð

Landamerkjasteinn í Öskjuhlíð.

Skylt er mönnum, er lönd þeirra liggja saman, að leggja vinnu og efni til merkjagerða, en eigi nær sú skylda lengra en til að gera merki glögg.
Nú skilur menn á um það, hversu hver skuli leggja til merkjagerðar, og skulu þá úttektarmenn skera úr.
Eiganda lands, eða fyrirsvarsmanni þess, er skylt að halda við löglega settum merkjum.
Í lögsagnarumdæmi hverju skal vera löggilt landamerkjabók, og skal [sýslumaður] í hana rita alla þinglýsta gerninga og dóma um landamerki. Ráðherra getur sett nánari fyrirmæli um skipulag landamerkjabóka.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – Landamerkjasteinn.

Landamerkjasteinar eru vel þekktir í landamerkjalýsingum og þá gjarnan tekið fram, að á þeim sé merkið LM, þ.e. landamerki eða önnur tákn sömu merkingar. Að fenginni reynslu eru á landföstum merkjum á Reykjanesskaganum ýmist klappað „L“, „M,“, „LM“, „X“.

Árið 2000 var staðfest breyting á lögum nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna. Fasteignamat ríkisins skyldi annast fasteignaskráningu og reka gagna- og upplýsingakerfi, sem nefndist Landskrá fasteigna og væri á tölvutæku formi. Í Landskrána skyldi skrá allar fasteignir í landinu og hún væri grundvöllur skráninga fasteigna, þinglýsingarbókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár Hagstofu Íslands, þjóðskrár og vera þannig að hún nýttist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum. Lögin um skráningu og mat fasteigna voru gefin út í heild í upphafi næsta árs sem nr. 6/2001 og nokkrum greinum breytt sama ár, lög nr. 61/2001.

Landamerki

Úr landamerkjabók.

Landamerkjabækur, sem gerðar hafa verið samkvæmt landamerkjalögunum frá 1882 og 1919, eru varðveittar úr öllum sýslum landsins. Þó skal á það bent, að eldri landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu er ekki eiginleg landamerkjabók heldur afsals- og veðmálabók og flokkast sem slík. Skjalasafn Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem var í vörslu sýslumanns, brann árið 1920. Því voru á næsta ári sett lög um afsals- og veðmálabækur sýslunnar, nr. 72/1921. Skyldi sýslumaður gefa út áskorun til allra, sem teldu sig eiga hlutbundin réttindi yfir fasteignum í sýslunni, að skila skjölum um það á skrifstofu sýslumanns innan ákveðins frests og sýslumaður síðan gera afsals- og veðmálabækur að nýju. Sama áskorun gilti um landamerkjaskjöl (8. grein laganna) og skyldi gera landamerkjabækur eftir framkomnum gögnum. Kæmu þau ekki fram, áður en frestur væri liðinn, skyldi ákveða merki samkvæmt landamerkjalögum.

Stórihnúkur

Varða norðan í Stórahnjúk á Úlfarsfellstoppi.
Varðan er á landamerkjum á milli Úlfarsfells og Lágafells.

Landamerkjaskjöl má finna í fjölmörgum söfnum. Landamerkjabækur eru í Þjóðskjalasafni Íslands, en þar má einnig leita í ýmsum skjölum og skjalaflokkum, svo sem jarðaskjölum og kirknaskjölum (sjá t.d. Skjöl varðandi stað og kirkju í Orðabelg Þjóðskjalasafns) auk ýmissa annarra skjala í söfnum presta og prófasta og biskupa, skjalasöfnum umboða (t.d. klaustra), dómsskjölum í skjalasöfnum sýslumanna og víðar, heimildir má finna í fasteignamötum og einkaskjalasöfnum. Í héraðsskjalasöfnum munu landamerkjaskjöl án efa liggja í ýmsum einkaskjalasöfnum, sem þar eru varðveitt. Í handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns eru slík skjöl á víð og dreif tengd eigendum eða afhendendum skjalanna og er einnig að leita í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða Árnastofnun. Þá má nefna prentaðar bækur svo sem Íslenzkt fornbréfasafn og Alþingisbækur Íslands.

Landamerki

Markaklettur er um 170 m fyrir austan Rjúpnasali 14, rétt austar eru garðlönd í Kópavogi, við Desjakór.

Í ábúðarlögum nr. 1/1884 segir í 3. grein, að í byggingarbréfi skuli greina landamerki jarðar og geta ítaka, sem jörðin ætti í annarra manna lönd, og kvaða og ískyldna á henni. Landamerkja- og ítakaákvæði hafa síðan haldist í ábúðarlögum.

Þegar hugað er að landamerkjum, þarf jafnframt að hafa veiðirétt í huga, en þess eru dæmi, að veiðiréttur hafi verið seldur undan jörðum. Í landbrigðaþætti Grágásar segir, að hver maður eigi að veiða fugla og fiska í sínu landi. Búnaðarbálkur Jónsbókar kveður svo á: „Hver maður á vötn og veiðistöð fyrir sinni jörðu og á, svo sem að fornu hefir verið, nema að lögum sé frá komið“.

Landamerki

Ofarlega á Glóruholti um 135 m suðvestur af stóru mastri efst á holtinu. Varðan er landamerkjavarða og hádegismark frá Álfsnesi.

Þjóðsögur hafa jafnan tengst landamerkjavörðum. Má þar m.a. nefna þjóðsöguna er kveður á um að sá eða þeir sem færa til landamerkjavörður og hlaða aðrar til að villa um fyrir fólki eigi á hættu að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er – að þeim látnum.

Þjóðsögurnar voru þannig oftlega kennisögur, nokkurs konar dæmisögur, um það hvernig væri best að haga sér í lifanda lífi. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að vara við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á.

Litla-Skógfell

Landamerki Voga og Grindavíkur á „Stóra-Steini“ norðan Litla-Skógfells.

Framangreint er ekki tiltekið af ástæðulausu. Einstakir bændur, eða handbendi þeirra, voru fyrrum grunaðir um að útfæra landamerki jarða sinna eftir því sem aðstæður sköpuðust, hvort sem var vegna þekkingarleysis eða af gefnu tilefni, s.s. við ábúendaskipti. Í seinni tíð hafa handbendin verið fulltrúar sveitarfélagnna er annað hvort virðast ekki hafa hugmynd um mikilvægi fornleifanna sem fyrrum landmerki eða er bara nákvæmlega sama um þær sem slíkar. A.m.k. benda nýleg dæmin því miður til hvorutveggja.

Heimildir:
-https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/landamerki-landamerkjabaekur/
-Lögbók Magnúsar konungs, Lagabætis, handa Íslendingum, eður Jónsbók hin forna, leigulandsbálkur, 16. Um landamerki, bls. 125.
-https://www.althingi.is/lagas/153c/1919041.html

Hafnarfjörður

Umdæmismörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar í Kaplakrika.