Ögmundastígur

Farið var um Hrauntungu í Kapelluhrauni og leitað fjárhella, sem þar eiga að vera.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Í Tungunni fannst fjárskjól hlaðið fyrir hellisskúta og skjól í jarðfalli, sem hlaðið hafði verið fyrir. Stórt birkitré huldi innganginn í skjólið, sem mun hafa verið afdrep fyrir smala, en þegar inn var komið blasti við talsvert rými og miklar hleðslur.

Þá var haldið í Krýsuvík og gengið norður með vestanverðu Krýsuvíkur-Mælifelli, í kantinum á Ögmundarhrauni, framhjá Drumbi og inn í Bleikingsdal. Til baka var gengið með læk í gegnum hraunið. Staldrað var við hjá Ögmundardys, en eins og flestum er kunnugt lét Krýsuvíkurbóndi (sumir segja Njarðvíkurbóndi) drepa og síðan dysja vinnumanninn Ögmund eftir að hafa svikið hann um að mega eiga dóttur hans ef hann gæti rutt braut í gegnum hraunið innan tilskilins tíma.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Einungis brot af hinum gamla Ögmundavegi er eftir í hrauninu. Nýr vegur, Hlínarvegurinn, var lagður ofan í hann yfir Ögmundarhraun á fyrri hluta 20. aldar.
Loks var gengið yfir Tófubruna vestan Latfjalls, upp í gígana og áfram yfir í Stóra-Hamradal. Þar undir hömrunum er gömul rétt, sem notuð var til rúninga á öldum áður, skv. upplýsingum Jóns Guðmundssonar frá Skála.
Veður var með miklum ágætum.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Helgafell

Gengið var frá Kaldárseli um Gvendarselsgíga, upp með Kastala og þaðan í Kaplatór (Minni-Dimmuborgir/Litluborgir), sem eru einstakt náttúrufyrirbæri.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Í bakaleiðinni var komið við hjá Tröllunum á Valahnjúkum, í Músarhelli í Valabóli og í Kaldárbotnum.

Þetta svæði er einstaklega hentugt til gönguferða að vetrarlagi, tiltölulega greiðfært og fögur fjallasýn. Stutt er í áhugaverða skoðunarstaði og auðvelt að snúa við eða hagræða göngunni m.t.t. getu og tíma hvers og eins. Nægilegt er að kynna sér svæðið áður og stefna síðan á það sem áhugavert kann að þykja.

Valaból

Valaból að vetrarlagi.

Þessi ferð var gengin nálægt áramótum, skömmu eftir að sólin tekur að feta sig upp á við, en birtan við slík skilyrði er í rauninni engu lík. Því ætti áhugasamt fólk um útivist að nýta sér þessa miklu nálægð. Tilvalið er t.d. að leggja af stað síðdegis eftir vinnu, ganga frá Kadárseli og umhverfis Helgafell. Á leiðinni er fjölmargt að sjá. Þessi ganga þarf ekki að taka lengri tíma en t.d. 2 klst.

Í bakaleiðinni var komið við í Gvendarseli í Gvendarselshæð, kíkt á Gvendarselsgígaröðina og nyrsta gíg gígaraðar Ögmundarhrauns frá árinu 1151.

Þá er alltaf áhugavert að staldra við jarðmyndanir Kaldárhnúkanna í Kaldárbotnum.

Valahnúkar

Tröllin á Valanúk.

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.

Staðarhverfi

Gengið var um Staðarhverfi undir leiðsögn Helga Gamalíassonar í ágætisveðri.

Staðarvör

Staðarvör.

Helgi, sem er fæddur og uppalinn á Stað, er margfróður um svæðið, sýndi þátttakendum og lýsti m.a. rústum kóngsverslunarinnar ofan við Búðarsand, aðsetri Hansakaupmanna og Englendinga, Húsatóttir, gömlu bryggjuna, Stóra-Gerði, Litla-Gerði og Kvíadal. Hann lýsti mannlífinu í Staðarhverfi fyrr á öldum, ströndum og björgun áhafna báta og skipa, sem leituðu upp að ströndinni eða fórust þar fyrir utan. Þá sýndi hann gamla brunninn við Hiyrfla, við Stóra-Gerði og við Stað (merkilegt, en hulið mannvirki frá 1914), lýsti gömlu bæjarhúsnum á Stað, sýndi kennileiti í kirkjugarðinum, gömlu bæina við Húsatóftir, að Dalbæ, Vindheimum og Hamri, gamla veginn í Staðarhverfi, naust og flórgólf ofan við Staðarbót, nokkur hundruð ára ára gamlan keng á flæðiskeri vestan bótarinnar, fiskibyrgi á Stöllum, lýsti hellum innan við Sundvörðuhraun og í Ögmundarhrauni (verða leitaðir uppi síðar) o.s.frv. o.s.frv.

Staður

Staður – uppdráttur ÓSÁ.

Helgi sagði að einn hóllinn í Staðartúninu, ofan við Hundadal, innihéldi gamlan bæ, Krukku, sem fór í eyði þegar sandfokið ætlaði allt að drepa. Bærinn væri væntanlega nokkuð heillegur í hólnum og því væri forvitnilegt að grafa hann út til að kanna hvort þar væri eitthvað áhugavert að finna.
Mikil byggð og mannlíf var í Staðarhverfi fyrr á öldum. Hverfið var eitt af þremur byggðakjörnum Grindavíkur, sem stundum hefur verið nefnd Greindarvík vegna hinna mörgu mannkostamanna og -kvenna, sem þar hafa alið manninn – oftast þó í kyrrþey fyrir sjálfa sig og samfélagið.

Staður er nú eyðibýli. Prestssetur og kirkjustaður var á Stað frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum brunn á Stað.

Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja. Hún hýsir nú leikskóla bæjarins þar sem lagður er grunnur að góðum Grindvíkingum.
Í kirkjugarðunum á Stað má t.d. sjá skipsklukkuna úr Alnaby, torgarnum er fórst utan við Jónsíðubás skömmu eftir aldamótin 1900. Með honum fórst skipstjórinn, Nilson, sá hinn sami og hafði verið valdur að láti Íslendinga í Dýrafirði er Hannes Hafsteinn ætlaði að koma lögum yfir hann þar fyrir ólöglegar veiðar.
Helgi sagði að sú saga hafi gengið á Stað að venja hafi verið að ganga rekann. Vegna veðurs þennan dag var það ekki gert. Daginn eftir fannst stígvéli ofan við fjöruna er benti til þess að einn áhafnameðlima hafi komist lífs af, en orðið úti. Vildu menn að nokur kenna sé rum að hafa ekki gengið rekann að venju og þar með getað bjargað skipsbrotsmanninum. Um söguna af Nilson og strandið í Grindavík hefur Árni Óla m.a skrifað sem og fleiri. Hún er t.d. í Staðhverfingabókinni.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Rauðshellir

Haldið í hellana norðan Helgadals. Dagurinn var annar í jólum. Frostkyrrð og enginn maður á ferð. Hálfrökkvað, en stjörnunar glitruðu í snjónum. Smáfuglarnir sátu hljóðir fremst í smáskútum og biðu. Mýsnar höfðu greinilega verið að leita matar undir gjárbarminum, en refurinn virtist eiga nóg í greninu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var inn í Rauðshelli hlýnaði og ljósið frá lugtinni laðaði fram rauða litinn úr veggjum og gólfi. Í þessu umhverfi er listaverk náttúrunnar merkilegra og margbreytilegra en nokkurt listaverk uppi á stofuvegg eða á borðum. Ljóslifandi list án þess að nokkur hafi gætt hana lífi. Klakakerti hékk úr lofti og neðst í því hélt sér dropi. Óþarfi að sleppa sér of fljótt niður í óvissuna.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Yfirgefið þrastarhreiður á syllu. Ungarnir, sem það hýsti í sumar, voru nú orðnir fullfærir um að sjá sér farborða. Dropahljóð í þögninni. Litskrúðugt umhverfi í myrkrinu.
Aðkoman í Hundraðmetrarhellinn er ekkí ólíkt því er birtist gestum Maríu og Jóseps í fjárhúsinu forðum; garðar beggja vegna. Gangurinn liðast inn eftir hellinum og virðist enda í rökkrinu. En líkt og lífið – þar sem virðist endir er áframhald. Þrengsli, skrið og síðan nóg rými til að halda auðveldlega áfram. Komið var út á milli stórra steina í jarðfallinu nokkru austar. Haldið var áfram til hægri, inn í hvelfingu Fosshellis. Mikið hrun er í hvelfingunni. Líklegt má telja að rásin haldi áfram til vesturs á bak við það, en talsvert verk er að forfæra grjótið til að komast megi að því.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Hraunfossinn er fallegur. Fyrir nokkrum þúsundum ára var lækurinn lifandi rennsli. Birtan frá honum lýsti upp rásina og sló fagurlituðum bjarma á umhverfið. Síðan hjaðnaði fæðan og efnið leitaði jafnvægir. Umhverfið varð stöðugt og hefur verið það síðan. Eftir stendur flórinn, áhugaverðar hraunmyndanir og frásögnin af því hvernig þetta allt gekk fyrir sig í upphafi. Hana má lesa af veggjunum. Þótt rásin sé ekki löng segir hún frá hringrás efnisins, viðleytninni og átökunum við að komast upp á yfirborðið á ný, kraftaverkunum á leiðinni, lögmálum jarðarinnar og óendanleika alls upphafs. Lífið er samsvarandi þótt í minna mæli sé, bæði í rúmi og í tíma.
Myrkrið breytir litlu við hellaskoðanir.

Rauðshellir

Rauðshellir – uppdráttur ÓSÁ.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að „Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“ Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Kaldársel

Leitað var fjárhella í Kaldárseli, en gamlar sagnir eru til af hellum þessum norðan selsins. Þrátt fyrir mikla leit höfðu þeir ekki fundist, en þeir voru síðast notaðir árið 1908.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Hellarnir, 6 talsins, fundust á svæði utan gönguleiða. Um er að ræða mjög fallega fjárhella. Miðsvæðis er tóft utan um skúta. Eftir að fallið mosavaxið grjótið hafði verið fjarlægt frá opnum kom í ljós að enginn hafði komið þarna inn í allnokkurn tíma. Mold var á gólfi, en ekki eitt spor.
Í nyrsta fjárhellinum er hlaðinn garður í honum miðjum. Stærsti hellirinn er syðst. Gengið er niður í hann um hlaðinn gang og er þá komið inn í rúmgóðan sal með sléttu gólfi.

Kaldársel

Kaldársel – fjárskjól.

Önnur mannvirki tengd selstöðunni og búskap í Kaldárseli má sjá nálægt fjárhellunum, s.s. aðra eftirlifandi fjárborgina af tveimur upp á Borgarstandi, fjárhústóft norðan undir honum, gerði eða stekk við hana, nátthagann í Nátthaga og gömlu Kaldárselsgötuna klappaða í bergið.
Í Helgadal eru og minjar. Kaldárselið sjálft var sunnan við núverandi hús KFUMogK á norðurbakka Kaldár.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.
Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Prestastígur

Farið var Prestastíginn frá Höfnum að Húsatóftum – 16 km leið.

Prestastígur

Varða við Presthól.

Lagt var af stað úr Hundadal og haldið yfir Presthól, um Haugsvörðugjá og Eldvörp. Útsýni yfir að Reykjanesvita og Eldey var stórkostlegt í kvöldsólinni. Komið var við í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni, litið á fiskibyrgin ofan við Húsatóftir og gengið að Kóngshellu og Búðarsandi, skoðað í brunn við Vaðla og litið á brunninn á Stað, sem er einn sá stærsti og fallegasti á Reykjanesi.
Prestastígurinn er bæði þægileg og falleg gönguleið. Í fyrstu, þegar farið er frá Höfnum, er hún svolítið á fótinn, sendinn og gróðursnauð, en þegar komið er yfir Haugsvörðugjá verða skörp gróðurskil. Þar taka við mosar og mógróður. Sandfellshæðin, dyngja, er á vinstri hönd, en í henni er stór gígur.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Reykjavegurinn kemur inn á Prestastíginn vestan Eldvarpa, en skilur við hann er sá síðarnefndi beygir til suðurs skammt vestan þeirra. Gangan í gegnum Eldvörpin gefa tilefni til að rifja upp Reykjaneseldana 1226 og allar hamfarirnar, sem þær höfðu í för með sér. Verksummerkin má bæði sjá þarna og þreifa á.

Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Haugur

Prestastígur – Haugur framundan.

Helgadalur

Farið var með Þórarni Björnssyni, guð- og hellafræðingi, um hellasvæðið austan Kaldársels og Helgadals. Skoðaðir voru nokkir hellar og litið á hraunmyndamerkingar. Leitað var að hugsanlegu bæjarstæði fornbæjarins í Helgadal og liggja nú fyrir ákveðnar grunsemdir um hvar hann hafði staðið, en það er nokkuð frá því sem hingað til hefur verið álitið.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þá voru allir Maríuhellarnir skoðaðir og haldið að Þorsteinshelli í Urriðavatnshrauni. Hleðslurnar niður um hellisgöngin tóku sig alveg sérstaklega vel út við þær aðstæður sem þessi snjóugi sunnudagur bauð upp á. Auk þess var slitið á fjárhellirinn nyrst í Norðurhellagjá og ennfremur skoðaður langur hellir norðvestan hans.
Sunnudagurinn skartaði fallegu veðri og hinu ágætasta til hellaskoðunar, því eins og svo oft áður lýsti snjórinn upp innviði hellana.

Þórarinn Björnsson

Þórarinn Björnsson.

Þórarinn er nú í Edinborg. Á aðfangadag sendi hann FERLIR eftirfarandi vefpóst:
Sæll Ómar og til hamingju með aldeilis frábæra heimasíðu Ferlis. Frétti fyrst af henni í gær og á örugglega eftir að fylgjast með ferlum ykkar í framtíðinni og vonandi taka þátt í fleiri ferðum með ykkur þegar ég kem heim til Íslands á ný. Við hjónakornin erum hér í Edinborg (síðan í sept) og verðum trúlega í eitt ár eða svo, konan í námi við Edinborgarháskóla í heimspeki en ég að vinna hjá KFUM meðal heimilislausra í Edinborg. Ég óska Ferlisfélögum alls hins besta í framtíðinni.

Kær kveðja:
-Þórarinn Björnsson, 39/12 Comely Bank, EH4 1AG Edinborg, Skotlandi.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).