Gvendarhola

Fjórir Gvendarbrunnar eru á Reykjanesi, þ.e. Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð.
GvendarholaÞað er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur Hólabiskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Enn hefur ekki fengist staðfest að  það ætti ekki við rök að styðjast.

Gvendarhola

Gvendarhola.

 

Ródólfstaðir

„Sælir FERLIRsfélagar,
ég var að kíkja inn á ferlir.is og sá færsluna um Ródólfsstaði. Mér fannst alveg magnað að lesa þetta og get bætt aðeins við þetta.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ég var aldrei fyllilega sáttur við staðsetninguna undir Efri-Rótólfsstaðahæð/Rana og þótt einhver kolalög hefðu komið í ljós fór ég að hallast að því að þetta væru kolagrafir en ekki byggingaleifar. Svæðið undarlegt að byggja á og ég skildi ekki hvernig Brynjúlfur hafi getað séð túngarð á staðnum. Ég hef litið á loftmyndir af svæðinu endrum og sinnum síðan þá og nú síðast í miðjum mars seinastliðnum tók ég eftir staðnum umrædda 600 metrum suðvestar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ég gekk að þessum stað kvöldið 22. maí. Þetta var degi eftir að Gunnar Valdimarsson gerði sér ferð á staðinn og ég get staðfest að á þessum dögum var frekar hvasst. Hvílík tilviljun að tveir einstaklingar — með sama nafn — hafi gengið að þessu með eins dags millibili! Og að sama skapi gleðilegt og algjörlega frábært að fólk hafi áhuga á þessu. Það var veðurgluggi um kl 22 til að fljúga yfir svæðið og ég náði að myndmæla það, útbúa hæðalíkan sem og samsetta loftmynd. Síðan þá hef ég legið á þessu og melt en þegar þú skrifaðir um Mjóaness-selið um daginn áttaði ég mig á að þetta þurfi auðvitað að tilkynna og var byrjaður að skrifa stutta lýsingu til að senda á Minjastofnun. Ég sendi þér textann hér fyrir neðan og einnig nokkrar myndir í viðhengi. Þarna er loftmynd, hæðalíkan, frumtúlkun frá 24. maí og staðsetning Ródólfsstaða + nærliggjandi selja út frá leiðum og slóðum (ég hef teiknað skipulega upp allar leiðir á Þingvallasvæðinu). Svo er nýrri túlkun hjá mér, nokkuð svipuð en ég hef tekið sumt út og bætt öðru inn.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Við Gunnar nafni minn Valdimarsson höfum túlkað þetta mjög svipað í grundvallaratriðum og það er hughreistandi, enda erfitt að greina á milli rofbletta og eiginlegra minja á þessum slóðum. Vatnsbólið er reyndar um 50 m vestan túngarðsins. Þetta rímar við Mjóaness-selið og Hamrasel og ég velti fyrir mér hvort þetta sé gömul selstaða frá Mjóaness- og/eða Miðfellsbændum. Auðvitað getur þetta líka hafa verið býli, sbr. nafnið en maður verður ekki var við mikla húsakosti þarna. Mér finnst áhugaverðast að hugsa um þessi garðlög, bæði m.t.t. aldurs og svo er líkt og það séu tveir garðar þarna, annar ferhyrndur og hinn hringlaga. Og að þeir skarist jafnvel á?! Hvað ætli þetta segi okkur svo um sögu náttúrunnar. Var nægur hvati að hafa einn fjárhelli eða er þetta kannski minnisvarði um horfna skóga fornaldar. Svo er spurningin um „Bæjarstæði“ úr sóknarlýsingunni 1840 — ef það hefur yfir höfuð verið til, þá er kannski spurning hvort það sé undir hæðinni 600 m norðaustar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Ródólfsstaðir eru staðsettir um 1300 metra norðaustur af Miðfellsfjalli, sunnan undir lágum, mosavöxnum grjótbala. Greinileg leið liggur frá staðnum suðvestur í átt að Miðfelli og virðist halda áfram alla leið til Mjóaness. Önnur leið liggur framhjá Ródólfsstöðum metð stefnu NV-SA milli Gjábakka/Arnarfells og Grímsness. Útlit svæðisins kemur hér um bil heim við lýsingu Brynjúlfs Jónssonar árið 1905. Óglöggar rústir (1) eru norðan við áðurnefnda leið, nokkuð litlar eða um 10 m á lengd og þeim svipar frekar til selstöðu en eiginlegs fornbýlis. Um 20 metrum sunnar eru tveir hellar (5) hlið við hlið og hafa líklega verið fjárhellar.

Mjóanessel

Mjóanessel.

Þetta byggðamynstur rímar við nærliggjandi sel Mjóaness við Selshelli 1,5 km norðvestar og Hamrasel + Hamraselshelli 2,2 km austar. Aftur á móti eru Ródólfsstaðir frábrugðnir seljunum að því leyti að hér er stórt garðlag (2-4) upp við rústirnar (1) líkt og túngarður, um 100 x 50 metrar að flatarmáli. Garðlögin eru mjög fornleg útlits og líkur eru á að þau séu frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Mögulega hefur garðurinn upprunalega verið ferhyrndur, um 50 x 50 m að stærð, en síðar færður út til vesturs. Um 100 metrum norðvestan rústanna (1) er djúpt brunnstæði (6).

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – Gunnar Grímsson.

Fleiri hugsanlegar minjar gætu leynst á Ródólfsstöðum en frekari rannsókna er þörf til að meta eðli þeirra. Eru það tvær dældir, ein (7) austarlega í „túninu“ og önnur (8) um 50 m austan „túngarðsins,“ hvorar tveggja möguleg brunnstæði. Nokkrar þústir (9-12) innan „túnsins“ minna á forn mannvirki og enn aðrar (13-15) skammt utan þess. Svæðið er þó afar illa farið, traðkað og uppblásið og því geta ýmsið rofblettir minnt á fornar byggingar. Því þyrfti helst að staðfesta mögulega minjastaði með kjarnaborun.
1. Tóft, um 10 x 6 m að utanmáli, snýr hér um bil N-S. Veggir hennar hafa breitt vel úr sér og eru um 2.5 m að þykkt. Hleðslusteinar eru áþreifanlegir skammt undir sverði. Tóftin er reist upp við garðlag (2) og er inngangur á suðurgafli í átt að fjárhelli (5), sem er um 20 m sunnar. Mannvirkjabrot eru sjáanleg við austurgafl tóftarinnar; líklega eru þau hluti af túngarðinum en e.t.v. gætu hér einnig verið leifar annarrar tóftar. Vel má vera að þetta séu leifar fornrar selstöðu og tengist fjárhellinum. Þetta er líklega tóftin/tóftirnar sem Brynjúlfur getur um árið 1905.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – garður.

2. Mjög fornlegt garðlag eða túngarður, mikið fallnir og um 2-3 m á breidd. Vegghæð er 20-30 cm. Austurhelmingur garðsins er greinilegri en hann virðist nær ferhyrndur, að SV-horninu undanskildu þar sem hann liggur upp við tóft (1). Ekki er endilega víst að garðurinn sé samtíma tóftinni. Garðlagið heldur áfram vestan við tóftina og liggur í sveig þar til hann fjarar út.

Ródólfsstaðir

Ródólfssstaðir – garðlag.

3. Mjög ógreinilegar útlínur sem minna á garðlag. Nánari athugana er þörf til að meta hvort um er að ræða fornleifar. Mögulega hefur upprunalegi túngarðurinn verið um 50 x 50 m, en síðar stækkaður til vesturs (um 100 x 50 m) og þessi hluti túngarðsins rifinn. Fleiri ógreinileg mynstur samsíða þessum má greina örfáum metrum austan þessara útlína en þau voru ekki teiknuð upp.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – fjárhellir.

4. Hugsanleg norðurhlið garðlags (2). Frekari athugana er þörf til að meta hvort garðurinn hafi legið hér yfir höfuð en hér er hann teiknaður með góðum vilja.
5. Jarðfall með tveimur hellum, sem hafa líklega verið nýttir sem fjárhellar. Illa farin grjóthleðsla er á milli hellanna, sem eru um 7 m djúpir og lágir til lofts. Nokkuð af kindabeinum í þeim vestari, líklega frá síðari tímum.
6. Ríflega tveggja metra djúp dæld um 50 m vestan garðlags (2) sem hefur verið brunnstæði.

Ródólfsstaður

Ródólfsstaðir.

7. Gróin dæld, um 40 cm djúp og ríflega 1.5 m í þvermál. Ekki er útilokað að hún sé leifar brunnstæðis eða einhvers konar mannvirkis en þyrfti að athuga nánar á vettvangi.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

8. Rétthyrnd dæld um 50 m austan garðlags (1), 4 x 5 m að flatarmáli og um 1 m djúp. Mögulega hefur hér verið annað brunnstæði en athuga þyrfti það nánar á vettvangi.
9. Ógreinileg ferhyrnd þúst, 9 x 7 m að utanmáli. Líklega er þetta til komið vegna landrofs en athuga mætti þústina nánar. Ef þetta er mannvirki gæti þetta verið stekkur og tengt tóft (1).

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

10. Lág, gróin dæld, um 30-40 cm djúp og lítill kantur umhverfis hana, um 10×10 m að flatarmáli, staðsett í SA-horni túns. Athuga mætti þennan grasblett betur og athuga hvort hér hafi mannvirki staðið.
11. Rétthyrnd upphækkun í norðanverðu túni, um 11 x 7 m að flatarmáli og um 45 cm há. Hún er nokkuð grýtt og mosavaxin að innan og gæti verið náttúrufyrirbæri. Útlitið minnir þó mjög á húsarúst og ráðlagt væri að athuga fyrirbærið nánar. Það finnst fyrir grjóti í ‘veggjum’ þegar gengið er ofan á fyrirbærinu.
12. Lágur kantur, um 8 x 7 m að flatarmáli. Líklega er þetta einungis rof en athuga mætti fyrirbærið nánar og hvort hér hafi verið mannvirki.
13. Lítil nibba rétt norðan túngarðs, þarna er virkt rof og einhverjir steinar að koma í ljós. Ekki er þó víst að þeir teljist til fornleifa.
14. Mjög dauf upphækkun og litabreytingar á gróðri, 10 x 6 m að flatarmáli, rétt vestan túngarðs (2). Ekki er þó víst að það sé vegna fornleifa.
15. Afar ógreinileg upphækkun, 8 x 4.5 m að flatarmáli, líklegast náttúrulegt en mætti athuga nánar á vettvangi.
Ég hlakka til að heyra frá þinni ferð á staðinn og hvort eitthvað nýtt komi í ljós.“

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – minjar.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905 – Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 46-47, segir um Rótólfsstaði: „Fyrir ofan Miðfellsfjall í Þingvallasveit, nokkuð langt upp í hrauninu, er rúst af fornbýli, sem nefnt er Rótólfsstaðir. Mjög ógjörla sér til rústanna. Með aðgætni má þó sjá ferhyrnda túngirðingu, sem er gild dagslátta að stærð og við vesturhorníð vottar fyrir óglöggum rústum, sem eg treysti mér þó ekki til að mæla og enda ekki til að lýsa svo gagn verði að. Skamt vestur þaðan er hraunhola, sem oft kvað standa vatn í; það er brunnurinn. Hið merkilegasta við þessa rúst er nafnið: »Rótólfsstaðir«, sem auðsjáanlega á að vera Eódólfsstaðir (o: Róðólfsstaðirj. Þar eð menn vita eigi af manni með því nafni hér á landi í fornöld, öðrum eu Róðólfl biskupi, þá kemur manni ósjálfrátt í hug, að hann muni í fyrstu hafa sezt að á þessum stað, álitið hagkvæmt fyrir trúboðið að búa nálægt alþingi. En svo hafi hann brátt flutt sig að Lundi og síðast að Bæ, eftir því sem reynslan sýndi honum hvað bezt kæmi í hald.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

Auðvitað getur þetta fornbýli verið kent við annan Róðólf, sem menn hafa ekkert af að segja. En hvað sem um það er, þá hygg
eg að t í Róíólfsstaðir bendi á það, að snemma á öldum hafi mannsnafnið verið borið fram Ródólfr, en ekki Róðólfr, sem síðar varð, og að d í þessu bæjarnafni hafi snemma orðið að t og það síðan haldist. Annars er líklegt að þar hefði komið ð fyrir d eins og í mannsnafninu. Og sú breyting (ð fyrir d) virðist hafa verið komin á áður rit hófust hér á landi.“
Brynjúlfur virðist meira upptekinn að sagnfræðilegum heimildum minjanna en þeim sjálfum.

Þegar meintar minjar Rótólfsstaða eru skoðaðar af FERLIRsfólki mátti sjá þar ummerki garða og fleiri fornra minja. Fjárskjólið tvískipta sunnan garða bar með sér augljósar tvískiptar steinhleðslur. Eystri hlutinn hefur væntanlega verið nýttur sem búr. Vestari hlutinn hefur verið nýttur sem fjárskjól, a.m.k. um tíma.

Tvískiptir veggir umhverfis minjasvæðið virðast augljósir. Innan í ofanverðum eystri hluta þeirra virðast vera minjaleifar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir.

Ofan minjasvæðisins er varða, sem hefur verið breytt í smalaskjól. Sunnan þess er mosagróinn stekkur (ofan garðs). Þaðan að sjá er augljós þvergarður niður að fyrrum selstöðu (ofan fjárhellisins). Þar mótar fyrir þremur rýmum; dæmigerðum selstöðum á þessu landssvæði sem slíkum. Að öllum líkindum hefur selstaðan verið nýtt þarna um tíma, bæði eftir að „bærinn“ lagðist af og löngu áður en selstöður lögðust af á þessu svæði (sbr. Mjóanessel þarna skammt vestar), líkt og Hamraselið þarna skammt austar.

Ródólfsstaðir

Ródólfsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Hamrasel

Í Örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar frá Hrauntúni (birtist m.a. í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1932) er fjallað um Miðfellshraun og Miðfellsfjall [Miðfell]. Þar segir m.a.: „Miðfellshraun takmarkast af Miðfellsfjalli að norðvestan, Þingvallavatni að vestan og suðvestan, Kaldárhöfða að sunnan og Lyngdalsheiði að austan; að norðan hallar upp að Hrafnabjargahálsi, og eru takmörk þar víðast óglögg, enda mun hraunið að mestu ættað þaðan.

Hamrasel

Hamrasel – Hamrselshæðir.

Þar austur af eru Hamraselshæðir. Ná þær jafnlangt upp og Bringur, og niður að Stóra-Karhrauni og austur að Barmahrauni. Austast á hæðum þessum er hellir, og tóftir, er hæðirnar bera nafn af; þar hefir vafaust verið sel. Syðst á hæðum þessum er stór brekka við Stóra-Karhraun, er Grembás heitir.“

Hamrasel

Hamraselshellir

Í framangreindri lýsingu er þess ekki getið að nefnt sel hafi verið frá Miðfelli þrátt fyrir staðsetningu þess í þeirra landareign. Það bendir til þess að selstaðan sé mjög forn.
Í Jarðabókinni 1703 (bls. 360) segir um selstöðu frá Miðfelli í Þingvallasveit: „Selstöðu á jörðin í sjálfrar sinnar landi, en hefur þó ei að nýtingu brúkuð verið. Selstaða hefur eignuð verið Hömrum í Grímsnesi í Miðfellslandi, þar sem heitir Hamrahellir, og eru munnmæli að Miðfells menn hafi hjer fyrir átt hestagöngu á vetur í Hamralandi. Hvorugt þessara ítaka hefur brúkuð verið í manna minnum.“

Hamrasel

Hamraselshellir.

Þegar selstaðan í Hamraseli er skoðuð er ljóst að um mjög forna slíka er að ræða, þrátt fyrir að Hamrahellir hafi löngum verið nýttur sem afdrep fyrir gesti og gangandi, enda ágætt skjól í nálægð við þekktar þjóðleiðir í Lyngdalsheiði.
Ofan við hellisopið er hlaðið skjól refaskyttu. Þaðan er ágætt útsýni yfir neðanverða heiðina. Varða er við hlið skjólsins, efst á hellisbrúninni. Hellishellir er í enda gróinnar hraunrásar er á sér langan aðdraganda. Í hellinum má sjá aflagaðar hleðslur.

Hamrasel

Hamrasel – stekkur.

Framan við hellinn, á austurbarmi hrauntraðarinnar, eru hleðslur, sennilega stekkur. Annar stekkur er skammt vestan við opið, nú að mestu mosagróinn.
Selið hefur að öllum líkindum verið í hvylft suðvestan við hellinn, í skjóli fyrir austanáttinni. Þar má greina brunn og óljósar minjamyndanir, sem verður að þykja ekki ósennilegar í ljósi aldurs hinna meintu selsminja.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1. mín.

Hamrasel

Hamraselshellir.

Másbúðir

Kíkt var á svæðið norðan Helguvíkur, Selvík og Hellisnípu. Áð var við vitann á nípunni og síðan haldið áfram suður með Stakksnípu að Helguvík. Ofan af Stakksnípu blasti kletturinn Stakkur við, skörfum þakinn. Hinn víðfeðmi Stakksfjörður dregur nafn sitt af klettinum. Tengist nafngiftin sögunni af Rauðhöfða (Melabergsmanninum) er brá svo við orð hinnar ókunnugu konu í

Hólmsbergsviti

Hólmsbergsviti.

Hvalsneskirkju eftir nokkra forsögu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Þá var haldið að nesjum á Romshvalanesi og gengið í Másbúðarhólma. Í honum má enn sjá hleðslur gamla bæjarins, garðana og hornrétta grjótgarða, sem notaðir voru til að hlífa bátum þegar gert var út frá Hólmanum alveg fram á byrjun 20. aldar.
Á leiðinni út í Hólmann var gengið um gamla steinbrú, sem liggur í sveig frá landi, milli klappa og út í hann. Sigurbjörn Stefánsson, ábúandi í Nesjum, sem var með í för, sýndi hópnum áletranir á klöpp í Hólmanum, en þar er m.a. klappað á einum stað ANN°1696 og á öðrum stað JJM.
Þá sýndi Sigurbjörn hópnum Kóngsvörina og gekk síðan með honum að Másbúðarvörðu.

Másbúðir

Hústóft í Másbúðarhólma.

Lýsti hann staðháttum og fyrrum bæjarstæðum á leiðinni. Nesjaréttin, sem getið er í örnefnaskrám, ofan við Réttarvik er horfin. Sjórinn hefur náð að krækja í hana. Þá lýsti Sigurbjörn staðháttum við Landavörðuna, sem er vestan við bæinn, og hvernig hún var notuð sem mið við Keili á Landasundinu.
Sagt er að Másbúðir hafi verið landnámsjörð og borið nafn af landnámsmanninum er Már hét. Síðan braut sjórinn landið umhverfis og hann varð aðskilinn landi, nema í fjöru. Þá lagðist verstaðan af, en býli hélst þó fram að aldamótum 1900. Þá flúði kotbóndinn undan sjógangi. „Er þar nú eyðihólmi; sjást aðeins rústir kotsins og dálítill túnblettur í kring uppi á hólnum“ – BJ/1902.

Másbúðarhólmi

Tóft í Másbúðarhólma.

Magnús Þórarinsson skrifar um Másbúðarhólma í bókina „Frá Suðurnesjum“, sem gefin var út árið 1960. Þar segir hann m.a.:

„Þar er Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni… innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti á sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik…. Másbúðir, sýnist mér, hafa verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð… Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð.

Másbúðarhólmi

Kóngsvörin.

Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80-100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara….
Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutast frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma…

Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson, frá 1884 til 1895…. Í Hólmanum má finna Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar – 16 hundruð og eitthvað -. Um 1890 var rótað upp gömlum öskuhaug, sem var þar í númunda við bæinn og fannst þá heilmikið af brotnum krítarpípum… Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Þar var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.

Másbúðarhólmi

Steinbrúin í Másbúðarhólma.

Útgerð lauk í Másbúðarhólma fyrir 50 árum. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt…En Másbúðarhólmi er harður haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.
Ætlunin er að Sigurbjörn gangi með FERLIR næsta vor um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla-Kirkjuvog.
Farið var að Fuglavík og hús tekin á Magnúsi og Jónínu. Þar var Fuglavíkursteinninn barinn augum öðru sinni (Sjá FERLIR-202).

Stúlknavarða

Stúlknavarða.

Haldið var að Bræðrum og Smala norðvestan Melabergs, en þjóðsagan segir að þar hafi Melabergsbræður orðið að steini sem og allt fé þeirra. Sjá má steinalíkin norðan vegarins skammt vestan við bæinn.
Í bakaleiðinni var stöðvað við Stúlkuvörðuna vestan Reykjanesbrautar á Njarðvíkurheiði. Á klöpp undir vörðunni er klappað ártalið 1773 sem og bókstafir ofan þess (AGH). Talið er að nafngiftin á vörðunni og áletranirnir undir henni séu komin til vegna þess að ung stúlka, sem föður sínum á rjúpnaveiðum, hafi orðið þarna úti í vondu veðri.
Veður var nú bjart og stillt.

-Úrdrátturinn úr sögunni af Rauðhöfða er fenginn af vefsíðu Bókasafns Reykjanesbæjar.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi – letursteinn.

Garður

Kristófer Kristinsson sendi meðfylgjandi um steingrafir, vegna þess að hann mundi ekki eftir vangaveltum um efni þeim tengdum annars staðar en á vefsíðunni (ferlir.is), með eftirfarandi orðum: „Ef trúa á orðum Ara fróða í Landnámu þá getur þetta gengið eins og hvað annað!“

Steingröf

„Fyrsta skýra myndin sem dregin er upp af Hvalfirði er í Hauksbók en hún er sögð vera hugsýn Patreks biskups á Írlandi um ákjósanlegan lendingarstað fyrir fóstra hans Örlyg. Patrekur segir: „Hvergi er þú tekur land, þá byggðu þar aðeins, er þú sérð þrjú fjöll af hafi og fjörð að sjá á millum hvers fjalls og dal í hverju fjalli; þú skalt sigla að hinu synnsta fjalli; þar mun skógur vera, og sunnan undir fjallinu muntu rjóður hitta og lagða upp eða reista þrjá steina; reistu þar kirkju og bú þar“ – (Íslenzk fornrit I).
Fjöllin þrjú sem um ræðir eru Hafnarfjall, Akrafjall og Esja, dalirnir eru að sama skapi Hafnardalur, Berjadalur og Blikdalur, firðirnir eru Leirárvogur (Grunnafjörður) og Hvalfjörður. Í anda Hoskins þá leyfi ég mér að ganga út frá því að Patrekur hafi haft spurnir af þessu landi og þá að öllum líkindum frá írskum einsetumönnum sem snéru aftur til Írlands eftir að landnám norrænna manna hófst hér um slóðir.
FornmannasteinnÍslendingar hafa gert mest lítið með þann möguleika að hér hafi komið og verið írskir menn þrátt fyrir nokkuð ótvíræðar fullyrðingar sagnaritara bæði Ara fróða og Sturlu Þórðarsonar  um það efni (Íslenzk fornrit I). Helst er til þess vísað að engar áþreifanlega minjar séu um veru Íranna hér. Mér sýnist samt ekki frá því vikið að Örlygi er ætlað að leita uppi næsta klassískt keltneskt menningarlandslag á Kjalarnesi. Hann á að finna rjóður og í því eru þrír steinar lagðir eða reistir.
Meðfylgandi mynd (hér efst t.v.) sýnir hleðslu sem talin er dæmigerð fyrir írskar fornaldargrafir, þrír steinar; einn lagður, tveir reistir. Hleðslan er nálægt bænum Caherconnell í Clare héraði.
Það hygg ég að sé ágætlega traust röksemd að skortur á sönnunum fyrir einhverju sannar ekki  fjarveru einhvers. Þá er ég að vísa til þess að þeir bræður í skriftinni, Ari og Sturla, eru teknir trúanlegir um flest það sem þeir skrifuðu án þess að áþreifanlegra sannanna eða vitnisburðar sé krafist. Menn láta sér almennt nægja samsvarandi örnefni sem þess vegna gætu hæglega verið eftir á tilbúnaður.

Steinn á steinum

Þess vegna sýnist mér að hugmyndin um írska grafarsteina á Kjalarnesinu og vitneskju biskups á Írlandi um þá  hreint ekki út í hött í því samhengi sem hér er ritað. Þá verður ekki fram hjá því gengið að um Kjalarnesið allt er urmull af mannvistarleyfum, menningarlandafræði, sem nánast ekkert hafa verið rannsakaðar. 
Ari fróði segir: „Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir bækur írskar og bjöllur og bagla. Af því mátti skilja, at þeir voru menn írskir.“  (Íslenzk fornrit I) Í sama streng tekur Sturla Þórðarson: „En áður en Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn.“ (Íslenzk fornrit I)
SteinarFramangreint er í rauninni ekki svo vitlaust.
Þar er fjallað um fornmannagröf í Garði (sem fáir vita af). Steinn var þar settur á aðra til hvílu. Þar hjá er haugur, sennilega gröf fornmanns. Eflaust eru til fleiri dæmi á svæðinu ef vel væri að gáð. Kjalarnesið var ekki skoðað m.t.t. þessa á sínum tíma, en það væri vel athugandi. Ekki er útilokað að þar megi finna, ef grannt er leitað, leifar af steinhleðslu í fyrrum rjóðri?
Ef einhver býr yfir meiru efni um þetta væri það vel þegið. Steinar eru víða á steinum á Reykjanesskaganum, en þeir hafa ekki verið settir í samhengi framangreint. En steinninn í Garðinum passar ágætlega við kenninguna. Er t.d. hugsanlegt að Steinunn gamla hafi verið heygð í Garði og þar hjá megi finna fyrrum bæjarstæði hennar á Rosmhvalanesi? Eða kannski annar og mun eldri forrennari hennar – af írskum uppruna?
Á Írandi og í Skotlandi, sem og á Norðurlöndunum má víða sjá miklar steinhleðslur með skírskotun til grafsiða eða helgiathafna til forna.

Heimild:
-Kristófer Kristinsson.

Fornmannahleðslur

Njarðvíkursel

Öll kort, sem birt hafa verið, telja Njarðvík vera heiti á vík sem er á milli Klapparnefs fremst á Vatnsnesi (þar sem vitinn er nú) og Hákotstanga.
„Merkin [Njarðvíkur] eru í Innri-Skoru á Stapa, en stapi þessi hét áður fyrr Kvíguvogastapi. Um 1840 segja þeir, að gamalt nafn á Stapanum sé Gullkistan sökum þess hve fiskignægð er þar mikil á færi rétt við. Ytri-Skora heitir önnur skora í stapann rétt vestar. Þar næst undir berginu er Svartiskúti, og þegar stapinn fer að lækka, heitir Sigurðarsteinn. Það er klöpp frammi við sjó, og er hann hæstur fremst. Þar var dreginn fiskur fram af. Upp af þessu og vestur af Svartaskúta eru á brúninni tvær vörður, sem heita Álbrúnarvörður. Draga þær nafn af því, að þær eru mið á fiskislóð þá, sem Álbrún heitir“.
Ofanverðar NjarðvíkurAllar gildandi örnefnalýsingar hefjast svona: „Þegar Stapanum sleppir, kemur lítil vík, sem heitir Kópa. Hún er austur af Stapakoti og er lending þaðan. Vestur af Kópu taka við Hákotstangar. Austur af Stapakoti og vestan Kópu gengur klettur langt fram, sem heitir Grákjafta. Þar næst eru Gálgaklettar, háir klettar eða björg við sjó, milli Stapakots og Njarðvíkna. Vestur af Gálgaklettum er vör, sem heitir Móakotsvör (eða Móakotsklettur?). Þar upp af var kot áður fyrr, sem hét Móakot. Þá er vík norður af kirkjunni, sem nefnd er Kirkjuvík. Þar næst eru svonefndir Hákotstangar, er liggja þar fram í sjóinn. Þar var og vör. Við þessa tanga segir maður svo, að Njarðvík byrji. Vestur af töngunum er Hákotsvör. Þaðan reri Pétur Björnsson í Hákoti. Þá er Hálfdán. Það er mið Súla um kirkjuna, og hitt miðið er Litli-Keilir um Fálkaþúfu á innri enda Stapans. Þar var mjög fiskisælt. Nokkur áratog framar var svo komið á leirbotn, nefnt Klettsmið, sem var milli Súlna um Stapakot.
Innri-Njarðvík

Vestur – suðvestur af Hákoti er stór klöpp, sem kemur ekki upp nema um fjöru, og heitir hún Hundhella. Þar utar eru Njarðvíkurvarir tvær, sem skiptast í Norðurvör og Suðurvör. Vararkjaftarnir eru saman. Næst er vík, sem heitir Tjarnarkotsseyla, og Seylubakki, kampurinn upp af sjávarmáli. Þetta er möl. Tjarnarkot er næst og stendur upp frá þessu á smáhæð. Framhald er malarkambur. Þá er næst Markasteinn, stór klettur, sem kemur upp um fjöru og er merki móti Narfakoti, aðeins til, að þar marka af þangfjöru(?). Narfakotsklettar eru þar við, og þar fram af er stór steinn, nefndur Snasi. Hann fer ekki í kaf, og suður af þessu er svo loks Narfakotsvör. Smátangi er þar næst, sem heitir Harðhaus. Narfakotsvör var þrautalending. Suður af Harðhaus eru Narfakotstangar, og þar næst er smávík, Narfakotsseyla, sem nær lengra inn en Tjarnarkotsseylan. Í Seylunni er Seylusker, og þar í er sandur, sem var maðkasandur. Í Narfakotsseylu var Stekkjarkotsvör. Hún var í svonefndum Seylutanga, sem er næst utan við Seyluna. Upp af Seylunni sunnanverðri er klapparhóll, sem heitir Tjaldhóll. Dregur hann nafn af því, að þar sat tjaldurinn oft. Þá er Stekkjarkotssíki, leysingarvatn. Stekkjarkot var rétt við veginn, en neðan við hann. Þá eru næst Njarðvíkurfitjar, láglendið fyrir botni víkurinnar. Þá er Grandi og Innri-Háibali, sbr. Ytri-Njarðvíkur. Þá er tangi utan við sandinn, sem heitir Háabalatangi. Spöl utan við tangann er lítill steinn á merkjum. Tvö sker eru utarlega á sandinum. Þau heita Stórasker og Móakotssker.

Ytri-NjarðvíkRéttarhús er upp af, milli Gálgakletta og Kirkjuvíkur. Njarðvíkurtjörn er upp af Tjarnarkotsseylu og var slegin lengi fram eftir. Við austurjaðar tjarnarinnar heitir Hólmfastskot og Ólafsvellir, sem eru þar upp frá. Í norðaustur frá Hólmfastskoti var býlið Tröð, og í austur frá því var Móakot, sem Móakotsklöppin er kennd við. Norðan við túngarð Hólmfastskots var blettur lítill niður við tjörn, og hét hann Ullarreitur. Hann er þríhyrndur í lagi, rétt hjá Njarðvíkurbrunni. Þá er Einarsvöllur hjá kirkjunni, og þar austur eftir er svo Kirkjuvíkurvöllur. Ullarreitur heitir þetta, því þar var þurrkuð ull.
Syðst í tjörninni var grjótgarður, sem gengið var eftir og er nefndur Heljarstígur. Hann var þjóðbraut milli bæjanna. Suður af  honum er smáflöt, sem heitir Ólafsvallakrókur. Nú er verið að umturna þessu öllu. Þar suður af var kálgarður, sem hét Illugagarður. Í Tjarnarkotstúni austast var kálgarður, sem nú er orðinn að túni, og hét hann Helgugarður. Suður af Tjarnarkoti er hóll þar upp af til austurs, Holtshóll. Þar er eyðibýlið (tómthús) Holt. Þetta er norður af Dæluhúsinu. Tættur eru þar upp af, upp við veg, sem heita Arnbjörnshús. Lambhús voru milli Akurs og Akurgerðis, sem hétu Lambhús. Í Tjarnarkotslandi austan til, rétt fram af, var býlið Hlíð, og Björnsbær var við bæinn heima.

Tóft Hólmfastskots

Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll. Þá er Stóragjá, sem er framhald af Hrafnagjá og nær alla leið með ýmsum nöfnum fram á Reykjanes. Vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar, kenndar við Gíslhelli, sem er þar ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum.
Beint upp af Njarðvíkum í suðaustur eru Löngubrekkur, og syðst í þeim er Vogshóll, sem er á merkjum, aðeins skorinn frá brekkunum. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuendi. Þar á er stór varða, beint upp af Skjólgarði.
Ártalssteinn í NjarðvíkVestur frá Löngubrekkum niður af Vogshól eru Steindraugsbrekkur. Beint suður frá þeim eru smádældir, sem heita Djúpudalir. Við suðurenda Löngubrekku norður af Vogshól er hár hóll nær Njarðvíkum, sem heitir Sjónarhóll. Suður af honum er klettaklungur, Klofningur, suður af flugvelli. Stóri-Skjólgarður er fyrr nefndur, uppi á hæð, hlaðinn í kross og er norðvestur af Löngubrekkum. Þar í vestur er svo Litli-Skjólhóll skammt ofan við Njarðvíkur. Inn af honum er Leirdalur, land og gras, nú tættur. Innst á Löngubrekkum heitir Löngubrekkuhóll.
Leirflög eru fyrir ofan brekkur. Þar ofar er Litli-Latur og Stóri-Latur, grjótbelti beint upp af Njarðvíkum. Ofan við veginn er smáhæð, sem heitir Narfakotsborg. Þar suður af er smáhóll vestur af Vogshól, og heitir hann Smalaskáli. Gleymzt hefur Arnarklettur, sem er á merkjum. Hann stendur í hvamminum ofan við Vatnsgjár.

Njarðvíkursel

Landamæri Ytri- og Innri-Njarðvíkur eru frá Ytri-Háabala í Grænásvörð á Grænási. Innan við Háabala koma Njarðvíkurfitjar. Malarkambur er fyrir botni víkurinnar (Njarðvíkur), sem heitir Fitjagrandi. Fjöruborð er mikið frá víkurbotninum og er það mest allt dökkur, fínn sandur. Í honum var mikið af sandmaðki, sem notaður var til beitu frá ómunatíð og allt fram til ársins 1940, er atvinnuhættir breyttust, og menn höfðu öðru að sinna og öðru að beita. Framarlega á sandinum, sem kallaður var Stórisandur, eru tvö sker. Annað þeirra er kallað Langasker eða Móakotssker en hitt er kallað Stórasker eða Njarðvíkursker. Voru þessi sker mjög hættuleg flæðisker og urðu fjárbændur oft að vakta þau daga og nætur og oft um miðjar nætur í svartamyrkri og illviðrum að reka féð úr skerjunum og jafnvel að vaða sjóinn á aðfalli upp undir axlir.
Við austurenda Fitjagrandans er frárennsli úr tjörnum, sem eru ofan við grandann og nefnist það Stekkjarkotssíki og ber nafn af bænum Stekkjarkoti, er stóð ca. 1[00]-300 metra ofar og austar, skammt neðan við þjóðveginn. Þar var síðast búið fyrir 34 til 36 árum, og eru þar nú bæjartættur og garðarústir eftir.
Næstsíðustu ábúendur í Stekkjarkoti voru Ingibjörg Guðmundsdóttir og Magnús Gíslason, en síðast bjuggu þar Bjarni Sveinsson og Björg Einarsdóttir.
Innar með sjónum er tangi, sem kallast Byrgistangi. Á honum norðanverðum er vör, sem heitir Stekkjarkotsvör; þar rétt hjá er rúst af fiskbyrgi Stekkjarkotsbóndans, er hafði þaðan útræði á seinni hluta 19. aldar. Mun bóndi sá hafa heitið Jón, eins og gömul vísa bendir til, en vísan er þannig:

Bragnar halda besta mið
og búast ei við fiskiþroti,
ef Súla ber í salthúsið
signor Jóns í Stekkjarkoti.

Milli Byrgistanga og Seylutanga að norðan er dálítil vík, sem heitir Narfakotsseyla (Seyla). Er þar mest sandur á botni um fjörur og var þar grafinn upp maðkur eins og í Stórasandinum. Innst í botni Seylunnar er hóll, sem kallast Tjaldhóll og lá gamli vegurinn suður með sjó yfir hólinn.
Stóri-Skjólgarður á NjarðvíkurheiðiNæst norðan við Seylutanga kemur Narfakotsvör. Þaðan var töluvert útræði á síðustu öld. Skammt þaðan í suður eru rústir af bæ er hét Harðhaus. Lagðist það býli niður skömmu fyrir aldamót vegna sjávargangs, en bæjartóftir sjást enn í dag. Norður og fram af Narfakotsvör er stór steinn, sem heitir Snasi. Milli Narfakotsvarar og Tjarnarkotsvarar liggur malarkambur. Út í sjónum beint fram af túngarði milli Tjarnarkots- og Narfakotsjarða er stór steinn, sem kallast Marka- eða Merkjasteinn. Tjarnarkotsvör  er við botn Tjarnarkotsseylu, og liggur svonefndur Seylubakki norður að syðri Njarðvíkurvör, en sú vör var niður lögð 1935, er byggð var þar dráttarbraut.
Ofan við Seylubakkann liggur Njarðvíkurtjörn og var hún prýði byggðarlagsins þar til fyrir þremur árum, að grafin var skolpveita gegnum Seylubakkann og gengur nú sjór inn í tjörnina á flóðum í stórstraumum og virkar það á þann veg, að gras og gróður drepst þar. Hefir þetta og annað umrót gjört það að verkum, að nú er hún á leið með að verða moldar- eða forardý og er það mjög illa farið að áliti okkar eldri Njarðvíkinga, er þekktum hana eins og hún var frá náttúrunnar hendi.
GarðbærNjarðvíkurvarir voru tvær, suður- og norðurvör. Frá Tjarnarkotsvör og Njarðvíkurvörum var á 19. öld mikil útgerð áraskipa allt frá tveggja manna förum og upp í áttæringa og hélst alltaf nokkur útgerð frá þessum lendingum á árabátum og opnum vélbátum (trillum) fram til ársins 1942. Fyrstu opnu vélbátarnir voru gerðir út frá þessum lendingum og hér í Innri-Njarðvík veturinn 1928, tvær trillur þá vertíð og hélst trillubátaútgerðin óslitin til ársins 1942, lengst af tveir 4-5 [tonna] bátar frá Tjarnarkotslendingu.
Dekkaður vélbátur kom fyrst í Innri-Njarðvík 1912 og hét hann Njarðvík og var eign heimamanna og áttu þeir hann í 7-8 ár. Á árunum 1925 og allt fram yfir 1940 voru gerðir út mótorbátar frá Innri-N[jarð]v[ík] og höfðu þeir lendingu við bryggju steinsteypta, er byggð var á árunum 1925 til 30. Stærð þessara báta var frá 12-30 tonn og voru þeir frá eftirtöldum stöðum: Vestmannaeyjum, Keflavík, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Hrísey og ef til vill víðar að, og á þessum árum sóttu báteigendur utan af landi eftir að komast með báta sína á vertíð hér við Faxaflóa, jafnvel þó aðstæður væru slæmar miðað við það sem nú er, og urðu menn þá að leggja bátum sínum við legufæri úti á víkinni og oft á lágum sjó og landa fiskinum á opnum smábátum.
StekkjarkotsbrunnurÁ árunum 1925-31 var gerður út átján tonna vélbátur frá Narfakots- og Tjarnarkotslendingum. Í Tjarnarkotslendingu var byggð lítil bryggja, og fiskhús þar upp af á árunum 1927-8, og var þar aðallendingarstaður fyrir trilluútgerðina. Þá útgerð ráku um árabil bræðurnir Finnbogi Guðmundsson, Tjarnarkoti og Sigurgeir Guðmundsson, Akurgerði, er báðir voru formenn, og meðeigandi þeirra var Magnús Pálsson frá Garðbæ.
Skammt norður frá Njarðvíkurvörum er gríðarstór klöpp, sem kölluð er Hundhella. Spölkorn norðaustar er Hákotsvör, var þaðan róið á 19. öld, allt fram yfir 1890. Norður af henni er Hákotstangi og skagar hann lengst í norður hér í Innri-Njarðvíkurbyggð. Suðaustur frá Hákotstöngum er vík, sem heitir Kirkjuvík og ber hún sennilega nafn af kirkjunni, er stendur upp frá víkinni í suðurátt. Austan við Kirkjuvíkina eru háir bakkar.  Er þar mjög stór klöpp, sem kallast Móakotsklöpp, og er aðdýpi mikið við hana. Var oft lent bátum við klöppina til að landa fiski. Var það gert langt fram á 19. öld og er tóft af fiskbyrgi uppi á bakkanum til minja um þá tíma.
Stapinn - sorphaugarFrá þessum stað, austur með sjónum, er klettabelti er nefnist Gálgaklettar. Tilgátur eru um, að þar hafi verið reistir gálgar í fornöld. Þar skammt austar er smáklettanes, fremst á því er stór klettur, sem nefndur er Grákjaftur. Þar fyrir suðaustan er vík, sem heitir Kópa. Við botn hennar að vestanverðu er Stapakotsvör og var stundaður sjór þaðan allt fram til 1930. Fyrir botni Kópu er hár malarkampur allt að Stapaenda, en hann myndar víkina að austanverðu. Þar skammt innar undir Stapanum er mikil klöpp er heitir Sigurðarsteinn. Gömul sögn segir, að maður að nafni Sigurður hafi orðið út undan með skiprúm, en tekið það ráð að renna færi sínu fram af klöppinni og fiskað ekki síður en þeir sem reru.
Dálítið innar með Stapanum er skúti undir bergi, sem kallaður er Svartiskúti. Upp af honum eru tvær vörður, önnur fram undir bergbrún, en hin spölkorn ofar, og heita þær Álbrúnarvörður. Nokkru innar er Ytriskorunef; þar er Stapinn hæstur fram við sjóinn. Þar innar er Ytriskora og var oft áður farið þar niður og náð í kindur er þangað sóttu. Nú síðan í stríðslok eru þar sorphaugar niðri og uppi. Suðurnesjamenn, aðallega Keflvíkingar, hafa keyrt þangað alslags óþverra og fýkur hann í norðanátt langt upp á land og yfir þjóðveginn eins og vegfarendur geta séð, og eru það mikil og skammarleg óþrif.
Í StekkjarkotiNokkru innar er önnur vík, er skerst inn í Stapann, og heitir hún Innriskora og eru þar endamörk Innri-Njarðvíkurlands. Eru landamerki þaðan upp í Arnarklett, sem er spölkorn austur frá Seltjörn.
Svo vil ég segja frá nokkrum fiskimiðum fram af Innri-Njarðvík og undir Stapanum. Fyrst skal nefna Hálfdánarmið. Súla ber (um kirkjuna) … og Litli-Keilir í Fálkaþúfu á innri Stapaendanum. Álbrúnarmið eru að Álbrúnarvörður  fyrrnefndar bera hvor í aðra.
Njarðvíkurbrún kallast þar sem hraunið og leirinn mætast; miðin þar eru: Brúnarhnúkur suðvestur af Keili kemur fram fyrir Grímshólshæð nærri hraunbrún fram úr miðri Njarðvíkinni að vestan og út af Kópu að austan. Klettsmið eða Klettsslóð fram í leirnum var kallað, er Súla bar í Gálgakletta.
Njarðvíkurbrún var kölluð, þegar Súla bar í Njarðvík og Kirkjubrún er Súla bar í kirkjuna; Narfakotsbrún, er Súla bar í Narfakot.
Skoruleir var kallaður undir Stapanum út frá og milli Ytri- og Innriskoru. Voru þessi mið oft mjög fiskisæl, er netafiskur gekk hér á grunnið.
Svo vil ég að lokum segja frá nokkrum býlum í Innri-Njarðvík til viðbótar þeim sem fyrr segir. Fyrst er Lambhús, tómthús utan túngarðs skammt suður frá Narfakoti. Lagðist það býli í eyði skammt eftir síðustu aldamót. Bjuggu þar seinast hjónin Jón og Margrét. Var Margrét systir Sæmundar Jónssonar á Minni-Vatnsleysu. Annað býlið hét Holt og var það í austur frá Lambhúsum og bjuggu þar hjónin Jón Jónsson og Ingigerður Þorsteinsdóttir, er síðar flutti að Akri. Holt lagðist í eyði rétt eftir síðustu aldamót.
Í túnjaðri við túngarðshlið í Tjarnarkoti (var lítið býli er lagðist í eyði upp úr miðri nítjándu öld, var það kallað Hlið. Þar bjuggu síðast, sem vitað er, gömul hjón, Halla og Magnús að nafni.
Ólafsvöllur og Hólmfastskot voru grasbýli byggð í Njarðvíkurtúni skammt hvort frá öðru austan við syðri tjarnarendann og lögðust þau í eyði á síðari hluta fimmta tugs þessarar aldar.
Skammt í austur frá Móum var grasbýli, sem hét Móakot. Bjó þar síðast maður að nafni Guðmundur Bjarnason. Var hann bróðir Péturs, er lengi bjó í Hákoti. Móakot lagðist í eyði um eða fyrir 1890, en jörðin fór í eigu Stapakotsbónda.
Milli Njarðvíkur og Móa var tómthús, sem nefndist Tröð. Bjuggu þar lengi hjón, er hétu Þorgerður og Jósep, en síðast bjuggu þar Sigríður og Sigfús Jónsson. Sigfús var sonur Jóns, er bjó lengi á Vatnsnesi við Keflavík. Lagðist Tröð í eyði skömmu eftir síðustu aldamót.
Er nú þessari frásögn lokið, en ég hef fest hana á blað í samráði við föður minn, Finnboga Guðmundsson, sem er á 76. aldursári og hefur búið í Tjarnarkoti í 51 ár, og var hann á 11. ári, er hann fluttist hér í Innri-Njarðvík. Ég er einnig fæddur og uppalinn hér og hef alltaf átt hér heima, og á uppvaxtarárum mínum var vinnan mest við sjó og á sjó og þurfti í þeim daglegu störfum að vita skil á mörgu, sem nú uppvaxandi kynslóð þarf ekki að vita eða kunna.

Tímarnir breytast og mennirnir með,
margt hefur gengið úr skorðum.
En halda skal í það, er hefir þó skeð
og hugsuðu kynslóðir forðum
.“                                             

Heimild m.a.:
-Kristján Sveinsson – Saga Njarðvíkur, Þjóðsaga 1996.
-Örnefnalýsingar fyrir Innri-Njarðvík – ÖI.

Innri-Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Selás

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1917 er grein um örnefni eftir Björn Bjarnarson, skrifuð í Grafarholti, 9. des. 1914. Í greininni getur hann m.a. um „Árbæjarsel“ og gamlar leiðir út frá Reykjavík, sbr.:
„229. Selás (líkl. nafn af Árbæjarseli).
Arbeajarsel-201Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstlíðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum.

Sporhella-201

Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum. Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjöllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum. Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð í bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Dyravegur-222Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yfir Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefir verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá. Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð). En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkoti.
Bessastadasel-221Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t.d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn;
5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t.d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o.s.frv.
Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu. En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Arbeajarsel-223229. Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi.“ Um sama efni skrifaði Björn  um nýútkomna bók, „Saga Reykjavíkur“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930. Þar getur hann m.a. um hinar gömlu leiðir sem og fornar selstöður ofan Reykjavíkur með yfirskriftinni „Hvar var Víkursel?“:
Bls. 9-10… jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst …. hefir mjer helst dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal …. Víkursel er á einum stað (Jb.A.M.) nefnt „undir Undirhlíðum“, og kynni það að benda á Öskjuhlíð. Eftir (Oddgeirsmáldaga átti kirkjan Víkurholt með skóg og selstöðu. Virðist það geta bent á, að selið hafi verið í nánd við holtið.“
Bls. 17: (úr Jb. Á. M.): „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum. Sumir kalla það gamla Víkursel. Þar hefir jörðin brúkað hrís til eldiviðar fvrir selsins nauðsyn.“
Vikursel-223Bls. 45: „Dóttir Narfa (Ormssonar bónda í Reykjavík) ein hjet Þórey; hún átti Gísla prest Einarsson, bróður Odds biskups. „Þótti sú gifting af rasandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið heim um nóttina, sagði bónda gestkomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar heldur en von átti á. Sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði. Síðan var hún sótt frá Skálholti til að læra siðu og sóma; veitti tregt, því samur (= ramur.? er barns vani.“ — (Þetta síðasta er sjálfsagt prestatilbúningur frá þeim tíma: þeim hefir þótt bróðir biskupsins taka ógurlega niður fyrir sig, að eiga selstúlkuna. En Þórey hefir verið mikilhæf. eins og hún átti kyn til, snarráð og harðfylgin sjer). Það kemur ekki til mála, sem höf. sögunnar þó virðist hugsa, að sel stórbýlisins Víkur hafi verið í heimalandi. Slík fjenaðarmörg bú, höfðu selin í nokkurri fjarlægð, þar sem sumarland var gott.
Smærri býlin höfðu selin oft í útjöðrum heimalands, eins og að Hlíðarhús áttu sel sunnan undir Öskjuhlíð. En Forngata-221t. d. Se]tjarnar-Nes átti selið upp í Seljadal, fyrir ofan Kamb, þar sem heitir Nessel. Viðeyjarsel er enn svo nefnt við Fóelluvötn, uppi undir Lyklafelli (= Litlaf.). Esjuberg átti sel uppi við Svínaskarð, fyrir ofan Haukafell, Gufunes sel í Stardal, o.s.frv. Reykjavíkurkirkju-ítakið „Víkurholt með skógi og selstöðu“ hefir einnig verið í nokkurri fjarlægð. „Gamla Víkursel“ má telja víst að hafi verið þar sem enn heita Undirhlíðar (fornt; undir Hlíðum), sunnan Hafnarfjarðar, fyrir ofan hraun. Þar eru enn hrískjörr nokkur. Er líklegt, að kunnugir menn þar um slóðir geti vísað á seltóftirnar. Seljatófta er aðeins þar að leita, sem trygt vatnsból er í nánd. En Víkursel það hið yngra, eða síðari tíma sel Víkur — er Gísli gisti í, hefir verið selið við Selvatn, í vesturjaðri Mosfellsheiðar, milli Miðdals og Elliðakots. Það er eina selið nálægt þeim vegi, sem þá var farinn milli Skálholts og Inn-nesja (Álftaness og Seltjarnarness), annað en Grafarsel við Rauðavatn. Frá því Víkurseli (við Selvatn) er til Reykjavíkur ea. tveggja stunda reið, eins og vegurinn lá í þá daga. Það hefir því verið leikur einn fyrir Narfa, að ná Gísla í rúmi.
Þá, á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla voginn frá Korpúlfsstöðum). Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá á Alftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfu, fyrir norðan Lykla-(Litla)-fell, sunnan Selvatn, um Sólheima. Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; það skiptust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna.

Reykjavikursel-221

Það var ekki fyrm en ea. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Sedljadal. syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.
Þórey Narfadóttir hefir verið eftirmynd föður síns, eftir því er sagan lýsir honum. Þegar hún varð þess vís, að Gísli ætlaði að gista í selinu hjá henni, hefir hún sjeð sjer leik á borði að krækja þar í álitlegt gjaforð. En til þess hefir hún sjeð að nauðsynlegt var, að hinn kappsfulli, harðdrægi karl faðir hennar kæmi til, og stæði Gísla að sök; því hefir hún sent smalamanninn. Og Narfi „brá við skjótt “ — og svo gekk alt eins og í sögu! Hún varð prófastsfrú í Vatnsfirði. — Einkennilegt er að sjá öll skapgerðareinkenni Narfa Ormssonar í Vík ósljófguð hjá afkomanda hans í 9. lið, þeim er sagan tilgreinir.
Þegar eftir útkomu „Sögu Reykjavíkur“,sendi jeg höfundinum athugasemdir um Víkursel og fleira, nokkru fyllri en hjer. En þar sem hann er nú látinn, býst ég ekki við, að þær komi þar til greina.
Grh., 15. okt. B. B.“

Heimildir:
-Um örnefni.Eftir Björn Bjarnarson. Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 29. árg., 1917, bls. 9-16.
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. okt. 1930, bls. 333-334.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðasel

Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum.
Vífilsstaðaselið er austan hans í grónum skjólgóðum Vifilsstadasel - uppdrattur Iog grasi grónum hvammi. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Vífilsstaði segir m.a. um Vífilsstaðasel og nágrenni: „Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða. Þaðan liggur línan um Básinn eða Vatnsendabás austan í Sandahlíð og svo í Arnarbæli syðst í hlíðinni. Það er nefnt í fornu bréfi frá upphafi 16. aldar Arnarstapi. Héðan af Arnarbæli, sem er hornmark, liggur línan niður um Vatnsásinn eða Grunnvatnsás og þaðan upp í Víkurholtsvörðu á Víkurholti eystra. Þá er Víkurholt nyrðra. Hér norðar á holtinu er Vífilsstaðasel. Sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og hér vestur af liggur Selstígurinn. Milli Sandahlíðar að austan og Vífilsstaðahlíðar að vestan, norðan Vatnaássins, liggja Grunnuvötn, tjarnir og grónar grundir. Þar var slægnapláss fyrr meir og mótekja.“
FERLIR rissaði selstöðuna upp á leið sinni um Selholtið fyrir áratug síðan, líkt og sjá má hér. Nú, Vifilsstadasel - uppdrattur IIIþegar komið var í selstöðuna og hún rissuð upp að áratugafenginni reynslu, leit hún mun öðruvísi út, eins og sjá má hér til hliðar. Uppdrættirnir sem slíkur eru því lýsandi dæmi um mismunandi reynslusýn fólks á mannvistarleifar.
Svo virðist sem þarna séu bæði leifar af nýrri og eldri selstöðum. Sú síðarnefnda er undir brekku austan við þá fyrri. Hún er nú mjög óljós og erfitt að átta sig á húsaskipan. Þó virðist hún í samræmi við eldri gerð selja (klasa), óreglulegri og minni rými. Þegar bæjarskipan komst á, eins og við þekkjum hana best frá 19. öld, urðu selstöðurnar (rýmin) bæði stærri og reglulegri. Kví er undir klettavegg sunnan í kvosinni og eldri stekkur ofan og austan hennar. Stekkurinn með nýrri selstöðunni er norðaustan hennar. Vatnsstæðið er í miðri kvosinni vestan selstöðunnar. Nýrri selstaðan er greinilega frá tvíbýli eða tveimur bæjum. Þarna gæti því bæði hafa verið selstaða um tíma frá Vífilsstöðum og Hofsstöðum.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

„Vífilsstaðir sem nefndir eru eftir Vífli leysingja Ingólfs Arnarsonar komust í eigu Viðeyjarklausturs, og komust undir Garðakirkju eftir skiðaskiptin nánar tiltekið 1558. Ofan við miðja Vífilsstaðahlíð skammt sunnan við Grunnuvötn er Selás og sunnan ássins eru eru tóftir Vífilsstaðasels í skjólsælum hvammi. Upp af honum er Selhamarinn einnig nefndur Selholt. Selið virðist hafa verið nokkuð stórt, með álíka húsaskipan og víðast hvar tíðkaðist í seljum hér um slóðir. Skammt austan þrískiptra selhúsanna eru tóftir sem gætu verið af stekk og stöðli.“
Frábært veður – Gangan tók 2 kls og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði
-Hraunavinir.is

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Trölladyngja

Trölladyngja er eitt af formfegurri fjöllum Reykjanesskagans. Í rauninni er hún „síamstvíburi“ Grænudyngju, en þær hafa gjarnan saman verið nefndar einu nafni Dyngjur. Á landakortum er Trölladyngja sögð vera hæst 275 m y.s. og Grænadyngja 393 m.y.s. Einnig mætti vel halda því fram að Dyngjurnar væru „símastvíburar“ Núpshlíðarhálss, en þær eru nyrsti hluti hans. Á millum eru Sogin, sundurgrafið háhitasvæði. Háhitinn hefur sett mikinn svip á suðurhlíðar Dyngnanna þar sem litadýrðin er mikil. Í Trölldyngju hefur fundist silfurberg.

Hraunkarl

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani. Utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.
Dyngurnar eru órofahluti af fjallamyndun Skagans, urðu til við gos á sprungurein. Gróft séð er Skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af þessum fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraununum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma. Þótt Skaginn sé frekar gróðursnauður má þó finna á honum ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð, ekki síst í kringum Dyngjurnar Jarðfræðilega er svæðið umhverfis þær mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Trölladyngja og Grænudyngja eru tilvaldar til uppgöngu. Óvíða er útsýni fegurra en þaðan. Sogunum má jafna við „miniture“ Brennisteinsöldu og Landmanalauga. Auðvelt er að ganga á þær um dal á millum þeirra að norðanverðu, áleiðis upp Sogin og áfram upp með Sogagíg þar sem sjá má minjar fornra seltófta eða bara fara upp frá Lækjarvöllum við norðanvert Djúpavatn og þar af brúninni inn á fjöllin til hægri.

Trölladyngja

Í rauninni eru þetta með fallegustu gönguleiðum í Reykjanesfólkvangi sökum litadýrðar og fjölbreytni. Þegar komið er að Dyngjunum að Höskuldarvöllum hverfur Grænadyngja að mestu á bak við systur sína.
Trölladyngja er klettótt og hvöss, einkum eftir því sem ofar dregur, en hin er stærri um sig og nær flöt að ofan. Aðeins um 40 mínútna rólegur gangur er upp á Trölladyngju og síðan má gera ráð fyrir svona svipuðum tíma af henni og á þá Grænu. Hún líkist ekki dyngjum, reyndar hvorugar, að einu eða neinu leiti, enda eru þær það ekki. Hins vegar er gróin gígskál á milli þeirra er gæti verið gígopið, en jökullinn síðan sorfið niður barmana að norðan og sunnan. Þegar haldið er á Grænudyngju að suðaustan er hægt að ganga áfram upp á suðvesturhlíðina, sem er nokkuð brött. Innan skamms er þó komið langleiðina upp og þá er skammt að hæsta tindi. Einnig er hægt að halda upp með austurhlíðinni, en þar er líkt og gata liggi áleiðis upp hana. Henni er ágætt að fylgja ef ætlunin er einungis að fara með og niður norðurhlíðina.
Trölladyngja Útsýnið er stjórbrotið, sem fyrr sagði. Vel má sjá hraunstraumana sem runnið hafa um nágrennið, Afstapahraun, Eldborgarhraun, Dyngnahraun og fleiri og fleiri hrauntauma sem líklega bera ekki neitt nafn. Útsýnið yfir Móhálsadal er sérstaklega gott. Víða má sjá gíga í dalnum, litla og stóra og formfagrar litlar eldborgir. Undarlegt er að sjá stöku stað sem hraunið hefur hlíft, s.s. Lambafell og Snókafell, en það eru smáfell, mynduð á jökulskeiði, er hraunið hefur runnið umhverfis.
Vestan við Grænudyngju er Trölladyngja, sérkennilegur mjór hryggur sem úr norðri hefur keilulögun, Oddafellið. Undir honum eru Höskuldarvellir, víðir og fagrir í skjóli fjalla og hrauns.
Af Dyngjunum virðist Keilir (379 m.y.s.), handan Oddafells, smávaxinn, en einstaklega lögulegur þar sem hann sendur sem „einbirni“ þar í hraunsléttunni.
Trölladyngjusvæðið er eitt af háhitasvæðunum. Árið 1975 vottaði ekki fyrir jarðhita neðan við Soginn, nema í kringum Hverinn eina allnokkru suðvestar. Árið 1979 byrjaði að örla á jarðhita á svæðinu, en nú u.þ.b. 25 árum seinna er svæðið jarðgufuvaki. Búið er að gera tilraunaborholu á svæðinu, leggja veg að henni og annan upp í Sogadal þar sem nú er verið að bora slíkar holur. Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur o.fl. hafa m.a. rannsakað Trölladyngjusvæðið. Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2.

Trölladyngja

Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300–400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af. Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Trölladyngju sjálfri eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er nú fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum suður á móts við Hverinn eina er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt. Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni.
Trölladyngja Í Trölladyngju voru fyrir tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni, hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar sjá um 260°C hita ofarlega. Þegar borholan var gerð suðvestan við Trölladyngju lofaði hún góðu. Borholan í Sogadal virðist þó hafa haft gagnvirk áhrif á hana. Um tíma hitnaði í henni til mikilla muna svo hún reyndist vera ein heitasta hola landsins. Nú hefur það breyst að nýju. Borholan í Sogadal hefur þann eiginleika að „gjósa“ á ca. 12 klst fresti, líkt og geysishverir. Um er að ræða skáborun og gæti það hafa haft þessi áhrif. Sumir hafa gælt við þá hugmynd að gera þessa holu að tilbúnu „túristagosi“ líkt og er við Perluna, en slíkt tal ber nú bara keim af slæmum brandara því það virðist eiga að vera sárabót fyrir eyðileggingu svæðisins með vegagerðinni og borstæðinu.
Framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja (matið á umhverfisáhrifum) voru kærðar til umhverfisráðuneytis á sínum tíma. Niðurstaðan var enn einn brandarinn. „Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki „..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu…“ Síðan segir í beinu framhaldi: „Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins…“
Keilir Að sjálfsögðu hafa tilraunaboranir haft áhrif á svæðið, jafnvel varanleg. Vegagerðin í gegnum hraunið er ekki afturkræf. Borstæðið er skorið inn í gróna hlíð. Hæðarmismunur er um 3 metrar. Verði svæðið virkjað, sem er jú tilgangurinn með þeim tilraunaborunum, sem ekki hafa þurft að sæta umhverfismati, mun röskunin verða varanleg; hús, röralagnir, vegagerð, háspennumöstur o.fl. munu fylgja í kjölfarið.
Trölladyngja er í raunininni bæði minnisvarði um hið liðna og áskorun um að virkjunaraðilar staldri nú við og ígrundi hvernig hægt er að standa að undirbúningi virkjana með lágmarks röskun eða eyðileggingu að markmiði. Hingað til hafa þeir fengið að fara sínu mótþróalaust fram þar sem jarðýtustjórinn hefur síðan ráðið ferðinni. Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur skipuð fulltrúum sveitarstjórnanna á svæðinu, sem stundum virðist hafa farið fram úr sér við einstaka framkvæmdir. Nú gera verndunarsinnar þá sjálfsögðu kröfu að jarðýstustjóranum verði leiðbeint miðað við þær ákvarðanir, sem aðrir hafa tekið fyrir stjórnina og hlotið hafa sáttarviðurkenningu, með framangreint (verndun og nýtingu) að leiðarljósi.
Eyðilegging við borsvæðið í Sogadal
Á Trölladyngusvæðinu, þ.e. í Sogadal, hefur umhverfinu verið raskað verulega í þágu væntanlegra virkjunarframkvæmda. Nýjustu fréttir í þeim efnum eru boranir á Krýsuvíkurheiði. Þær framkvæmdir hafa farið hljótt, svo hljótt að þær hafa hvergi verið kynntar opinberlega – ekki einu sinni á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (sjá m.a. Umhverfisráðuneytið).

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir (1995), bls. 106-107.
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanesskagi.
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://web.mac.com/sigurdursig
-http://www.os.is

Dyngjurnar

Fuglavík

Farið var að Bjargarhúsum þar sem Sigurður Eiríksson frá Norðurkoti tók vinsamlega á móti FERLIRsfélögum.

Sigurður Eiríksson

Sigurður Krsitinn Eiríksson

Sigurður bauð þeim inn og upp á kaffi og meðlæti. Meðlætið kryddaði hann með fróðleik – og það miklum. Hann benti á Helluhúsið (Bjarghús) og Rafnklesstaðabátinn er hvorutveggja standa ofan við hlýlegan bústað hans austan við þjóðveginn milli Sandgerðis og Stafness, gegnt Norðurkoti. Helluhúsið er lítið, en einstakt hús, hlaðið af Einari Gestssyni úr jafnþykkum hellum er reistar hafa verið upp á rönd og steypt á milli. Húsið er ágætur vitnisburður um vilja byggjandans til að reyna lóðrétta notkun steinhellna í stað láréttar, eins og þá hafði tíðkast frá upphafi Íslandsbyggðar. Væntanlega hefur þurft kjark og krafta til slíkra hluta í þá daga þegar sérhver sá er gerði hlutina með óhefðbundunum hætti gæti auðveldlega átt það á hættu að verða álitin skrýtinn. Báturinn er eftirlíking af hinum merka Rafnskelsstaðabáti, sem Sigurði er einum lagið við að lýsa.

Bjarghús

Brunnlokið.

 Við Bjarghús má einnig sjá brunnlok úr hraunhellu. Á það er klappað gat og í því handmótaður steintappi, einnig eftir Einar Gestsson.
Frá Sigurði var haldið að Fuglavík þar sen Nína Bergmann og bræðurnir frá Nesjum, Magnús og Sigurbjörn Stefánssynir, tóku vinalega á móti hópnum. Tilefni ferðarinnar var m.a. að leita að ártalssteini, sem vera átti skv. gömlum sögnum í fornum yfirbyggðum brunni við Fuglavík, en átti að hafaverið færður til og settur í stéttina framan við gamla bæinn þar sem íbúðarhúsið stendur nú. Steinn þessi átti að bera ártalið 1538.

Fuglavík

Fuglavík og Norðurkot neðst t.h.

Útlendur maður, Pípin að nafni, hafði klappað ártalið í steininn, en þá var steinninn í brunni bæjarins, sem fyrr sagði, en var síðan færður í stéttina skv. sömu heimild. Getið er um steininn í Árbók Hins ísl. Fornleifafélags frá árinu 1903 eftir að Brynjúlfur Jónsson hafði farið um svæðið og fengið spurnir af steininum. Hann ritaði um hann og fleira markvert á Suðurnesjum í nefnt ársrit.
Fuglavíkurfólkið sýndi hópnum gömul lóð frá konungsversluninni, sem fundist höfðu eftir að Sigurður í Norðurkoti hafði farið að minna á FERLIRsheimsóknina fyrir skemmstu þegar hin fyrri tilraun var gerð til að hafa uppi á ártalssteininum, en án árangurs. Á lóðunum eru greinileg merki Kristjáns V. sem og þyngdareining í LBs-um. Sennilega er þarna um merkan fund að ræða.

Fuglavík

Fuglavíkursteinninn í stéttinni – 1581.

Til að gera langa sögu stutta hafði ártalssteinninn fundist á hlaðinu. Nína hafði af tilviljun verið að ganga um hlaðið og þá rekið tærnarí steininn, af einskærri tilviljun eftir að farið var að tala um hann. Ártalið 1580 er á honum, en þó er aftasti tölustafurinn orðinn nokkuð óskýr. Steinninn er á þeim stað þar sem ekið er heim að nýja húsinu og hafði verið færður í kaf með ofaníburði. Um er að ræða elsta ártalsstein á Reykjanesi, sem heimildir eru um og enn hefur fundist.
Eftir að hafa skoðað og myndað steininn fylgdi Sigurður FERLIRshópnum síðan um Fuglavíkurveg og inn um gat á Varnargirðingunni. Ætlunin var að leita hugsanlegra tófta undir hinu forvitnilega nafni Selhólar.

Fuglavík

Fuglavíkurleiðin gengin.

Gengið var framhjá Selhólavörðunni, sem er gömul hlaðin varða á fiskimið. Þegar haldið var þaðan til austurs var gengið fram á tóftir undir nefndum Selhólum. Um er að ræða gamalt sel undir holti, en enn austar fannst gömul fjárborg, stór og vel gróin. Utan í henni eru tóftir. Var hún formlega nefnd Fuglavíkurborgin því hún er í landi Fuglavíkur. Hvorki Sigurður né Fuglavíkurfólkið, sem einnig var með í för, hafði áður séð þessa fjárborg og hafði það þó farið þarna um áður en varnargirðingin kom til. Hnit hennar eru færð inn á fjárborgaryfirlitið. Dimm þoka grúfði yfir svæðinu er varði hún leiðangursfólkið fyrir ásýnd Varnarliðsins.

Fuglavíkurleið

Gengin Fuglavíkurleið.

Þá var haldið til baka og í kaffiveitingar í Fuglavík þar sem veitt var af kostgæfni. Fuglavíkurfólkið var síðan hvatt með fyrirheit um að koma nú fljótt aftur í heimsókn því enn væru eftir óskoðaðar minjar, m.a. í Másbúðar

hólma (sjá FERLIR-203) þar sem fyrir er letur og ártöl á klöppum frá árinu 1696, en ekki er að sjá að áður hafi verið ritað um það eða þetta skráð. Út í Másbúðarhólmann hefur verið hlaðin brú svo hægt hafi verið að ganga út í hann þurrum fótum á flóði. Enn má sjá móta fyrir henni.

Bjarghús

Bjarghús. Rafnkelsstaðabáturinn fremst.

Í bakaleiðinni var gamli vegurinn, sem liggja átti yfir heiðina sunnan Melabergs, skoðaður, en hætt var við hann af einhverjum ástæðum. Vegurinn átti að vera það breiður að tveir hestvagnar gætu mæst á honum, en það þótti nýlunda í þá daga. Enn má sjá móta fyrir veginum norðan nýja vegarins að Hvalsnes. Þá var genginn Melabergsvegur til austurs og beygt af honum til suðurs að Melabergsborg. Borgin er greinileg og stendur á klapparhól. Allnokkuð er fokið yfir borgina, enda mikil gróðureyðing allt um kring.
Veður var með ágætum – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Bjarghús

Bjarghús.