Reykjanesviti

Eftirfarandi um Reykjanesvita – „Fyrsta vita á Íslandi „- er eftir Skúla Magnússon og birtist í Sjámannablaðinu Víkingi árið 1973:
Reykjanesviti - fyrsti
Á þessu ári eru liðin 95 ár síðan kveikt var á fyrsta vita landsins, Reykjanesvitanum gamla, nánar tiltekið 1. desember 1878. Mun ég hér á eftir skýra nokkuð frá vitabyggingunni og starfrækslu þess fyrsta vita. Einnig verður greint frá fyrsta vitaverði á Reykjanesi, sem jafnframt varð upphafsmaður að þessari mjög svo þörfu stétt manna. Heimilda um þessi efni er að leita í eftirfarandi ritum: Um  vitavörðinn, febrúarblað Faxa 1963 (útg. í Keflavík), grein eftir Mörtu V. Jónsdótur ættfræðing. Um vitann og byggingu hans: Saga Íslendinga IX., 1. bindi bls. 218—219, Ísafold 26. okt. 1878 og 14. sept. 1895. (Um vitavörðinn sjá jafnframt í „Ægir“ sept. blaði 1914).
Fyrsti vitavörður þessa lands var Arnbjörn Ólafsson, síðar kaup- og útgerðarmaður í Keflavík. Hann fæddist að Árgilsstöðum í Hvolhreppi 24. maí árið 1849, en ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Arnbirni og Guðríði. Á yngri árum sínum flutti hann til Reykjavíkur og lærði þar trésmíði. Stundaði hann þá iðn, ásamt mörgu fleiru um margra ára skeið. Sama ár og vitinn var tekinn í notkun, 1878, flutti Arnbjörn sig suður á Reykjanes og varð umsjónarmaður með vitaljósinu. Hélt hann þeim starfa til ársins 1884, er hann flutti til Reykjavíkur, og stundaði þar verzlun um nokkur ár. Árið 1891 settist svo Arnbjörn að í Keflavík og dvaldist þar til dauðadags. Þar setti hann upp brauðgerðarhús, hið fyrsta á Suðurnesjum. Marta getur þess að hann hafi sjálfur verið bakari en stundað þá iðn mjög lítið. Hingað til Keflavíkur hafði hann með sér tvo menn, sem munu hafa unnið í bakaríinu, þá Magnús Erlendsson bakarameistara, og Eyjólf Teitsson, er var nemi.
ArnbjornArnbjörn byggði sér hús sunnarlega í Keflavík, sem þá var lítið þorp með innan við 300 íbúa. Var húsið fljótlega nefnt „Bakaríið“ og er svo kallað enn í dag af gömlum Keflvíkingum. Það stendur við Hafnargötuna, skammt frá hinum gömlu mörkum Keflavíkurjarðarinnar og Njarðvíkurlands, þó innan lands Njarðvíkinga. Bökunarofnar voru í kjallaranum, þá hlóð Símon Eiríksson, steinsmiður, sem kom mjög við sögu í Keflavík um og eftir aldamótin 1900, var hann hinn mesti völundur í hleðslu, eins og handverk hans sem enn sjást, bera vott um. Útgerð hafði Arnbjörn alltaf, hann gerði út áraskip, vélbáta (meðal stofnenda hlutafélagsins „Vísi“, sem gerði út vélbátinn „Júlíus“, hinn fyrsta sinnar tegundar er til Keflavíkur kom. Það var 1908) og togarann Coot sem hann var einn af eigendum að (1904). Lengi vel var Arnbjörn formaður fyrir skipi sínu, en síðar var það Guðmundur á Hæðarenda í Keflavík, sem eldri Keflvíkingar kannast við. Jafnframt þessu hafði Arnbjörn verzlun og átti pakkhús niður við sjóinn í suðvestur krika Keflavíkur, var það ætíð kallað  „Arnbjarnarpakkhús“. Ennfremur fylgdi húsunum allstórt tún, sem kennt var við eiganda sinn, það er nú fyrir löngu komið undir götur og hús. Þar var Hafnargatan, sem nú er aðalgata umiferðar og verzlunar í Keflavík, lögð yfir árið 1912. Þann 5. júlí 1879 kvæntist Arnbjörn ungfrú Þórunni Bjarnadóttur, systur síra Þorkels á Reynivöllum í Kjós. Þau eignuðust tvö börn, annað misstu þau, en hitt komst upp, það er Ólafur Jón, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn (f. í R.vík 1885, d. í K.vík 1941). Hans kona var Guðrún Einarsdóttir útvegsbónda í Sandgerði, Sveinbjarnarsonar. Hún lézt fyrir fáum árum og hafði þá ásamt börnum sínum rekið skóverzlun í Bakaríinu. Auk þess ólu þau Arnbjörn og Þórunn upp stúlku, Jónínu Guðlaugu Sigurjónsdóttur, ættaða af Vatnsleysuströnd. Hún fluttist til Khafnar og bar þar beinin 1935.
Arnbjörn Ólafsson tók mikinn þátt í menningar- og framfaramálum í Keflavík, sat m.a.í skólanefnd og hreppsnefnd (þá er átt við hreppsn. Njarðvíkurhrepps gamla, sem 1908 var sameinaður Keflavíkurkauptúni). Hann lézt í Kaupmannahöfn á ferð heim frá fiskiráðstefnu í Bergen 30. júlí 1914, en þangað fór hann fyrir Fiskifélagið, sem þá var nýlega stofnað.

Reykjanesviti

Gamli Reykjanesvitinn.

Eftirfarandi segir um Arnbjörn í Ægi 1914 (minningargrein): „Hann var hár maður vexti og vel limaður, gæfulegur og góðmannlegur á svip með greindarlegt yfirbragð, enda var hann maður vel greindur og vel að sér í ýmsum fræðum og tók allmikinn þátt í almennum málum. Hann var einkar dagfarsprúður, vinfastur, ráðhollur og hjálpsamur öllum þeim, sem leituðu til hans, gestrisinn og mjög skemmtilegur í viðræðum. Hann ávann sér því bæði vináttu og virðingu hinna mörgu bæði innlendra og útlendra, sem kynntust honum. Hann var búsýslumaður mikill, einkum í öllu er að fiskveiðum lýtur, og í hinum margbreyttu störfum, sem hann hafði með höndum til sjós og lands, sýndi hann bæði kapp, ráðkænsku og dugnað og framúrskarandi rósemi og úrræði. Kom það m.a. í ljós, þegar hann fyrir allmörgum árum síðan bjargaði heilli skipshöfn af enskum botnvörpungi frá drukknun „fyrir Söndunum“. Sæmdi útgerðarfélag botnvörpungsins hann með skrautrituðu þakkarávarpi og mjög vönduðu gullúri fyrir hans bjargráð, enda hafði skipstjórinn talið víst, að öll skipshöfnin hefði farist, ef Arnbjörn hefði ekki verið þar innanborðs, og lagt á ráðin, hvernig öllu skyldi haga, er skipið var strandað. Hann var jafnrólegur þó hann horfði í augun á dauðanum, og kjarkurinn óbilandi. Hann var gæfumaður og heppnaðist allt sem hann tók sér fyrir hendur, hann virtist jafnvígur á allt. En ég hygg að hann hafi lagt mestan hug á fiskveiðar og vildi afla sér sem mestrar þekkingar á öllu því, er laut að þeirri grein.

Reykjanesviti

Reykjanesvitinn á Valahnúk.

Arnbjörn var frjálslyndur í skoðunum sínum og ættjarðarvinur mikill, fylgdi hann jafnan þeim flokki stjórnmálamanna, sem djarflegast börðust fyrir frelsi og sjálfstæði lands vors, og var góður og einbeittur liðsmaður í þeim hóp. Hann hataði kúgun, áþján og öll óeðlileg bönd hverju nafni sem nefnast, og sömuleiðis óhreinlyndi og ódrengskap, enda var hann sjálfur hreinskilinn, og jafnframt því gætinn í orðum og drengur góður“ Meðan hann var vitavörður átti hann sæti í Hreppsnefnd Hafnahrepps, og var jafnframt hreppsstjóri. Eiginkona Arnbjörns lézt að heimili þeirra í júlí árið 1912.
Byrjað á vitabyggingunni Sumarið 1878 var byrjað á byggingu vitans á Reykjanesi. Borgaði ríkissjóður Dana ljóskerið, kr. 12.000,00, en landssjóður Íslands allt annað. Árið 1875 hafði alþingi ritað konungi „allraþegnsamlegast ávarp um að hans hátign allramildilegast vildi sjá svo fyrir, að fé yrði veitt úr ríkissjóði til vitagjörðar á Reykjanesi m.m.“, þar sem vitagerðir heyrðu undir flotamálaráðuneyti Dana og þar með til sameiginlegra mála ríkisins, en ekki hinna sérstöku mála Íslands eftir „stöðulögunum“. Ekki gat þó stjórnin aðhyllzt þá skoðun, en veitti fé til kaupa á sjálfu ljóskerinu með speglum og fleira, sem tilheyrir.

Reykjanesviti

Upplýsingaskilti við Valahnúk.

Aftur var vitamálið tekið fyrir á næsta alþingi, 1877, en þá voru þing haldin annað hvert ár. Veitti alþingi þá til vitagerðarinnar kr. 14.000, samkvæmt áætlun frá þar til kjörnum verkfræðingi, A. Rothe, er hingað hafði verið sendur þá um vorið til að rannsaka vitastæðið, gera kostnaðaráætlun o.fl. vitanum aðlútandi, Rothe stóð síðan fyrir byggingunni, en ekki kom áætlun hans betur heim en svo, að kostnaðurinn varð kr. 22.000,00 og fór þannig langt fram úr áætlun. Ísafold segir svo: „Verkstjóri við vitahleðsluna var Luders, múrarameistari, sem hér dvaldi síðan mörg ár á eftir. Hann fékk góðan orðstír almennings, en Rothe miður. Sagði Luders svo, að sú sérvizkufirra hins, að hafa turninn hlaðinn í átthyrning, hefði hleypt kostnaðinum fram um helming. Sívala turna eða ferhyrnda hefði mátt hlaða tvo fyrir sama verð“.
Miklir erfiðleikar fylgdu byggingu vitans, eins og eðlilegt var, voru erfiðleikar margir og miklir við bygginguna. Rothe ætlaðist fyrst til að haft yrði hraungrýti í hleðsluna, sem nóg var af, en það var óvinnandi. Luders var svo heppinn að finna mikið af grásteini niður við fjöruborð undir hraunsnös, á að gizka 1-200 faðma fyrir norðan Valahnjúk (þar sem vitinn var reistur). Það grjót mátti kljúfa og höggva að vild. En síðan varð að bera það allt á handbörum að rótum hnjúksins og síðan upp á hann. Var það eins og nærri má geta bæði erfitt verk og seinlegt.
Ísafold gerir lítið úr Rothe verkfræðingi, og segir að almenningi hafi mjög lítið þótt til hans koma. Er eftirfarandi saga sögð því til sönnunar: „Til merkis um, hvað almenningi þótti lítið til „mannvirkjafræðingsins“ koma, er þar í frásögur fært, að þegar að því kom að á vatni þurfi að halda í kalkið og sementið, til turnhleðslunnar, vantaði fötur til að bera það í upp á hnjúkinn frá vatnsbóli því, er loks hafði fundist góðan spöl fyrir neðan hann, eftir mikla leit og margar árangurslausar tilraunir til brunngraftar, sumar næsta fákænlegar, að sumum þótti.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Brá þá mannvirkjafræðingurinn sjálfur við, og lagði af stað inn til Reykjavíkur að útvega föturnar. Segir ekki af þeirri ferð fyrr en hann á heimleiðinni aftur, er kominn suður undir Bæjarfell, fyrir ofan bæ vitavarðar. Þá minntist hann þess, að hann hefir steingleymt erindinu, hann hafði skemmt sér svo vel í Reykjavík, að þar komst engin vatnsfötuhugsun að. Eftir hæfilega hvíld leggur hann síðan af stað aðra ferð til höfuðstaðarinss. Þá er þess getið að hann hittist einhvern dag í fögru veðri í barnaleik suður á melum með sonum landshöfðingja (H. Einssen). Það var Grímur Thomsen, sem rak sig þar á hann og hjalaði við hann lítilsháttar, fann síðan landshöfðingja að máli og hafði orð á því, að betur mundi fara á, að mannvirkjafræðingurinn“ væri við starf sitt suður á Reykjanesi úr því að Landssjóður gyldi honum afarhátt kaup daglega. Verður niðurstaðan sú, að Rothe sást vonbráðar aftur syðra, í mjög slæmu skapi og hábölvandi Grími þeim, en — fötulaus. En í þriðju ferðinni höfðust svo föturnar. Varð þá turnhleðslan að bíða á meðan, í margar vikur? Nei, menn björguðust við naglakassa, kíttuðu þá og þéttu og báru vatnið í þeim“. Í sjálfum byggingarkostnaðinum var innifalið verð á íveruhúsi handa vitaverði og fjölskyldu hans. Því var spáð í Ísafold árið 1870, að þetta hús, sem var torfbær, myndi ekki standa í 10 ár, sakir þess hve óvandað það var og illa frá því gengið. Þetta rættist.
Þegar Ísafoldar-Björn skrifaði um Reykjanesvitann 1895, er búið að byggja þar timburhús, og þó tvö heldur en eitt, járnvarin, góð híbýli og myndarleg nú orðin, enda hefur talsverðu verið kostað til þeirra síðan. Íbúðarhúsin stóðu þá eins og nú, sunnan undir Bæjarfelli, sem núverandi viti stendur á.

Vitagjaldið

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík.

Landssjóður Íslands átti að sjá um reksturinn á vitanum, og var með lögum 1879 lagt vitagjald á skip þau, sem fóru framhjá Reykjanesi, 20 aurar á smálest, ef skip leitaði hafnar við Faxaflóa, en annars 15 aurar. Herskip og skemmtiskútur voru undanþegin gjaldi. Þá er komið að lýsingu á sjálfu vitahúsinu og því sem það hafði að geyma. Er hún tekin hér orðrétt úr Ísafold frá 1895: „Reykjanesvitinn stendur yzt á suðurtá Reykjanesskaga, á dálitlum hnjúk rétt við sjóinn, er nefnist Valahnjúkur, og er beint undan landi. Framan í hnjúknum er þverhnípt berg í sjó niður og hallar töluvert upp frá brúninni. Nokkra faðma frá henni stendur vitinn, þar í hallanum. Það er turn, hlaðinn í átthyrning, úr íslenzkum grásteini, höggnum og steinlími, rúml. 22 feta hár, og 6—7 fet á vídd (að þvermáli) að innan, veggimir rúm 4 fet á þykkt nema helmingi þynnri ofan til, þar sem ljóskerið stendur, enda víddin þar meiri. Ljóskerið er áttstrent, eins og turninn, rúm 8 fet á vídd, og 9—10 á hæð upp í koparhvelfinguna yfir því. Það er ekki annað en járngrind, húsgrind, með stórum tvöf öldum glerrúðum í, sem eru nálægt alin í ferhyrning, afarsterkum og þykkum, 6 á hverri af 7 hliðum átthyrningsins — eins og 6 rúðugluggar — en engri á hinni áttundu, þeirri er uppá land veit. Þar utanyfir er svo riðið net af málmþræði, til varnar gegn fuglum, og er manngengt á milli þess og ljósskersins. En innan í holspeglum (sporbaugaspeglum) úr látúni, fagurskyggðum, 21 þuml. að þvermáli, er þeim raðað 2 og 3 hverjum upp af öðrum á járnsúlnagrind hringinn í kring, nema á sjöttung umferðarinnar, þann er upp að landi veit. Verður svo mikið ljósmagn af þessum útbúnaði, að sér nærri 5 vikur sjávar undan landi, enda ber 175 yfir sjávarmáli.

Tvíloftaður turn

Reykjanesviti

Brunnur við Reykjanesvita.

Turninn er tvíloftaður fyrir neðan ljóskerið, og eru þar vistarverur fyrir vitagæzlumennina, með ofni, rúmi, sem neglt er neðan í loftið m. m. Tvöfaldir gluggar litlir eru á þeim herbergjum, 2 á hvoru. Allt er mjög rammgert, hurðir og gluggaumbúnaður o.fl., og veitir ekki af, því fast knýr Kári þar á dyr stundum, t.d. í veðrinu mikla milli jóla og lýárs í vetur sem leið, þeytti þá ekki einungis sandi úr fellinu, heldur allstórum steinum upp um vitann og bæði inn um turngluggana tvöfalda og eins í ljóskersrúðurnar í gegnum málmþráðarnetið og mölvaði þær, þótt sterkar væru.
Tveir menn eru í vitanum á hverri nóttu allan þann tíma árs, er á honum logar, sem er frá 1. ágúst til 15. maí. Bústaður vitavarðar er sem sé dálitla bæjarleið frá vitanum, fulla 60 faðma. Gæzlumenn slökkva á vitanum hálfri stundu fyrir sólaruppkomu. Tveim stundum þar á eftir skal byrjað á dagvinnunni, en hún er í því fólgin að hreinsa og fægja vandlega lampana og speglana, láta á þá olíu, taka skar af kveikjunum og yfirhöfuð undirbúa allt sem bezt undir kveikinguna að kvöldinu. Sömuleiðis að fægja ljóskersrúðurnar og önnur áhöld sem brúkuð eru. Með því að allbratt er uppgöngu að vitanum og veðrasamt mjög þar, hefur verið lagður öflugur strengur úr margþættum málmþræði meðfram veginum til að halda sér í, og hafðar járnstoðir undir. Upp þann stíg er og borin steinolía og annað, sem til vitans þarf, úr geymsluklefa fyrir neðan hnjúkinn“.
Þegar þetta er ritað, 1895, var vitavörður á Reykjanesi Jón Gunnlaugsson. Hefði hann og Arnbjörn Ólafsson lagt mikið í túnrækt heima við  vitavarðarbústaðinn, en samt gat bústofn vart kallast mikill: 1 kýr og 2—3 hestar, sem varð að fá hey fyrir annars staðar. Slægjur voru engar. Eftirfarandi menn hafa verið vitaverðir á Reykjanesi síðan: Jón Gunnlaugsson sem lézt þar 23. okt. 1902, en þá sat ekkja hans þar eitt ár unz hún flutti til Reykjavíkur. Hún hét Sigurveig Jóhannsdóttir.

Vitaverðir á Reykjanesi

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

3. Þórður Þórðarson 1902—1903.
4. Jón Helgason, áður vitavörður á Garðskaga, 1903—1915, síðar bóndi á Stað í Grindavík. Kona hans: Agnes Gamalíelsdóttir.
5. Vigfús Sigurðsson (Grænlandsfari í leiðangri dr. Wegeners) 1915—1925. Kona hans: Guðbjörg Árnadóttir.
6. ólafur Pétur Sveinsson, 1925—1930.
7. Jón Ágúst Guðmundsson, 1930 til dauðadags, 11. ágúst 1938.
8. Kristín Guðmundsdóttir, ekkja Jóns Ágústs, 1938—1943.
9. Einar Jónsson, sonur Jóns og Kristínar 1943—1947. Hafði gengt vitavarðarstarfinu frá andláti föður síns, en á ábyrgð móður sinnar til 1943.
10. Sigurjón Ólafsson frá 1947 og síðan.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Auðvitað höfðu allir vitaverðir vinnumenn eða aðstoðarmenn, sem voru þeirra önnur hönd við vitavarðarstarfið því oft hefur þurft að hafa sig allan við er napur vindur næddi og ýlfraði um vitann. (Ofangreind upptalning er úr apríl-blaði Faxa 1962 frá Mörtu V. Jónsdóttur).
Reykjanesvitinn sýndi það glögglega, hve mikils virði var að hafa Ijós fyrir sjófarendur á yztu nesjum, en reynslan um viðhald og kostnað hefur sennilega dregið allan framkvæmdahug úr mönnum, svo nokkur tími leið þar til næst var komið upp ljósi fyrir sæfarendur. Var rekstri vitans á Reykjanesi í mörgu ábótavant og fór í ólestur. „Var og lítil þekking á því hvernig hreinsa skyldi hin margbrotnu gler og annað“, segir í Sögu Íslands. Árið 1887 eyðilagðist ljósabúnaður vitans í miklum jarðskjálfta er þá gekk yfir. Og 1896 var vitinn farinn að lýsa mjög illa, og var hingað til þess að athuga hvað gera skyldi. „Þótti honum sem lítið gagn væri í að setja upp góða og dýra vita ef ekki væri séð um að hafa kunnáttumenn við reksturinn. Gegn loforði um, að séð skyldi fyrir því, var hafizt handa um að setja ný ljós í Reykjanesvitann, rannsaka hvar á landinu væri mest þörf á vitum og loks að reisa fyrstu vitana. Voru settir vitar á Garðskaga (1884 hafði verið sett þar upp ljósmerki) og Gróttu, en lengra komust þau mál ekki fyrr en gerð var áætlun, 1905, um 7 nýja vita“. Má hér glöggt greina þann fjörkipp er vitabyggingar taka við komu heimastjórnarinnar 1904.“ – Keflavík, 11. nóv. 1973. Skúli Magnússon.

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 35. árg. 1973, 11.-12. tbl., bls. 359-361 og 384-385.

Reykjanes

Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.

Silungapollur

Gunnar Ólafsson hafði boðið FERLIR að skoða umhverfi Silungapolls, sem og Hólmsár og Suðurár. Þar má finna gamlar reiðgötur, bæði í gegn um hraunið og einnig götur klappaðar í berg.
Gata ofan við SilungapollSömuleiðis eru þarna leifar af hlöðnu byrgi sem gæti verið annað tvegga, gamalt, eða hugsanlega frá stríðinu, en þarna í kring voru töluverð umsvif Breta (Geitháls) og var m.a. grafin “skotgröf” við Hólmsána sem nú er að mestu gróin. Einnig má sjá að aðeins eitt vað er á Suðuránni suðuryfir ána allt frá Silungapolli að ármótum, rétt við ármótin og hefur greinilega verið notað. Reiðgötur, mjög skýrar, eru þarna í gegnum hraunið.
Þegar komið var að sumarbústað Gunnars reyndist hann ekki heima. Eftir sem áður var tækifærið notað og umhverfið skoðað. Gengið var upp á Hófleðurshóll norðan við Suðurá, norðvestan Silungapolls. Grágrýtisklappir hólsins eru jökulsorfnar og má greinilega sjá hver stefna jökulsins hafði verið er hann var að hopa á svæðinu fyrir u.þ.b. 11000 árum. Útlit hólsins er einnig ágætt dæmi um það hvernig jökullinn hefur mótað landslagið; knappt mót stefnunni og aflíðandi undan henni.
Norðar eru Suðurhólmar  og enn norðar, handan Suðurlandsvegar, er  Norðurhólmur. Húsið á Silungapolli, sem hýsti barnaheimili á vegum barnaverndar Reykjavíkurborgar, var rifið á síðusta áratug 20. aldar. Í fréttum RÚV þann 11.02.2007, kl: 18:11, ssagði m.a.: „Íslenska ríkið rak nokkur barnaheimili á 6. og 7. áratugnum og fram á 8. áratug síðustu aldar. Meðal þeirra eru Breiðavík, Unglingaheimili ríkisins, Kumbaravogur og Silungapollur. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að rannsakað verði hvernig aðbúnaði barna var háttað á þessum heimilum en á þeim dvöldu börn oft langdvölum.“

Silungapollur

Silungapollur – barnaheimili.

Í MBL 11. sept. 1955, bls. 12, er fjallað um starfrækslu barnaheimila. Einn kaflinn er um barnaheimili rekin af Reykjavíkurborg, m.a. Silungapoll: „Þar er vistheimili fyrir 30 börn á aldrinum 3-7 ára. Dvalardagar þar árið 1954 voru alls 12119. Forstöðukona er frk. Guðrún Hermannsdóttir.“ Þarna er ekki minnst á Elliðahvamm, sem var vistunarheimili skammt frá fyrir sérstaklega erfið börn. Þar voru rimlar fyrir gluggum vistunarrýmanna, en á Silungapolli var hins vegar um opin rými að ræða eftir þeirra tíma tíðaranda og hugsunarhætti um vistanir barna og ástæður þeirra, sem myndu varla þykja boðlegar í dag.

Efst á Hófleðurshól

Í gönguleiðatilboði FÍ vegna svonefndra „Lýðveldisgangna“ félagsins segir m.a. (Mbl. 4. mái 1994): „Göngunni lýkur við grágrýtishólinn Höfuðleðurshól hjá Silungapolli, enhúsin sem stóðu þarna og Oddfellowreglan reisti fyrir barnaheimili voru rifin árið 1984.“
Ofan við Silungapoll má enn sjá gamlar götur, bæði fyrrum reiðgötur og einnig götur, sem á köflum hafa verið gerðar vagnfærar. Líklega eru vegabæturnar síðan breski herinn var þar í upphafi Seinni heimstyrjaldarinnar.
Suðaustan við Pollinn, á hæð, eru tóft, sennilega beitarhúss frá Hólmi. Veggir standa grónir og hefur verið gafl á mót norðvestri. Annað slíkt er suðvestan við Silungapoll, álíka stórt, en við það er þó einnig heytóft. Hólmshraunið er á millum. Gata liggur milli húsanna sunnan við Silungapoll. Gengið var eftir henni. Reyndist gatan vel greinileg. Frá vestari tóftinni liggur gata til norðurs, að vaði á Suðurá.
Hið merkilegasta er þó gata klöppuð í hraunið vestan og sunnan við svonefnt Heiðatagl, suðvestan við bugðu á Hólmsá. Þar liggur gatan til vesturs sunnan Ármóta og yfir Ármótakvísl. Vestan hennar er gatan hvað greinilegust. Um er að ræða götumyndun líkt og fjölförnustu götum Reykjanesskagans (Hellisheiði, Skógfellavegur, Sandakravegur, Skipsstígur, Helluhraunsgata). Gatan liggur þarna áleiðis að Hólmi og væntanlega áfram áleiðis til Víkur. Austar er gróið yfir götuna, en hún liggur upp með Hólmsánni áleiðis að Lækjarbotnum og þá væntanlega áfram að Lyklafelli og Hellisskarði ofan við Kolviðarhól.
Allt er þetta hið áhugaverðasta væri, sem eflaust mun verða gaumgæft mun betur síðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Beitarhústóft ofan við Silungapoll

Gísli Sigurðsson

„Góðir Rótarífélagar.
Á mun skorta mánuð eða tvo, að tíu ár séu liðin frá því ég hóf verulega, að leita mér fræðslu um Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Ég man það enn, ég var þá staddur inni hjá Jóel Ingvarssyni og voru við að ræða um þetta viðfangsefni. Það höfðum við reyndar gert oft áður. Við höfðum talað um kotin sem búið var í, um hraunið kringum þau og um fólkið sem í þeim bjó.
Gisli Sigurdsson - IIIIJá, mér er það minnisstætt, að Jóel sagði við mig: „Nú ferð þú af stað, Gísli, og safnar því sem safnað verður hjá fólki sem eitthvað veit og kann frá að segja“.
Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar heldur hóf göngu mína með því að fara til Maríu Kristjánsdóttur, hún lýsti nokkrum bæjum og húsum, og er hana þraut erindið, spurði ég: „Hver getur sagt mér nákvæmar frá þessu eða hinu“? Þannig gekk það koll af kolli þar til ég hafði rætt við um það bil 150 manns bæði hér í Hafnarfirði, í Reykjavík og víðar. Alla þessa vitneskju skrifaði ég niður hjá mér í dagbækur og færði síðan inn í aðrar bækur. Með þessu móti hafði ég upp á lýsingum nær 100 – eitthundrað bæja og 60 – sextíu húsa, vel að merkja íbúðarhúsa, auk þess útihúsa ýmiskonar og pakkhúsa verslana. Þessa rannsókn mína batt ég við svæðið frá Hvaleyri kringum Fjörðin vestur að Bala. Landið allt upp frá Firðinum með öllum þess dældum, hólum og lautum, fjöllum, hálsum og dölum, hvömmum, klettum, dröngum og gjögrum, stígum og slóðum og munu örnefni þessa svæðis að tölunni til nálgast 400 – fjögur hundruð. Eins og þið munið af upphafi þessa erindis míns, þá var einnig ráð fyrir gert, að kynnast fólkinu sem hér bjó í kotunum og húsunum. Ekki var aðeins nöfnin, sem duga mundu heldur varð að leita nokkuð uppruna því nær hvers og eins, leita foreldra, föður og móður, afa og ömmu, langafa og langömmu og miklu lengra fram eftir því sem nauðsyn krafðist og heimildir til treyndust. Til þess að fullnægja þessum þætti hefur verið farið yfir nokkur rit sem nú skulu upp talin. Vil ég góðir Rótarífélagar, strax biðja velvirðingar á þeirri upptalningu. En þar sem ég tel, að þetta verði samt að koma til nokkurrar glöggvunar, þá helli ég nú yfir ykkur þessum ófögnuði: Er þá fyrst að telja, að farið hefur verið yfir Manntöl frá árunum 1703 – 1762 – 1801 – 1816 – 1835 – 1840 – 1845 – 1850 – 1855 – 1860 – 1870 – 1880 – 1890 – 1900 – 1910 – 1920 – 1930.
Þessum bókum hefur verið flett austan frá Lómahnúp, landið allt um kring að Skeiðarársandi. Ekki einu sinni heldur mörgum sinnum aftur og aftur.
Farið hefur verið yfir Manntals-, Bændatals- og Gjaldabækur úr Gullbringu- og Kjósarsýslum frá 1696 allt til aldamótanna síðustu. Þetta eru góðar bækur og skilmerkilegar.
Gisli Sigurdsson-VÞá koma skiptabækur Gulbringu- og Kjósarsýslu frá 1760 til 1900, Ábúendaskrá Skálhólsstiftis 1681, Skjöl um Gjafakorn á 18. öld, Ministeríalbækur Garðaprestakalls frá 1747 allt til vorra daga og Húsvitjunarbækur sama prestakalls frá 1820 til 1910. Þrátt fyrir að bækur þessar eru ekki sem bezt skrifaðar, þá eru þær ágætar og hér vantar ekkert blað í, hvað þá bók.
Þá mætti nefna Ministeríalbækur flestra kirkna austan frá Mýrdalssandi til Eyjafjarðar.
Þá má ekki gleyma Úttekstarbókum Garða- Og Bessastaðasókna, eða hins gamla Álftanesshrepps, Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupsstaðar. Skipaskráningar og það sem til hefur náðst af verzlunarbókum héðan úr Firðinum. Ekki má gleyma Veðmálabókum Sýslanna frá 1806 til 1910, sem þó eru góðar heimildarbækur um margt sem varðar bú og bæ fólks og fé Hafnfirðinga. Nær allt það sem hér hefur verið talið eru skrifaðar heimildir. Kemur þá röðin að prentuðum heimildum. Það er fyrst að nefna: Íslendingabók, Landnámabók, Annál Flaeyjarbókar, Íslenska annála frá 1400 til 1800 og Annál 19. aldar. Þá hefur verið nauðsynlegt að fara í gegnum Biskupasögur Jóns Egilssonar, Sýslumannsævir Boga Benediktssonar, Alþingisbækur frá 1580, allt það sem út er komið. Fornbréfabækur frá upphafi til 1550. Yfirréttarbækur þær sem út eru komnar.
Þá hefur verið farið í gegnum Íslenskar æviskrár, 5 – fimm bindi, Prestatal og Prófasta, Guðfræðingatal, Lögfræðingatal, Verkfræðingatal og Kennaratal. Ættartölubækur ýmsat, svo sem Bólstaði og Búendur og Sögu Hraunhverfis eftir Guðna prófessor Jónsson og Bergsætt og nokkrar Árnesingaættir eftir Sigurð E. Hlíðar. Þá hefur ekki verið hægt að ganga framhjá Sögu hafnarfjarðar, Minningarriti Flensborgarskóla, Sögu Eyrarbakka, Sögu Bessastaða, Sögu Jóns Þorklessonar, skólameistara í Skálholti, Tímaritið „Ægir“ og síðast en ekki sízt hefur margs verið leitað í hinni ágætu bók Ferðaminningum Sveinbjarnar ritsjóra Egilssonar, sem er ein ágætasta heimild um byggðina hér í Firðinum 1870 og þar í kring. Þá kemur og hér til greina bók Knud Zimsen „Við Fjörð og Vík“. Fleira mætti til tína, en þessum leiðindalestri læt ég nú hætt að sinni.
Ekki þætti mér það undur þó þið Rótarífélagar góðir segðuð sem svo í hjarta ykkar; „Fjöllin tóku jóðsótt, fæddist lítil mús“. Þegar ég nú reyni að gefa ykkur lítilnn „Prís“ af því sem ég hef reynt að vinna úr þessum plöggum öllum.
Tek ég hér bæjarlýsingu á Ásbúðarbænum, Landamerkjalýsingu Hvaleyrar. Þátt þriggja kvenna er bjuggu í Ásbúð og ólust þar upp, og að síðustu nokkra þáttu einnar ættar hér í Firðinum, sem ég er nýbúinn að ná saman.“

Heimild:
-Handrit Gísla, nú varðveitt í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.

Straumssel

Á vefsíðunni má fræðast um yfir 414 sel, sem skráð hafa verið eða hafa fundist á umliðnum árum á Reykjanesskaga. Hægt er að ganga að tóftum þeirra allra, utan þriggja, sem horfin eru (Reykjavíkursel í Ánanaustum, Hraunsholtssel við Flatahraun og Kalmannstjarnarsel undir Stömpum). Þá eru tilgreind selstaða á a.m.k. þremur stöðum, sem ekki hefur verið skráð hingað til (við Selöldu, í Húshólma og við Hraunsnes vestan við Lónakot).

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Yfirlitið segir til um 401 sel á 202 stöðum. Ef það er borið saman við Jarðabók Páls Vídalíns og Árna Magnússonar frá árinu 1703 kemur í ljós að getið er 63 bæja, sem höfðu selstöðu í Gullbringusýslu, auk þriggja bæja í Ölfusi, sem eru vestan við línu þá sem dregin var, þ.e. Hlíðarenda, Litlalands og Breiðabólstaðar. Ekki er t.d. getið selja frá Hrauni og Þorlákshöfn, auk fjölda annarra.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Innan við 66 sel hafa því verið í notkun á um aldramótin 1700 á þessu svæði, en ekki er getið um önnur jafnmörg, sem sannarlega hafa þá verið í notkun. Verður það að skrifast á ónákvæma skráningu hlutaðeigandi. Margt bendir til að mörg sel hafi verið aflögð þegar upplýsingum var safnað, s.s. Fornusel í Sýrholti. Þá er líklegt að selstaða hafi verið færð til eftir landkostum eða af hagkvæmisástæðum og eldri selin þá yfirgefin. Einhver seljanna gætu hafa verið í notkun um stuttan tíma, en síðan verið aflögð og einnig gætu bændur hafa tekið sig saman um selstöðu, þ.e. að fé (og jafnvel kýr) frá fleiri en einum bæ hafi verið haft í sama selinu.

Urriðavatn

Frá uppgreftri við Urriðavatn.

Í heimildum um sel á Reykjanesi virðist lítið hafa verið um kýr í seljum. Ef þær hafa verið þar er þess jafnan getið sérstaklega, s.s. á Selsvöllum og við Snorrastaðatjarnir. Landfræðilega aðstæður á Nesinu hafa ekki beinlínis þótt heppilegar til kúabeitar. Hins vegar eru nokkur örnefni og mannvirki ekki fjarri bæjum er benda til þess að kúm hefur verið beitt þar um tíma, s.s. Kúadalur við Grindavík, Kúadalur ofan Kaldársels og Kúadalur ofan við Brunnastaðahverfið á Vatnsleysuströnd. Þar er hlaðin rétt. Við Urriðavatn í Garðabæ hefur verið garfið upp kúasel, væntanlega frá Hofstöðum.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Í Jarðabókinni er ekki alltaf getið um staðsetningu seljanna, en reynt að lýsa kostum þeirra. Þannig segir frá selstöðu frá Hrauni (Grindavík): “Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð”. Þórkötlustaðir eru sagðir brúka selstöðu í Krýsuvíkurlandi [Vigdísarvöllum]. Hóp þurfti að kaupa út selstöðu. Á á “selstöðu í heimalandi”. Ummerki eru eftir hana í Dalnum norðan við Hamranes, en þar má sjá hrunið fjárskjól með hlöðnum inngangi og grasi gríð dalverpi. Hlíðar Dalsins eru grasi grónar og seljalegar á að líta. Krýsuvík er sögð hafa tvær selstöður; “aðra til fjalls en aðra nálægt sjó, báðar merkilega góðar”. Þannig virðist Krýsuvík bæði hafa haft selstöðu á Vigdísarvöllum og líklega austan við Selöldu (eða í Húshólma).

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ísólfsskáli á ekki að hafa haft selstöðu, en nafnið Selskál í Fagradalsfjalli bendir til einhverra selnota þar. Hóp er sagt hafa þurft að kaupa út selstöðu, en tóftir nýrra sels frá Hópi er norðvestan undir Selshálsi vestan Hagafell. “Gálmatjörn” (Kalmannstjörn) er sögð hafa átt selstöðu, en “nú að mestu eyðilögð fyrir sandi”. Á Stafnesi er ekki minnst á selstöðu, en þó er vitað að bærinn hafði selstöðu skammt ofan við Djúpavog við Ósa. Vindás er sagt eiga “selstöðu í heiðinni”. Stakkavík “á jörðin yfrið erfiða, svo varla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gángi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð”.
Yfirleitt er þess getið að selstaða sé annað hvort vatnslaus eða “stórt mein af vatnsskorti”. Í Jarðabókinni er þess jafnan getið hvort selstaðan hafi haft aðgang að vatni, það slæmt eða alls ekkert. Er að sjá sem vatnið hafi verið ein af forsendunum fyrir vali á góðu selstæði.

Blikdalur

Selin í Blikdal – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavík

Eftirfarandi eru glefsur úr handrituðum minningum Sigurðar Þorlákssonar, trésmiðs í Hafnarfirði.
Kristmundur Þorláksson
Sigurður var bróðir Kristmundar í Stakkavík, síðar á Brunnastöðum. Í minningum sínum segir hann m.a. frá uppvextinum, sveitardvöl meðal ókunnugra á Vestfjörðum, vinnumennsku í Herdísarvík á fyrri hluta 20. aldar, verbúðarlífinu þar, upphaf búskapar Kristmundar í Stakkavík, lífsbaráttunni og mannlífinu í Hafnarfirði o.fl. Hér verður getið um dvöl hans í Herdísarvík hjá Þórarni bónda Árnasyni.

Í minningunum kemur fram að faðir Sigurðar var Þorlákur Guðmundsson, fæddur á Eyvindarstöðum á Álftanesi, 16. mars 1842. Móðir Sigurðar var Anna Sigríður Davíðsdóttir frá Bakka í Vatnsdal, fædd 9. júlí 1856. Systkini Sigurðar voru Júlíus (1881), Kristmundur (1883), Anna (1886), Sigríður Rósa (1889), Sigurður Gunnlaugur (1891) og Una Jarþrúður (1896). Ekki er getið um fæðingarár Sigurðar.

Stakkavík

….“Kristmundur bróðir minn var mikill áhugamaður fyrir sauðfé. Hann var búinn að eignast fáeinar kindur, en honum þótti ekki gott að hafa þær í bænum. Kaldársel var þá komið í eyði, en fjárhúskofi stóð þar uppi. Hann fékk afnot af Kaldárseli og fór með kindur sínar þangað og hafði þær þar ein 2 til 3 ár. Þetta hlýtur að hafa verið erfitt, að gegna fénu þar, og eiga heima í Hafnarfirði og stunda þar vinnu, og ganga fram og til baka…”
“…Kristmundur var þá vinnumaður í Hvassahrauni, hann fór með mér að Herdísarvík, við fórum þangað gangandi. Þrúða systir mín var þar þá. Við fórum snemma á sunnudagsmorgni, og þegar við komum að Herdíasarvík, fréttum við að verið væri að ferma hana í Strandarkirkju, svo við héldum áfram þangað, og vorum við ferminguna. Það merkilega skeði, að hún þekkti mig, sú eina af mínu fólki, þó var hún aðeins 5 ára þegar ég fór vestur. Ég dvaldi rúman mánuð fyrir sunnan og nú kom að því að fara vestur aftur….”.

Stóra-Eldborg

FERLIRsfélgar – Stóra-Eldborg að baki.

“….Ég var hjá foreldrum mínum um veturinn, en það var frekar lítið að gera. Þrúða systir mín var þá vinnukona í Herdísarvík, svo ég tók mig til og fór í heimsókn til hennar. Þetta var á jólaföstunni. Ég fór klukkan 8 um morguninn á stað og ætlaði að fara Grindarskörð yfir fjallið. Ég vissi nokkurn veginn afstöðuna, en hafði aldrei farið þessa leið áður. Ég fór í góðu veðri að heiman, en þegar upp að fjallinu kom, skall á þreifandi bilur, en lygn. Síðan held ég upp á fjallið. Eftir góða stund kem ég að gjótu, sem mér virtist vera gamall eldgígur. Eftir 1 ½ tíma kem ég á sama stað og endurtekur sig þrisvar. Þá sé ég að ég er orðinn villtur, tek mig því til og gref holu í snjóinn með löngum broddstaf, sem ég var með og leggst og ligg þarna eina 4 tíma. Mér leið ekkert illa, nema mér var kalt á fótum, en gat náð skónum af mér og gat haft fæturna í sokkaleggjunum og þá leið mér betur. Ég var vel búinn svo að mér var ekki kalt.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Það var kominn talsverður skafl yfir mig, en ég hafði nóg loft, hafði stöngina til að rétta upp úr skaflinum.
Nú fór ég að brjótast upp úr fönninni, en ekkert vissi ég hvar ég var staddur, eða hvert halda skyldi. Ég taldi að stutt væri til Herdísarvíkur. Þegar upp úr fönninni kom frusu fötin mín, því það voru svo þykk vaðmálsföt, og var mér því erfitt um gang, held samt áfram, en veit ekkert hvert halda skal.
Klukkan 8 um morguninn eftir er ég kominn niður í Lækjarbotna rétt fyrir ofan Hafnarfjörð, þar þekkti ég mig. Svo það er nú skammt heim. Ég var orðinn bæði þreyttur og svangur, búinn að vera sólarhring í túrnum og oftast á labbi. Ekki hafði ég hugmynd um hvar ég hafði farið ofan af fjallinu, að líkindum fyrir austan Grindarskörð, því fjallið er allstaðar svo bratt annars staðar.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Tveimur árum síðar, þegar ég var að smala, rakst ég á staðinn þar sem ég gróf mig í fönnina, fann stafinn, hann hafði brotnað þegar ég var að grafa mig í fönnina. Það var í Brennisteinsfjöllunum, einn eða tvö tíma frá Herdísarvík.
Svona fór um sjóferð þá, en ekki dugði að hætta við ferðina. Eftir jólin bauðst mér samfylgd með manni sem var að fara til Krýsuvíkur og slóst ég í ferð með honum, og fór svo einn þaðan til Herdísarvíkur. Þetta er auðvitað helmingi lengri leið. Nú gekk allt vel, og ég komst til Herdísarvíkur, og var þar nokkra daga.
Síðan varð mér samferða til baka Indriði Guðmundsson, sem var þá vinnumaður þar.
Í Herdísarvík bjó þá Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar, sýslumanns frá Kirkjubæjarklaustri, síðar bóndi í Krýsuvík. Kona Þórarins var Ólaf Sveinsdóttir. Hann spurði mig hvort ég vildi ekki koma til sín vinnumaður í vor. Ég sló til og fór þangað um vorið. Þrúða fór þaðan sama vorið, og fór þá til foreldra okkar. Þarna var margt fé, um 6 til 7 hundruð ær. Það gekk úti allan veturinn. Það var erfitt að smala því á vorin, því bæði var mikil yfirferð, og féð villt. Við vorum tveir við smalamennskuna á vorin. Þetta vor vorum við Indriði saman. Það gekk vel hjá okkur því við vorum samhentir við það. Það var smalað daglega og rekið í rétt, og rúið, og mörkuð lömb, sem ekki var búið að marka í haganum.

Mölvíkurtjörn

Við Mölvíkurtjörn austan Herdísarvíkur. Þangað sótti Skálholtsstóll og Strandarkirkja löngum reka með vísan til fornra heimilda.

Mér þótti skrýtið fyrirkomulag hjá Þórarni, að þegar maður var búinn að hafa mikið fyrir að koma því heim, að hleypa því út úr réttinni, klukkan 10 á kvöldin, það sagði hann að hefði alltaf verið vani hjá sér. „Þetta þykir mér ljótur vani“, sagði ég. „Maður er búinn að hafa það mikið fyrir að koma því heim“. Ég sagði, að mér fynndist sjálfsagt, að hleypa ekki út úr réttinni fyrr en búið væri að rýja það sem væri orðið það fyldið, að hægt væri að taka af því ullina.
Meiningin hjá auminga karlinum var auðvitað að hlífa okkur við of löngum vinnutíma. En þetta var mjög vitlaust fyrirkomulag. „Það er þá best að bæta úr því, úr því að þið óskið eftir því“. Þetta var mjög gott heimili og húsbændurnir ágætis manneskjur.

Herdísarvík

Vinnufólk í Herdísarvík.

Á heimilinu voru húsbændurnir, við smalarnir tveir, það er að segja tvo mánuði, hinn tímann einn, og gömul kona, sem Hólmfríður hét. Hún var búin að vera 30 ár vinnukona hjá föður Þórarins, svo þegar hann hætti að búa fór hún til Þórarins, og gaf honum Prófentu sína, það var svo kallað þegar gamalt fólk afhenti, ef það átti eitthvað til, og áttu þá húsbændurnir að sjá fyrir þeim til dauðadags, án þess að borga því kaup. Þetta var dygðugt hjú, og ágætis kerling. Hún hefur verið komin yfir sjötugt þegar ég var þarna. Hún var hjá þeim til dauðadags.
Þórarinn sagði mér, að þegar hún var hjá foreldrum hans, á sínum yngri árum, hefðu maður beðið hennar sér til konu. Áður en hún lofaðist honum, fer hún til sýslumanns, og segir honum frá þessu og spyr hann hvernig honum lítist á þetta. Hann ráðlagði henni að eiga ekkert við þetta. „Auðvitað af því að hann vildi ekki missa hana“, sagði Þórarinn og hún var kyrr og giftist aldrei.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Það var mikið borðað af kjöti í Herdísarvík, vanalega þrisvar á dag. Til miðdags var alltaf kjötsúpa, elduð úr tómri mjólk. Á morgnana var kalt kjöt og hveitibrauð og silungur á vorin og sumrin, aldrei annar fiskur. Á kvöldin brauð, slátur og kjöt. Kjötsúpan var alla daga ársins, jóladaginn eins og aðra daga. Ég varð aldrei leiður á kjötsúpunni, enda var kjötið mjög vel verkað, húsmóðirin sjálf saltaði alltaf kjötið, og tókst það mjög vel.
Það var venja að slátra til heimilisins 75 til 100 lömbum á haustin, svo það mátti heita sæmilegar byrðir handa fjórum manneskjum. Fimmti maðurinn var tvo mánuði. Um vorið sagði ég einhvern tímann við Þórarinn að mér finndist lélegt að umgangast svona margt fé og eiga enga kind sjálfur.

Herdísarvík

Herdísarvík.

„Já, það er nú satt“, segir hann og fer og nær í kind, og segir: “Þessa máttu eiga”. Ég var ekkert sérlega hrifin af henni, og segi: „Ég hefði nú helst viljað velja mér hana sjálfur“.
„Jæja, þá skalt þú gera það“. Ég sá að hann móðgaðist við mig aumingja karlinn, hann hafði nefnilega mjög lítið vit á kindum að mér fannst, og hefur náttúrlega valið mér það besta sem honum fannst.
Eftir að búið var að smala og rýja um vorið, fór Indriði og var ég þá einn eftir með gamla fólkinu. Þetta var nú dálítið einmanalegt, því maður sá ekki mann utan heimilisfólið, svo mánuðum skipti. Trjáreki var þarna töluverður og var það notað til eldsneytis, að mestu leiti, og varð að reiða það heim af fjörunum, og saga það og höggva í eldinn. Svo byrjaði búskapurinn, það voru tvö tún, heimatúnið, og svo nefnt Gerði, þar sem fjárhúsin voru, þau gáfu af sér um 200 hesta af heyi, engar útengjar voru.

Herdísarvík

Herdísarvík – fiskigarðar.

Á bænum voru 2 kýr og 2 hestar, 6 til 7 hundruð ær, vanalega sett á 100 lömb á haustinn. Féð gekk úti allan veturinn, og var aldrei gefin heytugga. Mest voru tekin á gjöf 10 lömb, og þá lítin tíma.
Um haustið kom Kristmundur bróðir í heimsókn til mín. Hann var þá búinn að vera nokkur ár vinnumaður norður í Húnavatnssýslu, og átti þar margt fé og tvo hesta. Hann hafði fargað fénu og bar sig nú aumlega, að eiga enga kind. Hann sagðist eiga mikið af peningum. Hann sagðist vilja fara til Manitopa, og vildi fá mig með sér. “Ég á nóga peninga fyrir okkur báða”, sagði hann, en ég var ekkert hrifinn af því. Hann langaði til að vera nálægt mér.

Stakkavík

Stakkavík – gerði.

Næsti bær við Herdísarvík er Stakkavík. Þar bjó ekkja með tveimur börnum sínum uppkomnum, Láru og Gísla. Hún hét Valgerður Scheving. Hún hafði lítið bú, eitthvað um 30 ær, 1 hest og 1 kú. Sonur hennar var mjög duglegur maður, en lítið hneigður fyrir búskap, því hugurinn hneigðist að sjónum.
Nú vildi Valgerður ná sér í vinnumann svo Kristmundur réði sig fyrir næsta ár. Um veturinn réri hann í Grindavík. Hann kom til mín áður en hann fór í verið. Hann sagði: „Mikið leiðist mér að eiga enga kind, geturðu ekki útvegað mér eina rollu hjá Þórarni“? Það gerði ég, og býst við að honum hafi liðið betur á eftir. Svo bað hann mig um að geyma sparisjóðsbókina sína, meðan hann væri í verinu, „en ef ég kem ekki aftur, máttu ega hana“, sagði hann.

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

Um lokin kom hann, og fór þá að Stakkavík. Um haustið brá hann sér austur í Landssveit og keypti sér 50 veturgamlar ær, og 10 fyrir mig. Það þótti nú nokkuð mikið að vinnumaður skyldi hafa 50 ær og hest, eða hérumbil helmingi fleira en húsbændurnir.
Næsta ár giftist hann Láru, dóttur Valgerðar. Þá var komin í eyði næsti bær, Hlíð. Tók hann hana á leigu og nitjaði báðar jarðirnar, þar var nefnilega töluvert stórt tún, og nokkrar útengjar, en í Stakkavík var mjög lítið tún. Honum búnaðist þarna mjög vel, og fjáreignin komst upp í 6 hundruð síðar. Það var töluverð silungsveiði í vatninu, en það var mjög erfitt að búa þarna.

Stakkavík

Stakkavíkurrétt.

Um þetta leyti komu menn að máli við Þórarinn, sem höfðu hug á að gera út skip til sjóróðra í Herdísarvík. Áður hafði verið gert út þaðan fyrir mörgum árum. Hann var nú ekkert hrifinn af því, hann sagði mér að það hefði eiginlega engin heimilisfriður verið, þegar útgerðin var þar.
En hann gekkst inn á það, að leyfa þeim uppsátur fyrir hálfan hlut af skipi, ef þeir gengust inn á það, ef þeir ættu erindi við sig, þá kæmi ekki nema einn maður af skipi, og helst sami maðurinn. Nú var hafist handa að byggja verbúðirnar, þær voru byggðar milli túns og Gerðis, veggir úr torfi og grjóti, með torf þaki, gluggi á suðurstafni, fyrir ofan dyrnar, lengd 12 álnir og breidd 6 álnir. Rúm voru 4 öðru megin meðfram veggjum, og hinum megin 3. Þetta var pláss fyrir 13 menn og sváfu tveir í rúmmi, nema formaðurinn einn.

Stakkavík

FERLIRsfélagar í Stakkavík.

Þarna voru 6 búðir, sambyggðar með þykkum grjótvegg á milli, í öllum búðunum voru moldargólf, þar skammt frá var og salthús, það var timburhús.
Það var byrjað að róa þarna veturinn 1914. Það voru 6 tólfróin skip með 13 manna áhöfn, svo það fjölgaði heldur betur mannskapnum í Herdísarvík um veturinn. Átroðningur var ekki mikill af þessum mönnum, enda fyrirfram ákveðið að svo yrði ekki.
Næsta vor fór ég í kaupavinnu að Brúsastöðum í Þingvallasveit….”.
“Næsta vetur reri ég í Herdísarvík hjá Gísla í Stakkavík. Við vorum 13 á skipinu. Það var skipt á 16 staði hver maður lagði sér til 2 net, en útgerðin stjóra og stjórafæri og ból og bólfæri, og tók einn hlut fyrir það, svo var bátshlutur og formannshlutur.

Stakkavík

Stakkavík 2009.

Mat þurfti maður að hafa til vertíðarinnar. Brauðin, sem voru rúgbrauð, hengdum við upp í salthúsinu og geymdust þau furðu vel, smjör og kæfu geymdum við í skrínum sem hafðar voru fyrir ofan mann í kojunum. Prímus var til að hita á kaffi og svo suðum við stundum fisk.

Í Herdísarvík var fremur góð lending, nema í suðaustanátt. Ef brim var, seiluðum við fiskinn útá, fiskurinn var dreginn upp á svonefndar seilarólar og dreginn svo að landi, síðan þræddur á byrgðarólar í hæfilega bagga og borinn á bakinu, á þann stað sem gert var að aflanum.

Stakkavík

Stakkavík – minningarskjöldur.

Það var töluvert langt hjá okkur, um tíu mínútna gangur, svo var aflanum skipt, í svonefnd köst, voru tveir menn um kastið og gerðu þeir svo að í félagi. Skipin voru sett upp með gangspili sem var efst á kambinum, það var trésílvalningur með járnbolta innan í sem lék í járnlegu, spækur voru fjórar sem gengu inn í sívalninginn, í brjósthæð, síðan var gengið í kring, bandið, sem fest var í bátinn, vafðist um sívalninginn þar til báturinn var kominn nógu hátt upp. Tveir menn studdu bátinn meðan hann var settur upp, og einn maður lagði fyrir, sem svo var kallað, hvalbein og tréhlunna. Það var mikið léttara að setja, ef kjölurinn skarst ekki niður í mölina. Það var eingöngu róið með net, mig minnir að við fengjum 300 fiska í hlut yfir vertíðina….”..

-Úr handritaðri bók Sigurðar, „Gamlar minningar“ – Sigurður Þorláksson, trésmiður frá Hafnarfirði – útgefið 1980.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Hraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.

Hraunamenn og gamlar götur
ÞorbjarnastaðabrunnurÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn eftir Reykjanesskaga. Þvert á Alfaraveg eru stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og Straumsselsstígurskipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarstaði í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá austri til vesturs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarstaðagerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.

Selin voru mikilvæg
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Ennfremur eru nátthagar, stekkir, fjárskjól og smalaskútar við selin.

Helstu búskaparhættir
StraumsselSauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.

Smalaskjól

Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarstaðahúsinu til ársins 1952 og í Vesturbæ til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Vesturbær og Eyðikot.

Útræði var nauðsynlegt
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi Óttarstaðaréttsjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð.  Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.

Örnefni og kennileiti
MiðmundarvarðaSérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Dagmálahæð (kl. 9:00), Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir við Straum og Þorbjarnarstaði og hafa einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

Ferskvatnstjarnir með sjávarföllum
StraumurTalið er að Straumsvík dragi nafn sitt af sjávarstraumum þeim sem myndast á milli Straumshólmanna á fallaskiptum, eða af ferskvatnsfljóti því sem rennur neðanjarðar frá Kaldárbotnum og Undirhlíðum. Sprettur ferskvatnið fram undan hrauninu við víkina og er rennslið talið jafnast á við margfalt vatnsmagn Elliðaánna.
Undir öllu hrauninu og mestöllum Reykjanesskaga liggur jarðsjór á nokkru dýpi. Ofan á jarðsjónum flýtur ferskt jarðvatn vegna þess hversu eðlisléttara það er og eru nokkuð skörp skil á milli þeirra.
Þegar fellur að flæðir sjávarstraumurinn inn undir hraunið. Við það hækkar grunnvatnsstaða jarðvatnsins undir hrauninu og ferskvatnstjarnir myndast í lægðum og lautum við ströndina.
StraumurVið Faxaflóa getur munur sjávarhæðar milli flóðs og fjöru verið allt að 4 metrar. Í tjörnum fer munur á sjávarföllum að miklu leyti eftir staðsetningu þeirra. Flestar tjarnirnar eru þurrar á fjöru, en geta orðið 1-2 m. djúpar á flóði, t.d. Jónsbúðatjörn. Í Brunntjörn er um 2 m. munur á flóði og fjöru. Þessar ferskvatnstjarnir eru einstök náttúrufyrirbæri og ekki er vitað til þess að þær eigi sína líka hvorki hérlendis eða erlendis.
Gróðurinn við tjarnirnar er einnig einstakur þar sem hann hefur þurft að aðlagast þessum ferskvatns sjávarföllum; aðlögun sem einungis hefur staðið yfir í 5 til 7 þúsund ár, eða frá því hraunið rann.

Jarðfræði og einkenni hraunsins
KapelluhraunHraunið er dæmigert helluhraun, mishæðótt með falleg ker og skemmtilega hraunhóla sem eru yfirleitt sprungnir í kollinn. Það hefur átt upptök sín í Hrútagjárdyngju vestur undir Sveifluhálsi fyrir um 5 til 7 þúsund árum. Það þekur Almenning og myndar alla ströndina milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur.
Austan við Hraunin er Kapelluhraun sem álverið við Straumsvík stendur nú á. Það er mjög úfið gjallkennt hraun og er dæmigert apalhraun. Það hefur átt upptök sín í Undirhlíðum og rann á sögulegum tíma, að öllum líkindum árið 1151. Einungis nyrsti hluti hraunsins nefnist Kapelluhraun og er kennt við kapellu heilagrar Barböru sem stendur rétt sunnan við álverið.

Fjölskrúðugur gróður
KapellanHraunið er að mestu klætt mosa og er grámosi ríkjandi, en grónir grasbalar eru áberandi næst bújörðum og selstöðum. Lynggróður er mjög algengur t.d. beitilyng, krækilyng, bláberjalyng og sortulyng. Fallegir burknar vaxa í hraunsprungum og ýmiskonar blómplöntur þrífast á víð og dreif um hraunið s.s. blóðberg, blágresi, lyfjagras, tágamura, maríustakkur og burnirót.
Almenningur er víða vaxinn kjarri en í lok síðustu aldar var kjarrið nánast að fullu eytt af hrístöku og fjárbeit því sauðfé var öldum saman haft á útigangi í afréttinum. Eftir að dró úr lausagöngu búfjár í Hraunum eftir miðja 20. öld hafa birki, víðir og einir tekið mikinn vaxtakipp. Almenningur er stundun nefndur Hraunaskógur í dag.

Dýralíf  í Hraunum
RefurMest ber á fluglalífi s.s. rjúpu, heiðlóu, sandlóu, stelk, kríu, gæs, þúfutittlingi, skógarþresti, músarindli, spóa, hrossagauk og hrafni. Áður fyrr var tófa mjög algeng í Hraunum og sjást víða skotbyrgi sem hlaðin voru til að fella hana. Minnkur er mjög algengur við fjöruna og má víða sjá ummerki eftir hann. Margskonar smádýr t.d. hagamýs finnast í Hraunum.

Sjórinn og fjaran
Sjórinn og fjaran í Hraunum hafa löngum heillað marga, jafnt unga sem aldna. Fjaran er svo margbreytileg að það er sama hversu oft hún er gengin, það er alltaf eitthvað nýtt að sjá. Hægt er að gá að skipaferðum eða fylgjast með birtuspilinu út við sjóndeildarhringinn. Fátt jafnast á við að horfa á Snæfellsjökul baða sig í kvöldsólinni á góðum sumardegi.
Kræklingur er nokkuð algengur og víða má finna stórar skeljar. Á fjöruklettum má sjá kuðunga, aðallega þangdoppu og klettadoppu og í lónum sem verða þegar fjarar út má oft finna litla krabba.
Mikið landbrot á sér stað við ströndina sem stafar aðallega af landsigi og hefur fjaran breyst talsvert á síðustu árum.

Flutningahöfn fyrr og nú
KræklingurÍ Hraunum spila gamli og nýi tíminn saman. Straumsvík var mikill verslunarstaður frá árinu 1400 og fram yfir 1600 þegar þýskir og enskir kaupmenn vöndu komur sínar til landsins. Það var oft mikið um að vera þegar farmur var tekinn á land og verslunarbúðir settar upp þar sem nú kallast Þýskubúð. Þar áttu kaupmenn ýmiskonar viðskipti við inn- og útnesjamenn.
Nú fara stærstu flutningaskip sem sigla til Íslands um Straumsvíkurhöfn þegar þau bera hráefni um hálfan heiminn til álversins við Straumsvík og flytja síðan fullunna vöru aftur frá landinu.

Fjölbreyttar gönguleiðir
VarðaGamlir stígar og götur hafa reynst skemmtilegar gönguleiðir í Hraunum og er hægt að velja sér lengri eða skemmri leiðir með því að fylgja þeim. Svæðið er mjög áhugavert og full ástæða til að kanna það af eigin rammleik því víða leynast áhugaverðar minjar, sérstæð náttúra og margt sem gleður augað.
Markmiðið með þessu upplýsingariti og kortinu sem fylgir er að gera Hraunin aðgengileg til útivistar, náttúruskoðunar og búsetuminja fræðslu.

Útivistarsvæðið í Hraunum
Hraunin eru mun merkilegri en margur hyggur og kjörið útivistarsvæði. Hafnfirðingar eru lánsamir að eiga slíkt svæði við bæjardyrnar. Hraunin geyma minjar sem eru samofnar búsetusögu og náttúru Hafnarfjarðar, merkar jarðmyndanir, fjölbreytt gróðurfar og lífríki sem er vel þess virði að kynna sér nánar.

Samantekt: Jónatan Garðarsson og Lovísa Ásbjörnsdóttir.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Grindavík

Söguskilti  um skipsströnd á svæðinu frá Hrauni að Hópi var nýlega vígt í Þórkötlustaðanesi. Skiltið er ofan við Þórshamar og utan við Höfn á austanverðu Nesinu. Þetta nýja söguskilti segir sögu skipsstranda frá Hraunsandi vestur um að Hópsvör. Það var vígt í tilefni af 80 ára afmæli Slysa-varnadeildarinnar Þorbjörns. Deildin var stofnuð 2. nóvember 1930. Skiltin voru unnin í samvinnu Þorbjarnar og Fjórhjólaævintýrisins ehf. með tilstyrk frá Menningarráði Suðurnesja.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi

Í tilefni af vígslunni var gengið undir leiðsögn Gunnars Tómassonar, fyrrum formanns Slysavarnadeildarinnar og Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, um Þórkötlustaða- og Hópsnesið en á leiðinni voru, auk söguskiltisins, endurvígð 8 skilti er lýsa strandi hvert á sínum stað. Nesið geymir afar merka sjóhrakningasögu. Þar má m.a. sjá skipsflök eftir strönd. Björgunarsveitin Þorbjörn og Slysavarnadeildin Þorbjörn hafa samtals bjargað 232 sjómönnum í 22 sjóslysum þar sem 47 hafa farist á þessum 80 árum sem liðin eru frá stofnun deildarinnar.
Á skiltinu fyrrnefnda koma m.a. fram eftirfarandi upplýsingar um einstök sjóslys og björgun áhafna við strönd Grindavíkur þar sem björgunarsveitin Þorbjörn kom við sögu:
1931 – Cap Fagnet, franskur togari, við Hraun, 38 bjargað.
1933 – Skúli fógeti, fiskiskip, vestan Staðarhv., 24 bjargað, 13 fórust.
1936 – Trocadero, enskur línuveiðari, Járngerðarst.hverfi, 14 bjargað.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-2

1947 – Lois, enskur togari, við Hraun, 15 bjargað, 1 fórst
1950 – Clam, enskt olíuskip, Reykjanestá, 23 bjargað, 27 fórust.
1950 – Preston North End, enskur togari, Geirf.sk, 6 bjargað, 1 fórst.
1955 – Jón Baldvinsson, ísl. togari, Reykjanestá, 42 bjargað.
1962 – Auðbjörg, ísl. fiskiskip, Hópsnesi, 6 bjargað.
1971 – Arnfirðingur II, ísl fiskiskip, Hópsnesi, 11 bjargað.
1973 – Gjafar, ísl. fiskiskip, Hópsnesi, 12 bjargað.
1974 – Hópsnes, ísl. fiskiskip, Staðarhv., 2 bjargað.
Skiltid á Thorkotlustaðanesi-31977 – Pétursey, ísl. fiskiskip, Bótin, 1 bjargað.
1987 – Skúmur, ísl. fiskiskip, Hópsnesi, 7 bjargað.
1989 – Mariane Danielsen, danskt flutningask., Hópsnesi, 4 bjargað.
1991 – Miranda, norskt flutn.skip, vestan Reykjaness, 4 bjargað.
1991 – Jóhannes Gunnar, ísl. bátur, við Reykjanes, 2 bjargað.
1991 – Eldhamar, ísl. fiskibátur, Hópsnesi, 1 bjargað, 5 fórust.
1993 – Sigurþór, ísl. fiskiskip, Krýsuv.bergi, 2 bjargað.
1993 – Faxavík, ísl. fiskiskip, Hópsnesi, 1 bjargað.
1999 – Eldhamar, ísl. fiskiskip, Krýsuv. bergi, 9 bjargað.
2003 – Trinket, erl. flutn.skip, innsiglingunni, 6 bjargað.
2004 – Sigurvin, ísl. fiskibátur, innsiglingunni, 2 bjargað.
Skiltid á Thorkotlustaðanesi-5Fleiri sjóslys hafa orðið við Grindavík þar sem sjómönnum hefur verið bjargað af öðrum
.

Auk þess eru eftirfarandi sjóslys, sem orðið hafa milli Hrauns og Hóps, tíunduð:

1.  Árið 1602 fórst farmskip Skálholtsstaðar fyrir framan Þórkötlustaði. Þar drukknuðu allir skipverjar, 23 karlmenn og eins túlka. Voru þeir flestir jarðaðir frá bænhúsinu á Hrauni.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-4

2. Um miðja 19. öld rak mannlaust seglskip (skonnorta) á land í Hrólfsvík. Skipið var lestað bankabyggi, það var þurrkað og selt.

3.  Eftir miðja 19. öld strandaði frönsk skúta í Þórkötlustaðabótinni. Áhöfnin bjargaðist sjálf í land og komst heim að Einlandi en þá tókst ekki betur til en svo að skipstjórinn festist í hlandforinni við Einland.

4.  Kútter Vega, saltskip strandaði fremst á Hópsnesinu [Þórkötlustaðanesi] austur af vitanum við Austurbæjarlátur einhvern tímann á bilinu 1880-´90. Áhöfnin bjargaðist en skipið brotnaði á strandsstað.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-6

5. Um 1890 strandaði frönsk fiskiskúta á Hraunssandi austan við Dunkshelli. Veður var með besta móti. Áður en skútan strandaði hafði hún siglt á milli Þórkötlustaðakipanna, sem öll voru á sjó. Áhöfnin bjargaðist og var allt hirt úr skipinu sem nýtanlegt var.

6.  Þrímastra briggskip með saltfarm, strandaði í norðan kalda en sléttum sjó, á svipuðum stað og Vega um 10 árum seinna (189?). Skipið komst á flot aftur lítið skemmt.

7.  Fyrir 1900 – Rétt fyrir aldamótin 1900 slitnaði „spekulantaskipið“ Fortuna upp af legunni á Járngerðarstaðasundi og rak upp á Rifshausinn í mynni Hópsins og strandaði þar.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-7

8. Frönsk fiskiskúta fannst á hvolfi við Dunkshelli austan við Hrólfsvík um 1890. ekkert er vitað um áhöfnina.

9. 1 maí 1917 strandaði ensk þriggja mastra skonnorta Scheldon Abby með saltfarm, víkurmegin við Leiftrunarhól. Suðaustan andvari var, súld og svarta þoka. Skipshöfnin var 9 aldraðir sjómenn sem allir björguðust en skipið liðaðist í sundur á strandstað.

10. 8. desember 1923 strandaði þýskur togari við Grindavík, komst út aftur, en sökk líklega út af Þórkötlustöðum. Áhöfnin komst í björgunarbát og bjargaðist í land við Blásíðubás á Reykjanesi. Allir björguðust.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-8

11. 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan við Skarfatanga við bæinn Hraun austan við Grindavík í norðaustan roki og snjókomu og afleitu skyggni. Áhöfnin fór í björgunarbát og rak með landinu að Blásíðubás vestur á Reykjanesi og bjargaðist þá á land. Skipstjórinn á Hákoni var áður stýrimaður á Resolut þegar hann strandaði 1917 í Katrínarvík.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-9

12. Aðfaranótt 24. mars árið 1931, röskum fimm mánuðum eftir að Slysavarnadeildin Þorbjörn var stofnuð, varð þþess vart að togari hafði strandað sunnan undir Skarfatanga við bæinn Hraun austan við Grindavík. Skipið, sem hét Cap Fagnet og var frá Fécamp í Frakklandi, tók niðri alllangt frá landi, en barst síðan yfir skerjagarðinn og festist skammt frá ströndinni. Þeyttu skipverjar eimpípu skipsins og gáfu þannig til kynna að þeir væru í nauðum staddir. Björgun skipbrotsmannanna 38 af Cap Fagnet gekk Skiltid á Thorkotlustaðanesi-10að óskum, en þó mátti ekki tæpara standa, því aðeins nokkrum klukkustundum eftir björgunina brotnaði skipið í spón á strandstaðnum. Hér var í fyrsta skipti skotið úr línubyssu og fluglínutæki notuð til björgunar á Íslandi. (Sjá meira um Cap Fagnet HÉR og HÉR.)

13. Enskur togari strandaði í Þórkötlustaðavík við Leiftrunarhól í sunnan kalda, en svarta þoku og sléttum sjó 23. mars 1932. Varðskipið Ægir náði honum á flot. Allir skipverjar björguðust.

14. 1. mars 1942 er talið að vélbátur úr Vestmannaeyjum, Þuríður formaður VE 233, hafi farist austan við Þórkötlustaðabótina á Slokanum. Allir skipverjarnir 5 fórust.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-1115. Rétt eftir að sérstök björgunarsveit var stofnuð innan Slysavarnadeild-arinnar strandaði breski togarinn Lois frá Fleetwood. Lois strandaði í Vondufjöru í Hrólfsvík austan við bæinn Hraun 6. janúar 1947. Fimmtán skipverjum var bjargað til lands, en skipstjórinn tók fyrir borð er hann ætlaði síðastur allra að yfirgefa skipið í stólnum. 

16. 7. febrúar 1962 strandaði Auðbjörg RE 341 í dimmviðri og mikilli snjókomu og byl, suðaustan í Þórkötlustaðanesi. Sex manna áhöfn var bjargað af Björgunarsveitinni Þorbirni. Skipið eyðilagðist á strandstað.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-1217. 3. febrúar 1987 strandaði Skúmur GK 22 á leið út úr höfninni. Skipið tók niðri, við það varð stýrið óvirkt. Sjö menn úr áhöfn Skúms voru dregnir í land í björgunarstól, en aðrir skipverjar urðu eftir um borð og biðu þess að skipið yrði dregið á flot.

18. 2. mars 1942 strandaði Aldan VE frá Vestmannaeyjum vestanvert á Hópsnesinu á móts við Hellisboðann. Báturinn var vélarvana og sundið ófært, en skipverjum tókst að sigla á fokkunni (segl) inn að Sundboðanum, þá tók brotsjór bátinn og færði hann upp á kambinn. Allir skipverjar björguðust.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-1319. Hinn 22. febrúar 1973 hlekktist Gjafari VE 300 á í brimi og stórsjó á leið út víkina. Lágsjávað var og tók skipið niðri svo að gat kom á það. Þegar komið var á strandstað var hörku aðfall. Línu var skotið út í skipið og tókst að bjarga öllum tóft skipverjunum í land. Sjórinn gekk yfir skipið meðan þeim síðustu var bjargað og hálftíma síðar var skipið komið á kaf í brotsjóinn.

20. 28. nóvember 1959 fórst Þórkatla GK 97 við innsiglinguna inn til Grindavíkur vestan í Hópsnesinu. Skipverjarnir átta björguðu sér allir í gúmmíbjörgunarbáti í land.

Skiltid á Thorkotlustaðanesi-1421. Að kvöldi 20. janúar 1989 strandaði flutningaskipið Mariane Danielsen þegar það var á leið út úr höfninni. Þyrka Landhelgisgæslunnar flutti átta skipverja í land, en yfirmenn skipsins neituðu að koma í land. Daginn eftir komu svo yfirmennirnir í land í björgunarstól sveitarinnar.

22. Hinn 20. desember 1971 hlekktist Arnfirðingi II GK 412 á í innsiglingunni að Grindavík með þeim afleiðingum að hann strandaði. Öllum skipverjum, 11 mönnum, var bjargað í land með fluglínutækjum.

23. 12.04.1976 fórst Álftanes GK 51 um 2.7 sm suðaustur af Þórkötlustaðanesi (Hópsnesi). Þennan dag voru suðvestan 4 til 5 vindstig. Sex Skiltid á Thorkotlustaðanesi-15skipverjum var bjargað af nærstöddu skipi en tveir skipverjar drukknuðu.

24. Snemma morgun 12. febrúar 1988 strandaði Hrafn Sveinbjarnarson III GK 11 fremst í Hópsnesi. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði allri áhöfninni, 11 mönnum. Björgunarsveitin var til taks og tók við skipverjum úr þyrlunni.

25. Vélbáturinn Eldhamar GK 13 strandaði yst í Hópsnesinu að kvöldi 22. nóvember 1991. Björgunarsveitin fór strax á staðinn en ekki tókst að koma línu um borð í Eldhamar. Brotsjóir gengu yfir bátinn hvað eftir annað og færðist hann til í fjörunni og sökk að framan ofan í gjótu fremst í nesinu, gálgi bátsins stóð samt upp Skiltid á Thorkotlustaðanesi-16úr. Skipverjum skolaði fyrir borð. Enn skipverja komst lífs af. Fimm skipverjar fórust.

26. Suður af Hópsnesinu fórst vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 er hann var að koma úr róðri 18. janúar 1952 í hvössu hríðarveðri og slyddubyl þannig að ekki sást í vitann frá sjó. Með bátnum fórust fimm ungir og duglegir sjómenn. Grindvíkingur var stærsti bátur Grindvíkinga á þessum tíma.

Fyrirhugað er að setja upp annað sambærilegt skilti í Staðarhverfi er lýsa á skipsköðum vestan Hóps að Valahnúk.

Heimild:
-Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

Landnámsmenn

Ísland byrjaði að byggjast frá Noregi á 9. öld. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun og þeim skriflegu heimildum, sem til eru, nam Ingólfur Arnarson fyrstur manna land á Íslandi. Hann setti bæ sinn niður í Reykjavík um 870 og staðfesta fornleifarannsóknir við Aðalstræti og Suðurgötu þá tímasetningu.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Lítið er vitað um fjölskyldu Ingólfs og hagi hennar annað en að kona hans hét Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra Þorsteinn og þrælar Vífill og Karli. Þau reistu sér skála við núverandi Aðalstræti en landið, sem Ingólfur helgaði sér, var afar víðáttumikið, náði frá Brynjudalsá í Hvalfirði að Ölfusá í Árnessýslu. Afkomendur Ingólfs og Hallveigar í karllegg báru virðingarheitið allsherjargoðar vegna stöðu sinnar sem afkomendur fyrsta landnámsmannsins. Þeir beittu sér fyrir stofnun Kjalarnesþings og áttu verulegan þátt í stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Þorkell máni, sonarsonur þeirra, var lögsögumaður og sonur hans, Þormóður, var allsherjargoði er Íslendingar tóku kristni árið 1000.

Ingólfur Arnarsson

Ingólfur Arnarsson – stytta Einars Jónssonar.

Ingólfur hefur með hinu stóra landnámi sínu hugsað sér að ráða því hverjir settust að undir veldisstól hans á Suðvesturlandi. Eftir hans daga saxaðist smám saman á landnám hans. Í nágrenninu risu stórbýli sem skyggðu jafnvel á sjálfa Reykjavík, hugsanlega vegna erfða meðal afkomenda Ingólfs. Þar má nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Eftir árið 1000 er Reykjavíkur sjaldan getið í heimildum og ætt Ingólfs hverfur af sögusviðinu.
Sagan segir að Hrómundur Gripsson hafi átt tvo syni, Björnólf og Hróald. Sonur Björnólfs var Örn faðir Ingólfs og Helgu, en sonur Hróalds var Hróðmar faðir Leifs (Hjörleifs).
Þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, þar til í veislu um veturinn strengdi Hólmsteinn þess heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, og varð fátt um með þeim Hólmsteini og Leifi, er þeir skildu þar að boðinu.

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.

Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við syni Atla jarls, en er þeir fundust lögðu þeir Hólmsteinn og bræður hanns þegar til orustu við þá Leif og Ingólf. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði en gerði för að þeim aftur um næsta vetur þar sem hann féll enda höfðu þeir haft njósn af för hans. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.
En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.
Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Aðalstræti

Aðalstræti – brunnur.

En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.
Þeir bjuggu nú skip sín til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra.
Þetta sumar sem þeir Hjörleifur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi. Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.
Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða.
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi tíðindin.

Hjörleifshöfði

Hellir í Hjörleifshöfða.

Þá fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: „Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.“
Ingólfur gekk upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu hafa flúið þangað því að báturinn var horfinn. Fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Ingólfur drap þá alla. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.
Þeir Ingólfur fóru aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

Reykjavík

Reykjavík 1789.

Ingólfur fór um vorið og tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu komið á land og bjó þá í Reykjarvík. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla sonur þeirra var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður en alþingi var sett.
Samkvæmt heimildum Örnefnastofnunar er engin vík eða vogur í höfuðstaðnum sem ber nafnið Reykjavík. Upphaflega nafnið var Reykjarvík með r eins og sjá má í frásögn Íslendingabókar af því þegar Ingólfur Arnarson tók sér bólfestu á þeim stað sem seinna varð höfuðstaður Íslands. Þar segir „ … hann byggði suðr í Reykjarvík“. Örnefnið Reykjarvík hefur væntanlega átt við víkina milli Laugarness og núverandi Granda (eða Örfiriseyjar).

Reykjavík

Reykjavík 1835 – Joseph Gaimard.

Vel þekkt er sú saga að Reykjavík hafi fengið nafn sitt af reyknum sem Ingólfur Arnarson sá stíga upp úr laugunum þegar hann fyrst kom á staðinn. Í bókinni Saga Reykjavíkur segir Klemens Jónsson (1944) að á landnámsöld megi gera ráð fyrir að laugarnar hafi verið heitari en nú og því borið meira á reyknum. Einnig nefnir Klemens þá gömlu sögn að í norðvestanverðri Örfirisey hafir fyrrum verið laug sem sjór sé nú genginn yfir. Sé það rétt, hafi á sínum tíma verið hverareykir bæði austan og vestan víkurinnar og því eðlilegt að kenna hana við reykina.

Landnámssýning

Landnámsýningin í Aðalstræti.

Orðmyndin Reykjarvík virðist hafa horfið fljótlega því að í eldri heimildum er landnámsjörðin yfirleitt nefnd Vík á Seltjarnarnesi. Með tímanum festist þó nafnið Reykjavík í sessi og eftir að þéttbýli tók að myndast er alltaf talað um Reykjavík.

Í miðaldaritum er frá því sagt að Ingólfur Arnarsson hafi fyrstur numið land á Íslandi og búið í Reykjavík. Heimildirnar, Íslendingabók frá fyrri hluta 12. aldar og Landnámabók sem er yngri, geta þess aðeins að bær Ingólfs hafi verið í Reykjavík en ekkert kemur fram um hvar nákvæmlega bær hans hafi staðið.

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti.

Í Landnámabók er sagt frá því að öndvegissúlur Ingólfs hafi rekið á land við Arnarhól og hefur þess verið getið til að fyrsti bústaðurinn hafi verið þar. Á Arnarhóli var á seinni öldum bær með sama nafni og getur þetta því vel staðist. Hinn möguleikinn sem helst hefur verið nefndur er að bær Ingólfs hafi verið við suðurenda Aðalstrætis, á tjarnarbakkanum, en Tjörnin náði þá mun lengra til norðurs en hún gerir nú. Á þeim slóðum stóð Reykjavíkurbærinn á seinni öldum og þar hafa fundist fornminjar sem staðfesta byggð á seinni hluta 9. aldar. Landámabók getur þess einnig að öndvegissúlurnar sjáist „enn“ í eldhúsi í Reykjavík. Þetta hefur verið ritað á 13. öld og virðist þá hafa staðið hús í Reykjavík sem menn töldu ævafornt.
Fornleifagröftur í Aðalstræti gefa til kynna að þar hafi verið skáli í fornöld.

-http://www.anok.is/saga_reykjavikur/rvk/874-1200
-http://www.islandia.is/systah/ing%c3%b3lfur_arnarson.htm
-http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2252
-http://www.instarch.is

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.

Gísli Sigurðsson

„Gísli Sigurðsson – stutt æviágrip, fæddur, uppalinn, æfistarf o.fl. –
Ég er fæddur á Sólheimum í Hraunamannahreppi í Árnessýslu 23. júní 1903, þriðjudaginn í níundu viku sumars á fyrstu stundu. Foreldrar mínir voru Sigurður Gíslason og Jóhanna Gestsdóttir, bæði vinnuhjú.
Gisli sigurdsson -IIIIÉg fylgdist svo með foreldrum mínum á ýmsa bæi í Hreppnum fram til átta ára aldurs, að ég fluttist með þeim hingað til Hafnarfjarðar, haustið 1911.
Fjórtán ára lauk ég burtfararprófi úr Barnaskóla Hafnarfjarðar, 1917, og fermdist sama ár. Gerðist ég þá verkamaður, eða eyrarvinnu karl á mölinni og gegndi því starfi til 1930.
Var mér þá veitt lögregluþjónsstarf hér í bæ og hef gegnt því síðan.
Blm: Hver eru helztu áhugamál þín?
Ég held að þessari spurningu verði bezt svarað á þessa leið. Ég tel mig hafa verið félagslyndan frá upphafi. Árið 1911 gerðist ég félagi í K.F.U.M og átti þar marga gleðistund. Ég hreifst ungur af Skátahreyfingunni og gerðist nokkurskonar foringi fyrir þeim flokki er Jón Oddgeir Jónsson stofnaði hér 1925. Upp úr 1960 var ég tekinn gildur í Hjálparsveit Skáta hér í Hafnarfirði.
Frá 1919 fram til þessa dags hef ég svolítið fylgst með íþróttahreyfingunni. Einnig þar hef ég átt gleðistundir í góðra vina hópi. Móðir mín var sögufróð kona og kveikti í mér þrá til lesturs góðra bóka. Af þessu leiddi, að ég fékk snemma löngun til að fræðast. Af þessum sökum er fræðatínsla mín sprotin.
Landi og náttúra þess hefur löngum haft mikil áhrif á mig og togað mig út til sín, en þó sérstaklega Hafnarfjörður og næsta nágrenni hans. Við útivist um fjöll og dali hafa augu mín opnast fyrir þeirri miklu litadýrð, sem allstaðar blair við manni. Ég hefi því reynt að tileinka mér verk málara og er meistarinn Kjarval minn maður þó fleiri séu sem ég met mikils. Söngur fuglanna, niður vatnanna hafa kennt mér að hlusta eftir hljómum og ómum. Þar af leiðir, að ég hef gaman af hverskonar hljómlist. Ofurmennið Ludvig von Beetoven er meistari minn.
husholmi-1011Allt þetta tel ég áhugamál mín og fleira, sem of langt yrði upp að telja.
Blm: Er eitthvert örnefni skemmtilegt hér í nágrenni Krýsuvíkur, sem þú getur sagt okkur frá?
Þau eru svo mörg og skemmtileg örnefnin í Krýsuvíkurlandi, að þau skipta hundruðum. Hvað segir þið um þessi nöfn: Arnarnýpa, Arnarvatn, hattur, Hetta, Seltún, Grænavatn, Drumbsdalir, Arnarfell, Bleiksmýri, Skriða, Selalda og bæjarnöfnin öll.
En eigi maður að nefna eitthvert örnefni og stað þess, þá er enginn vafi á að merkastur er Húshólminn og fornu bæjarrústirnar þar í hrauninu. Þarna er um að ræða þrjú langhús sem hraunið hefur runnið kringum. Nokkru neðar er svo Kirkjuflötin, þar sem þess er til getið, að Krýsuvíkurkirkja hafi eitt sinn staðið. Um þennan stað er margt að segja. En þó er þögnin sem hann umlykur stórbrotnust. Staður þessi er nú verndaður af Fornminjasafni Íslands.
Blm: Kannt þú ekki einhverja góða sögu um Lambahelli hérna í Bæjarfelli?
Lambahellir-1 Árið 1966 var ég þátttakandi í Vormóti Hraunbúa í Krýsuvík. Ég bjó þennan tíma allann í Lambahelli. Sögu skal ég segja frá dvöl minni þar. Á kvöldin þegar ég var lagstur til svefns heyrði ég alltaf eitthvert þrusk. Það var svo lágt, að það hefði aðeins heyrst af því að í hellinum var alger þögn. Ég undi mér við þetta þrusk og sofnaði vanalega út frá því. Stundum heyrði ég það þegar ég vaknaði. Hvernig á því stóð vissi ég ekki fyrr en síðasta daginn. Ég kom þá neðan af mótssvæði og gekk hægt til bústaðar míns. Þegar ég leit inn í hellinn sá ég þá sem þruskinu hafði valdið. En þar var móleit hagamús. Þegar ég sá hana var hún að snúast kringum matarleifar sem þarna lá á bréfi. Ég stanzaði til að trufla ekki máltíð þessa fallega dýrs. Undir mér lengi við að horfa á hve styrndi á feldinn hennar og sjá hve einstaklega snyrtilega hún gekk að  mat. Svo mun hún hafa orðið mín vör. Hvarf hún þá á bak við stein og líklega í holu sína.
Allir skátar eru eru góðir laxmenn. Þetta veit ég og þekki af langri reynslu. En betri laxmann eða löxu hef ég aldrei haft en þessa hagamús. Mættum við þar af læra að ganga snyrtilega um og snyrtilega með hófsemi og nærgætni hvar sem leið okkar liggur.
Blm: Hvenær fréttir þú síðast af Arnarfells-Labba?
selatangar-2011 Ég  býst við að hér sé átt við Selatanga-drauginn, Tómas. Árin 1855-1860 bjó í Arnarfelli Beinteinn smiður Stefánsson. Hann komst í allnáin kynni við Tómas á Selatöngum haust eitt er hann bjó í Arnarfelli. Eftir þessi kynni gerðist hann Beinteini fylgisspakur. En Beinteinn þóttist eiga nokkurs að hefna í samskiptunum og því bjó hanns ér til byssukúlu af silfri. Því eins og aðrir draugar var Tómasi ekki fyrir komið með öðru móti en skjóta á hann silfurkúlu. Morgun einn 1959 þegar kona Beinteins kom út úr bænum sér hún hvar Tómas er í rekatimburhlaða er þar var á hlaðinu. Segir hún bónda sínum tíðindin. Þess kal getið að konan var skygn, en það var Beinteinn ekki. Beinteinn þrýfur til byssu sinnar og hleður vel og síðast lætur hann kúluna í byssuna. Gengur svo út. „Komdu hérna kona“, segir Beinteinn. Nú horfir þú á Tómas þá segir þú mér til og þá hleypi ég af. Konan tekur byssuna og miður, en Beinteinn heldur um gikkinn. „Svona“, sagði konan, og skotið reið af. Eldglæringar blossuðu upp í viðarhlaðanum og stóð hann von bráðar í björtu báli, en konan og Beinteinn lágu bæði flöt á hlaðinu, svo vel hafði Beinteinn hlaðið byssuna. Síðan fara ekki sögur af Tómasi eða Seltjatanga-draugnum.“

Heimild:
-Handrit, skrifað af Gísla og er varðveitt í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn á skrifstofunni.

Krýsuvík

Eftirfarandi umfjöllun um nýjan Suðurstrandarveg birtist í Fréttablaðinu þann 5. nóv. 2011.
Af Krysuvik-222umfjölluninni að dæma mátti ætla að engar samgöngur hefðu verið á svæðinu fram að opnun Suðurstrandarvegar, þrátt fyrir að fjölfarin forn þjóðleið hafi legið þar um fyrrum auk þess sem vagnvegur var lagður um það 1932 og síðan vinsæll bílvegur áratug síðar. Þegar framangreint er haft í huga vekur lestur greinarinnar á köflum allnokkra kátínu þeirra er til þekkja.

„Nýr Suðurstrandarvegur er tilbúinn. Loksins, segja íbúar Suðurnesja og Suðurlands enda biðin orðin löng eftir því að eitt vinsælasta kosningaloforð allra tíma yrði efnt. Gunnar V. Andrésson ljósmyndari og Svavar Hávarðsson fóru á rúntinn einn dagpart.
Einhver hafði á orði nýlega að íbúar Grindavíkur og Þorlákshafnar væru búnir að fá sín jarðgöng. Þar Arnarfellsrett-222er vísað til nýs Suðurstrandarvegar á milli staðanna tveggja sem var opnaður almennri umferð á dögunum og þeirra möguleika sem hann gefur í atvinnu- og byggðamálum almennt. Varla er ofsagt að þessi tenging Suðurnesja og Suðurlands sé bylting sem er samanburðarhæf við tengingu byggða með jarðgöngum.

Loforð
Hugmyndir um lagningu góðs vegar á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar eru ekki nýjar af nálinni. Það var þó ekki fyrr en með kjördæmabreytingu fyrir alþingiskosningarnar 2003 sem málið komst á verulegt flug. Þá voru Suðurnes og Suðurland sameinað í eitt kjördæmi, Suðurkjördæmi, og kosið eftir því breytta fyrirkomulagi.
Krysuvikurbjarg-222Í kjölfarið var mikið rætt um aukna samvinnu þessara ólíku svæða og forsenda þess talin nýr Suðurstrandarvegur. Þá strax, árið 2003, lá fyrir mat á umhverfisáhrifum og í raun ekkert að vanbúnaði að hefjast handa. Frá þeim tíma hefur nýr vegur ítrekað verið notaður sem gulrót í atkvæðaveiðum stjórnmálanna en einhverra hluta vegna hefur framkvæmdum verið frestað eða fjármagn, sem til framkvæmdarinnar hefur verið ætlað á fjárlögum, verið nýtt til annarra verka. Gárungar hafa því kallað Suðurstrandarveg „mest svikna kosningaloforðið“ með réttu eða röngu.
Þegar grannt er skoðað var lokið við smá stubba við Grindavík og Þorlákshöfn árið 2006 og lengt í árin 2009 og 2010. Tveir áfangar eru teknir í Selalda-222notkun núna, tíu mánuðum fyrr en ætlað var þó það hljómi undarlega þegar saga vegarins er höfð í huga.

Torfærur
Suðurstrandar-vegurinn gamli, sem nú hefur verið leystur af hólmi, var lélegur malarvegur. Alræmdur var hann fyrir að teppast fljótt í snjókomu eða skafrenningi; hann var krókóttur og blindhæðir fjölmargar. Á löngum köflum var erfitt að mæta öðrum bíl og þegar allt er talið var vegurinn vart nothæfur, og alls ekki þegar kröfur tímans og umferðaröryggi og þægindi eru höfð í huga.

Eitt atvinnusvæði
Selatangar-222Kannski má segja að mesta breytingin sé sameining byggða á Suðurnesjum og á Suðurlandi í eitt atvinnusvæði. Fyrst koma upp í hugann hagsmunir útgerðanna; fiskflutningar og nýting hafnarmannvirkja.
Tenging við Keflavíkurflugvöll hlýtur að nýtast þeim sem flytja út ferskt sjávarfang en þegar eru flutningar á fiski miklir á milli landshluta, allt frá Austfjörðum. Álagið hefur allt verið á öðrum samgönguæðum, eins og Hellisheiði og öðrum stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Líta þarf því til þess að nýr Suðurstrandarvegur dreifir álagi slíkra þungaflutninga og annarra á milli landshluta. Það hefur í för með sér hagræði og aukið umferðaröryggi sem mjög hefur verið kallað eftir á fjölförnum leiðum.

Husholmi-222

Í anda þeirra hugmynda um nýja kjördæmaskipan sem kynntar voru fyrir kosningarnar 2003 hlýtur samstarf sveitarfélaga að aukast. Hvernig því verður háttað á eftir að koma í ljós en auðvitað auðveldar samgöngubót sem þessi öll samskipti fólks og fyrirtækja.

Ferðaþjónusta
Þá er ónefndur helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs sem er ferðaþjónusta. Mikill meirihluti erlendra gesta fer um Leifsstöð og þaðan norður Reykjanes til Reykjavíkur. Nú er þetta náttúrulögmál úr sögunni með Suðurstrandarvegi. Ekkert mælir því lengur mót að sniðganga höfuðborgarsvæðið, alfarið eða tímabundið, og leggja í ferð um landið sunnanmegin frá.

 

Katlahraun 222

Kannski má taka svo djúpt í árinni að fyrir margan ferðamanninn sé eftirsóknarvert að sniðganga Reykjanesbrautina og Hellisheiði í upphafi ferðalags. Sá sem hér heldur á penna vill meina að náttúruupplifun sé takmörkuð á þeirri leið, sé það tilgangur ferðalangsins að „skoða landið“.
En kannski er það vegna hughrifa frá ferðalagi mínu í vikunni um þetta svæði sem mér var framandi allt til þessa dags.

Sunnudagsrúnturinn
En fyrir allan almenning er breytingin ekki minni. Styttri ferðalög, eða „sunnudagsrúnturinn“, er fastur liður hjá fjölda fólks og er ekki ofsagt að Suðurstrandarvegur gæti valdið þessum hópi valkvíða þar sem nú opnast möguleikar til hring ferða af öllum stærðum og gerðum um Reykjanes. Það væri til að æra óstöðugan að geta þeirra möguleika allra, enda smekkur fólks misjafn.
Saengurkonuhellir-222

Hins vegar mun ferðamennska og útivist á svæðinu aukast að mun frá því sem er í dag. Það gæti kannski komið einhverjum á óvart en Reykjanesið sunnanvert geymir perlur hvert sem litið er. Mannvistarleifar eru sérstakar og við hvert fótmál. Ekki þarf að leggjast í miklar rannsóknir til að finna óviðjafnanlega fegurð og dæmi um lífið í landinu sem eiga sér vart hliðstæðu annars staðar. Reykjanesið er jafnframt gnægtahorn fyrir áhugafólk um jarðfræði og má þá ekki líta fram hjá Krýsuvíkurleiðinni fram hjá Kleifarvatni sem tengist Suðurstrandarvegi. Yfirvöld mættu hins vegar gera nauðsynlegar vegabætur á þeirri leið í samhengi við aukinn áhuga fólks á að ferðast um svæðið.

Öryggi
Notarholl-222Þegar hefur verið minnst á aukið umferðaröryggi samfara opnun vegarins. Þar stendur upp úr að ný leið mun létta álagi af stofnbrautum þar sem umferðarálag er meira en gott þykir. Það er þó önnur hlið á þeim peningi.
Tenging Suðurlands við höfuðborgarsvæðið til þessa hefur verið um fjallvegi; Hellisheiði og Þrengsli. Árlega kemur upp sú staða að þessir vegir lokast eða verða torfærir vegna veðurs. Nú er kominn valkostur til að forðast þessar erfiðu aðstæður og augljósa hættu. Suðurstrandarvegur liggur miklum mun lægra og er hannaður með það fyrir augum að vera auðfarinn á öllum tímum árs.
Þegar Suðurstrandarvegur er keyrður vekur það hugmyndir um aukin lífsgæði íbúanna nær og fjær. Er þá vert að hafa hugfast að landið er dyntótt. Kannski mun gildi þessa vegspotta endanlega sanna sig þegar vá ber að höndum vegna náttúruhamfara.“
Við þetta má bæta að þrátt fyrir rándýrt nýtt vegarstæði er hvorki gert ráð fyrir útskotum svo áhugasamt fólk um útivist getur lagt ökutækjum sínum til að berja dásemd svæðisins augum né merkingum til að auðvelda fólki aðgengi að því.

Heimild:
-Fréttablaðið 5. nóv. 2011, bls. 36.

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.