Almenningur

Ætlunin var að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur um trjáræktarsvæði Skógræktar ríkisins við Brunntorfur (Brundtorfur/Brunatorfur) norður undir Almenningi. Þarna ofan við hraunrönd hins mosavaxna Nýjahrauns (Kapelluhrauns), í gróður- og kjarrríkt Hrútargjárdyngjuhraunið, hefur verið plantað miklu magni af greni- og furutrjám.

Bruninn

Birkið hefur náð sér vel á strik í skjóli þeirra og er orðið allhátt. Vaxið hefur upp á örfáum áratugum myndarlegur skógur í bollóttum og hólóttum hlíðunum. Þegar trjánum var plantað á sínum tíma var þess, eins og svo víða annars staðar, ekki gætt að hlífa hinum gömlu götum um hraunlænurnar heldur trjám stungið niður hvar sem skjól var að finna. Ekki er víst að skógræktarfólkið hafi haft auga fyrir götunum eða það metið þær nokkurs. Fólk getur engu að síður blindast af litlum trjáplöntum en stórum. Reyndar ætti að vera í lagi að setja niður skóg í lægðum sem þarna eru, en gæta þarf þess vel að halda honum á takmörkuðum svæðum. Ísland er nú svo fallegt land að það er óþarfi að hindra útsýnið til dýrðarinnar. Svæði þessu var úthlutað til áhugasamra einstaklinga um skógrækt á sínum tíma.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þar hefur stígurinn vikið á löngum kafla fyrir efnisnámum Skógræktarinnar. Bera þær með sér einstakan vitnisburð hins einsleita gildismats. Fallegt nútímahraunið (rann 1151) fékk að fjúka til að hægt væri að ná inn aurum fyrir nokkrum trjáplöntum. Nú eru þarna stór sár, sem aldrei verða söm sem fyrr.

Hrauntungustígur

Úr Hrauntungunum liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Það var sem sagt leiðin frá Hrauntungunum og upp á milli Fornasels og Gjásels, að Stóra-Steini, sem ætlunin var að rekja að þessu sinni – í gegnum skógræktina og upp fyrir hana, austur fyrir Hafurbjarnarholt.
Gatan sést vel þar sem hún fer í gegnum Hrauntungurnar og undir girðingu Skógræktarinnar. Príla er á girðingunni skammt norðar. Þarna er mosinn ráðandi og hefur hann náð að afmá götuna á körflum. En ef vörðunum er fylgt af nákvæmni má rekja götuna í gegnum og upp grónar hraunkvosir, undir hraunhólahlíðum og áfram áleiðis upp norðurhlíð Almennings.
Í rauninni er hægt að velja um þrjár leiðir þegar komið er spölkorn upp í skóginn. Hér á eftir verða tvær raktar upp eftir (til suðurs) og ein síðan til baka (til norðurs). Gatnamótin eru þar sem lækkunin er hvað mest í skógræktinni, en erfitt er að kom auga á þau vegna trjánna.
Áður en komið er að Fornaseli greinist fyrsta gatan, sú austasta, í tvennt; annars vegar áfram til suðausturs að Fornaseli, og hins vegar upp nokkuð þægilega gróna lægð norðvestan þess. Ef götunni upp í selið er fylgt kemur hún að við vörðu skammt norðvestan við það. Frá vörðunni sést gróið selið og umhverfi þess mjög vel, einkum selsvarðan austan þess. Áfram liggur gatan síðan til suðausturs og beygir síðan til suðurs austan við kúptlagaðan (ávalan) hraunhól.

Í Almenningi

Ofan hans eru gatamót þeirrar götu og götunnar, sem greindist af henni neðan Fornasels. Ef henni er fylgt upp eftir kemur hún vestan við þennan ávala hól. Sú leið er greiðfærust og þægilegust allra gatnanna, hvergi klöngu, einungis aflíðandi gangur. Báðar leiðirnar eru varðaðar með litlum vörðum. Á þeim báðum koma fram stærri vörður svolítið utan við þær, en þar er um að ræða landamerkjavörður Þorbjarnarstaða. Línan liggur úr vörður á Hafurbjarnarholti til norðausturs yfir hraunhlíðina. Við leiðirnar má sjá a.m.k. þrjár þeirra. Tvær varðanna eru stærri en gengur og gerist með vörður við Hrauntungustíginn.
Þegar komið er upp fyrir ávala hólinn sameinast göturnar á ný. Þá liggur gatan í krókum upp hlíðina uns hún beygir til vesturs og síaðn aftur til suðurs á hábrúninni. Þaðan sést í vörður við Stóra-Stein og aðra ofar. Gatan liggur síðan með hraunhólnunum upp að Fjallsgrensvörðu þar sem hún beygir til austurs, eins og áður hefur verið lýst (Hrauntungustígur – norðan Sauðabrekkugjár).
Þá var gatan rakin til baka, að gatnamótum þess stígs sem vestast liggur niður í Hrauntungur. Farið var að halla að ljósakiptum. Ljósir sveppirnir urðu skyndilega áberandi í landslaginu. Lyngið og kjarrið runnu saman í eitt.
VarðaGatan liggur til norður vestan við ávala hraunhólinn og er augljós í gróningunum. Vörður eru á stangli. Þegar komið var niður á holtið austan Gjásels fór gatan yfir hina augljósu götu milli seljanna, Gjásels og Fornasels. Nútímamenn hafa gengið til nýrri götu suðvestan skógræktargirðingarinnar, en ef gömlu götunni er fylgt á milli seljanna þarf að fara inn fyrir girðinguna og í lægð á milli hraunhóla. Þaðan liðast hún um hvylftir milli hraunhóla. Litlar vörður eru á þeim. Trén hindra að vísu eðlilega leið, en þó óverulega.
Þegar gatan fyrrnefnda er rakin áfram niður að Hrauntungum þarf að hafa augu vel opin. Á kafla virðast tré hafa vaxið yfir leiðina, en hægt er að feta sig framhjá og meðfram þeim inn á götuna að nýju. Með góðu móti er þannig hægt að rekja hana alla leið niður að fyrstnefndu gatnamótunum þar sem jafnsléttan er hvað mest undir hlíðunum. Í rauninni þyrfti bæði að merkja þau gatnamót sem og þau efri. Fyrir þá sem vilja ganga styttri götu en allan liðlangan Hrauntungustíginn væri kjörið að ganga vestustu götuna upp fyrir ávala hólinn (réttast væri að nefna hann Vegamótahól) og síðan til baka um austustu götuna með viðkomu í Fornaseli. Um er að ræða bæði fallega og fjölbreytilega leið, ca. 1 1/2 – 2 km).

Varða

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út leiðbeiningar hvernig og hvað skógræktarfólks þurfi að varast þegar fornminjar eru annars vegar. Þar segir m.a.: „Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.
Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki (Gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingarmerki ásamt kennileitum þeirra), varnarmannvirki, áletranir og fleira.

Hrauntungur

Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum:
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.“
Að öllu jöfnu eiga allir að forðast að skemma verðmæti sem fyrir eru s.s. fornminjar og útsýni. Hafa ber í huga að hinar gömlu götur eru fornminjar. Í rauninni er sárgrætilegt að sjá nýlega gróðursettar plöntur í fornum tóftum, t.a.m. seljum – nú þegar skilningurinn ætti að vera miklu mun meiri en raun ber vitni.

Hrauntungustígur

Hvað um það – Hrauntungustígurinn er ekki einn. Hann liggur um Almenning á fleiri en einum stað, enda má ætla að kunnugir hafi farið þar sínar eigin götur, allt eftir því á hvaða leið þeir voru og hverra erinda.
Víða eru litlar vörður við hraunker og klofninga. Þær hafa leitarmenn hlaðið til að auðvelda þeim sín verk. Vörður við leiðir hafa ferðamenn hlaðið til að gera þeim kleift að fara auðveldustu, og jafnvel stystu leiðina á langri leið – og svona mætti halda lengi áfram.
Sameiginlegt með þessum leiðum er að þær liggja um tilkomumikið, fjölbreytilegt og gróið hraunsvæði, sem nútímamanninum ætti að vera kærkomið tækifæri til útivistar.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Bollar

Ætlunin var að halda í Hjartartröð í Stórabollahrauni og skoða niður í rásina. Nokkur op eru á henni. Rásin er í raun framhald af Leiðarenda, sem er þarna skammt vestar í hrauninu, um 750 m langur. Stuttur gangur er að tröðinni frá Bláfjallavegi, eða um 365 metrar.
Hjartartröð miðsvæðis - loftmyndÍ nýju hellabókinni (BH-2006, Íslenskir hraunhellar), er ekki getið sérstaklega um Hjartartröð vegna þess þá er hún orðin viðurkenndur hluti Leiðarenda. Í gömlu bókinni, Hraunhellar á Íslandi (1990) lýsir Björn þessum hluta rásarinnar: „Mikil hrauntröð liggur í Tvíbollahrauni [Stórabollahrauni] skammt norðan nýja Bláfjallavegarins vestan Markraka. Frá austri talið er fyrst um 150 m löng hrauntröð án þess að þak sé yfir. Þar vesturaf heldur hrauntröðin áfram um 200 metra og eru víða brýr yfir tröðinni á þeirri leið og því hellar undir, fæstir þó langir. Fyrir vesturenda hrauntraðarinnar tekur svo við um 110 m langur hellir. Hann er víðasthvar þröngur en í honum er töluvert um skemmtilegar hraunmyndanir. Í enda hans eru t.d. tugir dropsteina, þeir lengstu um 15 cm, og hundruð hraunstráa sem eru allt að 35 cm löng. Heildarlengd Hjartartraðar er um 310 metrar.
Fóðurstöðin - StóribolliHjörtur Jóhannsson fann hellinn í ársbyrjun 1990, þá 12 ára, og bar hellirinn þess ekki merki að þar hefði fólk verið áður. Hér er hellinum því gefið nafn Hjartar og nefndur Hjartartröð enda stór hluti hellisins fallinn saman og þar blasir nú aðeins við hrauntröð.“
Í dag ber hellirinn ummerki eftir heimsóknir fólks, sem ekki þykir vænt um hella. Plastpokar og drasl mátti sjá innan við anddyri meginrásarinnar, þeirra er Björn lýsti hér að framan. Eftir að hafa tekið þar til og komið ruslinu fyrir í einum pokanum var tröðin skoðuð nánar. Lýsing Björns er vel við hæfi og engu hallað þar í máli. Bæta má þó við hana einni lýsingu á hliðarrás til norðurs. Um gæti verið að ræða hið ákjósanlegasta fjárskjól með sléttum botni og góðri aðkomu, ef einhverjum hefði dottið í hug að reisa selstöðu í hinum fyrrum grónu Dauðadölum. Þar er bæði vatn og skjól að fá, auk þess sem Skúlanafngiftin (Skúlastaðir; fornt býli) gæti hafa verið nálægt Skúlatúni, óbrennishólma í Stórabollahrauni skammt frá Leiðarenda. Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur hraunsins vera „1075 +/- 60 ár. Tvíbollahraun er því runnið árið 875 eða á árunum þar í kring. 

Vestasta op Hjartartraðar - Helgafell fjær

Tvíbollahraun gæti verið fyrsta hraun sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.
Mikil hellarás er í hlíðinni niður úr gígunum, nafnlaus eftir því sem næst verður komist. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Ekki er fært í alla hellisbútanna án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekki kannaðir.“ Hafa ber í huga að umrædd skrif eru í lok 20. aldar. Enn, í upphafi 21. aldar, hafa undirheimar hraunssvæðisins ekki verið fullkannaðir – og það einungis 36 km frá Grindavík, fjölmennasta þéttbýliskjarna á sunnanverðum Suðurnesjum. 

Hluti HjartartraðarAnnars er aðkoman að vestasta hluta Hjartatraðar eins og að framan er lýst. Þegar komið er inn í rásina, sem er bæði há og víð með sléttu gólfi, blasir við mikið hrun, en þegar haldið er inn og hægra megin við hrunið má auðveldlega komast framhjá því, fast við hellisvegginn. Þar fyrir innan er nokkurt hrun, en ef vilji er fyrir hendi er hægt að halda áfram yfir það og innar í rásina uns dropsteina- og hraunstráamyndunin birtist framundan. Þarna endar þessi hluti rásarinnar, en ljóst má þeim vera er þar staðnæmist og áður hefur skoðað efri hluta Leiðarenda, að stutt er þar á millum. En svona er sköpunarverkið – torskilið og blindgötuvarið.
Rás Hjartartraðar er bæði víð og há, enda ofanfari Leiðarenda. Meira hrun er í þessum hluta hraunrásarinnar líkt og venja er um stærri rásir, sbr. Búra. Mjórri rásir virðast halda sér skár og því betur sem þær eru á meira dýpi. Allt er þetta lögmálunum samkvæmt.
Þarna, lengst inni í Hjartartröðinni var tilvalið að staldra við og skoða myndunarferlið.
Hraunhellar eru rásir sem hraunbráðin rann eftir og tæmdust síðan. Hraun renna ýmist í tiltölulega grunnum farvegum, svokölluðum hrauntröðum, nærri yfirborði hraunsins eða bráðin rennur neðanjarðar og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins og sameinast honum. Við þetta lyftist yfirborð hraunsins og það getur þykknað verulega á stóru svæði auk þess sem svonefndir „troðhólar“ myndast. Þessa sér til dæmis víða stað á Reykjanesskaganum.

Hliðarrás Hjartartraðar

Þessi háttur, að hraunkvikan „troðist inn í“ hinn bráðna hluta hraunsins líkt og vatn í belg, er sennilega mun algengari en hinn fyrrnefndi, einkum þegar um rúmmálsmikil hraun er að ræða.
Þegar hraun rennur eftir hrauntröð myndast þegar í stað storkin skán á yfirborði þess. Þegar skánin þykknar getur hún orðið að föstu þaki yfir hraunrásinni sem helst stöðugt þótt lækki í hraunstraumnum undir. Hraunhellar eru sem sagt rennslisrásir eða „pípur“ sem hafa tæmst að meira eða minna leyti.
Hraun myndast við það að bráðin bergkvika storknar og er því storkuberg. Hraunkvika er blanda af mörgum efnum og því hefur hún ekki eitt skilgreint bræðslumark heldur storknar eða kristallast yfir langt hitabil, stundum stærra en 100°C. Burtséð frá þessu er hraun orðið að „hörðum steini“ löngu áður en það er fullstorkið. Reynslan er sú að hörð skorpa myndast á glóandi hrauni eftir fáeinar sekúndur og fljótlega er hægt að ganga á hrauninu á góðum skóm vegna þess hve slæmur varmaleiðari (eða góður einangrari) berg er.

Innan við vestasta op Hjartartraðar

Varminn frá 1200 stiga heitri kviku streymir sem sagt hægt út gegnum storknuðu skorpuna. Undir henni heldur bráðin kvikan að renna, bræðir grannbergið og finnur sér nýjar leiðir uns fóðuröfluninni líkur.
Storknun tekur þannig mjög mislangan tíma eftir ytri aðstæðum: Gjóska (eldfjallaaska, gjall og vikur) kólnar á fáeinum sekúndum, ekki síst ef gosið verður í vatni eða undir jökli. Hraun verða að „hörðum steini“ á skömmum tíma þótt glóðin geti varað í 10 ár inni í hrauninu, eins og gerðist í Eldfellshrauninu í Vestmannaeyjum þar sem varminn í hrauninu var nýttur til húshitunar í áratug. Kvika sem er djúpt niðri í jörðinni getur tekur aldir að storkna.
Þegar komið var út brosti sólin sínu breiðasta á hvanngrænan hraungambran. Ákveðið var að kíkja yfir í Leiðarenda og skoða efra innvolsið nánar í tengslum við framangreint.
Frábært veður (þegar út var komið). Ferðin tók
1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3763

Bollar

Gengið um Stórabollahraun.

 

Vogaheiði

Í Morgunblaðinu árið 2004 birtist eftirfarandi frétt um sprengju í Vogaheiði undir fyrirsögninni „Landhelgisgæslan segir að sprengjuleit á Vogaheiði sé margra ára verkefni – Málmflísarnar þeytast eins og byssukúlur„.

Vogaheidi-1„Það er ekki hvellurinn sem er hættulegastur heldur allar málmflísarnar sem þeytast frá sprengjunni eins og byssukúlur,“ segir Jónas Þorvaldsson, sprengju-sérfræðingur hjá Landhelgis-gæslunni, áður en rafstraumi er hleypt á litla sprengjuhleðslu sem komið hafði verið fyrir á gamalli bandarískri sprengikúlu. Sprengikúlan er á botni um 10 metra djúprar hraungjótu á Vogaheiði en heiðin var notuð sem skotæfingasvæði bandaríska hersins fyrir um hálfri öld. Eins og gengur féllu sumar sprengjurnar niður án þess að springa og síðan farið var að leita að þeim með skipulögðum hætti hafa ríflega 800 slíkar sprengjur fundist.
Í gær var TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, fengin til að flytja sprengjubrot og annað brak úr hrauninu sem fundist hafa við leit landhelgisgæslumanna í sumar og í fyrrasumar.

Snorrastaðatjarnir

Sprengjur eftir leit við og ofan Snorrastaðatjarna.

Adrian King, sem einnig er sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, segir að sprengikúlan í gjótunni innihaldi um tvö kíló af TNT og þótt hún sé um hálfrar aldar gömul sé sprengiefnið enn virkt. Hætturadíus slíkrar sprengju er um einn kílómetri. Til að koma af stað sprengingu setur Adrian plastsprengiefni utan á sprengikúluna og tengir það síðan við langan rafmagnsvír. Þegar allir viðstaddir eru komnir í örugga fjarlægð er straumi hleypt á. Nánast samstundis kveður við mikill hvellur og þykkur grásvartur reykur liðast upp úr gjótunni.
Vogaheidi-2Þó að blaðamanni finnist þetta býsna tilkomumikið er sprengjan sjálfsagt algjört smáræði fyrir þá Jónas og Adrian sem sl. vetur dvöldu við sprengjueyðingar í Írak. Þar sem hermenn skutu áður úr skriðdrekum, fallbyssum, sprengjuvörpum og öðrum tiltækum skotvopnum er nú orðið vinsælt útivistarsvæði.

 

Jónas segir að í kringum Snorrastaðatjarnir og annars staðar þar sem helst sé að vænta mannaferða hafi svæðið verið fínkembt. Til leitarinnar var m.a. notað nýlegt málmleitartæki sem er þeirrar náttúru að það getur fundið málmhluti í hrauni sem önnur lakari tæki ráða ekki við sökum segulmögnunar í íslenskum hraunum.
Gylfi Geirsson, yfirmaður sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar, segir að skotæfingasvæðið hafi verið um átta kílómetrar að lengd og hátt í fjögurra kílómetrar breitt þar sem það er breiðast.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðatjarnir – viðvörunarskilti.

Flatarmál svæðisins er talið um 15 ferkílómetrar en í rauninni er yfirborðið enn umfangsmeira þar sem sprengjurnar geta leynst í holum og hraungjótum auk þess sem margar hafa grafist ofan í svörðinn. Enn leynast þarna virkar og hættulegar sprengjur
Árið 1986 stóð varnarliðið fyrir umfangsmikilli sprengjuleit á svæðinu og tíu árum síðar var aftur leitað. Það dugði þó ekki til og telja sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar að enn leynist þar margar bombur sem enn eru virkar og hættulegar. „Það er margra ára verkefni að kemba allt svæðið,“ segir Gylfi. Svæðið verði seint eða aldrei fullleitað. Hann brýnir fyrir göngufólki að snerta ekki sprengjur heldur tilkynna fundinn til lögreglu eða Landhelgisgæslunnar.“

Heimild:
-Morgunblaðið 10. ágúst 2004, bls. 10.

Kálffell

Sprengja í Kálffelli efst í Vogaheiði.

Básendar

Á Básendum fundust nýlega áletranir frá því á 17. öld. Ætlunin var að fara þangað við hagstæðar aðstæður fljóðs og fjöru og vöðluvaða út í hólma og sker með það fyrir augum að líta þar á áletranir á klöppum. Einnig var ætlunin að leita að hugsanlega fleiri áletrunum í skerinu. Það er ekki heiglum hent að vaða út í sker og feta þara á hálum klöppum, en FERLIRsfélagar láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Með í för var G. Sigurbergsson, en hann hafði komið auga á þessar áletranir af tilviljun fyrir nokkru síðan og tók þá m.a. meðfylgjandi myndir.

Básendar

Á leiðinni út að Básendum eru tveir myndarlegir grónir hólar á leiðinni á hægri hönd. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar), Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.
Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Básendar Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt inn í Brenntorfuvíkina. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, fyrst bein sigling á Gálga, en síðan var vent í vinkil til vinstri með stefnu á vörðu utan við hólana og rennan tekin til norðurs milli skerja og inní höfnina. Þar voru skipin svínbundin, ýmist á ytri höfninni eða innri höfninni. Á teikningu frá 18, öld má sjá bæði siglingaleiðina sem og staðsetningu festarhringjanna í landi.

Á Básendum má einnig enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“

Básendar

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori).

Básendar Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur augljóslega aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, festarkengina frá tímum konungsverslunarinnar og Brennuhól (Brenntorfuna) þar sem eldur var kynntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Básendar Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.
Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur að Básendum og gaumgæfa skerin.
Frábært veður.

Básendar

Básendar – letur.

Garðaflatir

„Skemmtilegar sagnir um Garða hafa spunnist um örnefnið Garðaflatir í hinu forna afréttarlandi Álftaneshrepps og birtust hjá Sigurði Nordal og Þórbergi Þórðarsyni í Gráskinnu árið 1928:

Gardaflatir - yfirlit

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.

„Sagt er að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi verið flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður. […] Maður nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði. Ein þúfan var stærst, og hugsar hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varizt svefni. Hann dreymir að maður tígulegur kemur til hans og segir:

gardaflatir - minjar

Garðaflatir; eldhús?

„Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, þá hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur.“
Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýms merki þess má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sézt til skamms tíma.“
Í sagnaþáttum sínum árið 1951 telur Ólafur Þorvaldsson einnig að umgetnar flatir hafi fengið nafn af Görðum en skýring hans er þó
jarðbundnari: „Allt land þarna umhverfis og langt út frá er hið forna land Garðakirkju á Álftanesi […] Ekki er ósennilegt, þegar stórt var búið í Görðum fyrr á tímum, að Garðaprestar hafi notað nokkuð þá ágætu vetrarbeit, sem er um þessar slóðir, til dæmis framan af vetri, og látið halda fé þarna efra, því að nóg er þar góðra skjóla í hellum og öðrum afdrepum“. Ólafur segir auk þess frá því að fólk sem komið var til réttar hafi skemmt sér og dansað á Garðaflötum.“

Heimild:
Ragnheiður Traustadóttir og Rúna Knútsdóttir, 2004. Garðahverfi – Fornleifaskráning 2003. Bls. 29-30.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

 

Maríhellar

Kíkt var á „Maríhellana“ í Heiðmörk. Um er að ræða nútímalegt samheiti tveggja hella, sem notuð voru sem fjárskjól fyrrum; Urriðakotshelli og Vífilsstaðahelli. Í sumum heimildum er talað um Vífilstaðahelli í nyrsta hellinum og Urriðakotshelli í miðhlutanum. Á seinni tímum hefur syðsti hluti Urriðakotshellis verið nefndur Draugahellir, en hann þjónaði áður engum sérstökum tilgangi. Tiltölulega nýlega hafa hellarnir fengið samnefnið Maríuhellar.

Maríhellar

Maríuhellar.

Miðhlutinn (Urriðakotshellir) er oft notaður af fólki til dægrastyttinga, einkum þegar vel viðrar. Í austurhluta jarðfallsins er Maríuhellir. Landamerki bæjanna, Urriðakots og Vífilsstaða, eru á urðarhól (Dyngjuhól/Hádegishól) skammt ofan við hellana.
Syðsti hellirinn (Draugahellir) er með þröngu opi, en þegar niður er komið er um rúmgóðan helli að ræða. Sver hraunsúla er í honum, sem hægt er að umhverfis og einnig afhellir.
Nyrsti hellirinn (Vífisstaðahellir) er aðgengilegur. Hann er í stóru jarðfalli, en þegar inn er komið tekur við nokkuð rúmgóð og löng hraunrás með mold í gólfi. Allt um kring vaka steinrunnin tröll yfir munnunum. Einhverjum húmaristanum fannst tilvalið að nefna Vífilsstaðahelli „Jósepshelli“ eftir að hafa komið í „Maríuhelli“, en það lýsir fyrst og fremst fákunnáttu þess sama á staðháttum.

Maríuhellar

Maríuhellar – uppdráttur ÓSÁ.

„Maríuhellar“ eru ágætt dæmi um hversu illa hægt er að leika hella ef of margir hafa aðgang að þeim. Þeir hafa greinilega liðið fyrir nálægðina. Ef einhvern tímann hefur verið falleg hraunmyndun í einhverjum þeirra þá eru hún horfin núna. Sama gildir og um aðra hella í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Auðvelt er að eyðileggja nokkurra þúsund ára steinmyndanir á skömmum tíma af fákunnugum. Jafnan hendir fólk miklu drasli af sér í hellana, en þeir hafa þó verið hreinsaðir af og til. Þegar þetta er ritað var umgengnin með besta móti.
Mikilvægt er að fólk, sem vill sækja hella heim, fari varlega og gæti þess að skemma ekki verðmæti, sem í þeim eru. Það á reyndar við um allt annað – allstaðar – alltaf.
Frábært veður.

Maríuhellar

Í Maríuhelli.

Krýsuvíkurkirkja

Eftirfarandi frásögn Þórðar Jónssonar frá Eyrarbakka um „Ferð til Krýsuvíkur“ birtist í Heimilisblaðinu árið 1945:
krysuvik-323„Ég hafði margheitið því að fara til Krýsuvíkur undir eins og þangað væri komin bílfær vegur.
Hinn nýi Krýsuvíkurvegur er einhver fallegasti og bezt gerði vegur, sem ég hef séð. Að þeirri vegabyggingu hafa áreiðanlega unnið þeir menn, sem verkinu voru vaxnir. Vegkantar og uppfylling á jafn ósléttu landi eru snilldarverk. Það er ekki sök þeirra, sem hlaðið hafa þennan fallega veg, þótt hann sé með sama miðaldalaginu og aðrir vegir sem lagðir hafa verið á landi hér síðustu áratugina, að engin leið er nútíma flutningatækjum að mætast á þeim nema á vissum stöðum — útskotunum svonefndum — þar sem hve verður að bíða eftir öðrum. Sjá allir, hvers ramgallað slíkt fyrirkomulag er. Það er skiljanlegt, að allt á þetta að vera til sparnaðar. En það vita þeir, sem við veglagningar hafa unnið, að vegkantarnir eru víðast hvar langdýrasti hluti vegarins, en minnstu munar, ef efni til uppfyllingar til staðarins, hvort vegurinn er nokkrum sentimetrum breiðari.

krysuvikurkirkja-344

Þetta fyrirkomulag á hinum nýju vegum sem hér er drepið á, er áreiðanlega vafasöm búhyggindi. Næstu kynslóðir munu ekki sætta sig við svona vegi með sífellt stækkandi flutningatæki, og endirinn verður að óhjákvæmilegt verður að endurbyggja alla þessa vegi, og það jafnvel áður en langt um líður.
Það er ekkert undarlegt, þótt mönnum verði tíðrætt um Krýsuvík. Mönnum er ljóst að Krýsuvík á sína sögu engu síður en aðrir landshlutar þessa lands. Þar sem bæirnir hafa staðið, sjást tóftarbrot hálf- og alfallin, og eru nú grasi vaxin. Aðeins kirkjan er eftir og sætir furðu, að hún skuli hafa staðið af sér alla storma eyðileggingarinnar. Að kirkjunni vík ég síðar.
Eins og kunnugt er, hefur einn maður af síðustu kynslóð Krýsuvíkurbyggðar aldrei yfirgefið þetta byggðarlag. Hann virðist hafa verið bundinn þessu byggðarlagi órjúfandi böndum tryggðar og vináttu. Þessi aldraði merkismaður heitir Magnús Ólafsson. Hann er nú — að mig minnir — 73 ára að aldri og hefur átt heima í Krýsuvík óslitið í 55 ár að undanteknum nokkrum vikum úr sumum þessum árum. Eftir að öll hús byggðarinnar voru fallin og rifin flutti hann sig í gömlu kirkjuna og hefur búið þar síðan, og má vel vera að sú sé orsökin, að kirkjan hefur ekki hlotið sömu örlög og önnur hús á þessum stað.

magnus olafsson-231

Þarna vorum við félagar þá komnir heim á hið forna höfðingjasetur Krýsuvík eftir röskan klukkustundar akstur frá Reykjavík, það sem áður var margra klukkustunda ferð. Nei, það var engin lygi, að það væri búið að færa þessa sveit nær menningunni.
Úti fyrir kirkjudyrum sat hinn aldraði húsbóndi og tók,mjög vingjarnlega kveðju okkar ferðalanganna. Ég fór að telja á fingrum mér hve mörg ár væru nú liðin síðan ég kom þarna síðast, síðan í febrúar 1896 (ég var þá á sextánda ári). Vildi þá útkoman verða nálægt fjörutíu og níu og hálft ár. Jú, það skeður nú margt á skemmri tíma. Mér varð hugsað til þessarar fyrri komu minnar samanborið við þessa komu mína á þennan stað. Nú var sólbjartur sumardagur, en þá hörku norðanbylur og snjór í hné eða meir. Ég strákhnokki með allan minn veraldarauð í strigapoka á bakinu og að auki rúma krónu í buddunni sem farareyri og gat naumast staðið uppréttur undir þeim ofurþunga. En hvernig voru nú ástæðurnar? Bezt að koma öllum þessum reikningum á hreint. Nú var ég þó létt klæddur með hendur í vösum, en annað setzt á bak mér engu léttara en pokinn í fyrri daga. Gamla konan Elli var nú farin að gerast áleitin en frábitin öllum ástaratlotum og lagaskilnaði, og þó ekki um annað að gera en lúta valdi hennar — gömlu konunnar. Þegar öllu var á botninn hvolft var þá líklega pokinn með tilheyrandi öllu viðkunnanlegri en slíkt konuríki. Að öllu þessu fljótlega athuguðu settist ég hjá gamla manninum við kirkjudyrnar og tók að spyrja hann spjörunum úr. Mér varð fljótt ljóst, að þarna var maður, sem vert var að kynnast og tala við, bráðgreindur maður og alúðlegur, sem þekkti sögu þessarar sveitar langt aftur í tímann eins og fingur sína. Það hefði vissulega verið gaman og gagnlegt að mega tala við Magnús í ró og næði og jafnvel ferðast með honum þarna um nágrennið.

krysuvik-354

En tími okkar félaga var naumur og nokkuð áliðið dags. Ég labbaði um kirkjugarðinn með Magnúsi. Hann benti mér á leiði, sem hann sagði, að síðast hefði verið jarðað í. Austan undir kirkjugaflinum varð mér starsýnt á eitt leiði sökum þess að það var eina leiðið í kirkjugarðinum, sem á var lítilsháttar minnismerki. Er það þó ekki annað en trégirðing komin að falli. Magnús sagði mér, að þarna væri jarðaður Árni sýslumaður Gíslason, en hann bjó í Krýsuvík um nokkurra ára skeið, sem kunnugt er, og var hann þar húsbóndi, er mig bar að garði, sem fyrr segir.
Og nutum við, ég og félagar mínir, krysuvik-371hinnar mestu gestrisni og höfðingsskapar, sem Árni sýslumaður var kunnur fyrir á sinni tíð. Svona eru örlögin. Nú var ég allt í einu staddur við legstað míns forna gestgjafa og ég hörfaði skref aftur á bak. Þarna mátti ég ekki stíga með skó á fótum á jafn helgan stað og bæla græna grasið umhverfis leiðið hans, ef til vill raskaði ég með því grafarró hins mæta manns.
Ég bað Magnús að lofa okkur að sjá kirkjuna, sem nú er íbúðarhús hans, og var það auðsótt. Þarna var þá rúm hans við austurgafl framan verðan. Það var þá ekki annað en húsgaflinn, sem aðskildi höfðalagið og leiði hans forna húsbónda, Árna sýslumanns. Það er ekkert ýkja langt frá veruleikanum, að þar hvíli húsbóndinn og þjónninn við sama höfðalagið, þótt annar sé lífs en hinn liðinn. Sjaldgæft er þetta, en Magnús hefur tekið ástfóstri við kirkju og kirkjugarðinn og allt annað í Krýsuvík.
Mér er í barnsminni, að ég heyrði talað um hinn stórbrotna búferlaflutning Árna sýslumanns austan frá Kirkjubæjarklaustri og til Krýsuvíkur. Hann var sýslumaður Skaftfellinga og bjó stórbúi á Kirkjubæjarklaustri.
Það má nærri geta að slíkir krysuvik-432búferlaflutningur á þeirri tíð var engum heiglum hent öll þessi vegalengd og allar þær stórár, og allt varð að flytja á hestum (á klökkum) sundleggja hestana og ferja á smábát allan farangur yfir stórvötnin. Hvernig mundi nú tímakynslóðinni geðjast að slíkum vinnubrögðum?
Ég heyrði talað um, að sauðfé Árna sýslumanns hefði verið um 1200 talsins, er hann fluttist að Krýsuvík. Ef það væri satt, hafa eflaust ekki margir bændur á Íslandi verið fjárfleiri en hann á þeirri tíð.
Mér er sagt, að nú sé Hafnarjarðarbær eigandi Krýsuvíkur. Er það vel farið, að það land lenti hjá því bæjarfélagi, úr því að íslenzka ríkið var ekki svo framtakssamt að eignast það. Það er sagt að Hafnfirðingar hafi í huga stór áform í Krýsuvík, enda eru þar margbrotnir ræktunarmöguleikar. Hafnfirðingar eru líka allra mannna líklegastir til þess að bæta þessum eyðijörðum í Krýsuvík upp giftuleysi liðinna ára.
Ég get ekki lokið svo við þessar hugleiðingar mínar um Krýsuvík, að ég minnist ekki ofurlítið frekar á kirkjuna og kirkjugarðinn þar. Kirkjan þar og kirkjugarðurinn eru í mínum augum helgir dómar, og þessa helgu dóma má með engu móti eyðileggja. Kirkjugarðinn verður að girða og breyta í trjá- og skrúðgarð og vanda þar allt til sem bezt. Kirkjuna verður að byggja að nýju í sama formi og hún er, og á sama stað.
Kirkjan á „sjálf víst ekki grænan eyri til endurbyggingar, Krysuvikurkirkja-371en hvað munar menn og ríkið um slíka smámuni? Það er verið reisa úr rústum gamlar kofarústir inn um alla afrétti og við skömmum liðnar kynslóðir fyrir trassaskap og vanrækslu í meðferð verðmæta – sem við köllum svo — hví skilum við þá á þessari mennta- og menningaröld fara að eyðileggja allar menjar um forna frægð Krýsuvíkur? Ég á vont með að trúa því, að nokkur Íslendingur nú á tímum væri svo auðvirðilega nískur að telja eftir nokkrar krónur til endurbyggingar á kirkjunni í Krýsuvík, þótt sú kirkja yrði aldrei notuð til messugjörða. Það er heldur vissulega ekki meining mín.
Að endingu þetta: Það verður líka að byggja sómasamlegt hús í Krýsuvík handa hinum aldraða Magnúsi Ólafssyni, ef hann æskir þess að fá að vera þar það sem eftir er lífdaganna, gamla manninum, sem sýnt hefur þessu plássi hina frábæru tryggð.
Ég þakka svo Magnúsi Ólafssyni fyrir vinarþel og kurteisi og ef til vill á ég eftir að hitta hann aftur í Krýsuvík, mér til ánægju og fróðleiks.“

Heimild:
-Heimilisblaðið 34. árg., 9.-10. tbl. 1945, bls. 172-174 og 193.

Krýsuvík

Bleikhóll í Krýsuvík.

Hetta

„Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur…“, segir í ljóðinu. Ljóðið segir til um röð toppanna á afmörkuðu svæði Sveifluhálsins (Austurhálsins) norðan Sveiflu.
Í hverasvæði HettuTilefni göngunnar að þessu sinni var eftirfarandi frásögn á vefsíðunni -tabernacleoftheheart.com-, en hún hljóðaði svona: „Eitt höfuðeinkenni keltneskrar kristni var T krossinn sem var borinn sem stafur og bjöllur léku veigamiklu hlutverki í keltnesku helgisiðunum og voru svo að segja einkennismerki reglumeðlima.
Alls staðar á Írlandi og í Skotlandi ristu paparnir keltneska krossinn á veggi hella þeirra sem þeir kusu sér gjarnan sem dvalarstaði. Slíkur kross hefur fundist í helli við Krýsuvík og hafa fornleifafræðingar sem rannsakað hafa hann staðfest, að líklega sé hann menjar um veru papanna á þessum stað. Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er að fjallið sem hellirinn fannst í heitir Hetta. Augljóslega hefur hellirinn verið notaður sem athvarf á kyrrðardögum fyrir einstaka munka og þessir fornu bræður okkar notuðu sama táknmálið og tíðkast enn í dag í íhugunarklaustrum, það er að segja munkahettuna dregna yfir höfðuð sem tákn um að viðkomandi munkur óskaði þess að dvelja í þögn. Sjálft orðið Krýsuvík virðist varpa enn frekara ljósi á það hverjir hafa dvalið hér til forna. Á skosk-gelísku þýðir orðið cryce annað hvort kross eða rakaða krúnu á höfði munks. Ekki er ólíklegt að norrænir menn hafi kallað munkana krýsa.“
 

Myndanir í Hettu

Ekki er kunnugt um að heimild þessi komi fyrir annars staðar. Reyndar ætti heimildin að vera það merkileg að hennar ætti a.m.k. að vera getið í ferðabókum frá fyrri tíð og tilvitnunum varðandi veru papa hér á landi sem og fornleifaskráningum. En því er ekki að heilsa. Auðvitað gæti mönnum hafa sést yfir svo gamlan stað, enda langt um liðið, og hann gleymst. Hér að framan er staðurinn þó tilgreindur sérstaklega þrátt fyrir að heimildir og rannsóknir um hliðstæðar vísbendingar hafi farið fram annars staðar á landinu, s.s. á Suðurlandi. Framangreindar nafngiftir eru að mörgu leyti eðlilegar því Hnakkur er hnakklaga, Hattur er hattlega og Hetta er hettulaga.
FERLIRsfélagar hafa allnokkru sinni gengið framhjá og umhverfis nefnda Hettu ofan við Krýsuvík, en á þeim ferðum hefur gaumur ekki verið gerður sérstaklega að hellum eða skútum í hæðinni, enda framangreindar upplýsingar tiltölulega nýtilkomnar. Í stað þess slappa bara af heima og afneita tilvitnunni sem tómri vitleysu var ekki um annað að ræða en að rölta af stað og leita af sér hinn minnsta grun.
AfveltaHaldið var upp frá Krýsuvíkurhúsunum (starfsmannahúsinu og gróðurhúsunum) og stefnan tekin á Hettu. Tækifærið var notað og hverinn austan í hæðinni skoðaður. Í ljós kom að þarna hafði verið borað og talsverð ummerki um það skilin eftir í hverasvæðinu. Talsverður brennisteinn er þarna nú og má ætla að svæðið hafi verið nýtt þegar brennisteinn var sóttur í Baðstofu og í hverina ofan við Seltún. Fallegar útfellingar eru á hverasvæðinu og litadýrðin er mikil. Fara þarf mjög varlega um það því ókunnugir gætu auðveldlega farið sér að voða.
Stefnan var tekin á gilskorning sunnan í Hettu. Mikið sjónarspil er í gilinu fyrir þá sem kunna að meta jarðrakakonfekt. Umbúðirnar eru reyndar öngvar, en innihaldið þess áhugaverðara. Og ekki spillir útsýnið yfir neðanverða Krýsuvík, að Geitahlíð, Arnarfelli og Bæjarfelli fyrir upplifuninni. Þess ber að geta að upplýsandi sólstafir hjálpuðu til við að varpa ljóma á dýrðina þessa síðdegisstund.
SkútiÞegar upp úr gilskorningnum var komið tóku við gróningar millum tveggja hæða, Hettu á hægri hönd og „Járnbrautarinnar“ á þá vinstri. Reyndar er hér um einu og sömu „hæðina“ á hálsinum að ræða, þegar horft er á hana úr fjarlægð. Nafngiftin „Járnbrautin“ gáfu Vinnuskólapiltar í Krýsuvík þessum hluta, en einn liður í veru þeirra í vinnuskólanum var gönguferðir um nágrennið (sjá meira um vinnuskólann HÉR). Hetta sjálf er gróinn kollhæð ofan við húsakostinn. Ekki er útilokað að hæðin öll hafi jafnan verið nefnd Hetta, enda ekki óeðlilegt.
Skyggnst var eftir hugsanlegum helli eða skúta í hlíðunum. Skyndilega birtist „skepna“ framundan. Hún lá á bakinu með allar fjórar lappirnar upp í loftið. Kindaleg hegðun það, enda kom í ljós að hér var um afvelta rolluskjátu að ræða – í beitarhólfi Grindavíkurbænda. Kindin virðist hafa legið þarna drjúgan tíma og reynt hvað hún gat til að komast aftur á lappir, en án árangurs. Hún var ósködduð, þ.e. hrafninn og tófan höfðu ekki komist í hana. Augun voru vökul og fylgdust vel með. Eyrnarmerkið var skoðað, kindinni klappað á makka og reynt að tala hlýlega til hennar.

Á Hettu

Að því búnu var tekið í hornin og kindinni velt yfir á magann. Fætur reyndust óburðugir – í fyrstu a.m.k. Smám saman virtist kindin braggast, en þrátt fyrir fyrstu hjálpar- og stuðningsaðgerðir tókst ekki að fá hana til að kunna fótum sínum forráð. Því var afráðið að skorða kindina af á maganum í von um að tíminn myndi vinna með henni og hún standa upp að lokum.
Fetuð var fjárgata ofarlega með vesturhlíð Hettu (Járnbrautarinnar) og áfram suður fyrir hana. Þegar komið var yfir á þá hlið vöknuðu spurningar í tengslum við tilefni ferðarinnar. Frá toppi Hettu var hið ágætasta útsýni niður að Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Frá henni hlaut Hetta að vera hæsti punkturinn í landslaginu. Frá Hettu var hvergi betra útsýni yfir hafflötin undan ströndinni. Þaðan var auðvelt að fylgjast með skipakomum með ströndinni, enda sigldu víkingaskipin helst grunnt á þeim tíma. Frá hæðinni hefði auðveldlega verið hægt að gefa fólkinu í byggðinni merki um yfirvofandi hættur, auk þess sem ekki er nema u.þ.b. klukkustundar gangur á millum. Þá má vel við bæta að á toppnum eru sérkennilegar veðramyndanir, sem líkja má við altör. Þau gætu hafa þótt áhugaverð fyrir Guðsdýrkendur í nýjum heimkynnum.
KrýsuvíkEnn í dag er óljóst hverjir voru íbúar í hinni fornu Krýsuvík (rústir í Húshólma og Óbrinnishólma) og hvenær (sjá meira HÉR). Sumir telja þó að þarna hafi verið fyrir íbúar áður en norrænir menn numu hér land.
Vegna framangreind var ekki óraunhæft að ætla, að framangeindu gefnu, að á Hettu hafi í fyrndinni verið sjónpóstur eða varðstöð. Ekki var þó að sjá leifar eftir slíka á hæðinni. Hins vegar eru þarna víða grunn skjól og önnur fyrir öllum áttum, ef svo ber undir. Á einum stað hafði hrunið fyrir skúta, en gatið var það þröngt að ekki var komist inn fyrir með góðu móti. Opið horfið mót gömlu Krýsuvík. Mun neðar í hæðinni, mót suðvestri, eru op, sem ekki hafa verið fullkönnuð.
Hafa ber í huga að heimildin, sem varð tilefni ferðarinnar, er véfengjanleg, Auk þess er ekki vitað til þess að ummeki um veru papa hafi fundist á þessu landssvæði. Á móti má segja að fullnægjandi rannsóknir á minjunum í Ögmundarhrauni m.t.t. þessa hafa enn ekki farið fram.
Enginn fannst krossmyndin í ferðinni, enda ólíklegt að ein slík myndi finnast á veðruðu móbergi eftir svo langan tíma sem hér á að vera raunin á. Því var hvorki hægt að sanna né afsanna heimildina upphaflegu. En hvað um það…
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-tabernacleoftheheart.com

Efst á Hettu

Svartsengi

Eftirfarandi grein eftir Kára Jónasson birtist undir dálknum „Skoðun“ í Fréttablaðinu föstudaginn 8. september 2006:
„Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.

Nesjavallavirkjun

Nesjavallavirkjun.

Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.

Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru.

Hellisheiðavirkjun

Hellisheiðarvirkjun.

Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði um miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði. Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.

Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu.

Orkuver

Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.

Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krýsuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.“

Ganga

Gengið um Reykjanesskaga.

Katlahraun

Jón Jónsson og Dagur Jónsson skrifuðu eftirfarandi grein um „Hraunborgir og gervigíga“ í Náttúrufræðinginn 1992:
„Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir.

Gervigígar við Helgafell
Litluborgir-207Árið 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.
Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða Litluborgir-208minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr. Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns.

litluborgir-209

Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
litluborgir-210Súlur afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum. Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti. Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Dropsteinn-221Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. 

Katlahraun
Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar.

katlahraun-229

Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg., 3.-4. tbl. 1992, bls. 145-149.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.