Hellisheiðarvegur

Ætlunin var að rekja gamla Hellisheiðarveginn (elstu göngu- og reiðgötuna) frá Lyklafelli upp í Hellisskarð. Áður hafa tvær götur verið raktar frá Elliðakoti upp fyrir Lyklafell og auk þess Dyravegurinn frá Lyklafelli að Nesjavöllum.
HellisheiðarvegurGatnamót Hellisheiðarvegar og Dyravegar eru skammt ofan við Lyklafell. Þar er vegurinn greinilegur þar sem hann liggur upp brekku til austurs og síðan liðast hann austur Norðurvelli, upp að Bolavöllum og beygir til suðurs undir Húsmúla. Vörðuð leið er vestar. Þar mun hafa verið um vetrarveg að ræða, sem sennilega hefur verið varðaður 1878. Sú leið er styttri frá Draugatjörn að Lyklafelli, en torfarnari þegar jörð er auð.
Skammt sunnar á heiðinni er svonefndur Sýslusteinn. Kíkt var á hann í leiðinni.
Þegar skoðaðar eru fornleifaskráningar af svæðinu kemur glögglega í ljós að Hellisheiðarvegur hinn forni er ekki talinn til fornleifa því hans er ekki getið – þrátt fyrir að vera auðrakinn svo til alla leiðina.
KortSem fyrr sagði liggur
Hellisheiðarvegur upp á Norðurvelli og áfram um Bolavelli norðanverða. Við suðvestanverðan Húsmúla liðast gatan um grasgrónina og er víðast mjög greinileg. Þó hefur vatn grafið hana umtalsvert niður í seinni tíð. Afleggjari (sennilega svonefndur Nautastígur) liggur síðan svolítið upp í Múlann gegnt Draugatjörn og um Mógil. Austan þess beygir gatan áleiðis að Kolviðarhól sunnan Sleggjubeinsdals, áleiðis að Hellisskarði. Varða er efst í skarðinu.
Skv. lýsingu mun Hellisheiðarvegur hafa legið upp að sunnanverðri Draugatjörn og síðan áfram áleiðis að Kolviðarhóli og áfram upp Hellisskarð. Á þeim kafla hefur nánast alveg gróið yfir veginn.
Sýslusteinn„Hellisheiðarvegur hefur verið fjölfarinn fjallvegur um aldaraðir, í dag þegar við ferðumst um í heitum, öruggum bílum okkar er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað forfeður okkar hafa þurft að leggja á sig til að komast á milli staða. Á þessum fjallvegum var oft háð barátta upp á líf og dauða, enda voru mannskaðar á Hellisheiði tíðir. Ekki er hægt að segja með vissu hversu margir hafa dáið á ferð sinni um Hellisheiði. Engar heimildir eru til um mannskaða fyrir lok 18. aldar. Ónákvæmar ritaðar heimildir og frásagnir af mannsköðum eru að finna í annálum. En oft var staðsetning þessara mannskaða ekki nákvæmari en svo að í heimildum var skráð, að þetta margir menn hefðu orðið úti á Suðurlandsfjórðungi, svo dæmi séu tekin. Hér er ein stutt dæmisaga um ferðalög um Hellisheiði.

Hellisheiðarvegur

Um miðja 19. öld fóru þrjár manneskjur úr Ölvesi á grasafjall vestur á Hellisheiði og í Hengladali. Fólk þetta var bóndinn á Hvoli, unglingspiltur og kerling ein við aldur, er um fjölda ára hafði farið til grasa á þessar stöðvar. Þau voru þrjá sólarhringa í ferðinni og lágu við tjald. Kvöld eitt, er þau komu í tjaldstað, hafði bóndinn með sér gamlan göngustaf um tveggja álna langan, snjáðan mjög og feyskinn. Kvaðst hann hafa fundið stafinn, reistan upp við hraunskúta þar allfjarri. Kerling spurði bónda, hvort hann treysti sér að finna staðinn, þar sem stafurinn hefði verið. Hann kvaðst mundu geta það. Fýsti kerlingu mjög að fara þangað, og varð það úr, að þau fóru öll og fundu staðinn. Er þau litu inn í hraunskútann, sáu þau aflanga mosahrúgu. Þau hrófluðu við henni; kom þá í ljós, að undir henni var mannsbeinagrind, en mosahrúgan hafði með tíma og árum myndast ofan á þeim. Voru nú beinin tínd upp í poka og flutt fram í Ölves og nokkru síðar grafin í Arnarbæliskirkjugarði á messudegi.

Hellisheiðarvegur

Nóttina eftir að beinin voru grafin, dreymdi bóndann á Hvoli, sem fann þau, að maður kæmi til hans. Kvaðst hann vera sá, er beinin átti, þakkaði bónda fyrir að hafa flutt þau í vígða mold. En um leið otaði hann fram öðrum fætinum og kvartaði um, að þar vantaði fremsta köggulinn á stóru tána. Í þrjár nætur dreymdi bóndann sama drauminn, og bar draumamaður sig mjög illa. Sagði þá bóndi drauminn kerlingunni, er með honum var, þegar beinin fundust. Kerling ráðlagði honum að fara vestur á heiðina, þar sem beinagrindin hafði legið, og leita köggulsins, og það gerði bóndi. Eftir nokkra leit fann hann beinið og hafði heim með sér. Þegar næst var messað í Arnarbæli, hafði bóndinn köggulinn með sér í vestisvasa sínum. 

Varða

Þegar messan var úti, laumaði hann köggulinum svo lítið bar á ofan í nýorpið leiði. Eftir það gerði sá dauði ekki vart við sig.
Var nú spurn haldið fyrir um, hver sá hefði verið, er þarna hafði beinin borið. Var það hald flestra, að þau væru af manni, er úti varð á heiðinni fyrir 36 árum og var úr Biskupstungunum. Samkvæmt því hefur það gerst á áratugunum 1820 til 1830.“

Elsti akvegur Hellisheiðarvegar er skammt suður af gömlu götunni gegnt Húsmúla. Hann er að stofni til frá 1894-57 og upphlaðinn á köflum. 

„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar
á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“ segir í örnefnaskrá.
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður (061), og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum.“ segir í Austantórum.

Varða

„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. . Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba.

Eiríksvegur

1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í
Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ segir í Landnámi Ingólfs 2.
HellisheiðarvegurSamkvæmt Birni Pálssyni var aðhald fyrir hesta sérstaklega hlaðið upp við Eiríksveg fyrir þá sem hlóðu veginn.
Eiríksvegur sést greinilega víða, t.d. í Hrauntungu þar sem ný íbúðabyggð á að rísa. Vegurinn sést koma undan núverandi þjóðvegi og liggur, þráðbeinn til ASA yfir allt hið væntanlega íbúðahverfi. Girðing afmarkar nú svæðið í Hrauntungu en Eiríksvegur liggur áfram ASA við suðurhlið hennar í um 200 m áður en hann fjarar út skammt norðan við. Vegurinn liggur um mosavaxið hraunlendi. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95. Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og Hellisheiðarveguróvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“ segir í Landnámi Ingólfs.
Í Lýsingu Ölvershrepps frá 1703 [í Sýslu- og sóknarlýsingum] segir m.a.: „Fyrir austan … SæluhúsiðBæjarþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almenningsvegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellisheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis.“  Þar segir ennfremur í lýsingu frá 1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ „Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, Hveragerði og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Húsmúlarétt

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“ segir í Sögu Kolviðarhóls.

Á skilti við Húsmúlarétt stendur eftirfarandi:
„Rétt þessi var notuð langt fram á 20. öld en ekki er vitað hvað hún er gömul. Réttin var notuð til rúnings á vorin og sem aðhald í haustleitum en ekki hefur hún rúmað stórt fjársafn. Af afrétti Ölfushrepps, sem þetta svæði tilheyrir, gekk fé úr fleiri hreppum.
Í gömlum Hellisskarðmunnmælum segir að Mosfellingar og Ölfusingar hafi haft sameiginlegan afrétt en þeirri samvinnu lokið er deilur komu upp og lauk með orrustu sem Orrustuhóll uppi á Hellisheiði dregur nafn sitt af. Ekki er þó víst hvort atburðurinn átti sér stað í raun og veru.“

Á skilti við sæluhúsið við Draugatjörn stendur eftirfarandi m.a.:
„Við Draugatjörn hefur staðið sæluhús frá fornu fari. Það er frægt, bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um hér á landi, en ekki síður fyrir magnaða reimleika sem að lokum urðu til þess að húsið var fært upp á Kolviðarhól 1844.
Sveinn Pálsson lýsir húsinu í ferðabók sinni 1793 og Laskaður garðursegir m.a.: „Margir hafa dáið í þessum kofa því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. „Gamla þjóðleiðin lá hér um og var fjölfarin en nýr vegur var lagður yfir Svínahraun norðanvert árið 1878. Gamli vegurinn fylgdi hraunbrúninni og sjást vörður í hrauninu vestan Draugatjarnar. Enn fremur sjást greinilegir götuslóðar á Hvannavöllum um miðja vegu milli tjarnarinnar og Kolviðarhóls.“

Þegar FERLIR var á ferð við Húsmúlaréttina mátti sjá hvar hlöðnum garði, almenningi, vestan við hana hafði verið raskað – og það verulega, sennilega með vélskóflu.

Norðurvellir heita grasvellirnir nyrst og næst Lyklafelli og Bolavelli austast norðvestan Húsmúla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Kolviðarhóls eftir Skúla Helgason, Myndir AÞE; Júlí 2006.
-centrum.is
-Fornleifaskráning v/Hellisheiðarvirkjunnar, Fornleifastofnun Íslands.
-Fornleifaskráning í Hveragerði – Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands 2002.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gráhelluhraun

„Á skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar sem haldinn var við Hvaleyrarvatn um miðjan júlí var Björnslundur vígður í minningu Björns Árnasonar, bæjarverkfræðings og skógarbónda. Afhjúpuðu börn Björns minningarskjöld í Seldal [undir Stórhöfða].
MinningarskjöldurÍ fimmtu og síðustu skógargöngu Skógræktarfélags Hafnafjarðar 9. ágúst s.l. var afhjúpaður minnisvarði í Gráhelluhrauni um fjóra menn sem lögðu sitt af mörkum til að efla skógræktarstarf í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Það voru Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld og sér Garðar Þorsteinsson sem áttu allir setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um langa hríð.“
Í Gráhelluhrauni er auk þess minningarskjöldur um Guðmund Þórarinsson, skógræktarmann og kennara. Í Húshöfða ofan við Hvaleyrarvatn er minningaskjöldur um Kristmundsbörn annars vegar og Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda, hins vegar.
Björn Árnason var lengi bæjarverlfræðingur í Hafnarfirði. Hann átti drjúgan þátt í vega- og stígagerð á skógræktarsvæðunum ofan við bæinn. Þegar erfiðlega gekk að fá fjárveitingar til slíkra framkvæmda brá hann á það ráð að jafna kostnaðinum yfir á „Ytri-höfnina“, athugasemdalaust. Í dag vildu fáir vera án þessara stíga er gerir þeim kleift að ganga um skógræktarsvæðin með auðveldum hætti. Og Ytri-höfnin er fyrir löngu komin í gagnið.

Heimild:
-fjardarposturinn.is, 28.08.2008.

Minningarskjöldur

Laufdælingastígur

Í bókinni „Mosfellsbær – saga í 1100 ár„, bls.177 stendur: „Fyrrum lá Laufdælingastígur  frá Vilborgarkeldu meðfram sýslumörkum við Árnessýslu suður að Lyklafelli“.
Laufdaelingagata-1Í „Reiðleiðir í Árnessýslu“ segir: „Þarna eru sýslumót Kjalarnesþings og Árnessýslu, ræður svo Laufdælingastígur sem lá vestur eftir heiðinni allt að Lyklafelli“.

Laufdælingar, gæti það hafa verið „Laugdælingar“?
Hefur þú heyrt um að Stóra Reykjafell hafi verið  kallað Sandhalahjúkur?
Jón Pálsson Skrifar í „Austantórum“ um Lágskarðsveginn „Þegar beygt er norður að Kolviðarhóli, við suðvesturhornið á Sandhalahnjúki“.

„Við Lucy gengum í dag frá Nesjavallavegi eftir sýslumótum upp á há Mosfellsheiði. Fundum fljótlega götur sem lágu um graslautir upp á heiðina sem ég held að sé Laufdælingastígur. Vörður voru við götuna og svo aðrar sem ég held að séu á sýslumótum. Snérum svo við sniðhallt við Borgarhóla.

Tók myndir af hleðslu við Helgutjörn. –Kveðja Jón Svanþórsson.“

Laufdaelingagata-2

Þegar FERLIR skoðaði Laufdælingastíg mátti sjá hvar hann liggur upp frá norðaustanverðu Lyklafelli og síðan um gróninga upp austanverða heiðarbrúnina þar sem hún lækkar til austurs og verður svo til að móaflatneskju milli hennar og Dyrfjalla (Sköflungs). Á leiðinni eru nokkrar vörður og vörðubrot. Stefnuvarða er á efsta hól þegar gengið er til norðausturs og önnur, síður veglegri, á lægri rana út úr suðaustanverðum hólnum. Eftir það liggur leiðin um móa og gróninga með stefnu á hæsta hólinn í austanverðri heiðinni. Frá honum hallar landið niður til norðurs. Þegar niður fyrir hólinn er komið sést varða eftst á honum. Hefur hún átt að vera mönnum vegvísir á suðvesturleiðinni. Önnur leið, mun sléttari, liggur litlu austar og á hún eflaust átt að spara fótinn á leiðinni suður. Eftir að halla tekur til norðurs liggur leiðin sem fyrr um gróninga svo til alla leið niður að Vilborgarkeldu.

Laufdælingastígur

Laufdælingastíkur – ÓSÁ.

Leiðarendi

Enn og aftur var haldið í Leiðarenda, aðgengilegan helli, við Bláfjallaveg. Tilefnið var að undirbúa vettvangsferð elstu bekkjar grunnskólanema úr Setbergsskóla í verkefninu „Landið og miðin“. Að þessu sinni var stefnan tekin á „landið“.
Leiðarendi ber nafn af beinagrind kindar, sem álpaðist inn í enda u.þ.b. 120 metra hraunrásarinnar fyrir allnokkrum árhundruðum síðan, rataði ekki út aftur, lagðist til hvíldar og dó. Beinin eru flest orðin að dufti og móta skepnuna í hellisgólfið. Alls er Leiðarendi um 300 metra langur.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Hellisrásin er í Stórabollahrauni (Hellnahrauni/Skúlatúnshrauni), sennilega því yngra, sem mun vera um 1200 ára gamalt. Eldra Hellnahraunið mun vera u.þ.b. 1000 árum eldra. Erfitt er að greina skil þessara hrauna á köflum, einkum þar sem önnur hraun hafa farið yfir um síðar. Tvíbollahraunið er þarna að hluta til ofan á Hellnahraunum, úfið apalhraun, en opið er í helluhrauninu (Hellnahrauni). Öll hafa þessi hraun komið úr gígunum í Grindarskörðum (Miðbollum (Tvíbolla) og Syðstubollum. Í nágrenninu eru nokkrir hellar, s.s. Hjartartröðin, Flóki og Dauðadalahellar.
Dropsteinn í LeiðarendaÞegar komið er niður í rásina er liggur til norðvesturs, hringlaga, rauðleita og formlega má sjá rauðleitt loft og veggi. Brúnleitt gólfið ber ummerki eftir seinni stiga hraun hraunrennsli er kleprast hefur upp á miðja veggi.
Í jöðrunum má sjá „dropsteinahreiður“, þ.e. nýmyndunarstig slíkra steina. Ef vel er að gáð má greina lítil op efst á þeim. Þarna er gott að skoða hvernig „fullorðnir“ dropsteinar hafa upp úr „bernsku“ sinni. Flestir, sem berja þá augum, álykta sem svo að þarna hljóti hraun að hafa dropið úr lofti og myndað undirsáturnar. Oft má sjá hraunstrá í loftum ofan við dropsteina og því er ályktunin ekki óeðlileg. Staðreyndin er hins vegar sú að bæði hraunstrá og dropsteinar myndast með samskonar hætti. Um eru að ræða útstreymi gass úr storknandi hraunkviku eftir rennsli. Vegna mikils þrýstings hlaðast upp drýli líkt og á hverasvæðum.
Eftir því sem uppstreymir er kröfugra og varir lengur verða afurðirnar lengri og stærri. Dropsteinar á gólfum kalksteinshella verða hins vegar til við drop kalks úr loftum. Þeir geta aftur á móti orðið allmiklu stærri en dropsteinar í hraunhellum, líkt og í Leiðarenda.
Sem fyrr segir er Leiðarendi „nærtækur“ hellir, ágætt helladæmi í námunda við veg og skammt frá höfuðborgarsvæðinu – í umdæmi Hafnarfjarðar. Hafnfirðingar virðast hins vegar ekki sérlega meðvitaðir um hellaeign sína. Þeir hafa hvorki gert þá aðgengilega né komið upplýsingum um þá til almennings með leiðbeiningum um umgengni, tilurð þeirra og þau verðmæti er þeir geyma. Samt eru hellarnir eitt af náttúrundum svæðisins og alls ekki með þeim ómerkilegri. En það er nú önnur saga.
Dropsteinn í LeiðarendaLeiðarendi er ágætur hraunhellir til leiðbeiningar og kennslu. Í honum eru tignarlegir dropsteinar, sem fyrr sagði, separ, hraunstrá og aðrar jarðmyndanir. Eitt af aðalsmerkjum hellsins eru þunnar flögur er brotnað hafa af veggjum. Um er að ræða lagskiptingar storknunarferla einstakra hraunáa er runnið hafa um rásina í sömu goshrinu. Frost og önnur veðrun hafa brotið einstök lög svo sjá má þau bæði á gólfum og veggjum. Þau eru mismunandi þykk eftir staðsetningum.
Hrun er í Leiðarenda, en fremur lítið á hellamælikvarða. Víðast er gólfi slétt, en hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Hæstur er hann um 5-6 metrar. Breiddin er um 5 metrar. Þegar komið er niður í enda þeirrar rásar er hér hefur verið lýst verður fyrir nokkurs konar hrauntjörn. Hún hefur myndast vegna „sléttlendis“. Útrás hraunsins hefur fyllst neðar svo þar eru einungis mjög lágar áframhaldandi rásir. Mögulega væri hægt að magaskíða þær, en óvíst er um frekari árangur því hraunið virðist nokkuð slétt neðanvert. Hins vegar má, þegar yfirborðsleitað er þar, sjá lítið niðurföll. Eitt þeirra er t.a.m. einstaklega áhugavert. Um er að ræða rás gólffulla af vatni. Henni hefur ekki verið fylgt svo vitað sé, en verður kannski gert síðar.
Ofan þess, sem útopið liggur niður í neðri rásina, eru „gatnamót“. Hliðarrás liggur þar upp hraunið með fallegum sepamyndunum í lofti. Þegar rásinni er fylgt liggur leið hennar í gegnum hraun. Handan þess kemur stór og myndarleg meginhellarásin í ljós. Auðvelt er að gleyma sér við slíkar aðstæður, en vant fólk staldrar við og merkir staðinn. Opið er lítið og ef það hefur hugsað sér, yfirleitt og yfir höfuð, að komast út aftur, er rétt að gera ráð fyrir að finna opið aftur. Annars gætu orðið vandræði síðar – og jafnvel tímabundin angist.
Myndun í LeiðarendaAð opinu merku er auðvelt að fylgja rúmri rásinni upp á við. Gólfið er slétt sem og veggir og loft. Rásin endar í engu, líkt og margar vænlegar rásir gera.
Þá er að halda niður á við – til baka. Vegna þess að fyrrum innopið, núverandi útopið, var merkt, er bakaleiðin greiðfær. Ef fyrirhyggjan hefði ekki verið fyrir hendi, hefði rásin leitt fólkið niður í sífellt þrengri og lægri rásina. Með illu móti hefði verið hægt að skríða á maganum niður hana og koma út um jarðfallið fyrstnefnda, en slík álagning á í rauninni að vera óþörf sæmilega fyrirhyggjusömu fólki. Bakaleiðin er best.
Áður var minnst á Leiðarenda sem ágætt nærtækt „helladæmi“ eða kennslugagn um hella. Bæði fallegir og háir dropsteinar eru í hellinum, ef vel er að gáð. Þegar gengið er inn í hann er jafnvel farið yfir slíka steina. Á leiðinni um hellinn er einnig gengið á dropsteinum, en þeir hæstu og myndarlegustu, er varðveist hafa, eru til jaðranna. Þá þarf að varðveita. „Steinar“ þessir hafa verið þarna frá uppruna sínum og eru því yfir þúsund ára gamlir. Þeir eru einstaklega fagrir og heimatilkomulegir þar sem þeir eru – í sínu upprunalega umhverfi. Dæmi eru um að fólk hafi fundist mikið til slíkra „steina“ koma, brotið þá og haft út með sér með það fyrir augum að hafa þá til skrauts í stofu eða annars staða í eða við híbýli sín. Þegar þangað var komið virtist ljóminn horfinn og tilgangurinn eða tengsl við upprunann enginn. Raunveruleikinn er sá að dropsteinar eru einungis fallegir í sínu upprunalega umhverfi. Þar eiga þeir að fá að vera í friði – um aldur og ævi – fólki til upplifunnar og ánægju.
Að undirbúningsferðinni lokinni voru kennararar í Setbergsskóla sannfærðir um gildi hella til upplýsingagjafa til handa nemendum sínum. Jarðfræðin, tilurð hrauna, atgangur meðan var og afsprengi (þ.e. ásýnd nútímans), er ekki síður mikilvæg nútíðinni en þá var og gerðist. Með því að skoða það sem til er nú, má augljóslega gera sér grein fyrir hvað gekk á og varð. Hraunin, hvort sem um er að ræða apalhraun eða helluhraun, eru staðreyndir þess yfirborðs, sem gengið er á í dag á nánast gjörvöllum Reykjanesskaganum – um sem slík einstök í sinni min.Leiðarendi

Leiðarendi.

 

Gíslhellir

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.

Gíslhellir

Í Gíslhelli.

Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.

Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
Gengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (árið sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.

Gíslhellir

Fyrirhleðsla Gíslhellis.

Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918.

Gíslhellir

Op Gíslhellis.

A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.
Frábært veður.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalsnes

Gengið var með Jóni Ben Guðjónssyni, bónda á Stafnesi, um norðanvert Starfneshverfið. Ætlunin var m.a. að reyna að rekja gömlu kirkjugötuna millum Safnesbæjanna og Hvalsneskirkju (Hvalsneshverfis) og skoða gamlar minjar á leiðinni. Áður hafði verið gengið um vestan og sunnanvert Stafnes,sem og Básenda í Stafneslandi.
SvæðiðJón sagði að elsti bærinn á Stafnesi hafi sennilega verið þar sem nú má sjá tóftir Vallarhúsa skammt norðvestan við núverandi íbúðarhús. Gamli Stafnesbærinn (timburhús) hafi hins vegar staðið þar sem nú er bílastæði norðan við íbúðarhúsið. Vestan þess hafi verið fjós, en í það hafi verið grafið þegar mjólkurhús var byggt við nýja fjósið, sem enn stendur. Flór hafi legið til vesturs, en suðvestan við gamla bæinn hafi brunnurinn verið. Umleikis hafi verið mikill túngarður. Hann hafi legið með hæðinni að suðaustanverðu við íbúðarhúsið, yfir núverandi veg til norðurs, síðan til vesturs og aftur til suðurs vestar. Þegar Jón var að slá fyrrum hafi hann iðulega komið niður á steinaraðir úr garðinum, en nú er einungis að sjá þar sléttan grasvöll.
Við Stafnes eru víða sléttaðir grashólar í túnum. Þarna var áður fjöldinn allur af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega  verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin. Frægustu hjáleigurnar m.t.t. skráðra þjóðsagna og eftirminnilegra atburða eru Lodda, Þemba og Básendar.
Ein er til þjóðasaga um Stafnesbónda er birtist í Rauðskinnu, en hvort hún er sönn eður ei skal ósagt látið: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.
Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita. Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu og varð enginn annar í bænum var við atburð þennan.
Leið nú haustið. En seint á jólaföstunni var enn barið að dyrum á Stafnesi á vökunni. Tvær stúlkur voru frammi í bænum að mala korn og gengu þær til dyra. Dimmt var mjög úti, en þó sáu þær, að kona ein stóð úti fyrir. Biður hún stúlkurnar að skila til húsbóndans, að hún vilji hafa tal af honum. Þær fara inn og flytja bónda tíðindin. Segir þá húsfreyja þeim að fara í humátt á eftir bónda og vita, hvert erindi kona þessi eigi við mann sinn. Þær gera svo, en er þær koma fram að bæjardyrunum, virðist þeim allt útlit konunnar gjörbreytt orðið, og hún vera hin ferlegasta ásýndum og afmynduð af reiði. Hún virðir bónda eigi viðlits, snýr vanga að honum og segir:

Nýlendubrunnur

„Ekki þarf eg að þakka, en fleirum skal sárna en þeim, sem húðstrýktir eru,“
– og gengur því næst burt. Bóndi sneri þegar aftur til baðstofu og var þá fölur sem nár. Biður húsfreyja þá stúlkurnar að fara og ná í konu þessa og biðja hana í guðs bænum að tala við sig. Stúlkurnar fara og sjá þær hilla undir konuna norður á túninu. Þær hlaupa á eftir henni og ná henni loks og færa henni orð húsfreyju. En hún er ákaflega fasmikil, lítur ekki við þeim og segir:
„Eg hef skilað erindinu,“ – og endurtekur það.
Stúlkurnar þorðu eigi lengur að fást við hana og hlupu skelkaðar heim.
– Líður nú fram yfir jól, fram á þorra, og allt er tíðindalaust. Í þorrabyrjun gerði ógæftir miklar, útsynning og brim. Rak þá á Stafnesi tré eitt mikið. Fór húsbóndi með vinnumenn sína til að bjarga trénu frá sjó. En svo vildi til, er þeir veltu upp trénu, að annar endi þess kom dálítið við hné bónda og meiddi hann eitthvað, en eigi svo, að hann gæti ekki gengið heim. En daginn eftir klæðist bóndi ekki og liggur upp frá því rúmfastur í samfleytt 17 ár í hnémeiðsi þessu. Að því búnu komst hann á fætur aftur alheill og óhaltur. Var það ætlun manna, að kona sú, er fyrr var frá sagt, myndi hafa lagt á hann þjáningar þessar fyrir meðferðina á drengnum.“

Nýlenda

Um Þembu segir sagan m.a.: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna.

Þemba

Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann.
Næsta vor var þemba byggð manni einum dönskum, er vera skyldi aðstoðarmaður þeirra Básendakaupmanna. Eigi linnti drykkju og söng í Þembu, þó að Narfi væri farinn, og voru það nú Danir, sem höfðu þar drykkjusamkomur og ýmsan gleðskap. En það er frá Narfa að segja, að hann fluttist suður til Kirkjuvogs í Höfnum og dó þar snögglega eftir skamma dvöl. Var hann jarðsunginn þar. Narfi hafði átt góðhest einn steingráan, bæði fljótan og vakran. Hafði sá margan golþeysinginn farið, þegar jörð var setzt á vorum. Þennan hest hafði Narfi neyðzt til að slá af, þegar hann var hrakinn frá Þembu.
Á þrettánda dag jóla, vetur þann, er Narfi andaðist, voru Danir saman komnir í Þembu til drykkju. Þetta sama kvöld Balabrunnurbar svo við í Kirkjuvogi, að stúlka nokkur gekk út í vökulok. Úti var veður mjög skuggalegt, en þó nokkur birta af tungli, útsuðurhiminninn sundurtættur af kolsvörtum skýjabólstrum með ljósum glufum á milli og urgur mikill í sjó. Varð þá stúlkunni litið til kirkjugarðsins. Sér hún þar standa mann nokkurn, er styður sig við apalgráan hest og heyrir hann kveða vísu þessa við raust:
Þembu að eg þeysi af stað,
þar er mitt eftirlæti.
Hleypi eg dyn því hófakyn
hefi eg á fæti,
hefi eg létt á fæti.
Vindur hann sér á bak hestinum og tók sá sprettinn, en hvorki heyrði hún jódyn né sá spor hans. Varð stúlkunni óglatt við sýn þessa og hljóp inn og sagði frá því, er fyrir hana hafði borið. Nú víkur sögunni að Þembu. Þar voru, sem fyrr segir, gleðilæti mikil.

Balabrunnur

Er leið á kvöldið, urðu menn snögglega varir við, að kuldagust lagði um skálann og fylgdi því óþefur nokkur. Og er þeir litast um, sjá þeir, að ókenndur maður er kominn í hópinn. Hefur sá gripið eina brennivínsflöskuna og ber hana að vitum sér. Maður sá var bleikur sem bast, beinaber og brúnaþungur; glotti hann svo, að þeim stóð stuggur af. Rann þá nokkuð af þeim ölvíman. Varð kaupmaður fyrstur til að spyrja, hver hann væri. Svarar þá aðkomumaður:
Hér er kominn Narfi,
hann hraktir þú frá starfi.
Fölur er nú minn farfi,
falli yfir þig stjarfi.
Bregður þá svo við, að kaupmaður féll sem dauður væri á gólfið, og í sama bili sýndist þeim, er inni voru, veggurinn opnast að baki Narfa og hann hverfa þar út. Stumra þeir yfir kaupmanni, en geta ekki vakið hann af dvalanum. Var hann færður heim að Básendum og hugðu hann allir dauðan. Lá hann lengi í dái þessu, en raknaði þó um síðir við, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta.“

Hólakotsbrunnur

Um Loddu segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum höfuðból og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan til Geirfuglaskers á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnesbóndann og auk þess var Básendakaupstaðurinn í landi hans. Hétu hjáleigur þessar ýmsum nöfnum og voru sum þeirra harla einkennileg, svo sem Refshalakot, Gosa, Hattakollur, þemba og Lodda.
Hjáleiga sú, sem næst var Básendum, hét Lodda. Hét hún upphaflega Lúðvíksstofa, en síðar breyttist nafnið í Loddustofu og Loddu. Var kot þetta í byggð fram á miðja 19. öld. Loddu fylgdi grasnyt fyrrum og voru leigur goldnar með þremur vættum fiska að Básendum í reikning heimabóndans. Í fyrri daga bjó einhverju sinni í Loddu maður sá, er Bergþór hét. Var ætt hans austan úr Biskupstungum. Hann var maður með sínu lagi og hafði mikla náttúru til hafsins. Kona hans hét Þorkatla. Voru þau hjón einyrkjar, lítt fjáð, en veitul mjög og gestrisin. Var það venja bónda að bregða skjótt við, er gest bar að garði, og taka á móti þeim, er kom, í bæjardyrunum og leiða jafnskjótt til baðstofu, og var á ekkert dregið undan af því, sem ætilegt var í kotinu. Var orðtak þeirra hjóna jafnan þetta: „Lítið en ljúft er veitt í Loddu.“
GlaumbæjarhóllBergþór reri á skipi heimabóndans ýmist sem konungsmaður eða hlutamaður. Einu sinni á vertíð var það dag einn, að lengi var setið á færum í kulda, því að dráttur var sæmilegur og vilja varð vart öðru hvoru. En er á daginn leið, tók að hvessa og fengu þeir brátt hinn versta barning heim. En nokkru síðar fékk Bergþór tak mikið og lagðist í rekkju. Var það með þeim býsnum, að hann lá dauður innan þriggja nátta. Hörmuðu menn dauða hans, því að hann var greiðamaður hinn mesti og vinsæll af öllum. Hélt Þorkatla ekkja hans kotið það sem eftir var vetrar og fram að fardögum. Var svo Lodda í eyði um sumarið.
En svo bar til, þegar liðið var sumar fram yfir höfuðdag, að maður einn úr Grindavík kom síðla dags út að Básendum. Varð hann of seinn til að ná tali af kaupmönnum, og gengur því í áttina heim að Loddu og hyggst að leita þar gistingar. Sér hann þá mann standa þar í bæjardyrunum. Býst hann þá við, að menn hafi þar séð til ferða sinna, og húsbóndinn muni bíða í dyrunum til þess að leiða hann til baðstofu og veita honum húsaskjól.
Greikkar hann því sporið og er brátt kominn heim undir hlaðvarpann. Sér hann, að maður sá, er Gamla Hólakotdyra gætir, er í selskinns-vesti með silfurhnöppum og skóm með hvítum ristarþvengjum. Þá er hann kemur að bæjardyrunum, heilsar hann manni þessum, en hann tekur eigi kveðju hans, heldur snýr sér óðara við og bandar til hans hendinni að fylgja sér inn göngin til stofu, og gerir gesturinn það. Þá er þeir koma inn göngin, spyr komumaður þann, er á undan gekk, hvort hann ráði þar ekki húsum. Svaraði þá maðurinn honum með vísu þessari:
Eg bý í Loddu, ljúfurinn,
löng eru göng og steinar,
stígðu innar, stúfurinn,
stofuna enginn meinar,
dyrnar eru á dráttunum
dregnar upp á náttunum,
brátt mér einar,
brátt mér opnast einar.

Jón á Stafnesstekk

Sér þá gesturinn grjótvegginn opnast í göngunum og bónda hverfa þar inn. Greip þá gestinn slík ofsahræðsla, að hann óð út úr bænum og hljóp sem fætur toguðu heim að Stafnesi, og vakti þar fólk allt með höggum miklum. Tókst von bráðar að sefa hann svo, að hann sagði upp alla sögu. Bar þá heimamönnum saman um það, að þarna hefði Bergþór verið kominn og viljað sýna fyrri gestrisni sína. Síðar var Lodda byggð aftur og bar þá minna á reimleikum upp frá því.“
Enn eitt býlið eigi skammt frá hét Refshalakot. Um það segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum mikil jörð og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan í Geirfuglasker á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnessbóndann, auk Bátsenda er einnig voru í landi hans.
Þá er Stafnes varð kóngsjörð urðu hjáleigubændurnir fyrir ýmsum kvöðum af hendi Bessastaðamanna. Urðu þeir að annast flutninga frá Bátsendakaupmönnum til Bessastaða endurgjaldslaust og fæða sig að auki.

Leifar af rétt

Ein af hjáleigum Stafnessbóndans hét Refshalakot; var þar lítilfjörleg grasnyt og afgjaldið goldið í fiski. Sagt er að eitt sinn hafi búið maður sá í Refshalakoti er Þórólfur hét. Var hann vanur og veðurglöggur formaður, harðgerr mjög og stórlyndur, ef því var að skipta. Eigi hafði hann búið lengi í Refshalakoti er úfar risu milli hans og Stafnessbóndans út af leigunum. Galt Þórólfur venjulegar leigur eftir kotið en heimabóndi sagði að fylgja ætti þurr og vel verkaður þanghestur að auki. Eigi vildi Þórólfur ganga að því.
Eitt sinn er Þórólfur var að heiman, skrapp Stafnessbóndinn heim að Refshalakoti og lét greipar sópa um þangbirgðir þær er voru í kotinu. Kom Þórólfur nokkuru síðar heim; sárnaði honum mjög tiltæki bónda en fékkst þó eigi neitt frekar um það.
Haust eitt, nokkuru eftir Mikaelsmessu, vildu Bátsendakaupmenn flytja ýmsar vörur til Bessastaða og heimtu þá sem fyrr leiguliðana í för þessa. Skyldi Þórólfur vera formaðurinn. Morgun þann, er fara átti, vaknar Þórólfur snemma; var þá andi af vestri, móða á jöklinum, og þyngsli mikil í sjó. Þótti Þórólfi illt útlit og vildi hvergi fara en þorði þó eigi annað en hlýða, sökum ofríkis og hótana kaupmanna.

Ögmundargerði

Var þá settur fram teinæringur einn mikill, er staðið hafði í naustum frá vertíðarlokum og gisnað nokkuð af sól um sumarið. Var nú borinn flutningur á skip og héldu þeir að því búnu af stað. Voru á skipi þessu margir leiguliðar Stafnessbóndans og þénarar kaupmanna. Var skipið lítt búið seglum og er inn fyrir Skaga kom, gjörði ofsarok af norðvestri, svo að þá hrakti inn allan Garðsjó og bar þá loks undir Vogastapa og týndist skipið þar með öllu. En nóttina eftir gerðust reimleikar miklir hjá kaupmönnum á Bátsendum. Voru einkum mikil brögð að því í verzlunarhúsunum og var bæði lýsi og brennivíni spillt, skreið hent víðsvegar og leirkönnur brotnar úr búðarhillum. Voru svo mikil brögð að þessu að menn héldust eigi við í búðunum er rökkva tók.
VörðubrotÞóttust menn sjá að þar væri kominn Þórólfur formaður. Sótti hann að einum kaupmanna svo mikið að vaka varð yfir honum á nóttum; var oft slegið blautum sjóvettling í rúm hans og þótti þeim sem sáu formann hann skælbrosa um leið og hann gekk út.
Þá bjó í loddustofu maður sá, er Brandur hét. Var Lodda ein af hjáleigunum frá Stafnesi. Brandur þessi var risi mikill og hraustmenni, óþjáll og stirðlyndur en ótrauður til allra verka ef „betaling var í boði“. Höfðu þeir dönsku beyg af honum vegna afls hans og slapp hann því við ýmsa snúninga og kvaðir hjá þeim. Mann þennan fékk nú hinn áður nefndi kaupmaður til að vaka hjá sér.

Kirkjugatan

Kemur Brandur til kaupmanns um kvöldið; er honum vísað til rúms eins í svefnstofu kaupmanns, og skyldi hann halda vörð þaðan um nóttina. Háttar kaupmaður snemma og sofnar þegar. En er liðið er nokkuð fram yfir miðnætti heyrir Brandur frammi í bænum umferð og núningshljóð, eins og þá menn ganga snúðugast skinnklæddir; nálgast þetta svefnstofu kaupmanns; en jafnframt finnur Brandur, að úr sér dregur mátt allan og stenst það svo á að þegar lokið er upp hurðinni að svefnstofunni er Brandur orðinn svo aflvana að hann má sig hvergi hræra né gefa hljóð frá sér.

Stafnes

Loddubrunnur.

Birta var mjög dauf en þó sér hann að inn kemur Þórólfur formaður; er hann ófrýnn mjög og alskinnklæddur; heyrir Brandur gutla í brók hans og leka niður af honum bleytuna; jafnframt finnur Brandur lýsislykt og reykjarlykt, því að formaður hafði hengt skinnklæði sín í eldhús til verkunar en tekið þau niður daginn sem fara skyldi til Bessastaða. Sér Brandur að formaður hefur sjóvettling í hendi, rennblautan og heldur í totuna og gengur rakleitt að rúmi kaupmanns og slær hann rokna kjaftshögg með blautum laskanum. Hrökk þá kaupmaður upp með hljóðum miklum en svo var þá af Brandi dregið að hann gat enga björg sér veitt fyrr en kveikt hafði verið ljós og hann hafði jafnað sig.
Þaut hann þá heim til sín og fékkst eigi til að vera stundinni lengur, hvorki með loforðum né hótunum. Lifði ljós það sem eftir var nætur og var svefninn lítill hjá kaupmanni. Sótti formaður áfram að kaupmanni, þótt viðskipta þeirra sé eigi frekar getið.
Kvöld eitt kom að Bátsendum maður innan frá Kirkjubóli; var þá þénari einn sendur út í búðirnar að mæla honum brennivín. En er þangað kom heyrir hann hávaða mikinn; lýkur hann þá upp gluggahlera einum og sér þá að búðin er full af skinnklæddum mönnum og allt er þar á ferð og flugi en einn manninn sér hann handleika „hevert“ einn mikinn og sí og æ stinga honum ofan í eina ámuna og heyrði hann jafnframt kveðnar þessar hendingar:
Drekkjum og dýfum
þeim dönsku í djúp,
dáum ekki, drengir,
þeirra dyggðahjúp.
Fór maðurinn sem skjótast af glugganum og var ekki til brennivínsins tekið það kvöldið. Nokkru síðar kom dugga ein Kirkjugatanað Bátsendum; var þá verzlunarhúsunum lokað og Danir allir fóru á brott um veturinn.
En er fram á jólaföstuna leið sáu menn sem gengu til skipa á nóttu reyki mikla frá eldhúsi Stafnessbóndans og jafnframt tóku heimamenn þeir á Stafnesi er til róðra gengu á nóttu að heyra snark mikið er fram til eldhússins kom. Logaði þá eldur glatt í hlóðum og var þang vel að borið en ekkert var yfir eldinum né maður nokkur sjáanlegur. Gekk þetta nokkrar nætur og voru svo mikil brögð að eyðslunni að þangbirgðir allar virtust ætla að ganga til þurrðar. Lét bóndi þá vaka í bænum; bar þá eigi neitt til tíðinda í eldhúsinu, en í þangkofanum heyrðist skrjáf mikið, sem gengið væri eftir þangköstunum og nýju þangi væri hlaðið ofan á þá og troðið duglega innundir súðirnar, lamið saman reipahögldum og fleira.
Nokkru síðar bar svo til að kona ein af næsta bæ kom að Stafnesi; dvaldist henni lengi fram eftir kvöldinu og fór þaðan eigi fyrr en í vökulok. Þegar hún var komin út fyrir túngarðinn, sér hún mann einn koma móti sér, sem henni virtist teyma hest með böggum.
HvalsneskirkjaSnjór hafði verið í nokkra daga en nýlega hlánað, svo að krap var mikið á jörðu og skreipt í spori. Miðar manni þessum drjúgum í áttina til hennar og finnst henni það furðu sæta, hve lítið ganghljóð hún heyrir til þeirra félaga. Víkur hún því úr vegi fyrir þeim.
Sér hún þá, að maður þessi er skinnklæddur og þunglamalegur mjög í gangi, svo sem væri hann brókarfullur; slamsast hann áfram og heggur með höfðinu í hverju spori, en skepnu þá, er hann teymir, getur hún ekki greint, en henni sýnist hún vera múlbundin með reiptagli og á baki hennar er heljarstór reiðingur og reiðir maðurinn á honum tvo þá ferlegustu þangbagga, er konan hafði nokkurn tíma séð og marrar gríðar mikið í silunum. En um leið og maður þessi fer fram hjá henni, heyrir hún, að hann kveður vísu þessa með gömlu kvæðalagi:
Frá Refshalakoti eg reidda tel
reipafylli þanga,
brenni nú og braki vel
blöðkuklóin langa.
Endurtekur hann síðustu hendingarnar svo lengi sem konan heyrir til og sér hún það síðast til hans að hann hverfur heim að Stafnesi.
RekiNótt þessa var eigi vakað á Stafnesi, en er heimamenn reru, þá logaði eldur í hlóðum sem fyrr. Brá bóndi sé þá daginn eftir inn að Bæjarskerjum og var hann þar allan daginn. Morguninn eftir lét hann með birtu heimamenn sína binda hverja einustu þangkló, sem til var á Stafnesi og reiða heim til ekkjunnar í Refshalakoti; jafnframt lét hann ætíð á vökunni hita eldhússskörunginn og gera með honum hvítglóandi krossmark milli hlóðarsteinanna og mátti enginn ganga til eldhúss eftir það. Hurfu skjótt öll undur við þessar aðgerðir bónda; en talið var að hann hefði þar fylgt ráðum Bæjarskerjabóndans. En aldrei var goldinn þanghestur frá Refshalakoti eftir það.“

Magnús Þórarinsson lýsir Stafnesi og örnefnum þar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, í ritinu Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis.
Jón á StafnesiÁ góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár. Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.“
Gengið var eftir gömlu kirkjugötunni og m.a. kíkt á gömlu bæina. Þegar staðnæmstvar við Nýlendu vakti Jón athygli á heillegum hleðslum norðan við núverandi íbúðarhús og vestan við skemmu norðan þess. Þarna sagði Jón að sjá mættu leifar af gamla Nýlendubænum. Innan við vegginn hafi verið rými, ca. 2-3 metrar á breidd. Afi hans, Eiífur Ólafsson frá Ölfusi, og amma, Margrét Benediktsdóttir úr Rangárvallasýslu, eiginkona hans, hefðu haft þarna afdrep í gamla torfbænum, sem hafði þó bárujárnsþak. Þau fluttu frá Hólakotinu nær á stríðsárunum seinni, en síðan hefðu þau flutt til Reykjavíkur (1947). Jón mundi vel eftir bænum, sem þarna stóð; með gluggum mót vestri.
Gamla kirkjugatan lá rétt neðanvið bæinn. Hún hafði áður legið frá Básendum ofan við Glaumbæ Sólalagiðog síðan um um Glaumbæjarhliðið áleiðis yfir að Nýlendubrunni, neðan við garða bæjarins sem og Bala og Hólakots. Fast og ofan við Glaumbæjarhliðið hafi verið hænsnakofi, sem enn má sjá leifar af.
Hér að framan eru gjarnan tilgreindir brunnar bæjanna. Hafa ber í huga að brunnarnir – er geymdu „lifsins viðurværi“ – eru jafnan ein gleggsta staðfesting á til vist þeirra fyrrum.
Fast við Bala að suðvestanverðu var Litlibær. Þar er nú einungis gróinn hóll, óljós. Vestar er Balabrunnur.
Hólakotið yngra er norðan Bala. Vestan þess er Hólakotsbrunnur. Jón sagaði kirkjugötuna hafa legið til norðurs með vestanverðum görðunum. Norðan Bala hefur túngarðurinn verið sléttaður, en gatan lá með honum utanverðum.
Utar voru skoðaðar leifar af gamla Hólakoti, sem nú eru fast fram á sjávarbakkanum. Garður hefur legið upp frá því norðanverðu sem mætt hefur fyrrnefndum garði norðan hins nýrra Hólakots. Nýrra kotið hefur verið fært ofar í landið, enda sjórinn nú kominn að rótum þess gamla. Jón sagði að sjórinn hefði brotið mikið af landinu á hans lífstíð.
VitinnKomið var við í Ögmundargerði, sem var nyrsta kotbýlið í Stafneslandi mót Hvalsnesi. Tóftirnar eru óljósar, en þó með staðfestu minjagildi. Skammt utar er Hólakotsstekkur, af sumum nefndur Stafnesstekkur. Um er að ræða sandopinn hól, en í honum má þó sjá leifar af hleðslum stekksins, með op mót norðnorðvestri.
Jón sagði að þarna skammt frá, við enda girðingar mót kampinum, væri áletrunin LM. Sjórinn hefði hins vegar kast grótið yfir áletrunina svo nú væri u.þ.b. einn meter af grjóti niður á hana.
Þar sem kirkjugatan lá til norðurs á merkjum hverfanna var vörðubrot. Frá því var gatan sérstaklega augljós um holtið. Handan þess mátti sjá gatnamót. Með því að fylgja götunni áleiðis að Hvalsnesi mátti áætla legu hennar að kirkjustaðum. Hafa ber í huga að gamla kirkjan að Hvalsnesi stóð nánast í miðjum núverandi kirkjugarði. Hvalsneskirkja var hins vegar reist utan garðs.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Jón Ben Guðjónsson, bóndi að Stafnesi.
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Rauðskinna I, 26.
-Rauðskinna I, 62.
-Rauðskinna I, 64.
-Gráskinna I, 201.

Stafnes

Stafnes – kirkjugatan. ÓSÁ.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson fæddist 1864 á Elliðavatni, og var sonur Benedikts Sveinssonar sýslumanns og alþingismanns.

Börn á hestbaki

Einar gekk til mennta, varð stúdent úr Lærða skólanum í Reykjavík 1884, fór þá til Kaupmannahafnar til náms og lauk lögfræðinámi við Hafnarháskóla 1892. Hann var sýslumaður Rangæinga 1904-1906. En síðan gerðist hann umsvifamikill fésýslumaður og bjó erlendis til 1921. Hann var áfram langdvölum erlendis fram til 1932, þá settist hann að í Herdísarvík á Reykjanesi, þrotinn að kröftum, og dó þar 1940.
Árið 1897 voru í fyrsta sinn haldnar kappreiðar í Reykjavík, sem heimildir eru til um. Á þessum kappreiðum sigraði grár hestur sem Fálki hét og var frá Fljótsdal í Fljótshlíð, og var hann í eigu Einars Benediktssonar. Seinna sagði eiginkona hans frá því að Einar hafi ort ljóðið „Fákar“ til þessa hests, enda þótti Einari þessi hestur einna tilkomumestur af öllum gæðingum sem hann hafði átt.

Þetta er eitt magnaðasta kvæði um hesta sem ort hefur verið á íslensku, og um leið dæmigert fyrir kveðskap Einars, hljómmikið, langt og kröftugt. Hér birtist fyrsta og síðasta erindi kvæðisins.

Í morgunljómann er lagt af stað.
Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.
Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,
þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.
– Menn og hestar á hásumardegi
í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi
með nesti við bogann og bikar með.
Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

– Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er bezt.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

Heimild:
-www.sogusetur.is

Reiðmenn

Keflavík

Gangan hófst við Keflavíkurkirkju, haldið yfir að fyrrum Ungmennafélagshúsinu, gengið um Brunnstíginn, Vallargötu, Íshússtíginn og Hafnargötu að gamla Keflavíkurbænum.

Keflavík

Duushús.

Í gegnum aldirnar áttu Keflvíkingar kirkjusókn til Útslála og þarf ekki að hafa mörg orð um hversu óþægilegt það hefr verið fyrir þorpsbúa að fara um svo langan veg til að sækja kirkju. Eftir aðþorpið óx gerðist sú krafa háværari að hér þyrfti að gera bót á. Um 1886 hafði sóknarpresturinn haldi’ guðsþjónustur í einhverju pakkhúsinu í Keflavík, sérstaklega á stórhátíðum, en það þótti ekki fullnægjandi.
Árið 1888 gekk undirskrifalisti milli „húsfeðra“ í Kfelavíkurþorpi þar sem þeir voru hvattir til aðleggja á sig vinnu við kirkjubygingu. Fjörutíuogátta „húsráðendur“ lofuðu 212 dagsverkum til byggingarinnar. Upp frá því fór fram peningasöfnun með ýmsu móti.
Kikrjunni var valinn staður við Hafnargötu, á svonefndum Norðfjörðsreit, norðan Aðalgötu, við hlið Svarta Pakkhússins. Var byggingin formlega samþykkt í mái 1896 og hófts hún innan skamms. Fenginn var til verksins Guðmundur Jakobsson, sem kallaður var kirkjusmiður, og hafði smíðað kirkjur um allt land. Kirkjan var timburkirkja og byggð að mestu eftir sömu teikningu og Akransekikrja, sem Guðmundur hafði nýlokið við. Þett var reisuleg og svipmikil bygging sem breytti þorpsmyndinni umtalsvert, enda stóð hún á áberandi stað í þorpinu. Kirkjan var orðin fokheld árið 1898, en þá stöðvaðist vinna við hana vegna fjárskorts. Um það leyti fluttu Guðmundur kirkjusmiður og kona hans í burtu úr þorpinu.
Keflavík
Aðfaranótt 15. nóvember 1902 gerði aftakaveður víða um land, sem olli tjóni á húsm og öðrum mannvirkjum, þar á meðal kikrjunni í Keflavík. Hún skekktist svo að nauðsynlegt þótti að rífa hana. Efnið var selt á uppboði tila ð greiða niður skuldir. T.d. eru máttarviðir kirkjunnar í húsinu nr. 30 við Vallargötu. Gluggar úr kirkjunni voru m.a. notaðir í girðingar um túnbletti og matjurðtagarða Keflavíkinga. Þett voru járngluggar, bogadregnir, með lituðu gleri.
Þett var mikið áfal fyrir þorpið og ekki var hugsað fyrir kirkjubyggingu fyrst um sinn á eftir. Aftur sóttu Keflavíkingar kirkju að Útskálum, nema um helgar að haldnar voru guðsþjónustur í einu pakkhúsinu. Árið 1906 dró til tíðinda. Ólafur Á. Olavsen, annar eigandi verlsunar H.P.Duus steig á stokk og lýsti því yfir að hann myndi greiða helming gömlu skuldarinnar af fyrri kirkjubyggingu og auk þess greiða helminginn að kostnaði við fyrirhugaða byggingu kikjru í Keflavík. Rögnvaldur Ólafsson var fenginn til að teikna hana og yfirsmiður var Guðni Guðmundsson. Þann 14. febrúar 1915 var kirkjan vígð. Byggingarkostnaður var kr. 17.000. Söfnuðurinn greiddi kr. 7.000 og Ólafyr Á. Olavsen og Kristana Duus gáfu afganginn. Kirkjan er ekki ólík systurbyggingu sinni í Hafnarfirði, traustleg og látlaus. Hún tekur um 300 manns í sæti, jafn marga og allir Keflavíkingar voru þegar hún var byggð. Safnaðarheimilið var í gamla læknisbústaðnum, sem byggður var af Þorgrími Þórðarsyni, lækni, eftir teikningu Rögnvalds Ólafssonar, þeim hinum sama og teiknaði Keflavíkurkirkju.
Gengið var að fyrrum samkomuhúsi Ungmennafélags Keflavíkur, er nefndist Skjöldur. Þar er nú minnismerki um þann atburð, sem hér verður lýst.
KeflavíkHúsið brann 30. desember árið 1935. Um 180 börn voru í húsinu á jólatrésskemmtun og 4-5 fullorðnir. Sverrir Júlíusson, símstöðvarstjóri, var einn þeirra. Honum sagðist svo frá: „Sá ég allt í einu að eldur hafði kviknað í silkipappír, sem var undir jólatrénu, sennilega er að kerti hafi fallið niður á pappírinn. Þreif ég til pappírsins og ætlaði að reyna að slökkva eldinn. En áður en varði, hafði eldurinn læst sig upp í tréð og upp eftir limi þess. Þegar ég sá, að við ekkert var ráðið, ruddist ég að austtari hurðinni á norðurvegg salarins, því mannfjöldinn, sem streymdi að dyrum þeim, var að því kominn að loka hurðinni, en hún opnaðist inn í salinn. Tókst mér að opna furðina, svo aðég taldi tryggt að hún héldist opin. En þá ruddist ég að vestari dyrunum og hélt í þá hurð að innanverðu, meðan ég varð þess var, að fólk leitaði þeirra dyra. Þegar mér virtist fólk vera komið úr salnum, henti ég mér út um næsta glugga við dyrnar, í dauðans ofboði. En hvers vegna ég fór ekki sjálfur út um dyrnar veit ég ekki.“
Tveir menn, þeir Ólafur Ingvarsson og Ragnar J. Guðnason, áttu leið framhjá skemmtuninni og ákváðu að líta inn. Þar var þá mikil gleði og verið að syngja „Göngum við í kringum einibrejarunn“ þegar þeir sáu eldblossa upp með jólatrénu. Varð önnur hlið trésins skyndilega eitt eldhaf. Þei rhurfu undan, en fólkð streumdi út úr salnum. Áður en þeir komust út sáu þeir hvar hurðin var aðlokast undan troðningum að innanverðu. Þeir fleyðu sér af öllu afli áhurðina og héldu henni opinni. Ólafur sagðist hafa viðspyrnu við dyrastafinn, en þvingaði hendinni í hurðina. þannig tróðst fólkiðút úr salnum, undir höndina á honum. Hurðina gátu þeir aldrei opnað betur en svo að hún stæði beint út frá veggnum.
20-30 menn hlutu brunasár í eldsvoðanum, sumir brenndust mjög illa. 13 voru fluttir á sjúkrahús; 4 börn og ein kona brunnu inni. Nú eru liðin um 70 ár frá þessum atburði. Fram að þessu hefur hann að mestu legið í þagnargildi, en nú er orðið verðusgt að minnast hans, eins og hann var, enda skipti þessi atburður sköpum í brunavörnum svæðisins og jafnvel þótt lengra væri leitað.
KeflavíkLæknisbústaðurinn er norðan minningarreitsins um fyrrnefndan bruna. Hann er hús Þorgríms Þórðarsonar, læknis, er byggði það eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar, sem fyrr sagði. Húsið varð síðar safnaðarheimili kirkjunnar og þar var Sparisjóður Keflavíkur stofnaður. Nú býr í húsinu Kristleif nokkur, rithöfundur, ásamt fjölskyldu sinni. Hún skrifaði m.a. barnabókina „Didda og dauði kötturinn“. Kvikmynd var gerð eftir bókinni og komu nokkur húsí gömlu Keflavík þar við sögu.
Gengið var yfir að Brunnsstíg oghan fetaður til austurs. H.P.Duus lét bygga brunn þann, sem enn sést við stíginn. Gatan er nefnd eftir brunninum. Hlaðnir brunnar á Reykjanesskagangum eru yfirleitt frá og um 1900. Fyrir þann tíma sótti fólk vatn sitt í vatnsstæði, leysingarvatn eða á aðra staði, sem hugsanlega gátu gefið einhvern dropa. Lítið er um ár og læki á Reykjanesskaganum, nema helst neðanjarðar.
Brunnarnir voru hlaðnir til að auka hreinlæti og heilnæmi vatnsins. Ýmsir kvillar komu upp og var þá vatninu kennt um. Fyrsti hlaðni brunnurinn við Duusvörina, annar skammt austan við gamla barnaskólann og síðan var þessi brunnur hlaðinn. Duus lét gera brunninn, en íbúarnir ætlu að borga vatnsskatt upp í kostnaðinn og til viðhalds á brunninum. En öðruvísi fór sem horfði. Íbúar Keflavíkurþorpsins neituðu að borga vatnsskattinn. Árin 1947-1949 brunnarnir síðan af. vatnslagnir voru lagðar í öll hús árið 1945, eða fyrir um 60n árum síðan. Þegar grafið var fyrir vatnslögninni var jafnframt grafið fyrir holræsalögn, en fyri þann tíma voru illa lyktandi þrær fyrir framan hvern bæ.
Síminn var lagður til Keflavíkur, Leiru og Garðs árið 1908. Axel Möller bauð þá húsnæði sitt fram. Möllershús var reist árið 1896. Forberg, landssímastjóri, gekk ríkt eftir því að símstöðvarnar væru óháðar öðrum atvinnurekstri, svo sem verslun og póstafgreiðslu. Varð því fyrsta símstöðin í norðurenda Möllershúss og var byggð forstofa við norðurendann þar sem inngangur í símstöðina var.
KeflavíkMarta Valgerður var ráðin símstöðvarstjóri, síðar Sverrir Júlíusson og Jón Tómasson. Fyrsta símaskráin var ekki mikil bók því fyrstu símnotendurnir voru aðeins tveir; Edinborgarverslunin og verslun H.P. Duus. Allir aðrir þurftu að fara á símstöðina til að hringja.
Þorvarðarhús við Vallargötu 28 var reist árið 1884 af Þorvarrði Helgasyni, beyki, en síðar eignaðist Þorsteinn, sonur hans, húsið. Það er byggt úr trjáplönkum úr Jamestown. Þorvarðarhús er talið vera elsta íbúðarhúsið í Keflavík. Í dag búa enn afkomendur í húsinu, Ólafur og sonur hans, Þorvarður. Vinur Ólafs, Jón Jónsson, smíðaði fiðlu úr efniviði Jamestown, sem honum ákotnaðist úr Þorvarðarhúsi.
Það var 26. júní árið 1881 að eitt merkilegasta skipsstrand vrð hér á landi. Þá rak flutningaskipið Jamestown upp í fjörur við Þórshöfn í Ósum. Skipið var eitt alstærsta seglskip sinnar tíðar, yfir 20 m breitt og meira en 100 m langt. Til samanburðar má geta þess að knattspyrnuvellir eru yfirleitt 90-120 m langir.
Áhöfnin hafði yfirgefið skipið undan strönd Ameríku þremur árum fyrr og allar björgunartilraunir reynst árangurslaustar. Farmurinn reyndist vera prýðilegasta timbur, sem þótti hinn mesti happafengur og var fljótlega ráðist í umfangsmikla uppskipun við erfiðar aðstæður. Þegar skipið liðaðist loks í sundur í seinni hluta septembermánuðar, hafði tugum þúsunda planka verið bjargað á land.
Þesi ókjör af timbri urðu vitaskuld til að bæta mjög húsakost víða í Gullbringusýslu og í Reykjavík. Mestar voru framkvæmdirnar þó í Hafnahreppi, en þar voru reist 9 íbúðarhús auk fjárhúsa, fiskihjalla o.fl. úr timbrinu. Einnig féll til mikið magn af köðlum og vír úr skipinu og var það allt hirt til handargagns. Vírinn var nýttur í túngirðingar og voru það e.t.v. fyrstu vírgirðingar hér á landi.
KeflavíkSteingarðar þar við sem íshúsið var (nú malarplan) voru hlaðnir af Símoni Eiríkssyni, steinsmið, líkt og flesta steingarða í Keflavík í fyrri tíð. Bróðir Kristjönu Duus, Ágúst Olavssen, var stórhuga maður og ætlaði að hefja blómarækt og skógrækt innan gaðsins. Garðræktin gekk þó brösulega og það var helst að viðskiptamenn, sem komu til kaupmannsins í Keflavík, skildu hesta sína eftir innan garðsins við litla hrifningu eigandans, en hestarnir fengu þar væna tuggu.
Á áratugnum sitt hvoru megin við aldamótin 1900 fluttist margt fólk til keflavíkur. Það er athyglisvert að flestallir innflytjendurnir voru úr Árnes- Rangárvalla- eða Vestur-Skaftafellssýslu. Einn austanmanna var Ólafur Jónsson, póstur, Eyfellingur, kvæntur Karitas Jóhannsdóttur. Eignuðust þau 10 börn. Hann annaðist p+óstflutninga frá Keflavík suður með skaganum til Eyrarbakka og þaðan til Reykjavíkur. Fór hann það fótgangandi. Árið 1786 voru skipaðir fastir póstar, en þá fór pósturinn frá Bessastöðum um Hafnarfjörð, til Keflavíkur, Básenda, Grindavíkur, Eyrarbakka og um Árnessýslu að Móeiðarhvoli í Rangárvallasýslu og til baka aftur. Um 1872 voru 15 afgreiðslustöðvar á svæðinu.
Magnús Zakaríasson, bókhaldari við Duus verslun, lét smíða gamla skólahúsið, sem síðar var og stendur enn gegnt íshúsinu. Þótti það á þeim tíma stórt og glæsilegt hús. Bjó Magnús þar ásamt konu sinni, Kristínu Eiríksdóttur. þegar Magnús dó seldi Kristín hreppnum húsið og var þar settur á stofn barnaskóli. Skólinn var fyrst settur árið 1897 og var kennt í stofunum á neðri hæðinni, en Kristín bjó á efri hæðinni. Eftir það fékk húsið nafnið Skólinn. Síðan hefur margt yfir þetta hús gengið. var þá stundum á sumrin notað sem sjúkarskýli og jafnvel fyrir sóttvarnahús þegar á þurfti að halda. Síðar varð skólinn reistur þar sem nú er Miðstöð símenntunar Suðurnesja.
Neðan Íshússtígs er listaverk eftir Ásmund Sveinsson, minnismerki um íslenska sjómenn.
KeflavíkÁ suðurvegg Mið-Pakkhússsins er málverk eftir Hermann Árnason; Fiskverkun. Áður voru veðurfréttir og upplýsingar hengdar upp á gafl hússins. Pakkhúsin minna á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina, auk stakkstæða til salfiskþurrkunar. Leifar af síðsutu bryggjunni af þremur sjást beint niðurundan Íshússtígnum. Sú bryggja heitir Miðbryggja, en hét um tíma Fischerbryggja. Duusbryggja var norðar og Norfjörðsbryggjan sunnar.
Um 1877 varð Waldimar Fischer eigandi Miðverslunar í Keflavík. hann hafði áður verið kaupmaður í Reykjavík. Þar er gata kennd við hann, Fischersund, sem áður gekk undir nafninu Götuhúsastígur. Miðverslun breytti um nafn og varð Fischerverslun. Waldimar var stórhuga maður. Árið 1881 lét hann flytja húsgrind til landsins, sem sett var upp þar sem nú er Hafnargata 2. Þessi bygging var nokkuð sérstök því hún var tilsniðin í Danmörku og hver spýta tölusett svo ekki yrði ruglingur við samsetningu hússins. Þegar húsið var reist, var ekki einn einasti langli notaður í grindina, því hún var öll geirnegld. Húsið var tvílofta með nokkuð háu risi og kjalli undir því öllu. Á efri hæðinni var íbúð verslunarstjóra og á fyrstu hæð var verslun og skrifstofa og í kjallara voru vörugeymslur.
Árið 1900 keypti Duusverslunin húsið og flutti starfsemi sína þangað. Verslun Duus var seld árið 1920. Eftir það urðu mörg eigandaskipti á húsinu, en árið 1930 keypti Útgerðarfélag Keflavíkur húsið og loks eignaðist bæjarsjóður Keflavíkur það.
Tóftir gamla Keflavíkurbæjarins er á hó norðan Gömlubúðar. Fyrsta vitneskja um byggð þar er að finna í annálum. Þar segir frá Grími Bergssyni, sem varð bráðkvaddur þar árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík.
Duushúsalengjan geymir Bryggjuhúsið syðst. Það var reist árið 1877. Bíósalurinn er fast við það að norðanverðu. Sagnir eru uma ð í honum hafi verið bíósýningar þegar um aldamótin 1900, en húsið var reist 1890. Þá taka við þrjár einingar fiskverkunarhúsa, reist af Guðmundi Kristjánssyni um og eftir 1930. Með tilkomu þeirra hljóp nýr kraftur í útgerðina í Keflavík. Hann lét m.a. stækka Miðbryggjuna og gera hana ökufæra vörubílum, en áður hafði hún einungis verið vagnfær.
Þjóðleiðirnar frá Keflavík til nágrannabæjanna lágu upp úr Grófinni. Sjást þær enn.Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla keflavíkurbæjarins.

Húshólmi

Nú nýverið lauk Landgræðsla ríkisins verkefni sem miðar að því að loka slóðum í fjallendi Grindavíkur, Hrauns og Ísólfsskála. Settar voru lokanir við allar helstu leiðir þar sem torfærutæki hafa verið að fara inn á viðkvæm svæði og valdið þar skaða á gróðri. Fyrst og fremst eru þessar lokanir í Reykjanesfólkvangi sem er að mestu í landi Grindavíkur, en einnig í landi Ísólfsskála og Hrauns. Í vettvangsferð kom í ljós að fólk hefur að mestu virt þessar lokanir og virðist hafa skilning á málinu. Með þessu verkefni vill Landgræðslan tryggja að gróðurverndar átak sem þegar er hafið og mun halda áfram á næstu árum skili árangri. Vonandi verður í framhaldi hægt að hafa þessar leiðir opnar yfir sumartímann og komi til lokunar haust vetur og vor. Lykklar eru á hliðum á hverri lokun og hafa hagsmunaðilar þegar fengið lykkla. Með þessum aðgerðum ætti störf löggæslu á svæðinu að verða mun auðveldara í framtíðinni sem og starf landvarðar í fólkvanginum.
Þess má geta að Landgræðslan hefur unnið með FERLIR að uppgræðslu í Húshólma með góðum árangri. Sáð var í hólmann s.l. sumar og aftur í sumar (2006). Svo virðist sem tekist hafi að hefta gróðureyðinguna og auka þannig líkur á varðveislu hinna ómetnalegu minja, sem þar er að finna.

Heimild:
-www.grindavik.is

Húshólmi

Ljósker

Fyrsta ljóskerið í Reykjavík var tendrað þann 2. september 1876.
Bæjarstjórnin hafði keypt sjö ljósker og var því fyrsta valinn staður hjá Lækjarbrúnni við Bankastræti. Kveikt var á því þennan dag Bakarabrekkanog þá um haustið var hinum ljóskerunum komið fyrir á þeim stöðum þar sem mest þótti þörf fyrir þau. Bankastræti (sem hét eitt sinn Bakarabrekka) er stræti sem liggur frá Laugaveginum og Skólavörðustíg og á gatnamót við Lækjartorg.
Landsbankinn var fyrst opnaður þar árið 1. júlí 1886 og þann 2. september 1876 var kveikt var á götuljósi í Reykjavík í fyrsta sinn hjá Lækjarbrúnni við Bankastræti, og var það steinolíulugt.
Núllið, elsta almenningssalernið í Reykjavík sem enn er í notkun, er svo kallað vegna staðsetningar sinnar neðst í Bankastrætinu, neðan við fyrstu númeruðu lóðirnar.
LækurinnMenningarnótt var endursköpuð þann 12. október 2003 í Reykjavík þar sem Skólavörðustígur mætir Laugavegi og Bankastræti til að geta tekið upp atriði fyrir myndina Dís.
Fyrir endanum á Austurstræti var byggð fyrsta brúin yfir Lækinn árið 1828 og hafði sú framkvæmd mikil áhrif á framtíðargatnakerfi Reykjavíkur. Með tilkomu brúarinnar urðu Bankastræti/Laugavegur og Austurstræti með mikilvægustu götum bæjarins Lækjargata dregur nafn sitt af Læknum sem rann úr Tjörninni til norðurs í sjó fram. Samþykkt var á borgarafundi árið 1839 að ljúka við veg til suðurs frá Austurstræti að Skálholtsbrú, sem var yfir lækinn á móts við þann stað þar sem Bókhlöðustígur er nú.
LækjargataÁrið 1848 er þeim vegarspotta, sem þá er kominn, gefið nafnið Lækjargata. Læknum var lokað árið 1911 og hurfu þá þær brýr sem áður höfðu prýtt götuna. Þessari götu hefur einna mest verið breytt í Reykjavík en húsakostur hefur þó haldist þar betur en víðast hvar annars staðar.
Lækjargata dregur nafn sitt af Læknum sem rann úr Tjörninni til norðurs í sjó fram. Rosenören stiftamtmaður gaf henni nafnið. Samþykkt var á borgarafundi árið 1839 að ljúka við veg til suðurs frá Austurstræti að Skálholtsbrú, sem var yfir lækinn á móts við þann stað þar sem Bókhlöðustígur er nú. Árið 1848 er þeim vegarspotta, sem þá er kominn, gefið nafnið Lækjargata. Læknum var lokað árið 1913 og hurfu þá þær brýr sem áður höfðu prýtt götuna. Þessari götu hefur einna mest verið breytt af öllum í Reykjavík.
BrúinLækurinn hefur frá fornu fari verið afrennsli Tjarnarinnar en talið er að Víkurbændur hafi jafnvel dregið skip sín upp eftir læknum og notað Tjörnina sem skipalægi um vetur.
„Lækurinn kemur úr Tjörninni, en vatnið síast í hann úr vatnsmýrinni, og rennur hann (eða fremur “liggur”, því enginn straumur er í honum) út í sjó fyrir neðan Arnarhóls-kletta. Lækjarbakkarnir hafa fyrrum verið hlaðnir upp með grjóti, en nú er það alt mjög fallið og ljótt útlits, þar sem ekkert hefur verið um það hirt, þótt altaf sé verið að tala um að “prýða bæinn” og stórfé fleygt út í ýmislegt annað; einungis fyrir framan landshöfðingja-hússblettinn er lækjarbakkinn bæjarmegin hlaðinn upp með tegldu grjóti, hefur kannske þótt skömm að, að láta hið sama vera ávalt fyrir augum landshöfðingjans, sem aðrir verða að þola.
Brúarstæðið 2003Áður voru grindur fram með læknum bæjarmegin, en nú eru þær horfnar fyrir löngu, líklega til þess að auka frelsið, svo að hver geti drepið sig sem vill, eða eigi hægra með það.“
„Með götuskipaninni, sem gerð var 1848, var svo ákveðið að gata skyldi koma suður með læknum og heita Lækjargata. Næstu tvö árin var svo unnið að því í skylduvinnu að þrengja lækinn suður frá Bakarabrunni, hlaða vesturbakkann úr grjóti og hækka hann talsvert, til þess að síður væri hætta á að lækurinn flæddi þar yfir og inn á Austurvöll.“
„En ekkert skáld hefur þó kveðið um lækinn í höfuðborginni. Hann var þess víst eigi verður, því að þetta var ekki almennilegur lækur. Hann kom ekki tær og hvítfyssandi niður brekku. Hann var gruggugur og seinlátur, og hafði þann leiða sið að renna sitt á hvað. Með hverju flóði snerist straumurinn við og þá var hann saltur og bar með sér þang og þaradræsur, er síðan úldnuðu í farveginum, þar sem þær festust, og þaðan lagði illan daun, en enga blómaangan. …

Brúarstæðið 2009

Þessi lækur var ekki neinum að gagni. Engum veitti hann svölun í þessari vatnssnauðu borg, því að vatnið í honum var ódrekkandi. … Hann gerði mikið ógagn. Hann átti það til að stíflast og hlaupa yfir allan Austurvöll, svo að þar varð eins og hafsjór. Og þetta kom sér illa, þegar mennirnir voru farnir að byggja hús sín á Austurvelli. Þá kom vatnið inn í þau, valdandi skemmdum og tortímingu, en ekki varð komizt þverfóta nema í klofháum skinnsokkum. Mennirnir áttu því í sífelldu stríði við lækinn, og það kostaði peninga, og því varð hann öllum hvimleiður.“
Ljósið við Lækjarbrúna mun hafa verið nokkurn veginn á miðjum núverandi gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis. Ekkert er á vettvangi er gefur staðsetningu eða sögu þess til kynna.

Heimildir:
Árni Óla: „Nafngiftir gatna í Reykjavík“. Skuggsjá Reykjavíkur. Sögukaflar. Reykjavík 1961, bls. 328-344.
Árni Óla: Reykjavík fyrri tíma. Sögukaflar. Annað og þriðja bindi. Reykjavík 1985 og 1986.
Benedikt Gröndal: Reykjavík um aldamótin 1900. Kaupmannahöfn 1900.
Bæjarstjórn í mótun 1836-1972. Reykjavík 1971.
Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870–1940. Fyrri hluti. Reykjavík 1991.
Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson: Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur. Reykjavík 1987.
Knud Zimsens: Úr bæ í borg. Reykjavík 1952.
Páll Líndal: Reykjavík. Sögustaður við Sund. Saga og sérkenni höfuðborgarinnar í máli og myndum, 1.-3. bindi. Reykjavík 1988.
Tjörnin Saga og lífríki. Ólafur Karl Nielsen ritstjóri. Reykjavík 1992.

Reykjavík

Reykjavík 1836 – Gaimard.