Vatnsleysuströnd

Eftirfarandi er byggt á svæðaskráningarskýrslu Sædísar Gunnarsdóttur um „Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi“ fyrir Fornleifastofnun Íslands -2006. Í þessari skráningu koma fram bæði áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar um upphaf, þróun og sögu byggðar í Vatnsleysustrandarhreppi.

Vogar

Vogar 1921.

Þegar leitað er eftir ummerkjum um byggð Í Vatnsleysustrandarsvæðinu er eðlilegast að byrja á því að leita að líklegum vísbendingum um upphaf landnáms eins og sagt er frá því í Landnámabók. „Á grunni þess er síðan hægt að huga að staðsetningu kumla og kirkna með það fyrir augum að setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrst. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um byggð fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin hafa verið reist skömmu eftir kristnitöku. Nærtækasta skýringin á miklum fjölda guðshúsa á Íslandi á miðöldum er sú að þau hafi upphaflega verið byggð í heimagrafreitum, sem voru líklega við hvern bæ eins og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkju sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið komin í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur og bænhús hafa verið, eru að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfðu slík hús og er því oft freistandi að álykta að minniháttar jarðir þar sem ekki hafa verið bænhús séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Ritaðar heimildir eru helstar Landnámabók, fornsögur og fornbréf.

SkjaldarkotLand Vatnsleysustrandarhrepps er 15 km á lengd og 10 km á breidd. Landið er samfellt hraun frá fjöru til fjalla. Byggðin er á mjórri ræmu meðfram sjónum en bæjunum fylgja hvorki kúahagar né slægjur og var ræktun landsins oft erfið. Rennandi vatn er ekki í hreppnum því rigningarvatn safnaðist allt ofan í hraunið. Vatnsskortur er hinsvegar ekki í hreppnum enda notuðu sveitungar brunna til að nálgast neysluvatn og eru fjölmargir brunnar á skráningarsvæðinu, miklu fleiri en gerist í öðrum sveitum. Af ströndinni er stutt á fengsæl fiskimið, og var oft fjölmennt á vertíð enda streymdi að fólk allstaðar af landinu. Hlunnindi hafa verið talsverð á svæðinu, má þar nefna hrognkelsi, sölvafjöru og skelfiskfjöru en skelfiskur var aðallega nýttur í beitu.

Vogar

Vogar 1921.

Landnám skiptir miklu máli er byggðasaga er rannsökuð því þeir sem komu fyrstir gátu tekið bestu löndin, höfðu mestra hagmuna að gæta og mótuðu oft þá byggð er fylgdi í kjölfarið. Ætla má að bæir hafi byggst snemma þar sem fóru saman góð skilyrði til búfjárræktar og fjölbreytileg hlunnindi, svo sem fjörubeit, sumarbeitiland, vetrarbeit, reki, æðarvarp eða selveiði eftir því hvað við á. Hreppurinn er allur innan landnáms Ingólfs Arnarsonar en Landnáma getur einnig um aðra landnámsmenn á svæðinu sem komu síðar. Frænka Ingólfs Arnarssonar, Steinunn hin gamla, kom til Íslands til frænda síns. Hann bauð henni Rosmhvalanes utan Hvassahrauns. Hún gaf Eyvindi frænda sínum hluta úr landnámi sínu sem samsvarar núverandi mörkum Vatnsleysustrandarhrepps. Ekki er þess getið hvar Eyvindur bjó, enda dvaldi hann stutt í landnámi sínu. Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit ásældist land Eyvindar og höfðu þeir jarðaskipti og bjó Hrollleifur í Kvíguvogum.

AuðnarEkki gefur þetta okkur miklar upplýsingar um byggðaþróun á Vatnsleysuströnd aðra en þá að snemma hefur jörðin Kvíguvogar (Stóru-Vogar) komist í byggð. Engin kuml hafa fundist í hreppnum þannig að fátt er vitað um þróun byggðar í hreppnum á allra fyrstu árunum eftir landnám. Telja má líklegt að jarðir, þar sem guðshús voru, hafi byggst á 11. öld. Allar jarðir á Vatnsleysuströnd tilheyrði Kálfatjarnarsókn og er kirkjunnar þar fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200. Sagnir eru um að kirkjan hafi fyrst staðið á Bakka en vegna landbrots hafi hún flust að Kálfatjörn en engar sannanir eru fyrir þeim sögum. Ekki hafa varðveist heimildir um bænhús í sókninni á miðöldum en í túni Brunnastaða er Bænhúshóll og er mjög líklegt að þar hafi verði bænhús. Tvær útkirkjur voru í hreppnum á miðöldum. Annars vegar í Stóru Vogum en kirkju þar er fyrst getið á seinni hluta 14. aldar. Hinsvegar á Vatnsleysu en kirkju þar er fyrst getið um 1269.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Miðað við frásagnir Landnámu og heimildir um kirkjur á svæðinu er í raun fátt vitað um fyrstu byggð í hreppnum annað en að Stóru Vogar, Kálfatjörn og Vatnsleysa byggðust snemma. Því þarf að skoða fleiri heimildir en engra jarða í hreppnum er getið í Íslendingasögum og aðeins er getið um eina jörð í Sturlungu og það eru Stóru Vogar.
Elstu fornbréfin eru frá 13. öld og má oft fá nokkra hugmynd um byggðaskipan út frá þeim. Nær allra jarða, þar sem ekki var kirkja eða bænhús, er getið í fornum skjölum, máldögum kirkna og sölu-, testamentis eða vitnisburðarbréfum. Munar þá helst um það að Viðeyjarklaustur átti meirihluta jarða á Vatnsleysuströnd. Klaustrið var stofnað 1225-6 af Þorvaldi Gissurarsyni í Hruna og skömmu síðar er getið um að Magnús biskup, bróðir Þorvaldar, gaf því viðreka í Hvassahraunslandi. Smám saman náði klaustrið undir sig öllum jörðum í hreppnum fyrir utan Kálfatjörn, Flekkuvík og Brekku sem voru eign kirkjunnar á Kálfatjörn.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Jarðarinnar Brunnastaða er fyrst getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs frá árinu 1395. 1447 fékk Viðeyjarklaustur jarðirnar Voga, Hlöðunes, báða Ásláksstaði, bæði Knarrarnesin og Breiðagerði. Vatnsleysu minni er fyrst getið í fógetareikningum frá því um 1547-8.

Minni-Vogar

Minni-Vogar.

Þær klausturjarðir sem síðast er getið um eru nefndar í landskuldarreikningum frá árinu 1584 í bréfabókum Klaustursins. Það eru Minni Vogar, Auðnir, Landakot og Þórustaðir sem eflaust hafa byggst mikið fyrr þó þær séu ekki nefndar í heimildum. Af jarðeignum sínum á svæðinu hafði klaustrið gagn af reka og miðunum undan landi og einnig hafði klaustrið dágóðar tekjur af leigugjöldum af jarðeignum sínum og leigufé.
Þá má draga ályktanir af dýrleika jarða. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna í öndverðu. Sennilegt verður að telja að dýrustu jarðirnar séu á þeim stöðum sem bestir voru til búsetu og því líklegir til að hafa byggst fyrst. Því miður er ekki getið um dýrleika jarðanna 1703 en miðað við eldri heimildir sem til eru um dýrleika jarða sem og dýrleika þeirra árið 1847 má sjá að dýrustu jarðirnar í hreppnum voru Stóru Vogar, Brunnastaðir, Knarrarnes stærra, Auðnar, Kálfatjörn, Vatnsleysa stærri og Hvassahraun en þær voru allar metnar á 25 hundruð eða meira.

Móakot

Móakot.

Bæjanöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Aðeins tvær jarðir uppfylla þessi skilyrði; Auðnar og Bakki og er hvorug meðal stærstu jarða í hreppnum sé annarra vísbendinga um að hafa byggst snemma. Stærri Vogar gætu hafa verið nefndir Vogar fyrst en elsta nafn sem vitað er um á þeirri jörð er Kvíguvogar og telja menn það elsta nafnið. Algengustu liðir í bæjanöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes, vík, hóll, á og eyri og flest þeirra ósamsett.  Nokkrir liðir eru enn fátíðari, það eru t.d. fors (foss) og múli. Flest bæjanöfn í hreppnum eru samsett; Hvassahraun, Knarrarnes, Hlöðunes, Flekkuvík, Vatnsleysa, Breiðagerði og Kálfatjörn, (Galmanstjörn talin eldri mynd af nafninu). Bæjanöfn sem enda á -staðir eru yfirleitt talin tilheyra seinni stigum landnáms. Þrjú lögbýli með -staða endingu eru í hreppnum; Ásláksstaðir, Brunnastaðir, og Þórustaðir. Langflest lögbýli hreppsins hafa áttúrunafnaendingar sem er mun algengara í Landnámu.

Halldórsstaðir

Allra stærri býla á skráningarsvæðinu er getið á miðöldum enda ásældist Viðeyjarklaustur jarðir svo nálægt fengsælum fiskimiðum. Þrátt fyrir hraun og engjaleysi voru jarðirnar á Vatnsleysuströndinni eftirsóttar til búsetu og hafa líklega byggst snemma. Þó heimildir geti ekki um jarðir fyrr en á 13. öld, segir það lítið um hvenær þær voru fyrst byggðar og má ætla að flest lögbýlin hafi verið komin í byggð á 11. öld, í síðasta lagi.
Fyrir utan bæjarhóla á býlum sem verið hafa í byggð fram á 20. öld eru á flestum stöðum á landinu margir staðir þar sem byggð hefur annaðhvort varað í stuttan tíma eða þar sem hjáleigur eða afbýli hafa lagst í eyði fyrir 1847. Margar þeirra eru innan Stóru-Voga enda byrjaði vísir að þéttbýli þar undir lok 19. aldar.

Nafn á býli: Í byggð:
Snorrastaðir – fyrir 1703
Nýibær – eftir 1872
Hábær – ekki vitað
Stapabúð – fyrir 1899
Brekka – ekki vitað
Hólmsbúð – um 1850-1910
Steinsholt – 1874-1879
Bræðrapartur- ekki vitað
[nafnlaust] – ekki vitað
Halakot – fyrir 1700
Klöpp – e 1900
Gata – byggð fyrir 1703
Syðsta hjáleiga- byggð fyrir 1703
Garðhús – fyrir 1900
Valgarðshjáleiga fyrir 1703
Móakot – fyrir 1703
Eyrarkot – ekki vitað
Hof – ekki vitað
Tjarnarkot – fyrir 1703, eftir 1880
Mýrarhús – 1885-?
Mörk – ekki vitað
Hólkot – ekki vitað
Grænaborg- 1881-?
Austurkot – ekki vitað
Renslutóft – fyrir 1703
Helgabær – ekki vitað
Eyrarkot – fyrir 1703
Hólshjáleiga- fyrir 1703
Norðurkot – ekki vitað
Grund – fyrir 1925
Vorhúsabæir- fyrir 1925
Hausthús – fyrir 1925
Hvammur – fyrir 1925
Brunnastaðakot fyrir 1703
Stöðlakot – fyrir 1703
Tangabúð – fyrir 1703
Vesturhús – fyrir 1703
Miðgarður – fyrir lok 19. aldar
Töðugerðisbæir um 1900
Kothús – fyrir 1900
Fögruvellir – til um 1920
Gerði – fyrir 1905
Tjörn – til 1918
Halldórsstaðir- fram yfir 1900
Miðhús – ekki vitað
Bjarghóll – fyrir 1900
Nýlenda – fyrir 1900
Holt – um 1900
Gerði – ekki vitað
Atlagerði – ekki vitað
Klöpp – fyrir 1900
Miðbær – ekki vitað
Garðhús – 1917-1940
Móakot – um 1900
Hallandi – 1917-1970
Sjónarhóll – frá 1886
Rás – ekki vitað
Fagurhóll – um 1900
Gerðar – ekki vitað
Grandabærinn – ekki vitað
Atlagerði – um 1703
Nýibær – um 1919
Helgahús – fyrir 1700
Hellur – fram á 20. öld
Vík – fyrir 1900
Breiðagerði- um 1900
[Nafnlaus] – ekki vitað
[Nafnlaus] – ekki vitað
Auðnar – frá 1883
Höfði – 1850-1971
Lönd – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Hólmsteinshús- fyrir 1703
Hóll – ekki vitað
Gata – fram yfir 1900
Lönd – ekki vitað
Hellukot – um 1880
Suðurhjáleiga- fyrir 1703
Tíðagerði – til 1920
Harðangur – 1885-1900
Hlið – til 1923
Goðhóll – til 1933
Litlibær – frá um 1884
Hólakot – fyrir 1703
Árnahús – fyrir 1703
Borgarkot – 19. öld
Bakkakrókur- í eyði 1660
Bjarg – 1850- 1934
Tröð – ekki vitað
Vatnagarður- ekki vitað
Holt – ekki vitað
Járnhaus – ekki vitað
Sigurðarhjáleiga- ekki vitað
Blíðheimur – í byggð 1703
Péturskot – í byggð 1703
Refshali – til 1922-23.
Úlfshjáleiga- fyrir 1703
Búð – fyrir 1703
[Nafnlaus] – fyrir 1703
Grund – ekki vitað
Miðengi – fyrir 1916
Akurgerði – fyrir 1703
Naustakot – til 1930-31
Nýibær – fram yfir 1900
Móabær – fram yfir 1900
Sigurjónsbær- ekki vitað
Jónasarbær- ekki vitað
Kofinn – ekki vitað
Garðbær – um 1919
Krókur – ekki vitað
Skálinn – til 1901
Garðhús – um 1920
[Nafnlaus] – ekki vitað
Vatnsleysukot um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Norðurkot – ekki vitað
Niðurkot – ekki vitað
Þorvaldskot- ekki vitað
Látur – ekki vitað
Suðurkot – ekki vitað
[Nafnlaus] – um 1703
[Nafnlaus] – um 1703
Þóroddskot- um 1703
Saunghóll – um 1830

Stóra-Vatnsleysa.

Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.

Þessi listi gefur nokkuð skýra mynd af hjáleigubyggð á svæðinu sem greinilega hefur verð mun þéttari en víða annar staðar á landinu. Af 130 býlum sem nefnd eru hér eru 36 býli komin í byggð fyrir 1703 er jarðabókin var samin og mörg þeirra voru þá komin í eyði og fæst þeirra byggðust upp aftur.
Sjónarhóll.
Á 17. öld varð mikil byggðaaukning á Íslandi, fjöldi hjáleiga og smákota byggðist upp um allt land, sum í skamman tíma en önnur hafa haldist í byggð fram á þennan dag. Mörg þessara 36 býla voru aðeins í byggð í stuttan tíma. Ekkert er vitað um það hvenær 40 býli af listanum voru í byggð. Víða um landið varð einnig nokkur sprengja í hjáleigubyggð á seinnihluta 19. aldar og má sjá það glögglega á Vatnsleysuströndinni. Að minnsta kosti yfir 50 býli af listanum byggðust eftir 1850 og voru í byggð rétt fram yfir aldamótin 1900. Reyndar má segja að hjáleigubyggð hafi alltaf verið nokkuð mikil enda girnilegt að komast að við ströndina svo nálægt gjöfulum fiskimiðum. Ítarlega sögu býlanna í Vatnsleysustrandarhreppi er að finna í bók Guðmundar B. Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.
Eins og sést af þessum hugleiðingum má leggja á ýmsan hátt út af tiltækum heimildum um upphaf byggðar á skráningarsvæðinu en er þó fátt fast í hendi.“

Heimildir aðrar:
-Ágúst Ó Georgsson: Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar, Reykjavík 1993.
-Árni Óla: Strönd og vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar Reykjavík 1961.
-Björn Bjarnason: “Kjósarsýsla” Landnám Ingólfs II, 1937, 90-109.
-Brynjúlfur Jónsson: “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902” Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1903, 31-52.
-Bsk: Biskupa sögur gefnar út af hinu íslenzka bókmenntafélagi I II, Kaupmannahöfn 1858 1878.
-Íslenzkt fornbréfasafn I-XVI, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972.
-Elín Ósk Hreiðarsdóttir: Fornleifakönnun. Reykjanesbraut. Fornleifastofnun Íslands FS133-00141 Reykjavík 2001
-Eggert Ólafsson: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferð þeirra á Íslandi árin 1752-1757, Reykjavík 1974.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 I-II, Reykjavík 1983.
-Guðmundur Björgvin Jónsson: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi [án staðsetningar] 1987.
-Hannes Þorsteinsson: “Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjarnöfnum á Íslandi” Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1923, 1-96.
-Islandske Annaler indtil 1578, Kristjania 1888.
-ÍF I: Íslenzk fornrit I. Íslendingabók & Landnáma, Reykjavik 1986.
-Jarðabréf: Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir.
-Árni Magnússon & Páll Vídalín: Jarðabók. Gullbringu og Kjósarsýsla III. Reykjavík, 1982.
-Johnsen, J: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847.
-Jón Oddur Hjaltalín: “Lýsing Kjósarsýslu 1746” Landnám Ingólfs III, 1937-1939, 25-34.
-Kålund, Kristian: Íslenzkir sögustaðir. Sunnlendingafjórðungur I, Reykjavík 1986.
-Lovsamling for Island : indeholdende Udvalg af de vigtigste ældre og nyere Love og Anordninger, Resolutioner III, Kaupmannahöfn 1853-1889.
-Sveinn Níelsson: Prestatal og prófasta, 2. útg., Reykjavík 1950.
-Ragnar Guðleifsson: “Örnefni á Hólmsbergi” Faxi. 27. árg, 8. tbl 1967, 126.
-Sesselja G. Guðmundsdóttir: Örnefni og gönguleiðir í Vatnleysustrandarhreppi [1995].
-Skúli Magnússon: “Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu” Landnám Ingólfs I, 1935-1936, 1-96.
-Sigurður Sigurðsson: “Lýsing Reynivallasóknar 1840” Landnám Ingólfs 3, 1937-1939, 241-258.
-Sturlunga saga I-II, Reykjavík 1946.
-Svavar Sigmundsson: “Íslensk örnefni” Frændafundur 2 Þórshöfn 1997, 11-21.
-Túnakort. Þjóðskjalasafn Íslands. Jarðadeild XIV. Uppdrættir af túnum 1917. Kjósarhreppur.
-Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson 1978.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók, skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882-1898 I Kaupmannahöfn 1913-1915.

Á Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.

Hunangshella

Eftirfarandi frásögn Ólafs Ketilssonar, Kirkjuvogi í Höfnum, frá árinu 1886 um komu hans í Kirkjuvogssel birtist í Rauðskinnu hinni nýrri árið 1971:

Kirkjuvogskirkja-201

„Frá því á yngri árum og fram yfir fimmtugsaldur fékkst eg oft við refadráp, einkum þó á haustum. Fór eg oft langt upp til heiða, þá er gott var veður, og leitaði tæfu uppi í greni sínu. Það er vandi tófunnar, að liggja inni í greninu á daginn, en fara á kreik milli sólarlags og dagseturs. Var legan því aldrei löng við grenið og liðu stundum ekki nema fáar mínútur frá því að umsátin byrjaði og þar til tófan kom út. Hins vegar voru fjörulegurnar þrautaverk, sem reyndi á þorifin; þá varð oft að liggja 4-6 klukkutíma í kólgugaddi, og mátti aldrei hreyfa sig hið minnsta, því að tófan hefir, eins og kunnugt er, afar skarpa heyrn og verður tortryggin við hvert hljóð, sem hún heyrir og kannast ekki við, eða á ekki von á.
Kirkjuvogssel-201Í desember 1886 fór eg einn dag upp til heiða á refaveiðar. Veður var tvísýnt, er eg lagði af stað, norðaustan stormur og þykkt loft. Þá er eg kom upp að svo nefndum Klofningum, sem er um það bil 1 1/2 tíma gangur frá Kirkjuvogi, hitti eg þar á greni, og  var tófa inni. Eg mjó mér þegar til skýli og lagðist fyrir. En um sama leyti gekk vindur til suðausturs með rokstormi, og  var þá orðið kafþykkt loft, svo að óðum dimmdi, því að ekki sást til tungls. Þá er eg hafði legið um þriðjung stundar var komin krapaslydda og myrkur. Stóð eg því upp og bjóst til heimferðar, og stefndi beint niður í Ósabotna, á svo nefnda Hunangshellu, en þaðan er góður hálftíma gangur með sjónum heim að Kirkjuvogi.
Kirkjuvogssel-202Þá er eg var búinn að ganga nokkurar mínútur, slitnaði skóþvengur minn; en þar eð komið var slagveður, tók eg skóinn í höndina, því að eg bjóst við að vera kominn alveg að svo nefndu Kirkjuvogsseli, en þar eru gamlar seltóftir; ætlaði eg að laga þar þveng minn í skjólinu. Eg kom og þangað eftir nokkurar mínútur. Eg fór inn í eina tóftina, þar sem skýli var sæmilegt, og fór að basla við að laga skóþvenginn og tókst það loks. En er eg var að binda skóinn, þá heyrist mér, sem sagt sé við eyrað á mér: „Ólafur!“

Kirkjuvogssel-201

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Eg hélt, að þetta hefði verið misheyrn, og tók vettlingana mína og fór að vinda úr þeim. En þá er aftur kallað snöggt í eyra mér: „Ólafur!“ Greip eg þá byssuna, spennti hana upp og sagði: „Hver er að kalla?“ Eg fékk ekkert svar og heyrði ekkert annað en köll þessi.
Þó að eg yrði ekki hræddur við köllin, urðu þau þó til þess, að eg hljóp við fót undan veðrinu alla leið niður að Hunangshellu, og varð eg því miklu fljótari en ella.
En er eg var að koma að Hunangshellu, þá var því líkast, sem stór fuglahópur þyti við eyru mín, og á sama vetfangi rauk hann upp með afspyrnuveður af norðvestri og moldöskubyl. Var veðrið svo mikið, að eg ætlaði ekki að geta haldið mig að sjónum, og var það þó eina lífsvonin, og með fram flæðarmálinu rakti eg mig loksins heim. Engan efa tel eg á því, að hefði eg ekki heyrt koll þessi í selinu, sem svo mjög flýttu ferð minni, þá hefði eg orðið úti um nóttina.“

(Handrit Ólafs Ketilssonar)

Heimild:
-Jón Thorarensen – Köllin í Kirkjuvogsselinu, Rauðskinna hin nýrri (Reykjavík, 1971), I, 165-167.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Glymur

Gengið var um Leggjarbrjót frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – skilti.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Leggjabrjótur

Leggjarbrjótur-Fossar í Hvalsskarðsá.

Framundan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði. Leiðin hefur verið vel vörðuð fyrrum. Sumar eru fallnar, en aðrar hafa verið endurhlaðnar. Með því að fylgja þeim er  auðvelt að rata um hálsana.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Glymur

Glymur.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin. Efst í Leggjarbrjóti má vel sjá hvar erfiðasti hlutinn hefur verið lagaður til. M.a. hefur verið hlaðið í kanta götunnar. Norðar hefur stærsta grjótinu verið kastað úr henni.
Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt,
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.
Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.
Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða Botnsdalsmegin.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós. Í Hvalvatni endar þjóðsagan um Rauðhöfða, en þangað á hann að hafa synt í hvalslíki um Faxaflóa og úr Hvalfirði.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata í Botnsdal.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni.
Gangan tók 5 klst og 05 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Eftirfarandi er byggt á lýsingu eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.Leggjarbrjotur

Reykjanes

Guðmundur G. Bárðason skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins 1928, „Á Reykjanesi„:

Guðmundur G. Bárðarson

Guðmundur G. Bárðarson.

„Þeir sem ætla frá Reykjavík út á Reykjanes eiga um tvær leiðir að velja. Önnur liggur frá Grindavík en hin frá Kalmanstjörn í Höfnum vestan á Reykjanesskaga. Til beggja þessara staða er góður bílvegur frá Reykjavík og tekur aksturinn um 2 klst. Frá Kalmanstjörn er 3 klst. gangur suður á Reykjanes. Liggur vegurinn fyrst fram hjá Hafnarbergi yfir gömul helluhraun, sem eiga upptök sín í Sandfellsdyngju (Sandfellshæð) upp við fjöllin á skaganum hefir hrunið fallið hjer í sjó fram og myndað Hafnaberg. Er hæsti hraunhóllinn yst á berginu nefndur Berghóll. Sunnan við Hafnaberg taka við Stóra- og Litla-Sandvík. Alt þangað suður eru foksandsbreiður á veginum, er skapast hafa af foksandi frá ströndinni. Veður í sandinn og er þungfært, einkum þegar þurt er. Úr Litlu-Sandvík liggur leiðin heim að Reykjanesbænum yfir Stampahraun. Er þar greiðfær og sæmilega sljett gata. Öll er þessi leið greiðfær hestum.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Norðanvert við Hafnaberg mótar fyrir sandorpnum rústum, eyðibýlum. Þar voru í fyrndinni 3 bæir, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, og Eyri og sunnan við Hafnaberg eru rústir af bæ, sem hjet Skjótastaðir. Líklega efir sandfok eytt býlum þessum. Nú eru þessi svæði mjög sandorpin og gróðurlaus að kalla. Hefir roksandurinn hjeðan borist langa leið upp í Hafnaheiði, austur fyrir veg þann, er liggur úr (Grindavík norður) í Hafnir.

Reykjanesviti

Vagnvegur að Reykjanesvita frá Grindavík. Það mun hafa verið Ólafur Sveinsson vitavörður, er fyrstur kastaði þarna grjóti úr götu. Ólafur og synir hans voru menn harðduglegir til verka, og þeir ruddu þarna veg svo að bílar gátu komist alla leið út að vita.

Frá Járngerðarstöðum í (Grindavík er einnig 3 klst. gangur út á Reykjanes. En s.l. vor hefir Ólafur Sveinsson vitav. á Reykjanesi unnið að því með sonum sínum að bæta veginn úr Staðarhverfinu út á nesið, og orðið mikið ágengt. 23. júlí í sumar fór jeg á bíl úr Grindavík alla leið út að túninu á Reykjanesi. Var það fyrsti bíllinn er komst alla þá leið. Milli Járngerðarstaða og Staðar skiftast á grónar grundir með sjónum og hraun, og á einum stað er sjávarós, sem tæpast verður ekið yfir um flæði.

Staðarberg

Staðarberg.

Utan við Stað taka við hraun og eru sum allúfin apalhraun. Ná þau útundir svo nefnda Sandvík mitt á milli Staðar og Reykjanes. Enda hraunin í bröttum hömrum við sjóinn. Heitir þar Staðarberg. Er þar torfærulaus leið fyrir bíla, en krókótt og seinfarin. — Út frá Sandvík er vegurinn sljettur og greiðfær, en víðast sandborinn. — Aðeins á stöku stað, svo laus að hjólin vantaði viðspyrnu og „spóluðu“ sem kallað er; en úr því hefir vitavörðurinn bætt með því að leggja hraunsteina í veginn. Alt er þetta bærilegur reiðvegur og greiðfær gönguleið, en heldur þungfært í sandinum. En hvorki þessa leið eða frá Kalmanstjörn skyldu menn fara á spariskóm. Eru gúmmískór hentastir í hraununum.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Eldvörp kallast hraunhólaröð, sem ber við himin í hraununum nlllangt fyrir norðan veginn. Er það gömul gígaröð með strjálum gíghólum og eldborgum, sem mynd ast hefir á eldsprungu. Stefnir hún frá Sandvík til norðausturs inn Skagann, norðanveit við Þorbjarnarfell. Úr eldvörpunum hefir fallið mikil hraunbreiða fram á Staðarberg milli Staðar og Sandvíkur og önnur kvísl til sjávar milli Húsatófta opr Járngerðarstaða. Hafa gos þessi líklega orðið á undan landnámstíð, þó eigi verði það sagt með neinni vissu.

Baðstofa

Baðstofa.

Gjár eða hraunsprungur alldjúpar eru á nokkrum stöðum í hraunum þessum nærri veginum og stefna þær allar að kalla líkt og Eldvörpin, frá SV.—NA. — Nafnkunnust er gjá austan vert við bæinn á Húsatóftum; er hún kölluð Baðstofa. Er hún ca. 25—30 m. djúp og ferskt vatn í henni um fjöru. Er það eini staðurinn á þessari strandlengju sem ósalt vatn er að fá. Silfurgjá („Silfra“) er fyrir ofan Járngerðarstaði, 20—25 m. djúp. Inn í sumar gjárnar gengur smá upsi gegnum hraunið t.d. Bjarnagjá.

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Útilegumannabygð. Í Eldvarpahrauni, í norðvestur frá Grindavík, fundust 1872 eldgamlar rústir af hraunkofum er sumir hafa haldið að væru eftir menn sem lagst hafi út í hraunið, en aðrir halda að Grindvíkingar hafi notað þá sem fylgsni á ófriðartímum. Eru kofarústirnar á afskektum stað í versta hrauninu, og eigi gjörlegt að leita þeirra nema með leiðsögu kunnugra manna. Hefir Þorv. Thoroddsen lýst þeim í ferðabók sinni, (Ferðabókin T. bls. 174).

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Eydd bygð. Nú er Staðarhverfið vestasta bygðin sunnan á Skaganum. En ummæli herma að í fyrndinni hafi bygð verið miklu lengra út eftir og prestssetrið Staður hafi þá verið í miðri sveit. Ef til vill hefir einhver bygð verið í Sandvík og þar í grend, sem sje eydd af sandfoki. Sumir telja að Reykjanes hafi áður fyr náð lengra út og þar muni hafa verið bygð, sem sokkin sje í sjó. En það er harla óiíklegt og engin rök hafa fundist fyrir því í fornritum. Hafi Eldvarpahraun runnið eftir landnámstíð gæti það hafa eytt býlum við ströndina.
Háleyjarbunga. Utanvert við Sandvík er ávöl hæð eða bunga suður við ströndina góðan spöl frá veginum. Heitir hún Háleyjarbunga. Er hentugt að taka sjer krók af veginum til að skoða hana. – Er það gömul gosdyngja svipuð Skjaldbreið að lögun, en margfalt minni og halla minni. Efst í bungunni er gosketillinn og sjest hann eigi fyr en alveg er komið að honum. Er hann um 130 m. að þverm. og 20—30 m. djúpur, í börmunum er straumlögótt grágrýtiskent berg með glitrandi ólivín kristöllum gul grænum að lit og eru sumir með bláleitum blæ. Gosdyngjur svipaðar þessum eru allvíða hjer á landi en fágætar annarsstaðar nema á Sandwicheyjum í Kyrrahafi. Sjórinn hefir brotið af suðurjaðri dyngjanna og heitir þar Háleyjaberg.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Skálafell. (Heiðin). Af Háleyjarþungu er best að fara vestur á Skálafell, sem er eldfjall (ef fjall skyldi kalla), og hæsta fjalli sunnan á Reykjanesi (78 m.).
Djúpur gígur eða eldborg með börmum af gjallkendu hrauni en austan í fellstoppnum. Þaðan hefir mikið apalhraun runnið niður fjallið. Annar eldri gígur ógleggri er þar nokkrum metrum vestar. Á fjallinu er gott útsýni út á Reykjanestána, þar sem litli vitinn er. Hraunsprungur og gjár eru margar í fjallshlíðinni að norðvestan. Stefna allar frá SV—NA og rýkur úr þeim á stóru svæði.
Mest ber á Misgengissprungu niður við rætur fjallsins og nær hún út að sjó, hefir þar myndast kletta belti af því landið austan við gjána hefir sigið 10—15m. Þar sem mest er. Heitir gjáin

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Valbjargargjá. Stefnir hún yfir hverasvæðið upp á nesinu. Líklega er suðurbarmurinn á svo kallaðri Hauksvörðugjá, norðvestur af Sandfelli inn á Skaganum, áframhald af Valbjargargjá. Sumir telja að sprungur þessar megi rekja austur í Strandaheiði, suður af Vogum.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug. Valborgargjá er staður sem fáir hafa heyrt um og er falin perla fyrir mörgum. Hún er með fallegri stöðum á Reykjanesi en þar er m.a að finna eina af elstu sundlaugum landsins. Ólafur P. Sveinsson vitavörður á Reykjanesi lét gera litla laug í gjánni á árunum 1925–1930. Hann lét sprengja hraunklöpp þannig að volgur sjór seytlaði í gjánna og útbjó hann þrep niður í gjánna. Byggður var skúr yfir gjána og var börnum kennt sund þarna áður en sundlaugar komu til skjalanna í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaganum. Laugin er kulnuð í dag.

Sjávarlaug. Sunnan við Valbjargargjá eru óslitin hraun út á Reykjanestána. Sunnanvert við Reykjanestána er Blásíðubás og svo Skarfasetur, þar sem litli vitinn stendur. Eru þar allsstaðar brattir hraunhamrar með ströndinni norður undir Valbjargargjá.
Norðan við gjána er láglent, Hefir brimið hlaðið þar upp háum malarkambi úr stórum hnullungum, er nær norður að Valahnúkum. Bak við malarkambinn er mjótt og langt krókótt lón. Sígur sjórinn inn í það um flæði gegnum malarkambinn. Einnig mun sjór leita neðanjarðar miklu lengra inn undir hraunin bak við, þangað sem jarðhitinn er. Þegar fer að falla út sígur sjórinn undan hrauninu út í lónið og er þá 26° heitur. Er hitinn mestur nyrst í lóninu. Þarna virðist vera efni í besta baðstað. Væri lónið hreinsað, steyptir að því veggir og stúkað í sundur, ættu menn þar völ á sjóböðum, misheitum, frá átta til tíu gráður eins og hann er hjer við ströndina upp í 26° eins og suður við Ítalíu. Nóg er hjer líka af skjólasömum sandstráðum, lægðum og skútum í Valbjargargjá og hrauninu til sólbaða þegar sólar nýtur.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúkum.

Valahnúkar. Svo heita tveir einkennilegir móbergshnúkar við sjóinn norðan við sjólaugina og er sá syðri miklu stærri (48 m. hár). Í raun og veru munu hnúkarnir vera leifar af afargömlum eldvörpum, er spúið hafa ösku. Hefir sjórinn sorfið og brotið niður helming hnjúkanna og stendur þvergnýpt stálið eftir og fljettast svartir blágrýtisgangar og blágrýtislög alla vega innan um móbergið. Í nyrðri hnúknum ber meira á blágrýtinu. Hefir brimið etið breið göng í gegnum hann. Geta menn um fjöru gengið þar þurrum fótum í gegn, undir fellið.
Áður stóð vitinn á Stóra-Valahnúk En í landskjálftum vildi það til að bergið sprakk og hrundu úr því stykki svo staðurinn var ótyggur. Á vorin og framan af sumrum er allmikið af bjargfugli bæði lunda, ritu og fíl í hömrunum framaii í hnúkunum. Eiga þeir þar hreiður sín. Er þar tækifæri til að sjá þá hlynna að ungum sínum og færa þeim fæðu.

Reykjanes - viti

Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli. Eldri vitavarðahúsin.

Heima á Reykjanesi. Jeg býst við að ferðamennirnir sjeu farnir að þreytast af göngunni, þegar þeir hafa sköðað það sem hjer hefir verið talið. Er þá ráð að skreppa heim á bæinn og heilsa upp á vitavörðinn, taka sjer stundar hvíld.
Bærinn stendur sunnan undir svonefndu Bæjarfelli. Er það úr móbergi og líkt og Valahnúkar. Vitavörðurinn og frú hans taka vel á móti gestum sínum og eru fús að greiða götu ferðamanna og leiðbeina þeim. Ólafur vitavörður hefir aðeins verið 3 ár á Reykjanesi. Er hann mesti atorkumaður og hefir ótrálega mikið bætt jörðina á þeim stutta tíma, bæði aukið og bætt túnið og girt það með öflugum grjótgirðingum.

Reykajnes - viti

Reykjanes – yngri vitinn og yngri vitarvarðahús.

Vitinn stendur efst á Bæjarfelli (áður Vatnsfelli), er hann 25 m. hár og ljóskerið um 73 metra hátt, yfir sjó. — Borgar sig að skreppa upp í hann til að skoða ljóskerin og njóta útsýnis yfir nágrennið. Er erfitt að standa á verði við ljósin efst í turninum þegar landskjálftar ganga og alt leikur á reiðiskjálfi.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Hefir vitavörðurinn stundum komist í hann krappan við ljóskerin þegar landskjálftar hafa komið. Goshverinn er góðan spöl fyrir austan bæinn á jarðhitasvæðinu norður af Skálafelli. Er hann nefndur Litli-Geysir. Mun hann hafa; myndast 1906(?). Áfast við hann að vestan er annað uppgönguauga. — Eru þetta einu hverirnir hjer á nesinu sem gjósa vatni. Þó er það ekki ferskt vatn sem kemur upp með gosunum, heldur saltur sjór, enn saltari en við ströndina. Liggur þó hverinn nm 15 metra hátt yfir sjó og frá honum er 2—3 km. spölur til sjávar. En óefað sígur sjórinn eftir sprungum neðan jarðar inn undir jarðhitasvæðið. Hverinn gýs á 15—20 mínútna fresti og eigi hefi jeg sjeð hann gjósa nema c.a. 3 m. frá jafusljettu, en stundum kvað hann gjósa mun hærra. Á undan gosunum heyrast miklar dunur niðri í jörðinni, er smáaukast þangað til gosið byrjar. — Nokkrum metrum fyrir austan Geysi ee vellandi leirpyttur er mikið gufar úr. Myndaðist hann í landskjálftum 1919.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Gunna eða Gunnuhver. Fyrir norðaustan Geysi er öll jörðin soðin sundur af jarðhita, bergtegundirnar leystar upp og orðnar að ruuðum, gulleitum og hvítum leirtegundum. Hafa menn haldið að hvítasti leirinn, sem best sjest þar í gryfju einni, væri postulínsjörð, en í rauninni er í honum sömu efni og venjulegu hverahrúðri (Kisill). Þar í holtunum eru á stóru svæði fjölmörg jarðffufuott, er sjóðheitar gufur streyma upp um. Hefir safnast nokkur brennisteinn við sumar þeirra (brenniateinshverir) og víða er leirinn blandaður brennisteini. Í dálítilli hvilft norður í holtaröðlinum, sem þar er, eru vellandi leirhverir. Heitir aðalhverinn Gunna eða Gunnuhver. Er sagt að hverinn dragi nafn af draug, er Eiríkur prestur á Vogsósum setti þar niður (Þjóðsögur Jóns Arnasonar I. 577—578). Í hverunum er vellandi leirgrautur, og öðru hvoru gjósa þar upp brennheitir gufustrókar með miklum hvin og dunum. Er þetta talinn einna mestur leirhver hjer á landi. Fara skyldu menn gætilega nærri þessum leirhverum því jarðvegurinn er ótraustur og undir honum er jörðin sjóðheit og vellandi.

Gunnuhver

Gunnuhver – hverasvæðið.

Láta mun nærri að jarðhitasvæðið á Reykjanesi muni vera 3-4 ferkílómetrar. Á öllu því svæði stíga gufur upp hjer og hvar úr sprungum og hraungjótum, þegar svalt er veður. Í grasflesjunum nærri aðalhveruuum, þar sem engar gufur sjást koma úr jörðu, er jörðin víða 80—90° heit rjett undir grassverðinuni; fer þar að rjúka ef jarðvegurinn er rofinn. Er það ljóst að hjer er geysimikil og dýrmæt orka falin í jörðu, sem nægt gæti Reykjavík og öllum þorpum hjer á skaganum til ljósa, hita og iðnaðarstarfa. En til þess þarf að beisla jarðhitann og breyta honum í rafmagn, líkt og nú er gert á Ítalíu og Japan. Telja fróðir menn að virkjun jarðhitans sje ódýrari en fossavirkjun. Áður en farið er að virkja fossa í stórum stíl handa Reykjavík, er sjálfsagt að rannsaka það til hlítar, hvort eigi borgi sig eins vel eða betur að virkja jarðhitann á Reykjanesi eða öðrum hverasvæðum í nálægð við bæinn.

Sýrfell

Sýrfell.

Sýrfell. Frá hverunum er um klukkutíma gangur norður á Sýrfell; er það móbergsfjall og hæsta fjallið út á nesinu (96 m.). Er þaðan gott útsýni. Suðvestur af því eru svo nefndir Rauðhólar; eru þar ljós og rauðleit leirlög, leifar eftir gamla hveri. Í hæðarana suðvestur af Sýrfelli er gígskál allstór og annar gígur nokkrum metrum sunnar efst í sömu hæðinni. Norðaustur af Sýrfelli mætast nýju hraunin úr Grindavíkur-Eldvörpunum og Stampahraunin úr gígaröðinni á norðanverðu nesinu.

Súlur

Súlur.

Í norðri og austri blasir við Hafnaheiði, Stapafell, Súlur, Þórðarfell, Sandfell og Sandfellshæð, sem er langstærsta hraundyngjan á utanverðum skaganum. Frá Sýrfelli gengur lægð til norðausturs inn skagann, sjest glögt fyrir henni norðaustur við nýjuhraunin. Heitir dældin Hauksvörðugjá, er þessi sigdæld takmörkuð af misgengissprungum beggja vegna. Framhald þessarar sigdældar er lægðin á Reykjanesi milli Skálafells og Stampahrauns. En sprungurnar eru þar víðast duldar undir yngri hraunum nema norðan í Skálafelli. Þjóðsögur herma að Kaldá hjá Kaldárseli hafi í fyrndinni runnið út Reykjanesskaga og þessi sigdæld sje hinn forni farvegur hennar, en forneskjumaður hafi breytt farvegi hennar.

Stampar

Stampar og Stampahraun.

Stampar og Stampahraun. Hraunbreiðan á nesinu norðan við fellin heitir Stampahraun. Hafa þau hraun komið úr eldsprungu (einni eða fleiri) er hefir vanalega stefnu (SV—NA) og nær alla leið frá sjó við svo kallaður Kerlingarbás, eins langt til norðausturs sem hraunið nær. Hefir röð af gígum eða eldvörpum myndast á sjálfum sprungunum þar sem hraunið hefir ollið upp. Heita gíghólar þessir Stampar. Mun nafnið þó helst eiga við þá syðstu. Til þess að skoða gígaröðina er hentast að fara út í hraunið norðvestur af Sýrfelli og fylga eldvörpunum til sjávar. Þar eru víða holar hrannpípur eða hraunræsi er storknað hafa utan um hraunstrauma og hraunleðjan síðan tæmst innan úr. Niður við sjóinn eru háir hamrar af lagskiftu móbergi og hraunið ofan á. Þar eru lóðrjettir blágrýtisgangar upp í gegnum móbergið er renna saman við hraunið ofan á, Eru það án efa endarnir á eldvörpunum sem hraunið hefir ollið upp um.

Önglabrjóstnef

Önglabrjótsnef. Karlinn fjær.

Spöl norður með sjónum er gíghóll framan í hömrunum. Hefir brimið etið hann inn að miðju svo þverskurður sjest af innri gerð hans. Er gígrásin full af rauðleitu gjalli. Önglabrjótsnef, litlu norðar, er myndað úr gjallkendu hrauni úr þessum gíg og fleirum af líkri gerð, er standa nokkru fjær ströndinni.

Karlinn

Karlinn.

Karlinn er 50 m. hár drangur fram af nesinu undan Stampahrauni 400—500 m undan landi. Þar eiga bjargfuglar hreiður í berghillum.
Eldey blasir við í suðvestur af nesinu. Er hún um 14 km. undan lyndi, álíka há og Skálafell (77 m., 100 m. breið, um 300 m. löng), flöt að ofan og öllu megin þverhnýpt niður að fjöru. Eyjan er úr móbergi og gróðurlaus. Hjalti Jónsson framkvæmdarstjóri kleif upp í eyjuna 30. maí 1894. Þótti það þrekvirki. Rak hann járngadda í bergið og las sig eftir þeim upp á eyjuna, og tengdi festi í bjargið. Þar verpa súlur í þúsundatali.

Reykjanes

Reykjanes – brim.

Brimið við Reykjanes er oft stórkostlegt þegar vindur stendur af vestri. Þeir sem staldra við á Reykjanesi þegar öldurót er, og eigi hafa sjeð stór brim, ættu að bregða sjer ofan á hamrana hjá Valbjargargjá eða ofan á Valahnúk, og virða fyrir sjer brimgarðinn, og hlusta á gróttuhljóðið við Valhuúkamöl, þegar brimsogið og öldurnar eru að velta til hnullungunum, sem sumir hverjir eru 1—2 m að þvermáli, Fágætar jurtir. Mjög er gróður lítið á Reykjanesi. Helstu gróðurflesjurnar eru í lægðinni frá túninu vestur fyrir hverina. Fann jeg þar á nesinu um 50 plöntutegundir. Af fágætum plöntum, fann jeg þar þessar: Baunagras í brekku við bæinn. — Naðartungu og flóajurt við gufuhverina. Þistil í túnjaðrinum. Gullkollur er algengur í hraununum. Sækvönn í grasbrekkum og á bjargröndinni suður af Skálafelli.

Gullkollur

Gullkollur – einkennisblóm Reykjaness.

Landskjálftar eru að líkindum tíðari á Reykjanesi en á nokkrum öðrum stað hjer á landi. Hafa þeir oft gert þar spjöll á vitanum og bæjarhúsum og valdið röskun á hverunum. Hafa þeir stundum staðið í sambandi við eldsumbrot í hafinu út af nesinu. Engar sögur fara af eldgosum á landi þar á hesinu. Vita menn því eigi hvort nokkur af hraununum þar hafa runnið eftir landnámstíð. Frásögurnar um gosin í hafi, framundan nesinu eru einnig mjög óglöggar.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 38. tbl. 23.09.1928, Á Reykjanesi – Guðmundur G. Bárðarson, bls. 297-300.

Reykjanes

Reykjanes.

Maríuhellar

Maríuhellar eru hraunrásarhellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hraunið er komið úr Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Hellarnir eru þrír: Vífilsstaðahellir, Urriðakotshellir og Draugahellir. Sumir vilja bæta fjórða hellinum í hópinn sem er þar skammt frá og hefur á seinni árum verið nefndur Jósepshellir. Tveir fyrstnefndu hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).

Maríuhellar

Maríuhellar.

Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar.“ Talið er að nafnið Maríuhellar sé dregið af því að fyrrum voru hellarnir í eigu Viðeyjarklausturs, en klaustrið og kirkjan þar voru helguð Maríu guðsmóður.

Á Vísindavef HÍ er spurt; „Hvers vegna heita Maríuhellar í Heiðmörk þessu nafni?“ Svavar Sigmundsson, fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar, svarar:

Maríuhellar

Maríuhellar.

„Maríuhellar eru tveir hellar í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar, á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar og stundum nefndir svo (Fjárhellrar).
Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Í landamerkjalýsingu Urriðakots frá 1890 er talað um „Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar“ (Örnefnaskrá Urriðakots; Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar. Safn til sögu Garðabæjar III. 2001, bls. 30, 37, 123).

Maríuhellar

Maríuhellar – kort.

Vitað er um Máríuhella (flt.) á einum öðrum stað. Það er í Kollabæ í Fljótshlíð, þar sem þrír skútar bera þetta nafn. Þar voru hafðir sauðir sem gengu að mestu úti (Örnefnaskrá). Maríuhellir er líka í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191).
Ekki er vitað hvernig nafnið Maríuhellar er til komið en líklegt er að þeir séu kenndir við Maríu guðsmóður, það hafi verið talið gott til verndar fé að kenna fjárhella við hana. Vífilsstaðir voru eign Garðakirkju á 19. öld, kirkjan var þó ekki helguð Maríu, en mynd hennar var í eigu kirkjunnar (Íslenzkt fornbréfasafn IV:107-108; Margaret Cormack, The Saints in Iceland 1994, 185).
Þess má geta að til er alþýðleg bæn fyrir fé í haga, þar sem Sankti María er nefnd (Fagrar heyrði ég raddirnar 1942, bls. 11-12). María verndaði bæði fólk og fé með möttli sínum, samkvæmt finnskri trú (Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder 11:374).
Kvenmannsnafnið María varð ekki algengt hér fyrr en á 18. öld en ólíklegt er að hellar þessir séu kenndir við íslenskar konur með þessu nafni.“

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Árið 2014 var neðri hluti Urriðahrauns og Maríuhellar friðlýstir sem fólkvangur. Friðlýsingin var endurskoðuð 2021 og fólkvangurinn stækkaður upp í vestari hluta Selgjár.
Í auglýsingunni „um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ“ segir í 1. gr.:

„Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Garðabæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa Garðahraun, Vífilsstaðahraun (Svínahraun) og Maríuhella sem fólkvang samkvæmt 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Meginhraunstraumurinn rann til sjávar til norðurs og nefnist þar Gálgahraun og var það friðlýst með auglýsingu nr. 877/2009. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Hraunsvæðin eru ekki samfelld.
Hin friðlýstu svæði eru alls 156,3 ha að flatarmáli.“

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Mar%C3%ADuhellar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3986
-Nr. 510 30. apríl 2014 – Auglýsing um stofnun fólkvangs í Garðahrauni, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ.

Maríuhellar

Maríuhellar – kort af  neðra friðlýsingarsvæðinu.

Sauðabrekkuskjól

Gengið var frá Fjallsgjárenda við Krýsuvíkurveg með stefnu á Markhelluhól. Ætlunin var að koma við í Búðarvatnsstæðinu, kíkja á Sauðabrekkuskjólið og skjólið í Sauðabrekkugjárgígum, Fjallsgrenin og Gapið.

Markhella

Markhella – áletrun.

Svæðið, sem mótað er af u.þ.b. 8000 ára gömlu Hrúargjárdyngjuhrauninu, er þversprungið svo vissara er að fylgjast vel með vörðunum framundan. Þær vísa á brýr á gjánum. Ofan við fyrstu gjána var gengið yfir Stórhöfðastíginn. Frá honum lágu tvær aðrar greinilegar götur upp í heiðina. Litlar vörður voru við þær. Stígurinn liggur frá Ástjörn um Hédegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls og út með Hamranesi og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar sem Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútargjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðaleið sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg.

Sauðabrekkugjá

Sauðabrekkugjá.

Stefnan var hins vegar tekin á grónar brekkur vestan við Sauðabrekkugjá. Frá þeim sást vel í suðurenda gjárinnar. Skv. landakortum er Stóra-Sauðabrekka sögð vera þar ofan og við suðurenda gjárinnar. Hún er vel grónin og beitarvæn. Sauðabrekkuhellar nefnast nokkrir hraunhellar sunnan hennar. Í raun nefnast þeir Moshellar. Í norðanverðum Sauðabrekkum er Sauðabrekkuskjólið, sem smalar Hraunamanna nýttu sér sem afdrep. Ofan við skjólið stóð stoltur hrútur með tvær ær og þrjú lömb. Sá hafði gefið beitarhólfi reykneskra fjárbænda og bæjarstjórnum svæðisins langt nef. Að sögn Lofts Jónssonar, Grindvíkins, fóru smalar Grindvíkinga inn að Hrútagjá fyrsta daginn og gistu þar í skúta. Þar gæti hafa verið um nefnt Sauðabrekkuskjól að ræða.

Sauðabrekkufjárskjól

Sauðabrekkufjárskjól (Moshellar).

Frá suðurenda Sauðabrekkugjár, eftir u.þ.b. 30 mín. gang, sást yfir að Markhelluhól. Gengið var að hólnum. Á honum eru áletranir; ÓTTA, HVASSA og KRÝSV. Þesssar jarðir eru sagðar liggja að klofnum klettadrangnum. Ofan á honum er tiltölulega nýleg varða. Skessuflétta er efst á brúnum sprungunnar, en steinarnir í vörðunni eru án mosa.
Í kröfugerð Óbyggðanefndar er sagt að „landamerkin séu í skoðun og til nánari athugunar, en “Markhelluhóll” mun þó vera þinglýstur markpunktur og síðan er dregin lína um Grænavatnseggjar í svonefndan Dágon.“

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur árið 1890 er Markhelluhóll sagður „hár steindrangi við Búðarvatnsstæðið“. Þegar staðið er við helluna má sjá í norðvestri háa vörðu. Ef letrið á hellunni er skoðað er ljóst að það er tiltölulega nýlegt. Bæði bendir mosinn umhverfis til þess sem og leturgerðin. Stafurinn „a“ aftast í „Hvassa“ bendir til þess að letrið hafi verið höggvið í steininn á 20. öld. Það eitt vekur tortryggni með hliðsjón af eldri landamerkjabréfum þar sem landamerkin eru áður sögð hafa verið við Búðarvatnsstæðið. Líklega má alveg eins færa rök fyrir því að mörkin séu þar, u.þ.b. kílómetra norðar, en nú er talið.

Áberandi götu var fylgt með hraunjarðinum niður að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikigirðingin. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað ti af mannhöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýniið vítt og falegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einskonar búðir. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hast við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.

Búðavatnsstæði

Búðarvatnsstæði.

Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðarvatnsstæðið sést að einungis er um mjótt hraunhaft að ræða. Í beina línu til norðvesturs sést fyrrnefnd varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel þegar komið er úr norðri. Búðarvatnsstæðið hefur verið þungamiðjan í lýsingum fyrri alda, enda fáum slíkum til að dreifa svo ofarlega í Almenningi. Það hefur því óumdeilt verið eitt helsta kennileiti í heiðinni fyrrum. Ekki er óraunhæft að álykta að um það hafi markalínan verið dregin og þar með hafa allar jarðirnar þrjár átt tilkall til þess, enda sennilega einn helsti áfangastaður á ferðum fólks milli byggðalaganna. Þar hefur verið tilvalið að slá upp búðum yfir nóttina, enda um „hálfnaðarleið“ að ræða.

Markhella

Við Markhellu.

Haldið var yfir að Sauðabrekkugjárgígum. Efst í þeim er náttúrlegt skjól; Sauðabrekkuskjól. Hraunbekkur er í því og gluggi á hlið. Steinn var fyrir opinu. Skammt frá skjólinu liggur Hrauntungustíg yfir gjána. Henni var fylgt niður á stíginn. Þar sést vel hvar stígurinn liggur til suðausturs eftir sléttu helluhrauninu og yfir gjána.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum þar sem hann liggur yfir gjána.
Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa og stefnt á miðja Hrútargjárdyngju, þónokkuð vestur af fjallinu eina. Leiðin liggur að Hrúthólma þar sem farið er um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt i Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Ginið

Ginið.

Fjallsgrenin eru þarna skammt norðar á sléttu helluhrauninu. Í því eru fjölmargir skútar og rásir. A.m.k. tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttur eru við grenin.
Frá Sauðabrekkugjárgígum nyrðri hefur runnið þunnfljótandi helluhraun, bæði til norðurs og suðurs. Hraunið er lítið, en sker síg úr grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Í því sunnanverðu er Gapið, u.þ.b. 15 metra djúpt. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið þarna niður í sprungu og fyllt hana, nema þar sem hún hefur verið dýpst og breiðust. Þar hefur hraunið ekki náð að fylla hana að fullu. Sigið var ofan í Gapið fyrir u.þ.b. ári síðan. Það er í rauninu merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, sem fáir vita af. Það kemur þó vel fram á loftmyndum.
Rjúpa lá á hreiðri skammt austar. Eggin voru 12 talsins.
Gengið var yfir Stórhöfðastíg. Ljóst er að ekki er um einn afmarkaðan stíg að ræða þótt einhver eða einhverjir hafi sett upp litlar vörður við einn þeirra. Sjá má hann vel mótaðan á a.m.k. þremur stöðum í hrauninu, en allir stefna stígarnir í sömu átt, að Fjallinu eina vestanverðu. Segja má því að ekki sé um einn tiltekinn Stórhöfðastíg að ræða þarna í grónum Almenningnum heldur fleiri. Þeir eru þó misgreinilegir á köflum.
Gangan tók 2 klst og 22 mín. Frábært veður.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Blikdalur

Einhver merkasta bók um þjóðleg fræði, sem út hefir komið á síðari árum á Íslandi, er Íslenzkir þjóðhættir, eftir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili.
Kaldarhofdi-201Er það heildaryfirlit um þjóðháttu, siðu og þjóðtrú Íslendinga á síðari öldum. Því miður entist höfundinum, hinum merka fræðimanni, rithöfundi og kennara, síra Jónasi Jónassyni, ekki ævin til þess að ljúka þessu merkilega verki. Vantar t.d. alt er að sjómensku lýtur. En annar merkur fræðimaður, dr. Einar Ól. Sveinsson bjó bókina undir prentun og Ísafoldarprentsmiðja gaf hana út. Kafli sá, er hér fer á eftir er tekinn úr bókinni og fjallar um dagleg störf til sveita.
Frá fráfærum til sláttar leið nokkuð misjafn tími, eftir því sem gras spratt fljótt, en oftast var það hálfsmánaðartími að minnsta kosti. Var þá nóg til að vinna, sem eðlilegt var. Verður að taka fyrst þau störfin, er náðu jafnt yfir alt. Mjólkurærnar hafa lengi verið nefndar búsmali á Íslandi.
Stekkur-201Þegar eftir fráfærurnar voru ærnar nytkaðar kvöld og morgna, en hafðar í haga mála á milli. Nytkunartíminn kvöld og morgna heitir mál og kallað að mjólka ærnar á málum, mjólkurhirðing kvöld og morgna heitir málaverk, og kvöld- og morgunskattur málamatur. Þessi nöfn eru forn.
Smalinn hafði það verk á hendi, að sjá um, að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum, til þess að það yrði mjaltað, enda er sá tími enn í dag einatt kallaður mjaltir og verkið líka: vinnukonur mjöltuðu fé jafnan. Smalinn gerði ýmist að fylgja fénu eftir í hagana eða láta það sjálfrátt og smala því kvöld og morgna.

Sel-201

Þurfti hann því að vera árrisull, ef fénaðarferð var löng, og æði erfið var honum einatt smalamenskan, fekki sízt til dala eða þegar ærnar létu illa, voru óspakar, óþekkar sem kallað var, eða sóttu mjög til fjalls; þó tók út yfir, þegar þokan kom, en jafnan var húsmóðurinni að mæta, ef vantaði í kvíarnar; henni þótti það ódrýgja nytina, sem von var. Nóg var nú samt, þegar þokur og rigningar komu og „datt úr því dropinn“, þó að ekki vantaði oft í tilbót.

Natthagi-201

En duglegur og röskur smali var altaf mesta uppáhald húsmóðurinnar og fékk marga aukabita og sopa, þegar hann stóð vel í stöðu sinni, og svo er sagt með sönnu, að Sigríður hin stórráða á Grund og Espihóli hafi altaf tímt að gefa smalanum að eta, þó að misbrestur þætti verða á því með hitt f ólkið. Þá átti hann altaf líka vísa smalafroðuna ofan af flóunarpottinum á málum. En ef hann var lélegur og vantaði oft hjá honum, þá átti hann ekki upp á pallborðið hjá húsfreyju. Því er sagt svo frá, að húsfreyja á einum bæ var að ala barn og var að basla við að segja vinnukonunni fyrir, hvernig hún ætti að skamta. Seinast kom að smalanum, og átti hún þá að hafa sagt: „Vantaði ekki af ánum, æ æ?“ Stúlkan sagði, að svo hefði verið. „Minna af skyrinu og meira af grautnum, æ æ — látt’ ‘ann eta svikin sín, og æ æ.“ Má af því ráða, að stundum hafi verið misjöfn æfi, sem smalarnir áttu
Ef smalanum hafði tekizt svo vel fjárgeymslan, að engin ærin missti máls fram að Þorláksmessu á sumar (20. júlí), átti hann að eiga Arasel-201nytina úr beztu kúnni þann dag og skemta sér við með útreiðum. Þetta var alment í Skaftafellssýslum og undir Eyjafjöllum, en ekki víðar um land, svo að kunnugt sé. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru bygð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag.
Ekki var malið undir smalann í Hvassahraunssel-uppdrattur-21seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltakonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn féll saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn: „Það stendzt á endum strokkur og mjaltir.“ Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamensku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilizt þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, sízt alment. — Selin voru venjulega þrjú hús: mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu. Selmatseljan hafði nóg að starfa: að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr. Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóir, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var þá skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn). Heldur þótti það vilja þynnast á selflutningunum, sem von var. Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum.

Hraunssel - uppdrattur-201

Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar astir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana. Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær og börn í seljunum og báru þau út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komizt í tæri við selráðskonur. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar.

Selsvellir - uppdrattur-21

Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Selfara er víða getið bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flutzt hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hinar sömu og á síðari tímum, nema skyr hefir stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða í kollum í krókum.
Þá var annað, sem sjálfsagt var að annast um tímann á milli fráfærna og sláttar. Það var grasaferðin. Grasaferða er getið í Jónsbók, Landleigubálki, 58. kap.; segir þar svo: „Eigi skal maðr utan orlofs lesa ber á annars jörðu til heim at bera, en ef less, tvígildi ber ok svá grös, ef hann less þau.“ Þá er og getið um grasaferð í Fljótsdælu og í ýmsum ritum frá 17. öld. Hafa grös verið mikið notuð hér á landi um margar aldir. Þótti hvert heimili til sveita, einkum nyrðra, illa búið til vetrar, ef ekki var farið til grasa. Víða var það og í uppsveitum syðra. Grasatekja var víða ágæt; má einkum til nefna sem orðlagðar grasastöðvar Arnarfell, Lambahlíðar, Kjalhraun, Þjófadali eða Hveravelli, Orravatnarústir o.m.fl.

Fjallagros-21

Grösin voru í miklum metum, og var grasatunnan syðra metin jafnt sölvavætt eða 10 álnir. Nyrðra var kapallinn (4 tn.) vanalega seldur 20 ál., eða 4 m. spec, en á Austurlandi var tunnan af hreinsuðum og hálfmuldum grösum seld í harðindum 30 ál. eða 1 rd. spec, og þótti gott kaup, því að menn álitu, að tvær tunnur grasa væru á við mjöltunnuna til matarnota. Venjulegast var gerður út karlmaður með 2—3 stúlkur frá stórbæjunum, en fólk af smærri bæjum sló sér saman, einn frá bæ, undir forustu eins manns. Venjulega voru 5—8 hestar í hverri lest, og var verið viku til hálfan mánuð í ferðinni, eftir því hvað grasatekjan var góð og tíð hentug. Útbúnaður til grasaferða voru tunnupokar, annað hvort unnir úr togi eða þá hærupokar, ofnir úr faxhári. Voru þeir allþolnir, ef þeir voru vel gerðir í fyrstu. Litlar hornhaldir, 6—8 tals, voru festar í kring í opið, og var svo reimað fyrir opið í hagldirnar með togbandi.
Fjórar tunnur grasa voru ætlaðar hestinum, ef þau voru vel þur. RaudablasturStundum prédikuðu prestar yfir grasaf ólki, áður en það fór, eða sveigðu að því í ræðu sinni sunnudaginn áður. Það gerði síra Jón lærði í Möðrufelli, og muna menn þetta úr ræðunni: „Troðið vel í hornin, svo að ekki verði svik fundin.“ Svo var farið af stað og haldið áfram, þangað til komið var í grasastöðvarnar og tjaldað. Tjöldin voru oftast ofin úr vaðmáli. Prjónatjöld höfðu fáir nema útilegumenn. Grösin eru misjöfn að gæðum. Bezt eru skæðagrös; næst þeim brekkugrös eða Maríugrös og klóungur, kræða þótti kostaminnst, en þó vel hafandi í grauta; hún var helzt notuð á Norðurlandi; hundaló þótti til einskis nýt. Þegar búið var að sofa af sér ferðina, skipaði formaður flokksins til göngu. Bezt þótti grasaveður þokur og hægar vætur, því að þá verða grösin mýkri og ljósari og breiðast meira út, en skorpna saman og dökkna í þurki. Ef þurkar voru, var gengið á nóttunni og neytt döggfallsins. Það þótti meðal grasatekja, ef greiður kvenmaður tók tunnuna í göngunni milli mála. Í göngurnar hafði hver um sig tínupoka, svo sem hálftunnupoka; var fest í pokann band, sem gekk upp um hálsinn.

rekavidur-1

Ýmsar hættur gátu komið fyrir á grasafjalli, ekki sízt, ef þokur voru. Mátti þá alt af eiga á hættu, að útilegumenn væru á varðbergi, til að reyna að nema einhverja stúlkuna burtu, og enda huldufólkið var ekki laust við sama. En miklu tíðara var það, að huldumenn leituðu á selráðskonur. Grösin voru þurkuð, ef veður leyfði, og flutt heim síðan, og þótti heldur en ekki búsílag, ef vel hafði grasást. Þegar vel voraði og snemma tók snjó af heiðum og gróður var kominn, var stundum farið nokkru fyrir fráfærur til grasanna og það að því skapi fyrkomið heim aftur. Annað vorverk var það, er mikið var að gert, þar sem nokkurn skóg var að hafa eða fjalldrapa, sem var í stærra lagi. Það var kolagerðin. Allir þurftu kola við á hverjum bæ til þess að dengja við og smiðir til ljáasmíða og hestajárna; þurfti eitt kolakvartil til að smíða ljáinn. Skógurinn var höggvinn og hrísið rifið á haustin og veturna; svo var það afkvistað og afkvistið haft til eldiviðar. Leggir voru síðan kurlaðir í 3 —4 þuml. langa búta. Síðan var gerð kolagröf, 1—2 faðmar að þvermáli og um 2 ál. djúp, og kurlinu raðað í hana, og var hið stærsta haft neðst. Kúfur var hafður á gröfinni, 1—1 1/2 al. á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna.

rekavidur-2

Þá var snöggtyrft yfir og mokað mold yfir, svo að hvergi kæ,mist loft að; síðan var opnað eftir þrjá daga eða fjóra og kolin tekin upp; 4—5 tunnur kola fengust úr slíkri gröf. Stilt veður þurfti að velja til kolagerðar, svo að eigi hlytist óhapp af eins og hjá Ölkofra. Kolin voru seld í skógarsveitunum í aðrar sveitir í tunnutali, og var vanaverð á þeim 5 ál. tunnan. Fnjóskdælir seldu venjulega Eyfirðingum tunnuna fyrir lambsfóður (kolalambið). Í Þingvallasveit seldu menn hana 6 ál., en ef þeir fluttu kolin suður á Suðurnes og seldu þau þar, kostaði tunnan 10 ál. Borgfirðingar gerðu og oft til kola á áliðnu sumri. Kolagerðin hefir orðið skógum og hríslandi á Íslandi til hins mesta tjóns. Alt var höggvið, ungt og gamalt, og þar sem skógar voru ekki, var hrísið rifið miskunnarlaust; jarðvegurinn rótaðist allur upp, og svo blés alt upp ofan í grjót. Sumir skógaeigendur leyfðu líka hverjum, sem vildu, að höggva í skógi sínum og gera til kola, og tóku þá 5 ál. undir kolahestinn, t. d. presturinn á Húsafelli, eða þá einhvern ákveðinn hluta af kolunum. Sama var, ef leyft var að höggva raftvið til húsa. Sumir tóku þó hærri leigu. Konungur eða stjórnin reyndi að sporna við þessari hraparlegu eyðingu skóganna með lögum (10. maí 1755), en fáir eða engir skeyttu þeim.

rekavidur-3

Þá voru, einkum norðanlands, rekaviðarferðir tíðar á vorin, bæði á Strandir, Skaga, Tjörnes, Langanes og Sléttu. Húnvetningar, Vestur-Ísfirðingar, Barðstrendingar og Strandamenn sóttu til Hornstranda sjóleiðis, en sumir Vestfirðingar sóttu rekaviðinn landveg á hestum. Dragklyfjar á hest voru seldar á 5 ál. (= 1 mark); mátti kaupandi þá velja viðinn sjálfur, en varð að höggva hann til og tegla. Húnvetningar, Vestur-Ísfirðingar og Strandamenn höfðu til þeirra ferða sérstök skip, sem þeir kölluðu byrðinga; þau skip voru á stærð við sex- eða áttæringa og rammlega gerð. Þau voru heldur flöt í botninn, flá til hliðanna, og risu stefnin hátt. Á byrðinga þessa settu þeir 10 —15 manns og sendu þá á rekastöðvarnar, og var oft búið að, semja um timburkaupin. Sendimenn voru flestir vanir að höggva og saga við. Svo voru þeir vikutíma eða svo við rekana og höfðu nóg að gera að saga og höggva timbrið. Þeir gerðu langa planka og festu ofan á borðin á byrðingnum, en fyltu hann síðan með timbri, svo að hár búlki varð miðskipa, en autt nokkuð í barka og skut. Þegar þetta var búið, þéttuðu þeir samskeyti hliðarplankanna með mosa, svo að vatnshelt var. Maraði svo byrðingurinn í kafi, svo að upp úr stóðu hnýflarnir einir, en svo vel var um búið, að hvergi gaf sjó inn.

Brennisel-201

Síðan gerðu þeir flota úr timbri, til þess að hafa á eftir byrðingnum í eftirdragi. Til styrkingar reyrðu þeir köðlum um byrðinginn og farminn qg sömuleiðis um timburflotann. Segl höfðu þeir á byrðingnum, stundum 2 eða 3, því að ilt var að komast að að róa þeim, og sömuleiðis á flotanum, en höguðu þó svo til, að flotinn var jafnan gangtregari en byrðingurinn. Svo biðu þeir byrjar og sigldu heim og skiftu síðan með sér farminum að hlutfalli réttu. Tekið er það fram, að nærfelt aldrei hlektist byrðingunum á í ferðum þessum. Byrðingarnir lögðust alveg niður fyrir 1700, og fóru menn þá að sækja rekavið á almennum bátum, sex eða áttæringum, og kölluðu það að fara með stokkafarm, en ferðir þessar kölluðu þeir flotaferðir; 8—10 manns voru á bátnum. Þeir völdu sér viðinn, hlóðu bátinn og gerðu flota og höfðu hann í eftirdragi. Þegar alt gekk vel og byr var hagstæður, gat þetta borið sig, en ef veður gerði að þeim, urðu þeir oft að höggva af sér flotann, ryðja farminum, og stundum fórust skipin alveg. Gerði bæði, að farmurinn var illur og skipin léleg. — Á síðustu áratugum minkar mjög reki til landsins.

Heimild:
Alþýðublaðið – Sunnudagsblað, 3. árg. 1936, 26. tbl. bls. 2 og 6.

Kolagröf

Kolagröf.

„Nefvörður“ hafa jafnan valdið ferðalöngum um fornar þjóðleiðir töluverðum vangavöltum.
Nefvarða við Gamla ÞingvallaveginnVörðurnar þær eru hins vegar ekki svo flókið fyrirbæri að ástæða sé að velta vöngum yfir þeim.
Í Tilskipun Danakonungs, Kristjáns VII, 29. apríl 1776 um „Frumvarp til tilskipunar um vegina á Íslandi“ segir í 14. gr.:
„Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leíðbeiningar.“
Af framangreindri ástæðu eru enn til vörður hér á landi er hlaðnar voru í kjölfar tilskipunarinnar.  Slík vörðugerð náði hámarki með heimsókn Danakonungs árið 1907, en lagðist síðan smám saman af, einkum í kjölfar bílvæðingarinnar…

Skipsstígur

Nefvarða við Skipsstíg.

Strandardalur

Selvogsgatan frá Selvogi til Hafnarfjarðar liðast um Strandardal og Hlíðardal á leið sinni milli byggðalaganna.
Þegar komið er upp á efstu brún Strandarheiðarinnar verður Strandamannahliðið (Suðurfararhliðið) síðasti áfangi hennar áður Gatnamót Selvogstötu og Vogsósargötu við Suðurfararhliðiðen lagt er á brún Kötlubrekkna upp í Strandardal. Ofan hliðsins greinist gatan; annars vegar til Selvogs/Hafnarfjarðar og hins vegar að og frá Vogsósum. Gatnamótin eru augljós, en ekki er þó svo með öllu villuljóst að fylgja Vogsósagötunni um heiðina að um sannleiksgötu megi úr gera. Þó má bæði sjá vörður og vörðubrot á leiðinni. Hlíðargata er leið út af þessum götum að Hlíð. Sú gata er vel greinileg þar sem hún liggur undir hlíðinni að bæjartóftunum ofan við Hlíðarvatn. Allnokkra minjastaði má sjá á leiðum þessum, s.s. Hlíðarsel, Hlíðarborg, Borgina undir Borgarskörðum, Vogsósasel, fyrirhleðslur fjárskjólsins við Ána og sauðahússtóftir.
Þegar sagt er frá Selvogsgötunni (Suðurfarargötu), hinni fornu þjóðleið er varð að sýsluvegi undir lokinn (enda ber hann þess glögg merki), kemur t.d. eftirfarandi í ljós: Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: ,,Þórir Haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra, eftir þeirri sögn að, fátækt fólk hafi flakkað í Selvog, bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindarskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni dreginn; Grindaskarð og Grindavík.“

Selvogsgatan ofan Hlíðardals

Önnur sögn er að dætur Þóris Haustmyrkurs hafi heitið Herdís og Krýsa. En sögnin er svona: „Krýsa bjó í Krýsuvík en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki sín á milli. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarás. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefur spúð eldi, því í honum er gígur ekki alllítill. Úr honum hefur runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum, undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Þangað til hafði verið mikil veiði í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur, óætur. Þá lagði Krýsa það á, að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn. En allur silungur skyldi verða að hornsílum.  Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir myndu í henni drukkna.
Tvær vörður við Selvogsötuna ofan við HlíðardalÞetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja út stað. Og einn vetur sem oftar sem oftar var tjörnin lögð ís, þá komu sjómenn frá tveim skipum og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varast að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“
Nú er vinsæl gönguleið hjá útivistafólki að ganga svokallaða Selvogsgötu, en það er gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði um Grindaskörð og í Selvog. Staðreyndin er þó sú að engin fótspor göngufólksins má sjá þar í götunni, ekki einu sinni í mold eða á berangri. Þar hefur enginn stigið niður fæti í langan tíma. Samt sem áður hafa bæði ferðafélög og leiðsögumenn selflutt göngufólk um „Selvogsgötuna“ um margra ára skeið. Hverju sætir? Málið er einfalt; undanfarna áratugi hefur leiðin jafnan verið fetuð í fótspor hvers á fætur öðrum, þ.e. gengið hefur verið um Kerlingarskarð (þegar gengið er suður) og stefnan þá tekin eftir vel varðaðri leið (Hlíðarvegi) að Hlíðargili ofan við Hlíð við Hlíðarvatn. Þessar vörður voru hlaðnar á sjötta áratug 20. aldar af ferðafélagsfólki. Hún tengist því lítið hinni gömlu Selvogsgötu, sem liggur mun austar. Líkja má þessari leið að nokkru við Reykjaveginn, sem stikaðu var árið 1996 sem gönguleið milli áhugaverðra staða. Hann er hvorki gömul þjóðleið né hafði merkingu sem slíkur.
Þegar komið er upp í Strandardal blasir Kálfsgilið við og Urðarfellið ofar. Í Kálfsgili átti galdrapresturinn, Eiríkur Magnússon, á Vogsósum, að hafa urðað Gullskinnu, hina mögnuðustu galdrabók allra tíma. Aðrir segja hana eina hinna fyrstu landnámsbóka. Í fyrrum FERLIRslýsingu um svipað efni er varð að svipuðu tilefni segir m.a.:

Hlíðardalur

„Gengið var upp Selvogsheiði. Gamla Suðurfararveginum (Selvogsgötunni) var fylgt upp heiðina og upp í Strandardal. Þar var ætlunin að kíkja í Kálfsgil og athuga hvort ekki sæist í a.m.k. eitt horn hinnar fornu Gullskinnu, mestu galdrabók allra tíma, sem séra Eiríkur á Vogsósum er sagður hafa grafið þar svo bókin sú arna yrði ekki til fleiri rauna en hún hafði þegar orðið.
Götunni var fylgt upp heiðina. Á henni miðri, skammt vestan og ofan við Vörðufell, var gengið fram á gróna kofatóft. Skammt suðvestan hennar var fallega hlaðið gerði á hól. Húsið var stakt, sem bendir til þess að þar hafi verið sæluhús á heiðinni. Á Vörðufelli er gömul hlaðin fjárrétt Selvogsmanna. Þar eru einnig Smalavörðurnar, en þjóðsagan segir að smalar, sem týnt hefðu einhverjum hlut, hefðu þá hlaðið litla vörðu á fellinu og skipti þá engum togum – þeir fundu hann skömmu síðar. Syðst á fellinu er markavarða. Krossmark er á jarðfastri klöpp sunnan og neðan við hana.
Haldið var áfram upp í Strandardal og stefnan tekin á Kálfsgil. Efst í dalnum er Sælubuna, gömul lind, sem kemur undan hlíðinni. Hana þrýtur aldrei og gat fólk fyrrum jafnan treyst á vatnið úr henni þegar það var við heyaðdrætti í Strandardal og Hlíðardal þar ofan við.

Mogrof

Kálfsgilið var nú þurrt, sem oftar síðari árin. Þegar gengið var upp það miðja vegu mátti, ef vel var að gáð, sjá glitta í skinnpjötlu, nær samlitu grjótinu. Nú var hver sekúnda dýrmæt. Þegar reynt var að nálgast staðinn var sem jörðin opnaðist skyndilega á svolitlu svæði og grjót tók að hrinja úr gilinu. Við það hrúgaðist að staðnum svo pjatlan varð næstum því utan seilingar. Þvílík tilviljun að jarðskjálfti skuli endilega þurfa að hrista gilið þegar einungis vantaði herslumuninn að tækist að krækja í Gullskinnu. En skjálftinn kom aðeins of seint til að hylja bókina alla. Hluta hennar var rifin upp, pakkað í skyndi og er nú í öruggri vörslu og bíður opnunar. Hvort í henni megi finna lýsingu á upphafi landnáms hér á landi eða galdraþulur skal ósagt látið – að sinni. Í öllum látunum hvarf myndavélin niður um gatið, sem myndast hafði. Það kom ekki að sök hvað Gullskinnu snerti, enda ekki unnist tími til að taka kyrrstöðumynd af henni í látunum.
Skuggi segir frá Gullskinnu, eða Gullbringu eins og hann nefnir hana einnig, í riti sínu um Brísingamenn Freyju. Ritið kom út 1948 og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þar er því haldið fram að Gullskinna hafi verið með fyrstu Landnámsbókunum, en aðrar verið byggðar á henni, þótt ýmsu hafi þá verið sleppt. Hún segir t.a.m. frá Krýsum í Gömlu Krýsuvík, aðförinni að þeim og yfirtöku Dana, sem síðar voru nefndir hinir fyrstu Landnámsmenn. Þeir komu frá Noregi. Allt er þetta þó fram sett með fyrirvara um áþreifanlega sönnunarmöguleika.
Selvogsgata ofan HlíðardalsÍ sögnum af galdraprestinum Eiríki frá Vogsósum segir af Gullskinnu. Hún var mikil galdrabók, sem fór víða og margir vildu eiga. Hún barst hingað til lands með útlensku skipi. Það fórst, en maður kom henni í land í Selvogi við illan leik. Eiríki áskotnaðist bókin og notaði hann hana þegar þurfa þurfti. Öfl reyndu að nálgast bókina og taldi Eirkur vænlegast að láta hana hverfa. Segir sagan að hann hafi grafið hana í Kálfsgili. Þar hefur sést til hennar endrum og eins, en ávallt við tilteknar aðstæður, líkt og nú voru. Í bókinni er, skv. sögunum, m.a. kveðið á um hvernig eigi að magna upp óveður, fægja lágþoku og leita regns.
Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu, en hún er mun nær Strandardalnum en áður var talið. Þá var komið að réttinni að vetrarlagi úr vestri, en nú var komið að henni að sumarlagi úr austri. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hlíðardalinn vestan Svörtubjarga.“
Selvogsgatna (Suðurfaravegurinn) var auðvitað fyrst og fremst kaupstaðarleið Selvogsmanna til Hafnarfjarðar með afurðir sínar. Þetta var gamla lestarmannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940, meðan henni var haldið við með ruðningi sem sýsluvegi. Ferðin endaði í seinni tíð við Reykjavíkurveg 23 en farið var um Öldugötu eða Selvogsgötu að húsi Steingríms Torfasonar sem tók á móti ullinni.
Í dag fer útivistarfólk frá Bláfjallaafleggjara, upp Grindaskörð og gengur „gömlu götuna“ en kemur niður við Hlíðarvatn í Selvogi. Þetta er um 15 km ganga og tekur 5-6 tíma. En sjálf kaupstaðarleið Selvogsmanna er rúmlega 10 tíma ferð.
Margir hafa hugsað sér að ganga þessa fornu þjóðleið, en þrátt fyrir þá mörgu er lagt hafa land undir fót, hefur einungis örfáum tekist að ganga Selvogsgötuna til enda. FERLIR stefnir að því, innan ekki of langs tíma (ef Guð lofar), að gefa áhugasömu fólki kost á að feta þessa fornu götu – þá leið sem hún lá.

Möguleg tóft í Hlíðardal

Í lýsingu Konráðs Bjarnasonar segir m.a. um þennan hluta Selvogsgötunnar: „Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt.“
Varða ofan við SælubunuÞegar þessi lýsing Konráðs var gaumgæft af vandvirkni kom Rituvatnsstæðið fljótlega í ljós ofan við Hlíðardal. Um er að ræða vatnsmikið starengi, enda vatnsstæðið af sumum nefnt Starengisvatnsstæðið. Norðvestan þess hafa verið grafin notadrýgri vatnból. Þau hafa orðið til eftir mógröft. Skýrar götur liggja að því frá Selvogsgötunni, hvort sem komið er neðanfrá eða ofan-. Við Selvogsgötuna, á móts við vatnsbólið, eru brot af tveimur vörðum beggja vegna götunnar, er benda hefðu átt á mikilvægið. Frá þeim ber Hvalhnúka í götuna til norðurs.
Við norðanvert vatnsstæðið gæti verið tóft af sæluhúsi, enda áningarstaðurinn sérstaklega mikilvægur, bæði vegna vatnssins og legur hans millum byggðalaganna.
Þegar gengið var um Hlíðardal mátti sjá móta fyrir mögulegum tóftum á tveimur stöðum. Sá nyrðri þótti þó öllu sennilegri. Grjót var að því er virtist í veggjum. Út frá veðrum og legu kom þessi staður fremur til greina sem mögulegt bæjarstæði. Hafa ber þó í huga að hér hefur væntanleg verið fremur um tímabundna „selstöðu“ að ræða en varanlegan bæ. Og þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir búfénaði í „selinu“ heldur einungis fólki til slátta virtist „tóftin“ enn líklegri en ella. Brekkur dalsins voru einstaklega grónar og skrýddar hinum fjölbreytilegustu fjallagrösum.

strandamannahlid

Í Strandardal mátti vel sjá fyrir upptökum Sælubunu, en þegar betur var að gáð reyndist hún safalaus með öllu. Nýlega endurhlaðin varða ofan við hana er á áberandi stað; á klapparrana er aðskilur dalina.
Á baka leiðinni var komið við í Hlíðarborginni.
Þórður Sveinsson frá Bjargi í Selvogi sagðist vera mjög vel kunnugur þarna uppfrá; hefði svo að segja alist þarna upp á ungra aldri. Fyrrum hefði verið farið með tjöld inn að mógröfunum vestan við Stóra-Urðafell þaðan sem gengið hefði verið á rjúpu. Grafinn hefði verið skurður út úr mógröfunum því lömb vildu drukkna í þeim. Þarna hefði verið tekinn mór fyrir Selvogsbæina. Urðafellin væru þrjú; Stóra-Urðafell vestast, Mið-Urðafell og Litla-Urðafell (stundum nefnt Staka-Urðafell. Kálfsgil væri milli Mið- og Stóra-Urðafella. Rituvatnsstæðið rétt sunnan Litla-Leirdals, vestan Suðurferðavegar, hefði stundum verið nefnt Djúpa vatnsstæði.
Frábært veður. Ferðin tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Guðlaug Helga Konráðsdóttir.
-Konráð Bjarnason í Selvogi.

Rituvatnsstæðið

Brennisteinsnámur

Um er að ræða skýrslu um sögu brennisteinsnáms á Reykjanesskaganum frá upphafi, byggt á munnlegum sem og skráðum heimildum, auk ítrekaðra vettvagnsrannsókna.
brennisteinsnam-221Skýrslunni fylgir heildstæð  fornleifaskráning af öllum minjum á þremur megin brennisteins-námusvæðum; Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Öll námusvæðin, sem að öllum líkindum hafa verið notuð meira og minna af og til frá því á 12. öld, hafa að geyma mannvistarleifar frá mismunandi tímum. Mikilvægt er að skrá allar minjar á svæðunum svo áætla megi sögulegt samhengi þeirra og ákveða varðveislu þeirra.
Þrjár fornleifaskráningar hafa áður verið gerðar á Krýsuvíkurnámu-svæðunum, en þær hafa verið mjög ónákvæmar.
Skýrslunni er ætlað að bæta úr framangreindu. Markmið hennar er, eins ávallt þegar FERLIRstilgangurinn er annars vegar; að skrá, miðla og varðveita.
Skýrslan, sem er á annað hundrað blaðsíður, verður ekki gerð aðgengileg á netinu, en verður dreift til valinna aðila er hagsmuna hafa að gæta á svæðunum.
Eftir sem áður ber að hafa í huga, að fenginni reynslu, að sérhver fornleifaskráning er – og getur aldrei orðið – endanleg.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.