Trölladyngja

Ólafur Jónsson skrifaði um „Trölladyngjur“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Trölladyngjur eru tvær á landinu, önnur norðan Vatnajökuls og hin ofan Vatnsleysustrandar. Hér er grein Ólafs lítillega stytt:

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos. Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin langalgengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni. Þetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur. Þessi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson.

Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur. Það er auðgert að finna þessari skoðun stuðning í ýmsum heimildum.
Í bók Eggerts Ólafssonar frá 1751, (Disquisitio antiquario etc.) stendur þessi klausa, eftir að rætt hefir verið um Herðubreið: „Ekki langt þaðan liggur vatn (Lacus), sömuleiðis eldspúandi, Trölladyngjur, nefndar svo af þeim öskuhæðum, sem í því og kringum það rísa.“ Lýsing þessi er að vísu öfgakennd, en getur þó á vissan hátt átt við Dyngjufjöll. Austan við fjöllin hefir til skamms tíma verið stórt vatn, Dyngjuvatn, sem nú er horfið. Líklega hafa menn haft veður af þessu vatni og sett gosin í samband við það. Það er að minnsta kosti ljóst, af þessari lýsingu, að á tíð Eggerts, eru þyrpingar af hólum og hæðum nefndar dyngjur.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af svæðinu norðan Vatnajökuls 1831.

Þyngri á metunum verður þó lýsingin á Trölladyngjum í Ódáðahrauni í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 1772 (Reise igennem Island, bls. 752). Þar segir, er lokið hefir verið að lýsa Herðubreið: „Trolddynger er derimod et lavt Bjerg med nogle og især 3de Afdelinger og forbrændte Spidser, men rundagtige Knolde der imellem.“ (Trölladyngjur eru hins vegar lágt fjall, er skiptist í nokkra en aðallega 3 hluta, með brunatindum og ávölum hæðum á milli.) Þetta er lýsing sjónarvotta á Trölladyngjum og getur hún prýðilega átt við Dyngjufjöll.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Trölladyngju á Reykjanesskaga 1831.

Níutíu árum síðar lýsa þeir Preyer og Zirkel Trölladyngju mjög á sama veg og þeir Eggert og Bjarni gerðu. Í bók þeirra (Reise nach Island) segir svo: „Trölladyngja zwischen dem Ódáðahraun und dem Vatnajökull gelegen, ein nicht besonders hoher Berg mit drei Hauptgipfeln“. (Trölladyngja milli Ódáðahrauns og Vatnajökuls, ekki mjög hátt fjall með þrem aðaltindum). Bezta heimildin um það, að Dyngjufjöll og Trölladyngjur séu eitt og sama, er ritgerð Jónasar Hallgrímssonar frá 1839, „De islandske Vulkaner“ (Rit J.H., IV., bls. 163). Þar segir svo: „Inde i Landet, syd for Myvatnsfjældene findes en stor Bjærgklynge, som af Myvatnsbeboerne kaldes Dyngjufjöll, men den hedder ogsaa Trölladyngjur og har en Række af Vulkaner, som har avgivet Materialet til en stor Del af Ódáðahraun o.s.v.“ (Inn til landsins, sunnan við Mývatnsfjöllin, er mikil fjallþyrping, sem Mývetningar nefna Dyngjufjöll, en hún heitir líka Trölladyngjur. Þar eru margar gosstöðvar, sem hafa lagt til efnið í mikinn hluta Ódáðahrauns.) Þessi frásögn sýnir, að um 1840 er Trölladyngjunafnið ennþá loðandi við Dyngjufjöll, en það síðara þó orðið algengara, að minnsta kosti sums staðar.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – Íslandskort þeirra um 1770.

Að lokum skal þess getið, sem séra Sigurður Gunnarsson segir um þetta í grein sinni: „Miðlandsöræfi Íslands“ (Norðanfari, 16. ár, bls. 28). Hann telur örnefni í Ódáðahrauni þannig, að fyrst sé Trölladyngja skammt frá jöklinum, þá Dyngjufjöll með Dyngjufjalladal eða Öskjunni. Síðan segir orðrétt: „Norðanmegin ganga út frá þessu hraunfjallahálendi hæðir miklar- og fjalldyngjuklasar, vestur og norðvestur af Herðubreið. Þar eru Trölladyngjur eða Dyngjufjöll hin ytri og engin mjög há eða þá nokkuru lægri en hraunfjöllin innfrá“. Þessi frásögn sýnir prýðilega þann rugling, sem kominn er á örnefnin. Trölladyngjur heita nú bara Dyngjufjöll. Trölladyngjunafnið hefir klofnað í tvennt, eintölumynd, sem hefir færzt suður á hraunbungu, sem áður hét Skjaldbreiður, og fleirtölumynd, sem flutzt hefir norður í Herðubreiðarfjöll.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort þeirra af norðanverðum Vatnajökli.

Það er því líkast, sem þessi örnefnaflutningar haldist í hendur með mælingum og rannsókn á landinu og er slíkt skiljanlegt. Alþýða manna lét sig öræfin, sem lágu utan við takmörk afréttanna, litlu skipta, og auðvitað hafa þessi örnefni verið orðin á talsverðu reiki, þegar fræðimennirnir komu til skjalanna. Rannsóknir og mælingar landsins þarfnast fastra örnefna og hefir því gömlu örnefnunum, sem orðin voru á reiki, verið slengt niður eftir ágizkun, eða að minnsta kosti án ýtarlegrar rannsóknar. Þetta er í raun og veru ekki verra en viðgengizt hefir fram á þennan dag. Erlendir og innlendir fræðimenn og ferðalangar fara fram og aftur um óbyggðir landsins og ausa örnefnum, af miklu örlæti, á báðar hendur. Sum þessi örnefni eru jafnvel útlend eða þá mjög vanhugsuð og ósmekkleg. Önnur lenda á stóðum, sem áður höfðu prýðileg nöfn, og getur það kostað töluverða fyrirhöfn að losna aftur við þessi uppnefni.

Eggert og Bjarni

Eggerts og Bjarni – kort þeirra af Reykjanesskaga um 1770.

Af framanrituðu má draga þá ályktun og telja fullvíst, að Dyngjufjöll hafi heitið Trölladyngjur og mun enginn, sem þar er kunnugur, vilja neita því, að þau hafi gosið oft síðan land byggðist. Það var Thoroddsen líka fullkomlega ljóst og má því furðulegt kalla, að hann, sem var kunnari gömlum heimildum en flestir aðrir, skyldi ekki koma auga á örnafnaflutning þann, sem þarna hefir átt sér stað. Líklega hafa Herðubreiðarfjöll líka verið kölluð dyngjur, því svo virðist, sem það hafi verið málvenja að nefna þyrpingar af óreglulegum móbergsfjöllum dyngjur eða fjalldyngjur. Nú hefir þetta heiti algerlega skipt um merkingu, svo það er notað um regluleg einstök bungumynduð eldfjöll, sem sameiginlegt, fræðilegt nafn, ekki aðeins í íslenzkum fræðum, heldur líka í sumum erlendum jarðfræðiritum.

Trölladyngja

Trölladyngja og Dyngjufjöll.

Trölladyngja hefir líklega ekki gosið eftir að sögur hófust, en Trölladyngjur, þ.e. Dyngjufjöll, hafa vafalaust gosið oft eftir að landið byggðist. Þótt það sé merkilegt, að Thoroddsen skyldi ekki sjá þetta, þá er það ennþá furðulegra, að Jónas Hallgrímsson, sem vissi að Dyngjufjöll voru sama og Trölladyngjur, skuli fullyrða, að öll Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi. Þessa niðurstöðu reynir hann að byggja á frásögnum annálanna af gosunum, en tekst ákaflega óhönduglega og virðast mér rök hans stundum sanna alveg hið gagnstæða. Vil ég nú rekja ummæli annálanna um þessi gos og draga af þeim þær ályktanir, sem auðið er.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl. ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóðar svo: „Eldur í Trölladyngjum. Húsrið og mannskaði.“ Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: „Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. Í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls ofar, Urðarháls og gígur neðar.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: „Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á Íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“ Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II., bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku- eða vikurgos, og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nokkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t.d. setjum orðin: „Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu. Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um árið 1341: „Eldur í Heklufjalli með svo miklu sandfoki um vorið, að dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.

Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum. Svo er ekki heldur ósennilegt, að samtímis gosi í Herðubreiðarfjöllum, hafi gosið í Trölladyngjum, þ.e. Dyngjufjöllum. Árið 1875 gýs til dæmis bæði í Dyngjufjöllum og í Sveinagjá, sem er miklu norðar á öræfunum. Öll þrjú gosin, sem Isl. ann. segja frá 1341, hafa líklega verið ösku- eða vikurgos. Heklugosið gerði mestan usla um Rangárvelli, en langsennilegast er, að askan, sem féll um Borgarfjörð og Skaga og allt þar á milli, hafi komið frá Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Að öllu þessu athuguðu, er það ákaflega sennilegt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið 1340 eða 1341, að minnsta kosti má fullyrða, að þessi ár hafi gosið einhversstaðar í nágrenni þeirra.

Trölladyngja

Trölladyngja og Grænadyngja á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Sesseljupollur fyrir miðri mynd.

4. íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki og ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“
Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o.s.frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“
Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku, sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

Ég vil strax taka það fram, að mér virðast öll rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Þetta er einmitt tekið fram til þess að gefa frásögninni kraft og sýna, hve stórfenglegt gosið var. Það eru nokkur dæmi til þess, að vikurhrannir hafa rekið óraleiðir með ströndum landsins og leiftur frá sumum eldgosum sést um land allt.
Auðsjáanlega styðjast flestar þessar frásagnir við sameiginlega heimild, en þess vegna er einkennilegt, hve tímasetningin er ósamhljóða. Þó gæti þetta verið gostímabil og eldarnir verið uppi öðru hvoru allt tímabilið, en einhverntíma á þessu tímabili hefir komið mikið vikurgos, sem svo er mismunandi árfært af höfundum annálanna. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn. Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannáll skýrir frá, en Hannes Finnsson telur þar hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.
5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44), Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta.
Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.

Eggert og Bjarni

Eggert og Bjarni – kort um 1770.

Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1941, Trölladyngjur – Ólafur Jónsson, bls. 76-88.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: „Fóðrast kann iii kýr “bjarglega“ . En um Þorbjarnarstaði segir : „Fóðrast kann iii kýr, “naumlega“. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að „fiskgeymslunni“. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Kolbeinshæðarskjól

Ætlunin var að ganga frá Gerði og fylgja Gerðisstíg upp á Kolbeinshæðarstíg. Hann liggur í Kolbeinshæðarskjól.
Í örnefnalýsingur fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellrum er hraunhæð, nefnd Leifar KolbeinshæðarvörðuKolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin. Milli Þorbjarnarstaða-Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.“ Hér er talað um bæði skjól og helli í Kolbeinshæð, en jafnan hefur einungis verið getið um Kolbeinshæðarskjólið á þeim slóðum.
Þá var ætlunin að halda áfram upp í Gjásel, en nafngiftir á seljum þar efra virðast hafa ruglast. Í örnefnalýsingunni er selið nefnt „Fornasel“, en það er nokkru ofar, sunnan við Brunntorfur. Þá segir: „Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“
Þegar lagt var upp frá Gerði kom í ljós að „Gerðarstígur“ virðist ranglega merktur. Hann er svolítið vestar en raun ber Kolbeinshæðarhellirvitni, enda sú leið, sem merkt er, næsta torfær. Stígurinn liggur um suðurgarðhlið Gerðis, en bærinn dregur nafn sitt af gerðinu skammt austan (ef miðað er við útnorður) þess. Þaðan liggur stígurinn upp upp að jaðri hraunbungu. Myndarleg varða skammt austar (norðar) á ekki við stíginn þótt svo gæti virst við fyrstu sýn. Eftir að jaðrinum er komið er auðvelt að fylgja stígnum upp hraunið, gegnum Selhraunið og áfram upp í Klofa norðan Þorbjarnarstaða-Rauðamels.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði segir m.a.: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól).

Varða ofan við fjáskjól í Kolbeinshæð

Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður) og Brunntorfuhellir.“
Hér hefur mönnum eitthvað förlast því Hellishólsskjól (-hellir) er syðst í Brunntorfum, „í Brunntorfukjafti“, en nefndur hellir í Hrauntungum heitir Hrauntunguhellir og er norðarlega í tungunum.
„Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
GerðisstígurÍ skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.“ En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.
Í suðvestur uppi á hrauninu frá Efri-Hellum er hraunhæð, nefnd Kolbeinshæð, og er vel gróið kringum hana. Sunnan í henni er vestanvert Kolbeinshæðarskjól, en austanvert er Kolbeinshæðarhellir. Uppi á hæðinni er Kolbeinshæðarvarða. Kolbeinshæðarstígur liggur hér um skarð í hæðinni suður og upp hraunið, og er þá komið að stórri, ferhyrndri laut þarna í hrauninu. Gísli Sigurðsson segir, að hún sé kölluð Kvíin, en það kannast heimildarmenn sr. Bjarna ekki við, telja þó, að það geti staðizt. Hraunflákinn milli Rauðamels og Kolbeinshæðar heitir Gráhelluhraun.
Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“
Hér virðist vera um einhvern rugling að ræða. Af vettvangsferðinni að dæma er Kolbeinshæðarskjól austan í hæðinni, með fallegri fyrirhleðslu, sbr. hér að ofan. Kolbeinshæðarhellir er svolítið vestar, svo til undir Kolbeinshæðarvörðu. Svert birkitré hefur vaxið fyrir munnann. Hellir þessi hefur ekki verið notaður sem fjárskjól, en gæti verið ein ástæðan fyrir að fjárskjól hafi orðið til á þessum stað. Skammt vestar er hins vegar annað skjól, ákjósanlegt fjárskjól. Varða er ofan við það. Líklega hafa fyrrnefnd örnefni færst til í örnefnalýsingunni og jafnvel ekki öll þekkt örnefni verið skráð, ef marka má framangreint.
Við leitina var gengið fram á vatnsstæði á klapparhæð, skammt frá fjárskjólinu. Við það var gömul varða.
Ekki vannst tími til að fara upp í Gjásel að þessu sinni, en um sambærilega ferð í selið þegar leitað var að Gránuskúta má lesa HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Spóaegg við Kolbeinshæðarskjól

Hrísbrúarsel
Skoðaðar voru seljarústir við Leirvogsá norður undir Mosfelli (sennilega frá Hrísbrú) og síðan norðaustan við Leirtjörn (Markúsarsel).
Selrústirnar selsins frá Hrísbrú er norðan undir austanverðu Mosfelli, á milli Mosfells og Leirvogsár. Í örnefnaskrá Minna-Mosfells segir m.a.: “ Neðar við Leirvogsá [ norðan Mosfells] heita mýrarnar Stóra-Sveinamýri og Litla-Sveinamýri. Það er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir.“

Markúsarsel

Markúsarsel.

Í örnefnaskrá fyrir Mosfell segir auk þess: “Merkin móti Minna-Mosfelli eru varða austast á Selás“, sem þá hlýtur að vera norður undir Leirvogsá … . „Meðfram ánni heita Sveinamýrar…. . Ketilhylur [í Leirvogsá]. Þar vestur við er mói nefndur Sel og Ketilvellir er smáhóldrag, sem selið stendur í.“ Þetta með Ketilhylinn er líklega eitthvað málum blandið því í riti E.J. Stardals (sérprentun F.Í. 1985) segir m.a.: “Örskammt neðan við Ketilhyl liggur annað gljúfur niður að Tröllagljúfrum sem heita Rauðhólsgil.“. Þetta passar nú ekki alveg landfræðilega séð nema að tveir Ketilhyljir séu í Leirvogsá með stuttu millibili? Ósennilegt er það þó! Á veiðikorti yfir Leirvogsá 1989 er Ketilhylur skammt fyrir neðan Tröllafoss, neðst í gljúfrunum.
Selsrústirnar eru ógreinilegar, orðnar nær jarðlægar, en þó má vel áætla þær. Stekkurinn, ílangur, er ofar í hlíðinni.
Samkvæmt Jarðabókina, með tilliti til framangreindrar staðsetningar, er einna líklegast að þetta sé selstaða frá Hrísbrú þó hún sé núna í Mosfellslandi eða fast á mörkum. Í jarðabókinni segir um Hrísbrú: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.“ Mosfell á selstöðu „undir Grímarsfelli“ og þá er mjög líklega átt við Helgusel. Svo hefur einnig verið um Jónssel við Jónsselslæk og Mosfellssel undir Illaklifi suðaustan við Leirvogsvatn. Einnig eru selstóftir við Geldingatjörn, sem enn eru ókannaðar, sbr. hér á eftir.

Egilssaga

Úr Safni til Sögu Íslands og ísl. bókmennta (aths. við Egils Sögu), bls. 272.

Helgusel er í Helguhvammi austan við Köldukvísl skammtofan við Hrafnaklett. Sjá má hinn fallega Helgufoss í suður af selinu (sjá aðra

Markúsarsel

Markúsarsel.

FERLIRslýsingu). Í fyrstu virðist þar ekki raunveruleg selstaða því svo landþröngt er þarna. Hringlaga fjárborg er vestan við selið, líklega frá svipuðum tíma og selrústirnar. Eitthvað er þetta þó sem passar ekki inn í heildarmyndina af fjárborgum á svæðinu yfirhöfuð, en það skýrsit væntanlega við nánari skoðun. Spurning er og hver átti selstöðuna austan Leirvogsvatns því sagt er að hún hafi verið frá Mosfelli. Ef svo er, þá spurning á hvaða tíma hvor þessarra selstaða var?
Nafn Hrísbrúar er á vegskilti í Mosfellsdal, á vinstri hönd þegar ekið er austur Þingvallaveg. Sumir myndu vilja velta vöngum yfir hvar nefnd Hrísbrú hafi staðið. Eftirfarandi frásögn í bæjarblaðinu Mosfellingi ætti að geta varpað svolitlu ljósi á það: „Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Um það hvort framangreinst sel geti verið allt að því frá tímum Egils Skallagrímssonar, eða jafnvel eldra, skal ekkert um sagt hér, en þó er ljóst að allt of fá sel hér á landi hafa verið rannsökuð m.t.t. aldursgreininga. Telja má víst að selstöður hafa verið hér á landi allt frá því að fyrstu menn með bústofn er settust hér að.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel.

Markúsarsel er nefnt í örnefnaskrá Seljabrekku. Rústirnar standa NA við Leirtjörn, skammt ofan við tjörnina. Slóði liggur frá norðanverðum Þingvallavegi, skammt austan gatnamótanna að Selholti og Selvangi (Hrafnhólum) að sumarbústað sunnan við tjörnina. Merkileg og stór varða er á Skyggni skammt þarna norðan við. Varðan er í landi Skeggjastaða því í merkjalýsingu Mosfellsheiðar í landamerkjabréfi Stóra Mosfells frá árinu 1890 segir m.a. um landamerkin: „Þaðan í Sýlingarstein austan til á Skógarbringum og er hann hornmark milli Laxness og Skeggjastaða.“ Sýklingarsteinninn er skammt ofan við Selholt, nokkru vestan Leirtjarnar.

Markúsarsel er dæmigerð selrúst, tvö hús, annað (það vestara) tvískipt með misstórum rýmum. Af tóftunum að dæma virðast þær ekki svo ýkja gamlar, ferhyrnd rýmin sjást enn vel og mótar fyrir hleðslum. Neðri tóftirnar (tvöfalda rýmið) hafa væntanlega verið eldhús (vestar) og íverustaður. Líklegt má telja að austari tóftin hafi verið geymslurými. Uppspretta er skammt norðan við hana og hefur það þótt búbót á vetrum.
Skammt sunnar (30-50 m) mótar fyrir stekk eða einhverju slíku. Hann er þó helst til langt í burtu frá tóftunum miðað við hefðina.
Vestan við selið hefur grasi vaxið kargaþýfi verið ræst fram og raskað. Ekki er ólíklegt að stekkurinn hafi verið þar því jafnan er vel gróið í kringum mannvirki sem það, auk þess sem stutt hefur þá verið í vatn.
Langa tóftin í Markúsarseli (10 m) er líklega nýrri tíma fjárhús (langhöluhús, fyrstu fjárhús sem byggð voru á landinu) svipað því sem er við og ofan skógræktina við Rauðavatn, en á því er eins og heytóft aftan við en hins vegar ekki við þessa.

Markúsarsel

Markúsarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er fyllilega ljóst hvaðan Markúsarsel við Leirtjörn gæti verið. Ekki er útilokað að upplýsingar um það kunni að leynast einhvers staðar í fornleifaskrá fyrir sveitina.
Í athugasemdum Guðmundar Þorlákssonar bónda í Stardal við handrit Ara Gíslasonar, sem borið var undir hann 23/ 8 1968, kemur m.a. fram að „graslendið sunnan Langahryggjar og upp af Leirtjörn heiti Markúsarsel og eru þar gamlar húsatættur. Sagnir eru um, að þar hafi verið búið á fyrra hluta síðustu aldar.“ Fróðlegt væri að fá nánari fregnir af þeirri búsetu, ekki síst fyrir ástæðu hennar. Heillegt og reglulegt Markúsarselið gæti hafa mótast af þeirri búsetu, enda ekki keimlíkt öðrum seljum á þessu svæði, sem telja má forn. Líklegt þykir þó að selin í Mosfellsheiði, ólíkt því sem gerðist á Reykjanesskaganum, hafi sum hver byggst upp sem kot eftir að selstöður lögðust af á þessu svæði er líða tók á 19. öldina. Sum seljanna gætu hafa verið í notkun í ákveðin tíma, en síðan annað hvort verið lögð af, endurbyggð eða færð annað. Þannig gæti t.d. Helgusel og Mosfellssel hafa verið frá Mosfelli, en á sitt hvoru tímaskeiði. Af ummerkjum í Mosfellsseli undir Illaklifi að dæma virðist það nokkuð „nýlegt“ af seli að vera. Þó stangast það á við aðrar kenningar um að selstöður hafi í fyrstu verið sem næst landamörkum (m.a. til að nýta beitarlandið sem best og tryggja vitund annarra um mörkin), en færst nær bæjum þegar fólki tók að fækka og ræktun heimavið hafði verið orðin notadrjúgri.

Að sögn íbúa á Selvangi, íbúðarhúsi því sem stendur næst Leirtjörn, er líklegt að Markúsarsel hafi verið eitt seljanna frá Mosfelli eða Skeggjastöðum. Í fyrrnefnda selinu segja sagnir að hafi búið kona veturlangt skömmu fyrir aldamótin 1900. Íbúðarhúsin þarna ofan vegar (Þingvallavegar) voru byggð um 1950 og Seljabrekka, neðan vegar, um 1930.
Ábúandinn í Seljabrekku benti FERLIRsfélögum á Markúsarsel þegar svæðið var gaumgæft, auk Jónssels og óþekkts sels við Geldingatjörn.Heimild m.a.:
-Óbyggðanefnd.
-Mosfellingur – 10. tbl. 4. árg. föstudagur 19. ágúst 2005.
-Örnefnaskrá fyrir Minna-Mosfell.
-Örnefnaskrá fyrir Mosfell.

Markúsarsel

Markúsarsel.

 

Klofasteinn

Eftirfarandi umfjöllun er dæmi um hversu litla virðingu nútímafólkið ber fyrir fortíðinni. Á einum mannsaldri hafa sögulegar minjar verið nánast afmáðar, ýmist vegna vanþekkingar og/eða hugsunarleysis:

Í „Fornleifaskrá Kópavogs – Endurskoðuð“, skráð af Bjarna F. Einarssyni 2019 segir m.a. um landamerkjasteininn Klofastein:

Klofasteinn vestri

Klofasteinn

Klofasteinn.

„Vestan í malarstíg, um 14 m N af Fossvogslæk. Innan skógræktargirðingar Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Steinn, um 1×1,6 m stór og 0,9 m hár. Mosavaxinn. Steinninn liggur í vegkanti og hefur efni í veginum runnið að steininum austanverðum.
Um 10 m N af steininum er austasti hluti Faxakeldu (Faxafens), sem teygir sig svo nokkra tugi metra til vesturs. Hún er um 50 m löng og 5 m breið það sem hún er breiðust í vestri. Skurðir hafa verið grafnir við kelduna og einkenna þeir hana nú. Mætast tveir skurðir þar sem hún er breiðust. Einnig kallaður Norðlingasteinn, Klofningssteinar og Klofningur.“
Klofasteinn er í skóglendi skammt norðan Fossvogslækjar.

Í Örnefnaskrá – Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess; safnað hefur Adolf J.E. Petersen – Handrit. Örnefnastofnun segir um Klofastein:
„Er í beinni merkjalínu milli Kópavogs – og Digranesjarða, þó innan skógræktargirðingarinnar“.

Faxafen

Faxafen (Faxakelda).

Í „Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi, eftir Guðlaug R. Guðmundsson segir: „Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur): „Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.“ Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891.“
Faxafen (Faxakelda) hefur nú að mestu verið þurrkuð upp með fráveituskurði og fyllt upp með afklippungum frá Skógræktarstöðinni.

Kaupmannsklettur (Kaupmannaklettur)

Klofningssteinn

Klofningssteinn eystri.

„Er nefndur í landamerkjalýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelnum.“ Keldan er að líkindum Faxakelda (Faxafen). Svo virðist sem Kaupmannsklettur sé annað nafn á svokölluðum Klofasteinum eystri sem Benedikt Grönddal sýnir á korti sínu um landamerki Bústaða, en kort hans er gert samkvæmt mælingum og teikningu Sveins Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu eru klofasteinar eystri sýndir norðan við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland.“
Klofninssteinninn eystri er enn sunnan fráveituskurðar neðan Hörgslands. Skammt norðvestar eru svonefndir „Klofningar“.

Klofasteinar eystri

Benedikt Gröndal

Bendikt Grönddal (1826-1907).

Eru merktir á kort Benedikts Gröndals frá 1891 (sjá Klofastein vestri) um landamerki Bústaða, við Fossvogslæk, rétt sunnan við núverandi Haðaland. Hér gæti verið um sama landamerki að ræða og Eggert Guðmundsson nefnir í landamerkjalýsingu sinni árið 1826: „Þessum læk (Fossvogslæk) er fylgt og keldu þeirri sem gengur fram allt á móts við Kaupmannsklett á Bústaðamelum.“ Vorið 1856 fluttist biskupsetrið frá Laugarnesi aftur til Reykjavíkur. Þá var gerð landamerkjalýsing jarðarinnar og segir þar m.a.: „…úr Hanganda uppí Faxakeldu; úr Faxakeldu uppí Klofningssteina, þaðan og í stein þann, sem stendur fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Bústaðaborg.“ Nær samhljóða [er] landamerkjalýsing í Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359 með hendi Péturs Guðjónssonar. Þessar lýsingar hafa ættarmót landamerkjalýsinga 1605, 1747 og 1785. Vel má álykta af þessu að Klofasteinar eystri, Kaupmannsklettur og Klofningssteinar séu á svipuðum slóðum ef ekki sömu steinarnir.

Klofastein vestri

Klofningsstein

Klofningssteinn vestari.

„Er sýndur á korti Benedikts Gröndals frá árinu 1891 við Fossvogslæk neðanverðan, líklegast gamla landamerki Kópavogs og Digraness. Í flestum merkjalýsingum liggur línan frá Tjaldhóli fyrir austan Norðlingavað á Fossvogslæk og í stein þann sem er inni í Skógræktargirðingunni. Steinninn eða steinarnir sem miðað var við hafa fengið mörg nöfn í landamerkjadeilum. Ditlec Thomsen keypti Bústaði árið 1840. Sonur hans H.Th.A. Thomsen vildi færa sér í nyt hinar óljósu landamerkjalýsingar og stækka Bústaðaland. Hann hóf deilur um landamerki við bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1890. Í því máli fullyrtu vitni að steininn við vaðið á Fossvogslæk héti Norðlingasteinn og vaðið Norðlingavað. Thomsen taldi aftur á móti að steininn héti Klofningssteinn (Skjalas. Reykjavíkur. aðfnr. 1366). Bæjarstjórn Reykjavíkur dró fram fornar heimildir um landamerki, vitnisburði Örnólfs Sturlaugssonar og Þórhalls Odssonar frá 9. og 25. febrúar 1605. Samkvæmt þeim var Klofningssteinn fyrir norðan Faxakeldu, í Fossvogsmýri þar sem fer að halla upp hinum megin. (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1359). Í landamerkjadeilunum 1891-1893 er landamerki þetta einnig nefnt Klofningar og Klofningssteinar. Benedikt Gröndal teiknaði og lagði fram uppdrátt þar sem þrætulandið er sýnt samkvæmt mælingum og teikningum Sveinssonar búfræðings, dagsettri 17. júlí 1891. Á kortinu er Klofasteinn sýndur neðarlega við Fossvogslæk en Klofasteinar eystri ofar og austar. Til þess að rugla málið enn meira má geta þess að bræðurnir Guðmundur og Kristján Ísakssynir töldu að Tvísteinar innan skógræktargirðingarinnar væru hið forna landamerki. Í örnefnaskrá Adolfs J.E.P segir að Klofasteinn sé í beinni merkjalínu milli Kópavogs og Digranesjarðar, þó innan skógræktargirðingar.“

Klofasteinn (Klofningssteinar) – Klofasteinn vestri

Einbúi

Einbúi.

Í skrá Adolfs J.E.P. er fullyrt að Klofningssteinar séu nú horfnir en hafi verið austantil við Borgarspítalann. Á korti Benedikts Gröndals frá 1891 er merktur steinn á svipuðum slóðum og nefndur Einbúi.

Faxakelda (Faxafen) er í Fossvogsmýri“. Samkvæmt lýsingu Eggerts Guðmundssonar frá 1826 (Skjalas. Reykjav.m aðfnr. 1359) nær keldan frá læknum vestanverðum að Kaupmannskletti (líklega Klofasteinum eystri). Um Faxakeldu segir Adolf J.E.P.: „Líka nefnd Faxafen. Það er lítil tjörn í Fossvogsdal, norðan við býlið Lund.“

Einbúi

Einbúi.

„Einbúi er austarlega í Fossvogsdal, miðja vegu milli gróðrarstöðvarinnar Merkur og Smiðjuvegar, gefur að líta sérkennilegar grjóthrúgur. Við nánari skoðun sést að steinarnir eru kantaðir og hafa verið klofnir með fleygum og höggnir til. Þetta eru minjar um tíma þegar hugmyndir voru stórar en atvinna lítil. Upp úr 1930 hafði heimskeppan mikil áhrif á Íslandi og margir misstu vinnu sína. Ríki og sveitarfélög réði þá menn í s.k. atvinnubótavinnu, einkum að vetrarlagi. Á þessum tíma voru uppi hugmyndir um að leggja járnbraut milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, á svipuðum slóðum og Reykjanesbrautin liggur nú. Steinunum var ætlað að vera undirstöður fyrir járnbrautarteinana sem aldrei voru lagðir. Sambærilegt grjótnám fór fram við Einbúa við Skemmuveg, en atvinnubótavinnunni var hætt árið 1936″.

Í Byggðakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir Háleiti 2014 segir m.a.:

Bústaðir

Bærinn Bústaðir (túnakort frá 1916) staðsettur á nýlega loftmynd.

„Bústaðaborg: Samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum lágu vesturmörk jarðarinnar [Laugarness] frá steini nokkrum á Kirkjusandi að Ámundaborg, sem talin er hafa verið fjárborg milli Grensáss og Rauðarárholts, og þaðan suður yfir Kringlumýri og Mjóumýri ofan í klettinn Hanganda í botni Fossvogs. Þaðan munu mörkin hafa legið til austurs um Fossvogsmýri að upptökum Fossvogslækjar í Faxakeldu svokallaðri og þaðan til norðausturs eftir Bústaðamelum að Bústaðaborg, sem var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Frá Bústaðaborg lá landamerkjalínan norður um Sogamýri í svonefnda Þrísteina, sem munu hafa verið skammt frá þar sem nú eru gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs, og þaðan fram eftir Laugarási í Líkavörðu skammt sunnan við Vatnagarð.“
„Bústaðaborg, var fjárborg í lægðinni milli Bústaðaholts og Grensáss. Talið er líklegt að býlið Brekka hafi verið síðar á sama stað“.

Í Landsyfirréttardómi og hæstaréttardómi í íslenskum málum 01.01.1895 má dóm nr. 47/1892: H. Th. A. Thomsen gegn bæjarstjórn Reykjavíkur:

Fossvogur

Fossvogur – landamerki.

„Mál þetta, sem er út af ágreiningi um landamerki milli Bústaða, eignarjarðar áfrýjandans, og Laugarness, er Reykjavíkurkaupstaður á, var dæmt í landamerkjadómi Kjósar- og Gullbringusýslu 7. desembr. 1891.
Samkvæmt fornum skjölum, lögfestum og vitnisburðarbrjefum, er legið hafa fyrir merkjadóminum og málsaðilar hafa báðir tekið gildi í því efni, eiga landamerki milli Laugarness og Bústaða að vera þessi: úr Þrísteinum sjónhending í Bústaðaborg, þaðan í stein fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg og þaðan í Klofningssteina. Málsaðilar hafa einnig verið sammála um pað, hvar Þrísteinar sjeu og Bústaðaborg, en ágreiningurinn er um, hvar merkjasteinninn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg sje og hvar Klofningssteinar sjeu, og vill áfrýjandinn telja merki þessi töluvert vestar en hin stefnda bæjarstjórn. Merkjadómurinn hefur nú dæmt merkin vera um Klofningssteina þá, er hin stefnda bæjarstjórn telur vera hina rjettu Klofningssteina, þannig, að þeir myndi hornmark Laugarnesslands að sunnan og austan gegnt Bústaðalandi, og verður það ákvæði dómsins eigi átalið, þar sem full vitnasönnun virðist framkomin í málinu fyrir því, að örnefnið Klofningssteinar, sem er hið viðurkennda hornmark Laugarness að sunnan gegn Bústöðum, sje þar, sem dómurinn setur það.

Fossvogur

Fossvogur – Klofasteinn.

Að því er snertir hitt markið, sem þrætan er um, steininn fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, þá hefur merkjadómurinn eigi getað fundið neinn stein í þeirri stefnu frá Bústaðaborg, er eðlilega geti talizt merkjasteinn, og áleit því eigi hægt að miða merkin við neinn slíkan stein, en þar sem byggja þótti mega á því, hvar Klofningssteinar hinir rjettu væru og hver væri aðalstefna markalínunnar upp úr voginum norður eptir, þá áleit merkjadómurinn rjettast, að draga stefnuna úr tjeðum Klofningssteinum, sem eru fyrir sunnan girðingar áfrýjandans, beint norður í Bústaðaborg.
Umboðsmaður hinnar stefndu hæjarstjórnar krafðizt þess fyrir merkjadóminum, að merkin væru ákveðin úr Bústaðaborg í stein, er hann tiltók og áleit vera fyrir vestan og sunnan borgina, og úr steininum í Klofningssteina. Áfrýjandinn heldur því nú, samkvæmt því sem áður er sagt, fram, að bein lína úr Bústaðaborg falli töluvert austar en um tjeðan markastein hinnar stefndu, og þannig liggi merkjalína dómsins lengra inn í sitt land heldur en krafa stefndu hafi verið til, en þessu er mótmælt af hálfu stefndu.

Fossvogur

Fossvogur – Klofningar.

Um afstöðu hjerumræddra örnefna og merkja sín á milli verður engin ályktun dregin af legu þeirra á uppdráttum þeim, er fram hafa komið í málinu, því að þeir hafa eigi verið álitnir nákvæmir að þessu leyti, hvorki af málsaðilum eða dómendum; en merkjadómendurnir hafa vottað það í dómi sínum 28. júní 1890, er þetta sama mál var fyrr dæmt, að steinn sá, er bæjarstjórnin miðaði merkin við og átti að hennar áliti að vera fyrir vestan og sunnan Bústaðaborg, væri því nær í hásuður frá borginni, og eptir uppdráttum beggja málsaðila, einkanlega uppdrætti þeim, er áfrýjandinn hefur lagt fram eru Klofningsteinar (eystri) nokkuð vestar en í hásuður frá Bústaðaborg; en ef þetta hvorttveggja er rjett, leiðir þar af, að bein lína úr Bústaðaborg í Klofningssteina verður fremur fyrir vestan en fyrir austan optnefndan markastein bæjarstjórnarinnar. Þegar á þetta er litið, og Þar sem áfrýjandinn hefur ekki fært neinar sannanir fyrir þessu kæruatriði sínu, verður eigi álitið sannað, að merkjadómurinn hafi gjört sig sekan í lögleysu í þessu efni, og með því að eigi eru aðrar ástæður til að ónýta dóminn, ber að staðfesta hann í öllum greinum.“

Trjáræktarsvæðið í Fossvogsdal

Fossvogur

Skógrækt Reykjavíkur í Fossvogi.

Svæðið sem um ræðir er milli lands Lundar í Fossvogsdal og svæðis sem Skógræktarfélag Reykjavíkur átti til skamms tíma. Erfðafestusamningur fyrir þetta land sem nefnt var Digranesblettur 8 var undirritaður árið 1945 af Geir Gunnlaugssyni í Eskihlíð (síðar Lundi) og Hermanni Jónassyni fyrrverandi forsætisráðherra. Áður hafði landið verið nytjað frá kaupstað og er þess getið í fasteignamati árið 1940. Hlutur Geirs var 10,98 ha en Hermanns 2,25 ha. Síðar eignaðist Skógræktarfélag Reykjavíkur hlut Hermanns, norðurhluta svæðisins, en landið er nú í einkaeign. Á þessum slóðum rennur Fossvogslækurinn að mestu í sínum náttúrulega farvegi, en á kafla hafa bakkar hans verið hlaðnir úr grjóti. Umtalsverð trjárækt er á svæðinu, elsti hlutinn er verk Hermanns frá 5. áratug síðustu aldar.

Sem fyrr segir er Klofasteinn vestri sýndur á korti Benedikts Gröndals frá 1891 við Fossvogslæk neðanverðum (Skjalas. Reykjav. aðfnr. 1366). FERLIR óskaði eftir afriti af uppdrættinum við skjalas. Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum síðan, en svar hefur enn borist.

Heimildir:
-Örnefnaskrá. Örnefni í heimalandi Kópavogskaupstaðar og næsta nágrennis þess. Safnað hefur Adolf J.E. Petersen. Handrit. Örnefnastofnun.
-Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. Jarðirnar Digranes, Fífuhvammur, Kópavogur og Vatnsendi. Guðlaugur R. Guðmundsson skráði og staðsetti örnefnin. Handrit. Örnefnastofnun. 1990.
-Byggðakönnun – Borgarhluti 5 – Háaleiti, Reykjavík 2014. Minjasafn Reykjavíkur, Skýrsla nr. 164, bls. 10-11.
-Guðlaugur R. Guðmundsson: „Örnefnalýsing Laugarness, Klepps og Rauðarár“, Reykjavík: miðstöð þjóðlífs, bls. 295-302 – Þorgrímur Gestsson: Mannlíf við Sund, bls. 16. – https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1393650
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, bls. 346-349. – https://timarit.is/page/3524089?iabr=on#page/n385/mode/2up
-https://is.wikibooks.org/wiki/Fossvogur
-Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur í Fossvogi.

Klofasteinn

Klofasteinn – Axel Birgir Knútsson, starfsmaður Garðræktar Reykjavíkur við steininn 2022.

Álfhóll

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um DraugasteinarDraugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann.

Sæskrímsli í Elliðavogi.
Árið 1883 var maður að nafni Guðmundur Guðbrandsson staddur við Elliðarvog. Ekki er getið um erindi hans þar, en líklegt er að það hafi verið að tína krækling á leirunni til beitu eins og algengt var. Komst hann þarna í kast við ókennilega skepnu á stærð við veturgamlan kálf sem þakinn var skeljum að utan. Stóð hann í stimpingum við skepnuna í um tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum, blóðrisa og svo illa til reika að hann lá þar í tvo daga rúmfastur. Var hann þó annálað hraustmenni.

Með hausinn í hendinni.
ElliðaárdalurÖnnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.

Heimildir m.a.:
-www.heimskringla.noÁlfhóll

Þyrnir

9. Grindavík – bæjarferð

1. Talið er að byggð hafi hafist í Grindavík mjög snemma. Í landnámsbók er talað um tveir landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur kringum árið 934 voru það þeir Molda-Núpur Hrólfsson sem nam Grindavik og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson en hann nam Selvog og Krísuvík. Synir Moldanúps settust að í þeim þremur hverfum sem auðkenna Grindavík enn þann dag í dag. Voru það Björn eða Hafur-Björn, Þorsteinn og Þórður. Grindavíkurhverfin nefnast austast er Þórkötlustaðarhverfi, svo Járngerðarstaðarhverfi sem er aðalhverfið í dag, en vestast er Staðarhverfi

2. Grindvíkingar hafa ekki verið duglegir í viðhaldi gamalla húsa, en þó má sjá nokkur þeirra. Garðhús var t.d. gert upp 1912. Flaggstangarhúsið, sem þjónaði því mikilvæga hlutverki að aðstoða sjómenn við að sigla til hafnar þegar brimaði snögglega, gengur nú í endurnýjun lífdaga. Á því voru þá dregin upp á stöng viðvörunar merki sem sjómenn skildu. Gesthús er líka með elstu húsum í Grindavík en þar eru Grindvískar konur með handverk ýmiskonar til sölu þar.
Ýmsar menjar má finna í Grindavík t.d. í Hópsnesinu, Hella úti í hrauni, göngustíga, menjar mannvista, sela, skipsskaða, og svo mætti lengi telja.

3. Einnig eru sögulegir atburðir eins og Grindavikurstríðiö árið 1532 og hefur stundum verið nefnt 5 þorskastríðið. Tyrkjaránið 1627 en þá var 12 Grindvíkingum rænt af Alsírmönnum.

4. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til til Einars Einarssonar frá Garðhúsum en hann setti upp verslun í húsi sem hann byggði 1897 í Járngerðarstaðarhverfi.

5. Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið en fyrir þann tíma voru notaðar svokallaðar varir, en upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin 1900 voru íbúar 357 talsins en eru núna nálægt 2500. Grindavík er fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægt góðum fiskimiðum, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláa lónið. Öflugt íþróttastarf með ungu fólki. Allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Hér má einnig geta þess að í Grindavík hefur verið reist stórt og mikið menningarsetur Saltfisksetur Íslands sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt og allra Íslendinga.

6. Atvinnulíf í Grindavík hefur lengi verið í miklum blóma. Hefur Grindavík verið einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Meðal þeirra stæstu má telja Þorbjörn Fiskanes hf, Stakkavík, Vísir, Samherja/Fiskimjöl og Lýsi. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið ein af 4-5 höfnum á landinu sem hvað mestum afla hafa skilað á land á ári hverju. Í Grindavík er alla helstu þjónustu hægt að fá læknis, verslana, löggæslu, og margt fleira

7. Margir merkismenn hafa upp vaxið og /eða starfað í Grindavík má þar nefna.

Kristján Eldjarn Þórarinnsson sem var klerkur á Stað (1871-1878),
Oddur V Gíslason frumherji slysavarna á Íslandi á Stað (1878-1894),
Dr Bjarni Sæmundsson sem fæddur var á Járngerðarstöðum (1868), kennari, fiskifræðingur forstöðumaður Nátúrugripasafnsins. Bjarni samdi merk fræðirit Lýsingu Íslands. Sjó og Loft Íslensk dýr 1-3. Hann var ömmubróðir Guðlaugs Þorvaldssonar háskólarektors, og ríkissáttasemjara einnig fæddur að Járngerðarstöðum,
Sigvaldi Kaldalóns tónskáld héraðslæknir í Kef héraði (1929-1941),
Kristinn Reyr (1914),
Guðbergur Bergsson (1932); Músin sem læðist,
Einar G. Einarsson kaupmaður setti upp verslun 1897,
Sira Brynjólfur Magnússon flutningur kirkjunnar 1909 til Þórkötlustaðarhverfi.
Halldór Killjan Laxnes bjó í Krosshúsum þegar hann samdi Sölku Völku.
Og svo Kalli Bjarni sem varð Idol stjarna 1994.

-Baðsvellir
Sel Grindvíkinga áður en þau fluttust yfir á Selsvelli – tóftirnar eru í vestanverðum hraunkantinum og norðan við skóginn. Á Baðsvöllum er einnig frumraun Kvenfélags Grindavíkur til skógræktar. Vellirnir tengjast og sögunni af þjófunum i Þjófagjá í Þorbirni, handtöku þeirra og aftöku í Gálgaklettum skammt austar.

-Hópssel
Tóftir vinstra megin við veginn, skammt áður en ekið e rupp á Selshálsinn (þann sem vatnsgeymirinn er á).

-Hagafell
Hluti af Sundhnúkagígaröðinni – 4200 ára.

-Hesthúsabrekka – vegagerð 1913-1918.

-Járngerðarstaðahverfi
Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Það má jafnvel ímynda sér að þetta hafi verið höfuðból og bæjarkjarni myndast utanum þó sem síðar urðu hverfin þrjú. Þessi hverfi er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.
Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki afhverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi 59 manns en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá; Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. September 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.

-Landnámsmenn
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.
En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

-Þjóðsagan af Járngerði
Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

-Íbúafjöldi
2600 manns í byrjun 2005.

-Á hverju fólkið lifir.
Sjósókn, þjónustu, verslun og stjórnsýslu. Kvótakóngar og útgerðarjarlar.

-Íþróttalíf í bænum og öðru sem fólki þykir gaman að gera í bænum.
Körfuboltaliðið – frábært – Knattspyrnufélagið – lakt.

-Höfnin, innsiglingin, ólíkar tegundir báta
Eins og mörgum stöðum sem lágu að sjó umhverfis landið, voru búskapur og sjómennska aðal atvinnugreinar Grindvíkinga. Eins og með margt annað í Grindavík eru frekar litlar heimildir um búskap í hreppnum fyrst eftir landnám. Það má þó telja öruggt að ekki hefur verið auðvelt að stunda búskap á þessum tíma því mikil jarðvegseyðing var og fylgdi henni mikið sandfok. Einnig hrjáði mikill vatnsskortur bændur. Sumstaðar voru tún svo nálægt sjó að þegar flóð var flæddi yfir túnin.

„Tún voru hvarvetna lítil, mörg illa farin og lítt grasgefin sökum þurrka og ágangs sands og sjávar. Til að fóðra búpening sinn urðu bændur því að grípa til fleiri ráða en heyskaparins eins og var þá einkum um tvennt að ræða: seljabúskap á sumrum og fjörubeit.Þó hafa bændur væntanlega reynt að rækta einhver tún og verið svo með sauðfé í seli yfir sumarið og sett það í fjöru“(S.G, II,163).

Fjörubeitin reyndist góð en þó var oft hætta á flóði. Flestir bændur voru bæði með kýr og kindur. Bændur gáfu kúnum líka söl og gátu með þessu bætt sér að einhverju leyti upp grasleysi og skort á góðum bithögum . Kindur og hestar voru á útigangi allt árið, en reist voru fjós undir kýrnar. Margir Grindvíkingar voru með kýr allt fram á þessa öld og fór ekki að draga verulega úr kúabúskapnum fyrr en um 1940. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli. Og er það þá eingöngu það sem við köllum hobbýbændur.

-Sjávarútvegur og fiskvinnsla
Í Landnámu er sagt frá því að landvættir allar hefðu fylgt þeim Þorsteini hrugni og Þórði leggjalda, Molda-Gnúpssonum, þá þeir reru til fiskjar. (S.G.I,185) Á þessu má sjá að hinir fyrstu Grindvíkingar hafi aflað sér matar með sjósókn. Ekki kemur þó neins staðar fram að þeir hafi komið sjóleiðina til Grindavíkur. Má ætla að þeir hafi þá smíðað sér bát eftir að þeir komu á staðinn og þá að öllum líkindum úr rekavið, en það hefur örugglega verið nóg að honum í fjörunum við Grindavík.

„Fiskislóðir Grindvíkinga hafa flestar verið í Grindavíkursjó. Miðin voru flest miðuð við kennileiti í landi og voru öll nálægt ströndinni. Í miðaskrá Gísla og Magnúsar á Hrauni voru miðin talin frá vestri til austurs. Fyrsta og vestasta, djúpmiðið, sem þeir nefndu, hét Sílfell(liggur í svo nefndu Sílfellshrauni, norðaustur af Reykjanesvita).Sílfell um Staðarberg(milli Reykjaness og prestsetursins Staður í Grindavík)“. (S.G.I,188).

Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra enda ekki ætlunin að veiða mjög mikið heldur aðeins í soðið. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14.aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15 öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Mikið var um að bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína í verið á Suður-og Vesturlandi á vetrarvertíð. Þar voru þá settar upp einhverskonar verbúðir. Í verbúðum í Grindavík voru þekkt embætti ljósameistara og kjásarhaldara. Ljósameistara bar að sjá um lampann, sem yfirleitt var aðeins einn í hverri verbúð. Kjásarhaldari sá um að tæma og þrífa kjásarhaldið, en svo nefndist kerald, sem yfirleitt tók um 20 potta og var næturgagn.

Margs konar hjátrú var tengd sjóferðum. Það þótti t.d. ekki boða gott ef menn mættu kvenmanni á leið til sjávar. Þegar skipshöfn gekk saman sjávargötuna átti formaður að vera fremstur og ef hann stoppaði af einhverjum ástæðum áttu allir hinir að stoppa líka. Það var talið merki um óhapp ef það var ekki gert.

Fiskur var allur þurrkaður og ef ekki viðraði til að þurrka var fiskurinn settur í kös og var þá fiskinum staflað á ákveðinn hátt.

Árið 1780 gengu til veiða úr Grindavík á vetrarvertíð 27 heimabátar, 8 áttæringar, 13 sexæringar og 6 feræringar. Aflinn hjá þessum bátum voru 105.280 fiskar. Upp úr 1860 fór bátum að fjölga verulega í Grindavík og sést það á að 1871 voru 18 bátar í Grindavík, en árið 1898 voru þeir orðnir 62. Eftir 1900 voru menn farnir að veiða í net og jókst aflinn til mikilla muna. Ekki eru netin aðalástæðan fyrir auknum afla, heldur er talið að óvenjumikill þorskur hafi verið á miðum Grindvíkinga á árunum 1912- 1927.

Vélbátaútgerð hófst í Grindavík árið 1924 og er það langt á eftir öðrum. Ástæðan fyrir því að Grindvíkingar tóku ekki vélbáta fram yfir árabátana fyrr, var sú að lendingarskilyrði voru mjög slæm. Fyrstu vélbátarnir voru áttæringar sem breytt var og vél sett í. Það hefur verið gífurleg bylting fyrir sjómenn að komast á vélbát og losna við allann róðurinn.

Árið 1928 var síðasta árið þar sem árabátar voru notaðir við veiðar í Grindavík og nú voru vélbátar eingöngu við líði og aflabrögð voru mjög góð.

En eitt skyggði þó á og það var hafnleysið. Oft var rætt um að byggja þyrfti höfn. Það var þó ekki fyrr en 1929 sem gerð var teikning af bryggju við varirnar í Járngerðarstaðahverfi. Var teikningin send Alþingi með beiðni um fjárstyrk. Á fjárlögum ársins 1931 var veitt 6 þúsund krónum til bryggjusmíði í Járngerðarstaðavör og var það einn þriðji af kostnaðaráætlun. Tvo þriðju áttu heimamenn að greiða. Byrjað var á bryggjunni sumarið 1931. Einnig voru gerðar bryggjur í hinum hverfunum. En þetta dugði skammt, því bryggjurnar voru aðeins löndunarbryggjur og áfram þurfti að setja bátana í naust að kvöldi. Greinilegt var að ef ný bryggja yrði byggð yrði hún að vera í Hópinu. Sumarið 1939 var svo hafist handa við að grafa í sundur Rifið í ósnum. Það er með ólíkindum að þetta hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Framkvæmdin gekk svo vel að um haustið gátu bátar flotið inn á hálfföllnu. Árið 1945 var byrjað á dýpkun óssins og eins var stækkuð bryggjan.

Með öllum þessum framkvæmdum gjörbreyttust aðstæður til útgerðar í Grindavík og nú risu upp fyrirtæki sem keyptu og ráku stóra báta. Hafist var handa við að byggja Hraðfrystihús Grindavíkur og var fyrsta verkefni þess frysting beitusíldar. Nokkrum árum síðar var svo stofnað hraðfrystihús í Þórkötlustaðahverfi. En með auknum fiski að landi fylgdi meiri úrgangur og eitthvað varð að gera við hann. Þörfin jókst til muna þegar var farið að salta síld í Grindavík, en fyrsta síldin var söltuð þar hinn 19 september 1945. Úr varð að byggð var beinavinnslu og lýsisbræðsla sem hlaut nafnið Fiskimjöl og Lýsi og var það almenningshlutafélag.

Miklar framkvæmdir urðu í hafnargerð á næstu árum. Sumarið 1957 var byggð 80 metra bryggja. Var hún hugsuð sem viðlegukantur fyrir báta sem þegar hafði verið landað úr. Hafnargarðurinn var líka lengdur um fimmtíu metra árið 1958. Þetta hélt svo áfram smátt og smátt. Haldið var áfram við bryggjusmíði og eins við gerð skjólgarða. Árið 1969 var viðlegu bakkinn orðinn 276 metrar samtals og bryggjurými í höfninni 560 metrar. Í janúar 1973 þurfti að finna Eyjaflotanum höfn í kjölfar eldgoss á Heimaey og varð Grindavík fyrir valinu. Árið 1973 var gerð viðlegubryggja og árið 1974 var svo gerð bryggja við svonefndan Eyjabakka. Eftir allar þessar framkvæmdir á fimmta áratugnum var orðið mögulegt að koma stærri bátum inn í höfnina. Öll helstu útgerðarfyrirtæki á Grindavík ráku síldveiðar og söltun. Einnig lögðu aðkomubátar upp afla sinn í Grindavík. Þegar mest var lönduðu yfir hundrað bátar í Grindavík á degi hverjum. Á árunum 1975 – 1988 voru Grindvíkingar meðal umsvifamestu síldarsaltenda sunnanlands.

En það var ekki bara síld sem barst til lands í Grindavík. Mikið var um loðnuveiði og þegar humarveiðar hófust voru Grindvíkingar fljótir að senda báta á vettvang. Allt þetta gerði það að verkum að Grindavík breyttist úr litlu fátæku svávarplássi í ört vaxandi útgerðarbæ. Lítið hefur breyst í bryggjumálum í Grindavík síðan 1974. Síðustu fimm til sex ár hafa dýpkunarframkvæmdir staðið yfir í höfninni og innsiglingunni og unnið að því að gera innsiglinguna öruggari. Þegar dýpkunarframkvæmdum lýkur verður hafist handa við að gera öflugri varnargarða.

Leiðsögumaður má leiðbeina bílstjóranum að fara um ákveðnar götur. Annars reiknum við með að aka beinustu leið niður að höfn.

-Atlantshafið
Úfið og ægilegt, en spegilslétt og fagurt þar ámilli.

-Sjóvarnargarður
Nýjasti og jafnframt stærsti sjóvarnargaður Grindavíkinga var reistur árið 2004. Hann á að koma í veg fyrir óróa inni í höfninni.

-Saltfisksetrið
Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.
Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.
Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið kemur því í stað slíks safns og er nú miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingarmiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.

Opnunartími er 11:00 – 18:00 alla daga vikunnar

-Grindarvíkurkirkja
Grindavíkurkirkja er í Grindavíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Frá fornu fari var kirkjustaður á Stað vestan við Járngerðarstaðahverfi. Árið 1909 var kirkja reist í Járngerðastaðahverfi og vígð 26. september. Hún var notuð allt þar til ný kirkja var vígð á horni Austurvegar og Ránargötu 26. september 1982. Undirbúningur að smíði nýju kirkjunnar hófst 1966 og var Ragnar Emilsson, arkitekt, fenginn til þess að teikna kirkjuna.

Fyrsta skóflustungan var tekin 1972. Kirkjan er byggð úr steinsteypu. Byggingameistari var Guðmundur Ívarsson en formaður byggingarnefndar Ólafur Sigurðsson, múrarameistari. Kirkjan er að grunnfleti 538 fermetrar og að auki er 49 fermetra kjallari. Kirkjuskipið sjálft er 255 fermetrar. Í kirkjuskipi eru þrjátíu bekkir úr oregonfuru og rúmast þar 240 manns. Í norðausturhorni kirkjunnar er skrúðhús. Safnaðarheimilið, 112 fermetrar að grunnfleti, kemur hornrétt á kirkjuna út úr suðurhlið hennar, þar geta kirkjugestir setið við fjölmennar athafnir.

-Skipaskaðar
Sjá Hópsnesið…
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.
Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.
Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.
Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld. Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.
Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.
Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.
Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðaist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.
Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.
Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.
Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.
Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.

-Grindavíkurstríðið
Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kyntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.

-Tyrkjaránið – blóðþyrnir
Tyrkirnir komu hingað til lands í júní 1627. Þeir voru sjóræningar frá Algeirsborg í Norður-Afríku. Á sama tíma sátu Englendingar um La Rochelle í Frakklandi, þann bæ sem flestir frönsku sjómannanna voru frá er voru við veiðar hér við land síðar á öldum.
Tyrkirnir héldu á brott eftir miðjan júlí sama ár. En í millitíðinni gerðu þeir víða strandhögg og rændu fólki og drápu annað. Þrjú svæði urðu aðallega fyrir barðinu á þeim.

Tvö skipanna fóru austur með landi. Þau komu þangað 4. júní. Ræningjarnir fóru í land í Berufirði, á Djúpavogi og víðar. Alls munu þeir hafa hertekið rúmlega 100 manns á Austfjörðum, þ.a. 62 á Berufjarðarströnd og 13 frá Hamri í Hamarsfirði.

Komu hingað á 5 skipum. Urðu viðskila sunnan við land vegna veðurs. Tvö skip héldu til Grindavíkur ogkomu þangað 20. júní. Þar rændu þeir 15 þorpsbúum og nokkrum Dönum. Þau skip héldu vestur með landi, annað strandaði á Seylunni við Bessastaði, en hirðstjórinn, Holgeir Rósenkranz, þorði ekki að sækja að þeim. Vildi verjast. Tyrkirnir héldu áleiðis til Vestfjarða, en fréttu af enskum herskipum og snéri við.

Sjóræningjarnir rændu sjómönnum, sem á leið þeirra urðu.

Austfjarðarskipin munu hafa hitt það þriðja, sem var í villum suður af landi og stefnu þau saman til Vestmannaeyja. Þegar þangað kom fóru sjóræningjarnir hamförum. Þeir höfðu orðið varir við mótspyrnu. Þeir hertóku fólk, lögðu eld að húsum og drápu gamalmenni. Alls rændu þeir 242 manneskjum í Eyjum og drápu tæplega 40 þar sem fólkið hafði falið sig í klettum og skútum víðs vegar á eyjunnni. Um 200 manns komust undan, þar með kaupmaðurinn danski ásamt fjölskyldu sinni. Hann náði að róa til lands.

Fólkið var flutt í fjötrum til Algeirsborgar þar sem það var selt mansali. Tæpum 10 árum eftir ránið voru um 35 fangar leystir út og komust 27 þeirra til Kaupmannahafnar. Þar á meðal var Guðríður Símonardóttir er síðar tengdist prestinum, sem tók á móti fólkinu við komuna til Hafnar, Hallgrími Péturssyni.

Atburðurinn hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag, ekki bara vegna mannskaðans heldur og vegna óttans og óöryggisins, sem fylgdi í kjölfarið. Sá uggur náði margar aldir fram í tímann. Enn í dag hötum við hundtyrkjann.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Duushús

2. Keflavík – Hafnir

-Nikkelsvæðið
Nefnt svo vegna meintrar nikkelmengunar á svæðinu neðan við Háaleiti. Einnig olíumengun. Nú er Vatnarliðið búið að afhenta Reykjanesbæ svæðið, olíugeymar hafa verið fjarlægðir, skipt hefur verið um jarðveg að mestu og svæðið undirbúið undir íbúðarbyggingar.

-Hitaveitutankarnir
Rauðu pípurnar frá Svartsengi – heita vatnið…
Hitaveita Suðurnesja hf. er sameignarfyrirtæki sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs. Tilgangur Hitaveitu Suðurnesja hf. er vinnsla og nýting jarðvarma og hvers konar annarra orkuauðlinda, dreifing og sala raforku, orkugjafa og annarra afurða félagsins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað félagsins. Einnig iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi sem er ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Pattersson

Lífstöðugrjót við Pattersson flugvöll.

Hitaveita Suðurnesja rekur orkuver í Svartsengi sem nýtir um 240 °C heitan jarðhitavökva, sem fenginn er úr borholum allt að 2000 metra djúpum. Jarðhitavökvann er ekki unnt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu hans og því hversu ríkur hann er af uppleystum steinefnum. Vökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og til framleiðslu á rafmagni. Jarðhitavökvi um 80 °C heitur sem ekki er nýttur í orkuverinu er hleypt út á hraunbreiðuna. Jarðhitavökvi blandaður þéttivatni háhitagufunnar myndar Bláa lónið. Einstakt lífríki ásamt miklu magni af náttúrulegum steinefnum, kísl og sérstökum blágrænum þörungi mynda mjúkan hvítan leirinn í lóninu og gefa því sinn sérstaka bláa lit. Bláa Lónið hf. rekur baðstaðinn við Bláa lónið, göngudeild fyrir psoriasis sjúklinga og framleiðir húðverndarvörur undir merkinu Blue Lagoon.

-Varnarliðið
nýtt hlið tekið í notkun, kostnaður við það…..
Nýtt varðskýli kostaði um 100 millónir kr. í byggingu, líkt og 5 einbýlishús.

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.
Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.

Hafnir

Ankeri Jamestown í Höfnum.

Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins. Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.
Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.
Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.

Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.
Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið. Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.
Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.

Kotvogur

Kotvogur.

Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.
Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.

-Hafnavegur
Sjá má gamla Hafnaveginn hægra megin við núverandi veg.

-Patterson flugvöllur
Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942. Var Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.
Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.
Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946.

-Lífsstöðugrjót

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.
Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

-Gamla sorpeyðingarstöðin
Reykjanesbær, Gerðahreppur, Sandgerðisbær, Grindavíkurbær og Vatnsleysustrandarhreppur eiga og reka saman, sameignarfélag með ótakmarkaða ábyrgð undir nafninu Sorpeyðingarstöð Suðurnesja s.f. (Suðurnes Incinerator Autority) skammstafað S.S. Heimili þess og varnarþing er í Njarðvík. Tilgangur félagsins er að eiga og reka hina nýju móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð Kölku í Helguvík. Ennfremur að annast þjónustu og á sviði sorphirðu og móttöku úrgangs í sveitarfélögunum og önnur verkefni sem sveitarfélögin kunna að fela félaginu, á sviði úrgangs og endurvinnslumála.
Frá og með 1. apríl 2004 flutti starfsemi S.S. í nýja móttöku-flokkunar- og eyðingarstöð í Helguvík sem ber nafnið Kalka. Þar fer fram öll móttaka á sorpi frá sveitarfélögunum og fyrirtækjum á starfsvæði stöðvarinnar samkvæmt verðskrá. Þar er einnig rekin gámasvæði fyrir almenning sem og í Grindavík og Vogum, þar sem íbúar svæðisins geta komið með úrgang frá heimilum til endurvinnslu og eyðingar gjaldfrítt.
Nýja stöðin Kalka sem getur brennt allt að 12.300 tonnum úrgangs á ári er með mjög fullkomin hreinsunarbúnað til að halda mengun frá stöðinni í algjöru lágmarki. Jafnframt er unnin orka úr sorpinu sem gefur um 4.5 mw af varmaorku sem knýr gufutúrbínu sem framleiðir um 450 kw af rafmagni eða um helmingi meira en stöðin þarfnast sjálf. Hitaveita Suðurnesja á og rekur rafstöðina og sendir raforkuna út á dreifikerfi sitt en afgangsvarmaorkan er nýtt til að hita upp hús og plön Kölku.
Annar úrgangur sem til fellur á Suðurnesjum um 6.000 tonn verður að stærstum hluta sendur í endurvinnslu. Stefnt er á að endurvinnsluhlutfall verði yfir 80% á svæðinu að meðtalinni orkunýtingui í Kölku.
Auk þess að þjóna sveitarfélögunum fimm á Suðurnesjum tekur Kalka á móti úrgangi frá varnarsvæðum og flugþjónustusvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þá er stöðin einnig útbúin til að eyða sóttmenguðum úrgangi sem og ýmsum flokkum spilliefna sem falla til hér á landi.

Hunangshella

Hunangshella.

Kalka
Nafnið vísar til vörðu sem nefndist Kalka og skipti löndum meðal 4 sveitarfélaganna á Suðurnesjum en er nú horfin undir flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Hún var hvítkölkuð á lit og var kennileiti af sjó.

-Stapafellið
sem er að hverfa…..
Stapafellið er frá síðasta jökulsskeiði. Það er að mestu úr bólstrabergi, líkt og Súlurnar og Þórðarfellið. Malargryfjur Íslenskra aðalverktaka eru í fjallinu. Flutt hefur verið slíkt magn úr því að nú liggur fyrir fjallinu að hverfa alveg. Í Stapafelli er “stærsti bólstri í heimi – Sig. Þórarinsson).

-Landnámsmenn
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum. Hann skipti síðan á því landi við Hrolleif Einarsson á landi í Þingvallasveit þar sem hann bjó að Heiðarbæ, en flutti síðan að Bæjarskerjum á Romshvalanesi. Ásbjörn Özurarson fékk land frá Hvassahrauni að Álftanesi og Þórður skeggi fékk land norðan við Ingólf þar sem nú er Mosfellsveit. Herjólfur fékk land frá Kotvogi að Reykjanestá, en Molda-Gnúpur þaðan að Selatöngum. Austar var Þórir haustmyrkur (Krýsuvík) og Álfur Egzki austan Selvogs að Ölfusárósum.

-Ósabotnar
Af veginum á Þrívörðuhæð, beint af augum, sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs.

-Vörður
Vörður eru við gömlu þjóðleiðina, en flestar fallnar. Þær tvær sem nýlega hafa verið hlaðnar eru gerðar fyrir Varnarliðið. Á þær eru fest upplýsingaspjöld um tilkomu Bandaríkjahers hér á landi 1941 er þeir tóku við af breska hernámsliðinu. Ýmsir kampar voru vítt og breitt um Suð-Vesturland. Í fyrstu var búið í Nissen-skálum Bretanna, en svo nefndust braggar, sem þeir höfðu reist. Bandaríkjamenn reistu síðan aðra tegund af bröggum, sem þóttu bæði reisulegri og betri mannabústaðir.

-Vopnageymslur varnarliðsins
Vopnageymslur hersins austan Pattersonflugvallar eru nú að mestu aflagðar. Líklegt er talið að svæðið muni verða afhent íslenskum yfirvöldum innan ekki langs tíma. Nú eru einungis hluti geymslanna í notkun og þá með meira og minna fornfálegum skotfærum.

-Hunangshellan
Spölkorni lengra er Hunangshella klöpp norðvestan vegarins (á hægri hönd). Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.
Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna. Sumir hafa farið villu vega og nefnt tiltölulega slétta klöpp við veginn þessu nafni.

Hlið

Nýja hliðið inna á Varnarsvæðið.

-Teigur
Þegar ekið er áfram í vestur meðfram Ósum er komið að gamalli heimreið. Á hægri hönd sést eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi. Og þótt það sé aukaatriði má geta þess að Guðmundur í Teigi mun hafa verið einna fyrstur manna til að kaupa og nota japanskan ,,pikköpp-bíl“ hérlendis – en Guðmundur í Teigi mun hafa verið á undan sínum samtíðarmönnum í ýmsu sem laut að tækni.

-Annað sem tilheyrir Höfnum
Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.

Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var.

Þorpið
Byggðin, Kirkjuvogshverfi í Höfnum, er dæmigert ,,svefnþorp“ því flestir sækja vinnu til Keflavíkur eða upp á Völl. Frystihús var reist upp af gömlu bryggjunni árið 1943 af Eggerti Ólafssyni og fleirum og var starfrækt fram á 8. áratug 20. aldar en stóð þá ónotað um margra ára skeið þar til fiskeldi hófst í hluta þess. Sú starfsemi lagðist af með gjaldþroti en nú er rekið Sæfiskasafn í húsinu. Laxeldisstöð er skammt sunnan við þorpið og 2 verksmiðjur úti á sjálfu Reykjanesinu, önnur sem framleiðir salt úr jarðsjó en hin sem notar hveragufu til þurrkunar á sjávarfangi. Fiskvinnslu og verkun í Höfnum stundaði Eggert Ólafsson fram á 9. áratuginn í síðara húsinu sem hann byggði og er upp af nýrri hafnargarðinum og aðrir í nokkur ár eftir að hann hætti. Í því húsi er nú starfrækt líftæknifyrirtæki (og merkt upp á ensku ,,Bio Process“). Um annan atvinnurekstur er ekki að ræða í Höfnum ef undan er skilin smábátaútgerð. Frá Kirkjuvogshverfi er stutt sigling á fengsæl fiskimið. Vegna veðra er hafnaraðstaðan þó ófullnægjandi og hefur oft orðið tjón á bátum í stórviðrum. Þjóðvegurinn út á Reykjanes og áfram til Grindavíkur liggur í gegn um Kirkjuvogshverfi og hefur umferð um veginn aukist jafnt og þétt í áratugi enda er svæðið sunnan Hafna sérkennilegt, einstakt og áhugavert í fleiri en einu tilliti.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.
Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.
Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar.

Hafnir

Hafnir.

Stóru-Vogar

17. Vogar – Ytri-Njarðvík

-Vogar
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga.
Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti. Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð, þar sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð og úr var Stóru-Vogar. Þar fæddist Páll Eggert Ólafsson (1883-1949) prófessor. Páll er einn mikilvægasti sagnfræðingur Íslands fyrr og síðar.
Stóru-VogarÁrið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stopplabryggja og fiskhús reist. Árið 1942 var reist hraðfrystihús. Margt er að skoða í nágrenni Voga og eru þar margar skemmtilegar og áhugaverðar gönguleiðir og sérkennileg náttúra allt í kring. Fyrirhugað var að reisa álver á Keilisnesi við Voga en því hefur nú verið frestað, hvað sem síðar verður. Sterkasti maður landsins Jón Daníelsson bjó í Vogum og á hann að hafa flutt til bjarg eitt mikið með eigin afli. Hann lézt ungur og er bjargið nú minnisvarði um hann við Vogaskóla.
Vegalengdin frá Reykjavík er 44 km.

-Landnámsmenn

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti.

-Íbúafjöldi
1. desember 2004 voru íbúar 939. Þar af voru karlar 486 og konur 453.

-Hvað gerir fólkið þar til að framfleyta sér?

Vogarétt

Vogarétt.

Aðallega þjónusta, opinber störf, verslun og sjósókn. Margir stunda vinnu utan þorpsins, s.s. á höfðuborgarsvæðinu, enda er ekki nema u.þ.b. 15 mín. keyrsla til Hafnarfjarðar. Voga- og Vatnsleysustrandarbúar hafa haft hug á því að sameinast Hafnfirðingum. Ástæðan er hræðsla við að sameinast Reyknesbæingum, sem jafnan virðast hafa sýnt nágrönnum sínum yfirgang. Ekki meira um það því leiðsögn á að vera uppbyggjandi.

-Vogastapi
Hét á landnámsöld Kvíkuvogsbjarg en seinna nefndur Vogastapi, stundum aðeins Stapi, einkum af heimamönnum. Grágrýtishæð (80 m.y.s.) milli Vogavíkur og Njarðvíkur, þverhníptur að framan en með aflíðandi halla inn til landsins.
Stapinn er gróðurlítill og víða mjög blásinn. Sunnan í honum liggur Reykjanesbraut. Af Grímshóli, hæst á stapanum er mikil og góð útsýn og einnig útsýnisskífa sem Ferðafélag Keflavíkur lét reisa. Grímshóls er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Á Vogastapa hefur þótt reimt allt fram á þennan dag enda hafa margir villst þar fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað fram af Stapanum eða orðið úti. Áður fyrr vildu menn yfirleitt ekki fara yfir Stapann að næturlagi, væru þeir einir á ferð. Á seinni áratugum hafa sumir vegfarendur, sem leið hafa átt um Stapann þóst sjá þar mann á ferli með höfuð undir hendinni þannig á sig kominn átti hann það til að setjast inn bíla ef menn voru einir á ferð.

-Fiskeldi – sæeyru
Elur upp og ræktar sæeyru til útflutnings. Þarna starfa um 6 menn að jafnaði. Reksturinn virðist ganga vel. Skelin einkar falleg og litskrúðug.

-Stapinn – Stapabúð – Brekka – Hólmabúð – Kerlingarbúð

-Reiðskarð – Stapagata
Saga af konu með kú og hund í þoku – hvarf…

-Stapadraugurinn
Ökumaður sagði svo frá:
„Eitt sinn sem oftar var ég að koma af Suðurnesjum, eftir að hafa flutt þangað ýmsan varning. Þetta var í byrjun nætur, og var mér rótt í geði, þar sem ég sat einn í hlýju húsi vörubíls á nýjum steinsteyptum vegi. Þau stóðu þó ekki lengi rólegheitin mín, því að ég varð þess skyndilega var, að maður var kominn við hlið mér. Var hann klæddur hettuúlpu og sá ógerla í andlit honum, þar sem hann sneri því sem mest frá mér. Ég vissi ekki, hvaðan á mig stóð veðrið, og varð mér sem nærri má geta meir en illt við.
„Hvað ertu þú að gera hér?“ spurði ég hranalega og dró um leið úr hraða bílsins eftir megni, en ekki er gott að snarstanza í slíkri umferð eins og er á Keflavíkurvegi á nótt sem degi.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Engu svaraði maðurinn og sneri frá mér í sætinu eins og áður. Bíllinn var nú stanzaður og ég hugsaði mér að láta til skarar skríða við þennan óvelkomna gest, sem ég hugði helzt, að hefði komizt inn í bílinn, áður en ég lagði af stað, og ég hefði ekki tekið eftir honum þá.
En ekki þurfti að koma til átaka, því að eins skyndilega og farþeginn hafði birzt, hvarf hann nú og var aðeins autt sætið, þar sem hann hafði setið. Ég ók hálf utan við mig í bæinn og hef síðan sótzt eftir raunverulegum farþegum á þessari leið, sem öðrum, er ég hefi ekið. Hinir geta farið með öðrum en mér.“

Önnur saga:
Sigurður E. Þorkelsson, skólastjóri Holtaskóla og Gylfi Guðmundsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla eru æskuvinir. Hafa ætíð verið miklir samgangar á milli þeirra til þessa dags. Í þann tíð bjuggu þau Gylfi og Guðrún, kona hans í Kópavogi og renndu þau einu sinni sem oftar suður í heimsókn í byrjun desember.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Segir ekki af veru þeirra í Keflavík, en langt eftir miðnætti lögðu þau af stað heim í kulda og kafaldsbyl. Er þau komu á mót við Grindavíkurafleggjarann, sjá þau mann við vegarkantinn sem biður um far með bendingu. Þau taka manninn uppí. Hann er úlpuklæddur að þeirra tíma sið, svo lítið sést andlit eða önnur sérkenni.Ekki líður á löngu en Gylfi, sá samræðumaður, vill spjalla við hinn farþegann og spyr hann allmæltra tíðenda. Ekki fær hann nokkurt svar. En hann heldur áfram að spyrja hann um erendi á Stapanum og annað í þeim dúr, en engin fær hann svörin. Finnst honum þetta nokkuð einkennilegt og lítur í baksýnisspegilinn og sér þá að enginn er í aftursætinu. Þá lítur hann aftur og sér strax að enginn farþegi er þar afturí. Um hann fer ónotahrollur, enda vel kunnugur sögnum af Stapadraugnum. Hann snýr sér að konu sinni og biður hana að líta aftur í. Nú eru þau bæði orðin nokkuð hrædd og til að stappa í sig stálinu fara þau að syngja, enda bæði söngmenn góðir. Á þessu gengur þar til þau koma á mót við kirkjugarðinn í Hafnarfirði að rödd heyrist úr aftursætinu:
“Hér fer ég út.”
Til er skýring á þessu atviki. En það mun skemma söguna. svo hér læt ég staðar numið.

Og enn önnur saga:
Eitt kvöld ók leigubílstjóri úr Reykjavík suður til Keflavíkur til þess að sækja fólk. Hann var einn í bílnum. Á var dumbungsveður, en úrkomulaust og föl á jörðu. Þegar hann var á veginum milli Voga og Vogastapa sá hann, hvar maður stóð á vegarbrúninni, lítið eitt fram undan. Þegar hann kom nær, sá hann að hann var í hermannabúningi og taldi víst, að þetta væri Bandaríkjamaður að bíða eftir fari til Keflavíkur. Hann stöðvaði bílinn og bauð gestinum á ensku að gera svo vel að setjast inn. Sá anzaði ekki, en smeygði sér þegjandi inn og settist við hlið bílstjórans sem ók af stað. Hann fór að tala á ensku og spyrja manninn hvert hann væri að fara. En hann svarar engu, lítur ekki við honum og horfir beint fram. Þegar hann var kominn þangað upp í Stapann, sem braut lá út af veginum að braggahverfi, sem Bandaríkjaherinn hafði haft þar á stríðsárunum, þá sá hann að maðurinn var horfinn hljóðalaust úr bílnum.

Hólmfastskot

Hólmfastskot.

Seinna flutti sami maður eitt kvöld fólk úr Reykjavík  suður til Keflavíkur og fór þaðan til baka inn eftir um klukkan fjögur um nóttina. Hann var aleinn í bílnum og stanzaði hvergi. Þegar hann kom inn á Vogastapa, þar sem hann er hæstur, varð honum litið í spegilinn fyrir framan sig. Þá blasti þar við augum hans furðuleg sjón. Sá hann í speglinum, hvar tveir menn sátu hlið við hlið í aftursætinu. Hann sá að á þeim var nokkur aldursmunur, og var sá eldri með hatt á höfði, sem slútti niður yfir ennið, og bar hann hærra í sætinu. Manninum brá nokkuð við þessa sýn, en rétt á eftir að hún birtist í speglinum, vildi svo til, að bíll kom á eftir með sterkum ljósum, sem skinu litla stund inn í bíl hans aftan frá, og sá hann þá mennina í speglinum ennþá greinilegar. Enn sá hann þá betur, þegar hann var að fara niður Stapann og tunglið á himninum féll beint á spegilinn. Hann herti á akstrinum, því að hann kunni betur við að vita af bílnum á eftir sér en að verða einn eftir á veginum. Þarna sátu þessir náungar hreyfingarlausir, þar til hann var kominn eitthvað inn fyrir Voga. Þá hurfu þeir eins skyndilega og þeir birtust.
Sami bílstjóri var að flytja mann suður í Keflavík í ausandi rigni

ngu. Þegar hann var kominn uppundir hástapann á suðurleið, springur dekkið á öðru afturhjóli bílsins. Hann varð auðvitað að taka það af hjólinu og setti á það annað dekk, lítt notað. Síðan hélt hann áfram og skilaði manninum af sér í Keflavík og ók að því búnu sem leið lá til baka. En þegar hann kom nákvæmlega á sama stað og dekkið hafði sprungið á í suðurleiðinni, þá sprakk dekkið, sem hann hafði sett þar á hjólið. Hann tók það af og fór að bauka við að gera við það á afturgólfinu í bílnum, setti það svo á hjólið og hélt sína leið. Þessar bilanir fundust manninum mjög kynlegar, í fyrsta lagi vegna þess, að bæði hjólin skyldu springa nákvæmlega á sama stað og ennfremur af því, að þau voru bæði lítt slitin og vegurinn sízt verri þarna en annars staðar.

-Herspítalinn – Daily Camp
Fullkominn herspítali – rúm fyrir hundruðir hermanna. Enn sjást minjar eftir spítalann.

-Matjurtargarður
Hlaðnir utan í sunnanverðan stapann – atvinnubótavinna.

-Grindavíkurvegurinn 1914-1918
Minjar á a.m.k. 12 stöðum – hlaðin byrgi o.fl.

-Grímshóll – þjóðsaga

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

-Brúnavarða – markavarða
Önnur varða er úr henni innar á heiðinni, en menn hafa viljað gera sem minnst úr henni….

-Innri-Njarðvík – sagan
Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík.

Njarðvík

Njarðvík – Garðbær.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur.Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag

Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot, dæmigert heimili frá síðustu öld, verið endurbyggð. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

-Innri-Njarðvíkurkirkja 

Innri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófstsdæmi. Hún hefur staðið í margar aldir í Innri-Njarðvík. Sú kirkja sem þar er nú var reist 1884-86, var hún vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni.
Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.

-Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson (1791-1852).

Sveinbjörn Egilsson (1791–1852), fornfræðingur, skáld og þýðandi.
Fæddur í Innri-Njarðvík 24. febrúar 1791, sonur Egils Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Oddsdóttur. Sigldi til Khafnar 1814 og lauk guðfræðiprófi 1819, ráðinn kennari að Bessastaðaskóla sama ár og kenndi þar grísku og sögu. Dvaldist í Kaupmannahöfn 1845-1846 og varð 1847 fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Eftir uppreisn skólasveina 1850, svokallað pereat, þar sem Arnljótur Ólafsson fór fremstur í flokki, fékk hann lausn frá embætti með sæmd og lést 17. ágúst 1852.
Sveinbjörn er kunnastur sem þýðandi Hómerskviðna og fræðimaður á sviði íslenskra fræða en í Bessastaðaskóla kenndi hann einnig rit Platons: Málsvörn Sókratesar, Kríton, Faídon og Menón. Einnig eru skólaræður hans, þar sem hann fjallar m.a. um samband þekkingar og dygðar, athyglisverðar frá heimspekilegu sjónarmiði.
Nokkur rit: Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar (1968); Platon: Menón, skólaþýðing eftir Sveinbjörn Egilsson (1985).

-Hólmfastur Guðmundsson – einokunarverslunin

Njarðvík

Njarðvík – Hólmfastskot 2023.

Sagan af Hólmfasti og viðskiptum hans af Hafnarfjarðarkaupmanninum og Njarðvíkurkaupmanninum – einokunarverslunin. Bær Hólmsfast (tóftir) eru sýnilegar í Innri-Njarðvík sem og brunnur sá, sem hann sótti vatn sitt í.

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.
Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Njarðvík

Njarðvík – kot.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig. Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Árni Magnússon

Árni Magnússon (1663-1730).

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Byggðasafn
Njarðvík er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið er opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.

-Faxaflói
Sagan af Faxa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar – lík Rauðhöfða. Nokkuð breytt og mikið stytt frá hinum.
Þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.

-Steinlistaverk – eftir hvern og hvað eiga þau að tákna?
Áki Gränz, listamaður – steintröll – til að minna á örnefni og lífga upp á annað tilbreytingarlaust landslag á Njarðvíkurheiðinni. Skiptar skoðanir eru um „steintröll“ þessi, enda höggva þau á stundum nærri fornminjum, andstætt lögum.

-Go-Kart
Akstursíþrótta- og leiksvæði. Kjörin afþreying.

-Kaffi tár
Kaffiframleiðsla og kaffikynning. Tilvalin afþreying.

-Gluggaverksmiðja
Rammi – fór á hausinn. Húsið er til sölu, en hýsir nú Íslending.

-Bílasölur
Margar á litlu svæði í ekki stærra bæjarfélagi – hlýtur aðvera heimsmet.

-Ytri-Njarðvíkurkirkja
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979 eða tæpum áratug eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.
Kirkjan er teiknuð af arkitektunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Hún er 400 fermetrar að grunnfleti og undir henni er 108 fermetra kjallari. Kirkjuskip rúmar 230 manns í sæti en safnaðarsalur, sem opnanlegur er inn í kirkjuskipið, rúmar 100 manns.

-Stekkjarkot

Njarðvík

Njarðvík – Stekkjarkot.

Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur.
Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík.
Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
Búið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924.
Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fólk á sjósókn. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó.
Stekkjarkot í Innri Njarðvík er tilgátuhús sem reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur. Nú er Stekkjarkot opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.
Neðan við Stekkjarkot er ætlunin að reisa víkingaþorp þar sem Íslendingur mun leika aðalhlutverkið.

-Bolafótur – Hallgrímur Pétursson
Þegar síra Hallgrímur Pétursson fór suður á Hvalsnes að taka við prestakalli sínu þar, var hann fótgangandi. Kom hann seinni part dags á prestssetrið, þreyttur mjög og svangur. Í eldhúsi sat kona og eldaði graut og bað hann hana að gefa sér að borða. Bað kerling hann að hypja sig í burtu hið bráðasta og gaf hreint afsvar, því að hún sagði, að vellingurinn ætti að vera handa nýja sóknarprestinum, honum síra Hallgrími.
Varð síra Hallgrími þá að orði:

Einhvern tíma, kerling, kerling,
kann svo til að bera,
að ég fái velling, velling
og verði séra, séra

-Skipasmíðastöð

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur var stofnuð árið 1945. Megin verkefni eru viðgerðar og viðhaldsverkefni í skipum. Starfsmannafjöldi er um 45 að jafnaði árið um kring og skiptist starfsemin þannig:
• Uppsátur & málningardeild
• Plötusmiðja
• Trésmíðaverkstæði
• Véla & renniverkstæði
• Lager
Haustið 1998 tók Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. í notkun nýtt skipaskýli þar sem boðið er upp á allar almennar skipaviðgerðir allt árið um kring, óháð veðri.
Byggingin er í raun stærsti minnisvarði um Hallgrím Pétursson, næst á eftir Hallgrímskirkju í Reykjavík, en bær Hallgríms var þar sem stöðin er nú.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.