Lónakot
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot má sjá tilgreind nokkur mannvirki vestan vesturtúngarðsins og austan Réttarkletta. Þar segir m.a. að gata liggi vestur með sjónum og að “gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum.

Vagngata

Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.”
Ætlunin var að staðsetja framangreinda staði m.v. lýsinguna.
Lónakotsvörin sést enn vestan og neðan við vesturtúngarðinn. Túngarðurinn sjálfur var reyndar færður utar, en ef miðað er við leifarnar af hlaðna garðinum liggur vörin þar neðan við. Fast vestan hennar er Mávahella, stór flöt hraunklöpp er stendur upp úr sjónum við meðalsævi.
NípuskjólBeint upp og vestan við Mávahellu er Brimþúfan. Frá henni er ágætt útsýni yfir að Nípu. Hún er strýtumyndaður hóll svo til alveg niður við ströndina og eina verulega kennileitið með henni uns komið er að Réttarklettum.
Til að gera leitina að Nípurétt og Nípuskjóli ekki allt of auðvelda var svæðið næði neðan og ofan við kannað gaumgæfilega – ef ske kynni að einhverjar mannvistarleifar kynnu að leynast þar.
Við Réttarkletta eru gerði, garðhleðslur, skjól og tóftir. Gróið er í kring. Skammt vestra og svolítið ofar er hlaðið fjárskjól fyrir skúta.
Austan við Réttarkletta, ofan garðs, er hlaðið með grunnu, en ílöngu, jarðfalli. Þarna hefur væntanlega verið aðhald um tíma. Svo til beint norðvestur af því er Nípurétt. Annars sést réttin vel þegar gengið er eftir stígnum ofan við ströndina milli Lónakots og Réttarkletta. Hún er skammt austan við hraunhrygg austan Réttarkletta. Réttin hefur verið ferköntuð. Austurveggurinn stendur heillegur, en aðrir veggir eru að mestu fallnir. Réttin hefur verið vel staðsett m.t.t. fjárrekstra ofan við ströndina, en féð hefur væntanlega þá, líkt og nú, sótt talsvert í fjöruna. Engin hólf eða dilkar eru í réttinni.
NípuréttSkammt suðvestar, sunnan undir klapparhæð, og syðst í lægðinni sem þarna er sunnan Nípu, er Nípuskjól. Veggir hafa verið hlaðnir út frá klapparbakkanum og reft yfir. Dyr snúa mót suðri.
Ef gömlu vagngötunni er fylgt milli Lónakots og Réttarkletta má vel sjá hvernig hún hefur verið unnin. Bæði hefur verið hlaðið í kanta við bakka og brotið úr skörðum. Að vísu hefur sjórinn kastað grjóti upp á og yfir götuna á köflum, en tiltölulega auðvelt er að feta sig eftir henni enn þann dag í dag.
Tækifærið var notað til að skoða tóftir Lónakotsbæjarins, Norðurfjárhúsanna, brunnsins sunnan bæjarhólsins og Lónakotsréttina suðaustan við túnhliðið.
Strandsvæðið milli Straums og Hvassahrauns, þ.m.t. Lónakotssvæðið, er tilvalið til útivistar. Það hefur að geyma fjöldan allan af minjum fyrri tíma. Það sem þyrfti að gera er að merkja þær helstu svo gönguferðir um svæðið gætu bæði verið fólki til fróðleiks og ánægju. Umhverfið þarna má segja að sé einstakt og það einungis í örskotsfjarlægð frá mesta þýttbýli landsins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá fyrir Lónakot. Gísli Sigurðsson skráði. Örnefnastofnun Íslands.

Nípa

Gluggavarða

Vörður hafa verið til marga hluta nytsamlegar hér á landi frá aldaöðli. Hliðstæðar vörður, með sambærilegan tilgang og hér eru, má t.d. finna í Noregi og á Suðureyjum, en auk þess á Grænlandi og í Nýfundnalandi.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.

Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga. Þær voru hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem “útsýnisgluggi”) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).

Brúnavörður

Brúnavörður.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.

Prestavarða

Prestsvarða.

Nafnkenndar vörður á Reykjanesskaganum eru 184 talsins, auk allra þeirra hundruða, sem fylgja röðum gamalla gatna og kennimerkjum. Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við gömlu Sprengisandsleiðina, Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í “lágvaxnar” vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu “grjóthringi” á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig “sveiflan” í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.

Prestastígur

Varða við Presthól hjá Prestastíg.

Þá standast t.d. vörður úr hraungrýti betur “áreiti” en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.

Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök “tiltekt” trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á “réttum” gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á.
Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smala.

Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að “nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.”
Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Þar segir m.a. að “svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsivíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell”.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn.

Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni.
Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur. Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin. Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.

Gömlu Hafnir

Stelpuvarða ofan við Gömlu-Hafnir.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir “vörðugerð” fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans. Í hans augum hafa vörður bara verið vörður og tæplega þó.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Þegar “æft” fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að “endurfinna” eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að “merkja” tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.

Bláfellsháls

Dysin á Bláfellshálsi.

Ein merkilegasta varðan hér á landi er án efa dysin á Bláfellshálsi. Á meðal ferðamanna gengur sú saga að varðan sé ævagömul. Sú hefð hefur myndast að ferðalangar kasta steini í vörður þeim til heilla á löngum leiðum. Staðreyndin um vörðuna á Bláfellshálsi er hins vegar sú að upphaf hennar má rekja til þess að Eiríkur Þorsteinsson frá Fellskoti var að smala á hálsinum á sjöunda áratug 20. aldar þegar gat kom á annað stígvélið hans. Hann skildi stígvélið þar eftir, en hróflaði áður grjóthrúgu yfir það. Síðan sáu ferðalangar, sem að komu, vörðuna á hálsinum, sem er táknrænn áfangi á leiðinni, og bættu um betur, minnugir sögninni um heillamerki.
Þetta er nú bara svolítill fróðleikur um vörður svo engan reki í vörðurnar ef um verður spurt. Þetta ætti a.m.k. að varða leiðina að aukinni vitneskju – því markmiðið er jú að vita meira og meira, meira í dag en í gær.

Gluggavarða

Glugggvarða á Mosfellsheiði.

Atlagerðistangaviti

Eftirfarandi var skrifað í Morgunblaðið um Atlagerðistanga og nágrenni árið 1970:
“Förinni var heitið suður á Vatnsleysuströnd, til þeirrar strandar, sem Spegillinn í eina tíð, ætlaði að innlima í Reykjavík á þeim árunum sem vatn skorti í höfuðborginni.
Greið er förin, þegar Hafnarfirði sleppir, suður Kapelluhraun, framhjá Straumi, og áfram allar götur eftir Hvassahrauni, sem í raun réttri heitir Afstapahraun, og sunnan við það erum við þá einu sinni enn komin í Kúagerði. Raunar er Kúagerði merkur staður í samgöngusögu þjóðarinnar. Það var eini flekkuleidi-21staðurinn, þar sem hægt var að brynna hestum í ósöltu vatni á þessum hraun fláka á Innnesjunum, og kom slíkt í góðar þarfir, bæði þeim ríðandi og gangandi. Í vesturjaðri þess var lítil graslaut með smátjörn í, fast við veginn á vinstri hönd. Heitir lautin Kúagerði, og var mikill áningarstaður, jafnvel í heiðnum sið. Ég hef það fyrir satt, og sagði mér það maður, ættaður frá Hvassahrauni, sem var einu sinni stofufélagi minn á Vífilsstöðum, að kaffið hefði alltaf verið salt á þeim bæ, og þó var Kúagerði örskotsspöl í burtu. Síðan lagður var akfær vegur frá Keflavík til Reykjavíkur, hefur það oftast verið siður, að menn hefðu ekki tíma til að stanza og var þó meiri ástæða áður, en núna, þegar þetta hlemmiskeið liggur milli staða, — en í þetta skiptið, síðast liðinn sunnudag, gerðum við okkur dagamun, sveigðum til hægri út á gamla veginn, framhjá Vatnsleysunum, þar sem hann Þorvaldur okkar kæri ræktar svín, framhjá Flekkuvík, hinni frægu, þar sem Jónasi Hallgrímssyni var ekki í eina tíð betur treyst en svo um land að fara til að grafa í Flekkuleiði, að hann fékk rautt ljós. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, en Páll Vigfússon bóndi í Flekkuvík var lengi tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.”
Og áfram allar götur framhjá Kálfatjörn, en þeim stóra stað tilheyrði fjárborgin mikla, Staðarborg, sem er vel sýnileg frá þessum gamla þjóðvegi, þar austar og ofar í hrauninu.

gerdistangaviti-21

Í þetta sinn er ákveðið að heimsækja Gerðistangavita, sem löngum hefur lýst bátum og skipum, sem meðfram Vatnsleysuströnd sigla. Hlutverk hans er nú orðið svipur hjá sjón, en fallegt er engu að síður niður við vitann. Þar hefur vafalaust áður fyrri verið hættusigling og Tómas kveður um þá hættu:
“En bráðum rísa vindar við
yztu sævarósa,
um unn og strendur lands.
Og bylgjuföxin rísa sem
beðir hvítra rósa,
og boðar norðurljósa
í perluhvítum stormi stíga
dans.”
Og þótt Gerðistangaviti hafi nú að mestu lokið sínu dygga hlutverki, hefur hann áreiðanlega bjargað mörgum sjómanninum heilum í höfn, lýst þeim, sem þráir höfn, eins og Davíð yrkir svo fagurlega:
„Brennið þið vitar. Hetjur
styrkar standa
við stýrisvöl, en nótt til
beggja handa.
Brennið þið, vitar, út við
svarta sanda
særótið þylur dauðra
manna nöfn.
Brennið þið, vitar.
Lýsið hverjum landa,
sem leitar heim
— og þráir höfn.”

Móakot

Móakot á Vatnsleysuströnd – Atlagerðistangaviti fjær.

Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró.
Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði. Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna.

Hlöðunesleiði

Hlöðunesleiði.

Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur. En áður en við höldum niður í fjöruna við Gerðistangavita, skulum við aðeins staldra við nafnið Narfakot. Það er nefnilega komið inn í Íslandssöguna á mjög merkan hátt. Meira að segja líka inn í bókmenntirnar. Áður fyrri, þegar Danir ráku hér „velferðarríki” sitt með möðkuðu mjöli og fleiru tilheyrandi til sálubóta, skorti allt, jafnvel snæri til að hengja sig, hvað þá, að hægt væri að nota til veiðiskapar, var það einnig bannað með „majestets” skipun, að verzla við annan kaupmann, en þann, sem staðsettur var í manns eigin „Krummavík”. Gerðust margir brotlegir, meðal annarra bláfátækur bóndi á hjáleigu frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, sem hét Hólmfastur Guðmundsson, fór með 13 fiska til kaupmannsins í Keflavík að auki 2 knippi af hertum sundmögum og lagði þar inn, þegar honum bar að Guðs og manna lögum og hans hátign ar Danakóngs, að leggja þetta allt inn hjá Knúti Stormi, kaupmanni í Hafnarfirði. Fyrir þetta var Hólmfastur dæmdur til að kaghýðast á Kálfatjarnarþingi, 27. júlí 1699. Með því að áðurnefndur Stormur vildi ekki taka skektu hans upp í sektina. Þótt Hólmfastur fengi nokkru síðar bæði uppreisn æru og skaðabætur, hefur Laxness gert hann ódauðlegan og komið honum inn í ísl. bókmenntir sem samfanga Jóns Hreggviðssonar í dyflissunni á Bessastöðum og segir nú frá því.
Jón Hreggviðsson hafði spurt Hólmfast: „Var þér ekki útlátalaust að leggja fiskana inn í því umdæmi þar sem þér er skipað að verzla af mínum allra náðugasta herra ?”
„Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.”
„Þú hefðir betur hengt þig í spottanum,” sagði Jón Hreggviðsson.
„Hvenær hefur heyrzt í fornum bókum, að danskir hafi dæmt til hýðingar mann með mínu nafni í landi hans sjálfs hér á Íslandi?”
„Það er heiður að vera höggvinn. Jafnvel lítill karl verður maður af því að vera höggvinn. Lítill karl getur farið með vísu um leið og hann er leiddur undir öxina. Aftur á móti verður hver maður lítill á því að vera hýddur,” sagði Hólmfastur.
Narfakot-22En því minnumst við á Hólmfast hér, að meðal mannanna, sem dæmdu hann vegna þessa „glæps”, sem við góðu heilli í dag, gætum sett tvö upphrópunarmerki við, sem háðsmerki, vegna þess, að við í dag búum við frjálsa verzlun, — voru einmitt tveir menn frá þessu Narfakoti, sem við okkur blasir í suðvestri, þeir Bjarni og Brynjólfur Þórólfsson, sem þá bjuggu þar.
Og nú látum við gamla sögu lönd og leið, göngum framhjá gömlum hvalbeinum, sem áður voru notuð fyrir hlunna og beint niður í fjöruna hjá vitanum. Á vegi okkar verða gamlar verbúðir, hlaðnar úr hraungrýti, bátur liggur ofarlega í landi, og við hugsum með okkur,: „Það er ekki hægt að setja hann út, nema á flóði.” Raunin varð önnur, þetta reyndist hin ákjósanlegasta vör sunnan við Gerðistangann. Einkennilegt var smágert þangið, þegar komið var fram undir sjó. Við þekktum það ekki, en fallegt var þar álitum. Einstakur æðarbliki styggðist og flaug á braut. Annars urðum við ekki vör við fugla. Skorkvikindi skriðu að venju undir þarabrúski, en það hæfir ekki þessari miklu strönd að minnast á slík kvikindi. Sker eru fyrir utan, og rétt fyrir 1880, orti ókunnur höfundur þetta vísukorn um báta flotann á ströndinni, þegar hann ýtti úr vör, líklega að morgni dags og hélt til hafs.
„Lundar branda láta án stanz
á leiði á heiði Ránar,
undan Strandar skerja skans
skunda bandahéra fans.”
Þarna á ströndinni er margt að sjá, bæði lifandi og dautt. Vel má vera, að það vindi á þessari strönd, en samt sem áður held ég, að hún geymi í fórum sínum svo mikla fjársjóði, að erfitt reynist að gera þá upp. Fjöruferð meðfram þessari úfnu strönd, meðfram skerjunum, meðfram vörunum, er að minnsta kosti þeirra peninga virði, sem maður verður að greiða samvizku sama manninum í tollskýlinu við Straum, þegar aftur er haldið heim. Ég lofa því, að ég skal síðar skrifa meir og betur um Vatnsleysuströnd, og áður en mig varði, rann bíllinn inn í óða umferðina á Hafnarfjarðarveginum, þar sem vegir liggja til allra átta og flestra óþekktra en ég vona samt heim til mín.” — Fr.S.

Heimild:
-Morgunblaðið 8. nóv. 1970, bls. 6.

Hlöðunes

Minjar á Hlöðunesi.

Hópefli

Kári Jónason skrifaði um útivistar- og virkjanamöguleika á Reykjanesskaga í Fréttablaðið þann 8. september 2006:
Svartsengi“Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.
Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.
Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru. Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði Hellurum miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði. Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.
Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu. Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.
Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krísuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.”

Heimild:
-Útivistar- og virkjanamöguleikar geta farið saman – Reykjanesskagi – Kári Jónasson skrifar – Fréttablaðið 8. september 2006, bls. 24.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Helgafell

Gengið var á móbergsfjallið Helgafell ofan við Hafnarfjörð. Gangan að fjallinu er auðvel frá Kaldárseli.

Helgafell

Helgafell – heppilegasta gönguleiðin.

Slóðanum milli Kaldárhnúka var fylgt upp á slétt helluhraunið vestan við fjallið og síðan gengið að skágili austan við megingilið á norðvestanverðu fjallinu þar sem komið er að því. Þar upp liggur aflíðandi greiðfær stígur. Mjög auðvelt er að ganga þar upp í kvosina í fjallinu. Úr henni er síðan ágætt að ganga upp á sjálfa öxlina og upp á topp. Þetta er bæði stysta og þægilegasta leiðin upp. Þegar komið er upp úr kvosinni sést hellir, en í honum er læknir sagður hafa legið um hríð fyrir alllöngu síðan. Nasagóðir segja að enn megi finna meðalalyktina í hellinum. Útsýni er fagurt af fjallinu (339 m.y.s.) yfir næstfegursta bæ á byggðu bóli.
Að þessu sinni var gengið til baka niður hina hefbundu leið á og af fjallinu, niður norðuröxlina gegnt Valahnúkum.
Frábært veður. Gangan að fjallinu og upp á topp tók u.þ.b. ½ klst.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Spákonuvatn

Gengið var frá norðvesturhorni Trölladyngju í dýrindisveðri.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Sogasel var skoðað í Sogaselsgíg, en þar eru rústir nokkurra húsa á a.m.k. þremur stöðum frá selstíð Kálfatjarnar, auk stekkjar og réttar. Ein rústin er sýnilega elst, en jafnvel er talið að Krýsuvík hafi haft þarna í seli um tíma. Utan við gíginn er enn ein rústin.

Gengið var áleiðis upp Sogadal, skoðuð heitavatnsuppspretta í hlíðinni og síðan upp að Spákonuvatni á Núpshlíðarhálsi, niður Grænavatnseggjar og að Grænavatni. Haldið var með vatninu og kíkt eftir hugsanlegum hleðslum norðan við það, en mjög gróið er þar við vatnið.

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Uppi í hlíðinni gætu verið óljósar hleðslur og einhver mannanna verk gætu einnig verið þar við vatnið. Gengið var að Selsvallafjalli og beygt til austurs með hálsinum ofan við Krókamýri. Farið var á ská niður hálsinn og vegurinn genginn með Djúpavatni þar sem áð var á Lækjarvöllum norðan við vatnið. Að því búnu var gengið með hálsinum og frammeð Fíflvallafjalli. Við enda þess er mikill gígur. Vel sést hvar Rauðamelsselstígur liggur þaðan yfir hraunið að Hrútafelli og vestur fyrir það, en sunnan við fellið er vatn, sem Lækjarvallalækurinn hefur myndað utan í grónum völlum. Loks var gengið um Hörðuvelli, niður með eldgígum og hrauntröðum uns komið var að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Þegar einhver er spurður: “Hvað er menning?”, verður viðkomanda annaðhvort svarafátt eða svarið verður svo víðfemt að inniheldið verðu um allt og ekkert.
Mikilvæg menningarverðmæti voru fyrir skammsýni lögð undir hús í miðborg ReykjavíkurMenning hefur stundum verið skilgreind sem “samsafn hegðunarmynstra sem fyrirfinnast í ákveðnum samfélögum, og gildishlaðinna tákna sem gefa hegðuninni ákveðna merkingu eða tilgang. Margar mismunandi skilgreiningar eru til á menningu. Mannfræðingar nota hugtakið til að vísa til þeirrar viðleitni mannsins að skipa lífsreynslu sinni í flokka eða mynstur, og að tjá hana á skipulegan máta. Menning hefur einnig verið skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“. Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur einnig lagt til að menning sé skilgreind sem: „… samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.” Í skilgreiningunni liggur að menning grundvallast á orðinu minning.
Stundum er talað um handverksmenningu, þ.e. hvernig verkin voru unnin áður fyrr. Bókmenning lýtur sama lögmálinu. Það er og eðli goðsagna að hugsa til hins forsögulega og leita skýringa á uppruna heimsins og upphafi sögunnar. Allir menningarheimar eiga sér goðsögulegan uppruna og vestræn menning á sinn uppruna ekki síst í hinum auðuga og fjölbreytta goðsagnaheimi Forn-Grikkja.
Stoðhola í tóft í HúshólmaÍslensk sendiráð á erlendri grundu kynna gjarnan Ísland og íslenska menningu sem mikilvægan þátt í starfsemi. Jafnan er boðið upp á spennandi möguleika á því að koma íslenskri menningu á framfæri. Á hverju ári eru íslenskar kvikmyndir teknar til sýningar í Norræna húsinu og einnig er þar góð aðstaða til fyrirlestra og tónleikahalds. Einnig er náið samstarf með öðrum norrænum aðalræðisskrifstofum að sameiginlegum verkefnum á sviði lista- og menningarmála. Sjaldnast er menningin kynnt í formi minja eða áþreifanlegrar arfleifðar, en þess frekar í hlóði (söng og spili) og mynd (kvikmynd). Getur ástæðan verið sú að ímyndunarhönnuðir vilji gefa aðra mynd af “menningunni” en hún raunverulega er? Skammast þjóðin sig fyrir “fátæklegheitin” í samanburði við “íburðinn” erlendis?
Hér heima er málum öðruvísi háttað. Haldnar eru sýningar á bókmenntaarfinum í Þjóðmenningarhúsinu, upphafi landsnáms í kjallara hótels í miðborginni og Þjóðminjasafnið gefur gestum kost á að líta menningarverðmætin augum.
Skoðum dæmi um klysjukenndan áhuga landans út á við: “Íslendingar hafa haldið fram þeirri skoðun að nýta beri í miklu ríkara mæli þann styrk sem Norðurlöndin búa yfir og felst í mannauði, sameiginlegum menningararfi og gildismati, svo og öflugu mennta-, vísinda- og nýsköpunarkerfi. Margt bendir til þess að Norðurlönd hafi hingað til vannýtt þessa auðlind til að hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi.

Fátæklegar selleifar á Reykjanesskaga - fulltrúi verkmenningar í 1000 ár

Íslendingar leggja því áherslu á að nýta sem best innri og ytri styrk Norðurlanda til að efla samkeppnisstöðu á sviði menningar, mennta og vísinda. Lykilorðin eru annars vegar samlegð (synergi) og hins vegar hnattræn útrás. Með öflugra rannsóknarsamstarfi þarf að samþætta og samræma þekkingarauðinn í löndunum, en jafnframt stefna að útbreiðslu norrænna menningar-, mennta- og vísindaafurða.” Hér er öllu grautað saman; menningu, vísindum, útrás og nýsköpun – ágætt dæmi um ómeðvitaða arfleifð.
Menningarmál hafa jafnan verið ofarlega á baugi í byggðum landsins og bera menningarstefnur sveitarfélaga þess glöggt merki. Menningarstefnur eru staðfesting og viðurkenning á mikilvægi og gildi menningarlífs í sérhverju sveitarfélagi og markmið hennar er að skapa sem best skilyrði fyrir varðveislu, ræktun og miðlun sameiginlegs svæðisbundins menningararfs. Ennfremur er það gjarnan markmið að tryggja eftir föngum að “allir geti notið menningarlífs og að búa í haginn fyrir skapandi, lifandi listasemi og stuðla að sem almennastri þátttöku íbúa á því sviði.”
ÞorsteinshellirEn hvað er menning?
“Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er menning „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf.“ Íslensk orðsifjabók bætir því við að menning sé „þroski hugar og handa; … það að manna einhvern … þróun, efling, siðmenning“. Orðabók Menningarsjóðs segir líka að menning sé „sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum) … rótgróinn háttur, siður“. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“.
Hér má greina að minnsta kosti tvær ólíkar merkingar sem lagðar eru í hugtakið „menningu“ í almennri notkun. Í fyrsta lagi mætti nefna hugmyndina um siðmenningu. Í öðru lagi kæmi svo hugmyndin um menningu sem rótgróinn sið, sameiginlegan arf. Síðari hugmyndin er oft tengd hugtakinu þjóðmenning, að hver þjóð eigi sérstaka menningu, [líkt og sveitarfélög landsins].
Prestsvarðan - er hún einskis virði í menningarsögulegu tilliti?„Menning“ er einnig lykilhugtak ýmissa fræðigreina, ekki síst mannfræðinnar. Í því sem hér fer á eftir er sett fram mjög einfölduð mynd af hefðbundnum hugmyndum mannfræðinnar um menninguna.
Mannfræðin hefur lengi litið svo á að mannkynið sé eitt og það búi yfir sameiginlegum eiginleikum. Við blasir þó að það hefur búið sér mjög fjölbreytilega lifnaðarhætti. Eitt af helstu verkefnum mannfræðinnar að lýsa og skýra þennan fjölbreytileika og það hvernig hann er mögulegur.
Mannfræðingar hafa lengi haft þá skoðun að fjölbreytileikinn byggi ekki á líkamlegum mun manna eins og sjáist af því að fólk fylgi þeim siðum sem það lærir. Barn sem á ættir að rekja til Íslands en er ættleitt og elst upp hjá japönskum foreldrum, lærir japönsku eins og hvert annað barn þar í landi. Klassískar hugmyndir mannfræðinga um menningu ganga út á það að hún sé afl sem mótar einstaklinginn, hugsun hans og hegðun, og að þannig megi líta á að sá fjölbreytileiki í lifnaðarháttum sem mannkyn hefur búið sér sé menningarlegur.
Eru þetta einskisnýtar menningarminjar?Þá hafa mannfræðingar lengi álitið svo að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu og svo framvegis. Þó að hverri menningu megi skipta niður í ákveðna þætti – trúarbrögð, goðsagnir og vígslusiði, svo einhverjir séu nefndir – fléttist þessir þættir í hverju tilviki saman og myndi ákveðna heild. Þannig kennir klassískur skilningur mannfræðinnar að einstakur þáttur tiltekinnar menningar verði ekki skilinn í einangrun heldur verði að skoða hann í samhengi við alla aðra þætti hennar. Samkvæmt þessu er hver menning heildstæð eining.
Ef menningin er heildstæð, er hún líka afmörkuð. Við getum þannig talað um íslenska menningu og enska menningu og dregið skýr mörk milli þeirra. Það fólk sem tilheyrir hverri menningu, tilheyrir henni allt á sama hátt. Íslensk menning er menning íslensku þjóðarinnar en ekki bara einhvers hluta hennar. Hugmyndin er líka sú að menning hafi ákveðinn stöðugleika. Íslensk menning er „íslensk menning“ hvort sem talað er um landnámstímann eða nútímann, og þarna á milli er eitthvert sögulegt samhengi, einhver stöðuguleiki.
Dæmi um afskiptar menningarminjar á ReykjanesskagaÞetta er þá hin klassíska hugmynd mannfræðinnar um menninguna: Hver menning er sjálfstætt kerfi sem endurnýjar sjálft sig. Þessi hugmynd um menningu hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar undanfarna áratugi. Nú telja flestir að menning sé afsprengi valdatengsla og drottnunar, að menning sé ákveðið form valds og drottnunar, hún sé miðill þar sem vald er bæði skapað og spornað við því.
Sem dæmi um þetta má benda á hvernig vísað var í þætti úr íslenskri menningu og sögu til rökstuðnings fyrir uppsetningu gagnagrunns á heilbrigðissviði: Víkingaarfleiðina og sagnirnar. Einnig má benda á hvernig andstæðingar gagnagrunnins notuðu hliðstæð menningarleg rök gegn gagnagrunninum: Afsal sjálfstæðisins 1262 og „sölu landsins“ 1949. Menning er þess vegna ekki hlutur til fyrir utan og ofan okkur, heldur er hún hluti af hinu daglega lífi, með allri sinni baráttu og striti.”
Í raun, ef vel er að gáð, fela sérhver mannanna verk í sér afurð menningar er krefst ákveðinnar varðveislu og virðingar þeirra er á eftir koma. Hversu vel hún hefur varðveist á ekki að skipta neinu máli.
Þegar menningarsögulegar minjar á Reykjanesskaganum eru skoðaðar, hvort sem um er að ræða á einstaka stað eða sem heild, blasir vanræksla hvarvetna við. Svo er að sjá sem fulltrúar minjavörslunnar hafi MJÖG litlar áhyggjur af þessum fornleifum, enda hafði einn þeirra það á orði í einni kennslustundinni í HÍ að “engar merkilegar fornleifar væri að finna á svæðinu”. Þá var hann að miða við Glaumbæ í Skagafirði, Víðimýri og aðra slíkar er endurreistar hafa verið í “sómasamlegri mynd”. Það segir nokkuð um gildismat viðkomandi. Fátækleg, óhreyfð, en áþreifanleg arfleifð, jafnvel jarðlæg, er auðvitað engu að síður merkileg en uppgerð fornleif. Þessum skilningi “sérfræðinganna” þarf að breyta.  Ef það tekst verður Reykjanesskaginn eitt merkilegasta minjasvæði landsins. Alþingismenn (fjárveitingavaldið) er mjög svo upptekið, líkt og var í lok 19. aldar, að dýrð Íslendingasagnanna og endurreisn þeirra, en huglægni þeirra kemur samt sem áður aldrei til með að geta staðfest eitt eða neitt á vettvangi fornleifanna. Þess vegna eru minjarnar sjálfar svo mikilvægar, þ.e. myndbreyting þess sem var í raun, bæði frá einum tíma til annars svo og raunverulegum aðstæðum fólksins er þar bjó – og dó. Þær, hversu lítilmótlegar sem þær eru, hver og ein, ber að virða til eins langrar framtíðar og mögulegt er.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-visindavefur.is

Lokinu hefur enn ekki verið lyft af menningarverðmætum Reykjanesskagans

Brautarholtskirkja

Í Morgunblaðinu 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22, fjallar Elín Pálmadóttir um “Látnu óvinina í Brautarholtskirkjugarði á Kjalarnesi:

Brautarholt 1“Í kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi vekur forvitni tréskjöldur með áletrun um þakklæti þýskra mæðra – og feðra til Ólafs Bjarnasonar bónda þar fyrir umhyggju hans. Elín Pálmadóttir leitast hér við að rekja merkilega sögu, sem liggur að baki, um 13 þýska flugmenn sem voru jarðsettir þar í kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun „E.D.” (Enemy Dead), látinn óvinur.

HUGSUNARHÁTTUR og tilfinningar í stríðinu eru orðin okkur býsna framandi. Hafa líklega alltaf verið það, jafnvel eftir að grimmt stríð barst að okkar ströndum og upp á land.
Hiklaus viðbrögð Ólafs Bjarnasonar, bónda í Brautarholti, á stríðsárunum bera þess merki. Enda segir á viðarskildinum í Brautarholtskirkju að aldrei gleymist góðs manns verk. Það góða verk hefur samt ekki farið hátt í þá hálfu öld sem liðin er síðan. Enda var þá stríð og bann við öllum fréttaflutningi af flugvélum sem skotnar voru niður. Nær ekkert verið um þetta skrifað á Íslandi síðan. En þýskir blaðamenn skýrðu frá þessu og höfum við tvær slíkar greinar úr þýskum blöðum með fyrirsögnunum: „Hinir óþekktu í kirkjugarðinum í Brautarholti” og Flugmannagrafreitur við Faxaflóa”.
Sú fyrri frá 1953 og sú síðari í tilefni þess að þýskur hermannagrafreitur var vígður í Fossvogskirkjugarði 1958 og haustið áður fluttir þangað þýsku flugmennirnir 13 úr kirkjugarðinum í Brautarholti, svo og fjórir þýskir flugmenn úr Búðareyrarkirkjugarði á Reyðarfirði.
Börn Ólafs Bjarnasonar, sem lést 1970, Jón Ólafsson, bóndi í Brautarholti, og Ingibjörg, systir hans, rifjuðu upp með blaðamanni þennan atburð úr æsku sinni, þegar stríðið kom í Brautarholt og lík þýskra flugmanna fengu skjól í kirkjugarðinum þeirra.
Jón gekk með blaðamanni út í kirkju, sem er einstaklega falleg, byggð 1858. Hún var gerð upp fyrir áratug í samráði við Hörð Ágústsson, sem telur að predikunarstóllinn sé 300 ára gamall. Dönsk altaristafla er frá 1868 en marmaraskírnarfontur með loki frá 1948 er til minningar um Bjarna Ólafsson, bróður þeirra systkina. Okkar athygli beinist að viðarskildinum útskorna til Ólafs Bjarnasonar frá Íslandsvinafélaginu í Hamborg og Félagi um hermannagrafir á veggnum aftan við kirkjubekkina. Þar má lesa: „Þýskar mæður og feður þakka þér fyrir umhyggju þína” og þar fyrir neðan “Aldrei gleymist góðs manns verk. Við heiðrum Ísland og Íslendinga með þessari töflu til yðar”. Taflan var afhent Ólafi 1953 og síðar var hann í þakklætisskyni sæmdur heiðursmerki þýska ríkisins fyrir hiklausa viðtöku þessara ungu, þýsku manna í kirkjugarðinn og umhyggju og varðveislu leiðanna. Taflan hékk alltaf á heimili þeirra hjóna, Ólafs og konu hans, Ástu Ólafsdóttur, en var eftir lát hans flutt í kirkjuna með samþykki prestsins. Úr kirkjuglugganum blasir við kirkjugarðurinn og efst í honum voru þýsku leiðin.

LÍK Á HRAKHóLUM
Brautarholt 2Eitt hvassviðriskvöld var barið að dyrum í Brautarholti. Ólafur gekk út. Liðsforingi stóð á tröppunum og spurði hvort Ólafur gæti leyst vandræði þeirra. Þýsk flugvél hefði verið skotin niður með 7 þýskum fiugmönnum. Málið væri komið í algert óefni. Ekki hefði verið leyft að grafa þá í kirkjugarðinum í Reykjavík, því menn veigruðu sér við að grafa óvinahermenn á sama stað og sína eigin. Þá var nærtækasti staðurinn Lágafell, en þar gat enginn veitt leyfi. Thor Jensen var í húsi sínu en hafði ekkert með kirkju eða garð að gera. Nú spurðu þeir hvort þeim yrði leyft að grafa þýsku flugmennina í kirkjugarðinum í Brautarholti. Ekki væri lengur til setunnar boðið. Ólafur sagði að kirkjugarðurinn væri svo til útgrafinn, eitt og eitt rými eftir á stangli, en til stæði að stækka garðinn til norðurs út á hólinn. Ef þeir vildu þiggja að grafa þá þar, gæti hann veitt leyfið strax.
Ingibjörg segir að hann hafi svo haft samband við sr. Hálfdán Helgason. Ólafur var formaður sóknarnefndar, kirkjuráðsmaður, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarðs, hreppstjóri og um tíma líka oddviti. Hann gat því tekið þessa ákvörðun á eigin spýtur og sá strax hvernig hann gæti leyst málið á staðnum.
Jón var 10 ára gamall og stóð við stafngluggann í gamla húsinu þegar komið var með líkamsleifar fyrstu þýsku flugmannanna sjö, sem skotnir höfðu verið niður yfir Hvalfirði 21. júní 1941. Komið var með þá á börum og teppi breidd yfir. En þeir sem komu seinna voru jarðsettir í kistum. Hermennirnir komu sjálfir með prest, sem jarðsetti og blessaði yfir grafirnar og skotið var heiðursskotum.
Þjóðverjunum var sýnd full virðing að hermanna sið. Á hvert leiði var lagður lítill steinn og á honum messingplata með áletruninni E.D., sem stendur fyrir Enemy Dead, og númeri, sem eflaust hefur verið af málmplötunni sem hermenn hafa um hálsinn. Eftir stríð var farið að leita að fjölskyldum þeirra og virðist hafa gengið misjafnlega, svo sem fram kemur síðar. Tveir þeirra voru Jósep Lutz, 24 ára, og Friedrich Harnisch, 27 ára.
Steinarnir eru ekki lengur til, því starfsmenn kirkjugarðanna í Fossvogi mokuðu þeim ofan í með moldinni þegar þeir sóttu líkin síðar. Þetta var seinni hluta viku og eldri systkinin tvö, Ingibjörg, sem þá hefur verið 14 ára, og Ólafur (landlæknir), 13 ára, voru í skólanum, en yngri bræðurnir Páll og Jón heima. Þegar systkinin komu heim á laugardeginum var auðvitað mikið um þetta talað.
Þau gerðu sér grein fyrir að þetta væri mikill viðburður, en voru ekkert að tala um það út á við. Ingibjörg heldur að hún hafi ekki sagt frá

 því í skólanum. Það var stríð og ekkert slíkt nefnt í blöðum. Ekki er getið um hvaða flugvél þetta var, sem svo snemma í stríðinu var skotin niður yfir Hvalfirði. Þjóðverjar sendu hingað flugvélar við mjög erfið skilyrði frá Stavanger í Noregi til ljósmyndaflugs og í veðurathugunarflug.
Vorið 1941 bjuggu Bretar sig undir að verjast loftárásum á skipalægið í Hvalfirði og sendu hingað sérbúna sveit með loftvarnabyssur, sem kom sér fyrir þar. En frá fyrsta degi hernámsins vorið 1940 höfðu Bretar tekið sér stöðu beggja megin Hvalfjarðar.

STRÍÐIÐ KEMUR Í HLAÐ
Brautarholtskirkja 4Ekki var óeðlilegt að bresku hermönnunum dytti í hug að leita til Ólafs í Brautarholti í vandræðum sínum með legstað fyrir Þjóðverjana. Þeir voru öllum hnútum kunnugir þar á bæ, þekktu kirkju og kirkjugarð frá fyrsta degi. Brautarholt stendur yst á Kjalarnesi með útsýni yfir innsiglinguna að Reykjavfkurhöfn og inn í Hvalfjörð, þar sem voru alltaf miklar skipaferðir og flutningar.
Ingibjörg minnist þess þegar herinn kom 10. maí 1940. Pabbi hennar var alltaf árrisull og sá herskipin sigla inn. Hann vissi ekki hvort þetta væru Bretar eða Þjóðverjar að hernema landið. Ekki var kominn sími á hvern bæ, en í Brautarholti var stöð svo hann gat hringt og fékk staðfest að þetta væru Bretar. Ólafur dreif sig þá í bæinn, því hann var þar í ábyrgðarstörfum, m.a. í stjórn Mjólkurfélags Reykjavfkur og formaður í Landssambandi íslenskra bænda. Nú þurfti að ýmsu að hyggja.
Klukkan fimm um daginn hringdi Kolbeinn í Kollafirði í Brautarholt og sagði að heil bílalest væri á leiðinni til þeirra eftir Vesturlandsvegi, 7 rútur frá BSR fullar af hermönnum. Ásta var ein heima með börnin og leist ekki á blikuna. Hún hringdi í Ólaf í bænum. Hann brá við og hafði samband við Thor Jensen á Lágafelli, sem leyfði honum að beina hermönnunum í Arnarholt. Þar voru stórar byggingar og svo vel vildi til að þær stóðu auðar. Þarna var sumarfjós Thors, en kýrnar ekki komnar þangað frá Korpúlfsstöðum í sumarbeitina.
Ekki leið á löngu þar til rúturnar sjö óku í hlað, hermenn streymdu út úr þeim og byrjuðu að afferma til að búa um sig á kirkjuhólnum í tjöldum. Ásta húsfreyja var svo heppin að þar var danskur karl, sem varð henni til trausts og halds. Niðurstaðan varð sú að hermennirnir hættu við að tjalda og rúturnar óku í Arnarholt, þar sem varð aðalbækistöð þeirra. En þeir héldu beint niður í nesið við sjóinn þar sem þeir byggðu bragga, grófu skotgrafir og bjuggu sér varnarvígi. Og þeir héldu stöðuga vakt á kirkjuhólnum og í kirkjugarðinum frá fyrsta degi og allt stríðið. Um sumarið byggðu þeir fimm bragga aftan við kirkjuna, þar sem þeir bjuggu, en voru fyrst í tjöldum.
„Af þessu var svo mikill ágangur þarna fyrst og mamma hálfhrædd,” segir Ingibjörg, „svo pabbi ákvað að hún flytti með okkur krakkana og stúlkurnar út í Klébergsskóla, sem var laus eftir að skóla lauk í maí.” Ólafur og karlmennirnir komu sér fyrir í kjallara íbúðarhússins og var sendur matur frá Klébergi, enda voru þeir við heyskap. En yfirmenn Bretanna komu sér fyrir á hæðunum.
Hermennirnir fóru illa með húsið, sem þurfti viðgerðar við um haustið. Þá flutti fjölskyldan heim, enda var þá búið að byggja braggana á kirkjuhólnum fyrir alla þá sem stóðu vaktina til að óvinurinn kæmist ekki óséður á land. Hermennirnir voru því þarna rétt á hlaðinu hjá þeim allt stríðið en samskiptin gengu vel. Ólafur stóð fyrir sínu og gætti þess að ekki væri ágangur á fjölskylduna og Bretarnir virtu hann. Þeir voru því sestir þarna að þegar þeir þurftu að finna stað og fá leyfi til að grafa þýsku flugmennina.
Því má bæta við að þetta varð endirinn á sumadvöl kúnna frá Korpúlfsstöðum í Arnarholti. Herinn var þar allan tímann og 1946 keypti Reykjavíkurborg jörðina. „Hvað við vorum heppin að Arnarholt var laust og Thor Jensen létti hernum af okkur. Við vorum svo hrædd,” segir Ingibjörg þegar hún rifjar þetta upp.

TVÆR ÞÝSKAR FLUGÁHAFNIR Í VIÐBÓT
Brautarholt 3Í október árið 1942 komu liðsforingjar aftur til Ólafs sömu erinda. Nú með þrjú lík af þýskum flugmönnum, sem höfðu verið skotnir niður 18. október. Og enn árið eftir þegar þrír þýskir flugmenn höfðu verið skotnir niður 24. apríl 1943. Ólafur sagði sem fyrr sjálfsagt, grafið þá í garðinum hér hjá okkur. Þá voru grafirnar orðnar 13, í röð nyrst í garðinum. Þar var jarðsettur við hliðina á þeim Bjarni, sonur Ólafs og Ástu 1948, og var allur garðurinn með stækkuninni endurvígður af sr. Hálfdáni Helgasyni. Samkvæmt dagsetningunni 1942 hefur þetta verið vél af Jungergerð, sem Bretar eltu og löskuðu svo að hún hrapaði í Svínaskarði innan við Esjuna og féllu hlutar úr vélinni til jarðar í Grafardal. Flugmennirnir voru samkvæmt nöfnum sem skrifuð hafa verið á afrit af grein þýsku blaðamannanna er komu í garðinn 1953: Frans Kirchmann, 22 ára, Josef Ulsamer, 24 ára, og Harald Osthus, þrítugur. Þeir höfðu er þeir skrifuðu grein sína fundið nöfn þeirra þriggja sem fórust árið eftir, 24. apríl 1943: Werner Gerhard Bullerjahn, 31 árs, Theodor Scholtyssek, 23 ára, og Karl Martin Bruck, 25 ára, sem var „lautenant”. Junkers 88 flugvél þeirra eltu Bandaríkjamenn og löskuðu yfir Faxaflóa og lenti hún í hrauni á Strandaheiði. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn bjargaðist í fallhlíf og var tekinn til fanga. Þetta voru því allt ungir menn sem hlutu legu í Brautarholtskirkjugarði.
Systkinin muna vel eftir þessum 13 gröfum í röð efst í kirkjugarðinum og þegar komið var með líkin í þremur áföngum, fyrst sjö 1941, þrjú 1942 og aftur þrjú 1943. Faðir þeirra hugsaði alltaf vel um grafirnar og lét slá á þeim grasið hvert sumar. Eftir 1943 voru ekki fleiri þýskir flugmenn grafnir þar, enda höfðu varnir hér verið stórefldar og ferðir þýskra flugvéla að leggjast af. Eftir stríð voru Þjóðverjar Ólafi í Brautarholti ákaflega þakklátir, svo sem marka má af þakkartöflunni, sem prófessor dr. F. Danmeyer afhendi honum 1953 í viðurvist þýska sendiherrans dr. Kurt Opplers. Þá var messað í kirkjunni, að viðstöddum kaþólskum og lúterskum prestum, og síðan settur upp við þýsku leiðin trékross að frumkvæði Gísla Sigurbjörnssonar á Elliheimilinu. Á krossinn var letrað: „Hér hvíla 13 óþekktir þýskir flugmenn.”

LÍKIN FLUTT
FossvogskirkjugarðurNú voru Þjóðverjar búsettir hér, sendiráðsfólk og þýskir ferðamenn farnir að heimsækja grafreitinn á hverjum „þjóðarsorgardegi” Þjóðverja til að leggja blómsveig að krossinum að aflokinni messu. En þeim þótti staðurinn nokkuð afskekktur og fyrirhafnarsamt að komast þangað eftir vondum vegum og í misjöfnum veðrum. Einkum þó í annan grafreit á Reyðarfirði þar sem hvíldu fjórir þýskir flugmenn. Því ákváðu Þjóðverjar að gera sérstakan hermannagrafreit í Fossvogskirkjugarði og flytja þangað líkamsleifar þýsku flugmannanna, sem var gert 1957.
Man Jón Olafsson vel eftir því þegar menn frá Fossvogskirkjugarði komu í slagveðri miklu og grófu upp líkamsleifar þýsku flugmannanna þrettán. Segir í grein, sem birtist um þetta í fréttablaði Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafreita árið eftir, þegar reiturinn hafði verið formlega tekinn í notkun, að tveir menn hafi átt mestan þátt í að flytja hina föllnu í aðalkirkjugarðinn í höfuborg íslands, Gísli Sigurbjörnsson forstjóri, sem hafi látið sér mjög annt um grafreitina og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem fyrst frétti af hinum föllnu á ferð til Íslands 1951 og skýrði Sambandinu frá gröfunum, auk þess sem sendiráðið í Reykjavík sýndi málinu skilning.
Þar segir að haustið 1957 hafi allir erfiðleikar verið að baki. Flugmennirnir 17 séu ekki lengur „óþekktir flugmenn” eins og stóð á krossinum í Brautarholti. Fólk þekkti nöfn þeirra og aðstandendur þeirra höfðu verið látnir vita. Þá hefði ekki enn tekist að ná til aðstandenda nokkurra þeirra.
Sama dag og mennirnir þrettán í Brautarholti voru fluttir til Reykjavíkur, 20. september 1957, komu líkamsleifar hinna fjögurra frá Búðareyri við Reyðarfjörð með vélskipinu Heklu, en útgerð skipsins tók á sig kostnaðinn við flutninginn. Þýsku flugmennirnir fjórir höfðu hvílt í kirkjugarðinum á Búðareyri frá því flugvél þeirra af Henkel-gerð fórst á uppstigningardag 1941 er hún lenti á fjallinu Snæfugli norðan við Reyðarfjörð. Könnunarflug Þjóðverja yfir Austurlandi munu einkum hafa miðað að því að aðgæta um liðssafnað sem hugsanlega miðaði að innrás í Noreg. Fólk á nálægum bæ varð slyssins vart og Íslendingar fundu líkin. Flugvélin lá á svonefndum Völvuhjalla og mátti til skamms tíma sjá þar leifar af þessari þýsku flugvél. Allir flugmennirnir fjórir fórust, foringinn Joakim Durfeld, Brauer yfirliðþjálfi, Leitz undirliðsforingi og Hornisch loftskeytamaður. Heimildir eru um þetta flugslys á Reyðarfirði og hefur verið um það skrifað.
Þegar 50 ár voru liðin frá hernáminu átti blaðamaður Morgunblaðsins, Guðrún Guðlaugsdóttir, viðtal í Þýskalandi við systur Joakims Durfelds, sem hafði fengið málmmerki hans, sem á var grafið nafn hans, type HE 11 og númer flugvélarinnar, 1291 R. Þannig merki hafa allir flugmennirnir eflaust haft um hálsinn og þar fengin númerin á leiðunum í Brautarholti. Hans Joakim Durfeld hafði, að sögn Ilse systur hans, verið myndarlegur, glaðlyndur maður, 31 árs gamall, nýkvæntur, foringi í þýska flughernum og átti eftir eitt ár af herskyldu. Fyrstu fregnir af afdrifum hans sögðu að hann hefði ekki snúið aftur úr flugi til Englands, en í október 1941 barst systrum hans tilkynning frá pplýsingaskrifstofu hersins þess efnis að hann hefði farist í flugslysi á Íslandi. Ilse var mjög þakklát að heyra að vel hefði verið hugsað um gröf bróður síns í kirkjugörðunum hér öll þessi ár.

ÞRÍR VOLDUGIR KROSSAR
Fossvogskirkjugarður 2Líkin 17 voru grafin við hljóðláta athöfn við grafreitinn, sem þýska sendiráðinu hafði verið úthlutaður í kirkjugarðinum í Fossvogi, að viðstöddum nokkrum starfsmönnum þýska sendiráðsins og þýskum Reykvíkingum, prestar beggja kirkjudeilda báðu bænir og kransar voru lagðir. Endanlegur og varanlegur frágangur minningarreitsins fór svo fram á vegum þýska ríkisins og var lokið sumarið eftir. Þar höfðu verið steyptir þrír voldugir krossar og skráð á vegginn um grafreitinn þekkt nöfn þeirra sem þar hvíla. Var reiturinn vígður á þjóðarsorgardag Þjóðverja 1958 við hátíðlega athöfn, að viðstöddum Þjóðverjum á Íslandi, dómprófastinum Jóni Auðuns og kaþóska biskupnum Pater Hacking, menntamálaráðherra Íslands, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, fulltrúa aðalræðismanns Austurríkis, forseta Germaníu og íslenskum Þýskalandsvinum, þeirra á meðal Gísla Sigurbjörnssyni, segir í greininni í fréttabréfi Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafa. En Gísli hafði haft mikil afskipti af þessum málum öllum og voru færðar þakkir. Svo heppilega stóð á að frægur þýskur organisti, Wilhelm Stollenwer, var einmitt á tónleikaferð á Íslandi og lék við minningarathöfnina í kapellunni þar sem Dómkórinn söng. Hans Richard Hirschfeld sendiherra lagði blómsveig á grafirnar, svo og aðalræðismaður Austurríkis. Og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem kom flugleiðis á eigin vegum til vígslu grafreitsins í Reykjavík, fann þau orð sem náðu til hjartans þegar hann talaði um „fórnardauða milljóna manna sem létu líf sitt vegna pólitískrar sannfæringar eða vegna þess að þeir voru af ákveðnum kynþætti, sem féllu í vígstöðvunum, í sprengiregni loftárásanna eða á endalausum flótta”.
Þarna höfðu þá hlotið með viðhöfn varanlega gröf 17 ungir menn, sem sogast höfðu inn í stríðsátök. Að vísu ekki þar sem hvíldi þeirra vagga heldur norður á Íslandi. Sinn hlut í því átti stórbóndinn íslenski Ólafur Bjarnason, sem lét sig engu varða hvorum megin þessir piltar voru að stríða og geymdi þá í íslenskri mold meðan ósköpin liðu hjá.”
Ólafur í Brautarholti bjó yfir þeim fágæta hæfileika manna að kunna að meta vanda nútíðar til lausnar komandi framtíðar.

Heimild:
Morgunblaðið 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22 – Elín Pálmadóttir – Látnu óvinirnir í Brautarholtskirkjugarði.

Brautarholt

Brautarholtskirkjugarður – grafir þýskra flugmanna.

Jósepsdalur

Í Fálkanum árið 1951 er sagt frá byggingu skíðaskála Ármanns í Jópsepsdal:
“Telja má að saga Skíðaskála Ármanns í Jósefsdal hefjist með byggingu gamla skálans, en horsteinn Einstaedingurvar lagður á Jónsmessunótt 1936. Raunar hafði landnám Ármenninga í Jósefsdal byrjað árið 1932, þegar þeir fyrst völdu dalinn og Bláfjöllin sem sitt skíðaland. Var hugmyndin um skíðaskála þá ekki komin til sögunnar, en í þess stað töluðu brautryðjendurnir um það sumpart í gamni og sumpart í alvöru að smíða trébekki og setja upp við Einstæðing (þ. e. gríðarstór, stakur steinn norðarlega í Jósefsdal), sem síðan væri hægt að færa til eftir áttum.
Þessi hugmynd átti þó ekki langan aldur en í þess stað kom hugmyndin um skíðaskála. Þeirri hugmynd var svo hrundið í framkvæmd vorið 1936, sem fyrr segir. Vegur var þá enginn inn í dalinn og urðu frumbyggjarnir að bera eða draga aðfluttan efnivið á sjálfum sér, neðan frá vegi.
Öll vinna við aðdrátt á efni, smíði og byggingu var framkvæmd af Ármenningum sjálfum í Armannsskalisjálfboðavinnu. Var þetta mikið afrek á þeim tíma, ef ekki einsdæmi. Veggir voru hlaðnir úr grjóti og styrktir með steinsteypu, en loft og ris úr timbri og járnvarið.
Þessi skáli brann í janúar 1942. Var það þung raun fyrir alla þá, sem lagt höfðu hönd á plóginn og unnið að byggingu skálans svo og fjölda marga aðra, sem misstu allan skiðaútbúnað sinn, skó, skíði, svefnpoka o. fl. í eldinum. En hér fór sem fyrr, að það eru örðugleikarnir, sem verða til þess að sýna, hvað í manninum býr. Hinn tiltölulega fámenni hópur, sem stóð á rjúkandi rústum heimilis síns kvartaði ekki né kveinaði. Ekki heyrðust heldur formælingar né ógnunarorð. Þögult stóð skiðafólkið drjúpandi höfði og hugsandi um örlög sín.
Loks steig einn fram úr hópnum og hrópaði: „Á þessum rústum skulum við byggja nýtt, vandað hús, sem rúmað getur alla þá Ármenninga, sem skíðaíþróttina vilja stunda. Það er engin eftirsjá að þessu húsi. Það var hvort sem er orðið alltof lítið.” Þetta voru orð í tíma töluð. Hópurinn tók undir orð hins djarfa foringja og á leiðinni heim um kvöldið, ekki var kvartað yfir því, að þessi eða hinn hefði misst skíðin sín eða skóna og yrði að ganga á sokkaleistunum, heldur var talað um, hvernig hinn nýi skáli ætti að vera í höfuðatriðum.
Um vorið var hafist handa um byggingu hins nýja skála. Vegur var lagður inn í dalinn. Sjálfboðaliðar og aðkeyptur vinnukraftur vann ósleitilega, aðallega þó um helgar. Engin nöfn verða nefnd í þessu sambandi, enda mun brautryðjendunum enginn greiði gerður með því. Ármenningar þekkja þetta fólk og innan félagsins verða nöfn þess geymd.
skaerulidaskaliEn sjaldnast er ein báran stök. Þegar hinn nýi skáli, sem var hlaðinn úr holsteini, en rishæð úr timbri, var kominn undir þak um haustið, fauk hann í fárviðri, svo að ekki var annað eftir en rústin ein. Þetta var þungt áfall, sérstaklega að því er snerti fjárhagshlið málsins. Kjarkurinn var ennþá óbilaður og réð það mestu. Fjár var aflað með öllu heiðarlegu móti og vorið 1943 var byrjað að nýju. Þessi skáli skyldi svo rammlega gerður, að ekkert gæti grandað honum. Nú var byggt úr steinsteypu og ekkert til sparað.
Sumarið 1943 var unnið ósleitilega að byggingunni, og um haustið var skálinn svo tekinn í notkun. Í þetta sinn var enginn vinna að keypt, en allt unnið í sjálfboðavinnu.
Síðan hefir verið unnið flest ár að endurbótum og uppbyggingu Þannig hefir verið byggt vélarhús yfir ljósamótorinn skíðageymsla o. fl. Síðast en ekki síst má svo nefna hina nýju dráttarbraut í brekkunni fyrir ofan skálann, sem flytur fólkið fyrirhafnarlaust langt upp í fjall.”
Í Þjóðviljanum árið 1965 segir jafnframt: “Gamall skiðsskáli brennur” – Í fyrrakvöld brann gamall skíðaskáli sem stóð vestan vegarins upp í Jósefsdal. Hefur skáli þessi staðið ónotaður í mörg ár og var orðinn mjög lélegur. Ekki er vitað um eldsupptök.
Í frétt í Vísi í gær var sagt að þetta hefði verið svonefndur „Skæruliðaskáli”. Það er hins vegar byggt á misskilningi. Hann stendur á allt öðrum stað eða í Ólafsskarði. Þessi skáli var hins vegar nefndur Húsavík á meðan hann var og hét.”

Heimildir:
-Fálkinn, 24. árg. 1951, 13. tbl., bls. 3.
-Þjóðviljinn 9. okt. 1965, bls. 1.

Ólafsskarð

Ólafsskarð – skíðaskáli.

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
“Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.”

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
“Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.”

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
“Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.”

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði“Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.”

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.