Brautarholtskirkja

Í Morgunblaðinu 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22, fjallar Elín Pálmadóttir um “Látnu óvinina í Brautarholtskirkjugarði á Kjalarnesi:

Brautarholt 1“Í kirkjunni í Brautarholti á Kjalarnesi vekur forvitni tréskjöldur með áletrun um þakklæti þýskra mæðra – og feðra til Ólafs Bjarnasonar bónda þar fyrir umhyggju hans. Elín Pálmadóttir leitast hér við að rekja merkilega sögu, sem liggur að baki, um 13 þýska flugmenn sem voru jarðsettir þar í kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun kirkjugarðinum undir steinum með einfaldri áletrun „E.D.” (Enemy Dead), látinn óvinur.

HUGSUNARHÁTTUR og tilfinningar í stríðinu eru orðin okkur býsna framandi. Hafa líklega alltaf verið það, jafnvel eftir að grimmt stríð barst að okkar ströndum og upp á land.
Hiklaus viðbrögð Ólafs Bjarnasonar, bónda í Brautarholti, á stríðsárunum bera þess merki. Enda segir á viðarskildinum í Brautarholtskirkju að aldrei gleymist góðs manns verk. Það góða verk hefur samt ekki farið hátt í þá hálfu öld sem liðin er síðan. Enda var þá stríð og bann við öllum fréttaflutningi af flugvélum sem skotnar voru niður. Nær ekkert verið um þetta skrifað á Íslandi síðan. En þýskir blaðamenn skýrðu frá þessu og höfum við tvær slíkar greinar úr þýskum blöðum með fyrirsögnunum: „Hinir óþekktu í kirkjugarðinum í Brautarholti” og Flugmannagrafreitur við Faxaflóa”.
Sú fyrri frá 1953 og sú síðari í tilefni þess að þýskur hermannagrafreitur var vígður í Fossvogskirkjugarði 1958 og haustið áður fluttir þangað þýsku flugmennirnir 13 úr kirkjugarðinum í Brautarholti, svo og fjórir þýskir flugmenn úr Búðareyrarkirkjugarði á Reyðarfirði.
Börn Ólafs Bjarnasonar, sem lést 1970, Jón Ólafsson, bóndi í Brautarholti, og Ingibjörg, systir hans, rifjuðu upp með blaðamanni þennan atburð úr æsku sinni, þegar stríðið kom í Brautarholt og lík þýskra flugmanna fengu skjól í kirkjugarðinum þeirra.
Jón gekk með blaðamanni út í kirkju, sem er einstaklega falleg, byggð 1858. Hún var gerð upp fyrir áratug í samráði við Hörð Ágústsson, sem telur að predikunarstóllinn sé 300 ára gamall. Dönsk altaristafla er frá 1868 en marmaraskírnarfontur með loki frá 1948 er til minningar um Bjarna Ólafsson, bróður þeirra systkina. Okkar athygli beinist að viðarskildinum útskorna til Ólafs Bjarnasonar frá Íslandsvinafélaginu í Hamborg og Félagi um hermannagrafir á veggnum aftan við kirkjubekkina. Þar má lesa: „Þýskar mæður og feður þakka þér fyrir umhyggju þína” og þar fyrir neðan “Aldrei gleymist góðs manns verk. Við heiðrum Ísland og Íslendinga með þessari töflu til yðar”. Taflan var afhent Ólafi 1953 og síðar var hann í þakklætisskyni sæmdur heiðursmerki þýska ríkisins fyrir hiklausa viðtöku þessara ungu, þýsku manna í kirkjugarðinn og umhyggju og varðveislu leiðanna. Taflan hékk alltaf á heimili þeirra hjóna, Ólafs og konu hans, Ástu Ólafsdóttur, en var eftir lát hans flutt í kirkjuna með samþykki prestsins. Úr kirkjuglugganum blasir við kirkjugarðurinn og efst í honum voru þýsku leiðin.

LÍK Á HRAKHóLUM
Brautarholt 2Eitt hvassviðriskvöld var barið að dyrum í Brautarholti. Ólafur gekk út. Liðsforingi stóð á tröppunum og spurði hvort Ólafur gæti leyst vandræði þeirra. Þýsk flugvél hefði verið skotin niður með 7 þýskum fiugmönnum. Málið væri komið í algert óefni. Ekki hefði verið leyft að grafa þá í kirkjugarðinum í Reykjavík, því menn veigruðu sér við að grafa óvinahermenn á sama stað og sína eigin. Þá var nærtækasti staðurinn Lágafell, en þar gat enginn veitt leyfi. Thor Jensen var í húsi sínu en hafði ekkert með kirkju eða garð að gera. Nú spurðu þeir hvort þeim yrði leyft að grafa þýsku flugmennina í kirkjugarðinum í Brautarholti. Ekki væri lengur til setunnar boðið. Ólafur sagði að kirkjugarðurinn væri svo til útgrafinn, eitt og eitt rými eftir á stangli, en til stæði að stækka garðinn til norðurs út á hólinn. Ef þeir vildu þiggja að grafa þá þar, gæti hann veitt leyfið strax.
Ingibjörg segir að hann hafi svo haft samband við sr. Hálfdán Helgason. Ólafur var formaður sóknarnefndar, kirkjuráðsmaður, umsjónarmaður kirkju og kirkjugarðs, hreppstjóri og um tíma líka oddviti. Hann gat því tekið þessa ákvörðun á eigin spýtur og sá strax hvernig hann gæti leyst málið á staðnum.
Jón var 10 ára gamall og stóð við stafngluggann í gamla húsinu þegar komið var með líkamsleifar fyrstu þýsku flugmannanna sjö, sem skotnir höfðu verið niður yfir Hvalfirði 21. júní 1941. Komið var með þá á börum og teppi breidd yfir. En þeir sem komu seinna voru jarðsettir í kistum. Hermennirnir komu sjálfir með prest, sem jarðsetti og blessaði yfir grafirnar og skotið var heiðursskotum.
Þjóðverjunum var sýnd full virðing að hermanna sið. Á hvert leiði var lagður lítill steinn og á honum messingplata með áletruninni E.D., sem stendur fyrir Enemy Dead, og númeri, sem eflaust hefur verið af málmplötunni sem hermenn hafa um hálsinn. Eftir stríð var farið að leita að fjölskyldum þeirra og virðist hafa gengið misjafnlega, svo sem fram kemur síðar. Tveir þeirra voru Jósep Lutz, 24 ára, og Friedrich Harnisch, 27 ára.
Steinarnir eru ekki lengur til, því starfsmenn kirkjugarðanna í Fossvogi mokuðu þeim ofan í með moldinni þegar þeir sóttu líkin síðar. Þetta var seinni hluta viku og eldri systkinin tvö, Ingibjörg, sem þá hefur verið 14 ára, og Ólafur (landlæknir), 13 ára, voru í skólanum, en yngri bræðurnir Páll og Jón heima. Þegar systkinin komu heim á laugardeginum var auðvitað mikið um þetta talað.
Þau gerðu sér grein fyrir að þetta væri mikill viðburður, en voru ekkert að tala um það út á við. Ingibjörg heldur að hún hafi ekki sagt frá

 því í skólanum. Það var stríð og ekkert slíkt nefnt í blöðum. Ekki er getið um hvaða flugvél þetta var, sem svo snemma í stríðinu var skotin niður yfir Hvalfirði. Þjóðverjar sendu hingað flugvélar við mjög erfið skilyrði frá Stavanger í Noregi til ljósmyndaflugs og í veðurathugunarflug.
Vorið 1941 bjuggu Bretar sig undir að verjast loftárásum á skipalægið í Hvalfirði og sendu hingað sérbúna sveit með loftvarnabyssur, sem kom sér fyrir þar. En frá fyrsta degi hernámsins vorið 1940 höfðu Bretar tekið sér stöðu beggja megin Hvalfjarðar.

STRÍÐIÐ KEMUR Í HLAÐ
Brautarholtskirkja 4Ekki var óeðlilegt að bresku hermönnunum dytti í hug að leita til Ólafs í Brautarholti í vandræðum sínum með legstað fyrir Þjóðverjana. Þeir voru öllum hnútum kunnugir þar á bæ, þekktu kirkju og kirkjugarð frá fyrsta degi. Brautarholt stendur yst á Kjalarnesi með útsýni yfir innsiglinguna að Reykjavfkurhöfn og inn í Hvalfjörð, þar sem voru alltaf miklar skipaferðir og flutningar.
Ingibjörg minnist þess þegar herinn kom 10. maí 1940. Pabbi hennar var alltaf árrisull og sá herskipin sigla inn. Hann vissi ekki hvort þetta væru Bretar eða Þjóðverjar að hernema landið. Ekki var kominn sími á hvern bæ, en í Brautarholti var stöð svo hann gat hringt og fékk staðfest að þetta væru Bretar. Ólafur dreif sig þá í bæinn, því hann var þar í ábyrgðarstörfum, m.a. í stjórn Mjólkurfélags Reykjavfkur og formaður í Landssambandi íslenskra bænda. Nú þurfti að ýmsu að hyggja.
Klukkan fimm um daginn hringdi Kolbeinn í Kollafirði í Brautarholt og sagði að heil bílalest væri á leiðinni til þeirra eftir Vesturlandsvegi, 7 rútur frá BSR fullar af hermönnum. Ásta var ein heima með börnin og leist ekki á blikuna. Hún hringdi í Ólaf í bænum. Hann brá við og hafði samband við Thor Jensen á Lágafelli, sem leyfði honum að beina hermönnunum í Arnarholt. Þar voru stórar byggingar og svo vel vildi til að þær stóðu auðar. Þarna var sumarfjós Thors, en kýrnar ekki komnar þangað frá Korpúlfsstöðum í sumarbeitina.
Ekki leið á löngu þar til rúturnar sjö óku í hlað, hermenn streymdu út úr þeim og byrjuðu að afferma til að búa um sig á kirkjuhólnum í tjöldum. Ásta húsfreyja var svo heppin að þar var danskur karl, sem varð henni til trausts og halds. Niðurstaðan varð sú að hermennirnir hættu við að tjalda og rúturnar óku í Arnarholt, þar sem varð aðalbækistöð þeirra. En þeir héldu beint niður í nesið við sjóinn þar sem þeir byggðu bragga, grófu skotgrafir og bjuggu sér varnarvígi. Og þeir héldu stöðuga vakt á kirkjuhólnum og í kirkjugarðinum frá fyrsta degi og allt stríðið. Um sumarið byggðu þeir fimm bragga aftan við kirkjuna, þar sem þeir bjuggu, en voru fyrst í tjöldum.
„Af þessu var svo mikill ágangur þarna fyrst og mamma hálfhrædd,” segir Ingibjörg, „svo pabbi ákvað að hún flytti með okkur krakkana og stúlkurnar út í Klébergsskóla, sem var laus eftir að skóla lauk í maí.” Ólafur og karlmennirnir komu sér fyrir í kjallara íbúðarhússins og var sendur matur frá Klébergi, enda voru þeir við heyskap. En yfirmenn Bretanna komu sér fyrir á hæðunum.
Hermennirnir fóru illa með húsið, sem þurfti viðgerðar við um haustið. Þá flutti fjölskyldan heim, enda var þá búið að byggja braggana á kirkjuhólnum fyrir alla þá sem stóðu vaktina til að óvinurinn kæmist ekki óséður á land. Hermennirnir voru því þarna rétt á hlaðinu hjá þeim allt stríðið en samskiptin gengu vel. Ólafur stóð fyrir sínu og gætti þess að ekki væri ágangur á fjölskylduna og Bretarnir virtu hann. Þeir voru því sestir þarna að þegar þeir þurftu að finna stað og fá leyfi til að grafa þýsku flugmennina.
Því má bæta við að þetta varð endirinn á sumadvöl kúnna frá Korpúlfsstöðum í Arnarholti. Herinn var þar allan tímann og 1946 keypti Reykjavíkurborg jörðina. „Hvað við vorum heppin að Arnarholt var laust og Thor Jensen létti hernum af okkur. Við vorum svo hrædd,” segir Ingibjörg þegar hún rifjar þetta upp.

TVÆR ÞÝSKAR FLUGÁHAFNIR Í VIÐBÓT
Brautarholt 3Í október árið 1942 komu liðsforingjar aftur til Ólafs sömu erinda. Nú með þrjú lík af þýskum flugmönnum, sem höfðu verið skotnir niður 18. október. Og enn árið eftir þegar þrír þýskir flugmenn höfðu verið skotnir niður 24. apríl 1943. Ólafur sagði sem fyrr sjálfsagt, grafið þá í garðinum hér hjá okkur. Þá voru grafirnar orðnar 13, í röð nyrst í garðinum. Þar var jarðsettur við hliðina á þeim Bjarni, sonur Ólafs og Ástu 1948, og var allur garðurinn með stækkuninni endurvígður af sr. Hálfdáni Helgasyni. Samkvæmt dagsetningunni 1942 hefur þetta verið vél af Jungergerð, sem Bretar eltu og löskuðu svo að hún hrapaði í Svínaskarði innan við Esjuna og féllu hlutar úr vélinni til jarðar í Grafardal. Flugmennirnir voru samkvæmt nöfnum sem skrifuð hafa verið á afrit af grein þýsku blaðamannanna er komu í garðinn 1953: Frans Kirchmann, 22 ára, Josef Ulsamer, 24 ára, og Harald Osthus, þrítugur. Þeir höfðu er þeir skrifuðu grein sína fundið nöfn þeirra þriggja sem fórust árið eftir, 24. apríl 1943: Werner Gerhard Bullerjahn, 31 árs, Theodor Scholtyssek, 23 ára, og Karl Martin Bruck, 25 ára, sem var „lautenant”. Junkers 88 flugvél þeirra eltu Bandaríkjamenn og löskuðu yfir Faxaflóa og lenti hún í hrauni á Strandaheiði. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn bjargaðist í fallhlíf og var tekinn til fanga. Þetta voru því allt ungir menn sem hlutu legu í Brautarholtskirkjugarði.
Systkinin muna vel eftir þessum 13 gröfum í röð efst í kirkjugarðinum og þegar komið var með líkin í þremur áföngum, fyrst sjö 1941, þrjú 1942 og aftur þrjú 1943. Faðir þeirra hugsaði alltaf vel um grafirnar og lét slá á þeim grasið hvert sumar. Eftir 1943 voru ekki fleiri þýskir flugmenn grafnir þar, enda höfðu varnir hér verið stórefldar og ferðir þýskra flugvéla að leggjast af. Eftir stríð voru Þjóðverjar Ólafi í Brautarholti ákaflega þakklátir, svo sem marka má af þakkartöflunni, sem prófessor dr. F. Danmeyer afhendi honum 1953 í viðurvist þýska sendiherrans dr. Kurt Opplers. Þá var messað í kirkjunni, að viðstöddum kaþólskum og lúterskum prestum, og síðan settur upp við þýsku leiðin trékross að frumkvæði Gísla Sigurbjörnssonar á Elliheimilinu. Á krossinn var letrað: „Hér hvíla 13 óþekktir þýskir flugmenn.”

LÍKIN FLUTT
FossvogskirkjugarðurNú voru Þjóðverjar búsettir hér, sendiráðsfólk og þýskir ferðamenn farnir að heimsækja grafreitinn á hverjum „þjóðarsorgardegi” Þjóðverja til að leggja blómsveig að krossinum að aflokinni messu. En þeim þótti staðurinn nokkuð afskekktur og fyrirhafnarsamt að komast þangað eftir vondum vegum og í misjöfnum veðrum. Einkum þó í annan grafreit á Reyðarfirði þar sem hvíldu fjórir þýskir flugmenn. Því ákváðu Þjóðverjar að gera sérstakan hermannagrafreit í Fossvogskirkjugarði og flytja þangað líkamsleifar þýsku flugmannanna, sem var gert 1957.
Man Jón Olafsson vel eftir því þegar menn frá Fossvogskirkjugarði komu í slagveðri miklu og grófu upp líkamsleifar þýsku flugmannanna þrettán. Segir í grein, sem birtist um þetta í fréttablaði Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafreita árið eftir, þegar reiturinn hafði verið formlega tekinn í notkun, að tveir menn hafi átt mestan þátt í að flytja hina föllnu í aðalkirkjugarðinn í höfuborg íslands, Gísli Sigurbjörnsson forstjóri, sem hafi látið sér mjög annt um grafreitina og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem fyrst frétti af hinum föllnu á ferð til Íslands 1951 og skýrði Sambandinu frá gröfunum, auk þess sem sendiráðið í Reykjavík sýndi málinu skilning.
Þar segir að haustið 1957 hafi allir erfiðleikar verið að baki. Flugmennirnir 17 séu ekki lengur „óþekktir flugmenn” eins og stóð á krossinum í Brautarholti. Fólk þekkti nöfn þeirra og aðstandendur þeirra höfðu verið látnir vita. Þá hefði ekki enn tekist að ná til aðstandenda nokkurra þeirra.
Sama dag og mennirnir þrettán í Brautarholti voru fluttir til Reykjavíkur, 20. september 1957, komu líkamsleifar hinna fjögurra frá Búðareyri við Reyðarfjörð með vélskipinu Heklu, en útgerð skipsins tók á sig kostnaðinn við flutninginn. Þýsku flugmennirnir fjórir höfðu hvílt í kirkjugarðinum á Búðareyri frá því flugvél þeirra af Henkel-gerð fórst á uppstigningardag 1941 er hún lenti á fjallinu Snæfugli norðan við Reyðarfjörð. Könnunarflug Þjóðverja yfir Austurlandi munu einkum hafa miðað að því að aðgæta um liðssafnað sem hugsanlega miðaði að innrás í Noreg. Fólk á nálægum bæ varð slyssins vart og Íslendingar fundu líkin. Flugvélin lá á svonefndum Völvuhjalla og mátti til skamms tíma sjá þar leifar af þessari þýsku flugvél. Allir flugmennirnir fjórir fórust, foringinn Joakim Durfeld, Brauer yfirliðþjálfi, Leitz undirliðsforingi og Hornisch loftskeytamaður. Heimildir eru um þetta flugslys á Reyðarfirði og hefur verið um það skrifað.
Þegar 50 ár voru liðin frá hernáminu átti blaðamaður Morgunblaðsins, Guðrún Guðlaugsdóttir, viðtal í Þýskalandi við systur Joakims Durfelds, sem hafði fengið málmmerki hans, sem á var grafið nafn hans, type HE 11 og númer flugvélarinnar, 1291 R. Þannig merki hafa allir flugmennirnir eflaust haft um hálsinn og þar fengin númerin á leiðunum í Brautarholti. Hans Joakim Durfeld hafði, að sögn Ilse systur hans, verið myndarlegur, glaðlyndur maður, 31 árs gamall, nýkvæntur, foringi í þýska flughernum og átti eftir eitt ár af herskyldu. Fyrstu fregnir af afdrifum hans sögðu að hann hefði ekki snúið aftur úr flugi til Englands, en í október 1941 barst systrum hans tilkynning frá pplýsingaskrifstofu hersins þess efnis að hann hefði farist í flugslysi á Íslandi. Ilse var mjög þakklát að heyra að vel hefði verið hugsað um gröf bróður síns í kirkjugörðunum hér öll þessi ár.

ÞRÍR VOLDUGIR KROSSAR
Fossvogskirkjugarður 2Líkin 17 voru grafin við hljóðláta athöfn við grafreitinn, sem þýska sendiráðinu hafði verið úthlutaður í kirkjugarðinum í Fossvogi, að viðstöddum nokkrum starfsmönnum þýska sendiráðsins og þýskum Reykvíkingum, prestar beggja kirkjudeilda báðu bænir og kransar voru lagðir. Endanlegur og varanlegur frágangur minningarreitsins fór svo fram á vegum þýska ríkisins og var lokið sumarið eftir. Þar höfðu verið steyptir þrír voldugir krossar og skráð á vegginn um grafreitinn þekkt nöfn þeirra sem þar hvíla. Var reiturinn vígður á þjóðarsorgardag Þjóðverja 1958 við hátíðlega athöfn, að viðstöddum Þjóðverjum á Íslandi, dómprófastinum Jóni Auðuns og kaþóska biskupnum Pater Hacking, menntamálaráðherra Íslands, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, fulltrúa aðalræðismanns Austurríkis, forseta Germaníu og íslenskum Þýskalandsvinum, þeirra á meðal Gísla Sigurbjörnssyni, segir í greininni í fréttabréfi Sambands félaga um varðveislu þýskra hermannagrafa. En Gísli hafði haft mikil afskipti af þessum málum öllum og voru færðar þakkir. Svo heppilega stóð á að frægur þýskur organisti, Wilhelm Stollenwer, var einmitt á tónleikaferð á Íslandi og lék við minningarathöfnina í kapellunni þar sem Dómkórinn söng. Hans Richard Hirschfeld sendiherra lagði blómsveig á grafirnar, svo og aðalræðismaður Austurríkis. Og séra Horst Schubrig frá Giessen-Wieseck, sem kom flugleiðis á eigin vegum til vígslu grafreitsins í Reykjavík, fann þau orð sem náðu til hjartans þegar hann talaði um „fórnardauða milljóna manna sem létu líf sitt vegna pólitískrar sannfæringar eða vegna þess að þeir voru af ákveðnum kynþætti, sem féllu í vígstöðvunum, í sprengiregni loftárásanna eða á endalausum flótta”.
Þarna höfðu þá hlotið með viðhöfn varanlega gröf 17 ungir menn, sem sogast höfðu inn í stríðsátök. Að vísu ekki þar sem hvíldi þeirra vagga heldur norður á Íslandi. Sinn hlut í því átti stórbóndinn íslenski Ólafur Bjarnason, sem lét sig engu varða hvorum megin þessir piltar voru að stríða og geymdi þá í íslenskri mold meðan ósköpin liðu hjá.”
Ólafur í Brautarholti bjó yfir þeim fágæta hæfileika manna að kunna að meta vanda nútíðar til lausnar komandi framtíðar.

Heimild:
Morgunblaðið 22. febrúar 1998, bls. 20 og 22 – Elín Pálmadóttir – Látnu óvinirnir í Brautarholtskirkjugarði.

Brautarholt

Brautarholtskirkjugarður – grafir þýskra flugmanna.

Fjárskjólshraun

Gengið var um Fjárskjólshraun. Einn FERLIRsfélaginn hafði rekist þar á mjög fornar hleðslur fyrir fjárskjóli í hrauninu.

Fjárskjólshraunshellir

Fjárskjólshraunshellir.

Við athugun reyndist þar vera um miklar hleðslur fyrir rúmgóðum skúta, svo til alveg grónar, en vel sést móta fyrir hlöðnum innganginum, sem er alllangur. Hellirinn sjálfur hefur hýst hátt í hundrað kindur. Fyrirhleðslur eru inni í hellinum á þremur stöðum. Mold er í gólfi. Við fyrirhleðsluna, vinstra megin við innganginn er inn er komið hefur verið hleðsla er líkist bæli eða klefa. Þar gæti hugsanlega hafa verið skjól fyrir þann eða þá er sátu yfir ánum í hrauninu. Þarna hefur ekki nokkur maður stigið niður fæti alllengi. Ekki er ósennilegt að fjárskjólið sé það er hraunið hefur dregið nafn sitt af – Fjárskjólshraun. Ofan við fjárskjólið var vörðubrot.

Fjárskjólshraun

Hellisop í Fjárskjóshrauni.

Á leiðinni til baka var gengið fram á mikið gróið jarðfall. Það sér ekki fyrr ens taðið er á brún þess. Greinileg hvelfing er við nyrðri endann og u.þ.b. 6 metrar voru niður. Hægt var að komast niður í hana til hliðar og virtist þar vera mikill geimur. Til hliðar er hægt að komast niður í mannhæðarháa rás og liggur hún upp á við og beygir síðan til vinstri. Ekkert hrun var í rásinni. Henni var ekki fylgt að þessu sinni, en ætlunin er að fara þangað fljótlega aftur og kanna hana betur (sjá FERLIR-623). Rásin er á u.þ.b. 8 metra dýpi svo hún gæti lofað góðu. Ekki var að sjá að nokkur maður hafi heldur stigið fæti þarna niður – ef mark var takandi á moldinni í botninum á leið niður í rásina.
Frábært veður. Gangan og skoðunin tóku 2 klst og 2 mín.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Kolhólasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k. Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.

Kolhólasel

Kolhólasel í Vatnsleysuheiði.

Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu, en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.
Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu.

Kolhólssel

Kolhólssel.

Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel og sunnan Fonruselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Kolhólaselið.

Kastið

Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflög, sem þar eiga að vera.

kastid-213

Hluti braksins í Kastinu.

Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum (6352353-2215459). Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.

Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega (6354282-2216012). Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.

Langhóll

Langhóll – brak.

Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.). Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.

kastid-212

Kastið í Fagradalsfjalli.

 

Rauðshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóft.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Forn tóft í Helgadal var barin augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði aðstöðu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Kolhólasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.
Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu (6359266-2214691), en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.

Kolhóll

Kolhóll.

Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel og sunnan Fonruselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Fjárskjólshraun

Gengið var niður Fjárskjólshraun og að opi Fjárskjólshraunshellis, sem fannst fyrir skömmu í grónu jarðfalli í hrauninu. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess.

Fjárskjólshraun

Á leið í Fjárskjólshraun. Keflavík að handan.

Komið var niður í skúta undir berghellunni, en með því að fara til hægri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri.

Fjárskjóshraun

Í helli í Fjárskjóshrauni.

Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnum á einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.
Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Ekki var komist inn í meginrásina að þessu sinni. Líklega má telja svæðið í kring hellavænlegt og því vel þess virði að gefa því nánari gætur við tækifæri. Frést hefur af opi þarna nokkru austar, skammt neðan við þjóðveginn, sem á eftir að staðsetja og skoða.
Frábært veður.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.

Reykjanesbær

Svartihellir (Skesuhellir).

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Stórvirkar vinnuvélar komnar að hlöðnum garði við Tóustíg.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

“Víkingaskip” í Afstapahrauni.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.