Mosfellssveit

Í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ“ frá árinu 2006 má lesa eftirfarandi um einstaka bæi, auk annars fróðleiks:

Blikastaðir

Blikastaðir

Blikastaðir – túnakort 1916.

Blikastaðir hafa trúlega verið teknir í ábúð snemma á miðöldum en þeirra er fyrst getið í máldaga Maríukirkjunnar í Viðey frá árinu 1234. Þar kemur fram að kirkjan og staðurinn hafi átt landið á „Blackastoðum“ (Dipl. Isl. I, bls. 5078). Næst segir í leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs árið 1313: „Af bleikastodum hellmingur heyia þeirra sem fast“ (Dipl. Isl. II, bls. 377) og í skrá um kvikfé og leigumála klausturjarða 1395: „aa bleikastodum ij merkur“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Samkvæmt Fógetareikningum áranna 1547-1552 var land á „Bleckestedom“ orðið konungseign um miðja 16. öld (Dipl. Isl. XLL) og var enn þegar jarðatal var tekið árið 1704. Þá var ábúandi jarðarinnar einn en heimilismenn samtals tólf. Í bústofninum voru níu kýr, tvö geldnaut, ein kvíga tvævetur, eitt naut veturgamalt, 29 ær með lömbum, fjórir gamlir sauðir, sex þrevetrir, átta tvævetrir, 23 veturgamlir, þrír hestar, tvö hross og ein unghryssa, en fóðrast gátu sex kýr, 20 lömb og einn hestur (Jarðabók Árna og Páls).

Blikastaðir

Blikastaðir 1905-1925.

Samkvæmt jarðatali Johnsens voru þar árið 1847 þrjú kúgildi og einn leigjandi (bls. 96). Árið 1908 fluttist Magnús Þorláksson, bróðir Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, ásamt fjölskyldu sinni frá Vesturhópshólum í Húnavatnssýslu til Blikastaða og hóf þar búskap. Magnús bjó á jörðinni til dauðadags árið 1942 en þá tóku við dóttir hans, Helga, sem búið hafði á staðnum frá tveggja ára aldri, og maður hennar Sigsteinn Pálsson. Stunduðu þau aðallega kúabúskap til ársins 1973 en þá voru á jörðinni 60 mjólkurkýr og samtals 90 gripir í fjósi. Eftir það leigði Skarphéðinn Össurarson íbúðarhús og fjós á Blikastöðum og rak þar hænsnabú (Magnús Guðmundsson, bls. 8). Var hann skráður fyrir skepnunum 1979 (Jarðaskrár). Börn Helgu og Sigsteins hafa reist sér hús við Árnesveg og búa þar (Magnús Guðmundsson, bls. 8).

Blikastaðir

Blikastaðir.

Í Jarðatalinu frá 1704 er engin lýsing á jarðardýrleika Blikastaða (Jarðabók Árna og Páls) en í Jarðatali Johnsen árið 1847 er jörðin sögð 14 hundruð og frá 1855 er til lýsing eftir séra Stefán Þorvaldsson: „…sá bær stendur á láglendu mýrlendi, skammt fyrir norðan Lágafellshamra, austanvert við Korpúlfsstaðaá, sunnan til við Leiruvoga, gagnvart Víðinesi. Þessi jörð hefir góðan útheyjaheyskap…“ og er 15 hundraða (bls. 233). Þegar Magnús kom 53 árum síðar gáfu túnin af sér um 80 hesta af heyi þegar vel áraði. Ræktaði hann smám saman upp mela og mýrar sem ná yfir mikinn hluta þeirra túna sem nú eru á jörðinni. Voru þau orðin 42 hektarar þegar Helga og Sigsteinn tóku við og stækkuðu í 70 hektara í þeirra búskapartíð. Þá hlutu túnin og mismunandi hlutar þeirra einnig nöfn sín sem eru sérstök fyrir Blikastaði.

Blikastaðir – Hjáleigan Hamrahlíð

Hamrahlíð

Tóftir Hamrahlíðar.

Býlið Hamrahlíð var hjáleiga frá Blikastöðum og byggt um 1850. Um það segir séra Stefán Þorvaldsson árið 1855: „Afbýli eitt lítið, byggt fyrir 45 árum úr Korpúlfsstaðalandi, norðvestan undir Lágafellshömrum, skammt í suður frá Blikastöðum, er lítt byggilegt sökum landþrengsla og töðuleysis“ (bls. 235). Í Hamrahlíð er mikið fuglalíf (Magnús Guðmundsson, bls. 23).
Býlið stóð „…efst í óræktaða landinu við afleggjarann að Blikastöðum…“ (Ari Gíslason, bls. 4) við rætur samnefnds fjalls sem í Árbók Ferðafélags Íslands 1936 er talið vesturbrún Úlfarsfells með Lágafellshömrum að norðan (Ólafur Lárusson, bls. 70). Hjáleigunnar er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens 1847 né Jarðabók 1704. Vitað er að hún var í byggð árið 1890 (Magnús Guðmundson, bls. 3) en óvíst hvenær hún lagðist af. Hennar er ekki getið í Fasteignabók 1922. Rústir býlisins sjást enn.
Á Túnakorti, fyrir enda heimreiðarinnar, suðaustan megin í túninu, er timburhús, en skv. kortinu var búið í þeim á meirihluta býla.

(Mosfells) Bringur

Bringur

Bringur – túnakort 1916.

Í visitasíu Mosfells frá 23. ágúst 1646 var framlagður vitnisburður Guðrúnar Þorsteinsdóttur eiginkonu séra Þorsteins prests Einarssonar á Mosfelli, 1582-1625, frá 7. febrúar 1643 um: … „40 tiju ára brúkun syns Eignarmans S. Þorsteins heijtins Eynarssonar tveggia Selstadanna. Annarar heijma í Bringunum“ …
Í sömu visitasíu var lagður fram vitnisburður Árna Magnússonar í Ytri–Njarðvík frá 23. október 1626. Árni upplýsti að hann hefði samtals verið í þjónustu á Mosfelli í þrjú ár og að hann vissi: … „eij annad nie heijrdi af nockrum manne Enn Mosfelle være Eignud selstada atolulaust ad ollu ad, synu viti bædi undir Grijmansfellsfosse og onnur þar i Skögnum heijm á bringunum“ …
Undir visitasíuna skrifa Einar Ólafsson prestur á Mosfelli, Stefán Hallkelsson prestur í Seltjarnarnesþingum, Sigurður Árnason, Halldór Eiríksson, Jón Árnason og Bjarni Eiríksson.

Bringur

Bringur – neðst t.h.

Stefán Þorvaldsson ræðir um Mosfellsbringur í lýsingu Mosfells- og Gufunessókna frá 1855. Hjá honum kemur m.a. þetta fram: „Í austur fram af Mosfellsdal liggur graslendi mikið og víðlent; eru það lágar hæðir og mýrlendar, með stargresisflóum og valllendis börðum, víða greiðfærum eða sléttum. Hæðir þessar eru nefndar „Bringur“ eða „Mosfellsbringur“ og liggja undir Mosfell til selstöðu og slægna, og eru þær allgott sumarbeitarland, en örðugt að sækja þangað heyskap og enn torveldara að verja þær fyrir afréttarfénaði og stóðhrossum. Fyrir austan Bringurnar liggur „Illaklif“ svo nefnt; er það reyndar vestari brún Mosfellsheiðar.“
Þann 30. mars 1856 veitti presturinn á Mosfelli bóndanum á Völlum í Kjalarneshreppi, Jóhannesi Jónssyni Lund, leyfi til þess að byggja sér bæ á þeim hluta heiðarlands Mosfellskirkju sem kallaðist Gullbringur. Í leyfisbréfi prestsins kom fram að býli þessu skyldi fylgja eigi fullur þriðjungur alls heiðarlands kirkjunnar. Umboðsmaður Vallabóndans sendi yfirvöldum, þ.e. Trampe stiftamtmanni og Pétri Péturssyni biskupi, samninginn síðan til umsagnar. Í svarbréfi dagsettu þann 13. júní 1856 kemur fram að þeir töldu samningnum í ýmsu ábótavant. Samningurinn yrði að byggjast á áliti tveggja kunnugra manna útnefndra af sýslumanni, sem bæði mældu út landið þar sem Mosfellspresti væri skaðminnst, og tiltækju stærð og hæfilegt eftirgjald. Eftir að bætt hafði verið úr þessu samþykkti bóndinn á Völlum skilmála þá sem settir voru fyrir byggingunni. Málið barst síðan aftur inn á borð yfirvalda. Niðurstaða þeirra varð sú að hafna samningnum aftur, þ.e. enn hefði ekki öllum skilyrðum þeirra verið fullnægt. Þetta kemur fram í bréfi frá 24. september 1857.

Bringur

Bringnabærinn 1968.

Sjá má í bréfi stiftamtmannsins til Mosfellsprests frá 22. júní 1858, þar sem hann fjallar um útvísun fyrir býli við Litla-Sauðafell í Mosfellskirkjulandi, að Mosfellsprestur hefur samið á eigin vegum um bæjarbyggingu í Gullbringum.
Í fasteignamatinu 1916-1918 segir um (Mosfells) Bringur: „Afbýli úr Mosfellskirkju heiðarlandi. …
Lm. sem Mosf. kirkju. … Land, ákveðinn hluti úr heiðarlandinu, útsuðurhorn þess; rúmt og gott ætíð, er til nær, en talsvert snjóþungt. Smölun erfið (í afréttarjaðri)“.
Í bréfi sem Mosfellsprestur sendi yfirvöldum 7. febrúar 1933 vegna hugsanlegrar sölu á Mosfellsheiðarlandi kemur eftirfarandi fram: „Landamerki Mosfellsbringna eru þessi: Úr vörðu fyrir austan og ofan miðja Geldingatjörn suður beint til suðurmarkalínu Mosfellsprestakallslands. Úr sömu vörðu austan miðrar Geldingartjarnar beina línu í vörðu syðst á Blásteinsbringum, þaðan bein lína eftir uppsettum smávörðum sunnan Jónsselslækja og úr einni þeirra, er stendur á tungu á Jónsselshæð bein lína í hornstein þann, er ræður mörkum milli Mosfellslands og Laxness. Þessar uppsettu vörður bera saman við ærhúsin í Laxnesi og í íbúðarhúsið á Mosfelli (כ :gamla íbúarhúsið). Að sunnan ræður markalína Mosfellsprestakallslands“.

Bringur

Bringur 1968.

Mosfellsbringur voru undanskildar við sölu á Mosfellsheiði árið 1933. Landi Bringna var skipt út úr Mosfellstorfu árið 1939 og landamerki ákveðin. Björn Bjarnarson í Grafarholti samdi greinargerð um það mál 30. nóvember s.á. Segir hann landamerkin hafa verið ákveðin af Mosfellspresti fyrir 20-30 árum.
Landamerkjabréf jarðanna Mosfellsbringna og Seljabrekku var undirritað 7. október 1939 og því þinglýst 1940. Samkvæmt því eru landamerkin svohljóðandi: „Úr Blásteinsvörðu, sem hefir verið hlaðin í dag neðst í Blásteinsbringum, beina línu í Jakkavörðu, sem einnig hefir verið hlaðin í dag, og þaðan beina línu í Markastein, sem er landamerkjasteinn milli Mosfellsbringna, Seljabrekku og Laxness. Auk þess hefir verið hlaðin varða milli Jakkavörðu og Markasteins til leiðbeiningar um stefnu milli tveggja síðasttaldra merkja. Undir bréfið skrifa Hálfdan Helgason á Mosfelli, Hallur Jónsson í Mosfellsbringum og Guðmundur Þorláksson á Seljabrekku“.
Land hefur verið látið til Seljabrekku samkvæmt byggingarbréfi fyrir þeirri jörð 13. mars 1983 eða eins og þar segir: „Að sunnan fær Seljabrekka land, sem áður tilheyrði Bringum þannig að suðurmörk landsins verða ca 50 metrum norðan við núverandi Sogslínu frá Laxnessmörkum allt að Geldingatjarnarlæk. Geldingatjörn verður öll í landi Seljabrekku“.

Bringur

Bringur – útihús.

Í grein frá 1985 talar E.J. Stardal um að eitt af þeim nýbýlum sem risu upp við jaðra Mosfellsheiðar í landi Mosfellskirkjustaðar um miðja 19. öld hafi verið Bringur. Honum farast svo orð um jörðina: „Býlið var reist allhátt uppi í Mosfellsbringum á gilbarmi þeirrar árkvíslar er rennur um norðurhluta Mosfellsdals og sameinast suðuránni skammt neðan Hrísbrúar og heitir Kaldakvísl þaðan“.

Elliðakot (Helliskot)

Elliðakot

Elliðakot – túnakort 1916.

Kotsins er fyrst getið árið 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá er jörðin í eyði og kallast „Hellar“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Í heimild frá 1704 er svo talað um „Hellirs Kot“ og virðist líklegt að um sömu jörð sé að ræða (sbr. Ólaf Lárusson 1944). Hún er þá í eigu konungs með tvo ábúendur sem búa hvor á sínum helmingi hennar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 2889). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign og býr eigandinn þar einn (J. Johnsen, bls. 96). Nafnið Elliðakot var tekið upp um 1883. Að sögn Karls Nor­ahls (f. 1898) hafði jörðin verið í eyði þegar afi hans byggði þar timburhús til íbúðar árið 1887. Sam­kvæmt fasteignabókum hefur kotið lagst í eyði aftur á árunum 1938-1957 (Fasteignabók) en í heimild frá 1978 kemur fram að húsið hafi brunnið árið 1949 (Guðlaugur R. Guðmundsson, bls. 1) Samkvæmt Eyðijarðaskrá 1963 er jörðin þá í eigu dánarbús Gunnars Sigurðssonar í Gunnarshólma en þar eru engin nothæf hús og hæpið talið að leggja í kostnað til búsetu (Skýrsla um eyðijarðir 1963).
Gamli húsgrunnurinn stóð þó enn þá 1978 (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Elliðakot (Helliskot) – Hjáleiga; Vilborgarkot

Vilborgarkot

Vilborgarkot.

Um Vilborga­kot segir í Jarðabók frá 1704: „Forn eyðijörð, og hefur í eyði legið fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi, og hefur land þessarar eyðijarðar brúkað verið til beitar eftir leyfi Bessastaðamanna bæði frá Hólmi, sem liggur í Gullbringusýslu, og líka frá Helliskoti, sem í þessari sýslu liggur og er næsti bær við þessa eyðijörð. Líka hafa þar stundum ábúendur á Hólmi heyskap haft og torfskurð, en Hellirskots ábúendur hafa þar fyrir fáum árum eftir orlofi Bessastaðamanna uppbyggt fjárhús. Nú á næst umliðnum vetri kom til greina, hvort brúkun þessa eyðikots skyldi að meiri rjetti Hólms eður Hellirskotsábúendum tilheyra mega, og varð sú endíng þess eftir elstu og bestu manna undirrjetting, þeirra er hjer í nálægð voru og til vissu, að Vilborgarkot heyri til þessari sveit en ekki Seltjarnarnesshrepp, og kynni því ekki Hólmi að fylgja so sem eignarland þeirrar jarðar… Jörðin meina menn upp aftur byggjast mætti, þó með erfiði og bágindum til töðuslægna fyrst um nokkurn tíma…“. Eigandi á þessum tíma var konungur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 287-8).

Vilborgarkot

Vilborgarkot.

Vilborgarkots er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847, Nýrri Jarðabók fyrir Ísland frá 1861 né Fasteignabók 1922. Það hefur því verið byggt úr auðn einhvern tíma á árunum 1861-1900. Karl E. Nordahl kom í Vilborgarkot, barn að aldri, meðan það var enn í byggð og var baðstofan þá með skarsúð. Síðast bjó þar Pétur Ólafsson en kotið fór í eyði aftur 1905 og hann bjó síðan í Elliðakoti í 10 ár og flutti loks í Þormóðsdal (Guðlaugur R. Guðmundsson). Núna er Vilborgarkot í landareign Geitháls.
Við fornleifaskráningu árið 1981 fundust rústir frá kotinu á norðurbakka Hólmsár. Áin rennur í boga norður meðfram túni bæjarins Gunnarshólma og eru leirur þar sem hún breikkar nyrst og austast. Milli lágra stórgrýtishæða, norðaustan við ána, liggur lítill dalur niður að henni í vestur.
Vestast í dalnum, á grösugu sléttlendi sunnan í hæðinni við nyrsta sveig árinnar og um 300 m í norðaustur frá bænum, beint á móti honum, eru rústir Vilborgarkots (Guðmundur Ólafsson).

Helgadalur

Helgadalur

Helgadalur.

Í Helga­dal hefur verið búið frá því á miðöldum en hans er fyrst getið 1395 í skrá um jarðir sem koma undir Viðeyjarklaustur í tíð Páls Magnússonar ábóta (13781403): „Helgadalvr xijc“ (Dipl. Isl. III, bls. 598).
Jörðin „Helgedall“ er svo orðin konungseign þegar minnst er á hana í Fógetareikningum áranna 1547-1552 (Dipl. Isl. XII) og er enn 1704, þá með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 319-20).
Árið 1847 er hún hins vegar komin í bændaeign og býr á henni einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Árið 1979 er eigandinn Hreinn Ólafsson og enn er búið á jörðinni (Jarðaskrár).

Helgafell 

Hlegafell

Helgafell – túnakort 1916.

Helgafell hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552 þegar það er komið í eigu konungs (Dipl. Isl. XII). Svo er enn árið 1704 og þá eru ábúendurnir tveir (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 316-17). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign en ábúendur áfram tveir leiguliðar (J. Johnsen, bls. 95). Árið 1979 eru eigendurnir þessir: Jón Sv. Níelsson að Helgafelli 1, Haukur Níelsson að Helgafelli 2 og Níels M. Hauksson bifreiðastjóri að Helgafelli 3 sem er smábýli, stofnað síðar en hin (Jarðaskrá Landn. rík.).
Jörðin er enn í ábúð.

Hitta

Mosfell

Mosfell/Hitta – kort 1908.

Hittu er getið í Jarðatali 1847 og er þar þá einn ábúandi (J. Johnsen, bls. 95). Í lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir að Hitta sé hjáleiga frá Mosfelli „…sem nú er lögð í eyði…“ og undir heimajörðina (Stefán Þorvaldsson). Í Jarðabók 1861 er hún einnig talin hjáleiga frá Mosfelli og sennilega komin í eyði þar eð einungis er getið fornrar hundraðstölu en ekki nýrrar (Ný Jarðabók…). Í heimild frá 1938 segir að Hitta sé hjá­leiga frá Mosfelli og samtúna heimajörð, „…byggð um miðja næst liðna öld…“ og hefur lengi legið undir ábúð Mosfellspresta (Björn Bjarnason, bls. 107).
Utan við bæinn Mosfell er Kirkjugil en neðarlega vestan við það var gamalt lítið kot sem hét Hitta, hjáeiga frá Mosfelli. Þar fyrir ofan einnig vestan gilsins er stykki sem heitir Merkurvöllur og var þar önnur hjáleiga samnefnd frá Mosfelli (Örnefnalýsing Mosfells).
Neðarlega í túninu á Mosfelli suðaustanverðu er lágur hóll. Sker hann sig nokkuð úr umhverfinu. Sé horft á hann úr fjarlægð sést glögglega, m.a. á litnum, að þar hafa staðið einhver hús (Ágúst Ó. Georgsson). Engar rústir eru sjáanlegar á hólnum eða við hann. Árni Magnússon, Víðibóli, sem ólst upp á Mosfelli, segir að þarna hafi verið rústir í túninu (Ágúst Ó. Georgsson).
Í ágúst 1996 grófu fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafni Íslands á þessum stað og fundust þá leifar bæjarins. „Þeir gripir sem fundust við rannsóknina síðsumars 1996 benda ótvírætt til þess að grafið hafi verið í rústir híbýla frá 19. öld.

Hlaðgerðarkot

Hlaðgerðarkot

Hlaðgerðarkot – túnakort 1916.

Fyrst er minnst á Hlaðgerðarkot árið 1704 en þá er jörðin í eigu bóndans á Suður-Reykjum og ábúandi einn leiguliði (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 317). Árið 1847 er hún enn í bændaeign með einum leiguliða (J. Johnsen, bls. 95). Síðar var nýbýlið Reykjahlíð stofnað og breyttist nafn jarðarinnar til samræmis við það á tímabilinu 1922-32 (Fasteignabók 1992 og 1932). Frá því um 1958 var hún án ábúðar (Jarðaskrár) en komst einhvern tíma fyrir 1966 í eigu Reykjavíkurborgar. Í heimild frá því ári segir um Reykjahlíð: „Byggðahverfi í Mosfellsdal. Mikill jarðhiti og þaðan var lögð lengsta hitaveitulögn til Reykjavíkur, röskir 20 km, eftir að höfuðborgin hafði keypt jörðina. Þarna er mikið um gróðurhús“ (Þorsteinn Jósepsson, bls. 288). Frá 1968 var garðyrkjubýli á jörðinni. Árið 1979 var hún ennþá eign Reykjavíkurborgar en leigð Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð (Jarðaskrár). Hlaðgerðarkot er hins vegar meðferðarheimili á vegum Samhjálpar.

Hraðastaðir

Hraðastaðir

Hraðastaðir – Hraðastaðir.

Hraðastaða er fyrst getið í skrá yfir kvikfé og leigumála af jörðum Viðeyjarklausturs frá 1395: „aa Hradastodvm. iij. merkur“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Næst er þeirra getið í Fógetareikningum áranna 1547-1552, þá komnir í eigu konungs (Dipl. Isl. XII) og voru það enn 1704, með einn leiguliða eða ábúanda (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 320-321). Árið 1847 voru Hraðastaðir hins vegar komin í bændaeigu og bjó eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen) og við gerð Landamerkjaskrár 1890 var Nikulás Jónsson í Norðurkoti eigandi hálfrar jarðarinnar. Hraðastöðum var síðar skipt í fjögur býli.
Hraðastaðir 2 og 3 voru stofnaðir á árunum 1962-4 og sambýlið Hraðastaðir 4 á árunum 1972-3. Árið 1979 voru eigendur þessir: Kjartan Magnússon að Hraðastöðum 1 og dánarbú Bjarna Magnússonar að Hraðastöðum 2, með Bjarna Bjarnson skráðan fyrir skepnunum. Hann var einnig eigandi að Hraðastöðum 3 og Kjartan Jónsson að Hraðastöðum 4. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Hraðastaðir – Legstaður; Hraðaleiði

Hraðastaðir

Hraðastaðir fyrrum.

Í fornleifaskýrslu árið 1817 staðsetur séra Markús Sigurðsson Hraðaleiði „…á Landamerkjum Mosfells og Hradastada, á grasvöxnum Areyrarbakka, hvar hærra Landslag med Móabarde umgyrder fyrir ofan so mögulegt væri, ad Áinn hafde einhvorntima runnid kríngum nefndan Hól“ (Sveinbjörn Rafnsson, bls. 258 o.þ.tilv.rit). Um
þetta ber Markúsi saman við séra Stefán
Þorvaldsson 1855: „…haugur einn er hér í dalnum, á landamerkjum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 240). Magnús Grímsson segir að hóllinn sé „…ofarlega á Víðinum sunnanvert, þar sem Reykjaá kemr fram úr Helgadals mynni og beygist vestr á… …á rennisléttri flöt niðr við ána að norðanverðu. Hóll þessi heitir Hraðaleiði… …og stendr í mörkum milli Mosfells og Hraðastaða…“ (Magnús Grímsson, bls. 273).
Skv. Sigurði Vigfússyni 1884-5 er hóllinn „…skammt fyrir neðan Hraðastaði, suðr við syðri ána…“ (bls. 74).

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Í Örnefnalýsingu 1968 segir: „Merkin móti Mosfelli eru þvert yfir Víðinn frá Köldukvísl móti Laxnesmynni, ofan við Svörtukeldu og í Hraðaleiði, sem er hóll við Norður-Reykjaá“ (Ari Gíslason). Skv. Fornleifaskráningu 1980 er þetta vestast í túninu eða í útjaðri þess, „…neðan afleggjarans inn í Helgadal… …um 600 m vestan við Hraðastaði og 2030 m norðan við Köldukvísl, nokkurn veginn fyrir miðju mynni Helgadals“ (Ágúst Ó. Georgsson).
Séra Markús lýsir Hraðaleiði svona: „Aflangr Holl, hérumbil 18 al langr og 6 ad breidd…“ (Sveinbjörn Rafnsson). Séra Stefán bætir við: „Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór“ (Stefán Þorvaldsson). Magnús segir: „…ílángr hóll, eigi mjög stór“ og um leiðið: „Snýr það nokkurnveginn í suðr og norðr… Að hóllinn sé af mönnum gjörðr held eg eflaust, því svo er að sjá, sem sín gjóta sé hvorumegin hans, þar sem moldin hefði verið tekin upp úr. Norðrendi leiðisins er nú uppblásinn mjög. Leiðið er frá jörðu hérumbil mannhæð, eða vart það, þar sem það heldr sér bezt, og svosem 5 eðr 6 faðma lángt, en hálfu mjórra.
Ekki er að sjá að leiði þetta hafi nokkurn tíma verið grafið upp af mönnum, og væri víst vert að gjöra það. Sama er að segja um Þormóðsleiði, sem kvað vera líkt Hraðaleiði, og stendr í Seljadalnum sunnan undir Grímmannsfelli. Í því á að liggja Þormóðr, sá er Þormóðsdalur er kenndur við“ (Magnús Grímsson). „Dálítill hóll“ segir í lýsingu Sigurðar Vigfússonar en í Örnefnalýsingu: „…stór rústarhóll, þúst eða haugur… …sem á að vera haugur Hraða…“ (Ari Gíslason). Að sögn skrásetjara sem skoðaði hólinn 1980 er hann lágur, aðeins um 1,7 m á hæð, 1012 m á lengd, um 6 m á breidd og „…dregst nokkuð að sér að austan og vestanverðunni“. Hann er allur grasi vaxin en sér þó í beran svörðinn á nokkrum stöðum. „Þar er fyrir mold, blönduð fíngerðri möl“.

Hraðastaðir

Hraðastaðir.

Skrásetjari telur ólíkt Magnúsi „…um náttúrulegan hól að ræða… Sé þetta raunverulegur haugur, þá er hann mun stærri en flest fordæmi vísa hér á landi!“ Hann vill þó ekki taka af allan vafa: Hóllinn „…sker sig óneitanlega frá umhverfinu. Enginn hóll annar er þarna nálægt, einungis lágar bungur“ (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli:
Magnús Grímsson bendir á að í Landnámu er nefndur Þorbjörn Hraðason frá Mosfelli en miðað við það hefur Hraði verið til og þá „…líklega byggt sinn bæ um sama leyti og Þórðr skeggi“ (Magnús Grímson, bls. 273).
Eftir að hafa lýst Hraðaleiði vitnar séra Stefán í munnmæli: „Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur“. (Stefán Þoraldsson, bls. 240).

Hrísbrú

Hrísbrú

Hrísbrú – túnakort 1916.

Hrísbrúar er fyrst getið í Egils sögu en hún er talin rituð um 1200. Hrísbrú er með vissu komin í byggð ekki seinna en á 12. öld.
Næst kemur Hrísbrú við sögu í Fógetareikningum 1547-1548 en jörðin er þá komin í kon­ungs­eigu (Dipl. Isl. XII). Líklega hefur Hrísbrú verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en hún komst undir konung. Árið 1704 er jörðin enn konungseign. Jón Eyjólfsson, sýslumaður á Seltjarnarnesi hefur til nota af jörðinni „tvo sjöttunga.“ Einn leiguliði hefur til ábúðar þriðjung af jörðinni (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326). Í bændaeigu er jörðin 1847 og eru ábúendur tveir, eigandi og leiguliði (J. Johnsen, bls. 95).
Hrísbrú hefur eflaust verið í samfelldri ábúð frá miðöldum og í dag (1979) eru ábúendur tveir, eigandi Ingimundur Árnason og leiguliði Ólafur Ingimundarson (Jarðaskrár).
Talið er, að kirkja hafi verið á Hrísbrú og er þess getið í Egils sögu. Hún var seinna flutt að Mosfelli. Kirkja þessi var reist um árið 1000 og stóð í um 150 ár (sjá síðar, sbr. líka Mosfell).

Hrísbrú – Kirkja
HrísbrúÍ Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason).
Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestur Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutníngurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255).
Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upp­haf­lega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sig­urður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74).
Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnanmegin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar … Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getur hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagurt, en ekki mjög hátt“ (bls. 255-6).

Hrísbrú

Hrísbrú.

Um þetta segir Kålund: „… umiddelbart ved gården hrisbru et par skridt nordvest for denne påvises der en høj Kirkehol (Kirkjuhóll), hvor den gamle kirke skal have stået. Men hvor kirken oprindelig er bleven bygget, må næsten med nødvændighet gården (hoved­ården) på den til have stået. Det er, som allerede bemærket, gennemgående ved alle de islandske kirkesteder, at kirken oprindelig er bleven bygget enten lige over for eller ganska tæt ved våningshusene, en fremgangsmåde, som var så meget mere praktisk, som man ofte, hvad den oven for anførte begivenhed fra Gunl. frembyder et eksempel på, måtte benytte kirken som det eneste nogenlunde sikre tilflugtssted under fjendlige overfald“ (bls. 49-50).
Sigurður Vigfússon segir eftirfarandi um staðsetningu kirkjunnar að Hrísbrú: „…enn þar á móti sést enn nokkur vottur fyrir, þar sem kirkjan hefir átt að standa norðvestr frá bænum; þar er enn kallaðr Kirkjuhóll, og sýnist þar sumstaðar votta fyrir kirkjugarðinum umhverfis, enn það er orðið að þúfnabörðum og allr hóllinn kominn í þýfi, svo ekkert verulega sést fyrir kirkjutóttinni og engu máli verðr hér við komið; vera má; að hér hafi verið sléttað yfir og síðar alt orðið að þúfum. Síra Magnús /Grímsson, í „Athugasemdum við Egilssögu“/ segir, að hér sé öskuhaugar afarfornir og furðu miklir, þarf að grafa það alt í sundr; enn hann getr ekki um, að það hafi verið gert, enda sá eg þess engin merki…“ (bls. 65). Túninu hallar frá Mosfelli í suður. Mynda tveir hólar pall eða brún örskammt NV af bænum. Neðan við stall þennan, hallar túninu mun minna, er nánast flatt. Kirkjuhóll er þannig á miðju heimatúni. Að baki áhaldahúss eða skúrs, um 20 m vestur frá gamla íbúðarhúsinu og 50 – 60 m norðan við það nýja (Ágúst Ó. Georgsson).

Hrísbrú – Sel

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel.

Í heimild frá árinu 1704 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi. Landþröng er ef ei er brúkuð selstaða“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326).
Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar er getið um sel: „Að norðanverðu meðfram frá merkjum heita fyrst Selflatir. Þær munu hafa tilheyrt selinu í gamla daga. Þetta eru fallegar flatir, af sumum nefndar Blómsturvelli“ (Ari Gíslason).
Lítil kvos, öll grasi vaxin og áberandi græn. Sker sig þannig vel frá umhverfinu. Hvammur þessi er um 30 m breiður. Hér er um eina rúst að ræða sem telja má nokkurn veginn örugga. Stærð hennar að innan er um 2×4 m. Dyr hafa verið á miðjum vestur lang­vegg. Tóft þessi er að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið (austanvið). Veggir eru útflattir og breiðir. Hæðin er ca. 0,5 m en þykktin ca 12 m. Við hlið þessarar rústar að norðan mótar fyrir einhverju, sem verið gæti önnur tóft. Sé hér um tóft að ræða, hefur hún verið um 2×23 m að innanmáli. Þessi „tóft“ er samsíða fyrst töldu rústinni og hefur haft dyr móti vestri. Sunnan við fyrstnefnda rúst mótar ógreinilega fyrir einhverju, sem verið gæti tóft. Sé svo hefur hún verið að innanmáli um 2×23 m. Inngangur hefur að líkindum verið á móti vestri. Um 8 m vestan við síðasttöldu rúst er eitthvað. Hér gæti verið um einhver mannaverk að ræða. Þarna virðist hafa verið grafið ofan í brekku, sem hallar lítið eitt til norðurs. Stærð þessa er um 3,5×5 m, dýptin um 0,5 m, opin til norðurs, en fyrir framan opið er nokkurn veginn slétt flöt. Allar þessar rústir eru fornlegar að sjá. E.t.v. gætu þetta verið selsrústir frá Hrísbrú (sbr. skrá um menningarminjar. Niðurgrafna tóftin hefur þá verið kvíar en hinar selið (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli:

Hrísbrú

Hrísbrúarsel – uppdráttur.

Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku, sagði 25.7.1980: Við sunnanverða Leirvogsá, á móts við bæinn Gröf er holt eða hæð. Kveðst Guðmundur hafa séð einhverjar rústir þar. Líklega er um seljarústir að ræða en gæti þó verið stekkur. Skoðaði hann þetta ekkert nánar, heldur sá rústirnar úr fjarlægð. Á herforingjaráðskortinu danska er svæði þarna rétt hjá kallað Sveinamýri. Sagt er að svæðið sem rústirnar eru á kallist Selflatir. Ágúst Ó. Georgsson merkti Selflatir inn á ljósrit af 1:50000 korti, skv. tilsögn Guðmundar Skarphéðinssonar, bónda á Hrísbrú. Ber þeim Guðmundum saman um hvar Selflatir hafi verið. Rústin er sem sagt norðan við Mosfell (fjallið), nálægt ánni (Leirvogsá) og á móts við bæinn Gröf í Kjalarneshreppi.

Laxnes

Laxnes

Laxnes – túnakort 1916.

Laxnes hefur sennilega verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en þess er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-1552, þá komið undir Danakonung (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 var þetta konungsjörð með tvo ábúendur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 321-2) en 1847 var Laxnes komið í bændaeign og með tvo leiguliða (J. Johnsen). Það skiptist nú í Laxnes 1 og 2, og var Mosfellshreppur ásamt fleirum orðinn eigandi að Laxnesi 1 árið 1979. Jörðin er enn í ábúð (Jarðaskrár).

Laxnes – Sel (frá Mosfelli)
Upp af Gljúfrasteini „…heitir Selás; þar voru eitt sinn byggð fjárhús, sem nefnd voru Hóll“ (Ari Gísla­son).

Lágafell

Lágafell

Lágafell – túnakort 1916.

„Lágafell í Mosfellssveit er í landnámi Þórðar skeggja, en hann nam land á milli Úlfarsár og Leiruvogs“ (Landnámabók I, bls. 48). Jörðin Lágafell er fyrst nefnd í skrá um jarðir sem komið hafi undir Viðeyjarklaustur eftir að Páll ábóti kom til Viðeyjar. Lágafell er þar skráð 20 hundraða jörð. Skrá þessi er gerð 1395 (Dipl. Isl. III, bls. 598).
Árið 1541 er hin nýja kirkjuskipan samþykkt um Skálholtsbiskupsdæmi. Konungur hafði slegið eign sinni á klaustureignir í löndum sínum og svo varð einnig hér á landi. Þróunin gat því ekki orðið á annan veg en að Lágafell yrði krúnujörð.
Árið 1547 fær Jón Bárðason „lífsbréf“ af konungi fyrir ábýlisjörð sinni „Laugefeldt“ [Lágafelli] (Dipl. Isl. XI, bls. 593). Í Fógetareikningum Kristjáns skrifara og Eggerts Hannessonar frá 1547-1552 er Lágafell skráð, leiga og landskylda jarðarinnar. Leigan, landskylda og skreiðargjaldsreikningar þessir eru af konungsjörðum í Borgarfirði, Viðeyjarklaustursjörðum, öðrum konungsjörðum í Kjalarnesþingi og af Skógaog Merkureignum (Dipl. Isl. XII, bls. 111, 152, 137, 391-434).

Lágafell

Lágafell 1985.

Sumarið 1703 skrifuðu þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín jarðabók Mosfellssveitar og í henni er eftirfarandi lýsing Lágafells: „Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúendur Jón Ólafsson, býr á hálfri, annað Þorvaldur Teitsson, býr á hálfri. Landskuld i c. Betalast með fríðu uppá sama taxta sem áður greinir að kvikfjenaður sje hjer í sveit af Bessastaðamönnum í landskuldir tekinn. Við til húsabótar leggja ábúendur. Leigukúgildi iii. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eður Við­eyjar. Kúgildin uppýngja ábúendur. Kvaðir eru mannslán um vertíð, eitt af allri jörðinni, og gjalda ábúendur það til skiptis. Í tíð Heidemanns voru tvö mannslán, ef tveir bjuggu á jörðunni, og gaf hann þá tíu fiska þeim, er í það sinn ekki fjell til að gjalda mannslánið. Hestlán til alþingis tvö ef tveir ábúa og hestar eru til, og í tíð Jens Jurgenssonar kveðst Jón Olafsson hafa til látið í þessa kvöð hross sex vetra gamalt, og það síðan aldrei aftur fengið og öngvan betaling fyrir. Dagslættir tveir í Viðey, gjaldast in natura ella leysast með tíu fiskum og fæðir bóndinn sig sjálfur nema hvað einu sinni á dag er í tje látinn lítill mjólkurmatur. Hríshestar tveir, sinn af hverjum. Tveir hestar af digulmó og stundum fjórir. Torfskurður í mógröfum síðan Heidemanns tíð að aflögðust megin skipaferðir, en þessa kvöð hefur umboðsmaðurinn Páll Beyer í næstu tvö ár ekki kallað. Skipaferðir allt fram á Heidemanns tíð, en aflögðust þá upp hófst forpachtningin, og skip kom ekki lengur í Seyluhöfn. Timbur í Þingvallaskóg að sækja á tveimur hestum og fæða sig sjálfur.“

Lágafell

Lágafell.

Þessi kvöð hófst og endist í Heidemanns tíð. Húsastörf á Bessastöðum í Heidemannstíð, stundum í samfelda þrjá daga, og var hvorki gefinn matur nje drykkur. Fóður um vetur, aldrei minna en ein kyr að þriðjúngi og aldrei meira en ein kýr að fullu. Er þessi kvöð í fyrstu so upp komin, að í tíð foreldra þeirra, sem nú eru á lífi, voru frá Viðey skikkuð tvö lömb á bæ í sveitina og síðan smáaukið. Þessi kvöð hefur nú í ár ekki kölluð verið og ekki meir í fyrra en eins lambs fóður. Kvikfjenaður hjá Jóni viii kýr, ii kvígur veturgamlar, ii úngkálfar, xvii ær með lömbum, i geld, vi sauðir gamlir, vi þrevetrir, vii tvævetrir, xiiii veturgamlir, ii hestar, i foli veturgamall, ii hross, i unghryssa; hjá Þorvaldi vi kýr, ii kvígur veturgamlar, i naut þrevett, ii úngkálfar, xii ær með lömbum, ii sauðir tvævetrir, xi vet­urgamlir, i hestur, iii hross, i únghryssa.
Fóðrast kann á allri jörðinni x kýr, xxx lömb, ii hestar. Heimilismenn hjá Jóni vii, hjá Þorvaldi vi. Torfrista og stúnga meinslæm. Mótak til eldiviðar bjarglegt. Landþröng er mikil. Selstöðu hefur jörðin áður brúkað í Stardal. Vatnsból meinlega erfitt, þá snjóvetrar eru (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 313-315).

Lágafell

Lágafell.

Í Jarðabók fyrir Kjósarsýslu, sem undirrituð er af Jóni Eyjólfssyni, 9. nóv. 1695, er leiga Lágafells skráð eitt hundrað eins og í Jarðabók Árna Magnússonar (Björn Lárusson, bls. 130-131).
Í Nýrri jarðabók fyrir Ísland, sem samin er eftir tilskipun frá 1848, er Lágafell skráð 20 hundraða jörð að fornu mati en samkvæmt nýrra mati 24,40 h. og með hjáleigunni Lækjarkoti 28,70 h.
Í skrá um jarðir Viðeyjarklausturs frá 1395 er Lágafell talið 20 h. jörð sem og í jarða­bókinni frá 1695. Heildarmat Lágafells I samkvæmt fasteignamati í sýslum, sem öðlaðist gildi 1. maí 1957, var 239.000 kr (Ný jarðabók fyrir Ísland, bls. 4041; Fasteignabók I, bls. 416417).
Í lýsingu Mosfells og Gufunessókna 1855 eftir séra Stefán Þorvaldsson er Lágafell einnig talin 20 h. jörð (bls. 227).

Leirvogstunga

Leirvogstunga

Leirvogstunga – túnakort 1916.

Leirvogstunga hefur sennilega áður verið í eigu Viðeyjarklausturs en hennar er fyrst getið í Fógetareikningum 15471552, þá í konungs eigu. Jörðin er enn þá konungseign árið 1704 og bjó Björn Ásgrímsson þá á þrem fjórðungum hennar en ekkjan Margrét Bjarnadóttir á einum fjórðungi (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 3267). Árið 1847 var hún áfram konungsjörð með tvo ábú­endur (J. Johnsen). Leirvogstunga var í tvíbýli til ársins 1909 (Túnakort). Árið 1979 var Guðmundur Magnússon eigandi hennar og hún er enn í ábúð (Jarðaskrár).
Túnið í Leirvogstungu var allt „kargþýft“ árið 1874 en þá var byrjað að slétta litla bletti. Þegar Túnakort var gert 1916 var „…rétt allt sléttað, sem tún [var] talið og nokkuð grætt út við mel og plægður blettur ógróinn“.
Vestan við Ljósateig er „Óskiptaengi, sem var slegið til skiptis frá sambýlismönnum“ meðan tvíbýli var á jörðinni. Enn vestar „…þvert yfir tunguna…“ er „…all­mikið svæði, sem nefnt er Norðureyrar“ (Svavar Sigmundsson).
„Hjá Leirvogstungu, skammt fyrir ofan túnið, fellur“ Kaldakvísl, skv. Magnúsi Grímssyni „…í gljúfrum nokkrum, og er þar foss í henni býsna hár, sem laxinn kemst að en ekki yfir. Undir fossi þessum hafa Leirvogstúngumenn opt talsverða veiði“ (Magnús Grímsson, bls. 273).

Leirvogstunga

Leirvogstunga.

Magnús gefur þessar upplýsingar til að skýra hvers vegna fiskur gengur ekki upp í ána upp í Mosfellsdal en sagnir eru um að það sé vegna álaga sem kerling nokkur í Leirvogstungu lagði á Laxnes. Eins og bæjarnafnið bendir til á þar að hafa verið laxveiði til forna en þá bjuggu kerlingar tvær í Laxnesi og Leirvogstungu, gamlar og fornar í skapi, sem deildu um veiði í ánni „…og heituðust útaf henni. Varð Leirvogstúngu kerlingin ofaná í heitingunum og mælti svo um, að aldrei framar skyldi lax gánga upp í ána upp í dalinn. Hafa þau álög haldist æ síðan, og því er engin veiði í Mosfellsdalnum“ (Magnús Grímsson, bls. 273).

Miðdalur

Miðdalur

Miðdalur – túnakort 1916.

Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Miðdalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 193857 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Miðdalur

Miðdalur.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal. Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalskot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögulegur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefnalýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).
Í Örnefnalýsingu má finna margs konar upplýsingar um búskap og landshætti í Miðdal. Austur af Dýjadalshnúk er t.d. svo kallaður Áarfoss í Seljadalsá sem hefur það sérkenni að þegar niður hans heyrist heim að bænum „…bregst ekki að heyþurrkur verður í Miðdal innan tveggja til þriggja daga“ (Tryggvi Einarsson).

Miðdalur – Hjáleiga; Miðdalskot

Miðdalskot

Miðdalskot.

Í Jarðabókinni frá 1704 er getið um Mýdalshjáleigu með einn ábúanda og er það sennilega hið svo kallaða Miðdalskot sem var hjáleiga frá Miðdal. Hún hefur hins vegar lagst í eyði þegar getið er um hana í síðari heimildum. Hvorki er minnst á hana í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 né í Nýrri jarðabók 1861 enda hafði kotið skv. Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 verið „…lagt í eyði fyrir tæpum 20 árum…“, þ.e. um
1835 (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Árið 1938 segir Björn Bjarnason að Mýdalskot hafi fyrir löngu verið lagt undir heimajörðina Miðdal (bls. 108). Næst er svo kotið nefnt í Örnefnalýsingu og fylgir ýtarleg upptalning tengdra Örnefna: „Í Seljadalsá er foss er Áarfoss heitir… Suður af Áarfossi er kvos er Kotadalur heitir. Nokkru ofar við Seljadalsá er allstór bergdrangur er Krummaborg heitir…. Við Krummaborg rennur lækur út í Seljadalsá er Bæjarlækur heitir. Milli Bæjarlækjar og Seljadalsár er mjór tangi er Lækjartangi heitir. Spölkorn upp með Bæjarlæknum að vestan er Miðdalskot sem var hjáleiga frá Miðdal. Sést þar vel til allra húsa, þarna er fallegur grasi vaxinn hóll er Kotahóll heitir.

Miðdalur – Hjáleiga; Sólheimakot

Sólheimakot

Sólheimakot – uppdráttur.

Sólheimakots er hvorki getið í Jarðabók Árna og Páls árið 1704 og ekki heldur í síðari tíma jarðabókum en í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir: „Enn eru nefnd 2 eyðikot í Miðdalsheiði, nl. Sólheimakot og Búrfellskot, en ekki vita menn hve nær þau hafa lagzt í eyði, enda er mjög langt síðan“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Á árunum 19328 varð hins vegar til nýbýlið Sólheimar en um það segir í Fasteignabók 1938: „Járnvarið timburhús, engin hlaða, nautgripir 2, sauðfé 10, hross 2“. Sama ár segir Björn Bjarnason: „Áður hjáleiga frá Miðdal, en nú endurreist nýbýli“. Virðist líklegt að hann sé að vísa til hins forna Sólheimakots og að Sólheimar hafi verið reistir í landi þess. Þeir voru þó án ábúðar a.m.k. frá 1958 og aldrei hefur verið þar mikill búskapur. Eigendur 1979 voru erfingjar Guðmundar Gíslasonar læknis að Keldum og nú er þar sumarbústaður (Fasteignabók, Jarðaskrár). Tryggvi Einarsson í Miðdal getur um rústir kotsins í Örnefnalýsingu: „Austan við Augnlæk er Sólheimamýri. Upp af norðurenda Sólheimamýrar er Háabrekka ofan við Háubrekku eru Brekkubrúnir sunnan við Brekkubrúnir er fallegur hvammur er Sauðhúsahvammur heitir. Ofan við Sauðhúsahvamm eru sauðhús er afi minn byggði. Móts við Sauðhúsahvamm er kriki er Fífukrókur heitir. Skammt suður af Fífukrók er Sólheimakot hjáleiga frá Miðdal sést þar vel fyrir veggjum. Ofan við Sólheimakot er Sólheimamelur, sunnan við Sólheimamel er mýri er Dugguósmýri heitir. Ofan við Sólheimabrúnir“.

Miðdalur – Sel; Víkursel

Víkursel

Víkursel.

Í Örnefnalýsingu segir: „Austur af Selvatnsenda er Víkursel talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir“ (Tryggvi Einarsson). Þetta sel er skv. Fornleifaskráningu staðsett á örlitlum mosa og grasi grónum hól, í mýrarkvos, um 50 m austur af vatninu (Bjarni F. Einarsson).
Hóllinn sem selið stendur á er stórþýfður, ólíkt nánasta umhverfi sínu, og er selið ógreinilegt vegna mosaþúfna. Það er þó aflangt, um 4,5×9 m að stærð, veggir úr torfi, um 1,5 m á breidd og 0,30,4 m á hæð. Selið skiptist í tvennt, fremra hólf A með dyrum í norður og aftara hólf B en á því sjást engar dyr. Stefnan er NS (Bjarni F. Einarsson).

Miðdalur – Sel; Litla-Sel

Litla-Sel

Litla-Sel.

Í Örnefnalýsingu segir: „Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð“ (Tryggvi Einarsson). Þar kemur einnig fram að Urðarlágarlækur „…rennur í austurenda Selvatns…“ og „…nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn…“ (Tryggvi Einarsson).

Miðdalur – Hjáleiga; Borgarkot

Borgarkot

Borgarkot.

Fyrst er minnst á „Borgar Kot“ í Jarðabók árið 1704 en skv. henni var það „Hjáleiga af Miðdal, nú í auðn og hefur nú yfir ár um kring í eyði legið, en var í fyrstu bygð í fornu fjárborgarstæði fyrir vel tuttugu árum… Fóðrast kunnu í þessari hjáleigu, fyrir utan það er af heimatúninu var lagt, ii kýr naumlega… Meina menn ei aftur byggjast kunni með sömu kostum, nema því meir að af heimajörðunni væri til lagt“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 291). Borgarkot hefur miðað við þetta verið í eyði frá 1703 enda hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 né Jarðabók 1861. Í Örnefnalýsingu er hins vegar nefnt Borgarholt: „Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt þar var hjáleiga frá Miðdal.
Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Suðvestan við Borgarholt er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin“ (Tryggvi Einarsson). Líklegt má teljast að Borgarholt sé hið sama og kallað er Borgarkot í eldri heimildum.

Miðdalur – Hjá­leiga; Búrfellskot

Búrfellskot

Búrfellskot.

Búrfellskots er hvorki getið í Jarðabókinni frá 1704, Jarðatali J. Johnsens 1847 né Jarðabók 1861. Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir að Búrfellskot sé eyðikot á Miðdalsheiði, ekki sé vitað hvenær það lagðist í eyði en það hafi verið fyrir löngu síðan (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Síðar er minnst á rústir kotsins í Örnefnalýsingu: „Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri… Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita… Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss í Seljadalsá“ (Tryggvi Einarsson). Þessar rústir voru skoðaðar við fornleifaskráningu árið 1982 en þar segir að þær séu í þýflendi, neðarlega suðvestan megin í fjallshlíð. Óljóst mótar fyrir veggjum.

Miðdalur Hjáleiga; Búrfell

Búrfellskot

Búrfell – kort 1908.

Fyrst er greint frá Búrfelli í Jarðabók 1704: „Burfell, önnur hjáleiga frá sömu jörð [Miðdal] og hefur í eyði legið hjer um 8 ár… Fóðrast kunna ii kýr og ekki meira… Þessi hjáleiga var fyrst það menn til vita uppbyggð fyrir vel 20 árum, þar sem menn meina að fyrir lángri æfi muni býli verið hafa, og veit þó enginn til þess annað, en hvað fornar girðíngar og húsabrotsleifar, sem þar voru fyr en nú að nýju var uppbygt, sýna fornrar bygðar merki. Lagðist þetta kot mest í eyði fyrir óbærilegum átroðningi þjóðgötu, sem liggur í gegnum túnið, og er þetta kot ekki þess erfiðis vert, sem kosta vildi að gjöra þar bygð að nýju, sá er ágángi ferðamanna gæti af hrundið, og þykir því ei aftur byggjandi“ (bls. 2912). Búrfells er hvorki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 né í Jarðabók 1861 og hefur líklega legið í eyði frá því um 1696. Á árunum 193857 var skv. Fasteignabók 1957 stofnað nýbýlið Búrfell, hugsanlega á svipuðum slóðum og hið forna Búrfell. Jörðin hefur þó verið auð síðan þá en úr Eyðijarðaskrá 1963 fást eftirfarandi upplýsingar: Íbúðarhús „…ekkert og hefir aldrei neinn átt þar lögheimili. Býlið byggt og notað af eigendum til fjárgeymslu að vetrum“. Útihús: „Fjárhús og heygeymsla fyrir ca. 100 fjár“. Beitiland mjög takmarkað, býlið allt 30 ha. Líklega hefur aldrei verið stundaður búskapur á nýbýlinu (Skýrsla um eyðijarðir). Eigandi árið 1979 er Sigfús Thorarensen verkfræðingur (Jarðaskrár).

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell – túnakort 1916.

Mosfells er fyrst getið í Landnámabók, en einnig í fleiri fornritum svo sem Egilssögu og Gunnlaugssögu. Elsta heimild um Minna-Mosfell eru Fógetareikningar frá árunum 1547-1552. Þá er jörðin komin í eigu konungs og er í reikningunum nefnd „Mijndemossefeldt“ (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1703 er MinnaMosfell enn konungsjörð. Ábúandi er einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 323-324).
Jörðin er komin í bændaeigu árið 1847 og er einn leiguliði ábúandi (Jarðatal J. Johnsen).
Minna-Mosfell er enn í ábúð (Ágúst Ó. Georgsson/Guðmundur Ólafsson).

Minna-Mosfell – Sel

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellssel.

„Stóra og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca í AV. Norðurhluti hans er allgrýttur og vaxinn mosa. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson). Rústin stendur á lágum hól, sem sker sig nokkuð úr umhverfinu. Hóllinn er talsvert þýfður og grasi vaxinn. Norðan hans rennur Leirvogsá um 3040 m í þá átt. Hóllinn er á mörkum graslendis og grýtts mosavaxins svæðis. Tóftin er um 2,5×4,5 m að innanmáli. Veggjaþykkt er 11,5 m. Hæð veggja er víðast um 0,4 m, nema NV-veggur, sem er um 0,7 m. Við NV-gafl á suðurlangvegg eru dyr en tóftin skiptist í tvo hluta.

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellsel – uppdráttur.

Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli (d. 1865), segir að á þessum ás hafi staðið selrúst. Skrásetjari gekk um allan ásinn og víðar þarna í nágrenninu. Var þetta eina rústin, sem fannst á eða við ásinn. Kemur lýsing Magnúsar, hvað staðsetningu varðar, vel heim og saman. Hús þetta hefur byggt verið úr torfi og grjóti (Ágúst Ó. Georgsson).
Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Mosfell

Mosfell

Mosfell I – túnakort 1916.

Mosfells er fyrst getið í Landnámu og oftlega í Egilssögu en einnig í fleiri fornritum svo sem Gunnlaugssögu.
Um 1200 er Mosfells getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (Dipl. Isl. XII, bls. 9).
Um miðja 15. öld er Mosfell komið í eigu Skarðverja. Greinir frá því í skiptabréfi, eftir Björn ríka Þorleifsson, frá 1467, að Mosfell komi í hlut ekkju hans, Ólafar Loftsdóttur, að Skarði á Skarðsströnd (Dipl. Isl. V, bls. 503). Ekki var Mosfell lengi í eigu Ólafar, því í kaupbréfi frá 1470 segir, að Ólöf Loftsdóttir fái Sigurði Jónssyni Mosfell í skiptum fyrir Hraungerði í Flóa (Dipl. Isl. V, bls. 503).
Á 16. öld kemst Mosfell undir Skálholt er Ögmundur biskup Pálsson kaupir jörðina.

Mosfell II

Mosfell II – Túnakort 1916.

Við siðaskiptin er Mosfell, ásamt fleiri kirkjujörðum, tekið undir konung. Tilvitnisburðar um það eru Fógetareikningar 1547-1552 (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1704 er Mosfell „Beneficium og kirkjustaður“. Ábúandi er staðarhaldarinn, séra Þórður Konráðsson (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 324).
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Mosfells getið sem kirkjujarðar. Ábúandinn er prestur.
Mosfell er enn í ábúð (1980) og er kallað Mosfell I í Jarðaskrá Landnáms ríkisins. Eigandi er ríkissjóður (J. Johnsen).
Egilssaga getur um kirkju á Mosfelli og er það staðfest í áðurnefndri kirknaskrá Páls biskups. Svo virðist sem kirkja hafi verið lögð niður á Mosfelli einhvern tíma fyrir miðja 14. öld. Næsta kirkja á Mosfelli er reist á fyrri hluta 16. aldar og er kirkja að Mosfelli til ársins 1888, en er þá flutt að Lágafelli. Kirkjan, sem nú stendur að Mosfelli var vígð árið 1965.

Silfur Egils

Mosfell

Mosfell – kort 1908.

Magnús Grímsson skrifar talsvert um líklega felustaði. Segir hann á einum stað: „En þegar skammt er komið suður fyrir Köldukvísl á Víðinn, á að geta 100 faðma, verða þar fyrir jarðholur miklar, einar þrjár eða fjórar. Eru þær víðar um sig og djúpar, með leireðju í botninum. Eru þær jafnan fullar af vatni, og sést lítill munr á því, þó þerrar gángi“. Ætlar Magnús, að þar séu komnar jarðholur þær er nefndar eru í Egilssögu. Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „…býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra. En ekki hefir söguritarinn vitað af því að segja. … Neðan undir hólbrekkunni á Mosfelli, sem fyr er getið, er dý eitt fullt af grjóti, eigi stórt um sig, en furðulega djúpt. Þar halda sumir að fé Egils sé niðri í“. Ekki telur Magnús þetta vera líklegan stað. Telur hann líklegast að Egill hafi fólgið silfur sitt í ein­hverjum pyttinum á Víðinum, fyrir sunnan ána Köldukvísl. Þó segir hann þetta ekki verða sagt með vissu. „Sagan segir og, að þángað [í jarðholunum] sé opt sénn haugeldr, og styðr það þessa ætlun, jafnvel þó eg ímynda mér slíka elda af öðrum rótum runna en fé, og því harðla marklitla í þessu efni. En slíkar sjónir sýna opt trú manna, og hygg eg, að menn hafi snemma orðið á sömu ætlan um þetta og eg er, af því líkurnar hafa þótt svo sterkar til hennar. Einn manna hefi eg talað við, sem enn er lifandi, sem þykist hafa séð slíka elda, nálægt því svæði sem hér um ræðir, fyrir hérumbil 15 eðr 16 árum“. Endar Magnús vangaveltur sínar um hvar silfur Egils sé að finna með því að ítreka að pyttirnir, nálægt hinum forna vegi yfir Víðinn, séu líklegastir (Magnús Grímsson, bls. 266-270).

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Eina sögu kveðst Magnús hafa heyrt um að silfur Egils hafi fundist: Einn góðan veðurdag var bóndinn í Þverárkoti á leið til kirkju að Mosfelli. Þegar hann kom að Kýrgili veik hann sér lítillega upp með því „að gegna nauðsynjum sínum“. Þarna átti bóndi að hafa fundið peninga en leyndi fundi sínum vel. Er sagt að hann hafi orðið ríkur á fáum árum. Silfrinu átti bóndi að hafa skipt hjá Jóni Ólafssyni ríka í Síðumúla (Magnús Grímsson, bls. 271). Í athgr. 5 í sömu heimild stendur að árið 1722 hafi fundist enskir peningar nálægt Mosfelli. Höfðu þeir skolast fram í vatnagangi. Frásögnin um peningana er í ritgerð eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík um íslenskar sögur. Segir Magnús, að sér þyki líklegast „að Grunnavíkur Jón hafi eitthvað orðið áskynja um peningafund Þverárkotsbóndans, og haldið að gilið mundi hafa spýtt fram fénu.“ Ekki telur Magnús miklar líkur á, að saga þessi sé sönn. Bóndi hefði eins getað efnast í Þverárkoti án þess að hafa fundið peningana (Magnús Grímsson, bls. 276).

Mosfell – Hjáleiga; Merkurvöllur

Mosfell

Mosfell 1955-1965.

Merkurvallar er ekki getið í Jarða­bók 1704, ekki í Jarðatali 1847 eða í Jarðabók 1861.
Heimild frá 1938 getur um þessa „jörð“ en þær upplýsingar eru harla sparsamar. Segir þar að Merkurvöllur sé hjáleiga frá Mosfelli og hafi lengi í auðn legið. Liggja tún Merkurvallar og Mosfells saman (Björn Bjarnason, bls. 107).
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Utan við bæinn er gil, sem heitir Kirkjugil. Vestan við það gil var lítið gamalt kot, sem hét Hitta, en austan við gilið er stykki, sem heitir Merkurvöllur“ (Kristinn Guðmundsson). Á þessum stað eru engar rústir sjáanlegar.
Aðrar upplýsingar:
Árni Magnússon, prestssonur frá Mosfelli, er þar mjög vel kunnugur en segir að engar rústir hafi verið á Merkurvelli. Hið eina sem þar stóð var fjárhúskofi, sem nú er horfinn og ekkert sér eftir af. Árni þessi á hús þar sem Víðihóll heitir, er það S eða SV frá Mosfelli (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Hjáleiga; Bakkakot

Bakkakot

Bakkakot – bæjarstæði.

Bakka­kot eða „Backakot“ var hjáleiga frá Mosfelli árið 1704. Ábúandinn, sem var einn bjó á hálfri jörðinni, hinn helmingurinn var nýttur frá Mosfelli. Bústofn: 2 kýr, 1 mylk kvíga, 4 ær með lömbum, 2 veturgamlar gimbrar, 1 hross. Fóðrast geta á jörðinni allri 4 kýr og 2 „úngneyti“. Heimilismenn samtals 3 (Jarðabók Árna og Páls).
Bakkakot lagðist í auðn einhvern tíma á árabilinu 1704-1847 (sbr. J. Johnsen og Nýja jarðabók).
Aðrar upplýsingar:
Enginn, sem spurður hefur verið, veit hvar kot þetta stóð né hefur heyrt um það talað. Bjarni Bjarnason, Hraðastöðum, stingur upp á, eða telur líklegt, að það hafi staðið á túninu sem nú er vestan við Guddulaug (nú er þetta tún í eigu Minna-Mosfells), nálægt lækjarbökkunum sem þar eru (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Sel; Helgusel

Helgusel

Helgusel – uppdráttur.

Magnús Grímsson segir svo um sel á Mosfelli: „…víða finnast gamlar seljarústir uppi í heiðarlandi Mosfells, sem nú er. Þó eru engar þeirra eins gamlar, og rústir hins svo kallaða Helgusels. Það hefir staðið norðan undir miðju Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðr við Köldukvísl, á norðurbakka hennar. Eru það seljarústir miklar til og frá í hvamminum, og er auðséð, að þar hefir verið mikið umleikis. Segja sumir, að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafzt hér við um hríð, og við hana sé selið kennt. Foss er þar í ánni skammt fyrir ofan selið, hár og fagr, sem heitir Helgufoss [Grímannsfellsfoss], og blasir hann við selinu. Fram undan selinu er hamrahóll allmikill, hérumbil þriggja til fjögurra faðma hár, toppmyndaður. Stendr hann einstakur á sléttu fram við ána sjálfa. Hann heitir Helguhóll, og á Helga að hafa gengið í hann í elli sinni, og aldrei komið út aptr. Hvammurinn allr, sem selið hefir verið í, er kallaðr Helguhvammr. Hefir hann nú mist mikið af fegurð sinni, því bæði hefir runnið á hann grjót og sandr, og víða er svörðrinn einnig blásinn í burtu. Á seinni tímum hefir sel þetta verið byggt uppi á bakkanum fyrir ofan hvamminn. [þar standa nú gömul fjárhús] Hin önnur sel, sem eg veit til í heiðarlandinu, eru öll miklu ýngri, og ómerkileg“ (bls. 272).
Bærinn Bringur var reistur skammt frá Helguseli, til móts við Helgufoss. Bringur kallar Magnús reyndar Gullbringur (Magnús Grímsson).

Helgusel

Helgusel – eldri minjar – uppdráttur.

Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir: „Í austur fram af Mosfellsdal liggur graslendi mikið og víðlent; eru það lágar hæðir og mýrlendar, með stargresisfláum og valllendis börðum, víða greiðfærum eða sléttum. Hæðir þessar eru nefndar „Bringur“ eða „Mosfellsbringur“ og liggja undir Mosfell til selstöðu og slægna, og eru þær allgott sumarbeitarland, en örðugt að sækja þangað heyskap og enn torveldara að verja þær fyrir afréttarfénaði og stóðhrossum“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 236).
Árið 1877 segir Kålund: „Nu er sætevæsendet en undtagelse på Island … Mosfell er dog en av de gårde, hvor det jævnlig er bleven brugt, men i de senere tider har sæter landet været oppe i Mosfellshedens skråninger ned mod Mosfellsdalen, de såkalde Guldbringer (Gullbringur)“ (bls. 53). Grasi vaxinn hvammur, s.k. Helguhvammur, norðan Köldukvíslar, í gilinu eða dalskorningnum, sem er á milli Grímannsfells og Bringnatúns, neðan við Helgufoss.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss (Grímannsfellsfoss) fjær.

Hvammurinn er sérlega gróðursæll og er þarna skjól í flestum áttum. Niður dalskorninginn rennur Kaldakvísl. Undirlendi er þarna svo lítið að rústirnar standa svo gott sem á árbakk­anum. Stór og mikill klettur, nokkurn veginn kúpulaga, stendur vestarlega í skorningnum og setur mikinn svip á umhverfið. Magnús Grímsson segir að hann sé kallaður Helguklettur. Halldór Laxness, skáld á Gljúfrasteini, telur að Bringnafólkið hafi aldrei kallað klettinn annað en Hrafnaklett og hafi huldufólk búið í honum. Í hvammi þessum, sem Magnús Grímsson kallar Helguhvamm, eru tvö rústasvæði. Annað austan við klettinn, hitt nánast á bak við hann (þ.e. norðan megin við hann). Magnús kallar rústir þessar Helgusel (Ágúst Ó. Georgsson).
Á bakka Köldukvíslar standa fjórar rústir eða rústahópar, öllu heldur. Virðast hópar þessir vera misgamlir og á sumt saman en annað ekki. Hér er byrjað á austustu rústinni eða rústunum. Þetta eru miklar tóftir og þær sem mest ber á. Rústirnar eru orðnar það grónar, að erfitt er að segja til með fullri vissu hvernig þær hafa litið út en þó skal reynt að segja til um hugsanlega lögun þeirra. Á þetta við allt eystra svæðið, nema tvær rústir. Austasta rústin samanstendur af þremur herbergjum. Dyr eru á miðjum suðurlangvegg. Strax þegar inn er komið greinast leiðir í þrjár áttir og inn í herbergin þrjú. Rúst þessi er að utanmáli um 6×8 m. Veggjahæð, þar sem hún er mest, er um 6070 cm. Þykkt veggja um 1 m. Tóftin er allfornleg að sjá. Líklega er hér um selsrúst að ræða. (Ágúst Ó. Georgsson).

Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir:

Mosfellssel

Mosfellssel ofan Illaklifs.

„Selstöður eru hvergi hafðar nema frá Mosfelli, við Leirvogsvatn undir Illaklifi; er þangað langur vegur og slitróttur yfirferðar“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 237). „Örnefni benda til fleiri selja. T.d. í Mosfellskirkjulandi er mýrarfláki sem heitir Selflá. Þar voru ær hafðar í seli inni í Klifi. [Þetta mun vera Illaklif við Leirvogsvatn]. Selmatráðskona var þar Ragnhildur Þórðardóttir“ (Þjóðháttarannsókn stúdenta 1976).
Við sunnanvert Leirvogsvatn, norðan undir Illaklifi, þar sem það byrjar austanmegin, um 3040 m ofan við vatnið, er dálítil kvos eða hvammur. Frá náttúrunnar hendi er þetta ákjósanlegur staður fyrir sel. Vestan við eru skriður og lítið undirlendi neðan þeirra. Austan við eru mýrarflákar sem halla niður að vatninu. Staður þessi er greinilega ekki valinn af neinu handahófi, heldur sá besti og líklega sá eini nothæfi þarna megin við vatnið.
Svæði þetta var í Mosfellskirkjueign til 1934 en er nú í eigu Mosfellshrepps (Ágúst Ó. Georgsson).

Mosfell – Sel; Jónssel

Jónssel

Jónssel.

„Lægðin sem bærinn [Seljabrekka] stendur í hét upphaflega Jónssel, þó ekki öll. Um hana rennur lækur, sem heitir Jónsselslækur og fellur í Köldukvísl… …í Jónsseli er örlítil rúst, þar er örlítill kofi ofan við veg og utan Markúsarsels…“ (Guðmundur Þorláksson).

Mosfell- Sel; Markúsarsel

Markúsarsel

Markúsarsel.

„Norð­austur frá Leirtjörn er Markúsarsel. Þar eru miklar tættur… Graslendið sunnan Langahryggjar og upp af Leirtjörn heitir Markúsarsel, og eru þar gamlar hústættur. Sagnir eru um að þar hafi verið búið á fyrri hluta síðustu aldar“ (Guðmundur Þorláksson).
Um 800 m. NA við Selvog, við NA enda Leirtjarnar. Sumarbústaður um 150 m sunnar. Grasgefin mýri við NA enda vatnsins. Myndast þarna aflíðandi kvos niður að vatninu. Rústin er á graslendi milli tveggja lækjarskorninga (Ágúst Ó. Georgsson).

Norður-Reykir

Norður-Reykir

Norður-Reykir – túnakort 1916.

Hafi Norður-Reykir verið í byggð á 16. öld hafa þeir verið í bænda eigu því þeirra er ekki getið í skrám yfir konungsjarðir frá því um 1550 (Fógetareikningar, sbr. Dipl. Isl. XII). Þeir eru hins vegar komnir á blað í Jarðabók 1695 (Björn Lárusson, bls. 13031) og 1704 segir að jörðin öll sé 30 hundruð en skipt eignarskiptum í þrjá staði: Norður-Reyki, Hlaðgerðarkot og Æsustaði. Eigendur Norður-Reykja voru þá tveir bændur en ábúandi á jörðinni einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 31719). Árið 1847 var hún enn bændaeign og ábúandi einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Þegar Landamerkjaskrá Norður-Reykja var gerð 1888 voru þeir í eigu Þorleifs Þórðarsonar bónda í Hækingsdal í Kjósarhreppi. Árið 1979 voru þeir hins vegar komnir í eigu Mosfellshrepps og leiguliði Jakob Einarsson. Jörðin er enn í ábúð.

Óskot

Óskot

Óskot – túnakort 1916.

Í skrá um kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs er Óskots fyrst getið en nefnist þá Ós: „…at Osi. ij. merkr“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Af því má trúlega álykta, að Óskot hefur verið lögbýli áður fyrr (sbr. Ólaf Lárusson).
Jarðabók frá 1704 hefur eftirfarandi að segja um Óskot: „Oskot, forn eyðijörð og veit enginn maður hvað lengi hún hefur í auðn verið. Nú brúka ábúendur á Reynisvatni það land til beitar og líka fyr meir til torfskurðar, sem nú er aþr eyddur. Vita menn þó ekki hvör eigandi þeirrar jarðar hafi til forna verið, og meina þó flestir kóngseign vera. Silúngsveiði sýnist þar til forna verið hafa, og enn nú vera kunna með stóru erfiði. Sýnist valla mögulegt aftur að byggja, og óvíst að jafnmikill ávinníngur sem kostnaður yrði“ (Jarðabók Árna og Páls, bls. 292).
„Óskot, suðvestanvert við Hafravatn, í vestur útnorður frá Miðdal, lagt í eyði fyrir mörgum árum, en hvað mörgum, vita menn ekki gjörla, og er landi þess skipt upp meðal nærliggjandi jarða, Þormóðsdals og Miðdals, Reynisvatns og Kálfakots“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).

Óskot

Óskot – uppdráttur.

Óskots er ekki getið í Jarðatali J. Johnsens frá 1847, né í Jarðabók 1861.
Nýbýlið Óskot var stofnað árið 1889. Í dag er jörðin notuð til slægna og beitar. Eigandi 1979 er Magnús Vigfússon múrarameistari (Jarðaskrár).
Í Nýbyggjarabréfi fyrir Óskot frá amtmanninum yfir Suður­amti og Vestur­amti dagsettu 24. september 1889 segir: „…þar eð Guðmundur Kláusson frá Blikastöðum, samkvæmt tilsk. 15. Apr. 1776, hefur, með skoðunargjörð, er framkvæmd var af sýslumanninum í Gullbringu og Kjósarsýslu, með tilkvöddum 4 mönnum óvilhöllum, 23. augúst mán. þ.á., fengið útvísað land til nýbýlis í svo nefndu Óskotslandi í Mosfellssveit. Þá veitist nefndum Guðmundi Kláussyni hjer með nýbyggjararjettur yfir hinu
tilgreinda landi með þeim skyldum og rjettindum og undanþágum, sem í ofangreindri tilskipun eru heimilaðar, þó að óskertum betri rjetti sérhvers annars manns, ef sannaður verður“ (Dipl.Isl).

Reykjakot

Reykjakot

Reykjakot – túnakort 1916.

Reykjahvoll hét áður Reykjakot og varð nafnbreytingin um árið 1893. Um þetta segir Hannes Þorsteinsson: „Reykjahvoll (Reykjkot). Reykjahvoll er nýnefni, tekið upp fyrir nál. 30 árum, auðvitað án stjórnarleyfis; mun nú hafa fengið nokkra hefð, og því réttast að láta það standa sem aðalnafn“ (bls. 32).
Reykjakots getur fyrst í Jarðabókinni frá 1704. Segir þar að jörðin sé ekki minna en 100 ára gömul. Reykjakot var þá hjáleiga frá Suður-Reykjum og var ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 311312). Árið 1874 bjó eigandi sjálfur í Reykjakoti (J. Johnsen 1874).
Í Örnefnalýsingu Varmár frá 1976 segir að Reykja­kot hafi verið í byggð árið 1890 (Guðlaugur R. Guðmundsson).
Í Eyðijarðaskrá 1963 segir: „Úr jörðinni er búið að leggja 3 nýbýli (Efri-Hvol, Akra og Sólvelli), eftir er lítið tún og sameign í beitilandi. Búrekstur enginn nú“ (Skýrsla um eyðijarðir).
Eigendur árið 1979 eru Helgi Ól. og Sigríður Helgadóttir. Jörðin er komin í eyði talsvert fyrir 1958. G.J. skráður fyrir 50 rollum á jörðinni 1979 (Jarðaskrár).
Jarðirnar Reykjakot og Stekkjarkot voru hjáleigur frá Reykjum. Finnbogi Árnason, afi Oddnýjar Helgadóttur á Ökrum, keypti Suður-Reyki fyrir 7.000 kr. árið 1877. Hann hætti þar búskap um 1900 og byggði hús í Reykjavík.

Reykjakot

Þúfnabani.

Björn Bjarnason hreppstjóri Mosfellshrepps og alþingismaður bjó í Reykjakoti og byggði sér þriggja herbergja hús með kjallara um 50 metra frá og nefndi Reykjahvol (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Á 20. öld. breyttist búskapur mikið á Reykjahvoli. Fyrr á öldum voru allir grasblettir nýttir. Áður var slegið í Hvömmunum, við Stekkjarkot, í Krókunum, Flóðunum, Uxamýri og öllum blettum heima við húsin. Slegið var annað hvert ár og beitt hitt.
Um 1945 kom frá Bandaríkjunum fyrsta dráttarvélin að Ökrum. Oddný telur að það hafi verið tólfta dráttarvélin sem kom til landsins (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Helgi Finnbogason faðir Oddnýjar kom að Reykjahvoli skömmu eftir aldamót, eftir að Björn Bjarnason fluttist að Gröf í Mosfellssveit. Jörðin skiptist svo eftir 1930 í nýbýlin Sólvelli, Akra og Efrihvol. Garðyrkjubýlið Blómvangur var einnig úr landi Reykjahvols. Fyrsti bóndi þar var Jóhannes Boeskov og að honum látnum tók bróðir hans Laurits við (Magnús Guðmundsson, bls. 5).
Hér á eftir er greint frá skiptingu jarðarinnar, u.þ.b. hvenær hún fór fram og hverjir voru fyrstu ábúendur á jarðarpörtunum: 1925-Blómvangur:Jóhannes Boeskov; 1930-Sólvellir: Finnbogi Helgason og Ingibjörg Bjarnadóttir; 1934-Efrihvoll: Ingveldur Árnadóttir og Vígmundur Pálsson; 1937- Akrar: Oddný Helgadóttir og Ólafur Pétursson; Reykjahvoll: Sigríður Helgadóttir og Páll Helgason (Magnús Guðmundsson, bls. 5).

Skeggjastaðir
Skeggjastaða er fyrst getið í Landnámabók. Þar bjó Þórður skeggi sem land nam í landnámi Ingólfs milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpúlfsstaðaár). Skeggjastaðir voru meðal jarða sem komust í eigu Viðeyjarklausturs í tíð Páls Magnússonar ábóta (1378-1403) og eru nefndir í skrá yfir þessar jarðir frá 1395: „Skeggiastader zij. c.“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Ekki er á þá minnst í upptalningu konungsjarða í Mosfellssveit í Fógetareikningum frá 1547-1552 (Dipl. Isl. XII) en í Jarða­bók­inni 1704 segir hins vegar: „Skieggiastader, forn jörð byggð úr auðn fyrir 16 árum… Eigandinn kóngl. Majestat. Ábúandinn Guðmundur Guðmundsson“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 3223). Af þessum heimildum má ráða að Skeggjastaðir hafi farið í eyði á 15. öld eða fyrri hluta 16. aldar en byggst að nýju um 1688. Síðan hefur þar verið samfelld byggð. Árið 1847 býr eigandinn sjálfur á jörðinni (J. Johnsen). Eigandi 1979 er Eiríkur Ormsson. Hús og landspilda: Eigandi: Pólarmink hf (Jarðaskrár).

Stekkjarkot

Helgafell

Helgarfell – tóftir í Stekkjargili.

Sólvellir hétu áður Stekkjarkot (Björn Bjarnason, bls. 108). Fyrsta heimildum Stekkjarkot eða „Steckiar kot“ er frá 1704. Jörðin var þá hjáleiga frá Suður-Reykjum og segir að hún sé ekki minna en 100 ára gömul. Ábúandi var einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 312).
Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna frá 1855 segir um Stekkjarkot að það sé í byggð og teljist sjö og hálft hundrað (Stefán Þorvaldsson, bls. 230). Í Jarðabók 1861 heitir hjáleigan enn Stekkjarkot (Ný jarðabók).
Nýbýlið Sólvellir var stofnað á árunum 19221923. Eigandi 1979 er Finnbogi Helgaon (Fasteignabækur, Jarðaskrár).
Af ofannefndum heimildum má ráða að Stekkjarkot hefur lagst í eyði á árabilinu 1861-1922 og ef heimildin frá 1938 er traust, nýbýli verið reist á landi þessu á árunum 1922-1923.
Örnefnalýsing Reykjahvols getur um gamalt býli er Stekkjargil hét. Hugsanlega gæti verið um nafnarugling að ræða og Stekkjargil sé sama og Stekkjarkot. Þar segir: „Niður af Stekkjargili við lækinn, Stekkjargilslæk, var fyrrum býli, er hét Stekkjargil, hafa tættur þess sést fram að þessu“ (Magnús Guðmundsson).
Í Örnefnalýsingu Varmár segir um Stekkjarkot: „Hér austar er að lokum komið að hinum fornu merkjum móti Stekkjarkoti, en þau voru Markarfoss, sem var niður við ána“.
„Niður af Stekkjargili til norðurausturs skammt frá læknum stóð býlið Stekkjarkot. Tættur þess hafa sést fram að þessu“ (Magnús Guðmundsson, bls. 4).

Suður-Reykir

Suður-Reykir

Suður-Reykir – túnakort 1916.

Elsta heimild um Suður-Reyki er máldagi kirkjunnar þar, er Þorlákur biskup Þórhallsson setti árið 1180 (Dipl. Isl. I, bls. 268).
Í Hítardalsbók, frá 1367 er getið um Þorlákskirkju að Reykjum (Dipl. Isl. III, bls. 220).
Vilchinsmáldagi frá 1397 getur einnig um Þorlákskirkju á Reykjum (Dipl. Isl. IV, bls. 112).
Máldagar Gísla biskups Jónssonar geta kirkju að Reykjum (sbr. Dipl. Isl. I, bls. 268). Í sömu heimild segir að jörðin hafi alltaf verið bænda eign. Í Jarðabókinni 1704 eru Suður-Reykir taldir kirkjustaður. Eigandinn bjó sjálfur á jörðinni. Segir að þar sé „Heima­manna gröftur“. Árið 1847 er jörðin bændaeign en ábúendur eru tveir leiguliðar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 311, J. Johnsen, bls. 96). Af öllu að dæma hefur jörðin verið í ábúð frá því snemma á miðöldum og er það enn. Nú á dögum er talað um Suður-Reyki I, II og III.

Suður-Reykir

Suður-Reykir 1920-1930.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídal­íns segir að hjáleigur Suður-Reykja hafi verið þrjár, Reykiakot, Steckiar kot og Amsturdam (síðar í Jarðabókinni ritað Stekkjarkot, bls. 313). Þar er jörðin nefnd „Sudur­reyker“ og jarðardýrleiki sagður xl hundruð. Í sóknarlýsingu Mosfellssóknar frá 1855 segir svo um þessa bæi: „Þessir 4 bæir… …nefnast Reykjahverfi. Það var fyrrum sameign og Suður-Reykir þá höfuðból eitt með 3 hjáleigum; nú er sú sameign sundruð og margir eigendur“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 230-231). Í þessari lýsingu hétu hjáleigurnar Reykjarkot, Stekkjarkot, hvor um sig metin á 7 1/2 hndr., og Amsturdammur 5 hndr (Stefán var prestur á Mosfelli frá 1843 til um 1855). Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Suður­Reykir (Reykir) einnig taldir 40 hundruð, landskuld 2,1 hundrað, 8 kúgildi og tveir ábúendur sem voru leiguliðar (J. Johnsen, bls. 96).
Björn Bjarnason bjó í Reykjakoti fyrir aldamótin síðustu. Um 1895 byggði hann upp bæjarhúsin og færði bæinn vestar og skírði Reykjahvol, er það jafnan nefnt svo síðan. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er jörðin nefnd Reykjakot (bls. 96). Fór það orð af Birni að hann hafi breytt örnefnum og gefið stöðum nöfn sem þeir ekki höfðu fyrir. Arnaldur Þór sagði það Guðmundi Ólafssyni um 1983.

Suður-Reykir

Suður-Reykir.

Björn settist síðar að í Gröf (Suðu-Gröf) í sömu sveit. Þegar hann breytti bæjarstæðinu þar skírði hann bæinn Grafarholt. Björn segir eftirfarandi í lýsingu sinni á Mosfellssveit árið 1937: „Í Syðri-Reykjahverfi voru: Reykir (2 býli), Reykjakot (nú Reykjahvoll), Stekkjakot (nú Sólvellir) og Amsturdam (Amsturdammur) lagt undir Reyki“ (Björn Bjarnason, bls. 108.). Ekki kannast heimildarmenn við að jörðin hafi verið nefnd Syðri-Reykir, ef frá er talið kort Magnúsar Arasonar frá 1721-1722, eða að talað hafi verið um Syðri-Reykjahverfið, nema sem mismæli. Rétt áður hafði Björn talað um Norður-Reykjahverfið, sem heimildarmenn kannast reyndar heldur ekki við nema sem partabæina, Hlaðgerðarkot, Norður-Reykir og Æsustaðir, en þar er þó beygingin á Norður-Reykjum samkvæmt venju. Í þessari sömu lýsingu Björns talar hann um Varmárdal, sem Jón M. Guðmundsson kannast við sem svæðið norðan ár: „Þá er Varmárdalur. Í honum er (Suður) Reykja­hverfið efst, verksmiðjuhverfið við Álafoss neðar, tvær aðrar bújarðir og fimm nýbýli“ (Björn Bjarnason, bls. 103. Oddný Helgadóttir á Ökrum kannast ekki við örnefnið Varmárdal). Venju samkvæmt má ætla að hjáleigan Stekkjarkot hafi dregið nafn sitt af því að þar hafi verið stekkur. Menn kannast einnig við gamlar tóftir þar sem Stekkjarkot stóð. Á síðari árum er fremur talað um Amsterdam en Amsturdam. Elsta heimild sem fundist hefur um orðmyndina Amsterdam er í Jarðatali Johnsens frá 1847, bls. 96.

Suður-Reykir – Hjáleiga; Amsterdam

Suður-Reykir

Suður-Reykir – kort 1908.

Amsturdam var hjáleiga frá Suður-Reykjum árið 1704. Talin byggð þá fyrir rúmlega 40 árum eða um 1660. Ábúandi var einn. Bústofn: þrjár kýr (en þá gátu fóðrast þar fjórar) og eitt leiguhross. Samtals voru fjórir í heimili (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 312-313).
Svo segir í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna 1855 (Stefán Þorvaldsson, bls. 230): „Amsturdammur, 5 hndr., skammt fyrir norðan Suður-Reyki“.
Árið 1847 var Amsturdam enn í ábúð og bjó einn leiguliði þar þá (J. Johnsen, bls. 96).
Bærinn hefur lagst í eyði á árunum 1861 1922 (sbr. Ný Jarðabók 1861 og Fasteignabók 1922).
Svo virðist sem Amsturdam hafi verið lögð undir Suður-Reyki, sem stundum eru kallaðir Reykir (Björn Bjarnason, bls. 108).

Suður-Reykir – Kirkja; Þorlákskirkja

Suður-Reykir

Suður-Reykir 1926.

Kirkju að Suður-Reykjum er fyrst getið í máldaga, er Þorlákur biskup Þórhallsson setti um 1180.  en talið að hún hafi verið A og S við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar (Magnús Guðmundsson).
Elsta heimild um kirkju á Suður-Reykjum er máldagi Þorláks Þórhallssonar (1133 – 1193). Máldagi þessi er prentaður í Fornbréfasafni og segir í formála að honum: „Reykir þeir sem hér eru nefndir eru Suður-Reykir í Mosfellssveit. Þar stóð kirkja og heyrði undir Mosfell. Máldaginn er skáður árið 1180. Í máldaganum segir m.a. að messað skuli annan hvern löghelgan dag í kirkjunni á Reykjum. Fjórða hvern dag skuli syngja morgunsöng og messað skuli á hátíðum. Greiða skuli prest sem svarar hundrað álnum af vaðmáli þar af helminginn í mjöli ef ábúandi kýs það heldur. Tekjur kirkjunnar voru tíund heimamanna og ljósatollar. Samkvæmt máldaganum átti kirkjan fjögur altarisklæði, þrjár bjöllur, tvo kertastjaka, tvær mundlaugar, tvo dúka, þrjá bikara og eina kú. En nyt hennar skyldi gefa á Maríumessu til að fæða þurfamenn.
Til eru máldagar Reykjakirkju frá árunum 1367 og 1379. Kirkjunnar er einnig getið í máldaga Vilkins biskups frá árinu 1397. Í Vilkinsmáldaga kemur m.a. fram að Þorlákskirkja að Reykjum
átti jörðina Úlfarsfell. Meðal annarra eigna voru þrjár kýr, róðukross, Þorlákslíkneski, altarisklæði, mundlaug, tvær bjöllur og paxspjald.

Suður-Reykir

Suður-Reykir.

Er hún talin í máldögum Wilchins (1397) og Gísla biskups Jónssonar (1557) og kölluð hálfkirkja, en átti ekkert í heimalandi því jörðin hefir ávallt verið bóndaeign. Úlfarsfell var kirkjujörð þaðan.
Í Hítardalsbók frá 1367 stendur að „… þorlakskirkia ad reykium a land ad vlarsfelle. iij. kyr“ (Dipl. Isl. III, bls. 220).
Reykjakirkju er enn getið í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá 1575. Auk jarðeigna átti kirkjan þá m.a. messuklæði, altarisklæði og tvær litlar klukkur.
Í júní árið 1704 ritaði Páll Jónsson Vídalín lögmaður jarðabók fyrir Mosfellssveit í viðurvist og eftir tilsögn almúgans. Þar segir að Suður-Reykir séu kirkjujörð og að þar sé „heimamanna gröftur og embættað þá fólk er til altaris“. Um jörðina Úlfarsfell er sagt að jörðin sé „kirkjueign bóndajarðar Suðurreykja“.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1704 segir að Suður-Reykir séu kirkjujörð og að þar sé „…heimamanna gröftur og embættað þá fólk er til altaris“ (bls 311). Ætla má að bænhúsið hafi verið fallið tæpri öld eftir að það var lagt niður. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð.
Svo segir í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna frá 1855: „Mælt er, að bænhús hafi áður verið til forna á Suður-Reykjum“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 238).
Kirkjan að Reykjum var ein af þeim, sem var felld af með konúngsbréfi 17. Mai 1765” (Lagasafn handa Íslandi III, bls. 525)“ (Dipl. Isl. I, bls. 268).
Séra Stefán Þorvaldsson prestur á Mosfelli segir í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855: „Mælt er, að bænhús hafi áður verið til forna á Suður-Reykjum“.
Kirkjan að Reykjum var ein af þeim sem lögð var niður með konungsbréfi 17. maí 1765.
Kirkja, kirkjugarður, var rétt sunnan við íbúðarhús Jóns Guðmundssonar. Ekkert sýnilegt. Grafreitur og kirkja var á Reykjum, austur og uppi á hól frá húsi Jóns Guðmundssonar (Guðmundur Ólafsson hefur þetta eftir Ingveldi Árnadóttur, 12. júní 1980).

Suður-Reykir – Sjúkrahúsbygging; Álafosshospital

Reykjalundur

Reykjalundur.

Í mynni Skammadals er stífla sem stíflar vatnið í Skammadalslæk. Hún var gerð af hernum um 1942 og var til vatnsöflunar fyrir „Álafosshospital“ sem var braggasjúkrahús setuliðsins, þ.e. þar sem endurhæfingarmiðstöð Reykjalundar stendur nú (Magnús Guðmundsson, bls. 12).

Úlfarsá

Úlfarsá

Kálfakot (Kálfárkot) – túnakort 19016.

Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er Jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot (Kalvestaedtkaedt) (Ólafur Lárusson bls. 8384). Í Jarðabók frá 1590 er jörðin nefnd Kálfakot.
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls III er hún í konungseign árið 1704 og ábúendur eru tveir (bls. 293-294). Í Jarðatali J. Johnsens frá 1847 er hún komin í bændaeign og ábúandi er einn leiguliði (bls. 96).
Úlfarsá var í ábúð fram á miðja 20. öld en er nú í eigu ríkisins. Þar hefur verið meðferðarheimili frá Kleppsspítala (Jarðaskrár).

Úlfarsá

Úlfarsá 1980 – tóftir gamla bæjarins nær.

Nokkuð hefur verið ritað um nafnið Kálfakot. Um það segir Hannes Þorsteinsson árið 1923: „Kálfakot. Matsbókin nefnir Kálfá og Kálfárkot, en hvorugt finst annarsstaðar.
Kálfastaðakot nefnist jörðin í JB. Jens Söffrenssonar 1639 og í JB. 1696, og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar“ (bls. 33).
Um þetta atriði hefur Ólafur Lárusson einnig farið nokkrum orðum: „Nafnið Kálfastaðakot er tilkomið fyrir nafnbreytingu þannig, að orðið kot hefir tengzt við eldra nafn Kálfastaðir, en Kálfastaðir er aftur afbökun úr eldra nafni Kálfarsstaðir, dregið af mannsnafninu Kálfarr… Mannsnafnið Kálfarr finnst nú eigi frá fornöld eða mið­öldum hér á landi, en hefir hins vegar tíðkast lítilsháttar á síðari öldum“ (bls. 8).

Úlfarsfell

Úlfarsfell

Úlfarsfell – túnakort 1916.

Úlfarsfells er fyrst getið í máldaga kirkjunnar á Suður-Reykjum árið 1367: „Þorlakskirkia ad reykium a land ad vlars­felle. iij.
kyr“ (Dipl. Isl. III, bls. 220) og síðan í máldögum sömu kirkju frá 1397 og 1557 (Dipl. Isl. I, bls. 268). Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1704 segir um Úlfarsfell: „Kirkjueign bóndajarðar Suður­Reykja. Ábúandinn Einar Ísleifsson, sem heldur hjer fjelagsbú sitt og systra sinna, og er hann eignarmaður til jarðarinnar Suður­Reykja, sem þessi jörð, Úlfarsfell fylgir„ (bls. 310). Jörðin var bændaeign árið 1847 og bjó á henni einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 96). Hún var í ábúð fram á 20. öld og skv. Fasteignabók er hún enn í fullri ábúð árið 1938 en hefur verið án ábúðar a.m.k. frá 1958. Síðar var jörðinni skipt í tvennt og stofnað nýbýlið Úlfarsfell 2 árin 19721973. Árið 1979 var Ragnar Guðlaugsson eigandi að Úlfarsfelli 1 en Grímur Norðdahl að nýbýlinu (Jarðaskrár).
Árið 1938 segir um Úlfarsfell í Fasteignabók: „Steinhús; tún girt.“

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916.

Fyrstu heimildir um Varmá eru frá 14. öld og er þar getið kirkju að Varmá en hún lagðist af skömmu fyrir 1600 (sbr. Sveinbjörn Rafnsson). Varmár er getið í Fógetareikningum 15471552 og er þá konungseign (Dipl. Isl. XII).
Varmá var þingstaður og er þess fyrst getið árið 1505 (Dipl. Isl. VII, bls. 801). Árið 1704 voru ábúendur tveir, eigandi er konungur (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 315).
Konungseign einnig árið 1847. Ábúendur þá tveir (J. Johnsen, bls. 95).
Skv. heimild frá 1938 var Varmá lögð undir Lágafell um 1900 (Björn Bjarnason, bls. 108). Varmá var án ábúðar árin 1922 1932 og hefur verið það síðan (sbr. Fasteignabækur). Þar er nú mikil húsaþyrping.

Álafoss

Álafoss fyrrum.

Álafoss er húsahverfi eða smáþorp við Vesturlandsveg. Húsaþyrping þessi hefur myndast umhverfis klæðaverksmiðju, sem starfrækt hefur verið síðustu áratugina. Þar var sundlaug um skeið og einnig íþróttaskóli, en sundlaugin var flutt og skólinn er hættur störfum (Þorsteinn Jósepsson, bls. 10).
Við samanburð Fasteignabóka áranna 1922 og 1932 má sjá að Álafoss var stofnað á því tímabili. Eigandi árið 1979 er Álafoss hf. (sbr. Jarðaskrár). Nýbýlið Brúarland var stofnað á árabilinu 1932-1938. Það fór í eyði á árunum 1938-1957 (sbr. Fasteignabækur).
Upplýsingar um jörðina árið 1938 skv. Fasteignabók: Steinús. Tún algirt.
Húsið stendur enn (1980) og er í notkun.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – túnakort 1916.

Fyrsta heimild um Þormóðsdal er máldagi Maríukirkju í Viðey frá 1234. Segir þar svo: „Magnvs Gvðmvndarson gaf til staðar selför j Þormoðsdal enn efra. oc alls fiar beit bæði vetr oc svmar“ (Dipl. Isl. I, bls. 507). Næst er Þormóðsdals getið í máldagabroti Viðeyjarklausturs frá 1284: „Stadur j videy aa ok selfor j þormodz dal hinn efra“ (Dipl. Isl. II, bls. 247). Í leigumálaskrá jarða Viðeyjarklausturs árið 1313 stendur eftirfarandi: „J þormodz dal iij merkur ok xij hrossa beit“ (Dipl. Isl. II, bls. 377). Á sextándu öld kemst Þormóðsdalur, ásamt fleiri jörðum, í eigu konungs og bera Fógetareikningar 1547-1552 því vitni. Þar er ýmist talað um „Thormôndsdall“ eða „Thomondsdall“ (Dipl. Isl. XII). Árið 1704 er Þormóðsdalur enn konungsjörð. Ábúendur eru tveir (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 309310). Þormóðsdalur er líka konungsjörð árið 1847 og er ábúandi þá einn (J. Johnsen, bls. 96). Eigandi 1979 er Ríkissjóður, Rannsóknarstöð landbúnaðarins í Keldnaholti (Jarðaskrár).

Þormóðsdalur – Sel; Nærsel

Nærsel

Nærsel – uppdráttur.

„Frá Árnesi, upp með Seljadalsá að norðan er allöng valllendismóaspilda. Þar mótar fyrir seltóftum; var það nefnt Nærsel“ (Tryggvi Einarsson).

Þormóðsdalur – Sel; Nessel

Nessel

Nessel – uppdráttur.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti Nes á Seltjarnarnesi selstöðu í Seljadal: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Nessel í Seljadal undir Grímafelli, og hefur um lánga stund ekki brúkuð verið“ (bls. 239).
Í Lýsingu Mosfells og Gufunessókna segir svo um Seljadal: „Seljadalur er og dalur óbyggður, sunnan undir Grímansfelli, liggur frá vestri til austurs, milli Grímnsfells að norðan og Seljdalsbrúna svonefndra að sunnan… Þar eru seltóftir gamlar, sem fyrrum verið hafa af Seltjarnarnesi. Þar heitir enn Nessel. Aths. höf.“ (Stefán Þorvaldsson, bls. 223). „Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímmannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar vel fyrir seltóftum“ (Tryggvi Einarsson).

Mosfellsbær

Nessel.

Ekki mun þetta standast að sel frá Gufunesi hafi verið í Seljadal, sbr. Jarðabók Árna og Páls. Þar segir að jörðin hafi fyrrum átt selstöðu í Stardal. Kirkjunni er eignuð mánaðarbeit við Sólheimatjarnir „…og nú er kallað Keldnasel, fyrir þá orsök að bóndinn í Gufunesi skal hafa fyrir mörgum árum ljeð ábúandanum á Keldum þetta ítak til selstöðu…“ (bls. 301).

Æsustaðir

Æsustaðir

Æsustaðir – túnakort 1916.

Í Jarðabókinni frá 1704 eru Æsustaðir taldir tíu hundruð úr Norður-Reykjum. Þá var jörðin (N-Reykir) í eigu tveggja bænda. Ábúandi var einn leiguliði (Jarða­bók Árna og Páls III, bls. 318319). Árið 1847 voru Æsustaðir bændaeign og ábúandi var einn leiguliði (J. Johnsen, bls. 95). Eigandi árið 1979 var Hjalti Þórðarson. Um tíma, ca. 19631972, var talað um Æsustaði II. Var þá jafnan nafnið Árvangur haft aftan við innan sviga. Nú er ekki lengur um það að ræða, enda varð Árvangur sjálfstætt býli á árunum 1972-1973 (Jarðaskrár).

Æsustaðir – Álagablettur; Æsuleiði

Æsuleiði

Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.

Svo segir í Örnefnalýsingu Æsustaða: „Vestan í túnbrekkunni, neðan við Æsustaðabæ, er aflöng þúfa, er heitir Æsuleiði. Þar fyrir vestan við landamerki NorðurReykja er túnblettur, sem heitir Krókur og mýrin þar vestan túnsins var nefnd Sund, er nú tún að mestu. Sú trú hefir verið, að það megi ekki slá eða hagga við því, og er því fylgt enn“ (Ólafur Þórðarson).
Í Örnefnalýsingu sömu jarðar segir á öðrum stað: „Vestast í túnbrekkunni er Æsuleiði er ekki má slá eða snerta“ (Ólafur Þórðarson).
Aflöng þúfa eða upphækkun, sem mjókkar til beggja enda, u.þ.b. 7 m á lengd og 1,5 á breidd (yfir miðjuna). Hæðin er um 1 m. Legan er nokkurn veginn NS. Þúfa þessi er utan í lágri brekku skammt NV af bæ á Æsustöðum og liggur samsíða henni.
Æsuleiði er allgreinilegt. Milli þess og brekkunnar er grunn skora eða rás, sem afmarkar það vel frá brekkunni. Hlíf Gunnarsdóttir frá Æsustöðum segir að rásin sé gömul. Sjálf heldur hún að þar liggi landnámskonan Æsa er land nam á Æsustöðum. Líklega er þetta náttúrumyndun (Ágúst Ó. Georgsson).

Samantekt

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – kort 1908.

Í Mosfellsbæ voru samkvæmt Jarðatali Johnsen árið 1847 skráðir 25 bæir og miðast fornleifaskráin við þá. Að auki var eyðibýlinu Óskoti gefið sérstakt númer þó það sé ekki nefnt í ofangreindu jarðatali þar sem jörðinni hefur aldrei verið skipt upp, þó hún hafi verið nýtt af bæjunum í grennd. Einnig voru sextán hjáleigur og kotbýli sem falla undir þá bæi sem þær/þau voru upphaflega byggð úr.

Friðlýstar fornleifar

Blikastaðanes

Blikastaðanes – veslun og útgerð fyrrum.

Friðlýstar fornleifar eru á þremur jörðum í Mosfellsbæ, allar friðlýstar af Þór Magnússyni þjóðminjaverði.
Á Blikastöðum eru fornar rústir og grjótgarðar frá verslunarstað eða útræði niðri á sjávarbakkanum, yst í svonefndu Gerði. Rústir þessar voru friðlýstar árið 1978 og friðlýsingin þinglýst sama ár.
Í Laxnesi eru friðlýstar leifar af tveimur fjárborgum, Grænuborg og annarri ónefndri (stundum kölluð litla Grænaborg, sitt hvoru megin þjóðvegar skammt ofan við Gljúfrastein. Þær voru friðlýstar 1976 og friðlýsingin þinglýst sama ár.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Í Þormóðsdal er friðlýst Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Friðlýst 1988, þinglýst sama ár.
Allar þessar fornleifar eru í dag í fremur slæmu ástandi. Nýlega var lagður yfir rústirnar í Blikastaðagerði göngustígur sem nú hefur verið fjarlægður aftur en eftir er að ganga frá svæðinu. Girðing hefur verið sett yfir báðar fjárborgirnar í Laxnesi og er nauðsynlegt að færa hana a.m.k. 20 metra frá ystu sýnilegu mörkum rústanna. Fjárréttin við Hafravatn hefur látið mjög á sjá á síðustu árum og hefur grjót greinilega verið fjarlægt úr hleðslum. Nauðsynlegt er að setja fram stefnu um varðveislu og viðhald þessara minja.

Bæjarhólar og bæjarstæði

Óskot

Óskot.

Í Mosfellsbæ voru samkvæmt Jarðatali Johnsen árið 1847 skráðir 25 bæir. Að auki var eyðibýlið Óskot, en það er ekki nefnt í ofangreindu jarðatali þar sem jörðinni hefur aldrei verið skipt upp, þó hún hafi verið nýtt af bæjunum í grennd.

Samkvæmt Örnefnaskrá voru tóftir Amsterdam jafnaðar við jörðu um 1950. Þó er mögu­legt að rústir leynist undir sverðinum. Nú er umfangsmikil skógrækt á svæðinu og má segja að rústirnar séu í umtalsverðri hættu af þeim sökum. Amsterdam var upphaflega hjáleiga frá Reykjum.

Blikastaðir

Blikastaðir 1985.

Núverandi bæjarstæði Blikastaða virðist svo til á sama stað og bær sem sést á Túnakorti frá 1916. Hús þar eru vegleg og líklegt að stór hluti bæjarhólins hafi eyðilagst er þau voru byggð, þó mögulegt sé að brotakenndar leifar leynist undir og við núverandi bæjarhús. Bæjarins er fyrst getið í heimildum frá árið 1234.

Undir Blikastaði fellur hjáleigan Hamrahlíð sem byggð var um 1850. Hún virðist hafa lagst í eyði fyrir 1922 og eru rústir hennar greinilegar um 100 metrum neðan Vesturlandsvegar á móts við skógræktarreit í hlíðum Úlfarsfells.

Elliðakot

Elliðakot – síðasti bærinn – uppdráttur.

Elliðakot lagðist í eyði rétt fyrir 1950. Enn eru mjög greini­legar leifar síðustu búsetu þar. Síðast var búið þar í timburhúsi sem byggt var eftir að torfbær sem þar stóð var orðinn að rústum einum. Elliðakot er utan alfaraleiðar og því ekki í teljandi hættu vegna framkvæmda. Undir Elliðakot fellur hjáleigan Vilborgarkot. Það er sagt forn eyðijörð í Jarðabók 1704.
Jörðin byggist upp aftur einhvern tíma á árabilinu 1861-1900 en lagðist aftur í eyði árið 1905.

Í Helgadal var torfbær árið 1938 en hann er nú horfinn. Samkvæmt núverandi ábúanda stóð hann líklega þar sem nú er gróðurhús, SV við núverandi bæjarhús. Grjót úr veggjum og stéttum hefur komið í ljós á því svæði við jarðrask. Bæjarins er fyrst getið í heimildum frá miðöldum.

Helgafell

Horft að bænum Helgafelli á stríðsárunum.

Bæjarstæði Helgafells er á sama stað og á Túnakorti frá 1916. Þar er nú stórt íbúðarhús auk útihúsa sem hafa líklega raskað stórum hluta gamla bæjarins. Austan við bæinn er hóll sem líklega er forn bæjarhóll. Vorið 1980 var grafið framan af hólnum og komu í ljós hleðslur í sárinu. Haft var samband við Þjóðminjasafn Íslands og kom fornleifafræðingur á staðinn. Hann teiknaði upp og skráði hólinn. Nú virðist vera búið að taka meira af hólnum og liggur vegur yfir hann að hluta.

Hitta var hjáleiga frá Mosfelli um miðja 19. öld. Þar sjást nú engar rústir. Fornleifafræðingar frá Þjóðminjasafni Íslands grófu árið 1996 á þeim stað sem Hitta er talin hafa verið og fundu þar leifar býlis sem ekki hefur verið í byggð meira en einn mannsaldur.

Hlaðgerðarkot sést á Túnakorti frá 1916 og man heimildamaður eftir bæjarhúsunum frá u.þ.b. 1936. Nú hefur verið byggt ofan í rústirnar og eru þær alveg horfnar.

Hraðastaðir

Hraðastaðarétt.

Á Hraðastöðum er nú allmikil byggð og líklegt að gamla bæjarstæðið sé horfið. Þó er mögulegt að eitthvað leynist undir þeim byggingum sem þarna eru.

Á Hrísbrú var byggt ofan í gamla bæjarstæðið fyrir löngu. Þó er rétt að geta þess að tilgátur hafa lengi verið um að Mosfell hafi upphaflega verið byggt á þessum stað og síðar verið flutt þar sem það er nú. Nýlegar fornleifarannsóknir virðast styðja þessa tilgátu en þar hefur fundist kirkja og kirkjugarður frá því um 1000-1200. Nauðsynlegt er því að fara með gát við allar framkvæmdir á staðnum þar sem undir yfirborði gætu leynst leifar bæjar frá þessum tíma. Hrísbrúar er fyrst getið í Egils sögu Skallagrímssonar.

Laxness er fyrst getið í Fógetareikningum 1547–1552 og er þá í eigu konungs en var trúlega áður í eigu Viðeyjarklausturs.

Bárðartóft er um 1 km austan við Gljúfrastein. Þar á einsetumaður að hafa búið um tíma, líklega um aldamótin 1900.

Laxnestunga er hjáleiga sem hefur lagst í eyði fyrir 1916 en þá voru rústirnar mjög greinilegar. Við fornleifaskráningu 1980 fundust tóftirnar ekki þrátt fyrir mikla leit. Gera má þó ráð fyrir að þær séu enn til staðar í túni því sem kallast Laxnestunga en sléttað hafi verið yfir þær.

Lágafell

Lágafellskirkja 1901 – brúðkaup.

Á Lágafelli hefur alveg verið sléttað yfir bæjarstæðið og sjást engar tóftir á yfirborði. Samkvæmt ljósmyndum stóð síðasti bærinn þar sem nú er bílastæði við hlið kirkjugarðsins og að hluta til undir honum. Ekki er ólík­legt að rústir leynist undir sverðinum og ber því að fara með gát við allar framkvæmdir. Lækjarkot var hjáleiga frá Lágafelli sem fyrst er getið í heimildum frá 1855 og hefur lagst í eyði einhvern tíma á árabilinu 1861-1922. Lækjarkot virðist hafa horfið undið byggð sem nú er neðan Vesturlandsvegar undir Lágafelli.

Engar leifar gamla bæjarins í Leirvogstungu eru nú sjáanlegar og virðist mikið hafa verið sléttað í og við bæjarstæðið.

Miðdals er fyrst getið í Fógetareikningum 1547–1552 og er það þá í eigu konungs en var trúlega áður í eigu Viðeyjarklausturs.
Núverandi bæjarhús virðast á mjög svipuðum stað og húsin sem sjást á Túnakorti frá 1916. Þó er ekki ólíklegt að leifar gamla bæjarins leynist þar. Mikill trjágróður er nú á svæðinu og gerir það erfiðara að greina mögu­legar fornleifar. Sex hjáleigur eru skráðar undir Miðdal. Miðdalskot er nefnt í jarðabók 1704 en er komið í eyði um 1835. Rústir þess fundust við fornleifaskráningu SA í Kotahól, um 240 m SV Hafravatnsleiðar.
Í heimild frá 1855 segir að Sólheimakot og Búrfellskot hafi lagst í eyði fyrir mjög löngu síðan. Nýbýlið Sólheimar var reist 19328 en hefur verið án ábúðar frá 1958. Rústir Búrfellskots eru í kargaþýfðum móa sunnan við Búrfell. Býlið Geitháls var reist einhvern tíma á árunum 1861-1922 en hefur ekki verið í ábúð að minnsta kosti frá 1958. Tóftir bæjarhúsanna fundust við Hólmsá, um 25 m suður af Suðurlandsveginum. Borgarkot hefur samkvæmt Jarðabók verið í eyði frá 1703 en virðist einungis hafa verið í byggð 20 ár þar á undan. Nákvæm staðsetning er ekki þekkt. Annað kot sem hefur verið í byggð svipuðum tíma er Búrfell. Jarðabók 1704 segir að Búrfell hafi legið í eyði í átta ár en var fyrst uppbyggð fyrir um 20 árum.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell.

Gamla bæjarstæðið á Minna-Mosfelli var þar sem hlaðið er núna. Mögulegt er þó að rústir leynist undir.
Yngstu bæjarhúsin á Mosfelli eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir kirkju og kirkjugarð en þó má minna á texta að ofan um Hrísbrú. Mosfells er fyrst getið í Land­námu og oft í Egils sögu Skallagrímssonar. Í heimild frá 1938 segir að Merkurvöllur sé hjáleiga frá Mosfelli og hafi lengi í auðn verið. Engar aðrar heimildir eru um þessa jörð og engar rústir eru á þeim stað sem nú heitir Merkurvöllur. Bakkakot var hjáleiga frá Mosfelli árið 1704. Hennar er ekki getið í Jarðatali Johnsen frá 1847 og hefur því lagst í eyði einhvern tíma á því tímabili. Ekki er vitað hvar hjáleiga þessi stóð. Bringur (einnig kallaðar Gullbringur) voru reistar í landi Mosfells vorið 1856. Bringur fóru í eyði árið 1966 og hefur bæjarstæðið verið sléttað með jarðýtu.

Norður-Reykja er fyrst getið í Jarðabók 1695. Bæjarhúsin standa enn á sama stað og á Túnakorti frá 1916.

Óskot

Óskot.

Óskots er fyrst getið í skrá um kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs en nefnist þá Ós. Árið 1704 er hennar getið sem fornrar eyðijarðar og hún er ekki nefnd í Jarðatali frá 1847. Árið 1889 er nýbýli stofnað á jörðinni. Í dag er jörðin komin aftur í eyði en er nýtt til slægna og beitar. Rústir síðasta bæjarins á Óskoti eru mjög greinilegar í dag og einnig er líklegt að finna megi tóftir forna bæjarins. Ein tilgáta er að hann hafi verið þar sem nú er lágur hóll í túninu og virðist mega greina túngarð kringum hann á gömlum loftmyndum. Það er því nauðsynlegt að fara með gát við allar framkvæmdir á jörðinni.
Í Jarðabók 1704 er fyrst getið um Reykjakot og sagt að það sé ekki minna en 100 ára gamalt. Reykjakot var hjáleiga frá Reykjum. Árið 1893 eða þar um bil er nafni jarðarinnar breytt í Reykjahvol, á sama tíma og hætt var að búa í gamla torfbænum og
byggt stein­hús um 50 metra frá.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir 1924.

Skeggjastaðir eru fyrst nefndir í Landnámabók. Þar bjó Þórður skeggi sem land nam milli Leirvogsár og Úlfarsár í landnámi Ingólfs. Skeggjastaðir virðast hafa lagst í eyði á tímabilinu frá því einhvern tíma á 15. öld eða byrjun 16. aldar og fram til 1688. Hætt var að búa í torfbæ og steinhús byggt í staðinn einhvern tíma á milli áranna 1932 og 1938. Engar leifar gamla torfbæjarins sjást nú en vitað er hvar hann stóð og líklegt er að leifar hans séu varðveittar undir sverðinum. Samkvæmt Örnefnaskrám eru Ketilsstaðir austan við bæinn, við Leirvogsá.

Í Jarðabók 1704 er fyrst getið um Stekkjarkot og sagt að það sé ekki minna en 100 ára gamalt. Stekkjarkot var hjáleiga frá Reykjum og lagðist í eyði á árabilinu 1861-1922. Nýbýlið Sólvellir var svo reist á jörðinni 1922-1923.

Elsta heimild um SuðurReyki er máldagi kirkjunnar sem Þorlákur biskup Þórhallsson setti þar árið 1180. Samkvæmt Túnakorti frá 1916 hefur bærinn þá staðið á sama eða mjög svipuðum stað og hann stendur núna. Gera má ráð fyrir að núverandi íbúðarhús hafi að minnsta kosti að einhverju leyti raskað eldri bæjarhúsum.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er Jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot. Gamla bæjarstæðið er um 100 m NNA við núverandi íbúðarhús á Úlfarsá. Þar var síðast kartöflugarður og lítið sýnilegt á yfirborði.

Úlfarsfells er fyrst getið í máldaga kirkjunnar á Suður-Reykjum árið 1367. Það er þá kirkj­ueign. Í túninu á nýbýlinu Fellsmúla eru tveir lágir flatir rústahólar en þar á að hafa verið lítið kot eða hjáleiga frá Úlfarsfelli.
Fyrstu heimildir um Varmá eru frá 14. öld. Varmá var lögð undir Lágafell um 1900 og hefur verið án ábúðar frá því einhvern tíma á árabilinu 1922-1932. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40 50 metra SA og A gagnfræðaskólans.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – minjar.

Fyrsta heimild um Þormóðsdal er máldagi Maríu­kirkju í Viðey frá 1234 þar sem fram kemur að Viðeyjarklaustur eigi selför í Þormóðsdal hinum efri. Núverandi bæjarhús virðast standa á sama stað og bæjarhús á Túnakorti frá 1916.

Æsustaðir eru nefndir í Jarðabókinni frá 1704 og eru þá sagðir byggðir úr Norður-Reykjum. Gamli bærinn á Æsustöðum stóð u.þ.b. 20 – 30 metrum framar á hlaðinu en núverandi íbúðarhús Æsustaða I.

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafn Íslands 2006.
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-2_urskurdur.pdf

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Ögmundarstígur

Eftirfarandi frásögn um vegi á Suðurlandi birtist í Fjallkonunni árið 1896:
„Gamall Íslendingur í Ameríku, Björn Björnsson, í British Columbia, hefir sent Fjallk. langar ritgerðir um vegi á Suðurlandi og koma hér kaflar úr þeim: Í grend við Beykjavík liggja 15 fornir vegir:
svinaskard-2211. Kjalarnesvegrinn, sem liggur innan úr Kjós út með Hvalfirði fyrir framan Esju og yfir Kleifar að Kollafirði.
2. Svínaskarðsvegurinn. Þessir báðir vegir liggja vesutr og norðr um land.
3. Stardalsvegur eða Bringnavegur, er geta komið saman við Illuklif fyrir ofan Leirvogsvatnsenda efri og þar á Mosfellsheiðarveginn.
4. Seljadals (eða Seljadalsbrúna) vegurinn er liggur yfir Mosfellaheiði og Borgarhólaheiði.
5. Jórutindsvegur. Hann liggr frá Nesjum í Grafningi við Þingvallavatn og upp í Folaldadali, sem kallaðir eru — þar eru aðalslægjur frá Nesjum — svo liggur vegurinn hjá Jórutindi, sem er milli Folaldadalanna og þar yfir Sköflungahrygg. Er þá komið á Borgarhólaheiði. Þessa leið fer Nesjabóndi til flestra aðdrátta, og það er heybandsleið hans, er hann sækir norður í Sauðafellsflóa. Hann fer eina ferð á dag með heybandið.
6. Dyravegur. Hann liggur frá Nesjavöllum í Grafningi; sá bær er fullan mílufjórðung frá Þingvallavatni og stendur á sléttum völlum sem ligggja inn undir Hengladali. Flestir Grafningsmenn fara Dyraveg. Hann er upp í hæð í fjallgarðinum að austanverðu, sem nefnd er Flög; þá kemr önnur hæð, sem nefnd er Hella; hún er æðibrótt og í hana klöppuð spor fyrir menn og hesta. Þaðan liggur vegurinn ofan í smádali og á milli tveggja standbjarga, sem mynda hlið, og eru það Dyr þær, sem vegurinn er við kendur. Þá er er riðið eftir dal, þar til brekka kemur og tekur þar við Borgarhólaheiði. Þessi vegur liggur síðan niður lágheiðina hjá Litlumýri og Langamel og niður að Lyklafelli, og á veg þann er liggur úr Fóelluvötnum upp á norður-Bolavelli.
sporhella-2217. Sleggjubeins-dalavegur. Hann liggur sunnan við Húsmúla, efst af suður-Bolavöllum upp úr Sleggjubeinsdölum og yfir lága hæð eða háls og upp í Hengladali. Þar er æðigóð ölkelda og ágæt brennisteinsnáma, — ég veit ekki betur enn að ég hafi fundið hana fyrstur — og flutti ég úr henni nokkra hestburði brennisteins, sem álitinn var bezta tegund. Lét Jón Hjaltalín landlæknir Sverri steinhöggvara gera þennan veg eitt sinn löngu eftir að ég fann námuna og tók brennisteininn, einmitt til að geta hagnýtt sér þetta ágæta ölkelduvatn; lét Hjaltalín flytja þaðan nokkra hestburði af ölkelduvatni heim til sín. Þessa leið fór ég með Hjaltalín og má fara austanundir Henglafjöllum og ofan í Grafning ef vill, eða ofan að Reykjakoti í Ölfusi.
8. Hellisheiðarvegurinn.
lakastigur-2219. Lágaskarðs-vegurinn. Hann liggur líka um Svínahraun og eins má fara upp norður-Bolavelli og með Húsmúlanum og svo af suður-Bolavöllum á Lágaskarðsveginn. Það er æðihár háls eða hæð Bolavallamegin en brattara hinum megin og liggur vegurinn ofan í djúpan sanddal, sem liggur milli hrauns og Lönguhlíðar.
10. Ólafsskarðs-vegurinn. Hann liggur suðvestur af Fóelluvötnum yfir svokallað Sandskeið og upp með Vífilsfelli, sunnan við endann á neðri Bolaöldu, enn yfir endann á efri Bolaöldu, upp hjá Sauðadölum og svo inn í Jósepsdal. Það er falleg, stór flöt í dalnum og hamrar inst. Þar átti tröllskessa að hafa búið í fyrndinni. Þetta dalverpi er við Vífilsfell að vestanverðu. Vífilsfell er líkast því að það væri hornsteinn við Bláfjöllin er liggja fast við þar að sunnanverðu eða suðvestan, og má þar ganga upp á Vífilsfell; það gerði Vífill, er haun fór að gá til veðurs, hvort fært væri að róa til Sviðs. Hafa menn oft farið þangað með kíki í fögru veðri til að leita að skepnum; það er ekki bratt upp úr dalnum, farið utan í smáakriðu austanvert við dalinn, enn þegar komið er upp í skarðið, sem er örstutt, þá skiftast vegir; annar liggur þá nálægt í suðaustur; það er góður vegur og liggur ofan í sanddalinn milli Hrauns og Hlíða, enn hinn liggur suðvestr með Bláfjöllum, mjög grýttur enn sléttur. Hann liggur suðvestur á Þúfnavelli og ofan á Hlíðarbæi í Ölfusi.
grindaskord-22311. Grindaskarðavegur. Hann liggur aðallega úr Hafnarfirði, enn víðar má komast á hann, ef vill. Þessi vegur fer fyrst úr Hafnarfirði upp með Hamarskotslæk og upp yfir Öldur, lágar hæðir fyrir austan Hamarskot og Jófríðarstaði og svo upp með Setbergshlíð, hjá Kershelli og yfir Mygludali, er liggja milli Húsafells og Helgafells, síðan um smáöldur og þá um hraunsléttur, þar til kemr í Kristjánsdali, er liggja með fjallgarðinum milli Hrauns og Hlíðar, fyrir neðan Þríhnúka og Kóngsfell, og má og er farið með hesta alla leið hvort heldur með Bláfjalladrögunum austur í Vífifellskrók eða um Rauðuhnúka og hraunmegin við Sandfell og Selfjall og niður í Skógarhlíðarkrika, efst í Elliðavatnsheiðinni, — enn úr Kristjánsdölum fer maður upp Grindaskörð; þau eru ekki brött; skarðið sjálft örmjótt varp, enn dalur fyrir ofan skarðið; þar skiftast vegir og liggur annar austur yfir eða norðan á heiðinni há, og austur á Þúfnavelli — á þeirri heiði hefi ég séð fallega hjörð hreindýra, marga tugi — enn hinn vegurinn liggur í hásuður til Selvogs; eftir litla samveru veganna skiljast þeir aftur, og liggur þá aðalvegurinn til Selvogs, enn hinn á bak Lönguhlíð í brennisteinsnámur þær, er heyra Herdísarvík og Krýsivík.
12. vegurinn liggur úr Grindaskarðaveginum suður úr Mygludölum, og er sléttara að fara fyrir ofan Helgafell eða milli Helgafells og hraunsins, er svo kallað Skúlatún stendur í; segja sumir, að það séu þær réttu Gullbringur; það er æðifallegur blettur innan í hrauninu, óbrunninn. Beztur er vegurinn og sléttastur mitt á milli Bakhlíða og Lönguhlíðar; er þar frægasta akbrautarstæði, ef stefnt er innan við endann á Lönguhlíð. Þar næst kemur Kleifarvatn; það er stórt stöðuvatn, enn flestum vötnum óþarfara meðan ekki er flutt í það silungsveiði eða æðarvarpshólmar búnir til í því, sem hætt er við að dragist. Það minkar eða fjarar í nokkur ár og vex svo aftur. Ekki er hægt að hafa akbraut með vatninu, nema sprengdur væri berghamar, sem liggur við það. Svo er alsléttur vegur til Krýsivíkur.
13. vegurinn liggur út úr Grindaskarðaveginum að Kaldárseli og yfir Kaldá neðan undir Undirhlíðum,
sem kallaðar eru, suður að Vatnsskarði, er fara má á áðurnefndan veg við vatnið. Líka má fara suður á Ketilsstíg eða hvort er vill, suður á Velli eða í Grindavík.
14. vegurinn liggur úr Hafnarfirði upp frá Flensborg hjá Stórhöfða, þar út í hraunið og upp hjá Háfjallinu eina; það er örstuttur vegur yfir hraunið, og svo með fjallinu yfir á Ketilsstíg.
15. vegurinn liggur af Vatnleysuströnd upp heiðina og upp á Velli og Móhálsa til Krýsivíkur, allgóður vegur og stuttur.
Af öllum þessum vegum er langverst að leggja veg um Hellisheiði, hvað akstur og bratta snertir.“

Heimild:
-Fjallkonan 13, árg. 43. tbl. 1896, bls. 174-175.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

 

Bringnavegur

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 má m.a. sjá eftirfarandi um „Tvær leiðir á Mosfellsheiði“ (Grh., 15. okt. B.B.):
Bringnavegur-225„Á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla veginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá (fyrrum hjet vatnið Ölvesvatn (nú Þingvallavatn), og áin úr því Ölvesá, til sjávar; aðeins þrengslin milli (Þingvalla-), Ölvesvatns og Úlfljótsvatns hjet Sog. Nú er áin nefnd Sog, til þess er Hvítá kemur í hana, síðan Ölvesá) á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfu, fyrir norðan Lykla-(Litla)-fell. sunnan Selvatn, um Sólheima. Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna. Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. október 1930, bls. 334.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Gluggavarða

Hér er sagt frá „Feigðarför Laugdæla og Tungnamanna á Mosfellsheiði 1857“:
Byggt er á grein séra Magnúsar Helgasonar í Huld og fleiri heimildum. Loftur Guðmundsson skráði.
„Þeir lögðu upp frá Þingvöllum, 14 talsins, laugardaginn þriðja í Góu 1857. Þeir voru úr Laugardal og Biskupstungum og ætluðu til sjóróðra við Faxaflóa svo sem tíðkaðist. Á leiðinni til Þingvalla blotnuðu þeir, áttu þar slæma nótt og voru blautir þegar þeir lögðu af stað í hnésnjó. Á Mosfellsheiði rauk upp með aftakabyl og þegar þeir náðu yfir heiðina, höfðu sex orðið úti, en þeir sem eftir lifðu voru skaðskemmdir af kali.

Formáli

Mosganga

Gönguleiðin um Mosfellsheiði.

Upp úr góubyrjun fór að sjást til óvenjumikilla mannaferða austan heiða. Þá héldu menn í verið. Útróðramenn úr öllum sveitum á Suðurlandsundirlendinu, jafnvel austan úr Austur-Skaftafellssýslu, lögðu þá leið sína til verstöðvanna á Reykjanesskaganum, út í Þorlákshöfn, niður á Eyrarbakka eða Stokkseyri.
Flestir fóru þeir fótgangandi og báru færur sínar á bakinu, oft allt að sex fjórðungum — smjör, kæfu og hangikjöt til skrínukosts á vertíðinni, sjóklæði og annan fatnað — og seig sú byrði í, þegar þung var færð eða stormur stóð í fang, kannski dag eftir dag, enda var margur óharðnaður unglingurinn lúinn að kvöldi, þegar kom á áfangastað.
Venjulega fóru vermenn allmargir saman: sammæltust af nágrannabæjum og síðan bættust fleiri í hópinn á leiðinni. Var það gert vegna félagsskaparins, en þó fyrst og fremst til öryggis, því oft voru kröggur í vetrarferðum, eins og sagði í máltækinu, og um þetta leyti vetrar var allra veðra von, en dagur enn skammur. Áttu og margir vermenn yfir mörg og viðsjál vatnsföll að fara, eða eyðisanda og mýraflæmi þar sem fátt var um kennileiti, og því villugjarnt í dimmviðri og eftir að myrkva tók. Það var því föst venja þeirra að skipta þannig dagleiðum, að þeir nytu dagsbirtunnar í viðureigninni við vatnsföllin og aðrar torfærur, eða þar sem villugjarnast var. Af þessum ástæðum var og yfirleitt alltaf um sömu, fastákveðnu gististaðina að ræða við dagleiðaskil, kannski ekki nema einn eða tvo bæi, en þar sem þéttbýlla var, skiptu vermenn sér niður á heimilin sem jafnast, að minnsta kosti þegar þeir fóru margir saman. En færi var gott og stillt veður, náðu þeir oftast á náttstað snemma á vöku, en í þungri færð og slæmu veðri, hríð, slyddu eða jafnvel slagviðri, gat það dregizt fram undir lágnættið og urðu þeir þá að vekja heimilisfólk upp. Yfirleitt var þeim jafnvel tekið þrátt fyrir það. Konur drifu sig á fætur, tóku upp eld í hlóðum, báru gestum mat, drógu af þeim vosklæðin og létu þeim loks eftir rekkjur sínar — og þegar þeir voru sofnaðir, náðum fegnir, undu þær plögg þeirra, þurrkuðu á felhellum og hlóðsteinum og vöktu yfir, því hafa varð stöðuga gát á eldunum svo þau brynnu ekki en yrðu þó þurr að morgni. Sjálfsagt þótti líka að bæta skó þeirra og staga í sokka ef með þurfti; höfðu vinnukonur og heimasætur því í rauninni lítil not fyrir bólið sitt þær næturnar — og þær nætur urðu margar út góuna. Þannig hafði það verið öldum saman á þessum bæjum sem lágu við dagleiðaskil vermanna og annarra í vetrarferðum, og var þó sízt talíð til annmarka, enda mun það aldrei hafa heyrzt að nokkurt það býli legðist í eyði fyrir gestanauð. Þvert á móti þótti til þess koma að vera þar húsráðandi, eða jafnvel aðeins hjú, og metnaðarsök að taka sem bezt á móti gestunum, hvenær sólarhringsins, sem þá bar að garði og hvernig sem þeir voru á sig komnir, og yfirleitt kom ekki til mála að taka eða þiggja greiðslu fyrir beinann, amstrið og næturvökurnar. Það var jafnvel ekki örgrannt um að vinnukonum og heimasætum þætti það nokkur upphefð að mega ganga úr rúmi fyrir næturgestum og eiga vökunótt yfir plöggum þeirra. Það síðarnefnda mátti líka að minnsta kosti kallast mikilvægt trúnaðarstarf, því að hæglega gat svo farið, að viðkomandi ætti limi sína og jafnvel líf undir því daginn eftir, að trúlega væri vakað yfir plöggum hans um nóttina og að þeim dyttað eftir þörfum, því að klæðnaður og allur útbúnaður manna í vetrarferðum var með afbrigöum óhentugur.
Þótt þjóðin hefði búið öldum saman í þessu landi, kunni hún ekki heldur að gera sér klæðnað eftir veðurfari og öðrum aðstæðum, þótt efni í hann væri fyrir hendi. Kunni ekki að súta skinn svo það yrði voðfellt og sæmilega vatnshelt, komst því aldrei upp á lag með að gera sér hlíðfarstakka úr sauðagærunum eða sómasamlegan skófatnað úr leðrinu. Vaðmálsflíkurnar voru að vísu skjólgóðar í þurrakulda, en söfnuðu í sig vætu og urðu þá þungar og stirðar; hlupu svo í klakastokk ef skyndilega frysti og geröi mönnum óhægt um gang og hreyfingu alla. Sama var að segja um fótabúnaðinn, skinnsokkana og skóna, sem var yfirleitt heilsuspillandi í öllum veðrum, en stórhættulegur í frosthörkum. Þá var höfuðbúnaður manna í slíkum feröum yfirleitt með þeim endemum, að þá kól á eyrum og í andliti, hvað lítið sem út af bar — prjónahetturnar, sem tíðkuðust norðanlands og vestan hlífðu þó eyrunum, og jafnvel andlitinu að mestu leyti. Kom því að litlu haldi þótt ullarnærfötin væru afbragðsflíkur, hlý og mjúk; og þelsokkarnir góð og hentug plögg í sjálfu sér, þar eð utanyfirfatnaðurinn var svo óhentugur og fótabúnaðurinn lélegur að öðru leyti.
Þótt nærtækast sé að skýra þetta með úrræðaleysi og vanafestu, hafa orsakirnar ef til vill legið dýpra. Allt fram á þennan dag hefur það verið rík hneigð með þjóðinni, „að láta sig hafa það“ — láta sig hafa óþægindin og annmarkana, jafnvel þótt jaðra við lítilmennsku að leitast við að ráða bót á þeim. Menn létu sig því hafa það að kala á andliti og fótum á leið milli bæja og verða úti á heiðum og fjallvegum fyrir óhentugan útbúnað. Og svo gerði forlagatrúin, sem alltaf hefur verið okkur í blóð borin, líka sitt til. Mönnum lagðist alltaf eitthvað til, ef ekki voru uppi dagarnir, og hvorki varð feigðum forðað né ófeigum í Hel komið. Hverju skipti því útbúnaðurinn — eða þótt menn kynnu hvorki að grafa sig í fönn né gera sér snjóskjól, sem oft heföi þó getað borgið limum þeirra og lífi í baráttunni við hríðarnar og frosthörkuna? Það eitt barg því, að ekki skyldu oftar verða slys og mannskaðar í þessum vetrarferðum en raun ber vitni, hve menn voru orðnir þrautþjálfaðir í þeirri hörðu íþrótt, aö láta sig hafa það — og hafa það af. Fyrir miskunnarlaust tillitsleysi við sjálfa sig fyrir þrotlaust strit myrkranna á milli við vosbúð og skort, öldum saman, fyrir hetjudýrkun í sögu, sögn og kveðskap hafði þjóðin öðlazt þá ódrepandi seiglu og þrákelkni, líkamlega og andlega, að nálgaðist hið ofurmannlega, og afrekin, þegar á reyndi urðu eftir því. Og þegar ósigurinn varð ekki umflúinn, buðu menn hamremi höfuðskepnanna á sjó og landi byrginn, af óskiljanlegri þrautseigju og kjarki unz yfir lauk. Fátt lýsir betur því hve almenningi fannst sjálfsagt að láta sig hafa það og hversdagslegt að hafa það af á hverju sem gekk, að þess var yfirleitt ekki að neinu getið, þegar menn komu lífs heim úr hrakningum og svaðilförum, og þrekraunir þeirra þá sjaldan skráðar, en ef þeir hinsvegar urðu undir í átökunum við náttúruöflin, þótti hálft í hvoru minnkunn að viðurkenna að þeir hefðu ekki haft það af — að hríðin, frostharkan, veðurofsinn og veglaus auðnin hefði orðið þeim ofurefli, og það eins þótt hinsta barátta þeirra og vörn, vanbúinna, hraktra og örþreyttra, væri ofurmannleg hetjudáð. Því var gripið til draumana og fyrirboðanna, í því skyni að sanna það, að ferðalokin hefðu verið fyrirfram ákveðin af því almáttka dularvaldi, sem enginn mátti við og engum var vansæmd að lúta í lægra haldi fyrir, forlögunum. Þetta býr atburðamynd flestra frásagna af válegum atburðum, slysum og mannsköðum á sjó og landi, svo sterka umgerð, að þær glata yfirleitt mjög svip sínum án hennar.

Ill nótt hjá Þingvallapresti
Mosganga-1Laugardaginn þriðja í góu, veturinn 1857, gat að líta hóp vermanna, er sátu á vestri barmi Almannagjár og fengu sér árbita af nesti sínu. Þeir voru fjórtán talsins, úr Biskupstungunum og Laugadalnum, og á öllum aldri, tveir yngstu aöeins seytján ára, Guðmundur frá Múla í Biskupstungum og Þorsteinn frá Kervatnsstöðum. Aðrir í hópnum voru þeir Kristján frá Arnarholti, Sveinn frá Stritlu, Einar frá Hrauntúni, Bjarni frá Böðmóðsstöðum, Gísli úr Austurey, Gísli nokkur Jónsson, Ísak og Diðrik úr Útey, Jón frá Ketilvöllum, Guðmundur og Egill frá Hjálmsstöðum — og loks Pétur Einarsson, þá vinnumaður í Múla í Biskupstungum, tæplega hálfþrítugur að aldri.
Þetta var þriðji dagur ferðalagsins fyrir þá Pétur og aöra úr Biskupstungunum, því að þeir höfðu lagt af stað á fimmtudag, sex saman, gist á bæjum í Laugadalnum um nóttina, þar sem hinir átta bættust í hópinn, og haldið af stað í býtið á  föstudagsmorguninn, hreppt slydduhríð svo myrka að þeir villtust nokkuð; þegar rofaði til, sáu þeir bæinn að Gjábakka í Þingvallasveit, komu þar við og þágu kaffi; voru þeir því fegnir, því að þeir voru mjög blautir orðnir og föt þeirra tekin að þyngjast af slyddunni, en snjónum kyngdi niður og tók víða meir en í miðja kálfa. Þegar þeir lögðu af stað frá Gjábakka, leit út fyrir að enn mundi skella yfir dimmt él; virtist þeim því óráð að halda út á vatnið, yfir að Heiðabæ og Skálabrekku, en gengu með landi. Lengdist þá leið þeirra að óþörfu, því að aldrei skall yfir élið; þó var það lakara að fyrir bragðið áttu flestir þeirra heldur illa nótt að prestsetrinu á Þingvöllum, kytrað fjórum og fjórum saman í rekkju í köldu kamersi, blautum og lúnum eftir slydduna og ófærðina um daginn og ekki höfð nein hugsun á að þurrka plögg þeirra, svo þeir urðu að fara í allt hráblautt og kalt að morgni. Höfðu þeir því verið því fegnir, er prestur bauð þeim að doka við eftir kaffi, en svo löng varð biðin að þeir sársáu eftir að hafa ekki hafnað boðinu, enda var þá hrollurinn úr þeim að mestu, þegar kaffið loksins kom. Þeir fáu úr hópnum, sem gistu að Skógarkoti, höfðu hinsvegar átt góða nótt og fengið plögg sín og vosklæði þurrkuð, og vafalítið mundu þeir allir hafa getað sagt þá sögu, ef þeir hefðu haldið yfir vatnið og gist að Heiðarbæ og Skálabrekku. Þótt Þingvallaklerkur væri vel að sér í grísku og hebresku, sýndi það sig oftar en í þetta skipti að hann kunni kotbændum síður að taka á móti gestum, veita þeim beina og skilja þarfir þeirra. Þó varð það enn afdrifaríkara fyrir þá félaga, að fyrir bragðið urðu þeir mun síðbúnari á heiðina; þangað var drjúgur spölur frá Skógarkoti og Þingvöllum og seingenginn í ófærð, en snjór tók nú víöast hvar á hné, og auk þess hafði biðin eftir kaffinu orðið til að tefja för þeirra — bæirnir Heiðabær og Skálabrekka lágu hinsvegar uppi í sjálfri heiðinni. Það var annars einkennilegt hve margt hafði orðið til að tefja för þeirra. Hún hafði verið ráðin nokkrum dögum fyrr, en dregizt sökum þess hve einn þeirra félaga úr Biskupstungunum, Kristján frá Arnarholti, var síðbúinn.

Illa dreymdi mig í nótt piltar
Mosganga-3Þeir snæða árbít sinn af beztu lyst; það er bezta veður, bjart og milt og gangan í ófærðinni hefur tekið hrollinn og ónotakenndina úr þeim, sem á Þingvöllum gistu. Þeir gera að gamni sínu og eru léttir í máli, en þó’er eins og einhver illur grunur eða beygur, sem virðist hjákátlegur í blíðunni og enginn vill því færa í mál, búi undir glensi þeirra. Og þegar nokkur þögn verður á, mælir Kristján frá Arnarholti upp úr eins manns hljóði og helzt við sálfan sig: „llla dreymdi mig í nótt, piltar.“
Þeim félögum hinum verður litið á hann; þeir hafa fleiri haft þunga drauma um nóttina, þótt þeir hafi ekki viljað á það minnast, og nú krefja þeir Kristján sagna eins og þeim sé í mun að fá það staðfest, að beygur þeirra sé ef til vill ekki með öllu út í bláinn þrátt fyrir veðurblíðuna.
„Það dreymdi mig,“ svarar Kristján seinlega og hnýtir að mal sínum, „að tveir griðungar gráir kæmu á móti okkur á heiðinni og stönguðu til bana sex af förunautum mínum, en blóðguðu þann sjöunda.“ Þetta verður til þess að menn hætta öllu glensi, og hafa fleiri orð á draum sínum á meðan þeir eru að ganga frá nestinu og halda aftur af stað. Veður er nú jafnvel enn mildara en fyrr, en ófærðin söm, og sækist þeim því heldur seint gangan, enda bera þeir flestir allþungar byrðar, og þótt ekki setji að þeim í blíðunni, sem urðu að fara í allt blautt um morguninn, gera flíkurnar þá þyngri og stirðari í spori.
Pétur Einarsson veður knálega mjöllina, og ekki virðist hann muna mikið um poka sinn, þótt hann sé sízt léttari en hinna, enda orðlagður fyrir fjör, krafta og harðfylgi. En þótt hann hafi líka það orð á sér, að vera kátur og skemmtilegur ferðafélagi, mælir hann nú fátt og er þungur á brún. Ekkert mark er að draumum, segir hið fornkveðna, en þó getur hann ekki varizt því, að draumsögn Kristjáns rifjar upp fyrir honum hans eigin drauma, þunga drauma, sem hann hefur haft í haust og vetur. Hann minnist næturinnar, sem hann átti í rekkju Geirs Zoéga, kaupmanns og útgerðarmanns í Reykjavík, en hjá honum reri hann á haustvertíð. Hafði farð vel á með þeim; Geir gamli var ekki allra, en trölltryggur þeim, sem hann batt vináttu við og kunni manna bezt að meta heilsteypta skapgerð, karlmennsku og áræði, og spillti þá ekki að viðkomandi gæti goldið orðknapp og hreinskilnisleg, og á stundum dálítið meinleg tilsvör hans í sömu mynt. Sýnir það nokuð álit hans á Pétri, að hann bað hann sofa í rekkju sinni, þegar hann var sjálfur í burtu um haustið, en svo var þessa umræddu nótt. Víst var um það, að sízt gat það verið hugur þess, sem rekkjuna átti, sem varnaði Pétri svefns lengi nætur og olli honum þeirri annarlegu vanlíðan, að hann var hvað eftir annað kominn á fremst hlunn með að fara á fætur, og hefði gert það ef honum hefði ekki þótt minnkun að. Og hvernig mátti skýra það, að hann heyrði braka og bresta í húsviðnum öðru hverju, en blæjalogn var úti? Það var ekki fyrr en undir morgun, að hann festi blund og þó ekki nema í svip. Þóttist hann þá ganga suður Kirkjugarðsstíginn og var frosin gatan, tína nokkra gullpeninga upp af leið sinni og heyrði hann sjálfan sig mæla í því hann vaknaði: „Þar hef ég þá fjórtán.“ Fjórtán — og nú voru þeir félagar fjórtán saman í för.
Seinna um veturinn haföi hann þótzt vera staddur úti á hlaði að Mosfelli í Mosfellssveit í draumi sínum, horfa austur á heiðina og sjá koma þar menn með sleða sex í drætti, en er hann spurði hvaða menn þeir færu þar með, var honum svarað því til, að það væru samferðamenn hans. Kannski stóð þessi draumur hans þó í einhverju sambandi við atburði, sem ættu eftir að gerast aö Mosfelli, en kæmu honum annars ekki við; það hafði frétzt, að kirkjuklukkur hringdu þar líkhringingu af sjálfu sér á gamlárskvöld og nýársmorgun, og töldu margir að það mundi boða andlát prestsins þar, séra Magnúsar Grímssonar… Pétri varð litið til Guðmundar, seytján ára piltsins, sem gekk næst honum; hann hafði verið lagsmaður Péturs í Múla um veturinn, og var kært með þeim. Eina nóttina hafði Pétur dreymt, aö hann sæi kirkjuklukku hanga yfir höfði Guðmundar, þar sem hann hvíldi hjá honum; var öxi í stað kólfs í klukkunni og sló eitt högg og hrökk Pétur þá upp, en ískyggilegur hafði honum þótt draumurinn og leið hann ekki úr minni. Ekki heldur sá draumur, sem hann dreymdi nokkru síðar, og sem hann gat ekki varizt að gerði honum nokkurn geig nú, er hann átti heiðina framundan. Hann hafði einmitt þótzt vera staddur suður á Mosfellsheiði, búinn til bardaga og allvel liðaður, en vopnlaus sjálfur og kunni því illa, einkum þegar hann sá lið sitt taka að falla. Gekk þá að honum maður mikill vexti og rétti honum eitthvað að vopni, sem honum leizt þó ekki sigurstranglegt og þóttist hann mæla, í því hann vaknaði: „Ég kann að geta bjargazt við það, en ekki líkar mér það.“ En hví var hann að rekja drauma þá í huga sér nú? Ekkert mark var að draumum, og gilti einu hvort það voru draumar hans sjálfs eða Kristjáns frá Arnarholti. Hafði ekki Egill á Hjálmstöðum, sem nú var í för með þeim, hætt við að reka fé sitt sjálfur suður yfir Mosfellsheiði þá um haustið, vegna þess aö hann dreymdi áður draum nokkurn, er hann réði þannig, að hann yrði úti á heiðinni, ef hann færi? Fengu rekstrarmenn þó bezta veður og varð ekkert sögulegt við för þeirra yfir heiðina. Pétur færði poka sinn yfir á hina öxlina meö snörpu handtaki, rétt eins og hann vildi um leið varpa af sér fargi þess geigs, sem ásókn draumanna hafði vakið með honum. Um leið varð honum litið til Egils bónda og í sömu andrá var, sem einhver mælti í eyra honum að ekki rættust allir draumar þann dag er maður hygði. Og það varð með geigþungann eins og pokann; hann gat dregið úr byrðinni í bili með því að skipta á öxl, því að betur var ódreymt en illa dreymt. Og hver og einn hlaut að taka því, sem að höndum bar, eins og hann var maður til. Bjóða örlögum sínum, ef ill væru, byrginn í lengstu lög og láta ekki bugast fyrr en yfir lyki. Og hvað gat svo sem valdið þeim, fjórtán fullfrískum karlmönnum, alvarlegum farartálma í slíku blíðskaparveöri. Þeim átti að endast dagsbirta yfir heiðina, enda þótt færðin væri þung og þeir hefðu orðið helzt til síðbúnir að heiman frá Þingvallaklerki um morguninn. Að vísu gat skjótt skipt veðri um þetta leyti…
Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina Pétur Einarsson kippti pokanum hærra á öxl sér og svipaðist um. Þeir voru komnir utarlega í Vilborgarkeldu, veður var enn milt sem fyrr og bjart yfir allt um kring, nema hvað lítinn skýhnoðra dró upp yfir Esjunni; í svo skjótri svipan að furðu gegndi og varð að myrkri kólgu. Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina og urðu nú snögg umskipti úr blíðu og birtu í norðansterkviðri með grimmdarfrosti og svo myrkri hríð, að ekki sá út úr augunum. Þeir félagar námu staðar til aö setja á sig stefnu og vindátt og ráða ráðum sínum. Vildu sumir snúa við og freista að ná á bæi í Þingvallasveitinni, en öðrum leizt ekki á það óráð — bæði vegna þess hve þar var vandhitt á bæi sökum strjábýlis, og voðalegt að villast út á vatnið, þar sem víða voru afætur við landið vegna kaldavermsla, eða út í hraunið, þar sem menn urðu að hafa fyllstu gætni í snjó þótt albjart væri veður, að þeir gengu ekki í þröngar gjár eða djúpar sprungur, sem hemað hafði yfir. Sýndist þeim því flestum meiri von, að þeir gætu náð að sæluhússkofa, sem þeir vissu á heiðinni, en færu þeir samt framhjá honum hallaði brátt undan fæti, ofan í Mosfellsdalinn og næðu þar á einhvern bæinn, enda mátti gera ráð fyrir að veðurofsinn væri þar öllu minni. Lögðu þeir því enn af stað, í þá stefnu er þeir hugðu á sæluhúskofanum, og gekk Egill frá Hjálmstöðum fyrir.
Færðin gerðist nú enn þyngri og tók snjórinn víða meir en hné. Frostharkan jókst og veðurhæðin að sama skapi og ekki sá spönn frá sér fyrir hríðarsortanum, sem umlykti þá á alla vegu. Nú hlupu klæði þeirra, sem báru þau blaut frá því í slyddunni daginn áður, óðara í einn klakastokk og heftu hverja hreyfingu sem fjötur væru. Eins og áður er á minnzt, var höfuðbúnaður manna í vetrarferöum með afbrigðum óhentugur; varð jafnvel ekki haminn í roki, eins og sýndi sig líka nú, því að veðrið reif höfuðfötin af sumum þeirra félaga, og að sjálfsögu ekkert viðlit að elta þau, og stóðu þeir berhöfðaðir eftir í frostinu og hríðinni. Þarf ekki að hafa mikla reynslu af vetrarferðum til þess að geta gert sér í hugarlund hvílíkt harðræði það hefur verið.
Ekki leið heldur á löngu, áður en margir þeirra félaga tóku að mæðast og lýjast, og bersýnilegt að þeir mundu gefast upp þá og þegar, en mundu þó endast eitthvað lengur ef þeir mættu losna við byrði sína. En — að fleygja frá sér mat og fatnaði, og vita hvort tveggja þá glatað fyrir fullt og allt, slíkt kom ekki til mála, og buðust því þeir, sem voru ekki eins lúnir orðnir, að taka á sig poka þeirra til viðbótar sinni eigin byrði, þótt það lægi í augum uppi að slíkt væri hin mesta fásinna eins og á stóð, þar sem það hlaut aðeins aö leiða til þess að alla þryti fyrr en ella. Svo hafði aldabarátta við skort og fátækt rist mark sitt á hugarfar manna, og gert þeim dýrmætt það matar- og fatakyns, sem þeir höfðu, að þeir gátu ekki fyrir nokkurn mun fengið sig til að sleppa því úr hendi, jafnvel ekki þótt líf þeirra lægi við, og það yrði aldrei að neinum notum.

Pétur í Múla og Einar í Hrauntúni taka forystuna
Sagt er að þeir, sem gefin er karlmennska og kjarkur umfram það, sem almennt gerist, hafi jafnan hægt um sig meðan allt gengur eins og í sögu, og sætti sig þá við forystu annarra og forræði, en fari sínu fram þegar á reynir og taki þá forystuna, beinlínis eða óbeinlínis eftir atvikum. Þannig virðist það hafa verið með Pétur Einarsson í þetta skiptið; hans er fyrst getið að afskiptum, þegar sumir félaga hans eru að þrotum komnir, en aðrir vilja létta þeim, og þyngja sér gönguna, með því að taka á sig poka þeirra. Svarar Pétur því þá til, og heldur ómjúklega, að það skuli hann aldrei gera, enda megi einu gilda þótt pokarnir liggi eftir. Og nú er eins og hann, og sá maður annar, sem hraustastur var í hópnum og kjarkmestur, veljist ósjálfrátt til forystunnar, en það var Einar frá Hrauntúni, jafnaldri Péturs. Þeir verða á einu máli um það, að Egill bóndi frá Hjálmstöðum muni ekki hafa haldið réttri stefnu, en sótt um of í veðrið og því farið of norðarlega, en það marka þeir af því, að enn hafa þeir ekki orðið varir við klif nokkurt, sem annars átti að verða á vegi þeirra, og hlutu þeir að vera komnir famhjá því, þar eð nú var farið að halla undan fæti. Taka þeir því forystuna, en breyta stefnunni og halda undan veðrinu í þá átt, sem þeir telja að sé á Mosfellsdalinn. Ganga þeir svo um hríð: Þótt nú sé undan veðrinu að fara, er þess skammt að bíða að fimm af þeim félögum gerist svo kröftum þrotnir, að ekki reynist viðlit að koma þeim lengra, og er nú rætt um hvað til bragðs skuli taka. Vilja sumir halda áfram ferðinni og freista að ná til byggða, en láta hvern liggja þar, sem hann þraut og bjarga þannig sínu eigin lífi, enda sé hver sjálfum sér næstur. Enn verður Pétur Einarsson að taka af skarið og sveigja þá hina til hlýðni við vilja sinn sem honum voru minni að skaphöfn og þreki — kveðst hann aldrei láta það henda sig, að yfirgefa félaga sína í nauðum, heldur skuli eitt yfir hann og þá ganga, og sáu þá allir að annað mundi engum þeirra sæmandi og urðu kyrrir hjá þeim hinum, sem þrotnir voru.
Hríðin hafði skollið yfir skömmu fyrir hádegið, og nú, er þeir tóku þann kostinn að láta fyrirberast á hjarninu og eitt yfir alla ganga, lifði enn löng stund af degi og sást þá bezt hve afdrifarík þeim hafði orðið biðin eftir kaffinu á Þingvöllum; ef ekki hefði verið fyrir hana, mundu þeir hafa átt skamman spöl ófarinn að sæluhússkofanum, er hríðin skall á þá, en hefðu þeir samt farið framhjá honum, mundu þeir nú vera komnir langleiðina niður í Mosfellsdalinn og ekki hafa tekið þennan örþrifakost, er þeir vissu sig í grennd við bæi, enda líklegt að veður væri vægara niðri í dalnum. Og hefðu þeir ekki óttazt daginn áður él það, sem aldrei varð neitt úr, haldið yfir vatnið og fengið næturgistingu á bæjunum uppi í heiðinni, mundu þeir hafa átt skammt til bæjanna niðri í dalnum, þegar hríðin skall á. Þannig virtist öllum atvikum að því stefnt, sem nú var orðið, eða öllu heldur því, sem beið þeirra og draumar höfðu boðað þeim sumum og getur hver skýrt það að vild, en gera má ráð fyrir að þunglega hafi nóttin lagzt í Pétur Einarsson, er hann minntist nú enn sinna drauma, og gripið hafi hann sá grunur, að ekki mundu þeir rætast nema á einn veg. En slík var karlmennska hans og þrek, að hann lét það ekki á sig fá og tók æðrulaust, því sem að höndum bar; má og vera að það hafi aukið honum kjark fremur en hitt, að enginn drauma hans virtist boða feigð hans sjálfs, en sárt mun hann hafa tekið til félaga sinna, er hann þóttist vita suma þeirra feiga, þótt ekki gæti hann verið viss um á hverjum þeirra draumar hans myndu rætast þannig, nema þá helzt Guðmundi, rekkjunauti sínum og vini. Eflaust hefur það verið þetta sem olli, að hann gerðist heldur önugur í orði og svarkaldur, því að alltítt er það um skapmikla og tilfinninganæma, en æðrulausa menn, að þeir leyni þannig viðkvæmni sinni.

Sá fyrsti hnígur á hjarnið
mosganga-4Brátt tók mjög að þynnast fylking þeirra, er uppi stóðu. Þeir, sem harðast voru komnir sökum þreytu og kulda, höfðu samstundis fleygt sér niður, en sumir þó reynt að gera sér gróf í hjarnið meö stöfum sínum, svo fyrr skefldi yfir þá. Þegar komið var fast að dagsetri, rak Þorsteinn ungi frá Kervatnsstöðum upp hljóð þrisvar sinnum og hneig síðan niður á hjarnið. Lét Kristján frá Arnarholti, er þá stóð enn uppi, svo um mælt, að hörmulegt væri að heyra, en Pétur svaraði því til, að sæmst væri honum að þegja, fyrst hann fengi ekki að gert. Má af því kaldranasvari ráða, að sárt hafi þau hljóð látið í eyrum hans, og þungt hafi honum fallið það að fá sjálfur ekki neitt að gert.
Hvorki lægði veðurhæðina né dró úr frosthörkunni, færðist heldur í aukana ef nokkuð var. Loks stóðu þeir einir uppi, jafnaldrarnir, Pétur og Einar. Hétu þeir þá hvor öðrum því, að uppi skyldu þeir báðir standa meðan þeim entist þrek og ræna…
Fullyrða má að fáir hafi nokkru sinni átt svo erfiða og vonlitla varðstöðu eða svo ógnþrungna vökunótt, sem þeir. Að fáir hafi nokkru sinni háð jafn harða hólmgöngu, ekki einungis við umhverfið, aðstæðurnar og rás atburðanna, heldur og sjálfa sig — og haft sigur.
Ekkert okkar er þess umkomið, að setja sig fyllilega í annarra spor, jafnvel ekki þótt troðin séu á tiltölulega tálmalausri alfaraleið, svo einstaklingsbundin eru viðbrögð manna og tilfinningar, þótt ekki sé nema um alvanalegustu hluti að ræða, sem þeir vita engum örlögum valda; við höfum meira að segja ekki hugmynd um hvernig við munum sjálf bregðast við þeim hlutum, eða gerum okkur alranga hugmynd um það, þangað til á reynir. Þeim mun ógerlegra er okkur því að setja okkur í annarra spor, sem þau liggja fjær ruddri alfaraleið, um vegleysur og torfærur, erfiði og örðugleika eða einstigi þjáninga og þrenginga, þar sem hvert fótmál getur ráðið óafturkallanlegum úrslitum, og þó jafnvel enn ógerlegra að spá nokkru um það, hvernig við mundum sjálf bera okkur á þeirri göngu.

Hólmganga við Feigð og Hel
Það reyndist þeim mest mein hve á þá sótti svefn, enda lúnir af erfiðri göngu og illa fyrirkallaðir eftir hvíldarlitla nótt. Urðu þeir þó að hafa sig alla við, að veðrið hrekti þá ekki hvorn frá öðrum eða skellti þeim flötum, og máttu því aldrei slaka á vökuvitund sinni, hvernig sem óvættur feigðarinnar gól þeim svefngaldur sinn í náttmyrkrinu við sefandi gnauð hríðarinnar og einhljóma síbyljustef norðanroksins. Það gerði og enn máttkari þann grimma galdur, að þeir gátu ekki vitað nema félagar þeirra lægju flestir dauðir eða í andarslitrunum undir því kalda brekáni, sem hríðin og stormurinn höfðu að þeim ofið, og væru það návein þeirra, annarleg og ámátleg, sem öðru hverju heyrðust úr skaflinum. Enn voru þeir Pétur og Einar sjálfir ókalnir, en klæði þeirra öll ein klakabrynja og klakahúð lagðist á andlit þeim, og urðu þeir að brjóta hana frá vitum sér og augum með gödduðum vettlingunum.
Eflaust hefur „heilbrigð skynsemi“ hvíslað í eyra þeim: spurt þá hvort þeir sæu ekki hversu heimskulegt það væri að þrauka þarna yfir félögum sínum dauðum eða sama og dauðum, og væri því öll þeirra barátta til einskis háð; spurt þá hvers vegna þeir gæfust því ekki upp, eða freistuðu að bjarga sjálfum sér á flótta, þar sem ekki væri örvænt um að þeir næðu til byggða, svo fremi, sem þeir drægju það ekki stundinni lengur; að þetta heit þeirra væri fásinna ein…
Þá var skammt til morguns, þegar þeim Pétri og Einari barst fyrsta raunverulega lífsmarkið frá félögum sínum í skaflinum. Einhver kallaði og bað fyrir guðs skuld að rofinn yrði snjórinn ofan af sér, því sér lægi við köfnun…
Stóðu 12 uppi þegar gránaði af degi Við þetta kall var sem álagafjötur brysti af þeim, tvímenningum. Þeir fengu ekki einungis tækifæri til athafna, heldur voru þeir nú ekki einir lengur. Og þó var ef til vill mest um það vert, að þessi vökurödd færði þeim sanninn um það, að ekki hefðu þeir til einskis þraukað af þessa ógnþrungnu nótt.
Pétur þreifaði í skaflinn; þar lá Þorsteinn ungi örendur og hafði hnigið ofan á höfuð þeim Bjarna og Ísaki, sem báðir voru á lífi. Hafði Pétur nú snör handtök og kippti ofan af þeim líkinu, en Einar kom honum til aðstoðar og reyndi að losa þá Bjarna og Ísak úr hjarngrófinni; hafði líkamshitinn þýtt frá þeim snjóinn fyrst í stað, en föt þeirra síðan frosið föst niður og máttu þeir sig nú hvergi hræra og eins var um þá aðra, sem nú vöknuðu til ráðs og rænu og beiddust hjálpar er þeir heyrðu að enn stóðu einhverjir uppi. Tókst þeim Einari og Pétri að losa þá hvern af öðrum, sem var þó erfiði mikið, þar eð eingöngu varð að beita til þess höndunum, en þeir hinir veittu þeim þó lið jafnótt og þeir höfðu sjálfir verið losaðir og studdir á fætur; þó kól þá nú báða, Einar og Pétur, mjög á höndum og fótum við þetta björgunarstarf. Þorsteinn frá Kervatnsstöðum var látinn, eins og fyrr segir, og annan félaga sinna, Jón frá Ketilvöllum, fundu þeir látinn í hjarngróf sinni.
Þegar gránaði af degi gegnum hríðarsortann, stóðu upp þeir tólf, sem enn voru á lífi; þótt hvorki hefði veðrinu slotað né dregið úr hríðinni eða frosthörkunni, var hin langa hörmunganótt þeirra þó liðin og dagurinn framundan jók lífsvon og þrótt, jafnvel þeim, sem hún hafði harðast leikið.
En það var eins og sú óvættur feigðarinnar, sem fyrst hafði gengið í slóð þeirra eins og hljóður skuggi allt frá því er för þeirra að heiman hófst, og síðan til návígis við þá hvern og eínn eftir að hríðin skall á, tæki það sem ögrandi storkun við sig, er þessar ásókn hennar. Voru meira að segja svo blindaðir af oftrú sinni á sigurmátt lífsins að ekki þurfti annars við en þær sæju bjarma af nýjum degi, til þess að þær tækju aftur uþpgjöf sína fyrir ofurefli hennar í myrkrum næturinnar. Og nú var sem hún afréði það í bræði sinni að láta til skarar skríða og brjóta þennan heimskulega mótþróa þeirra á bak aftur í eitt skipti fyrir öll. Á einu vetfangi var sem stormurinn trylltist, frostið tæki á allri sinni grimmd og hríðin færðist í aukana að sama skapi. Hin volduga vættur feigðarinnar krafði lífið og daginn um herfang það, er hún hafði helmerkt sér, sviþti þeim, sem minnimáttar voru og kröftum þrotnir, hvað eftir annað niður á hjarnið, jafnótt og hinum, sem meira máttu sín enn í átökunum við hana, tókst að reisa þá upp aftur; þreif þá jafnvel úr höndum þeirra og linnti ekki þessari æðisgengnu sókn sinni fyrr en þrír lágu enn dauðir í val, þeir Ísak, Diðrik og Egill — fimm alls.
Í þessari hólmgöngulotu gengu allir hart fram er máttu og sáust ekki fyrir — að einum þó undanskildum — og mundi fáa hafa grunað, sízt sjálfa þá, að þeir ættu enn þá hörku og þrek í sér, eftir það sem á undan var gengið. Það var eins og þeir fyndu það á sér, aö þetta væru úrslitaátökin og þeim, sem stæðust þau, væri undankomu von. Enginn gekk þó harðara fram en Pétur, enda mun hann gerst hafa skilið um hvað var barizt, hvort sem hann gerði sér grein fyrir því eða ekki hvaðan honum kom sá skilningur á meðan átökin stóðu yfir. En þegar hann sá þá þrjá falla til viðbótar hinum tveim, og þeirra á meðal Egil bónda á Hjálmstöðum, mun hann varla hafa verið í vafa um það, og ekki heldur um hitt, að enn mundu þeir félagar og óvættur feigðarinnar ekki skilin að skiptum að fullu. Bað um að klakagríman fyrir andlitinu yrði rofin með broddstaf Það var ekki fyrr en hinni æðisgengnu hólmgöngulotu lauk, að Pétur mundi til sjálfs sín. Var þá klakagríman fyrir andliti hans svo þykk orðin og samfelld, að allt var ein ísskán, höfuðfat, hár skegg og trefill, hvergi op fyrir augun né vitum, nema gat lítið við annað munnvikið, og fékk hann hvorki brotið þá skán eða rofið, þótt hann beitti gegn henni gödduðum vettlingunum. Lagðist hann þá aftur á bak á hjarnið og bað Kristján frá Arnarholti að beita nú broddstaf sínum, en hann mun að líkum hafa verið tregur til, því að bæði voru honum kaldar hendur og stirðar og engu mátti skeika.
Það gerði Pétur sér að sjálfsögðu líka ljóst; engu að síður lá hann grafkyrr á meðan Kristján beitti broddinum þar að skáninni, sem hann hugði minnst meiðsli að verða þótt örlítið geigaði, en fór sér þó hægt. Þegar honum hafði loks tekizt að rjúfa grímuna yfir enninu, þótti Pétri meir en nóg um varúð hans og seinlæti; greip báðum höndum að brotskörunum, fletti skáninni af andliti sér með einu hörðu taki og skeytti þá engu þótt skegg fylgdi og hár og spratt á fætur. Þótt Kristján hafi eflaust verið því fegnastur að þurfa ekki að beita hvössum stafbroddinum frekar að andliti hans, eins og allar aðstæður voru, er ekki ólíklegt að honum hafi allt að því blöskrað harka Péturs í þetta skiptið. Vera má að honum hafi þá orðið litið til Sveins í Stritlu, þess eina í hópnum, sem sparað hafði sjálfan sig; staðið hjá og ekki hafzt að, er félagar hans voru sem harðast sóttir og vissi hann Svein þó hraustmenni. Slík framkoma á neyðarstund er vöskum mönnum og ósérhlífnum jafnan öllu fremur óskiljanleg en fyrirlitleg, vekur með þeim óhugnanlega undrun fyrst og fremst, því þeir geta ekki trúað ódrengskap á neinn og sízt þá, er þeim eru áður kunnir að öllu sæmilegu, og því verður þeim slíkt enn lengur í minni. Heigulsskap og manndómsleysi geta þeir reiðzt þegar svipað stendur á, og fyrirgefið um leið og raunin er yfirstaðin, en hinu geta þeir hvorki gleymt né fyrirgefið.

Sá sjötti fellur í valinn
Þeim kom nú saman um að leita til byggða, skildu eftir byrðar sínar og broddstafi og héldu af stað. Ofsa þann, sem hljóp í veðrið í morgunsárið, hafði nú nokkuð lægt aftur; hríðin var söm og um nóttina og veðurhæðin svipuð, en frost öllu harðara. Þótt undan veðri væri að sækja, var það mikil þrekraun að spyrna stöðugt við, svo sterkviðrið hrifi þá ekki með sér, hrekti þá eftir hjarninu og skellti þeim flötum, en þá hefði verið óvíst um það, hvort þeim entist vilji og kraftur til að standa upp aftur, einkum þeim, sem þrekaðastir voru. Auk þess reið þeim lífið á að halda hópinn og veita hver öðrum eftir megni.
Ekki höfðu þeir langan spöl gengið, er Guðmundur frá Múla, seytján ára unglingurinn, sem þegar hafði sýnt að hann væri ósvikið mannsefni, þótt hann væri enn óharðnaður, kallaði til Péturs og bað hann leiða sig, því nú þryti sig mátt. Var Pétur fús til þess, enda ekki ósennilegt að hann hefði haft grun um, að nú yrði hann að berjast um líf þessa rekkjunautar síns og vinar, á svipaðan hátt og hann hafði áður barizt um líf þeirra fimm, er fallnir voru — og mundi eins fara. Þótt óvættur feigðarinnar hefði nú aftur hægra um sig, var hún enn á slóð þeirra og beið færis að heimta herfang sitt að fullu. Sex höfðu þeir verið, sem griðungurinn grái lagði að velli í draumi Kristjáns frá Arnarholti; sex höfðu þeir verið sleðarnir, sem hann hafði sjálfur séð í draumi dregna ofan af heiðinni, og verið svarað því til, að á þeim lægju ferðafélagar hans. Hann fann að Guðmund þraut stöðugt mátt; lagðist að síðustu svo þungt á arm honum, að hann varð að kalla í Einar og biðja hann að ljá sér lið til að halda honum uppi. Þess mundi vart langt að bíða úr þessu, að axarkólfurinn slægi sitt dumba, dimma slag.
En fleiri gerðust nú þreki þrotnir en Guðmundur, og það þótt eldri væru og harðnaðri.
Gísli Jónsson var og að lotum kominn. Náði hann taki á þeim Einari og Pétri, og urðu þeir nú að draga hann, en höfðu Guðmund á milli sín og gengu báðir undir honum. Sóttist þeim seint ferðin, sem ekki var að undra og misstu þrátt sjónir á þeim út í hríðina, sem á undan fóru. Barg þeim það eitt, að nú var snjórinn heldur harðari orðinn og því bezta færi, en fljótt mundu þeir, Einar og Pétur, hafa gerzt uppgefnir þótt hraustir væru, hefðu þeir orðið að kafa fannirnar eins og áður, með þær byrðar, sem nú voru á þá lagðar.
Þannig gengu þeir langa hríð; báru Guðmund á milli sín frekar en leiddu. Áfram héldu þeir, og óvættur feigðarinnar gekk í slóð þeirra eins og hljóður skuggi og beið færis. Það sagði Pétur síðar, að þá fannst honum sem hann vildi helzt deyja, þegar hann hafði náð til bæja að segja tíðindin og má nokkuð af því ráða hve hart var nú að honum gengið, en einnig hver hann var — að honum kom aldrei til hugar að semja frið við óvættina miklu og máttku, fyrr en honum hefði tekizt að standa við heitstrengingu sína, þá er hann vann vætti lífsins; Guðmundur var nú orðinn örmagna og rænulaus, en þó var sem honum þætti allt öruggt, á meðan hann mátti njóta þreks og lífsmáttar rekkjunautar síns og vinar. Þess eru mörg og óvefengjanleg dæmi, þótt við fáum ekki skilið það til hlítar, að svo hefur maður veitt vini sínum í baráttunni við dauðann að ekki verður skilgreint á annan hátt en að um beina lífsorkumiðlun hafi verið að ræða, annað hvort fyrir bæn eða aðra þá einbeitingu, sem jaðraði við hið ofurmannlega. Hver veit nema slíkt hafi átt sér þarna stað. Vafalaust vissi Pétur vin sinn feigan, svo næm sem ósjálfráð vitund hans var, eins og draumar hans sanna, á það, sem dylst handan við takmörk hversdagslegrar skynjunar. Og víst er um það, að einbeittari og viljasterkari mann getur varla en Pétur hefur verið, og ekki hvað sízt er því var að skiþta, að duga nauðstöddum. Hörð var sú líkamlega raun, sem hann lagði á sig, er hann barðist við hina hljóðu óvætt feigðarinnar um líf félaga síns og vinar, en kannski hefur þó sú andlega raun verið enn harðari. Til þess benda að minnsta kosti andlátsorð Guðmundar, að hann hafi fundið hvar lágu tengsl, sem bundið höfðu hann lífinu síðustu stundirnar, og því hafi gripið hann ótti, er hann fann að þau dugðu ekki lengur til. „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?“
„Nei, aldrei,“ svaraði Pétur.
Þá tók Guðmundur fyrsta andvarpið, og svo voru harðar dauðateygjur hans, að hann hratt þeim báðum frá sér, Einari og Pétri. Axarkólfurinn hafði slegið sitt dumba, dimma slag…
Og óvættur feigðarinnar hafði heimt herfang sitt að fullu — nú voru þeir fallnir allir sex. Um leið slotaði hríðinni jafnskyndilega og hún hafði skollið á, storminn lægði og birti yfir.

Vökuvitundin úr öllum tengslum
Enn gengu þeir Pétur og Einar og leið enn alllangur tími unz þeir voru komnir heim til bæja, en svo var þá af þeim dregið, að ekki gátu þeir hjálparlaust komizt upp lág baðstofuþrepin. Og ekki rak Pétur minni til þess síðar, að hann hafi svarað öllu, er hann var spurður og voru svör hans þó skýr og skilmerkileg. Kaffi var honum boðið. „Því ætli ég vilji ekki kaffi,“ svaraði hann, tók við bollanum, drakk það standandi og eins stóð hann á meðan Jóhannes bóndi dró af honum klæðin; mundi þó ekkert til þess eða annars, sem gerðist fyrst eftir að hann kom inn í baðstofuna. Svo örmagna var vökuvitund hans orðin, að hún féll gérsamlega úr öllum tengslum í svip, um leið og henni var það ekki lengur bráð nauðsyn að skynja umhverfi og aðstæður og móta ákvarðanir og viðbrögð samkvæmt því. Slíkt ástand getur skapazt eingöngu fyrir ofbeitingu viljans, hvort sem hún er ráðin eða fyrir utankomandi þvingun, t.d. frá dávaldi, eöa þá fyrir langvarandi ofraun sem öryggisráðstöfun gegn bilun, sem haft gæti hinar alvarlegustu, langvarandi afleiðingar. Það er vitað, að menn, sem annaðhvort eru gæddir óvenjulegum viljastyrk eða hafa þjálfað vilja sinn að meira eða minna leyti af ráðnum hug, eða þá ósjálfrátt fyrir knýjandi aðstæður, en hvað sem veldur því, leysir það alltaf úr læðingi dulda orku, sem gerir viðkomandi kleift að afreka það, sem honum væri með öllu ógerlegt annars og oft og tíðum hlýtur að teljast ofurmannlegt, eða að þola þá raun, sem hann fengi ekki annars afborið og vera þó heill eftir. Oftast er sá hæfileiki, auk þess sem hann byggist á óvenjulegum viljastyrk, samfara einhverjum þeim hæfileikum öðrum, sem kallast meira eða minna dulrænir, meðal annars þeim að vita fyrir óorðna atburði fyrir hugboð eða drauma. En eins og sjá má af undanfarinni frásögn var Pétur ekki aðeins viljasterkur maður með afbrigðum, heldur og draumspakur, og er þar með ef til vill ekki einungis fengin skýring á því ástandi, sem hann komst í þarna inni í baðstofunni að Bringum, heldur og á allt að því ofurmannlegu þreki hans og harðfylgi.

„Bágara eiga þeir sem á eftir eru“
Þeir fimm, sem á undan fóru, náðu miðmorguns að bæ, sem heitir að Bringum, aðframkomnir og svo rænulitlir, að þeir minntust ekki á félaga sína fyrr en einhver heimamanna hafði orð á því hve hart þeir væru leiknir; þá áttaði einn þeirra sig það, að hann mælti: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem á eftir eru.“ Þegar Jóhannes bóndi heyrði það, þóttist hann vita að þeir hefðu fleiri verið og bjóst tafarlaust til að leita þeirra. Enda slotaði hríðinni í þeim svifum. Fann hann þá Pétur, Einar og Gísla skömmu síðar, eins og áður er getið. Heimilið í Bringum var fátækt af veraldargæðum, húsakynni þröng og léleg — svo sagði mér Jón heitinn bóndi að Laxnesi í Kjós, sonur Jóhannesar bónda að Bringum, að í baðstofunni hefði verið þiljað eitt eða tvö stafgólf með palli, að hann minnti, en moldargólf og ber veggjahleðslan að öðru leyti. Engu að síður var hinum hröktu og nauðstöddu mönnum tekið þar af frábærri alúð og veitt öll sú hjúkrun, sem kostur var á, enda munu þau hjón bæði hafa verið mikil að mannkostum; gekk það og í arf til barna þeirra, ekki hvað sízt raungæði og gestrisni, til dæmis var heimilið að Laxnesi annálað fyrir hvortveggja.
Ekki var þó unnt að veita öllum hinum hröktu mönnum nauðsynlega hjúkrun og – aðhlynningu til langframa í slíkum húsakynnum og voru þeir því fluttir á hestum  á næstu bæi. Þess er getið, að þá var Sveinn í Stritlu ekki lúnari en það, að hann gekk á skíðum alllanga bæjarleið, og mun þá sumum félögum hafa fundizt, að helzt til lengi hefði hann sparað krafta sína, er hann stóð hjá og veitti þeim ekki lið í feigðarsvipnum mikla uppi á heiðinni.
Daginn eftir leituðu byggðamenn líkanna, kváðu þeir þau hafa legið við lækjarsprænu nokkra, en líkið af Jóni á Ketilsvöllum í vatni úr læknum. Voru líkin dregin á sleðum ofan heiðina að Mosfelli, og rættist þar enn einn draumur Péturs. Og enn dreymdi hann draum, sem sannarlega kom fram.
Líkkisturnar voru smíðaðar í Reykjavík og fluttar upp að Mosfelli, og vildi Pétur leggja til líkklæðin utan um vin sinn og rekkjunaut, Guðmund, og gerði nauðsynlegar ráðstafanir til þess. Þá var það nokkru síðar að hann dreymdi að Guðmundur kæmi til sín, og þóttist hann spyrja hvernig honum liði. Lét hann lítt af því og kvartaði um kulda. Komst þá Pétur að raun um það nokkru síðar, að fyrir vangá höfðu líkklæðin orðið eftir í Reykjavík þegar kisturnar voru fluttar upp eftir.
Allir munu þeir, sem komust lífs af úr þessari þrekraun, hafa borið hennar nokkur merki æ síðan, að Sveini undanskildum, en þó kann hann að hafa komizt að raun um, að seinna grær heilt um sumt en kalsárin.
Betur sluppu þó þeir, sem hvíldu í fönninni um nóttina, en þeir jafnaldrarnir, Einar og Pétur, — en þeim tveim áttu allir þeir, er af komust, tvímælalaust líf sitt að launa, því án þeirra aðstoðar hefði þeim verið ógerlegt að losa sig úr skaflinum, enda spurning að þeir hefðu vaknað af sjálfsdáðum, og er einsýnt hvernig þá hefði farið.

Sár Péturs gréru seint
Að Sveini undanskildum munu þeir félagar allir hafa legið lengur eða skemur. Einar lá lengi og löngum með óráði, þungt haldinn, enda mikið kalinn, en náði sér þó að lokum og greri heill sára sinna.
Um leið og fréttin af hrakningum þeirra félaga barst til Reykjavíkur, brá Geir kaupmaður Zoéga skjótt við, sótti Pétur upp eftir, tók hann heim til sín og lét veita honum alla þá hjúkrun og læknishjálp sem unnt var. Sýnir það enn, hversu mikils Geir mat Pétur. Lá Pétur þá í sama herbergi og sömu rekkju og hann hafði hvílt í haustið áður, þegar annarleg ásókn varnaði honum svefns lengi nætur, og hann dreymdi undir morguninn fyrsta draum sinn fyrir hrakningunum á heiðinni. Lá Pétur lengi, enda var hann þeirra félaga langmest kalinn, einkum á fótum. Greru sár hans seint og örkuml hafði hann alla ævi.
Því var viðbrugðið, að aldrei heyrðist Pétur kveinka sér, hversu þungt sem hann var haldinn, og aldrei missti hann ráð eða rænu. Komst hann loks á fætur, en ekki greru öll sár háns að fullu það sumar, og var hann til lækninga hjá Skúla lækni Thorarensen að Móeiðarhvoli lengi hinn næsta vetur. Var Skúla lækni minnisstæð harka hans og taldi með eindæmum. Sagði hann þá sögu til marks um það, að eitt sinn vildi hann reyna hve lengi hann þoldi. Sat Pétur þá í sæti niðri í herbergi hans, en Skúli tálgaði og skóf bein í fæti hans, vitanlega ódeyft með öllu. Pétur hafði orð á því, að öruggara mundi að hann léti menn halda sér, og væri ekki víst hve lengi hann fengi varizt því að hreyfa fótinn. Sinnti Skúli læknir því engu, eða lézt ekki heyra það, en hélt áfram að tálga og skafa beinið. Svo fór að lokum að Pétur kipptist við; Varð Skúla þá það eitt að orði: „Á, svei því,“ en Pétur gekk upp stigann og settist við vinnu sína uppi á loftinu. Þótti Skúla lækni með  ólíkindum hve lengi hann mátti tálga og skafa beinið, áður en hann fékk Pétur til að kveinka sér.
Sumum kann að þykja sem hlutur Péturs sé miklaður um of umfram Einars, jafnaldra hans, sem sýndi þó að hann var honum jafnoki að þreki, karlmennsku og drengskap.
Satt er það að vísu, að ekki kemur hann eins við frásögn þessa og Pétur, og er þar fyrst og fremst skorti á heimildum um að kenna. Einar hefur verið hið mesta karlmenni, þrekmenni, skapfastur og æðrulaus. En jafnan fer svo þegar í raun rekur, að einn tekur forystuna og þá yfirleitt sá, sem til hennar er hæfastur, því að hina bilar. Og hæfileikar til forystu á  hættustund eða í þrekraunum, eru ekki öllum gefnir, jafnvel þótt þeir hefðu annars til þess þrek og karlmennsku, og séu færir um að vinna frábær afrek undir forystu annarra. Það er þarna, sem skilur á milli þeirra, Einars og Péturs. Hann hefði getað spurt að lokinni raun eins og garpurinn í brennunni að Bergþórshvoli: „Hvar fórstu, sem ég fór ekki eftir?“ Hann fylgdi Pétri eftir að öllu, — en hann fór aldrei fyrir. Engu að síður hefði það verið mikils virði að hafa ljósari heimildir um Einar — hann hefur eflaust verið einn af þessum hlédrægu, yfirlætislausu og hljóða mönnum, sem hvergi vekja á sér athygli, fyrr en verulega reynir á, duga þá manna bezt, en aldrei verða nein hámæli um. Og þó þeir vinni þau yfirleitt ekki án forystu, er víst um það, að jafnvel mikilhæfustu og dugmestu  forystumenn njóta sín því aðeins til fulls að þeir hafi þá að bakhjarli. Einmitt þetta gerir hlut Einars mikinn í sambandi við  atburði þá sem nú hefur verið lýst, og þá mynd af honum, sem þar er brugðið upp,  athyglisverða og minnisstæða, þótt hún sé  dregin fáum dráttum — eða kannski helzt fyrir það.
Því er við að bæta, að Pétur ílentist ekki hér lengi eftir þetta; hann var einn þeirra fjölmörgu Sunnlendinga, sem hugðust segja skilið við harðindin og fluttu til Kanada. Þar gerðist Pétur landnámsmaður og hefur ugglaust haft þörf fyrir sitt mikla þrek þótt minni sögum fari af því.
Heimildir: Ritgerð séra Magnúsar Helgasonar í „Huld“, II. hefti o.fl.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1981, bls. 6-9.
-Lesbók Morgunblaðsins 9. janúar 1982, bls. 6-7.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – loftmynd.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Seltjanarnes

Valhúsahæð – hernaðarmannvirki.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – letursteinn.

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Heimild:
Umhverfisstofnun | Valhúsahæð, Seltjarnarnesi (ust.is)

Seltjarnarnes

Valhúsahæð – friðlýsingarmörk.

Valgarðsborg

Öxl skilur af Strandardal og Hlíðardal vestan Svörtubjarga. Úr bergöxlinni sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem var ómetanleg fyrir heyskapafólk í dölunum. Efst í Hlíðardal var bær Indriða lögréttumanns Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður. Ætlunin er að finna Sælubunu og tóftir af bæ Indriða.

Strandardalur

Varða við Katlabrekkur.

Auk þess var ætlunin að skoða Vogsósasel, Hlíðarborg, Hlíðarsel, Valgarðsborg, Hlíðarveg, Selvogsgötuna gömlu (Suðurferðaveg), Dísurétt, Borgarskarðsborg og tóftir vestan hennar, auk Ána.
Lagt var af stað frá réttinni austan Hlíðarvatns. Gengið var upp að Vogsósaseli, tóftir þess skoðaðar og síðan haldið upp slóða áleiðis að Hlíðarborg. Eftir að hafa skoðað borgina, sem er í heiðinni vestan undir háum hraunhól, fallega hlaðin, var haldið spölkorn til suðurs, yfir girðinguna, og litið á tóftir meints Hlíðarsels. Ekki er vitað til þess að selið hafi verið skráð. Reyndar gildir það einnig um Hlíðarborgina, sem er þarna skammt norðar.
Selstígurinn vestan tóftanna sést enn vel. Seltóftirnar eru vestan undir grónum hól, en sunnan hans er Valgarðsborg. Tækifærið var notað og selið rissað upp.
Stefnan var tekin inn á Hlíðargötu er liggur frá Hlíð, upp með Hlíðarfjalli og inn með Kötlubrekkum. Nefjavarða er þar á Rofunum. Gísli Sigurðsson segir í lýsingu sinni um þetta svæði að “ekkert örnefni sé á Hlíðarfjalli uppi, þar til kemur að Hlíðarfjallsenda, þar sem það hverfur undir Katlahraunið, sem er uppi á brún, fyrir ofan Katlabrekkur.

Sælubuna

Sælubuna í Standardal.

Í Katlahrauni eru grónar lautir, og var slegið þar áður fyrr. Hér er komið á aðalleiðina úr Selvogi til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Leiðin liggur af Katlabrekkubrún, skáhallt upp og yfir Katlahraunið. Katlabrekkur eru framan í brún, vestan við Björgin. Þær eru rétt við vegslóðann, farið er milli þeirra og Bjarganna. Þegar upp er komið, blasa við á hægri hönd Hlíðardalir, Hlíðardalur efri og Hlíðardalur neðri, vestan við Stóra-Urðarfell. Efri dalurinn er stærri.
Á milli dalanna er Dalshryggur, svolítill berghryggur eða klettar.” Farið var fyrir endann á honum. Þá blasti við lægð í Urðarfellin. Fram af þeirri lægð er Kálfsgil, sem er á landamerkjum Hlíðar og Strandar.
Sagan segir að séra Eiríkur á Vogsósum (1677-1716) hafi grafið Bók bókanna, mestu galdrabók allra tíma, Gullskinnu, í Kálfsgili. Segir í sögunni að sá, sem ráði þeirri bók, hafi vald á því sem hann velja vildi.
Bunga er í Urðarfellunum alveg fram á Svörtubjörg. Þar í er Sælubuna, uppspretta út úr klettum, og rennur ofan í Strandardalinn. Hún þornar aldrei alveg. Strandardalur er austan eða suðaustan við Kálfsgil. Er Litla-Urðarfell fyrir austan, en Stóra-Urðarfell fyrir vestan.

Strandardalur

Strandardalur.

Urðarfellin eru skriðurunnin fell, en ekki hraun. Litla-Urðarfell er nokkurn veginn stakt, hnöttótt ofan með klappabrúnum. Þar eru fellin einna hæst. Hæðin fram á Björgin er frá Litla-Urðarfelli. Kálfsgil er myndað af vatnsrennsli úr fellunum. Það er á mörkum Hlíðar og Strandar. Í stórleysingum rennur vatn úr Kálfsgili fyrir austan Katlabrekkur.
Austan við Litla-Urðarfell eru Merarbrekkur. Fyrir innan (norðan) Stóra-Urðarfell er lægð, sem kölluð er Móvatnsstæði. Snarhallar af fellinu ofan í það. Þar var smáblettur, þar sem var mótak frá Hlíð. Það var eini mórinn, sem til var í Selvogi, en hann var lélegur.

Svörtubjörg

Við Stígshella í Svörtubjörgum.

Svörtubjörg blasa við sjónum alls staðar úr Selvogi, bæði af sjó og landi. Þau eru oft í daglegu tali kölluð Björgin. Vestari endi Bjarganna er mið af sjó. Vestarlega á Björgunum ber Grágæsanípu hátt. Það er klettur, sem slútir fram. Þar var oft hrafn. Eiríksvarða er því sem næst á Björgunum miðjum. Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún.
Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum. Varðan stendur enn. Austast í Björgum er Gatahóll. Geta bæði menn og skepnur gengið í gegnum hann. Einna hæst eru Björgin um Grágæsanípu og Eiríksvörðu, og Gatahóll er einnig hátt, líkt og Eiríksvarða.
Kindaslóði er alveg niður í Björgin. Þar fóru kindur niður og í Stígshellra, sem eru smáskútar fyrir neðan. Fyrir þá fennti í norðanbyljum, og fé tepptist þar. Þeir eru vestarlega við Björgin. Vestan við Björg, niður undan Stígshell(r)um, er Hofmannaflöt; þar var áningarstaður.”

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Fallega hlaðin varða er á klapparrananum er aðskilur dalina. Undir henni er Sælubuna. Hún er greinilega sírennslislind og kemur úr hlíðinni. Eflaust er vatnið úr henni allra meina bót. Leitað var eftir tóftum af bæ Indriði í Hlíðardal. Mikið gróðurrof hefur orðið í dalnum. Einungis eru nú torfur upp með hlíðum Urðarfells. Fallegur einir á klöpp gaf þó dalnum lit. Hlíðardalur er ekki fullkannaður, enn á eftir að skoða efsta hluta hans m.t.t. hugsanlegra tófta. Það verður gert á sumri komanda.
Í bakaleiðinni var komið við í Dísuréttum í Katlahrauni vestan Hlíðardals. Um er að ræða fallega hlaðna rétt austan undir hraunhól. Erfitt getur reynst að finna hana í hrauninu. Þegar leitað var að réttinni fannst stór og fallegur hellir. Um er að ræða hraunbólu, um 3 m á hæð og um 15 metra breiða. Inn úr henni er rás og innan af henni þverrás. Vel er hægt að ganga þar uppréttur. Úr loftinu hengu um tveggja metra langar rætur. Fallegar klakamyndanir voru á gólfum. Þau eru slétt og ekkert fallið úr loftum. Hellirinn er ekki fullkannaður, en hann er a.m.k. 40-50 m. langur.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Gengið var niður Borgarskarð og vestur Hlíðarveg með Hlíðarfjalli. Borgarskarðsborg neðan við skarðið var skoðuð sem og tóftir skammt vestan hennar, við Hlíðarveg. Stefnan var tekin á hellinn Ána og síðan haldið sem leið lá að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Dísurétt

Dísurétt.

Lakastígur

Lakastígur liggur frá Hveradölum niður að Lönguhlíð innan við Innbruna Eldborgarhrauns í Þrengslum.
Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar Lakastígurliggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: „Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur Syðri-Eldborgkm austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra.
Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar, 303 m.
VörðurSkammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703:
„Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, Horft af Syðri-Eldborgþá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.“
Eldborgir sjást suðvestur af Lakastíg. Það hraun, Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla er miklu mun eldra en kristni á Íslandi. Það átti upptök sín í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg, sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hins vegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gíganir undir Meitlunum tveir; Nyrði- og Syðri-Eldborg. Ofan af gígbarmi Eldborgar sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorkálshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áðurnefnd eldstöð ofan Hveradala.
Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi er átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofan á Þurárhrauni og Eldborgarhrauni, Þess vegan vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitöku-hraunið.
KortKristian Kålund (1872-’74), Þorvaldur Thorodssen (1882), Guðmundur Kjartansson (1943), Trausti Einarsson (1951) og Þorleifur Einarsson (1960) töldu allir að hraunin úr Eldborgum í Hveradala-brekkum og Meitlum væru hið svonefnda Kristnitökuhraun.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna, sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson, jarðfræðingur, birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus, og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðsins á nefndum tímamótum, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg ár áður en land byggðist.
Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrfræðinginn 1979 og er frásögn hennar “Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnáms-öskulagið hafi fundist í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristni sögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Að þessu sinni var gengið suður yfir Innribruna neðan Lágaskarðs, skoðuð rétt undir Syðri-Eldborg og önnur í Innribrunatröð, uppgróna vörðuröð austan Stóra-Meitils á Meitilstöglunum og tóft þar á leiðinni uns staðnæmst var við suðurhorn Stóra-Meitils við Þrengslaveg.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

 

Gerðavellir

Grindavíkurbær og Saltfisksetrið vígðu nýtt sögu- og örnefnaskilti á Gerðavöllum.
Af því tilefni var bæjarbúum og gestum boðið til gönguferðar um Vellina og næsta nágrenni. Á skiltinu er uppdráttur Virkiðaf svæðinu með öllum helstu minjum og örnefnum. Um er að ræða 6. skiltið í röð slíkra í Grindavík, sem einn FERLIRsfélaga hefur m.a. haft umsjón með. Sjöunda skiltið verður vígt við Hraun austan Grindavíkur í septembermánuði n.k. (2009). Með því hefur meginhluti þéttbýlishverfa Grindavíkur verið teiknaður upp m.t.t. sýnilegra og sögulegra minja í tengslum við helstu örnefnin. Hugmyndin er og að nýta svo efnið til útgáfu fyrir þá sem vilja eignast uppdrættina á kortunum svo og til kennslu í grunnskólum bæjarins.
Í fróðleik á skiltinu á Gerðavöllum segir m.a. (textinn er ónákæmari hér): „Á
Gerðavöllum og nágrenni má m.a. sjá leifar eftir svonefnda Junkara, sem hér voru við fiskveiðar á 14. og 16. öld. Sumir telja að gerðið geti verið enn eldra, frá fyrstu tíð verslunar á 13. öld eða jafnvel frá upphafi búsetu í Grindavík.
Þá eru örnefni er minna á Rásinsögusvið „Grindavíkurstríðsins“ árið 1532, s.s. Virkið og Engelskalág, en sá atburður breytti verslunarsögu landsins svo að segja á einni nóttu. Á svæðinu eru einnig minjar um búskap Járngerðarstaða-bænda frá fyrri tíð. Utar á kampinum er rétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Gamla kirkjugatan yfir á Stað lá hér um til 1908 og  ekki má gleyma sjóskrímslunum er héðan hafa sést endrum og eins um aldir. Á landakorti frá 1590 eftir Gubrand Þorláksson, biskup, eru t.a.m. teiknuð inn mörg hafskrímsli, sem höfundur byggir líklega á eigin reynslu.
Utan í Stekkhól er stekkur og á hólnum er hlaðið, uppgróið, mannvirki, hugsanlega dys eða brenniker, þ.e. eldur var kveiktur á hólnum þegar vantaði skip af hafi eftir að myrkvaði enda útsýni af hólnum hvergi betra yfir Járngerðar- og Staðarsund. Í Bjarnagjá og Hrafnagjá er fjölbreytt lífríki sem og í fjörunni með strandlengjunni.
Meðfylgjandi uppdráttur er unnin upp úr örnefnalýsingum fyrir Járngerðarstaðahverfi eftir lýsingum þess fólks er best þekkir til staðhátta. Sérstakar þakkir eru færðar Lofti Jónssyni, Guðlaugi Tómassyni, Tómasi Þorvaldssyni, Gunnari Tómassyni og Guðjóni Þorlákssyni. Í textanum er auk þess vitnað í Þjóðsögur og ævintýri Einars Ól. Sveinssonar (1952), Öldina okkar 1518 og 1532, Sögu Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór (1994) og fyrirlestra Jóns Böðvarssonar um Grindavíkurstríðið (2006).

Junkaragerði
LitbrigðiGerðavellir eru nefndir eftir gerði Junkaranna. Garðarnir sjást enn mjög vel þótt sjórinn hafi brotið af þeim að austanverðu. Einar Ól. Sveinsson segir svo frá í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum: „Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem Hóllvindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki.
Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á Stekkuraftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlangt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti.“

Verslun og fiskveiðar útlendinga
MarkhóllMeð Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til að veiða og kaupa skreið og aðra vöru (t.d. vaðmál og brennistein) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira. Hún hófst skömmu eftir að Svarti dauði herjaði á landið (1402 til 1404) og siglingar frá Noregi lögðust að mestu leyti af í kjölfarið.
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Um það má t.d. lesa á sambærilegu skilti í Staðarhverfi.

Bjarnagjá

Enska tímabilinu lauk með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða hér ofan við Stórubót í júní 1532. Þetta leiddi til þess að 16. öldin er stundum kölluð þýska öldin í Íslandssögunni. Elstu menn segja að enn megi sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ eða „Engelskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda.
Fram til 1300 veiddu Íslendingar aðallega við landið. Skömmu fyrir 1300 gjörbreyttist ástandið. Noregskóngur hafði einkaleyfi á veiðum við allar eyjar er tilheyrðu Noregi. Aðrir þurftu að fá leyfi til að veiða þar eða versla. Yfirleitt var slíkt leyfi ekki veitt. Síðast á 14. öld breyttist þetta ástand. Englendingar urðu fyrstir til að sækja á fiskimiðin við Ísland. Fram yfir 1380 voru fiskiskip yfirleitt lítil og yfirleitt ekki vel fallin til úthafssiglinga.

Hrafnagjá

Ný siglingatækni kom fram og Norðurlandabúar töpuðu forystunni á höfunum, en Englendingar tóku yfir; fyrst með tvímastra, þrímastra og jafnvel fjórmastra skipum. Fyrir 1400 voru Englendingar farnir að sigla á slíkum skipum hingað.
Fiskur var aðallega hertur. Árið 1432 kom þýskt fyrsta skipi hingað, en það var á vegum Hansakaupmanna. Noregskóngur hélt fast í einkaleyfi sitt til vöru-, veiði- og verslunarferða á sínum svæðum. En vegna þess að norsk skip gátu veitt nær markaðinum í Evrópu var hann ekki eins fastheldinn á þennan rétt sinn er fjær dró. Er Englendingar fóru að koma til Íslands bannaði Noregskóngur för þeirra til landsins. Englendingar og Íslendingar tóku ekki mark á því banni. Íslendingar ömuðust að vísu í fyrstu við fiskveiðum Englendinga, en fögnuðu vöruflutningum þeirra og verslun. En fyrir vöruflutninga Englendinganna fengu þeir “þol til fiskveiða”. Englendingar urðu loks sterkastir við landið og víða með aðstöðu.  Þjóðverjar, sem komu um 1430 urðu fljótlega vinsælli. Þeir keyptu fisk og skreið á allt að 70% hærra verði og seldu sína vöru ódýrari. Mikil eftirspurn var eftir fiski í Evrópu svo þeir gátu selt hann á margfalt hærra verði þar. Trúarbrögð, fastan, var aðalástæðan. Þjóðverjar voru einnig vinsælli en Englendingar vegna þess að hinir síðarnefndu stálu oft á tíðum fiski frá Íslendingum; fiski sem safnað hafði verið saman til sölu um vorið.

Katrínarvík

Þetta varð til þess að Englendingar töpuðu smám saman öllum höfnum sínum (sem að vísu voru ekki eiginlegar hafnir í okkar skilningi, heldur viðleguaðstaða). Englendingar höfðu haft Hafnarfjörð fyrir aðalhöfn (Grindavík var nr. tvö), en þeir sigldu jafnan til Straumsvíkur. Um 1480 ráku Þjóðverjar Englendinga frá Hafnarfirði og Straumsvík (Þýskabúð) og tóku sér fasta búsetu í Hafnarfirði. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.

Junkaragerði

Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes.
Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. 

Tóft

Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Grindavíkurstríðið
brotÞá víkur sögunni hingað til Grindavíkur. Englendingarnir, sem tekið höfðu þátt í átökunum á Básendum, en var griður gefinn, flúðu til Grindavíkur. Tóku þeir allmikið af fiski til sín, sem tilheyrði m.a. Þjóðverjum. Um það leyti kom að landi í Grindavík John nokkur Braye, eða Jóhann Breiði, eins og landinn nefndi hann, á skipi sínu Peter Gibson. Lét hann þegar reisa virki á Járngerðarstöðum, ofan við Stóru Bót. Gerðust Englendingar bitrir út í Íslendinga vegna stuðnings þeirra við Þjóðverja á Básendum. Hótuðu þeir landanum og bönnuðu honum að selja þýskum fisk. Pyntaði Jóhann mann, hótaði öðrum og tók lömb og sauði frá manni sem sinnti ekki þessu verslunarbanni hans. Nam hann hest af manni og gerðist alldjarfur til kvenna. Flutti hann t.d. konu eina út í skip sitt og hélt eiginmanninum þar í böndum.

Kortið

Um þessar mundir var Diðrik af Minden fógeti á Bessastöðum. Skipaði hann þýskum og öðrum er hagsmuna áttu að gæta að finna sig við Þórðarfell ofan við Grindavík. Lofaði hann öllum þeim sem það gerðu mála í nafni konungs. Hafnarfjarðarkaupmenn tóku tilmælunum strax vel og safnaðist fljótt allnokkuð lið við Þórðarfell, eða um 280 menn (aðrar heimildir segja 180), þ.á.m. 8 skipshafnir frá Bremen, sveit Diðriks, liðsmenn frá Hafnarfirði, Njarðvíkum og frá Básendum. Diðrik lýsti Englendingana í Grindavík réttdræpa, en alla sem gegn þeim færu friðhelga að lögum. Ástæðuna fyrir aðförinni sagði hann m.a. virkisgerðina, sem hann taldi vera atlögu að sjálfum Danakonungi, auk yfirgangs Englendinganna og afbrota. Hér virtist því fyrst og fremst vera um nokkurs konar lögregluaðgerð að ræða.

Gengið um Junkaragerði

Margir Englendinganna voru á sjó þennan dag, 10. júní 1532. Jóhann Breiði, fálkatemjari konungs, og 13 aðrir Englendingar voru í virkinu. Aðfararnótt 11. júní, kl. 02.00, læddust Hafnfirðingar og Njarðvíkingar að virkinu, en Básendamenn og Þjóðverjarnir héldu í átt að skipunum sem lágu utan við Stórubót. Útsinningshraglandi var og úfinn sjór. Þegar menn nálguðust virkið var gert áhlaup á það með óhljóðum og látum. Vaknaði Jóhann Breiði og menn hans við vondan draum, en náðu ekki að verjast. Voru þeir allir drepnir, alls fimmtán manns. Náðist að kyrrsetja skip Jóhanns á legunni, en fjögur skip Englendinga lágu utar. Búðir annarra Englendinga voru þarna skammt frá og voru þeir, sem þar vorum, handteknir, átta talsins. Voru þeir látnir grafa félaga sínum undir virkisveggnum. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, en eitt fórst á grynningunum á leið út.

Skiltið

Diðrik sló upp veislu, en eftir nokkra daga gaf byr svo skipi Peter Gibson var siglt til Bessastaða, enda nú metið eign danska kóngsins. Herinn var um kyrrt í Grindavík í 10 daga, enda Englendingarnir þar til alls vísir. Margir þeirra höfðu verið á sjó þegar atlagan var gerð og þótti þeim aðkoman að landi heldur kuldaleg.
Með “Grindavíkurstríðinu” lauk svonefndri “Ensku öldinni” á Íslandi, en átökunum  lauk ekki, því fór fjarri. Það var upphafið að átökum stórþjóða. Með því hófst “styrjöld”, sem átti eftir að standa í langan tíma. Hinrik VIII. frétti fljótlega af átökunum. Svo virðist af skrifum hans um þetta mál að hann hafi verið mjög kunnugur hér á landi. Maximillian Þýskalandskeisari frétti einnig fljótlega af átökunum.

Kort

Í kjölfarið fylgdi þras og síðan friðasamningar á milli Dana, Englendinga og Þjóðverja.

Skrímsli
Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo Sæskrímslineinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem ættu að vera útdauð fyrir löngu.“
Hið skemmtilegasta við framtakið er að verkið er unnið af öldnum Grindvíkingum, sem síðan hinir yngri geta nýtt sér í námi, bæði til fróðleiks og skemmtunar. Um 80 manns gengu um svæðið með leiðsögn.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Rétt

Klifhæð

Í Árbókinni 1943-48 segir Ólafur Þorvaldsson frá leiðinni milli Herdísarvíkur og Sýslusteins. Þar fjallar hann m.a. um Selhól, Hrísbrekkur (Litlu- og Stóru-), Klifhæð og Sængurkonuhelli:
Vegurinn„Af Seljabót held ég svo austur hraun og fer Gamlaveg, sem liggur frá eystra horni Geitahlíðar, ,,niður á milli hrauna“, niður á Seljabót austast; er þá Seljabótarbruni á hægri hönd, en Kolhraun á vinstri. Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið. Þá er austarlega kemur á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af hér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann hafa
hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið. Snúum við nú aftur í vesturátt og förum út með vegi. Fyrst liggur vegurinn um hólótt land og óslétt. Þegar út á móts við Selhól kemur, en hann er skammt neðan vegar, er farið yfir dálítinn hæðarhrygg, sem heitir Ingimundarhæð. Þegar út yfir hana kemur, taka við sléttar hellur, og er von bráðar komið að dálítilli hæð, sem er fast við veginn norðanmegin, gróin móti suðri, en grasflöt fram af. Er þetta Litla-Hrísbrekka. Nokkru vestar gengur hár brunahryggur norðvestur frá fjallinu fram að veginum, og er hér komið að Stóru-Hrísbrekku. Þar er gras í bollum og brekkum, svo og viðarkjarr nokkurt.
HrísbrekkurFrá Stóru-Hrísbrekku er land á fótinn vestur á Klifhæð. Þar sem hún er hæst, liggur vegurinn gegnum klauf, sem rudd hefur verið í mjótt, en hátt brunahaft. Skammt austan undir klifinu, sjávarmegin götu, er lítill hellir, snúa dyr mót austri, en lágar mjög, þetta er Sængurkonuhellir. Sagan segir, að þar hafi göngukona ein endur fyrir löngu alið barn. Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar.
Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.“
Leit var gerð að framangreindum Sængurkonuhelli m.v. lýsinguna. Lítill skúti fannst á svæðinu sem og tvö op í stærri hraunrásir, sem verða skoðaðar síðar.

Heimild:
-Ólafur Þorvaldsson, Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49. árg. 1943-48, Herdísarvík í Árnessýslu – Stutt lýsing jarðarinnar, bls. 133-134.

Selhóll

Selhóll.

Grindarskörð

Sögn er um að þýsk flugvél hafi nauðlent undir Lönguhlíðum 1941 eftir að skotið hafði verið á hana í Öskjuhlíð. Áhöfnin, fjórir menn, eiga að hafa komist af. Þeir sprengdu flakið í loft upp og leifar þess eiga síðan að hafa verið fjarlægðar.
SvæðiðÞrátt fyrir að sagan öll sé með ólíkindum eru ummerki í Gráhrauni, nyrst í Rjúpnadyngjuhrauni, rétt utan við Reykjanesfólkvang. Þar neðan við er Skógarhlíð, efsti hluti Heiðmerkulands á Elliðavatnsheiði. Þrír krikar ganga inn á milli hrauntungna; Grenikriki vestast, þá Miðkriki og Skógarkriki austast. Ofan þeirra er svæðið, sem ætlunin var að skoða með hliðsjón af framangreindu.
Þá var og ætlunin við tækifæri að skoða svæðið á hraunsléttunni ofan við Kerlingargil ofan Lönguhlíða. Einnig var ætlunin að skoða undir og ofan við svonefndar Lönguhlíðar norðan við Þrengslin. Þar, innst í Hellum undir Sandfellum, voru lengi vel leifar af flugvél, m.a. hjólabúnaður. Neðar liggur gömul þjóðleið, Lakastígur um Lágaskrað og síðan Selsstígur niður að Kerlingarbergi ofan við Hraun í Ölfusi.
TóftFrásögnin sem slík er lyginni líkust og virðist vera hreinn uppspuni. En þótt ekki hafi beinlínis verið færðar sönnur á sannleiksgildi hennar, og beinum tilvitnunum í heimildir er ábótavant er samt sem áður ástæðulaust að fullyrða algerlega að hún sé að öllu leyti beinlínis röng – a.m.k. ekki fyrr en aðstæður allar og sennilegir möguleikar á öllum hugsanlegum stöðum hafa verið skoðaðir nánar. Sagnfræðingar vilja gjarnan festast í þeirri kenningu að ekkert sé til nema það hafi áður verið skráð og þá af fleiri en einum. Ef fara ætti þeirri formúlu væru t.d. fæstar minjarnar á Reykjanesskaganum til. Auk þess ber að hafa í huga að ekki er alltaf allt satt sem sagt hefur verið (eða skráð).
Engin ástæða er þó til að véfengja algerlega haldlitlar upplýsingar, jafnvel orðróm
. Sagnfræðin heimilar einungs staðfestu þess, sem þegar hefur verið skráð, en þegar heimildir urðu til var það án viðurkenningar fræðigreinarinnar. Hér er fjallað um efnið vegna þess að það er áhugavert og atburðir gerðust m.a. á Reykjanesskaganum.

Heinkel 111Eftirfarandi umfjöllun birtist í Lesbók Mbl 28. mars 2009 (hafa ber í huga að eldri lýsingar eru til af sama atviki, s.s. eftir Björn Tryggvason, en allar óstaðfestar m.t.t. fyrirliggjandi heimilda): Ævintýralegur flótti frá Íslandi – Ævintýraleg flóttasaga var opinberuð af Árna B. Stefánssyni lækni, sem rifjaði upp sögu þýsks flugstjóra í Lesbók 1994. Greinarhöfundur hefur rannsakað baksvið sögu flugstjórans enn frekar og segir hér frá því sem hann hefur komist að um einstæða flóttasögu þýskra hermanna frá Íslandi.
LögreglustjóriEkki gat Árna B. Stefánsson grunað að grein hans Stríðsleyndarmál afhjúpað er birtist í Lesbókinni 1994 var að mati þeirra þýskra í Freiburg brot á þarlendum læknaeiði um samband sjúklings og læknis. Í greininni rifjaði hann upp minnisblöð sín af viðtali sem hann átti við þýskan flugstjóra á hersjúkrahúsi. Saga flugstjórans var skilgreind sem þýskt ríkisleyndarmál. Ég lét snara þessari grein yfir á þýsku og sendi út til allra sem tengdust rannsóknarvinnu minni í að finna nafn flugstjórans, flugvélartegundina og flugsveitina sem hann þjónaði, en þetta vantaði í sögu Árna. Hér heima fékk ég sérstakt rannsóknarleyfi frá utanríkisráðu-neytinu og dómsmálaráðuneytinu til að grúska í gömlum pappírum en það stóð á rannsóknarleyfinu frá forsætisráðuneytinu. Það barst mér á þann sérstaka hátt að mér var vísað út af Þjóðskjalasafni Íslands í boði forsætisráðherra Íslands og ráðuneytisstjóra hans. Þá grunaði mig strax að eitthvað væri til í sögu þýska flugstjórans um ævintýri hans á Íslandi. Þetta var haustið 1994. Nú, 19. mars 2009, voru liðin 68 ár síðan þýski flugstjórinn nauðlenti flugvél sinni undir Lönguhlíð á Reykjanesi rétt við gömlu göngubrautina yfir Grindarskörð. Það var lögreglustjórinn í Reykjavík 1941 sem lét fjarlægja vélina, allt er horfið.“
Hafa ber í huga að Langahlíð nær ekki að Grindarskörðum. Margir telja þó Kerlingarskarð milli Grindarskarða og Lönguhlíðarhorns vera Grindarskröð. Lengi vel var hins vegar brak úr flugvél í Lönguhlíðum við Kerlingargil, sem er skammt vestan við Lönguhlíðarhorn. 

Frásögn Árna
He 111Frásögn Árna í Mbl 11. júní 1994 bar fyrirsögnina Stríðsleyndarmál afhjúpað. „Það var á Þorláksmessu fyrir réttum 15 árum að fundi okkar bar saman. Hann lá ekki á minni deild, hann lá á krabbameinsdeildinni, var í geislameðferð. Það hafði verið mikið að gera, ég nýbyrjaður á augndeildinni, þýskan hjá mér ekkert sérlega góð, eiginlega hafði ég ekki áhuga á að ræða við hann, eða að vera með einhverja Íslandskynningu. En nú voru að koma jól og auk þess hafði hann enn á ný látið liggja fyrir mér skilaboð um að hann vildi ræða við mig. Ég gekk fram í anddyrið, hann stóð það í reykjarsvælunni með sígarettu í munnvikinu, vel til hafður, góðlegur eldri maður, eins og afi í myndabók. Hann sagði „þú ert Íslendingur, er það ekki“, jú sagði ég, „ég verð að tala við þig“. Ekki jók það nú áhuga minn, en áhersla hans á „verð“ fannst mér þó dálítið óvenjuleg. Hvað vildi hann vita um Ísland svona rétt fyrir jólin? Skrýtið þetta „verð“, rétt svona flaug í gegnum hugann. Hann lagði höndina vingjarnlega á öxl mér og sagði „við skulum fara inn fyrir“. Honum var mikið niðri fyrir og hann sagði mér sögu:

Það eru liðin tæp 40 ár og þetta er ekki lengur stríðsleyndarmál,“ sagði hann og ég hugsaði, hann er eitthvað ruglaður. Augnabliki síðar varð ég ekkert nema eyru og skammaðist mín. Frásögn hans hefur oft leitað á mig, einnig var það ósk hans að ég segði frá þessum atburðum. Í raun var þetta hans hinsta ósk, við sáumst ekki meir, hann fór heim á aðfangadag og lést skömmu eftir áramót.

„Það veit þetta enginn, ég hef engum sagt frá þessu, en þar sem þú ert Íslendingur þá verð ég að segja þér frá þessu, þetta er hluti af sögu Íslands. Ég kom til Íslands fyrir tæpum fjörutíu árum,“ sagði hann. „Stríðsleyndarmál má reyndar ekki gera opinber innan fjörutíu ára, en ég hugsa að þetta sé allt í lagi.“ Síðan dró hann djúpt andann og hélt áfram. „Það var snemma sumars 1941 að ég var flugstjóri í þýskri vél í könnunarflugi yfir Reykjavík. Við tókum loftmyndir af Reykjavíkurflugvelli. Bretarnir voru þarna, það var lítið að óttast, þeir höfðu engar flugvélar til varnar, eða til eftirleitar, svona lagað var vonlaust eftir að Ameríkanar tóku við. Við fengum í okkur skot úr loftvarnabyssum í Öskjuhlíð. Vélin missti flug og við nauðlentum á hraunsléttu á hálendinu um 20 km austur eða suðaustur frá Reykjavík.“

JunkerHann lýsti þessu nákvæmlega og virðist þetta hafa verið á grágrýtissléttunni vestur eða suðvestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Ég verð að játa að langt er um liðið, síðan hann sagði mér þetta og ekki get ég lengur munað hvort hann minntist á flugvélartegundina, Henkel minnir mig, Junkers voru hér þó aðallega. Þá er ég ekki viss um ártalið, 1940 eða 1941, Reykjavíkurflugvöllur virtist að mestu kominn. Þetta var ansi ótrúlegt, en svo hélt hann áfram. „Það var komið undir kvöld og sólin að setjast í vestri. Við komumst allir af og enginn slasaðist. Enginn virtist hafa orðið var við okkur. Við náðum talstöðvarsambandi við þýskt könnunarskip, sem reyndar sigldi undir spænsku flaggi. Lá það í Vestmannaeyjahöfn. Við tókum fjarskiptatækin og matarbirgðir úr flugvélinni og sprengdum hana síðan í tætlur. Síðan lögðum við af stað í austurátt. Við ferðuðumst á nóttinni og vorum fjóra daga á leiðinni. Ölfusárbrú var nokkurt vandamál, á henni var breskur vörður. Við ræddum hljóðlega saman og kinkuðum bara kolli til þeirra, þegar við fórum yfir og þeir kinkuðu til baka. Gekk það vel og við önduðum ansi mikið léttar. Síðan héldum við í austur, þar til við komumst á mót við Vestmannaeyjar. Þar tókum við bát traustataki, rerum yfir, komumst í skipið og þaðan til Þýskalands.

He 111Ég var orðlaus. „Ég varð að segja þér þetta, ég hef engum getað sagt frá þessu í tæp 40 ár, þetta er hluti af stríðssögu Íslands,“ sagði hann. Honum hafði greinilega létt mikið. Síðari hluta stríðsins dvaldi hann svo í Norður-Noregi við Tromsö og þjónaði í flugdeildinni, sem varði Tirpitz, systurskip Bismarck, sagði hann mér.

„Heyrðu,“ sagði hann að lokum, „svo þú getir sannað réttmæti frásagnar minnar ætla ég að skrifa nafn skipsins niður á blað.“ Sem hann og gerði: Juan Fernandez/Schiff 28.

DönitzÉg var uppveðraður af þessu og skrifaði strax heim, þeim manni, sem ég vissi fróðastan um þessi mál. Svarið var stutt og laggott, „þetta stenst ekki“. Reyndar tók hann dýpra í árinni en það. Mér mislíkaði svar þetta mjög og sárnaði fyrir hönd sögumanns míns.

Fáránlegt er að ætla að dauðvona maður láti sér detta í hug að segja einhverjum svona lygasögu. Það var og er óhugsandi í mínum huga. Eftir þessar undirtektir gat ég ekki fylgt þessu nánar eftir. Sögumaður minn var látinn og lítið að gera. Því miður láðist mér að taka niður nafn hans. Miðann með skipsnafninu setti ég inn í bók og hugðist fylgja þessu eftir þegar heim kæmi.

Fjórum árum síðar, stuttu eftir heimkomu úr námi, leitaði frásögnin á mig. Þrátt fyrir mikla leit var mér lífsins ómögulegt að finna miðann. Vegna þeirra undirtekta, sem ég áður hafði fengið, treysti ég mér ekki að birta frásögn sögumanns míns opinberlega án frekari sannanna.

Síðastliðið vor rakst ég svo loksins á nafnið, ég hafði skrifað það á öftustu síðu bókar einnar og hent miðanum, það var þannig engin furða að mér tókst aldrei að finna hann þrátt fyrir mikla leit.

GastergepoNú loksins get ég efnt loforðið, sem ég gaf gamla manninum á Þorláksmessu 1978. Loksins get ég komið þessu frá mér og get sjálfur andað léttar. Ég hef reynt að sannreyna þessa sögu, en ekki haft árangur sem erfiði. Hafnaskjöl Vestmannaeyja- hafnar 1940-­1941 eru annaðhvort týnd eða ekki aðgengileg. Hafnsögumaður í Vestmannaeyja- höfn frá þessum árum segir engin spænsk skip hafa legið þar í höfninni á þessum tíma. Hugsanlegt er að eitthvað komi út úr athugun, sem ég hef komið í gang á þýskum stríðsskjölum, ekki geri ég mér þó miklar vonir. Það er eins og þetta hafi gerst í gær. Fas gamla mannsins, einlæg og skilmerkileg frásögn hans, hve mjög honum létti við að deila þessu með einhverjum. Er þetta með eftirminnilegustu jólagöfum, sem ég hef fengið. Í raun er mér sama hver trúir og hver ekki, frásögnin er í mínum huga sönn.

Þetta er hetjusaga úr seinni heimsstyrjöld; málsstaður Þjóðverja, andstæðinga okkar, er aukaatriði. Flugstjóri þessi gerði það ómögulega, hann nauðlenti hér og kom áhöfn sinni úr landi, án Brakþess að nokkur yrði þess var, eða áttaði sig á því síðar. Sagan er svo lygileg að það tekur varla tali. Tvo til þrjá km suðvestur af Bláfjallaskálanum, rétt vestan við kantinn á Strompahrauni eru leifar flugvélar. Ekki veit ég hvort saga hennar er þekkt. Staðsetning þessi, eða önnur lík, fellur vel að frásögn gamla mannsins. Er það von mín að þið lesendur hafið af þessum línum mínum nokkra ánægju, nú þegar liðin er rétt rúmlega hálf öld frá því að atburðirnir áttu sér stað. Í mínum huga er þetta frásögn gamals manns af sérkennilegri heimsókn til Íslands á erfiðum tímum. Saga af hetjudáð.

Geti einhver ykkar lesenda staðfest sögu þessa þætti mér vænt um að sá hinn sami setti sig í samband við mig.“

Hafa ber í huga að brakið, sem Árni minnist á í jaðri Strompahrauns, er af „Bresku Gránu“.

Leyniförin
Guðbrandur heldur áfram. „Alexander Holle flugstjóri leggur af stað í Íslandsleiðangurinn um hádegið Brakhinn 19. mars 1941 á He 111 flugvél sem var sérútbúin í langflug með flugþol upp á 12 klst. Þeir fara frá Sola-flugvelli í Stavangri í Noregi sem Þjóðverjar höfðu þá lagað mikið síðan frá innrásinni. Það var búið að lengja flugbrautir og bæta alla aðstöðu. Flugvélin hefur verið yfirhlaðin í flugtaki með fjóra menn um borð og troðfull af bensíni. Það var ekkert smá peð sem Hitler hafði sent eða rekið út í þennan ævintýraleiðangur samkvæmt beiðni frá Karl Dönitz flotaforingja og yfirmanni kafbátadeildar, en yfirmaður hans, Raider flotaforingi, þvoði hendur sínar af aðgerðinni og afskiptum af herskipinu Bismarck. Sérfræðingur Adolfs Hitlers í þessum leiðangri var samkvæmt bestu heimild Íslandsvinurinn Wilhelm Canaris, flotaforingi og yfirmaður þýsku Abwehr-leyniþjónustunnar, sem var sá eini í leiðangrinum sem hafði komið áður til Íslands. Vinur hans var skrifstofustjóri hjá Kaupfélaginu Þór á Hellu, þegar þetta gerðist. Aðrir um borð voru loftskeytamaður og siglingafræðingur, en annar þeirra slasaðist í nauðlendingunni og varð ógöngufær. Þeir nauðlenda flugvélinni rétt eftir kl 4.15 í miklu roki sem þá brast á. Neyðarkallið sem þeir senda út um kvöldið náði ekki mikið lengra en að Hellu á Rangárvöllum eða rétt rúmlega það, þaðan berst það símleiðis yfir á sérstakan fulltrúa Þjóðverja á Íslandi sem var konsúll Svíþjóðar og frá honum til lögreglustjórans í Reykjavík. Það er síðan 23. mars sem eigendur skipafélagsins Ísafoldar hf., eigendur skipsins m/s Eddu, fá fyrirmæli um að fara úr Reykjavíkurhöfn með fulllestað skip, til Hafnarfjarðarhafnar og sækja þangað tvo Þjóðverja, fara út á ytrihöfn Reykjavíkur og bíða. Hinir tveir voru sóttir á bíl við Þrengslaafleggjarann og selfluttir til skrifstofustjórans á Hellu og voru þar gestir fram til 30. mars, er þeir voru fluttir yfir til Vestmannaeyja. Annar þeirra var Wilhelm Canaris. Þeir eru í Eyjum til 5. apríl er S/S Spica kemur og flytur þá til Reykjavíkur og þannig sameinaðist áhöfnin um borð í m/s Eddu. Eddan fer frá Reykjavík til Spánar 6. apríl og er þýska áhöfnin komin um borð í kafbátinn U-98 hinn 11. apríl. Alexander Holle flugstjóri lét skrá þetta ævintýri sitt sem nauðlendingu á sjó við Noreg, bjargað úr gúmmíbát um borð í þýskan kafbát, eftir skotárás frá þeim ensku hinn 19. apríl 1941. Einn slasaður.

Flóttinn
Canaris„Hálfsögð er saga þá einn segir frá,“ segir í gömlu íslensku máltæki og á það við um flóttasögu Þjóðverjans sem er á þessa leið: ,,Það eru liðin tæp 40 ár, þetta er ekki lengur stríðsleyndarmál. Það veit þetta enginn, ég hef engum sagt frá þessu, en þar sem þú ert Íslendingur þá verð ég að segja þér frá þessu, þetta er hluti af stríðssögu Íslands. Ég kom til Íslands fyrir tæpum 40 árum, stríðsleyndarmál má reyndar ekki gera opinber innan fjörutíu ára, en ég hugsa að þetta sé allt í lagi. Það var snemma sumars 1941 að ég var flugstjóri á þýskri flugvél í könnunarflugi yfir Reykjavík. Við tókum loftmyndir af Reykjavíkurflugvelli. Bretar voru þarna, það var lítið að óttast, þeir höfðu engar flugvélar til varnar, eða til eftirleitar, svona lagað var vonlaust eftir að Ameríkanar tóku við. Við fengum í okkur skot úr loftvarnarbyssu í Öskjuhlíð. Vélin missti flug og við nauðlentum á hraunsléttu á hálendinu 20 km austur eða suð-austur frá Reykjavík. Það var komið undir kvöld og sólin að setjast í vestri. Við komumst allir af og enginn slasaðist. Enginn virtist hafa orðið var við okkur. Við náðum talstöðvarsambandi við þýskt könnunarskip, sem reyndar sigldi undir spænsku flaggi. Lá það í Vestmannaeyjahöfn.
Við tókum fjarskiptatækin og matarbirgðir úr flugvélinni og sprengdum hana Stríðsminjarsíðan í tætlur. Síðan lögðum við af stað í austurátt. Við ferðuðumst á nóttunni og vorum fjóra daga á leiðinni. Ölfusárbrú var nokkurt vandamál, á henni var breskur vörður. Við ræddum hljóðlega saman og kinkuðum bara kolli til þeirra, þegar við fórum yfir og þeir kinkuðu til baka. Gekk það vel og við önduðum ansi mikið léttar. Síðan héldum við í austur, þar til við komum til móts við Vestmannaeyjar. Þar tókum við bát traustataki, rerum yfir, komumst í skipið og þaðan til Þýskalands. Ég varð að segja þér þetta, ég hef engum getað sagt frá þessu í tæp 40 ár, þetta er hluti af stríðssögu Íslands. Heyrðu, svo þú getir sannað réttmæti frásagnar minnar ætla ég að skrifa nafn skipsins niður á blað: Juan Fernandez/Schiff 28.“ Í frásögn Árna kom einnig fram að flugstjórinn hafi verið í flugsveitinni sem varði orrustuskipið Tirpitz í Noregi en því skipi var sökkt haustið 1944. Mér þótti þessi flóttasaga frekar ótrúleg, hún gekk einfaldlega ekki upp. Ég fékk mikla skemmtan og fróðleik við það að hringja í alla bændur á svæðinu til að forvitnast um árabáta sem gátu verið til taks á svæðinu þarna um vorið 1941.

Gamla

Þarna voru ferjubátar, bátar til selveiða og stórir útróðrarbátar í Bakkafjöru og er einn þeirra á safninu hans Þórðar við Skóga. Ætli ég sé ekki eini maðurinn á Íslandi sem hefur tekist að æsa upp þennan rólyndismann, Þórð safnvörð í Skógasafninu, hann gafst alveg upp á mér og vísaði mér á bræður sem bjuggu á bænum Bakka við samnefnda fjöru. Þaðan fékk ég ævintýrasögur af hafnsögubátnum Létti frá Vestmannaeyjum sem kom þarna upp í fjöruborðið þegar færi gafst, setti út lítinn árabát sem sótti fólk upp á sand og flutti út í Létti og út til Eyja. Það var sama hvar ég spurði frétta, enginn bóndi á svæðinu kannaðist við að bát hafi verið stolið öll stríðsárin en bræðurnir á Bakka töldu ekki útilokað að þeir hafi verið fluttir út í Eyjar með hafnsögubátnum Létti. Fógetinn á Hvolsvelli kafaði djúpt í gömul skjöl embættisins en fann enga kæru um stolinn bát öll stríðsárin. Það var fyrst við rannsóknir á flóttaskipinu sem í ljós kom að Þjóðverjarnir fjórir höfðu skipt liði, tveir voru við Hafnarfjörð og þar flugstjórinn en tveir fóru austur að Hellu.

Flóttaskipin
VestmannaeyjarÞýska flóttaskipið í Vestmannaeyjahöfn, sem reyndar sigldi undir spænsku flaggi í frásögn þýska flugstjórans, varð nú að ráðgátu ef einhver sannleikskjarni var í frásögninni. Söfnunareðli landans kom nú að góðu gagni. Á Þjóðskjalasafni fann ég dagbækur tollgæslunnar í Vestmannaeyjum og síðan komst ég yfir vinnslu- og framleiðsluskýrslur á fiski með upplýsingum um til hvaða landa fiskurinn fór. Á þessum skýrslum voru upplýsingar um skip sem komu inn og út úr Vestmannaeyjahöfn, hvert þau fóru og hvaðan þau komu. Þau sem fóru til Evrópu fóru öll á England, síðan fóru skip til Ameríku en ekki frá Vestmannaeyjum heldur Reykjavík. Það var sigling m/s Eddu til Spánar í apríl 1941, frá Reykjavík með saltfisk og gotu, sem vakti furðu mína og undrun eins og ástandið var í mars og apríl 1941, en stuttu áður höfðu þýskir kafbátar sökkt þremur íslenskum fiskiskipum og Þjóðverjar lýst yfir hafnbanni á Ísland sem var yfirlýsing um árásir á öll íslensk skip. Lánið lék við mig er ég fann skipsdagbók m/s Eddu undir nafninu m/s Fjallfoss og síðan lögskráningarbók um áhöfn skipsins fyrir árið 1941. Með dagbók hafnsögumanna Reykjavíkurhafnar, fyrir sama tímabil, tókst að leysa gátuna.
Þetta var Tripizhreint ótrúlegt, Schiff 28 reyndist vera S/S Spica, norskt flutningaskip, þriggja mastra skúta með hjálparvél, systurskip S/S Arctic sem Fiskimálanefnd ríkisstjórnar Íslands átti. S/S Spica kemur til Vestmannaeyja og losar 55 tonn af áburði. Tekur Þjóðverjana tvo og flytur inn á Reykjavíkurhöfn, leggst þar utan á Edduna undir kolakrananum þar sem vitni mitt sér Þjóðverjana tvo fara úr Spica yfir í Edduna. Þar eru fyrir hinir tveir Þjóðverjarnir, en þeir höfðu komið um borð í Edduna í Hafnarfjarðarhöfn hálfum mánuði áður. Þær tvær vikur um borð í skipinu eru síðan ein ævintýraleg saga sem ekki verður sögð hér. ,,Juan Fernadez“ verður kallmerki fyrir m/s Eddu á siglingaleiðinni til Spánar eða þangað til kafbáturinn U-98 stöðvar Edduna og tekur um borð Þjóðverjana fjóra og flytur þá til Frakklands eftir 23 daga flótta í íslenskri lögsögu. Þegar Eddan kemur til Íslands úr þessari ferð er hún seld til Eimskipafélagsins og fær nafnið Fjallfoss.

Leitin að þýska flugstjóranum
Sögusviðið 1941Fyrstu vísbendingar um þýska flugstjóra og heimsóknir þeirra til Íslands á stríðsárunum fann ég hjá Landmælingum Íslands, en þar hafði safnast fyrir fróðleikur um þessar heimsóknir, aðallega myndir og lýsing á búnaði sem Þjóðverjar notuðu við loftmyndatökur. En þar var líka að finna mörg nöfn áhafnameðlima í þessum Íslandsleiðöngrum. Tveir hermannanna svöruðu bréfum mínum veturinn 1994 til 1995. Þá var veraldarvefurinn ekki kominn til sögunnar og allt gekk hægt fyrir sig. Þessi tvö sambönd reyndust sögunni dýrmæt því hér voru á ferðinni gamlir menn sem þjónuðu þýska flughernum út frá Noregi. Þeir voru í samtökum uppgjafahermanna í Þýskalandi sem hittust alltaf reglulega til að skála í bjór og gráta fallna félaga frá þessum árum. Þessum mönnum sendi ég nú frásögn Árna. Greinina fékk ég birta í málgagni þýskra uppgjafahermanna, „Kameraden“. Í frásögn Árna kemur fram að flugstjórinn þjónaði í flugdeildinni sem varði skipið Tirpitz úti í Noregi, en það sökk haustið 1944. Hafi frásögn þýska flugstjórans frá Íslandi verið ráðgáta þá voru ævintýri hans úti í Noregi ekki síður dularfull. Ég er búinn að liggja yfir skipulagi þýska flughersins árum saman til að finna flugsveitina sem hugsanlega gat hafa sent flugvél til Íslands í þennan leiðangur í mars 1941. Öll sambönd notuð, togað í alla strengi í Þýskalandi, en allt kom fyrir ekki.
Það auðveldaði ekki rannsóknina óvissan um Holleflugvélartegundina því flakið var horfið. Ég fékk sendar tjónaskýrslur yfir allar flugvélar sem saknað var árið 1941 en þar í var fyrirvari um að dagsetningar gætu verið rangar eða bókhaldið falsað, að gögn vantaði frá mörgum flugsveitum eða þeim eytt samkvæmt skipun að ofan. Íslandsvinirnir sem lent höfðu í ævintýrum við Ísland höfðu ekki setið auðum höndum í ellinni og ekki allir svarað kalli Foringjans um að eyða öllum gögnum um aðgerðir við óvininn á árunum 1938 til 1945. Einn þessara manna var Roman Gastager flugstjóri, sem á sinn hátt segir sögu könnunarflug- sveitarinnar sem flaug út á Atlantshaf frá Frakklandi. Flugsveit þessi var 1.(F)123, en F stendur fyrir þýska orðið Fernaufklarungsgruppe. Aðeins ein áhöfn lifði fram yfir árið 1945, eða fjórir menn. Werner Fehse flugstjóri segir sögu flugsveitarinnar 1.(F)124, sem var með bækistöð í Noregi frá 1940 til 1945. Þetta er greinargóð lýsing á skipulagi og aðgerðum flugsveitarinnar og hvernig þeir týndu tölunni frá ári til árs, áhöfn fyrir áhöfn, eða þangað til þær eru sameinaðar flugsveitinni 1. (F)120, en það er einmitt sú flugsveit sem er í reglulegu flugi til Íslands, en þó fyrst frá júní 1941. Þýska veðurstofan var með flugvélar í leiðöngrum til Íslands frá haustinu 1940. Þeir voru hér eins og gráir kettir en töpuðu aldrei flugvél á Íslandi svo vitað sé. Rudi Schmidt flugstjóri gefur út sögu flugsveitarinnar KG 26, sem einnig var með bækistöð í Noregi. Þetta var ekki könnunarflugsveit heldur árásarflugsveit sem notaði sprengjur og tundurskeyti. Yfirmaður þessarar flugsveitar hafði tvær He 111-flugvélar sem voru sérútbúnar til langflugs og það verður önnur þeirra sem nauðlendir á Íslandi í leynileiðangri fyrir Adolf Hitler og Carl Dönitz, yfirmann kafbátadeildar þýska flotans. Alexander Holle var þá flugstjóri en líka æðsti yfirmaður KG 26, sem hafði það hlutverk að finna skipalestir á leið frá Íslandi til Murmansk í Rússlandi og granda þeim. Þegar Holle segist vera að verja herskipið Tirptiz
 síðar í stríðinu þá hafði hann heldur betur hækkað í tign og var þá orðinn Oberst Holle, einn æðsti yfirmaður þýska flughersins í Noregi. Hann var fæddur í Bielefeld í Þýskalandi 27.2. 1898 en lést í München 16.7. 1978, áttræður að aldri.

Eftirmáli
He 111Við rannsókn þessa ótrúlega máls kom margt undarlegt upp sem freistandi er að skoða nánar. Þannig fékk ég vísbendingu um að skrifstofustjórinn á Hellu hefði verið myrtur ásamt tveimur nafngreindum Íslendingum úti í Þýskalandi eftir 1956, í kjölfar þess að háttsettum þýskum foringjum Hitlers var sleppt úr fangabúðum. Þetta var einhvers konar hefndaraðgerð háttsettra nasista. Það verða síðan tollverðir í Vestmannaeyjum sem fletta ofan af Arctic-málinu. Skip Fiskimálanefndar læðist út úr höfninni í Vestmannaeyjum í skjóli myrkurs fyrstu vikuna í desember 1941, án þess að Bretar skoði farm og farmskjöl. Ég bar þetta undir loftskeytamanninn á S/S Arctic í þessari ferð sem þá sagði að „þeir hefðu verið sendir með matvæli til Vigo, stærstu bækistöðvar þýskra kafbáta á Spáni“.

Hellan

Mínar heimildir herma að það hafi ekki bara verið áhöfnin á S/S Arctic sem var handtekin við komuna til Íslands í febrúar 1942, heldur einnig símamálastjórinn, lögreglustjórinn, stjórn og forstjóri Fiskimálanefndar og það hafi verið Kunigund,[kann að vera ranglega stafsett] ameríski sendifulltrúinn, sem fletti ofan af liðinu í nafni OSS, leyniþjónustu forseta Bandaríkjanna. Þetta var fyrsti og einn stærsti sigur á nasistum í Evrópu. Það verður síðan ameríska herverndarliðið á Íslandi sem hrekur Hermann Jónasson þáverandi forsætisráðherra frá völdum um vorið 1942 þegar málið upplýstist. Besta dulmálið í ævisögu er að finna í svari við spurningu söguritara Agnars K. Hansen, sem þá var flugmálastjóri Íslands en áður lögreglustjórinn í Reykjavík. Söguritarinn spyr Agnar ,,hvort hann ætli að segja sögu lögreglustjórans á stríðsárunum“. Agnar svarar: „Ef sú saga verður sögð verður hún á við bestu James Bond-söguna,“ en eins og allir vita var James Bond leyniþjónustumaður. Ég bíð nú eftir því að gögn um OSS, (Overseas secret service) leyniþjónustu forseta Bandaríkjanna, verði opnuð á amerískum skjalasöfnum. Þá kemur í ljós hvort Agnar lögreglustjóri var einfaldur eða tvöfaldur leyniþjónustumaður (agent or double agent) sem slapp undan hefndaraðgerðum þýskra nasista eftir 1956.“

Brak

Agnar var lögreglustjóri í Reykjavík frá 1940 til 1947, síðan flugvallastjóri ríkisins 1947 til 1951. Hann var ráðinn flugmálastjóri 1951 og gegndi því embætti til dauðadags 23. desember 1982.
Þýsk flugvél, sambærileg Heinkel 111, fórst í Svínadal í Esju eftir skotárás árið 1942.
Við skoðun á Gráhrauninu kom í ljós að grámosinn (hraungambrinn) er horfinn þar á stóru hringlaga svæði, ca. 30 m í ummál. Líklega hefur mosinn brunnið fyrir ca. 30-40 árum. Ekki er ósennilegt að eldingu hafi lostið þarna niður og eldur kviknað í mosanum. Eftir stutta stund hafi síðan gengið rigning inn á svæðið og slökkt eldinn. Ef það hefði ekki orðið hefði mosahraunið að öllum líkindum allt brunnið á stóru svæði. Engin ummmerki voru eftir utanaðkomandi hluti, s.s. flugvélahluti.

SvæðiðAðspurður nánar um slysstaðinn svaraði höfundur greinarinnar eftirfarandi: Brak úr vélinni fannst undir Lönguhlíð inn við Grindarskörð en brakið sjálft var fjarlægt af málmsöfnurum, tveir bræður frá Hafnarfirði sumarið 1941, vængir, hjólastell, mótórar og stél. Ég tel mig hafa verið á, í, við ætlaðan nauðlendingarstað skv. lýsingu sjónarvotts af vegsummerkjum en mikið álbrak var á svæðinu haustið 1941. Svæðið er austast í Lönguhlíðinni þar sem skemmst er á milli vegarins og skriðu sem þar rennur fram úr hlíðinni. Ég er hér að tala um Bláfjallaafleggjaran frá Hafnarfirði og upp í Bláfjöll. Brakið sést að hluta á loftmynd frá 1942.“

Ljóst er að að skoða þarf nánar svæðið „undir Lönguhlíðum inn við Grindarskörð“ með hliðsjón af því hvort þar kunni að leynast álpjötlur, skinnur, rær og/eða leiðslur úr flugvélinni. Hafa ber þó í huga að flugvél, sem var að flytja varahluti, fórst þarna á svæðinu á 5. áratug síðustu aldar. Brak úr henni sást lengi vel.

Huldur

Brak í Sveifluhálsi.

Sagnir um að flugvélahlutar eftir flugslys hafi síðar verið dregnir til Hafnarfjarðar eru nokkrar, t.d. flak Canson-vélar, sem fórst efst í Sveifluhálsi utan við Huldur. Brak úr henni fannst mörgum árum síðar í Hrútagjárdyngju. Það gæti hafa hent flugvélina undir Lönguhlíðum því brak er að finna í hrauninu norðvestan við meintan nauðlendingarstað. Á því braki má lesa stafina .032 ANRA. Skv. upplýsingum þess manns, sem best þekkir til flugslysasögunnar fyrrum, Eggerts Norðdahls, mun „.032“ vera þykktin á álinu, en ANRA gæfi til kynna að þarna gætu verið leifar breskrar Douglas flugvélar, sem fórst á hraununum suð-austan við Helgafell (átta mílur suð-suð-austur af Hafnarfirði 7. mars 1944. Flakið fannst fyrst 11. júní 1944). Á hlutum, sem þar fundust áður var einmitt áletrunin .032 AN eða .032 ANRA stimplað á plöturnar að innanverðu. „Hugsanlegt er að ANRA standi fyrir Army Navy Rolled Aluminium eða eitthvað álíka. Á öðrum hlutanum er merki Breska flughersins svo enginn vafi er á hvers þjóðar hún var„.
Sjá einnig meira um Flugvélaflök á Reykjanesskaganum.
Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3 mín.

Heimild:
-Lesbók mbl 28. mars 2009 – Guðbrandur Jónsson – gudbrandur@drangey.is
-Byggt á frásögn Árna B. Stefánssonar í mbl. 11. júní 1994.
-Eggert Norðdahl.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.