Hafravatnsrétt

Nokkrar sagnir eru um fornmannaleiði í Mosfellsbæ. Hraði á Hraðastöðum á að vera heygður í Hraðaleiði, lágum hól á mörkum Mosfells og Hraðastaða. Fyrsti legstaður Egils Skallagrímssonar er sagður í greinilegum haug eða hól á Tjaldanesi. Í örnefnaskrá greinir frá hól eða dys norðan við bæinn að Úlfarsá sem kölluð var Rikkudys. Þormóðsleiði er í landi Þormóðsdals. Æsuleiði er aflöng þúfa vestan í túnbrekkunni neðan við Æsustaðabæ.

Þormóðsdalur

Fjárhús við Þormóðsdal.

Þar á landnámskonan Æsa að liggja. Æsuleiði er álagablettur sem ekki má slá.
Álagablettirnir eru fleiri því auk Æsuleiðis er slíka bletti einnig að finna á Hrísbrú, Norður-Reykjum, Úlfarsá og Úlfarsfelli. Blettina má ekki slá eða eiga við á annan hátt.
Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar. FERLIR gekk um svæðið í fylgd ábúandans, Þorsteins Hraundals.
Óljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar  undan því til suðvesturs. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.

Þórmóðsdalur

Tóft við Þormóðsdal.

Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.
Í Sturlubók segir m.a. um þetta: „Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.

Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.“
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan. Sjá meira HÉR.
Í örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal segir m.a.: „Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita.

Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.“

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.
Á skilti við Hafravatnsrétt stendur: „Hafravatn er um einn ferkílómetri að stærð, 76 m yfir sjávar máli og 28 m á dýpt. Seljadalsá fellur í vatnið að sunnanverðu en Úlfarsá vestur úr því og til sjávar í Blikastaðakró (sjá HÉR). Silungsveiði er í Hafravatni, bæði á urriða og bleikju, og einnig er hér nokkur laxagengd.
Um aldanótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað í rétina var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.“ Þá kemur texti með mynd af Kristni Guðmundssyni (1893-1976) bónda á Mosfelli sem var þarna réttarstjóri um árabil. Notaði hann gjallarhorn til að gefa fyrirskipanir.

Þormóðsdalur

Tóft við Þormóðsdal.

Auk þessa er sagt frá nykrinum í Hafravatni sbr. Þjóðsögur Jóns Árnasonar: „Nykur er bæði í ám og stöðuvötnum og jafnvel á sjó. Hann er líkastur hesti að öllu skapnaðarlagi, oftast grár að lit, en þó stundum brúnn, og snúa hófarnir aftur, hófskeggið öfugt við það sem er á öðrum hestum; þó er hann alls ekki bundinn við þetta einkenni; hitt er honum eiginlegt, að hann breyti sér snögglega á ýmsa vegu að eigin vild. Sagt er að nykur sé í Reykjavíkurtjörn annað árið, en í Hafravatni í Mosfellssveit hitt árið. Svo er því varið, að undirgangur er á milli, og fer nykurinn eftir honum úr Hafravatni í Reykjavíkurtjörn og úr tjörninni aftur í vatnið; enda þykjast Reykvíkingar hafa tekið eftir ógurlegum skruðningum, brstum og óhljóðum í Reykjavíkurtjörn, þegar hún liggur, en þó eru á því áraskipti, því brestirnir koma af því að nykurinn gerir hark um sig undir ísnum og sprengir hann upp, þegar hann er í tjörninni. En þegar nykurinn er í vatninu, er aftur allt með felldu í tjörninni.“

Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi. Um er að ræða tvö svipaða melhóla vestan vegarins. Sá neðri er nær veginum, en hringurinn er á þeim efri.
Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – hringur á melholti.

Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
„Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.“

Þormóðsdalur

Tóft ofan Þormóðsdals.

Gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, mun eitt sinn hafa skimað eftir leiðinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði.
Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gömul tóft uppi á hól norðan við núverandi íbúðarhús, líklega hluti gamla bæjarins. Freistandi væri að ætla tóft þessa Þormóðsleiðið þótt ekki væri fyrir annað en staðsetninguna og stærðina. Áttir gætu og hafa misritast í örnefnalýsingunni. Rústin er nálægt því að vera ferköntuð (ca 400x800x20 cm), gróin. Grjóthlaðið hefur að öllum líkindum verið umleikis þótt ekki sjáist grjót núna. Þetta gæti hafa verið hluti af húsi, en það gæti líka hafa verið fyrrnefnd dys. Staðsetning hennar kemur þó ekki heim og saman við fyrrgreinda lýsingu, þ.e. sunnan við bæinn, því ekki er að sjá búsetuleifar norðan við rústina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – loftmynd.

Gvendarbrunnur

Árni Óla segir frá Gvendarbrunnum í Lesbók Morgunblaðsins árið 1965:

Gvendarbrunnur-201

„Fjallgarður sá, er blasir við Reykvíkingum í suðaustri, Vífilsfell, Bláfjöllin og Langahlíð, deila vötnum á Reykjanesskaganum milli Ölfuss og Innnesja. En hvaða vötnum er þar að deila? Norðan fjallanna sést varla vatn. Allt leysingavatn og úrkomuvatn hverfur í hin miklu hraun, sem þar eru og hrekst svo fram um dimm undirgöng langar leiðir. Nokkuð af þessu vatni kemur undan hraunröndinni fram við sjó, en aðeins á tveimur stöðum eru uppsprettur miklar, allfjarri sjó. Önnur þeirra nefnist Kaldárbotnar og er skammt fyrir norðan Helgafell, þaðan fær Hafnarfjörður vatnsveitu sína. Hin er í jaðrinum á Hólmshrauni, kippkorn fyrir ofan Jaðar og er mörgum sinnum vatnsmeiri. Þetta er vatnsból Reykvíkinga og hefir verið nú um rúmlega hálfa öld. Afrennsli brunnanna myndar Elliðavatn og Dimmu, en Dimma og Bugða mynda síðan í félagi Elliðaárnar.
Gvendarbrunnar eru ótal margir hér á landi, en þessir eru öllum öðrum meiri og merkilegastir. Allir draga brunnarnir nafn sitt af Guðmundi Arasyni biskupi góða, vegna þess að hann vígði þá.
Brunnarnir eru með mörgu móti og sumir ekki annað en litlar lindir. Þeir eru ýmist heima við bæi, eða þá við alfaraleið, enda er hún nú innanbæar (skammt frá Höfða) og hefir land þar umhverfis verið umturnað hvað eftir annað síðan um aldamót. Tveir Gvendarbrunnar eru í Reynivallaihálsi, annar norðan í hálsinum, en hinn á hábrúninni, þar sem svokallaður Kirkjustígur lá upp frá Reynivöllum. Og Gvendarbrunnarnir frægu hjá Hólmshrauni, hafa líka verið við alfaraleið fyrrum, þar lá leiðin þegar komið var ofan af Ólafsskarði, og síðan yfir hraunið niður að Jaðri, eins og enn má sjá, en þaðan sunnan við Elliðavatn, hvort sem farið var til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur.
holmsa-221Næst andrúmslofti er vatn mesta lífsnauðsyn manna. Gott vatnsból við bæarvegg er gulli betra og því höfuðkostur og dýrmætustu hlunnindi á hverju byggðu bóli. Það er því mjög athyglisvert hve víða eru léleg vatnsból hér á landi, eða hve langt þarf að sækja nothæft drykkjarvatn. Virðist þetta benda til þess, að forfeður vorir hafi ekki verið vandir að vatni, og ekki látið sér blöskra þótt sækja þyrfti það um langan veg og jafnvel örðugan. Þeir hafa að vísu komist af með miklu minna vatn, heldur en síðar varð. Ekki þurftu þeir að eyða vatni til hreingerninga og þvottur mun hafa verið þveginn úti. Vatn var ekki borið í gripi, heldur voru þeir reknir til vatns hvern dag á vetrum. Vegna mataræðis mun og hafa verið notað lítið vatn í eldhúsum. Þá ber og á hitt að líta, að þeir höfðu ódýran vinnukraft og munu þrælar og ambáttir hafa séð um allan vatns burð, og þá ekki verið um það fengist þótt sækja yrði vatnið langa leið, eða niður í brött gil. Víða hafa einnig sjálfsagt orðið þær breytingar að lækir hafa lagzt í nýa farvegu og vatnsból þorrið. En ekki er því til að dreifa alls staðar, þar sem vatnsból eru léleg eða sækja þarf vatn um langa vegu.
Þegar Reykjavík byggðist, var þar ekkert nothæft drykkjarvatn nema í uppsprettulindunum vestan tjarnarinnar er seinna voru kenndar við Brunnhús. Í læknum var ekki drykkjarhæft vatn, vegna þess að sjór gekk upp eftir honum með hverju flóði inn í tjörn. Og af sömu orsökum mun vatnið í Tjörninni hafa verið óhæft til drykkjar. En vegna þess, að langt hefir þótt að sækja vatn í uppspretturnar suður með tjörn, hefir verið grafinn brunnur örskammt frá bænum. Kallar Skúli Magnússon hann Ingólfsbrunn og segir hann kenndan við landnámsmanninn og gefur þannig í skyn að brunnur þessi hafi verið frá landnámstíð. Má og vera að menn hafi fljótlega neyðst til að gera þennan brunn, vegna þess að ekki hafi verið hægt að ná í uppsprettuvatnið þegar mikið var í tjörninni. En hvað sem um það er, þá var þessi brunnur aðalvatnsból Reykvíkinga þangað til vatnsveitan kom.
Guðmundur biskup andaðist á Hólum 16. marz 1237. Sá dagur er enn messudagur hans í almanakinu og heitir Gvendardagur. Alþýða manna taldi biskup sannheilagan, en ekki fékkst hann tekinn í tölu dýrlinga, fremur en aðrir íslenzkir menn, þótt reynt væri að fá páfa til þess. En samt sem áður var hann helgur maður í augum íslenzkrar alþýðu fram yfir siðaskipti, og átrúnaður á vígslur hans, bjargvígslur og vatnsvígslur, hefir haldist sums staðar fram að þessu. Munu þess finnast dæmi að „Guðmundarvatn“ hefir verið haft til lækninga með góðum árangri allt fram á þessa öld.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 4. apríl 1965, bls. 1 og 14.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Herdísarvík

Fornar götur eru merkileg fyrirbæri.
Þegar þær eru gengnar nú til dags (2012) má vel greina Fornagata-554áætlaðan aldur þeirra og notkun. Þannig er a.m.k. háttað með göturnar í Selvogi. Í byggðinni sjálfri voru tvær götur; kirkjugatan lá með gömlu bæjunum frá austri til vesturs, að Strandarkirkju og vegurinn lá ofan Fornagarðs, efri endimörk byggðarinnar. Upp frá honum lá Útvogsgatan upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornugötu (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðagötu), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornugata lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sést enn nokkuð glögglega. FERLIR fylgdi Fornugötu nýlega frá fyrrnefndum gatnamótum á Strandarhæð til vesturs, áleiðis að Vogsósum, en áður hafði götunni verið fylgt til austurs áleiðis að Hlíðarenda.
Fornagata-555Fornagata liggur til vesturs/austurs norðan gamla þjóðvegarins á Hæðinni, nokkuð innan við Skálavörðu. Auðvelt er að rekja hana um grasi gróið sléttlendi áleiðis að Vogsósum uns hún þverar gamla þjóðveginn. Þar liggur hún í beygu niður með háu barði og kemur síðan glögglega í ljós að nýju skammt neðar. Síðan fylgir hún nokkurn veginn suðurmörkum gróins lands Vogsósa, allt niður á Vallabarmi og yfir Vaðið á affalli Hlíðarvatns. Eftir það hverfur hún í síbreytilegar sandöldur Víðisands allt þangað til komið er að vörðu á austanverðum hraunsmörkum Hellunnar. Frá henni skýrist gatan smám saman und hún verður allgreinileg. Á köflum verður gatan allt að 10 cm djúpt mörkuð í hraunhelluna. Hún greinist á tveimur stöðum spölkorn, en verður fljótlega að einni á ný. Þá greinist gatan á ný og nú varanlega. Líklega er nafnið „Fornugötur“ sprottið af því? Stundum hefur gatan á þessum kafla verið nefnd Hellugata vegna framangreindrar staðsetningarinnar.
Fornagata-556Annar leggurinn leggst til vinstri, upp á hærri brúnir nær ströndinni. Þar verður gatan jafn greinilegt í hraunhelluna sem fyrr, allt til syðst að austari Brunabrúninni framundan. Að vísu liggur hún sunnan við sandlág síðasta kaflann, en sést síðan mjög vel þar sem hún liggur inn á úfið apalhraunið áleiðis að Mölvík og Mölvíkurtjörn. Áframhald þeirrar leiðar verður lýst hér á eftir.
Svo segir í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík: „Ofanvert við sjávarkampinn, sem liggur frá Draugagjám austur að Skothellu, er austast Víðisandur, og liggur vestasti hluti hans undir Stakkavík. Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða.  Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar.  Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.“
Fornagata-557Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir ennfremur: „Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvikurkampi. Austast í henni voru klappir, og [var] þar kallað Varir eða Mölvikurvarir.  Í Breiðabás og á Mölvík var rekasvæði ágætt.Ofanvert við kampinn var Mölvíkurtjörn, en vestur úr henni eða lægðinni, sem hún liggur í, er sæmilega bílfær vegur, Mölvíkurstígur upp á alfaraveginn uppi á brunanum. Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum, er útræði var úr Mölvíkurvörum;  þar er og Mölvíkurfiskabyrgi. Þar upp af framan í brunanum eru svo Grenshólar. Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.  Á einum stað liggur milli klettanna gjá;  þar svarrar sjórinn fast.
Fornagata-558Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar.  Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn.“
Hinn leggurinn liggur til norðvesturs upp með Brunabrúninni fyrrnefndu uns komið er að vörðu skammt austan hennar. Þaðan liggur þessi forna leið inn á Brunann eftir seinni tíma vagnvegi, líklega frá því á fyrri hluta 20. aldar, allt að Brunabrúninni vestari ofan við Breiðabás á mörkum Stakkavíkur og Herdísavíkur.
Fornagata-559Á kafla (á sléttu helluhrauni ofan Mölvíkurtjörn) má sjá ummerki eftir fornu hestagötuna; „efri leiðina“ leið í gegnum Brunann. Vagnvegurinn virðist augsýnilega hafa verið brotinn ofan í gömlu götuna eftir að neðri gatan var orðin ófær vegna umbrots sjávar. Á stuttum kafla skammt austur þar sem vagnvegurinn kemur niður af Brunanum að austanverðu má slá leifar vegagerðar, líklega tilraun til hins fyrsta akvegar handan hraunbrúnarinnar, en hætt virðist hafa verið þá vegagerð því engin ummerki önnur er um hana þar að finna. Tófugreni er við austurbrún þessarar vegagerðarummerkja.
Nú skal aftur horfið niður á neðri Fornugötu. Þegar komið er inn á Brunann hverfur gatan vegna þess að Ægir hefur etið hana upp til agna á a.m.k. 200 metra kafla. Handan þess, ofan við Drauga (klettadranga er skaga út í sjóinn) kemur gatan aftur í ljós og hægt er að rekja hana að Mölvíkurtjörn.
Fornagata-560Það er mikilfenglegt að ganga um neðanvert apalhraunið vestan vestari Brunabrúnarinnar þar sem berja má augum hina víðfeðmu fiskigarða og fjölmörgu fiskibyrgja austan sjóðbúðanna austan Herdísarvíkur sem og fjárhúsanna „Langsum“ og Þversum“ í Austurtúninu sem og þær sjálfar millum þeirra og heimatúnsins.
Sérstaka athygli vakti á göngunni hversu lyng á það til að vaxa í gömlum götum, hvort sem um var að ræða hesta- eða vagngötu. Allt um kring var grænn eða grá mosinn alsber, en í gatan var jafnan lyngvaxinn svo til enda á millum.
Eins og fyrr segir er sérstök upplifun að ganga þessa tiltölulegu stuttu, en misgömlu, götukafla frá fyrri tíð og fá þannig að sjá þróun vegagerðarinnar, sem virðist hafa verið nánast óbreytt um 1000 ára skeið, uns þörfin hafi allt í einu orðið önnur með tilkomu vagnsins og síðar sjálfrennireiðarinnar – en það er nú önnur saga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stakkavík.

Fornagata

Fornagata.

Sæskrímsli

Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir áreiðanlegustu heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit. Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi.
SkrímsliOftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri. Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem talið hefur verið að ættu að vera útdauð fyrir löngu. Þannig fannst t.d. fyrir skömmu 33 feta „útdauður“ sæormur við strönd Kaliforníu.

Merki Grindavíkur er Hafur; skírskotun til hafsins? Grindvíkingar hafa af og til talið sig hafa séð ýmislegt í sjóum og í gjám, sem erfitt hefur reynst að útskýra sem eðlilegan hlut. Einn sagði m.a. frá ferð í hina vatnsmiklu Grænubergsgjá ofan við Staðarhverfi. Hafði hann frétt af því að álar gengu upp í gjána og ætlaði hann að reyna að ná í nokkur stykki. Þegar íbúinn hafði komið sér fyrir eftir að hafa klifrað niður að vatnsfletinum rýndi hann niður í spegiltært undirdjúpið. Eftir að hafa setið á hækjum sínum stutta stund virtist sem „lítill“ áll nálgaðist yfirborðið hægt og rólega. Teygði maðurinn sig þá fram og gerði sig tilbúinn að grípa fiskinn þegar hann kæmi nær, en honum hætti hins vegar að lítast á blikuna þegar „litli“ állinn stækkaði óðfluga eftir því sem hann nálgaðist meira. Undir það síðasta sá maðurinn sitt óvænna, reis upp og ákvað að koma sér upp úr gjánni hið skjótasta – því ef héldi fram sem horfði myndi hún hvorki rúma bæði hann og aðkomudýrið, svo fljótt stækkaði dýrið í tíma og rúmi er það nálgaðist. Manninum varð svo mikið um að hann leit ekki aftur fyrir sig fyrr en hann hafði staðnæmst í Grindavík.

Þekkt er sú sögn í Grindavík að börn mættu ekki koma nálægt Silfru því í gjánni væri skrímsli er gæti tekið þau til sín. Fæstir höfðu séð skrímsli þetta því langflestir þorðu ekki að nálgast staðinn fyrir sitt litla líf. Þó voru til vansvefta Grindvíkingar sem höfðu það augum litið að næturlagi. Einn, sem ekki vildi láta nafn sitt getið, lýsti því svo: „Þetta er ægilegt skrímsli, dökkgrænt og ekki ólíkt krókudíl. Ég sá bara hausinn, en það var líka alveg nóg. Sennilega hef ég bara verið heppinn að sleppa lifandi frá óberminu. Við horfðumst á um stund og þá voru ekki nema u.þ.b. 5 metrar á millum.“
Sú trú hefur löngum verið meðal íbúa Grindavíkur, a.m.k. þeirra elstu, að sæskrímsli leiti upp í brunna og gjár ofan við Grindavík sér til hvíldar – enda nóg af hvorutveggja. Eitt skrímslið sást einu sinni sóla sig á jónsmessunótt á barmi Bjarnagjár, öðru (gæti þó verið það sama) brá fyrir í Hrafnagjá nokkrum árum seinna og nokkrir hafa talið sig sjá langmjótt trýni gæjast upp úr Gerðavallabrunnum af og til, einkum að kvöldlagi eða snemma morguns. Guðjón í Vík hefur bæði séð kvikindi bregða fyrir í Dalnum og í Vatnsstæðinu. Hefur það m.a. sést flatmaga á grasbakkanum innst í Nautagjá, sem þá var hvað næst byggðinni. Grindavíkurprestur, sem heyrði þá frásögn, bað viðkomandi lengstra orða að minnast ekki á atvikin því þau „gætu komið róti á sóknarbörnin“.
Allir geta verið sammála um að ekki hafa allir kimar hafsins og gjánna verið kannaðir og reyndar mjög fáir. Það ætti því, eðli málsins samkvæmt, að ve
ra erfitt að fullyrða að hvergi kunni að leynast dýr, sem „ekki eru til“. Hafmeyjar eru t.d. ekki óþekktar meðal grindvískra sjómanna (sjá t.d. um hafmeyna í Grindavík HÉR). Og hafgúur, sbr. eftirfarandi frásögn: „Svo hefur sagt Pétur Eyjólfsson skipari, að eitt sinn, er hann sigldi skútu sinni sunnan fyrir Eldeyjar og vestur á Jökuldjúp á Faxaflóa, sá einn háseta mannshöfuð ofan um brjóst standa úr sjó upp. Sá sagði, er hann sá þetta: „Hver djöfullinn er að tarna?” Pétur hljóp undan stýrinu og setti annan undir og bað að stýra hjá sýn þessari, en eigi á hana. Sagði hann svo, að andlit þetta væri sem stór altunnubotn með rauðgulu hári hrokknu. Eigi sáust hendur, nema líkt handleggjum til olnboga, en brjóst afarmikil. Sýndist honum sem holdslitur á vera. Sá hann og til alls andlitsskapnaðar, en allt ógurlega stórvaxið. En þá er Pétur var sigldur eigi alllangt umfram, seig skrímsl þetta allhóglega í sjó. Ætlaði Pétur það margýgi (hafgúu) verið hafa. Eigi heyrðu þeir neitt í henni láta, en líkast, að hún sneri sér við að gæta þeirra.“
„Árið 1590 kom út nýtt viðlagabindi, Additamentum IV, við kortasafn hollenska kortagerðarmannsins Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terrarum. Í því er kort af Íslandi. Höfundar er hvergi getið en tekið er fram að það sé stungið í eir 1585. Á kortinu er líka að finna tileinkun til Friðriks II Danakonungs frá Anders Sørensen Vedel (Andreas Velleius), hinum kunna sagnaritara Dana. Það er fyrir löngu orðið ljóst að Vedel er ekki höfundur kortsins og hefur ekki getað gert það. Kortið er það mikið tímamótaverk miðað við fyrri kort, þ. m. t. Norðurlandakort Orteliusar sjálfs frá 1570, að það má telja vafasamt að það sé gert eftir fyrirmynd erlends manns. Hér er ekki öðrum til að dreifa en Íslendingi og berast þá böndin fljótt að manni þeim er fjöllærðastur var allra landsmanna, Guðbrandi Þorlákssyni biskupi á Hólum. Guðbrandur var hneigður til stærðfræði og hann átti bækur helstu stærð-, landfræðinga og kortagerðarmanna. Hann mældi hnattstöðu Hóla og fékk mjög nákvæma útkomu. Til er kort eftir hann af Norður-Atlantshafi og löndum umhverfis það frá árinu 1606. Íslandskort Guðbrands er ekki lengur til og ekki er vitað hvenær hann gerði það. Til er listi yfir kirkjur og firði sem hann virðist hafa notað við gerð þess. Ekki er heldur vitað með vissu með hverjum hætti kortið barst Orteliusi í hendur. Leitt hefur verið getu
m að því að hann hafi fengið það frá Vedel sem vann um þessar mundir að sögu Danaveldis, sem kom aldrei út, en með henni áttu að fylgja kort af ríkinu. Allt er ókunnugt um samband Guðbrands biskups og Vedels en líklegast er að Vedel hafi snúið sér beint til hans þegar kom að því að fá kort af Íslandi í hina fyrirhuguðu bók. Í lesmáli aftan á kortinu ber Ortelius Vedel fyrir ýmsu af því sem hann segir af landinu og hann talar um Vedel sem höfund kortsins. Þetta bendir til þess að eitthvað samband hafi verið á milli þeirra. Ortelius hefur eflaust ekki fengið frumkort Guðbrands frá Vedel og því ekki vitað að hann var höfundurinn. Þó að Íslandskort Orteliusar væri lengi vel eignað Vedel vissu þó sumir að hann var ekki höfundur þess. Finnur Jónsson biskup eignar Guðbrandi kortið án allra athugasemda í kirkjusögu sinni og danski sagnaritarinn Lyschander, samtímamaður Vedels, segir beinlínis að það sé eftir Guðbrand.

Kort Orteliusar er prentað í opnu arkarbroti en á baki er lýsing landsins á hinum ýmsu tungumálum sem kortasafnið var prentað á áður en yfir lauk. Talið er að Ortelius sé höfundur þessa lesmáls en mikið af því sem þar kemur fram er ættað frá Vedel og í síðari útgáfum var ýmsu bætt við m. a. úr Brevis commentarius eftir Arngrím Jónsson lærða sem kom út á þessum tíma.
Umhverfis landið svamlar mikill fjöldi hvala og ófreskja. Þau eru, ásamt rekavið, hafísum og ísbjörnum, merkt bókstöfunum A-Q sem vísa til skýringa á bakhlið kortsins. Ekki er vitað hvort eitthvað af þessum furðudýrum var á frumkorti Guðbrands eða hvort þau voru viðbætur Vedels og Orteliusar. Ýmis skrímsli á kortinu virðast eiga til einhvers skyldleika að telja við ófreskjurnar á Norðurlandakorti Olaus Magnus frá 1539 og í Kosmógrafíu Sebastians Münsters frá 1544. Íslensk nöfn nokkurra hvalategunda gætu þó bent til þess að einhver slíkur fróðleikur hafi fylgt kortinu frá biskupi þó að endanlega gerð sína hafi þau líklega fengið hjá þeim sem bjuggu kortið prentunar og gerðu myndamótið.
Ef litið er á landið í heild eins og það kemur fyrir á kortinu kemur brátt í ljós að lögun þess er fjarri því að vera rétt ef miðað er við nýjustu kort gerð með fullkomnustu tækjum. Landið er allt dregið of skörpum og beinum línum. Það vekur athygli hve mikið fer fyrir fjörðum, flóum og skögum í hlutfalli við aðra stærð landsins. Eflaust stafar þetta af því að strandlengjan var mönnum miklu kunnari en þeir hlutar er innar lágu. Stefnur fjalla og fljóta eru aðeins réttar í meginatriðum og upptök hinna meiri vatnsfalla eru biskupi flest ókunn. Hálendi er víðast hvar dregið af handahófi og þegar kemur að miðhálendinu er eins og allt fari úr böndunum hjá Guðbrandi og sýnir það ljóslega hve þessar slóðir voru mönnum ókunnar. Það sést best á því að Vatnajökull er ekki á kortinu og verður það teljast furðulegt því flestir hinna meiri háttar jöklanna eru sýndir. Vegna þess hve kortið gerir hálendinu lítil skil verður landið talsvert mjórra en efni standa til og of langt miðað við breiddina. Landið er látið spanna 23 lengdargráður sem er meira en helmingsaukning frá réttu lagi.
Kort Guðbrands biskups Þorlákssonar í gerð Orteliusar birtist síðan í útgáfum á kortasafni hans á hinum ýmsu tungumálum fram til ársins 1612. Langflest eintök af Íslandskorti Guðbrands sem þekkjast eru þannig til komin að bóksalar hafa rifið kortasafnið í sundur og boðið hvert kort fyrir sig til sölu. Mörg eintök af því hafa verið litskreytt.“
Frásögn af skrímsli í Kelifarvatni má sjá HÉR.

Heimild:
-http://kort.bok.hi.is

Ölkelda

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum jarðar.
Olkleda-22Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Þær þekkjast á Hengilsvæðinu (Hengladalir). Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.
Kolsýruhverir og –laugar með kalkútfellingum koma fyrir á nokkrum háhitasvæðum, einkum við jaðra þeirra, eða þar sem virknin er dvínandi. Vatnið í þeim er grunnvatn fremur en yfirborðsvatn.
Kolsýran á Hengilssvæðinu er hugsanlega orðin til við afgösun í jarðhitageyminum þar sem koltvíoxíð og vetni (H2) berst upp í kaldara vatnskerfi og þéttist (Knútur Árnason & Ingvar Þór Magnússon 2001). Við slíkar aðstæður má ætla að ofan í berginu finnist talsvert af frumbjarga örverum sem nota vetni sem orkugjafa og framleiða metan (CH4) úr vetninu og kolsýrunni.
Um ölkeldur á Íslandi er fjallað í grein eftir Stefán Arnórsson (Eldur er í Norðri, Reykjavík, Sögufélag 1982, bls. 401-407). Ölkelduvatn, sem getur verið ýmist kalt eða heitt, hefur verið skilgreint þannig að samanlagður styrkur karbónats (CO2 + HCO3- + CO3–) í því sé 1 gramm eða meira per lítra vatns. Fyrir hérlent ölkelduvatn undir 100 stiga hita telur Stefán Arnórsson í ofannefndri grein rétt að setja mörkin við 0,3 grömm/lítra.
Olkelda-23Það er mikils vert að fá góða læknishjálp þegar sjúkdóm ber að höndum en betra er þó að halda heilsunni og þurfa aldrei að sjá framan í lækninn,“ sagði Guðmundur Björnsson landlæknir í almennum fyrirlestri sem hann flutti á annan dag jóla fyrir 100 árum. En hvað gerði fólk fyrr á tímum til að halda heilsunni? Á 18. öld jókst áhugi á heilbrigðismálum meðal upplýstra manna og eitt af því sem þeir töldu mikilvægt var að njóta óspilltra afurða náttúrunnar eins og til dæmis ávaxta og vatns, en vatn er ekki bara vatn.
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir að á Íslandi séu sex tegundir af drykkjarvatni. Það eru jökulvatn, mýravatn, bergvatn, uppsprettu- og lindarvatn, kaldavermsl og hveravatn. Jökulvatn er ekki drukkið nema í neyð enda varla hæft til neyslu. Mýravatn kemur úr brunnum sem eru grafnir og í botnin sest gulur ryðleir en ofan á bláleit skán. Þetta vatn er barkandi á bragðið og veldur aldrei neinum óþægindum. Bergvatn er samheiti yfir ár- og lækjarvatn og það er ætíð kalt, tært, heilnæmt og algerlega bragðlaust.

Olkelda-24

Uppsprettu- og lindarvatn er eftirsóttast því það er léttara, kaldara og tærara. Kaldavermsl er ennþá kaldara og tærara en uppsprettuvatnið. Það er einnig heilnæmara og meira hressandi en allar aðrar bragðlausar vatnstegundir og það frýs ekki á vetrum. (Heyrt hef ég þá sögu að á stríðsárunum hafi bandarískir hermenn frétt af kaldavermsli og náð sér í vatn á brúsa. Síðan hafi þeir hellt því á bílvélar sem nokkurs konar frostlög en það virkaði auðvitað ekki og vélarnar sprungu í næsta frosti.) Hveravatn er víða notað til drykkjar þar sem það er lyktarlaust og auðveldara er að ná því en öðru vatni. Þegar það hefur kólnað er það kælandi svalt og bragðgott og þótt það sé lykt af vatninu þá er það oftast bragðlaust. Sagt er að menn kenni aldrei lasleika eða óþæginda af hveravatni.
Ölkelduvatn var ekki talið meðal þessara vatnstegunda enda hafði það sérstaka eiginleika. Ölkeldur hafa jafnan þótt merkilegt náttúrufyrirbæri og fyrir þær sakir dregið að sér athygli og á 18. öld voru þær rannsakaðar sem hugsanlega ein af helstu auðsuppsprettum landsins.
Olkelda-25En hvað er ölkelda? Skilgreiningin í Ferðabókinni er sú að ölkeldur eru „uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni“. Þessi skilgreining dugar alveg enn í dag en í raun er hún miklu flóknari eins og fram kemur í grein Stefáns Arnórssonar prófessors í bókinni Eldur er í norðri.
Í Íslenskri orðabók segir um ölkeldur „lind með köldu vatni sem ólgar af kolsýru líkt og það sjóði“. Ölkelda er vatnsuppspretta þar sem vatnið er blandað koldíoxíði sem kemur úr kviku í iðrum jarðar. Þær finnast víða um land, heitar og kaldar, en einkum þar sem gosbelti er undir og úti um allan heim eru ölkeldur og sumar mjög þekktar sem heilsulindir. Þessi tengsl eru svo náin að í Íslenskri samheitaorðabók er samheitið fyrir ölkeldu, heilsulind.
Ólafur Olavius ferðaðist um landið til rannsókna tveimur áratugum síðar en Eggert og Bjarni og hann gaf vatninu einnig sérstakan gaum. „Öllum er kunnugt hversu frábærlega vatnið er nytsamlegt og hve mikil áhrif það hefur á heilsu og líf manna og dýra,“ segir hann. Ólafur bendir réttilega á að víða um Evrópu séu heilsulindir sem séu mikið sóttar af fólki til lækninga og Ísland gæti hugsanlega orðið nokkurs konar heilsuparadís enda hafi það „ómetanleg auðæfi heilnæms lauga- og ölkelduvatns“.

Olkelda-26

Hann taldi að það yrði landinu til mests gagns ef hægt væri að útrýma sjúkdómum en margir þeirra orsökuðust einmitt af óheilnæmu vatni og slæmu fæði. Lækning við mörgum sjúkdómum og kvillum væri hins vegar böð og vatnsneysla ef hvort tveggja væri í hæsta gæðaflokki eins og hérlendis.
Rannsóknir Eggerts og Bjarna og síðan rannsóknarleiðangur Ólafs vöktu athygli í Danmörku og Jón Eiríksson konferesráð, hinn óþreytandi baráttumaður fyrir bættum hag Íslands, fékk því til leiðar komið að ölkelduvatn var sent til Danmerkur til frekari rannsókna.
Þorlákur Ísfjörð sýslumaður og Hallgrímur Bachmann fjórðungslæknir sendu á annað hundrað flöskur af ölkelduvatni til Kaupmannahafnar haustið 1778. Vatnið var rannsakað af Aaskov líflækni og Weber lyfjafræðingi og síðar einnig af Abildgaard prófessor en þessar rannsóknir voru mun víðtækari og nákvæmari en Eggert og Bjarni höfðu gert á sínum tíma.
Aaskov líflæknir tók saman skýrslu um málið og sendi Jóni Eiríkssyni en niðurstaðan um gagnsemi ölkeldna var sú sama og hjá öðrum. Íslenska ölkelduvatnið var sambærilegt við það besta erlendis eins og til dæmis Seltzer, Pyrmont og Spa. Hvers vegna væri þá ekki hægt að byggja upp heilsuhæli á Íslandi og selja vatn þaðan í stórum stíl? Ekkert varð úr þeim ráðagerðum en ásókn í ölkelduvatn mun eitthvað hafa aukist á 19. öld.
Konrad Maurer ferðaðist um Ísland árið 1858 og skoðaði m.a. nafnkenndar ölkeldur.
Olkelda-27Jón Hjaltalín, sem var landlæknir á árunum 1855-1881, hafði mikla trú á lækningamætti vatnsins. Árið 1840 kom út í Kaupmannahöfn Lækningakver eftir hann en þá hafði hann nýlokið doktorsprófi í læknisfræði við háskólann í Kiel í Þýskalandi. Jón hafði verið í Þýskalandi í nokkur ár og kynnt sér geðveikrahæli og vatnslækningar en helstu sérfræðingar á því sviði voru þýskir. Hann var læknir í danska hernum um tíma en stóð síðan fyrir því að reist væri vatnslækningastofa í Klampenborg á Sjálandi og þar starfaði hann á árunum 1845-1851. Jón var einn helsti hugmyndasmiður og baráttumaður fyrir úrbótum í heilbrigðismálum allt frá því að hann lauk námi þar til hann hætti störfum. Hann var alla tíð umdeildur og lenti upp á kannt við marga samferðamenn sína enda lagði hann sig allan fram um að ná þeim markmiðum sem hann taldi nauðsynleg og var þá ekki ætíð með hugann við pólitískan leikaraskap.

Kaldavermsl-21

Hér mætti minnast á Tómas Stokkmann lækni í leikriti Henriks Ibsens, Þjóðníðingurinn, en hann stóð fyrir því að koma upp heilsuböðum í heimabæ sínum en lenti síðan í útistöðum við ýmsa fyrirmenn bæjarins vegna þess að vatnið var mengað. Jón Hjaltalín var líklega stundum á svipuðum nótum og Tómas Stokkmann. Af skrifum hans sem eru mikil að vöxtum má sjá hvaða aðferðum hann beitti við sjúklinga og hugmyndir hans um sjúkdóma. Lækningakver hans ber keim af því sem þá var vinsælast í Evrópu og hann hafði kynnt sér sérstaklega en það voru vatnslækningar. Jón taldi að hægt væri að lækna flesta sjúkdóma með „eintómu vatni“ og þar á meðal þá sem hann þekkti hvað best en það voru geðveiki og holdsveiki. Hann segir til dæmis um þá sem eru óðir að „eitthvert hið besta meðal við æði er að baða sjúkling jafnaðarlega í köldu vatni og hætta eigi fyrr en honum er orðið mjög kalt í hvert sinn. Líka er einkar gott að leggja kalda bakstra á höfuð honum og láta hann við og við fara í volg fótaböð“. (Þessar aðferðir voru raunar enn viðhafðar áratugum síðar á Kleppi.) Vitleysu (Dementria) var líka hægt að lækna með vatni vegna þess að „sjúkdómur þessi er oftast nær komin af meini í heilanum og mænukerfinu og þess vegna eru köld böð og einkanlega steypiböð og fossböð þeim einkar holl“.
Jón notaði einnig ölkelduvatn til lækninga eins og Konrad Maurer segir frá og í ævisögu Matthíasar Jochumssonar, Sögukaflar af sjálfum mér, er eftirfarandi frásögn. „Eitt sumar meðan ég bjó í Reykjavík hafði hún (þ.e. Ástríður dóttir hans) legið í barnsfararsótt. Tók ég hana þá suður til mín og kom vinur minn dr. Hjaltalín henni í það sinn til heilsu meðal annars með því að láta hana daglega, vikum saman, drekka ölkelduvatn blandað víni.“ Fjölmörg önnur dæmi eru um að fólk þakki heilsu sína ölkelduvatni og lagði á sig langt ferðalag til að fá slíkt vatn.
Olkelda-37Í Konungsskuggsjá er sagt að ekki sé hægt að reisa hús yfir ölkelduna og vatnið missi bragð og kraft ef það er flutt burtu. Það eru því ákveðin álög á staðnum og vatninu sem mönnum ber að virða svo hægt sé að nýta sér kraftinn. Það sama kemur fram í síðari frásögnum enda eru öll heilsuhæli reist við uppspretturnar og hvers vegna ekki gera það sama hérlendis. Það er ekki einungis hveravatnið, hvort heldur það er í Bláa lóninu eða í Hveragerði, og blávatnið úr Gvendarbrunnum sem er heilnæmt heldur einnig ölkelduvatnið. Milljónir manna um allan heim sækja í heilsulindir ölkelduvatnsins vegna þess að það telur sig fá bót meina sinna þar. Hinn frægi Hoffmann sem skrifaði lærða doðranta um ölkelduvatn á 18. öld sagði meðal annars: „Vissulega játa ég það sjálfur með óbrigðulli sannfæringu að ég vildi ekki vera læknir ef ég þekkti ekki dyggðir vatnanna og þá sérstaklega ölkelduvatnsins.“ Þótt það kunni að reynast erfitt að sanna hollustu ölkelduvatns með nútímavísindum þá er næsta víst að vatnið skaðar engan. Bólu-Hjálmar taldi sig hafa fengið bót meina sinna um tíma af ölkelduvatni en hann lagði það á sig að ganga úr Skagafirðinum út á Snæfellsnes til að drekka af heilsulindunum.
Íslenska ölkelduvatnið er auðlind sem við eigum að nýta eins og við nýtum annað vatn. Það vatn sem við getum nú keypt í flöskum úti í búð er ágætt til síns brúks en ekkert kemur í staðinn fyrir „gjöf frá náttúrunni“ eins og Konrad Maurer benti á.
„Sumar ölkeldur bafa í sjer brennisteinssúrt járn, og eru þær sterkari og áhrifameiri en þær, sem að eins hafa í sjer hið kolasúra járnið. Úr þeim verður að drekka með varkárni, því að drekki menn of mikið af slíku ölkelduvatni í einu, er hætt við, að það valdi innantökum, en að öðru leyti eru þær mjög kröptugar. Í Henglafjöllum eru margar ölkeldur; þær eru ljúffengar, en eigi mjðg sterkar; flestar þeirra eru heitari en ölkeldurnar fyrir vestan. Ölkeldurnar á Ölkelduhálsi, suðaustanvert við Henglafjöll, hafa í sjer talsvert kolasúrt natron og kali, og mundu því einkar góðar gegn magoaleysisgigt, enda hef jeg heldur sjeð góð áhrif af því vatni gegn veiklun í mænukerfinu.“
Kaldavermsl-22Í Þrengslum í Miðdal vestan megin við ána er stór kalksteinshver undir bröttum klettavegg, fast við ána. Hverinn myndar stóran kalksteinsstall og eru aðaluppspretturnar ofan á stallinum. Vatn úr mörgum smáuppsprettum koma hinsvegar fram undan stallinum og í mölinni til beggja handa, m.a ofan í ánni. Heitasta uppsprettan ofan á stallinum kemur upp í djúpri gjótu eða opi fast við klettinn. Vatnið var tært og hitastig þess var 91°C. Framar á stallinum var önnur talsvert kaldari uppspretta (39°C). Þar virtist vatn koma 72 upp um nokkur smáaugu innan um smásteina og grjót húðað talsverðum kalksteinsútfellingum. Grjótið hefur sennilega hrunið niður úr klettinum og mátti sjá nýhrunið grjót ofan á stallinum. Kalksteinsstallurinn er nokkuð farinn að láta á sjá, orðinn grár og farinn að molna og plöntur hafa tekið sér bólfestu í hliðum hans. Ástæðan er greinilega sú að heitt vatn seytlar ekki lengur fram af honum og nær ekki að viðhalda útfellingunum. Ofan á honum eru hinsvegar nýlegar útfellingar þar sem heitt hveravatnið leikur um. Grænar örveruskánir mátti sjá á klettunum ofan við heitara augað ásamt rauðbrúnum útfellingum. Talsverður grænn þörungavöxtur var í volgum eða köldum pollum á stallinum. Ljósmosagrænar og bleikar örveruslikjur var einnig að sjá á kalksteinsútfellingunum þar sem vatn seytlaði ekki reglulega en þar var hitastigið einungis á bilinu 4-17°C.
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala (voru fyrrum nefndar Hagavíkurlaugar, en eftir landuppskipti færðust þær inn í Ölfusvatnsland). Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.

Heimild m.a.:
-Laugardaginn 10. febrúar, 2001 – Menningarblað/Lesbók eftir Ólaf Ísberg, sagnfræðing.
-Sæmundur fróði, 1. árg. 1874, bls. 188.
-Mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana í Hverahlíð og við Ölkelduháls, Athugun á lífríki hvera – Unnið fyrir Orkuveitu Reykjavíkur nóvember 2006, Sólveig K. Pétursdóttir, Tryggvi Þórðarson, Steinunn Magnúsdóttir, Guðmundur Óli Hreggviðsson.
-isor.is

Ölfusvatnsölkelda

Ölfusvatnsölkelda.

Gufunes

Gufunes er nesið austur af Viðeyjarsundi, suðvestan Eiðsvíkur. „Gufunes virðist snemma hafa orðið sjálfstæð jörð og kirkja (Maríukirkja) er þar komin um 1150 og henni fylgdi kirkjugarður. Gufuneskirkja var lögð niður 1886 en beinin úr kirkjugarðinum voru tekin upp árið 1968 og flutt í nýjan grafreit vegna byggingarframkvæmda Áburðarverksmiðjunnar.“ Skv. upplýsingum Sigurðar Hreiðars var kirkjan í Gufunesi hins vegar ekki tekin niður fyrr en 1888 þegar hafin var smíði nýrrar kirkju að Lágafelli sem kom í stað kirkjanna að Gufunesi og Mosfelli og sóknirnar sameinaðar.

Gufunes

Nú á dögum er Gufunesið hluti af Grafarvogshverfi. Norðaustan og norðan þess er Eiðsvík og Geldinganes og að sunnan er Grafarvogur. Ein útgáfa Landnámu segir frá Katli gufu Örlygssyni, sem átti þar vetursetu og önnur frá Gufu Ketilssyni. Getgátur eru einnig uppi um aðra ástæðu nafngiftar nessins, þ.á.m. uppgufun úr leirunum í sólskini um fjöru. Hús bæjarins, kirkjan og kirkjugarðurinn voru á hól vestan núverandi skrifstofubyggingar áburðarverksmiðju.
Örnefnin Akur og Fjósaklettar eru yst á Gufunesi. Talið er að korn hafi verið ræktað á Gufunesi eins og örnefnið Akurinn gefur til kynna. Einnig er líklegt, að jörðin hafi átt hlut í laxveiðum í Elliðaánum 1235. Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina í kringum 1313 og hún er skráð sem slík 1395. Samtímis því var stunduð verzlun á Gufunesi. Við siðaskiptin 1248 varð jörðin eign konungs. Skömmu eftir að Skúli fógeti Magnússon fluttist til Viðeyjar lét hann flytja þaðan spítala, eða dvalarstað eldri borgara, til Gufuness (1752). Hann var lagður niður 1795. Jörðin var seld skömmu fyrir aldamótin 1800 og Bjarni Thorarensen skáld bjó þar 1816-33, þegar hann var dómari í landsyfirrétti.
Kirkjan var lögð af 1886 (1888) og beinin úr kirkjugarðinum voru flutt í nýjan reit sunnar í túninu 1978, þegar hafizt var handa við byggingu áburðarverksmiðjunnar.
GufunesÍ Fornleifaskráningarskýrslu fyrir Gufunes 2004 segir m.a.: „Elstu heimildir um Gufunes er að finna í Landnámu bæði í Hauksbók og Styrmisbók, bækur þessar eru samhljóða um landnámsmanninn Ketil gufu Örlygsson, ætt hans og mægðir. Þó er Hauksbók fyllri um búsetu hans en þar segir: „Ketill … kom út síð landnámatíðar; hann hafði verit í vestrvíking … Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann þar hinn fyrsta vetr at Gufuskálum, en um várit fór hann inn á Nes ok sat at Gufunesi annan vetr. … Ketill fekk engan bústað á Nesjum, ok fór hann inn í BorgarfjQrð at leita sér at bústað ok sat inn þriðja vetr á Gufuskálum við Gufá.”
Fáar eða engar heimildir eru um Gufunes næstu aldirnar. Kirkja hefur verið sett í Gufunesi fyrir 1180 og helguð Maríu Guðsmóður því það ár er kirkjunni settur máldagi af Þorláki biskupi Þórhallssyni. Í máldaganum segir meðal annars: Mariu kirkia a gufunesi a xx c i lande oc kyr .ij. kross oc kluckur. silfr calec oc messo fot. tiolld vm hverfis. alltara klæþe .iij. Vatn ker. gloþa ker oc elldbera. slopp oc munnlogar .ij. lás oc kertta stikur .ij. Þar scal tíund heima oc af nio bæiom oc sva groptir. þar scal vera prestr oc syngia allar heimilis tiþir. ij. messor hvern dag vm langa fosto. messa hvern vigiliu dag. hvern dag vm jola fosto .ij. messor. nacqvern imbrodag a jola fosto. oc of haust. lysa fra mario messo vnz liþr paska vico.

Gufunes

Um 1230 er skrifað bréf um tolla og ítök Gufunesinga í Viðey, „ … sem Snorri Illugason lagði aptr.” Jón Sigurðsson forseti ritaði ítarlegan inngang að bréfinu í Fornbréfasafninu. Þar segir hann að Ásgeir prestur Guðmundsson, sem var fóstri Illuga, föður Snorra, sem lagði aftur tollana, muni líklega hafa verið sá sem talinn var með helstu prestum í Sunnlendingafjórðungi árið 1143 en hann andaðist líklega um 1180. Jón segir að síra Ásgeir hafi án efa búið í Gufunesi, að minnsta kosti um hríð. Hann telur Ásgeir hafa á ofanverðri ævi sinni selt Illuga fóstursyni sínum Gufunes en eftir hans daga hafi erfingjar hans rift kaupunum. Máldagi kirkjunnar hér að ofan gæti því lýst gripum og eignum kirkjunnar á ofanverðum dögum síra Ásgeirs.
SandfjaraÍ Sturlungu er getið um deilur þeirra Snorra Sturlusonar og Magnúsar Guðmundssonar biskupsefni, um arf eftir Jórunni ríku: ,,Jórunn hin auðga hét kona, er bjó á Gufunesi. Atli hét maðr sá, er at búi var með henni. Þeir voru þrír bræður, Svartr og Eiríkr, synir Eyjólfs Óblauðssonar. Í þann tíma andaðist Jórunn ok átti engan erfingja, þann er skil væri at en hon var í þingi með Magnúsi, ok ætlaði hann sér fé hennar, en skipta frændum hennar til handa slíkt, sem honum sýndist. En er Snorri spurði þetta, sendi hann suður á nes Starkað Snorrason. En er hann kom sunnan, hafði hann með sér þann mann, er Koðrán hét, strák einn, ok kallaði Snorri þann erfingja Jórunnar, ok tók hann þat fémál af Koðráni.
Var loks gerð sætt þeirra og var landið leyst til handa Atla. Í bréfinu um tolla og ítök Gufunesinga í Viðey, sem fyrr var getið segir að: „ … þá andaðist Asgeirr. oc tokv þav arf epter hann Olafr Þorvarðs son oc kona hans.” Jón KlukknaportiðSigurðsson taldi ekki ólíklegt að sú kona hafi verið Jórunn ríka og hún hafi þá búið í Gufunesi um 1214 og andast um svipað leyti.
Í sögu Árna biskups Þorlákssonar er getið Þormóðar í Gufunesi og konu hans Þóru Finnsdóttur frá Hömrum. Þau hjón hafa líklega verið fædd um aldamótin 1200 og búið í Gufunesi einhvern tíma fyrir miðbik þrettándu aldar. Í máldaga um veiði í Elliðaám frá því um 1235 er nefndur Þormóður Svartsson og mun hann líklega vera þessi Þormóður.
MinnisvarðiLítið fer fyrir Gufunesi í heimildum fyrr en við siðaskipti. Þá er jörðin komin í konungseign og er hennar getið í fógetareikningum á þessum tíma. Tvíbýli hefur verið í Gufunesi á árunum 1548-1553 en þá er ein leigukýr Bessastaðamanna hjá Lofti, ábúanda í Gufunesi og ein hjá Gissuri á sama stað „…bleff hannem thenne lege til giffet forskipeferd till Sternes.”
Kirkjunnar í Gufunesi er getið í Gíslamáldaga frá 1570 og síðar og gripir hennar og eignir taldar upp en þeim hafði fækkað mjög síðan fyrir siðaskipti. Í Jarðabókinni er Gufunes kirkjustaður og annexía frá Mosfelli. Sigurður lögréttumaður Högnason bjó þá á allri jörðinni. Landskuld jarðarinnar var að því er virðist níutíu álnir. Kúgildi kirkjunnar voru tvö, hálfum leigum galt hann presti en hélt hinum helmingnum, en leigukúgildi var ekkert. Kvikfénaður Sigurðar var tíu kýr, ein kvíga veturgömul, tíu ær með lömbum, einn sauður tvævetur, átta veturgamlir, tveir hestar, eitt hross og tveir folar tvævetrir. Jörðin gat fóðrað átta kýr, eitt ungneyti og tíu lömb, en heimilismenn voru átta. Hlunnindi bæði jarðar og kirkju voru góð.16 Hjáleigur eru skráðar fjórar í Jarðabókinni. Fyrsta hjáleiga er nafnlaus, en þar bjó þá Jón Knútsson, hugsanlega er það Knútskot. Önnur er Brands Kot, þar var ábúandi Guðbrandur Tómasson. Þriðja var Holkot, þar var ábúandi Jón Arason. 

Áletrun

Fjórða var Helguhjáleiga, þar voru ábúendur tveir, Helga Ólafsdóttir sem bjó á hálfri en Margrét Þorsteinsdóttir á hinum helmingnum. Ekki er vita hvar þessar hjáleigur voru nákvæmlega nema hugsanlega Knútskot. Gufunesjörðin átti landamerki að Keldum, Korpúlfssöðum og Eiði.
Kirkja var í Gufunesi til 1886 en með landshöfðingjabréfi dagsettu 21. september. 1886 eru Mosfells og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar sóknir að Lágafelli. Staðsetning kirkjunar glataðist með tímanum en við byggingaframkvæmdir við Áburðaverksmiðjuna 1978 komu upp mannabein sem reyndust tilheyra gamla kirkjugarðinum. Ákveðið var að láta grafreitinn víkja fyrir framkvæmdum og voru beinin flutt í nýjan grafreit í túninu.
StekkurVarðveist hefur altari úr kirkjunni. Það barst að Úlfarsfelli eftir að kirkjan í Gufunesi var aflögð. Þar var það lengi notað sem búrskápur, þar til séra Hálfdán Helgason á Mosfelli rakst á það og flutti heim að Mosfelli og notaði það við hjónavígslur. Síðar var það flutt að Reykjalundi og gert upp og er notað þar við guðþjónustur.
Bæjarsjóður keypti jörðina árið 1924 ásamt Eiði og Knútskoti. Landsími Íslands lét reisa fjarskiptastöð á Gufunesmelum, þegar verið var að koma á talsambandi við útlönd 1935. Síðustu ábúendurnir í Gufunesi voru hjónin Þorgeir Jónsson og Guðný Guðlaugsdóttir en þau fluttu í Gufunes frá Viðey 1938. Þorgeir var landsþekktur glímukappi og hestamaður.
StekkurÁ stríðstíma hafði herinn aðsetur í Gufunesi og reis þá braggahverfi norðvestan við bæinn.
Áburðarverksmiðja var byggð fyrir austan bæinn 1952. Raskaði sú bygging mjög minjum samanber að flytja varð kirkjugarðinn. Gufunesbærinn var síðan fluttur 1954, eftir að Áburðaverksmiðjan var komin í rekstur. Nýi bærinn stendur enn við fyrrum Gufunesvog en mun sunnar, þar er nú rekin starfssemi ÍTR. Í Gufunesvogi voru sorphaugar Reykjavíkur til langs tíma og var vogurinn þá fylltur upp með sorpi.“
Þá segir í skýrslunni um einstakar minjar: Gufunes – kirkja, aldur: 1180-1886, horfin: Já. Staðhættir: ,,Kirkjustaður var í Gufunesi, … en þá var kirkjan flutt að Lágafelli. Kirkjan stóð 30-40 m sunnan við bæinn á hól einum. Þegar grafið var fyrir verksmiðjunni í Gufunesi var komið niður á kirkjugarð og var hann færður sunnar. Þar er nú klukknaport.” Fyrir dyrum hinnar niðurlögðu kirkju á Gufunesi var legsteinn sem mælt er að upp hafi komið úr moldu er kirkjan var stækkuð eða færð fram. Steinn þessi tilheyrði Högna Sigurðssyni bónda í Gufunesi sem lést 1671. Kirkjan var úr timbri með múrbindingi og borðaklæðningu árið 1782-84. Kirkjustaður var í Gufunesi til 1886 en með landshöfðingjabréfi frá 21. september 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli.“
KnútskotGufunes – kirkjugarður, aldur: 1180-1886, horfin: Já. Staðhættir: „Í örnefnaskrá yfir Gufunes kemur fram að: ,,Kirkjustaður var í Gufunesi fram yfir síðustu aldamót, en þá var kirkjan flutt að Lágafelli. Kirkjan stóð 30-40 metrum sunnan við bæ á hól einum. Þegar grafið var fyrir verksmiðjunni í Gufunesi var komið niður á kirkjugarð og var hann færður sunnar. Þar er nú klukknaport.” Þegar sú ákvörðun var tekin árið 1952 af borgaryfirvöldum og Áburðarverksmiðjustjórn að á Gufunesi skyldi reisa verksmiðju, þá er hér hefur starfað í aldarfjórðung, var þeim er að þeirri ákvörðun stóðu ekki ljóst að á landsvæði sem úthlutað var, væri forn kirkjugarður, allt frá því á 13. öld, enda hafði yfirborð hans verið sléttað og staðsetning hans óljós. Hinn 28. júní 1965 var jarðvinna í næsta nágrenni við grunn nýbygginga stöðvuð, þar sem í ljós komu leifar grafinna í hinum gamla garði, sem var á allt öðrum stað en áætlað hafði verið. Þáverandi þjóðminjavörður Kristján Eldjárn, kom strax á staðinn ásamt biskupi og fleirum. Hinn 20. apríl tilkynnti biskup Íslands að moldir garðsins yrðu fluttar, með ákveðnum skilyrðum. Hinn 6. ágúst 1968 sama ár hófst flutningur ,,molda” undir stjórn Jóns Magnússonar bónda og verkstjóra frá Stardal. Verkinu lauk 3. okt. 1968. Sjá skýrslu ,,Færsla á gamla kirkjugarðinum í Gufunesi.”
MosfellskirkjaÁrið 1970 var kirkjugarðurinn nýi hlaðinn, samkvæmt hönnun Reynis Vilhjálmssonar. 34 ,,Hinn 6. ágúst var byrjað á að grafa upp og færa á nýjan stað gamla kirkjugarðinn í Gufunesi. Kirkjugarðurinn sem færður var líktist ávölum hólma vestast við syðstu áburðarskemmurnar. Stærð hans var 40 x 38 m hæð, um 1.8-2 m og slétt móhelluklöpp undir.Við uppgröftinn komu upp 768 mannabein eða höfuðkúpur, beinin voru látin í 125 kassa, sem allir voru af sömu gerð og stærð. Allar gamlar kistuleifar, sem voru ekki annað en fjalabútar voru látnar fylgja kössunum og raðað á botninn undir þá. 

Örnefnakort

Undir lokfjöl einnar kistunnar lá silfurskjöldur áletraður, Páll Jónsson sýslumaður, Elliðavatni, settur sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1801-1803, dáinn 1819. Og í annarri kistu fundust tvö silfurlauf af sömu gerð, en mismunandi stærð. Þessi lauf voru við höfða- og fótagafl. Í þriðju kistunni lá naglbítur. Þessir gripir eiga að fara á Þjóðminjasafnið, eftir ósk Þjóðminjavarðar Þórs Magnússonar. Hann kom og tók í sína vörslu bein Páls Jónssonar, sýslumanns.”
,,Í nýja grafreitnum er nú klukknaport. Grafsvæðið er hringlaga, um 35m í þvermál, hið ytra, en 15m – 19m hið innra. Veggir úr torfi, 0,8m á hæð að innanverðu og lækka jafnt út. Klukknaport er í NNV. Í garðinum er minnisvarði úr steini (granít) sem á stendur: „Hér hvílir duft þeirra, sem greftraðir voru að Maríukirkju í Gufunesi. Kirkja var í Gufunesi í fullar sjö aldir. Árið 1886 var hún niður lögð. Moldir kirkjugrunns og kirkjugarðs voru hingað fluttar árið 1968 til þess að friða þær fyrir umferð og mannvirkjagerð. SÆLIR ERU DÁNIR, ÞEIR SEM Í DROTTNI DEYJA. Op. 14,13. JESÚS KRISTUR ER Í GÆR OG Í DAG HINN SAMI OG UM ALDIR. Hebr. 13,8.“

Gufunes í dag

,,Nyrst, þar sem verksmiðjan er núna var mjög grasgefin flöt sem hét Akur”. Heimildir eru fyrir kornrækt í Gufunesi. ,,Akur var mjög grasgefið land, er var nyrst á nesinu.” Þar er nú geymsla. Nokkuð nákvæma staðsetningu akursins er að finna á korti frá 1922 og er hann þá staðsettur vestan við geymslu. Á þeim stöðum þar sem akurinn hefur verið er búið að fylla upp og búa til plan.“
Fyrsta hjáleiga Gufuness er ekki nefnd með nafni í Jarðabók Árna og Páls 1703, þar gæti þó verið um Knútskot að ræða, því að þar var ábúandi Jón Knútsson. Landsskuld var þá xlv álnir, leigukúgildi eitt og heimilismenn þrír.108 Í Jarðabók Johnsen sem nær yfir tímabilið 1835-1845 er Knútskot einnig nefnt Núpakot og er það eina hjáleiga Gufuness þá, jarðardýrðleiki var fimm hundruð og ábúandi einn sem var leigjandi. Gamla Knútskot var á bakkanum við voginn og var það í ábúð 1916 þegar túnakort er gert, en það var flutt ofar í brekkuna fyrir ofan veginn að Áburðaverksmiðjunni, en Gufunesútihúsin stóðu alltaf þar sem gamli bærinn var, samanber kort frá 1922. Engar rústir eru lengur sjáanlegar á þessu svæði. Gamla Knútskotið er farið undir fyllingar, en sléttað hefur verið úr því Knútskoti sem var í brekkunni. Ljósmynd af nýrra húsinu er t.d. að finna í Sögu Mosfellsbæjar.“
Frábært veður. Gangan um svæðið tók 1. klst. og 1 mín. Erfitt reyndist að finna einhvern inni á lokuðu svæði fyrrum Áburðarverksmiðjunnar, en snubbótt girðingin kom þó ekki í veg fyrir að svæðið væri skoðað með hliðsjón af framangreindu.

Heimild m.a.:
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Gufuness og hjáleigu hennar Knútskots, Minjasafn Reykjavíkur – Árbæjarsafn, Skýrsla nr 115 – Reykjavík 2004.
-Sigurður Hreiðar, Mosfellsbæ.

Gufunes

Gufunes.

Setbergshellir

Gengið var frá Mosum sunnan Smyrlabúða og haldið norður Selvogsgötu. Ætlunin var að ganga um Gráhelluhraun, niður um Lækjarbotna og enda við stekkinn í Stekkjarhrauni.
Þegar komið var að Smyrlabúðarhrauni var gengið norður með vesturjaðri þess svo sem Selvogsgatan liggur. Ekki leið á löngu þangað til komið var að því er virtist hlöðnu gerði utan í grónum hraunbolla. Áður hafði jafnvel verið talið að þarna gæti hafa verið um hraunskrið úr hlíðinni andspænis að ræða, en við nánari skoðun virðist þarna vera um fyrrum hlaðinn vegg að ræða. Grjótið hefur verið tekið úr hlíðinni, enda handhægt, og raðað reglulega í bogadreginn vegg. Veggurinn virðist hafa verið hlaðinn til að loka af bollanum. Ekki er ólíklegt að þar fyrir innan hafi hestar eða fé verið geymt á ferðum Selvogsmanna í Fjörðinn. Þarna gæti jafnvel verið tilkomið búðarnafnið á Hraunið. Staðurinn er kjörinn áningarstaður áður en haldið hefur verið síðasta áfangann niður í þorpið. Hann er skjólgóður og ágæt beit við hendina.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Annars eru framangrein hraun eitt og hið sama; Búrfellshraun. Það er talið hafa runnið um 5300 f. Kr.. Annar angi þess rann til norðurs og kom niður á Álftanesi, beggja vegna. Hraunið ber t.d. nöfnin Urriðavatnshraun (Urriðakotshraun), Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun og Gálgahraun.
Hinn angi þess rann til norðvesturs. Í honum eru Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun.
Gengin var gatan framhjá Kershelli og haldið niður að Setbergshelli, gömlum fjárhelli Setbergsbænda og að hluta til Hamarskotsbænda. Gamla Selvogsgatan lá svo að segja í gegnum aðstöðuna, eða með austurjarðri hennar, skammt ofan við rétt eða stekk í gróinni laut.

Setbergshellir

Setbergsfjárhellir.

Hellirinn er með myndarlegri hleðslu Setbergshellismegin, auk þverhleðslu er aðskilur hann frá Hamarskotsbóndahlutanum. Í hellinnum vour síðast hafðar geitur, en Setbergsbóndi færði fé sitt úr hellinum, sem einnig var notaður sem selstaða um tíma, enda ber umhverfið þess glögg merki, upp á Setbergshlíðina norðan Þverhlíðar. Þar má sjá rústir hlaðins fjárhúss ofan við fallega hlaðna vörðu. Önnur fallega hlaðin varða er nokkur sunnar á hlíðinni, gegnt selinu.

Í stað þess að fylga Selvogsgötunni var gengi þvert á Gráhelluhraun og síðan haldið eftir því til norðurs, að Gráhellu.

Gráhella

Gráhella.

Gráhella er ílöng klettaborg í austanverðu hrauninu. Norðan undir henni eru hlaðnar rústir gerðist og húss. Þau mannvirki munu Setbergsbændur hafa nýtt sér fyrir fjárhald sitt, en Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi um og fyrir aldamótin 1900 var einn fjármesti bóndi landsvæðsins og jafnvel þótt lengra væri leitað. Faðir hans var um tíma bóndi á Geysi í Haukadal, en ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum. Var hann jafnan nefndur „hinn fjárglöggi“ því hann kunni skil á öllum fjármörkum sem kunna þurfti skil á. Dóttir Jóns á Setbergi bjó m.a. á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og önnur á Urriðakoti, svo nærtæk dæmi séu nefnd.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – skilti.

Þegar komið var niður í Lækjarbotna var strax tekið eftir því að þar hafði nýlega verið sett upp upplýsingaskilti um vatnsveituna, sem þar var, en vatnsveita í Hafnarfirði átti aldarafmæli árið 2004. Skiltið stendur við hlaðnar undirstöður undir fyrrum lindarhús. Á því stendur eftirfarandi:
“Fram til 1904 var engin vatnsveita í hafnarfirði, en þða ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið stóð meðal annars að því að grafnir vour brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá þegar tengd veitunni, en auk þess voru settir upp vatnspóstar víða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttur sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerða.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landsverkfræðings, en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið héðan vegna þess hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og þaðan lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár, en þó þurfti oftar en einu sinni að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóns Ísleifssonar verfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðfrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Setbergshlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma, en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949, en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjánlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951”.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Skammt neðar er hlaðin stífla, tengd vatnsveitunni í Lækjarbotnum. Ofurlítið norðar er áberandi grágrýtissteinn; eyktarmark frá Setbergi. Af útlitinu mætti vel ætla að í honum byggi huldufólk, eða a.m.k. álfar.
Læknum var fylgt niður að Stekkjarhrauni. Gengið var þvert á hraunið uns komið var að stekknum, sem hraunið dregur nafn sitt af. Hann er í náttúrlegri hraunkvos með klettaveggi á þrjá vegu. Framst er hlaðin fyrirstaða. Skammt suðvestar er hlaðið gerði í einni lautinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Ártún

Í Fornleifaskráningu jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, sem unnin var af Minjasafni Reykjavíkur árið 2010, má lesa eftirfarandi um Ártúnsrétt. Réttin, sem er orðin nokkur gróin, sést enn nokkuð vel ofan Ártúnsár (en svo nefnist Blikadalsáin neðan Mannskaðafoss) að norðanverðu.

Ártúnsrétt

Ártúnsrétt.

„Tóftir Ártúnsréttar eru 210 m norðaustur af bæjarhól Ártúns. Neðanvið tóftirnar eru einnig stríðsminjar, leifar stöðvar fyrir loftvarnarbyssu.

Rústirnar eru grasivaxnar. Stórt hólf, 12×12 m, sem opnast í suður með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1,5 m. Austan við hólfið eru tvö minni, það efra er 7×7 m með grjóthlöðnum veggjum, hæst 1 m, ekkert sjáanlegt op. Hitt hólfið er 7×3 m, hæst 1 m, og opnast í vestur. Á milli þeirra gæti hafa verið eitt rými. Fyrir neðan og austan eru tveir grjóthringir en þeim hefur verið raðað saman með einfaldri steinaröð. Kristrún Ósk Kalmansdóttir man vel eftir lítilli rétt með þremur hólfum og almenningi fyrir kannski þrjátíu kindur en réttin var ekki notuð í hennar tíð. Minnst er á Ártúnsrétt árið 1842 í þinglesinni tilkynningu frá Runólfi Þórðarsyni í Saurbæ sem varðaði upprekstur búfjár á Bleikdal/Blikdal. Hlutverk hennar hefur án efa breyst í gegnum tíðina.
Rústirnar gætu hafa raskast eitthvað þegar herinn gerði stæði fyrir loftvarnarbyssur við réttina á heimsstyrjaldarárunum síðari.“

Heimkild:
-Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Minjasafn Reykjavíkur 2010.

Ártún

Ártúnsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Draugshellir

Samþykki jarðeigenda hafði fengist til að opna Draugshellinn í Litlalandslandi í Ölfusi. Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. Þá tapaðist vitneskjan um opið. Draugasaga er kennd við hellinn og hann því vel þjóðsagnarkenndur. Um Draugshelli er skráð saga í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki við í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.

Draugshellir

Bóndinn á Litlalandi við hellisopið.

Nú var ætlunin að reyna að finna opið og þar með hellinn. Þátttakendur mættu með stunguskólfur við Litlaland í birtingu. Byrjað var á því að bera saman gögn og munnmæli og bera hvorutveggja saman við landshætti
Í örnefnalýsingu fyrir Litlaland frá 17. nóv. 1968 eftir Eirík Einarsson, segir m.a.: „Sunnan undir honum (Litlalandsáss) er Draugshellir, lítill hraunhellir í mörkum Litlalands og Breiðabólsstaðar…“.
Í annarri örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir.”
Þegar framangreind möguleg misvísun var borin undir heimamann kom í ljós að Litlalandsháls er múlinn eða ásinn ofan við hól þann, sem Draugshellir átti að vera við. Syðst í ásnum eru Rifjabrekkur. Allt virtist því koma heim og saman við fyrirliggjandi lýsingar.

Draugshellir

Grafið í Draugshelli.

Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hon gömlu landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðnorðaustan við bæinn. Vel mátti greina hin gömlu gróðurmörk því eldri girðing virðist hafa verið í línunni, skammt vestan núverandi girðingar. Þá benti hann á að fyrir ári síðan hafi op opnast í túninu á tilgreindum stað og vatn lekið þar niður. Hafi bóndinn fyllt upp í það með tveimur dráttarvélaskólfum.
Gróið hafði yfir það. Staðurinn var vestan við tilnefndan hól á landamörkunum, sem fyrr segir.
Hafist var handa við mokstur. Þátttakendur unnu kappsamlega og ekki leið á löngu að sjá mátti niður um opið. Skurður var stækkaður og lengdur og grafið var með stefnu á miðju jarðar. Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn. Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir, litlu minni en t.d. Bjargarhellir eða Strandarhellir. Einn þátttakenda skreið inn og skoðaði sig um. Mikil mold hefur runnið niður í hellinn á löngum tíma, en svona til að undirstrika að mannvistarleifar væri að finna í honum, skein ljósið á bein á moldinni í miðjum hellinum. Það var látið óhreift.

Draugshellir

Opið.

Ljóst er að mikil vinna verður að hreinsa moldina úr hellinum. Grafið var spölkorn áfram niður framan við opið, en ljóst er að þar er enn talsvert niður á fast. Hér getur því orðið um þarft verkefni fyrir vinnuskólabörn í Ölfushreppi að vinna á sumri komanda. Þá þurfa fornleifafræðingar að líta þarna við og skoða fyrirbærið, því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.
Draugshellir er fundinn. FERLIRsfélagar voru ánægðir með ágætt dagsverk. Samráð verður haft við landeigandann um frágang við hellisopið.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. „Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.

Draugshellir

Draugshellir.

Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“ Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“. „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.“

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Selvogsgata

„Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.
Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.
Selvogsgata Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Hlíðarborg

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.
Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.
Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.
Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg Ániá sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.
Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús. Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
SelvogsgataÍ lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.
Sjá MYNDIR.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Grindarskörð