Ingjaldur

Í Lesbók Morgunblaðsins 1927 fjallar Árni Óla um Nilson skipstjóra á Anlaby – “Úr sögu landhelgisvarnanna”:

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

“Það var rjett fyrir aldamótin, að yfirgangur erlenrka botnvörpuskipa byrjaði hjer við land fyrir alvöru. Landhelgisgæsluna hafði þá danska skipið “Heimdallur” og gekk hann vel fram þann tíma ársins, sem hann var hjer við land. En á haustin og fyrri hluta vetrar var landið varnarlaust, að kalla mátti, fyrir ásælni og yfirgangi útlendinga. Óðu þeir þá uppi hjer eins og stigamenn og voru ósvífnari en dæmi eru til nú á dögum.
Árið 1899 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Þá var það um haustið, dagana 4.- 9. október, að enskt botnvörpuskip var stöðugt að veiðum inni á Dýrafirði og var oft að toga alveg uppi í landsteinum. Dýrfirðingum þótti þetta illur vágestur. Tóku þeir því saman ráð sín og gerðu sendimann, Guðjón Friðriksson að nafni, á fund sýslumanns til þess að kæra skip þetta.
Kom Guðjón til Ísafjarðar hinn 9. október og bar mál þetta upp fyrir sýslumanni. Brá hann þegar við og fór um nóttina með sendimanni yfir til Dýrafjarðar, og komu þeir þar að morgni. Var þá skipið að veiðum fram undan Haukadal, og örskamt undan Landi.
Hannes Hafstein fjekk sjer nú bát og fór við 6. mann út að skipinu. Var veður kalt og hráslagalegt. Mennirnir, sem með honum voru hjetu: Jóhannes Guðmundsson, Bessastöðum, Guðmundur Jónsson á Bakka, Jón Þórðarson, Jón Gunnarsson og Guðjón Friðriksson, sá er áður er nefndur.
Á botnvörpuskipinu var einn Íslendingur, Valdemar Rögnvaldsson að nafni, búsettur í Keflavík. Var það mál manna, að hann hefði þekkt sýslumann áður en báturinu náði skipinu, enda þótt sýslumaður væri í yfirhöfn utan yfir einkennisbúningi sínum. Segir sagan, að hann hafi varað skipverja við því, að hætta væri á ferðum, því að þeir bjuggust til varnar með bareflum þá er báturinn nálgaðist.

Ingjaldur

Ingjaldur – landhelgisbátur.

Sýslumaður ávarpaði nú skipstjóra og vildi fá að komast upp á skipið, en hinn svaraði aðeins ónotum og skömmum. Reyndu bátverjar þá að ná í kaðal, sem hjekk útbyrðis, en tókst það ekki, og seig báturinn þannig aftur með skipinu, sem var á hægri ferð. Þegar báturinn kom aftur undir skut náðu bátverjar í vörpuvírinn og drógust svo með skipinu um stund. En er skipverjar sáu það, þutu þeir aftur í skut með ópum og óhljóðum og báru sig vígamannlega. Hannes Hafstein sýndi þá einkennisbúning sinn og krafist þess af skipstjóra, að hann ljeti sig ná uppgöngu á skipið. En skipverjar svöruðu með því, að skjóta þungri og stórri ár á bátverja, en til allrar hamingju hittu þeir engan þeirra, því að hverjum þeim, sem árin hæfði, hefði verið stórmeiðsl eða bani búinn. Síðan slökuðu skipverjar alt í einu á vörpuvírnum. Lenti þá vírinn á bátnum svo að hann stakst á stefnið og sökk.
Skipverjar skeyttu þessu engu, en fóru að draga inn vörpuna. — Máttu þeir þó sjá, að allir þeir, sem á bátnum höfðu verið, voru í bráðum lífsháska. Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í háfinn og hjeldu sjer þar. En hinir fjórir skoluðust nokkuð í burtu.

Dýrafjörður

Dýrafjörður – minnismerki um atburðinn á Dýrafirði 1899.

Voru þeir allir ósyndir nema sýslumaður, sem var syndur eins og selur og hið mesta karlmenni. Reyndi hann eftir föngum að bjarga þeim fjelögum Jóhannesi, Guðmundi og Jóni Þórðarsyni og draga þá að bátnum. Lá þá við sjálft að það mundi verða til þess að hann drukknaði þar, því að í fátinu, sem á hinum drukknandi mönnum var, drógu þeir sýslumann hvað eftir annað í kaf, og mun hann ekki hafa komist í aðra þrekraun meiri.
Skipverjar horfðu á þá fjelaga berjast við dauðann rjett utan við borðstokkinn, en það ljetu þeir ekki á sig fá. — En í landi sáu menn aðfarirnar og var skotið fram tveimur bátum til þess að reyna að bjarga þeim fjelögum. Þá er bátar þessir voru komnir miðja vega milli lands og skips, var svo að sjá, sem skipverjar iðruðust framferðis síns, því að þeir gerðu sig líklega til þess að skjóta út björgunarbáti. En þó hættu þeir við það aftur og fleygðu út kaðli og bjarghjring til hinna druknandi manna- Þá voru sokknir þeir 3, sem ekki náðu í bátinn. Þeim Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í bjarghringinn, en Hannes Hafstein náði í kaðalinn og brá honum utan um sig. Mátti ekki tæpara standa, því að um leið og hann hafði bundið sig þannig, leið yfir hann. Var hann örmagna af sjávarkulda og áreynslu og vissi ekki af sjer fyr en nokkru síðar. Höfðu skipverjar þá dregið hann og hina 2 upp á þilfar. Lágu þeir þar milli heims og heljar þangað til bátarnir komu frá landi. Með þeim fluttust þeir í land og voru bornir heim til Matthíasar Ólafssonar í Haukadal.
Þegar er skipið hafði losnað við menn þá, er björguðust, ljet það í haf og höfðu menn ekki meira af því í það sinn. Bjuggust margir við, að ekki yrði hægt að hafa hendur í hári sökudólganna, því að þeir höfðu málað yfir suma stafi í nafni og númeri skipsins. Gátu þeir sýslumaður eigi lesið annað en þetta: OYALI H 42.
Á þessum árum var hjer enginn ritsími nje talsími og bárust því fregnir seint og illa yfir landið. En hjer stóð svo á, að skip kom frá Vestfjörðum hingað til Reykjavíkur fáum dögum seinna og flutti fregnir af þessum atburði- — Hinn 26. október sigldi Tryggvi Gunnarsson bankastjóri hjeðan með „Laura” til Kaupmannahafnar og hafði frjett um atburð þennan rjett áður en hann fór. „Laura” kom til Kaupmannahafnar 8. nóv. og þann sama dag varð Tryggva gengið þar inn á veitingahús. Þar voru dagblöðin til sýnis og í þeim sá Tryggvi smáfrjett um það, að enskur botnvörpungur, „Royalist” að nafni, hefði verið tekinn að ólöglegum veiðum hjá Jótlandsskaga og fluttur til Frederikshavn.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Sagan um viðureign Hannesar Hafstein við botnvörpunginn á Dýrafirði, var Tryggva enn í fersku minni, þar sem hann hafði heyrt fréttina rjett áður en hann steig á skipsfjöl í Reykjavík. — Kemur honum þá undir eins til hugar: Þetta skyldi þó aldrei vera sama skipið? „OYALI” hjet það — og mun þá eigi hafi vantað R fyrir framan og ST fyrir aftan — að málað hafi verið yfir þá stafi?
Tryggvi ljet ekki við það sitja að draga þetta tvennt saman í huga sínum. Hann símaði þegar til Ólafs Halldórssonar, sem þá var á íslensku skrifstofunni í Kaupmannahöfn, og sagði honum frá grun sínum. – Ólafur var heldur eigi sá maður, að hann hleypti þessu frá sjer, hversu ótrúleg, sem honum hefir sagan virst. — Hann sneri sjer þegar til hinna dönsku stjórnarvalda. Þá var svo komið, að Nilsson skipstjóri á „Royalist” hafði gengið inn á sátt í Frederikshavn fyrir landhelgisbrot og var í þann veginn að fara þaðan. Stóð aðeins á því, að hann hafði eigi fengið skipsskjölin afhent. Var hann nú kyrrsettur að nýju og kom þá upp úr kafinu, að þetta var sama skipið sem valdið hafði manndrápunum á Dýrafirði 10. október þá um haustið. Voru nú þrír af skipverjunum, Nilsson skipstjóri (sænskur), Holnigrén stýrimaður og Rugaard matsveinn settir í varðhald og mál höfðað gegn þeim.
Vegir forlaganna eru órannsakanlegir. Eftir hermdarverkið á Dýrafirði lætur skipið í haf og bjóst víst enginn við því, að hægt mundi að hafa hendur í hári sökudólganna. En það er alveg eins og forsjónin hafi ætlast til þess að málið kæmist upp. Nilsson fer utan, en getur eigi stilt sig um að fara í landhelgi Danmerkur. Þar er hann tekinn. Tryggvi Gunnarsson siglir um sama leyti, en frjettir áður á skotspónum um Dýrafjarðarslysið. Af tilviljun rekst hann á frjettina um landhelgisbrotið hjá Jótlandi, og dettur það þegar í hug — sem fæstum mundi þó hafa hugkvæmst — að hjer sje sama skipið og var á Dýrafirði. Ef honum hefði eigi dottið það í hug og ef þeir Ólafur Halldórsson hefði eigi báðir brugðið eins fljótt við og þeir gerðu, mundi Nilsson hafa sloppið frá Frederikshavn. Er það undarleg atvikakeðja, sem verður þess valdandi, að sökudólgunum er náð.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Skal nú fljótt yfir sögu farið í bili. Hinn 27. mars 1900 voru þeir fjelagar þrír dæmdir í undirrjetti, Nilsson í 18 mánaða betrunarhússvinnu, 3000 kr. sekt til landsjóðs Íslands og 200 kr. sekt til ríkissjóðs Dana fyrir landhelgisbrot hjá Jótlandi um haustið. Stýrimaður var dæmdur í 3×5 daga upp á vatn og brauð, og matsveinn í 4×5 daga upp á vatn og brauð.
Svo fór málið til hæstarjettar í Danmörku. Var Nilsson þá dæmdur í tveggja ára betrunarhússvinnu; 3000 kr. skyldi hann greiða landsjóði Íslands, og ríkissjóði Dana 200 kr. Auk þess skyldi hann greiða Hannesi Hafstein 750 kr. í skaðabætur og ekkjum 2 þeirra manna, er druknuðu, annari 3600 krónur, en hinni 1100 kr. Dómur hinna var staðfestur í hæstarjetti, en Nilsson var dæmdur til þess að flytjast af landi brott eftir úttöku hegningar, vegna þess að hann var útlendingur; Svíi.
Vitum vjer nú eigi hvernig fór með hegningu Nilssons, en hitt er víst, að hann er kominn til Englands öndverðan vetur 1901 og fær þar nýtt skip til forráða. — Hjet það „Anlaby”. Sigldi hann því skipi þegar til veiða hjá Íslandsströndum.
Um miðjan jan. 1902 sáust tveir botnvörpungar undan Grindavík og voru þar að veiðum, sjálfsagt í landhelgi. Um kvöldið gerði afspyrnurok á landsunnan og dimmviðri. Æsti þá mjög sjó þar syðra, eins og vant er, þótt í hægara veðri sje. Hættu skipin þá veiðum samtímis og hjeldu til hafs.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Af afdrifum þeirra er það að segja, að eftir nokkra daga kom annað skipið til Keflavíkur og hafði þá sögu að segja, að skömmu eftir að skipin ljetu út frá Grindavík, hefði þau orðið viðskila, og hefði þeir seinast sjeð það til hins skipsins, „Anlaby” að það stefndi frá landi og stóð einn maður í stýrishúsi. Síðan hefir það skip ekki sjest.
Daginn eftir að skipin þessi tvö ljetu í haf frá Grindavík, fór maður þaðan niður til sjávar til þess að gá að kindum. Var þá komið fram undir hádegi og komið gott veður. En er hann kom niður fyrir sjávarkambinn milli Húsatófta og Járngerðarstaða, rekst hann þar á sjórekinn mann í fjörunni. Virtist honum sem líf mundi leynast með manni þessum og að hann mundi nýkominn á land. — Var hann með belg á baki, kominn upp úr fjörumáli og lá þar hjá honum annað stígvjelið í fjörunni, og varð eigi annað sjeð, en maðurinn hefði sjálfur dregið það af sjer.

Jónsbásar

Jónsbásar – Brunnar fjær.

Maður sá, er líkið fann gerði þegar aðvart. Hreppstjórinn, Einar Jónsson á Húsatóftum skarst í leikinn. Var hinn sjórekni maður þegar fluttur til kirkju. Þangað kom maddama Helga Ketilsdóttir, systir Ólafs bónda á Kalmanstjörn, og gerði á honum tvær lífgunartilraunir. — En þær reyndust báðar árangurslausar og veitti þá maddama Helga líkinu nábjargirnar.
Þegar eftir að fyrsta líkið fannst var gangskör ger að því að leita í fjörunum og komast eftir því hvar skipið mundi vera og hvort enginn hefði komist af því lífs á land. Sú leit reyndist svo, að af skipinu fannst rekið borðstokkur, stefni og „hekk”. Nokkuru síðar fanst eitthvað rekið af kolum, en aldrei fannst neitt af innanstokksmunum skipsins nje áhöldum.
En úti í lóni, sem er rjett fram af svonefndum Brunnum fundust lík 10 manna. Voru þau slædd þar upp. Sex líkin voru allsnakin að öðru leyti en því, að eitt þeirra var með mittisól.
Talið er, að skipið muni hafa farist aðfaranótt 14. jan. sjá það, að þessir menn höfðu druknað í svefni, eða skipið farist meðan þeir lágu í hvílum sínum. En lík skipstjórans fannst ekki og hefir ekki fundist. Þá gekk sú saga, að lík hans hefði rekið og verið höfuðlaust- Var það af ýmsum tekið sem tákn þess, að forsjónin hefði viljað refsa honum fyrir framferðið á Dýrafirði. Menn eru gjarnir á að trúa slíku og því fjekk þessi saga svo byr undir vængi að hún barst um land alt. En það vitum vjer sannast um þetta að segja, að ástæðan til þess, að þessi saga kom upp, mun vera sú, að ellefta líkið sem náðist, var mjög skaddað á höfði, svo mjög, að vart mundi þekkjanlegt þeim, er manninn þekktu í lifanda lífi. En eigi var það skipstjóri.

Staður

Staður fyrrum.

Að undirlagi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu rannsakaði hreppstjóri nákvæmlega, hvort eigi væri nein merki á líkunum, ef vinir eða vandamenn gæti merkt af hver maðurirm væri.
Sýslumaður mun einnig hafa lagt svo fyrir, að sæist engin merki (tatoveringar) á einhverju líki, þá skyldi aðgæta hvort eigi mætti ráða það af öðru hver maðurinn væri, t.d. hvort ekkert væri í vasa líksins er benti á það, eða þó ekki væri annað en hringur á hönd með stöfum.
Nú vildi svo til, að af þessum ellefu líkum voru 10 með merki á handlegg eða hönd, en ellefta líkið ekki. En á hönd þess var einbugur. Vegna þess að höndin var sollin, varð honum ekki náð ,af, nema því aðeins að hann væri sagaður sundur. Var til þess fenginn maður frá Stað, Sigurður Hjeronýmusson að nafni. Fundust þá innan í hringnum stafir. Skrifaði hreppstjóri þá hjá sjer, en ætlaði jafnframt að senda hringinn til skipafjelagsins er skipið átti, svo að hann kæmist til ástvina mannsins.
Nú voru smíðaðar kistur að öllum þessum líkum og þau kistulögð. Þá var það annaðhvort nóttina á eftir, eða næstu nótt, að mann, sem býr í Bergskoti, og Bjarni Ólafsson hjet, dreymir það, að maður kemur á gluggann hjá honum. Bjarni þekkir eigi þennan mann og hefir aldrei sjeð hann fyr. Þessi maður talar til Bjarna og biður hann að sjá svo um, að hann fái aftur það, sem tekið hafi verið af sjer.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Um morguninn segir Bjarni þennan draum sinn, og þótti hann undarlegur. Var þá gestkomandi hjá honum Sigurður Hjeronýmusson, sá, er fyrr getur. Þegar hann heyrði drauminn, brá honum í brún og hugsaði með sjer eitthvað á þessa leið: „Það skyldi þó aldrei hafa verið maðurinn, sem jeg sagaði hringinn af, og nú hefir vitjað Bjarna í draumi, og er að kalla eftir hringnum?” Þetta var þó þeim mun ólíklegra sem Bjarni hafði eigi hugmynd um hringinn. Samt sem áður fer Sigurður heim til hreppstjórans; en hvað þeim fór á milli, eða hvort sýslumanns naut líka að, vitum vjer ekki. En hitt er víst, að afráðið var það, að senda hringinn eigi af landi brott, heldur skyldi hann leggjast í kistuna hjá því líki, sem hann var af tekinn. En nú stóðu þar 11 kistur, og allar eins. Var því vandi að finna manninn, sem hringinn átti. Þá voru fengnir til þess trúverðugir menn að brjóta upp kisturnar og skila hringnum. Ekki hittu þeir á rjettu kistuna fyrst, sem ekki var von, en í þriðju kistunni lá sá rjetti. Var nú hringurinn lagður í kistuna hjá honum, kistunum öllum lokað, og síðan hefir eigi orðið vart við þennan mann.
Mennirnir þessir eru grafnir í Grindavík, allir í sömu gröf. Sú gröf sjest enn þá í Grindavík — framandi og nafnlausra sjómannagröf — en enn veit hvert mannsbarn þar syðra hvar hennar er að leita.

Staðarhverfi

Horft yfir kirkjugarðinn í Staðarhverfi.

Nú er stutt eftir af þessari sögu, en þó verður að bæta nokkru við. Það var nokkuru eftir jarðarförina, að stúlku á Stað, Margrjeti Salomonsdóttur að nafni, dreymir það, að hún er þar í rúmi sínu inni í baðstofu. Þykir henni þá maður koma upp í stigagættina. Hann ávarpar hana og segist vera kominn til þess að þakka fyrir sig og fjelaga sína. „En eitt þykir mjer verst,” bætir hann við, „að eigi skyldi jafn mikið haft við okkur alla.”
Jeg sel það ekki dýrara en jeg keypti, að stúlkunni fannst þetta vera sá maður frá „Anlaby”, er fyrstur fannst. Var nú margt rætt um drauni þennan og fanst mönnum ólíklegt, að hann ætti við nein rök að styðjast, ef svo væri að hún ætti að eiga við sjóreknu mennina af „Anlaby”, því að enginn vissi betur en að líkum þeirra allra hefði verið gert jafn hátt undir höfði og sami sómi sýndur. En þó varð það síðar nokkuð, er menn hugsuðu sig betur um, að annað varð uppi á teningnum.
Jafnóðum sem líkin fundust, voru þau borin í kirkju. Báru ýmist 4 eða 6 menn hvert lík og um leið og þau voru borin inn úr kirkjudyrum, var klukkum hringt og sunginn sálmurinn: „Jurtagarður er herrans hjer.” En af einhverri vangá, er eigi varð kunnugt um fyr en síðar, höfðu burðarmenn eins líksins borið það svo í kirkju að yfir því var hvorki klukkum hringt nje sálmur sunginn.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1927, Nilson Skipstjóri – Úr sögu landhelgisvarnanna, Árni Óla, bls. 17-20.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”

Jónsbásar

Jónsbás.

“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.
Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Eldgos

Í Bæjarblaðinu, útgefnu af Stapaprenti, árið 1991 er fjallað um mögulegan “Suðurlandsskjálfta árið 2020” sem og “Drauma og fyrirboða um náttúruhamfarir á Reykjanesi“:

“Eigum við á suðvesturhorninu yfir höfði okkar það gífurlegar náttúruhamfarir, að Reykjanesskaginn klofni frá landinu? Allir hafa einhvern tímann heyrt minnst á hinn svokallaða Suðurlandsskjálfta; stóra jarðskálftann, sem talið er að snarpur og öflugur, að af hljótist þær gífurlegu hamfarir sem að ofan greinir. Og það sem meira er; stóri skjálftinn gæti venð á næsta leiti.
Við skulum til fróðleiks líta örlítið á jarðfræðilega gerð Reykjanesskagans annars vegar og hins vegar á drauma og fyrirboða um stóra skjálftann.

Glöggt samband á milll sprungureina og jarðskjálfta

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar.

Sagt er að hugsanlegur stórskjálfti muni kljúfa Reykjanesskagann austan frá Grindavík að Hafnarfirði en þar liggur stór sprungurein. Eins er líklegt að skaginn klofni frá Önglabrjótsnefi, skammt norður af Reykjanestánni, en þar liggur sprungurein í Norðaustur til Suðvesturs, og glöggt samband er á milli þessara sprungureina og jarðskjálfta á Reykjanesi. Þegar skoðað er jarðfræðikort af svæðinu kemur þetta betur í ljós. Telja má líklegt að þessi gliðnun muni frekar gerast á löngum tíma en í einu vettfangi.
Draumspakt fólk segir hins vegar að þetta gerist í einu vettvangi, fyrirvaralaust, eins og fram kemur á eftir.
Á Reykjanesi eru sex aðskildar sprungureinar, en ein þeirra er hin svokallaða Eldeyjarrein. Hún liggur norðan Sandvíkur og nær norðaustur undir Vogaheiði. Þetta er norðurendi reinar sem teygir sig suðvestur fyrir Eldey. Miðja hennar er að líkindum á Eldeyjarsvæðinu. Engar gosmyndarnir hafa fylgt þessari rein uppi á landi, en oft hefur gosið á henni neðansjávar undir Reykjanesi, nú síðast í haust. Í lok októbermánaðar mældist gífurleg jarðskjálftahrina u.þ.b. 150 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Stóð hrinan yfir í sólarhring og mældust skjálftarnir allt að 4,8 stig á Richterskvarða.

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

“Þetta er það mesta sem við höfum sé í áratugi”, sagði Ragnar Stefánsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við DV þann 2. nóvember 1990. Önnur óvenjulega kröftug jarðskjálftahrina á Reykjaneshryggnum stóð yfir dagana 8. – 9. september síðastliðinn.
Þeir skjálftar áttu upptök sín um 100 kílómetra suðvestur af Reykjanestá. Sterkustu kippirnir mældust 5,5 – 6 stig. Svipað gerðist í maí 1989 á stað milli hinna tveggja framangreindra eða á 900 – 1000 metra dýpi um 500 kílómetra frá Íslandi Þeir kippir mældust 5 stig á Richter. Þessar þrjár óvenjukröftugu jarðskjálftahrinur hafa því mældst í beinni línu suðvestur af landinu á rúmlega 800 kílómetra belti út frá Reykjanesskaga, og þessi virkni færist nær og nær landi.
Fjórða og síðasta hrinan mældist síðan um miðjan nóvember í aðeins 50 kílómetra fjarlægð frá landi. Sterkustu kippirnir í þeirri hrinu mældust 4,5 á Richter.

Samfelld sprungubelti

Karlsgígurinn

Stampahraunið á Reykjanesi.

Lítum aðeins á sprungukerfin á Reykianesskaganum. Þar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem styður kenninguna um gliðnunina. Í skýrslu eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing segir: NA-SV sprungureinarnar eru mest áberandi á skaganum og ráða mestu um jarðfræðilega gerð hans. Þegar betur er að gáð, koma í ljós aðrar sprungur sem einnig gegna þýðingarmiklu hlutverki í sama tilliti.
Þetta eru sprungur sem stefna norður – suður og eru yfirleitt lítið áberandi. Þær raða sér saman í stuttar reinar sem ekki eru skýrt afmarkaðar en skera sig þó nokkuð úr NA-SV-sprungunum. Þær eru tiltölulega stuttar eins og áður er nefnt, um 5-10 km. Þessar N-S reinar virðast vera framhald af þeim sprungum sem Suðurlandsskjálftarnir eiga upptök sín í og má e.t.v. líta svo á að þessar sprungur myndi nær samrellt belti frá Suðurlandsundirlendi og út á Reykjanes, þótt ekki sjáist sprungur á því öllu.
Þegar dreifíng N-S sprunganna er borin saman við dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesi, kemur mjög glöggt samband í íjós. N-S sprungurnar falla nær alveg saman við skjálfta á Reykjanesi á árabilinu 1971-75. Skjálftarnir raða sér á mjótt belti sem liggur nær austur-vestur þvert á NA-SV reinarnar. Af þessu má draga þá ályktun að N-S brotabeltið sé í orsakasambandi við skjálftana.
Á Suðurlandsundirlendi er einkar glöggt samband milli “-Sprungureinanna og jarðskjálfta. Slíkt samband er einnig hægt að sjá á Reykjanesi. Í skjálftahrinu sem varð á tímabilinu 3. ágúst til 13. september 1972 yst á Reykjanesi, urðu flestir skjálftanna á Reykianesrein en þar sem NS-sprungurein sker hana austan á Reykjanestánni leiddu skálftarnir út í N-S sprungurnar.
Reykjanesskaginn er hluti af sprungukerfi, sem liggur um Atlandshaf endilangt og tengir saman svonefndan Reykjaneshrygg, þar sem áðurnefndir skálftar voru í haust, og gosbelti Íslands. Sprungureinarnar einkennast af opnum sprungum og gjám. Þær eru mislangar, 25 – 50 km og yfirleitt 5-7 km. breiðar. Svæðið er því allt “sundurskorið” og sprungubeltin eru stærst þar sem talið er að Reykjanesskaginn muni klofna frá meginlandinu.
Þá er ónefnd ein sprungurein, sem veita ber athygli með hliðsjón af draumafrásögnunum hér til hliðar. Það er hin svonefnda Krýsuvíkur – Trölladyngjurein. Reinin er mjög löng, eða a.m.k. 60 km og nær allt upp í Mosfellssveit.

Draumar og fyrirboðar -um náttúruhamfarir á Reykjanesi

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Fjölmargt fólk með dulskyggnigáfu hefur fengið vitranir eða draumfarir um stórbrotnar náttúruhamfarir á Reykjanesi og benda draumarnir allir í sömu átt.

Í bókinni Framtíðarsýnir sjáenda, sem kom út árið l987, er sérstakur kafli um þetta. Þar skýra sjáendur frá upplýsingum sem þeim hefur vitrast í draumi, og það er einkar athyglisvert hvað draumum fólksins ber saman.

Náttúruhamfarir árið 2020

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – hraun.

Draumspakur maður og dulskyggn með forspárgáfu, segir frá draumi sínum, sem er á þá leið að farið var með hann í flugferð ” um svæðið næst höfuðborginni”. Honum var sagt að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti.
Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera kominn í Mosfellsdalinn.
Reykjanesið klofnar frá meginhluta landsins Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:
“Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út.
Þetta var reyndar í fyrsta sinn að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum”. Sami aðili segir að atburðarrásin verði þannig: “Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum”.

Grindavík horfið með öllu

Grindavík

Grindavík – loftmynd.

Kona sem er skyggn sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafa orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun.
Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þetta verði, né hvort breytingarnar gerist með snökkum hætt eða smám saman. Frásögn hennar er á þessa leið: “Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar.
Valhúsarhæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu. Égsé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öll. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum”.

Gerist fyrirvaralaust – stutt í atburðinn

Reykjavíkursvæðið

Reykjavíkursvæðið – Viðeyjargígur.

Ung kona sem er berdreyminn og hefur margsinnis orðið fyrir sálrænum viðburðum, segir frá reynslu sinni á þennan veg:
“Áður en Vestmannaeyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist.
Skömmu síðar var ég á ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík.
Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi á þennan draum: Mér rannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjamökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram, varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja.
Í nóvember árið 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer og og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð”.

Suðurlandsskjálftinn 2000

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 17. júní árið 2000.

Í Árbók VFÍ/TFÍ árið 2001 er sagt frá Suðurlandskjálftunum 17. júní og 21. júní 2000:
“Suðurlandsskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000.
Í júní 2000 urðu tveir stórir jarðskjálftar á Suðurlandi með upptök nálægt Þjórsárbrú. Fyrri skjálftinn var 17. júní, kl. 15:40. Hann var af stærðinni 6,6 (Mw) með upptök nálægt Skammbeinsstöðum í Holtum (63,97°N og 20,36°V) um 16 km norðaustur af brúarstæðinu. Upptakadýpi var um 6,3 km. Jarðskjálftinn var svokallaður hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 20 km löngum kafla.”

Ekki er minnst á svipuðan jarðskjálfta undir Sveifluhálsi við Kleifarvatn nokkrum mínútum á eftir framangreindum skjálfta.

“Seinni jarðskjálftinn var 21. júní, kl. 00:51. Þessi skjálfti var af stærðinni 6,5 (Mw) og með upptök rétt sunnan við Hestfjall á Skeiðum (63,97° N og 20,71° V) um 5 km norðvestur af brúarstæðinu. Upptakadýpi skjálftans var 5,1 km. Jarðskjálftinn var eins og sá fyrri hægri handar sniðgengisskjálfti og mátti sjá merki um yfirborðssprungur á um 23 km löngum kafla.”

Heimildir:
-Bæjarblaðið. 4. tbl. 30.01.1991, Suðurlandsskjálfti árið 2020? og Draumar og fyrirboðar um náttúruhamfarir á Reykjanesi, bls. 10-11.
-Árbók VFÍ/TFÍ, 1. tbl. 01.06.2001, Suðurlandskjálftarnir 17. júní og 21. júní 2000, bls. 302.

Viðeyjareldstöðin

Viðeyjareldstöðin.

Þorbjarnarstaðir

Í Fjarðarpóstinum 1989 er fjallað um Þorbjarnarstaði í Hraunum og spurninguna um hvort þeir skyldu friðaðir:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur.

“Skipulagsnefnd hefur rætt um friðunarmál í nágrenni Hafnarfjarðar. Að sögn Jóhannesar Kjarval skipulagsstjóra hefur hann lagt til, að Þorbjarnarstaðir og næsta nágrenni verði sett á fornleifaskrá.
Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti, kannaði og skráði rústirnar að Þorbjarnarstöðum á árunum 1976 til 1980. Hann lagði til að réttast væri að friðlýsa þær minjar í einu lagi, eða áskilja sér rétt til að hafa hönd í bagga, ef eitthvað ætti að gera þar. Kristján sagði að þarna væri heilleg mynd, upplögð til að nota í eins konar sýnikennslu. Þó ekki sé langt síðan þarna var búið eru minjarnar ekki síður dæmigerðar fyrir byggðina hér um slóðir.
Þorbjarnarstaða er getið í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1548.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Um býlið hefur Kristján Eldjárn skrifað: „Þorbjarnarstaðir, nú í landi Hafnarfjarðar. Rétt fyrir ofan Straum eru rústir eyðibæjarins Þorbjarnarstaða, sem fór í eyði. Þetta hefur verið dæmigert Hraunbýli, tún ræktað á hraununum, allt með holum skvompum og túngarður umhverfis, allur hlaðinn úr hraungrjóti. Hann stendur að miklu leyti enn, en utan um hann er svo einfaldur og lágur garður úr steinum, sem teknir hafa verið úr gamla garðinum og haft sem undirlag undir gaddavírsgirðingu. Þetta er merkilegt að sjá. Á eina hlið er ágætlega hlaðin og skrítin rétt.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Bæjarrústir eru snyrtilegar og grónar, en svolítill kofi stendur enn uppi. Heim að bænum er ágætar traðir, þótt þær standi ekki í fullri hæð nú. Eitthvað kann að vera af rústum útihúsa á túninu, en a.m.k. eitt fjárhús hefur verið sambyggt bænum; það er með jötum eins og öll gömul fjárhús hér á Reykjanesi.”

Ekki er að sjá í gögnunum að framangreindum vilja hafi verið fylgt eftir skv. orðanna hljóðan.

Sögulegar heimildir um Þorbjarnarstaði

Þorbjarnastaðarétt

Þorbjarnastaðarétt.

1703: Jarðardýrleiki óviss, konungseign, samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls VídalínsIII, 164.
1847: 12 1/2 hdr., bændaeign, samkvæmt Jarðatali Johnsen, 110.
1395 er minnst á eyðijörðina Þorbjarnarstaði í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignumViðeyjarklausturs og telja útgefendur DI það var þessa jörð. DI III, 598.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 114.Hjáleiga 1703: Lambhagi (sjá GK-167).
Landkostir 1919: Tún 1,4 teigar, allt slétt og hólótt, garðar 500 m2.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1919.

1703: „Skóg hefur jörðin átt, en nú má það valla kalla nema rifhrís, það hefur hún so bjarglegamikið, að það er bæði brúkað til kolgjörðar og eldiviðar, og so til að fæða peníng á í heyskorti. Aldrei ljá það búendur til annara, og eru þetta þau skógarpláts, sem almenníngar eru kölluð.Torfrista og stúnga í lakasta máta og ekki bjargleg. Fjörugrasatekja nægileg fyrir heimilissmenn. Berjalestur hefur til forna verið til gagns af einiberjum, nú eru þau mestanpart eyðilögð. Rekavonnæsta því engin. Sölvafjara nokkur má vera en brúkast ekki. Hrognkelsafjara nokkur og stundumað gagni. Skelfiskfjara naumlega til beitu. Heimræði er árið um kríng og lendíng góð, en leið til að setja skip mjög ill og erfið; þó gánga skip ábúenda eftir hentugleikum árið um kring. Item hafa hjer bátar frá Bessastaðamönnum gengið til forna, og verið kallaðir kóngsskip, þó ekki stærri en tveggja manna far, og fleiri en eitt í senn um vertíð. Hafa bændur hýst þá, er bátnum róið hafa og ekkert fyrir þegið nema soðningarkaup af hásetum. En þetta hefur ekki verið í næstu þrjú ár. Inntökuskip hafa hjer aldrei gengið önnur en þessi í næstu fimtíi ár. Engjar eru öngvar.“ JÁM III,166.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur.

Þess má geta að Ísal sóttist eftir því á áratugi síðustu aldar við Hafnarfjarðabæ að fá að kaupa jörðina Þorbjarnarstaði. Þá stóð fyrir dyrum möguleg stækkun álversins til suðurs og þar með tilheyrandi færslu Reykjanesbrautarinnar. Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, lagði tilboðið fram á bæjarstjórnarfundi, án nokkurs fyrirvara. Þegar fulltrúi FERLIRs, sem þá var jafnframt fulltrúi Alþýðuflokksins, óskaði eftir nánari skilgreiningu á mörkum þess, sem um ræddi, varð fátt um svör. Hann óskaði þá eftir að málinu yrði frestað til næsta fundar. Það var samþykkt.
Á þeim næsta fundi lagi Magnús fram uppdrátt að mörkum þess lands, sem bærinn ætlaði að selja. Fulltrúi FERLIRs lagði þá til að bærinn myndi, ef sölunni yrði, halda eftir heimatúni Þorbjarnarstaða innan garða, enda væru innan þeirra ómetanlegar mannvistarleifar til framtíðar litið. Auk þess lagði hann til að Byggðasafni Hafnarfjarðar yrði falin forsjá svæðisins með í huga mögulega endurbyggingu þessa síðasta torfbæjar innan núverandi lögsagnarumdæmis. Bæjarstjórnin féllst á tillöguna. Af framangreindri ástæðu á Hafnarfjarðarbær í dag Þorbjarnarstaði í Hraunum – innan túngarða. Eignin er þó ekki talin til bæjarins í gildandi aðalskipulagi, einhverra hluta vegna!?

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – heimastekkurinn (síðar rétt).

Í umsögn Umhverfisstofnunar við aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 þann 11. ágúst 2020 segir m.a.:
“Umhverfisstofnun bendir á að hraunin, sem tillagan nær til, kallast Hrútargjárdyngja og Kapelluhraun falla undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61, gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. greinarinnar. Skv. 3. mgr. ber að forðast röskun þeirra náttúrfyrirbæra sem undir greinina falla, ema brýna nauðsyn ber til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi…
Umhverfisstofnun bendir á að innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá og nefnist Straumsvík og er númer 12 sem aðrar náttúrminjar. Svæðinu er lýst á eftirfarandi hátt: “Fjörur, strendr svo og tjarnir með fersku og ísöltu vatni við innanverða Straumsvík, frá urtartjörn vestan Straums suður fyrir Þorbjarnarstaði að athafnasvæði Ísal.” Náttúruverndargildi svæðisins eru tjarnir með einstæði, lífsskilyrðum og allmiklu fuglalífi.”

Engan sérstakan fróðleik er að finna á vef Umhverfisstofnunar um Þorbjarnarstaði og nágrenni sbr. framangreinda friðlýsingu á fornleifaskrá. Byggðasafn Hafnarfjarðar virðist ekki, hingað til a.m.k., hafa sýnt tilþrif í þá átt…

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 27. tbl. 21.09.1989, Þorbjarnarstaðir friðaðir, bls. 3.
-Fornleifaskráning vegna tvöfuldunar Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að Krýsuvíkurvegi, Reykjavík 2020.
-https://www.researchgate.net/publication/347489182_Fornleifaskraning_vegna_tvofoldunar_Reykjanesbrautar_41_fra_Hvassahrauni_ad_Krysuvikurvegi_II
-https://fornleif.is/wp-content/uploads/2020/10/FS803-20151_Fornleifaskr%C3%A1ning-vegna-tv%C3%B6f%C3%B6ldunar-Reykjanesbrautar-41-fr%C3%A1-Hvassahrauni-a%C3%B0-Kr%C3%BDsuv%C3%ADkurvegi.pdf

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnarstaðir – tilgáta ÓSÁ.

Túnakort

Í Faxa 2007 skrifar Skúli Magnússon um “Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík”.

Faxi 2007

Faxi 2007.

“Stutt athugun á tilurð þess Eitt aðaleinkennið á byggð á utanverðum Reykjanesskaga voru lítil þorpshverfi sem í upphafi urðu til út frá einu aðalbýli sem aftur í byrjun varð til við góða lendingu þaðan sem stutt var á góð fiskimið.
Dæmi um slíkar jarðir má finna í Landnámu, Voga á Vatnsleysuströnd og Bæjarsker á Miðnesi. Hinar eru þó fleiri jarðirnar af þessum toga á Reykjanesi sem ekki eru nefndar í elstu heimildum. Meðal þeirra eru jarðir á borð við Hólm í Leiru, Njarðvík og Hóp í Grindavík. Slík býli voru því í rauninni frumbýli, frumjarðir sem vegna legu sinnar byggðust fyrst og voru valin í öndverðu vegna þessara kosta sinna.
Síðan byggðust þær jarðir í nágrenni slíkra kosta jarða en sem lágu fjær miðum eða höfðu lakari lendingar og lágu jafnvel verr við sjósókn. Samkvæmt þessari fingursreglu virðist mér jarðir á Suðurnesjum hafa byggst í öndverðu. Fleira kann þó að hafa komið þar til sem ekki verður rætt um hér. Þannig urðu byggðahverfin til sem einkenndu byggðina. Þeir sem fyrstir námu þessa staði settust að þar sem hægast var til athafna við sjóinn.

Útgerð flyst úr Hópinu

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Við Hópið í Grindavík hefur líklega í byrjun verið ágæt lending og góð veiðiaðstaða, en þar kom er nokkuð var liðið á búsetu þar efra að skipta varð landinu sem þar lá nærri, gæðum þess og gögnum á sjó og landi. Vaxandi byggð þurfti möguleika til útræðis og því var farið að róa úr lendingum utan Hópsins, á Þórkötlustöðum og frá Járngerðarstöðum. Útgerð flyst því út úr Hópinu á staði utan við sem þó voru heldur verr fallnir til lendingar en Hópið var i byrjun. (Sjá Sóknarlýsingu Grindavíkur 1840 eftir Geir Bachmann). Freistandi er að tímasetja þetta á seinni hluta 10. aldar, nálægt 950-1000, en það er þó ágiskun ein enda engar beinar heimildir til þar um. Eigi er þó ólíklegt að þessi skipan hafi komist á fyrir 1000 í austurhluta Grindavíkur. Hugsanlega hefur þó skipun byggðar þar gengið hraðar fyrir sig en okkur grunar og byggðin hafi þegar í lok 10. aldar verið búin að fá á sig þá skipun í meginatriðum sem síðar varð.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Austasti hluti Grindavíkur hefur trúlega byggst fyrst og síðan sá vestari og ysti. Að byggðastefnan sé í öndverðu komin austan að sjást fáein merki enn í dag, m.a. í örnefnum þar eystra. Má þar helst nefna örnefnið Grindaskörð upp af Selvogi sem hugsanlega fyrirrennara nafnsins Grindavík. Grun hef ég t.d. um að byggð hafi snemma við landnám í Grindavík komið upp á Hrauni sem þó hafði a.m.k, á síðari öldum fremur laka bátalendingu. Hitt er líklegt að varla hafi liðið langur tími frá landnámi í Grindavík um 936 þar til byggð var komin á Hrauni.
Eins og fyrr er getið eru þessar bollaleggingar um upphaf og þróun byggðar aðeins byggðar á líkum enda skortir okkur ritaðar heimildir um slíkt, ef frá er talin hin skemmtilega frásögn Landnámu um komu Molda-Gnúps og barna hans til Grindavíkur nálægt 935-936 eftir gosið mikla í Eldgjá sem jarðvísindamenn hafa kannað og tímasett af talsverðri nákvæmni. Þessvegna er eðlilegt að álykta að byggð í Grindavík hafi þróast og myndast á árunum fram um 950.

Sterk tilhneiging til að kvenkenna bæjarnöfn

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895. Þorbjörn í bakgrunni.

Vandinn er sá að jarðanöfn í Grindavík eru ekki nefnd í eldri heimildum en rekaskjölum í bréfasafni eru tímasett. Þau skjöl eru talin vera frá um 1270. Þar eru bæjanöfnin Hóp, Hraun, Þorkötlustaðir og Járngerðarstaðir nefnd í fyrsta sinn í rituðum heimildum. Nokkur vandi er því að ráða í upphaf byggðar á þessum jörðum.
Þegar örnefni og bæjanöfn í Grindavík og austur í Ölfus eru skoðuð kemur í ljós að á þessu svæði hefur verið allsterk tilhneiging til að kvengera bæjarnöfn, kenna þau við konur og breyta þannig ásýnd þeirra og sögu. Þetta sá ég glöggt þegar ég kannaði örnefni á þessu svæði. Þórhallur Vilmundarson hefur líka bent á í safnritinu Kulturhistorisk Leksikon hvernig bæjanafnið Vigdísarvellir þróaðist. Telur Þórhallur að það hafi í byrjun verið Vegdysjarvellir, þ.e. sprottið af dys við veg. Smám saman breyttist fyrri hluti nafnsins í kvenmannsnafnið Vigdísar- og eftir það var skammt í allt annað nafn og óskylt hinu eldra með öllu. En nú var orðið til bæjarnafn með upphaf og sögu. Hugsanlega hefur bæjarnafnið Járngerðarstaðir þróast á svipaðan hátt og skal ég ræða það frekar.

Friðsamir járnsmiðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Af Landnámu má ráða að Molda-Gnúpur og faðir hans í Noregi hafi verið járnsmiðir að atvinnu þar í heimahögum sínum en hvorki víkingar né ránsmenn eins og margir aðrir sem til Íslands komu á 9. og 10. öld.
Þessi grindvísku landnemar voru því athyglisverð undantekning frá þeim hópum manna sem stunduðu víkingarferðir og rán áður en þeir settust að á Íslandi. Heima í Noregi hafði Gnúpur, eins og faðir hans og sennilega afi, stundað sína járnvinnslu og járnsmíðar í friði þar til einhverjir atburðir um 930 neyddu Gnúp til Íslandsfarar með skjótum hætti og aðdraganda.
Nafnið á Járngerðarstöðum er því hugsanlega sprottið af tvennu: í fyrsta lagi af kvenmannsnafninu Járngerður sem tíðkaðist nokkuð á landsnámsöld en varð þó aldrei algengt og í öðru lagi af einhverju úr umhverfi eða atvinnuháttum hinna fornu Grindvíkinga.

Kvenkenndar jarðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Ég nefndi áðan þá sérkennilegu tilhneigingu í bæjanöfnum frá Reykjanesi og austur í Ölfus að snúast upp í kvennöfn. Jarðirnar fá nöfn af einhverjum óþekktum konum sem síðari alda menn líta svo á að hafi búið þar í upphafi. Má því hugsanlega gera því skóna að upptaka fastrar búsetu á viðkomandi jörð hafi átt þátt í slíkri þróun kvenmannsnafna á þessu svæði. Þau hafi þá lyft viðkomandi jörð hærra í samfélaginu, menn hafi látið slíkt gott heita enda hafa slíkar breytingar á suðurhluta Reykjanesskagans gerst án þess að við yrði spornað ekki síst ef viðkomandi jörð fylgdi lítil saga um upphaf byggðar þar og byrjun búsetu. Jörðin varð til af breyttum atvinnuháttum eða af félagslegum umbrotum svo sem eignaskiptum og þörf á nýjum stöðum til að búa á og stunda þar búskap til sjós og lands. Gott dæmi um þetta úr Grindavík er einmitt jörðin Ísólfsskáli sem í upphafi var aðeins verskáli til útróðra og hét þá og lengi Ysuskáli en fékk síðan karlmannsnafnið Ísólfsskáli, líklega eftir að þar hófst föst búseta allt árið og þar varð til sérstök jörð með landamerkjum. Fullgild bújörð verður sjaldan til í einu vetfangi, hún þróast jafnan frá viðverustað til lögbýlis. En sú þróun er vitanlega mislöng eftir umhverfi og aðstæðum. Einhver byggð var t.d. komin á Ysuskála á árunum 1210-1220, a.m.k. var þá róið þaðan til fiskjar og e.t.v. búið þar allt árið.

Er nafn Járngerðarstaða dregið af Járngerði?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1627.

Svipuð þróun kann að hafa átt sér stað á Járngerðarstöðum. Þegar þeim bústað var í byrjun valinn staður er ekki óhugsandi að því vali hafi einmitt ráðið aðgengi að nægu vatni til notkunar og drykkjar enda stutt þaðan í gjár og vötn og þar var besta vatnsból í Grindavík frá aldaöðli (sbr. Sóknalýsingu Grindavíkur 1840).

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum.

Sé beinlínis farið eftir hljóðan nafnsins Járngerðarstaðir get ég þess til að þar hafi frumbyggjar í Grindavík stundað sínar jámsmíðar, iðn sína eftir komu sína til Grindavíkur. Við járnsmíði og járngerð þurfti einmitt nægt og gott vatn og losa mátti ösku og gjall í gjárnar frá staðnum, en hvar fá mátti kol til vinnslunnar er þó ekki ljóst nema aðkeypt austan úr sveitum. Land var þó grónara víða en það var síðar og styttra í eldsneyti en okkur grunar. En þeim Molda-Gnúpi og ættmönnum hans var illa í ætt skotið hafi þeir ekki stundað iðn sína í Grindavík eins og heima í Noregi. Þessi tilgáta mín um uppruna bæjarafnsins Járngerðarstaðir kann að reynast fjarstæðukennd vegna þess að við erum vön því kvenmannsnafni og hve löng hefð þess er orðin. Ekkert í umhverfi Járngerðarstaða í dag minnir á slíkar járnsmíðar en hvort þar kunna að leynast náttúrulega kostir eða staðhættir sem vísað gætu til járnvinnslu veit ég ekki. Ljóst er þó að alvanir atvinnumenn við járnsmíð hafa kunnað sitt hvað fyrir sér í iðn sinni. Fljótt á litið virðist manni sem litlir möguleikar hafi verið til járngerðar þarna í hrauninu við Járngerðarstaði en hugsanlega hafa þar verið einhverjir þeir landskostir sem buðu upp á slíka iðju aðrir en blávatnið eitt. Þetta hefur tæplega verið athugað í nágrenni Járngerðarstaða. Hvort örnefni í nágrenni við bæinn geta varpað einhverju ljósi á þessa tilgátu mína um upphaf bæjarnafnsins þekki ég ekki, en það er þó hugsanlegt.

Sterk staða fornkvenna?

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 1890.

Rétt er að benda á aó sú óvenjulega málvenja að kvenkenna bæjarnöfn er mun algengari á sunnanverðum Reykjanesskaga en á skaganum að norðan og vestan. A því er ein undantekning. Það er jörðin Þóroddstaðir á Miðnesi sem um tíma var kölluð Þórustaðir. Hvað veldur þessari málvenju að kvengera bæjarnöfn er óljóst en varla var staða kvenna á suðurhluta Reykjaness sterkari en á hinum nyrðri. Byggð er raunar eldri á norðanverðum skaganum en hinum syðri en hvort það tengist þessari málvenju eitthvað skal ósagt látið.

Eftirmáli greinarhöfundar

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – gamli bærinn.

Eftir að ég skrifaði grein mína um bæjarnafnið Járngerðarstaðir þar sem ég færði rök að því að nafnið væri dregið af járnvinnslu eða járnsmíði kannaði ég betur nokkrar heimildir sem renna stoðum undir það að sá skilningur á nafninu sé réttari en hinn að nafnið sé upphaflega kvenmannsnafn. Veturinn 1117-1118 dvaldi Grettir Ásmundarson hinn sterki í útlegð í Ljárskógum í Dölum hjá Þorsteini Kuggasyni frænda sínum. Þar vann Grettir m.a. við járnsmíði en „nennti misjafnt” eins og það er orðað í 54. kapítula Grettissógu. Sem kunnugt er var unnið járn úr mýrum þarna vestra og eru varðveittar um það allgóðar sagnir og fornar minjar. Grettissaga getur þess að Þorsteinn hafi smíðað sér þarna brú úr járni heiman frá bænum úr Ljárskógum sem útgefandi Grettissögu hjá Fornritafélaginu, Guðni Jónsson, hefur þó efasemdir um eða sprottið hefur af blendnum sögnum. Athygli vekja orð Grettlu sem segir eftir að hafa lýst brú þessari: „Hafði Þorsteinn mikinn starfa fyrir þessari smíð (það er smíði brúarinnar) því að hann var járngörðarmaður mikill.” Hér vísar höfundur Grettissögu til þess að Þorsteinn hafi unnið járnið í brúna þarna heima og smíðað hana líka ásamt Gretti.

Innlent járn úr mýrarrauða

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

Þegar litið er í orðabækur frá 19. og 20. öld sem út komu yfir fornmálið kemur í ljós að höfundar þeirra hafa allir skilið orðið járngjörðarmaður á þann veg að það merkti járnsmiður, ekki aðeins sá sem býr til járn úr mýrarrauða heldur líka sá sem úr járninu smíðar (sjá orðabækur eftir Norðmennina Leif Heggstad og Johann Fritzner svo og íslensk-enska oröabók yfir fornmál er þeir Guðbrandur Vigfússon og Englendingurinn Cleasby tóku saman.) Allir vísa þeir til þess dæmis í Grettlu sem heimildar en ekki önnur rit. Talið er að Grettissaga hafi verið færð í letur nálægt 1300 og er ekki annað að sjá en að höfundur hennar noti því sama orðið um þann sem býr til járnið og þann sem smíðar úr því, enda hefur þetta trúlega hvorttveggja farið saman á landnáms- og þjóðveldisöld. En er tímar liðu fram á miðaldir má ætla að orðið járnsmiður hafi unnið á enda hættu menn smám saman að vinna innlent járn úr mýrarrauða. Hafi þar verið byrjað að flytja inn útlent hráefni til járnsmíða, líklega eftir 1400 og síðar, og þá hafi upphafleg merking orðsins járngerðarmaður fyrnst og glatast en orðið járnsmiður tekið við og svo stendur enn á okkar dögum. í ljósi þessara röksemda er ekkert því til fyrirstöðu að gefa þeirri skýringu undir fótinn að hið forna bæjarnafn Járngerðarstaðir sé runnið frá járnsmíðum þeirra Mold-Gnúpssona eða jafnvel frá Gnúpi sjálfum eins og Landnáma sjálf getur um.

Engin Járngerður í Grindavík

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Sú sterka tilhneiging á suðurströnd Reykjanesskagans að kvengera nöfn á svæðinu styður þessatilgátu allvel. Athygli vekur líka að kvenmannsnafnið Járngerður þekkist ekki sem skírnarnafn kvenna í Grindavík, hvorki á miðöldum né á seinni tímum að því er séð verður. Gömul hefð hefur því varla verið fyrir nafninu í grindvískum ættum eins og stundum gerist með mannanöfn sem þannig ná að lifa staðbundið innan héraða allt frá landnámi. Dæmi um slíkt má þó finna á næstu grösum, t.d. í Árnessýslu. Í ljósi alls þessa er ekki annað að sjá en að bæjarnafnið Járngerðarstaðir eigi sér uppruna í hinni fornu iðngrein grindvískra frumbyggja er námu þar land um 936, en ekki kvenmannsnafnið Járngerður.
Þegar Grettissaga var skráð um og eftir 1300 þekktu menn enn að orðið járngerð merkti bæði gerð járns úr mýrarrauða og smíði úr járni. En þegar þýskir og enskir kaupmenn fóru að koma til Íslands efir 1420 fluttu þeir með sér járn og aðra málma til smíða týndist hin gamla merking í orðinu járngerð en um leið kom upp kvenkenning hins gamla bæjarnafns í Grindavík þegar menn hættu hinni fornu járnvinnslu í landinu. Sú vinnsla borgaði sig ekki lengur þegar innflutningur málma frá miklum námulöndum hófst enda óx námugröftur þá í þeim löndum sem Íslendingar skiptu mest við, ekki síst í Englandi. Þessi þróun varð ekki stöðvuð og gamla íslenska járngerðin var ekki tekin upp aftur enda útlendu málmarnir betri en íslenska járnið. Á árunum 1420-1500 hófst þessi breyting og þegar Danir hófu einokunarverslun sína 1602 voru Íslendingar algjörlega háðir útlendu járni til smíða sinna eins og sést af heimildum. Þá var uppruni hins foma grindvíska bæjanafns löngu gleymdur mönnum en nafnið að fullu orðið kvenmannsnafn sem farið var að tengjast þjóðsögum sem þá mynduðust.” – Skúli Magnússon

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2007, Bæjarnafnið Járngerðarstaðir í Grindavík, Skúli Magnússon, bls. 8-9.

Jángerðarstaðir

Járngerðarstaðir fyrrum – samsett  mynd.

Krýsuvík

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Krýsuvíkurkirkju í Lögberg-Heimskringlu árið 1962:

Ólafur Þorvaldsson“Þegar þess var farið á leit við mig, að ég skrifaði fyrir þetta blað nokkuð um Krýsuvíkurkirkju, varð mér fyrst ljóst, hve lítið það er, sem ég veit í þessu efni, — en menn fara stundum enn þá í geitarhús að leita ullar. Ég er því smeykur um, að svipað hafi hent vin minn, þegar hann villtist til mín með þetta efni.
Og nú detta mér í hug sem oftar, þegar svipað stendur á sem hér, hendingar í einu kvæði Fornólfs, þar sem hann segir: „Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin”.
Ég er því miður illa að mér í sögu kirkna á Íslandi frá fornu og nýju, uppruna þeirra, endurbyggingu eða tilfærslu, og allt þar á milli. Það mun mála sannast, að erfitt mun vera að rekja sögu margra kirkna okkar frá fyrstu tíð, þótt sjálfsagt mætti fá úr mörgu skorið í því efni, en til þessa hefur mig skort hvort tveggja, tíma og tækifæri.
Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík úrfallalítið í átta til níu aldir. Ég held, að Krýsuvíkurkirkja sé ein af þeim kirkjum, að erfitt sé að rekja sögu hennar í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fengist í þá sögu. Ég skal aðeins nefna eitt, upphaf þeirrar sögu. Ég held að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar. Síðar kem ég lítillega að þessu óráðna spursmáli, ef rúm leyfir.
Lesendur þessa blaðs munu litlu nær um Krýsuvíkurkirkju af formálanum einum. Þess vegna skal nú sagt hér það helsta, sem ég veit og man um nefnda kirkju, og er því bezt að byrja á byrjuninni.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar; meint kirkjutóft vinstra megin.

Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: „Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík.” Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rök, að „Súgandi”, þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en þau sýslumörk komu löngu síðra. Líklegt má telja, að kirkja hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík. Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum auk ítaka.

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

Eftir það, er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o. fl. og ber víðast fátt þar á milli utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað. Lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og má segja, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Til að sýna megin efni í lestra máldaganna tek ég upp kafla úr máldaga Gísla biskups Jónssonar fré 1577 (í F. XV. 3, bls. 641). Þar segir:… „Ennfremur 6 kýr og 5 ásauðar kúgildi, (þ. e. 30 ær). Einnig þrjá hesta og eitt hross (þ.e. hryssa). Innan kirkju tvenn messuklæði alfær og kantara kápu eina. Einnig tvenn altarisklæði. Ein brún. Einn kaleik, þrjár klukkur, koparstiku með þremur pípum. Glóðker. Einn ampli. Paxspjald . Vatnsklukka. Kirkjustokkur, Þrjár merkur vax. Bækur nokkrar. — Innanstokks tvær skálar, tvo spæni, tvö trog, hægindi, hvíluvoðir og áklæði.”

Krýsuvíkurkirkja

Innansmíð Krýsurvíkurkirkju – teiknað árið 1810.

Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið að lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt heita allvel á vegi í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, þar eð hún átti einnig Herdísarvíkina, beztu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýms ítök. Hitt er ljóst bæði af íslenzkum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru sem flestir munu hafa gert til athugunar á jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings.
Árið 1553—54 telur Marteinn biskup „kirkju þa r góða, — en enginn bær er þá í sókninni”. Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þessa byggðarlags varað, því að með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti niður sóknarkirkju Krýsuvík og leggist hún og eitt kot, sem þar er hjá, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamallt. Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma Guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd. Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð til Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. okt. 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).
Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu. Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, — en mennirnir viðurkenndu hana ekki lengur. — Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami ,,huldi verndar kraftur”, sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um „hólmann, þar sem Gunnar snéri aftur”, við að forða því frá að afmást með öllu svo enginn sæi þess lengur stað.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1810.

Það má segja, að frá 1563—1929 hafi Krýsuvíkursókn verið í útlegð eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907—1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjuganga það.
Árið 1929, þegar kirkjan er lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin. Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvædir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, — en þetta kemur í hendi, sagði karlinn. Vegurinn var kominn um eina samfellda stóra gróðursvæðið í hinni miklu hraunbreiðu Reykjanesskagas. Land með mikla möguleika í jörð og á allmikil hlunnindi við sjó, þótt enginn vilji nýta í dag.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, — en „kirkja fyrirfannst engin á staðnum”, en til staðar mun hann ekki hafa verið, sá sem fyrir kúgildunum hefur séð, — en síðustu prestar þar voru það ekki.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson – síðasti ábúandinn í Krýsuvík.

Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggar né hurð. Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin. Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina, sem önnur hús staðarins, hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórviðri og alla „hverakippi”. Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús heldur en þar hefur áður staðið og bíður nú þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar. Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.
Áður er þess getið í grein þessari, að óvíst væri hvar hin fyrsta Krýsuvíkurkirkja hafi staðið. Þótt allt þar um sé í mikilli óvissu enn sem komið er en sem ég veit að á eftir að skýrast áður en langt um líður, þá tel ég, að ekki sé hægt að skrifa svo um Krýsuvík og kirkju þar, að gengið sé með öllu fram hjá hinni aldagömlu sögu, að sú Krýsuvík, sem við þekkjum í dag hafi ekki í upphafi byggðarinnar verið þar sem nú er.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Til fróðleiks skal ég tilfæra hér í sem stytztu máli það helzta, sem vísinda og fræðimenn hafa um þetta efni skrifað. Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: „Að minnsta kosti er það víst, að Krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna”. Hér er vitanlega átt við þann stað, sem nú heitir Húshólmi. Hólmastaðar hef ég hvergi heyrt getið utan í bók Eggerts. Fullvíst má telja, að þetta nafn hafi til orðið eftir að hraunið hólmaði þennan blett af.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni I. bls. 186, um rústirnar í Húshólma: „Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni”.

Húshólmi

Húshólmi – meintur grafreitur.

Og enn segir hann: „Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum”. Einnig getur Þorvaldur Thoroddsen um alllanga garða, sem sjáist þar enn. Þorvaldur Thoroddsen segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi gizkað á, að það hafi runnið kringum 1340, „án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjar þar. Getur hann þa r garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í grein sinni kemst Brynjólfur þannig að orði á einum stað:

Húshólmi

Húshólmi og Gamla-Krýsuvík.

„Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbergi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess”. Brynjólfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphaflega þar sem nú er Húshólmi. Það sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar — Krýsuvík eins og Brynjólfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar sem nú er að hún hefði þá fengið þetta nafn því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík.
Rúmsins vegna verð ég að láta staðar numið hér, en um þetta má nánar lesa í bókinni „Harðsporar” frá 1951, bls. 109.
Vel veit ég, að í framangreindar frásagnir vantar vísindalegar sannanir og er það rétt svo langt sem það nær og þá er að afla þeirra. — Í Húshólma munu svo merkilegar fornminjar vera, að óvíst er hverju þær við rannsókn gætu aukið við hinar fornu sögu okkar. Þegar hér er komið lestri má vera, að einhverjum detti í hug þessi spurning: Hvað kemur þessi týnda byggð ef til hefur verið Krýsuvíkurkirkju við? Hér ber allt að einum brunni. Um þetta vantar aðeins órækar sannanir.
Eggert Ólafsson hafði engar sannanir þá hann skrifaði orð þau, sem að framan getur. En líkurnar hafa honum sýnst svo ljósar, að þar væri ekki um efamál að ræða.

Húshólmi

Húshólmi – einn hinna fornu garða.

Hafi fyrsta byggð Krýsuvíkur verið niður við sjó svo sem hin aldna saga hermir og minjar þar benda til, hefur vitanlega ekki liðið langur tími þar til þar hafi kirkja risið. Svo stór hefur Krýsuvíkurkirkja aldrei þurft að vera, að efni til hennar hafi skort, þar eð reka fjörur eru miklar og rekasælar, svo sem við vestasta hluta Krýsuvíkurbergs allt til Selatanga vestur.
Skal nú vikið nokkrum orðum aftur til ársins 1200. Þá er sem fyrr segir Krýsuvíkurkirkju getið í kirknaskrá Páls biskups, og þar þess getið að kirkjan sé Maríukirkja svo og landaeigna hennar. Hér hefur þess ekki þótt þurfa við að tilgreina nánar hvar kirkjan væri staðsett, því vitanlega hefur það verið svo sem nafn hennar bendir til í Krýsuvík, og þá var engin nauðsyn að geta þess, hvar sú Krýsuvík væri vegna þess, að aldrei hefur verið nema ein byggð með því nafni, — en hvar var sú Krýsuvík, sem Páll biskup minnist á um árið 1200? Þessari gömlu og nýju spurningu er enn þá ósvarað, en við verðum að vona, að svarið komi von bráðar.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Ef það væri nú svo, að Ögmundarhraun hafi runnið kringum 1340 svo sem Jónas Hallgrímsson gizkar á, er ekkert líklegra en að fólkið sem flýði eldana hafi leitað áður en eldurinn lokaði leiðum upp í landið inn milli fjallanna, þar sem eldar sem þá brunnu náðu því ekki. Vegarlengdin var ekki nema röskur stundargangur. Þetta land var þess heimaland, sjálfsagt fyrr nytjað á margan hátt. Þar var búsmali þess hagvanur, heyskaparlíkur meiri og betri, svörður til eldsneytis í mýrum og ef til vill fleira, sem nú er ekki gott að segja um.
Til endurbyggingar húsatimbur á víðáttumiklum rekafjörum, — en dálítið lengra til dráttar. Hafi þetta svona verið þá hefur fólkið flutt með sér nafn þeirrar byggðar, sem það af illri nauðsyn varð að yfirgefa og þá von bráðar komið sér upp kirkju, sem hefur verið Krýsuvíkurkirkja jafnt sem áður.

Krýsuvíkurkirkja

Þótt erfitt sé að fullyrða, hvar fyrsta kirkja þeirra fyrstu Krýsvíkinga hafi staðið, mun aftur á móti óhætt að telja fullvíst, að margar síðustu aldirnar hafi kirkja þeirra staðið þar sem hún stóð fram á þessa öld, — og stendur í rauninni enn. Þeim mun nú óðum fækka, sem við messugerð voru hjá séra Eggert Sigfússyni presti Selvogsþinga, þá hann messaði í Krýsuvíkurkirkju, því eins og fyrr segir þá var Krýsuvíkurkirkja útkirkja frá Strönd til 1907. Sá er þetta skrifar var við eina guðsþjónustu í Krýsuvík hjá séra Eggert 1901. Margt var vel um séra Eggert þótt alleinkennilegur þætti í ýmsu. Ágætur ræðumaður var hann talinn á tækifærisræður, enda var hann gáfaður lærdómsmaður.
Aftur á móti voru flestar kirkjuræður hans mjög stuttar og var sem hohum lægi mikið á við flest verk í kirkju og viðurkenndi þetta sjálfur svo sem þetta dæmi sýnir. Eitt sinn þá hann kom úr kirkju í Krýsuvík segir hann strax þegar hann kom í bæinn: „Nú gerði ég það gott, nú hafði ég faðirvorið í einu andartaki.”

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Margt mætti um séra Eggert segja og allt gott sérdeilis sem mann. Hann var vammlaus maður og heiðarlegur fram í fingurgóma. Hann var einn þeirra, sem samtíðin misskildi, þótt þar væru undantekningar. Á öðrum vettvangi gefst mér ef til vill tækifæri til að segja nánar frá þessum sérkennilega manni.

Ég ætla, að ég hafi verið við síðasta prestsverk, sem framkvæmt var í Krýsuvíkurkirkju, það um árið 1917. Þá var jarðsunginn þar síðasti maður í Krýsuvíkurkirkjugarði, og var ég einn af líkmönnunum. Verkið framkvæmdi sóknarpresturinn séra Brynjólfur Magnússon frá Stað.
Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð er af timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er hennar getið í mörgum prófastavísitasíum og ávallt nefnd „timburhús”.

Krýsuvík

Krýsuvík 1920.

Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst all nákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Hvenær viðgerð sú, er Pétur biskup hvetur til 1875 hefur fram farið hefur mér ekki auðnast að grafa upp, en á síðasta fjórðungi síðustu aldar hefur það verið gert. Þótt mér hafi ekki tekizt að finna reikninga yfir kirkjusmíðar 1857 má fullvíst telja að þar hafi aðalsmiður verið Benteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans Sigurbent varð til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum mun báðum hafa verið í blóð borið. Með endurnýjun þessa rösklega hundrað ára gamla húss, sem lengst af var kirkja, hefst nýr kapítuli í sögu kirkjunnar í Krýsuvík, sem verður ekki sagður hér. Í þeim kapítula hlýtur ávallt að gnæfa hæst nafn þess manns, sem af svo mikilli höfðingslund og óeigingirni og þó í algerri kyrrþey hefur látið gera þetta hús eins og það er í dag, ásamt umbótum á kirkjugarðinum, algeriega fyrir fé úr eigin vasa. Maður þessi er Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Þá mun heldur ekki gleymast nafn þess, sem verkið leysti af hendi, þjóðhagans Sigurbents Gíslasonar í Hafnarfirði. Verk það, sem þessir tveir menn hafa innt af hendi í Krýsuvík á síðustu árum, lofar báða þessa meistara.

Björn Jóhannesson

Björn Jóhannesson.

Ég hygg, að með húsi því í Krýsuvík, sem nú hefur verið þar endurbyggt og innan skamms mun albúið til vígslu á ný til guðsþjónustuhalds, hafi Björn Jóhannesson unnið það lofsverða verk, sem fá dæmi munu finnast fyrir hér á landi í seinni tíð, — og trúað gæti ég að „Fáir muni eftir leika”, og mætti þó gjarnan verða hrakspá.
Að lokum skal hér getið þeirra presta, sem kunnugt er um að þjónað hafi Krýsuvík og setið þar meðan sérstakt prestakall var, en talið er að prestur hafi verið þar allt til 1641. Prestarnir voru þessir: Kálfur Jónsson 1375, Þórarinn Felixson 1447, Guðmundur Steinsson 1525, Björn Ólafsson um 1528 til um 1580, Tómas Björnsson 1586 til um 1602, Bjarni Gíslason 1603, Gísli Bjarnason 1606, Eiríkur Stefánsson 1609.
Eftir að Krýsuvíkursókn var lögð til Strandar í Selvogi þjónuðu þar ýmsir prestar og munu margir enn kannast við nöfn margra þeirra. Má þar til nefna Eirík Magnússon hinn fróða, Jón Vestmann og síðast Eggert Sigfússon. Allir sátu þessir að Vogshúsum. Af síðari tíma prestum, er þjónuðu Krýsuvík um lengri eða skemmri tíma, má nefna Odd Gíslason að Stað í Grindavík, Kristján Eldjárn Þórarinsson að Stað, Ólaf Ólafsson að Vogshúsum síðar fríkirkjuprestur í Reykjavík, og Hafnarfirði og síðast Brynjólf Magnússon að Stað, er síðastur vann prestsverk í Krýsuvík.” – (Tekið saman í janúar 1961 – Ólafur Þorvaldsson).

Sjá einnig hér frásögn Ólafs Þorvaldssonar um Krýsuvíkurkirkju að fornu og nýju í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablað 1961.

Heimild:
Lögberg-Heimskringla, 45. tbl. 22.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvaldsson, bls. 4 og 7
Lögberg-Heimskringa, 46. tbl. 29.11.1962, Krýsuvíkurkirkja, Ólafur Þorvalddson, bls. 1, 2 og 7.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1964.

Auðsholt

Í “Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi, Áfangaskýrslu II” frá árinu 2017 segir m.a. um Auðsholt, Sogarstein og Auðsholtshelli:
“30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.” DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. ” JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.

Auðsholt

Auðsholt.

“…Auðsholt … standa enn á sama stað…,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs. Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa. Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið í hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.

Sorgarsteinn – þjóðsaga 63°57.013N 21°09.827V:

Ölfus

Sorgarsteinn.

“Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,” segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli 020. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras. Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.”

Auðsholtshellir – hellir (fjárskýli) 63°56.991N 21°09.409V:

Ölfus

Auðsholtshellir.

“Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,” segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum.
Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.”

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.

Andrews

Í frásögnum fjölmiðla á sínum tíma var fjallað um afhjúpun minnisvarða um flugslysið í Kastinu árið 1943.

Afhjúpun minnisvarðar um flugslys á Reykjanesi 27.04.2018:

Andrews

Andrews – minnismerki vígt.

“Fyrir 75 árum, hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar heitið „Hot Stuff“ á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn „Hot Stuff“ var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.

Í flugslysinu i Kastinu fórust [þrettán] manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.

Andrews

Andrews – Minnsmerki vígt.

Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961. Andrews hershöfðingi var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsdeild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.

Hot Stuff

Áhöfnin á Hot Stuff er fórst í Kastinu hinn örlagaríka dag.

Var Andrews herflugvöllurinn í Maryland, aðsetur einkaflugvélar Bandaríkjaforseta, Air Force One, nefndur til heiðurs honum. Bandaríska herstjórnin á Íslandi nefndi nýreist íþróttahús við Hálogaland í Reykjavík Andrews Memorial Field House til heiðurs hershöfðingjanum en húsið var helsta íþróttahús höfuðborgairnnar í tvo áratugi eftir stríðið. Varnarliðið nefndi einnig samkomuhús sitt á Keflavíkurflugvelli (nú Ásbrú) Andrews Theater til heiðurs Andrews hershöfðingja.

Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi var afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindarvíkurveg, fimmtudaginn 3. maí kl. 13:00. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingjum þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona. En allir eru þeir miklir áhugamenn um flugvélar og flugsögu seinni heimstyrjaldarinnar. Gert er ráð fyrir „heiðursflugi” B-52 Stratofortress flugvélar bandaríska flughersins yfir svæðið á meðan á afhjúpun stendur.

Nokkrir ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu koma frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddir athöfnina. Meðal annarra gesta verða Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Jill Esposito, staðgengill sendiherra bandaríska sendiráðsins á Íslandi, ásamt Lt. Gen. Richard Clark og Col. John Teichert frá bandaríska lofthernum. Í lok athafnarinnar verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um slysið og Frank M. Andrews hershöfðingja.”

Kastið

B-17 líkanið.

Fyrir stuttu (skrifað 10.05.2021) barst FERLIR sú fregn að flugvélalíkaninu á minnismerkinu framangreinda virðist hafa verið stolið, a.m.k. væri það horfið. Viðkomanda var bent á að mögulega eðlilegra skýringa gæti verið að finna á hvarfinu.
Hringt var í nefndan Þorstein Marteinsson, s.892 3628, er var annar þeirra bræðra er m.a. stóðu að gerð minnismerkisins á núverandi stað.
Þorsteinn sagði að þeir hefðu nýlega tekið líkanið af minnismerkinu vegna þess hversu illa það virtist útleikið, sennilega vegna gufuefnissambanda frá Svartsengi. Ætlunin væri að fægja það og síðan setja minnismerkið upp á nýjum stað; ofan hringtorgs Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Eftir nýlegar vegaframkvæmdir við Grindavíkurveginn, þar sem umferð til suðurs hefði verið verulega hindruð að minnismerkinu, hafi þurft að hugsa staðsetninguna upp á nýtt. Upplýsingafulltrúa Grindavíkurbæjar hafi verið tilkynnt um framkvæmdina.
Stefnt er að úrbótunum á næstu vikum…

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir:
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/05/03/afhjupudu_minnisvarda_um_ahofn_b24d/
-https://www.vf.is/frettir/afhjupun-minnisvarda-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.ruv.is/frett/afhjupa-minnisvarda-um-ahofn-flugvelar
-https://www.grindavik.is/v/24046
-https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/103-b-24-liberator-kast-fagradalsfjall-may-3-1943
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi

Kastið

Hot Stuff.

Hellisheiðarvegur

Í Tímann árið 1955 ritaði Ólafur Ketilsson “Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár”. Ólafur Ketilsson, eða Óli Ket, eins og hann var jafnan nefndur, var víðfrægur rútubílstjóri millum m.a. höfuðborgarinnar og uppsveita Árnessýslu.

“Hæstvirtir alþingismenn.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson.

Fyrir 69 árum var unnið við þær framkvæmdir í landi voru, að staðsetja og leggja veg frá Reykjavík og áleiðis austur í Árnessýslu. Sú vegalagning var unnin samkvæmt kröfum og tækniþekkingu yfir standandi tíma, svo sem venja er til, en þekking og þörf hinna fyrri tíma var m.a. sú, eftir því sem sagt er, að staðsetja veginn og leggja hann þar, sem jarðlag var sléttast, án þess að hirða um beygjur, króka og brekkur, því að flutningatæki voru þá baggahestar og reiðhestar.
Það má segja að vegurinn væri lagður eftir kröfu síns tíma. Nokkru síðar urðu flutningatækin kerrur, sem hestum var beitt fyrir, en þá komu fljótlega fram kröfur um það að brekkur mættu ekki verða brattari en aðeins einn metri móti hverjum fimmtán til átján lengdarmetrum, þar sem því var við komið, utan þar sem lagt var f fjalllendi og öðru óhagstæðu landi.
Árin 1920 til 1922 hófst svo bílaöldin og bætt við kröfur tímans um vaxandi hraða.
Enn fremur varð fljótt þörf á því að geta ekið eftir veginum allt árið. Kom þá fljótt í ljós hversu óhagstæður hinn gamli vegur var vegna króka og snjóþyngsla, þar sem víða fylltist af snjó strax í fyrstu éljum. Gerðust kröfur manna strax háar um endurbætur og breytingar á vegstæðinu og veginum. Reyndist þá Smiðjulautin svonefnda verst vegna snjóþyngsla, enda mun vegurinn hafa verið færður þar til, og nýr byggður í staðinn um árið 1925, en hefir verið endurbættur 6 eða 7 sinnum síðan.
Ólafur Ketilsson
Á árunum 1926 til 1930 voru gerðar mjóar vetrarbrautir í Sandskeiðsbrekku, Bolaöldum, á Hellisheiði, í Kömbum og víðar. Árið 1930 til 1938 var gerður nýr vegur milli Baldurshaga og Hólms, ennfremur vetrarbrautir ofan Lögbergs, í Bolaöldum, svo og í Svínahrauni, ásamt nokkrum vetrarbrautum á Hellisheiði sjálfri, austan Smiðjulautar, við Útileguskafl, Urðarás og víðar. Á þeim árum var vegurinn og breikkaður og færður til, vestan Baldurshaga, milli Hólms og Baldurshaga, neðan Gunnarshólma, í Sandskeiðsbrekku, vestri og eystri, í Bolaöldum, í Svínahrauni í Hveradalsbrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og miklar breytingar gerðar í Kömbum og víðar og víðar, sem ekki er hægt upp að telja. Árin 1938 til 1944 var vegurinn breikkaður og færður til, meðal annars frá Reykjavík upp íyrir Ártúnsbrekku, við Rauðavatn, milli Baldurshaga og Hólms, skammt frá Gunnarshólma, í Lögbergsbrekku ofan Lögbergs, á Sandskeiði, í Sandskeiðsbrekkum báðum, neðan til í Svínahrauni, mjög mikið í Hveradalabrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og í Kömbum. Margt voru þetta breytingar, sem ökumenn töldu nauðsynlegar eins og þá stóð viðhorfið í vegamálum.
Ólafur Ketilsson
Þá var nýlega hafin lagning á svonefndum Krýsuvíkurvegi, sem okkur var kunnugt um að ekki mundi verða góður né hagstæður til aksturs vegna þess hve langur hann mundi verða. Ennfremur valið á vegarstæðinu. Var okkur kunnugt þar sem sóst er eftir að finna sem flestar brekkur bæði brattar og krókóttar. Enda varð það líka staðreynd þá er honum var lokið að brattinn varð mestur og beygjurnar flestar til samanburðar við aðra okkar austurvegi.
Ég tel líka rétt að geta þess að á umtöluðu tímabili hófst breikkun og endurbætur á Ölfusvegi og brúm. Það skeði rétt eftir að bílar frá þeim Churchill og Thoraren sen mættust á einni brúarmænunni og brotnuðu báðir mjög mikið þá er þeir duttu út af brúnni og niður í skurð.
1944 til 1954 hafa árin liðið, svo sem venja er, og endurbætur á austurvegi halda áfram þrátt fyrir nýjar ákvarðanir og ný vegalög. En ekki hefir ykkur, hæstvirtir alþingismenn, frekar enn öðrum líkað gamla vegstæðið, né gamli vegurinn, þrátt fyrir allar endurbæturnar.

Klifhæð

Letursteinninn á Klifhæð.

Á tímabilinu 1944 eða 1945 settuð þið ný lög um það, að leggja skyldi nýjan veg (Austurveg) alla leið frá Rauðavatni til Selfoss, á næstu 7 árum, og leggja gamla veginn niður. Á þeim árum létuð þið vegamálastjóra gera kostnaðaráætlun um sama veg. Kostnaðaráætlunin reyndist það há að ykkur hefir víst svimað við, og það svo, að þið hafið hvorki látið framkvæma verkið né leggja nýjan Austurveg, ekki heldur endurskoða kostnaðaráætlunina. Við þetta situr enn í dag. Má það furðu gegna að hæstvirtir alþingismenn hlíti ekki sinum eigin lögum, þrátt fyrir marg endurteknar áminningar frá okkur kjósendum, en ætlist svo til að við hlíðum öllu því, sem þið setjið sem lög.
Árin líða 1944 til 1954. Á þessu tímabili hefir enn á ný, á þessum sömu stöðum verið bætt og bætt, bót við bót, vestan Rauðavatns, milli Baldurshaga og Hólms, en þar hefir snjórinn verið dýpstur á veginum síðastliðna vetur, þrátt fyrir bætur þriðja til fjórða hvert ár hin síðastliðnu þrjátíu. Endurbæturnar halda áfram, norðan Hólms, við Geitháls, móts við Geitháls, austan við Geitháls, í Lögbergsbrekku og það oft, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, margendurtekið, þar hefir staðið margra ára styrjöld við símamálastjóra og símastrengi. Endurbæturnar halda áfram, við ártalasteininn 1887 er vegurinn orð inn fimmfaldur, móts við Neðrivötn margendurbættur, við 20 km. steininn er vegurinn fjórfaldur, í Sandskeiðabrekku vestri er búið að gera 10 eða 12 áhlaup til lögunar á beygjunni, en er þó nær vinkilbeygja enn, á Sandskeiðinu er búið að endurbyggja veginn mörgum sinnum á sama stað. Þar hafa hver orðið fyrir öðrum, símastrengurinn og vegurinn orðið að stórtjóni.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Í Sandskeiðsbrekku er vegurinn orðinn fimmfaldur, í Bolaöldum er hann margfaldur, í Svínahrauni hafa verið gerð stór áhlaup, við Reykjafjall hefir verið kostað nokkru til. Í Hverabrekku hefir enn verið bætt og settur upp minnisvarði (Geirfuglaskeri) móti Skíðaskála og á Hellisheiði, teknar af beygjur og aðrar búnar til, við Urðarás og víðar. Í Kömbum hefir veginum verið breytt úr 33 beygjum í aðeins 11 beygjur. Þetta hefir verið bætt og margt fleira á þessum mörgu árum, gæti því margur haldið að komið væri nóg þegar árið 1953 var liðið, en það reyndist ekki.
Bæturnar héldu áfram á næsta ári. Vinnuaðferðum og afköstunum skal hér lýst með nokkrum orðum.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Mánudaginn 2. ágúst byrjaði vegagerð ríkisins vinnu við endurbætur vegarins skammt fyrir ofan Lækjarbotna á Austurvegi. Unnið var við það alla vinnudaga svo sem venja er. Vinnuaðferðin var hin sama og svo oft áður, ekið möl á venjulegum bílum norðan úr Rauðhólum, en burðarmagn malarbílanna er 3 tonn (en aðrir aðilar nota við flutninga á sama vegi 8 til 12 tonna bíla, og jafnvel stærri). Mokað var á með vélskóflu og rótað út af þrem eða fjórum mönnum. Enn fremur var öllum bílunum ekið til Reykjavíkur á hverju kvöldi, og á vinnustað á hverjum morgni, fyrir háa greiðslu.
Á þessum umrædda stað var vegurinn hækkaður allt frá 25 cm. og upp í 70 til 80 cm. Vegalengdin sem þessi hækkun var gerð á er sennilega um 300 metrar. Þessi vegarstúfur er því ekki langur miðað við alla vegalengdina austur yfir Hellisheiði, því að það eru margir kílómetrar.
Það mun hafa verið þriggja vikna verk að hækka þennan bút. Mun það því hafa kostað ærið fé, og væri því ekki þörf fyrir ráðamenn að kynna sér vel hvað þessi vegstúfur hefir kostað. Ekki væri siður þörf á að kynna sér hvert gildi þessi hækkun hefir á vegi sem er að verða 69 ara. Varla er það svo hátíðlegt afmæli að svona miklu þurfi að kosta til. Annað mál væri ef um sjötugsafmæli væri að ræða, þá veitti ekki af að halda sér til.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur ofan Hveragerðis.

Þess er rétt að minnast að svona vinnuaðferð má teljast alveg sérstök, þar sem um er að ræða mjög gott ýtuland, en slík verkfæri eru ekki einu sinni notuð til að hækka undir þar sem breikkað er, heldur ekið möl og aftur möl. Verður malarlagið því á annan metra að þykkt, þar sem breikkað hefir verið líka. En hver teningsmetri af aðkeyrðu efni kostar yfir 30 krónur, en þar sem ýtt væri upp með jarðýtu kostað teningsmetrinn aðeins 4 til 5 krónur. Þarna geta menn séð hagsýni vegagerðarinnar, en svona vinnuaðferð er búið að viðhafa í mörg ár öðru hvoru á austurvegi, en það er þó sá vegur, sem á að leggjast niður innan fárra ára og nýr að koma í staðinn, og mun koma.
Svo sem áður er sagt þótti ykkur kostnaðaráætlun vegamálastióra um nýjan veg of há, en hefir auðvitað verið miðuð við svona vinnubrögð eins og þau hafa verið á þessum umrædda vegbút. Svo há þótti kostnaðaráætlunin að hin hæstvirta fjárveitinganefnd Alþingis hefir ekki enn þann dag í dag, fengist til að byrja á fjárveitingu til vegarins. En í svona vegbúta veita alþingismenn fé, ár eftir ár, svo tugum þúsunda skiptir. án þess að fyrirskipa eða láta framkvæma nauðsynlegar endurbætur og vegalagningar eftir tækni og þekkingu nútímans, eins og tíðkast mun í nágrannalönd um okkar. Nei, ekki er svo gjört, heldur halda bæturnar áfram. Þá er þeirri 300 metra bót var lokið, seint í ágúst, var enn byrjað a nýrri bót milli Lögbergs og Sandskeiðs. Unnið var við þessa bót svo lengi sem sumarið entist, og jafnvel fram á vetur. Enginn veit hvort því verki er lokið eða ekki, né hvenær næsta bót verður sett utan á eða ofan á umræddan vegstúf.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Löngu áður en því verki var lokið, var byrjað á einum vegbút móti Vorsabæ í Ölfusi. Unnið var við þetta verk fram á vetur og byggður nokkur bútur, en það er vitað mál að því verki er ekki nærri lokið, það sögðu þeir sem þar unnu að þessi bútur ætti að verða 950 m. langur, að báðum beygjum meðtöldum.
Nú hafið þið heyrt (og jafnvel séð) hvað gerst hefir til endurbóta á Austurvegi í heilan mannsaldur. Ég vona líka að þið hafið fylgst með hverju sinni hvernig bæturnar minnka snjólögin á veginum, að því hefir verið stefnt annars var fjöldi bótanna óþarfur.
En hvað skeður? 8. nóvember síðastl. gerði snjóél með stinningskalda á suðvestan. Hinn sama dag, var tilkynnt í ríkisútvarpinu um hádegið að Hellisheiði væri ófær bifreiðum. Hvað hafði skeð?
Það hafði fallið snjór á hinn gamla veg í 4 til 6 tíma og hann orðið ófær bifreiðum um leið. Þrátt fyrir allar endurbæturnar síðastl. 30 ár.
Hvað er fram undan næst?
Ég leyfi mér hér með að spyrja:
Í fyrsta lagi: Hvað hafa þær bætur kostað, sem gerðar voru í sumar á austurvegi?
Í öðru lagi: Í hve mörg ár enn, er hugsað um að halda áfram með þennan bótaklasa?
Í þriðja lagi: Hvað veldur því að ekki er lagður hinn nýi austurvegur? Svar óskast.
Staddur á bættum vegbút, 12. desember 1954.” – Ólafur Ketilsson.

Á Mbl.is 15. ágúst. 2013 segir af “Merkum Íslendingi”; Ólafi Ketilssyni:

Ólafur Ketilsson

“Ólafur Ketilsson sérleyfishafi fæddist á Álfsstöðum á Skeiðum 15.8. 1903, og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Ketill Helgason, bóndi á Álfsstöðum, og k.h., Kristín Hafliðadóttir húsfreyja.
Ketill var sonur Helga, b. í Skálholti og Drangshlíð undir Eyjafjöllum Ólafssonar, og Valgerðar Eyjólfsdóttir, frá Vælugerði í Flóa.
Kristín var dóttir Hafliða Jónssonar b. á Birnustöðum, frá Auðsholti í Biskupstungum, og Sigríður Brynjólfsdóttir frá Bolholti á Rangárvöllum.
Systkini Ólafs urðu níu en átta þeirra komust á legg. Meðal þeirra voru Brynjólfur, lengi starfsmaður hjá Reykjavíkurborg; Valgerður, húsfreyja á Álfsstöðum; Helgi, bóndi á Álfsstöðum: Sigurbjörn, skólastjóri í Ytri-Njarðvík; Kristín Ágústa, húsfreyja í Forsæti; Hafliði, bóndi. á Álfsstöðum, og Guðmundur, mjólkurfræðingur hjá Mjólkurbúi Flóamanna.
Kona Ólafs var Svanborg Þórdís Ásmundsdóttir, húsfreyja, frá Neðra-Apavatni í Grímsnesi, og eignuðust þau þrjár dætur og einn kjörson.
Ólafur Ketilsson
Ólafur var á togurum nokkrar vetrarvertíðir og eftirsóttur háseti enda þrekmaður, rammur að afli. Hann tók bílpróf 1928, festi kaup á vörubifreið sama vor og ók um skeið fyrir kaupfélagið á Minni-Borg í Grímsnesi.
Ólafur fékk sérleyfi fyrir fólksflutninga til Laugarvatns, Gullfoss og Geysis 1932 og hélt uppi áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Laugarvatns í marga áratugi. Hann varð með tíma

num góðkunn þjóðsagnapersóna fyrir hnyttin tilsvör og sérlega gætilegan akstur. Þá átti hann stundum í útistöðum við embættismenn kerfisins sem honum fannst svifaseint og stirt.
Ólafur var lengst af búsettur í Svanahlíð á Laugarvatni en síðustu árin bjó hann í íbúð sinni í Sunnuhlíð í Kópavogi.
Árið 1988 komu út æviminningar Ólafs, Á miðjum vegi í mannsaldur.
Ólafur lést 9.7. 1999.”

HÉR má lesa meira um Óla Ket.

Heimildir:
-Tíminn, 13. tbl. 18.01.1955, Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár, Ólafur Ketilsson frá Laugarvatni, bls. 4 og 6.
-Mbl.is, 15. ágúst. 2013, Merkir Íslendingar, Ólafur Ketilsson – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1476103/
-https://skemman.is/bitstream/1946/22419/1/BA_ritgerd_Oli_Ket.pdfÓlafur Ketilsson

Óbrennisbruni

Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.

Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg – að ætla mætti. Þegar betur er að gáð gæti þarna hafa verið um virki frá fyrstu tíð landnáms á svæðinu, nokkru fyrir landnám “hins fyrsta landnámsmanns”. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Hann hefur staðið að hæsta hól ofan við hina fornu Krýsuvík þar sem útsýni var yfir hafflötinn framundan.

Óbrennishólmi

Virkið (fjárborgin) í Óbrennishólma.

Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er tóft húss, sennilega topphlaðið hús að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar. Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn beinn og síðan bogadreginn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess. Ekki er óhugsandi að Óbrennishólmi hafi verið notaður sem selstaða eða til beitar um tíma því ofan hans má greina manngerða stíga.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu, skammt neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma. Af því að dæma er ekki fjarri lagi að álykta sem svo að líta verði á svæðið (Húshólmi/Óbrennishólmi) sem eina heild.
Gangan tók 2 klst og 11 mín. Frábært veður.

Óbrennishólmi

Fornir garðar í Óbrennishólma.