Dýrafjörður

Í riti LbhÍ (Landbúnaðarháskóla Íslands) nr. 131 fjallar Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, um sel við Dýrafjörð. Verulega fróðlegt er að bera skrif hans saman við fyrirliggjandi þekkingu FERLIRs á seljum og selstöðum á Reykjanesskaganum; hugtök, vinnubrögð, húsakostur og nýting virðist á báðum svæðum hafa verið með líkum hætti. Í ritgerðinni er samansafn gagnlegra heimilda almennt um sel fyrrum. Þrátt fyrir orðaskrúð fræðimannsins, sem skiptir í stóra samhenginu litlu máli, er, það sem skiptir öllu meira máli, að í ritgerðinni að finna upplýsingar manns er hafði a.m.k. fyrir því í framhaldinu að leita uppi minjarnar á vettvangi og bæði heimfæra þær upp á heimildirnar og lýsa þeim með hliðsjón af sögulegum og landfræðilegum aðstæðum. Þær eiga jafnt um fáu selstöðurnar við Dýrafjörð og þær u.þ.b. 400 er finna má á Reykjanesskaganum.

Dýrafjörður

Forsíða ritgerðarinnar um sel við Dýrafjörð eftir Bjarna Guðmumdsson.

„En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.“ – Guðmundur Böðvarsson

Hvað er sel?

Dýrafjörður

Það er viðeigandi að byrja með nokkur hugtök og skilgreiningar á þeim. Styðjast má við Íslenska orðabók. Samkvæmt henni er sel útihús í högum langt frá bæjum þar sem búpeningur er látinn ganga á sumrum. Selstaða er það að hafa búpening í seli og selför ferð í sel en einnig sögulegur réttur jarðarábúanda til að hafa búpening í seli. Selland er land þar sem haft er í seli og selhöfn beitarland sem seli tilheyrir. Þá má nefna þótt ekki komi það við sögu fyrr en síðar að búsgagnið selskrína er ílát sem mjólk var hleypt í skyr, hæfilega stórt til að flytja skyrið heim úr seli. Og hugtökin eru fleiri. Hér munu orðin seljaþorp og seljaþyrping verða notuð um það þegar sel frá fleiri bæjum hafa verið sett á sama stað eða í nábýli. Með sínum hætti áréttar hinn ríkulegi orðaforði tengdur seljum mikilvægi búháttarins á ýmsum tímum þjóðarsögunnar.

DýrafjörðurLengst af skráðum tíma Íslandsbyggðar lifði þjóðin öðru fremur á kvikfjárrækt. Afurðir búfjárins, mjólk, ull og kjöt, voru ásamt fiskmeti þau verðmæti sem daglegt amstur fólks snerist um.
Kvikfjárræktin fólst einkum í nýtingu beitilanda og árstíðabundinni framleiðslu afurða. Landið með gróðri sínum var sú auðlind sem afkoma fólksins í veigamiklum atriðum byggðist á. Fornar hefðir og margvíslegar aðstæður í umhverfi og landslagi mótuðu kvikfjáræktina og þá verkhætti sem við hana var beitt. Einn hátturinn var sá að hafa hluta kvikfjárins í seli fjarri heimabýli. Í norður-evrópsku ljósi er það eldforn aðferð eins og síðar verður sagt frá en er aðferð sem fyrir all löngu var lögð af hérlendis. Enn má þó víða í úthaga ganga fram á minjar þessa búháttar þar sem greinilegar eru rústir gamalla selmannvirkja, rétt eins og Guðmundur Böðvarsson skáld segir í ljóðlínunum sem þessi kafli hófst á. Urmull örnefna vitnar líka um sel og seljabúskap en í þessu tvennu lifir ekki síst minningin um þennan þátt í sögu íslenskrar kvikfjárræktar.
„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“
Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.
Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga.
Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi Mig dreymir við hrunið heiðarsel:

Mig dreymir við hrunið heiðarsel:
heyri ég söng gegnum opnar dyr,
laufþyt á auðum lágum mel?
Líf manns streymir fram, tíminn er kyr.
Allt sem var lifað og allt sem hvarf
er, það sem verður dvelur fjær
ónuminn heimur, hulið starf;
hús þessa dags stóð reist í gær.
Við göngum í dimmu við litföl log
í ljósi sem geymir um eilífð hvað
sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug
framhjá er enn á sama stað.

Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
DýrafjörðurSeljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu.
Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars Reinton skrifaði um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu, búhátt lagaðan að hinum ýmsu landsháttum og landkostum Noregs og á ýmsum tímum. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).
Dýrafjörður
Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.
Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.
Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða.
Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á aðþað var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur-Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.
„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 1919 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.
Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum.
Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda, að: „The ultimate source of wealth and power was pasture, and the correlation between cattle, good grazing, and chieftainship is clear both in the historical and archaeological record.“ Ekkert minna.
DýrafjörðurFornar lýsingar selja hérlendis, svo sem í Laxdæla sögu, selin frá Sælingsdalstungu í Hvammssveit og Vatnshorni í Skorradal, bera með sér að þau hafi verið allmikil mannvirki þótt ekki lægju fjarri heimabæjum. Í Sælingsdalstunguseli var til dæmis sagt vera margt manna er einnig starfaði að heyskap: Selin voru „tvau, svefnsel og búr“, segir í sögunni. Höfundur sögunnar notar þannig heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar.
Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.
Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:
319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.
Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.
146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…
147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.
177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er [178] hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri…
186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.
En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.
186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]
186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.
Dýrafjörður198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er úr búfjárgangi . . . Nú brennir maður sætur í almenningi, veiðibúð eður andvirki það sem þar er, þá sekist sá er það gerir þrimur mörkum við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir það sama aftur jafngott . . .
282: Ef maður brennir hús eður hey, sætur eður búð eður skip heiftugri hendi, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur. . . .
284: Nú rænir maður mann sæturgötu eður rekstri, sekur hálfri mörk við konung fyrir vegarán.
284: Ef sætur eru ger í afrétt, þá sem eigi ná lög til, þá eru þau óheilög við broti og bæti skaða og landnám með hverj-[285]um er í þeim afrétt á.
Ákvæðin, sem eru áþekk í lögbókunum tveimur, bera með sér að réttur til selfarar hefur verið afar ríkur og sýnilega tengdur hefðum með fornar rætur.
Ekki mátti setja sel í afrétt eða almenning. Ákvæði Jónsbókar [186] fela í sér eiginlega skyldu til selfarar [. . . Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri. . . Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð]. Sýnilega er gert ráð fyrir að heimahögum sé hlíft í allt að tíu vikur um aðalsprettu- og heyskapartímann; frá Jónsmessu og fram til Höfuðdags. Óneitanlega er Jónsbókarhugtakið grasrán og viðurlög við grasráni í þessu sambandi athyglisvert. Grasið var auðlind sem ekki varð bæði notuð til beitar og slægna. Í sömu átt benda ákvæðin um rán selgötu – ef mönnum var meinað að koma búpeningi sínum í sel/sætur.
Þá eru líka athyglisverð þau ströngu viðurlög sem lágu við spjöllum á selmannvirkjum.
Ákvæði lagabálkanna tveggja sýna með skýrum hætti að löggjafi þessara tíma hefur haft þroskaðan skilning á nýtingu landsins til framleiðslu nauðsynlegra afurða og þýðingu hennar fyrir afkomu þegnanna. Þetta eru ekki einustu dæmin um skilning hinna fornu löggjafa á samspili náttúrulegrar vistar, þarfa fjölskyldnanna og sjálfbæris búhátta þeirra. Athyglisvert er að í Grágás er jafnan talað um sel en Jónsbók um sætur eða setur þótt átt sé við sama fyrirbrigðið.
Aldursmunur er á lögbókunum og hefur þegar verið bent á að hann skýri hugtakamuninn sem að sínum hluta eigi rætur í þróun búháttarins á tímabilinu og þá sérstaklega þróunina er varð í Vestur-Noregi.

Hvað skyldi rannsakað?
Dýrafjörður
Til seljanna gekk ég einkum með búfræðileg sjónarmið í huga og reyndi að horfa samtímis til sem flestra þátta þeirrar framfærsluleiðar og landnýtingar með kvikfjárrækt er seljabúskapur á hinu afmarkaða rannsóknasvæði var.
Að öðru leyti fólst ásetningur minn í eftirtöldum áformum:
1. að kanna ritaðar og munnlegar heimildir um selin á rannsóknasvæðinu og notkun þeirra, 2. að kanna seljarústir á svæðinu og umhverfi þeirra, m. a. með hliðsjón af staðháttum og beitargildi landsins,
3. að athuga seljabúskapinn með hliðsjón af landkostum og landnýtingu á jörðunum. að athuga seljabúskapinn og þróun hans með hliðsjón af ástandi og breytingum á öðrum búnaðar- og samfélagsháttum á svæðinu.
Síðan skyldi leitast við setja niðurstöður rannsókninnar í samhengi við niðurstöður hliðstæðra rannsókna á öðrum stöðum, innlendum og erlendum, og þær almennu kenningar, sem til hafa orðið á grundvelli þeirra, um þennan þátt kvikfjárræktar hér á norðurslóðum.
Þegar gengið var á seljarústirnar voru þær kannaðar, einkum með hliðsjón af staðsetningu, skipulagi og stærð. Gerðar voru yfirborðsmælingar á þeim til uppdráttar og minjar hnitsettar þegar sú tækni varð mér tiltæk. Hins vegar var hvergi grafið í rústir eða minjum undir sverði hreyft enda er það viðfangsefni á hendi fólks með aðra sérþekkingu en ég ræð yfir. Tekinn skal vari fyrir því að yfirborðsathuganir sýni raunverulega gerð mannvirkis sem undir sverði er. Jarðrask, gróður og langvarandi traðk beitarpenings, en seljatóftir hafa sakir grósku löngum dregið hann að sér, getur hafa raskað yfirborðsmyndinni að einhverju marki. Næsta stig rannsóknarinnar gæti því orðið að athuga lögun og gerð áhugaverðustu rústanna nákvæmar, t.d. með jarðsjá eða uppgreftri.
Mjög var misjafnt hve glöggar tóftirnar á selstöðunum voru. Yfirborðsmælingarnar ættu samt að gefa viðunandi og samanburðarhæfar grunnmyndir af rústum flestra selmannvirkjanna. Fullnaðarvitneskja fæst þó aðeins með uppgreftri. Staðhættir voru kannaðir svo sem landslag, gróðurfar og umhverfi hinna einstöku selja. Þá voru teknar ljósmyndir af mælistöðum og svæðum.

Hvar stóðu selin?
Dýrafjörður
Þótt ekki hafi verið gerð nákvæm gróðurgreining á landinu virðist ekki vera um umtalsverðan mun á gróðurtegundum selhaga og heimalanda. Ég get mér þess til að munurinn sé fremur þroskamunur gróðurs tengdur hæð yfir sjó og snjóalögum, eins og þegar hefur verið nefnt: að seinna hafi sprottið frammi á sellöndunum og beitargróður því yngri og næringarríkari en gróður heimalanda þegar fram á selstöðutímann kom. Þar var einnig átt við landrýmið sem heima við var víða af skornum skammti.
DýrafjörðurSú fyrsta og helsta nytsemd af selverum málnytupenings á sumardag og sérlegasti tilgangur þeirra, sem þær brúka, er, að hafa því meiri mjólk og kost af honum sem selstöðurnar eru tíðast betri heimahögunum“, skrifaði sr. Guðlaugur prófastur Sveinsson í Vatnsfirði árið 1786. Hann var einn helsti talsmaður seljabúskapar á endurreisnarárum íslenskra atvinnuhátta á ofanverðri átjándu öld. Og presturinn rakti dæmi um það hvernig landgæðin gátu endurspeglast í nyt búpeningsins:
„Eg hefir sjálfr verit á þeirri jørd í 14 ár [hér mun átt við Kirkjuból í Langadal þar sem sr. Guðlaugur bjó árin 1766-1780], hvar búsmali giørdi þridiúngi minna gagn heima enn í selinu, hvar eg árliga lét mínum peníngi hallda, alloptazt frá Fardøgum til Høfuddags; en viza og heyrdi adra segia, sem þar áðr búit høfdu, at eigi hefdu þeir meir enn frekliga helmíngs gagn af peníngi sínum haft, þá honum gátu eigi í sel komit.“
– „á hvøriu landbúenda velgengni ecki sízt ríðr, sem hér má þarfnaz miólkur, smiørs, skyrs, sýru, feitara sláturs og fleira“ – svo aftur sé gripið til orða sr. Guðlaugs í Vatnsfirði.
Ekki er marktækur munur á meðalvegalengd frá bæ að seli á milli sveitanna, metinni í áætluðum gangtíma; í Þingeyrarhreppi er hún 40 mínútur að meðaltali en 8 mínútum lengri í Mýrahreppi; staðalfrávikin eru svipuð, um 20 mínútur. Skemmst hefur gangan verið 15 mín en lengst um 90 mín, bil hin sömu í báðum sveitum.

Lega seljanna – liður í skipulegri nýtingu landkosta?
Dýrafjörður
Þegar skoðuð er lega selstaðnanna í landi hverrar jarðar virðist koma fram regla um nýtingu gróðurlendis jarðarinnar.
Ekki er hægt að taka fyrir að einstakar tóftir séu frá mismunandi tíma. Á nokkrum seljanna mátti bæði sjá óljósar minjar eldri mannvirkja sem og sýnileg merki um að byggt hafði verið á grunni eldri mannvirkja. Má taka þetta sem merki um fleiri tímaskeið seljasögunnar þar sem menn nýttu augljóslega hleðsluefni úr eldri mannvirkjum á selstöðunum til þess að endurbyggja mannvirkin að þörfum hvers tíma. Það hefur líka verið bent á að búhátturinn hafi ekki verið samfelldur; að hann hafi legið niðri um lengri eða skemmri tíma en síðan tekinn upp að nýju.
Mörg selin liggja þannig að auðvelt hefur verið að sjá til beitilandsins sem væntanlega hefur auðveldað smalanum að líta eftir hjörð sinni, svo hann þyrfti ekki að hnappsetja ærnar „því þá datt úr þeim nytin.“
Við mörg seljanna eru landkostir þannig að ekki sýnist hafa verið auðvelt að stinga eða rista torf í veggi og á þök. Af stærð og fyrirferð tófta er þó ljóst að á mörgum seljanna hefur gríðarlega mikil vinna farið í aðdrætti efnis og veggjahleðslu. Það hefur verið leiguliðum ærin fyrirhöfn að halda mannvirkjunum við svo sem leiguliðum bar að gera – auk viðhalds annarra jarðarhúsa. Stærstu tóftirnar á seljunum gefa í engu eftir tóftum margra jarðarhúsa að stærð. Óneitanlega segir það einnig sína hljóðu sögu um mikilvægi selstaðnanna. Flestar voru seljatóftirnar orðnar það máðar að fátt var ráðið um húsagerð. Á að minnsta kosti tveimur seltóftum mátti þó enn sjá allglögg þakummerki. Ætla má að það sé á þeim sem hvað síðast voru í notkun. Fátt verður annars fullyrt um gerð selhúsanna. Vegna takmarkaðs notkunartíma á hverju ári og það hlýjasta tíma þess er freistandi að geta sér þess til að húsagerðin hafi verið einföld.

Stærð og gerð selhúsanna
Dýrafjörður
Þorvaldur Thoroddsen lýsti algengri húsaskipan íslensku seljanna þannig: Voru selhúsin vanalega þrjú, íveruhús eða svefnsel, eldhús og búr, og mun sá húsafjöldi hafa haldist síðan í fornöld, þó sum selin bæði fyrr og síðar hafi verið fátæklegri.
Einföldust voru selin þegar þau voru hólfuð í tvent. Voru herbergin kölluð útsel og innsel. Í útselinu sem var framar, og maður kom fyrst inn í, var öll eldamennska, en í innselinu svaf fólkið og þar var maturinn geymdur. Í innselið var gengið úr útselinu, en aldrei utan frá. Hjá þeim sem betur máttu sín voru selin í þrem herbergjum. Þá var eldað í miðherberginu, en fólkið svaf í öðru hinna. Vanalega voru tvær stúlkur í selinu og smali. Oft var húsmóðirin sjálf í selinu. Öll sel voru bygð úr torfi og grjóti og óþiljuð.
Sé litið yfir uppdrætti seljanna, er vandséð að eitt form öðrum fremur móti skipulag selhúsanna. Frekast er það kvíin sem tengir selstöðurnar saman.
Frásögn Þorvaldar Thoroddsen um gerð selhúsa má skilja svo að um aðskilin mannvirki hafi verið að ræða. Hagkvæmara gat verið að hafa húsin öll samveggja og jafnvel undir sömu þekju til þess að spara efni og vinnu. Nokkrar seljagrunnmyndanna úr Dýrafirði sýna eimitt slíkt form: Tvær til þrjár tóftir hlaðnar í samstæðu. Telja má víst að þar hafi vist vinnufólks verið samfelld um seljatímann og þá við vinnslu mjólkurinnar og eftir aðstæðum önnur verk, svo sem heyskap. Stærð mannvirkjanna ætti að endurspegla umfang starfseminnar á selinu, bæði í gripafjölda og nauðsynlegum mannafla.
Mjaltakvíar voru sýnilegar á þorra selstaðnanna: „Allar höfðu þær mjög svipað form; aflangar og mjög áþekkar að breidd – um það bil 1,9-2,0 m (sem er nálægt 3 álnum). Hin fasta breidd gerði það að verkum að ærnar röðuðu sér jafnan upp þannig að auðvelt var að mjólka þær. Lengd kvíanna var hins vegar mismunandi en af henni má áætla þann fjölda áa sem rúmast gat í hverri þeirra. Þétt saman má gera ráð fyrir að þrjár afteknar (rúnar) mjólkurær komist á lengdarmetrann og örugglega fimm ær á hverja tvo metra.“

Hvað segja örnefni um selin og selstöðurnar?
Dýrafjörður
„Örnefnin eru minjar um mannlega starfsemi á liðnum tímum. Þau verða aðeins til þar, sem menn hafast eitthvað að“, skrifaði Magnus Olsen.
Fjöldi seljaörnefna, sem tengd eru stöðum og svæðum í nágrenni seljanna, má ætla að geti verið nokkur mælikvarði á það hversu gróinn og umfangsmikill búhátturinn hefur verið á hverri jörð. Þar sem langt er síðan hátturinn var lagður af eða lítið fór fyrir honum má ætla að seljaörnefnin hafi horfið úr munni fólks og/eða að forsenda hafi ekki verið fyrir myndun þeirra. Vissulega getur samfella ábúðar á einstökum jörðum hafa haft áhrif á það hversu vel örnefni bárust á milli ábúenda og kynslóða. Nábýli og mikil umferð fólks um landið vegna nýtingar þess ætti þó að hafa ýtt undir góða varðveislu örnefnanna.
Byggt á örnefnaskrám jarðanna reyndust 2,4% allra örnefna á jörðunum tengjast seli.

En hvað má svo lesa úr örnefnum sjálfum?
Dýrafjörður
Seljaörnefnin í Dýrafirði virðast, rétt eins og í flestum öðrum héruðum, einkum vera tvenns konar: Annars vegar eru það sérstök heiti seljanna sjálfra, sem oftast hafa viðkomandi bæjarnafn að forlið, t. d. Hólasel, Sandasel, Botnssel og Mýrasel. Það geta einnig verið nöfn til aðgreiningar fleiri selja frá sama bæ, sbr. Fornasel, Nýjasel, Gamlasel, Heimrasel, Fremrasel. Hins vegar eru það örnefni staða og svæða í nágrenni selstaðnanna sem einkum hafa verið notuð til staðsetningar í samræðum fólks um land og umhverfi, til dæmis Seljalækur, Seljalágar, Selbali og Seljahvilft.
Úr flokki seljaheitanna virðist einkum mega lesa tvennt: hugsanlegan aldursmun seljanna og staðarmun.
Sel nágrannajarða voru gjarnan sett þannig að stutt væri á milli þeirra.
Það virðist vera einkenni hinna „gömlu“ selja að þau liggja stök í landi viðkomandi jarða og virðast því ekki vitna um seljaþyrpingar. Einhverjar breytingar búhátta eða félagsgerðar virðast hafa orðið sem leiddu til þess að „nýju“ seljunum var valinn annar staður en hinn „forni“. Sérkenni sýnilegra minja fornuseljanna (stærð og lega) gætu bent til þess að þau séu frá tíma stærri og fjölmennari heimila – hugsanlega með rætur allt til landnáms – en að með fjölgandi heimiliseiningum og lækkandi tölu heimilismanna hafi selmannvirkjum nágrannajarða verið þjappað meira saman til samvinnu og selskapar. Vel þekkt er að örnefni benda til sérstakra gæða eða eiginleika landsins.

Niðurlag
Dýrafjörður
Niðurstöður seljaathugann falla hvað snertir nýtingu landsins saman við niðurstöður rannsókna á norrænum seljabúskap og ríma við eldri heimildir um hann. Þótt talið sé að íslenski seljabúskapurinn eigi sér norrænar rætur er ljóst að hann hefur verið lagaður að staðbundnum aðstæðum, svo sem landslagi, eins og fyrri rannsakendur íslenskra selja hafa raunar bent á.
Meðal síðustu selja á Íslandi var selið að Hrauni í Skálavík sem nýtt var sumurin 1952-1954. [Á Reykjanesskaganum lagðist selsbúkapurinn af um 1870.] Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.
Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru. Í seljunum stóð ríki kvenna. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum.

Heimild:
-Rit LbhÍ r. 131, Sel og selstöður við Dýrafjörð, Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, 2020, 73 bls.
-http://www.lbhi.is/sites/lbhi.is/files/gogn/vidhengi/rannsoknur/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_loka_sm.pdf
Dýrafjörður

Jarðskjálfti

Stærsti jarðskjálfti á sögulegum tíma á Íslandi er gjarnan talinn vera skjálftinn á Suðurlandi 14. ágúst 1784. Stærð hans hefur verið metin 7,1. Þessi stærð er að sjálfsögðu ekki fengin með mælingum enda komu skjálftamælar ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld síðar. Stærðin er fengin með því að bera áhrif skjálftans saman við áhrif annarra skjálfta á sama svæði sem mælingar eru til á. Það er einkum jarðskjálftinn á Rangárvöllum árið 1912 sem hefur verið notaður í þessum tilgangi. Hann mældist 7 stig að stærð og áhrifasvæði hans var nokkru minna en skjálftans 1784. Ætla má að byggingar hafi verið sambærilegar á Suðurlandi í báðum skjálftunum.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Skjálftinn 1784 átti upptök í Holtum. Þar varð tjónið mest og í nágrenni Eystra-Gíslholtsvatns má finna sprungur sem telja má að hafi orðið til í upptökum skjálftans. Finna má vísbendingar um þetta upptakamisgengi til norðurs og teygir það sig í átt til Skálholts. Þar varð einmitt tilfinnanlegt tjón í skjálftanum. Varð það mönnum tilefni til vangnavelta um að flytja biskupsstólinn og Skálholtsskóla til Reykjavíkur.

Stærstu skjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, fyrrnefndur skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga

Jarðskjálftar

Jarðskálftabelti landsins.

Í kjölfar atburða á Reykjanesskaga hefur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, tekið saman yfirlit yfir jarðskjálftavirkni á svæðinu og byggir þar á nýlegri grein Sveinbjörns Björnssonar o.fl. höfunda.

Að sögn Páls byggja gögn fyrir árið 1900 á samantekt Þorvaldar Thoroddsen, meðan skýrsla Kjartans Ottóssonar er helsta heimildin fyrir tímabilið 1900-1930 og skýrslur Eysteins Tryggvasonar fyrir áratugina 1930-1960. „Frá 1960 er stuðst við lista frá International Seismological Centre, Veðurstofu Íslands og Sveinbirni Björnssyni o.fl. Eftir að mælitæki koma til sögunnar eru skjálftar á listanum einungis tilgreindir ef stærðin er 5 eða meira, eða ef þeir ollu tjóni, tengdust sprunguhreyfingum eða breytingum á hveravirkni.“

Sögulegt yfirlit

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

1151: „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

1211: „Eldur kom upp úr sjó fyrir utan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hina nýju, en hinar horfnar er alla æfi höfðu staðið. Þá varð landskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu og létu margir menn líf sitt. … og féllu ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða.“

1240: „Landskjálftar miklir fyrir sunnan land. Sól rauð. Eldur fyrir Reykjanesi.“ Þetta er talið vera síðasta eldgosið í hviðu slíkra atburða á Reykjanesskaga. Hviðan er talin hafa byrjað stuttu eftir 870 AD og voru flest gosin hraungos (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson, 2013).

1724: Jarðskjálfti í ágústmánuði. Hrapaði bærinn í Herdísarvík og maður fórst við sölvatekju undir Krýsuvíkurbjargi.

1754: Jarðskjálfti í Krýsuvík, og kom þar upp hver, 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.

1785-1886: Jarðskjálftar fundust mörgum sinnum í Reykjavík og nágrenni, en ekki er getið um tjón. Sterkustu skjálftarnir voru 1868.

1879: „Allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar, harðastir voru þeir í nánd við Krýsuvík, sterk baðstofa á Vigdísarvöllum féll og í Nýjabæ við Krýsuvík flýði fólk úr húsum. Um sama leyti hófst eldgos á mararbotni fyrir utan Reykjanes nærri Geirfuglaskeri.“

Jarðskjálftar

Nýleg jarðskálftahrina á Reykjanesskaga.

1887: Jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanes og fundust margir kippir um Suðvesturland. Valahnúkur, sem Reykjanesviti stóð á, klofnaði og féllu úr honum stykki. Leirhverinn Gunna nærri Reykjanesvita breyttist töluvert.

1889: Sterkur jarðskjálfti olli minni háttar tjóni í Reykjavík og nærliggjandi byggðum. Nokkur hús hrundu á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.

1899: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanes og varð tjón á vitanum. Við Gunnuhver opnaðist sprunga og breytingar urðu á hvernum.

1900-1910: Vægir skjálftar fundust oft við Reykjanesvita á þessum árum. Umtalsvert tjón varð í janúar 1905 á Litla Nýjabæ, Vigdísarvöllum og Ísólfsskála.

1919: Reykjanesviti skemmdist í jarðskjálfta sem fannst víða á Reykjanesskaga. Nýr hver myndaðist á Reykjanesi.

1920: Skjálfti varð 14. maí sem líklega átti upptök í Krýsuvík, fannst í Reykjavík. Mældist 5,2 að stærð.

1924: Sterkur jarðskjálfti varð 4. september í Krýsuvík, fannst víða. Nýr hver, Austurengjahver, myndaðist, sprungur opnuðust og grjót hrundi úr fjöllum. Stærðin mældist 5,1.

1924: Í desember varð áköf hrina á Reykjanesi sem olli minni háttar tjóni á vitanum. Stærsti skjálftinn metinn 4,7 stig.

1925-1928: Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi. Vitinn skemmdist 25. október 1926. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.

1929: Hinn 23. júlí varð stærsti skjálfti sem vitað er að hafi orðið á Reykjanesskaga. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi. Stærðin var 6, 3 og skjálftinn fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.

Jarðskjálftar

Vegsummerki eftir jarðskálfta.

1933: Skjálfti sem varð 10. júní fannst víða á Suðvesturlandi. Upptökin voru líklega suður af Keili og vestan Núpshlíðarháls. Rétt við Vigdísarvelli hrundi og mikið rót varð á yfirborði jarðar, sprungur og viðsnúnir steinar. Mælingar erlendis gáfu stærð skjálftans tæplega 6 stig.

1935: Skjálfti 9. október átti upptök á Hellisheiði. Minni háttar tjón varð, en grjót hrundi úr fjöllum og vörður á Hellisheiði féllu á nokkru svæði. Mælingar gefa stærð um 6 stig.

1952: Skjálfti að stærð 5,2 átti upptök nærri Kleifarvatni. Hann fannst víða en olli engu tjóni.

Jarðskálfti

Ummerki jarðskálfta.

1955: Skjálfti ad stærð 5,5, sem varð 1. apríl, átti upptök austarlega á Hellisheiði. Hann fannst víða en olli litlu tjóni.

1967: Kröftug skjálftahrina átti upptök á Reykjanesi 28.-30. september. Miklar breytingar urðu á jarðhitasvæðinu þar og sprungur mynduðust. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,9 en alls urðu 14 skjálftar af stærðinni 4,0 og stærri. Skjálftarnir fundust víða en tjón var óverulegt.

1968: Jarðskjálfti af stærðinni 6,0 varð 5. desember og átti hann upptök í Brennisteinsfjöllum, líklega á Hvalhnúksmisgenginu, líkt og skjálftinn 1929. Brotlausn hans sýnir að hann varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu. Skjálftinn fannst víða og olli minniháttar tjóni í Reykjavík.

Jarðskálfti

Afleiðingar jarðskálfta innanhúss.

1973: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskaga 15.-17. september. Fimm skjálftar voru stærri en 4, þar af þrír stærri en 5, sá stærsti 5,6. Virknin byrjaði í Móhálsadal, austan Djúpavatns og færðist síðan til vesturs, allt vestur að Eldvörpum. Stærsti skjálftinn varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu.

1974: Jarðskjálftahrina varð 8. desember skammt undan ströndinni á Reykjanesi. Fjórir kippir voru á stærðarbilinu 4,0-4,5.

2000: Jarðskjálftinn 17. júní á Suðurlandi hleypti af stað röð skjálfta á flekaskilunum sem liggja um Reykjanesskagann, allt vestur að Núpshlíðarhálsi. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti (5,9) átti upptök undir Kleifarvatni. Vatnsborð Kleifarvatns féll um 4 metra á næstu vikum. Þá voru FERLIRsfélagar á göngu í Sveifluhálsi, en sakaði ekki.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

2003: Jarðskjálfti að stærð 5,0 varð 23. ágúst og átti upptök nálægt Krýsuvík. Honum fylgdu margir smærri eftirskjálftar sem röðuðu sér á N-S línu.

2013: Skjálfti að stærð 5,2 með upptök skammt austan Reykjaness varð 13. október. Ekkert tjón varð en sprungur sem hreyfðust á svæði austan jarðhitasvæðisins gáfu til kynna færslur á vensluðum sniðgengjum með stefnur í norður og aust-norð-austur.

Sjá meira um jarðskjálfta á Íslandi fyrrum.

Heimildir:

-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0skj%C3%A1lftar_%C3%A1_%C3%8Dslandi
-Eysteinn Tryggvason, 1978a. Jarðskjálftar á Íslandi 1930 – 1939. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-21, 92 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1978b. Jarðskjálftar á Íslandi 1940 – 1949. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-22, 51 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1979. Earthquakes in Iceland 1950 – 1959. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-79-06, 90 pp.
-International Seismological Centre, 2014.
-Kjartan Ottósson, 1980. Jarðskjálftar á Íslandi 1900 – 1929. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-80-05, 84 pp .
-Sveinbjörn Björnsson, Páll Einarsson, Helga Tulinius, Ásta Rut Hjartardóttir, 2018. Seismicity of the Reykjanes Peninsula 1971-1976. J. Volcanol. Geothermal Res., https://doi.org/10.1016/j.jvolgeores.2018.04.026.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1899. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 197 bls.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1905. Landskjálftar á Íslandi, II. Jarðskjálftar við Faxaflóa. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn. bls. 201-269.-
Þorvaldur Thoroddsen,1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane, Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Köbenhavn 1925, 18+458 p.
-https://jardvis.hi.is/sogulegt_yfirlit_um_jardskjalftavirkni_reykjanesskaga

Jarðskálftar

Yfirlit yfir styrk jarðskjálfta á Íslandi aftur til 1734.

Jarðskjálfti

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Ebenezer Henderson

Bók Ebenezers Hendersons um ferðalag hans á Íslandi – útg. 1818.

Enskur ferðamaður var hér á landi í byrjun 19. aldar og skrifaði um ýmislegt áhugavert, sem hann bæði heyrði og bar augum. Skrif hans birtust í framhaldinu í bókinni „Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815″ eftir Ebenezer Henderson, London 1818. Á bls. 235-239 skrifar hann um jarðskjálfta  á Íslandi eftir að hafa fundið fyrir einum slíkum er hann var við Geysi í Haukadal í lok ferðar sinnar um landið.

„Fyrstu jarðskjálftarnir, sem vitað er um, urðu á árunum 1181 og 1812; en við vitum ekki um afleiðingar þeirra. Árið 1211 er fyrst getið um jarðhræringar í neðansjávareldfjalli nálægt Reykjanesi og fjöldi jarðskjálfta fylgdu í kjölfarið og nokkrir létust og hús víða um Ísland hrundur gjörsamlega til grunna. Á árunum 1260 og 1261 varð vart við harða skjálfta í Flatey á Breiðafirði. Árið 1294 skalf jörð í Rangárvallasýslu; Rangá breytti um farveg og margir bæir snerust á hvolf, og í átta daga urðu allir hverir hvítir sem mjólk. Árið 1300 gaus Hegla og miklar jarðhræringar fylgdu í kjölfarið á Suðurlandi og mötg hús hrundu. Skjálftahrina fygldi í kjölfarið átta árum síðar. Þá eyðilöguðust átján bæir og menn og skepnur dóu.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti.

Árið 1311 varð skelfilegur jarðskjálfti þar sem ekki færri en fimmtíu og einn bær hrundu og dró fyrir sólu þegar aska og sandur voru ýft upp af eldfjöllum svo ómögulegt var að ferðast frá einum hluta landsins til annars. Árið 1313 eyddust átján hús í miklum jarðskjálfta. Árið 1339 fundust nokkir skjálftar á Suðurlandi, útihýs hrundu og nautgripir lyftust frá jörðu, nokkur fjöll skriði, sprungur og hverir mynduðust. Árið 1370 hrundu tólf bæir í jarðskjálfta í Ölfusi.

Geysir

Mynd af Geysi í bók Ebenezers.

Á árunum 1390 og 1391 urðu fjöldi jarðskjálfta, einkum síðarnefnda árið; fjórtán bæir eyðilögðust í Grímsnesi, Flóa og Ölfusi og fólk grófst undir rústunum. Jörð breyttist; sjóðandi vatn spratt upp, og áhrifa skjálftans fannst alla leið upp á Holtavörðuheiði.
Árið 1552 urðu nokkrir stórir jarðskjálftar, en engar skemmdir urðu á mannvirkjum; og árið 1554 héldu skjáltarnir slíkt áfram að fólk dirfiðist ekki að vera innan dyra í húsum sínum heldur héldu til í tjöldum. Nokkrir jarðskjálftar urðu 1578; og árið 1597 olli skjálfti allmiklum skemmdum á bæjum í Ölfusi. Árið 1614 varð endurtekin skjálftahrina allt haustið og nokkrir bæri hrundu. Um veturinn 1633 eyddust bæri í Ölfusi og áhrifin voru svo mikil að í mörgum kirkjum varð engin þjónusta það sem eftir lifði vetri. Árin 1657 og 1661 urðu nokkuð harðir jarðskjálftar á mismunandi stöðum í Fljótshlíð, suðaustan Heklu, og nokkur hús jöfnuðust við jörðu.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Alvarlegastu jarðskjálftarnir fundust í Ölfusi og í Flóa 28. janúar, 1. apríl og þann 20. árið 1706. Ekki færri en tuttu og fjórir bæir eyðilögðust, fjölmargir urðu fyrir skemmdum og nautgripir drápust. Skjálftunum fylgdu aðrir stórir og smáir um vorið, og voru raktir til heklu og nágrennis.
Líkt og jarðhræringar í Skaptáreldum voru hinar hræðilegustu skráðum í annála Íslands, urðu jarðskjálftarnir sem 14. og 16. ágúst 1784 þeir afdrifaríkustu, sem orðið höfðu fyrir íbúa landsins. Þeir munu hafa orðið á svæði vestan Heklu og fundust um land allt. Í Snæfellssýslu og Ísafirði fundust þeir greinilega. Í Árnessýslu einni hrundu ekki færri en þrjú hundruð og sjötíu og tveir bæir; sextíu og níu gereyðilögðust. Fjöldi húsa er skemmdust í landinu urðu eitt þúsund fjögur hundruð og fimmtíu og níu. Nítján kirkjur skemmdust og fjórar algerlega.
Til viðbótar skemmdum á húsum spilltust hagar, ár breyttu um farvegi og mikil grjóthrun varð í hlíðum fjalla. Margir sjóðandi hverir hurfu og aðrir nýir spruttu upp. Við Geysi nálægt Haukadal birtust ekki ekki færri en þrjátíu og fimm nýir hverir á svæðinu.
Árið 1789 varð enn einn afdrifaríkur jarðskjálfti. Í fyrstu varði hann í u.þ.b. tíu mínútur, en varð síðan viðvarandi af og til það hluta sumarsins. Áhrif skjálftans urðu mest í kringum Þingvallavatn. Botn vatnsins sökk til norðausturs, víða flæddi yfir gamlar leiðir og til suðvesturs og þornaði vatnið upp á allt að fjóra faðma dýpi (haft eftir biskupi Finnssyni).
Árið 1808 reið harður jarðskjálfti yfir sem hafði áhrif á háhitasvæði landsins. Síðasti skjálftinn var í júni 1815, en hann var vægur og fannst einungis í norðurhluta landsins.“

Sjá meira um jarðskjálfta á Reykjanesskaga.

Heimild:
-Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815 by Ebenezer Henderson, London 1818, bls. 235-239.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson var skoskur guðfræðingur og ritaði gagnmerka bók um ferðir sínar, land og þjóð. Bókinni fylgir kort af Íslandi, gert að fyrirsögn höfundarins af feðgunum Daniel og William Home Lizars. Undirstaðan eru kort af Knoff-gerð, sérstaklega þau sem Jón Eiríksson átti hlut að. Helsta nýmælið á kortinu er að búið er að kippa norðanverðum Vestfjörðum suður fyrir heimskautsbaug. Annars er það í svo litlum mælikvarða að lítið af athugunum Hendersons kemst til skila.

Þjóðminjasafnið

Samkvæmt fyrirliggjandi opinberum heimildum er Þjóðminjasafn Íslands miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Þjóðminjasafn

Í Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn. Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur.

Dómirkja

Dómkirkjan.

Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu.

Þjóðminjasafnið

Frá Þjóðminjasafninu.

Nú 70 árum síðar hefur margt gott verið gert, en því miður hefur einnig margt farið úrskeiðis í starfi Þjóðminjasafnsins. Frumkvöðlar safnsins voru áhugasamir um eflingu þess, en núverandi stjórnendur virðast næsta áhugalausir um starfsemina, einkum þjónustuna. Það er a.m.k. reynsla þeirra er til þess hafa þurft að leita. Beiðnum er jafnan svarað með vísan í útfyllingu rafrænna spurnarforma, síðan eru síðan ekki virtar viðlits. Ef eftir svarleysunum er leitað að ærnum tíma liðnum fær beiðandi alls kyns útúrsnúninga og óskiljanlegar afsakanir.

Að mati fulltrúa FERLIRs ætti ríkisvaldið með gildum rökum að skilgreina Þjóðminjasafnið upp á nýtt með áherslu þess sem safngrips í vörslu ríkisins fremur en nútíma þjónustustofnun – sem hún er bara alls ekki.

Dæmi: FERLIR leitaði til Þjóðminjavarðar fyrir nokkrum misserum að gefnu tilefni og óskaði eftir möguleika þess að fá „Hallgrímshelluna“, sem er í geymslum safnsins, aftur í vörðuna þaðan sem hún var fjarlægð á sínum tíma.  Eðlilegra væri að minjar, s.s. letursteinar, væru fremur varðveittir á upprunastað en í geymslum, sem nánasta engir hefðu aðgang að. Vörðurinn vísaði erindinu til starfsmanns. Hann upplýsti að það væri meginmarkmið stofnunarinnar að innkomnir hlutir færu þaðan aldrei aftur út.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Í  upphafi árs 2020 leitaði fulltrúi FERLIRs eftir því að fá að ljósmynda letursteininn í safninu með það fyrir augum að láta gera afsteypu af honum og koma henni síðan fyrir í framangreindri vörðu. Var bent á að fylla út formlega beiðini þessa efnis, sem og var gert. Fram kom að viðbrögð við slíkum beiðnum gæti tekið allt að þrjá mánuði, auk þess sem þrjá mánuði til viðbótar gæti tekið að afgreiða erindin. Þegar engin viðleytni til svara var að sjá eftir sex mánuði leitaði fulltrúinn viðbragða hjá stofnuninni. Svör starfsmannsins verða ekki birt hér, enda honum ekki til framdráttar. Ábending kom m.a. fram að ítreka þyrfti beiðnina því sú fyrri gæti hafa misfarist þar sem margir þyrftu að koma að afgreiðslunni.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Að tíu mánuðum liðum var enn og aftur spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um þann möguleika um að fá að koma í geymslurnar og taka myndirnar án aðkomu starfsfólks. Því var svarað að enginn mætti koma þangað inn vegna Covid-19. Spurði þá hvort starfsmaður safnsins gæti tekið myndirnar og sent beiðanda. Myndir bárust í framhaldinu með þeim orðum að „um svokallaðar vinnumyndir að ræða. Þær eru ekki ætlaðar til birtingar af nokkru tagi. Ef óskað er eftir einhvers konar birtingu af gripum í vörslu safnsins eru myndir teknar af ljósmyndara safnsins og kostnaður þá í samræmi við gjaldskrá myndasafnsins“. Þvílíkt rugl; áhugasamt fólk á sem sagt ekki, undantekningarlaust, möguleika á að fá myndir af gripum safnsins án milligöngu hirðljósmyndara þess með tilheyrandi kostnaði.
Fulltrúi FERLIRs sendi myndirnar til steinsmiðs í Keflavík með það fyrir augum að gera eftirmynd af hellunni og í framhaldinu verður henni vonandi komið fyrir í gömlu vörðunni við Kaupstaðagötuna milli Þórshafnar og Stafness norðan Ósa, áhugasömum vegfarendum til uppfræðslu og ánægju.

Sjá meira um „Hallgrímshelluna“ HÉR, HÉR og HÉR.

Hallgrímshella

„Hallgrímshellan“ skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins fyrir nokkrum árum. Mynd mbl.is. Í framhaldinu fékk FERLIR breiðsíðu skamma frá fulltrúa þjóðminjasafnsins vegna þess að dirfst hafði að taka ljósmyndir á staðnum með „mögulegum skemmdum á minjunum“; slíkt væri einungis á „færi sérstaks ljósmyndara safnsins, gegn gjaldi“.

Íslandssaga

Í „Íslandssögu til okkar daga“ eftir þá Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson er m.a. fjallað um landnám Íslands.

Landnám og menjar

Ísland var nær ósnortið af mönnum og grasbítum, þegar víkinga bar þar að strönd, svo að landnámssaga þess er skráð mannvistarleifum út um holt og hæðir. Jarðvegsmyndun hefur verið ör sökum veðrunar og öskufalls í eldgosum, en á síðustu öldum hefur gosið um fimmta hvert ár einhvers staðar á landinu. Eldsumbrot hafa skilið eftir sig greinanleg lög í jarðveginum. Gjóskulögin skipta jarðveginum þannig eftir aldri og tímasetja fróðleik um lífríkið á liðnum öldum.

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1000.

Allmikið eldgos hefur orðið við Vatnaöldur um 900 og skilið eftir sig í jarðvegi svonefnt landnámslag. (Eftir sama gos má sjá ummerki í ísnum á Grænlandsjökli, sem færa má með nokkurri vissu til ársins 898.) Þegar landnámslagið féll, hefur landið verið lítt byggt og frumgróður þess ríkjandi, en hann breyttist mjög við búsetu manna; birkiskógur hvarf, en bygg, bruggjurtir, arfi og ýmsar aðrar plöntur námu land; og gróður eyddist á jaðarsvæðum, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.
Fornmannagrafir og rústir mannvirkja benda einnig til þess að fáir hafi siglt til Islands fyrr en um 900, enda urðu skip í Norðvestur-Evrópu ekki almennilega hæf til slíkra ferða fyrr en á 9. öld, og fáir áttu erindi til Íslands fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar, þegar víkingar fóru hrakfarir á Bretlandseyjum. Þá urðu ýmsir víkingar að sætta sig við það að hlaupa eftir sauðum og strita við búskap, og landnámsöld hófst á Íslandi.
Hin langa sigling út til Íslands skolaði ránsandann úr víkingunum. Þeir komu fámennir, 20-30 manns á hverju skipi, og héldu sjaldan samfloti á langri siglingu. Þegar þeir náðu höfn á Íslandi, urðu þeir að vera sæmilega prúðir í framgöngu, ef þeim átti að verða líft í landinu.
Landnámið var friðsamlegt; landið er stórt og skiptist í héruð af fljótum og fjallgörðum, svo að menn þurftu ekki að troða hver öðrum um tær fyrstu áratugina. Hvergi er vitað um nein hernaðarmannvirki, hvorki við hafnir, ferjustaði né einstaka bæi, fyrr en löngu síðar.
Heiðnar grafir, um 300 talsins, hafa fornleifafræðingar kannað hér á landi, og teljast þær frá 10. öld, nema gripir úr einni gætu verið frá því um 850 og úr annarri frá upphafi 11. aldar.
Hinir framliðnu hafa verið heldur lágvaxið fólk, meðalhæð karla um 170 sentimetrar (169 eða 171 eftir því hvaða stöðlum er beitt) og kvenna 155 sm eða rúmlega það. Engar stórhöfðingjagrafir og engir kristnir grafreitir hafa fundist á Íslandi frá 10. öld. Grafirnar benda til þess að á fyrsta stigi byggðarinnar hafi íburðarlítill efnahagsjöfnuður ríkt í landinu eins og jafnan í nýbyggðum. Heiðnar grafir á Íslandi eru sem heild líkastar norskum gröfum af fátæklegri gerð frá sama tíma og mundu ekki þykja framandlegar, þótt þær hefðu fundist þar í landi.
Í Eyjafirði og Rangárvallasýslu hafa fundist flestar heiðnar grafir, en mjög fáar í sumum héruðum öðrum. í Skaftafellssýslum og víðar hafa eldgos, stórflóð, sandfok og aðrar hamfarir eytt gröfum eins og öðrum mannanna verkum. Það á þó ekki sérstaklega við um Borgarfjörð eða Breiðafjörð, einhver bestu héruð landsins, þar sem heiðin kuml hafa bæði fundist fá og fátækleg. Heiðnin virðist ekki hafa staðið djúpum rótum víða vestan lands, og þar hafa menn líklega keppst við að smala forfeðrum sínum í kristinna manna reiti eftir kristnitöku, eða gert forna kumlateiga að kirkjugörðum þar sem þeir voru nálægt bæjum. Slíkt kann að hafa verið algengt hér, þar sem svo lítil átök urðu milli kristni og heiðni.

Byggð og nöfn

Skáli

Skáli frá því um 1000.

Örnefni um gjörvallt Ísland vitna um norrænan uppruna þjóðarinnar. Nokkur kenna staði við heiðin goð, flest við Þór: Þórs-höfn, -mörk og -nes. Njarðvíkur eru heiti á fengsælum útgerðarstöðum, og Freysnes bendir til þess að frjósemisguðinn Freyr hafi í árdaga byggðar átt sér vini á Íslandi.
Allmörg örnefni benda þó til Bretlandseyja. Af keltneskum stofni eru bæjarnöfn kennd við Beccan, Ciaran, Nial og Patric: Bekansstaðir, Kjaransvík, Njálsstaðir; en Patreksfjörður á að bera nafn af því að landnámsmaður frá Suðureyjum hét á heilagan Patrek í hafvillu. Valþjófsstaður ber heiti af engilsaxnesku mannsnafni, Walþeow; en Trostansfjörður vísar á mannsnafnið Dorstan (sbr. Tristan), sem er komið úr tungu Pikta, frumbyggja Skotlands. Dímon er heiti á nokkrum fellum og telst dregið af Dímun (tvífell). Írafell, Katanes, Kumbaravogur og Bretavatn eru staðir kenndir við fólk frá Írlandi, Katanesi á Skotlandi (Caithness), Kumbaralandi (Cumberland) og Bretlandi. En fróðlegt væri að vita hvort Breta- og Kumbaranöfnin festust við staði á Íslandi á 10. eða 15. öld.
Fólk af ýmsu þjóðerni hefur sest að hér á landi í árdaga, en þess ber að gæta að norrænir menn á Bretlandseyjum mægðust þar við heimafólk. Þannig komust írskar nafngiftir inn í norrænar ættir, og sú blóðblöndun, sem mannerfðafræðin vitnar um, gat bæði gerst fyrir og eftir landnám.
Í íslenskum bæjarnöfnum felst ýmis fróðleikur um sögu bæjanna. Þau skiptast m.a. í náttúrunöfn og stöðunöfn. Náttúrunöfnin eru dregin af einkennum landslagsins umhverfis bæinn eins og Hólar og Skálholt; Reykjavík var nafn á bæ, sem stóð við vík sem rauk úr. Skarð var heiti á stórbýlum undir fjalli, bæði við Breiðafjörð, í Landsveit og víðar, en -vellir eru aðsópsmiklar jarðir víða um land, svo sem Möðruvellir í Eyjafirði og Stóruvellir á Landi. Þessi nöfn, og fjölmörg önnur sem vísa til landslags (Ás, Múli) eða annarra staðhátta (Ferja, Höfn), bera ekkert aldursmark, enda merking þeirra óbreytt allt frá landnámsöld; af þeim, eða samsetningum þeirra, verður fátt ráðið um aldur jarðanna.
Stöðunöfnin lúta að stöðu bæjarins í sveitinni. Allt til 1800 var hér að störfum frumstætt bændasamfélag, sem baslaði einkum við kvikfjárrækt og barðist við þrotlitla efnahagskreppu eða stóð í návígi við matvælaskort og hungurdauða. Seint á 10. öld tóku landþrengsli að hrjá það og leiddu til Grænlandsferða, en engra breytinga. A 12. öld óx fiskmarkaðurinn innanlands sökum kröfu kirkjunnar um fiskát á föstum. Þá óx byggð við góðar hafnir, sem lágu að fengsælum miðum; þar fjölgaði kotum og smábýlum, sem enduðu mörg nafn sitt á -kot, -gerði, -sel, -búð. Þau eru frá yngra skeiði byggðarsögunnar en náttúrunöfnin, sem geta verið allt frá landnámsöld. Kot er smábýli, sem ýmist er reist í landi eyðijarðar eða byggt úr landi stórbýlis og dregur nafn af því eða landslagi: Akrakot, Klettakot, Urriðakot. Gerði merkir girðingu eða umgirt svæði. Innan þess hafa risið kofar, og þar hafa sest að menn, sem gættu akra og húsdýra; víða urðu þar til hjáleigur og sjálfstæð heimili, og jafnvel höfuðból eins og Hraungerði í Flóa í Árnessýslu, en þar í sveit er hraun náttúrunafn.

Sagnir um upphaf byggðar

Rúnasteinn

Rúnasteinn frá Gotlandi.

Fornleifafræðin, íslenskan, örnefni og jarðvegsrannsóknir eru samkvæða um það að framtakssamt fólk hafi flutt búferlum frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands seint á 9. öld og fyrri hluta 10. aldar, en áður var það eyðieyja. Þar varð til ríkisvaldslaust bændasamfélag, sem sýslaði einkum við kýr, hross og sauði og ræktaði með erfiði bygg til bjórgerðar í veðursælustu sveitunum sunnanlands og vestan. Húsakynni þessa afreksfólks, sem tengdi Atlantshafið við sögusvið Evrópu, eru dável kunn, áhöld þess og farartæki, en einstaklingar birtast á vettvangi í rituðum heimildum.
Nafnið Ísland birtist á rúnaristu frá Timans á Gotlandi sem telst frá fyrri hluta 11. aldar. Ristan segir að félagarnir Ormiga og Úlfar hafi komið til Grikklands, Jórsala, Íslands og Serklands (en svo nefndust lönd Araba). Menn voru orðnir víðförulir í þann tíð. Á engilsaxnesku landabréfi frá svipuðum tíma er dregin aflöng eyja norður af Noregi og nefnd Ísland. Þá er Íslendinga getið í páfabréfum allt frá 1022 og riti Adams af Brimum um sögu Hamborgarbiskupa, sem lokið var skömmu eftir 1070.
Íslendingar komust á atburðaskrár í Evrópu á 11. öld, en 9. og 10. öldin er forsögulegur tími íslenskrar sögu. Í Íslendingabók leitast fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), við að setja íslenskri og norrænni sögu kristið tímatal. Honum veittist það auðvelt um sína daga, en málið varð þjóðsagnakennt, þegar kom aftur á 10. öld. Hann segir: Ísland byggðist fyrst úr Noregi . . . í þann tíð . . . er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Íslendingabók (íslenzk fornrit I, 1968), bls. 4-5. Þetta var þjóðsaga, en við vitum ekki betur. Ari fullyrðir, „að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan“. Þessi 60 ár (870-930) hafa verið nefnd landnámstíð í íslenskri sögu, en menn hafa eflaust flust til landsins eftir þann tíma.

Ingólfur

Ingólfur í Landnámabók.

Landnáma
Landnáma, safnrit um 430 landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur, hefur orðið til að stofni fyrir 1100. Seint á 11. öld var mikið skipulagsstarf unnið í landinu, eignakönnun gerð og menn skyldaðir til að tíunda eignir sínar; þá hefur verið skráður í ýmsum héruðum fróðleikur um landnám og ættir, sem síðar var safnað á bækur. Landnámsmannatalið hvílir á arfsögnum, lærdómi og skáldskap. Þar bregður m.a. fyrir þekkingu á Gamla testamentinu. Landnámssagnir voru hagnýt fræði, því að í landnáminu fólst upphaf eignarréttarins, en söfnun þeirra á bók var einnig metnaðarmál, og allt fram um 1300 voru samdar nýjar gerðir Landnámu til styrktar hefðar- og valdsmönnum. Í einni gerðinni (Melabók) segir í eftirmála, að „vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því að vér séim komnir af þrælum eða illlmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar“.
Þegar Landnáma var upphaflega skráð, vissu menn fátt með sannindum um atburði á 9. og 10. öld og urðu ósammála um margt og þurftu að skrifa því meira sem þekkingin var brotakenndari. Í tvær aldir sýsluðu helstu höfðingjaættirnar við það að eignast Landnámu, en þá urðu skjöl og ríkisvald öruggari bakhjarl í valdabaráttunni en vafasamar sagnir um landnám.
Ættvísi var mikil hagsmunafræði í ríkisvaldslausu landi. Hver ættborinn maður varð að þekkja sem gerst ætt sína og geta svarið af sér þræla og illmenni eða sakafólk, en skyldur og réttindi gátu erfst allt í 5. lið. Allt frá upphafi byggðar hafa íslendingar þekkt grundvallarhugmyndir óðalsréttar, enda lögfestu þeir snemma að aðalbólin eða stærstu jarðirnar skyldu ganga óskiptar beinum erfðum í karllegg ættarinnar.
Hafvillusögn hefur gengið í minni manna á 12. öld, en samkvæmt henni voru ónafngreindir farmenn á leið frá Noregi til Færeyja, þegar þá hrakti útnorður í haf, uns þeir tóku land við Austfirði. Þetta gerðist fyrir för Ingólfs. í annarri gerð sögunnar var þarna á ferð færeyskur maður, Naddodur víkingur. Einhverra hluta vegna átti Naddodur síðar andstreymt í hópi landkönnuða, og sænskur víkingur búsettur á Sjálandi, Garðar Svavarsson, tróð sér fram fyrir hann í heimildum. Garðar á að hafa siglt í kringum landið og haft vetursetu norður á Húsavík við Skjálfanda. Eftir för hans nefndist landið Garðarshólmur að austnorrænum hætti, sbr. Borgundarhólmur. Þrír förunautar Garðars eiga að hafa orðið eftir, þegar hann sigldi burt, og verið fyrsta norræna fólkið, sem settist að á landinu. Af þeim er Náttfari nafngreindur, en með honum þræll og ambátt. Síðar sigldi Uni, sonur Garðars, til Íslands og fór þar erindum Haralds hárfagra að sögn. Hann var drepinn vegna kvennamála, sem urðu efni í Íslendingasögu, sem er glötuð, en hefur í eina tíð stuðlað að sögnum um landkönnuðinn Garðar Svavarsson.
Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, nefndist norskur víkingur. Hann notaði hrafna sem siglingatæki eins og Nói gamli dúfur. Flóki telst hafa siglt til landsins með búfé og skyldulið og ætlaði að setjast þar að. Honum láðist að afla vetrarforða, svo að búsmalinn horféll vorið eftir. Þá flýði Flóki til Noregs og gaf landinu hið kaldranalega nafn Ísland. Flóki á síðar að hafa sest að norður í Fljótum.

Forsendur landnámsins

Gröf

Heiðin gröf.

Á síðasta fjórðungi 9. aldar vegnaði víkingum báglega á Bretlandseyjum og í Noregi. Þá minntust margir þess að hafa heyrt getið um eyju norðvestur í hafi lítt byggða. Óbyggt land norður í Dumbshafi skorti aðdráttarafl hjá fólki, sem átti sér einhverra úrkosta völ. Hér var engu að ræna, engir bændur til að skattleggja og engin verðmæti að finna til útflutnings, hvorki grávöru, tannvöru né dýra málma. Hver sem settist hér að varð að lifa á veiðum, sölvum og fjallagrösum fyrstu árin, meðan búfénu, sem menn urðu að flytja með sér, fjölgaði svo, að einhverja nyt væri af því að hafa. Haffært skip hefur verið milljóna virði á landnámsöld, á við nokkrar bújarðir. Á Íslandi var þá ekki annað að hafa en kjarri vaxið land, gott til beitar, og nokkur hlunnindi í veiðum og viðarreka. Ef skipið dýra átti ekki að fúna í naustum, hafa menn orðið að sigla austur um haf með grjót í kjölfestu fyrstu áratugi landsbyggðarinnar. Landnám á Íslandi var fjárfesting, sem ekki var á færi annarra en milljónunga, en þeir hafa hikað lengi við leiðangurinn, af því að þeir eygðu litla von til þess að hann borgaði sig.
Líklega hefur einhverjum norskum farmönnum hugkvæmst, þegar þrengja tók að þeim á Bretlandseyjum seint á 9. öld, að gera út á Ísland, sigla þangað með fólk og fénað til þess að koma þar upp byggð og markaði. Auðvitað hafa þeir tekið talsvert fyrir snúð sinn, svo að öreigar og þrælar hafa ekki fengið far, nema þrælahaldarar hafi fylgt.
Ungir bændasynir og vonsviknir víkingar hafa verið stofninn í landnámsliðinu. Landnámuhöfundar um 1100 hafa ekki talið, að það hafi þótt nein hetjudáð á víkingaöld að sigla til íslands og hlaupa þar eftir búsmala. Rögnvaldur Mærajarl er látinn segja við Hrollaug son sinn, landnámsmann í Hornafirði: „Hefir þú það skap, er engin styrjöld fylgir. Munu vegir þínir liggja til Íslands.“ Svo kom að vegir margra lágu til íslands, en þar urðu menn lengi að sætta sig við að strita í sveita síns andlits. Höfðingjar uxu fyrst úr grasi á Íslandi á 10. öld, og seint á þeirri 11. urðu til á vegum kirkjunnar fyrstu stórhöfðingjarnir, menn sem höfðu milljónatekjur og fundu fremur til sín sem aðalsmenn en bændur.
Landnemarnir sigldu til Íslands í dálitlum hópum, nokkrir tugir manna, ein eða tvær skipshafnir undir forystu karls eða konu, og reyndu að hafa samflot og samstarf um landnám og helguðu sér til eignar landsvæði, sem skiptist í jarðir, þegar búsmalinn óx. Landnemahóparnir voru stéttskiptir, greindust í forystusveit, fylgdarlið og þræla. Forystusveitin hlaut jarðnæðið, varð bændastétt, og á hennar ábyrgð var búskapurinn rekinn. Frumbyggjarnir þurftu að reisa allt frá grunni og lifa nær eingöngu á veiðum, fjörugróðri og grösum, meðan búféð var fátt, en það gekk ört fram, eins og sagnir Landnámu herma. Kýrin Brynja „gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni kominn,“ þegar hún fannst í Brynjudal í Hvalfjarðarbotni. Um Hafur-Björn, landnámsmann í Grindavík, segir, að fé hans „tímgaðist svo skjótt . . . að hann varð skjótt vellauðigur“. Landnámið í Grindavík varð ekki fyrr en undir 940, því að Hafur-Björn og bræður hans höfðu flúið þangað undan gosi í Eldgjá 934.
Íslendingar hafa snemma orðið ríkir af ull og fundið góðan markað fyrir ullarvörur erlendis, því að klæði virðast hafa verið dýr á 10. öld. Um 1100 var eyrir silfurs (um 27 g) jafnmikils virði og 48 álnir (alin = 49 sm) vaðmáls af einfaldri gerð. En sex álnir vaðmáls hétu samt „eyrir“, og hafa menn skilið það svo, að á 10. öld hafi vaðmálseyririnn verið jafnmikils virði og eyrir silfurs. Silfur hefur verið ódýrt á Norðurlöndum á víkingaöld sökum framboðs, en vaðmál dýrt; íslenskt klæði hefur þá verið vel þegin vara og íslendingar orðið iðnaðarþjóð þegar á 10. öld. Pá hafa konur verið settar við tóvinnuna, sem var mikið ánauðarverk.

Skáli

Skáli.

Bændabyggð
Þegar landi var náð urðu landnemarnir að reisa sér skýli yfir fólk og fénað, og skýlin urðu að bæjum ef búsetan varð varanleg. Sumir landnemar eiga að hafa varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð, þegar þeir sáu landið rísa úr sæ, og numið þar land sem þær rak á fjöru. Þetta er þjóðsaga. A fjörum lágu víðast hrannir af rekaviði, svo að óhugsandi hefur verið að finna þar einstaka rekabúta.
Byggðin á Íslandi hefur hvergi verið mjög þétt. Hvergi er neitt yfirburðahérað, sem skákar öllum öðrum að landkostum. Við skástu landbúnaðarhéruðin hafa náttúruöflin lítt lagt sig fram að hlaða upp sæmilegar hafnir. Landkostir á Islandi buðu höfðingjum hvergi einveldi í heilum landshluta sem hefði hernaðarlega yfirburði yfir aðra. Menn gátu farið í snöggar árásarferðir hvert á land sem var, en til að hersitja héruð skorti matföng. Með tímanum varð hvert hérað yfirleitt háð einum höfðingja, heimamanni að uppruna, en lítið um landvinninga utanheimahéraðs.
Á fyrstu öldum byggðarinnar teygði hún sig miklu lengra inn í landið og hærra en síðar varð. Á Mývatnsöræfum suður af Sellandafjalli var búið á 10. öld í um 460 m hæð yfir sjávarmál, og einnig á Hraunþúfuklaustri í 410 m hæð og 20 km norður af Hofsjökli. Á Hrunamannaafrétti (350 m y.s.) og í Þjórsárdal tók af byggð í Heklugosi 1104, en í Hrafnkelsdal á Austurlandi (420 m y.s.) hafði hana eytt nokkru áður.
Margt bendir til þess að fólksfjölgun hafi verið mjög ör á fyrstu áratugum byggðarinnar og landið verið numið á tiltölulega skömmum tíma um 900. Það liggur á mörkum hins byggilega heims, svo að hálendisbyggðin hefur oft orðið skammæ, gróður ekki þolað ágang búfjár og breyst víða í auðn. Sagt er að búsmali hafi snemma leitað til fjalla og fólk fylgt á eftir, en ull hélst betur á fé ofan skógarmarka. Undan vetrarríkinu hörfuðu menn víða aftur niður fyrir láglendismörkin, og meginhluti byggðarinnar hefur ávallt staðið neðan 200 m hæðarlínu.
Á landnámstíð er talið að um 40% landsins hafi verið þakin gróðri, en í dag um 20%. Lætur þá nærri, að á hverjum degi í „íslands þúsund ár“ hafi fimm til sex hektarar gróðurlendis breyst í auðn. Skógar eyddust þó örar en graslendið. Meðan ísland var „viði vaxið á milli fjalls og fjöru“, ætla menn að um 20% landsins hafi verið skógur og kjarrlendi en nú aðeins 1%, og hefur mikið af skóglendinu eyðst á fyrstu öldum byggðar. Margt gat orðið gróðrinum að tjóni: uppblástur (t.d. á Rangárvöllum og víðar), flóð bæði í sjó og vötnum (m.a. á Markarfljótsaurum og undir Eyjafjöllum, Stóraborg), eldgos (Hekla, Skaftáreldar, hraun á Reykjanesskaga o.v.), framhlaup jökla (í Öræfum og norður á Ströndum), skriðuföll (Skriða í Hörgárdal 1390, Skíðastaðaskriða 1545 o.fl.), og jarðskjálftar hafa hrist gróðurþekjuna af bröttum fjöllum. Frumorsök gróðureyðingarinnar hefur þó oftast verið ofbeit og harðindi, sem hafa fylgt miklum hafís við strendur landsins.
Veðráttan hefur ávallt verið dálitlum breytingum háð, og lítils háttar lækkun á meðalhita ársins hefur oft skipt sköpum fyrir afkomu fólks. Margs konar heimildir veita nokkra hugmynd um árferði á liðnum öldum. Vitneskja um hafískomur og hallæri bendir t.d. til kalds loftslags, og frjókorn í jörðu veita upplýsingar um gróðurbreytingar. Þá má styðjast við erlendar rannsóknir, einkum á ískjörnum úr Grænlandsjökli. Allt ber að sama brunni um það að loftslag hafi verið milt fyrstu aldir Íslandsbyggðar, e.t.v. ámóta og það hefur best orðið á 20. öld, en á 12. og 13. öld hafi kólnað tilfinnanlega.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Harðæri hafa jafnan verið tímabundin, og menn hafa keppt að því í búskap sínum að sigrast á þeim, koma sér í góðærum upp birgðum til mögru áranna. Bændur á vildarjörðum björguðust jafnan bærilega, en harðærin fóru í manngreinarálit og léku kotunga hart, og á jaðarsvæðum byggðarinnar var hættast við að fólk félli úr harðrétti.
Bærinn, heimili bóndans, var neyslueining samfélagsins á Íslandi, og mannfjöldi á heimilinu ákvarðaðist að verulegu leyti af stærð jarðarinnar og kostum til kvikfjárræktar, hve stórum bústofni hún gat framfleytt, aðallega af sauðfé og nautgripum. Öll meginhéruð landsins voru svipuðum kostum búin, svo að þar risu alls staðar stórbýli með tilheyrandi leigujörðum. Korn var ræktað með erfiði sunnan lands og vestan og kostaði þyngd sína í smjöri, en kornyrkja hefur þó verið allmikilvæg búgrein í einstökum sveitum og kornið einkum notað til ölgerðar.

Landnámshöfðingjar
Sagnir herma að höfðingjar, sem réðu fyrir traustu liði frænda og bandamanna, hafi staðið fyrir landnáminu. Margir þeirra voru mótaðir af stórbúskap í Noregi, en fóru þaðan af því að tvísýnt var orðið um höfðingsskapinn. Hagsæld þeirra á Íslandi hvíldi á mannafla og landnýtingu. Leigubúskapur hefur að líkindum hafist strax og kvikfé og mannfjöldi leyfði.
Suðvestanvert Ísland hefur jafnan verið kjarnasvæði til búskapar og stjórnsýslu. Þar fann Ingólfur allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða og tók sér búfestu í Reykjavík. Þar var góð höfn og skipaleið með landi fram sem tengdi byggðina við grannsveitir. Undirlendi var nóg á nesinu, laxár og veiðivötn skammt undan, selalátur og gnægð fiskjar uppi í landsteinum. Eyjar voru fyrir landi til margra hluta nytsamlegar: Viðey og Engey, varpeyjarnar Lundey og Þerney, og Akurey, sjálfvarin fyrir ágangi búfjár, þar sem hægt var að rækta bygg til ölgerðar.
Hvaðan sem landnemarnir voru kynjaðir, voru þeir allir mótaðir af háttum manna á víkingaöld: metnaðarsýki, þrælahaldi og hetjudýrkun, eins og lýst er í Íslendingasögum.

Heimild:
-Íslandssaga til okkar daga, Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Sögufélag, Reykjavík 1991, bls. 17-29.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Garður

Í „Fornleifaskráningu í Garði á Reykjanesi: Verndarsvæði í byggð“, sem gerð var árið 2019 má m.a. lesa eftirfarandi um bæi og nokkrar merkar minjar:

Sögubrot

Garður

Garður – kort.

Í Landnámu er sagt frá því að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskagann sem og Rosmhvalanesið allt. Þá segir frá því að hann hafi gefið frænku sinni Rosmhvalanes „allt fyrir útan Hvassahraun“ að gjöf. Ólíklegt þykir að hún hafi hafið þar búskap og fátt vitað um nákvæmt upphaf byggðar á því svæði.
Með nýjum lögum árið 1905 um sveitastjórnir á Íslandi um aldamótin 1899-1900 fóru íbúar Keflavíkurkauptúns fram á skiptingu lands í Rosmhvalahreppi til helminga. Annar helmingurinn skyldi hljóta nafnið Gerðahreppur og þannig var stofnun hans til komin þann 15. júní árið 1908.
Fyrir árið 1200 mun hafa verið mikið um kornrækt og kvikbúskap á svæðinu samhliða sjávarútvegi. Hefur landið orðið fyrir hinum ýmsu náttúruhamförum síðan, þ.m.t. Reykjaneseldar og seinna, undir lok 17. aldar, olli kólnandi loftslag rýrnandi landkostum. Urðu skilyrði til kornræktar bág og varð þá sjávarútvegur helsti nytjabúskapur Garðsins. Sem merki um akurrækt og búskap standa leifar af hinum svonefnda Skagagarði. Talið er að sveitarfélagið hafi dregið nafn sitt af þeim akurgarði.

Kapp sjómanna á fiskimið

Garður

Mikill uppgangur átti sér stað í útgerð fyrstu tvo áratugi 20. aldar í Garði. Dró snögglega úr honum á 3. áratugnum vegna erfiðra hafnaraðstæðna og fækkaði íbúum samhliða. Vélbátaútgerð kom frekar seint í sveitarfélagið vegna þessara aðstæðna og hófst hún ekki fyrr en eftir 1930. Þá var þorpsbyggð farin að taka á sig mynd með auknum atvinnumöguleikum og margt var um manninn á hafnarsvæðinu við Gerðavör. Þess má þó geta að stærri bátar komust illa að bryggju í Gerðavör, þrátt fyrir hafnarframkvæmdir á árunum 1943-47. Sigldu þeir úr höfn frá Sandgerði og Keflavík.
Framfarir á sviði atvinnu og í byggð áttu sér stað með komu hersins á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Hernum, sem hélt til á Reykjarnesi, vanhagaði um flugvöll nær búðum og var þá tekið til höndum við gerð flugvallar á Garðskaga sunnan af vita. Mikil breyting varð á atvinnulífi og menningu í Garði við komu hans og tók bærinn stórt stökk í átt að myndun þess sveitarfélags sem Garður er í dag.

Umhverfi

Garður

Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030 er staðarháttum á svæðinu lýst svo: „Einkennist [sveitarfélagið] af grónu landi á láglendi. Staðurinn býr yfir víðáttu og sýn til ystu sjónarrandar úti á hafi og glæsilega fjallasýn. Landið stendur fyrir opnu hafi og gætir bæði ágangs sjávar og vinda um allt landið. Sterkur þéttbýliskjarni einkennir sveitarfélagið ásamt dreifðari byggð út á Garðskaga“.
Eins og áður hefur komið fram var mikil gróðursæld á svæðinu og akurrækt stunduð fyrir Reykjaneselda á 13. öld. Leifar þess tíma má sjá í korngörðum á víð og dreif um svæðið. Einnig er þar Skagagarðurinn, 2 kílómetra hlaðinn veggur sem notaður var til þess að verja akrana frá búfé. Má sjá mynda lítillega fyrir honum enn í dag.
Minjar á borð við gömul hússtæði og vindmyllustanda má finna svo gott sem ósnertar á við og dreif um svæðið líkt og minnisvarðar um það sem áður var.
Ósnert og grýtt náttúra fléttast saman við byggð og slegin tún. Allt er þetta vafið strandgarði og ólgandi hafi sem á stóran þátt í atvinnulífi staðarins. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir svo: „Túnin spillast af sjóargángi sem garðana brýtur, item af sandi, sem sjór og vindur ber á, og af leysingarvatna ágángi um betrartímann.“

Þróun byggðar

Garður

Garður – upphafsstaður sögugöngu um Garð.

Til er skrásetning mannfjölda allt frá árinu 1703, þegar fyrsta manntal var tekið og þá bjuggu í Garði 218 manns. Þéttbýliskjarni í Garði tók þó ekki að myndast fyrr en skömmu eftir aldamótin 1900, er afli fór að aukast í sjó og vertíðina tók að lengja.
Svo virðist þó vera að sjórinn hafi verið stundaður í Gerðahreppi allt frá landnámi, frá því að vermannastöð, á vegum Steinunnar frænku Ingólfs, reis í Hólmi.
Árið 1896 fluttist útgerðarmaður að nafni Finnbogi Lárusson að Gerðum. Tók hann við af Árna Þorvaldssyni á Meiðastöðum sem hinn mesti útvegsmaður Garðs. Flutti hann hús til Suður-Gerða er áður hafði staðið í Njarðvík og verið í eigu H.P. Duus. Árið 1907 festi Milljónafélagið kaup á verslun Finnboga og hélt rekstri áfram næstu ár.

Garður

Garður, bátar í vör.

Í bókinni Gerðahreppur 90 ára er fjallað um að frá stofnun sveitarfélagsins árið 1908 megi greina þrjú skeið tengd búsetu og atvinnu. Fyrsta skeiðið má marka frá árunum 1908-39. „Þessi ár voru að mörgu leyti skeið erfiðleika og kyrrstöðu, ekki síst í atvinnulífinu.“ Mikinn afla var að hafa úr hafi og olli það aukinni aðsókn utanaðkomandi sjómanna á miðin í Garðsjó. Þurftu Garðsmenn að etja kappi við þennan straum sjómanna og vegna aukinnar samkeppni varð útgerðin sífellt minni og hafði þetta mikil áhrif á vöxt sveitarfélagsins. Á árunum 1920-30 fækkaði heimilisföstum í Gerðahreppi um 100 manns og má rekja það til samdráttar í sjávarútvegi.
Þó að íbúafjöldi hafi verið töluvert meiri við stofnun sveitarfélagsins og þéttbýliskjarni farinn að taka á sig mynd, þá var búseta enn á sveitabýlum.
Þétting bæjarkjarnans jókst upp úr 1920 og þorpsmyndun hófst í landi Gerða og upp af Gerðavör. Af sextán heimilum skráðum árið 1920 voru húsráðendur flestir sjómenn, að undanskildum kaupmönnum tveim og barnaskólakennara að nafni Einar Magnússon.
Séra Sigurður Brynjólfsson Sívertsen stóð fyrir stofnun barnaskóla í Gerðum, árið 1871. Aðdragandinn að stofnun skólans var nokkuð langur, en það var fyrst upp úr 1860, að séra Sigurður fór að ræða við héraðsbúa um stofnun hans. Presturinn lagði sjálfur fram fé til byggingar skólans auk þess sem hann gekk á undan góðu fordæmi í því að safna fé til skólans bæði til byggingarinnar og til þess að hægt væri að halda skólastarfinu áfram. Kaupmenn í Keflavík gáfu fé, en mestu munaði það sem bændur hér gáfu. Það vildi svo vel til að vel áraði, svo að flestir gátu gefið eitthvað fé, og svo unnu margir kauplaust við bygginguna.

Garður

Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gengst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.
Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
GarðurHætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir. Frá 1887 til 1890 var skólinn í leiguhúsnæði í Miðhúsum en fram til 1911 var svo skólinn til húsa að Útskálum og var byggt timburhús yfir hann og stóð það yst á Útskálahólnum. Árið 1910 var svo hafist handa við byggingu skólahúss í Gerðalandi, á stað er skólinn stendur enn í dag. Byggt var við skólann sjö sinnum þar til nýtt húsnæði skólans var tekið í notkun 2010.
Sumarið 1921 var hafist handa við vegagerð á milli Keflavíkur og Garðs sem lauk árið 1922. Fyrsta bifreiðin í Garði var í eigu Sigurgeirs Ólafssonar á Nýjabæ og festi hann kaup á henni árið 1923. Hófust þá flutningsbílsferðir á milli Reykjavíkur og Garðs. Í framhaldi af því var tekið til handa við gerð vegar á milli Út-Garðs og Sandgerðisbæjar. Lauk þeim framkvæmdum árið 1924.
Annað skeið má marka í sveitarfélaginu sem hersetutímabilið í Garði. Breski herinn kom íbúum Garðskaga skýrt fyrir sjónir er hann sigldi meðfram Reykjanesinu vorið 1940. Orrustuflugvélar voru staðsettar á Reykjanesskaga, en flugvöllinn vantaði.
Þá var hafist handa við gerð Skagavallar og með framkvæmdum sem slíkum jókst framboð atvinnu til muna.
Kynding húsa var með ýmsu sniði til ársins 1930. Allt frá grútarlömpum kyntum með fisklýsi, til gaslukta fram á 4. áratug þegar fyrstu vindmyllurnar fóru að rísa. Voru þær ýmist innfluttar eða heimasmíðaðar.

Býli og hús
Hús sem eru 100 ára og eldri og þ.a.l. friðuð eru:
• Unuhús, Gerðavegur 28a, 1890
• Efri Kothús, Kothúsavegur 10, 1897
• Kothús, Kothúsavegur 12, 1897
• Akurhús I, Akurhús 1, 1912
• Lambhús, Gaukstaðarvegur 6a, 1920
• Þórshamar, Gerðavegur 33, 1912
• Jaðar, Jaðar, 1905
• Efri Rafnkelsstaðir, Rafnkelsstaðavegur 8, 1910
• Réttarholt, Réttarholtsvegur 17, 1912
• Krókvöllur, Skagabraut 6, 1905
• Nýibær, Skagabraut 44a, 1911
• Sjávargata, Skagabraut 72, 1905
• Blómsturvellir 76, Skagabraut, 1920
• Útskálar, Útskálar, 1890

Hús sem byggð eru fyrir árið 1925 eru:
• Lambhús, Gaukstaðarvegur 6a, 1920
• Guðlaugsstaðir, Skagabraut 41, 1920
• Blómsturvellir 76, Skagabraut, 1920
• Hólavellir, Skagabraut 86, 1920
• Skuld, Akurhúsavegur7,1924
• Varir, Vararvegur 14, 1920

Hús sem byggð eru á tímabilinu 1926-28
eru:
• Meiðastaðir, Meiðastaðavegur 7a, 1928
• Meiðastaðir, Meiðastaðavegur 7b, 1928
• Miðhús, Miðhús, 1926
• Neðra Hof, Skagabraut 72a, 1927
• Varir 1, Vararvegur 9, 1926

Garður
Þriðja skeiðinu er lýst sem „vaxtarskeið og velmegun“ í afmælisbókinni Gerðahreppur 90 ára. Táknar það tímabilið frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og að árinu 1998, er bókin var gefin út. M.a er fjallað um fjölbreytileika á svæðinu, en eftir komu hersins breyttust atvinnuhættir og samgöngur höfðu batnað til muna og með því tengt íbúa Garðs betur við nágrenni sitt. „…Garðurinn, sem fram til þessa hafði verið næsta afskekkt útvegshérað, færðist nú nær hringiðu samfélagsins, ekki síst þeim nornakatli mannlífsins, sem stöðugt kraumaði á Miðnesheiðinni.“ Mannfjöldi jókst hægt og reglulega og er íbúafjöldi tæplega 1500 manns í dag, en var 442 við upphaf heimsstyrjaldarinnar.
Kjarni byggðar myndaðist smám saman við Gerðavör með atvinnustarfsemi og Gerðaskóla og úr varð Gerðahverfið. Í nýlegu aðalskipulagi segir: „Þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir aldamótin 1900 einkennir sveitarfélagið ásamt dreifðari byggð út á Garðskaga og til suðurs. Í daglegu tali er Garði skipt í Inn- og Út-Garð en á milli þeirra er Gerðahverfið.“ Skipulag bæjarins var lítið sem ekkert fyrr en í febrúar árið 1954. Fyrir þann tíma réðist skipulagið mest af hentisemi og landsvæði hvers og eins. Fyrsti skipulagsuppdrátturinn var svo lagður fyrir árið 1956.

Lambastaðir (býli)

Garður

Lambastaðir.

1703: konungsjörð. Dýrleiki óviss. 1847, 33 1/3 hdr. Bændaeign.
1563: Jarðarinnar er getið í Jarðaskiptabréfi hirðstjóra fyrir hönd konungs við Skálholtsstól frá 1563. DI XIV, 155.
“Sagt er, að fyrr á öldum hafi Hof og Lambastaðir verið ein jörð, Lambastaðir, en síðan verið skipt milli tveggja systra. Hof á heldur meira land en Lambastaðir.” Ö-Garðskagi, 1.
1703: “Túninu spillir vatn, sem um veturinn liggur á, item spillist það af sandi og sjávargangi, þegar stórfæður brjóta garðinn, og þarf hönum með stóru erfiði og athuga við að halda. Engjar eru öngvar. Útigangur í lakasta máta og nær enginn sumar og vetur, nema hvað fjaran er, þegar þáng, söl eður murukjarni og brúk rekur upp fyrir sjávargangi. Vatnsból er ekkert nema það eitt, er í annarar jarðar landi þarf til að sækja, bæði lángt og erfitt, og bregst þó tíðum bæði sumar og vetur.” JÁM III, 77.

Garður

Lambastaðir túnakort 1919.

“Sjávargangur hefur so merkilega grandað jörðinni, að bærinn er fyrir þann skuld færður þángað sem nú stendur hann, og gjörist að því æ meir og meir, so valla má óhætt kalla pening og heyjum þar sem nú eru,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Í örnefnalýsingu segir ennfremur: “Rétt innan við gamla bæinn á Hofi er Lambastaðahóll. Þar stóð gamli bærinn á Lambastöðum, sá sem fluttur var undan sjó fyrir 1703 eða ef til vill annar yngri, því sjórinn hefur herjað hér á landið af miklum móð. Nýi bærinn á Lambastöðum er hinsvegar ofarlega í landareigninni, beint upp af gamla bænum,” segir í örnefnalýsingu. Elsta bæjarstæði Lambastaða, þar sem bærinn stóð fyrir 1703, er nú að öllum líkindum farið í sjó.

Garður

Lambastaðir.

“Lambastaðir eru líka að þokast undan sjónum. Þar er hærri hóll og snarbrattara í flæðarmáli [en á Hofi], með miklu húsarústa grjóti – og nokkrum arfagróðri, en engin sjógarður. Hóllinn (bæjarstæðið gamla) hæstur bak við húsið,” segir í athugasemdum á túnakorti frá 1919. Á túnakorti 1919 er sýnt eitt stórt hús með bíslagi til suðurs og 8 litlir kofar þar austan við, kálgarður sunnan við og a.m.k. 3 kofar og eitthvað sem gætu verið trönur við vörina vestan við. “Rétt innan við gamla bæinn á Hofi er Lambastaðahóll. Þar stóð gamli bærinn á Lambastöðum, sá sem fluttur var undan sjó fyrir 1703 eða ef til vill annar yngri, því sjórinn hefur herjað hér á landið af miklum móð. Nýi bærinn á Lambastöðum er hinsvegar ofarlega í landareigninni, beint upp af gamla bænum,” segir í örnefnalýsingu.
Bæjarhóll Lambastaða er um 180 m ASA við bæjarhól Hofs, fast sunnan við sjóvarnargarð. Síðast stóð tvílyft bárujárnsklætt timburhús á hólnum en það var rifið fyrir fáum árum (2007).
Bæjarhóllinn er fast sunnan við sjóvarnargarð. Hann er vaxinn sinu en sunnar eru slétt tún. Bæjarhólllinn er alls um 86×30 m að stærð, snýr austur vestur og er um 1,5 m hár. Við suðausturhorn hans er steyptur grunnur 029. Vestarlega á hólnum er skúr úr bárujárni og vegur liggur upp á hólinn úr suðri. Fjölmörg önnur mannvirki eru á hólnum sem er algróinn og mikil mannvist er þar undir sverði.

Skagahóll (Býli)

Garður

Skagahóll.

“Úr nefndum merkisteini á miðjum Skagahól nyrðri er markalína Lambastaðalands að sunnan bein sjónhendingarlína í suðurhorn skólahússins á Útskálum að merkisteini merktum og úr honum bein lína í Lónshúsahlið,” segir í Landamerkjabók Gullbringusýslu frá 1889 samkvæmt örnefnalýsingu.
Skagahóll er um 20 m suðaustan við Hólavelli. Hóllinn er á þeim stað þar sem Brynjúlfur Jónsson teiknar rústabungu á uppdrátt sinn af sáðreitunum á Garðskaga, sem birtur var í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903. Í grein Brynjúlfs segir: “Akurlönd hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum … takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítill hæð eða tóftabungu, sem er skammt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru.” Skagahóll og tóftabungan eru eflaust einn og sami staðurinn.
Skagahóll er klapparhóll í sléttu túni við íbúðarhúsið á Hólavöllum. Búið er að reisa styttu á hólnum og þar koma þrjár girðingar saman. Hóllinn er um 20×16 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er um 2-2,5 m hár. Dæld er í suðurhluta hólsins, líklega eftir útihús. Dældin er 3,6 x 1,3 m að stærð, 0,2 m að dýpt og opnast til suðurs. Í norðurhlið hólsins hans skín í bera klöppina. Enginn merkjasteinn er nú á hólnum en girt er úr honum til norðurs að Helgarétt. Engar hleðsluleifar eru á hólnum sem er gróskumikill og sker sig úr umhverfinu og greinilegt er að mannvist er hér undir sverði. Garðlag 080:106 liggur til austurs og vesturs að hólnum.

Hof (býli)

Garður

Hof – túnakort 1919.

1703 og 1847 er Hof hjáleiga frá Lambastöðum. “Sagt er að fyrr á öldum hafi Hof og Lambastaðir verið ein jörð, Lambastaðir, en síðan verið skipt milli tveggja systra. Hof á heldur meira land en Lambastaðir … Milli 1920 og ‘30 var nýbýlið Efra-Hof stofnað úr landi Hofs. Stendur sá bær enn ofar en nýi bærinn á Hofi. 1933 var íbúðarhúsið Grund reist í landi Efra-Hofs. Þar er enn búið, og fylgir því dálítill jarðarskiki.” Ö-Garðskagi, Hof, Lambastaðir, 5.
1703: “Fóðrast kann i kýr að helmíngi laklega. … Eldiviðartak af fjöruþángi í lakasta máta.” JÁM III, 78.
Tún 1919: Hof a 1,6 teigar, kálgarðar 3280 m2. Hof b 1,4 teigar (á víxl).
“Rústir gamla Hofs: 6 tættur og síðustu leifar af 2 kofum í sjógarðlagi, sem sjór grefur undan. Þar stóð timburhús Einars Jónss. Hreppstjóra áður fyrr og þurrabúð (Þórarins Pálss.), eyðilögð 1917. En bærinn sjálfur fluttur 1906, inn á túnið,” segir í athugasemdum á túnakorti frá 1919. Í örnefnalýsingu segir ennfremur: “Bærinn að Hofi stóð áður inn með sjónum inn af Helgarétt. Þar var mikill sjávargangur, og var því reistur nýr bær fjær sjó, þegar foreldrar Sigurbergs komu að Hofi. Eftir það var gamli bærinn aðeins þurrabúð. Var hann stundum kallaður Gamla-Hof til aðgreiningar frá nýja bænum. Nú er þessi þurrabúð ekki til lengur, en ennþá mótar fyrir tættunum. Inn undir baðstofuna hafði verið hlaðið holræsi, sem lá út í forina fyrir utan. Enn sést móta fyrir opinu á því.” Bæjarhóll Hofs er fast sunnan við sjóvarnargarðinn um 190 m austan við bæjarhól Lambastaða. Hóllinn er fast sunnan við sjóvarnargarð. Sunnan við hann er slétt grasflöt.

Garður

Hof – minjar.

Bæjarhóllinn er um 40×10 m stór og snýr austurvestur. Hann er um 2 m hár. Um það bil á miðjum hólnum er tóft. Hún er um 5×5 m stór, opin til suðurs. Hleðslur tóftarinnar eru um 0,6 m háar og allvíða sér í grjót í þeim. Tóftin er eflaust leifar þurrabúðarinnar sem var á bæjarstæðinu eftir að bærinn var fluttur. Í norðausturhorni bæjarhólsins er dálítil hólbunga, um 5×2 m stór og um 0,4 m há, leifar útihúss, þá sér móta fyrir útihúsi sem var sunnan við bæinn, sunnarlega á hólnum. Árið 2014 var göngustígur lagður meðfram sjóvarnargarði. Göngustígurinn er malbikaður en hlaðið er upp undir hann austur og vestur af bæjarhólnum og yfir hann að hluta en á um 20 m kafla hefur verið útbúin viðarbrú yfir hólinn í stað malbiks. Brú þessi hylur tóftirnar sem sáust 2007 svo aðeins sést torfveggur, um 11 m að lengd og 2 m að þykkt. Hann er mest um 1,3 m að hæð. Vestast á hólnum er tóft með tveimur hólfum. Tóftin er byggð utan í hólinn til norðurs, er um 10 x 6 m að utanmáli og snýr austur-vestur. Tóftin er torf- og grjóthlaðin og má sjá 6 umför grjóts í eystra hólfinu. Veggir tóftarinnar eru um 1,3 m að hæð mest. Vestara hólfið er um 5 x 2,5 m að innanmáli, snýr norður-suður og er opið til suðurs. Eystra hólfið er um 5 x 2 m að innanmáli, snýr norður-suður og er opið til suðurs. Suður af vestara hólfinu er dæld í hólinn, um 0,3 m að dýpt, sem virðist vera leifar eldri byggingar. Dældin er um 3 x 2 m að stærð og snýr austurvestur. Syðst í hólnum eru tveir steinsteyptir grunnar, sem líklega eru yngri en 1919.
Þar sem bærinn á Hofi stóð frá árinu 1906 er nú steinsteypt hús á litlum hól. Húsið er um 75 m sunnan við bæjarhól. Enn er búið í húsinu, það er ekki með kjallara. Á bæjarhólnum voru fjögur hús árið 1919 þegar túnakortið var gert, þau eru öll horfið. Umhverfis hólinn eru slétt tún. Hóllinn er um 18×10 m stór, snýr austur-vestur. Hann er lágur, um 0,4 m hár. Engar hleðsluleifar eða skýr ummerki eldri húsa eru á hólnum. Hugsanlega er hluti hússins frá 1906 en líklega hefur verið byggt við það í seinni tíð, að norðan og vestan. Það er steinsteypt með bárujárnsþaki. Gengið er inn í húsið á vesturgafli þess.

Hofsbrunnur (vatnsból)

Garður

Hofsbrunnur.

Brunnur er í túninu um 30 m vestan við bæ samkvæmt túnakorti frá 1919. Brunnurinn sést enn.
Brunnurinn er á sléttri grasivaxinni flöt. Lítil hólbunga er á sléttri flötinni. Hún er um 5×5 m stór og um 0,2 m há. Í henni miðri er járnhleri yfir brunninum.

Lambastaðafjárrétt (rétt)

Garður

Lambastaðarétt (Helgarétt).

“Þessi eru landamerki umhverfis Lambastaða og Hofs landareign: Úr merkistein á miðjum Skagahól nyrðri ræður bein stefna í norður í merktan stein á sjávarkampi 5 föðmum fyrir vestan Lambastaðafjárrétt, og sama stefna ræðu yfir fjöru á sjó fram,” segir í Landamerkjabók Gullbringusýslu frá 1889 samkvæmt örnefnalýsingu. Þar segir ennfremur: “Vestast í Hofslandi, milli vikanna, er Helgarétt (sama og Lambastaðafjárrétt) hlaðin úr fjörugrjóti. Hún er talin kennd við bónda, sem eitt sinn bjó á Lambastöðum. Sennilega hefur hún áður verið skilarétt fyrir hreppinn, en seinna aðeins heimarétt Lambastaða. Nú er hún ekki notuð lengur. Hún stendur enn uppi, en sjórinn hefur brotið af henni sjávarmegin.” Helgarétt er fast sunnan við sjóvarnargarðinn um 210 m vestan við bæ og um 20 m austan við akurreiti.
Réttin er á sléttri grasivaxinni flöt sunnan við varnargarðinn. Eitt stórt hólf er eftir af réttinni. Það er um 8×6 m stór og snýr austur-vestur. Hólfið er opið til norðurs að varnargarðinum en þar sem sjór hefur brotið af réttinni. Réttin er hlaðin úr ávölu fjörugrjóti og hleðslur hennar eru mest um 2 m háar. Malbikaður göngustígur liggur nú fast norðan við réttina.

Útskálar (býli)

Garður

Útskálar.

Um 1200. Staður. Getið í kirknatali Páls Jónssonar frá um 1200 – DI XII, 9.
[um 1270]: Útskálar eiga viðreka milli Útskálaóss og Skagaflesjar og 4/5 milli ássins fram undan borginni hjá Kirkjubóli og hjallsins á Fitjum. Útskálar eiga einnig þriðjung í viðreka milli Kölduhamra og Miðhólms og allan viðreka frá honum suður til Mjósyndis. ‘Jtem eigu vtskaler vatztokv j kroks brvnn ok halldi hvorertveggv brvnnenvm. Krokvr ok midhvs eiga tveggia skipa vpp satur j navsta holm. Jtem eiga vtskaler allar veidar sydvr j lambarif, enn krokvr ok midhvs. Enn kirkivbol ad svnnann. Enn fiskreka allan at miofa tanga. DI II, 77.
[um 1270]: Útskálar eiga þann þriðja af níu hlutum allan nema 17 hverja vætt úr þeim hlut sem Presthús eiga. Útskálar eiga einnig þriðjung af fjórða hlut og sjöttung af sjötta hlut, samtals 16,01 % af hval sem er meir en 12,5 vættir og rekur milli Æsubergs og Keflavíkur – DI II, 78-79.
17.12.1340: Selur Bjarni Guttormsson fjórðung í Útskálalandi ‘vmm framm aull þau akurlond sem Biarni keypti til vtskaala ok ein[n] karfa met atkierum ok ollum reida ok bäti’ Skálholtskirkju gegn því að staðurinn taki Hrómund son hans á æfilangan kost. Bjarni og Ingibjörg kona hans gefa einnig Pétri postula og heilögum Þorláki annan fjórðung úr Útskálalandi til æfinlegrar eignar – DI II, 734.
10.6.1370: J mote Þeim iiij bæium sem vndann Vtskaala kitkiu eru tekner leggur Biorn bonde kirkiunni ad Vtskalum jord er heiter j Vorum med tveimur kugilldum til æfinnligrar eignar – DI III 56-257. Máldagar 1363, 1397 og 1575 – geta í engu um fasteign – DI III, 256-257; DI IV, 104; DI XV 639.
5.8.1560: Gísli Jónsson Skálholtsbiskup veitir sr. Jóni Loptssyni Útskála sem ævinlegt beneficium – DI
XIII, 508.

Garður

Útskálar.

1703: 9 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús, ónefnd heima við staðinn, Vatnagarður og Naust, auk þess tvær hjáleigur í eyði sem höfðu verið heima við staðinn. Einnig höfðu Blómsturvellir/Snorrakot lagst í eyði um 1670, og Hesthús var eyðihjáleiga sem ekki var vitað hvar hafði verið. JÁM III, 79-84.
1703: Vatnsnautn á staðurinn í Króksbrunni, en Krókur þar í mót skipsuppsátur í staðarins landi fyrir tólfæring eður smærra. JÁM III, 79.
1839: 7 hjáleigur: Lónshús, Akurhús, Nýibær, Móakot, Presthús, Garðhús og Vatnagarður en Naust hafði farið í eyði 1782 – SSGK, 160.
1919: Tún 7,5 ha., garðar 2600 m2. 1703: Túnin spillast af sjóargangi, önnur í betra lagi, en önnur hættari sandi, sem sjór og vindur ber á, og af leysingavatna ágángi um vetrartímann. Engjar öngvar. Útigangur mjög lítill sumar og vetur. JÁM III, 79.
1839: Mælt er að staðarins tún hafi mikið af sér gengið, og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núleifandi elztu menn muna eftir grastóum fremst framan í fjöru, sem sýnir, að fyrr meir hafi allt það svið verið grasi vaxið og máske tún; hefir þá sjór ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú á brýtur fremst fram við fjörumál (þaragarð). SSGK, 160.
1839: Beitiland staðarins er lítið annað en á svonefndum Skaga, sem liggur fyrir sunnan Lambastaði, á milli Út-Garðsins og Nessins. Það var í fyrri daga fallegt og grösugt sléttlendi, en nú gengur þar á mikill sandur, svo oft á vetrum sést ekki til jarðar fyrir honum; á honum gengur Út-Garðspeningurinn, og sauðfé hafnast þar vel, ef ekki er ofsett á. Á Skaganum voru fyrr meir kornakrar og sáðgerði fornmanna, og má enn sjá mót til girðinganna … – SSGK, 161
Bæjarhóllinn er vestan við kirkjugarðinn í miðju Útskálatúni. Á honum stendur timburhús á hlöðnum grunni, byggt 1882. Það er tæplega 50 m vestan við kirkjuna en bæjarhóllinn nær alveg að kirkjugarðinum, um 20 m frá kirkjunni. Á túnakorti frá 1919 er sýnd húsalengja fast austan við íbúðarhúsið og var þá aðeins mjótt sund á milli. Sú lengja er nú horfin en austast þar sem hún stóð komið steypt útihús sem snýr NNV-SSA og nær fram á brún bæjarhólsins að norðaustan.

Garður

Útskálar.

Sérstakur hóll, flatur að ofan. Gnæfir yfir náttúrulega slétt tún í kring. Uopi á hólnum eru tvö hús, annað á steyptum grunni, hitt á hlöðnum, og malarborið plan allsstaðar í kring um þau og út á brúnir hólsins nema mjó ræma vestast. Sunnanmegin á hólnum er sléttað malarplan, líklega uppfylling, þar sem kálgarðurinn var, en hann náði þó 15 m lengra í suður þar sem nú er slétt tún. Hóllinn er mjög brattur að vestan og norðan og þar eru hliðarnar grasi grónar, en að sunnan og austan er hallinn minni og þar allsstaðar möl ofaná. Heimreið liggur upp á hólinn á sama stað og hún var 1919, sunnantil á vesturhlið og niður af honum í norðausturhorni hjá kirkjugarðshorninu. Dæld er í hlið hólsins að vestanverðu, nálægt því sem húsið stóð, en að öðru leyti eru hliðar hans allar sléttar og hefur hóllinn að líkindum allur verið lagaður til og snyrtur á seinni hluta 20. aldar.
Nú er bíslag vestan á íbúðarhúsinu en 1919 voru skúrar norðan og austan á. Húsið snýr ekki eins við áttum og kirkjan heldur meira NNV-SSA. Það er annað timburhúsið á hólnum , hið eldra var byggt 1855, og er ekki vitað hvar síðasti torfbærinn var né hvernig hann snéri. Sr. Sigurður Sívertsen byggði eldra timburhúsið “það var 12 álna langt og 8 álna breitt íveruhús, en lét þó gömlu baðstofuna standa og byggði hana upp með nýrri súð.” Undir Garðskagavita, 146.

Útskálar

Útskálar 1920.

Á hólnum voru 1919 útihúsin og kálgarðarnir auk íbúðarhússins og lengjunnar austan við það. Fornleifauppgröftur fór fram á bæjarhólnum haustið 2005. Þar sem uppgröfturinn fór fram við norðanvert íbúðarhúsið hafði áður verið niðurgrafin viðarbygging en í tengslum við endurbætur á húsinu stóð til að reisa þar strærri byggingu. Uppgröfturinn var um 27 m2 stór og alldjúpur, eða um 3 m. Efstu jarðlög voru sundurskorin af lögnum og köplum en undir þeim voru þrjú mannvistar stig, gróflega áætlað. Elstu minjarnar sem voru grafnar upp lágu undir syrpu af gjóskulögum frá 12. öld og sást þá ekki enn í óhreyfðan jarðveg. Varðveisla var með eindæmum góð í bæjarhólnum jafnt á lífrænum leifum og málmi. Einn merkasti gripurinn sem fannst við uppgröftinn var útskorinn kambur af norænni miðaldagerð en svipaðir kambar hafa fundist í 11.-13. aldar lögum í Noregi

Útskálakirkja (kirkja)
GarðurKirkjan er 50 m austan við timburhúsið á bæjarhólnum sem snýr ekki eins og hún. Kirkjan og kirkjugarðurinn standa mun neðar en hóllinn og er lítil upphækkun merkjanlega þar sem garðurinn er.
Árið 1919 var kirkjan heldur norðar en fyrir miðju garðsins en grafreiturinn var þá alls 60-65 m langur N-S og 45-50 m á breidd. Hann hefur síða verið færður út, um 15 m til austurs og um 50 m til suðurs. Steypt girðing er fyrir vesturhlið og stærstum hluta norðurhliðar en grjóthlaðinn garður (nýlegur) fyrir austurhlið. Engin tré eru í garðinum sem er að mestu sléttur.
Kirkjan er byggð 1861. Hún er 18×7 m, með forkirkju undir minna formi (6×3 m), á grjóthlöðnum grunni sem hefur verið múrhúðaður. Eldri kirkja var byggð 1799, öll úr timbri, 20 álna löng en 8 álna breið. Forveri hennar var með timburþaki en grjóthlöðnum hliðarveggjum. Margir gamlir legsteinar eru í kirkjugarðinum næst kirkjunni. 1879 minnist Sr. Sigurður Sivertsen þess að “kirkjugarðurinn á Útskálum hefur nú verið færður út í þriðja sinn og á tvo vegu hlaðinn upp af grjóti, en á einn veg, að vestan, hefur verið sett upp grindverk úr tré. Hann var færður út 1827, 1861 og loks nú 1879.” Undir Garðskagavita, 162.
C. 1840: “Þá dönsku dysjuðu Norðlingar fyrir norðan garð [á Hafurbjarnarstöðum]. Þetta var ár 1551, en það man ég, að bein úr dysjum þeirra voru blásin upp og færð heim hingað [til Útskála] í kirkjugarð hér um 1828. Þar fannst og silfurhringur með gömlu merki líkt eins og á mörgum steyptum beltispörum.” SSGK, 184-85.

Það var lífseig trú á Suðurnesjum að kumlin á Hafurbjarnarstöðum væru dysjar Kristjáns skrifara og danskra fylgisveina hans sem drepnir voru af norðlenskum vermönnum á Kirkjubóli 1551 en í ritgerð frá 1593 kemur fram að þeir voru dysjaðir fyrir norðan túngarð á Kirkjubóli en að seinna hafi þeir verið teknir upp og grafnir heima hjá hálfkirkjunni á Kirkjubóli (Bsk II, 256). Beinin sem flutt voru í Útskálakirkjugarð um 1828 hafa því væntanlega komið úr heiðnum gröfum. Sjá ennfremur KE í Árbók 1943-47, 119-20. Úr kirkjugarðinum á Útskálum koma tveir legsteinar með rúnaáletrunum, sem báðir eru á Þjóðminjasafni (Þjms. 10927, 10928). Þeir fundust báðir í stétt við kirkjudyrnar 1840 og voru sendir til Oldnordisk Museum í Kaupmannahöfn 1843 en aftur til Íslands 1930. Báðir eru tímasettir til 15. aldar. Árbók 2000-2001, 11-12.

Naust (býli)

Garður

 Jarðabók Árna og Páls er Naust talin sem níunda hjáleiga frá Útskálum. Um hana segir í örnefnalýsingu: «Naust, er nefnd 1703, þar var þá þríbýli. Það er þessi jörð, sem talin er að hafa verið á Naustarifi, eða réttara að Naustarif séu leifar strandarinnar…Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð.» Í sýslu- og sóknarlýsingum frá 1839 segir ennfremur: «… Jörðin Naust, þríbýli, sem fyrir 80 árum var byggð. Braut sjórinn upp á, svo hún ár 1762 var óbyggileg álitin og 1782 eyðilögð með öllu. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif; gengur sjór þar alltaf yfir, og er ei nema grjót og möl.» Þá segir í örnefnalýsingu Nýlendu: «Naustarifið liggur fyrir allmiklu af Útskálalandi og hér fyrir framan [þ.e. Nýlendu, Akurhús og Lónshús], fer í kaf um öll flóð. Á Naustarifi er sagt að hafi verið bær sá, er Naust hét. Var það þríbýlisjörð, er eyðilagðist að öllu leyti 1782.» Nákvæm staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt enda landið komið í sjó. Hnit var tekið af korti vestan við

Útskálar

Útskálar – loftmynd 1957.

Manntapaflúð (Mannskaðaflös) um 295 m norðaustan við bæ. Hnit var tekið á klöppum fram undan ströndinni en þær eru velgreinilegar á loftmynd og sjást eflaust á fjöru. Klappirnar voru ekki skoðaðar á vettvangi en augljóst þykir að allar minjar býlisins séu horfnar vegna rofs.
Í Jarðabók Árna og Páls segir í upptalningu á hjáleigum: «Hjáleigur tvær hafa áður verið heima við staðinn og eru nú báðar í eyði; var hvorugri nafn gefið nema eftir þeim sem i hvört sinn bjuggu þar, grasnyt fylgdi hvörri þeirra og var l álna landskuld af og i kúgildi með hvörri, þær hafa nú yfir xxx ár í eyði legið. Kunna og ómögulegt aftur að byggjast, nema með staðarins fordjörfun.» Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það.

Útskálar

Útskálar – loftmynd 1954.

Í Jarðabók Árna og Páls segir í upptalningu á hjáleigum: «Hjáleigur tvær hafa áður verið heima við staðinn og eru nú báðar í eyði; var hvorugri nafn gefið nema eftir þeim sem i hvört sinn bjuggu þar, grasnyt fylgdi hvörri þeirra og var l álna landskuld af og i kúgildi með hvörri, þær hafa nú yfir xxx ár í eyði legið. Kunna og ómögulegt aftur að byggjast, nema með staðarins fordjörfun.» Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það.

Blómsturvellir (býli)

Garður

Blómsturvellir – bæjarstæði.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: «Blómsturveller, öðru nafni Snorrakot. Nú í auðn og það yfir xxx ár, var með l álna landskuld og i kúgildi. kann ei aftur að byggjast nema með staðarins skaða. Grasnautn, sem þar fylgdi með, meina menn sje nú lögð til hjáleigu þeirrar, er Vatnagarður heitir.»
Staðsetning hjáleigunnar er ekki þekkt og hennar er ekki getið í yngri heimildum. Fimm rústahólar eru skráðir í túni Útskála, hugsanlega hefur hjáleigan staðið á einhverjum þeirra en ekki er hægt að fullyrða um það. Blómsturvellir eru merktir á túnakort frá 1919. Það eru þó án vafa ekki þeir Blómsturvellir sem Jarðabókin getur um þar sem þeir eru of langt frá Vatnagarði til að vera lagðir undir þá jörð. Auk þess sagði Magnús Gíslason, heimildamaður, frá fjölskyldu sem flutti þangað (á Blómsturvelli) í byrjun 20. aldar og nefndi bæinn Blómsturvelli því þau höfðu svo gaman af blómum.

Króksós (lending)
GarðurÍ Jarðabók Árna og Páls segir: «Lendingar eru tvennar, önnur í betra lagi, en önnur hættari.» Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1839 segir: «Tvær eru lendingar sem staðnum tilheyra, önnur í svonefndum Króksós, sem í máldögum heitir Útskálaós; er þar hættulegt og vandfarið sund, þegar brimsamt er, með því það er mjótt, og til annarar hliðar sker eða flúð, sem Manntapaflúð er kölluð; þar hefir skipum borizt á. Fyrir innan sundið liggur ósinn eða skipaleiðin, og er hverju skipi óhætt, þegar inn fyrir kemur.» Í örnefnaskrá segir ennfremur: «… Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós.» Í örnefnaskrá Miðhúsa og Króks segir: «Naustarif er hér fyrir neðan, og lendingin er inn úr Króksós. Þar eru tvær varir, sem heita Miðhúsavör og Króksvör, sem er innst undan Útskálum. Króksós er mjór, en lónið sjálft er allbreitt og nær út að Naustarifi.» Í athugasemdum við örnefnaskrá Miðhúsa og Króks segir: «Útskálavör er niður undan skúrum nokkrum, aðeins innan við Útskála. Fara þurfti inn um Króksós til að komast inn í hana.» Útskálaós er um 310 m norðaustan við bæ, við uppsátur.
Þar sem lendingin var er skarð í klappirnar við ströndina. Það virðist vera náttúrúlegt að öllu leyti.
Manntapaflúð er vestan við skarðið.

Naustakot (býli)

Garður

“Neðan síkis á kampinum voru býli, nokkrar hjáleigur. Þar er hlið á garðinum, sem nefnt er Naustahlið. Við það er gamalt kot, nefnt Naustakot,” segir í örnefnalýsingu. Staðsetning Naustakots er ekki þekkt. Magnús Gíslason heimildamaður sagði að hlið hefði verið á vegi þar sem hann liggur að Vatnagarði. Vegurinn hefur eflaust eitt sinn einnig legið að Naustum þegar þau voru í byggð og má því leiða líkur að því að hliðið hafi verið nefnt Naustahlið. Engar tóftir eru á þessu svæði sem nú er vaxið sinu norðan við veg en slétt tún eru sunnan við hann. Hnit var tekið norðan við hliðið, þar er þúst 150 skammt sunnar. Nú er sinuvaxið svæði á milli sjóvarnargarðs og vegar. Engin ummerki kotsins sjást á svæðinu sem líklega hefur verið raskað við gerð sjóvarnargarðsins.

Móhús (býli)

Garður

Móhús.

Á túnakorti Garðsins 1919 er sýnd hjáleiga frá Útskálum, Móhús, syðst og vestast í túninu. Bæjarröðin hefur legið frá norðaustri til suðvesturs. Tvílyft steinhús með kjallara stendur þar sem Móhús voru. Fast vestan við húsið er malarplan og þá vegur að Akurhúsum, Akurhúsabraut. Í aðrar áttir er slétt grasflöt. Húsið stendur á litlum stalli. Hann er um 20×12 m stór og snýr austur-vestur. Stallurinn er um 0,3 m hár. Líklegt þykir að hann hafi myndast við byggingu hússins sem nú stendur á staðnum fremur en að hann geymi uppsafnaðar mannvistarleifar.

Hellukot (býli)

Garður

Hellukot – bæjarhóll.

Á túnakorti Garðsins 1919 er sýnd hjáleiga, Hellukot, fast austan við tún Garðhúsa og virðist byggð úr þeirra túnskika. Bærinn virðist hafa samanstaðið af tveimur húsum sambyggðum. Samkvæmt túnakortinu var tún Hellukots 0,26 ha og garðar 500 fermetrar. Þar sem Helllukot stóð er nú sinuvaxinn hóll. Skilti merkt “Hér stóð bærinn Hellur” hefur verið rekið ofan í hólinn. Hugsanlegt er að bærinn hafi verið þekktur undir því nafni áður en hann var kallaður Hellukot. Hvorki Hella né Hellukots er getið í Jarðabók Johnsens frá 1847 né í fasteignabók frá 1915 svo líklegt er að bærinn hafi ekki verið í byggð lengi. Fyrir austan bæinn sést sigin tóft og garðlag í túni, líklega tilheyrðu þær minjar þessum stað. Hóllinn er á sinuvöxnu svæði fast vestan við garðlag. Slétt tún taka við að austan, vestan, sunnan og norðan. Hóllinn er um 8×4 m stór og snýr norður-suður. Hann er um 1 m hár. Engar skýrar hleðsluleifar eru á hólnum. Það glittir í eitt umfar af grjóti neðst í honum til vesturs.

Garðskagi (akur)

Garðskagi

Garðskagi.

“Garðskagi er hið gamla nafn á nyrzta hluta skagans, reyndar alveg þvert yfir. Mun það vera leifar frá því að hér var afgirt land, akurreinar,” segir í örnefnalýsingu. Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar á Reykjanesskaga, frá um 1860 segir: “Skaga (eða Garðskaga) kalla menn odda þann enn þríhyrnda, er lengst gengur fram í sjó í Garðinum og snýr til útnorðurs. Hann er að mestu sléttur og grasi vaxinn. … Á Skaganum hafa í fyrndinni verið girðingar eigi alllitlar, og hafa þær skipt honum í marga ferhyrnda reiti, suma aflanga, suma jafna á alla vegu. Allir hafa þessir garðar verið hlaðnir upp úr hnaus eða sverði, en litlu eða engu grjóti.”
Sunnan við nýja vitann og byggðasafnið, vestan Hólavalla og norðan Skagabrautar er slétt tún. Þar má þó sjá móta fyrir lægðum þegar sól er lágt á lofti. Þær munu vera leifar þeirra akurreina sem hér voru og lýst er í heimildum.
Í sýslu- og sóknalýsingum frá 1839 segir um garðana: «Á skaganum voru fyrr meir kornakrar og sáðgerði fornmanna, og má enn sjá mót til girðinganna.» Í sóknalýsingu frá um 1840 segir: «Er þessi garður, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.»

Garður

Garðskagi – túnakort 1919.

Í grein Magnúsar Grímssonar frá um 1860 segir ennfremur: «Er það auðsjáanlegt, að hér hafa verið tómir akrar, og er það mikið svæði, sem þeir hafa náð yfir, því sjórinn hefur án efa brotið töluvert af því. Ekki sjást nein merki um skurði eða þess háttar, og getur vel verið, að þeir séu nú fullir orðnir af sandi og gras gróið yfir, þó að þeir hafi verið þar áður. Ekki vita menn þessara akra eða akurlanda getið neins staðar nema í bréfi Jóns biskups í Skálholti, dat. 1340, er hann keypti einn fjórðung úr Útskálalandi til Skálholtsstaðar að Bjarna Guttormssyni – og «um fram öll þau akurlönd, sem Bjarni keypti til Útskála.» [Dipl. Isl. II, 733-34.]. Þó að þessi bending sé lítil, sýnir hún að Útskálar hafi átt akra, og þeir geta varla hafa veirð annars staðar en á Skaganum, því nokkuð af honum er enn í eign Útskála, og ganga merkin eftir einum garðlaginu, sem um Skagann liggur.»

Garðskagi

Garðskagi – loftmynd 1954.

Brynjúlfur Jónsson rannsakaði garðana árið1902. Í grein hans í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903 segir: “Akurlönd hafa verið á Skaganum fyrir norðan Útskála. Sér þar enn votta fyrir að minnsta kosti 18 akurreinum, 4-8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að lítill hæð eða tóftabungu, sem er skammt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru. Suður- og austur frá langsetis-garðinum og rústinni eru margar stærri girðingar, flestar hér um bil ferhyrndar, og ná þær allt suður að landamerkjum Útskála og Kirkjubóls. Hafa það að líkindum verið töðuvellir. Þar er nær sjó dregur, eru girðingar þessar óglöggar af sandburði.” Eftir rannsókn Brynjúlfs voru akurreinarnar friðaðar. Kristján Eldjárn ritar í Árbók Ferðafélagsins árið 1977: “Akurreinar Brynjúlfs voru friðlýstar árið 1930 eftir lýsingu hans, en ekki entist sú friðlýsing þeim til verndar, þótt ekki séu þær með öllu horfnar.” Í Friðlýsingaskrá segir: “Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga.10 Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.” Árið 1999 var gerð rannsókn á þessum reinum og uppgröftur gerður í landi Hólavalla. Um örlög reinanna segir í rannsóknarskýrslunni sem birt var í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 2002-2004: “Nú, hundrað árum eftir för Brynjólfs, eru akurreinarnar afar ógreinilegar og víða horfnar með öllu. Ætla má að sjávarrof, bæði á vestur- og norðurströnd skagans, hafi valdið nokkurri eyðileggingu, en mest spjöll hafa orðið af manna völdum.

Garður

Fjórar hjáleigur og nýr viti eru nú á því svæði sem Brynjúlfur Jónsson lýsir akurreinunum … Þessari búsetu hafa fylgt húsbyggingar, vegagerð, túnasléttun og annað jarðrask … Niðurstöður úr Garðinum eru fremur lítil afgerandi. Sandfylltar dældir í sniðum eru til marks um að jarðvegur hafi verið hreyfður, en ekki eru tök á að tímasetja þann atburð sem stendur. Ekki verður heldur fullyrt með vissu að raskið stafi af jarðrækt, þó að aðrar vísbendingar um kornrækt á staðnum geri þá túlkun sennilega.” Túnið sunnan byggðasafnsins þar sem sér fyrir akurreinunum á stöku stað er um 145×125 m stórt og snýr austurvestur. Hver akurrein er 3,5- 4 m á breidd, 0,1-0,2 m á hæð og eru milli 40-150 m að lengd. Ummerki um akurlöndin sjást vel á stafrænu yfirborðslíkani með 50% hæðaskyggingu (hillshade). Það má greina fleiri akurreinar á myndinni, m.a. fyrir sunnan Byggðasafnið og í túni Hofs.

Skagagarður (vörslugarður)

Garður

Skagagarður fyrir miðri mynd.

“Lokaðist það [akurland] af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,” segir í örnefnalýsingu. Í sýsluog sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: “Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.”

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar (innan deiliskipulagsreitsins sem lá til grundvallar fornleifaskráningu árið 2007) er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans. Samkvæmt stefnu garðsins sunnan vegar hefur hann legið um 25-30 m austan við landamerkjagarð. Þá má einnig vera að Skagagarðurinn hafi legið frá syðsta hluta túngarðsins á Útskálum að Krikjubóli og að hann hafi því aldrei legið norðan núverandi vegar.
Þar sem Skagagarður lá norðan Skagabrautar eru nú slétt tún. Sunnan vegar liggur hann að mestu í sinuvöxnum móa.

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

Í Chorogarphicu Árna Magnússonar frá 1720 segir: «Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.» Í sýslu- og sóknalýsingu frá 1839: «… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.» Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: «Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flangastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri. Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.»

Garðsskagi

Skagagarðurinn – loftmynd 1954.

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð:»Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3-4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.» Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: «En Skagagarðurinn mikil, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerðu til Út-Garðs. …

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð. Þessi beini garður, hinn raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Kaflavíkur.

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju. Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt. Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976.

Garður

Garður – Hof.

Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: “Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.” Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15 m. Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson) ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögur til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum.

Garður

Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?” Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: “Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum sem merktir eru inn á kortið [sýnt á bls. 92]. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum. … Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.”

Skagagarður

Skagagarðurinn v.m.

Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: “Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11. öld.” Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut v/ deiliskipulagsgerðar. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur, 5-8 m breiður og mest 0,3-0,4 m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Sæból (býli)

Garður

Sæból.

Á túnakorti er bærinn Sæból sýndur sem timburhús með bíslagi að norðanverðu, brunnur er við vesturhlið þess og kálgarðar eru austan við. Þessi bær er 20 m sunnan við Fögruvelli. Samkvæmt túnakortinu frá 1919 var Sæból um 40 m vestan við Sjávargötu. Húsið er enn uppistandandi.

Sjávargata (býli)

Garður

Sjávargata.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var bærinn í Sjávargötu tveir litlir kofar samtengdir. Nú stendur hús á einni hæð með risi í Sjávargötu, um 50 m ASA við Blómsturvelli. Húsið er ekki með kjallara. Húsið stendur á sléttri flöt. Engin ummerki eldri húsa eru greinanleg á þessum stað.

Fögruvellir (býli)

Garður

Fögruvellir.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var bærinn á Fögruvöllum torfbær, 4 hús í röð með stafna í norður en auk þess þrír samtengdir kofar þar austan við og lá garður frá þeim til norðausturs yfir í kálgarð við suðurhlið Hofstúns. Á túnakortinu eru Fögruvellir merktir um 60 m norðvestan við Sjávargötu og um 100 m austan við Blómsturvelli. Magnús Gíslason heimildamaður sagði frá því að Fögruvellir hefðu verið fluttir til Reykjavíkur og hlýtur því timburhús að hafa staðið á bæjarstæðinu eftir að torfbærinn féll. Steyptur húsgrunnur er fast VNV við unga kálgarða 108 og 32 m vestan við Steinshús. Grunnurinn telst líklega ekki til fornleifa en er tekin með á skrá til að ná utan um þær búsetuminjar sem eru á svæðinu fyrir vinnu við verndarsvæði í byggð. Ekki er sýnt hús á þessum stað á korti frá 1954 og ekki er vitað hvenær húsið sem þarna stóð var byggt eða hvenær það var rifið. Þar er nú óræktað tún. Gróið flatlendi á lóð húss sem ber nafnið Grund og er byggt á bæjarstæði Blómsturvalla.
Grunnurinn er steyptur en nánast alveg yfirgróinn. Hann er um 9,3×8,7 m að stærð og snýr NNA-SSV. Á túnakorti frá 1919 eru Blómsturvellir sýndir sem þrír kofar, þar af tveir samtengdir, með stafna í norður, um 180 m suðvestan við Neðra-Hof. Nú stendur steinsteypt, járnklætt hús á einni hæð, nefnt Blómsturvellir, um 140 m suðvestan við Neðra-Hof. Húsið er ekki með kjallara. Leiða má líkur að því að Blómsturvellir hafi verið færðir til vesturs nær Sjávargötu á 20. öld og að eldra bæjarstæði þeirra sé í túninu vestan við íbúðarhúsið Grund (byggt um 1933) og sunnan við túngarð. Grund er byggt á þessu bæjarstæði Blómsturvalla.
Húsið stendur á sléttri flöt. Vestan við það er malarplan en í aðrar áttir er óræktað tún.
Húsið Grund er að öllum líkindum byggt í miðjan bæjarhólinn. Það mótar fyrir suðausturhorni hans í sléttu túni. Þar sést um 0,3 m há og aflíðandi brekka sem fjarar út þegar kemur að húsunum.

Garðskagaviti (samgöngubót)
Garður“Það var minnisverður atburður, þegar fyrsta leiðarmerkið var sett á Garðskaga. Það var árið 1847, að hlaðin var varða … Varðan var hlaðin úr grjóti og upp úr henni stóð járnstöng. … Gert er ráð fyrir , að varðan með grjótstöpli, sem undir hana verið hlaðinn, verði 15 álna há … Það var svo ekki fyrr en 1884, að ljósker var sett á vörðuna á Garðskaga og jafnframt byggt þar dálítið hús úr timbri … Árið 1897 var svo byggður ljósviti á Garðskagatá. … Það var ferstrend bygging úr steinsteypu, 12,5 metrar á hæð og 3,25 metrar á hverja hlið. Áfast við hann var varðhús … Umhverfis vitann var pallur, hlaðinn úr höggnu grjóti, um 3 m á hæð. Í vitann voru sett mjög vönduð ljósatæki frá París … Nýr viti var svo byggður árið 1944 … En gamli vitinn hefur fengið nýju hlutverki að gegna. Þar er nú verið að koma upp fuglarannsóknarstöð,” segir í Undir Garðskagavita. “Gamli vitinn er fremst á tánni. Hann var reistur 1897. Þá var gras fyrir framan hann og náði dálítið fram á rifið, en nú er þetta alveg gróðurlaust,” segir í örnefnalýsingu. Vitinn er merktur á túnakort frá 1919. Gamli vitinn stendur enn. Hann er um 200 m norðvestan við nýja vitann frá 1944.

Garðskagaviti

Garðaskagaviti.

Vitinn stendur á hlöðnum stöpli, umluknum sjó. Steinsteypt gagnstétt liggur að honum úr suðaustri.
Í Undir Garðskagavita segir ennfremur: «Ein höfuðástæða þess, að nýr viti var reistur á Garðskagatá árið 1944, var sú að sjór hafði gengið mikið inn á landið frá því að gamli vitinn var byggður. Fyrir kom það, að ekki var hættulaust að annast vörzlu hans … samkvæmt frásögn elztu manna, að landbrotið sé um 100 metra frá þeim stað, sem gamla Skagavarðan stóð, og eflaust hefur verið nokkuð land fyrir utan hana. Þegar grafa tók undan gamla vitanum, svo að hann virtist í hættu, var farið að steypa öldubrjóta og varnarveggi í kringum hann, fyrst árið 1924 og margsinnis síðan.» Engin ummkerki eldri mannvirkja en vitans frá 1897 sjást nú á Garðskagatá enda hefur sjórinn eflaust fyrir löngu étið leifar vörðunnar og timburhússins sem þar stóðu áður en vitinn var byggður. Varðan hefur samkvæmt bókinni „Undir Garðskagavita“ staðið um 100 m norðvestan við vitann.

Garðskagi (býli)

Garður

Garðskagi – túnakort 1919.

Samkvæmt túnakorti Garðskagavita frá 1919 stóð bærinn, vestast í túni, um 240 m suðaustan við vita 060. Þar eru sýndir tveir klasar af byggingum með kálgarði á milli. Gamli bærinn á Garðskaga stóð fast austan við vitavarðarhúsið sem byggt var um 1940, um 40 m sunnan við vitann sem byggður var 1944. Þró var fast sunnan við bæinn. Þar er lítil hólbunga í sléttu túninu. Hólbungan og leifar kálgarðsins sunnan við hana eru á svæði sem er alls um 40×40 m stórt. Sjálf er bungan um 40×10 m stór og snýr austur-vestur. Hún er um 0,5 m há, séð frá suðri en fellur inn í landið til norðurs. Vegurinn að byggðasafninu liggur yfir norðvesturhorn hennar. Ekkert greinilegt tófta- eða byggingarlag er á hólbungunni enda hefur svæðið augljóslega verið sléttað í seinni tíð.

Hólavellir (býli)

Garður

Hólavellir.

“Milli Hofslands og Garðskaga var þurrabúðin Hólavellir, en hún tilheyrði Útskálum. Enn býr fólk á Hólavöllum, en eins og stendur er þar enginn búskapur,” segir í örnefnalýsingu. Hólavalla er getið á túnakorti frá 1919 en hús og garðar eru ekki sýnd. Samkvæmt túnakortinu var þar ekkert tún en um 820 fermetra kálgarður fylgdi býlinu. Hann er ekki merktur á kortið. Nú stendur hús með kjallara og risi á bæjarstæði Hólavalla. Það er um 195 m suðaustan við bæjarhólinn á Garðskagavita og um 140 m SSA við Helgarétt.
Húsið stendur á sléttri grasivaxinni flöt. Enginn hóll er greinilegur á bæjarstæðinu.

Steinshús (býli)

Garður

Steinshús.

Guðni Ingimundarson, heimildamaður, sagði frá leifum húsgrunns þar sem íbúðarhúsið Steinshús stóð lengi. Grunnurinn er um 40 m norðan við Sjávargötu. Við húsgrunninn er útskorið skilti sem stendur á Sæból, en þetta hús gekk einnig undir því nafni. Grunnurinn er á sléttri grasflöt. Steinsteyptur grunnur gægist upp úr grassverðinum á þessum stað. Hann er L-laga, um 7×6 m stór og snýr austur-vestur. Byggingaár hússins er ekki þekkt en Guðni Ingimundarson, heimildamaður sem er fæddur 1923 mundi eftir húsinu frá uppvaxtarárum sínum. Hér leynast ugglaust mannvistarleifar undir sverði en húsið er byggt eftir að túnakortið er gert 1919. Grunnurinn er steyptur og það mótar fyrir ytri og innri brún hans. Sé tekið mið af lagi grunnsins var þetta timburbygging, hús með áföstum skúr. Grunnurinn er 0,2 m á hæð og 7,3×6,6 m að stærð. Á túnakortinu er þetta svæði sýnt sem kálgarðar frá Sæbóli.

Lónshús (býli)

Garður

Lónshús.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr naumlega …. Fjörugrasa og sölva og þángtekja til eldiviðar hafa báðir þessir menn nægilegt.” JÁM III, 80.
1919: tún 2 teigar, kálgarðar 1030 fm.
Í Jarðabók Árna og Páls segir 1703 segir: «Lonshus, fyrsta hjáleiga…Fóðrast kann i kýr naumlega….» Þá var tvíbýlt á bænum. Í athugasemdum á túnakorti frá 1919 segir: «Þar er gróið yfir nokkuð af rústum Lónshúsabæjar, sem var fluttur á túnið fyrir rúmum 30 árum (að sögn). Var þó lengi áður varinn bærinn með sjógarði. Nú mun sjógarðsmyndin nærri miðju bæjastæðinu gamla, og ofan á því – Grefur undan.»
Gamla bæjarstæðið er merkt, á túnakort frá 1919, um 50 m VNV við nýrra bæjarstæðið. Þar sem bærinn stóð er nú malarplan við fiskvinnsluhús (byggt 1973).
Engin ummerki eldri bæjarhólsins sjást nú. Vilhelm Guðmundsson heimildmaður sagði frá því að grafið hafi verið frystihúsinu árið 1973. Hann minntist þess ekki að neinar minjar hafi komið í ljós við það verk. Hugsanlega hefur sjórinn þá þegar verið búinn að éta burt mannvistarlögin.
Yngra bæjarstæði Lónshúsa, frá um 1890, er merkt um 50 m ASA við á túnakort frá 1919. Þar eru merkt fjögur sambyggð hús, eitt um 20 m vestar og tvö sambyggð um 20 m norðar. Þar sem bærinn stóð stendur nú steinsteypt hús, gamla íbúðarhúsið í Lónshúsum. Húsið stendur fast sunnan við sjóvarnargarðinn. Það er ekki með kjallara. Sunnan við húsið er steynsteypt plan og þá slétt tún. Húsið stendur á hól sem er um 30×26 m stór og snýr austur-vestur. Austan og norðan við það, í austur og norðurmörkum hólsins er garðlag og í norðvesturhorni hans er gróðurhrúgald með miklu grjóti í. Hóllinn og garðlagið eru saman um 1,5 m á hæð.

Akurhús (býli)

Akurhús

Akurhús – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr viðsæmilega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekja af fjöruþángi nægileg.” JÁM III, 80.
1919: Tún (a) 96 ha, garðar 770 m2. Tún (b) 1 ha, garðar 880 m2.
Akurhús voru samkvæmt túnakorti frá 1919 rúma 200 m norðvestur af Útskálabænum. Á kortinu sést að bæjarröðin samanstendur af mörgum húsum sem hefur legið hér um bil frá austri til vesturs. Núverandi íbúðarhús í Akurhúsum II (byggt 1932) er í norðausturhorni bæjarhólsins.
Hann er um 240 m norðvestur af bæjarhól Útskála.“ Skráningin frá 2007 var endurskoðuð þegar deiliskráning var unnin á svæðinu árið 2019.
Heimreið að Akurhúsum liggur yfir bæjarhólinn. Umhverfis hann er slétt tún en þó er lág hólmyndun fast SSV við hann þar sem jarðvegi og byggingarefni hefur verið ýtt út. Líklega eru það leifar af byggingum á bæjarhólnum.

Garður

Akurhús.

Bæjarhóllinn er um 70×35 m stór og snýr VNVASA. Hann er um 0,5 m hár og er vel gróinn. Núverandi íbúðarhús stendur í norðausturhluta hans. Það var byggt 1932 en byggt hefur verið við það síðan. Húsið er tvílyft með kjallara. Bæjarhólnum hefur augljóslega verið raskað við byggingu hússins og þegar eldri byggingarleifum var ýtt fram af hólnum til suðurs. Aftan við íbúðarhúsið er grunn lægð ofan í bæjarhólinn þar sem ótilgreind bygging hefur staðið. Lægðin er 2,5×2 m að innanmáli og snýr eins og bæjarhóll. Hún er 0,2 m djúp.

Akurhúsabrunnur (vatnsból)

Garður

Akurhúsabrunnur.

Í þúst sem er í túni Akurhúsa um 70 m ASA við bæ er steypt mannvirki, að öllum líkindum brunnur. Óvíst er hversu gamall brunnurinn er en ekki er vitað um annan brunn fyrir Akurhús. Brunnurinn er í sléttu, fllatlendu túni sem enn er slegið. Þústin í túninu er 3,5×2,5 m að utanmáli og snýr nálega austur-vestur. Hún er 0,3 m á hæð. Í þústinni er yfirgróin steypt plata og á henni miðri er ferkantað op ofan í holrými sem er á að giska 0,2-0,3 m djúpt. Opið er í suðurjaðri þústarinnar. Ekki sést vel ofan í meintan brunn og virðist hann nánast fullur af jarðvegi. Ekki er því hægt að lýsa honum nánar.

Nýibær (býli)

Garður

Nýibær – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr og i úngneyti ríflega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af þángi nægilegt.” JÁM III, 6.
1919: Tún 1,18 ha, garðar 760 m2.
“Nijebær, þriðja hjáleiga. … Við til húsabótar segist ábúandinn í xx ár ekki þegið hafa, en þá uppbygt hjáleiguna að nýju af viðum, sem staðarhaldarinn Sr. Þorleifur Cláusson hafi sjer þá fengið,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Nýibær rúma 100 m suður af Akurhúsum. Bæjarhóll Nýjabæjar er um 7 m sunnan við íbúðarhús Nýjabæjar sem byggt var árið 1911. Hann er um 120 m sunnan við Akurhús. Bærinn var skráður árið 2007 en skráningin var uppfærð og aukin þegar unnin var deiliskráning á svæðinu 2019. Norðan, austan og vestan við hólinn er slétt tún en sunnan við hann er órækt innan kálgarðs.
Framan (norðvestan) við íbúðarhúsið er allstórt malbikað plan. Stór sólpallur var byggður suðvestan við íbúðarhúsið fyrir um 5 árum síðan (í kringum 2014) og hefur sú framkvæmd raskað bæjarhólnum talsvert að norðaustanverðu.
Þegar bæjarhóllinn var skráður 2007 var hann mældur um 30×35 m stór, litlu lengri austur-vestur en norður-suður, og 2 m á hæð. Hóllinn hefur verið sléttaður að nokkru leyti. Raskið í norðaustanverðum hólnum vegna framkvæmda við sólpall virðist talsvert og svo virðist sem að efni sem fjarlægt var úr honum hafi verið ýtt til suðausturs. Nú (2019) er bæjarhóllinn svipaður að stærð og hann var áður en er aflagaður frá því sem var í fyrri skráningu. Í norðvesturhorni hólsins er steyptur grunnur um 6,5×6,5 m stór. Fast suðvestan við hann er hlaðinn grunnur sem er 5,5×3,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Ofan við hann til suðausturs er svo þriðji grunnurinn sem er 3,5×4 m að stærð og snýr þvert á hinn. Að sögn Ingibjargar Önnu Gísladóttur, heimildamanni, var steypt fjós og hlaða á þessum stað. Fleiri hús voru þarna í röð sem náði lengra til norðausturs. Man Ingibjörg eftir smiðju og trésmíðaverkstæði sem þarna voru. Garðlög, leifar kálgarðs 002 liggja frá suðvestur og suðausturjaðri hólsins.

Móakot (býli)

Garður

Garður – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga frá Útskálum.
1703: “Fóðrast kann i kýr laklega. … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 81.
1919: Tún 0,7 ha, garðar 450 m2.
Samkvæmt túnakorti Garðsins frá 1919 var Móakot um 160 m SSV af Útskálum. Á túnakortið eru merkt fimm sambyggð hús og snýr röðin nær norður-suður. Bæjarhóll Móakots er um 20 m norðvestan við núverandi íbúðarhús Í Móakoti. Hann er fast norðvestan við bílskúr sem grafinn er inn í hólinn að suðaustan. Bæjahóllinn var fyrst skráður 2007. Þegar varið var aftur á vettvang vegna deiliskráningar á svæðinu var eldri skráning uppfærð og breytt lítillega. Sunnan við hólinn er malarborið plan en í aðrar áttir er slétt tún. Hóllinn er um 30×15 m stór og snýr norðvestursuðaustur. Hann er um 1,5 m hár. Meðfram suðurvesturbrún hans er grjóthleðsla norðvestan við bílskúrinn. Hún er 11,5 m á lengd og 1 m á hæð. Í henni sjást mest 4 umför en inn á milli má sjá vikurstein sem gefur til kynna ungan aldur hleðslunnar. Önnur sambærileg hleðsla er í bæjarhólnum sem liggur til norðausturs frá norðurhorni bílskúrsins. Hún er um 4 m á lengd og innan við 1 m á breidd. Hleðslan er hæst næst bílskúrnum en lækkar til norðausturs. Í henni sjást 3-4 umför. Að lokum er grjóthlaðinn, lágur og unglegur veggur meðfram norðausturhlið bílskúrsins. Hann er 1,5 m á breidd, 0,5 m á hæð og í honum sjást 3-4 umför hleðslu. Í kverkinni sem myndast á milli síðasttöldu hleðslnanna er flati og þar má ætla að hús hafi staðið sem hefur verið rifið fyrir nokkru.

Móakotsbrunnur (vatnsból)
Brunnur er merktur á túnakort frá 1919, um 5 m austan við Útskálaveg og um 30 m austan við bæ. Hann er um 20 m vestan við bæ, staðsetningin er röng á túnakorti, hann er um 20 m of sunnarlega.
Brunnurinn er í sléttu túni. Enn er brunnur á þessum stað um 5 m vestan við veg. Brunnurinn er steinsteyptur með járnhlera yfir. Hann hefur líklega verið endurbættur í seinni tíð.

Garðhús (býli)

Garður

Garðshús – túnakort 1919.

1703 og 1847, hjáleiga Útskála.
1703: “Fóðrast kann i kýr að tveim þriðjúngum. … Fjörugrasa og sölvatekju og eldiviðartak af fjöruþángi nægilegt.” JÁM III, 82.
1919: Tún 1,1 ha, garðar 1000 m2.
Samkvæmt túnakorti Útskála og hjáleigna frá 1919 voru Garðhús um 100 m austan við Presthús.
Gamli bærinn í Garðhúsum var um 30 m vestan við skemmu við austurenda garðlags og um 50 m norðan við núrverandi íbúðarhús í Garðhúsum.
Vilhelm Guðmundsson, heimildamaður, bjó í bænum á uppvaxtarárum sínum. Hann er fæddur 1937. Á túnakortinu voru 7 hús sem tilhayrðu bænum árið 1919. Þar er slétt tún. Bæjarhóllinn er 20×18 m að stærð og snýr norðursuður. Aðeins sér móta fyrir ójöfnum í túninu þar sem bærinn stóð en engin skýr ummerki hans eru greinileg. Bæjarhóllinn er 0,2-0,3 m á hæð og búið að slétta yfir hann.

Vatnagarður (býli)

Garður

Vatnagarður – túnakort 1919.

1703 og 1847. Hjáleiga Útskála.
1703: “ Fóðrast kann i kýr og i vetrúngur … Fjörugrasa, sölva og eldiviðartekju af fjöruþángi nægilegt”
JÁM III, 83. 1919: Tún norðurbæjarins 0,09 teigar, kálgarðar 440 m2. Tún suðurbæjarins 0,07 teigar, kálgarðar 550 m2.
Í örnefnalýsingu Útskála segir: «Vatnagarðar, er nefnd 1703 og 1861, síðan ekki,» og síðar: «Niður undan kirkjugarðinum [Útskálakirkjugarði] eru rústir, sem nefndar eru Vatnagarðar.» Í athugasemdum við örnefnaskrá Gerða segir: «Gerðabakkar eru sjávarbakkar fyrir neðan Síkið. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður, stór jörð, nú komin í eyði, en bærinn stendur enn uppi [1978].» Árið 1919 voru tveir bæir í Vatnagörðum, nyrðri og syðri, og er sá syðri er skráður hér undir. Ekki hefur mjög mikið breyst á svæðinu, miðað við túnakort frá 1919, en 2007 brann þó bærinn á bæjarstæði til grunna. Ekki er vitað hvenær þessi bær hvarf. Bæjarstæðið er um 120 m norðvestan af bæjarhól Miðhúsa. Ekki er vitað hvar bærinn 1703 var, líklega á svipuðum slóðum og heimatúnið er nú.

Garður

Bæjarstæðið er á landræmu milli Útskálasíkis til suðurs og sjávar til norðurs. Svæðið er nú nýtt til beitar, búpeningi er gefið í túninu yfir vetrarmánuðina. Nú stendur eftir steyptur grunnur húss, holur að innan. Hann er um 8 x 6 m að stærð í NNV-SSA og um 1 x 1 m steypupartur stendur út úr honum að sunnan. Þar hefur inngangur líklega verið. Innan í grunninum er um 0,6 m djúp gryfja sem til er kominn vegna uppblásturs. Undir gróðri kemur í ljós skeljasandur sem er mjög laus í sér, og stuðlar að uppblæstrinum. Ekki sér til uppsafnaðara mannvistarlaga undir húsinu.
Samkvæmt túnakorti frá 1919 stóð hús, íbúðarhús nyrðri bæjarins, um 40 m norður af bæ og tæpum 20 m austan við Útskálasíki. Fram til ársins 2007 stóð þessi bær undir þaki, en var brann síðla sama ár.Nú stendur eftir grunnur og veggur austan við hann. Bæjarstæðið er í aflíðandi, gróinni brekku. Hér standa eftir steypugrunnur og veggur. Grunnurinn er 7,5 x 6,5 m stór, og stendur um 0,7 m hátt sunnan megin en er jafnhár umhverfinu nyrst. Suður út undan veggnum má óljóst greina merki um eldri leifar. Um 5 m austan við grunninn er 1,5 m hár fokheldur veggur, hlaðinn úr fjörugrjóti og límdur með sandlími. Veggurinn er um 7 x 1,2 m á stærð, snýr norður-suður og er 2 m á hæð. Milli veggjarins og grunnsins er svo stétt, sem víða er orðin óljós, sérstaklega nær grunninum.

Miðhús (býli)

Garður

Útskálar – fornleifar.

1703: Jarðardýrleiki óviss. Konungseign. 1847: 20 hdr. Bændaeign. Jarðarinnar er getið í skjölum um rekaskipti frá um um 1270: “Þetta er reka skipti aa rost hvalsnesi eptir þvi sem at fornv hefer verit. …Þa eigv Midhvs vt til byrdinga skers j vtskala oss. Þadann eigv vtskaler til skagaflesiar.” DI II, 76-77. Jarðarinnar er getið í fjárskiptabréfi “milli húsfrú Hólmfríðar Erlendsdóttur af einni álfu, en af annari Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar, og systkina hans” frá 1522. DI IX, 87 Þá er hennar getið í í yfirýsingu Gissurar Skálholtsbiskups frá 1541 þar sem hann lýsir því yfir að “hústrú Hólmfríðr Erlendsdóttir haldi til fullrar eignar jörðunum Sandgerði, Króki og Miðhúsum …” DI X, 657 og í dómi um “testametum hústrú Hólmfríðar heitinnar Erlendsdóttur” frá 1545, DI XI, 402. Þá er jarðarinnar aftur getið í dómi frá 1547 “um gildi gjafabréfs hústrú Margrétar Vigfúsdóttur 1486 um ánefnt jarðagóz til Þorvarðs Erlendssonar, dóttursonar síns…” DI XI, 570. Þorleifur Björnsson lýsir því yfir í Miðhúsum árið 1569 að “hann viti ekki , að jörðin Dynjandi í Jökulfjörðum hafi nokkurn tíma komið í eign föður síns.” DI XV 300.
1703: “Fóðrast kann ii kýr naumlega. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenníngum ef vill. Torfrista og stúnga ekki nema í sendinni jörð og landlitlu landi. Lýngirif lítilsháttar og lángt í burtu. Fjörugrasatekja lítil. Rekavon lítil. Hrognkelsa og skelfisksfjara valla nefnd gefandi. Murukjarnar og þvílíkt ekki nema af reka, þó oftlega til að næra peníng á vordag í heyskorti. Eldiviðartak af fjöruþángi mjög af skorti so annarstaðar þarf til að fá. Heimræði er árið um kríng og gánga skip ábúanda eftir hentugleikum, inntökuskip eingin. … Engjar eru öngvar. Landþröng hin mesta. Hagar nær því öngvir vetur og sumar.” JÁM III, 84-85.
1919: Tún 3 ha, kálgarðar 700 m2.

Framhald um upphaf og þróun byggðar í Garði

Garður

Garður.

Landslag og náttúrufar í Garði er svipað og víðast annars staðar á utanverðum Reykjanesskaga. Svæðið er flatlent og fremur gróðursnautt, þar er vindasamt og oft á tíðum töluverð úrkoma. Jarðvegur svæðisins er fremur þurr og sandur er við Skagatá. Uppblástur hefur sett mark sitt á gróðurfar allt frá 13. öld og gróðurþekja er víða þunn. Landbrot er mikið á Reykjanesi og landsig hérlendis er hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Sökum þessa er sjóvarnargarður meðfram allri strandlínunni innan verndarsvæðis. Meðfram ströndinni hefur verið byggð öldum saman og þar hefur líklega snemma myndast þéttbýli (a.m.k. á íslenskan mælikvarða) og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifarannsóknir og úr heimildum, s.s. upplýsingar um stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram kenningar um upphaf og þróun byggðar.

Útskálar

Útskálar – túnakort 1919.

Um tímasetningu landnáms í Garðinum er ekkert vitað með vissu. Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi numið Reykjanesskaga og Rosmhvalanesið allt og síðan gefið frænku sinni Rosmshvalanes fyrir utan Hvassahraun að gjöf. Engar sagnir fylgja um búsetu hennar. Hvar fyrstu bæir í Garðinum voru staðsettir er ekki vitað en sé horft á tilrækar upplýsingar er hægt að gera tilraun til þess, innan verndarsvæðis. Í ritheimildum eru Útskálar gjarnan taldir með elstu jörðum á svæðinu. Við fornleifarannsóknir á bæjarhól Útskála var farið niður á búsetulög frá 12. öld og ljóst að eldri mannvistarlög eru enn enn neðar en ekki hafi var grafið í þau.
Kirkju í Útskálum er fyrst getið í kirknaskrá Páls Jónssonar frá því um 1200 en ekki eru heimildir um aðrar kirkjur eða bænhús innan skráningarsvæðisins. Kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000. Einn kumlateigur hefur fundist í Gerðaheppi, í landi Hafurbjarnastaða sem er næsti bær sunnan við Útskála.

Garður

Garður – loftmynd 1957.

Ekkert kuml né sagnir um dysjar eða aðra legstaði er innan verndarsvæðisins. Ekki hafa varðveist mikið af ítarlegum heimildum um Útskála á miðöldum en jarðarinnar er þó getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Þar koma fram athyglisverðar upplýsingar sem varpa ljósi á sögu og nýtingu svæðisins. Í máldaga Útskálakirkju frá árinu 1270 segir: ‘Jtem eiga Útskaler vatnstöku j Kroksbrunn […] Krokur ok midhus eiga tveggia skipa uppsatur j Naustaholm. Jtem eiga Útskaler allar veidar sudur j lambarif…“. Samkvæmt þessu var útræði stundað frá Útskálum á 13. öld, líklega frá hjáleigunni Naustum sem fór í eyði undir lok 18. aldar vegna ágangs sjávar. Einnig vekur að athygli að minnst er á akurlöndin í máldaga frá árinu 1340: „umframm öll þau akurlond sem Biarni keypti til útskaala ok ein[n] karfa met atkierum ok ollum reida ok bäti.“ Þetta sýnir ennfremur að útræði var stundað á svæðinu.
Útskálar voru í bændaeign og kirkjan þar bændakirkja allt fram undir miðja 14. öld en þá komst helmingur jarðarinnnar í eigu Skálholtsstaðar. Um miðja 16. öld er jörðin öll komin í eigu Skálholts.
Vísbendingar eru um að fólki hafi fjölgað á svæðinu á þessum tíma m.a. vegna aukinnar sjósóknar enda voru sjávarafurðir mikilvægustu útflutningsafurðir á þessum tíma. Annar bær innan verndarsvæðis sem getið er í máldögum eru Lambastaðir og telst hann líklega önnur stærsta jörðin á eftir Útskálum, innan þess svæðis sem tekið var út 2019.

Garður

Garður frá Garðskaga.

Jarðarinnar fyrst er getið í Jarðaskiptabréfi árið 1563 og ólíkt Útkálum þá var hún konungseign og eitt af höfuðjörðum dönsku konungsútgerðarinar á 16.-18. öld á Reykjanesi.11 Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir um þá Lambastaði: „ Kvaðir eru mannslán um vertíð, item að meðtaka í vertíðarlok skipsbáta allan af kóngsskipi, sem þar gengur, hvort það er stærra eður smærra […] Enn nú að auk er sú kvöð að viðhalda kóngsskipsbúðinni, og alt þetta betalíngslaust (…) Heimræði er árið um kríng og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum, item gengur hjer eitt kóngssip venjulega um vertíð, oftast áttáringur, stundum stærra stundum smærra.“
Elsta ítarlega heimildin um Út-Garð er einmitt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum Útskála lýst og hjáleigur jarðarinnar taldar upp, en þær eru þá 10 talsins. Af lýsingunni fæst staðfest gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 2 kýr, 1 ungnaut og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður, fjörugrastekja og sölvafjara í betra lagi, selveiði til góðra hlunninda ef notuð væri, rekavon góð og en torfskurður sendinn, engjar engar, vatn sé tekið úr Króksbrunni og þess einnig getið að sjór brjóti af landið og sandur gangi þar yfir. Í jarðabókinni kemur einnig fram að á Lambastöðum séu þrjár hjáleigur en seinna var jörðinni skipt í tvö sjálfstæð býli og hjáleigan Hof varð þá lögbýli á hluta jarðarinnar. Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina við Útskála fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái mun lengra aftur og hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði og vaxandi fólksfjöldi.

Garður

Garður – gengið um gömlu byggðina.

Það er ljóst að innan minjasvæðisins var stunduð talsvert umfangsmikil sjósókn en umfang hennar hefur án efa ráðist að hluta af tíðarfari og öðrum utanaðkomandi ástæðum. Það ekki er t.d. vitað hversu mörg skip réru frá úttektarsvæðinu árið 1703, en það er ljóst að þaðan réru skip frá konungi, kirkjunni og bændum á svæðinu. Þegar Jarðabókin var rituð var ekkert útræði frá Útskálajörðinni sjálfri en bændur frá öllum hjáleigunum bar skylda að róa eða lána mann til kirkjunnar á Útskálum. Hjáleigurnar voru því að öllum líkindum fyrst og fremst byggðar vegna útræðis og skipsróðurs á vegum kirkjunnar, allt árið um kring. Konungsútgerð á Lambastöðum lagðist af á seinni hluta 18. aldar. Á 19. öld var bændaútgerð mikil á svæðinu en ekki er vitað hversu mörg skipin voru.

Garður

Garður.

Ljóst er að áhrif landbrots í Út-Garði hafa verið mikil um aldir, a.m.k. allt frá 17. öld og eflaust allt frá upphafi byggðar á svæðinu. Þegar jarðabókin er rituð í upphafi 18. aldar er þegar búið að flytja Lambastaði af elsta bæjarhólnum.
Á næstu 140 árum urðu miklar breytingar á svæðinu, jörðin Naust fór í eyði vegna sjógangs og tvær af hjáleigum Lambastaða hurfu í sjó. Við yfirferð loftmynda í þessari skráningu fundust ummerki um garðlag/túngarð á klöppum norðan Vatnagarða. Klappirnar eru undir sjó en ummerkin benda engu að síður til að þarna gæti verið fundinn hluti af túngarði bæjarins Nausts.
Túngarður Útskála var einnig færður tvisvar sökum landbrots, upp í túnið að norðanverðu. Landbrotið hélt áfram og þegar komið er fram undir lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. urðu enn og aftur breytingar á byggðinni við sjávarsíðuna. Þá voru bæirnir Hof og Lónshús báðir fluttir vegna ágangs en síðarnefndi bæinn hafði verið varinn með sjógarði fram að þeim tíma.

Samantekt um fornleifaskráningu og -rannsóknir innan verndarsvæðis

Garðaskagi

Garðsskagi – loftmynd 1957.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka saman helstu niðurstöður þeirra fornleifarannsókna sem höfðu verið gerðar innan úttektarsvæðis áður en skráning vegna verndarsvæðis hófst í mars 2019.
Einn friðlýstur minjastaður er innan svæðisins en það eru forn akurgerði, austan við Garðskagavita. Í Friðlýsingarskrá segir: „Útskálar. Akurlönd forn, á Garðskaga. Sbr. Árb. 1903: 35-36. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.“ Það er ljóst að þessi friðlýsing er almenn og skilgreinir ekki nákvæm mörk hins friðlýsta svæðis. Minjarnar eru merkar og því afar brýnt er að varðveita ummerki þeirra sem enn sjást. Akurgerðanna er fyrst getið í sóknarlýsingum Útskálaprestakalls árið 1839 og aftur tæpum 10 árum síðar í riti Magnúsar Grímssonar um svæðið. Brynjúlfur Jónsson fjallar um akrana í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902. Brynjúlfur getur þess að akurlöndin séu á skaganum fyrir norðan Útskála og segir votta fyrir a.m.k.: „18 akurreinum, 4—8 fðm. breiðum, sem eru aðgreindar með þráðbeinum, jafnhliða görðum, er norðast liggja yfir um þveran skagann, en þegar sunnar dregur, takmarkast þeir að vestanverðu af garði, sem þar liggur frá sjónum langsetis í suðaustur að litilli hæð eða tóftabungu, sem er skamt frá norðvesturhorni hinna norðustu túngarða í Útskálahverfinu, sem nú eru.“ Þessar akurreinar eru nú að mestu horfnar. Þó mótar óljóst fyrir þeim á tveimur stöðum sunnan við Byggðasafnið á Garðskaga og í afgirtu beitarhólfi þar austar, norðan býlisins Hólavalla.
Fornleifarannsókn var gerð á akurreinunum árið 1999, í landi Hólavalla. Þá voru grafnir tveir könnunarskurðir en engin gjóskulög fundust í þeim og ekki var hægt að aldursgreina minjarnar. Jafnframt fundust frjó af byggi en ekki var hægt að staðfesta að akuryrkja hafi farið fram á svæðinu, þótt það teldist líklegt. Í skráningu minja vegna verndarsvæðis 2019 var var flogið með dróna yfir svæðið og það ljósmyndað kerfisbundið.
Samhliða rannsókninni á akurreinunum 1999 var Skagagarður aldursgreindur og fyrri aldursgreiningar staðfestar. Niðurstöður rannsókna sýna að hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Skagagarður er því líklega hlaðinn á 10.-11. öld. Hann sést ekki innan fyrirhugaðs verndarsvæðis en heimildir geta þess að hann hafi náð allt að túngarði Útskála.

Garður

Garður – formannaleiði.

Talsverðar fornleifarannsóknir voru gerðar á Útskálum árið 2005 en þá var fyrirhugað að byggja safnaðarheimili norðan við bæinn og reista hótel til vesturs. Af þeim sökum var svæðið næst bænum deiliskráð og reyndust átta minjastaðir vera innan hans. Í kjölfarið var ráðist í uppgröft á bæjarhól Útskála, á 25 m2 svæði.
Rannsóknirnar voru gerðar árin 2005-2006 og leiddu í ljós umfangsmiklar mannvistarleifar í bæjarhólnum. Jafnframt reyndust varðveisluskilyrði vera einstaklega góð, bæði fyrir lífrænar leifar og málma. Elstu leifarnar sem grafnar voru upp reyndust vera frá því um miðja 12. öld en greinilegt var að enn eldri leifar voru neðar í hólnum þótt ekki hafi verið grafið niður á þær að þessu sinni.
Talsvert landsvæði frá Garðskagavita austur að Útskálum var deiliskráð árið 2007. Það svæði er lítið minna en fyrirhugaðverndarsvæði og voru samtals skráðar 144 minjar á því. Síðan skráningin var gerð hafa kröfur til deiliskráningar verið auknar og er nú m.a. nauðsynlegt að mæla upp alla sýnilega minjastaði.

Garður

Garður – Vatnagarðar.

Árið 2007 hafði Fornleifastofnun því samtals skráð 152 minjastaði innan þess svæðis sem hér er til skoðunar. Fornleifastofnun aðalskráði fornleifar í sveitarfélaginu Garði á árunum 2008-2010. Vatnagarðar eru eina jörðin sem koma við sögu úr þeirri skráningu, þar voru skráðar fimm minjar.
Við skráningu á fyrirhuguðu verndarsvæði 2019 voru skráðar um 120 minjar til viðbótar. Því eru samtals þekktar tæplega 280 minjar innan fyrirhugaðs verndarsvæðis. Kom þessi aukning minjastaða innan svæðis talsvert á óvart en nefna má ýmislegt sem skýrir hana. Í fyrsta lagi fundust talsvert margar fornleifar þegar svæðið var þaulgengið. Nokkrar þeirra voru á svæðum sem ekki höfðu verið rannsökuð svo ítarlega áður en aðrar voru án efa greinilegri en áður þar sem gróður var ekki kominn á skrið en minjar eiga það til að hverfa í gróður seinni hluta sumars. Í öðru lagi má nefna að sökum reglu um 100 ára aldur fornleifar bætast ungar minjar við sem fornleifar ár hvert og því nokkrir minjastaðir sem skráðir voru sem ekki höfðu talist til fornleifa þegar eldri skráning var gerð. Því hafði fornleifum fjölgað lítillega á þeim rúmu 10 árum sem liðin voru frá því síðasta deiliskráning var gerð. Að öllu jöfnu þarf minjastaður að hafa náð 100 ára aldri til að teljast til fornleifa og „nýjar“ fornleifar hafa því bæst í hópinn. Í þriðja lagi var verklag við skráninguna var nákvæmara en nokkru sinni áður, bæði vegna aukinna skilyrða um deiliskráningu og fyrirmæla Minjastofnunar Íslands um að þegar verndarsvæði í byggð séu skráð skuli taka með yngri minjar en ella.

Bæjarstæði og bústaðir

Garður

Garður – hús.

Þar sem bæir hafa staðið á sama stað um aldir, jafnvel allt frá landnámsöld myndast gjarnan reisulegir hólar, svokallaðir bæjarhólar. Slíkir bæjarhólar eru samsettir úr byggingarleifum og mannvistarlögum. Í þeim er geymd saga daglegs lífs kynslóð á kynslóð ofan og í þeim er gjarnan marga forngripi að finna. Bæjarhólar teljast því að jafnaði merkustu minjastaðir hverrar jarðar og er bæjarhóllinn á Útskálum þar engin undantekning líkt og fornleifarannsóknir sýna. Aðrir bæjarhólar á svæðinu láta minna fyrir sér fara þótt greina megi nokkra uppsöfnun á flestum bæjarstæðum. Þó er ljóst að fornleifa væri að vænta undir sverði hvar sem skófu yrði er stungið niður í þeim.
Gera má ráð fyrir að þéttbýlt hafi verið í Út-Garði um aldir og á nokkrum bæjum innan fyrirhugaðs verndarsvæðis var tví- og jafnvel þríbýli. Ekki er ljóst hvenær hjáleigu- og þurrabúðabyggð tekur að þéttast að ráði í Garði. Eins og áður segir eru 13 hjáleigur taldar upp á svæðinu í Jarðabók Árna og Páls árið 1703. Flestar þeirra eru orðnar að lögbýlum árið 1847 og sumar sennilega löngu fyrr. Auk þeirra 11 bæja á svæðinu sem voru lögbýli 1847 og voru skráð 29 önnur býli og bæjarstæði innan þess. Þessi tala er þó villandi, í einhverjum tilvikum er um tilfærslu á bæjum að ræða, sumar staðsetning sumra hjáleiganna eru týnd og aðrar eru án nafns og er vel mögulegt að sum þessara býla hafi verið á sömu slóðum og síðar byggjast upp aðrar hjáleigur með nýjum nöfnum.

Garður

Garður – Hof; bæjarhóll.

Árið 1703 voru tvær jarðir innan þess svæðis sem nú er til umfjöllunar, Útskálar og Lambastaðir. Þegar jarðabókin er rituð var þegar búið að færa Lambastaði vegna ágangs sjávar. Ekki er greint frá því í jarðabókinni hvenær bærinn var færður en elsti bæjahóll jarðarinnar er að öllum líkindum alveg horfinn í sjávarrof. Yngri bæjarhóllinn á Lambastöðum er fremst á sjávarbakkanum og sjóvarnargarður sér til þess að sjórinn brjóti ekki meira af honum en orðið er. Á bæjarhólnum er skúr og margvísleg ummerki um búsetu, m.a. bátaspil, húsgrunnar og hleðslur. Íbúðarhúsið á Lambastöðum er um 150 m sunnar og bærinn stendur því nú á sínum þriðja stað. Í Jarðabókinni er getið um þrjár hjáleigur Lambastaða. Lítið er vitað um tvær þeirra og þær komnar í sjó árið 1839. Önnur var þegar í eyði þegar Jarðabókin var rituð en ekki vegna ágangs sjávar. Líkur eru taldar á að Skagahóll sé býli en það þarfnast frekari rannsókna. Samkvæmt örnefnalýsingu er Hof helmingur Lambastaða en býlið var upphaflega hjáleiga og er þess getið sem slíks í jarðabókinni. Ekki er vitað hvenær hvenær býlið verður að lögbýli en hefur verið á tímabilinu 1704-1847 þar sem býlið er talið til lögbýla í jarðabók frá því ári. Í upphafi 20. aldar var bærinn á Hofi aftur fluttur vegna ágangs sjávar, á núverandi stað um 70 m sunnar. Gamli bæjarhóllinn sést enn fremst á sjávarbakka, á honum eru ummerki um þurrabúð sem var þar eftir að bærinn var flutttur í upphafi 20. aldar. Viðarbrú hylur nú þessar tóftir og göngustígur er ofan á sjóvarnargarðinum sem var gerður árið 2014.

Garður

Garður – loftmynd 1957.

Öll umerki um eldri bæjarhús og útihús á Útskálum eru horfin af yfirborði en bæjarhóllinn geymir upplýsingar um búsetu allt aftur á fyrstu aldir líkt og áður hefur verið minnst á. Á bæjarhólnum er íbúðarhús sem byggt var 1890 og nánar er fjallað um í Húsakönnun. Útihús stóð í norðvesturhorni bæjarhólsins en það var rifið fyrir um 10 árum. Í jarðabókinni 1703 er getið um 10 hjáleigur Útskála. Fjórar þeirra voru í eyði þegar jarðabókin var rituð og þær eiga það allar sameiginlegt að ekki er lengur vitað hvar þær voru. Tvö af býlunum voru kennd við þá ábúendur sem þar bjuggu hverju sinni en báðar fóru í eyði um 1700. Samkvæmt jarðabókinni má ætla að búseta hafi þar verið nokkuð samfelld fram að þeim tíma. Blómsturvellir/Snorrakot fór í eyði á sama tíma og nafnlausu býlin og voru grasnytjar þess lagðar til Vatnagarða. Ekki er vitað hvar býlið stóð en líklega var það nærri Vatnagörðum. Fjórða hjáleigan var Hesthús og var staðsetning hennar þegar ertýnd 1703. Nafnlaust býli var í byggð 1703 nærri Útskálabænum en ekki er vitað nákvæmlega hvar hún stóð. Í túni Útskála eru fimm rústahólar þar sem hugsanlegt mætti telja að hjáleigur hefðu verið og verður hér greint stuttlega frá þeim öllum. Fyrir suðvestan bæjarhól Útskála eru minjar og mótar þar fyrir bæjarhól og útflöttum tóftum. Þessar minjar urðu fyrir smávægilegu raski þegar húsgrunnur fyrirhugaðs hótels á Útskálum var steyptur. Minjar eru rétt austar, beint norðan við bæjarhól Útskála. Þar er allstórt og óreglulegt þústahrúgald, að hluta eru ójöfnurnar vegna jarðrasks. Könnunarskurður var gerður á þessum stað árið 2006 og þá komu í ljós byggingarleifar og gripir frá 18.- 20. öld. Rústahóll var um 100 m vestan við Útskála og var skráður árin 2005 og 2007. Minjanar voru fjarlægðar vegna framkvæmda við húsgrunn fyrirhugaðs hótels og voru ekki rannsakaðar sem verður að teljast alvarlegt mál fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Fyrir sunnan Útskála eru tveir rústahólar þar sem gætu hafa staðið býli. Vestari hóllinn er umfangsmeiri og á yfirborði hans mótar fyrir hólfum. Eystri hóllinn er skammt austar og örlítið lægri. Ekki mótar fyrir þar fyrir ummerkjum á yfirborði en ljóst er að mannvistarleifar leynast undir sverði. Býlið Naust fór í eyði árið 1782, en þar var áður þríbýli. Öll ummerki um býlið eru komin sjó líkt og áður var greint frá.

Garður

Garður – Lónshús.

Lónshús var hjáleiga Útskála en bærinn var fluttur um 1890 vegna ágangs sjávar. Húsið Hólmasteinn er líklega á hluta elsta bæjarhólsins að hluta, þ.e. ef eitthvað var eftir af honum. Yngra bæjarstæði Lónshúsa var skammt vestan við gamla bæjarstæðið. Þar er nú steinsteypt íbúðarhús byggt 1906. Engin ummerki um eldri byggingar sjást þar á yfirborði. Íbúðarhúsið, Akurhús II, eru byggð ofan í norðvesturhorn bæjarhóls Akurhúsa en engin ummerki um eldri bæ sjást á yfirborði. Á túnakorti frá 1919 er merkt lítið timburhús fast austan við gamla bæinn, en þarna er nú húsið Akurbrekka II. Þarna var líklega timburhús sem tók við af gamla torfbænum. Bæjarhóll Nýjabæjar er merkjanlegur en engar minjar eru þar á yfirborði. Hólnum var mikið raskað með byggingu sólpalls á síðustu árum og jarðvegi rutt til suðausturs. Íbúðarhúsið í Nýjabæ er reist fast norðan við bæjarhólinn árið 1911 og nánar er fjallað um það í Húsakönnun. Bæjarhóll Móakots sést enn, á honum eru ekki greinilegar minjar en hleðslur afmarka suðvestur- og norðausturbrúnina. Bílskúr er grafinn inn í hólinn til suðausturs. Bæjarhóll Presthúsa er fast norðaustan við núverandi íbúðarhús á bænum en ekki sjást minjar á yfirborði. Garðhús fóru í eyði á seinnihluta 20. aldar og öll hús hafa verið rifin. Bæjarhóllinn sést í sléttu túni og það mótar fyrir lágum hryggjum og dældum þar ef vel er að gáð. Vatnagarðar eru norðan við Útskálasíki, við sjávarkampinn. Bærinn fór í eyði eftir 1919, þar var tvíbýlt en bæði húsin hafa verið rifin og engin ummerki eru þar um bæjarhól.

Garður

Garður – Presthús.

Getið er um býlið Naustakot í örnefnalýsingu Útskála. Ekki er vitað hvenær það byggðist en þess er fyrst getið í manntali 1840. Þar er enn búið árið 1845 en bærinn fer líklega úr ábúð fljótlega eftir það. Mögulegt er að kotið byggist upp á sama stað og Naust var áður eftir að síðarnefnda býlið er fallið í eyði en ekkert er hægt að fullyrða um það og nákvæm staðsetning eða önnur ummerki um bæinn eru ekki þekkt. Nýlendu er fyrst getið í nýrri Jarðabók fyrir Ísland 1861 og að öllum líkindum fyrst byggð stuttu áður. Á seinnihluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20. öld þéttist byggð ennfrekar á svæðinu.
Flest nýju býlanna eru merkt inn á á túnakort frá 1919. Öll eru þau sunnan við eldri bæi, utan við gömlu heimatúnin. Þetta eru býlin Garðskagi, Hólavellir, Steinshús, Sjávargata, Sæból, Blómsturvellir, Hólavellir, Móhús, Hellukot, Fögruvellir og Steinhús. Nýr viti var einnig reistur árið 1944, innan túns Garðskaga. Þá voru íbúðarhúsið að Grund og Efra Hofi reist á fjórða áratug síðustu aldar og síðar hafa fleiri íbúðarhús verið byggð fast norðan Skagabrautar á milli Móakots og Móhúsa. Þessari þéttingu byggðar hefur fylgt talsvert rask á svæðinu.

Kálgarðar, gerði og garðlög

Garður

Garður – garðar og aðrar minjar.

Sá minjaflokkur sem setur hvað mestan svip á umhverfið í Garði eru ýmiskonar garðlög og er það jafnframt stærsti minjaflokkurinn. Stór hluti þeirra var merktur inn á túnakort frá 1919 en haldið var áfram að hlaða tún- og kálgarða í Garði fram eftir öldinni. Fjöldi garðlaga í Garði helgast sennilega fyrst og fremst af þéttri byggð, en ljóst er að þéttbýlt hefur verið þar um aldir. Garðlögin þjónuðu ýmsum hlutverkum. Sumir garðanna hafa verið hlaðnir um kálgarða eða túnskika sem tilheyrðu ákveðnum býlum, aðrir voru hlaðnir milli jarða og hafa þá væntanlega einnig þjónað hlutverki túngarða, einhver eru hlaðin undir girðingar og önnur gegna mörgum hlutverkum eða þá að hlutverk þeirra er óþekkt. Eftir því sem byggð þéttist á svæðinu hefur án efa orðið sí algengara að hlaða garða um túnskika eða litla bletti sem tilheyrðu hinum og þessum eigendum. Þannig hefur garðanetið orðið flóknara eftir því sem leið á 19. öldina. Sumum görðum hefur verið haldið við allt fram á þennan dag en erfitt er að ráða af yfirborðsummerkjum hvort þeir eru gamlir að stofni til eða hleðslur frá 20. öld. Af þeim sökum voru öll sýnleg garðlög á svæðinu skráð, jafnvel þótt sum gætu verið yngri en 100 ára. Það er þó rétt að hafa þann fyrirvara á að jafnvel þótt garðlag sé nýlegt að sjá getur það hafa verið endureist á fornum grunni. Á þetta bæði við um nýhleðslur og garðlög sem tilheyra sýnilega eldri byggingarskeiðum. Nokkrum vandkvæðum er bundið að skrá garðlögin, enda mynda þau flókið kerfi og eru sýnilega misgömul. Ekki er alltaf auðvelt að ákveða hvaða garðlög tilheyra sama mannvirki eða byggingarstigi og því er erfitt að birta tölulegar upplýsingar um garðlög líkt og aðra minjastaði, enda geta fleiri en eitt garðlag stundum verið skráð undir einu númeri.
Alls voru skráð 94 garðlög innan úttektarsvæðis og mynda þessi mannvirki heild sem nær yfir allt verndarsvæðið. Garðlögin gætu verið lykillinn að því að ráða í þróun byggðarinnar, sérstaklega ef hægt væri að aldursgreina þau. Stundum var hægt að setja fram tilgátur um í hvaða röð garðlögin voru reist út frá afstöðu þeirra í milli hér á eftir fylgir umfjöllun um mögulegan aldur garðlaganna sem byggð er á slíkum rannsóknum. Reynt var að greina hvaða garðlög væru „ráðandi“ á svæðinu og gætu þar af leiðandi verið elst. Þetta er sett fram með þeim fyrirvara að engir könnunarskurðir hafa verið gerðir ennþá og því hugmyndir um aldur byggðar á tilgátu en vonandi má í framtíðinni afla betri upplýsinga um aldur garðlaganna með skurðum.

Garður

Skagagarður er samofinn sögu Garðs og nafnið byggðarinnar líklega dregið af honum. Skagagarður er horfinn innan úttektarsvæðisins og en sést sunnan við Skagabraut. Heimildir geta þess að hann hafi legið til suðurs frá túngarði Útskála og er það ekki ólíklegt. Heimatún og þar með talið túngarður Útskála hefur tekið breytingum í gegnum tíðina, ekki síst með þéttingu byggðar til suðurs og landbroti til norðurs. En það eru fleiri garðlög á verndarsvæðinu, sem svipar til Skagagarðsins. Suðvestarlega á úttektarsvæðinu mótar fyrir fornu, signu garðlagi.
Fyrst má nefna garðlag sem suðvestast á svæðinu. Þessi garður var án efa umhvefis akurreiti til suðurs og áhugavert væri að aldursgreina hann til að kanna hvort hann sé samtíða Skagagarði. Á uppdrætti Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 er teiknað bogadregið garðlag sem liggur til austurs að rústahól og er líklega um sama garð að ræða. Garðlagið liggur áfram til austurs og hvefur við húsið Grund, vegna jarðrasks. Fyrir austan það hús sést garðurinn aftur en töluvert jarðrask er á því svæði og hann rennur saman við aðrar, yngri hleðslur. Afar líklegt er að garðurinn hafi náð að túngarði Lambastaða sé tekið mið af legu og gerð þessarra garðlaga. Öll þessi garðlög eru bogadregin og útflött. Annars eru bogadregnar línur sjaldséðar meðal unglegra garða á svæðinu en yfirleitt afmarka yngri garðlög kantaða reiti.
Ekki er ljóst hvaða garður er elstur á milli Lambastaða og Útskála, þar er m.a. heimatún Lónshúsa en þar mótar ekki fyrr fornum garði á yfirborði. Hugsanlegt er að garðlag sem varð veitt er í tveimur hlutum, sé hluti af eldri merkjagarði milli þessarra jarða. Túngarður sem virðist nokkuð forn er milli Prestshúsa og Útskála. Hann er ekki merktur inn á túnakort frá 1919 og er án efa löngu fallinn og horfinn úr notkun þá. Túngarðurinn er siginn og bogadreginn og með aðra stefnu en flest önnur garðlög á svæðinu. Hann afmarkaði heimatún Útskála til suðurs og líklegast er að hann sé sá túngarður sem Skagagarður lá að, ástand þeirra er svipað. Ef rétt er má segja að þetta sé talsverð uppgötvun og áhugavert væri að kanna aldur garðsins frekar með könnunarskurði. Túngarðurinn er vestan við núverandi heimreið að Útskálum og nær allt að Garðhúsum til austurs. Sá bær gæti verið byggður ofan á garðlagið.

Garður

Garður – Hellukot.

Óljóst framhald túngarðsins má greina austan Garðhúsa, í grónu túni og býlið Hellukot virðist reist ofan á þessum hluta garðsins. Austan Hellukots eru sigin garðlög utan verndarsvæðis í beinu framhaldi og ljóst að í neti garðlaga á þessum slóðum liggur fólginn mikill fróðleikur og sögu og byggðaþróun Út-Garðs. Túngarður afmarkar austurhlið verndarsvæðis og var landamerki milli Útskála og Miðhúsa. Þar sést nú grjóthlaðinn túngarður með vírgirðingu og ljóst að honum hefur verið haldið við síðustu áratugi en garðurinn er mögulega forn í grunninn. Innan heimatúns Útskála mótar fyrir signu garðlagi, milli kirkjugarðsins og Útskálasíkis. Annað garðlag sést sunnan við meint býli og með góðum vilja má segja að mögulega hafi þeir afmakað tún þeirra býla. Túngarður liggur yfir hluta þessara minja og greinilega yngri.
Túngarður Lambastaða/Hofs er varðveittur í heild sinni nema til norðurs, þar er hann kominn í sjó og hlaðinn varnargarður ver ströndina. Ástand túngarðsins er misjafnt, við sjóinn sést vel hlaðið fjörugrjót en í túnum myndar það gróna hryggi. Sunnan við heimatúnin sést móta fyrir enn öðrum garði, signum og útflöttum. Ástand hans er bágborið og hann skráður í fjórum hlutum. Garðurinn er á því svæði þar sem byggðin þéttist mikið í lok 19. aldar og hefur hann horfið á köflum vegna bygginga og annarra yngri mannvirkja á svæðinu. Garðbútarnir eru hins vegar allir umfagsmiklir og sambærilegir elstu garðlögum á verndarsvæðinu. Garðlagið gæti hafa afmarkað akurlönd eða heimatún syðstu hjáleigna líkt og Presthúsa og Móhúsa að hluta. Þessir túngarðar eru umfangsmiklir, fornlegir og skipulag byggðarinnar fylgir þeim.
Næsta stig garðahleðslu sem fjallað er um hér eru garðar sem flestir eru taldir frá seinni hluta 19. eða 20. aldar þótt ekkert sé hægt um það að fullyrða. Flestir garðanna eru merktir inn á túnakort frá 1919 og er ástand þeirra oftast ágætt. Það er áhugavert að flest garðlaganna eru innan heimatúnanna, nærri eldri lögbýlum og þeim garðlögum sem hér hafa verið túlkuð sem elst. Garðlögin eru flest bein, algróin og afmaka kálgarða eða voru túngarðar. Af þeim eru garðlög einna umfangsmest.

Garður

Garður – ofan við Helgustaðavör.

Yngstu garðlögin sem skráð voru í verndarsvæðisskráningunni voru ýmis garðlög frá 20. öld og eru í flestum tilvikum kálgarðar eða undirhleðslur af girðingum. Kál- og kartöflurækt virðist hafa blómstrað í Garði á 20. öld ef marka má fjölda kálgarða sem sýndir eru á túnakortum frá 1919. Sennilega hefur ræktunin þá verið tiltölulega nýtilkomin, enda talið að jarðrækt hafi fyrst færst í aukana á 19. öld eftir viðvarandi uppblástur á svæðinu allt frá 13. öld og fram á þá 19. Þegar sóknarlýsing Útskálaprestakalls var rituð árið 1839 var sóknarpresturinn í það minnsta ekki upprifinn yfir kálrækt samsveitunga sinna: „Kálgarðarækt er á sumum stöðum vel stunduð, en víða líka miklu verr en vera ber.“ Flestir voru kálgarðarnir sunnan við heimatún og umhverfis bæi sem byggðust upp á svæðinu. Með því að skoða þá sést vel hvernig umfang jarðræktar á svæðinu hefur vaxið og færst suður fyrir gömlu heimatúnin, með undantekningum. Sumir þessara kálgaða eru enn í notkun og ummerkin eru misgreinileg og umfangsmikil eins og gefur að skilja. Ekki er alltaf um stæðilegar hleðslur að ræða, sumir þeirra eru plægðir niður og kantur mótar þá.
Landamerki og ummerki þeirra eru ekki mörg innan skráningarsvæðisins. Eins og áður sagði eru núverandi túngarðar í mörgum tilvikum einnig landamerki milli jarða en einnig er getið um áletranir klappaða í steina sem allir eru hofnir. Ekki er ljóst af hverju en líklega eru þeir nú komnir í sjó.

Önnur hús í hverfinu

Garður

Garður -minjar.

Það er ljóst að talsvert af þeim minjum sem setja hvað sterkast svip á Út-Garð eru frá 19.-20. öld. Þar vega þyngst útihústóftir ásamt kál- og túngörðum sem áður var fjallað um. Við skráningu verndarsvæðisins var skráð 61 útihús og er það um fjórðungur allra skráðra minja þar. Lítið er varðveitt af minjum um skepnuhald á skráningarsvæðinu annað en garðlög þau sem áður er getið sem hafa sjálfsagt mörg verið aðhöld eða vörslugarðar. Þær útihúsatóftir sem eru varðveittar vitna ekki um umfangsmikinn skepnubúskap, enda virðist hann nánast hafa verið aukabúgrein á þessu svæði en sjósóknin í aðalhlutverki. Þegar Jarðabók Árna og Páls var tekin saman 1703 var stærsta búið á Lambastöðum en þar voru 5 kýr, 11 ær, 6 sauðir, 6 lömb og 4 hross. Á Útskálum voru 5 kýr, 1 kvíga, 3 kálfar, 7 ær, 2 lömb og 5 hestar. Önnur bú voru mun minni. Árið 1837 voru aðeins 130 ær í Útskálaprestakalli en heldur fleiri brúkunarfær hross eða 142 og 133 kýr.

Garður

Lambastaðarétt (Helgarétt).

Ekki var vitað um nákvæmt hlutverk flestra af þeim útihúsum sem skráð voru á svæðinu. Af 61 slíku húsi er aðeins vitað um nákvæmt hlutverk sex húsa, eða 10% þeirra, og sýnir það hversu mikill fróðleikur um þennan hluta sögu Garðsins hefur glatast á undanförnum áratugum. Upplýsingar um húsin eru allar fengnar af túnakortum frá 1919 og í einhverjum tilvikum af skipulagsuppdrætti frá 1954. Tæplega helmingur húsanna er horfinn af yfirborði eða 27 hús. Hluti af þessum húsum voru þrær en ein eða fleiri slíkar voru á hverri jörð. Í þær var safnað saman öllum úrgangi sem féll til á bæjum og borið á túnin á vorin Af þeim húsum sem nákvæmt hlutverk er þekkt er ein fjárrétt, Lamastaðafjárrétt/Helgarétt sem var við sjávarkampinn. Réttin er gjóthlaðin úr fjörugrjóti en norðurhlið hennar er röskuð. Réttin var gjarnan talin gömul skilarétt fyrir hreppinn og syðri hluti hennar er vel varðveittur. Fjárskýli er sunnan við sjávarkampinn og norðurhluti hennar gengur undir malbikaðan göngustíg. Tóftin er sigin og ekki ólíklegt að norðurhlutanum hafi verið raskað vegna sjógangs. Ummerki um tvö gömul fjós eru varðveitt innan verndarsvæðis.
Þúst er á svokölluðum Fjósaflötum í heimatúni Útskála en ekki er hægt að greina neitt lag á henni, örnefnið gefur þó helst til kynna að þetta hafi verið fjós. Í landi Hofs er fjós sem var byggt eftir 1930. Tóftin sést enn, og í henni mótar fyrir grjóthlöðnum veggjum. Ritaðar heimildir geta einungis um einn hjall innan verndarsvæðis en á túnakorti Vatnagarða frá 1919 er skrifað ‘3 timburskýli fyrir fisk.“ Þau eru horfin, en á sömu slóðum er nú göngustígur. Á túnakort Akruhúsa eru sýnd þrjú sambyggð hús og skifað við þau „malir“. Þessi mannvirki eru öll horfin.
Innan heimatúnanna voru skráðar 19 þústir, í öllum tilvikum var talið augljóst að mannvistarlög leyndust þar undir sverði. Í mörgum tilvikum er líklega um útihús eða minjar tengdar sjósókn að ræða en nánari upplýsingar um hlutverk þeirra og aldur má aðeins fá með fornleifauppgreftri.

Minjar um sjósókn

Garður

Garður – vör.

Þrátt fyrir að ljóst sé að íbúar í Útskálasókn hafi ætíð stundað sjósókn samhliða búskap eru ekki hlutfallslega margar sýnilegar minjar um sjósókn innan verndarsvæðis. Slíkar minjar eru samtals 15 talsins. Ástæður þessarar fæðar eru að öllum líkindum tvær. Í fyrsta lagi gætu flestar minjar um sjósókn hafa horfið vegna landbrots og tíðra framkvæmda við sjávarsíðuna á 20. öld. Þetta á við um naust, fiskreiti, sundmerki o.fl. Í öðru lagi er ekki alltaf augljóst að mannvistarleifar hafi tengst sjósókn ef ekki eru til heimildir um notkun þeirra.
Best varðveittu minjar um sjósókn á verndarsvæðinu eru ruddar varir eða lendingar. Innan skráningarsvæðisins eru þrjár slíkar varðveittar og hafa verið merktar með skiltum á undanförnum árum af Guðmundi Garðarssyni og Vilhelm Guðmundssyni. Augsýnilega hefur mikil vinna verið lögð í að halda vörunum þokkalegum, enda líf manna komið undir því að hægt væri að ná landi líkt og kemur fram tillögu að verndarsvæði í byggð. Þetta eru Akurhúsavör, Miðvör og Lónið. Tvær aðrar lendingar eru innan skráningarsvæðis, Lambastaðavör og Króksvör en öll ummerki um þær eru horfnar. Á Lambastöðum voru umsvif konungsútgerðarinnar mikil á 16.-18. öld en lítil sem engin ummerki um hana varðveitt nema sjálf Lambastaðavör. Það er ljóst að þennan hluta atvinnu- og byggðasögu svæðisins þarf að rannsaka mun betur. Líklega er útgerðarsvæði Lambastaða komið í sjó, á 18. öld er búið að flytja bæinn vegna sjógangs. Í máldaga Útskála frá 14. öld sést að lendingar og uppsátur voru einnig við býlið Naust en það svæði er komið í sjó og engar upplýsingar aðar en ritaðar heimildir varðveittar um þá jörð og minjar þar.
Fjögur uppsátur eru merkt inn á Túnakort frá 1919 og Skipulagsuppdrætti frá 1954. Uppsátur er sunnan við Króksvör, suðurhlið þess er hlaðin og tvö bátaspil sjást þar enn. Þarna voru bátar úr Króksvör teknir á land. Í landi Lambastaða er uppsátur, þar sér enn móta fyrir grónum kanti, sunnan við Lambastaðavör. Bátaspil er sýnt á túnakorti nærri Lónshúsum en ummerki þess eru horfin undir byggingu. Hið sama má segja um uppsátur við Lónshúsavör sem komið er undir malbikað plan. Fiskimalir eru sýndar á túnakorti frá 1919 við Lambastaði en þess sjást ekki merki á yfirborði.
Einungis tvær þurrabúð eru þekktar á skráningarsvæðinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar er minnst á konungsbúð á Lambastaðastöðum en ekki er vitað hvar hún var. Þurrabúð var gerð í bæjarhúsum Hofs um 1906 í kjölfar þess að bærinn var fluttur. Tóft þurrabúðarinnar er nú undir trébrú á göngustíg sem liggur meðfram sjávarsíðunni og ljóst að miklar brreytingar hafa orðið á eldri bæjarhól Hofs á síðustu 10 árum eða svo.

Samgönguminjar

Garður

Garðskagaviti.

Á skráningarsvæðinu eru 20 minjastaðir sem tengjast samgöngum, en stór hluti þeirra er horfinn vegna jarðræktar. Allt eru þetta leiðir sem flokka mætti sem styttri leiðir innan landareignar auk minjastaða sem tengjast samgöngum á sjó.
Garðskagaviti er reistur 1897 en nýrri viti var reistur árið 1944. Báðir vitarnir standa enn og eru orðnir eitt helsta kennileiti Garðs. Þrjú siglingamerki eru innan skráningarsvæðis, á þeim öllum eru nú grjóthrúgur og rekaviðartré. Merkin eru fallin úr notkun en það væri áhugavert í ljósi sögu svæðisins að halda þeim við.
Aðeins einar reiðgötur voru skráðar innan úttektarsvæðis. Þær lágu sjávarmegin við Akurhús, á svæði sem kallaðist Sandaflatir. Þar mátti greina allt að 13 troðninga innan heimatúns sem bendir til þess að leiðin hafi verið fjölfarin en ekki er vitað hvert leiðin lá.
Á túnakortum frá 1919 eru teiknaðar traðir að sjö bæjum á svæðinu en hvergi sjást ummerki um þær lengur. Traðirnar lágu flestar til suðurs frá bæjunum en ekki í átt til sjávar, litlar sem engar heimildir hafa varðveist um sjávargötur. Í upphafi 20. aldar er því greinilegt að þungamiðjan í samgönguneti Út-Garðs hefur verið sunnan við heimatúnin, eftir vegi þar sem Skagabraut liggur enn. Ekki er ljóst hvort að svo hafi alltaf verið en heimildin um reiðgöturnar gefur til kynna að mikilvæg leið hafi áður verið norðar, nær sjó. Malarvegur er yfir tröðum að Hofi. Þær voru um 20 m breiðar og enduðu beint vestan við yngra bæjarstæðið.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti nýrri.

Traðir lágu til norðurs frá vegi (núverandi Skagabraut) inn á gróið svæði milli býlanna Fögruvalla og Sjávargötu. Á sama stað er nú vegslóði að Steinshúsi sem byggt var eftir 1920. Traðir lágu til suðurs frá Lambastöðum en á svipuðum slóðum er nú gróin lág í túni. Traðir lágu til suðurs frá Fögruvöllum, í gegnum kálgarða. Á þessu svæði eru nú gróin tún og engin ummerki traðanna merkjanleg. Frá Móhúsum lágu traðir að fyrrnefndum vegi sunnan við túnin en öll ummerki þeirra eru horfin í tún. Hið sama má segja um traðir sem lágu til suðurs frá Nýjabæ, þær eru komnar í tún og lítil sem engin ummerki þeirra sjást lengur. Traðir lágu til norðurs frá Nýlendu að kálgörðum sem þar voru. Á Útskálum voru tvennar traðir, aðrar lágu til suðurs frá bænum að fyrrnefndum vegi og traðir til norðausturs að Naustahliði. Yfir þeim báðum eru akvegir í dag. Þetta eru einu „gömlu traðirnar“ sem liggja til norðurs innan skráningarsvæðisins.
Ýmsar aðrar götur eru teiknaðar inn á túnakort frá 1919. Götur eru einnig sýndar á túnakortum. Í landi Lónshúsa lágu götur til suðvesturs frá Lónshúsum að hliði sem þar var á túngarðinum. Göturnar sjást ekki lengur. Leið er einnig merkt á túnakortið og lá til suðurs frá fiskimölum og lendingnum sem þar eru. Líkt og aðrar götur innan svæðis er hún horfin. Steypt stétt er sýnd á túnakorti frá 1919 frá Garðskaga að Garðskagavita, þar er enn vegur. Leið var fast vestan við Fögruvelli og lá inn á gróið svæði milli kálgarða Fögruvalla og kálgarða Hofs. Á sama stað er nú malarvegur að Efra-Hofi. Leið lá til suðurs fá Móakoti en þar er nú malarvegur að bænum.

Brunnar

Garður

Presthús – brunnur.

Áberandi minjaflokkur á svæðinu eru brunnar en aðgangur að fersku vatn var víða erfiður á Reykjanesi. Allt vatn í Út-Garði var sótt í brunna en einnig var vatni safnað í þrær eða kör við hús. Sumir brunnanna sem voru skráðir voru aldagamlir meðan aðrir eru gerðir á 20. öld. Alls voru skráðir 11 brunnar á svæðinu en enginn þeirra er enn í notkun. Brunnur var gerður á fyrrihluta 20. aldar og vatn leitt úr honum inn Nýjabæ. Þar sést nú einungis dæld á yfirborði. Brunnur sem var gerður árið 1929 við Nýlendu er horfinn en óljós ummerki þústar sem líklega eru leifar af brunn fundust í landi Akurhúsa. Á skipulagsuppdrætti frá 1954 er merktur brunnur í landi Garðhúsa en engin ummerki hans sjást nú í grónu túni. Hið sama má segja um brunn sem er merktur á túnakort frá 1919 vestan við Sæból, en hann er horfinn undir malarveg. Lónshúsabrunnur sést vel og er merktur með litlu skilti. Hliðar hans eru steyptar og plata er yfir opi hans. Hið sama má segja um brunn í Prestshúsum, steyptur kassi er umhverfis hann og járnhleri yfir. Ártalið 1938 er teiknað í steypuna en brunnurinn er í grunninn eldri, hann er sýndur á túnakorti frá 1919. Tveir brunnar eru í Vatnagörðum. Þar var tvíbýli og eru brunnarnir frá sitt hvorum bænum. Báðir eru þeir fullir af grjóti. Brunnur var sunnan við kirkjugarðinn á Útskálum, þar er gróin dæld sem ber honum vitni. Brunnur var í landi Hofs og þar er nú hólbunga yfir.
Margvíslegar annars konar minjar voru skráðar við úttekt á verndarsvæðinu og vísast að mestu til fornleifaskráningar um einstaka minjastaði þar sem sjaldan eru margir hverri gerð. Í lokinn er vert að minnast á tvo minjastaði sem láta lítið yfir sér en gætu engu að síður verið mjög merkir. Við skráningu vegna verndarsvæðis fundust tveir öskuhaugar, annar í Vatnagörðum en hinn í Miðhúsum. Ummerki um báða öskuhaugana fundust í rofi sem myndast hafði vegna ágangs hrossa. Öskuhaugur er norðan við nyrðri bæinn í Vatnagörðum. Þar er hólbunga innan við túngarðinn og mikill sandur í jarðvegi. Þar er rof í gróðurþekju og um 0,1-0,2 m þykkt lag af fiskibeinum blasir þar við. Ekki var hægt að greina ösku eða brennd bein þar. Öskuhaugur fannst norðan í svokölluðum Miðhúsahól, þeim hluta sem er innan verndarsvæðis. Hóllinn skagar til norðurs að Útskálasíki og þar er í rofi mikið af ösku og brenndum beinum. Bæjarhóll Miðhúsa er fast austan við verndarsvæðið og hefur öskuhaugurinn tilheyrt þeim bæ.

Samantekt 

Garður

Hinir eiginlegu „úthagar“ voru ekki skráðir og þar af leiðandi ekki minjar af því tagi sem helst finnast á slíkum svæðum, s.s. sel, stekkir, beitarhús, o.s.frv.. Útskálahjáleigurnar, Lambastaðir og Hof eru merktar inn á túnakort frá upphafi 20. aldar ásamt kálgörðum og öðrum mannvirkjum sem þeim fylgdu. Túnakortin eru bestu tiltæku heimildirnar sem völ er til að veita innsýn inn í menningarlandslag svæðisins í upphafi 20. aldar, fyrir tíma stórvirkra vinnuvéla þrátt fyrir að byggðin hafi strax á þessum tíma verið farin að þenjast út. Þrátt fyrir að mikið jarðrask hafi verið á svæðinu undanfarna áratugi er með ólíkindum hversu vel hversu góða og nákvæma mynd túnakortin gefa af mannvirkjum og þá um leið hversu mikið af minjum er enn varðveitt. Minjarnar spanna að líkindum allt tímabil búsetu á svæðinu, allt frá landnámi og fram eftir 20. öld (en hluti minja sem skráður teljast ekki til fornleifa samkvæmt skilningi laganna).
Innan skráningarsvæðisins eru samtals þekktar 27 minjar og af þeim voru 110 staðir nýskráðir vorið 2019 en 157 staðir höfðu áður verið skráðir en voru nú mældir upp og skráningin endurskoðuð. Ástand minja á skráningarsvæðinu er sem fyrr segir gott, einkum í ljósi þess hversu þéttbýlt það er en aðeins um þriðjungur þekktra minjastaða reyndist alveg horfin. Á öðrum stöðum sáust einhver ummerki um minjastaði, þótt þau væru stundum brotakennd.

Garðskagi

Garðsskagi – loftmynd 1954.

Mikið rask hefur átt sér stað innan svæðisins á síðari árum samfara þéttingu byggðar s.s. við húsbyggingar og jarðrækt. Minjar hafa oftast horfið vegna niðurrifs og sléttunar eða vegna þess að ný mannvirki hafa verið byggð í stað þeirra gömlu. Minjar við ströndina hafa einnig horfið og skemmst vegna ágangs sjávar. Með gerð sjóvarnargarðs var að mestu komið í veg fyrir frekara landbrot á norðanverðu svæðinu.
Hættumat var gert fyrir allar fornleifar innan fyrirhugaðs verndarsvæðis. Ákveðið var að meta það sem svo að uppistandandi hús teldust ekki í hættu. Aðrar minjar töldust allar vera í almennri hættu vegna ábúðar en slíkt er vinnuregla með minjar í nágrenni jarða og innan þéttbýlis. Ekki eru fyrirhugaðar framkvæmdir innan verndarsvæðisins svo vitað sé en í þéttbýli og á athafnasvæðum er slík hætta ævinlega til staðar. Þó að fornminjar sjáist ekki á yfirborði er oftar en ekki hægt að finna leifar þeirra undir sverði og því kunna minjar að teljast í hættu þó að þær séu ekki lengur sýnilegar.

Garður

Garður – loftmynd 1954.

Í raun má kalla byggðina í Út-Garði „dreift þéttbýli“. Meginreglan um dreifingu minjastaða er sú að flestir þeirra eru í og við heimatún en þeim fækkar hlutfallslega eftir því sem fjær dregur bæ. Innan túns eru líkur á að mannvistarleifar leynist undir sverði einnig mun meiri en annars staðar. Því má gera ráð fyrir að til viðbótar við þær tæplega 280 fornleifar sem þekktar eru innan verndarsvæðis leynist áður óþekktar mannvistarleifar víða þar sem allt úttektarsvæðið er í raun innan heimatúna. Til að koma í veg fyrir að minjum verði spillt eða leggja þurfi út í mikinn kostnað við að bjarga fornleifum sem er ógnað er gjarnan mælt með að forðast allar umfangsmiklar framkvæmdir í heimatúnum gamalla jarða og er það ítrekað hér. Framkvæmdir nærri bæjarhól Útskála eru gott dæmi. Þar viku minjar sem voru skráðar árið 2005 án nokkurra rannsókna vegna byggingar sem aldrei var reist.
Akurlönd eru eini friðlýsti minjastaðurinn innan svæðisins. Minjunum hefur engu að síður verið raskað á síðustu áratugum svo vart sér til þeirra lengur nema á litlu svæði norðan við Hólavöll. Hins vegar sjást fleiri ummerki um akurreiti á yfirborðslíkani sem gert var í þessari skráningu og á því má greina akurreinar til austurs allt að Hofi. Það gefur til kynna að ummerki um akrana séu enn varðveitt undir yfirborði þótt þau séu orðin illgreinanleg á yfirborði. Þetta þarfnast frekari rannsókna en ef rétt reynist gæti friðlýsingin Akurlanda náð til þessa svæðis og það haft áhrif á nýtingu þess.

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Nokkrar fornleifarannsóknir hafa verið gerðar innan verndarsvæðisins á síðustu árum og hafa þær staðfest að búsetu á Útskálum fyrir 12. öld. Skagagarðurinn hefur einnig verið aldurgreindur og er frá 10. – 11. öld. Sá hluti Skagagarðsins sem liggur innan skráningarsvæðis sést ekki á yfirborði en líklega eru leifar hans merkjanlegar undir sverði og enn sér móta fyrir honum sunnan Skagabrautar. Við þessa skráningu fundust nokkur sambærileg garðlög sem kunna að hafa markað suðurhlið heimatúna á svæðinu og gætu þannig hafa gegnt svipuðu hlutverki og Skagagarðurinn. Brynjúlfur Jónsson teiknaði líklega hluta þeirra inn á uppdráttinn frá árinu 1902. Ljóst er að það gæti orðið mjög áhugavert rannsóknarefni að kanna þetta forna net garðlaga, aldur þeirra og innbirgðis tengsl.
Minjarnar sem skráðar voru innan verndarsvæðis hafa mismunandi hlutverk en eiga það sammerkt að endurspegla eðli og nýtingu svæðisins. Algengustu minjarnar sem skráðar voru reyndust ýmiskonar hús. Þar vógu þyngst íveruhús af margvíslegum gerðum þ.e. bústaðir og býli enda lengi verið þéttbýlt á svæðinu en nokkur fjöldi útihúsa var einnig skráður. Talsverður fjöldi kálgarða var einnig skráður og sömuleiðis garðlög sem byggð voru í annars konar tilgangi. Einnig er ljóst að ummerki um akurlöndin sjást sunnan Skagabrautar en ekki var farið í kortlagningu þeirra í þessari skráningu, t.d. túngarðar, garðar sem reistir voru til að marka eignarrétt á minni jarðskikum og landamerki jarða. Túngarðarnir eru eflaust margir að stofni til fornir en kálgarðarnir frá síðari öldum. Kvikfjárrækt og garðrækt hefur verið talsverð á svæðinu og ber fjöldi garðlaga, túngarða og kálgarða þess vitni.

Garður

Garður – sjóspil við Helgustaði.

Sjávarútvegur hefur frá fornu fari verið aðalatvinnuvegur Garðverja en vægi hans endurspeglaðist ekki nema að litlu leyti í þeim minjum sem skráðar voru. Aðeins ein þurrabúð er varðveitt á svæðinu, á gamla bæjarhól Hofs. Á Lambastöðum voru mikil umsvið konungsútgerðar á 16.-18. öld en engin ummerki um hana eru varðveitt. Heimildir eru um fimm lendingar á svæðinu en tvær þeirra eru horfnar. Skráningin bendir til að mikið af minjum tengdum fiskveiðum hafi horfið í sjó á undanförnum áratugum og öldum.
Fornleifaskráning í þéttbýli verður, eðli málsins samkvæmt, nokkuð frábrugðin þeirri skráningu sem gerð er á bújörðum í dreifbýli. Þrátt fyrir að búið sé að safna mjög miklum fróðleik um minjar í Út-Garði má minna á að áður óþekktar mannvistarleifar geta enn komið í ljós við umrót.
Skráning minja í þéttbýli er mikilvæg til að skilja hvernig menningarlandslag hefur breyst og þróast í tímans rás. Fátt vegur þyngra þegar leggja á mat á ásýnd og verndargildi byggðar. Þá skiptir máli að átta sig á uppruna og einkennum sögulegrar byggðar til að meta á hvaða rótum byggingararfur á svæðinu hvílir. Þrátt fyrir að ásýnd byggðar og byggingararfur hafi tekið talsverðum breytingum á á liðinni öld hefur svæðið samt sem áður haldið mörgum af sínum helstu sérkennum. Þar er t.d. enn að finna mikið af garðlögum setja svip sinn á svæðið og höfðu ráðandi áhrif á skipulag svæðisins allt fram á 20. öld. Vel mætti nota hugmyndir um verndarsvæði í byggð til að draga fram mikilvægi garðlaga á svæðinu, bæði landamerkjagarða, túngarða og akurgarða enda endurspeglast það í sjálfu nafni svæðisins. Ljóst er að megindrættir í búsetuþróun Út-Garðs voru dregnir snemma en að umfang byggðarinnar hafi aukist mjög mikið allt frá síðari hluta 19. aldar. Af túnakortum frá 1919 sem til eru af svæðinu má þó sjá að þar hafa þegar verið dregnir margir af helstu dráttum búsetulandslagsins þótt byggðin hafi vissulega þéttst mikið síðan kortið var gert. Á túnakortum eru jafnframt sýndar leiðir og hluti af þeim er í raun grunnur vegakerfis sem enn er notað. Á verndarsvæðinu má enn má sjá margvísleg merki um eldri byggð á svæðinu og verði tillagan að verndarsvæði í byggð samþykkt munþað vonandi stuðla enn betur en áður að varðveislu þess menningarlandslags sem þar er að finna Ljóst er að minjar innan verndarsvæðisins eru merkar og í þeim er fólginn áhugaverður vitnisburður um sögu jarðarinnar og byggðarlagsins alls. Allra markverðustu minjarnar teljast líklega, auk sjálfra bæjarhólanna, vera akurreitir og fornir garðar sem geyma áhugaverða sögu sem ekki hefur verið sögð nema að hluta. Markverðar minjar er að finna um allt svæðið í formi tófta og húsagrunna, útihúsa og garða og annarra minja sem bera vitni um daglegt líf í Út-Garði um aldir.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Garði á Reykjanesi: Verndarsvæði í byggð, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2019.

Garður

Garður – bæir.

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með StóraReykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka. Áfram í suður um StóraMeitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.
Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.
Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert. Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844. Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum. Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.
Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.
Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.
Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.
Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.
Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar. Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar. Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Hernám

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson fjallaði um „Erlend nöfn á Innnesjum – Arfur seinni heimsstyrjaldar í örnefnum á höfuðborgarsvæðinu“, auk þess sem ýmsir hafa tekið saman og fjallað um um hernámið hér á landi. Hér verður augunum aðallega beint að höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.

Hernámið

Hernám

Forsíða Morgunblaðsins 11. maí 1940.

Aðfaranótt föstudagsins 10. maí árið 1940 hernámu Bretar Ísland. Fyrirboði hernámsins var flugvél sem flaug frekar lágt yfir borgina og vakti nokkra borgarbúa. Sumir óttuðust það versta og héldu að Þjóðverja væru að gera innrás. Fjögur herskip lögðust að bryggju í Reykjavík og stuttu síðar var bærinn fullur af hermönnum. Engin mótspyrna var veitt og ekki var hleypt af skoti. Ísland var hernumið af því að það var talið hafa hernaðarlegt mikilvægi. Bretar lofuðu að skipta sér ekki af stjórn landsins en stóðu ekki við loforðið því fyrsta verk þeirra var að handtaka Þjóðverja sem voru á Íslandi og senda þá í fangabúðir í Bretlandi. Bretar lögðu undir sig nokkrar byggingar í Reykjavik, meðal annars Hótel Borg sem þeir gerðu að aðalstöðvum sínum. Þann 28.maí ákvað Franklin D. Roosevelt , forseti Bandaríkjanna, að Bandaríkin skyldu taka við hervörslu Íslands. Þann 7. júlí 1941 hófu Bandaríkjamenn að landa herliði og fluttu hingað samtals 45.000 hermenn. Bretar fóru samt ekki allir fyrr enn eftir stríðslok. Talið er að um 25 þúsund breskir hermenn hafi verið á landinu þegar mest var árið 1941 og höfðu þeir flestir búsetu í Reykjavík og nágrenni. Með komu hersins breyttist bæjarlífið til muna og stóðu bretar líka í mörgum framkvæmdum, meðal annars lögðu þeir flugvöll í Vatnsmýrinni, lögðu vegi og reistu braggahverfi alveg upp frá grunni. Fjölmargir Íslendingar fengu vinnu við þetta sem var ekki slæmt þar sem atvinnuleysi hafði ríkt um tíma í landinu. Við komu svona margra “nýrra íbúa” hafði lögreglan í borginni nóg að gera, skemmtanalífið jókst til muna og kom þá til árekstra milli hermanna og landsmanna.

Frá upphafi hernámsins var starfsemi Ríkisútvarpsins undir miklu eftirliti, allar fréttir og auglýsingar voru ritskoðaðar svo það væri ekkert sem Þjóðverjar gætu notað sér til hagnaðs. Íslendingar gátu einnig hlustað á útsendingar erlendra útvarpsstöðva, BBC hóf útsendingar á íslensku 1. desember 1940 en einnig Þjóðverjar, þeir hófu útsendingu á íslensku á stuttbylgju þann 17. júní 1941 og sendi út daglega í 15 mínútur senn. Með þessari útsendingu vildu Þjóðverjar upplýsa íslensku þjóðina um stefnu sína og hugmyndafræði.

Hernám

Forsíða Þjóðviljans 11. maí 1940.

Vegna skamms fyrirvara fyrir hernám landsins var stuttur undirbúningur fyrir hermennina til að koma upp bækistöðvum. Það var því margt sem ekki var eins og átti að vera. Stutti undirbúningurinn gerði það að verkum að margir hermannanna sem komu voru í lítilli þjálfun, margir mjög ungir og voru að prófa vopnin í fyrsta skipti á skotæfingum. Margir urðu sjóveikir á leið til landsins og því lán að það var lítil mótspyrna gagnvart þeim því ekki er vitað hvernig hefði farið með alla þessa óreyndu menn. Það voru um 2000 hermenn sem tóku þátt í hernámi Íslands en seinna meir áttu þeir að vera orðnir rúmlega 25.000 og því mikið sem þurfti að gera til að undirbúa komu þeirra, því ekki voru Íslendingar færir um að veita þeim öllum húsnæði. Innflutningur á bröggum var hafinn strax um sumarið og um 6000 braggar fluttir hingað frá Bretlandi. Bæði Íslendingar og Bretar tóku þátt í að byggja braggana og í október voru flestir hermenn komnir með húsaskjól. Fljótlega eftir það var svo hafið að byggja flugvöll í Vatnsmýri og var þetta hluti af bretavinnunni, þeir sem fengu vinnu fengu greitt með ávísunum og fóru svo og leystu þær út hjá herstöðinni.

Hernám

Skipton Camp.

Lifnaðarháttur Íslendinga var fljótur að breytast við komu Bretanna. Fullorðnum einstaklingum var borin skylda að hafa á sér persónuskilríki sem þeim bar að sýna hermönnum þegar þeim sýndist en fyrst var þetta aðeins í Reykjavík þótt það breiddist hratt út, þó aðallega í bæjum í kring. Bretum var skipað að koma vel fram við Íslendinga, enda vildu þeir fá okkur á sitt band og því vinguðust margir landsmenn við hermennina, enda framandi og spennandi. Þeir vildu koma sér vel fyrir hjá Íslendingum og sem dæmi þá borguðu þeir allar skemmdir að fullu sem þeir ollu. Það ríkti þó ekki alltaf sætti á milli, Íslendingar voru ennþá á fullu með sjálfstæðisbaráttuna og þjóðernisstefnan var þeim meðfædd. Margir karlmenn urðu afbrýðissamir út í hermennina sem tóku frá þeim stúlkurnar (Ástandið) en þá aftur á móti sást það fljótt að Íslendingar voru fegnari að Bretar hernámu Ísland fremur en Þjóðverjar.

Bretavinnan kom í kjölfarið og varð til þess að kreppan hér á landi tók á enda og það atvinnuleysi sem hafði verið í landinu tók enda. Með þörf fyrir flugvöll fengu þeir marga Íslendinga til að taka þátt við byggingu hans, þeir þurftu mikið vinnuafl til að grafa skurði, reisa byggingar, girða af, leggja vegi og flugbrautir og var þetta allt vel borgað, betur borgað en áður hafði þekkst á Íslandi og var þetta því mjög eftirsóknarverð vinna. Einnig fengu sjómenn vinnu við að sigla með fisk til Bretlands. Árin 1941-1942 var enginn skráður atvinnulaus á Íslandi og voru flest öll iðnaðarfyrirtæki á svæðinu að drukkna í verkefnum. Iðnaðamenn í braggabyggingar, bílstjórar og túlkar voru mjög vinsælir í vinnu. Þeir þurftu eftirlitsmenn með flugvélaferðum og var Landsíminn opinn allan sólahringinn vegna stanslausrar tilkynningar. Læknar og hjúkrunarfólk bjó sig undir að taka á móti særðum og skátar stofnuðu sveit til að annast hjálp. Bretar sóttu mikið í að fá íslenskar húsmæður til að þvo föt og annað og varð því bretaþvotturinn vinsælt starf en var einnig mjög gagnrýndur fyrir of náin kynni hermanna við fjölskyldur. Vegna bretavinnunar má þakka fyrir þéttbýlismyndun í Reykjavík þar sem fólk flyktist þangað til að fá vinnu.

Hernám
Á Íslandi fyrir stríð var mikil fátækt og mikið um atvinnuleysi. Ísland var mikið landbúnaðarland og flestir landsmenn bjuggu í sveitum. 10. maí 1940 hernámu Bretar Ísland og árið 1941 tóku Bandaríkjamenn við hervörslu landsins. Stundum er vitnað til þessa tímabils sem „blessað stríðið“ því hernám Breta og svo yfirtaka Bandaríkjanna var það sem kom Íslandi upp úr kreppunni og atvinnuleysinu sem ríkt hafði á Íslandi. Oftast voru samskipti milli landsmanna og hersins friðsamleg, en einstöku sinnum kom fyrir að hermenn gripu til byssunnar ef þeim þóttu landsmenn sýna óhlýðni. Í landinu voru skyndilega staddir tugir þúsunda af ungum karlmönnum sem sýndu hinu kyninu áhuga. Sambönd hermanna og íslenskra kvenna var kallað “ástandið”. Í upphafi 20. aldar var Ísland fátækasta land Evrópu, efnahagslega og samfélagslega vanþróað. Eftir stríðið má telja að Ísland hafi orðið orðið eitt af ríkustu löndunum. Árið 2006 fór bandaríska herliðið aftur til Ameríku, en þó að Bandaríkjamenn séu farnir vernda þeir okkur enn.

Ísland fyrir stríð

Hernám

Skjáskot úr sjónvarpsþættinum Stríðsárin á Íslandi, sem sýndur var á RÚV 1990, í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá upphafi hernáms á Íslandi.

Á Íslandi fyrir stríð var mikið um atvinnuleysi, fólk átti erfitt með að fá vinnu og það voru líka fá störf í boði. Í Reykjavík fóru verkamenn niður í höfn og vonuðust eftir að fá vinnu þar, oft ráðið í vinnu einn dag í einu. Ekki fengu allir vinnu og þeir sem fengu ekki vinnu þurftu að fara aftur heim og bíða eftir næsta tækifæri að fá vinnu. Verkafólkið gat ekki fengið atvinnuleysisbætur en á sumum stöðum gat það fengið ókeypis að borða. Atvinnuleysi hvarf ekki á Íslandi fyrir eftir Bretar hernámu landið og herinn fór að ráða fólk í vinnu. Verkamennirnir fengu vinnu við að reisa bragga, leggja vegi og flugvelli.
Ísland var mikil landbúnaðarþjóð og flestir landsmenn bjuggu í sveitum og voru annað hvort bændafólk eða vinnufólk. Vegirnir voru mjög lélegir þannig það var erfitt að ferðast milli staða.
Ísland var frumstæð og fáttæk þjóð, og iðnvæðing var varla byrjuð. Bifreiðar voru ekki notaðar til að keyra langt.

„Blessað stríðið“

Hernám

Braggasmíði.

Stundum er vitnað til þessa tímabils sem „blessað stríðið“ því hernám Breta og svo yfirtaka Bandaríkjanna var það sem kom Íslandi upp úr kreppunni og atvinnuleysinu sem ríkt hafði á Íslandi frá því heimskreppan skall á. Árið 1940 hvarf atvinnuleysi á Íslandi og í staðinn varð skortur á vinnuafli. Herinn þurfti mikinn vinnukraft til að reisa bragga, leggja vegi flugvelli og fleira. Með öllum þessum framkvæmdum varð eftirspurn eftir vinnuafli. Árið 1940 voru um 1.700 Íslendingar í vinnu hjá hernum og fór þeim fjölgandi. Þegar mest var voru þeir um 4.000. Auk atvinnu hjá hernum sköpuðust störf við ýmiss konar þjónustu eins og við veitingarekstur, tauþvotta, saumaskap, verslun og matvælaframleiðslu. Helsta útflutningssvara Íslendinga var fiskur sem margfaldaðist í verði. Stríðsárin voru blómatími í efnahag þjóðarinnar.

Samskipti milli landsmanna og hermanna

Hernám

Samskipti hernámsliðsins við Íslendinga voru óneitanlega mikil.

Oftast voru samskipti milli landsmanna og hersins friðsamleg, en einstöku sinnum kom fyrir að hermenn gripu til byssunnar ef þeim þóttu landsmenn sýna óhlýðni. Bæjarlífið í Reykjavík og nágrenni tók miklum breytingum á stríðsárunum. Herbúðir settu svip sinn á umhverfið og hermenn voru áberandi. Veitingasala, verslun og ýmis þjónusta blómstraði. Dægurmenning, skemmtanalíf og almenn neysla breyttist verulega með nýjum menningarstraumum og auknum innflutningi. Reykjavík óx og dafnaði og í lok stríðsins breyttust herskálahverfin í íbúðarhverfi. Herliðum Breta og Bandaríkjamanna fylgdu mikil umsvif og um leið röskun á íslensku þjóðlífi. Tölur um fjölda hermanna segja sína sögu. Þegar mest var, vorið 1942, voru 55 þúsund hermenn í landinu. Íslendingar voru þá um 120 þúsund sem þýðir að hlutfall hermanna og landsmanna fór nærri því að vera einn á móti tveimur. Þar sem hermennirnir voru karlar leiddi þetta til óvenjulegs kynjahlutfalls í landinu og á sumum stöðum voru fullorðnir íslenskir karlmenn mun færri en hermennirnir. Mestar áhyggjur höfðu Íslendingar af samböndum hermanna og íslenskra stúlkna.

„Ástandið“

Hernám

Náin samskipti.

Í landinu voru skyndilega staddir tugir þúsunda af ungum karlmönnum sem sýndu hinu kyninu áhuga. Oft var sagt að þeir væru kurteisari við kvenfólk en íslenskir karlmenn. Sambönd hermanna og íslenskra kvenna var kallað “ástandið”. Margir Íslendingar héldu því fram að konur væru að svíkja uppruna sinn og þjóðerni og urðu því oft fyrir aðkasti. Íslenskum stjórnmálamönnum fannst vera nóg komið og skipuðu í framhaldi nefnd til að skoða málin. Nefndin skilaði inn skýrslu sem gaf mjög neikvæða mynd af þessum málum en breska herstjórnin gerði athugasemdir við skýrsluna og reyndu að þagga málið niður.

Stríðslok
Þann 8. maí árið 1945 gáfust herir Þjóðverja upp og Þriðja ríkið samdi frið við Bandamenn. Stríðinu í Evrópu var þar með lokið. Íslendingar fögnuðu þessu afar mikið enda höfðu þeir mátt þola nokkrar þrengingar og fjöldi íslenskra sjómanna hafði farist.

Marshall aðstoðin

Hernám

Kort af Evrópu á árum Kalda stríðsins. Myndin sýnir hlutfallslega dreifingu heildarupphæðar Marshall-áætlunarinnar.

Marshall aðstoðin (sem var upprunalega evrópsk batastefna) var amerísk hjálparstefna sem styrkti lönd í Evrópu til að endurbæta hagkerfið eftir seinni heimstyrjöldina. Marshall Aðstoðin tók fjögur ár að komast til skila frá árinu 1948 – 1952. Markmið Bandaríkjanna var að koma stafsemi samfélagsins aftur af stað.
Ísland var það ríki sem fékk langsamlega hæstu fjárhæðir allra af Marshall-aðstoðinni á hvern íbúa, þótt Ísland hafi ekki verið stríðshrjáð land. Frá árinu 1948 – 1952 fengu Íslendingar allt að 43 milljónir dollara í aðstoð, sem gera um 297 dollara á hvert barn miðað við íbúafjölda árið 1951 hér er um var að ræða tæplega þrisvar sinnum meira framlag en næsta þjóð fékk. Í upphafi 20. aldar var Ísland fátækasta land Evrópu, efnahagslega og samfélagslega vanþróað. Þótt kreppa 4. áratugarins hafi ekki verið eins djúp, ef litið er til breytinga á landsframleiðslu, og víðast annars staðar þá var hún langdregnari og hafði í för með sér mikið atvinnuleysi á þéttbýlustu svæðum landsins. Ef litið er á ástandið fyrir og eftir stríðið má sjá miklar breytingar á atvinnuleysi, hagkerfi og fleiru. Eftir stríðið má telja að Ísland hafi orðið meðal ríkustu landa í lok stríðsins þökk sé aðstoðana. Vergar þjóðartekjur uxu um 10,2% að meðaltali hvert ár á stríðsárunum og þær rétt tæplega tvöfölduðust á meðan stríðið lamaði meginland Evrópu.

Ísland og Bandaríkin

Hernám

Aðkoman að Camp Russel á Urriðaholti.

Eftir að Ísland varð sjálfstætt fóru miklar breytingar á stað, þótt að miklar breytinga hafi þegar gerst í stríðinu, t.d. atvinnutækifæri og fyrsti flugvöllurinn var byggður. Þetta var tíminn sem Ísland fékk loks tækifæri til að taka sínar ákvarðanir sem myndu gagnast sinni þjóð og taka sín fyrstu spor í framtíðina. Ísland og Bandaríkin voru enn í hermannaðarsamvinnu sem gerði Bandaríkin skyldug til að vernda Ísland ef undir árás. Ísland fékk innblástur frá Bandaríkjunum og Ísland leit mikið upp til Bandaríkjanna. Þegar stríðið endaði fékk Ísland mikla athygli og stuðning frá Bandaríkjunum til að komast inn í NATO (North Atlantic Treaty Organization). Bandaríkin gerðu ráðstafanir um að Bandaríkin myndi vernda Ísland fyrir hönd NATO. Þetta var vegna þess að Ísland hafði engan her. Bandaríkin fengu byggingar rétt fyrir bandarískt herlið á landinu frá NATO. Sú réttindi eru enn til staðar í dag en herinn er ekki lengur staðsettur á Íslandi.
Þegar bandaríska herliðið fór frá Íslandi árið 2006 misstu margir Íslendingar sem unnu fyrir herinn vinnuna sína, en Bandaríkin lögðu samt áherslu á að veita fjárfestingar til að halda flugvellinum í Keflavík uppi fyrir ferðaþjónustu.

Arfur seinni heimsstyrjaldar í örnefnum á höfuðborgarsvæðinu

Hernám

Camp Russel – kort.

Þegar breski herinn hertók Ísland 10. maí 1940 var íslenskt þjóðfélag bændasamfélag upp á gamla vísu. Borgaraleg menning Vestur-Evrópu hafði að vísu skotið nokkrum rótum í íslensku samfélagi en var mest áberandi í Seltjarnarneshreppi hinum forna og hinum gamla Álftaneshreppi, einkum í Reykjavík og Hafnarfirði og örfáum þéttbýlissvæðum í öðrum landshlutum eins og á Ísafirði, Akureyri, Stykkishólmi og Seyðisfirði.
Hér verður rætt um ýmis ensk heiti sem breski og bandaríski herinn skráði á kort og notaði í skjölum í síðari heimsstyrjöld á svo kölluðu Stór-Reykjavíkursvæði sem áður fyrr var nefnt Innnes. Álftanes, Seltjarnarnes og Kjalarnes voru oft nefnd einu nafni Innnes til aðgreiningar frá Suðurnesjum. Stundum voru öll nesin við innanverðan Faxaflóa nefnd Innnes, að Akranesi meðtöldu.
Umfjöllunin í greininni er að mestu takmörkuð við land Reykjavík og nágrenni.
Meðan umboðsmenn konungsvaldsins sátu á Álftanesi var nesið gjarna kallað Kóngsnes.

Hér er fjallað um hluta ensku örnefnanna og skýrð tilurð þeirra. Fyrirmyndir fyrstu nafnanna, sem Bretarnir gáfu, má oft rekja til örnefna í Englandi og Skotlandi. Bandarísku hermennirnir notuðu einnig bresku nöfnin en bættu við nafngiftum sem gjarna vísuðu til ákveðinna þekktra einstaklinga. Um mörg nafnanna hefur áður verið fjallað, ekki síst kampanöfnin, m.a. hjá Sævari Þ. Jóhannessyni (sjá Sævar Þ. Jóhannesson, án ártals, og Pál Lúðvík Einarsson 1990).
Örnefnafræði er margslungin fræðigrein sem styðst við málfræði, orðsifjafræði, landafræði og sögu svo að eitthvað sé nefnt. Greinin er hugsuð sem sögulegt og landfræðilegt framlag til örnefnafræðinnar hvað varðar Innnesjasvæðið við Faxaflóa. Á íslensku er þessi þáttur örnefnafræði nefndur staðfræði eða svæðislýsing.

Hernám á Innnesjum

Hernám

Braggahverfi á Skólavörðuholti.

Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir nesið á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Sjálft Seltjarnarnesið, sem hreppurinn er kenndur við, er nesið á milli Fossvogs og Grafarvogs og því umtalsvert stærra en sveitarfélagið sem enn er kennt við það og er yst á nesinu.
Reykjavík í hinum forna Seltjarnarneshreppi fékk kaup stað arrétt indi 18. ágúst 1786. Tuttugu og fimm lögbýli innan hins forna hrepps tilheyra nú Reykjavík en þau lögbýli í honum, sem eru innan Kópavogsbæjar, mynduðu fyrst sjálfstætt sveitarfélag, Kópa vogshrepp, árið 1948. Þá varð einnig til Seltjarnarneshreppur hinn nýi.
Kópavogshreppur fékk kaupstaðarréttindi 11. maí 1955. Garðahreppur varð til er Álftaneshreppi hinum forna var skipt 1878 í Bessastaðahrepp og Garðahrepp. Frá og með 1. janúar 1976 hét Garðahreppur Garðabær. Samþykkt var í atkvæðagreiðslu 20. október 2012 að sameina Garðabæ og Álftanes (gamla Bessastaðahrepp). Hafnarfjörður til heyrði Garðahreppi þar til hann varð sérstakt lögsagnarumdæmi með kaupstaðarréttindum 1. júní 1908.
Þegar breski herinn kom í maímánuði 1940 voru jarðirnar Kópavogur, Digranes, Fífuhvammur, Vatnsendi, Gunnarshólmi, Geirland og Lækjarbotnar innan hreppamarka Seltjarnarneshrepps hins forna.

Hernaðarþýðing Innnesja

Hernám

Patterson flugvöllur.

Reykjavík og nágrenni hafði mikla hernaðarþýðingu í styrjöldinni og Inn nes því í brennipunkti hjá hernum. Hæðirnar í nágrenni Reykjavíkur og leiðirnar úr höfuðborginni voru mikilvægar. Herstöðvarnar í Seltjarnarneshreppi hinum forna teygðu anga sína allt að rótum Vífilsfells. Sandskeiðið, sem hugsanlegur lendingarstaður þýskra flugvéla, hlaut strax mikla athygli breska flughersins. Sandskeiðið er á af rétti Lækjarbotnajarðar. Bretar reistu loftvarnarbyssuvígi á Kópavogshálsi haustið 1940 og höfðu einnig smærri loftvarnarbyssur á Kársnesi. Vígin voru hluti af varnarkerfi flugvallarins í Reykjavík.

Breska hernámið

Hernám

Breskir hermenn.

Áætlun Breta um hernám Íslands var nefnd „Operation Fork“. Samkvæmt áætluninni voru hafnarsvæðin í Reykjavík og Hvalfirði tekin fyrsta daginn og tveir hugsanlegir lendingarstaðir óvinaflugvéla, Sand skeið og Kaldaðarnes. Fyrstu aðalstöðvar hersins voru í Menntaskólanum í Reykjavík en voru síðar fluttar inn að Elliðaám í Camp Alabaster en breska herliðið gekk í fyrstu undir heitinu „Alabaster Force“.
Fjölmargir bresku hermannanna komu frá Norður-Englandi og því var þeim nærtækt að nefna íslensk kennimerki eftir bæjarnöfnum og öðrum heitum í heimahéruðunum. Ensku heitin þurftu að vera kunnugleg og auðveld í framburði svo að ekki gætti neins vafa.
Tangarsóknarlíkingin er komin úr skákmáli og merkir að tveimur tafl mönnum er hótað í einu (Eggert Þór Bernharðsson 2000:9).
Breska herstjórnin í Reykjavík gaf út gróft kort í júlí 1940 með helstu kennimerkjum á höfuðborgarsvæðinu þar sem nokkur báru ensk nöfn. Kortadeild breska hersins nýtti sér kort dönsku landmælinganna sem til voru í landinu (Landmælingadeild herforingjaráðsins 1903 og 1910).

Bandaríkjamenn taka við vörnum
HernámMeð herverndarsamningnum við Bandaríkin, sem undirritaður var sumarið 1941, var breski landherinn leystur af hólmi. Þá lauk formlegu hernámi Breta. Liðssveitir breska flughersins og flotans voru þó áfram í landinu, aðallega við varnir skipalesta á siglingaleiðum yfir Norður-Atlantshafið. Fyrstu Bandaríkjamennirnir stigu á land á Íslandi 7. júlí 1941. Þeir voru úr landgönguliði flotans („United States Marines“). Á eftir landgönguliðunum kom landherinn („US Army“). Í lok desember 1942 voru um 38.000 bandarískir hermenn á Íslandi í 300 kömpum víðs vegar um landið.
Bandaríkjamenn notuðu bresku heitin en voru duglegir við að gefa nýjum kömpum bandarísk nöfn.

Breytingar á samskiptaháttum

Hernám

Tedcaster í Englandi.

Eftir að Bandaríkjamenn tóku við hervörnum voru aðalstöðvar hersins fluttar í Camp Tadcaster. Eins og gildir um mörg heiti Bretanna, sem komu frá norðurhluta Englands, var Tadcaster-nafnið fengið úr heimabyggð þeirra, litlum markaðsbæ í Selby-héraði um 16 km suðvestan við Jórvík (York). Camp Tadcaster var rétt sunnan við Miklubraut þar sem nú er Borgargerði og Rauðagerði, skammt norðan við Charing Cross þar sem Bústaðavegur og Sogavegur mætast. Charing Cross var eitt af mörgum Lundúnaheitum Bretanna. Bandaríkjamenn breyttu Tadcaster-nafninu í Camp Pershing.
Síðar var nafninu breytt í Camp Curtis til heiðurs breska yfirhershöfðingjanum Harry O. Curtis þegar hann var að fara af landi brott.
Öryggisþjónusta breska hersins („Field Security Service“), sem bar ábyrgð á því að hindra að óvinum bærist njósn af viðbúnaði og umsvifum hersins, átti í erfiðleikum í samskiptunum við Íslendinga enda enskukunnátta ekki almenn meðal Íslendinga á þessum tíma. Foringjar Bretanna leituðu oft til miður vandaðra Íslendinga sem gáfu þeim uppdiktaðar upplýsingar gegn greiðslu í pundum. Síðan gengu þessir Íslendingar um og skopuðust að einfeldni bresku foringjanna (Þór Whitehead 1999:245). Viðhorf yfirmanna öryggisþjónustunnar voru Íslendingum illskiljanleg sem og samskiptahættir þeir sem tíðkuð ust í formfastri stéttaskiptingu Breta.
Miklar breytingar urðu á samskiptaháttum setuliðsins og Íslendinga þegar bandaríski herinn kom til Íslands. Þessi breyttu viðhorf tengjast meðal annars tungunum ensku og íslensku.
Með bandaríska hernum komu Vestur-Íslendingar og margir þeirra voru vel talandi á íslensku. Þekktastur þeirra er Ragnar Stefáns son (1909–1988), síðar ofursti, sem var foringi í bandaríska gagnnjósna liðinu („Counter Intelligence Center Analysis Group“) á Íslandi á stríðsárunum. Ragnar Sefánsson stjórnaði starfseminni á Norður- og Austurlandi og hafði bækistöð á Akureyri. Að stríðinu loknu var hann ráðgjafi bandaríska hersins í samskiptum við Íslendinga með stuttum hléum til ársins 1958 (Þór Whitehead 1999:244–245).

Hertækni Bandaríkjamanna og kortagerð

Hernám

Nýjasta hernaðartækni fylgdi Bandaríkjamönnum. Má þar nefna ratsjárstöðvarnar og aðrar fjarskiptastöðvar sem settar voru í nágrenni við Reykjavíkurflugvöll. Ellefu ratsjárstöðvar mynduðu ratsjárkerfi banda manna á Íslandi. Aðalstöðin var í Camp Tinker í Almannada austan Rauðavatns (Þór Whitehead 2002:184). Búðirnar hétu eftir Clarence L. Tinker, hershöfðingja í bandaríska flughernum. Tinker fórst í árásarleiðangri á bækistöð Japana á Wake-eyju á Kyrrahafi árið 1942 (Friðþór Eydal 2013:33).
Kortadeild breska hersins dró upp frumdrætti leiðakerfis hersins umhverfis höfuðborgina á árunum 1940–1941 og fyrstu ensku heitin bera því breskt svipmót.
Kortadeild bandaríska hersins teiknaði nákvæm kort á árunum 1941–1943 og eru þau besta heimildin um skipulag svæðisins í nágrenni Reykjavíkur og þau ensku heiti sem notuð voru á styrjaldarárunum. Eitt besta kortið með örnefnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu er frá 1943 í mælikvarðanum 1:25.000. Yfirmaður verkfræðideildar bandaríska landhersins sá um gerð kortsins með aðstoð kortaþjónustu landhersins í Washington (frumkort GSGS 4186, 1941, endurskoðað 1943: A.M.S. C861).

Örnefni á hernaðarlega mikilvægum svæðum – strandsvæðið

Hernám

Í skotgröf.

Strandsvæðið frá Viðeyjarsundi, Gufunes Bay, að Gróttutanga, Grotta Point, og Seltjörn, Grotta Bay, er nákvæmlega teiknað á kortum hersins. Leiðin frá höfninni í Reykjavík að Gróttuvita er nefnd Grotta Road og Eiðsvík Selsker Bay. Herfræðilega var ströndin mikilvæg, allt frá Vatnagörðum, Balbos Beach, Laugarnesi, Laugarnes Point, að Höfða við Rauðarárvík, Consul Point.
Hið sama má segja um suðurströnd Seltjarnarness að Nauthólsvík, South Beach. Viðey, Vidhey, Engey, Akurey og Selsker eru nákvæmlega teiknuð á kortunum sem og Gufuneshöfði, Trigger Point, og Grafarvogur. Um Grafarvog lá leiðin að árkjöftum Elliðaárvogs, Salmon Inlet, og að Ósmel Grafarvogs, Grafar Inlet. Á Gelgjutanga við Grafarvog var braggabyggð og skipalægi.

Hæðir á Seltjarnarnesi

Hernám

Feit fallbyssa á verði.

Á hæðunum umhverfis Reykjavíkurhöfn og flugvöllinn var varnarvirkjum komið fyrir og voru mörg hver niðurgrafin.
Einn fyrsti breski kampurinn var reistur á Skólavörðuholti. Orðið lá ekki vel fyrir Bretanum í framburði og kölluðu þeir holtið Skipton Hill og braggahverfið Camp Skipton. Kampurinn var nefndur eftir heimabæ her sveitarinnar „The Duke of Wellington’s Regiment“ í Norður-Yorkshire. Eitt herfylki hennar hafði aðalstöðvar á Skólavörðuholti.
Valhúsahæðina kölluðu Bretar Keighley Hill og kampinn Camp Keighley. Keighley er bær í Vestur-Yorkshire á Englandi þangað sem hersveitin „The West Yorkshire Regiment“ átti rætur að rekja. Liðsmenn hennar tóku sér stöðu á Seltjarnarnesi.
Laugarásinn, Pimple Hill, Grensásinn, Casement Hill, og Rauðar árholt, Tower Hill, mynduðu eins konar varnarbyrgjamúr fyrir austurhluta hafnarsvæðisins og flugvöllinn. Pimple Hill er hæð í enska hérað inu West Midlands, skammt frá Birmingham. Casement Hill hefur svipaða merkingu og íslenska örnefnið Skyggnir. Tower Hill er þekktur staður skammt fyrir utan London.
Gamla leiðin úr Reykjavík yfir Skólavörðuholt lá að Háaleiti sem var smáhæð í skarðinu milli Öskjuhlíðar, Howitzer Hill, og Minni-Öskjuhlíðar, Red House Hill. Howitzer var varnarbyssa (samkvæmt ensk um orðsifjabókum á enska orðið howitzer rætur í tékkneska orðinu houfnice sem merkir ‘að slöngva’). Rauða golfskálabyggingin, sem Golfklúbbur Íslands reisti 1937, rétt norðvestan við hús Veðurstofunnar, skýrir nafnið Red House Hill.

Að Elliðaám

Hernám

Austan við Háaleiti í skarðinu milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar skiptust leiðir. Önnur lá um Bústaðaholt, Handley Ridge, að Elliðaánum, Salmon River. Handley er smábær í Great Boughton-héraði í Cheshire á Englandi og þar er einnig örnefnið Handley Ridge.

Gamli Bústaðavegur er nefndur á kortum hersins Edward Road.
Friðþór Eydal telur að örnefnið Tower hill (Rauðarárholt) vísi til turnspíru Sjómannaskólans.
Örnefnið Minni-Öskjuhlíð kemur fyrst fyrir á Reykjavíkurkorti Björns Gunnlaugssonar frá 1850. Hæðin hefur einnig verið nefnd Golfskálahæð, Litlahlíð og Litla-Öskjuhlíð og þar er nú Veðurstofan. Vegurinn lá að gatnamótum sem Bretarnir nefndu Piccadilly Circus. Þar mætir Bústaðavegur nú Grensásvegi sem Bretar nefndu Harley Street.
Bústaðavegur lá ofan við Bústaðabæinn að hinum hernaðarlega mikil vægu vegamótum vestan Elliðaárkvíslanna, Charing Cross, þar sem Bústaðavegur og Sogavegur, Tower Hill Road, mættust. Nöfnin eru tengd Lundúnum. Austan vegamótanna var hið gamla Álftnesingavað á Vestur kvíslinni, West Fork, og Ártúnsvað á Austurkvíslinni, East Fork. Um þessi vöð lá aðalleiðin frá Seltjarnarneshreppi hinum forna, allt þar til Elliðaárnar voru brúaðar.

Um Kópavog og Álftanes

Hernám

Braggabyggð.

Frá gatnamótunum austan við Minni-Öskjuhlíð lá Hafnarfjarðarvegur, Hafnarfjordur Road, í suður yfir Leynimýri og síðan austan við Fossvog, Fossvogur Bay. Þá erum við komin að norðurmörkum Kópavogs jarðar. Leiðin lá að krossgötum Nýbýlavegar, Skeleton Hill Road, og Kárs nes brautar, Korsnes Road. Vestasti hluti Kársness, Kársnestá, ber heitið Whale Point á herkortunum.
Leiðin frá Fossvogsbotni lá í suður milli Kópavogsháls, Mossley Knoll, og Digranesháls, Whale Hill, og að gatnamótum ofan við Kópavogslæk. Knoll í Mossley er í norðvesturhluta Englands. Knoll er notað í ensku yfir ávalar smáhæðir eða hálsa. Hinn ávali Digranesháls minnir á lögun hvalbaks.
Í austur lá Hilton Road yfir brú yfir Kópavogslæk við gamla Danskavað. Nú heitir vestasti hluti Hilton Road Fífuhvammur.
Mýrarsvæðið, aðallega Fífumýri og Kringlumýri sunnan við veginn sem nú er nefndur Fífuhvammur, er kallað á herkortunum Hilton Flats. Þekktasta Hilton Flats-örnefnið í Bretlandi er í Tenby í Suður-Wales.
Af Arnarnesi, Puffin Point, blasir við Arnarnesvogur, Puffin Bay, og Eskines, Arnar Point, nyrsti hluti Gálgahrauns. Á Álftanesi, Gardar Peninsula, við Skerjafjörð, Ford Fjord, er Bessastaðatjörn, Bless Bay, Seilan, Point Eyri, Rani, Rani Point, Lambhúsatjörn, Lamb Bay og Skógtjörn, Bottle Neck Bay.
Bústaðabærinn lá neðan við Bústaðaveginn, milli Marklands og Seljalands.

Örnefni á ýmsum leiðum og herskálahverfum – Kópavogsjörðin

Hernám

Skilti við Camp Kwitcherbelliakin.

Camp Fossvogur var norðan við Miðbjarg (Votaberg), rétt austan við Hanganda og norðan við Tjaldhól við Fossvogsbotn. Breski flug herinn hafði þar síðast aðstöðu og nefndi Camp Cook South en Camp Cook stóð nokkru norðar við Hafnarfjarðarveginn. Ætla mætti að heitið væri tengt breska landkönnuðinum James Cook (1728–1799) sem var kapteinn í Hinum konunglega breska flota.
Flugbátalægi hersins var á innanverðum Skerjafirði. Á norðanverðu Kársnesi var viðhaldsstöð fyrir þjónustubáta og hraðbáta flughafnarinnar („RAF Marine Craft Section“) og var herstöðin með sjö bröggum nefnd Marine Slipway með vísan til dráttarbrautar sem þar var. Á íslenskum kortum frá árunum eftir stríð er Flughöfn merkt á svæðinu þar sem Marine Slipway var (Ágúst Böðvarsson 1947).
Á vestanverðu Kársnesi var lítið herskálasvæði sem nefnt var Camp Korsnes. Það var yst á Kársnesi ofan við Kársnesbraut (þar sem Kársneskjör reis síðar). Í Sæbólslandi við Fossvogsbotninn reis herskála hverfi, Camp Bournemouth, við suðurleiðina úr Reykjavík. Borgin Bournemouth er á suðurströnd Englands. Háhæðina, þar sem nú er miðbær Kópavogs og Hamraborgin, nefndu Bretar Skeleton Hill. Margir hafa talið að nafnið Skeleton Hill tengist beinagrindum frá aftökustað Kópavogsþings. Engar sannanir eru samt um beinafund hermanna þar. Á hæðinni voru trönur og fiskur þurrkaður. Það vakti forvitni hermanna og gaf búðunum nafn. Friðþór Eydal hefur sýnt fram á að búðirnar hafi verið nefndar Skeleton Hill allt frá upphafi haustið 1940 og þar til Bandaríkjamenn tóku við búðunum árið 1942 (Friðþór Eydal 2013:13–16).

Herleiðir og herskálar í landi Digraness- og Fífuhvammsjarða

Hernám

Camp Fífuhvammur.

Frá Hafnarfjarðarvegi, Hafnarfjordur Road, lá ófullkominn vegur í aust ur frá Skeleton Hill að Víghóli. Þar var ratsjárstöð bandaríska flughersins, Camp Catharine. Þaðan lágu traðir að Digranesbæ á Digraneshæð, Whale Hill.
Hilton Road, sem lá á svipuðum slóðum og Fífuhvammur (vegur) er nú, sveigði suður yfir Kópavogslæk, suðvestan núverandi Digraneskirkju. Frá Hilton Road var unnt að aka að Fífuhvammsbænum. Vestan við veginn að Fífuhvammsbæ var ófullkomin braut hersins að hinum mikilvægu sprengjugeymslum og herskálum við Hnoðraholt, Gala Hill. Örnefnið Gala Hill er á mörkum Skotlands og Englands.
Ástarljóðið „Braes O’Gala Hill“ var oft sungið á stríðsárunum. Brautin lá um Selhrygg, Hawick Hill, Smalaholt, Camel Hill, og Rjúpnahlíð (Rjúpnadalshlíð, Rjúpnahæð), Bare Hill. Bærinn Hawick er í Skotlandi og þekktur fyrir vefnað. Við bæinn eru Hawick Hills. Fyrir mynd Camel Hill-nafnsins gæti verið þekktur búgarður í Los Gatos í Kaliforníu, Camel Hill Vineyard. Þar var og er enn mikil vínrækt og úlfaldarækt. Nafnið gæti einnig verið dregið af staðháttum, kryppu eða kryppum. Ef til vill á örnefnið Bare Hill sér eðlilegar ræt ur í gróðursnauðum hluta Rjúpnahlíðar (Rjúpnahæðar) þar sem nyrsti hluti Hunt Delaware var. Samt sem áður má nefna að hæðir við stórborgina Baltimore eru nefndar Bare Hills. Svæðið norðan við Hnoðraholt og Selhrygg er á herkortunum merkt „Scattered Boulders“ (hnullungadreif).
Sunnan Smalaholts og Rjúpnahlíðar lá Flóttamannavegur sem svo hefur stundum verið nefndur, Back Road, að Vífilsstöðum. Hjáleið frá Flóttamannavegi, norðan við Kjóavelli, er nefnd Hunt Road.

Hernám

Skilti við Camp Cook.

Á stríðsárunum var lítið herskálahverfi og loftvarnarbyrgi á Víghóli (Víghólum) á vegum bandaríska flughersins. Búðirnar voru þar sem Digraneshæðina, Whale Hill, ber hæst. Þær voru annars vegar á milli núverandi gatna, Melaheiðar og Lyngheiðar, og austan við Bjarnhólastíg og Víghólastíg hins vegar. Herskálabyggðin var kölluð Camp Catherine. Búðirnar fengu nafnið eftir eiginkonu fyrsta yfirmanns ratsjárstöðvarinnar (Friðþór Eydal 2013:20).
Á stríðsárunum var byggður herskálakampur rétt austan við Meltungu og við Blesugróf og var hann nefndur New Mercur Dump (New Mercur Camp). Nafnið gæti hugsanlega verið tengt New Mercursvæðinu í Utah í Bandaríkjunum sem einnig er kallað Mercur District og Camp Floyd District. Í Bandaríkjunum voru svæði þar sem losa mátti eiturefni eins og kvikasilfur (e. mercury) kölluð Mercury Dump. Kampurinn var á mörkum jarðanna Digraness, Bústaða og Breiðholts. Stærsti hluti búðanna var innan marka Reykjavíkur. Þar var lengst af birgðastöð fyrir skotfæri.
Vestan við New Mercur Camp og sunnan við bæinn Bústaði var önnur birgðageymsla hersins sem nefnd var Salmon River Dump (Þór Whitehead 2002:125). Kampurinn var í landi Bústaða.
Í suðausturhlíð Rjúpnahlíðar(Rjúpnadalahlíðar, Rjúpnadalshlíðar, Rjúpnahæðar), Bare Hill, og nyrst á Kjóavöllum var herskálahverfi og birgðageymsla bandaríska hersins á árunum 1943 og 1944, Hunt Delaware, sem áður var getið. Delaware er eitt af ríkjum Bandaríkjanna á austurströndinni. Í Rjúpnahlíð, milli Smalaholts og Hörðuvalla, var reist fjarskiptasendistöð sumarið 1943.
Í Leirdal í landi Fífuhvamms, í lægðinni milli Hnoðraholts, Selhryggs og Smalaholts, var skotfærageymsla, Hilton Ammo Dump (Loho Bomb Dump). Vegur lá frá Fífuhvammi að svæðinu og er merktur á kortum hersins frá 1943 en ekki með nafni. Á stríðsárunum flæddi vatn inn á sprengjugeymslusvæðið og var sprengjugeymslan þá færð ofar þar sem þurrara var.
Stærsti kampurinn í landi Fífuhvamms var þar sem nú er Gróðrarstöðin Storð við Dalveg, Camp Hilton. Herbúðirnar voru reistar haustið 1941 sem aðalstöðvar og þjónustumiðstöð loft – og strandvarnar byssufylkis. Í Camp Hilton bjuggu hermenn sem sáu um loft varnarstöðina á Fálkhóli, Arlington Hill, í Breiðholti og loftvarnarstöðina Fox-Battery á Bústaðaholti, Handley Ridge.

Herleiðir og herbúðir í landi Vatnsenda
Hernám
Fyrstu herbúðir Breta, kenndar við Vatnsenda, voru í þeim hluta Seltjarnarneshrepps sem varð Kópavogshreppur árið 1948. Búðirnar voru reistar fyrir 30 manna fótgönguliðsflokk úr herfylkinu „1/5 Battalion, Duke of Wellington Regiment“, við loftskeytasendistöð Landssíma Íslands í Vatnsendahvarfi skömmu eftir hernámsdaginn 10. maí 1940 (Friðþór Eydal 2013:1).
Þær hæðir, sem höfðu mest gildi fyrir herinn, lágu norðan og vestan við Elliðavatn í landi Vatnsenda: Breiðholtshvarf, Baldurshagi Hill, Vatnsendahvarf, Vatnsendi Ridge, og Vatnsendahlíð; Vatnsendahlidh.
Vestan og sunnan hæðanna voru mikilvægar herbúðir og sprengjugeymslur, einkum í Leirdal og á Kjóavöllum.
Aðalleið hersins lá frá krossgötunum Charing Cross, sem voru rétt við Bústaðabæinn, og vestan við Vesturkvísl, West Fork, Elliðaánna, Salmon River. Herleiðin lá í suður um Breiðholtsland, aust an við Fálk hól, Arlington Hill. Þaðan lá hún inn í Vatnsendaland og að útvarps stöðvarhúsinu á Vatnsendahvarfi. Þá var stutt í aust ur að Flóttamanna vegi, Back Road, sem lá um Vatnsendaland frá Dimmuvaði að Rjúpna hlíð. Frá Flótt amannavegi ofan við Vatnsendabæinn var unnt að fara suður fyrir Elliðavatn og Þingnes, Thingnes, eft ir gamalli leið, Þingnesslóð, Langvatn Trail, að Elliðavatnsbænum í landi Reykjavíkur. Frá Vatnsendahvarfi (Vatnsendahæð) var unnt að sjá helstu samgöngu leiðir á Suðurlandi, Vesturlandi og Suðurnesjum. Frá Charing Cross lá Útvarpsstöðvarvegur, Vatnsendi Road, að Vatnsendahvarfi.
Herbúðirnar, sem reistar voru fyrir fótgönguliða á Hörðuvöllum milli Vatnsendahvarfs og Rjúpnahlíðar árið 1942, voru nefndar Camp Wade, eftir bandarískum hermanni sem féll á Filippseyjum árið 1942. Í þeim voru alls 104 braggar.
Þrír braggar, Sandahlid Hut Site, voru byggðir árið 1943 fyrir miðstöð í miðunarkerfi fyrir flugvélar Bandaríkjahers uppi á Sandahlíð, suðaustan við Kjóavelli.

Hernaðarumsvif við Selfoss Road

Hernám

Heræfing á Sandskeiði.

Frá Elliðaárósi, Salmon Inlet, lágu mikilvægar leiðir í austur og suður. Vesturlandsvegur, Alafoss Road, og Suðurlandsvegur, Selfoss Road, lágu í austur frá Elliðaánum.
Bandarísk ratsjársveit var í Camp Hickam í Ártúnsbrekku. Horace Meek Hickam var ofursti og frumkvöðull í flugmálum í Banda ríkjunum. Hann fórst í flugslysi 5. nóvember 1934. Flugvöllurinn í Pearl Harbor var skírður Hickam Field þegar hann var opnaður 31. maí 1935.
Ratsjársveitin flutti í nýjar búðir, Camp Tinker, í Rauðhólum vorið 1943. Þaðan var loftvörnum stjórnað til ársins 1944 en þá fluttist starfsemin til Keflavíkurflugvallar. Selfoss Road lá við Rauðavatn, norðan við Rauð hóla, Red Lava Pits. Frá Selfoss Road vestan við Rauðavatn lá Flótta mannavegur, Back Road, í suður að Vatnsenda og Vífilsstöðum.
Bærinn Hólmur er austan við Rauðhóla og norðan við veginn er Hólmsheiði. Þar voru á stríðsárunum þrír kampar, Jeffersonville, Aberdeen og Waterloo. Thomas Jefferson var forseti Bandaríkjanna 1801–1809. Aberdeen er borg og skíri í Skotlandi. Við Waterloo í Belgíu sigraði yfirhershöfðinginn Wellington keisarann Napóleon sunnu daginn 18. júní 1815.

Hernám

Heræfing á Sandskeiði.

Selfoss Road lá síðan í austur um land Gunnarshólma, Geirlands og Lækjarbotna. Á leiðinni austur voru búðir reistar árið 1940 á hæðinni neðan við bæinn Lögberg í Lækjarbotnum. Suðurlandsvegur liggur nú yfir gamla bæjarstæðinu. Þar var birgðageymsla og geymslusvæði fyrir skotfæri breska hersins. Svæðið var afmarkað með um tveggja metra háum garði sem hlaðinn var úr hraunhellum. Þar rak herinn stórt bakarí sem var nefnt Logberg Bakery. Bandaríkjaher tók við rekstri birgðastöðvarinnar og bakarísins árið 1942 og rak hvort tveggja til haustsins 1943 (Friðþór Eydal 2013:38).
Svifflugfélag Íslands fékk árið 1938 leyfi til að jafna land fyrir flugsvæði og byggja flugskýli á afrétti Seltjarnarneshrepps þar sem heitir Sandskeið. Við hernám Breta og síðar hersetu Bandaríkjamanna var hluti af Sandskeiði tekinn undir skotæfingar og var það nánast allt sundurskotið á hersetutímanum. Sunnarlega á Lakheiði (Lakaheiði) á sléttlendinu í Lakadal, sem er á afrétti Lækjarbotnajarðar, geymdi breski herinn þegar árið 1940 stæður af bensínbrúsum og bensín tunnum sem var dreift vítt um svæðið. Hersvæðið í Lakadal var kallað Sandskeid Dump (Sandskeid Depot). Hersvæðið var rétt austan við mörk heimajarðar Lækjarbotna og afréttarins. Svæðið þar sem eldsneytið var geymt var nefnt Sandskeid Gas Dump.
Aðalæfingasvæði breska stórskotaliðsins og síðar bandaríska hersins var um 700 hektarar að stærð og nefnt Sandskeid Range. Þetta æfingasvæði náði frá vestanverðu Sandskeiði og austur á Mos fells heiði. Á korti bandaríska hersins frá árinu 1950 eru æfingasvæði fót gönguliðs og stórskotaliðs hersins sýnd (Friðþór Eydal 2013:35). Á þessum tíma lá Suðurlandsvegur, Selfoss Road, skammt norðan við Lakadal og sunnanvert um Sandskeið, þar sem vegurinn að Sandskeiðsflugvelli liggur nú austur af Bláfjallavegi og áfram austur með Vífilsfelli.

Kampar og örnefni
Aberdeen kampur á Hólmsheiði
Alafoss Road vegur Vesturlandsvegur
Arlington Hill loftvarnarstöð hóll í Breiðholti þar sem nú er Fífusel
Arnar Point nes Eskines í Garðabæ
Back Road vegur frá Selfoss Road vestan við Rauðavatn að Vífilsstöðum
Baldurshagi Hill hæð Breiðholtshvarf
Bare Hill hæð Rjúpnahlíð (Rjúpnahæð) í Kópavogi
Balbos Beach strandsvæði við Vatnagarða
Bless Bay tjörn Bessastaðatjörn á Álftanesi
Bott le Neck Bay tjörn Skógtjörn á Álftanesi
Camel Hill hæð á mörkum Kópavogs og Garðabæjar
Camp Alabaster kampur á Elliðaársvæðinu
Camp Bournemouth kampur í Sæbólslandi við Fossvogsbotn
Camp Catharine kampur á Víghólum í Kópavogi
Camp Cook kampur norðan við Tjaldhól við Fossvogsbotn
Camp Cook South kampur við Fossvogsbotn
Camp Curtis kampur við Borgargerði og Rauðagerði
Camp Fossvogur kampur við Fossvogsbotn
Camp Gardar Garðaholti
Camp Hickam kampur í Ártúnsbrekku
Camp Hilton kampur við Dalveg þar sem nú er Gróðrarstöðin Storð
Camp Korsnes kampur á Kársnesi vestanverðu
Camp Pershing kampur við Borgargerði og Rauðagerði
Camp Skipton kampur á Skólavörðuholti
Camp Tadcaster kampur við Borgargerði og Rauðagerði
Camp Tilloi Garðaholti
Camp Tinker kampur í Rauðhólum frá vori 1943
Camp Vatnsendi kampur við sendistöð Landssímans í Vatnsendahvarfi
Camp Wade kampur á Hörðuvöllum milli Vatnsendahvarfs og Rjúpnahlíðar (Rjúpnahæðar)
Casement Hill ás Grensás í Reykjavík
Charing Cross gatnamót þar sem Bústaðavegur og Sogavegur mætast
Consul Point höfði austan við Rauðarárvík
East Fork á Austurkvísl Elliðaánna
Edward Road vegur gamli Bústaðavegur í Reykjavík
Ford Fjord fjörður Skerjafjörður
Fossvogur Bay vogur Fossvogur
Fox-Batt ery loftvarnar stöð á Bústaðaholti
Gala Hill hæð á Hnoðraholti í Kópavogi
Gardar Peninsula nes Álftanes
Grafar Inlet ós við Ósmel Grafarvogs
Grotta Bay tjörn vestast á Seltjarnarnesi
Grotta Point Gróttutangi tanginn norðan við Seltjörn
Grotta Road vegur vegurinn frá höfninni í Reykjavík að Gróttuvita
Gufunes Bay Viðeyjarsund sunnan við Viðey
Hafnarfjordur Road vegur Hafnarfjarðarvegur
Handley Ridge holt Bústaðaholt í Reykjavík
Harley Street vegur gamli Grensásvegur í Reykjavík
Hawick Hill hæðardrag Selhryggur á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs
Hilton Ammo Dump (Loho Bomb Dump) skotfærageymsla
í Leirdal, lægðinni milli Hnoðraholts, Selhryggs og Smalaholts
Hilton Flats mýri Fífumýri og Kringlumýri sunnan við Kópavogslæk
Hilton Road vegur vesturhluti Fífuhvamms
Howitzer Hill hæð Öskjuhlíð
Hunt Delaware kampur í suðausturhlíð Rjúpnahlíðar (Rjúpnahæðar)
Jeffersonville kampur á Hólmsheiði
Keighley Hill hæð Valhúsahæð á Seltjarnarnesi
Korsnes Road vegur gamli Kórsnesvegur (síðar Kársnesbraut)
Lamb Bay tjörn Lambhúsatjörn
Langvatn Trail götuslóð Þingnesslóð sunnan við Elliðavatn
Laugarnes Point nes nyrsti hluti Laugarness
Logberg Bakery bakarí neðan við bæinn Lögberg í Lækjarbotnum
Marine Slipway viðhaldsstöð á miðju norðanverðu Kársnesi við Fossvog
Mossley Knoll hæðardrag Kópavogsháls
New Mercur Dump (Camp) kampur við Blesugróf
Piccadilly Circus gatnamót gatnamót Bústaðavegar og Grensásvegar í Reykjavík
Pimple Hill ás Laugarás
Point Eyri eyri Seilan við Álftanes
Puffin Bay vogur Arnarnesvogur í Garðabæ
Puffin Point nes Arnarnes í Garðabæ
Rani Point tangi Rani á Álftanesi
Red House Hill hæð Minni-Öskjuhlíð
Red Lava Pits hólar Rauðhólar
Salmon Inlet ós árkjaft ar Elliðavogs
Salmon River á Elliðaár
Salmon River Dump birgðageymsla
vestan Blesugrófar í landi Bústaða
Sandahlid Hut Site kampur uppi á Sandahlíð, suðaustan við Kjóavelli
Sandskeid Dump (Sandskeid Depot) hersvæði í Lakadal við Sandskeið
Sandskeid Gas Dump geymslusvæði eldsneytis í Lakadal við Sandskeið
Sandskeid Range skot æfingasvæði frá vestanverðu Sandskeiði austur á Mosfellsheiði
Scapegoat Hill hóll Fálkhóll
Selfoss Road vegur Suðurlandsvegur
Selsker Bay vogur sunnan við Selsker
Skeleton Hill hæð og kampur
Digranesháls þar sem Hamraborg er nú
Skeleton Hill Road vegur Nýbýlavegur í Kópavogi
Skipton Hill hæð Skólavörðuholt
South Beach vík Nauthólsvík
Thingnes nes Þingnes við Elliðavatn
Tower Hill holt Rauðarárholt
Tower Hill Road vegur gamli Sogavegur
Trigger Point höfði Gufuneshöfði
Vatnsendahlidh hlíð Vatnsendahlíð
Vatnsendi Ridge hæð Vatnsendahvarf
Vatnsendi Road vegur gamli Útvarpsstöðvarvegur
Vidhey eyja Viðey
Waterloo kampur á Hólmsheiði
West Fork á Vesturkvísl Elliðaánna
Whale Hill hæðardrag Digranes
Whale Point nes Kársnestá

Hernám.
Hér hefur verið fjallað um tilraunir breskra og bandarískra hermanna á heimsstyrjaldarárunum 1940 til 1945 til að ná tökum á og skipuleggja land þar sem örnefni voru á tungumáli sem flestum þeirra var framandi. Hermennirnir komust upp á lag með að nýta þau íslensku örnefni sem þeir réðu við að bera fram en bættu við nöfnum yfir herbúðir, herleiðir og kennileiti athafnasvæða hersins. Ný ensk heiti í stað íslenskra örnefna voru skráð á árunum 1940–1944 og notuð á kortum og í öðrum skjölum hersins. Bretarnir notuðu gjarna örnefni í Englandi og Skotlandi sem fyrirmyndir við nafngiftir sínar á Íslandi en þegar bandarísku hermennirnir bættu við fleiri heitum var oft um að ræða nöfn þekktra persóna úr bandarískri hersögu. Erlendu nöfnin urðu aldrei hluti af daglegu máli Íslendinga og hurfu eins og dögg fyrir sólu strax á fyrstu árunum eftir hernámið.

Minningar og leifar stríðsins

Hernám

Skotbyrgi á Garðaholti.

Margar minjar eru til á Íslandi eftir stríðið. Þær minjar geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en geta líka verið leifar sem sjást ekki, þær geta verið félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslenskt kvenfólks, sem meðal annars leiddi af sér „ástandið“ og „ástandsbörnin“, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn“ sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, “ Bretavinnan sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo frv.

Hérlendist er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að varðveita sögu þessa tímabils og þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi.

Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkastur en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Patterson-flugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.

Í borgarlandinu hafa stríðsminjar helst varðveist í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar. Nokkrir braggar eru við rætur Öskjuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Hernmám

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð norðanverðan auk birgðastöðvar vegna skipaviðgerða. Bæði skip og olíuskip tóku þar olíu og þau síðarnefndu birgðu svo upp önnur skip í flotadeildum á hafi úti. Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi og er með heillegustu minjum styrjaldarinnar á landinu. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína. Þeim hefur verið vel við haldið enda í fullri notkun fram á síðari ár því olíubirgðastöðin var nýtt áfram fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og ný reist fyrir herskip NATO. Í Hvítanesi eru leifar flotastöðvar Breta og vegna mikilla umsvifa bæði Breta og Bandaríkjamanna í Hvalfirði má finna ýmsar minjar um veru þeirra víðs vegar við fjörðinn.

Af ummerkjum beinna hernaðarátaka ber fyrst að telja flak olíuskipsins El Grillo. Það var um 7000 lesta olíuskip sem var sökkt af þrem þýskum FW-200 flugvélum 10. janúar 1944 í Seyðisfirði. Þá misstu Þjóðverjar eftirfarandi flugvélar við Ísland: FW-200 var skotin niður norður af Gróttu 14. ágúst 1942, JU-88 grandað við Svínaskarð 18. október 1942, FW-200 skotin niður 24. október 1942 norðan við Norðlingafljót, JU-88 skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði, FW-200 skotin niður við Grímsey 5. ágúst 1943 og JU-88 nauðlenti við Leirhöfn 2. maí 1945. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa og slæmra veðurskilyrða. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu.

Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur hafa nú verið fjarlægðar. Málmurinn var notaður í brotajárn eftir stríð og sérstaklega var sóst eftir álinu.

Hernám

Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Skotæfingasvæði voru meðal annars á Sandskeiði, í Mosfellsdal, við Kleifarvatn, Fellabæ fyrir austan, í Eyjafirði og á Blönduósi. Bandaríski landherinn notaði sprengjuæfingasvæði á Reykjanesi á sjötta áratugnum. Leitað hefur verið á aðgengilegustu svæðunum en ókleift er að finna allt. Líklega hafa um 1000 sprengjur fundist bara við Vogastapa. Öryggisbúnaður þessara sprengja er oftast illa farinn og mjög lítið hnjask þarf til að þær springi. Mikið af tundurduflum var á reki í og fyrst eftir stríðið og helsta vörnin gagnvart þeim var að skjóta á þau og sökkva þeim.

Heimildir m.a.:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Iceland–United_States_relations
-http://www.academia.edu/2515209/Íslenskt_samfélag_%C3%AD_seinni_heimsstyrjöld._Umskiptin_minningarnar_og_sagnaritunin
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ísland_í_seinni_heimsstyrjöldinni
-https://en.wikipedia.org/wiki/Marshall_Plan
-http://ismennt.is/not/sveinki/Samfélagsfræði/stridsarin.htm
-http://servefir.ruv.is/her/
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=52321
-http://ismennt.is/not/sveinki/Samfélagsfræði/stridsarin.htm
-https://gardaskoli.fandom.com/wiki/Hern%C3%A1m_%C3%8Dslands
-https://sites.google.com/site/islandastridsarunum/atburdhir-eftir-hernam/afleidhingar-hernams
-Ari Páll Kristinsson. 2010. Um íslenska örnefnastýringu. Orð og tunga 12:1–23.
-Eggert Þór Bernharðsson. 2000. Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970. Reykjavík: JPV útgáfa.
-Friðþór Eydal. 2013. Kampar í Kópavogi. Gunnar Marel Hinriksson bjó til prentunar. Kópavogur: Sögufélag Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs.
-Páll Lúðvík Einarsson. 1990. Braggablús. Sævar Þ. Jóhannesson vill varðveita gamlar stríðsminjar og örnefni. [Viðtal við Sævar Þ. Jóhannesson.]
-Morgunblaðið, sunnudagsblað, 22. júlí 1990. Bls. 6–7.
-Sævar Þ. Jóhannesson. [Án ártals.] Kampanöfn og örnefni tengd hersetu á Íslandi 1940–1945. Nefnir – Vefrit Nafnfræðifélagsins. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
-http://www.arnastofnun.is/page/arna stofnun_nafn_nefnir_SJ
-Vilhjálmur Þ. Gíslason.1947. Bessastaðir. Þættir úr sögu höfuðbóls. Akureyri: Bóka útgáfan Norðri.
-Þór Whitehead. 1999. Bretarnir koma. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
-Þór Whitehead. 2002. Ísland í hers höndum. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
-Landmælingadeild herforingjaráðsins 1903 (mælt 1902) og 1910. Kort af Reykjavík og nágrenni. Reykjavík og Kaupmannahöfn 1903 og
-Kort bandaríska hersins af Reykjavíkursvæðinu: GSGS 4186. 1941, endurskoðað 1943: A.M.S. C861. Mælikvarði: 1:25.000. Einungis til notkunar fyrir War and Navy Department Agencies. Skráð er á kortinu frá 1943 að það sé hvorki til sölu né dreifingar. Landmælingar hafa nú sett kortin á vefinn. Kortagerð: Army Map Service, U. S. Army, Washington, D.C.

Hernám

Kampar og örnefni – kort.

Garðabær

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Lundahverfis“ 2019 í Garðabæ, „Fornleifaskráningu í Heiðmörk og Sandahlíð í sama bæ árið 2013 sem og „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags Urriðaholts“ má lesa eftirfarandi um bæi og nokkrar merkar minjar:

Land Garðabæjar er mjög víðfemt og teygir sig meðal annars út á Álftanes og langt inn í Heiðmörk. Fornleifar finnast á öllu þessu svæði og skipta hundruðum. Þær eru mjög fjölbreytilegar og margar afar merkilegar, þær elstu frá því um landnám. Flestar minjanna hafa eingöngu verið kannaðar á yfirborði við fornleifaskráningu en einnig hefur verið grafið á nokkrum stöðum. Stærstu uppgreftirnir hafa verið gerðir á Hofsstöðum við Kirkjulund og í Urriðakoti skammt frá IKEA. Ýmsir athyglisverðir forngripir hafa fundist við þessar rannsóknir, til dæmis fannst bronsnæla frá 10. öld á Hofsstöðum, og snældusnúður með rúnaletri frá 13. öld í Urriðakoti. Fornleifafundir staðfesta því að hið tiltölulega unga bæjarfélag stendur á gömlum merg.

Minjar í Garðahverfi og víðar í Garðabæ

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar, ekki síst fyrir þá heild sem þær mynda saman. Slíkt menningarlandslag er fáséð. Þar og í Gálgahrauni er að finna meira en 250 kunnar fornleifar. Skipulag byggðarinnar í Garðahverfi á rætur að rekja aftur á miðaldir hið minnsta. Þar er að finna merkilegar minjar, mismunandi vel varðveittar, um sjósókn, búskap, samgöngur, trúarlíf, skólahald, jafnvel réttarsögu. Þar var byggðin girt með hlöðnum görðum, varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustanmegin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Þarna eru, svo dæmi séu tekin, bæjarhólar, varir, brunnar, útihús, garðar, stekkir, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarður, aftökustaður, steinar með áletrunum og fornar leiðir. Á Hausastöðum í Garðahverfi var Hausastaðaskóli reistur 1759, fyrsti heimavistarskólinn sérstaklega ætlaður almúgabörnum. Rústirnar eru augljósar.
Fornar leifar er víða annars staðar að finna í landi Garðabæjar. Hér má nefna gamlar leiðir, til dæmis Fógetastíginn í Gálgahrauni, selstíga og leiðir á milli bæja, alfaraleið um Heiðmörk og einnig yfir í Kópavog, en á þeirri leið voru dysjar sakamanna sem líflátnir voru á Kópavogsþingstað. Í Arnarnesi er Gvendarbrunnur. Í Heiðmörk er að finna rústir af seljum, fjárskjólum, kolagröfum, brunnum, vörðum og fjárborg svo fátt eitt sé nefnt.
Gjárétt (Gjáarrétt) var fjallskilarétt í vesturenda Búrfellsgjár, ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum hennar og Selgjár. Hún var reist árið 1840 úr hraungrýti. Í Selgjá eru friðlýstar seljasamstæður sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar upp við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Þar er varla þverfótað fyrir margra alda gömlum tóftum. Á Vífilsstöðum eru sömuleiðis leifar af gömlu seli og fjöldi annarra búsetuminja.

Fornleifar á Hofsstöðum og í Urriðakoti

Urriðakot

Urriðakot – uppgröftur.

Einhver stærsti víkingaaldarskáli sem fundist hefur á Íslandi er á Hofsstöðum við Kirkjulund, rétt austan og ofan við miðbæjarkjarnann í Garðabæ. Þar hefur verið gerður minjagarður með margmiðlunarsýningu. Skálinn var hefðbundinn að gerð með langeldi. Við hann fundust einnig soðholur (seyðar), hringlaga gerði, smiðja og gripir á borð við forn verkfæri. Bronsnælan fannst í rústum gerðisins. Urmull dýrabeina fannst í soðholunum sem gefur til kynna ræktun svína, nautpenings og sauðfjár.
Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn í hrauninu skammt frá IKEA hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafnar upp byggingar frá landnámstímanum sem hafa verið túlkaðar sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, soðhola, fjós og hús til mjólkurvinnslu og ostagerðar. Auk þess eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Margt gripa hefur fundist við fornleifarannsóknir í Urriðakoti, þar á meðal perlur, innflutt brýni og bökunarhellur, silfurhringur, tveir snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með rúnaletri.
Hér hefur aðeins verið tæpt á því helsta í því skyni að gefa einhverja mynd af þeim fjölda fornleifa sem til eru í Garðabæ. Ýmsar fleiri merkilegar minjar er að finna innan bæjarmarka í Garðabæ þótt ekki teljist þær endilega til fornleifa í strangasta skilningi þess orðs, en í Þjóðminjalögum er miðað við að minjar þurfi að vera 100 ára eða eldri til að teljast til fornleifa. Yngri minjar eru til dæmis leifar frá seinni heimsstyrjöld í Garðahverfi og Urriðakoti, landreksstöpull Alfreds Wegener á Arnarneshæð frá 1930 og hleðslur í hrauninu niður af Flötunum sem voru reistar í tengslum við járnbrautargerð snemma á 20. öld.

Hofsstaðir (býli)

Hofsstaðir

Hofsstaðir – skáli.

Elstu skráðu heimildirnar um “Hofstader” er að finna í íslenska fornbréfasafninu. Árið 1395 á Viðeyjarklaustur Hofsstaði, en þeir eru sagðir ein af þeim jörðum sem undir klaustrið komu síðan Páll ábóti kom til Viðeyjar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 segir um “Hofstader” að þeir séu hálflenda svokölluð, því að þar sé ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir. Jarðardýrleiki sé óviss, eigandinn konungurinn og ábúandinn Vernharður Einarsson: Uppdráttur af Hofsstöðum í Garðahreppi er til á túnakorti frá árinu 1918. Þar kemur fram að sléttuð tún eru 2,9 teigar og kálgarður 700 m2. Á uppdrættinum sést afstaða bæjarins og útihúsa sem þá voru.
Hinn 2. maí 1827 var jörðin seld, sem verið hafði í konungseign um aldir, fyrir 121 rd. Kúgildislaus. Búskapur lagðist af á Hofsstöðum árið 1965.
Fornleifarannsóknir sýndu fram á miklu eldri búskapasögu en heimildir en landnámsskáli fannst við fornleifauppgröft skammt vestur af núverandi bæjarstæði Hofsstaða.
Hofsstaðabærinn stóð þar frá upphafi og fram á 13. öld, en var síðan fluttur, mögulega á þann stað sem núverandi bæjarhús stendur.

Hofsstaðir

Hofsstaðir – skáli.

Á túnakorti af Hofsstöðum frá árinu 1918 er dregin upp mynd af túngarðinum eins og hann var þá. Umhverfis hann var melholt með nokkrum gróðri, helst við túngarðinn. Traðir eru norðan og sunnan í honum. Í örnefnaskrá segir: ,,Garður hlaðinn af torfi og grjóti lá um túnið allt. Nú er aðeins lítið garðbrot eftir sunnan hússins.“
Og í annarri örnefnaskrá segir „Hofstaðatúngarður lá umhverfis túnið á alla vegu, hlaðinn að mestu af torfi og grjóti. Sér nú ekkert af honum nema garðbrot fram undan húsinu niðri í mýrinni, en þar nálægt var Hofstaðabrunnur, og frá honum heim til bæjar lá Brunngatan,“ segir í örnefnaskrá GS.4 Þessar lýsingar eiga við yngsta túngarðinn á Hofsstöðum sem var hlaðinn úr grjóti og torfi og er hann horfinn að mestu nema brot af honum er varðveitt inni á lóð Leikskólans á Kirkjubóli. Eldri túngarðinn frá landnámi er að finna á svæðinu austan við Tónlistarskóla Garðabæjar sem sveigir svo til vestur og stefnir á Dýraspítalann. Garðurinn er útflattur en er þó greinilegur á vettvangi, best varðveittur syðst og vestast. Rannsóknir á túngarðinum fóru fram árið 1985 á vegum Þjóðminjasafns Íslands.
Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Ólafssonar er elsti hluti túngarðsins frá 10. öld en 2-3 m utan við hann við austurgafl leikskólans Kirkjubóls er annar miklu yngri garður, sem getur ekki verið eldri en frá 16. öld, en er líklega nokkuð yngri.
Þessi garður passar ágætlega við túnakortið frá 1918 og er því sennilega frá 19. öld.

Hofstaðir

Hofsstaðir – túnakort 1916.

Ári síðar kannaði Guðmundur garðinn frekar, um 60-70 m SSV af núverandi uppgraftarsvæði, þar sem garðurinn er hvað breiðastur og tóftir liggja að honum. Guðmundur segir í skýrslu sinni athyglisverðast að á um 3 m kafla hafi landnámslag legið óhreyft að mestu ofan á mannvistarlagi, sem fannst neðst við óhreyfða mold. Ofan á mannvistarlaginu, við endann á því, var torfveggur, strenghlaðinn úr landnámstorfum, um 1 m breiður og um 40 sm hár. Ofan á hann hafði síðar verið hlaðið, eða grafið niður fyrir grjóthleðslu, utan í túngarðinn. Önnur grjótundirstaða, eða hleðsla, var 2 m innar við túngarðinn. Þessar 2 hleðslur eru seinni tíma verk.6 Ekki er skilgreint hvað átt er við með “seinni tíma” verki né heldur hvers eðlis umræddar hleðslur eru.
Við lóðaframkvæmdir á vegum Álftáróss hf. í júlí 1994, skammt NNV af uppgraftarsvæðinu á Hofsstöðum, kom í ljós hluti af túngarðinum. Túngarðurinn var hlaðinn úr torfi og grjóti í stefnunni NNA-SSV. Yfir öllum garðinum lá Katla 1500, 5-13 sm að þykkt, og er því garðurinn reistur fyrir þann tíma. Ekki er unnt að aldursgreina garðinn nánar nema með kolefnisgreiningu á sýnum sem tekin voru. Garðurinn var 40-60 sm á hæð á þessum stað en aðeins 3 m breiður og eru allar líkur á að aðrir hlutar hans á þessum stað hafi horfið við framkvæmdir.
Niðurstaðan er því að þarna sé um ræða túngarða frá fleiri tímaskeiðum, elsti garðurinn hlaðinn úr torfi en síðar meir torf og grjót. Það er mikilvægt að elsti garðurinn sé kannaður enn frekar og tóft ef til stendur að nýta svæðið eitthvað.

Guðnýjarstapi (markavarða)
Í örnefnalýsingum segir frá Guðnýjarstapa: „Norðan í háholtinu var varða, Guðnýjarstapi […] Nú er allt Hofstaðaholtið komið undir byggingar.“
„Norðan í holtinu er Guðnýjarstapi, klapparhóll með grasþúfu. Guðnýjarstapi er nú inn á lóð Holtsbúðar 87.“ Í örnefnaskrá Álftaneshrepps er þarna um tvennt að ræða, klapparhól og vörðu: „Guðnýjarstapi: Klapparhóll allmikill upp í Hofstaðaholti. Þar um lá landamerkjalína úr Dýjakrók. Markavarðan: Hún mun hafa verið norðan og neðan við Guðnýjarstapa.“11 Sunnan, austan og vestan við Guðnýjarstapa eru Holtsbúð 87, 89 og 91. Guðnýjarstapi er grasi gróinn stapi eða smáhæð, um 8 x 6 m að ummáli með stefnu norðvestur – suðaustur og allt að 1,5 m á hæð. Hér og þar standa steinar upp úr stapanum og efst á honum er stór þúfa. Stapinn virðist vera manngerður og gæti þarna hugsanlega verið kuml. Ólíklegt er að þúfan sé yfirgróin varða eins og ein örnefnalýsingin virðist gera ráð fyrir en þó má ætla að varðan hafi verið hlaðin á stapanum frekar en til hliðar við hann. Engin merki sjást nú um vörðu en greina má hleðslur í hólnum.

Hallbera (varða)
Í örnefnalýsingum segir: „Markavarða á Hofstaðahæð mun hafa verið kölluð Hallbera. Talið er að nafnið sé komið frá vistmönnum á Vífilsstaðahæli. Líklega er þetta sama þúfa og nefnd er Norðurþúfa.“
„[…] Varða á holtinu hlaðin af sjúklingum og kallaðist hún Hallbera.“ „Hallbera varða austan í Hofsstaðaholti hvarf, þegar byggð reis á holtinu. Hún stóð, þar sem lóð Gígjulundar 6 er nú.“

Alfaraleið (leið)

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Í örnefnalýsingu segir: „Frá bænum lágu Vífilsstaðatraðir upp í Traðarhlið á Norðurtúngarði. Úr hliðinu lá svo gata í Alfaraleiðina sem þarna lá um Vífilsstaðamela.“
Alfaraleiðin lá sem sé um melana ofan Vífilsstaðatúns og hefur vestari hluti hennar verið á sömu slóðum og malbikaður Vífilsstaðavegurinn var lagður síðar beint upp að Vífilsstöðum.
Á gamalli ljósmynd sem tekin er úr lofti má sjá hvernig vegurinn lá áður í gegnum húsahverfið á Vífilsstöðum en ekki fyrir norðan fjósið eins og í dag. Á spottanum frá núverandi eystri húsum Vífilsstaða og út að Flóttavegi var malarvegur eins og í dag. Mölin hefur verið borin í gömlu götuna á seinni tímum eins og malbikið en leiðin liggur þó enn á sömu slóðum á þessum kafla Alfaraleiðarinnar og hefur að því leyti ákveðið varðveislugildi.

Sérstakaþúfa (varða)
Samkvæmt örnefnaskrá lágu merki frá Guðnýjarstapa, ,,upp holtið í Markavörðu, sem er á háholtinu, niður í Sérstökuþúfu, sem er miðja vegu milli Markavörðu og Vífilsstaðavegar“.
Varðan er nú komin undir byggð eins og segir í Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar en eftir lýsingum systranna Sigríðar og Halldóru Gísladóttur var Sérstakaþúfa þar sem nú er Espilundur 4, rétt sunnan við Hofsstaðabraut.

Vatnsgeymir (hernaðarmannvirki)

Vífilsstaðavatn

Vatnsgeymir við Vífilsstaðavatn.

Vatnsgeymir er um 190 m NA við Grímssetu (sjá að neðan), fast við göngustíg sem liggur upp að henni. Í örnefnaskrá Vífilsstaða segir: „Hann [vatnsgeymirinn] er upp í hlíðinni upp frá vatnsósnum, byggður 1910. Vatnið svo leitt heim í Vífilsstaðahælið.“
Vatnsgeymirinn er steinsteyptur tankur, hringlaga og grafinn í jörðu. Hann er ríflega 4 m í þvermál og stendur 1, 3 m upp úr jörðinni.

Grímsseta (varða)

Gunnhildur

Gunnhildur.

Myndarleg grjótvarða vestast á hlíðarbrún upp af suðvestanverðu Vífilsstaðavatni nefndist fyrst Grímsseta en nú Gunnhildur. Frá vörðunni er víðsýnt. Hún var áður vel hlaðin en fólk hefur lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys.
Nafngiftin Gunnhildur er á reiki. Sumir segja að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill.
Á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni sem enn sjást leifar af. Gunnhildur mun þó hafa verið þekkt nafn á vörðunni áður en landið var hernumið árið 1940.
Hvernig sem þetta nafn er til komið mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á Vífilsstaðahælinu skammt frá, handan Vífilsstaðalækjar, því að sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildi nefndu þeir Matthildi sem studdust við vísuna:
Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Skotbyrgi (hernaðarmannvirki)

Vífilsstaðahlíð

Skotbyrgið.

Steinsteypt skotbyrgi frá styrjaldarárunum, niðurgrafið í sand og möl, er ofan og 50 m vestan við vörðuna Grímssetu. Stóreflis grjót eru í kringum byrgið sem stendur um 0,5 til 1 m upp úr jörðinni. Það er 5 m á lengd og 4 m á breidd og snýr A-V. Innanmál þess er 6,25 m2 og lofthæð 1,8 m. Veggir eru um 0,3 m á þykkt.
Skotrauf er á norðvesturhorni byrgisins, niðurgrafinn inngangur á austurhlið.

Tóftir við Grunnuvötn (sel)

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Í skjólgóðum hvammi sunnan við Grunnavatn nyrðra virðast vera jarðlægar leifar af mannvirkjum, hugsanlegi seli. Staðurinn er einmitt ákjósanlegur fyrir sel. Erfitt að greina nokkra húsaskipan en gætu verið tvö eða þrjú mannvirki.

Stekkur og rétt (stekkur/rétt)

Urriðakot

Stekkurinn.

Í örnefnaskrá segir um „Stekkatúnið: Svo voru Máríuvellir einnig kallaðir“. „Stekkur frá V[ífilsstöðum],“segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. „Í hraunjaðrinum fast uppi við Vífilsstað[a]hlíð beint vestur af Grímssetri er lítil flöt og kallast sá hluti hennar, sem nær er hlíðinni, Maríuvellir, en hlutinn, sem er nær hrauninu, Stekkjartún. Í Stekkjartúni var rétt eða rústir af rétt. Þegar Flóttavegurinn [nú Elliðavatnsvegur], sem liggur um norðurjaðar flatarinnar, var lagður, var réttin rifin,“ segir í örnefnaskrá Svans Pálssonar. „Á flötum niður undan Svínahlíð norður með var Stekkurinn í svonefndu Stekkatúni og þar norðar voru Réttarflatir og þar Réttir rétt við brún Svínahrauns,“ segir í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar.
Rúst stekksins á Maríuvöllum er um 10 m vestur af rótum Svínahlíðar og hefur honum verið raskað því að aðeins er að finna neðstu steinaröðina. Virðist lengd hans hafa verið um 7 m og breidd 4 m. Réttin er komin undir veg.

Vífilsstaðasel (sel)

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Vífilsstaðasel er austan við línuveg í skjólgóðum og grasi grónum hvammi.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Vífilsstaði segir m.a. um Vífilsstaðasel og nágrenni: „Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalaholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða. Þaðan liggur línan um Básinn eða Vatnsendabás austan í Sandahlíð og svo í Arnarbæli syðst í hlíðinni. Það er nefnt í fornu bréfi frá upphafi 16. aldar Arnarstapi. Héðan af Arnarbæli, sem er hornmark, liggur línan niður um Vatnsásinn eða Grunnvatnsás og þaðan upp í Víkurholtsvörðu á Víkurholti eystra. Þá er Víkurholt nyrðra. Á Arnabæli er að finna vörðu og koparbolta í klöpp. Varðan hefur verið lagfærð einhvern tíma og þá ekki verið vel hlaðin.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hér norðar á holtinu er Vífilsstaðasel. Sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og hér vestur af liggur Selstígurinn. Milli Sandahlíðar að austan og Vífilsstaðahlíðar að vestan, norðan Vatnaássins, liggja Grunnuvötn, tjarnir og grónar grundir. Þar var slægnapláss fyrr meir og mótekja.“
Þarna eru leifar af nýrri og eldri selstöðum, þær nýrri trúlega frá tveimur byggingarskeiðum sem kunna að hafa verið í notkun samtímis.
Elstu selstöðurnar eru undir brekku austan við þær yngri og virðist sem þar sé finna leifar af tveimur skeiðum. Þær eru nú mjög óljósar og er erfitt að átta sig á húsaskipan. Virðast þær vera í samræmi við eldri gerð selja (klasa), þ.e. óreglulegri og með minni rýmum. Þegar bæjarskipan komst á, eins og við þekkjum hana best frá 18. og 19. öld, urðu selstöðurnar (rýmin) bæði stærri og reglulegri.
Selið elsta er klasi þriggja rýma sem hvert um sig er mest 4 x 3 m að stærð; veggir eru útflattir.
Fáeinum metrum suðvestan við klasann eru stekkjaleifar. Stekkurinn hefur verið 8 m á lengd og 1,8 m á breidd innanmáli. Grjót hefur verið rifið úr stekknum og notað í önnur mannvirki á svæðinu.
Kví er undir klettavegg sunnan í kvosinni. Hún er 2 x 3 m að innanmáli.
Vatnsstæði er í miðri kvosinni vestan selstöðunnar.
Selin nýrri eru aflöng og sambyggð, um 30 x 10 m og snúa í N-S. Fimm rými eru í þeim, öll í röð og inngangur í þau á vesturhlið; tvö þau austustu virðast elst og af fyrra byggingarskeiði, þau standa innar en hin rýmin þrjú. Veggir tóftanna eru um 2-3 m breiðir og um 0,5 -1,2 m háir.
Stekkur er uppi á brún skammt norðaustur af selinu og hefur verið hlaðinn oftar en einu sinni. Hann tilheyrir nær örugglega yngri selstöðunum. Rýmin eru þrjú, það sem næst er selinu er 1,80 m á breidd og 9 m á lengd, hið næsta, sem virðist jafngamalt, er 4 m á breidd og 3 m á lengd, en hið þriðja, sem virðist elst, hefur verið 3,5 m á breidd og hið minnsta 2 m á lengd, sennilega lengri; yngri stekkjarleifarnar eru vafalaust endurhlaðnar úr þessu elsta rými stekkjarins.

Selstígurinn (leið)

Urriðakot

Urriðakot – örnefni.

Í örnefnalýsingu um Vífilsstaði í örnefnum og leiðir í landi Garðabæjar segir: „Heiman frá Vífilsstöðum lá selstígurinn suður á Maríuflöt, suður með hraunjaðrinum, sneiddi sig upp Ljósukollulág upp á hálsinn og suður í lægðadragið þar sem Vífilsstaðasel stóð.“
Í annarri örnefnaskrá segir um sama stíg: „Hann mun hafa legið heiman frá bæ, undir Svínahlíð og með Vífilsstaðahlíð skáhalt upp eftir Ljóskollulág upp á hálsinn að Selinu austan Víkurholta.“
Stíginn má enn sjá á köflum frá Flóttamannavegi í norðri og meðfram malarstíg sem liggur til suðurs. Erfitt er að rekja hann, týnist í skóginum og mikil uppblástur hefur orðið á svæðinu þannig að hann er víða horfin. Í gegnum Ljóskollulág sést ennþá smá partar af honum en það gæti líka verið eftir nýjar leiðir. Uppi á hæðinni er varða sem hefur sennilega verið hlaðinn við Selstíginn.

Urriðakot (býli)

Urriðakot

Urriðakot.

Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563, ein 19 jarða sem konungur fær í skiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var kotið árið 1703 hálfbýli í eigu konungs, ekki með „fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbýlisjarðir“. Ábúendur voru þeir Þórður Magnússon og Ólafur Ingimundarson en í Manntali sama árs er í stað hins síðarnefnda tilgreindur Guðmundur Nikulásson. Hjá Þórði bjó ein þjónustustúlka en með hinum 27 ára gamla Guðmundi var móðir hans, Ása Ólafsdóttir, ekkja, yngri systur hans, Steinunn og Þóra, og Ásdís Ásbjarnardóttir, 6 ára „sveitarómagi“.
Í Manntali árið 1801 bjuggu á jörðinni hjónin Hannes Jónsson og Þorgerður Þorsteinsdóttir með Sigríði, 15 ára dóttur, og þrjá litla syni 2-5 ára. 15 árum síðar var dóttirin flutt að heiman en fæðst hafði önnur, Kristín. Þegar Manntal var tekið árið 1845 var þetta fólk á brott og Eyjúlfur nokkur Gíslason, 22 ára, orðinn bóndi í Urriðakot og Guðrún Gísladóttir 24 ára, ráðskona hjá honum. Ef til vill hafa þau verið systkini en bæði voru úr Ölvesi og þaðan var líka 16 ára gömul vinnukona þeirra, Þuríður Þorgeirsdóttir. Samkvæmt Jarðatali var Urriðakot komið í bændaeign árið 1847 og ábúandi einn leigjandi. Jörðin er einnig nefnd í Jarðabók 1861. 1932 var hún samkvæmt Fasteignabók í einkaeigu og sjálfsábúð eða sjálfsnytjun. Hún lagðist í eyði um miðja 20. öldina en var áfram nytjuð frá næstu jörðinni Setbergi.

Urriðakot

Urriðakot – kort 1908.

Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld alls 20 álnir. Hún skiptist til helminga milli ábúenda og gallst í fiski í kaupstað, áður heim til Bessastaða. Leigukúgildi var eitt, hálft hjá hvorum og greitt í smjöri til Bessastaða. Ábúendur uppyngdu það sjálfir. Þórður átti tvær kýr og eitt hross og Ólafur eina kýr að hálfu en jörðin fóðraði þrjár. Kvaðir voru mannslán um vertíð sem þeir guldu til skiptis, dagsláttur og lambsfóður af báðum og tveir hríshestar árlega. Þegar Páll Beyer varð umboðsmaður konungs tók hann þó aðeins einn á tveimur árum. Aðrar kvaðir, svo sem skipaferðir og heyhestur til fálka sem bændum bar að bera, voru sjaldan heimtar. Ábúendur lögðu uppbótarlaust við til húsabótar í fjórtán ár og Þórður kvartaði yfir að hafa tekið við húsunum í lélegu ásigkomulagi. Þeir höfðu hrístekju til kolagjörðar og eldiviðar í landi konungs, torfristu og stungu. Engjar voru votlendar. Nokkur silungsveiði var í landareigninni en hún þó ekki stunduð. Dýrleiki jarðarinnar taldist 3 1/3 hundruð árið 1847 en 17,4 ný hundruð 1861. Þegar kom fram á 20. öld var matsverðið 111-115 hundruð kr., kúgildi fimm, sauðir 140-50 og hrossin eitt eða tvö.
Urriðakotstún hafði mest allt verið sléttað þegar Túnakort var gert árið 1918, þá 3,3 ha og 14 árum síðar fengust 154 hestburðir í töðu en 115 í útheyi. Vestan túnsins voru engjar, mýrlendi og móarætur.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort 1918.

Matjurtagarðar voru 780 m² og gáfu 13 tunnur. Urriðakot átti landamerki á móti Setbergi að vestan, Vífilstöðum að norðan og austan og Garðakirkju að sunnan þar sem mættist heimaland þess og afréttarlandið.
Á Túnakorti 1918 sést Urriðakot í miðju túni og samanstendur úr sjö sambyggðum húsum. Þar af sýnast tvö þau suðvestustu vera úr torfi en tvö þau norðaustustu úr steini og gengur aftur af þeim minna torfhús. Tvö hús eru auk þess sýnd sem opnar tóftir. Stefnan er norðvestur-suðaustur. Skv. Fasteignabók var þarna komið timburhús með vatnsveitu árið 1932. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Bærinn stóð austur og upp frá Urriðavatni, við það kennt […] því sem næst í miðju túni.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Urriðakot er jörð í Garðabæ. Bærinn stóð suðvestan í Urriðakotsholti, norðaustan við Urriðakotsvatn. Bærinn stóð nálægt miðju túninu.“ Túnið lá í halla í holtinu.
Á bæjarhólnum í dag eru leifar af yngsta bænum frá miðri síðustu öld en Urriðakot fór í eyði 1958. Grunnarnir af húsunum erum allir mjög greinilegir. Það eru háir steyptir veggir sem en standa og bárujárnsleifar inni í tóftunum. Það er sennilegast að bærinn hafi alltaf staði á núverandi bæjarstæði. Bæjarhólinn er nokkuð hár og breiður og hægt er að sjá á vettvangi að hólinn er manngerður. Það er því nokkuð öruggt að undir yngstu húsunum er að finna mannvistarleifar.

Landamerki Urriðakots

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól.

Í Landamerkjaskrá frá 1890 segir: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni úr henni í Álp[t]artanga, þaðan í hellu sem er í miðjum hrauntanganum, kölluð Sílingarhella úr henni í uppmjóan háan Klett með Klofavörðu uppá sín megin [við] Stóra Krók og í gamlar Fjárrjettargrjótgirðingar í moldarhrauni, og uppí áðurnefnda Urriðakots Fjárhellra.“ Undir skjalið rita Nikulás Jónsson, eigandi Urriðakots, Jón Þorvarðsson, bóndi í Urriðakoti og Jón Guðmundsson í Setbergi en Þórarinn Böðvarsson gerir eftirfarandi athugasemd: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju að öðru leyti en því, að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það, sem Vífilstaðir eiga sjerstaklega.“ Urriðakot er innan hinna fornu merkja á landi Garðakirkju á Álftanesi.

Urriðakotstúngarður (garður)

Á Túnakorti 1918 má sjá að túngarður liggur kringum túnið að sunnan, austan og norðan. Í Fasteignabók 1932 kemur fram að algirt var kringum Urriðakot með túngarði og girðingu. Í Örnefnalýsingu 1958 segir: „

Urriðavatn

Urriðavatn.

Urriðakotsbærinn stóð í Urriðakotstúni nær miðju, umhverfis túnið var Urriðakotstúngarður hlaðinn af torfi og grjóti. Suðurgarður sunnan að túninu. Austurtúngarður að ofan og Vesturtúngarður vestan.“ Örnefnaskrá 1964 ber hins vegar saman við Túnakortið: „Urriðakotstúngarður: garður af torfi og grjóti umhverfis túnið, að norðan, austan og ofan og sunnan, allt niður í Dýjamýri.“

Urriðakot

Urriðakot – bærinn 1918.

Túngarðurinn er ágætlega varðveittur og er auðvelt að rekja hann allan eins og hann er á túnakortinu frá 1918. Sést vel að garðurinn er hlaðinn úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er frá 30 cm og allt að 1 metra. Hann hefur þó á stöku stað sokkið töluvert en með góðu móti væri hægt að varðveita hann allan og lagfæra þar sem hann lægstur. Það er ekki ólíklegt að garðurinn sé í grunninn frá elstu tíð.

Fitin (álagablettur)
Skv. Örnefnaskrá 1964 er Fitin „slétt flöt niður við Vatnið, alveg út við túngarð“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir Svanur Pálsson: „Norðan við Ferginsflöt á vatnsbakkanum er Fitin. Hún er utan túngarðsins, en varð síðan innan túngirðingar. Hún er álagablettur, sem ekki má slá. Í minni móður minnar var hún einu sinni slegin, en veturinn eftir drapst besta kýrin.“

Brunnur (vatnsból)

Urriðakot

Urriðakot – brunnur.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Brunnurinn, „upphlaðinn af grjóti neðst í túninu sunnan til við Niðurflöt“ og „stendur enn“. Frá honum liggur Brunnstígurinn „heim til fjóss og bæjar“ og lækjarsitra eða Brunnrás: „norð-vestur í vatn neðan túns“. Í ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Neðst í Niðurflötinni var Brunnurinn vel upphlaðinn brunnur. Frá honum lá Brunngatan heim til bæjar. Frá Brunninum lá Brunnrásin niður úr Flötinni og eftir mýrinni út í Vatnið.“ Skv. Örnefnalýsingu 1988 er Brunnstígur eða Brunngata sama og Suðurtraðir: „Neðan við traðirnar, sem lágu frá Urriðakoti, í mýrarjaðrinum rétt utan við túnið var brunnur, en leiðin frá brunninum til bæjar lá um traðirnar. Frá brunninum liggur Brunnrásin eftir mýrinni út í vatnið. Í vatninu hér fyrir neðan er pyttur, sem aldrei leggur.“
Brunnurinn er sokkin mjög en þó má sjá leifar af hlöðnu grjóti ennþá.

Dýjakrókahóll (álfabyggð)

Urriðakot

Dýjakrókshóll (h.m. við miðja mynd).

Skv. Örnefnaskrá 1964 er Dýjakrókshóll „melhóll í holtinu ofanvert við Dýjakrók“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir Svanur Pálsson: „Mýrin sunnan við túnið heitir Dýjamýri. […] Í austurhorni Dýjamýrar eru uppsprettur undan holtinu, og kallast það svæði Dýjakrókar. Ofan við Dýjakróka er lítill hóll, Dýjakrókahóll. Í hólnum var talið búa huldufólk og sá afi minn Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti, konu, sem hann þekkti ekki sækja vatn í fötum í Dýjakróka snemma á þessari öld.“

Dagmálavarða (eyktarmark)

Dagmálavarða

Dagmálavarða.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Dagmálavarða sem var eyktarmark „sunnan í Urriðakotsholti“ en í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, […] er Dagmálavarða, eyktamark frá Urriðakoti, en norðar uppi á háholtinu er Stóravarða.“ Í ódagsettri Örnefnaskrá er þessi varða einnig kölluð Litlavarða og staðsett sunnan Stóruvörðu.
Varðan stendur nokkuð vel ennþá og er um 80 cm á hæð.

Stóravarða (varða)

Stóravarða

Stóravarða.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd „Stóravarða: Stór varða á Urriðakotsholti, þar sem það er hæst. Þar er nú staurasamstæða fyrir raflínu á Suðurnes.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Á holtinu beint upp af fjárhúsunum efst á Austurtúninu, […] er Dagmálavarða […], en norðar uppi á háholtinu, er Stóravarða. Hana hlóð Jón Þorvarðarson, afi heimildarmanns, og var hún mjög vel hlaðin, en hefur nú verið spillt.“
Varðan stendur ennþá á klöppinni, neðst í henni er óvenjustórt grjót. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Urriðakotsvegur sem „um eða eftir 1920 var […] lagður heiman frá Urriðakoti yfir Vetrarmýrina og hraunið yfir í Setbergsholt og áfram til Hafnarfjarðar“. Í ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Heiman frá túngarðshliði liggur Urriðakotsvegur norður holtið og beygir síðan niður á mýrina, sem nefnist Vetrarmýri. Eftir mýrinni rann lækjarsitra, nefndist þar Keldan og Keldubrú yfir hana og vegurinn svo áfram upp á hraunið.“ Í Örnefnalýsingu er vegurinn kallaður Urriðakotsvegur eldri og talinn „lagður um 1930 norðvestur úr túninu, yfir mýrina og Hrauntangann, gegnum túnið á Setbergi á Setbergsveg vestan vð bæinn á Setbergi. Hann var lagður sem bílvegur og var þá hætt að nota Urriðakotsveg eldri, […] en sá vegur var ekki bílfær.“

Stekkjartúnsrétt (rétt)

Urriðakot

Stekkjartúnsrétt.

Í Örnefnaskrá 1964 er Stekkatúnið sagt vera „gróinn hvammur kringum stekkinn“.
„Stekkatúnsrétt: Var þarna, en er nú horfin með öllu. Þarna hafa nú verið byggðir sumarbústaðir þrátt fyrir vatnsleysi.“ Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún. Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauniðu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir svo: „Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er Stekkjartún. Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus […]“. Skv. Örnefnaskránni 1964 virðist sú rétt hins vegar hafa verið kölluð Réttin gamla.

Réttin gamla (rétt)

Urriðakot

Gamla réttin.

Í Örnefnaskrá 1964 er auk Stekkatúnsréttar nefnd Réttin gamla sem var „í hvammi neðan við Kúadali […] í hraunbrúninni. Innst í réttinni er lítill skúti.“ Í Ódagsettri örnefnalýsingu er hins vegar talið að um sömu rétt sé að ræða en eftir að Stekkatún hefur verið nefnt segir: „Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar.“ Loks segir Svanur Pálsson í Örnefnalýsingu 1988: „Við hraunið, nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns.
Nafnið Réttin gamla virðist gefa hugmynd um að hún sé eldri en Stekkatúnsrétt. Um aldur hinnar síðarnefndu er ekki getið en hin fyrrnefnda var ekki byggð fyrr en eftir 1906, fæðingarár heimildarmannsins, Guðbjargar Guðmundsdóttur. Af staðsetningunni „í hraunbrúninni“ að dæma er Réttin gamla þó líklega sú sem Guðbjörg mundi eftir „við hraunið“ og taldi nafnlausa.

Beitarhús (fjárskýli)

Urriðakotshraun

Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Þegar Stekkjartúnsrétt og „önnur rétt nafnlaus“ hafa verið nefndar segir í Örnefnalýsingu 1988: „Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsarústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun.“

Sauðahellirinn syðri (fjárskjól)

Þorsteinshellir

Sauðahellirinn syðri – fjárhellir.

Skv. Örnefnaskrá 1964 var Kargi „lítill partur hraunsins undir Svarthömrum“ en „í bungu þeirri syðst á Flatahrauni voru margir hellar, þar á meðal“ Sauðahellirinn syðri. „Hlaðinn upp munninn. Skiftist í tvennt er inn var komið. Allgóður.“ Í B-gerð segir: „Þar hefur verið hlaðið, svo þröngan gang er inn að ganga, sem skiftist í tvennt í syðri- og nyrðri hellir. Þarna eru fleiri hellar, sumir manngengir.“
Eftir að Fjárhústóftin nyrðri hefur verið talin til segir í ódagsettri örnefnalýsingu: „[…] nokkru innar er í hrauninu svo kallað Tjarnholtsgreni móts við Mið-Tjarnholt. Spölkorn hér fyrir innan, eða sunnan liggur Gjárréttarstígurinn upp á hraunið og skáhalt yfir það. Þar er komið að Sauðahellinum syðra. En Sauðahellisvarða er þar rétt hjá.“ Skv. Örnefnalýsingu 1988 er Selgjárhellir í neðri enda Selgjár og „örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir.
Sauðahellirinn er norðan við vörðu við Gjáarréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingum í Vífilsstaðalandi. Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir“, þ.e. sá nyrðri, „en fyrir minni heimildarmanns.“

Selgjá (selstöður)

Selgjá

Selgjá.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Grunn en allbreið gjá syðst í Urriðakotshrauni. Nær allt suður í Hrafnagjá, við Gjáarrétt. Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Einnig er þar: „Nær hún allt frá Sauðahelli suður á Norðurhellagjárbarm.“ Selgjárbarmar eru tveir, „annar að sunnan, hinn að vestan“, Norðurhellnagjárbarmur syðri er „nær Vífilsstaðahlíð“ en Norðurhellnagjárbarmur vestri „nær Tjarnholtinu“. Í Ódagsettri Örnefnalýsingu segir: „Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18.öld. Við Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er þar Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt: Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“

Selgjá

Seltóftir í Selgjá.

Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. […] Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar.“ Í lýsingu á gjánni frá 1983 segir: „Á vinstri hönd, eða til suðurs, sjáum við af brúninni grunna, en nokkuð breiða gjá í hrauninu, sem er framhald af Búrfellsgjá. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“ (Þ.J. og Ó.K.: 27). Minjarnar í Selgjá eru friðlýstar: „Urriðavatn: Seltóftir margar, hellar og önnur mannvirki í og við norðurenda Selgjár. Skjal undirritað af KE 30.04.1964. Þinglýst 05.05.1964 .“
Sá Selgjárbarmur sem er nær Vífilsstaðahlíð og í Örnefnaskrá 1964 kallaður „syðri“ er skv. korti Örnefnastofnunar og öðrum kortum í raun norðaustari barmurinn en sá sem er nær Tjarnholti og kallaður „vestri“ er sá suðvestari og getur þetta valdið ruglingi. Norðurhellnagjárbarmur syðri í Örnefnaskrá er eftir því sem næst verður komist sami og Ódagsett örnefnalýsing nefnir Selgjárbarm nyrðri, og Norðurhellnagjárbarmur vestri í Örnefnaskrá sami og Ódagsett örnefnalýsing nefnir Selgjárbarm syðri.

Selgjársel (sel)

Selgjá

Seltóft í Selgjá.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjá: „Þarna eru Norðurhellasel. Selstöð frá Álftanesbæjunum.“ Eða: „Í þessari gjá mun vera að finna Norðurhellnasel Álftnesinga 1703.“ Selin í gjánni voru kölluð Norðurhellasel eða Selgjársel.
Í A-gerð er nánari umfjöllun um Selgjársel: „Selatættur eru þarna margar hlaðnar upp við Barmana bæði sunnan og vestan. Mun þarna um 11 samstæður, með nær 30 byggingum bæði húsarústum og kvíarústum.“ Í B-gerð eru þessar upplýsingar um Selgjársel: „Það mun hafa verið suður nálægt miðri gjá við austurbarm. Eru þar allmiklar tættur, bæði húsa og byrgja. Er hægt að telja þar alls níu hús og byrgi. Svo að í allri Selgjánni eru nær 20 húsarústir og byrgisrústir.“
Öll selin í gjánni voru kölluð Norðurhellnasel. Ódagsett örnefnalýsing hefur þetta: „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu, í 11 sambyggingum, því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld. […] Selstæðið þarna var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellnabarmur syðri.“ Í grein frá 1983 segja Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: „Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en t.d. Vífilstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barma gjárinnar beggja vegna en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Athyglisvert er, að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig, að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.“

Selgjárhellir (fjárskjól)

Selgjárhellir

Selgjárhellir.

Í Örnefnaskrá 1964 segir um Selgjárhelli: „Skarð er í norður brún gjárinnar, leynir á sér. Þar inn af er allmikill hellir, gott fjárskjól.“ Muninn veit við suðri. Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir: „Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir Selgjárbyrgin og Selgjárselin […]“. Í Örnefnalýsingu 1988 segir: „Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli.“

Norðurhellar (fjárskjól)

Selgjárhellir

Norðurhellar.

Minnst er á Norðurhella í Jarðabók Árna og Páls 1703 og síðan í Sóknarlýsingu séra Árna Helgasonar 1842: „Hér og hvar eru líka hellar, sem brúkast fénaði til skjóls á vetrum. Svokallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð […]“. Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norðurhellar: Þeir eru í Selgjánni. Svo segir í Sóknarlýsingu síra Árna Helgasonar í Görðum 1842. Einnig segir frá þessu í lögfesti Þorkels prests Arngrímssonar 1661.“ Í Örnefnalýsingu 1988 segir svo: „Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli.“ E.t.v. er Norðurhellir og Selgjárhellir einn og sá sami.

Sauðahellirinn nyrðri (fjárskjól)

Urriðakot

Sauðahellirinn nyrðri undir Vífilsstaðahlíð.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Sauðahellir, „allgóður fjárhellir í hraunbrúninni neðan til við Kolanef“ í Vífilsstaðahlíð. „Þar hafðir sauðir frá Urriðakoti.“ Í Ódagsettri örnefnalýsingu segir að landamerki Urriðakots liggi frá Maríuhellum „suður eftir hraunbrúninni, og var þar ekki örnefni utan Sauðahellirinn nyrðri í brúninni móti Kolanefi.“ Skv. Landamerkjaskrá lá línan frá Maríuhellum „frammí vörðuna sín megin á Norðurhellragjáarbarm […]“. Í Örnefnalýsingu Urriðakots 1988 segir Svanur Pálsson að þetta sé í norðaustur frá rústum beitarhúss: „í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefsflöt […] er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðina) allt frá því, að heimildarmaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu.“

Urriðaholt – Stríðsminjar

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Minjar um veru breska og bandaríska hersins í Urriðaholti eru mikilsverð heimild um þátt Íslands í seinni heimsstyrjöld. Leifar mannvirkjanna, sem reist voru í stríðinu, eru minnisvarði um vígbúnað bandamanna gegn ógnum Þriðja ríkisins. Þær hafa jafnvel alþjóðlegt minjagildi. Ekki var saga hverrar rústar eða hver rúst skráð nákvæmlega, en herminjar eru ekki verndaðar í þjóðminjalögunum. Þó hefur sú hefð skapast á síðustu árum að slíka minjar eru skráðar en ekki mældar upp nákvæmlega eins og gert er þegar um fornleifar er að tefla. Eins og sést á kortinu er um allstórt svæði að ræða og fjöldi húsgrunna og annarra minja mikill. Það er Fornleifaverndar ríkisins að ákvarða nánar um þetta svæði, hvort þurfi að skrá minjarnar enn frekar eða friða, en auðvitað væri mjög áhugavert að skoða sögu þessara minja með því að ráðast í heimildavinnu um hvað fór fram á staðnum.

Urriðaholt

Urriðaholt – Camp Russel.

Ekki er að sjá að hermannvirkin hafi raskað minjum á svæðinu, en umsvifin hafa verið töluverð. Byggðin var austast í Urriðaholti, en holtið er gróðurlítið og grýtt á því svæði. Gefur þó augaleið að ábúendur í Urriðakoti hafi orðið hennar vör með áþreifanlegum hætti.
Við lok heimsstyrjaldarinnar glötuðu hernaðarmannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru nýtt til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð. Pólitískt andrúmsloft á kaldastríðsárunum olli því að víða var hart gengið fram í að eyða ummerkjum um veru hersins á Íslandi. Þeim mun athyglisverðari verða þá þær stríðssögulegu minjar, sem orðið hafa eftir, og hefur áhugi almennings og ferðamanna vissulega aukist á þeim. Stofnað hefur verið stríðsminjasafn á Austfjörðum sem verður án efa öðrum hvatning til varðveislu heimilda um þetta tímabil í Íslandssögunni.
Herminjar eru margar enn greinilegar í Urriðaholti, fæstar heillegar, en allt um það áþreifanlegur vottur um hlutdeild Íslands í orrustunni um Atlantshaf. Ber mest á steinsteyptri stjórnstöðinni, nokkrum steyptum grunnum, litlum turni og hliði inn á svæðið.

Heimildir:
-Heiðmörk og Sandahlíð í Garðabæ, Fornleifaskráning vegna deiluskipulags – Rannsóknarskýrsla 2013.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags á Urriðaholti í Garðabæ, febrúar 2005.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28813

Sel í Selgjá

Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja

Ný glæsileg Krýsuvíkurkirkja er nú komin á grunn sinn á Krýsuvíkurtorfunni þar sem eins kirkja var upphaflega byggð þar 1957.

Var kirkjan hífð á sinn stað rétt yfir kl. 11 laugardaginn 10. okt. 2020 í blíðskaparveðri og gekk hífingin eins og í sögu. Stóran krana þurfti til að hífa kirkjuna sem er 6,8 tonn að þyngd.

Krýsuvíkurkirkja

Flutningur á nýju kirkjunni gekk vel undir öruggri lögreglufylgd.

Þegar kirkjan var komin á sinn stað ávarpaði Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju viðstadda og sr. Gunnþór Ingason var með stutta helgistund.

Ný Krýsuvíkurkirkja, sem verið hefur í smíðum um tíu ára skeið hjá nemendum trésmíðadeildar Tækniskólans í Hafnarfirði, var í vikunni hífð af jörðu og sett á dráttarvagn.

Kirkjan var síðan flutt með dráttarbifreið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur daginn áður en hún var híft á stæði gömlu kirkjunnar norðan Ræningjahóls.

Fyrri kirkja í Krýsuvík var byggð árið 1857 en brann til kaldra kola í eldsvoða af völdum íkveikju 2. janúar 2010. Strax í kjölfarið kom fram áhugi meðal stjórnenda Iðnskólans í Hafnarfirði, sem þá var, á að smíði nýrrar kirkju yrði verkefni trésmíðanema skólans. Hljómgrunnur var fyrir slíku og þar með komst málið á hreyfingu milli stjórnenda skólans og kirkjunnar fólks.

Nákvæmum fyrirmyndum hefur verið fylgt við smíði kirkjunnar, en starfsmenn Þjóðminjasafnsins tóku þá gömlu út mjög nákvæmlega árið 2003; mældu, mynduðu og skráðu. Hafa þær upplýsingar í raun gert þessa vandasömu smíði gerlega, en hún hefur tekið rúman áratug.

Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja híft á gamla kirkjustæðið.

Kirkjan, sem byggð var 1857 af Beinteini Stefánssyni smið, hafði þá verið í mjög lélegu ástandi, var þá endurbyggð og friðuð.

Hún var sóknarkirkja allt fram undir 1910 en aflögð 1917. Hún var notuð m.a. til íbúðar frá 1929.

Engir gamlir kirkjumunir hafa varðveist og innanstokksmunir af nýlegri og einfaldari gerð. Mjög var farið að sjá á kirkjunni um 1980, rúður brotnar og bárujárn ryðgað í gegn. Skátar í Skátafélaginu Hraunbúum, sem voru með mótssvæði sitt undir hlíðum Bæjarfells, gerðu við helstu skemmdir, lokuðu húsinu og máluðu kirkjuna en Þjóðminjasafn greiddi fyrir efni. Þá var svæðið allt girt af en áður hafði fé gengið frítt um kirkjugarðinn.

Krýsuvíkurkirkja

Nýja kirkjan komin á gamla kirkjustæðið.

Viðamiklar viðgerðir hófust svo 1986 og var kirkjan færð til upprunalegri gerðar. Var kirkjan vinsæll áningarstaður og fleiri þúsund komu í kirkjuna árlega og skrifuðu í gestabók sem þar var.

Stofnað var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju árið 2010 með það að markmiði að byggja nýja kirkju í upprunalegri mynd en góðar teikningar voru til af kirkjunni. Þjóðminjasafnið gaf Vinafélaginu tryggingabætur fyrir kirkjuna til að kosta efni í endurbygginguna.

Byggingarfulltrúi samþykkti 11. ágúst sl. byggingarleyfi fyrir kirkjuna og Ríkiseignir, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa óskað eftir að gefa aftur lóð Krýsuvíkurkirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar, 7.097 m² lóð.

Hafnarfjarðarkaupstaður mun gera lóðarleigusamning við Hafnarfjarðarkirkju um lóð umhverfis kirkjuna sambærilegan og gerður er við aðrar kirkjur þar sem sveitarfélag er eigandi.

Eftirfarandi helgistund undir handleiðslu séra Gunnþórs Þ. Ingasonar fór fram við Krýsuvíkurkirkju eftir að hún hafði verið hífð á grunn gömlu kirkjunnar:

Signing og bæn: „Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags Anda, Amen. Himneski faðir, ver þínu húsi, nýsmíðaðri Krýsuvíkurkirkju í Anda þínum og verndarkrafti í Jésú nafni. Amen.“

Gunnþór Ingason

Séra Gunnþór Þ. Ingason í Krýsuvík.

Guðspjall: Matt; 5.1-10. Forn ísrk/keltnesk trúarjátning frá 7. öld: Um það bil 670 e. Kr. hóf ísrskur biskup að nafni Tírechán söfnun heimilda og frásagna af heilögum patreki í bók sína Collectanea (samsafn). Þar segir hann frá því að Patrekur hittir fyrir tvær dætur konungsins í Tara (hákonungs Íra) við uppsprettulind. Önnur þeirra spyr Patrek um Guð kristinna manna. Sem svar setur Tírechán fram eftirfarandi trúarskilgreiningu/trúarjátningu fyrir munn Patreks. Ekkert er vitað hvaðan hún er komin en hún ber augljós merki þess að hafa verið viðhöfð í liturgíunni, helgisiðum ískrar kristni:  „Guð er Guð allra manna, Guð himins og jarðar, Guð sjávar og fljóta. Guð sólar og tungls. Guð allra himneskra vera. Guð hárra fjalla, Guð lágra dala. Guð er himnum ofar og hann er í himninum og hann er undir himnunum. Himinn, jörð og haf og allt í þeim er honum bústaður. Hann andar á allt og feur öllu líf og er þó öllu ofar og undir öllu. Hann tendrar loga sólar, hann glæðir ljós nætur og stjarna. Uppsprettur býr hann til á þurru landi og eyjar í sjó. Og hann lætur stjörnur þjóna æðri ljósum. Hann á sér son sem á sér eilífð með honum og er líkur honum í hverri grein. Og hvorki er snonurinn yngri föðurnum né faðirinn eldri syninum og andi heilagur andar í þeim.
Faðir og Sonur og Heilagur Andi eru óaðskiljanlegir.“ [þýð. Gunnþór Þ. Ingason.]

Krýsuvíkurkirkja

Verkinu lokið.

Bæn: „Himneski faðir. Þökk fyrir nýsmíðaða Krýsuvíkurkirkju og að hún skuli vera komin á sitt helga kirkjustæði í Krýsuvík. Þökk fyrir hve vel hefur tekist að smíða hana og færa hana hingað og koma henni uðð á kirkjuhólinn á sinn rétta stað, þar sem fyrri kirkjur í Krýsuvík hafa löngum staðið. Þökk fyrir alla þá er komu að verkunum sem til þessa hefur leitt, Vinafélagi kirkjunnar sem hefur staðið fyrir þeim verkum, og Iðnskólanna og Tækniskólann, er sáu um kirkjusmíðina meðs ínu góða starfsliði, og aðra að auki sem liðsinnt hafa. Og nú biðjum við þig um að vernda kirkjuna, bægja hættum frá henni, blessa vígslu hennar og vernda og blessa kirkjuna á komanda tíð sem helgað Guðshús, sem verndað er og varðveitt af umhyggju og elsku þinni. Og blessa þú helgihald endurreistrar Krýsuvíkurkirkju og gildi hennar og vægi fyrir kristni og þjóðmenningu hér á landi og kristni í heimi í Jesú nafni. Faðir vor“…

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja kominn á systravettvang.

Keltnesk blessu:
Djúpur friður berist þér í bylgjuflæði,
friður í streymandi andblænum,
friður frá jarðarkyrrð,
friður frá skínandi himinsstjörnum,
djúpur friður frá friðarsyninum góða.
Blessun Guðs gefist þér og reynist.

Framangreind athöfn styrkir vantrúaða í þeirri vissu að „Guð“ er í eðli sínu myndlíking. Uppspretta hins eiginlega „guðs“ er að finna í náttúrunni; allt umleikis – frá upphafi lífs til loka þess. Allt líf dafnar og hrærist í henni og hún er óumflýjanlegur hluti af tilverunni. Krýsuvíkurkirkja verður í framtíðinni tákn staðfestu þess…

Hér má sjá nokkrar myndir af endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju s.l. tíu ár sem og flutningi hennar á á gamla kirkjustæðið.

Heimildir m.a.:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/08/krysuvikurkirkju_lyft_a_vorubilspall/ – 08.10.2020.
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/ny-krysuvikurkirkja-komin-i-krysuvik

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja hífð á gamla kirkjustæðið.