Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú haldinn í 23. sinn. Umsjónamaður leiksins er Guðni Gíslason hjá Hönnunarhúsinu (Fjarðarfréttum).
Ratleikskortin má m.a. finna í sundlaugum bæjarins, á skrifstofu Ráðhússins og á N1 við Lækjargötu. Góðar göngur….

1. Fornubúðir (verslun)

Fornubúðir

Fornubúðir

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þá er komið að Óseyrartjörn. Hér tekur Grandinn mikinn sveig út í höfnina. Nefnist þar Kringla, en innsti hluti Grandans heitir Háigrandi og Grandahöfuð. Hér stóð verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð í eina tíð, Fornubúðir.“
Á síðustu öld sást enn móta fyrir grunnum verslunarhúsa á Grandanum, en þær eru nú að mestu horfnar.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón.

2. Móðhola (draugur) – Hvaleyrarhraun

Móðhola

Móðhola.

Vesturlandamerki Hvaleyrar að norðanverðu lá niður í Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem alfaraleiðin lá upp á Kapelluhraunið (hún var því miður eyðilögð við jarðvegsraskið í hrauninu). Frá Þórðarvík og innar nefnast Gjögur, og liggur leiðin innanvert við þau. Skarfaklettur er innarlega á Gjögrunum og enn innar Háanef. Suður af því liggur leiðin hjá djúpri gjótu, nefnist Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í. Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom af þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Enn er þó allur varinn góður í gjótunni; merki hafa horfið úr henni án skýringa.

3. Miðaftanshóll (landamerki, járnbraut)

Miðaftanshóll

Miðaftanshóll.

Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni. Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Vegagerðinni var aldrei lokið, eins og svo oft á þessum tíma.
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt. Varðan á hólnum er fyrrum hornmark milli landa Garðalands, Hafnarfjarðarlands og landa Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða.

4. Hagakotsstígur (selstígur)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafin upp mannvirki frá landnámstímanum sem hafa verið túlkuð sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, fjósi og húsi til mjólkurvinnslu og ostagerðar sem og soðholu. Þá eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Selsstaðan hefur væntanlega verið frá Hofstöðum og liggur selsstígurinn um Hagakot og Hafnarfjarðarhraun að Urriðakoti.

5. Gráhella (fjárhús)

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Í örnefnalýsingu fyrir Setberg segir m.a.: „Landamerkjalínan liggur hér upp á hraunið, sem nefnist Gráhelluhraun, og er nú tunga þessi öll undir umsjón Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hraunið er kennt við stóran stein, Gráhellu; við hana vestanverða eru Gráhellutættur eftir stekk eða fjárhús. Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu, þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Kethellir, Kershellir og Kjöthellir.“

6. Setbergshlíð (fjárhús)

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar komið er fyrir Háanef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi. Hlaðnir veggir hússins er mjög vel greinilegir, sem og heystæðið. Á brúninni sunnan Húsatúns er Húsatúnsvarða. Mikil sumarumferð var um Selvogsgötuna fyrrum, en hún liggur í gegnum Setbergsselið. Vegna þessa ákvað Setbergsbóndinn að flytja aðstöðuna frá götunni og upp á holtið.

7. Dyngjuhóll (landamerki)

Dyngjuhóll

Varða á Dyngjuhól.

Landamerki Vífilsstaða og Urriðakots lá um Máríuhella, en Urriðakotsfjárhellir, sem þar er heyrði til Urriðakoti. Þegar haldið var suður með hraunbrúninni var fyrst fyrir Dyngjuhóll eða Hraunhóll (Hádegishóll frá Vífilsstöðum) með Dyngjuhólsvörðum. Á Dyngjuhól eru tvær markavörður. Suðvestan undan hólnum var Dyngjuhólsflöt. Sunnan við tók við Bruninn. Þar út í er Smyrilsklettur og Grásteinn, en framhjá honum lá Grásteinsstígur (nú ágætur göngustígur).

8. Flóðahjalli (stríðsminjar)

Flóðahjalli

Grjótbyrgi á Flóðahjalla.

Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum. Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flódahjallieru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.

9. Urriðakotshraun (fjárhús)

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárhús – Kjarval.

Um er að ræða „Fjárhústóftina syðri“, skv. heimildum. Það var upphaflega reist sem Sauðahús. Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum.
Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi. Í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega „Fjárrétt“.

10. Vífilsstaðaborg (fjárborg, Heiðmörk)

Vífilsstaðaborg

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Misvísandi upplýsingar voru lengi vel um staðsetningu svonefndrar „Vífilsstaðaborgar“ og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En hún fannst fyrir nokkrum árum – á ólíklegasta stað. Um er að ræða hlaðnar tvískiptar fjárhústóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Stór, hringlaga tóft, er augljóslega fjárborgin. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni og er hún að verða fórnarlamb vanrækslu. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.

11. Kringlóttagjá (hrauntjörn)

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá.

Búrfellshraun rann í fjórum hrinum fyrir u.þ.b. 8000 árum. Síðasta hrinan rann til suðurs að Valahnúkum og Kaldárhnúkum. Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg.
Í lok gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni. Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

12. Húsfellsbruni n/Húsfells (refagildra)

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind. Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Fyrrum, eftir gerð Heiðmerkurgirðingar, var sett hlið á girðinguna til þess að tryggja ábúanda Vatnsenda aðgengi með fé í land sitt þar fyrir ofan, í svonefndan Húsfellsbruna; ávallt hefði verið litið svo á að Húsfellsbruni væri í eignarlandi Vatnsenda annars vegar og Elliðavatns hins vegar og ekki nýttur af neinum öðrum. Ávallt var gengið út frá því að mörkin lægju frá Húsfelli í hól, kallaður Einiberjahlíð, sem liggur á mörkum Vatnsendalands og Garðakirkju. Úr Einiberjahlíð lágu mörkin legið í Kóngsfell. Norðan undir Húsfelli er fallega hlaðin refagildra að gamalli hefð.

13. Valahnúkar (tröll)
Valahnúkar eru taldnir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.

14. Helgafell (Kastali)

Helgafell

Kastali í Helgafelli.

Helgafell er móbergshryggur og eitt af mest áberandi fjöllunum í fjallahringnum ofan Hafnarfjarðar. Það er um 340 m hátt, víða bratt og hömrótt. Mjög vinsælt er að ganga á fjallið og er þá auðveldast að fara frá Kaldárseli upp á hrygginn norðanmegin í fjallinu. Fallegt útsýni er af Helgafelli og má meðal annars sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og landslagið liggur.
Í næsta nágrenni Hafnarfjarðar eru mörg móbergsfjöll og má þar meðal annars nefna Bláfjöll, Vífilsfell, Kóngsfell, Rauðuhnjúka, Valahnjúkar og Húsfell. Móbergshryggir, eins og fellin og hnúkarnir, hafa myndast í gosi á langri sprungu undir jökli á kuldaskeiði ísaldar.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

Efst á Helgafelli er Riddarinn. Hann átti tvífara í Brunanum (mið af sjó), en hann var fjarlægður vegna rasks á sínum tíma – umhugsunarlaust. Suðaustan í Helgafelli er hár klettaveggur, nefndur Kastalinn.
Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar endurnýjaði útsýnisskífuna á fellinu þann 18. júní 2019.

15. Óbrinnishólahellir (fjárskjól)

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Óbrinnishólahraun er með yngstu hraunum í Hafnarfirði. Það er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak. Í Óbrinnishólakeri, sem er mosavaxin hrauntjörn, er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt. Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Óbrinnishólarnir er nú óðum að hverfa vegna malartöku.

16. Brunatorfur (Þorbjarnastaðaborg)

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins efst í Brunatorfunum (Brund-, Brunn-), svonefnd Þorbjarnastaðarfjárborginni, ein sú stærsta og heillegasta í umdæmi Hafnarfjarðar. Borgin er og mjög falleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar (Skjár 1). Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Guðmundar frá Haukadal (Álfsstöðum), Jónssonar frá Fossi)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Ef að líkum lætur hefur börnunum verið bannað að ljúka verkinu, enda ekki verkfræðilega mögulegt að topphlaða svo stóra fjárborg. Þorbjarnastaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnastöðum var einmitt ættaður úr Selvogi, sem fyrr sagði.

17. Efri-Hellar (fjárhellir)

Efri-hellar

Efri-hellar – fjárskjól.

Við hraunbrún Brunans ofan Gerðis í Hraunum eru tvö fjárskjól; Neðri-hellar og Efri hellar. Í þeim síðarnefndu er hlaðið framan við tvo langa skúta í grónum bala, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru gamlir fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Skjól þessi eru dæmigerð fyrir fjárskjól fyrri tíma – þegar sérstaklega hönnuð hús eða skjól, önnur en fjárborgir, fyrir fé þekktust ekki. Ofan við hellana var Bruninn jafnan nefndur Brenna.
Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellrar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast.

18. Sigurðarskúti (fjárhellir, falleg ásýnd)

Sigurðarskúti

Sigurðarskúti.

Norðan undir Sigurðarhæð, vestan Straums og sunnan Óttarsstaða, var Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann). Ekki langt suður af Glaumbæ er hellisskúti, sem Sigurðarhellir heitir. Hleðsla nokkur er fyrir skútann og á einhver Sigurður að hafa haldið þar til í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við tímabundið í hellisskútum sem þessum hellum. Sunnan við munnan eru leifar gerðis.
Suðvestur af skútanum er mikill klapparrani og hár. Suðaustan í honum er feiknamikið jarðfall. Fyrir endanum á því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þar mun augljóslega hafa verið stöðull og nátthagi fyrir kýr.

19. Vatnagarðahellir (fjárskjól)

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Vatnagarðahellir er skammt utan við merkin móti Lónakoti. Þau lágu um Vatnagarða. Þarna er fjárhellir, sem hlaðið hefur verið fyrir, og gengið hefur undir nafninu Vatnagarðahellir og Vatnagarðafjárskjól, syðst í Vatnagörðunum, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, sem og nokkrar tjarnanna ofan Lónakots. Líklegt má þó telja að Lónakotsbændur hafi löngum nýtt fjárskjólið, enda handhægara fyrir þá en Óttarsstaðabændum, sem hefðu þurft að fara um langan veg í skjólið. Annars voru fjárskjólin í Hraunum nýtt af útigangsfé fyrrum – þrátt fyrir landfræðilega afmörkun einstakra bæja. Vatnagarðahellir er dæmigert fjárskjól á Reykjanesskagnum, með munna mót vestri; í skjóli fyrir vondum vetrarveðrum.

20. Smalaskálahæð (byrgi)

Smalaskálahæð

Smalaskálahæð – byrgi.

Vestan við Rauðamel stóra (nú grjótnáma) er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi refaskyttu. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Á honum er rammi um fyrrum listaverk; „Slunkaríki“.
Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, Óttarsstaða (Kristrúnarborg) frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Smalabyrgið sjálft, sem hæðin er kennd við, er hlaðið utan í hraunklett, skammt sunnan við gamla Keflavíkurveginn (Suðurnesjaveginn).

21. Tobbuklettsrétt (hleðslur)

Tobburétt

Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnastaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, eins og segir í örnefnalýsingu.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“. Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum og sést vel þegar genginn er stígurinn upp í Gjásel og Fornasel. Tobbuvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.

22. Brennusel (kolagrafir, milklar hleðslur)

Brennisel

Brennisel.

Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni (Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker.
Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti.“
Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöðum fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.
Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar húss og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.

23. Hólsbrunnshæð (stórbrotið jarðfall)

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni neðan Lónakotssels og ofan Alfaraleiðarinnar milli Útnesja og Suðurnesja eru fá. Ofan vegarins liggur landamerkjalínan (enn sjást í hrauninu einstaka girðingastaur á stangli sem og undirhleðslur) um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Þaðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás ofan selsins og þaðan í Mið-Krossstapa.
Á Hólsbrunnshæð er gríðarlegt jarðfall, sem hæðin dregur nafn sitt af (það er líkt og náttúrulegur brunnur í laginu). Ekki er ólíklegt að jarðfallið sé hluti af mikilli neðanjarðarhraunrás er nær upp að Urðarási ofan krosstapanna og jafnvel lengra upp í Hrútargjárdyngjuhraunið.

24. Lónakotssel (sel)

Lónakotssel

Landamerkjavarða við Lónakotssel.

Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, „liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel (varðan sú er áberandi utan í hraunhól við landamerkjagirðinguna skammt austan við austasta stekkinn í selinu). Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár (eru reyndar fjórar) aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“

25. Straumssel (sel)
„Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.“
Þegar komið er í Straumssel eru tóftir Tjörvabæjarins mest áberandi. Straumsselið sjálft er skammt austar. Tóftir þess eru vel greinilegar.

26. Óttastaðasel (sel)

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Óttarsstaðasel er sunnan við Meitla. Í þeim er Meitlaskjól. Frá Meitlunum blasir selið við. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt (nátthagi), sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“
Í Óttarsstaðseli má finna flest það er prýðir dæmigert sel á Reykjanesskaganum; selsstíg, selsvörðu, vatnsból, fjárskjól, nátthaga, stekki og selshús; baðstofu, búr og eldhús.

27. Sauðabrekkuskjól (hellisskjól)

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

„Efst í Óttarsstaðalandi, dálítinn spöl suðaustur af Búðarvatnsstæði, er allmikið jarðfall, sem nefnist Sauðabrekkugjá. Hún liggur frá suðvestri til norðausturs, og er hár barmur að norðanverðu, en lágt að sunnan. Hrafninn verpir oft í norðurbarminum. Gras er í botninum og að sunnanverðu við gjána. Stóra- Sauðabrekka er sunnan gjárinnar, en Litla-Sauðabrekka norðan hennar. Mosar eru kallaðir í hrauninu rétt sunnan gjárinnar. Krýsuvíkurmörkin liggja yfir þá. Aðeins sunnan við gjána og vestan við Stóru-Sauðabrekku eru Sauðabrekkuskjól við Sauðabrekkuhella. Þaðan er stutt vestur í Markhelluhól. Í honum er klöpp, sem nefnist Markhella, og eru klappaðir i hana stafirnir Ótta., Hvass., Krv. Er þetta hornmark á milli Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur.“
Sauðabrekkuskjólið hefur greinilega verið ætlað smölum fyrrum til að grípa til í misjöfnum veðrum fjarri öllu nærtæku; gólfið er flórað og hella er lögð yfir glugga.

Sjá nánari fróðleik um einstaka framangreinda staði á www.ferlir.is.
Tengsl við Ratleikinn á Fjarðarfréttum HÉR.

Hólsbrunnshæð

Hólsbrunnshæð.

 

Ferlir

2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);

Strandarhæð

Strandarhæð – Árnavarða.

FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.

FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).

FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið “ af „skráningarskyldum“ minjum.

Njarðvík

Njarðvík – brunnur.

FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.

FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.

Njarðvíkursel

Innri-Njarðvíkursel.

FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.

FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.

Grindavíkurvegur

Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.

Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að „opinbera“ minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri „opinberun“, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).

Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…

Ferlir

Ferlir á ferð í Selvogi.

Kind

Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs).

Umleitun

Tilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem „Óbrennishólahraun“ og „Óbrynnishólahraun“. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér heyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá „hugskeyti“ frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.

VitneskjaFERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 140 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 60 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 180 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar „Bókin mikla – Reykjanesskinna“ kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
Handan

FEELIR

Föstudaginn 1. maí árið 2020 varð FERLIR tuttugu og eins árs. Þennan dag fyrir jafnmörgum árum hittust nokkrir starfsfélagar í Lögreglunni í Reykjavík við Kaldársel. Ætlunin var að skoða nærumhverfið með tillliti til sögu svæðisins, minjar og náttúru þess; hvort sem varðaði flóru eða fánu. Jafnframt var takmarkið að nýta áhugavert svæði, Reykjanesskagann (fyrrum landnám Ingólfs) til hreyfingar og útivistar, ekki síst sem tilbreytingu frá hinu daglega amstri vinnunnar.
Selvogs-Jói mætti þá við öllu búinn að teknu tilliti til áður birtrar auglýsingar; „ætlunin er að feta yfir læki, kafa í hella og fara á fjöll“

Hver FERLIRFERLIRsferðin rak síðan  aðra í framhaldinu. Í dag eru þær orðnar fleiri en þrjú þúsund talsins – með hlutfallslega miklum uppsöfnuðum fróðleik, að ekki sé talað um öll hreyfingarígildin (lýðheilsugildin).

Fljótlega var FERLIRsvefnum komið á fót, í árdaga allra vefsíðugerða. Til þess fékkst styrkur til kaupa á fartölvu frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans til að vinna texta, myndir og birta. Alla tíð síðan hafa öll sveitarfélögin í fyrrum landnámi Ingólfs, utan Grafningshrepps, auk einstakra fyrirtækja, stutt viðhald vefsíðunnar (þ.e. greitt tilfallandi hýsingargjöldin frá ár til árs). Þeim hefur á móti staðið til boða að nota allt efni hennar þegnum sínum að kostnaðarlausu, hvort sem um er að ræða í leik eða starfi. Það á jafnframt við um alla aðra er áhuga hafa á útivist og vilja fræðast um fólkið er byggt hefur landssvæðið til þessa.

Á þessu tímabili hefur reynst nauðsynlegt vegna tækniframfara og hýsingarkrafna að uppfæra vefsíðuna þrisvar sinnum, nú síðast með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Vandinn hefur jafnan falist í að nýta eldra uppsafnað efni og aðlaga það að breyttum breytanda. Í dag standa slíkra breytingar yfir…

Vonandi mun áhugasömu fólki um svæðið nýtast innihald vefsíðunnar til langrar framtíðar.

HÉR má sjá nokkrar ljósmyndir frá fyrstu FERLIRsferðunum…

FERLIR

FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.

Sel

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:

Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel.24 Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera.25 Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða. Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ. Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.
Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.
Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli. Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði. Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.
Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.

Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.
Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“

Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.

Baðsvallasel
FERLIR

FERLIRstóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.

Ferlir

Ferlir í Selvogi.

Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.

Ferlir

Ferlir á Sveifluhálsi.

Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.

Ferlir

Ferlir við Markastein.

Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ferlir í Bálkahelli.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflög, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við þekkingarfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.

Áhugasömu fólki um Reykjanesskagann hefur jafnan verið boðið velkomið í hópinn.

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Ferlir

FERLIR-1900: Gvendarsel

FERLIR-1901: Nátthagi – Ferlir – um Nátthagaskarð

FERLIR-1902: Selatangar – Katlahraun – Hraunsnes

FERLIR-1903: Flökkuhola

FERLIR-1904: Reykjafell – flugvélaflak

FERLIR-1905: Víti

FERLIR-1906: Selatangar – Vestari Látur – Eystri Látur

FERLIR-1907: Húshólmi – vettvangsferð

FERLIR-1908: Kringlumýri – fornar minjar

FERLIR-1909: Vatnsleysuheiði

Ferlir

FERLIR-1800: Gamla Selvogsleiðin

FERLIR-1801: Krýsuvíkurbjarg

FERLIR-1802: Selvogsheiði – selstöður

FERLIR-1803: Selatangar – Látur – Ketill – Hraunsnes

FERLIR-1804: Óbrynnishólmi

FERLIR-1805: Hlíðarvegur

FERLIR-1806: Grindavíkurvegur – gamli vagnvegurinn

FERLIR-1807: Hrauntungustígur

FERLIR-1808: Óttarsstaðir – ofan vegar

FERLIR-1809: Óttarsstaðaborg – Sauðaskjól – Litluskútar

FERLIR-1810: Hengill

FERLIR-1811: Brennisteinsfjöll

FERLIR-1812: Fjárskjólshraun

FERLIR-1813: Seltúnssel – Austurengjar

FERLIR-1814: Þríhnúkagígur – Bóla – Þríhellir

FERLIR-1815: Langihellir – Gamla Grána

FERLIR-1816: Kista – hellaleit og -skoðun

FERLIR-1817: Heiðarvegur – Kúluhattshellar – Fosshellir

FERLIR-1818: Gjásel – Brunnastaðasel

FERLIR-1819: Blikdalur – sel nr. 10

FERLIR-1820: Laufdælingastígur

FERLIR-1821: Brúnavegur

FERLIR-1822: Tvíbollahraunshellar

FERLIR-1823: Strompahraunshellar

FERLIR-1824: Laufdælingastígur II

FERLIR-1825: Borgarhólar

FERLIR-1826: Gálgahraun

FERLIR-1827: Grafningsvegur um Mosfellsheiði

FERLIR-1828: Jórukleif – gata

FERLIR-1829: Innstidalur – útilegumannahellir

FERLIR-1830: Engidalur – útilegumannahellar

FERLIR-1831: Herdísarvíkurhraun – heimasel

FERLIR-1832: Herdísarvík – uppdráttur

FERLIR-1833: Herdísarvík – Þórarinn Snorrason og Þórður Sveinsson

FERLIR-1834: Eldvörp – skráning

FERLIR-1834: Prestastígur

FERLIR-1835: Árnastígur

FERLIR-1836: Skipsstígur

FERLIR-1837: Garðahverfi – brunnar

FERLIR-1838: Helgadalur – vörður

FERLIR-1839: Heiðmörk – fjárborg

FERLIR-1840: Seltún – Baðstofa – Seltúnssel

FERLIR-1841: Selalda – Selhóll – Trygghólar

FERLIR-1842: Arnarfellsrétt – Hnausar (Nös)

FERLIR-1843: Selgjá – minjar – uppdráttur

FERLIR-1844: Urriðavatnshellir – Vífilsstaðahellir

FERLIR-1845: Vatnsendaborg – Arnarbæli

FERLIR-1846: Vífilsstaðasel – uppdráttur

FERLIR-1847: Garðaflatir – sel?

FERLIR-1848: Búrfellsgjá – útilegumannahellir

FERLIR-1849: Markasteinn – huldufólk

FERLIR-1850: Álfaklettur – Hálfhússlægð – Finnsstekkur

FERLIR-1851: Þorgarðsdys

FERLIR-1852: Undirhlíðar – leifar þýskrar flugvélar?

FERLIR-1853: Lambaskjól ofan Lónakots

FERLIR-1854: Refagildrur ofan Lónakots

FERLIR-1855: Bessastaðanes – Bessastaðasel

FERLIR-1856: Eldvörp

FERLIR-1857: Eskines

FERLIR-1858: Húshöfði – Selhöfði – Miðhöfði – Fremstihöfði – Stórhöfði

FERLIR-1858: Hellnahraun

FERLIR-1859: Bringnavegur (Guðjónsvegur)

FERLIR-1860: Gamli Þingvallavegur – Þrívörður (reiðleiðin)

FERLIR-1861: Seljadalsvegur – Sæluhúsbrekka

FERLIR-1862: Bringnavegur um Illaklif

FERLIR-1863: Bringur – Seljadalur (reiðleið)

FERLIR-1864: Beinakerling á Mosfellsheiði

FERLIR-1865: Stardalur (Skeggjastaðasel) – skáli Ingólfs

FERLIR-1866: Grafningsvegur

FERLIR-1867: Blettahraun – Bræðrahraun

FERLIR-1868: Vörðunes – Jónsbásar

FERLIR-1869: Selsvallavegur – milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur

FERLIR-1870: Krossstapar – Skógarnef

FERLIR-1871: Eldvörp

FERLIR-1872: Gömlu-Hafnir

FERLIR-1873: Reykjanes

FERLIR-1874: Kinnaberg – Kistuberg

FERLIR-1875: Brennisteinsfjöll – FERLIR

FERLIR:1876: Óttarsstaðir – Eyðikot

FERLIR-1877: Ratleikur Hafnarfjarðar 2014

FERLIR-1878: Helgadalur – tóftir

FERLIR-1879: Húsfellsbruni – Gálgaklettar

FERLIR-1880: Seltún – Ketilsstígur – Hattur – Hetta

FERLIR-1881: Fitjar – Krýsuvíkurbjarg – Eyri – Krýsuvíkursel – Selalda – Strákar

FERLIR-1882: Húshólmi

FERLIR-1883: Óbrinnishólmi

FERLIR-1884: Folaldadalir

FERLIR-1885: Grænavatn – Austurengjahver

FERLIR-1886: Kalmannstjörn – Junkaragerði

FERLIR-1887: Hafnaheiði

FERLIR-1888: Gamli-Kirkjuvogur (uppdráttur)

FERLIR-1889: Stafnes – Básendar

FERLIR-1890: Hvalsnesleið (Melabergsleið) um Varnarsvæðið

FERLIR-1891: Fuglavíkurgata (frá Fuglavík að Einstæðingshól – Sandgerðisgötu)

FERLIR-1892: Gömlu-Hafnir (Bæli, Kirkjuhöfn, Stóra- og Litla-Sandhöfn og Eyrarhöfn)

FERLIR-1893: Gunnuhver og nágrenni

FERLIR-1894: Lækjarbotnar – Viðeyjarsel (Bessastaðasel)

FERLIR-1895: Fóelluvötn – Viðeyjarsel?

FERLIR-1896: Brennisteinsfjöll – Kistufell

FERLIR-1897: Grindarskörð – Konungsfell

FERLIR-1898: Leiðarendi

FERLIR-1899: Seltún – Seltúnssel (uppdráttur)

Ferlir

FERLIR-1700: Drykkjarháls – Drykkjarsteinn – Móháls

FERLIR-1701: Námuhvammur – Kistufell

FERLIR-1702: Fuglavík – Gerðakot

FERLIR-1703: Hraunssandur – Lambastapi

FERLIR-1704: Saurbæjarsel (Blikdal)

FERLIR-1705: Konungsfell (Bollum)

FERLIR-1706: Kleifarsel (Grafningi)

FERLIR-1707: Steinröðarstaðir (Grafningi)

FERLIR-1708: Kleyfardalur – tóftir (Grafningi)

FERLIR-1709: Jórukleif – Jóruhóll – Jóruhellir – Kleifardalur – Tindaskarð

FERLIR-1710: Krýsuvíkurhraun

FERLIR-1711: Gömlu-Hafnir – Hafnaberg

FERLIR-1712: Kaldárhöfðasel

FERLIR-1713: Gullbringuhellir

FERLIR-1714: Reykjavík – landamerkjasteinar

FERLIR-1715: Heródes / Álftanesi

FERLIR-1716: Þóroddsstaðir – Suðurferðagata / Skógargata

FERLIR-1717: Gjögur – Kistuberg

FERLIR-1718: Brim

FERLIR-1719: Rangargjögur – Hraunsnes

FERLIR-1720: Svörtuloft – Hólmasund

FERLIR-1721: Kinn

FERLIR-1722: Selatangar

FERLIR-1723: Hraunsnes – Skollahraun – fiskibyrgi

FERLIR-1724: Elliðakot (Helliskot)

FERLIR-1725: Ara(hnúka)sel – Gjásel

FERLIR-1726: Gvendarborg

FERLIR-1727: Borgarkot – Keilisnes- Flekkuvík

FERLIR-1728: Flekkuvíkursel – Sýrholt (Fornusel)

FERLIR-1729: Þorbjarnarfell – Þjófagjá

FERLIR-1730: Vífilssstaðasel

FERLIR-1731: Kolhólasel – Kolhóll

FERLIR-1732: Kalmanstjörn – Reykjanesviti – Staður

FERLIR-1733: Reykjanesviti – Staður

FERLIR-1734: Hafnarfjarðarhraun (Flatahraun) – Urriðakotsstígur / Hagakotsstígur

FERLIR-1735: Flatahraun – Hraunsholtssel

FERLIR-1736: Sandakravegur

FERLIR-1737: Útvogsgata

FERLIR-1738: Vatnsleysuheiði

FERLIR-1739: Selvogsgata um Selvogsheiði

FERLIR-1740: Vogsósar

FERLIR-1741: Fornugötur – Stakkavíkurgata

FERLIR-1742: Fornigarður

FERLIR-1743: Hrísbrúarsel – Litla-Mosfellssel

FERLIR-1744: Kaldárhöfðasel I og II

FERLIR-1745: Helliskot – Elliðakot

FERLIR-1746: Hafnarvegur (reið- og vagnvegur)

FERLIR-1747: Lágafellsleið um Eldvörp

FERLIR-1748: Mosfell – Kýrgil – Gatklettur

FERLIR-1749: Strandarhæð (Þórarinn Snorrason og Þórður Bjarnason)

FERLIR-1750: Selsvellir

FERLIR-1751: Holukot

FERLIR-1752: Strandarborg – Strandarhellir – Bjargarhellir – Bjarnastaðaborg

FERLIR-1753: Rauðamelur

FERLIR-1754: Miðdalur – Hrútadalur

FERLIR-1755: Tóustígur – Rauðhólssel – Gvendarborg

FERLIR-1756: Kolhólasel – Kolhóll

FERLIR-1757: Grensdalur (Grændalur) – Stekkatún – Grensdalsvellir

FERLIR-1758: Darrastaðir – Straglastaðir

FERLIR-1759: Hjallasel I og II – Sólstígsvarða

FERLIR-1760: Vallasel

FERLIR-1761: Krossselsstígur

FERLIR-1762: Miðfellsfjárhellir – Ródólfsstaðir- Sigguvörðuhóll

FERLIR-1763: Reykjadalur – Dalsskarð – Grændalur

FERLIR-1764: Núpasel – Breiðabólsstaðasel I – Breiðabólsstaðasel II

FERLIR-1765: Ródólfsstaðir – Undirgangur – Hamrasel – Hamraselshellir

FERLIR-1766: Steinhússkjól – Fjárhúsklettsskjól

FERLIR-1767: Víkingaheimar

FERLIR-1768: Garður – Hof

FERLIR-1769: Selsvellir

FERLIR-1770: Straumssel – Straumsselhellrar syðri

FERLIR-1771: Kambsrétt – Nessel

FERLIR-1772: Hallandi – Annar í aðventu – Nátthagi – Rebbi

FERLIR-1773: Blikdalur – selstöður frá Sauðbæ og Brautarholti

FERLIR-1774: Fífuhvammssel (staðsett)

FERLIR-1775: Arngerðarhólmi

FERLIR-1776: Markasteinn (huldufólksbústaður)

FERLIR-1777: Grindavíkurvegur – minjar vegagerðarmanna 1914-1918

FERLIR-1778: Fornasel – Knarrarnessel – Breiðagerðissel – Hlöðunessel – Brunnastaðasel – Vogasel – Arasel – Gjásel

FERLIR-1779: Heródes (brunnur á Álftanesi)

FERLIR-1780: Varmársel – Þerneyjarsel – Sámsstaðir (Múlasel) – Esjubergssel

FERLIR-1781: Hvammsvík – Hvammur – Hvammshöfði – Selveita – Naglastaðasel (Hvammssel)

FERLIR-1782: Valdastaðir – Grímsstaðir – Bollastaðir

FERLIR-1783: Guðnýjarsteinn – Beinhóll

FERLIR-1784: Kirkjuvogssel

FERLIR-1785: Hlöðversnes (Hlöðunes)

FERLIR-1786: Grændalahellir (Loftsskúti)

FERLIR-1787: Suðurstrandarvegur

FERLIR-1788: Eldvörp

FERLIR-1789: Sandgerði – Bæjarskerseyri – Bóla – markasteinar

FERLIR-1790: Mógilsá – Mógilsársel – Vellir

FERLIR-1791: Úlfarsá – Úlfarsársel

FERLIR-1792: Melaseljadalur – Melasel

FERLIR-1793: Kvíguvogar – Kvíguvogasel

FERLIR-1794: Kjalarnes – álfa-, huldufólks-, dverga-, trölla- og draugastaðir

FERLIR-1795: Arnarseturshraun – Kubbur

FERLIR-1796: Konungsleiðin frá Reykjavík til Þingvalla 1907 – II

FERLIR-1797: Herdísarvíkurtjörn

FERLIR-1798: Kerlingarskarð – Hlíðarvegur – Stakkavíkurgata

FERLIR-1799: Hetta – Hattur