Lýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.
Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: “Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.”
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: “Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.”
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
Tóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.
Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.