Elliðaárdalur
Dalurinn, eða öllu heldur dalirnir, frá Kópavoginum og upp að Elliðavatni er hið ákjósan-legasta göngusvæði.
Bæði er hægt að halda sig á sléttum göngustígum og ekki síður víkja af þeim og skoða það sem svæðið hefur upp á bjóða, hvort sem um er að ræða minjar, gróður eða dýralíf.

Letursteinn

Letursteinn í Elliðaárdal.

Um er að ræða 5-6 km langa göngu við bestu aðstæður. Þótt svæðið sé í miðri byggð ríkir þar ró að jafnaði og hin mikla skógrækt eykur á litbrigði og umbreytingar ástíðanna, vor, sumar, haust og vetur.
Hópur silfurtoppa er nú orðinn fastagestur í trjám dalanna, skógarfuglarnir sækja í gjafir íbúanna á vetrum og andartegundir eru óvíða fleiri á höfuðborgarsvæðinu.

Kópavogsdalur

Kópavogur

Kópavogsdalur.

Útivistarsvæðið í Kópavogsdal nær frá Kópavogsleiru við Hafnarfjarðarveg, upp með Kópavogslæk að bæjarmörkum í suður-Mjódd og er um 2 km að lengd og um 60 ha að flatarmáli.
Á nokkrum stöðum teygir svæðið sig upp í Digraneshálsinn. Nokkrir gamlir trjáreitir frá tímum sumarbústaðanna eru í Kópavogsdal og er reiturinn við Dvöl og nágrenni þeirra merkastur. Þar eru ein elstu merki trjáræktar í Kópavogi og við Barmahlíð eru merkilegar hleðslur frá 4. áratugnum, þær einu sem eftir eru í bænum sinnar tegundar.
Miklar framkvæmdir hafa verið í Kópavogsdal undanfarinn áratug, en tekist hefur að halda allstórum hlutum dalsins lítt röskuðum. Þar er fjöldi villtra plantna sem ásamt trjálundunum laðar að sér fjölbreytt fuglalíf.

Kópavogslækur
er enn að mestu í upprunalegum farvegi sínum en er nú mun vatnsminni en áður fyrr. Í miklum rigningum geta þó komið í hann flóð, þar sem regnvatni er veitt í lækinn. Enn kemur það öðru hverju fyrir að skólp berist í Kópavogslæk vegna rangtenginga frárennslislagna. Heilbrigðiseftirlitið hefur í hyggju að vakta lækinn með þeim hætti að taka þar reglulega gerlasýni.

Kópavogur

Kópavogslækur.

Vestast í dalnum hefur verið gerð tjörn í Kópavogslæk sem er vinsæl meðal fólks og fugla. Stöku silungur slæðist inn í tjörnina en í læknum eru bæði álar og hornsíli. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að fleiri tjarnir komi í Kópavogslæk.
Í Kópavogslæk, sunnan Fífuhvamms, er móbergsklöpp sem er hluti af elsta móbergi á höfuðborgarsvæðinu 4-500.000 ára, mun eldra en s.k. Reykjavíkurgrágrýti.
Mikið hefur verið gróðursett í Kópavogsdal undanfarin ár og nú er nær fulllokið við að koma upp góðu stígakerfi um dalinn þveran og endilangann. Vestast í Kópavogsdal er félagssvæði Breiðabliks og Tennishöll og skammt þar frá er aðsetur Vinnuskólans og garðyrkjudeildar bæjarins. Austar eru fjöldi leiksvæða og áningastaða ásamt skólagörðum.

Fossvogsdalur

Dalurinn er um 2,5 km langur og nær frá Fossvogsleiru í vestri að Blesugróf í austri.
Útivistarsvæðið í Fossvogsdal er að hluta til í lögsögu Reykjavíkur (um 25%), en um 60 ha eru Kópavogsmegin.

Fossvogsdalur

Fossvogsdalur.

Dalurinn var áður að mestu landbúnaðarsvæði og flatlend tún og framræsluskurðir settu svip sinn á hann. Fossvogslækur rennur í framræsluskurði að mestu leyti nema vestast, en þar er lækurinn og umhverfi hans undir bæjarvernd. Á þeim slóðum er “skógræktin”, fyrrum aðsetur Skógræktarfélags Reykjavíkur, og laðar skógurinn að sér mikinn fjölda fugla af ýmsum tegundum.
Um miðbik dalsins er HK með félagssvæði sitt og þar er einnig lóð Snælandsskóla gæsluvöllur og skólagarðar. Í austurhlutanum er sleðabrekka og stígarnir eru mikið notaðir til skokks og skíðagöngu. Austast í dalnum er einnig mikill trjágróður og þar er kominn vísir að trjá- og runnasafni (arboretum). Þar eru einnig garðlönd sem leigð eru bæjarbúum. Á svæðinu austan
Kjarrhólma eru söguminjar um grjóthögg, líkt og við Einbúa.
Lundur – Birkihlíðarreitur (nýbýli og merkilegir trjáreitir).
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við Fossvogslæk um miðbik dalsins þar sem lækurinn verður færður úr framræsluskurði og myndaðar tjarnir. Samhliða því er fyrirhugað að loka hluta framræsluskurða með gerð grjótræsa. Einnig verður aukin trjárækt í dalnum.
Aðgengi að Fossvogsdal er gott sem og tengingar yfir dalinn, enda eru göngustígarnir vel nýttir.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Daglega njóta hundruð Reykvíkinga útivistar í dalnum og ekki þarf lengi að fara þar um til þess að sjá fólk á ferli um dalinn þveran og endilangan enda er vel búið að útivistarfólki, stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi umferð.
Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.

Heimild m.a.:
-Kópavogur – stöðumat 2000.

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Þorbjarnastaðir

„Framtíð Hrauna við Straumsvík er óráðin, en samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 er gert ráð fyrir að stór hluti svæðisins verði notaður undir hafnar- og iðnaðarsvæði. Fyrir nokkrum árum stofnaði áhugafólk um verndun Hrauna, Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar, til þess að vekja athygli á þessu einstaka svæði.

Fuglalíf

Í frétt í MBL, þriðjudaginn 6. júlí, 1999, sagði Magnús Gunnarsson, þáverandi bæjarstjóri, að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð svæðisins.
Hraun kallast landsvæðið vestan og sunnan Straumsvíkur, en víkin hefur myndast milli Lambhagatanga að austan og Hrauna að vestan. Hraunið sem þekur svæðið er 5000-7000 ára gamalt helluhraun sem átt hefur upptök sín í Hrútagjárdyngju.
Búskapur hefur verið stundaður í Hraunum frá fornu fari og hafa verið leiddar líkur að því að rústir við Óttarsstaði séu frá 12. öld. Á svæðinu má sjá fjölda rústa, tóftarbrot býla og gripahúsa, minjar eru um útræði í fjörunni, þurrabúðir, fiskbyrgi, vörslugarðar og fiskreitir eru einnig sýnilegir. Helstu lögbýli í Hraunum voru Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu síðan hjáleigur og þurrabúðir, s.s. Gerði, Péturskot, Litli-Lambhagi, Þýskubúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðagerði og Eyðikot. Heimild er um forna kirkju á svæðinu og grafreit.

Jónsbúð

Jónsbúð.

Árið 1999 fékk Umhverfis- og útivistarfélagið Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing til að grafa prufuholur í Jónsbúð, sem er þurrabúð eða hjáleiga utarlega við vestanverða Straumsvík. Bjarni hafði áður verið fenginn til að leita að og staðsetja rústir á svæðinu og segir í skýrslu hans að minjar eins og rústirnar við Jónsbúð séu mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti og að minjar af slíku tagi sé ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Yfirleitt má segja að rústir og minjar á svæðinu séu óspilltar af mannavöldum og svæðið geymi í heild sinni allar þær minjar sem búast megi við að finna í og við þurrabúðir og hjáleigur. Byggð tók að leggjast af í upphafi þessarar aldar og var horfin um miðja öldina.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Auk merkilegra sögulegra heimilda er náttúrufar með nokkuð sérstæðum hætti á þessu svæði. Í hrauninu má finna fjölda ferskvatnstjarna sem koma og fara eftir sjávarföllum þegar sjórinn flæðir inn undir hraunið og streymir síðan út aftur á fjöru. Vegna þess að ferskvatnið, sem flæðir stöðugt undan hrauninu, er eðlisléttara en saltvatnið flýtur það ofan á sjónum meðan flæðir að, en blandast honum síðan þegar flóðið nær hámarki.

Áður fyrr voru börn látin vakta sjávarföllin til þess að ná fersku vatni úr tjörnum og brunnum áður en sjórinn náði að blandast ferskvatninu við háflæði. Í tjörnum sem ekki þorna alveg upp á fjöru hafa nýlega uppgötvast dvergbleikjur sem verða um 12-14 cm og lifa á skilum ferskvatns og sjávar.

Óttarsstaðir

Straumur og Óttarsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Gunnarsson, bæjarstjóri, segir í fyrrgreindri MBL-frétt 19999 að ekkert hafi verið ákveðið varðandi skipulag á Hraunasvæðinu. „Ljóst er að menn fara sér hægt við að skipuleggja framtíð þess.“ Hann kvaðst sannfærður um að menn myndu staldra við og velta hlutunum vel fyrir sér og sérstaklega þeirri staðreynd að ekki væri hægt að taka til baka það sem gert yrði. Ljóst væri að mikil vakning ætti sér stað varðandi varðveislu náttúru- og sögulegra minja og að engar hafnarframkvæmdir væru áætlaðar á næstu árum vestan Straumsvíkur. Í þeirri vinnu sem framundan væri í skipulagsmálum yrði stigið varlega til jarðar, sérstaklega varðandi perlur eins og Hraunin væru.“

 

Nú, 2008, hefur Samfylkingin í Hafnarfirði uppi áform um að eyðileggja flestar menningarminjarnar á norðanverðu Hraunasvæðinu og þar með hið fjölbreytilega dýralíf sem og hina dýrmætu útivistarmöguleika bæjarbúa.
veggurÍ frétt í Fjarðarpóstinum 11. september (af öllum dögum, en þó vel við hæfi) kom m.a. eftirfarandi fram um þessar áætlanir undir fyrirsögninni: „Nýtt hafnarsvæði á Hraunum? – Hugmyndir eru uppi um nýja stórskipahöfn vestan Straumsvíkur.
„Okkar fyrstu niðurstöður eru þær að fýsilegt sé að byggja nýja höfn vestan Straumsvíkur sem að mestu yrði í landi Óttarstaða,“ segir formaður hafnarstjórnar. „Við höfum einnig kannað möguleikana austan Straumsvíkur, en þar reyndust ekki vera ákjósanlegar aðstæður. Við höfum í samvinnu við Siglingastofnun kannað öldufar og rannsakað botnlög með tilliti til hafnar gerðar vestan Straumsvíkur og virðast aðstæður þar allgóðar. Þetta yrði stór höfn sem þjónað gæti stórum hluta siglinga til höfuðborgarsvæðisins og skapað mikla uppbyggingu og atvinnustarfsemi.“

Straumur

Straumur – uppdráttur ÓSÁ.

Að sögn formannsins eru hugmyndirnar sem hér eru kynnntar hins vegar á frumstigi. Tillögurnar voru kynntar í hafnarstjórn í júní og í skipulags- og byggingarráði á þriðjudaginn. Næsta skref er að sögn formanns að ræða við landeigendur á svæðinu sem eru allmargir. Stefnt er að því að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjarbúum og skapa um þær umræðu. Ljóst er að skoðanir verða skiptar um þessar tillögur en við hafnargerðina hverfa margar minjar en gert er ráð fyrir að vernda bæjarstæði Óttarstaðabæjanna í einskonar vin á miðju athafna svæðinu. Einnig yrðu Þýskabúð og Jónsbúð óraskaðar.
Landslagsarkitekt var fenginn til að útfæra þessar fyrstu hugmyndir og aðlaga þær lands laginu þannig að sem best fari, að sögn formanns, „en auðvitað á þetta eftir að fara í umhverfismat og í gegn um skipulagsferil,“ sagði formaðurinn.
HugmyndirSkv. hugmyndunum er gert ráð fyrir að meðfram nýrri legu Reykjanesbrautar verði hafnarsvæði lækkað um 12-14 m en næst sjónum yrðu 6-8 m varnargarðar til að skilja svæðið að en það er um 160 ha. (1,6 millj. m²) sem er svipuð stærð og svæði sem afmarkast af Hjallabraut, Hjallahrauni, Reykjanesbraut, Hvammabraut og Suðurgötu. Hafnargarðurinn yrði gerður úr efni sem þarna fengist en hann yrði skv. hugmyndunum gerður í tveimur áföngum.“

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Segja má með sanni að Samfylkingin hafi tilhneigingu til að vernda minjar og náttúru með vinstri hendinni, en rífa hvorutveggja niður með þeirri hægri. „Vonandi verða hvorki hugmyndir né fulltrúar þeirra langlífir“, varð einum rólyndismanni að orði er hann heyrði tíðindin. Mörg dæmi eru um að vilji til að takmarka verndun minja innan stórra athafnasvæða hafi farið fyrir lítið er á reyndi.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Segja má að einstakir fulltrúar og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafi að undanförnu verið í tómu klúðri – sem virðist það því miður fara vaxandi.
Umhverfi og náttúra í Hraunum er einstök á landsvísu og þótt víðar væri leitað. Hluti þeirra njóta náttúruverndar. Auk þess mynda Hraunabæirnir ofan við ströndina heilstætt og dýrmætt minjasvæði með tilheyrandi útstöðvum ofar í hraununum; seljum, fjárskjólum, nátthögum og aðliggjandi götum. Svæðið sem heild er því einstaklega dýrmætt, ekki síst vegna þess hversu nálægt þéttbýlissvæði það er. Þessu virðist eiga að farga án teljandi hugsunar.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Samstarf og samnýting Faxaflóahafna hefur dregið úr þörfinni á hafnargerð sem þessari, enda koma aðrir staðir á höfðuborgarsvæðinu mun betur til greina en landssvæðið þar sem Hraunin eru.
Sjá meira um svæðið HÉR og HÉR. Vefsíðan geymir uppdrætti af u.þ.b. 400 minjasvæðum og yfir 6000 lýsingum á Reykjanesskaganum, auk fróðleiks og frásagna af minjum og örnefnum á svæðinu – fyrrum landnámi Ingólfs. Allt efnið er unnið af áhuga og umhyggju – án ríkisstyrkjar.

Heimildir m.a.:
-Mbl – Þriðjudaginn 6. júlí, 1999 – Smáfréttir
-fjardarposturinn.is – 11. september 2008
http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2008-34-skjar.pdf

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri.

 

Nessel

Gengið var um Djúpudalahraun að Djúpudalaborg, þaðan upp í Nessel og áfram upp á Kvennagönguhól. Þá var haldið upp á Hellisþúfu og skoðaður Hellisþúfuhellir. Loks var gengið niður hæðina að vestanverðu, að klöppinni Fótalaus og staðnæmst við Imphólaréttina.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Austurmörkin á Nesi lágu frá Þrívörðum við sjó, um Djúpudali og þaðan í Kálfahvamm í Geitfelli (Fálkaklett). Djúpudalaborgin er skammt frá mörkunum, vandlega hlaðin. Hana hefur átt að topphlaða, enda ber hún þess merki. Þessi fjárborg hefur að öllum líkindum þótt mikið og merkilegt mannvirki á sínum tíma, enda virðast menn hafa reynt að líka eftir henni annars staðar á landinu (sjá Þorbjarnastaðaborg).
NesDjúpudalir horfa mót suðri og eru mikil gróðurvin við efri brún sandflákana ofan við ströndina vestan Þorlákshafnar. Geldingahnappur, brönugrös, hvönn, bláklukka og fleiri villt blóm vaxa þar í hraunskjólunum. Bláberjalyngið er áberandi sem og kjarr og einir.
Allt land þarna fyrir vestan tilheyrði Nesi í Selvogi. Þar var, skv. jarðabók ÁM 1703, „jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.“ Árið1397 var Mariukirkja í Nesi “…lofadur gropttur heimamönnum oc fátækum monnum. Árið 1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Nes í Selvogi fyrir 60 hdr.

Nes

Jóhann Davíðsson með legstein úr Nesskirkjugarði.

Árið 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu.” Í desember 1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar Hlidarenda, Breidabolstad og Littllaland. allar fyrir lxxxxc.” 1595 er Grími Einarssyni dæmt Nes, 60 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur föðurömmu sína. Búa í Nesi 2 Jónar, 2 Árnar, 2 Ormar, Hallur, Hróbjartur, Hafliði, Þorgeir, Einar, Sveinn og Gísli sbr. Sveitarbrag Jóns Jónssonar í Nesi.“

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nes er austasta býli í Selvogi. Landamerki Ness að austanverðu, móti Þorlákshöfn og Hlíðarenda í Ölfusi eru þannig: Þrívörður, þrjár vörður á berginu milli Ness og Þorlákshafnar, þaðan í Dimmadalsklöpp á miðjum sandinum, og munu þar byrja mörkin móti Hlíðarendalandi; þaðan í Markhól í Djúpadalshrauni fyrir vestan Hlíðarendsfjallsenda, þaðan í Fálkaklett syðst í Geitafelli. Milli Ness og Bjarnastaða eru mörkin: Selós milli Selaskers og Stórhólms er fremsta mark, þaðan í Markasker, þaðan í garðsenda á kampinum milli túna Ness og Bjarnastaða, og þaðan í Unhól efst í túngarði, þaðan í Stóra-Hástein í Selvogsheiði fyrir neðan Hnúka, þaðan í Eystri-Kálfahvammsöxl í Geitafelli.

Selvogur

Selvogur – kort.

Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.“ Árið 1840 segir m.a. að “á öllum þessum bæjum [Nes og 11 hjáleigur] liggja túnin saman, og er hverfi þetta kallað Austurvogur. Fyrir framan túnin er sjávarkampurinn, snýr á móti hafútsuðri. Allar þessar jarðir eru undirorpnar grófum sandágangi, so tún verða þá kolsvört eftir hvört austan- land- og útnorðan stórviðri. Af þessari orsök hafa þær stórum spillst og spillast árlega nokkuð.” Bærinn að Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes.“

Nes

Nes – legsteinn í kirkjugarði við Nes.

Heimild er um kirkju, Maríukirkju, í Nesi, sem fyrr segir. “Glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi.” Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“ FERLIR fann ekki fyrir löngu einn af þessum legsteinum, en aðrir höfðu verið fluttir á minjasafnið á Selfossi. Þessi eini legsteinn, er talinn hafa verið á leiði barns er dó úr svarta dauða og grafið var í kirkjugarðinum að Nesi, væntanlega með þeim síðustu er þar voru grafnir. Steinninn er enn við Nes og fær vonandi að vera þar um ókomna tíð.

Hellishæðahellir

Merkismenn við Hellishæðahelli.

Erlendur sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends, en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld.
Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.
Í júlí 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til Neskirkiu.” Kirkjan lögð niður í Nesi 1706.

Nessel

Nessel – skúti.

Gengið var inn fyrir girðingu og að litlum hraunhól þar. Hóllinn reyndist holur að innan með sandi í botni. Hann hefur áreiðanlega orðið einhverju gott skjól. Selið er skammt ofar. Megintóftin er í jarðfalli, sem líklega hefur verið reft yfir, en er nú fallið. Tóftir við selið benda til þess að það sé mjög gamalt. Í heimildum segir að „spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól (að vestan) eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu. Nessel er merkt norðan þjóðvegarins, en þar er samnefndur sumarbústaður.

Gengið var á fótinn, upp á Kvennagönguhól. Honum tengist þjóðsaga. „Suður frá þjóðveginum liggja suðurslakkar, allt að Kvennagönguhól, sem er grasi gróinn hraunhóll.”

Hellholt

Hellholt – uppdráttur ÓSÁ.

Jafnframt segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.” Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá, og kannast Eyþór við þær allar: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfú til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útrlði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng. Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.“

Hellishæðahellir

Hellishæðahellir.

Haldið var enn á fótinn með Hnúkana á hægri hönd. Smám saman lagðist Selvogsheiðin yfir hægri vænginn, en framundan er slétt afgirt tún efst á hæðinni. Þar á er gróinn hraunhóll; Hellisþúfa. “Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó. Ekkert vatn er þarna að hafa, það var sótt í belgjum í Flæðitjarnirnar niðri á Öldunum. Þetta var fyrir minni Eyþórs, en hann heyrði þetta sagt.“
Nú hallaði til vesturs. Gengið var að klöppinni Fótalaus ofan þjóðvegarins, skammt ofan við hrjálegan sumarbústað. Í örnefnalýsingu segir að „mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns.“

Strandarhæð

Strandarhæð – Strandarborg.

Skammt neðar (suðvestar) er Imphólarétt. „Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin.“ Að sögn Þórðar Sveinssonar frá Bjargi í Selvogi er Imphólarétt 8-900 metrum suðsuðaustan litla Hásteins.
Önnur rétt er undir litla Hásteini. Þjóðvegurinn liggur í gegnum hana miðja, svo sem algengt er um fornminjar hér á landi. Kosturinn við það er að fólk þarf ekki að stíga út úr bílunum til að virða mannvirkið fyrir sér. Á móti kemur að sárafáir, sem aka um þjóðveginn, og í gegnum réttina, hafa hugmynd um að þarna hafi verið rétt með öllu sem réttum tilheyrir með réttu.
Útlit og stærð réttarinnar sést enn vel og hleðslur marka lögun hennar. Að sögn Þórðar var þessi rétt hlaðin af Þórðarkotsmönnum eftir 1950. Hún var notuð fyrir rúning og flutning á fé með bílum.
Leitað verður nánari upplýsinga, bæði um réttina undir Hásteinum og Imphólarétt, sem enn á eftir að skoða.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn

Imphólarétt

Imphólarétt.

Grindavík

Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.

Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…

Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 20. nóv. 2024.

Járngerðarstaðarétt

Um tíma var fjárrétt við Járngerðarstaði í Grindavík. Hennar er hvergi getið í skráðum heimildum.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt.

Réttin sést á loftmynd frá 1954, en um 1960 er hún horfin að mestu. Fjárréttin var þar sem nú er vesturgafl Þorbjarnar h/f, þ.e. þar sem hlaðin er braut upp á efri hæð hússins. Ekki er ólíklegt að grjótið úr réttinni hafi verið notað í hleðslu brautarinnar eða það farið í nálægar bryggjuframkvæmdir.

Járngerðarstaðarétt

Járngerðarstaðarétt, annars vegar 1954 (t.v.) og 2021.

Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af „Síðasta strandinu í Grindavík“ birtist í Faxa 1947:
„Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall.

Selatangar

Við Selatanga.

Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni.

Þorbjörn

Þorbjörn – merki.

Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn“ í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan“ flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi.

Hraun

Hraun.

Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni“. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.

Lois

Unnið að björgn áhafnar Lois.

Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn“ telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn var friðlýstur 18. nóv. 2024.

Alþingisgarðurin

Alþingisgarðurinn – Ráðherra undirritar friðlýsingu Alþingisgarðsins. F.v. Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Garðurinn við Alþingishúsið er fallegur og friðsæll sem er að mestu umkringdur háum steinvegg. Garðurinn er því fremur falinn og fyrir vikið fásóttari en ella en hann hefur verið opinn fyrir almenning síðan 1950. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.

Skömmu eftir að smíði Alþingishússins lauk 1884 var ákveðið að gera garð í lóðinni sunnan við húsið að frumkvæði Árna Thorsteinssonar landfógeta.
Plöntur voru fengnar víða að, innan lands sem utan. Víðitegundin þingvíðir var flutt inn til landsins og er hún nefnd eftir garðinum.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – brjósmynd af Tryggva Gunnarssyni.

Tryggvi Gunnarsson alþingismaður sinnti garðinum síðari hluta ævi sinnar og er brjóstmynd af Tryggva að finna í garðinum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði friðlýsinguna vegna Alþingisgarðsins við Kirkjustræti. Friðlýsingin tekur til garðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist.

Alþingisgarðurinn er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Framkvæmdir stóðu yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins lá fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.

Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, nánar tiltekið 18. gr. sem fjallar um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn.

Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins við Kirkjustræti 14 í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna og hlaðinna veggja umhverfis garðinn. Garðurinn er 901,8 fermetrar að stærð, lengd hans er 33,1 metrar og breidd 27,2 metrar, og miðast útmörk friðlýsingarinnar við það. Vikið er frá því að hafa 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins, sbr. 22. gr. laga um menningarminjar.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn friðlýstur 18. nóv. 2024.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu Alþingisgarðsins. Garðurinn markaði tímamót í íslenskri garðsögu og upphafsmaður hans Tryggvi Gunnarsson sinnti garðinum einstaklega vel, jafnvel á efri árum. Í Alþingisgarðinum fyrirfinnast enn ýmsar tegundir plantna, sumar horfnar þaðan eins og Þingvíðirinn sem nefndur er eftir garðinum, en margar þrífast þar enn enda hefur garðinum alltaf verið vel sinnt. Skipulag garðsins hefur ekki mikið breyst frá þarsíðustu öld. Í honum má líka sjá handverk í formi hleðslna og hlaðinna veggja. Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra.

Alþingishúsið 1881

Alþingishúsið 1881.

Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra,“ segir ráðherrann.
Í tilkynningu um friðlýsinguna kemur fram að Alþingisgarðurinn sé elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi.
Framkvæmdir hafi staðið yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins hafi legið fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.
Viðstödd friðlýsinguna voru, auk ráðherra, forseti Alþingis og fulltrúar Alþingis, Minjastofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 1920.

Á Alþingi árið 1893 kom fram tillaga um hvernig verja skyldi fjármunum sem safnast höfðu í þinghúss­byggingarsjóðinn frá 1867. Áður hafði komið fram hugmynd um að nota sjóðinn til að skreyta húsið að innan en nú kom fram tillaga um að veita úr honum til skipulags lóðar og garðyrkju við húsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar sem Landfógetagarðurinn (Hressingarskála­garðurinn) er kenndur við.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – Tryggvi Gunnarsson við vökvun garðsins.

Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fá þingforseta umsjón verksins. Mun þar með hafa verið tekin ákvörðun um fyrsta opinbera skrúðgarðinn á Íslandi. Benedikt Sveinsson, forseti sameinaðs þings, fól Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir í garðinum. Tillöguuppdrættir Árna Thorsteinsonar að garðinum eru varðveittir í Þjóðskjalasafninu en uppdráttur, sem farið var eftir, er í skjalasafni Seðlabankans og á honum rithönd Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og er ekki ólíklegt að hann sé höfundurinn að skipulagi garðsins. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2020.

Tryggvi hófst handa við að láta skipta um jarðveg í garðstæðinu og ræsa það fram. Einnig keypti hann mykju og tað til áburðar og pantaði plöntur innan lands og utan. Kostnaðarsamast var að girða garðinn og var Ólafur Sigurðsson steinhöggvari fenginn til að hlaða garðveggina. Veggurinn sem snýr að Dómkirkjunni er vandaður og prýða hann steinsúlur með hnúð. Suður- og vesturveggirnir eru einfaldari og frágangurinn grófari enda voru þeir á lóðamörkum en sneru ekki að opnum svæðum eins og nú. Slökkvitækjaskúr Reykjavíkurbæjar stóð að hluta á lóð Alþingis og var rifinn þegar garðvinnan hófst.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – þingvíðir.

Tryggvi fékk plöntur víða að, víði og birki úr Fnjóskadal, ilmreyr úr Hörgárdal, reynivið úr Nauthúsagili undir Vestur-Eyjafjöllum, birki úr Hafnarfjarðarhrauni og mjaðarjurt úr Gufunesi. Árni Thorsteinson og Schierbeck landlæknir voru Tryggva einnig innan handar með plöntur og fræ í garðinn. Víðitegund, sem Tryggvi flutti til landsins, dregur íslenskt heiti sitt af garðinum og er kölluð þingvíðir. Ekki er talið að neitt af upprunalegu trjánum standi enn í garðinum.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Kostnaður við framkvæmdir í garðinum varð meiri en á horfðist og var sumarið 1894 kominn í 2.839 krónur. Hafði Tryggvi lagt út fyrir því sem á vantaði þegar 1.500 króna fjárveitingin var þrotin. Á þinginu 1894 var samþykkt að verja rúmlega 1.000 krónum sem eftir stóðu í þinghúss­byggingarsjóðinum til að gera upp reikninga og veita 1.200 krónur úr landssjóði til að ljúka verkinu.

Næstu ár eyddi Tryggvi ómældum tíma í vinnu í Alþingisgarðinum og var ósk hans að verða jarðsettur þar. Var orðið við henni, garðurinn vígður sem heimagrafreitur og hvílir Tryggvi syðst í garðinum undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum. Á leiðinu er brjóstmynd af Tryggva eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Sjá meira um Alþingisgarðinn HÉR.

Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/18/Althingisgardurinn-fridlystur/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/althingisgardurinn_fridlystur/
-https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/aga0t1/althingisgardurinn-fridlystur
-https://www.althingi.is/um-althingi/fraedslu–og-kynningarefni/um-althingishusid/
-https://fila.is/wp-content/uploads/2019/07/Vi%C3%B0auki-3-Al%C3%BEingisgardurinn-Karl-G.-Athugun.-Copy.pdf

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2022.

Bessastaðir

„Fornleifauppgrefti á Bessastöðum, vegna framkvæmda sem þar eiga að fara fram, er nú senn að ljúka (18. september, 1991). Verkið hefur staðið í tvö ár með hléum og hafa fundist leifar um mannvist undir gjóskulagi frá því seint á 9.öld. Fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Guðmundur Ólafsson hafa stýrt rannsóknunum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Fornleifarannsóknir hófust á Bessastöðum árið 1987 þegar verkamenn sem unnu við viðgerðir á gólfi Bessastaðastofu komu niður á húsarústir. Leiddi rannsókn í ljós að hér væri um konungsgarð að ræða, þ.e.a.s. bústað æðsta embættismanns konungs, og voru rústirnar varðveittar í kjallara Bessastaðastofu þar sem þær eru almenningi til sýnis.

Bessastaðir

Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.

Tveimur árum seinna var ákveðið að endurbyggja staðinn en í kjölfar þeirrar ákvörðunar var Þjóðminjasafninu falið að rannsaka þann hluta lóðarinnar sem yrði fyrir hnjaski vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Hafa þessar rannsóknir að sögn Sigurðar Bergsteinssonar staðið með hléum frá árinu 1989 en þeim lýkur sennilega eftir tvo til þrjá mánuði. Sigurður segir að komið hafi verið niður á rústir alls staðar þar sem borið hefði verið niður. Væru þær elstu frá því snemma á miðöldum (10.öld) en leifar hefðu fundist allt til dagsins í dag.

Bessastaðir

Þá sagði hann að leifar eftir mannvist hefðu fundist undir svokölluð landnámslagi sem er gjóskulag frá því seint á 9. öld. Væri um að ræða móösku og torfusnepla en hvorki hefðu fundist hlutir né leifar af byggingum. Af þeim sökum væri ekki hægt að slá neinu föstu um búsetu fólks á staðnum enda væri ekki getið um landnámsbæ á Bessastöðum í Landnámu. Leifar hafa fundist undir landnámslagi í Suðurgötu í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í samtali við Sigurð kom fram að fáir hlutir hefðu fundist í rústunum. Þó nefndi hann sem dæmi að fundist hefði snældusnúður frá því á miðöldum og fjögur sáför (stór matarílát grafin í gólf). Árið 1987 fundust á Bessastöðum meðalaglös frá því á 18. öld þegar Apótek Íslands var staðsett þar um tíma. Leifar frá skólahaldi hafa einnig fundist á Bessastöðum, meðal annars skriftarspjöld skólapilta.“

Heimildir:
-MBL miðvikudaginn 18. september, 1991 – Innlendar fréttir -Bessastaðir: Leifar um mannvist frá því á 9. öld. Sigurður Bergsteinsson.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Kúastígur

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi“. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir „þrjótur, slæpingi; seppi“. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Töðugerði

Töðugerði.

Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp á Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.