Hvalsnesgata

FERLIR hafði vinsamlega sótt um leyfi til lögreglu- og tollyfirvalda á Keflavíkurflugvelli að fá að fylgja hinni fornu Hvalsnesgötu frá Keflavík að Hvalsnesi. Leyfisbeiðnin fólst í að fá að fylgja fornu götunni í gegnum hið svonefnda „ytra varnarsvæði“ vallarins, sem í dag verður að teljast alger tímaskekkja.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið – ytri varnargirðingin.

Þegar hvorutveggja yfirvöldin svöruðu engu um alllangt skeið, líkt og opinberum stofnunum er líkt, var bara ákveðið að fara með stóran hóp áhugasamra landmanna nefnda leið, allt frá Keflavík, upp með Róselsvötnum að kirkjunni á Hvalsnesi um Melaberg.
Reyndar þurfti að takast á við óþarfa manngerðar hindranir á leiðinni, en með góðum undirbúningi var fyrirhöfnin vel þess virði. Gat á varnargirðingunni auðveldaði innkomuna og meðfylgjandi stigar hjálpuðu til við yfirgönguna að handan, ofan Melabergsvatna.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Í ljós kom að „varnargirðingin“ umhverfis Völlinn hafði risið undir nafni, því hún hafði stuðlað að hingað til ósnertum aldagömlum minjum á svæðinu, m.a. stórkmerkilegum vörðum á vetrarhlutaleiðinni með persónulegum einkennum þeirra tíma, auk varðveislu Fuglavíkurselstóftanna.
Engu var raskað á flugvallasvæðinu og engin hætta stafaði af flugumferð af göngu hópsins um „hið ytra varnarsvæði“ vallarins.
Á svæðinu eru um að ræða fornminjar, sem stofnanir stjórnvalda geta ekki hindrað áhugasama landsmenn í að skoða með viðbragðsleysinu og þögninni einni saman, enda þjónar „hin austari ytri varnagirðing“ á Miðnesheiði nákvæmlega engum tilgangi í dag, árið 2025…

Hvalsnesgata

Gengið um Hvalsnesgötu um ytra varnarsvæðið.

Hafnir

Árið 1903 birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags „Rannsókn Brynjúlfs Jónssonar í Gullbringusýslu og Árnessýslu árið 1902„. Þar fjallar hann m.a. um aðstæður og minjastaði í Hafnahreppi:

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838 – 1914).

„Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Innst skiftist hann í smá-voga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að Kirkjuvogi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.

Hafnir

Kotvogur í Höfnum v.m.

Kotvogur stóð þó þar, sem hann er enn, sunnanmegin við Ósana. En kirkjusókn átti hann að Kirkjuvogi og allir bæir fyrir innan Kalmanstjörn. En þaðan, og frá þeim bæjum, er sunnar voru, var kirkja sótt að Kirkjuhöfn. Til Kirkjuvogs sóttu líka Suðurnesjabæirnir: Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Stafnes, ásamt hjáleigum. Stóð það fram að 1370, er Oddgeir biskup vígði kirkju á Hvalsnesi. Enn átti Innri-Njarðvík sókn að Kirkjuvogi: hélzt það, þó Kirkjuvogur væri fluttur suður fyrir Ósa, og þangað til 1760, er Ólafur biskup Gíslason, vígði kirkju í Njarðvík.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kirkjugarðurinn.

Fremur er það fátt, sem menn vita um Kirkjuvog hinn forna. Þess er getið í Árbókum Espólíns II. 68. að 1467 seldi Ólafur biskup Rögnvaldsson Eyjúlfi Arnfinnssyni »Voga« í Rosmhvalsnesshreppi fyrir 3 jarðir á Vestfjörðum.
Nú er enginn bær í Rosmhvalsnesshreppi, er heitir »í Vogum«. Mun hér því átt við Kirkjuvog hinn forna og ef til vill Kotvog með, eða þó öllu heldur Djúpavog, sem mun hafa verið hjáleiga frá Kirkjuvogi og staðið við Ósabotnana. Svo segir í landamerkjabréfi frá 1270:

Hafnir

Hafnir – herforingjarðarskort.

»En lyngrifamörk skilur gata sú, er liggur fyrir innan Torfmýrar og upp á Háfaleiti til vörðu þeirrar, er stendur á leitinu þar, sem hæst er milli Kirkjuvogs, Njarðvíkur og Djúpavogs. En rekamörk millum Djúpavogs, Starness og Hvalsness skilur gróf sú, er verður fyrir innan klettana til hægri handar, er riðið er frá Kirkjuvogi«. Hér virðist »Djúpivogur« vera bæjarnafn.
Og það getur ekki verið annað nafn á Kirkjuvogi, þar eð hann er líka nefndur í sömu málsgreininni. Nokkru fyrir innan Kirkjuvog hinn forna gengur gróf mikil frá Ósabotnunum þvert til norðurs. Gengur sjór nokkuð inneftir henni, og heitir þar enn Djúpivogur. Þar litlu innar ætti bærinn, Djúpivogur, að hafa verið. Merki sjást ekki til þess; en það er ekki að marka.

Hafnir

Hafnarhreppur – kort.

Sjór hefir mjög gengið á land í Ósunum, og getur bæjarstæðið verið brotið af. Þó hefir það ekki verið sjávargangur, heldur sandfok, sem eytt hefir Kirkjuvogi hinum forna. Hvenær það var, vita menn ógjörla. Jarðabók A. M. telur hann hafa verið í eyði meir en 120 ár þá er hún var rituð. Hefir það því eigi verið síðar en á 16. öld, en getur vel hafa verið fyr. Það liggur nærri að ætla, að þá hafi sami maður átt bæði Kirkjuvog og Kotvog, er hann flutti Kirkjuvog heim á tún í Kotvogi. Bendir það til þess, að Kotvogur hafi frá upphafi verið talinn hjáleiga frá Kirkjuvogi, þó Ósarnir væri á milli.
Þess er getið, að Kirkjuvogskirkja átti 1/2 Geirfuglasker. — Kirkjubólskirkja og Hvalsnesskirkja áttu 1/4 hvor. — Hannes hét maður, Erlendsson, er var á Stafnesi hjá Guðna sýslumanni Sigurðssyni og fluttist með honum að Kirkjuvogi 1752. Um Hannes er þess getið í riti séra Sigurðar, að hann hafði oft farið í Geirfuglasker á tólfæringi. Þá var skerið sem kýrfóðurvöllur að stærð, og alþakið fugli. Nú er skerið alveg í kafi.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Efni þess var móberg, og hefir sjórinn smámsaman máð það burtu. Á dögum Guðna sýslumanns fékkst sáta af heyi þar sem nú heitir Kirkjusker fyrir framan Kotvog. Það er nú þangi vaxið. Þetta sagði séra Sigurði Gróa Hafliðadóttir, merk kona í Kirkjuvogi, en henni hafði sagt Ragnhildur Jónsdóttur, er var ráðskona Guðna sýslumanns á síðustu árum hans. Hún komst á níræðisaldur og var einkar fróð kona.
Enn má geta þess, til merkis um það hve landið hefir brotnað, að í Ósunum var ey mikil, milli Kotvogs og Kirkjuvogs forna, og var hún slægjuland. Nú í seinhi tíð hefir hún bæði blásið upp og sjór brotið
hana, því flóð falla mjög svo yfir klappir þær, sem undir jarðveginum láu. Þar fann Vilhjálmur sál. Hákonarson, á yngri árum sínum, skeifu, er kom fram undan 3 al. háum bakka. Hún var miklu stærri en skeifur eru nú á dögum. En þá var forngripasafnið enn ekki stofnað. Var ekkert hirt um skeifuna og er hún glötuð fyrir löngu.

Hafnir

Teigur innan Hafna – minjar.

Árnagerði heitir eyðijörð fyrir innan Kirkjuvogshverfið. Mun það án efa hafa verið hjáleiga. Önnur eyðijörð ei fyrir utan hverfið, og heitir Haugsendar. Um það bæjarnafn er sama að segja sem um BátsX enda. Þar mun upphaflega hafa heitið »í Haugsundum«, hvort sem það á við sjávarsund eða sund milli hæða á iandi. Það getur hvorttveggja verið. Annara eyðijarða er ekki getið fyrir innan Kalmanstjörn. En þar tekur sandblásturinn við fyrir alvöru.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuhöfn er góðum kipp fyrir sunnan Kalmanstjörn. En þar mitt á rnilli, eða því nær, er hóll sá er Stekkjarhóll heitir, því þar hefir í seinni tíð verið stekkur frá Kalmanstjörn. Þar er rústabunga mikil, og hefir óefað verið bær. Liggur þaðan óslitinn garður, líklega túngarður, alla leið út að Kirkjuhöfn. Þvert frá þeim garði liggja þrír þvergarðar til sjávarkambs, með þeim millibilum að svara mundi kýrfóðurvelli eða meira. Liggur beint við að ætla, að sitt býli hafi fyrrurn verið á hverri þessari spildu og bæirnir staðið við sjóinn. En hann hefir brotið landið, og er þar nú kamburinn, sem bæirnir hafa staðið. Alt land er hér sandrokið hraun.

Gömlu-Hafnir

Kirkjuhöfn – bæjarhóll.

Þó er grashóll þar, sem bærinn Kirkjuhöfn stóð, og er gróið yfir bæjarrústina, svo hún sést ógjörla. Sunnan undir hólnum er sérstök grjótrúst, sern ætla má að sé kirkjutóftin. Suður þaðan er dálítil sandvík með malarkambi. Bak við kambinn hefir verið mýrardæld, sem nú er leirflag. Í henni sést brunnurinn. Utanvert við vík þessa er höfnin, sem bærinn Kirkjuhöfn er kenndur við. Það er lón fyrir innan skerjaröð. Þar er þrautalending í öllum suðlægum áttum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn fremst, þá Sandhöfn og yst Eyrarhöfn (Hafnareyri).

Sandhöfn, stóra og litla, heita tvær graxivaxnar hæðir, sem eru hvor hjá annari suðvestur frá höfninni.
eyði. Í þeim hæðum voru bæir, sem nú eru eyddir af sandfoki. Stóra Sandhöfn er austar, og lagðist hún fyr í eyði. Er svo langt síðan, að Á. M. jarðab. getur hennar ekki. En Kirkjuhöfn og Litlu-Sandhöfn telur hún sem eyðijarðir. Seinna var gjör bær á Hafnareyri. Það er skamt út frá Litlu-Sandhöfn. En hann hélzt skamma stund við. Er sá maður nefndur Ormur Þórarinsson, sem þar bjó síðast. Allir þessir bæir hafa verið fyrir innan Hafnaberg.

Skjótastaðir

Leifar Skjótastaða á Hafnabergi.

Skjótastaðir er hið eina býli sem nefnt er fyrir sunnan Hafnaberg. Það örnefni er norðantil við vík nokkra, er Sandvík heitir. Engar sjást þar rústir. En þær geta verið sandorpnar. Sunnantil við víkina er allgóður lendingarstaður.“

Védís Elsa Kristjánsdóttir fjallar um „Byggðaþróun á Suðurnesjum“ í Faxa árið 1978. Hér er umfjöllun hennar um „Hafnarhrepp„:
„Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar munu hafa verið blómleg bú í landi Hafnarhrepps, en jarðir eyddust og byggð lagðist niður sökum eldgosa, jarðskjálfta, sandfoks og ágangs sjávar.

Védís Elsa kristjánsdóttir

Védís Elsa Kristjánsdóttir.

Höfnum er lýst svo um aldamótin 1700: „Kirkjuvogur stendur sunnan við svonefnda Ósa, er skerast 1/2 viku sjávar til norðausturs, með sandi og marhálmi í botni. Eyja er í Ósunum, grasgefin mjög og gefur af sér lítið eitt á annað kýrfóður. Kirkjuvogur hefur fóðrað yfir 20 kýr, en nú ekki meira en 16, vegna sjávargangs og sandfoks. Hér er eitt hið allra mesta útræði og ganga héðan aðeins stór skip, tíræðingar, og er sótt á reginhaf, margar vikur sjávar, enda heppnast oftast aflabrögð. Selveiði er mikið tíðkuð hér, fyrir og eftir fardagaleytið og hrognkelsaveiði fyrir og eftir slátt. Mikið landrými er hér og hagabeit góð. Kirkjuvogur er talin 72 hndr., en skiptist í Austurbæ, Miðbæ, Vesturbæ og Kotvog.“
Í Kirkjuvogi sátu lögréttumenn og höfðingjar mann fram af manni. Um síðustu aldamót voru Kirkjuvogur og Kotvogur enn stórbýli, þar sem bjuggu útvegsbændur. Nokkurt þéttbýli var þar í kring.

Kotvogur

Kotvogur 2003.

Með breyttum háttum í útgerð á fyrri hluta þessarar aldar, varð hafnleysið til þess að útgerð dróst þar mjög saman og fólki fækkaði.
Sú fjölgun íbúa sem var milli 1950 og 1960 (úr 146 í 250),. stafar af því, að starfsmenn á Keflavíkurflugvelli, sem bjuggu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sáu sér hagnað í því að flytja lögheimili sitt
til Hafnahrepps, vegna lágra útsvara þar. Síðan hefur dregið úr þess háttar tilfærslum.

Hafnir

Höfnin í Höfnum hefur verið úrskurðuð ónýt. Hún fór mjög illa í sjávarflóðunum 2025. Nú liggur fyrir að ekki verður ráðist í viðgerðir.

Hafnir liggja vel við fiskimiðum, en höfn er þar léleg og hentar aðeins smábátum og trillum. Þaðan eru nú gerðir út 10-12 bátar, 2-15 lestir að stærð og eingöngu á handfæri. Frystihús var byggt um 1945, en rekstur þess hefur gengið skrykkjótt og síðast liðin tvö ár hefur það ekki verið starfrækt. Eina atvinnufyrirtækið í hreppnum er saltfiskverkunarstöð, sem einnig hefur lítilsháttar frystingu.
Atvinnulífið er mjög háð Keflavíkurflugvelli. Íbúar 1. desember, 1975, voru 134.“

Í greininni kemur reyndar fram að Grindavík sé á Suðurnesjum, sem er mikill misskilningur. Grindavíkur taldist fyrrum aldrei til Suðurnesja.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Brynjúfur Jónsson, bls. 41-43.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Byggðaþróun á Suðurnesjum, Védís Elsa Kristjánsdóttir, bls. 10.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur fyrrum.

Kálfatjörn

Adolf Björnsson skrifaði um „Eirík Björnsson“ í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd í Íslendingaþætti Tímans árið 1973. Minningin lýsir að nokkru aðstæðum og mannlífi á Ströndinni á fyrri hluta síðustu aldar:

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

„Heiðurshjónin Halla Matthíasdóttur og Björn Jónsson og fluttust frá Norðurkoti á Vatnsleysuströnd árið 1922 til Hafnarfjarðar og ólu þar aldur sinn til æviloka. Þau lifðu bæði til hárrar elli.
Í Hafnarfirði reistu þau lágreist íbúðarhús í vesturbænum. Takmarkaður fjárhagur leyfði ekki að byggja nema við þröngan kost, svo ekki var hátt til lofts né vitt til veggja, og börnin voru þrjú og því strax þröngt i hinum snotru húsakynnum Norðurkotshjónanna frá Vatnsleysuströnd.
Þau Halla og Björn voru bæði roskin að aldri, er þau fluttust til Hafnarfjarðar, vinnulúin og starfsslitin eftir áratuga stranga og óblíða baráttu við fátækt og oft á tíðum bjargarskort, en ávallt voru þau lifsglöð og trúuð á betri tíma og bjartari framtíð komandi kynslóða.

Eiríkur Björnsson

Eiríkur Björnsson (1899-1973).

Á Vatnsleysuströnd var um aldamótin og reyndar löngum fyrr og síðar, háð harðsnúin barátta til lífsbjargar við úfnar öldur Faxaflóa og búið við algert hafnleysi þar um slóðir.
Undrar því engan, að erfitt var að sækja sjó og draga fisk úr sjó með handfærum á opnum árabátum á skammdegisnóttum og frosthörðum vetrum, sem oft var hlutskipti þeirra þar syðra.
Ekki bætti úr aflabrögðum á Vatnsleysuströnd, þegar erlend veiðiskip í upphafi aldar, vélknúin og hraðskreið, gerðust aðsópsmikil á miðunum og ógnuöu hinum opnu áratoguðu smáfleyjum með stórtækum botnvörpum og gegnu svo nærri heimamiðum, að segja hefði mátt, líkt og sagt var um ágang erlendra togara við sandana á Suðurlandsströndinni, að jafnvel garðlönd voru í veði.
Á Vatnsleysuströnd var nokkuð fengizt við fjárrækt, en erfitt reyndist um hrjóstruga hraunfláka Reykjanesskaga að finna grasreiti, til ræktunar vetrarfóðurs fyrir nokkrar kindur, er fylgdu flestum bæjum, eða bera niður á moldarlögum til kartöfluræktunar og annarra jarðavaxta.

Norðurkot

Norðurkot, lengst t.h. – Túnakort 1919.

Við þessar aðstæður ólst Eiríkur Björnsson upp í byrjun þessarar aldar í Norðurkoti á Vatnsleysuströnd frá fæðingardegi 17. október 1899, unz hann 1922, þá 23 ára að aldri, fluttist til Hafnarfjarðar með foreldrum sínum, sem fyrr segir, og tveimur systkinum, Margréti og Jóni.
Margt ágætra manna og kvenna hafa flutt frá Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar og einnig tekið sér bólfestu víða annars staðar um landið. Allt þetta ágæta fólk hefir reynzt hinni nýju heimabyggð dugandi fólk og markað gæfuspor, þar sem það hefir stigið fæti.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Þó skal ekki vanmetið, að á Vatnsleysuströnd býr enn kjarnafólk, margt við aldur, sem aldrei hefir látið yfirbugast í erfiðleikum lífsbaráttunnar.

Eiríkur Björnsson var ekki skólagenginn umfram barnafræðslu, er hann naut af skornum skammti á æskuárum. Hann leitaði sér frekari fræðslu við lestur góðra bóka, og gaf sér til þess tíma, er hann átti aflögu, frá daglegum störfum. Hann var vandfýsinn og smekkvís á val bóka. Hann fylgdist áhugasamur með bættum kjörum og framförum þeirra stétta, er hann var vaxinn upp úr og urðu hans ævistörf, en það var sjómaðurinn á hafi úti og verkamaðurinn í landi.

Sigríður Eiríksdóttir

Sigríður Eiríksdóttir (1889-1970).

Eiríkur var vel metinn í starfi og gilti þar einu um samverkamenn og yfirboðara. Hann var harðduglegur til allra starfa, ósérhlífinn, glaðlyndur, samviskusamur, húsbóndahollur og umtalsgóður í hvers manns garð, er á vegi hans urðu, en lét aðra afskiptalausa.“

Kristín I. Tómasdóttir skrifaði um „Sigríði Eiríksdóttur„, ljósmóður, í Ljósmæðrablaðið árið 1970. Sigríður fæddist í Norðurkoti árið 1998. Þrátt fyrir fátækt tókst henni að berjast til mennta, ólíkt mörgum öðrum sem fæddust í hennar aðstöðu á Ströndinni fyrrum. Hún ólst upp í Hafnarfirði:
„Sigríður E. Sæland er fædd að Norðurkoti á Vatnsleysuströnd. Foreldrar hennar voru hjónin Eiríkur Jónsson sjómaður og bóndi að Halldórsstöðum á Vatnsleysuströnd og síðar að Sjónarhóli í Hafnarfirði og kona hans Sólveig Benjamínsdóttir frá Sjónahóli (Innri-Ásláksstöðum). Hún var elzt af stórum barnahóp og fluttist með fjölskyldu sinni til Hafnarfjarðar 1907.

Vatnsleysuströnd

Innri-Ásláksstaðir 1977. Sjónarhóll lengst t.v. Ytri-Ásláksstaðir fjær sem og Móakot lengst til t.h.

Frú Sigríður útskrifaðist frá Ljósmæðraskóla Íslands 1912 og hóf strax ljósmóðurstörf í Garða- og Bessastaðahreppi. Hún fór til framhaldsnáms til Kaupmannahafnar og nam þar við Righospitalet árin 1914—1915, og aftur fór hún til frekara náms 1937 og þá til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Sigríður var mjög lánsöm og eftirsótt ljósmóðir og vann alla tíð við ljósmóðurstörf, frá því að hún útskrifaðist og svo lengi sem heilsan entist. Hún giftist Stígi Sæland lögregluþjóni í Hafnarfirði 14. nóv. 1916. Þau eignuðust 3 börn og ólu upp eina stúlku frá 7 ára aldri og lét Sigríður eftir sig stóran hóp af barnabörnum og barnabarnabörnum.

Norðurkot

Norðurkot árið 2000.

Sigríður lét um ævina flest líknar- og mannúðarmál til sína taka. Hún vann mikið að bindindismálum og gekk árið 1910 í Stúkuna Danielsher no 4. og var einnig meðlimur í Stórstúku íslands. Hún var ein af frumkvöðlum Slysavarnardeildarinnar Hraunprýði í Hafnarfirði og formaður þar fyrstu árin og meðlimur Slysavarnafélags Íslands og heiðursfélagi síðustu árin. Hún var einnig ein af stofnendum Ljósmæðrafélags Íslands.“

Í Alþýðublaðinu 1977 er opna með yfirskriftinni „Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði“. Umfjölluninni fylgja nokkrar ljósmyndir:
„Vatnsleysuströnd á Reykjanesi er nú sem óðast að leggjast í eyði. Fæst húsanna eru nýtt sem mannabústaðir og á enn færri stöðum er rekinn búskapur. Hér hefur orðið á mikil breyting á síðustu árum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

En hvers vegna? Ástæðurnar eru sjálfsagt margar. Okkur Alþýðublaðsmönnum var tjáð af fólki á Vatnsleysuströnd að hún hefði alla tíð verið heldur rýr þar i sveit og hefðu því verið margir útvegsbændur á Ströndinni.
En lendingar hafa spillzt með árunum og sífellt lengist á miðin. Þannig er varla nokkur grundvöllur fyrir báta af þeirri stærð, sem geta notað gömlu lendingarnar á Ströndinni, en stærri bátarnir leggja flestir upp í Vogunum.
Enn eru þó nokkrir trillukarlar eftir og fara þeir flestir á grásleppu enda ekki langt á þau mið.
Vatnsleysuströndin var í alfaraleið, Keflavíkurvegurinn gamli svo að segja þræddi byggðina á Ströndinni. En eftir að nýi vegurinn kom, hvarf byggðin sjónum vegfarenda, fáir eiga þar nú leið um nema eiga þar brýnt erindi. Er menn aka Reykjanesbrautina, berja þeir ef til vill augum skilti, sem á stendur „Vatnsleysuströnd”. Ef fleiri en einn maður er í bílnum, er nokkuð víst að annar þeirra segi:

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1977.

„Ætl’ að sé ekkert vatn ’arna?” og síðan er ekki hugsað meira um það.
Margir ibúar á Ströndinni hugsa með söknuði til gamla [Keflavíkur]vegarins, þeim finnst þeir vera komnir úr sambandi við umheiminn.
Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, þá er það staðreynd, að á Ströndinni eru mörg hús mannlaus og ónotuð, nema að vera kynni að einstaka veðurhrædd rolla noti skjólið sem af þeim er í erfiðum veðrum. Hús, sem mörg hver eru sterkleg og góð, en eru nú farin að láta á sjá vegna vanhirðu.
Meðfylgjandi myndir frá Ströndinni eru flestar af slíkum húsum og umhverfi þeirra. Sýna þær e.t.v. betur en orð hvernig smám saman hefur sigið á ógæfuhliðina, uppgjöf og hirðuleysi hafa lagst á eitt um að gera húsin að óaðlaðandi mannabústöðum.“

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd 1987 – Vesturkot.

Í Tímanum árið 1987 er einnig opna með ljósmyndum frá Vatnsleysuströnd með yfirskriftinni „Sjósókn og búskapur – hlið við hlið„:
„Á Vatnsleysuströndinni er ekki talið gott undir bú. Samt voru umsvif þar mikil áður fyrr og bændur meira en bjargálna og sumir ríkir.
Útvegur var mikill og á vertíðum dreif að fjölmenni víða að til að stunda róðra. Útvegsbændur voru fyrirferðarmiklir og héldu sumir úti mörgum skipum og tóku hluti af öðrum sem stunduðu útræði frá jörðum stundaður á Vatnsleysuströnd, heyjað á smáblettum, en veruleg.

Vatnsleysuströnd

Frá Vatnsleysuströnd 1987.

En það voru nálæg og gjöful fiskimið sem skiptu sköpum og héldu uppi lífskjörum sem þóttu góð á sínum tíma. Eftir að útræði á árabátum lagðist af fór vegur Vatnsleysustrandar minnkandi, enda ströndin hafnlaus.
Hafnargarður var byggður í Vogum en stórbátaútgerðin færðist að mestu sunnar á nesið. En athafnasemi hefur glæðst á ný og er nú til dæmis rekið eitt stærsta svínabú á landinu á Vatnsleysu og stórfelld fiskirækt er hafin og lítil hætta er á að byggð leggist af á hinum fornu útvegsjörðum, þótt búskapur sé rekinn með öðru sniði en áður og aflafengur fenginn með öðrum hætti.“

Jón G. Benediktsson

Jón G. Benediktsson (1904-1984).

Í Morgunblaðinu 1983 skrifaði Jón G. Benediktsson um „Voga í Vatnsleysustrandarhreppi„. Jón G. var frá Suðurkoti í Vogum:
„Strandlengjan nær frá Lónakotslandi í Hraunum sem nú tilheyrir Hafnarfirði og út að svo nefndri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa, en þar tekur við Njarðvíkurland. Þessi strandlengja mun vera um 25 til 30 km að lengd.
Vatnsleysuströnd sem hreppurinn dregur nafn sitt af nær frá Keilisnesi að Djúpavogi, en Djúpivogur er landamerki á milli Brunnastaðahverfis og Voga. Vogar ná þaðan og að fyrrnefndri Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Fyrir innan Keilisnes eru bæirnir Flekkuvík, Vatnsleysur og Hvassahraun. Vogarnir og bæirnir fyrir innan Keilisnes eru því ekki á Vatnsleysuströnd, en algengt er að sagt sé og skrifað Vogar á Vatnsleysuströnd, sem að sjálfsögðu er alrangt. Hins vegar er rétt að segja Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi. Á mínum ungdómsárum var oft sagt í sambandi við sjósókn og smalamennsku, Vatnsleysingar, Strandaringar eða Vogamenn til aðgreiningar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – herforingjaráðskort.

Eftir að Vogarnir urðu þéttbýliskjarni innan hreppsins hefur þessi skilgreining afbakast það mikið að full þörf er á leiðréttingu. Er þessi misskilningur sérstaklega bagalegur í skrifum um Vogana, til dæmis er sagt í Almanaki þjóðvinafélags Íslands 1982 að íbúar á Vatnsleysuströnd hafi verið 566 í desember 1980.
Það virðist vera útbreiddur misskilningur að í Vatnsleysustrandarhreppi sé lítið um vatn, en það er nú öðru nær. Nafnið er tilkomið vegna þess, að þar leysir mikið vatn neðanjarðar. Því til sönnunar má nefna að mjög víða í fjörum má finna tært vatn sem kemur uppúr klapparsprungum á útfalli, svokölluð fjöruvötn. Áður fyrr voru þessi fjöruvötn hagnýtt við skolun á taui og ull. Þá má benda á að allsstaðar þar sem borað hefur verið eftir vatni virðist gnægð af því.

Vogar

Vogar.

Hrepparígur, allir kannast við það orð. Hann hefur stundum skotið upp kollinum hér í hrepp sem annarsstaðar flestum til leiðinda, en til voru menn sem gerðu grín að slíku hér þegar ég var krakki og sögðu þá Vogaglymjandinn eða Strandarvargurinn.
Einhvern tíma varð þessi vísa til, en hún er svona:

Strandaringar stæra sig og stundum gapa,
allt um síðir upp þeir snapa
og róa undir Vogastapa.

Þess má geta að löngum voru undir Vogastapa ein fengsælustu fiskimið landsins. Þessi mið voru títt nefnd Gullkistan.“

Heimildir:
-Íslendingaþættir Tímans. 59. tbl. 08.11.1973, Eiríkur Björnsson í Norðurkoti, Adolf Björnsson, bls. 3.
-Ljósmæðrablaðið, 4. tbl. 01.10.1970, Sigríður Eiríksdóttir frá Norðurkoti, Kristín I. Tómasdóttir, bls. 79-180.
-Alþýðublaðið, 228. tbl. 29.10.1977, Vatnsleysuströnd að leggjast í eyði, bls. 6-7.
-Tíminn 16.04.1987, Sjósókn og búskapur – hlið við hlið, bls. 16-17.
-Morgunblaðið. 199. tbl. 02.09.1983, Vogar í Vatnsleysustrandarhreppi, Jón G. Benediktsson skrifar, bls. 70.

Vogar

Vogar.

Vífilsstaðir

Í blaði SÍBS árið 2010 í tilefni af 100 ára afmæli Vífilsstaðaspítala er m.a.a fjallað um „Stórbúið að Vífilsstöðum„:

Vífilsstaðir„Í dagblaðinu Vísi 20. október 1931 segir frá búskapnum á Vífilsstöðum. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að við upphaf starfsemi Vífilsstaðaspítala 1910 sé talið að ræktað land hafi gefið af sér um 60 hesta heyfengs. Búskapur á jörðinni hófst 1916 og var stundaður þar til ársins 1974. Í blaðinu er sagt frá því að fljótlega eftir að búskapurinn hófst hafi umtalsverð ræktun á landi farið fram undir forystu Þorleifs Guðmundssonar bústjóra og síðar Björns Konráðssonar, sem tók við búsforráðum 1925.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir 2025.

Í Vísi er vitnað til greinar eftir Gunnar Árnason í „Búnaði sunnanlands“, sem segir að fljótlega hafi verið búið að rækta 52 ha. af mýrum og melum, „og geta menn gert sér glegsta hugmynd um land það, sem ræktað hefir verið, með því að skoða holtin og mýrarnar utan túns, sem eru ekki verri til ræktunar en land það, sem þegar er komið í fulla rækt. Aðallega hefir áhuganum í nýræktinni verið beint að túnrækt, en nú s.l. ár hefir einnig verið tekið til óspiltra mála með garðræktina, bæði utan húss og innan.“

Þúfnabaninn

Vífilsstaðir

Þúfnabani.

Jarðræktin tók stórstígum framförum 1921 þegar þúfnabaninn kom til landsins „enda var þá hin alkunna vetrarmýri tekin til ræktunar, og er nú orðin að grasgefnu þurru túni. Mýri þessi er talin hin óálitlegasta, sem tekin hefir verið til ræktunar enn sem komið er hér á landi. Alt ræktaða landið er nú um 156 dagsláttur og gefur af sér fulla 2000 hesta af töðu í meðalári,“ eins og segir í Vísi. Á túnum Vífilsstaða eru nú m.a. golfvellir Garðabæjar og Kópavogs.

Stórt kúabú
VífilsstaðirÍ blaðinu kemur fram að bústofninn hafi aukist jafnhliða ræktuninni og hafi um 70 nautgripir verið á búinu 1931, þar af um 60 mjólkandi kýr, sem að meðaltali gáfu af sér um 3334 lítra og besta kýrin hátt í 5000 lítra. Árleg mjólkurframleiðsla var um 190 þúsund lítrar og heyfengur kominn yfir 2200 hesta. Auk túnræktar gáfu kartöflugarðar af sér um 80 tn. og rófur vel á annað hundrað tonn. Auk þessa var mikil kálrækt á Vífilsstöðum.

Búskapur til fyrirmyndar
VífilsstaðirSíðan segir Vísir: „Það er ánægjulegt að koma að Vífilsstöðum um sláttinn í góðu veðri. Úti og inni ber alt vott um góða bússtjórn, þrifnað og hirðusemi. Fjósið er raflýst og útbúið með sjálfbrynnurum af mjög hagkvæmri gerð.
Mjaltavélar hafa verið notaðar um nokkurt skeið og sparast mikill vinnukostnaður við notkun þeirra. Áföst við fjósið eru: hesthús, svínahús og hænsnahús. Vagna, áhaldahús og smiðja eru í nánd við fjósbygginguna.
VífilsstaðirÞað, sem þó vekur einna mesta eftirtekt, er komið er að sumarlagi að Vífilsstöðum, er það, hve vélanotkun er á háu stigi á búinu. Sláttur fer eingöngu fram með vélum og heyinu er snúið með vélum og tekið saman með vélum. Sérstaka eftirtekt vakti í sumar ný tegund snúningsvélar sem væntanlega verður ritað ítarlega um í Frey eða Búnaðinum.
[…] Orf, hrífur og reipi sjást ekki á Vífilsstöðum. Væri betur, að ræktun tæki þeim framförum hvervetna á landinu, að slíkir gripir sæist að eins á forngripasöfnum. Með því fyrirkomulagi, sem haft er á Vífilsstöðum getur nú einn dugandi bússtjóri annast heyskapinn með aðstoð 6-7 unglinga.
VífilsstaðirÞað verk, sem unnið hefir verið á Vífilsstöðum, er afar mikils virði fyrir íslenskan landbúnað, og gefur hinar bestu vonir um framtíð íslensks landbúnaðar. Þar hefir verið sannað, hvað hægt er að gera úr lélegri mýri, en um land alt liggja ónotuð mýrarflæmi, sem eru langtum betur til ræktunar fallin, mýrarflæmi sem eru miljóna virði.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Á Vífilsstöðum má nú sjá hvernig framtíðarbúskapur verður alment stundaður á Íslandi. Á Vífilsstöðum hefir verið leitt í ljós fyrir bændum Íslands áþreifanlegar en annarsstaðar, að töfraorðin, sem framtíð búnaðarins eru fyrst og fremst undir komin eru þessi: Þekking. Ræktun. Vélanotkun. Þeir menn, sem unnið hafa að því, að koma búskapnum á Vífilsstöðum í það horf, sem hann er nú, eiga miklar þakkir skilið,“ segir í Vísi 20. október 1931.“

Heimild:
-ÍBS blaðið, 3.. tbl. 01.10.2010, Stórbúið að Vífilsstöðum, bls. 14-15.
Vífilsstaðir

Þingvallakirkja

Orri Vésteinsson skrifar um „Þingvallakirkju“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2002-2003 (útg. 2204):

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Þingvallakirkja sú sem nú stendur er byggð 1859 en forverar hennar eru taldir hafa staðið á sama stað að minnsta kosti frá því á fyrri hluta 16. aldar. Hún er uppi á hraunhól norðan við Þingvallabæ en kirkjugarðurinn er hins vegar vestan við bæinn. Ýmsum hefur þótt líklegt að upphaflega hafi kirkjan staðið í kirkjugarðinum og lengi hefur verið talið að á 11. öld hafi kirkjurnar verið tvær. Önnur hefði verið búandakirkja, einkakirkja Þingvallabónda, og staðið í kirkjugarðinum en hin hefði verið þingmannakirkja sú sem Noregskonungarnir Ólafur Haraldsson og Haraldur harðráði gáfu viði og klukkur til. Helst hefur verið bent á að sú kirkja gæti hafa staðið uppi á hólnum þar sem núverandi kirkja er og að það væri hún sem Hungurvaka segir frá að hafi fokið í óveðri 1118.

Þingvellir

Þingvallakirkja og nágrenni 2024 – loftmynd.

Ekki sjást nein merki um kirkjustæði í kirkjugarðinum en norðan og austan við kirkjuna uppi á hólnum hefur verið bent á ójöfnur og þess getið til að þær væru leifar af eldri kirkjum eða kirkjugarðsvegg.
Hér á eftir verður sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var sumarið 1999 til að varpa ljósi á sögu Þingvallakirkju, einkum með það í huga að sýna hversu lengi kirkja hefði staðið á hólnum norðan við bæinn. Í sambandi við fornleifauppgröftinn var gerð úttekt á heimildum um Þingvallakirkju og skal fyrst hugað að þeim.

Heimildir um Þingvallakirkju

Þingvellir

Þingvallakirkja og nágrenni – herforingjaráðskort 1910.

Samkvæmt Íslendingabók var kristni lögtekin á Alþingi árið 999 eða 1000. Elsta heimild um kirkju á Þingvöllum er Hungurvaka sem rituð var á fyrsta áratug 13. aldar. Þar kemur fram að árið 1118 hafi kirkja sú fokið á Þingvöllum er Haraldur harðráði (1047-1066) hafi fengið viðinn til. Höfundur Hungurvöku hefur sennilega verið miðaldra er hann reit þessa sögu Skálholtsbiskupa og gæti því vel hafa hitt fólk sem mundi kirkjubrotið 1118. Hungurvaka verður því að teljast fremur áreiðanleg heimild um það atriði og vel má vera að einhver fótur hafi verið fyrir því að Haraldur konungur hafi sent kirkjuviðinn til Íslands.

Þingvellir

Fornleifauppgröftur fór fram norðan Þingvallakirkju árið 1999 með það að markmið að kanna leifar af fyrrum á staðnum. Þetta er afstöðumynd af rannsóknarsvæðinu og nálægum minjum á Þingvöllum, byggð á teikningu Guðmundar Ólafssonar af Þingvallaminjum.

Í Hungurvöku er það orðað svo að Haraldur hafi „fengið viðinn til“ og má vera að að baki liggi sögn svipuð þeirri um kirkju sem Þorkell Eyjólfsson ætlaði að reisa á Helgafelli en Ólafur konungur helgi á að hafa gefið honum viðinn til hennar. Að minnsta kosti er ekki augljóst að túlka Hungurvöku sem svo að Þingvallakirkja hafi verið reist á vegum konungs.
Í yngri heimildum en Hungurvöku fær Þingvallakirkja heldur lengri forsögu. Í Ólafs sögu helga eftir Styrmi ábóta frá um 1220 er sagt um dýrlinginn að hann hafi látið „kirkiu gera a Jslandi a Þinguelli þar sem nu er honum helgud kirkia.“ Snorri Sturluson skrifaði aðra Ólafs sögu, byggða á sögu Styrmis og prjónaði aðeins við söguna um Þingvallakirkju: „Óláfr konungr hafði sent til Íslands kirkjuvið, ok var sú kirkja gor á Þingvelli, þar er alþingi er. Hann sendi með klukku mikla, þá er enn er þar.“ Hér mætti geta þess til að þegar Þingvallakirkja var vígð Ólafi konungi hafi verið búin til helgisögn þess efnis að dýrlingurinn hafi sjálfur gefið kirkjuvið og klukku til fyrstu kirkjunnar þar, og hefur ekki þurft að búa hana til úr engu, aðeins hnika til um einn konung. Uppruni klukku þeirrar sem í Þingvallakirkju var hélt þó áfram að vefjast fyrir sagnariturum og seinna í Heimskringlu, í sögu Haralds harðráða, segir Snorri sjálfur: „Haraldr konungr sendi klukku þangat [til Íslands] til kirkju þeirar, er enn helgi Óláfr konungr hafði sendan viðinn til ok sett er á Þingvelli.“

Þingvellir

Þingvallakirkja – Teikning Sigurðar Guðmundssonar, málara, af meintri þingmannakirkju á Þingvöllum.

Hér er helst að halda að misvísandi sögur hafi verið á kreiki, ekki aðeins um hvor konunganna sendi viðinn heldur einnig um klukku þá sem verið hefur í kirkjunni á árunum 1220-30 þegar allar þessar sögur eru ritaðar.
Bestu tilraun til heildarsamræmis er síðan að finna í sögu Magnúsar góða og Haraldar harðráða í Flateyjarbók og Morkinskinnu, einnig frá um 1220: „Haralldr konungr sende vt til Jslands klucku til kirkiu þeirrar er hinn heilage Olafr konungr sende uidin til og adra kluckuna. og su kirkia var sett aa þinguelle þar sem alþinge er sett.“ Hér fá báðir konungarnir nokkurt hlutverk, Ólafur helgi kirkjuviðinn og klukku en Haraldur harðráði aðra klukku, og má sjá á þessu að í Þingvallakirkju hafa verið tvær klukkur á 13. öld, hvorug nýtilkomin.

Þingvellir

Þingvellir – Teikning Sigurðar, málara, af meintu kirkjuporti þingmannakirkjunnar á Þingvöllum.

Auðvitað er ekki loku fyrir skotið að þessar sagnir eigi allar við nokkur rök að styðjast og Ólafur konungur hafi sent út við til að byggja kirkju á Þingvöllum á árunum 1015-1030 og Haraldur harðráði hafi gert það líka á sínum ríkisárum 1047-1066. Kirkja Ólafs gæti hafa verið léleg eða of lítil og orðin þörf á gagngerum endurbótum eða endurbyggingu þó að ekki væri langt um liðið frá byggingu hennar. Slíkar vangaveltur eru þó til lítils. Heimildirnar eru of fjarlægar atburðunum í tíma og of ósamstíga – án þess að vera hver um sig sérstaklega ólíkleg – til þess að hægt sé að draga af þeim skýrar niðurstöður.
Þó að Þingvallakirkju og kirkjugarðs sé getið á nokkrum stöðum í Íslendingasögum, verður lítið af þeim frásögnum ráðið um gerð kirkjunnar eða staðsetningu. Ljóst er að þingmenn hafa að jafnaði gengið til aftansöngs í Þingvallakirkju, að hellur hafa verið sunnan við kirkjuna og að þar hafa menn oft staðið á mannfundum. Í Grágás og Njáls sögu er kirkjugarðurinn á Þingvöllum kallaður ‘búandakirkjugarður’ og hefur það hugtak lengi valdið mönnum heilabrotum.

Þingvellir

Þingvallakirkja 2025.

Páll Vídalín (1667-1727) segir frá því í Skýringum yfir fornyrði Jónsbókar að Alexíus Pálsson, sem var prestur á Þingvöllum frá um 1514 til 1533, hafi fært kirkjuna úr kirkjugarðinum og upp á hólinn þar sem hún hefur staðið síðan, norðan við bæinn, vegna vatnsuppgangs í kirkjugarðinum. Páll bætir því við að kirkjan hafi í fornöld staðið á hólnum þangað sem kirkjan var færð á 16. öld. Hann skýrir ekki nánar á hverju þessi sögn sé byggð, en einfaldast er að álykta að Páli eða einhverjum öðrum glöggum fræðimanni á undan honum hafi þótt hugtakið ‘búandakirkjugarður’ grunsamlegt og því sé um að ræða fræðilega ályktun frekar en áreiðanlega hefð.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson (1833-1874).

Sigurður Guðmundsson, sem fyrstur gerði skipulega rannsókn á Þingvöllum, taldi það gamla og almenna sögn að tvær kirkjur hefðu verið á Þingvöllum í fornöld, annars vegar búandakirkja og hins vegar þingmannakirkja (nýyrði Sigurðar?) enda væri orðið búandakirkjugarður „tilgángslaust orðatiltæki, ef kirkjugarðurinn hefði verið einn.“ Hann taldi það líka almenna sögn að þingmannakirkjan hefði staðið þar sem Þingvallakirkja stendur nú og taldi sig sjá ummerki bæði um kirkjugarð og klukknaport þar á hólnum. Birtir Sigurður tilgátumyndir bæði af þingmannakirkjunni og klukknaportinu.
Matthías Þórðarson gerði röksemdafærslu Sigurðar að sinni, enda taldi hann ófært að þingmenn hefðu þurft að troðast inn í kirkju Þingvallabónda, sem hann sá fyrir sér sem litla einkakapellu sem hefði verið reist skömmu eftir kristnitöku. Þess vegna hefði verið mikil þörf á nýrri kirkju sem Ólafur helgi hefði gefið þjóðinni og hefði hún þjónað þingheimi til 1118 er hana braut í ofsaveðri. Síðan þá hefði aðeins verið búandakirkja á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvallakirkja 2002.

Hugmyndina um að þingmannakirkjan hefði staðið uppi á hólnum þar sem núverandi kirkja er má því rekja allt aftur á 17. öld, til Páls Vídalíns, og má vel vera að um það hafi verið „almenn sögn“ um aldaraðir. Sigurður Guðmundsson taldi sig sjá merki uppi á hólnum um hellurnar sem sagt er í Ljósvetninga sögu að hafi verið sunnan undir kirkjunni. Matthíasi Þórðarsyni fannst hellurnar ómögulega hafa geta verið í kirkjugarðinum og taldi hann lýsingu sögunnar eiga betur við aðstæður uppi á hólnum. Báðir virðast þeir telja að hellurnar í sögunni séu náttúrulegar hraunhellur, sem vissulega geta hafa staðið upp úr sverði sunnan við kirkjuna uppi á hólnum, en hitt virðist fullt eins sennilegt að í sögunni sé átt við hellur í stétt.Verður að telja það beinlínis líklegt að hellustétt hafi verið meðfram kirkju í kirkjugarðinum en þar er deiglent og því þörf á grjótlögn til að koma í veg fyrir að svað myndaðist við mikla umferð.

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Hugtakið ‘búandakirkjugarð’ mætti skýra með því að kirkjugarðurinn á Þingvöllum hafi á 11.–12. öld verið einkakirkjugarður, að þar hafi aðeins heimilismenn Þingvallabónda átt rétt á legi, en fyrir aðkomumenn sem dóu um þingtímann hafi þurft að finna leg annars staðar. Slíkar takmarkanir voru algengar á 12. og jafnvel 13. öld, eins og fjölmargir máldagar sýna, og hurfu ekki fyrr en sóknaskipulagið var orðið fast í sessi í lok 13. aldar. Á það má einnig benda að þó að hugtakið ‘búandakirkjugarður’ virðist óþarft hafi þar aðeins verið einn kirkjugarður og þeir gætu þess vegna hafa verið tveir, þýðir það ekki að kirkjurnar hafi verið tvær. Þá má
líka stinga upp á því að hafi verið sérstök þingmannakirkja á Þingvöllum sé líklegra að hún hafi staðið í þinginu sjálfu, vestan Öxarár, fremur en austanmegin, svo að segja ofan í bæjarstæðinu.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

Þar til skýrari vísbendingar koma fram er einfaldast að gera ráð fyrir að ein kirkja hafi verið reist á Þingvöllum á 11. öld og að sú kirkja eða arftaki hennar hafi fokið í óveðri 1118. Vel er hugsanlegt að einhver fótur sé fyrir sögnum um gjafir Ólafs helga og/eða Haralds harðráða til Þingvallakirkju en ólíklegt er að úr því fáist skorið í hverju þær fólust.
Um staðsetningu þessarar fyrstu kirkju er heldur ekkert vitað en einfaldast er að ætla að kirkja sú er Alexíus Pálsson vígðist til í byrjun 16. aldar hafi staðið mjög lengi á sama stað, hugsanlega allt frá byrjun 11. aldar. Sú kirkja stóð í kirkjugarði þeim sem enn er á árbakkanum vestan við bæinn – um það er Páll Vídalín býsna örugg heimild. Ekki er vitað nákvæmlega hvar í garðinum kirkjan stóð, né hvort garðurinn hefur færst eitthvað til á umliðnum öldum, sem alls ekki er ólíklegt. Elstu kirkjuleifanna gæti því verið að leita í miðjum kirkjugarðinum sem nú er, og er þá tæplega mikið eftir af þeim, því að grafir hafa verið teknar þar um aldabil og var garðurinn talinn útgrafinn um aldamótin 1900. Hafi kirkjugarðurinn verið færður til, t.d. fjær árbakkanum, gæti kirkjuleifanna verið að leita vestan við núverandi kirkjugarðsvegg.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Viðnámsmælingar sem gerðar voru í kirkjugarðinum sumarið 1999 sýndu reglulega ójöfnu í suðausturhorni garðsins en hvort þar er kirkjurúst eða eitthvað annað er ekki hægt að segja til um án frekari rannsóknar.
Miðaldamáldagar Þingvallakirkju eru tveir og gefur hvorugur neina vísbendingu um staðsetningu eða gerð kirkjunnar. Elstu lýsingu á kirkjunni er að finna í máldaga Brynjólfs biskups frá 1644. Þá hafði kirkjan verið nýlega uppbyggð og er henni lýst svo: kyrckian i sialffre sier væn og algilld. Mattar vider / aff eik. v. staffgölff. bunden jnnan Med eikarbóndum / og sud Med vænum grenebordum. þiliadur koren / heffur þetta Allt S. Eingelbrigt tillagt og byggia läted / gamaltt Alltare og Predikunar Stoll. Standþil fyr / er kyrckiu. kuenn sæte i kyrckiu er smijda heffur lat / ed S. Eingelbrigt hurd aa järnum lagde annad / til S. Eingelbrigt jnnlæst vænne læsingu Med hespu.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Séra Engilbrikt Nikulásson var prestur á Þingvöllum 1617-1668 og hefur sennilega reist þessa nýju kirkju um 1640. Næst er til afhending Þingvallastaðar frá 1678 og er þessari sömu kirkju þá lýst svo: kyrkian so standande med 5 stafg- / olfum, alþiliud fyrer framann og bakþil j kornum sumu / lósnu yfer sialfu alltarenu. Alltare Predikunarstoll / halfþil mille kors og kyrckiu…
Næst var kirkja og staður afhent 1703 og er kirkjan þá talin vera í hálfu sjötta stafgólfi: alþiliud utar / i gegn, med standþile og biorþile bak og fÿrer kÿrkiu; / becker födrader bæde i kör og framkÿrkiu; kvenn- / sæte, alltarj velsæmelegt med gradu j predikunarstóll….

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Svo virðist sem kirkjunni hafi eitthvað verið breytt og hún prýdd, m.a. með glerrúðum,en þó virðist þetta vera í grundvallaratriðum sama húsið og lýst er 1644 og 1678. 1726 er kirkjan enn með sama móti, en er þá talin „ad widum æred gomul, fuen og hláleg, fyrer utan weggena, sem eru af griote nylega reparerader.“ Þetta er í fyrsta skipti sem getið er um grjótveggi um Þingvallakirkju en ekki er ástæða til að ætla annað en að kirkja sú sem sr. Engilbrikt reisti um 1640 hafi verið með hlífðarveggjum úr torfi og grjóti að norðan og sunnan.
Sr. Markús Snæbjörnsson reisti nýja kirkju á Þingvöllum um 1740. Hann tók við staðnum 1739 en í vísitasíu frá 1746 er kirkjan sögð „i 6 stafgolfum under Súd, alþiliud um hverfis i Chör og framkirkiu til beggia hlida.

Þingvellir

Þingvallakirkja; rannsóknaruppgröftur 1999 – leifar krjótveggjar úr byggingu frá síðmiðöldum, niðurgröftur frá 18. öld til hægri.

Þessu til staðfestingar má nefna að Jón Ólafsson frá Grunnavík skýrir frá því að Markús hafi fundið í veggjarundirstöðum kirkjunnar, þá er hann byggði hana upp, annan þeirra steina með alinmáli, sem voru í kirkjukömpunum, og komið honum þannig fyrir í öðrum kirkjuveggnum að hann sæist, og má af því ráða að hann hafi byggt kirkjuna algerlega frá grunni. Þó að fjöldi stafgólfa sé ekki áreiðanleg vísbending um stærð húsa má vera að þetta hús hafi verið ívið stærra en kirkja séra Engilbrikts frá um 1640.
Nákvæmari lýsing á kirkju sr. Markúsar er til frá 1750: kyrkian j siälfre sier, er j 6 stafgolfum, öll under Sud, alþiliud til beggia hlida, Slagþil uppj giegn bæde fyrer framann og ad körbake listad, med födrudum vindskeidum yfir. Upp af alltarinu er glerglugge med 9 rudum…

Þingvellir

Þingvallakirkja 1834.

Ekki er getið um breytingar á þessari kirkju fyrr en um 1770 en 1772 hafði norðurveggur hennar verið hlaðinn upp. Um það hafði verið kvartað þegar 1755 að hann væri lélegur og hefur eftir þessu að dæma ekki verið mikið vandað til verks við byggingu þessarar kirkju. 1776 er þess getið að langþiljur séu farnar að gisna og eina vanti og 1779 segir prófastur að kirkjan sé farin að ganga á torfveggina og þurfi viðréttingu.
1783 er svo komið að prófastur telur í vísitasíu að kirkjan þurfi við fyrstu hentugleika að reparerast. Það varð þó ekki fyrr en sumarið 1790 að sr. Páll Þorláksson lét byggja nýja kirkju á Þingvöllum. Sú kirkja virðist hafa verið jafnstór forvera sínum, 6 stafgólf, og mjög lík að öllu leyti, enda voru viðir gömlu kirkjunnar endurnýttir að verulegum hluta í hinu nýja húsi. Samkvæmt mælingu frá 1845 var þetta hús 12×5 álnir að stærð eða 7,5×3,1 m, jafnlöng en heldur mjórri en kirkja sú er reist var 1859 og enn stendur.

Þingvellir

Þingvallakirkja 1874.

Í vísitasíum frá 19. öld er öðru hverju getið um galla og viðgerðir á kirkjunni. 1803 er þilja þegar fallin úr framkirkjunni að sunnan og önnur farin að gallast af fúa, en 1808 hafði verið gert við þær. 1818 er farið að votta fyrir vatnsgangi á þilsperrur kórsins að innan og 1822 er kominn torfgafl á kirkjuna að austan, en fram að því hafði verið timburþil fyrir kórnum. 1828 kemur fram að kórinn taki upp tvö af sex stafgólfum kirkjunnar en 1836 er „kirkiuhusid … nu somasamlega uppbiggt af nyu aukid ad þilium, gólfe og Málverke.“ Næstu ár á eftir er kirkjan talin vel á sig komin en 1844 er „kyrkiuveggurinn nyrdri … faren ad klofna sudurveggurinn er heldur ecki fri ad bungi ut um midiuna.“
1852 hefur gólfið í kórnum verið endurbætt en veggirnir eru enn bilaðir og þakið einnig farið að verða hrörlegt. Næstu ár á eftir virðist hægt og bítandi síga á ógæfuhliðina og aukast og ágjörast gallarnir ár frá ári allt til 1859 að sr. Símon Beck lætur smíða kirkju þá sem enn stendur á Þingvallastað.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja 2025.

Kirkja sú sem nú stendur á hólnum norðan við Þingvallabæ er á grunni hlöðnum úr hraungrýti, 7,80 m löng frá austri til vesturs og 5 m breið frá norðri til suðurs. Norðan við hana er slétt flöt og um 12 m norðan við kirkjuna er hraunhóll sem er gróinn að mestu. Austan við kirkjuna er einnig slétt flöt út að þjóðargrafreit sem hlaðinn var efst í Þingvallatúni árið 1940. Á þessari flöt er þúfnaröð sem liggur frá austri til vesturs norðan við kirkjuna og beygir síðan til suðurs austan við hana. Hleðslugrjót kom í ljós er grafið var fyrir ljóskastara í þúfnaröðina norðan við kirkjuna fyrir nokkrum árum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 97 árg. 01.01.2004, Þingvallakirkja, Orri Vésteinsson, bls. 163-182.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja og nágrenni.

Bakki

Í blaðinu „Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010“ er m.a. sagt frá „Skógræktarstarfi berklasjúklinga„. Þar segir:

Vífilsstaðavatn

Skógarreiturinn við Vífilsstaðavatn – loftmynd.

„Austan við Vífilsstaðavatn gefur að líta fagran trjálund sem berklasjúklingar á hælinu eiga heiðurinn af. Hann heitir Bakki. Upphaf hans má rekja til skógræktaráhuga hins unga vélstjóra, Harðar Ólafssonar, sem ungur kom til dvalar á Vífilsstöðum, sjúkur af berklum.
Erla Bil Bjarnadóttir, garðyrkjustjóri Garðabæjar, segir frá því í heimildaritgerð um Vífilsstaði (2008) að Hörður hafi vorið 1940 með leyfi lækna Hælisins gengið austur fyrir vatn í þeim erindum að girða af hálfan hektara. Þar helgaði Hörður sér land og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu Ingimundardóttur, Dúnu eins og hún var kölluð, dvaldi einnig á hælinu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

„Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá er talin berklaveikin, þá þrítugur að aldri. Á þessum árum var Vífilsstaðahælið yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og hraust fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og  hafa lítið við að vera.“
Vélstjórinn ungi var jafnframt góður smiður, bæði á járn og tré, og hafði aðstöðu á hælinu til að sinna hugðarefnum sínum á veturna.
„En þegar daginn tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn,“ segir Erla.
Vegna þess að hið fyrirhugaða trjáræktarsvæði var handan vatnsins og engin slóð að skógarreitnum, notaðist Hörður við hjólbörur við efnisflutninga. Hann byrjaði á því að girða af svæðið til að koma í veg fyrir ágang búfénaðar. Fleira vistfólk bættist fljótlega í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig Hjólbörudeildina.
Einnig flutti Hörður og hjólbörudeildin húsdýraáburð á sleðum á ís yfir vatnið á veturnar, sem var mun léttari vinna. Flutningarnir munu einnig hafa farið fram á seglbátum Vífilsstaðaheimilisins, Vífli og Gunnhildi, sem vistmenn höfðu til afnota. Einnig smíðaði Hörður eigin báta, bæði eins manns kajak og síðan stærri kanó sem gat tekið fjóra til sex farþega. Hann notaði Hörður bæði til flutninga og veiða á vatninu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – Bakki; hlið.

Nokkrum árum seinna stækkaði Hörður skógræktarsvæðið um helming. Þar dvaldi hann jafnan á sumrin, fyrsta árið í tjaldi. Fljótlega smíðaði Hörður timburgólf í tjaldið og útbjó eldunaraðstöðu. Vistir fékk hann á hælinu. Vorið 1952 reisti Hörður síðan lítinn bústað, sem hann nefndi Bakka. Hann smíðaði Hörður í nokkrum einingum og flutti yfir vatnið.
Bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp vina sinna í Hjólbörudeildinni. Eftir að Hörður útskrifaðist af hælinu hefur bústaðurinn verið sumardvalarstaður fjölskyldunnar.
Hörður ræktaði sjálfur flestar plöntur sem þarna voru gróðursettar, en reiturinn byggðist í upphafi fyrst og fremst af nokkrum birkihríslum. Með hjálp Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins aflaði hann líka fræja frá öðrum stöðum á landinu og útlöndum. Skógræktarstarf stóð sleitulaust til ársins 1977 er Hörður lést, eða í tæp fjörutíu ár. Þar er nú myndarlegur skógarreitur, þar sem hæstu trén eru um níu metrar. Reiturinn er í umsjá afkomenda Harðar og er opinn þeim sem ganga hringinn umhverfis Vífilsstaðavatn.“

Vífilsstaðavatn

Steinar Harðarsson.

Í Skógræktarritinu árið 2003 fjallar Steinar Harðarsson um „Skógrækt við Vífilsstaðavatn„. Þar segir m.a.

„Dag nokkurn vorið 1940 gekk Hörður Ólafsson vélstjóri austur fyrir Vífilsstaðavatn. Erindið var að girða af hálfan hektara af hlíðinni suðaustan vatnsins.
Hörður var berklaveikur og hafði dvalist á Hælinu nokkur misseri. Hann var fæddur að Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum en fluttist með föður sínum til Vestmannaeyja ungur að árum. Þar nam hann vélstjórn og starfaði síðan við það á fiskibátum og strandferðaskipum. Hörður veiktist af berklum aðeins 24 ára gamall og dvaldi til lækninga á berklahælinu í Kópavogi og útskrifaðist þaðan. Þá fór hann aftur til sjós en veiktist á ný og hafði þennan vordag dvalið á Vífilsstöðum nokkur misseri. Hann var ágætlega heilsuhraustur ef frá var talin berklaveikin, nú þrítugur að aldri.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður 1946.

Á þessum árum var Vífilsstaðahæli yfirfullt af sjúklingum. Flestir sjúklingar voru ungt og „hraust“ fólk í blóma lífsins. Það var ömurlegt hlutskipti ungu fólki að vera einangrað frá umheiminum, langt utan borgarlífsins, og hafa lítið við að vera. Sjúklingar á Vífilsstöðum voru úr öllum stéttum samfélagsins, ríkir sem fátækir, verkamenn, bændur, iðnaðarmenn, listamenn og skáld. Hörður var listasmiður og fékk á Vífilsstöðum aðstöðu, bæði til tré- og járnsmíða og undi sér við smíði á vetrum. Hann hafði einnig mikið yndi af tónlist og eignaðist mikið plötusafn sígildra höfunda, Bach, Beethoven, Mozart, Liszt, Tsjaikovski og svo mætti lengi telja.
VífilsstaðavatnÞegar dag tók að lengja og vorilmur fyllti loft vaknaði trjáræktaráhuginn og Hörður helgaði sér land austan Vífilsstaðavatns og hóf trjárækt ásamt heitkonu sinni Guðrúnu ingimundardóttur (Dúnu) sem þá dvaldi líka á hælinu. Fljótlega bættist í hópinn og til varð rösk sveit karla og kvenna sem kölluðu sig „Hjólbörudeildina“. Nafnið kom til af því að hjólbörur voru þarfasta flutningatækið enda hvorki vegur né slóði að skógræktarreitnum, aðeins fjárgötur og kúatroðningar.
Einn vistmanna, ungt skáld, Borgar Grímsson, sem lést á hælinu í blóma lífsins orti um Hörð og hans áhugamál.
Flutningar fóru einnig fram á bátum, þvert yfir vatnið, en árum saman voru gerðir út 2 seglbátar á vatninu, Vífill og Gunnhildur, til afnota fyrir vistmenn. Hörður smíðaði sér þó sjálfur eigin báta, fyrst eins manns kajak og síðan kanó sem bar 4-6 farþega. Bátarnir voru byggðir á eikargrind og strengdir segldúki, léttir og meðfærilegir. Kanóinn notaði Hörður árum saman til flutninga og til veiða í vatninu.
VífilsstaðavatnÞað var algjör nauðsyn að girða reitinn fjár- og kúaheldri girðingu því að á svæðinu gengu bæði sauðfé og kýr, enda fjöldi kúa á Vífilsstaðabúinu. Heiðmerkurgirðingin, sem nú umlykur svæðið, var ekki gerð fyrr en á 7. áratugnum. Það var því fyrsta verk Harðar að girða svæðið með 5 strengja gaddavírsgirðingu. Í fyrstu var girtur af hálfur hektari en nokkrum árum seinna var svæðið stækkað um helming til austurs.
Frá fyrstu tíð dvaldi Hörður megnið af sumrinu í skógræktinni. Fyrsta árið í tjaldi en fljótlega smíðaði hann tjaldundirstöðu úr timbri, þannig að timburgólf var í tjaldinu og aðstaða til eldunar á prímus.

Vífilsstaðavatn

Bakki – jarðhýsi.

Þá var gert jarðhýsi, grafið inn í hlíðina að hálfu og reft yfir með braggajárnum sem hirt voru úr aflóga rústum breskra herbragga á hlíðunum umhverfis vatnið. Í jarðhýsinu voru geymd matvæli og kartöflur enda hitastig nokkuð jafnt allt árið, 1-5°C. Vistir voru sóttar á Hælið og matseljur nestuðu Hörð brýnustu nauðsynjum, mjólk, brauði, eggjum og kaffi. Hann skrapp þó nær daglega á Hælið til að fá a.m.k. einn staðgóðan málsverð og endurnýja mjólkur- og brauðbirgðir.
Árið 1952 reisti Hörður lítinn bústað „fyrir austan vatn“ eins og staðurinn var almennt kallaður í byrjun. Síðar nefndi Hörður staðinn að Bakka. Bústaðinn smíðaði hann í einingum veturinn áður. Hann flutti einingarnar á kanóinum yfir vatnið og bústaðurinn reis á einni helgi með hjálp góðra vina í Hjólbörudeildinni. Þegar bústaðurinn var risinn var hægt að byrja störf fyrr á vorin og halda áfram langt fram á haust.

Vífilsstaðavatn

Bakki – bústaður í smíðum.

Eftir að Hörður loksins útskrifaðist af hælinu árið 1960 var bústaðurinn sumardvalarstaður fjölskyldunnar og á sumrum var Hörður að störfum nær öll kvöld eftir vinnu og flestar helgar sumarsins var dvalið þar við skógrækt og ræktun garðávaxta.
Frá byrjun voru ræktaðar kartöflur, gulrætur, radísur og fleiri garðávextir innan skógræktargirðingar og var það mikil búbót fyrir „útilegukindurnar“ Hörð og Dúnu. Þá má ekki gleyma silungsveiði í vatninu en á þessum árum höfðu starfsmenn og sjúklingar Vífilsstaða einir leyfi til veiða í vatninu. Hörður veiddi mikið af silungi, bæði bleikju og urriða, og ógleymanlegar sælustundir voru þegar nýveiddur silungur var soðinn í eigin vökva, vafinn inn í álpappír, og meðlætið voru nýuppteknar kartöflur.
VífilsstaðavatnFyrsti trjáreiturinn samanstóð af nokkrum birkihríslum. Síðan voru gróðursettar birkihríslur með girðingunni allan hringinn til að mynda skjól fyrir frekari ræktun. Hörður ræktaði plöntur af fræjum í vermireitum og framleiddi því sjálfur megnið af þeim plöntum sem gróðursettar voru í trjáreitnum. Sett var upp vatnsveitukerfi og vatni dælt með bensíndrifinni vatnsdælu til vökvnar plantna og í vermireitum.
Fræja var aflað víða að, m.a. frá Noregi, Síberfu og Alaska. Í skógræktarstarfinu naut Hörður mikillar velvildar bæði Skógræktarfélags Reykjavíkur og Skógræktar ríkisins en félögin útveguðu honum fræ ýmissa plöntutegunda og kvæma, innlendra sem erlendra.
VífilsstaðavatnVöxtur í reitnum var afar hægur fyrstu árin og áratugina, jarðvegurinn rýr mói. Mikið var notað af kúaskít til áburðar bæði við gróðursetningu og borið á eftir að plöntur fóru að vaxa. Birkið í skjólbeltinu umhverfis reitinn er frekar kræklótt og hægvaxta. Þegar fram liðu stundir og skjól fór að myndast var plantað ýmsum tegundum í skógræktinni. Þar má finna skógarfuru, fjallafuru, lerki, elri, ösp og sjaldséðar tegundir, s.s. fjallaþöll og blæösp.
Markvisst skógræktarstarf var stundað óslitið frá 1940-1977. Eftir það hefur ekki verið plantað í reitinn en grisjað Iítillega af og til. Engin stærri áföll hafa orðið við ræktunina ef frá er talinn skógarbruni sem varð vegna fikts unglinga með eld árið 1972. Ummerki þess eru þó löngu horfin.

Vífilsstaðavatn

Dúna og Hörður við Bakka.

Hörður var andvígur notkun eiturefna og notkun þeirra var því sáralítil við ræktunina alla tíð.  Það má segja að vöxturinn hafi verið afar hægur framan af en eftir fyrstu 40 árin hafi hann tekið rækilega við sér og undanfarin ár hefur verið mikill og góður vöxtur í skóginum. Hæstu tré eru nú um 7-9 metrar, hæstar aspir og greni.
Dúna lést árið 1995 og Hörður árið 1977.“

Heimildir:
-Vífilsstaðir – Sagan í 100 ár 1910-2010, Skógræktarstarf berklasjúklinga, bls. 13.
-Skógræktarritið, 1. tbl. 15.05.2003, Skógrækt við Vífilsstaðavatn, Steinar Harðarson, bls. 79-84.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Krýsuvík

Í Skinfaxa árið 1951 er ma.a. fjallað um „Landið og framtíðina – Boranir eftir jarðhita í Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – Nicholas Pocock 1791. Fyrstu tilraunir til jarðboranna á Íslandi voru á árunum 1755-1756. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru upphafsmenn og boruðu þeir þrjár holur, eina holu í Laugarnesi og tvær í Krýsuvík. Þeir félagar lentu í því að gufa og leirgos fékkst úr seinni holunni í Krýsuvík og nýr hver myndaðist, þeir þurftu því að stöðva borun á þeirri holu.

„Í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafnan miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðboranir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknarráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom.
Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðhorar voru grannir. Nokkurt gufumagn kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.

Krýsuvík

Krýsuvík – Gróðurhúsin 1950.

Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, ein með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1946—47 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir snúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Ennfremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve borar vildu festast.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst. Var þá borinn fluttur í svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð, var aftur fenginn bor frá rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau, eins og þau voru þá.
Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Ennfremur hafa víðari holur verið boraðar með fallbornum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst.

Olavíus

Olavíus – Krýsvíkurnámur. Olavius, sem gerði uppdráttinn af námusvæðinu, hét Ólafur Ólafsson (1741–1788).

Gufumagn, sem fyrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þrefalt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir. Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að 13 m. á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.
Það var 12. sept. síðastl., að verulegur árangur varð af borunum í Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora, og orðin var 229 m djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 100 m niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram, síðan það byrjaði, og kemur úr holunni allvatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting, þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu.

Krýsuvík

Krýsuvík – borholan í Hveradölum undir Baðstofu árið 2000. Nú er búið að hylja holuna með jarðvegi.

Gufa sú, sem úr holunni kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 1 af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti i hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess, að Hafnarfjarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 holum alls, þótt gosið úr fyrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst.
Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum verið send greinargerð um þetta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki.  Bráðabirgðaáætlun sýnir, að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan í sambandi við ítölsk orkuver, sem reynslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa Ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kilóvött rafmagns. Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og bún er nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött.“

[Þessi grein er byggð á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra i Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen rafveitustjóra í Hafnarfirði, varðandi boranir, en hann veitir borunum og raforkuframkvæmdum í Krýsuvík forstöðu. — S. J.]

Heimild:
Skinfaxi, 1. tbl. 01.04.1951, Landið og framtíðin, Krýsuvík, bls. 17-23.

Krýsuvík

Krýsuvík – jarðbor HS-Orku í Krýsuvík undir Hettu árið 2025. Fleiri rannsóknarholur eru fyrirhugaðar í Krýsuvík í yfirstandandi rannsóknaráfanga en fjöldi þeirra og staðsetningar mun helgast að nokkru leyti af þeim niðurstöðum sem fást úr fyrstu rannsóknarboruninni við Sveifluháls. Hveradalir og Baðstofa fjær.

Krýsuvík

Valgarður Stefánsson skrifar um „Borun eftir jarðhita og rannsóknir á borholum“ í Náttúrufræðinginn árið 1981:

Jarðhitarannsóknir

Jarðhiti – nýting.

„Nýting jarðvarma á Íslandi er um þriðjungur af orkunotkun landsmanna. Eina landið sem getur státað af svipuðu
nýtingarhlutfalli jarðhita og Ísland er El Salvador, en þar er jarðhitinn notaður til raforkuframleiðslu.
Meginhluti þess jarðvarma sem nýttur er á Íslandi er fenginn með borunum. Jarðhitaboranir eru þannig mjög þýðingarmikil undirstaða í islensku efnahagslífi. Jarðhitaboranir hafa samt sem áður ekki hlotið þann sess í íslenskri þjóðarmeðvitund sem líkja má við aðra undirstöðuatvinnuvegi eins og til dæmis fiskveiðar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugað borstæði HS Orku undir Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Ástæður fyrir því eru eflaust margar, en ein af ástæðunum gæli verið sú að jarðhitastríð okkar hafa verið innanlandsóeirðir, en þorskastríðin hafa einkum verið átök við erlenda aðila.
Þessari grein er ætlað að fjalla nokkuð um jarðhitaboranir á Íslandi, tengja þær við rannsóknir á jarðhita og benda á þýðingu borana við nýtingu jarðhita. Reynt verður að fjalla um atriði eins og hvar, hvers vegna og hvenær eigi að bora eftir jarðhita, hvernig boranir eru framkvæmdar, hvaða rannsóknir eru gerðar á borholum og hver sé árangur jarðhitaborana bæði efnahagslega og jrekkingarlega.

SÖGULEGT YFIRLIT

Krýsuvík

Krýsuvík – Nicholas Pocock 1791.

Það var hinn 12. ágúst 1755 sem þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru með jarðnafar Konunglega Danska Vísindafélagsins inn í Laugarnes, fyrst sjóleiðis en síðan á hestum stuttan spöl. Var nafarinn settur niður á grónum hávaða skammt frá hvernum og hófust þar fyrstu jarðhitaboranir á Íslandi, fyrir réttum 225 árum. Ekki gekk borun fyrstu holunnar mjög vel en nafarinn komst niður 13% fet, en þá gekk ekki að koma honum dýpra. Orsök þess var hraunlag nokkuð 4—6 álna þykkt, ,,og liggur ekki einungis undir Laugarnesinu, heldur einnig öllu Suðurlandi“ svo vitnað sé i Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna.

Seltún

Seltún – hver Eggerts og Bjarna frá 1756.

Enda þótt ekki yrði sérlega mikill árangur í Laugarnesinu fóru þeir Eggert og Bjarni á önnur mið árið eftir, og fluttu jarðnafarinn til Krýsuvíkur. Þar var byrjað að bora um hádegisbilið 1. júlí 1756. Boruð voru 25 fet fyrsta daginn og verður það að teljast góður borhraði. Jarðhiti var auðsjáanlega meiri í Krýsuvík en í Laugarnesi, því að „það var svo mikill hiti að maður þoldi ekki að halda hendinni á jörð þeirri, sem upp kom með nafrinum.“ Þessi hola var boruð í 32 feta dýpi og varð hún sú dýpsta sem þeir félagar boruðu, en boraðar voru nokkrar holur í Krýsuvík það sumar. Um síðustu holuna í Krýsuvík segir svo í Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna:

Jarðnafar

Jarðnafar – Teikning úr bó Sveins Sveinssonar frá 1875.

„Við kusum okkur því annan stað, þar sem efsta lag jarðvegsins var léttara og kaldara. Þar settum við jarðnafarinn niður og boruðum fyrirhafnarlaust niður í 6 feta dýpi í gegnum bláleita, lagskipta jarðtegund með hvítum rákum. Svo var heitt neðst í holunni, að ekki var unnt að snerta á [rví, sem upp kom, nema að brenna sig. Jarðvegurinn var því linari, sem neðar dró, og í 7 feta dýpi heyrðum við óvanalegt hljóð eða hávaða, líkt og þegar sýður ákaflega. Samt héldum við áfram að bora niður í 9 feta dýpi. En þá fór að koma hreyfing á jarðveginn, og þótt holan kringum nafarinn væri harla þröng, tók þunnur grautur að spýtast þar upp með ógnarkrafti. Við neyddumst þá til að hætta þarna og drógum naíarinn upp. En þá fékk hitinn fulla útrás og þeytti sjóðandi, leirblöndnu valni 6—8 fet í loft upp.

Seltún

Seltún – hver Eggerts og Bjarna 2023.

Eftir skamma stund linnti þó óróa þessum, og héldum við, að þá hefði hitinn stillzt. En það leið ekki á löngu, áður en honum jukust kraftar á ný, og þá tók hann til muna að gjósa og sjóða án afláts. Við sáum þá að við höfðum með þessum aðgeröum okkar búið til nýjan hver.
Þar með höfðu jarðhitaboranir á Íslandi gefið þann árangur, sem alla tíð hefur verið megintilgangur þeirra, „að búa til nýjan hver“.

Telja verður að tilraunir þeirra Eggerts og Bjarna með jarðnafar Konunglegu Dönsku Vísindaakademíunnar hafi verið hinar merkustu, en af framhaldinu má ráða að þessi brautryðjendastörf hafa verið of snemma á ferðinni. A. m. k. varð það ekki fyrr en komið var vel fram á tuttugustu öldina að hafist var handa á ný við jarðhitaboranir á Íslandi. Það getur því ekki talist mjög sterkt að orði kveðið þegar þeir Eggert og Bjarni segja:

Krýsuvík

Krýsuvík – Nicholas Pocock 1791.

„Rannsóknir þær sem við létum gera með jarðnafri við hveri og brennisteinspytti, þar sem jarðhiti er á Íslandi, mun vera nýjung að minnsta kosti í norrænum löndum.“

Það sem óbeint varð til þess að jarðhitaboranir voru hafnar hér að nýju var gullið í Vatnsmýrinni. Hlutafélagið Málmleit, sem var stofnað til þess að vinna gull úr Vatnsmýrinni, keypti árið 1924 jarðbor frá þýska fyrirtækinu Alfred Wirth og Co. til vinnslunnar. Ráðunautur félagsins við borkaupin var Helgi Hermann Eiríksson, síðar skólastjóri Iðnskólans, en hann hafði numið námaverkfræði i Skotlandi. Þessi bor boraði tvær holur i Vatnsmýrinni, en ekki fannst mikið af gulli. Svo fór að félagið varð gjaldþrota og 1928 keypti Rafmagnsveita Reykjavíkur gullborinn og var hann fluttur inn að Þvottalaugum, og þar tekinn upp þráðurinn á ný við jarðhitaboranir á Íslandi. Þetta var 173 árum eftir fyrstu tilraunir þeirra Eggerts og Bjarna.

Gullborinn

Gullborinn í Vatnsmýrinni 1907.

Í þetta sinn varð árangurinn öllu betri, og kom í ljós að hægt var að auka heitavatnsrennsli með bornum, eða að búa til nýja hveri eins og þeir Eggert og Bjarni urðu vitni að einn júlídag á því herrans ári 1756. Nú var íslenska þjóðfélagið einnig tilbúið að taka við árangri borananna og nýta jarðvarmann. Árið 1930 var fyrsta hitaveitan i Reykjavík tekin í notkun. Heita vatnið frá Þvottalaugunum var leitt til bæjarins og voru 70 hús hituð upp í þessari fyrstu hitaveitu landsins.
Þessi fyrsta hitaveita hefur eflaust orðið til þess að sannfæra menn um ágæti jarðvarmanýtingar, og þrem árum seinna, 1933, tryggir Reykjavíkurbær sér jarðhitaréttindi á Reykjum í Mosfellssveit.

Jarðboranir

Jarðborinn Dofri 1958.

Hitaveita Reykjavíkur var fyrsta dæmið um vel heppnaða stórnýtingu á jarðvarma, og fyrirtækið heldur enn þeim sessi að vera besta dæmið um hagkvæma nýtingu jarðhita á Íslandi.
Saga jarðhitaborana hefur verið næstum óslitin eftir tilkomu Hitaveitu Reykjavíkur. Hitaveitan hélt borunum áfram og keypti árið 1949 notaðan bor af bandaríska hernum, og var sá bor kallaður Setuliðsbor. Sjálfstæðar boranir á vegum Hitaveitu Reykjavíkur voru óslitið frá því í júní 1928 til loka janúar 1965.
Ríkið keypti fyrst bor árið 1929 og var það haglabor frá Alfred Wirth og Co. eins og tveir fyrstu borar Hitaveitu Reykjavíkur. Á stríðsárunum eignast ríkið tvo litla kjarnabora, fyrst haustið 1939 og síðan 1943. Báðir þessir borar voru frá Sullivan verksmiðjunum og var seinni borinn kallaður Sullivan I.

Jarðbor

Hinn 18. april 1945 voru Jarðboranir ríkisins formlega stofnaðar, en það fyrirtæki tók smám saman að sér allar jarðboranir á landinu. Tækjakostur Jarðborana við formlega stofnun voru áðurnefndir þrír borar en strax sama ár bætist við nýr Sullivan bor, kallaður Sullivan II. Einnig voru keyptir tveir notaðir höggborar frá hernum á Keflavíkurflugvelli. Voru þeir kallaðir Höggbor I og Höggbor II.
Einu eða tveim árum síðar taka Jarðboranir að sér þriðja Sullivan borinn, en sá bor hafði verið keyptur til landsins fyrir atbeina  Stefáns Þorlákssonar bónda í Reykjahlíð i Mosfellsdal. Næsta tæki sem Jarðboranir kaupa er stór höggbor af Cardwell gerð. Þann bor átti að vera hægt að nota bæði sem höggbor og snúningsbor. Hann var samt aldrei tekinn í notkun sem höggbor.
Á þessum árum, 1946—1951, átti Rafveita Hafnarfjarðar sænskan höggbor af Craelius F gerð, og voru boraðar allmargar holur í Krýsuvík með þessum bor. Tilgangur þeirra borana var að vinna gufu til raforkuframleiðslu fyrir Hafnarfjörð.
Árið 1953 kaupa Jarðboranir nýjan höggbor, Höggbor III, og er hann enn í notkun. Næsti bor Jarðborana er snúningsbor af Franks gerð. Sá bor var keyptur hjá Sölunefnd varnarliðseigna 1960. Eftir þriggja ára notkun við virkjunarrannsóknir var farið að nota Franks borinn til þess að leita að heitu vatni. Hægt var að bora í allt að 350 m dýpi með þessum bor.
JarðborÁrið 1961 er aftur keyptur bor af Sölunefnd varnarliðseigna. Þessi snúningsbor er af Mayhew 1000 gerð og byggður á vörubíl. Hann getur borað í allt að 600 m dýpi, og hefur verið notaður til jarðhitaborana nema tvö fyrstu árin. Mayhew borinn, sem seinna var nefndur Ýmir, er enn í notkun við jarðhitaboranir.
Segja má að nokkur þáttaskil verði í sögu íslenskra jarðhitaborana þegar Gufubor ríkisins og Reykjavíkurborgar er fenginn til landsins 1958. Er þá farið að nýta á kerfisbundinn hátt þá reynslu sem áunnist hafði við boranir eftir olíu.
Með þessu tæki var auk þess hægt að bora mun dýpra (ca. 2000 m) en áður hafði tíðkast hér á landi. Við þetta opnuðust margir nýir möguleikar og kom það fyrst fram í stækkun Hitaveitu Reykjavíkur. Samhliða því var farið að bora fyrir alvöru í háhitasvæðin í Ölfusdal og Krýsuvík.

Jarðbor

Craelius – bæklingur.

Var nú skammt stórra högga á milli. Árið 1962 var keyptur stór notaður snúningsbor frá Svíþjóð af gerðinni Craelius B-4. Hér er þessi bor kallaður Norðurlandsborinn. Samkvæmt upplýsingum framleiðanda átti þessi bor að geta borað í allt að 3 km dýpi. Þessi stóri bor var þrátt fyrir allt aðeins notaður í þrjú ár, 1962—1965, t.d. rannsóknarholu við Kaldársel.
Á árunum 1966—1971 var svo starfræktur svokallaður Norðurbor. Var hann settur saman á þann hátt að mastur, spil og undirstöður Cardwell borsins sem keyptur var 1947 var notað með dælum og borstöngum Norðurlandsborsins, en keypt var nýtt drifborð. Með þessum bor voru boraðar sjö holur.
Á síðasta áratug hafa bæst við þrír borar í jarðhitaborflotanum. Árið 1971 er keyptur bor af Wabco gcrð sem kallaður er Glaumur. Árið 1975 kemur stærsti jarðbor landsins, Jötunn, og ári síðar borinn Narfi. Allir þessir borar hafa komið mikið við sögu jarðhitanýtingar.

HVERS VEGNA ER BORAÐ EFTIR JARÐHITA

Jarðbor

Djúpbor.

Tilgangur jarðhitaborana er að kanna jarðhitasvæði og til þess að ná úr þeim heitu vatni eða gufu, eða „búa til nýjan hver“ eins og þeir Eggert og Bjarni urðu fyrst vitni að í Krýsuvík árið 1756. Þá vaknar sú spurning hvort ekki sé nóg að nota heita vatnið úr öllum þeim hverum og laugum sem eru út um allar sveitir og sleppa þessum dýru borunum. Svarið við þessari spurningu er neitandi. Stafar það af tvennu. Veigamesta ástæðan er sú að með borunum er hægt að fá mun meira af heitu vatni eða gufu til yfirborös en það sem sprettur fram í laugum og hverum. Hin ástæðan er sú, að ekki er hægt að flytja jarðhitavatn með hagkvæmni nema tiltölulega skamma vegalengd. Þar sem markaður er fyrir jarðhitavatn er því farið í jarðhitaleit. Í nokkrum tilvikum hefur verið hægt að ná i heitt vatn með borunum þó ekki hafi verið sjáanlegur jarðhiti á yfirborði.
Tiltölulega fáar holur eru boraðar á Íslandi eingöngu í rannsóknarskyni. Hins vegar gefa allar jarðhitaboranir aukna þekkingu á jarðhitanum og nýtast þannig í rannsóknum á jarðhita.
Megintilgangur borana er eins og áður segir að auka rennsli til yfirborðs af jarðhitavökva. Þetta kom glögglega í ljós við nýtingu fyrst við Þvottalaugarnar í Reykjavík.

HVAR OG HVENÆR ER BORAÐ EFTIR JARÐHITA

Jarðbor

Jarðbor – Einfölduð skýringamynd af snúningsbor.

Jarðhiti er orkuauðlind. Nýting hans á að grundvallast á samanburði á kostnaði og væntanlegum arði af nýtingunni. Þá þarf að reikna stofn- og reksturskostnað þeirra mannvirkja sem nýtingin krefst og bera saman við nýtingu annarra orkugjafa. Sameiginlegt með allri nýtingu jarðhita er kostnaður vegna orkuöflunar (borkostnaður) og kostnaður vegna flutnings orkunnar frá borholum á nýtingarstað. Þessi bæði atriði setja þvi nokkrar skorður hvar er borað eftir jarðhita. Ef fyrirhuguð nýting er til dæmis hitaveita fyrir þéttbýliskjarna, er hagkvæmnin eingöngu háð fjarlægð jarðhitasvæðisins frá þéttbýlinu, borkostnaði og verði á öðrum orkugjöfum, svo sem olíu.
Staðarval borhola skiptir miklu máli fyrir hagkvæma nýtingu, en auk þess getur nákvæm staðsetning innan jarðhitasvæðis skipt  sköpum um það hvort borunin gefur góðan árangur eða engan. Þetta er stundum nefnt hittni jarðborana. Í stórum dráttum má segja að hittnin sé háð eiginleikum jarðhitakerfanna og því hversu vel menn þekkja þessa eiginleika.

jarðbor

Jarðbor – Skolvökva er dælt niður í gegnum borstengur til að kæla borkrónu og flytja bergmynslu upp til yfirborðs.

Jarðhitakerfi eru mjög ólík og er þar ekki til nein algild regla fyrir því hvar er heppilegast að bora, og hvernig halda eigi borkostnaði í lágmarki. Þetta þýðir í reynd að rannsaka verður hvert jarðhitasvæði sérstaklega, og byggja staðsetningu borhola á þeirri þekkingu sem fæst úr slíkum rannsóknum.
Fyrirbærið jarðhiti hlýðir lögmálum náttúrunnar og því meiri vitneskja sem fæst um þetta fyrirbæri og þau náttúrulögmál, sem stjórna hegðun jarðhitans því betri möguleika höfum við á því að ákvarða hvar vænlegast er að bora. Í jarðhitarannsóknum er greint á milli nokkurra rannsóknarstiga, en þau eru forrannsókn, reynsluboranir og forhönnun, djúprannsókn og hagkvæmnisathugun og síðast verkhönnun.
Auk þess að taka mið af jarðhitalegum aðstæðum þarf einnig að taka mið af nýtingarmöguleikum jarðhitans áður en ráðist er í dýrar boranir. Ef fyrirhuguð borun er nálægt þéttbýli, þar sem fyrir hendi er stór markaður fyrir hitaveituvatn, er meira i húfi en þar sem jarðhiti er langt frá markaði. Sú staða hefur til dæmis komið upp hjá meðalstórum kauptúnum að næsta jarðhitasvæði hefur verið svo fjarri byggðinni að ekki borgar sig að reyna að finna jarðhita með borunum af þvi að heildarkostnaður við boranir og hitaveitulagnir er meiri en aðrir kostir við upphitun.

HVERNIG ER BORAÐ EFTIR JARÐHITA

Jarðbor

Jarðbor – Tannhjólakróna og demantskróna.

Margar aðferðir eru til við jarðboranir, og hafa allflestar verið reyndar við jarðhitaboranir á Íslandi. Sú aðferð sem nú er algengust er að nota snúningsbor með tannhjólakrónu.
Jarðhitaholur eruboraðar víðastar efst en mjórri neðar. Stafar það fyrst og fremst af því að í holurnar er látið misjafnlega mikið lághitaholum er fóðrun fyrst og fremst gerð til þess að kalt vatn renni ekki inn ofarlega í holuna. Í háhitaholum þarf einnig að útiloka kalt innstreymi ofarlega, en einnig þarf að taka með í dæmið að mikill þrýstingur getur orðið á holutopp, og þess vegna þarf að sjá svo til að fóðurrör sé nægilega langt og vel steypt við holuveggi að holu toppur þoli þrýstinginn. Einnig þarf steypta fóðurrörið að ná svo langt niður að bergið sjálft standist þrýstinginn og ekki sé hætta á að gufan ryðjist út utan með rörinu.

Jarðbor

Jarðbor – Demantskróna og útbúnaður til kjarnatöku. Kjarninn er tekinn í bútum til yfirborðs með því að draga upp innri kjarnakörfu til yfirborðs.

Jarðhitaboranir eru allflókin tæknileg aðgerð þar sem mestu máli skiptir að allir þættir vinni samtímis eins og til er ætlast. Þessi tækni hefur um langan tíma þróast hér á Íslandi, og hafa þar skapast ýmsar séríslenskar aðferðir.

ÁRANGUR JARÐHITABORANA
Ekki þarf að fara í grafgötur með það að árangur jarðhitaborana á Íslandi hefur verið mikill og hagnaður þjóðfélagsins af þessari starfsemi allverulegur. Ef leggja á talnalegt mat á þennan árangur, kemur oft til hlutlægt mat við hvað skuli miða í slíkum samanburði.
Oft eru gæði jarðvarmanýtingar á Íslandi metin til þess sparnaðar í gjaldeyri sem þessi nýting skapar miðað við innflutning á oliu. Þetta er tiltölulega einfalt reikningsdæmi og kemur út úr því að miðað við verðlag í janúar 1980 er sparnaður þjóðarinnar vegna jarðhitanýtingar um 50 milljarðar króna á ári samanborið við olíuhitun. Þetta er mikil fjárhæð eða um sjöundi hluti af áætluðum útgjöldum ríkisins á árinu 1980.

Jarðbor

Jarðboranir – Stærðarhlutföll og mesta bordýpt þeirra bora, sem nú (1981) eru notaðir við jarðhitaboranir.

Öryggi fyrir efnahagslífið er mikið. Þetta atriði verður ekki metið til fjár hér en aðeins bent á að þeim mun minna sem þjóðin er háð alþjóðlegum sviptingum í orkumálum þeim munbetra. Hækkun orkuverðs á síðasta áratug hefur haft mjög miklar afleiðingar á efnahagslíf margra þjóða, og ekki er að vænta að mikil breyting verði þar á í fyrirsjáanlegri framtíð.
Orkunotkun er svo snar þáttur í nútíma þjóðfélagi, að skiptir sköpum fyrir fjárhagslega afkomu. Því verður erfiðlega metið til fjár það öryggi sem er því samfara að ráða yfir a. m. k. hluta þeirra orkulinda sem nýttar eru í þjóðfélaginu.“

Jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu eiga sér langa sögu og má rekja fyrstu skráðu könnunina allt aftur til ársins 1756 þegar gerðar voru rannsóknir á hverum og leirpottum í Krýsuvík, sem teljast meðal fyrstu vísindalegu jarðfræðirannsókna á Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík – hugmynd að „Krýsuvíkurhóteli“ – Morgunblaðið 10. maí 1984.

Í gegnum árin hafa síðan farið fram margvíslegar rannsóknir og boranir á svæðinu. Á árunum 1941–1951 voru boraðar fjölmargar grunnar holur í nágrenni Krýsuvíkur með það að markmiði að afla gufu til rafmagnsframleiðslu fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið. Borholurnar leiddu í ljós jarðhita en ekki í nægjanlegu miklu magni til að hefja raforkuframleiðslu á þeim tíma. Holurnar þóttu samt gagnlegar sem undanfari frekari rannsókna síðar. Auk nýtingar jarðhitans í Krýsuvík hafa í gegnum tíðna komið fram ýmsar hugmyndir um nýtingu svæðisins, s.s. saltvinnslu með jarðvarman að vopni, heilsulind, hótelbyggingu og gerð golfvallar, svo eitthvað sé nefnt.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 1981, „Borun eftir jarðhita og rannsóknir á borholum“, Valgarður Stefánsson, bls. 250-270.

Krýsuvík

Krýsuvík – jarðbor HS-Orku í Krýsuvík undir Hettu árið 2025. Fleiri rannsóknarholur eru fyrirhugaðar í Krýsuvík í yfirstandandi rannsóknaráfanga en fjöldi þeirra og staðsetningar mun helgast að nokkru leyti af þeim niðurstöðum sem fást úr fyrstu rannsóknarboruninni við Sveifluháls.

Jarðhitarannsóknir

Jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu eiga sér áratugalanga forsögu áður en HS Orka hóf djúprannsóknarboranir á Krýsuvíkursvæðinu vorið 2025 þegar fyrsta rannsóknarholan boruð við Sveifluháls þá um sumarið.

Krýsuvík

Krýsuvík – næsta borstæði Hs Orku undir Sveifluhálsi, norðan Bleikhóls, framundan.

Markmið rannsóknanna var að kanna hvort finna megi svæði með nægjanlegum hita og því sem kallast lekt – það er hvort heitt vatn geti flætt auðveldlega um jarðlögin. Ef sú verður niðurstaðan er þess vænst að svæðið nýtist vel til heitavatns- og raforkuframleiðslu til framtíðar – þrátt fyrir öll vonbrigðin í þeim efnum fram til þessa. Saga jarðborana í Krýsuvík lýsir þó þróun slíkrar tækni vel, allt frá upphafi til þessa dags.

Austurengjahver

Austurengjahver. Þar hófust jarðboranir í tilraunaskyni árið 1945, en áður hafði verið boraðar nokkrar holur í Nýjalandi austan Seltúns.

Á vefsíðu HS Orku má t.d. lesa eftirfarandi varðandi jarðhitarannsóknir í Krýsuvík.

Þjóðhagslega mikilvægt svæði
„Krýsuvíkursvæðið er talið eitt af mikilvægustu jarðhitasvæðum landsins þegar kemur að því að tryggja afhendingaröryggi á heitu vatni fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið, og mögulega einnig fyrir landsvæðið utar á Reykjanesskaga. Einnig gæti svæðið gegnt lykilhlutverki í að mæta vaxandi raforkuþörf landsins.

Krýsuvík

Krýsuvík – jarðbor HS-Orku í Krýsuvík árið 2025.

Á þessari stundu liggja ekki fyrir nægar upplýsingar til að meta nýtingarmöguleika svæðisins að fullu. Rannsóknarboranirnar eru því fyrst og fremst liður í því að kanna fýsileika svæðisins og dýpka þekkingu á jarðfræðilegum aðstæðum þar.

Löng saga rannsókna
Jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu eiga sér langa sögu og má rekja fyrstu skráðu könnunina allt aftur til ársins 1756 þegar gerðar voru rannsóknir á hverum og leirpottum í Krýsuvík, sem teljast meðal fyrstu vísindalegu jarðfræðirannsókna á Íslandi.

Seltún

Seltún – borhola.

Í gegnum árin hafa síðan farið fram margvíslegar rannsóknir og boranir á svæðinu. Á árunum 1941–1951 voru boraðar fjölmargar grunnar holur í nágrenni Krýsuvíkur með það að markmiði að afla gufu til rafmagnsframleiðslu fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið. Borholurnar leiddu í ljós jarðhita en ekki í nægjanlegu miklu magni til að hefja raforkuframleiðslu á þeim tíma. Holurnar þóttu samt gagnlegar sem undanfari frekari rannsókna síðar meir.

Aukinn kraftur í rannsóknir með djúpborunum
Orkustofnun hóf kerfisbundnar rannsóknir á svæðinu árið 1970 og í kjölfarið voru boraðar nokkrar djúpar rannsóknarholur. Á síðari árum hefur umfang rannsókna aukist verulega, sérstaklega frá aldamótunum 2000.

Sogin

Sogin við Trölladyngju – borplan.

Þá hófust boranir í Trölladyngju á vegum Hitaveitu Suðurnesja sem síðar var skipt upp í tvö fyrirtæki, HS Orku og HS Veitur. Í þessum borunum mældist mjög hár jarðhiti eða yfir 350°C í dýpstu holum (TR-1 og TR-2). Auk þess hafa verið gerðar víðtækar viðnámsmælingar með TEM og MT aðferðum, kortlagning á jarðhitaeinkennum og rannsóknir á gastegundum og jarðefnafræði svæðisins.

Besta mögulega tækni nýtt við rannsóknir
Frá árinu 2020 hefur HS Orka unnið markvisst að undirbúningi frekari rannsóknarborana í Krýsuvík.

Jarðhitakort

Reykjanesskagi – jarðhitakort ISOR.

Í því skyni hefur teymi vísindamanna í auðlindastýringu HS Orku sett upp þrívítt jarðfræðilíkan sem byggir á öllum helstu fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum. Þetta líkan veitir dýpri skilning en áður á jarðfræðilegri uppbyggingu svæðisins og styður við ákvarðanir um boranir sem og mögulega framtíðarnýtingu jarðhitaauðlindarinnar.

Miklu kostað til án fullvissu um árangur
Borun fyrstu djúpu rannsóknarholunnar á áður ókönnuðu jarðhitasvæði felur í sér verulega fjárhagslega áhættu fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Jarðhitakort

Hitastigulskort ISOR af Íslandi. Reykjanesskagi virðist auðugur af jarðhita.

Kostnaður við borun getur numið allt að einum milljarði króna, án nokkurrar tryggingar fyrir því að borunin skili árangi. Þrátt fyrir að bestu mögulegu vísindaaðferðum sé beitt við mat á svæðinu er alls óvíst að boranirnar skili tilætluðum árangri.

Fleiri rannsóknarholur eru fyrirhugaðar í Krýsuvík í yfirstandandi rannsóknaráfanga en fjöldi þeirra og staðsetningar mun helgast að nokkru leyti af þeim niðurstöðum sem fást úr fyrstu rannsóknarboruninni við Sveifluháls.“

Nýting jarðhita á Íslandi

Svartengi

Svartsengisvirkjun við Grindavík.

Íslendingar hafa skipað sér í fremstu röð hvað varðar nýtingu á jarðhita. Lengi skorti kunnáttu til að beisla þessa orku, en rannsóknir á henni hófust fyrst um miðja 18. öld. Sú ákvörðun að safna upplýsingum og reynslu á þessu sviði hefur stuðlað að því að hér á landi hefur byggst upp sérþekking á heimsmælikvarða. Til marks um það má nefna að þegar Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1978 var ákveðið að hann yrði á Íslandi. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarbúsins af nýtingu jarðvarma til upphitunar húsa er gríðarlegur enda er um að ræða innlenda orkulind sem ekki er háð sveiflum á erlendum markaði.

Reykjanesvirkjun

Reykjanesvirkjun.

Jarðhitinn hefur að að mestu verið nýttur til upphitunar húsa og í dag njóta þess u.þ.b. 90% allra heimila auk fjölda sundlauga víðsvegar um landið. Einnig hefur áhersla á raforkuframleiðslu með jarðhita aukist síðustu ár. Rafmagn er þannig framleitt með jarðhita að borað er eftir gufu sem þá kemur upp með þrýstingi. Gufan er svo notuð til þess að keyra hverfla sem drífa rafal, sem aftur skilar rafmagni.

„Háhitasvæðin eru notuð til raforkuframleiðslu og einnig til húshitunar, í minna mæli til iðnaðar. Ekki er unnt að nota vatn háhitasvæðanna beint til neyslu og erfitt er að nota það beint til húshitunar án vandamála við útfellingar og tæringu…

Nesjavallavirkjun

Nesjavallavirkjun.

Þegar varmaorka er nýtt til að framleiða raforku nýtast aðeins um 10% varmans en 90% er skilað sem afgangsvarma við lægri hita. Þennan varma má nýta til hitunar ef markaður finnst en að öðrum kosti er honum dreift til umhverfis eða dælt aftur niður í jarðhitakerfið.“

Jarðhiti er hvergi mikilvægari í orkubúskapnum á heimsvísu en á Íslandi og eru yfir 60% af frumorkunotkun hérlendis vegna nýtingar hans til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni, til ylræktar og annarra nota.

Hellisheiðavirkjun

Hellisheiðavirkjun.

Jarðhiti á Íslandi á rætur að rekja til úrkomu sem kemst í snertingu við heitan berggrunn líkt og gerist á flekamótum annars staðar á jörðinni. Háhitasvæði eru í hinu virka gos- og gliðnunarbelti þar sem hraunkvika er víða á nokkurra kílómetra dýpi. Lághitasvæðin eru í jarðskorpu sem er eldri og hefur kólnað nokkuð um leið og hana hefur rekið út frá gosbeltunum. Á síðustu öld var mikið átak gert í virkjun jarðhita til húshitunar. Á síðari árum hefur einnig verið framleitt töluvert af raforku í jarðhitavirkjunum. Slíkar virkjanir eru yfirleitt á háhitasvæðum og framleiða í mörgum tilfellum einnig heitt vatn samhliða raforkuframleiðslunni.

Heimildir:
-https://www.hsorka.is/verkefni/jardhitaleit-a-krysuvikursvaedinu/rannsoknir-a-krysuvikursvaedinu/
-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0hiti
-https://orkustofnun.is/natturuaudlindir/jardhiti

Seltún

Seltún – leifar stíflu í Seltúnslæk vegna jarðborana um miðja 20. öld.

Krýsuvík

FERLIR spurði https://chatgpt.com (algoritma) um Krýsuvík. Svörin komu s.s. ekki á óvart. Þau voru bæði mjög takmörkuð og verulega yfirborðskennd. Nánast allt er skipti raunverulega máli var þar undanskilið. Upplýsingarnar gætu komi fáfróðu fólki að einhverju gagni, en nákvæmlega engar þeim er betur þekkja til.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskóladrengir.

Svörin byggjast nánast einungis á ferðaþjónustuvefsíðum fjársterkra opinberra aðila, sem reyndar búa yfir takmörkuðum upplýsingum. [Ljósmyndir á slíkum vefsíðum eru jafnan stolnar frá öðrum]. Algerlega er sniðið hjá vefsíðum sem hafa að geyma þær upplýsingar er raunverulega skipta máli hvað smáatriðin varðar. Talsvert bar og á „fölskum“ upplýsingum, s.s. varðandi „svonefnda „Skátalaug“, byggða á upplýsingum einstakrar Flikr-myndavefsíðu, en laugin sú er alls ekki til sem slík undir því nafni. Hún var gerð af drengjum í Vinnuskólanum í Krýsuvík árið 1962, líkt og lesa má t.d. á www.ferlir.is. Samt sem áður byggir chatgpt grundvöll sinn á þessum röngu upplýsingum!?

Krýsuvík

Krýsuvík 2023.

Upplýsingarnar, sem fengust í leitinni, voru helst þessar [sumar hverjar reyndar kjánalegar]:
„Krísuvík [ranglega stafsett] er mjög áhugavert svæði á Reykjanesskaga og hér eru nokkrar upplýsingar — landsfræði, sögu, náttúru og hvað er hægt að gera þar:

Almennar upplýsingar

Krýsuvík

Krýsuvík – borholan í Hveradölum undir Baðstofu árið 2000.

Krýsuvík er jarðhitasvæði og hluti af gos- og sprungurein á Reykjanesskaga. Svæðið liggur um 35‑40 km frá Reykjavík, eftir vegarleiðum. Krýsuvík tilheyrir eldvirkni sem tengist flekaskilum Atlantshafshryggjarins, þar sem jarðskorpan gliðnar.

Náttúra og jarðfræði
Mikil jarðhita- og eldfjallaumhverfi: hverir, leirhverir, gufuhverir, sprungur, hraunlög o.fl. Seltún er einn þekktasti hverasvæðið þar, með litríku jarðvegi, brennisteinslitum og móum. Grænavatn og

Gestsstaðavatn

Gestsstaðavatn.

Gestastaðavatn eru sprengigígar/lækir sem mynduðust með eldgosum og eldsumbrotum. Grænavatn er til dæmis um 46 metra djúpur  [gígur] og grænn vegna hitasvipaðs lífræns og efnasambanda. Krýsuvíkurberg eru strandklettar við sjó með ríkulegu fuglalífi — mikið um rjúpur, teistu, súlu og aðra sjófugla yfir sumartímann. Klettarnir eru um 40 m á hæð og 15 km á breidd.

Saga og mannvirki
Krýsuvík var áður stór býli og jörð, með kirkju reistri árið 1857. Kirkjan var endurbyggð 1964. [Bærinn Krýsuvík undir Bæjarfelli á sér sögu frá því á 12. öld].

Húshólmi

Húshólmi – forn skáli.

Bærinn, Krýsuvíkurbær, lagðist í eyði — mest vegna hraunflóða, m.a. Ögmundarhrauns. Sumar rústir bæjarins sjást enn, til dæmis í Húshólma.
Á svæðinu var reynt að nýta jarðgufu (tilraunaboranir) um miðja síðustu öld, t.d. fyrir orku, en árangur var ekki eins mikill og vonast var til og starfsemi var svo hætt.

Hvað má gera ef þú ferð þangað

Seltún

Seltún.

Gönguferðir um svæðið, bæði í jarðhitasvæðunum, upp í Sveifluháls, og að/fyrir Krýsuvíkurberg klettunum með útsýni og fuglalífi. Skoða hverina áhrifamestu — t.d. Seltún, þar sem leirhverir og gufuhverir eru, með stígum eða gönguleiðum til að heimsækja. Sjá gosgígana og sprengigígavötnin (Grænavatn, Gestastaðavatn, Augun “Augun” jafnt við veginn). Fuglalíf við Klettana við sjóinn.

Hér eru nýjustu upplýsingar sem ég fann varðandi jarðskjálfta, landrisi/sigi og mögulega gosáhættu í Krýsuvík og nágrenni. Eins og alltaf, þær geta breyst hratt — ég mæli með að fylgjast með Veðurstofu Íslands og öðrum opinberum aðilum til að fá stöðugar uppfærslur.

Nýleg virkni – Skjálftahrinur

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það hafa verið reglulega skjálftahrinur við Krýsuvík/Kleifarvatn. T.d. hrina þar sem stærsti skjálftinn var um 3,3 stig.  Það hafa komið skjálftar af stærðinni ~3,1 við Seltún í Krýsuvík.
Oftast eru skjálftarnir minni og sá stærsti í einni hrinu er oftast um 3 stig.

Landsig / Landrisi
Veðurstofan hefur mælst hraðara landsig í Krýsuvík en áður. Eftir gosið við Svartsengi í júlí 2023 hefur aflögun (sigi) í Krýsuvík strax aukist. GPS-gögn sýna að Krýsuvík reis nokkuð samfellt frá 2020, en síðan haustið 2023 byrjuðu mælingar að sýna sigi.

Jarðhitavirkni

Austurengjahver

Austurengjahver.

Aukið gufustreymi og suðan á yfirborði hefur verið skráð, sem bendir til aukinnar jarðhitavirkni. Sum skjálftahrinur sýna ekki þau einkenni sem benda beint til kvikuinnstreymis til yfirborðs, heldur virkni tengda jarðhita og spennubreytingum í jarðskorpunni.

Kvikuinnsöfnun og mögulegt gos
Undanfarið hefur kviku safnast fyrir undir svæðinu við Svartsengi og mælingar sýna að magn kviku í kerfinu undir Svartsengi sé nú orðið svipað eða meira en það sem var áður en síðasta gos hófst. Hins vegar, engin gögn benda til þess að kvika sé að færast nær yfirborði í Krýsuvík sjálfri núna.

Áhætta og ályktanir – Með hliðsjón af núverandi gögnum

Seltún

Seltún – borhola er sprakk í október 1999.

Það er aukinn órói (earthquake activity + deformation) í Krýsuvík og nágrenni, sem getur verið undanfari virkni (t.d. gos), en að svo stöddu eru engar staðfestar vísbendingar um að gos sé á næstu grösum.
Landsig og breytingar á yfirborði benda til að kviku og jarðhiti séu að hafa áhrif á þrýsting og uppbyggingu í jarðskorpunni, sem getur skapað spennu.
Jarðhitavirkni (gufur, yfirborðsáhrif) getur valdið skjálftum án þess að kvika komist upp — þ.e. sá þáttur sem oftast má greina með því að skoða dýpi skjálfta og aðrar mælingar.
Samkvæmt sérfræðingum og Veðurstofu Íslands er ástandið nálægt því að vera orka „goslíkt“, en það vantar ákveðin merki um kviku undir yfirborði sem myndu benda til að gos sé á næstu stundum.

Krýsuvík

Krýsuvík árið 2000.

Hér er samantekt á helstu vísbendingum um ástandið í Krýsuvíkarkerfinu núna — skjálftavirknina, aflögun (sig/landris), og hversu líklegt er að gos gæti brotist út, út frá nýjustu upplýsingum:

Helstu gögn og mælingar – Skjálftavirknin
Reglulegar hrinur skjálfta við Krýsuvík og Kleifarvatn. Stærðir oftast um 3 stig eða lægri. Til dæmis var skjálfti um 3,0‑3,3 nálægt Krýsuvík talið eðlilegur hluti af virkni svæðisins.
Dýpi skjálftanna er yfirleitt nokkuð lágt, sem bendir til að þeir séu nærri yfirborði, oft tengdir sprungum eða hitahreyfingum.

Aflögun jarðskorpunnar (sig/landrisi)

Kleifarvatn

Kleifarvatn – hverir.

Frá haustinu 2023 hefur landið við Krýsuvík/Kleifarvatn byrjað að sigjast (neðansjávar eða yfirborðssig), þ.e. lóðrétt aflögun niður á við. Í upphafi (fyrir 2020–2023) var landris, en síðan hefur þróunin snúist við og sig að aukast. InSAR‑gervihnattamyndir (satellítamælingar) styðja þetta: smávægilegar yfirborðsbreytingar sem staðfesta að aflögun er í gangi.

Jarðhitavirkni og önnur yfirborðseinkenni
Aukið gufustreymi og suðan (vapour / steam) við yfirborð sem bendir til að virkni undir yfirborði hafi aukist. Jarðhitavirkni virðist stýra mörgum skjálftum, fremur en kvikuinnstreymi að yfirborði. Þetta þýðir að margt af órói getur verið tengt hitakerfum og vatni, ekki endilega eldgosahættu.

Gossennilegri hætta og mat á henni

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Veðurstofa Íslands hefur fjallað um aukna líkur á gosviðburði við Svartsengi kerfið vegna kvikuinnsöfnunar.
En fyrir Krýsuvík sjálft er ekki að finna staðfestar vísbendingar um að kvika sé á leið að brotast fram (no clear evidence of magma intrusion to surface) þrátt fyrir skjálfta- og aflögunarvirkni.

Hættumat hefur verið yfirleitt ekki hækkað fyrir Krýsuvík til móts við gos; sérfræðingar benda á að þótt líkur séu til staðar, þarf fleiri fyrirferðamiklar vísbendingar (t.d. kviku uppstreymi, vaxandi aflögun eða stærri og dýpri skjálftar) til að benda á að gos sé „á næsta leiti“.

Til að aðstoða við að sjá heildarmynd

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Landris var ríkjandi fyrir 2023. Sig að aukast, einkum frá hausti 2023; aflögun mælist hraðari en áður.

Skjálftar
Regluleg virkni, oft minni skjálftar. Fortsætt virk skjálftavirkni, stundum um 3 stig; tengsl við jarðhita veldur mörgum skjálftum.

Jarðhitavirkni / gufugos / yfirborðsbreytingar

Seltún

Seltún – hveravirkni.

Hitavirkni var til staðar en ekki mjög hröð í þróun. Aukið gufustreymi og suða; þessi virkni eykst og getur hlaupið á skjálftum og aflögun.

Gosáhætta / fyrirboðar
Takmarkaðar vísbendingar um gos nær yfirborði; hætta talin til staðar í Reykjanesskerfinu almennt Enn sem komið er ekki vísbendingar um yfirborðsgos í Krýsuvík; en ástandið telst „á verði“ ef þróun heldur áfram.

Líkindi og tímasetning

Grindavík

Grindavík – eldgos er kann möguelga að rugla einhverja í rýminu…

Sérfræðingar segja að magn kviku sem hefur safnast undir svæðinu við Svartsengi sé nálægt því sem áður leiddi til goss, þannig að hættustig hefur hækkað þar.
Fyrir Krýsuvík er meiri óvissa. Vegna þess að mörg merki eru tengd jarðhita og vatnsdælingu/söfnun heldur en beinu kvikuinnstreymi, er erfitt að spá nákvæmlega hvenær eða hvort gos muni brotna út þar.
Ef gos myndi hefjast, gæti það verið með tiltölulega veikum fyrirboðum — skjálftar væru áberandi, aflögun (sig/landris) myndi aukast, og yfirborðseinkenni eins og aukin suða, gufumyndun, mögulega gasvetni gætu aukist. En þessi merki eru nú þegar á mörkum þess að vera finnanleg.

Jarðhitasvæðið í Krýsuvík – Skátalaug

Krýsuvík

Krýsuvík – sundlaugin.

Jarðhitasvæðið í Krýsuvík er staðsett á Reykjanesskaga á Íslandi. Það er sunnan við Reykjanes, mitt í sprungusvæðinu á Mið-Atlantshafshryggnum sem liggur um Ísland. Krýsuvík samanstendur af nokkrum jarðhitasvæðum, eins og Seltúni. Þar hafa myndast sólfótur, gufur, leirpottar og hverir, og jarðvegurinn er litaður skærgulur, rauður og grænn. Brennisteinsnámur voru grafnar á árunum 1722–1728 og á 19. öld. Þýski vísindamaðurinn Robert Bunsen heimsótti staðinn árið 1845 og setti fram tilgátu um myndun brennisteinssýru í náttúrunni, byggt á rannsóknum þar.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Nálægt jarðhitasvæðum eru nokkrir mar[g]ar — gígar sem mynduðust við sprengingar ofhitaðs grunnvatns. Óvenjulega grænbláa Grænavatnið hefur myndast í einu af þessum marum. Tilraunaborholur voru gerðar hér snemma á áttunda áratugnum og sumar þeirra hafa breyst í óreglulega, gervihveri. Ein þeirra sprakk árið 1999 og skildi eftir gíg.

Krýsuvík er vinsælt göngusvæði og ferðaþjónustuinnviðir — eins og tréstígar — hafa verið þróaðir.

Krýsuvík

Krýsuvík – skilti frá 2025 frá HS-orku um jarðhitarannsóknir á svæðinu.

Stærsta stöðuvatnið á svæðinu, Kleifarvatn, byrjaði að minnka eftir stóran jarðskjálfta árið 2000; 20% af yfirborði þess hefur síðan horfið Ekkert er minnst á stígandi vantaþróun]. Á þessu svæði voru nokkrir bæir fram á 19. öld, en eftir það voru þeir yfirgefnir [ekkert minnst á bæina þá eða bæjarmyndina í heild]. Aðeins lítil kapella, Krýsuvíkurkirkja, byggð árið 1857, stóð eftir þar til hún brann til grunna 2. janúar 2010. [Krýsuvíkurkirkja var aldrei kapella. Hún var endurbyggð eftir brunann og er nú á sínum upprunalega stað].“

Sumt er sem sagt sæmilegt en ekkert er ágætt, t.d. er hvorki fjallað um endurgerð Krýsuvíkurkirkju né sögu svæðisins sem og áhugaverðustu minjar þess.
Miðað við framangreint er tölvugervigreindin tæknilega verulega skammt á veg komin að teknu tilliti til allra hinar margvíslegustu fyrirliggjandi fróðlegu upplýsinga sem í boði eru – ef vel er að gáð…

Krýsuvík

Krýsuvík – bæjarstæði.