Nokkur minnismerki er að finna í Grindavík og umdæmi Grindavíkur.
Ingibjörg Jónsdóttir (1879-1969)
Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.
Grindvíkingar reistu minnisvarðann til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur skólastjóra fyrir félags- og menningarstörf 1879-1969.
Ingibjargarstígur er til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur, eins stofnanda og síðar formanns Kvenfélags Grindavíkur til áratuga og brautryðjanda í skógrækt í Grindavík. Hún hafði forgöngu um að tré yrðu gróðursett norðan við Þorbjörn. Hún gerði það eftir sextugsafmæli sitt en þá stofnuðu kvenfélagskonur í Grindavík sjóð henni til heiðurs og mátti hún ráðstafa honum að vild. Skógrækt varð fyrir valinu. Fyrstu trjáplönturnar gróðursetti Ingibjörg 29. maí 1957. Af því tilefni fór Ingbjörg með eftirfarandi erindi úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:
,,Veit þá enginn að eyjan hvíta
á sér enn vor ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista
hlýða réttu, góðs að bíða?
Fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna.
Skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa, en þessu trúið!”
Grindavík – minnismerki; Ingibjörg Jónsdóttir.
,,Voru 1200 plöntur gróðursettar næstu daga; birki, greni og bergfura. Margir unnu að þessari fyrstu gróðursetningu, konur karlar og börn” segir meðal annars í Sögu Grindavíkur. Ingibjörg nefndi skóginn Selskóg, en gamlar seltóftir voru á svæðinu. Síðan þá hefur skógurinn vaxið og dafnað enda hafa skólabörn sett þar niður trjáplöntur í gegnum árin. Nú er þar myndarlegur skógur og fallegt útivistarsvæði. Í Selskógi er minnisvarði um Ingibjörgu.
Minnismerki um Ingibjörgu Jónsdóttir í norðurhlíð Þorbjarnarfells, miðja vegu Baðsvallaskógar, ofan göngustígs er liggur í gegnum skógarsvæðið.
Oddur V. Gíslason (1836-1911)
Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.
Á minnisvarðanum er eftirfarandi áletrun:
„Séra Oddur Vigfús Gíslason – Fæddur 8.4.1836. Kvæntist Önnu Vilhjálmsdóttur úr Kotvogi í Höfnum 31.12.1870. Lauk embættisprófi í guðfræði 1860.
Fyrst prestur að Lundi í Borgarfirði 1875-1878.
Sóknarprestur að Stað í Grindavík og Höfnum 1878-1894.
Fluttist þá til Vesturheims og andaðist þar 10.1.1911.
Hann var hugsjóna- og framkvæmdamaður, brautryðjandi um slysavarnir á Íslandi.
Lagði grunninn að barnafræðslunni í Grindavík árið 1889.
Minnismerkið er reist af söfnuðunum í Grindavík og Höfnum ásamt ættingjum og Slysavarnarfélagi Íslands árið 1990.
Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík og er eftir Gest Þorgrímsson (1990).
Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.
Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar “minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason” var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.
“Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Oddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Grindavík – minnismerki; Oddur V. Gíslason.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.”
Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.
Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)
Grindavík – minnismerki; Sigvaldi Kaldalóns.
Bjó og starfaði í Grindavík 1929-1945 og samdi þar mörg sín þekktustu sönglög.
Minnisvarðinn stendur við Kvennó, Kvenfélagshúsið í Grindavík.
Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp og í Flatey á Breiðafirði.
Minnisvarði um týnda menn
Minnisvarðin er stuðlabergsstandur. Á hann er letrað:
,,Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gert oss viðskilja við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú drottni vorum. Róm 8:38-39.”
Á minnisvarðann eru festir skildir með nöfnum þeirra sem týnst hafa.
Grindavík – minnismerki; minnismerki um týnda menn.
Minnisvarðann reistu samtök sjómanna og útvegsmanna í Grindavík á Sjómannadaginn 10. júní 1990 og stendur hann í kirkjugarðinum á Stað.
Minnisvarði um drukknaða – Vonin
,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera”. Jes 30.15.
Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.
Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.
Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.
Grindavík – minnismerki; Vonin.
Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.
Vonin hefur ekki látið undan.
Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga.
Minnisvarðinn er eftir Ragnar Kjartansson og gerður árin 1978-79 og stendur við Mánagötu í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík.
Tyrkjaránið – árásin á Grindavík
Grindavík – minnismerki; Tyrkjaránið.
Í júní mánuði á því herrans árið 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt birtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæltu á þýska tungu og sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.
Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.
Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.
Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyjan beið þess sem verða vildi. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af stað. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa.
Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 manna hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.
Grindavík – minnismerki; Stefánshöfði.
Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn þann dag í dag finna á þrem stöðum í Grindavík.
Þessi steindi gluggi stendur við hlið Grindavíkurkirkju.
Minnismerki – Stefánshöfði
Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við Krýsuvíkurveginn.
Þorbjörn 70 ára – 1953-2023
Grindavík – minnismerki; Þorbjörn 70 ára.
Neðan við skrifstofuhús Þorbjarnar HF í Grindavík, við gatnamót Mánagötu og Seljabótar, er minnismerki. Við það er skilti, sem á stendur eftirfarandi:
Á þessu ári 2023 eru 70 ár síðan fyrirtækið Þorbjörn HF var stofnað. Við fögnum því með því að reisa þetta listaverk sem við nefnum Saltarann. Listaverkið er til að heiðra starfsfólkið okkar fyrr og síðar. Það er líka til að heiðra viðskiptavini okkar hér heima og erlendi.
Styttan er tákn afls og áræðis. að er spænskur listamaður að nafni Eskerri sem gerir verkið. Einn af okkar gtryggustu viðskiptavinum á Spáni Giraldo í Baskalandi fékk fyrsta verkið og hefur sent okkur áritun, sem er rituð á fótstall styttunnar. Þar segir á spænsku: „Olas Hielo, Sal, Sangre entre el Sudor Y A Final un Tesoro“ sem gæti þýtt á íslensku: Öldur – Ís – Salt – Blóð í svitanum og að lokum fjársjóður. Þar er líka þetta orðatiltæki á basnesku: „Gure Odol Gazituaren Gogoan“ sem gæti þýtt á íslensku: Í huga okkar salta blóðs.
Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/
Grindavík – minnismerki; Vonin.