Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd „byggðin milli lækja“, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í „eðlilegu“ ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann „Krýsuvíkurfoss“, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur „Lækur á Bergi“. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: „Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.“

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: „Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.“

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin „Mígandi“ er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson var borinn til grafar frá Sandgerðiskirkju 1. febrúar 2024. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21, janúar, 75 ára að aldri.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir var rafvirki og mikill Sandgerðingur enda bjó hann allt sitt líf í Sandgerði. Hann lét mikið að sér kveða alla tíð í þágu samfélagsins í Sandgerði og kom víða við. Hann átti sæti í sveitarstjórn í 20 ár og starfaði í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár. Hann starfaði í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár, þar af sem formaður sóknarnefndar í 30 ár.

Reynir rak fyrirtæki sitt Rafverk hf í um 30 ár en starfaði eftir það í Fræðasetrinu í Sandgerði sem síðar varð Þekkingarsetur Suðurnesja þar til hann lauk sínum starfsferli um 70 ára aldur. Auk allra þessara starfa í þágu samfélagsins var Reynir annálaður leiðsögumaður, enda þekkti hann hvern krók og kima ásamt alls kyns sögur sem tengjast svæðinu.

Reynir Sveinsson

Reynir (á miðri mynd) á ferð um Árnastíg með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskaga.

Hann var mikill ljósmyndari og hann skilur eftir sig gríðarlegt magn ljósmynda sem fanga sögu Sandgerðis og nágrennis og er hluti af menningararfi sveitarfélagsins. Auk alls þessa var hann fréttaritari Morgunblaðsins um langt skeið, þar sem hann kom á framfæri fréttum af mannlífi í Sandgerði og nágrenni.

Reynir fæddist 2. júní 1948. Hann var fjórði í röðinni í hópi sjö systkina, lærði rafvirkjun hjá föður sínum og hóf síðar störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðasetrinu. Þar starfaði Reynir lengi, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn enda vel staðkunnugur á Reykjanesskaganum. Vann einnig með ýmsu móti að eflingu ferðaþjónustu í nærsamfélagi sínu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir starfaði mikið og lengi að félagsmálum á Suðurnesjum, sat t.d. í bæjarstjórn Sandgerðis og í hafnarráði sveitarfélagsins. Gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum öðrum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði björgunarmiðstöðina í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson í Hvalsneskirkju.

Á vefsíðu Þjóðkirkunnar, kirkjan.is, má lesa um áhuga Reynis Sveinssonar, formanns sóknarnefndar Hvalsnesóknar og fyrrum FERLIRsfélaga undir fyrirsögninni „Fólkið í kirkjunni„:

„Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, er einn af þeim mönnum sem verða máttarstólpar í sínu samfélagi. Hann hefur komið víða við. Rak rafmagnsverkstæði í áratugi, tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, setið í bæjarstjórninni, verið virkur í björgunarsveitinni Sigurvon sem er elsta sveitin í Slysavarnafélagi Íslands, stofnuð eftir strand togarans Jóns forseta árið 1928 við Stafnes. Verið slökkviliðsstjóri, flinkur ljósmyndari allt frá fermingu, fréttaritari Morgunblaðsins, forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði, leiðsögumaður … og svo mætti lengi telja. Maður sem hefur látið samfélagsmál sig varða og ekki talið neitt eftir sér.

Reynir Sveinsson

Reynir í hópi Svæðaleiðsögunema Reykjanesskagans.

Reynir er hógvær maður og viðræðugóður. Margfróður um sögu síns samfélags og er kirkjunnar maður.

Hvalsneskirkja er honum kær.

„Ég var alinn upp á trúræknu heimili,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, „móðir mín söng alla sálmana með útvarpsmessunum á sunnudögum og virtist kunna þá alla“. Hún hét Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir, húsfreyja, og faðir hans Sveinn Aðalsteinn Gíslason, rafveitustjóri.

Kirkjan er 135 ára á árinu

Hvalsneskirkja

Núverandi Hvalsneskirkja var vígð á jóladag 1887. Hún er staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns. Kirkjan er friðuð. Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross.

Reynir er búinn að vera sóknarnefndarformaður í rúm þrjátíu ár. „Var kosinn formaður að mér fjarverandi,“ segir hann með bros á vör. „Og er enn að, 74 ára.“

Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði voru menn að vinna í turninum. „Þessi fallegi turn er einstakur,“ segir Reynir, „hann var orðinn fúinn að hluta til og skreytingar á honum höfðu fokið út í veður og vind.“

„Kirkjan er friðuð,“ segir hann, „Minjastofnun hefur verið mjög hliðholl öllum framkvæmdum við kirkjuna.“

Hvalsneskirkja var vígð á jóladag árið 1887 og verður því 135 ára á næstu jólum. Kirkjan var svo tekin í gegn 1945 en síðan hefur margt verið unnið henni til góða.

„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð formaður var að hafa forystu um að hlaðnir yrðu grjótgarðar í kringum kirkjugarðinn,“ segir hann og bendir á fallega hleðslu. „Það var Sveinn Einarsson frá Hnjóti á Egilsstöðum sem hlóð þá – hann var 83ja ára – og blés ekki úr nös!“

Kirkjan og hafið
Reynir þekkir sögu kirkjunnar í þaula og rekur hana vel og áreynslulaust. Enda hefur hann þurft að segja hana býsna oft því að alls konar hópar sækja kirkjuna heim og óska eftir því að fá að heyra sögu hennar.

Nábýli við hafið gefur og tekur. Margur hefur farist á Suðurnesjunum. Eitt kunnasta strandið er þegar togarinn Jón forseti strandaði á rifi við Stafnes í febrúar 1928. Tíu mönnum var bjargað en fimmtán drukknuðu.

En það var seglskipið Jamestown sem gaf mikið timbur af sér. Árið 1881 rak það mannlaust að landi Hvalsness gegnt Kotvogi. Skipið var fullt af timbri. Reynir segir að efnaðir bændur hafi keypt timbur úr skipinu. Ketill í Kotvogi keypti aðra síðuna, hún var dregin yfir ósinn í Hafnir og var það margra mánaða vinna að taka hana í sundur. Allt hafi verið neglt með koparnöglum.

Hvalsneskirkja

Í Hvalsneskirkju.

„Kirkjugólfið er allt úr Jamestown,“ segir Reynir, „og prédikunarstóllinn – úr amerískum rauðviði.“ Hann segir prédikunarstólinn vera þungan og hafi gólfið sigið undan honum um 6 sm. Það var lagfært og gólfplankarnir hvíla á grjóti en eru ekki festir út í kirkjuveggi. Jónískar súlur til sitt hvorrar handar eru einnig úr plönkum úr skipinu.

Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hefur kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Njarðvík. Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
„Hvalsneskirkja er af svipaðri stærð og Njarðvíkurkirkja,“ segir Reynir, „tveimur steinaröðum hærri, þakið brattara, – hún tekur um 100 manns í sæti.“

Einstakar minjar og góðir gipir

Hvalsneskirkja

Skírnarfonturinn smíðaður 1835-1837.

Hvalsneskirkja geymir legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur sem sr. Hallgrímur Pétursson meitlaði en hún dó á barnsaldri. Steinninn er í kór kirkjunnar. Sr. Hallgrímur var vígður á sínum tíma til Hvalsnesssóknar og var þar prestur í sjö ár, 1644-1651.

„Skírnarfonturinn er frá því um 1835,“ segir Reynir, „og það er skemmtileg saga í kringum hann: Bóndinn í Stafnesi lá í fimmtán ár og var með öllu ógöngufær. Meðan svo stóð þá dundaði hann við að smíða þennan skírnarfont sem hann gaf síðan kirkjunni. Þegar búið var blessa skírnarfontinn þá gerist það undir að hann fær mátt í fæturna og gat gengið um.“

Fylgst vel með öllu
Reynir segir að ástand kirkjunnar og innanstokksmuna sé gott. Þó eigi eftir að laga altaristöfluna sem er eftir Sigurð málara Guðmundsson.

Hvalsneskirkja

Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, málara, frá 1867 – eftirmynd af töflu Dómkirkjunnar.

„Þegar maður horfir vel á hana sést að hún er ögn gisin á köflum,“ segir hann. Altaristaflan er upprisumynd í sama stíl og tafla Dómkirkjunnar, „Já, og í Kirkjuvogskirkju og á Ingjaldssandi – íslenskur sérfræðingur sem starfar í Hollandi sagði mér að þær væru tíu svona á landinu.“ Farið var yfir allt grjótið í kirkjunni og fúgur lagaðar þar sem með þurfti. Lofthvelfingin var yfirfarin og þiljunar slegnar saman og fellt í rifur. Þá var þakið klætt kopar og kirkjuhurðir endursmíðaðar og gluggar settir í með tvöföldu gleri.

„Allar þessar framkvæmdir kosta sitt en við fáum styrki úr ýmsum sjóðum kirkjunnar,“ segir Reynir. „Gjaldendur í sókninni eru um 1000 og Hvalsnessókn er að Garðskaga og þá tekur Útskálasókn við, erum í Útskálaprestakalli.“

Ánægjuleg umsjón
Reynir segir að starfið í kringum kirkjuna sé allumsvifamikið og veiti það honum mikla ánægju.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson – lósmyndarinn.

Kirkjan sé vinsæl fyrir ýmsar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup. Hljómburður er afar góður í kirkjunni og hafi dregið tónlistarfólk að henni eins og Sumartóna á Suðurnesjum. Þá hafi kirkjan sjálf og umhverfi hennar heillað kvikmyndagerðarmenn sem hafa nýtt sér hana og nefnir hann mynd Friðriks Þórs, Á köldum klaka, og mynd Baltasars Kormáks, Mýrina, sem dæmi. Hann hlær glettnislega þegar hann segir frá tuttugu manna erlendu tökuliði sem kom til að taka upp og var þar í einn dag. „Það voru miklar tilfæringar og stúss,“ segir hann og síðar sýndi einn honum atriðið sem tekið hafði verið upp. „Það var þá sex sekúndur,“ hlær Reynir.

Reynir Sveinsson

Reynir á ferð með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskagans.

Snoturt aðstöðuhús er skammt frá kirkjunni og breytti það öllu til hins betra segir Reynir. „Það er þrefalt torflag á þaki þess og dugði ekki minna.“

Þá getur Reynir þess í lokin að í Sandgerði sé Safnaðarheimili, Sandgerðiskirkja, og þar fari fram fjölmennar athafnir.

Hvalsneskirkja er svo sannarlega í góðum höndum undir forystu Reynis.

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður Hvalsnessóknar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn; fólkið.“ -hsh

Sandgerði

Reynir í Sandgerði á knattspyrnuvellinum að kveldi til.

FERLIRsfélagar minnast Reynis sem góðs og glaðværs manns. Börnin sín sagðist hann eiga íþróttafélaginu, Reyni í Sandgerði, að þakka. Það hafi heitið eftir honum. Þegar leikir fóru fram á íþróttaleikvanginum að kvöldi til hafi ómuð hávær hvatningaköllin; „Reynir, áfram Reynir“, hvatt hann verulega til dáða þá og þar sem eiginkonan var annars vegar.
Þegar Reynir var við nám í Svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum var ein áskorunin m.a. fólgin í „rútuleiðsögn“ um Skagann.

Reynir Sveinsson

Reynis Sveinsson.

Sérhver nemandi átti að lýsa fyrir öðrum nemendum í tíu mínútur tilteknum hluta leiðarinnar. Það kom í hlut Reynis að lýsa leiðinni frá Þórkötlustaðahverfi, framhjá Hrauni og upp Siglubergsháls að Ísólfsskála. Í minningunni var þessi kafli leiðsagnarinnar hin eftirminnilegasti í ferðinni. Reynir settist í stól leiðsögumannsins fremst í rútunni, horfði um stund á hljóðnemann, fletti þegjandi um stund blöðum í möppu og leit rólega í kringum sig, en sagði ekki orð alla leiðina. Þegar hann var spurður að ferð lokinni hvað hefði gerst svaraði hann: „Blöðin í möppunni voru bara ekki á réttum stað“. Málið var að Reynir gerþekkti umhverfi Sandgerðis og nágrennis, eins og gerist jafnan um heimalinga, en þegar út fyrir það var komið reyndist róðurinn þyngri, eins og sagt er á sjóaravísu.
Reynir Sveinsson var alltaf reiðubúinn að aðstoða eða upplýsa FERLIR um staði í og við Sandgerði, verkefni Fræðasetursins eða einstaka viðburði, s.s. á sviði Lionsfélagsskaparins, líkt og sjá má annars staðar á vefsíðunni. Blessuð er minning hans.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/23/andlat_reynir_sveinsson/
-https://www.sudurnesjabaer.is/is/moya/news/reynir-sveinsson-minning
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2022/07/09/Folkid-i-kirkjunni-Enn-ad/?fbclid=IwAR139S9dMYMygJt6XNv19tpViZ79LoAPNqarhoIUjSd6Iu1Y4VbInwWJGlA

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja 1. febr. 2024.

Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ritstjóri Lesbókarinnar, um „Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun“:

Hvassahraun

Hvassahraun 2021.

„Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær“ (It seems to be a ghost town).

Hvassahraun

Bergstaðastræti 7.

Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.“ – Gísli Sigurðsson.

Húsið að Bergsstaðastræti 7 var byggt 1902, en flutt að Hvassahrauni um 1967. Vigdís Hrefna Pálsdóttir, leikkona, og Arnar Úlfar Höskuldsson, húsasmiður, keyptu húsið 2017 og vilja færa það á lóð að Bergsstaðastræti 18 og gera það í upprunalega mynd.

Íbúðarhúsið við Hvassahraun var rifið 2024.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.

Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Skógfellavegur

Skógfellavegur er hluti gamallar þjóðleiðar milli Voga og Grindavíkur og dregur nafn sitt af Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa stutt frá veginum. Á leiðinni, nærri Grindavík skiptist vegurinn og liggur annar í austurátt og nefnist Sandakravegur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – vörðukort (ÁH).

Skógfellavegur er auðfundinn. Hann er varðaður með 99 vörðum, misjafnlega vönduðum, og sumstaðar má sjá djúp hófför í hraunklöppum. Það tíðkaðist einnig áður fyrr að grjóti væri kastað úr vegstæði þegar farið var um leiðina. Úrkast má sjá víða á leiðinni. Vegurinn er stikaður og hver stika gps merkt og skráð hjá Neyðarlínunni.
Leiðin einkennist af hraunbreiðum, bæði úfnum og sléttum, mosagrónum og gróðursnauðum. Leiðin er skemmtilega fjölbreytt og gaman að ímynda sér alla ferðalangana sem þar hafa farið um síðustu 900 árin eða svo.
Leiðin er um 16 km. og tekur um 4-6 tíma í göngu.

Sandakravegur liggur nú, líkt og Skógfellavegurinn, að hluta undir nýrunnu hrauni, eða allt að landamerkjum Voga hjá „Stóra steininum við Gömlu götuna“. Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aðeins fálega varðaður. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að hann hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það aðallega heimilisfólkið í Ísólfsskála og gestir þess sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni.

Skógfellavegur – leiðarlýsing frá 2020

Skógfellavegur

Skógfellavegur – hnitsetning.

Gengið var um Skógfellaveg frá Vogum til Grindavíkur. Þessi gamla þjóðleið milli byggðalaganna var einnig nefnd Vogavegur. Skógfellavegur er hluti gömlu þjóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, sem hann liggur framhjá að austanverðu, Litla- og Stóra Skógfelli. Þau eru við götuna um miðja vegu til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hluti hennar Sandakravegur. Sumir telja það þann hluta leiðar, sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra- Skógfelli, en þar eru vegamót. Aðrir telja Sandakraveginn hafa legið með Fagradalsfjalli með Görninni og Kastinu um Nauthólaflatir skammt vestan Dalsels og þaðan um sléttar sandflatir niður í Mosa um Grindavíkurgjá og á Skógfellaveginn skammt ofan við Brandsgjá. Þannig er leiðin sýnd á kortum eftir aldamótin 1900.
Gangan inn á Skjógfellaveginn hófst við skilti skammt ofan Reykjanesbrautar, skammt austan við Háabjalla. Bílastæði eru skammt austan við skiltið. Gatan er nokkuð óljós framan af en úr því rætist fljótlega. Leiðin hefur nú verið stikuð að Litla-Skógfelli af áhugagönguhópi á Suðurnesjum.

Skógfellavegur

Skógfellav. – hnitsetning.

Skammt sunnan við Reykjanesbrautina er gengið fram á sprungu sem heitir Hrafnagjá. Þarna við Skógfellaveginn lætur hún lítið yfir sér en þegar austar dregur er hún mjög falleg og tilkomumikil og þar er gjábarmurinn hæstur og snýr á móti suðri. Í gjárveggnum er hrafnslaupyr. Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Stóru-Vatnsleysu. Þar í er svonefnt Magnúsarsæti með áletrunum. Þegar götunni er fylgt áfram er komið að nokkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og liggur gatan yfir austurhluta þess. Skammt austan götunnar, áður en komið er upp á bjallann, eru litlar seltóftir, Nýjasel, undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni, auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirra allra til norðurs. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Þarna liggur vel mörkuð leiðin nálægt austurjaðri Skógfellahraunsins.
Áhugavert er að gera smá lykkju á leiðina austur með gjánni og skoða Pétursborg sem stendur á barmi Huldugjár. Fjárborgin stendur nokkurn spöl austan vegarins yfir gjána. Pétursborg er gamalt sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904) en hann er sagður hafa hlaðið borgina.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða við Aragjá.

Við Pétursborg að austanverðu eru tvær gamlar fjárhústóftir og ein nokkuð nýrri aðeins ofar.

Á milli Huldugjár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós á kafla en hefur verið stikuð en gatan er skýrari þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjábarminum. Þegar líður á verður gatan greinilegri og næsta gjá á leiðinni sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grjótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar er varða sem heitir Aragjárvarða en gjáin þarna við vörðuna heitir Brandsgjá.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – „Stóri (landamerkja)steinninn við Gömlu götuna“.

Eftirfarandi er frásögn um atvik sem henti á þessum stað: Á jólaföstu árið 1911 var Brandur Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála (1862-1955) á leið heim úr Hafnarfirði og dró sú ferð dilk á eftir sér. Hann lagði á Skógfellaveginn og ætlaði síðan inn á Sandakraveginn og niður að Ísólfsskála. Veður versnaði er leið á daginn og lenti Brandur í umbrotafærð suður heiðina. Allt í einu gaf fönn sig undan hestinum og þeir hrösuðu ofan í Stóru-Aragjá. Þarna hafði Brandur leitt hestana utan við klifið og svo fór að bæði hrossin þurfti að aflífa á staðnum. Síðan heitir þarna Brandsgjá. Brand kól mikið á fótum og var á Keflavíkurspítala í nokkra mánuði eftir slysið.

Landamerki

Leiðrétt landamerki Voga og Grindavíkur m.v. landamerkjalýsingu.

Þegar komið er upp fyrir Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum. Á fyrsta spottanum þarna er gatan mjög djúp því grjóti hefur verið rutt úr henni í miklum mæli en þegar ofar kemur taka við sléttar klappir markaðar djúpum hófförum.
Á hægri hönd eru Krókar, hraunhólar með kjarri í dældum, en á vinstri hönd, spöl sunnar, er Nyrðri-Mosadalagjá. Gjáin snýr bergvegg til suðausturs og þess vegna er erfitt að greina hana frá götunni. Milli hennar og Syðri-Mosadalagjár (með bergvegg til norðvesturs) er víðáttumikill misgengisdalur, þakinn mosa, og heitir sá Mosdalir eða Mosadalir. Við austurrætur Litla-Skógfells þarf að klöngrast yfir smá haft af grónu apalhrauni þar sem gatan liggur en þegar yfir það er komið liðast hún „milli hrauns og hlíðar” um skriðugrjót og grasteyginga. Skógfellin bera ekki nöfnin með réttu í dag því þau eru að mestu gróðurlaus.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – kort af Reykjanesskaga 1831.

Fyrir neðan og austan Litla-Skógfell er þó dálítið kjarr, bæði birkihríslur og víðir, og sjálfsagt hefur svæðið allt verið viði vaxið endur fyrir löngu. Við Litla-Skógfell endar Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurhreppur tekur við.
SkógfellavegurFrá hlíðum Litla-Skógfells er gaman að horfa á „vörðuskóginn” framundan en á milli Skógfellanna er einkennasnauð hraunbreiða sem auðvelt væri að villast um ef ekki væru vörðurnar. Þarna standa þær þétt saman eins og menn á mosagrónu taflborði og gatan er djúpt mörkuð af þúsundum járnaðra hesthófa.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – Litla-Skógfell framundan.

Þegar komið er langleiðina að Stóra-Skógfelli greinist Sandakravegurinn út úr til suðausturs yfir hraunið og að Sandhól. Til gamans geta göngumenn leikið sér að því að telja vörðurnar frá Litla-Skógfelli að gatnamótunum en þær eru 22. Sandakravegurinn þarna yfir er fallegur, djúpmarkaður og skoðunarverður.
Vestan við Stóra-Skógfell er Gíghæðin og er stutt ganga frá fellinu yfir í gígana og þaðan yfir á Grindavíkurveginn. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið.

Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri gígaröð, Sundhnúksgígum, sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gatan er slétt og sendin á kafla. Heitir þar Sprengisandur. Þegar komið er framhjá Hagafelli, þar sem í eru Gálgaklettar, að austanverðu fer að halla undan til Grindavíkur og spöl neðar greinst leiðin til „allra átta” um gamalgróið hraun niður til bæja. Í Gálgaklettum eru þeir þjófar sagðir hengdir, sem handamaðir voru á Baðsvöllum, en höfðu hafst við í Þjófgjá í Þorbjarnarfelli og herjað á Grindvíkinga.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. 1995.

Skógfellavegur

Útsýni af Skógfellavegi að Stóra-Skógfelli, Sýlingarfelli og Þorbirni.

Búrfellsgjá

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?“
Svarið var:

Búrfell

Búrfell.

„Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð og þaðan runnu í því gosi hraunin sem sýnd eru á meðfylgjandi korti. Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort.

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973), en síðan hafa ýmsir fjallað um það, nú síðast Árni Hjartarson 2009, og úr grein hans er kortið. Þar er Búrfell í suðausturhorninu, og frá því sýndir fjórir hraunstraumar sem Árni telur hafa runnið í gosinu í eftirfarandi aldursröð: •Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (Kapelluhraun) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Áætlaðar útlínur þessa hrauntaums eru sýndar með tökkuðum línum á kortinu.

Gráhella

Gráhella í Gráhelluhrauni.

•Næst rann taumurinn sem merktur er Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði.
•Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun).
•Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli.
Á kortinu eru taumarnir fjórir sýndir með misdökkum bleikum lit, Selhraun hið elsta dekkst en yngsti skækillinn ljósastur.

Búrfell

Búrfell – gígurinn.

Samkvæmt aldursgreiningunni rann Búrfellshraun snemma á nútíma (eftir að ísöld lauk), en háan aldur styður það einnig hve haggað hraunið er, skorið misgengjum.“

Heimildir og kort:
-Árni Hjartarson (2009). Búrfellshraun og Maríuhellar. Náttúrufræðingurinn 77 (3-4), bls. 93-100.
-Guðmundur Kjartansson (1954). Hraunin kring um Hafnarfjörð. Þjóðviljinn, jólablað, bls. 10-12.
-Guðmundur Kjartansson (1973). Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42, bls. 159-183.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Skagagarður

Eftirfarandi frásögn Magnúsar Gíslasonar í Garðinum er í félagsriti Landssambands eldri borgara, 9. árg. 2004.

Við Skagagarðinn

Skagagarður.

„Menn hafa lengi velt fyrir sér hvaðan Garðurinn dregur nafn sitt. Margir telja hann draga nafn sitt af því, þegar jarðeigendur voru að ryðja grýtta jörðina til ræktunar fyrir bústofn sinn og nýttu grjótið í garðhleðslu bæði til skjóls og varnar ágangi dýra. Talið er að garðarnir í hreppnum hafi náð 60 km að lengd og af þeim sé nafn byggðarlagsins dregið.
Aðrir telja að það fái ekki staðist. Samkvæmt íslenskum málvenjum ætti það þá að heita Garðar. Þeir sem hafa rannsakað nafnið ofan í kjölinn fyllyrða að Garðurinn dragi nafn sitt af Skagagarðinum mikla sem var 1500 metra langur, hlaðinn úr hnausum og grjóti og náði meðalmanni í öxl.

Skagagarður

Skagagarður – minnismerki í Garði.

Var hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir að taka skuli menn tvo mánuði ár hvert til hleðslu. Augljóst virðist að garða hafa landnámsmenn byrjað að hlaða næst því að velja sér bæjarstæði, af þeirri gildu ástæðu að kvikfé var grunnur undir tilveru þeirra og vörslugarðar því nauðsynlegir.

Skagagarður

Skagagarður.

Sagan hermir Skagagarðinn reistan í landnámi Steinunnar gömlu á Reykjanesskaga, en svæðið var í landnámi Ingólfs Arnarssonar sem gaf frænku sinni land suðurmeð sjó. Rausnarleg gjöf Ingólfs, en hin veraldarvana Steinunn vildi ekki standa í þakkarskuld við frænda sinn og galt fyrir landið með flekkóttri heklu enskri, þ.e. ermalausri kápu með áfastri hettu – lítið gjald fyrir landssvæði sem seinna náði yfir tvo hreppa.

Misjafnar skoðanir eru á hvar Steinunn gamla tók sér bólfestu (þótt flestir hallist að því að hún hafi búið að Gufuskálum), en tengsl hennar og landnámsmanna á Rosmhvalanesi sýna að nesið hefur sennilega verið numið fyrir 890.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Rosmur er gamalt heiti yfir rostunga, sem bendir til að þeir hafi verið við Reykjanes á öldum áður og landsmenn fundið þá rekna á fjörur.
Rosmhvalanes tók að byggjast snemma á landnámsöld. Fólki fjölgaði ört, enda búsældarlegt. Sendin moldin var frjósöm til akuryrkju, graslendi nokkuð, og heiðin lyngi og kjarri vaxin. Stutt á fengsæl fiskimið, svo að fólk hafði nóg að bíta og brenna, en náttúruöflin gátu sett strik í reikninginn. Á Reykjanesi skalf jörðin og brann svo sem merkin sanna. Fyrir nesinu voru eldsumbrot, hraun vall upp af sjávarbotni. Fara sögur af ferlegum umbrotum allt frá árinu 1000 og oft síðan. Stórar hraunbreiður eru undir fiskimiðunum í Garð- og Miðnessjó.

Skagagarður

Skagagarður.

Árið 1226 varð mikið gos í sjó út af Reykjanesi, og svokallað miðaldalag lagðist yfir nesið og Skagagarðinn. Gróður spilltist svo mikið aðmenn sneru sér meira að fiskveiðum, sem urðu helsti atvinnuvegur á Rosmhvalanesi um aldaraðir. Fiskurinn var hertur í skreið og nánast slegist um hvern ugga. Lýsið varð verðmæt afurð.
Gróðurinn jafnaði sig smám saman eftir öskufallið og landbúnaður öx að nýju, eins og graslendið leyfði.

Heimildum ber ekki saman um hvenær og hvers vegna kornrækt lauk innan Skagagarðsins. Sumir telja að öskulagið ásamt kólnandi verðáttu sé ástæðan. Aðrir hafna því og benda á að kornið sé einær jurt sem vaxi í öskusalla. En eftir aldamótin 1300 jókst innflutninur korns verulega og lækkaði allt niður í fjórðung landauraverðs miðað við skreið, helst vegna þess að Austur-Evrópumenn létu kristnast og Hansakaupmenn fóru að flytja korn frá Úkraínu og Litháen og selja á vægu verði á Norðurlöndum, en sóttust eftir fiski til föstunnar. Líklega hefur þessi innflutningur bunið enda á kornrækt Íslendinga.

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Þar með lauk upprunalegu hlutverki Skagagarðsins, en þjóðsagan um gullkistuna lifir enn. Hún er grafin í Skálareykjum, þar sem vörsluhliðið var, en rétt er að taka fram, að staðurinn er friðlýstur.
Á gamla akurlendinu innan Skagagarðsins var stundaður búskapur um aldir, en hefur nú lagst niður, utan nytja hestaeigenda. Breski flugherinn naut góðs af sléttlendinu á stríðsárunum og lagði þar 1500 metra flugbraut 1940 sem hann notaði í tvö ár, þar til flugvöllurinn var lagður í Miðsnesheiði 1942.
Skagagarðurinn, mannvirkið forna, er löngu fallinn, en þó sést móta fyrir honum ef vel er gáð.“

-Magnús Gíslason í Garðinum.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – loftmynd.

Litla-Skógfell

Af gefnu tilefni, í kjölfar nýlegra eldgosa á Reykjanesskaga ofan Grindavíkur, er rétt að minna hlutaðeigendur á rétt eigenda óskipts lands Þórkötlustaða ofan Grindavíkur. Þeir hafa hingað til ekki verið virtir viðlits er komið hefur að ákvörðunum um einstakar framkvæmdir á þeirra landi.

Ísleifur Jónnson

Ísleifur heldur á korti er staðfestir málstað hans.

„Þórkötlustaðir : Landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst ………….
…..fyrir miðju Markalóni í fjöru, á Þórkötlustaðanesi, er mark á klöpp er aðskilur að land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hóp, þaðan liggja mörkin til heiðar, sjónhending á toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna (LM), þaðan að Kálffelli, þaðan að Vatnskötlum (Vatnsfelli) fyrir norðan Fagradal, (samkvæmt landamerkjum frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620), þaðan yfir Vatnsheiði, þá áfram fyrir vestan Húsfell til sjávar í miðjan Markabás í fjöru, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hraun, er þar mark á klöpp. Einkennismark marksteinanna er LM.“…

Ísleifur Jónsson

Ísleifur á vettvangi. Hingað kom hann í leitir fyrir Grindvíkinga og horfði á landamerkja“Steininn“ við götuna.

FERLIRsfélagar fylgdu Ísleifi Jónssyni, rúmlega níræðum verkfræðingi, á fjórhjóli, inn á Skógfellastíginn, að „Stóra steininum“ norðan Litla-Skógfells.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – óskipt land skv. uopinberu skrám.

Ísleifur taldi eindregið að landamerki Grindavíkur og Voga ættu að vera um 1.5 km norðar skv. landamerkjalýsingunni en kortlögð hafa verið – enda eðlileg framlenging m.v. fyrirliggjandi landamerkjalýsingar. Samkvæmt lýsingum Ísleifs, þar sem „Stóri steinninn“, þess er getið er um í landmerkjalýsingunni, ku það vera rétt. Núverandi landamerki Voga og Grindavíkur eru því röng sem nemur 1.5 km.

Skógfellavegur

Þórkötlustaðir – landamerki millum Litla-Skógfells og Kálffells.