Dysjar Krýsu og Dísu
Í Krýsuvíkurlandi, skammt ofan Kerlingahvamms undir Geitahlíð, eru þrjár dysjar, ýmist nefndar Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) er dysjanna getið sem og leiðina að þeim frá Krýsuvík: „Alfaraleið austur á allbreiða mela ofan Bleiksmýrar. Þar nefndust Breiðgötur. Er austar dregur liggja þær alveg neðst við Geitahlíðarskriður.
Hér blasir Eldborgin við Stóra-Eldborg. Milli hennar og Geitahlíðar er skarð, nefnt Deildarháls. Þegar komið er fram úr skarðinu blasir við Hvítskeggshvammur er skerst inn og upp í Geitahlíðina. Þá blasir við hraunbunga með smá strýtum á. Þarna eru Dysjarnar.
Þarna mættust þær eitt sinn þær maddömurnar. Krýsa úr Krýsuvík og Herdís úr Herdísarvík með smölum sínum og hundum þeirra. Deildu þær um beit, veiði í Kleifarvatni og fleira. Urðu báðar reiðar. Drap þá Dísa smalamann Krýsu. Krýsa drap þegar í stað hinn smalann. Þá sló í svo harða brýnu milli þeirra og heitingar, að báðar létur þarna líf sitt og hundarnir. Síðan eru þarna Kerlingadysjar, Smaladysjar og Hundadysjar, Krýsudys og Dísudys. Neðan við bunguna er Kerlingahvammur.“
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar segir:
„Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík. –
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.
Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
Þangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“
Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar.