Eldvörp – Sundvörðuhraun – byrgi

Tyrkjabyrgi

Haldið var í Eldvörp og staðnæmst á svæðinu við borholuna. Sæmilegur vegur er þangað með heitavatnspípunni um Illahraun. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna í Sundvörðurhrauni.

Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Gengið var suður fyrir Eldvörpin, inn á svonefndan Brauðstíg. Þar er hlaðinn garður utan í hraunhrygg. Vestan hans er hverasvæði. Eftir tiltölulega stutta göngu í gegnum úfið Sundvörðuhraunið var komið niður á slétt mosavaxið apalhraun. Beygt var út af stígnum til vinstri og var þá komið inn í krika í skjóli hins háa apalhrauns. Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðurhrauni.

Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Ummerki eru eftir mannvistir í skútum og hellum talsvert vestar í Eldvörpum. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.
Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá Húsatóttum.

Eldvörp

Fiskbyrgin í Sundvörðuhrauni.

Á móti mælir að önnur þurrkbyrgi á Skaganum eru við sjávarsíðuna, en þessi talsvert langt uppi í landi. Hins vegar gætu þessi byrgi, á þessum stað, verið ætlað til annars en einungis að varsla þurrkaðan fisk, þ.e. sem felustaður fyrir slíkan fisk. Hafa ber í huga að Grindvíkingar voru fyrrum leiguþý Skálholtsstóls, sem átti alla útgerðina. Mikil örbirgð ríkti. Þarna gætu einstaklingar hafa skotið undan fiski til geymslu ef og þegar á þyrfti að halda er hungrið svarf að. Ekki ólíkleg tilgáta.

Eldvörp

Óraskað byrgi í Eldvörpum.

Engin ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu. Fróðlegt væri að fá aðrar hugsanlegar tilgátur um tilgang og notkun þessara skemmtilegu, en dulúðulegu, byrgja.
Stígnum var fylgt til suðurs í gegnum hraunið og út á Árnastíg. Árnastíg var síðan fylgt áleiðis niður að Húsatóttum þangað til var komið að vörðu við gatnamót.

Tyrkjabyrgi

Refagildra.

Skammt neðan hennar er enn ein refagildran á svæðinu. Í stað þess að fylgja stígnum austur fyrir gamla bæinn var genginn varðaður stígur að og ofan við misgengið vestan hans. Ofan þess eru hlaðin fiskbyrgi og er a.m.k. eitt nokkuð heillegt. Stendur það nokkuð hátt. Önnur eru fallin, en vel má sjá útlínur þeirra og auðvelt er að áætla fyrri stærð þeirra. Gjáin í misgenginu er efni í sérstaka ferð, enda margar sögur og sagnir henni tengdar.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 54 mín.
Sjá meira um Eldvörp HÉR, HÉR og HÉR, HÉR, HÉR og einkum HÉR. Auk þess HÉR og HÉR.
Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.