Elliðaárdalur III
Í skýrslu um „Sjálfbæran Elliðaárdal – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016„, er m.a. fjallað um sögu og minjar í dalnum.
Gróður í dalnum er víða mikill, bæði náttúrulegur og ræktaður, a.m.k. 160 tegundir blómplantna. Skógrækt hófst líklega í dalnum upp úr 1920 með gróðursetningu reynitrjáa. Þegar hús og sumarbústaðir fóru að rísa í dalnum, kom til garðrækt. Orkuveita Reykjavíkur (Rafmagnsveita) hóf skógrækt í Árhólmanum upp úr 1950. Helztu varpfuglar í dalnum eru álftir, grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, straumendur, duggendur, æðarfugl, toppönd, grafönd, hrossagaukar, skógarþrestir, starrar, auðnutittlingar, þúfutittlingar, steindeplar, maríuerlur, hrafnar, himbrimar, o.fl. Alls má telja 59 fuglategundir, en 31 þeirra eru fastir varpfuglar og 18 tegundir eru árvissir gestir.
Elliðaárnar hafa löngum verið meðal beztu laxveiðiáa landsins en þar eru einnig urriði, bleikja, hornsíli og áll. Rústir þófaramyllu og litunarhúsi Innréttinganna má finna á takmörkuðu svæði í Árhólmanum undan bæjarhólnum að Ártúni. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921.
Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf söfnun muna, sem tengjast sögu hennar, árið 1971. Skráning munanna hófst 1988 og þar með skipuleg söfnun.
Rafveitusafnið var formlega stofnað árið 1990 og það er skemmtilegt að heimsækja það í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða. Víðivellir, athafnasvæði hestamanna, er aðallega á tveimur aðskildum svæðum ofarlega í dalnum og þriðja og elzta svæðið er við enda Bústaðavegar. Árbæjarsafnið, sem var opnað árið 1957, er hluti af Elliðaárdalnum.
Búskapur og landbúnaður
Elliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum.
Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju.
Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).
Aðrar söguminjar
Elliðaárdalur var í lykilhlutverki í ullarvefnaðariðnaði í Reykjavík 18. öld sem var hluti af starfsemi Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta. Í árhólmanum má sjá ummerki um mannvirkin er þessu tengdust en þar stóðu þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Var vatnskraftur Elliðaánna nýttur við að þæfa og lita ullina.
Þjóðleiðin frá Reykjavík lá einnig yfir Elliðaárnar neðarlega í dalnum og má finna ummerki um gömul vegstæði og vöð og var Ártúnsvað fjölfarnasta vaðið (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Fyrstu brýr yfir Elliðaárnar voru byggðar 1883 en hafa þær verið endurnýjaðar alloft síðan þá, stækkaðar og styrktar. Í dag eru tvær brýr fyrir bílaumferð, Höfðabakkabrú frá 1981 og Breiðholtsbrautarbrú frá 1993 auk brúar fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi til móts við Árbæjarlaug.
Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.
Ekkert er minnst á veru Arnesar útilegumanns, veru hans í dalnum og fylgsni hans í Árhólmum.
Raforkuframleiðsla
Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík.
Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var
vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur
ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)
Skógrækt
Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.
Ísaldaminjar
Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín.
Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjallar og setfyllur.
Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, sem myndanir tengdar henni og frárennsli bránandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og sandeyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi.
Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar kindár eins og nú er.
Blesaþúfa er dæmigerðar leifar af fornri óseyri.
Heimildir:
-https://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ellidaardalur.htm
-Sjálfbær Elliðaárdalur – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016.