Esjumelar – kuml og leið
Í fornleifaskráningu Ragnheiðar Traustadóttur Önnu Lísu Guðmundsdóttur um Kollafjörð má sjá eftirfarandi um Arnarhóla (dysjar) og forna götu.
„Kollafjarðar er fyrst getið í Kjalnesingasögu. Helgi bjóla setti Kolla hinn írska niður í Kollafjörð. (Í.F., [Kjalnesingasaga], XIV. bindi, s. 5). Jarðarinnar getur í fógetareikningum á árunum 1547-1552. (D.I., XII. bindi, s. 117). Jörðin var í konungseign 1705 og jarðardýrleiki óviss.“
Arnarhóll er ofan og sunnan Kollafjarðar. “Suðvestur af Réttarholti mitt á milli réttarinnar og þjóðvegarins er Arnarhóll, þar sem Örn austmaður var veginn.” (Ö.Ko.1). “Á Móholti, þar sem gamli vegurinn liggur yfir “Flóalæk”, eru tveir hólar (eða dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á móholtinu. Hinn er nokkuð austar og er stærri. Þessir hólar (eða dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann.” (Ö.Ko.2). “Arnarhóll er frekar lítill hóll með þúfu í kolli.” (Ö.Ko.3). “Arnarhóll er utan við Flóann, vestnorður af honum.” (Ö.Ko.4).“
Í Arnarhólum hafa verið talin vera kuml. Í örnefnalýsingu segir: “Á Móholti norðan við, þar sem gamli vegurinn liggur yfir Flóalæk”, eru tveir hólar (dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á Móholtinu. Hinn er nokkru austar og er stærri. Þessir hólar (dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann”. Hóllinn er á miðju móholtinu og ber greinilega við.“ Hólar þessir eru mjög greinilegir og erfitt að segja til um hvort þeir séu manngerðir. Sá, sem hér um ræðir, er sporöskjulaga með upphækkun í miðjunni, sem virðist vera hlaðin, sést í grjót á stöku stað og er erfitt að gera sér grein fyrir hvort menn hafi komið því þar fyrir. Lengd hólsins er um 10 m og breidd 5 til 6 m. Hæð hans er frá 10 til 60 sm.
Í örnefnalýsingu segir: “Á Móholti norðan við, þar sem gamli vegurinn liggur yfir Flóalæk”, eru tveir hólar (dysjar). Annar er fast við veginn, norðan til á Móholtinu. Hinn er nokkru austar og er stærri. Þessir hólar (dysjar) voru báðir kallaðir “Arnarhólar” og kenndir við Örn austmann”. Þessi hóll er norðan við 282-23 og liggur við hina fornu leið inn Kollafjörðinn. Hóllinn er afar greinilegur og ber við þegar komið er á vettvang.“
Við hólinn liggur forn gata. „Hóllinn liggur fast við hina fornu leið og 4 metrum frá hellulagðri brú/ræsi sem hefur verið lögð yfir læk sem nú er uppþornaður. Hin forna leið liggur um norðurhluta Móholtsins, nærri samhliða núverandi Vesturlandsvegi og inn í Kollafjörðinn. Leiðin er einstaklega vel varðveitt í sjálfu Móholtinu og er hægt að rekja sig eftir henni frá Flóalæk og yfir Móholt að mestu samhliða Vesturlandsveginum en um 50 m ofar.
Vegurinn liggur yfir mógrafir og að hluta til virðist hann uppbyggður.“
Á leiðinni er brú. „Á hinni fornu leið, þegar komið er um hana miðja af því sem varðveist hefur, er að finna hellulagða brú/ræsi yfir uppþornaðan lækjarfarveg. Stórar grjóthellur hafa verið hlaðnar yfir lækjarfarveg. Hellurnar eru allt 1 m á lengd. Farvegurinn er nú orðið ógreinilegur.“
Örn austmaður, sbr. 8. kafla Kjalnesingasögu: „Eftir leikinn gekk Kolfinnur út að vanda og fór leið sína. En er hann kom suður af holtunum hlupu þeir Örn austmaður upp og sóttu að honum.
Kolfinnur varðist með lurkinum og barði vopnin fyrir þeir. Varð þeim hann torsóttari en þeir hugðu. Og er þeir höfðu saman átt um hríð sló Kolfinnur sveininn í rot. Hraut þá frá honum bæði skjöldurinn og sverðið. Kolfinnur greip þá upp hvorttveggja. Sótti hann þá að Erni austmanni og lauk svo að Örn féll en Kolfinnur varð sár. Í því raknaði sveinninn við og vildi Kolfinnur ekki gera honum meira. Gekk hann þá leið sína. Sveinninn sá Austmanninn veginn. Skaut hann þá yfir hann skildi, gekk síðan heim í Kollafjörð. Kolli lét flytja heim lík hans og búa um eftir siðvenju.“
Lík Arnar austmanns var sem sagt „flutt heim og um það búið að siðvenju“. Hólarnir tveir eru þá líklega bara tilvísun í atburðinn sjálfan þar sem tveir menn börðust…, nema annað eigi eftir að koma í ljós.
Heimildir m.a.:
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Kollafjörð. (Ö.Ko.1).
-Byggt á fornleifaskrá Ragnheiðar Traustadóttur Önnu Lísu Guðmundsdóttur.