Fjárréttir
Fjárréttir á Reykjanesskaganum eru 222 talsins og ekki svo gömul fyrirbrigði. Þær elstu eru frá því í lok 19. og byrjun 20. aldar. Reyndar eru til minjar um eldri réttir, en þær tengjast venjulega rúningum eða fráfærum. Til eru litlar safnréttir, en þá venjulega nálægt bæjum, enda ekki rekið á afrétt fyrr en eftir að selstöðurnar lögðust af um og eftir 1870. Hugtakið „afréttur“ hefur breyst mikið frá fyrri tíð þegar fé var haldið upp frá bæjum á afmörkuðum svæðum uns bændur tóku sig saman og ráku fé upp til heiða í byrjun sumars og söfnuðu því síðan saman að hausti til úrdrátta.
Sérhver bóndi hafði fé sitt í seli, að jafnaði frá 6. til 16. viku sumars. Í selinu, sem oftast var ofarlega eða jafn yst á landamerkjum, gætti smali fjárins og selsmatsseljan mjólkaði og vann afurðirnar. Fátt fjár var þá á bæjunum, enda flestir kotbýli er byggðu afkomu sína á útvegi.
Við endalok selsbúkaparins færðist vinna smalans og selsmatsseljunnar heim á bæ. Selsstekkurinn færðist þangað. Stundum var hann heimfærður upp á „heimasel“. Stekkjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins. Eftir Jónsmessuna komu fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim, líkt og í seljunum fyrrum. Sumir heimastekkjanna urðu síðar að réttum. Þannig varð Garðastekkur, sem enn sést þótt grasi gróinn sé orðinn, að rétt fyrir Garðabæina.
Geldfé var hins vegar sleppt á vorin, bæði sauðum og gemlingum, svo snemma sem tök voru á, þar sem það var ekki látið eiga sig úti mestan hluta vetrarins. Því var smalað á vorin, oftast um faradagaleytið, og rúið.
Í dag er „afréttur“ landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Þannig hefur búskaparháttum verið varið í u.þ.b. 150 ár á Reykjanesskaganum. Síðustu árin hefur fé í auknum mæli verið haldið í afmörkuðum beitarhólfum. Hefðir og aðferðir hafa breyst frá einum tíma til annars.
Á Skaganum eru allmargar grjóthlaðnar fjárréttir, sumar hverjar meistara vel gerðar. Má þar t.d. nefna Vörðufellsréttina, Girðingarréttina og Geitafellsréttina (Gjáréttina) í Selvogsheiði, Bakkarétt og Þingvallarétt, Árnakróksrétt ofan Selvatns, Eldborgarrétt, Arnarfellsrétt og Bæjarfellsrétt í Krýsuvík, Borgarhraunsréttina ofan Ísólfsskála, Búrfellsgjárréttina og Selflatarétt í Grafningi. Nýlegri réttir eru t.d. Fossárréttin í Kjós, Þórkötlustaðaréttin í Grindavík, Hafravatnsrétt og Skógarhólarétt á Þingvöllum.
Rúningsréttir má finna víða nálægt bæjum. Fær er rúningsréttin í Stóra-Hamradal, Kálfellsrétt, Þorbjarnarstaðarétt, Straumsrétt, Óttarsstaðarétt og Dísurétt.
Minjar fjárréttanna, þótt þær séu ekki mjög gamlar, eru mikilvægur vitnisburður um búskaparhættina fyrrum og ber því að varðveita sem slíkar. Nokkrar réttanna hafa verið annað hvort eyðilagðar eða beinlíns verið fjarlægðar líkt og Hraunsréttin ofan Hafnarfjarðar og Meðalfellsvatnsréttin í Kjós. Aðrar hafa orðið skógrækt að bráð, s.s. gamla Fossárréttin.
Réttir á Reykjanesskagnum eru 204 talsins. Sjá myndir af mörgum þeirra HÉR.
Heimild:
-Íslenskir þóðhættir, Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Ísafoldarprentsmiðja 1961, bls. 172.