Flekkuvíkurstekkur – Kirkjuhólar

Flekkuvík

Gengið var um Flekkuvík og nágrenni. Tilgangurinn var að skoða minjar, sem ekki höfðu verið skoðaðar í fyrri ferðum um svæðið. Þannig var t.a.m. ekki litið á Flekkuleiðið að þessu sinni, varirnar eða annað það er einnig gæti talist merkilegt í og við Flekkuvík.
Flekkuvík var Kálfatjarnarkirkjueign árið 1703. Árið 1379 átti kirkjan á Kálfatjörn þegar jarðirnar Bakka og Flekkuvík. Í bréfi frá 28.4.1479 segir m.a.: „Í þessu bréfi lýstir Arngerður Halldórsdóttir því yfir að Flekkuvík eigi þriðjung í hvalreka ásamt viðarreka og Vatnsleysa eigi tvo hluta í Flekkuvíkurreka sem og hvalreka.“ Jarðarinnar er getið í fógetareikningum árin 1553-48. Árið 1703 eru hjáleigur í Flekkuvík nefndar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð. Túnunum spillir sjáfarágángur merkilega, iteml vatnsrásir með leirágángi af vatni af landi ofan til stórskaða. Engjar eru öngvar. Útihagar lakir um sumar og enn þó minni um vetur.”
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, Austurbær frá 1959″skv. lýsingu GBJ í Mannlíf og mannvirki (343-347.) Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli til, sem hétu Holt og Járnshaus. Jörðin er í eyði frá 1959.
Í örnefnalýsingu er minnst á Flekkuvíkurstekk. „Upp af Stekkjarvíkinni er Stekkjarmóinn, velgróinn og allstór um sig. Við austurjaðar hans, nokkurn spöl frá sjó, er Flekkuvíkurstekkur sunnan undir lágum hól, Stekkhólnum.”
Stekkjarvíkin (stundum talað um Stekkjarvíkur) eru vestan Flekkuvíkurtúna, sem afmörkuð eru með hlöðnum görðum.
Túnin voru minni þegar örnefnalýsingin var gerð, en voru síðar færð út og stækkuð, m.a. til vesturs. Stekkurinn, tvískiptur, er undir þessum lága hól. Hann er vel gróinn, en sjá má móta fyrir hleðslum í tóftunum. Annar stekkur, hlaðinn, einnig tvískiptur er skammt sunnan við suðvesturhorn túngarðsins. Hann er hlaðinn úr stórum steinum.
Á þessum slóðum eru m.a. heimild um skotbyrgi: “Um 200 m utar en Skottjörn og Skarfanes eru dálítið vik inn í kampinn. Það heitir Stekkjarvík. Norðan við hana er lítið, grasigróið klapparnef, Stekkjarnef. Sunnan undir því er grafin hola, hlaðin innan, Skothús. Lítið tóftarbrot er upp af Stekkjarnefi og gæti það verið af stekk.” segir í örnefnaskrá. Hér er önnur tilvísun í stekk þann er nefndur hefur verið Flekkuvíkurstekkur. Vel mótar enn fyrir gróinni tóftinni, skothúsinu, á Stekkjarnefi. Þegargengið er um Flekkuvíkurlandið má víða sjá hlaðin skotbyrgi, ýmist fyrir fuglaskotveiðimenn eða refaskyttur. Minjar þessar eru bæði gamlar og nýlegar, s.s. sú er er skammt ofan garðs, suðaustan við núverandi íbúðarhús.
Þarna er og Mógrafarhóll, örnefni; “Skammt utan við Stekkjarvíkina, rétt við kampinn er Mógrafarhóll. Þaðan út í Keilisnes (nesklett) er á að giska 500 m.” segir í örnefnaskrá. Enn vottar fyrir mógröfunum vestean við hólinn.

Víða ofan við þetta svæði má sjá hleðslur, einkum af fiskbyrgjum, en einnig af öðrum minjum; “u.þ.b. 300 metrum innan við Nesklett er hlaðin ílöng tóft ofan við kampinn. Þar var trjám flett með stórviðarsög.” segir í örnefnaskrá. Ofar og austar sjást enn myndarlegar hleðslur af fyrrum fiskbyrgjum. Sum hafa verið látin óáreitt, en öðrum hefur verið breytt í skotbyrgi.
Þegar FERLIR var þarna á ferð gullu við allnokkrir skothvellir. Menn við svartan bíl, er lagt hafði verið við fyrrum íbúðarhús í Flekkuvík, voru í óða önn að gera sér, þessa yndisfögru sumarnótt, að leik að skjóta á mófuglana. Þegar að var komið kom í ljós að þetta voru tveir ungir menn. Þeir höfðu verið að leika sér með 22 cal. riffil, göngufólki á svæðinu til skelfingar. Nú var það spurningin:; átti að hringja í 112 og boða óttarslegna lögreglumenn í umferðareftirliti á vettvang? Refsing við slíkum brotum er að jafnaði, eftir mikla fyrirhöfn (útkall, skýrslugerð, leitir að kærðum, frekari skýrslugerð, meðferð lögfræðinga, ákæru eða sektargerð saksóknara, eftirfylgju, leit að greiðendum, samkomulagi um greiðslu o.fl.) tiltölulega væg, sekt og upptaka skotvopna. Þar sem FERLIRsfélagar voru þrír á móti tveimur – og auk þess hundur er gæti mögulega verið grimmur (væri haldið aftur að fleðurlátunum í honum). Einn þeirra, orðfár, greip skotvopnið af öðrum mannanna, rak það óvart í annað að aðalljóskerið á bílnum svo það brotnaði og síðan skeftið utan í húshornið. Það brotnaði auðvitað, öllum öðrum að óvörum við það sama, og járndótið, sem eftir var, hrundi niður. Úps, svona gerast slysin. Mennirnir gætu þó alltaf kært slysið til lögreglu, ef þeir kærðu sig um. Ljóskerið kostar jú sitt og byssan er jú ónýt eftir og verður ekki notuð aftur.

Eitt af því sem er einkennandi fyrir Flekkuvík eru örnefni tengd álfum og huldufólki. Í lýsingu segir t.d.: “Í Vesturbæjartúni, skammt til útnorðurs frá bænum, er stór hóll, en ekki hár. Hann heitir Álfhóll. Þar var börnum bannað að vera að leikjum.” Hóll þessi er rétt til hliðar við aðra hólasamstæðu, gróin og lætur lítið yfir sér. Í honum má sjá klöpp. Nýlegt vatnsstæði er sunnan hans og gamlar hleðslur vestar.
Þá er huldufólksbústaðar getið í Kirkjuhólum. “Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir. Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar. Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Hólarnir eru vestan við reglulega strýtumyndaða hóla er raða sér austan þeirra til suðurs. Austasti hóllinn er ágætlega „kirkjuhugmyndamótandi“.
“Nokkru vestar en Kirkjuhólar og nær túngarði er stór strýtuhóll, kallaður Síðdegishóll“, en Síðdegishóll mun vera seinni tíma nafn. Arnarvarða er sögð vera röskan kílómetrar í suðvestur frá Hádegishólum. Hún sést ágætlega frá Kirkjuhólum.
Brunnar og vatnsstæði eru nokkur við Flekkuvík. Fjallað er um Austurbæjarbrunn (Brunninn), Flekkuvíkurbrunn og fyrrgreindar Vatnshellur, auk nýlegs vatnstæðis sunnan Álfhóls, sem áður var lýst.
“Nú liggur vegur heim Austurbæjartúnið og vestan við hann er Brunnurinn eða Flekkuvíkurbrunnur. … Austurbæjarbrunn er víst og óhætt að kalla Brunninn.” segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er í túninu sunnan við gömlu heimreiðinna, sem allnokkru austan núverandi vegar að Flekkuvikurbæjunum. Hann er hlaðinn, ekki djúpur, en fallegur á að líta. Hann hefur verið látinn ósnortinn.
Hinn hlaðni brunnurinn við Flekkuvík er norðan húsanna. Brunnstígur liggur frá þeim að brunninum. Girt hefur verið í kringum hann til að forða slysum, en girðingin er fallin. Brunnurinn er hlaðinn niður, ennig hinn fallegasti. Líklegast er hér um að ræða svonefndan Vesturbæjarbrunn, sem getið er um í örnefnalýsingum.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 er getið um Sigurðarhjáleigu, hjáleigu í byggð. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir og í örnefnaskrá. Hér er innig getið um sex aðrar hjáleigur í Flekkuvíkurlandi, sem verður að teljast vel í lagt miðað við gróin svæði á jörðinni. Að öllum líkindum hafa hér verið um kotbýli útvegsbænda að ræða, er byggt hafa lífsafkomu sína að langmestu leyti á sjávarfangi. Sjórinn hefur, líkt og annar staðar, rifið þarna smám saman af ströndinni og tekið til sín allmargar minjar, sem áður voru þekktar á þessu svæði.
Kotbýlið Refshali er eitt hið forvitnilegasta á svæðinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Refshale hefur í eyði legið fjögur ár … Nú er hjáleigan eyðilögð fyrir sands og sjáfar ágángi og leirfljóð af landi ofan, en grasnautnarleifar brúkar heimabóndinn og þykist ei að skaðlausu afleggja megia.”
“Austurbæjartún liggur í boga meðfram víkinni og mjókkar eftir því sem austar dregur. Þar í túnkróknum var býli, er Refshali hét, fór í eyði um eða laust fyrir 1920. Í seinni tíð var býlið alltaf nefnt Refshali en hefur sennilega upphaflega heitið Rifshali.” segir í örnefnaskrá GE. “Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst, og Refshali innst. Þá var Sigurðarhjáleiga, Blíðheimar, Péturskot, Úlfshjáleiga og Tröð. … Við enda Traðanna var kotið Tröð.” segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir að Rifshali hafi farið í eyði um 1922-23.
Þá er og forvitnilegt að grennslast fyrir um svonefnda Úlfarshjáleigu, sem getið er um í Flekkuvíkurlandi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Ulfuhjáleiga hefur fyrir meir en tuttugu árum tóft hús verið, og nú um lánga stundir í auðn. … Kynni aftur að byggjast, en nokkur þyrði að ráða.” Í Vesturbæjartúni er Fjóshóll og enn er þar hóll nefnist Úlfshóll. Þar mun Úlfshjáleiga hafa staðið, en lengi var þar álfabyggð mikil.” segir í örnefnaskrá. Þarna er líklega átt við hinar miklu hleðslur á og við hólaþyrpinguna vestan við Álfhól.
Þá var gengið upp eftir Stekkjarmóa, áleiðis að Borgarkotsstekk, Mundastekk og Heimristekk, en þeirra allra er getið í örnefnalýsingum. Á leiðinni var gengið yfir hina gömlu Alfaraleið, eða Almenningsleið (Menningsleið) er lá fyrrum um Vatnsleysuströnd millum Innnesja og Útnesja.

Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni en þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn allt að Hvassahraunslandi, einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. … „Þetta nafn, Almenningsvegur, virðist helst (eða eingöngu) hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann kallaður Alfaraleiðin.”
“Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur.” segir í örnefnalýsingu Straums. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.” segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun. Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfararleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina. Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Sunnan við Vatnsleysubæina liggur Almenningsvegurinn ofan nýrri vegar og er Eiríksvegur þar við. Almenningsleiðin sést vel þar sem hún líður um móann. Suðvestan við Vatnsleysubæina fer Almenningsleiðin norður fyrir veginn og liðast síðan þar um holtin, sunnan og framhjá Stefánsvörðu og áfram til vesturs. Gatan er sérstaklega áberandi sunnan Stóru-Vatnslesyu og síðan sunnan Flekkuvíkur þar sem hún hefur fengið að vera óáreitt.
MundastekkurBorgarkotsstekkur er norðan Almenningsleiðarinnar. “Tveir hólar skammt fyrir neðan [við] vörðuna [Stefánsvörðu], annar til vesturs hinn til norðurs, kallast Stefánsvörðuhólar. Norðan undir þeim nyrðri (hann kallast einnig Stekkhóll) er Borgarkotsstekkur.” segir í örnefnaskrá. Stekkurinn er reyndar nokkuð norðnorðvestan hólsins, í gróinni lægð, sem sést vel frá hólnum. Þetta er gróinn stekkur, tvískiptur. Í honum sést móta fyrir hleðslum. Lægðin, sem geymir Borgarkotsstekk, er einungis í nokkurra mínútna fjarlægð frá Stefánsvörðu.
Og þá er það Mundastekkur. Hann er ofan (sunnan) Almenningsleiðar, en fast norðan nýrrar reiðleiðar, sem lögð hefur verið sunnan núverandi þjóðvegar. “… og vestan undir honum [Strandaveginum] er Mundastekkur, sem líklega var frá Flekkuvík,” segir í Örnefnum og gönguleiðum (SG). Stekkur þessi er einnig nokkuð gróin, suðvestan við hólinn, einnig tvískiptur.
Heimristekkur var svolítið erfiðari viðfangs, einkum vegna óljósra staðsetninga. “Til suður frá Stefánsvörðu og nokkuð frá veginum er allhár hóll og brattur til norðurs. Hann heitir Grjóthól… Til suðvesturs frá Grjóthól og nær veginum er Heimristekkur, vestan undir Heimri-Stekkhól. Heimristekkur er um 200 m til austurs frá steinkofa þeim, sem stendur við veginn heim að Bakka.” segir í örnefnaskrá. Í Örnefnum og gönguleiðum (SG) segir: “Nú förum við aftur niður á Strandaveg fyrir neðan Hæðina um 200 m austan við afleggjarann að Bakka og Litlabæ er Heimristekkur austan undir Heimristekkhól.”
Fyrir leikmann hefði eflaust tekið nokkra daga að leita að og finna stekkinn eftir framangreindum lýsingum, en fyrir þjálfað auga FERLIRsþátttakanda tók það einungis 16,6 mínútur. Heimristekkur er vel gróinn sunnan undir austanverðum hólnum. Hann virðist tvískiptur líkt og aðrir stekkir á svæðinu. Stekksins er getið í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi og gæti því verið frá einhverjum þeirra bæja eða kota, sem þar voru (sjá aðra FERLIRslýsingu um Kálfatjarnarhverfið undir leiðsögn Ólafs Erlendssonar).
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gengið var undir mófuglasöng þar sem viðlagið var lóukvak.

Heimildir m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.

Fjaran