Flugvélaflök á Reykjanesskaga – minningarmörk?

Langihryggur

Leifar flugvéla frá stríðsárunum má sjá á 33 slysstöðum á Reykjanesskaganum, utan flugvalla. Bæði rákust flugvélarnar á fjöll og brotlentu vegna bilana eða voru skotnar niður. Síðastnefnda hópnum tilheyra leifar tveggja þýskra flugvéla sem hingað hafði verið flogið frá Noregi. Aðrar vélar tilheyrðu bandamönnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – flugslys.

Í raun eru slysstaðirnir minjastaðir um þá er létust á vettvangi. Þess vegna ber að virða þá sem slíka.
Á öllum stöðunum má enn sjá ummerki, mismikil, rúmlega 80 árum eftir að atburðirnir gerðust. Af ljósmyndum, sem teknar voru á slysavettvangi, má yfirleitt sjá mikið brak, sem bæði vindur og vatn hefur síðan fært úr stað. Heillegir hlutir voru margir fjarlægðir skömmu eftir óhöppin, en mest hefur þó verið fjarlægt af ferðalöngum sem komið hafa og skoðað staðina á umliðnum árum. Ferðalangarnir hafa gjarnan tekið með sér hluti af staðnum til minningar um komu þeirra sjálfra á vettvang. Þeir hlutir hafa síðar smáms saman farið forgörðum enda til lítils yndis og engum til gagns í heimahúsum þar sem þeir hafa ekki verið í neinum tengslum eða samhengi við atvikin hverju sinni.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Leifar flugvélanna á vettvangi eru einu vísu staðfestingarnar hvar atburðurnir áttu sér stað. Þegar sérhver einn af hverjum 10 ferðalöngum taka með sér einn hlut er ljóst að ummerkin verða fljót að hverfa, eins og raunin hefur verið á. Horfnar leifar verða þeim sem á eftir koma hvorki til vitundar um staðsetninguna né staðfesting á því sem þar gerðist. Dæmi eru um að óheill hafi fylgt þeim, sem fjarlægt hafa hluti af vettvangi slysa.
Vettvangurinn – og allt sem á honum á að vera – er í rauninni, líkt og áður sagði, minningarummerki, bæði um atburðinn og þá sem þar annað hvort létu lífið eða, í sumum tilvikum björguðust. Það er því mikilvægt að fólk er þangað kemur láti alltaf allt þar óhreyft sem fyrr.

Bláfjöll

Gamla Grána – Brak á slysstað 1960.

Tvö stórtækari dæmi má nefna hér um hluti, sem fjarlægðir hafa verið af vettvangi flugslysa. Annað er hreyfill úr Bresku Gránu sem nauðlenti í Bláfjöllum 1945 og hitt er hreyfill úr Hudson-vél sem fórst í Kistufelli sama ár. Báða þessa hreyfla sótti Arngrímur Jónsson, flugstjóri, og félagar hans á slysavettvang og færðu að flugskýli á Tungubökkum í Mosfellssveit. Þar hafa hreyflarnir legið utan dyra undanfarin ár – engum til gagns.
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.

Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið. Lýsing: „Stjörnuhreyfill sést vel á vettvangi sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga.“ Ekki var síðar að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Arngrímur og félagar tóku hinn stjörnuhreyfilinn og færðu, því miður, á fyrrnefndan stað.

Kastið

Kastið – gripur, sem hirtur var úr flugvélaflakinu.

Dæmi um ófarnað ferðalangs sem fjarlægði hlut af vettvangi má nefna sögu manns er heimsótti Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma. Í einni ferðinni þangað vildi Ferðalangurinn ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Reynt var telja hann frá því þar sem bölvun hvíldi á hverjum þeim er það reyndi. Hann þráaðist við og ákvað að taka með sér hlut úr flugvélabrakinu. Á bakleiðinni uppgötvaðist að hann hafði týnt gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann ákvað að fara til baka og skila hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann væntanlega að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Framangreind dæmi vekja upp þá hugsun hvort ekki eigi að ríkja friðhelgi á vettvangi flugslysa hér á landi. Sú hlið, sem snýr að þessum málum, er og hefur verið í hálfgerðu lamasessi, a.m.k. hingað til…

Huldur

Brak úr flugvélinni í Huldum á Sveifluhálsi.

Minnisstæðir eru tveir atburðir er tengjast erlendum afkomendum þeirra er fórust í flugslysunum. Annars vegar var um að ræða fólk er vildi leita uppi torfinnanlegan slysstað í Núpshlíðarhálsi og hins vegar afkomendur þeirra er létust í flugslysinu í Sveifluhálsi oafn Ytri-Stapa.
Gat leiðbeint báðum hópunum á slysstaðina, en þá var þar fátt að sjá, en ummerki þó. Í síðarnefnda tilvikinu tók frumkvöðull hópsins fram hnapp, sem verið hafði á einkennisbúningi forvera hans, rétti mér hann og sagði: „This is the only remains we have of him“.
Við grófum hnappinn saman í jörð slysstaðarins – til minningar um þann og þá er þar fórst með félögum sínum – fyrir 82 árum…

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.