Flugvélaflök á stríðsárunum – flugvellir II
FERLIR hefur leitað uppi alla staði á Reykjanesskaga, fyrrum landnámi Ingólfs, þar sem flugslys í seinni heimsstyrjöldinni áttu sér stað. Sérhvert atvik hefur verið skráð nákvæmlega með von um að hægt verði að varðveita þar með sögu þessara atburða.
Flugslysasagan er hluti af sögu sem þarf að vernda. Ekki síður ber að varðveita þær minjar sem segja sögu sérhvers atviks á vettvangi.
Áður hefur verið fjallað um einstaka staði á svæðinu en hér er sagt frá þeim tilvikum er urðu á og við Pattersonflugvelli (Keflavíkurflugveli) á Suðurnesjum. Á flugvellinum voru 6 tilvik skráð á stríðsárunum. Þá er getið um tvö tilvik er flugvélar fórust á þeim tíma utan vallar. Þá er getið um tvö slys á Garðaskagaflugvelli og nágrenni.
Hafa ber í huga að efnið er fyrst og fremst byggt á skráðum heimildum og sett fram til fróðleiks því nánast engar minjar eru til í dag er staðfesta tilvist þeirra.
Patterson:
1. P-38 Lightning, Patterson flugvöllur. 1. febrúar 1944.
P-38F Lightning USAF. Atvikið: Flugvélin nauðlenti með hjólin uppi og gjör eyðilagðist í eldi. Áhöfnin, Clayton P Hackman Jr. slapp.
2. P-40 Warhawk, Pattersonflugvöllur 11. janúar 1943.
P-40C Warhawk USAAF. Atvikið: Flugvélin magalenti á Pattersonflugvelli. Ekki miklar skemmdir og gert var við vélina. Áhöfnin, Johnnsey Frederick R. flugmaður slapp. Flugsveitin notaði P-40 flugvélar á Íslandi frá 6. ágúst 1941 til 9. júní 1945.
3. Stinson Vigilant, Patterson flugvöllur. 22. apríl 1944.
L1A Stinson Vigilant USAAF. Atvikið: Vélinni hlektist á í lendingu. Skemmdist mikið og var dæmd ónýt. Áhöfnin, Lt. Archer, Max M. slapp. Stinson Vigilant vélar höfðu ýmis hlutverk í Seinni-heimsstyrjöldinni ss. að draga svifflugur, eftirlit, leit og björgun og fluttningar. Á Íslandi voru þær mest notaðar af yfirmönnum í ferðum milli flugvalla.
4. UC-45E Expeditor, Patterson flugvöllur. 25. janúar 1944.
UC 45 Exspeditor Beechcraft USAAF. Atvikið: Af óþekktum ástæðum hrapaði vélin stuttu eftir flugtak. Heimildir segja að vélin hafi hrapað nálægt Camp Baker en er óstaðfest. Vélin skemmdist mikið. Áhöfnin, Clair William A. flugmaður og farþegar komust lífs af. Eftir viðgerð og breytingar í Model 18 í mars 1947 var vélin seld Flugfélagi Íslands. 25. septeber sama ár hlektist vélinni á í flugtaki í Vestmannaeyjum, áhöfn og farþegar sluppu ómeidd.
5. P-47 Thunderbolt, Patterson flugvöllur. 11. júní 1944.
Republic Thunderbolt P-47D. Atvikið: Nauðlending með hjólin uppi. Vélarbilun, flugvélin mikið skemmd. Áhöfnin, Martin, Clifford F. slapp. Flugvélin bar nafnið „Big Bastard“. Flugsveitin notaði P-47 vélar á Íslandi frá 1944 til 1945.
6. Douglas Boston, Patterson flugvöllur. 12. maí 1944.
Havoc (Boston) A20J. Atvikið: Flugvélinni hlektist á í lendingu á Patterson flugvelli og gjör eyðilagðist. Vélin var í ferjuflugi frá Bandaríkjunum til Englands. Áhöfnin, Stanley J Kulac og áhöfn hans slapp. Í áhöfn A20 Havoc voru 3.
Auk þess skammt austan við flugvöllinn:
Catalina hrapaði við Vogshóll skammt autan við flugvöllin, í Njarðvíkurheiði. 27. desember 1942.
PBY-5A Catalina, Buno. Atvikið: 15 mínútum eftir flugtak í kafbátaleitarleiðangur flaug flugbáturinn inn í haglél og storm og hrapaði. Atvikið átti sér stað í myrkri en ágætu tunglsljósi. Vísbendingar eru um að flugmaðurinn hafi lent í ofsafengnu veðri og reynt að komast út úr storminum í blindflugi. Hann missti hæð þar til hann hrapaði. Fyrir flugtak var hann spurður að því hvernig hann ætlaði að bregðast við storminum sem var á flugleið hans. Lt. Luce svaraði: „Ég mun fljúga í gegnum storminn“. Áhöfnin fórst öll, Harvey H. Luce †, Donald A. Helms †, Glenn S. Nelson †, Wilfred A. Burri †, Willard P. Kantz †, Chester A. Eichelberger †, James L. Bryan †, Brack W. Goode † og William G. Hammond †. Flugsveitin starfaði á Íslandi frá 2. október 1942 til 1. september 1943. Flugsveitin sökkti 6 þýskum kafbátum.
P-47 Thunderbolt hrapi við Vogshól í Njarðvíkurheiði. 8. júlí 1944.
P-47 Thunderbolt. Atvikið: Latham flugmaður var í flugataki á leið í eftirlitsflug á Faxaflóa. Í flugtakinu reyndist hreyfill vélarinnar ekki skila fullu afli og kviknaði í honum. Stuttu eftir flugtak stökk flugmaðurinn út í fallhlíf og kom niður heill á húfi. Flugvélin kom niður skammt frá Vogshól. Latham flugmaður lenti í svipuðu atviki þann 13. júní sama ár við Húsatóftir. Áhöfnin, Latham, Thomas J. slapp.
Whitley, Garðskagaflugvöllur, Reykjanesi 7. mars 1942.
Armstrong Whitworth Whitley RAF. Atvikið: Witley Mk VII var í æfingaflugi á Grðskagaflugvelli þegar hún verður fyrir hnjaski í lendingu. Gert var við flugvélina á Garðskagaflugvelli og henni flogið til Reykjavíkur nokkrum dögum seinna. Áhöfnin, upplýsingar ekki fyrir hendi. Flugsveitin starfaði á Íslandi 12. september 1941 til 18. ágúst 1942 með hléum.
Hudson, hrapi í sjó norður af Garðskaga, Faxaflóa 24. júní 1942.
Lockheed Hudson Mk III USAF. Atvikið: Hudson UA X var á eftirlitsflugi yfir Faxaflóa þegar annar hreyfillinn bilar. Ulrichson flugmaður neiddist til að nauðlenda og fimm úr áhöfninni komust um borð í gúmmíbát. Hudson flugvélin sökk skömmu eftir nauðlendinguna. Hudson UA M fór frá Kaldaðarnesi í leit að björgunarbátnum. John Graham flugmaður á UAM fann björgunarbátinn og leiðbeindi herskipi að honum. Áhöfnin, 5 menn, komust af. Hudson flugvélar voru notaðar frá Kaldaðarnesi og Reykjavík frá maí 1941 til janúar 1944.
Meira verður fjallað um flugvélaflök á Reykjavíkurflugvelli – sjá Flugvélaflök á stríðsárunum – flugvellir III.
Sjá meira um flugvélaflök utan flugvalla á Reykjanesskaga HÉR. Einnig innan flugvalla III HÉR.
Heimildir:
-https://www.stridsminjar.is/is/
-Friðþór Eydal.