Jökulgil

“Bretar hertóku Ísland 10. maí 1940 en þeir vildu koma í veg fyrir að Þjóðverjar hernæmu landið og kæmu hér upp bækistöð. Þjóðverjar fóru að fljúga könnunarflugvélum til Íslands árið 1941 en þeir voru í fyrsta lagi að leita að veðurupplýsingum. Flug í Evrópu réðst af Íslandslægðinni svokölluðu sem segja má að stjórni veðrinu á norðaustanverðu Atlantshafi og í Vestur-Evrópu.
wulf 100Þýskar könnunar-flugsveitir fóru síðan að leggja leið sína til Íslands með reglubundnum hætti eftir að farið var að nota Hvalfjörð sem skipalægi fyrir bresk og bandarísk herskip og íshafs-skipalestirnar á leið til Norður-Rússlands. Þá vildu Þjóðverjar einnig fylgjast með uppbyggingu herbækistöðva og umsvifa breska og bandaríska hersins á Íslandi og notuðu við það flugvélar með ljósmyndabúnaði.
„Loftorrustur sem slíkar voru þess eðlis að þetta var í flestum tilvikum ein þýsk flugvél sem var gerð tilraun til að granda en oftast mistókst það af ýmsum ástæðum,“ segir Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, sem hefur skrifað nokkrar bækur um stríðsárin.
„Það verður að hafa í huga að flestar orrustuflugvélar þess tíma flugu bara sjónflug en gátu ekki flogið mikið í skýjaveðri og náttúrlega illa í slæmum veðrum. Þýsku vélarnar voru hins vegar vel búnar til langflugs á þessum slóðum. Flugmenn þeirra voru vel þjálfaðir, yfirleitt með mikla reynslu og flugu auðveldlega blindflug. Þeir nýttu sér að þeir gátu falið sig í skýjum og ef skyggni þraut gátu þeir snúið við og flogið til bækistöðva sinna í Noregi. Bresku og bandarísku orrustuflugvélarnar voru miklu verr útbúnar hvað þetta varðar en þær nutu hins vegar þess að ratsjárstöðvar gátu leiðbeint þeim en það nægði samt sem áður ekki til þess að þeir næðu í skottið á nema örfáum þýsku flugvélanna.“
Bandamenn skutu niður fimm þýskar flugvélar á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni. Sú fyrsta var skotin niður yfir Faxaflóa 14. ágúst árið 1942. Vélin var fjögurra hreyfla, af gerðinni Focke Wulf Fw 200 C-4 Condor sem upphaflega var hönnuð til farþegaflugs. Vart varð við ferðir hennar austur af Vík í Mýrdal með stefnu í vesturátt. Flugvélin gerði árás á skipalest 30 sjómílur suður af Grindavík um morguninn og hélt síðan með Reykjanesi og Garðskaga inn á Faxaflóa. Þar mættu henni bandarískar orrustuflugvélar og hófu skothríð að henni með þeim afleiðingum að þýska flugvélin sprakk og hrapaði í sjóinn. Þetta var fyrsta óvinaflugvélin sem Bandaríkjamenn skutu niður í Evrópu í síðari heimsstyrjöldinni.
Svinaskard-991Þýski lautinantinn Harald Osthus flaug vél 120. könnunarsveitar af gerðinni Junkers Ju-88D yfir Borgarnes 18. október sama ár; 1942. Flugvélar 33. orrustuflugsveitar Bandaríkjahers voru sendar á loft frá Reykjavík. Osthaus reyndi að felast í skýjum yfir Þingvöllum eftir að skotið hafði verið á flugvélina en ein bandarísku flugvélanna rak í hana hreyfilinn með þeim afleiðingum að stél þýsku vélarinnar eyðilagðist. Bandaríska flugmanninum tókst naumlega að lenda á Reykjavíkurflugvelli en vél Þjóðverjans hrapaði í Svínaskarði og fórst Osthus ásamt tveimur félögum sínum þennan októberdag.
Það var svo í apríl árið eftir, 1943, að áhöfn úr 50. orrustuflugsveit Bandaríkjahers skaut niður aðra Junkers 88 flugvél yfir Faxaflóa. Vélin lenti í hrauninu á Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Karl Bruck lautinant flaug vélinni og fórst hann ásamt tveimur öðrum en loftskeytamanninum, Anton Mynarek, tókst að bjarga sér í fallhlíf en hann var fyrsti þýski flugmaðurinn sem bandarískir hermenn tóku til fanga í styrjöldinni í Evrópu.
„Það var auðvitað mikilvægt að Þjóðverjar kæmust ekki upp með að geta flogið að vild og kannað hvað hér væri á ferðinni sem varð að fara leynt, hvort sem það voru skipaferðir eða uppbygging heraflans og bækistöðva,“ segir Friðþór. „Ótti manna tengdist því að ef í ljós kæmi að varnirnar á landinu töldust vera litlar eða lélegar, þá kynnu Þjóðverjar að gera hér meiriháttar loftárás á hernaðarskotmörk eða jafnvel á Reykjavíkurhöfn eða flugvöllinn.“

Heimild:
-Ský, 3. tbl. 1912, bls. 34-36.

Breiðagerðisslakki

Þýskur flugmaður handtekinn eftir að hafa hrapað í Breiðagerðisslakka ofan Vatnsleysustrandar.