Skoðuð hafa verið nokkur flugvélaflök á Reykjanesskaganum, s.s. við Stórkonugjá, í Breiðagerðisslakka, Kistufelli í Brennisteinsfjöllum, Langahrygg og Kastinu í Fagradalsfjalli, við Húsatóttir, í Stapatindum í Sveifluhálsi og í Kerlingargili í Lönguhlíðum. Í eftirfylgjandi yfirliti verður getið um helstu upplýsingar um einstök flugvélaflök jafnóðum og þær berast. Eftirfarandi upplýsingar eru teknar út úr einstökum fyrirliggjandi FERLIRslýsingum. Sá, sem hefur varið mestum tíma í vettvangsskoðanir, rannsóknir og skráningar á einstökum flugslysum er þó Eggert Norðahl.
Núpshlíðaháls
Þegar gengið var um Núpshlíðarháls, var gengið fram á brak úr flugvél í hálsinum ofan við Hraunssel. Í fyrstu var ekki vitað úr hvaða vél brakið er eða hvenær hún fórst á þessum stað. Nú hefur komið í ljós að um var að ræða Hudson-vél, sömu tegundar og fórst í Brennisteinsfjöllum (Kistufelli). Hún tilheyrði 269. flugsveit Breta. Slysið er, skv. slysaskýrslunni dags. 10.06.1943, staðsett í Driffelli. Flugstjóri var J. Coles, en auk hans voru í vélinni J.J. Hill, L. Franklin, J.E. Robbins og F.G. Crofts. Þeir fórust allir. Vélin var í eftirlitsflugi er hún fórst. Sjá má brak úr vélinni á Núpshlíðarhálsi skammt ofan við Hraunssel á víð og dreif í mosahrauninu milli hlíðarinnar og Stórahrúts.
Fagradalsfjall – Langihryggur
Friðþór Eydal sagði að með flugvélinni, sem fór í Langahrygg, hafi verið 12 menn og allir látist. Einn þeirra var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02.11.1941. Matthías Johannessen segir skemmtilega frá samtölum sínum við Magnús Hafliðason á Hrauni í bók sinni “M Samtöl I” (AB Reykjavík 1977) er þeir gengu á öll þrjú flökin í Fagradalsfjalli. Magnús kom með fyrstu mönnum á slysstaðinn í Langahrygg. Lík þeirra, sem fórust með flugvélinni, voru flutt heim til Bandaríkjanna eins og venjan var haustið 1941 áður en Bandaríkin voru komin opinberlega í styrjöldina. Ekki var farið að jarðsetja Ameríkana í Fossvogskirkjugarði fyrr en í janúar 1942.
Talsvert brak er úr vélinni utan í hryggnum og niður með hlíðinni. Hreyfill liggur við rætur hennar, í gili, sem þar er.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 146:
“Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið “74-P-8” hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafsit í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir “74-P-3” og “74-P-9” lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10.
Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í vegf yrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.”
Magnús Hafliðason frá Hrauni lýsti aðkomunni á slysstað í viðtali við MBL 1977.
Fagradalsfjall – Langhóll
Flugvélin, sem norðaustan við Langhól í Fagradalsfjalli er af breskum Sunderland flugbát. Áhöfnin komst lífs frá slysinu.
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. sagt frá slysinu, bls. 153:
“Aðfararnótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 “KG-G” úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík.
Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.”
Flakið af flugvélinni var lengi vel í hlíðinni, m.a. skyttuturninn. Jón Guðmundsson á Skála og Hafliði á Hrauni lýsa aðkomu þeirra á vettvang annars staðar á vefsíðunni.
Fagradalsfjall – Kastið
Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943. Gengið var vestur fyrir Kastið og síðan haldið á fjallið. Innst á því, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Einhver athöfn virðist hafa farið fram við hjólastellið því skrælnaðar rósir trjónuðu upp úr því. Traðk var í kring. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni.
Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.
Brennisteinsfjöll – Kistufell
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðvesturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.
Sveifluháls – Hulstur
Um var að ræða Canso, kanadískan flugbát (Canadian-Vickers Canso A). Brak úr vélinni sést enn efst við gróðurröndina, að mestu komið undir mosa.
Kanadískur flugbátur, svonefndur “Canso” (systur Catalinaflugbátsins), fórst í Stapatindum á Sveifluhálsi þann 19. desember 1944 á leið til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Átta manna áhöfn flugvélarinnar beið bana þarna á hálsinum þennan örlagaríka dag.
Flugvélin var úr 162. flugsveit Hins konungslega kanadíska flughers, RCAF. Einkennisnúmer hennar var 11061 “L” Vélin var að koma úr eftirlitsflugi og áhöfnin var að búa sig undir lendingu á Reykjavíkurflugvelli þegar slysið varð. Talið var að flugvélin hafi lent í niðurstreymi við Fjallgarðinn.
Flakið fannst dreift yfir snarbratta fjallshlíðina. Hafði vélin rekist utan í fjallið um það bil 80 metra frá fjallsbrúninni. Höggið var svo mikið að djúpsprengjurnar og eldsneytið hafði sprungið og brunnið og áhöfnin látist samstundis. Leitarflokkur fann lík áhafnarinnar, sem voru jarðsett með hernaðarlegri viðhöfn í Fossvogskirkju-garði.
FERLIR gerði leit að leifum vélarinnar í tindunum ofan við svonefnt Hulstur skammt sunnan við Huldur. Upp úr því liggur bjúglaga dalur (vinstra megin) svo til upp á toppa. Ofarlega (nær efst í gróðurþekjunni) í dalnum fundust leifar af vélinni. Meginbrakið er þó efst í hálsinum skammt sunnar, ofarlega í skriðu, sem þar er.
Grindavík – Húsatóttir
Ákveðið að reyna nú að finna þýsku orustuvélina, sem hrapaði í byrjun seinni heimstyrjaldar yfir Húsatóttum og Helgi Gamalíelsson hafði sagt FERLIR frá fyrir u.þ.b. ári síðan.
Að sögn Helga átti þarna að vera byssa úr vélinni, auk braks. Flugmaðurinn hefði stokkið út í fallhlíf, en faðir hans, Gamalías, hefði læðst að flugmanninum þar sem hann sat á hraunhól og reykti eftir niðurkomuna og náði að handsama hann. Flugmaðurinn hefði verið vopnaður skammbyssu með beinskefti og hefði hún verið til á Stað lengi eftir það. Fólkið í Staðarhverfi sá aumur á Þjóðverjanum og kom honum fyrir í úthýsi við Móa. Þegar spurðist út um veru hans þar hefði breski herinn komið og sótt hann. Helgi hafi síðar sjálfur dregið flugvélaskrokkinn heim á hlað.
Við leit í hraunkantinum, sem Helgi hafði bent á á sínum tíma, fannst staðurinn þar sem flugvélin hafði komið niður. Hún hafði greinilega lent efst í kantinum og brunnið þar. Talsvert brak er enn úr vélinni á staðnum og í nágrenni hans. Óvirk byssukúla lá þar hjá, auk hluta úr hjólastelli og skrokk. Byssan var þó hvergi sjáanleg. Hið undarlega var þó að í stað millimetramáls virtust tommumál vera á róm og öðru skrúfkyns, er benti til þess að brakið væri úr amerískri vél. Þarf að skoða betur.
Síðar var haldið í hraunið skammt vestan við Húsatóttir. Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.
Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.
Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
“Ég rak augun í lýsingu á vefsíðunni sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.
Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki. Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum.”
Breiðagerðisslakki
Þýska flugvélin í Breiðagerðisslakka sást nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. Þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af liðsmönnum landhersins. Þeir voru tveir á ferð til Hafnarfjarðar í jeppa þegar hann bræðurnir Hafsteinn og Þórir frá Ásláksstöðum, sem gengu fram á hann neðan við Arnarbæli, komu með hann niður á veginn þar sem mætast elsti Keflavíkurvegurinn, lagður 1912, og gamli
Keflavíkurvegurinn, lagður 1930, sem beygir þar niður með ströndinni fyrir ofan sumarhúsabyggðina í Knarrarnesi, þar sem heita Auðnar. Báðir hinir bandarísku flugmenn voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið.
Eldvarpahraun
Í sléttu Eldvarpahrauni skammt norðan Sundhnúkahraun austan Eldvarpa, í sléttu mosahrauninu, er stórt sporöskjulaga svæði rúið mosa svo skín í bera klöppina. Út frá svæðinu til suðurs liggur slóði, inn á skriðdrekastíginn við Árnastíg og áleiðis niður að Húsatóftum. Ef grannt er skoðað má sjá talsvert af braki flugvélar á svæðinu, m.a. svonefndan “chock”, hjólakubb úr tré, sem notaður var til að setja við hjól flugvéla á jörðu niðri. Númer má sjá á einum hlutnum, hringlaga með gleri í. Talsvert af álleiðslum og álbitum eru þarna einnig.
Heyrst hafði af því að flugvél, svonefnt “Fljúgandi virkið”, hafi nauðlent ofan við Húsatóftir á fimmta áratugnum. Vélin hafi skemmst lítið og áhöfnin sloppið heil á húfi.
Að sögn Friðþór Eydals er líklegt að þarna hafi verið um B-17 vél að ræða, fjögurra hreyfla, sem nauðlenti ofan við Tóftir í apríl 1943 á leið til Keflavíkurflugvallar, en hann hafði þá nýlega verið opnaður fyrir flugumferð. Vélin var nokkuð heil eftir óhappið, en var síðan bútuð niður og flutt á brott, en enn má sjá þarna hluti úr henni, sem fyrr sagði. Brak úr P-47 flugvél er hrapaði vestan Húsatófta, sést einnig enn ef grannt er skoðað.
Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal “er brakið væntanlega brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á
Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943.
Kringlótta brotið á myndinni er úr hliðinnni á kúlulaga byssuturni í botni vélarinnar rétt aftan við vænginn er skyttan, sem sat milli tveggja 50 cal. Browning vélbyssa sem hann miðaði með því að snúa kúlunni. Kúluna mátti draga upp svo botninn næmi við botn vélarinnar þegar þurfti ekki að sitja í honum eða í flugtaki og lendingu. Slíkur byssuturn var yfirleitt ekki í öðrum vélum sem leið áttu hér um.”
Myndin af vettvangi í apríl 1943 staðfestir að hér er um sömu vél að ræða – við svipaðar aðstæður og þegar brakið af henni fannst í mars 2006.
C-64 herflugvél fórst þann 22. okt. 1944 um kl. 15:00 á Skálafellssvæðinu. Með herflugvélinni fórust fimm manns; fjórir farþegar og flugmaðurinn, John. J. Custy, fyrsti liðþjálfi 33. bardagasveitar ameríska hersins hér á landi. aðrir voru Robert R. Richt, Anthony P. Colombo, Leonard T. Damerval og Floyd C. Van Orden, allt hermenn. Þegar vélin brotlenti kviknaði í brakinu skv. upplýsingum úr slysaskráningarskýrslu um atvikið.
Vísbending kom frá Karli Hjartarsyni um að flakið af flugvélinni væri í gjótu í Orrustuhólshrauni. Samkvæmt henni átti að leggja norðvestast í gamalli malarnámu milli Skíðaskálans og annarrar skammt austar, en úr henni er hægt að aka upp á Ölkelduháls. Þar þangað væri komið átti að ganga með stefnu að bústöðunum undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls, þó heldur meira til vesturs við þá.
Eftir u.þ.b. 300 metra gang birtist flakið í gjótunni. Svo virðist sem vélin hafi stungist þarna niður og brak úr henni lítið dreifst. Greinilegt var að eldur hafði kviknað í brakinu. Sjá mátti m.a. annað hjólastellið og annan hjólbarðann. Merki á hvorutveggja gáfu til kynna að um ameríska vél hefði verið að ræða. Á hvorutveggja voru áletranir. Hjólbarðinn bar “logo” líku gamla Flugfélagsmerkinu og inni í hjólskálinni var eftirfarandi áletrun: “HAYS Industries inc. – Jackson Mich U.S.A.”.
Orrustuhóll er í u.þ.b. 500 metra fjarlægð í austri. Sagnir eru um af flugvél hafi farist við Orrustuhól. Þá áttu hermenn á Núpafjalli að hafa séð blossa þegar flugvélin skall í jörðina. Þarna mun um sömu flugvél vera að ræða.
Skálafell
Í Mbl. 9. mars 1948 er sagt frá hvarfi Anson-flugvélar í eigu Loftleiða er var á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þann 7. s.m. Tveimur dögum síðar fannst flakið með dularfullum hætti. Með henni fórust fjórir menn, þ.a. þrír frá Vestmannaeyjum (sjá umfjöllun um fréttina undir Lýsingar í Skrár (Núpafjall – Hverahlíð – Anson)).
Flugvélin mun hafa borið einkennisstafina TF-RVL og var með sjólendingarbúnað.
Samkvæmt lýsingum Björns Indriðasonar á flakið af Ansonvélinni að vera neðst í suðaustanverðu Skálafelli. Þar hefði verið brak fyrir allnokkrum árum.
Sá maður, sem tók þátt í leitinni að flugvélinni á sínum tíma var Smári Karlsson, flugstjóri. Hann sá hvar hún hafði brotlent í Skálafelli. Að sögn Smára kom vélin niður í öxlina er hallar út úr fellinu til austurs – að Hveragerði. Upp af öxlinni tekur toppur Skálafells við og undir henni er rót fellsins. Brakið hafði dreifst víða um hlíðina. Sjálfur hefði hann ekki komið á slysstaðinn, en hann taldi ólíklegt að nokkuð brak úr vélinni væri enn sýnilegt á vettvangi. Loftleiðamenn hefðu eflaust tekið mest af því til rannsókna, auk þess sem mjög veðrasamt er þarna á öxlinni.
Við skoðun á vettvangi, öxl Skálafells að austanverðu, var ekki að sjá nein ummerki eftir slysið (2006).
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Eggert Norðdahl, Flugsaga Íslands – í stríði og friði – I, Örn og Örlygur 1991, bls. 153 og 246.
-Friðþór Eydal