Fornleifafræði – forsagan
Ef litið er á sögu fornleifafræðinnar á Íslandi þá er hún í rauninni ekki mikið styttri en hefur gerst og gengið annarstaðar í heiminum. Hins vegar hefur kannski minna gerst og þróunin orðið hægari hér en víða annarsstaðar. Það hefur þó varla komið að sök í ljósi stöðu greinarinnar. Hún hefur tekið allmiklum breytingum í seinni tíð með tilkomu nýrra og áreiðanlegri rannsókna í hinum ýmsu stuðningsgreinum hennar. Virkni fornleifafræðinnar hefur enn aukist á allra síðustu árum með tilkomu aukins fjármagns frá yfirvöldum þótt vissulega megi deila um forræði og skiptingu þess til tiltekinna verkefna.
Í þróunarsögu fornleifafræðinnar hér á landi er stuðst að nokkru við frásagnir í kennslugögnum HÍ í fræðigreininni. Í þeim kemur m.a. fram að aðdragandi að kenningarsmíð og hugmyndafræðikenningum í fornleifafræði hér á landi sé bæði tilkominn vegna áhuga, reynslu og þekkingar útlendinga á fornleifum (Danska fornminjanefndin, Kålund, Daniel Bruun) sem og heimamanna, einkum á fornsögulegum staðbundnum mannvirkjum (Hið íslenska bókmenntafélag, Jónas Hallgrímsson) og skráningu fornminja. Með skráningunni voru efnisflokkar fornminja m.a. afmarkaðir, s.s. haugar, þingstaðir, rúnasteinar og hof. Og hvað sem ólíkum rannsóknaraðferðum leið, þá var ljóst að á árunum 1860-’75 hafi fornleifaskráning verið á blómaskeiði hér á landi.
Eftir miðja 19. öld hélt fræðimaðurinn Hans Hildebrand (1842-1913) röð fyrirlestra í Stokkhólmi um sögu og menningu Íslendinga til forna Árið 1867 komu þeir út í bók sem nefndist “Daglegt líf á Íslandi á söguöld”. Í bókinni reynir höfundur að láta heimildir fornleifafræðinnar tala sínu máli um hina sögulegu tíma. Hún stendur eins og minnisvarði um stöðu rannsókna og heimilda á þessum árum. Horfa ber til þess að höfundi var þá og þegar ófært að gefa yfirlit yfir fyrstu aldir Íslandssögunnar því hér á á landi voru ekki hafnar reglubundnar rannsóknir, hvort heldur uppgröftur eða skráning á fornleifum, enda kvartaði hann undan skorti á gögnum um fornleifar.
“Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi fór fyrst fram á vegum Konunglegu dönsku fornminjanefndarinnar. Árið 1817 sendi hún út spurningalista til allra sóknarpresta í landinu og eru svör þeirra enn eina heildstæða yfirlitið sem til er um íslenskar fornleifar á landsvísu.
Undir miðja 19. öld var annarri fornleifaskráningu ýtt úr vör. Hið íslenzka bókmenntafélag sendi sóknarprestum spurningalista árið 1838, en viðbrögð presta voru öllu minni en fyrr á öldinni og töldu margir þeirra engar fornleifar að finna í sínum sóknum. Er líða tók á 19. öld fór þjóðerniskennd Íslendinga vaxandi og henni fylgdi aukinn áhugi á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum, en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem hægt var að fella saman við lýsingar í fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna.
Það var danski norrænufræðingurinn Kristian Kaalund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í þeim tilgangi að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-1882 (íslensk þýðing Haraldar Matthíassonar var gefin út 1984-1986 undir heitinu Íslenskir sögustaðir), er enn þann dag í dag undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra víðsvegar um landið næstu þrjá áratugina. Þar voru í broddi fylkingar Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kaalunds; að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöldinni.
Um aldamótin 1900 voru einnig á ferð hér danski kafteinninn Daniel Bruun og skáldið Þorsteinn Erlingsson, en þeir beittu til muna hlutlægari aðferðum en þeir Sigurður og Brynjúlfur höfðu gert. Báðir reyndu þeir að lýsa mismunandi tegundum fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum frá síðari tímum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar, burtséð frá því hversu merkilegar þær kunna að þykja á hverjum tíma, hófst fyrst í Reykjavík á 7. áratugnum og hefur staðið þar með löngum hléum síðan. Ólíkt fornleifakönnun á 19. öld, sem hafði það að meginmarkmiði að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðastliðin 20-30 ár fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði.
Auk fornleifaskráningar á vegum opinberra aðila, hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Síðast en ekki síst er rétt að minnast á að víða um land hefur áhugasamt fólk skráð fornleifar að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Slíkar skrár eru misjafnar að gæðum, enda upplýsingar skráðar á ýmsan hátt og misnákvæmlega, en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.”
Daniel Bruun var afkastamesti fornfræðingurinn á árunum 1894-1910. Hann rannsakaði minjastaði í öllum landshlutum , og ekki aðeins víkingaaldarminjar, heldur frá öllum tímaskeiðum íslenskrar menningarsögu.
Kristján Eldjárn var fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut sérstaka menntun erlendis í fornleifafræði og þjálfun í fornleifarannsóknum undir leiðsögn fornleifafræðinga – (einkum í fornleifafræði Norðurlanda) á afmörkuðum fornminjum, s.s. kumlum , má segja að aðstaða hafi skapast til nánari skilgreininga á aldri, tilurð og uppruna þeirra. Einnig voru gerðar tilraunir til að horfa til þess frá hvaða fólki þær voru komnar, við hverjar aðstæður og reynt að leita svara við spurningunum “hvernig” og af hverju”. Á litlu öðru en skriflegum heimildum var þá að byggja lengi framan af – og í sumum tilvikum allt til vorra tíma. Í seinni tíð hefur athyglinni verið beynt að húsum og híbýlum þess fólks, sem hér nam land um og eftir 870 og síðar, þróun þeirra og gerð.
“Upp úr jarðvegi fornmenningaráhugans uxu tvær öflugar rannsóknarstefnur. Var það annars vegar um að ræða rannsóknir á hinum sameiginlega fornnorræna menningararfi frá lokaskeiði járnaldar, þ.e. hin svokallaða “víkingamenning”, og hinsvegar mjög þjóðleg fræði þars em áhersla er lögð á þjóðleg einkenni; þjóðmenningu”. Segja má því að þjóðmenningaráhuginn hafi verið undanfari menningarumleitunnar í fornfræðilegri merkingu. Hæg þróun var þó í þeirri viðleytni þangað til á allra síðustu árum. Hin menningarsögulega áhersla snerist fyrst og fremst um söfnun og varðveislu forngripa. Kristian Kålund skráði allt sem hann gat fundið um daglegt líf til forna(P.E.K. Kålund, Familielivet på Island í den förste sagaperiode (indtil 1030), Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1870) og Valtýr Guðmundsson tilfærði hverja vísun í húsagerð og húsbúnað og skrifaði um það heila doktorsritgerð en þetta eru aðeins dæmi um annars fjölskrúðuga fræðahefð þeirra daga.
Mikilvægt skref var tekið þegar athyglin beindist fyrst og fremst að forngripunum sjálfum og menningarsögulegu samhengi þeirra, en eftir sem fyrr í rómantísku ljósi. Í stað fornmenningar var sjónum nú beint að “venjulegri” bændamenningu og þekking um hana fengin úr áþreifanlegum munum, sem oft voru skýrðir með hliðsjón af gömlum hefðum, gömlu verklagi eða visku sem gamalt fólk bjó yfir og kunni. Nú hefur þessum þætti fornleifafræðinnar enn fleygt fram hvað áhuga, þekkingu og áreiðanleika varðar. Þar kemur að þætti hinnar kennilegu fornleifafræði – nálgun með nýjum hætti.
Klæði, tréskurður, íslenski torfbærinn og grafir sem og einstakir gripir eru m.a. nokkur af viðfangefnum kennilegrar fornleifafræði. Það er athyglisvert sérkenni á íslenskri fornleifafræði hve sjaldan hefur verið reynt að taka saman árangur rannsókna og draga upp þann heildarsvip sem vitnisburður fræðigreinarinnar hefur af sögu lands og menningar. Kaalund reið á vaðið árið 1882, en þá var frá litlu að segja. Bruun hafði gert sér grein fyrir gagnsemi þess, en enginn Íslendingur reyndi að draga fram heildarmyndina fyrr en á s.hl. 20. aldar. Það féll í hlut Krisjáns Eldjárns að semja fyrsta, frumlegasta og langítarlegasta yfirlitið um alla helstu þætti fornleifarannsókna hér á landi. Var það í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi; Saga Íslands. Þar er að finna jarðsögu Íslands, sögu veðurfars, gróðurs og eldvirkni, vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám mannsins og menningu, og upphaf allsherjarríkis, upphaf kirkju og samskipti við útlönd. Hlutverk fornleifafræðingsins í þessu riti var mikilvægt og hefur framlag hns að geyma heildarmynd sem enn hefur ekki verið hrakin þótt vissulega hafi ágreiningur vaxið um einstök atriði á síðustu árum þar sem nýjar áherslu hafa komið fram. T.a.m. hafa fundist leifar af kornrækt, áhöld, rauðablæstri og ýmslegar aðrar efnislegar leifar manna. Kristján og samverkamenn hans skilgreindu fornleifafræðina fyrst og fremst se aðferð til að afla heimilda um verkmenningu, en ekki t.a.m. andlegt líf, samfélagsgerð, efnahag og fleira. Áherslan var lögð á að lýsa þeim þáttum daglegs lífs sem finna mátti áþreifanleg ummerki um. Þótt engin áhersla hafi verið lögð á að rannsaka samfélagið eða samfélagsgerð, þá er ljóst að menningarsögurannsóknir byggja á annarri pólitískri afstöðu en t.d. rómantíski skólinn. Rannsóknarsviðið er víðtækara, fornmennirnir verða nafnlaus almúgi, höfuðbólið er ekki tekið fram yfir hjáleiguna, hvert mannsins verk er jafnmerkilegt, ekki aðeins skrautmunir eða vopn. Það er alþýðumenningin sem verður lykilatriði. Virðing er borin fyrir lítilmagnanum í sögulegri framvindu. Það kostaði Kristján hörku að sannfæra menn um gildi smárra hluta, um verklag, um hag fátækrar alþýðu.
Uppgraftartækni, aldursgreiningar, byggðaþróun, áhrif veðurfars og meðvitund um gildi efnahags hefur knúið fram breytta hugsun; nýjar og þróaðri aðferðir. Framan af takmarkaðist hinar hefðubundnu spurningar í íslenskri fornleifafræði við hag þjóðarinnar, þ.e. hvers vegna ákveðnar byggðir lögðust í eyði, og hvers vegna járngerð, kornrækt og svínarækt lögðust af. Í stað mjög almennra rannsóknaspurninga um búsetuþróun, hefur orðið mikill vöxtur í nýjum upplýsingum um bústeuskilyrði á öllum tímum. Í stað þess að einblína á afdrif og örlög einstakra búsetuþátta hefur athyglin beinst að heildinni, hinu efnahagslega kerfi sem þróaðist í landinu frá landnámi og fram til iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Starf fólks er ekki lengur skoðað sem fornir landbúnaðarhættttir eða verklag, heldur sem framleiðsluþættir, orka og afurðir, neysla og vöruviðskipti. Spurt er hvernig var kerfið, hvernig virkaði það, hvað olli breytingunum. Til þessar rannsókna hefur verið, sem fyrr sagði, notast við margvíslega tækni, s.s. frjókornagreininu, dýrabeinagreiningu og jarðvegsathuganir. Frjókornamælingar staðfesta að birkiskógar hopa fyrir graslendi og helstu dýrabein úr úrgangslögum landnámsbæja birta heildarsvip hefðbundins búfénaðar á hverju býli; nautgripir, sauðfé, geitur, svín og hestar. Jarðvegsrannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið sýna að framvindan þegar á landnámsöld hafi ekki aðeins verið hröð heldur hafi landnám mannsins haft mikil og afgerandi áhrif á gróður, jarðveg og landslag.
Rannsóknir á dýrabeinum og öskuhaugum hefur fleytt fram síðustu ár og árangur þeirrar myndar meginstofn heimilda um lífsviðurværi og afkomu fólks á fyrri tíð. Rannsóknir og greining á einstökum efnisleifum, s.s. keramiki, málmi og gleri, geta orðið sagt bæði til um tímatilurð og upprunastað og þar með um verslun og viðskipti sem og jafnvel um innihald. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum geta mögulega auðveldað túlkun á breytingum sem birtast í t.d. húsagerð, landnýtingu, bústetumynstrum, samsetningu búfjárstofna eða mataræði.
Af fornvistfræðirannsóknum eru það einkum dýrabeinarannsóknir sem upp úr standa. Dýrabein eru heimild um efnahag til forna og þau endurspegla lífsviðurværi fólks á ýmsum tímum, þ.e. sýna hvaða veiðar voru stundaðar og hver var bústofn heimilanna.
Engar ritaðar heimildir eru til um lífsviðurværi þjóðarinnar fyrr en á síðari öldum og eru allar rannsóknir á þessu sviði því vel þegin viðbót fyrir aðrar vísbendingar sem forleifafræðin gefur um hina sögulausu fortíð. Beinin er talin og flokkuð og greind til dýrategunda, stærð og aldur dýranna metinn og jafnvel áverkar á beinunum, sem stundum gefa til kynna verkunaraðferð eða slátrun. Á grundvelli talningarinnar er hægt að áætla hlutföll á milli mismunandi tegunda og skoða vægi þeirra, s.s. fiðurfénaðar og fiska, sauðfé, nautgripa og svína. Þessi rannsókn býður upp á nýtt sjónarhorn til að skoða efnahag fólks á forsöguskeiðum. En hún kallar jafnframt á töluverða fyrirhöfn og enn er langt í land að hægt sé að lýsa með nokkurri nákvæmni lífsviðurværi eða afkomu þjóðarinnar á grundvelli beinarannsóknanna. Þó er ljóst að með þessum rannsóknum verður unnt að komast nær um ýmsa þætti, s.s. þátt veiðimennsku í upphafi landnáms og á síðari tímum, efnahagslegan mun á stórum býlum og smáum og í hverju hann felst, þróun sauðfjárbúskapar, nýtingu sjávarafurða, stærð og samsetningu búpenings á ýsum tímum, áhrif veðurlagsbreytinga á þjóðarhag og þróun íslensks efnahags frá landnámi fram á síðustu aldir.
Auk rannsókna á fornleifum og beinum og plöntuleifum, hafa einnig verið gerðar nýstárlegar athuganir á öllum smærri einingum, sem finnast við fornleifarannsóknir. Er þar annarsvegar um að ræða athuganir á leifum skordýra, sem varðveist hafa í jarðvegi, og hinsvegar míkróskópískar athuganir á innihaldi gólfefna húsa. Ýmis skordýr hafa fylgt manninum og tekið þátt í mannlífinu á ýmsa vegu í dul smæðar sinnar. Í undirlaginu spretta fram heillandi myndir af lítt könnuðum hliðum mannlegs eðlis, s.s. fornum mannasaur og innihaldi hans, hland, lýs og flær. Þessar athuganir sýna líf fólks og samfélag þeirra í nýju ljósi. Árangur umhverfisrannsókna í þágu fornleifafræðinnar er fyrst og fremst fólginn í nýrri aðferðafræði og umbótum á þessum aðferðum. Þessi fræði eru enn í mótun. En hafa ber í huga að ekki dugir að einblína á raunvísindalegar niðurstöður sem sýna breytingar eða þróun og orsakasamband milli náttúru og mannlífs, heldur þurfi einnig að þróa kenningar sem gera ráð fyrir samfélagslegum og pólitískum áhrifum breytinga eða kyrrstöðu. Vandinn liggur í fjölbreyttum möguleikum á túlkun gagnanna og reynslan á eftir að leiða í ljós að hve miklu leyti fornvistfræðin mun breyta núverandi hugmyndum um efnahag og áhrif umhverfis á hann á fyrri kynslóðir, eða staðfesta ríkjandi skoðanir sem sprottnar eru af sagnfræði og hefðbundinni fornleifafræði.
Heimildir:
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-198.
-Úr “Lesköflum í íslenskri fornleifafræði” – handrit – HÍ, Adolf Friðriksson tók saman – 2003.
-Hans Olof Hildebrand, Livet på Island under sagotiden, Stockhom, Joseph Seligmanns bokhandel, Jos, 1867.
-http://www.instarch.is/instarch/rannsoknir/skraning/saga/
-Daniel Bruun, Fortidsminder og Nutidshjem paa Island (2°édition), Kaupmannahöfn, Gyldendal, 1928.
-Í handriti að varnarræðu Kristjáns við doktorsvörn hans 1956 sést að hann var undir handleiðslu Johannes Bröndström hjá National Museet í Kaupmannahöfn.
-Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé 2, útg. 2000.
-Adolf Friðriksson – Leskaflar í fornleifafræði – HÍ – 2003.
-Valtýr Guðmundsson, Privatboligen paa Island I Sagatiden samt delvis I det övrige Norden, KH, 1889.
-P:E:K: Kaalund, Islands fortidslævninger, Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1882.
-Daniel Bruun, Fortidminder og nutidshjem paa Island, 1987 og 1928.
-Sigurður Línda ritstj., Saga Íslands, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, I – 1974.
-Andrew J. Dugmore, Anthony J. Newton, Guðrún Larsen og Gordon T. Cook, Tephrochronology, Environmental Change and the Norse Settlement of Iceland, Environmental Archeaology, 2000.
-Thomas Amorsi, An Archaeofauna from Storaborg, Southern Iceland, Unpublished report on file at the National Museum and Hunter College, 1986.