Fornleifaskráning; Skyldur okkar gagnvart fortíðinni – Bjarni F. Einarsson

Snældursnúðar

Bjarni F. Einarsson skrifaði tvær greinar um fornleifaskráningu í Sveitarstjórnarmál árið 1996. Sú síðari bar yfirskriftina „Skyldur okkar gagnvart fortíðinni„:

Inngangur

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson. Starfsmaður Þjóðminjasafnsins.

„Í fyrri grein minni um fornleifaskráningu á Íslandi fjallaði ég aðallega um þau lög sem lúta að fornleifaskráningu og öðru sem tengist henni. Ég skilgreindi hugtökin fornleifar (skv. þjóðminjalögum) og fornleifaskráning. Jafnframt fjallaði ég um forsögu fornleifaskráninga og sýndi hvernig þessi mál hafa breyst í tímans rás eins og hugtökin fornleifar og fornleifaskráning. Í þessari grein ætla ég að fjalla um nauðsyn fornleifaskráningar og skyldur okkar gagnvart fortíðinni, enda eru þessi atriði náskyld.
Síðan „Commissionen for Oldsagers Opbevaring“ var og hét í byrjun 19. aldar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þjóðin hefur fengið sjálfstæði, stofnað háskóla og þjóðminjasafn og sett lög um hvað séu fornleifar og hvað ekki. Til að rifja það stuttlega upp þá eru allar minjar eða rústir, sem eldri eru en 100 ára og mannaverk eru á, taldar til fornleifa. Einnig eru staðir tengdir þjóðtrú eða athöfnum manna og jafnvel yfirnáttúrulegra vera, svo sem álfasteinar og stöðlar, taldir til fornleifa skv. þjóðminjalögum.

Hafnir

Hafnir – fornleifauppgröftur.

Fornleifar eru leifar mannlegra athafna og sumar þeirra eru mikilvægar fyrir skilning okkar á allri sögu þjóðarinnar, svo sem þingstaðir, verslunarstaðir, landnámsbýli o.s.frv. Flestar fornleifarnar eru þó mikilvægastar fyrir aukinn skilning okkar á byggðasögu einstakra svæða eða héraða, svo sem fjárhúsarústir, seljarústir o.s.frv. Oft skarast þessi atriði og varasamt getur verið að fylgja þeim í blindni.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Starfsgreinar sem hvíla á gömlum merg, eins og seljabúskapur, sjósókn, kvikfjárrækt og járnsmíði svo dæmi séu tekin, hvíla á gömlum merg og eiga sér oft á tíðum sínar sérstöku fornleifar sem eru afleiðing þeirra athafna sem greinunum fylgdu. Þessar fornleifar eru okkar sameiginlega eign. Þær geta verið gjallvörp eða rauðablástursminjar eftir járnsmíðar eða járnframleiðslu, varir og naust þar sem sjósókn var o.s.frv. Samantekið eru allar fornleifarnar mikilvægur hluti af búsetulandslaginu okkar og eru mikilvægur hluti af skynjun okkar á því.

Af hverju ekki fyrr?

Bárujárn

Torfbærinn.

Sú staðreynd að við Íslendingar höfum ekki skráð fornleifar okkar fyrr, svo að heitið geti, er býsna athyglisverð. Í þessum efnum erum við ca 100 árum á eftir nágrannaþjóðum okkar mörgum. Eina af ástæðunum hygg ég vera þá staðreynd að rústir þær og minjar sem finnast úti um landið eru svo nátengdar þeim veruleika sem eldri kynslóð landsins ólst upp við og man. Enginn eðlismunur var t.d. á fjárhúsi frá 18. öld og fjárhúsi frá fyrstu áratugum hinnar 20. Bæði voru hluti af hinu íslenska landbúnaðarþjóðfélagi, sem segja má að hafi fyrst liðið undir lok um miðja þessa öld. Þá hóf nútíminn innreið sína og gamli tíminn, sem var tími fátæktar og vesældar fyrir marga, best gleymdur og grafinn og húsakynnin sömuleiðis.

Galtastaðir

Gamall bær.

Eitt sinn átti ég samtal við gamla bóndakonu um mikilvægi þess að varðveita gamlan torfbæ, sem enn stóð á hlaðinu hjá henni. Nú hafði risið nýtt og reisulegt steinhús á bæjarstæðinu og allir fluttir yfir í það. Gömlu konunni var fyrirmunað að skilja þennan áhuga minn á gamla bænum og vamaði mér meira að segja inngöngu þegar ég sýndi tilburði í þá áttina. Hins vegar var ég rneira en velkominn að skoða nýja bæinn og jafnvel þiggja kaffitár og meira til, eins og tíðkast á landsbyggðinni. Gamli bærinn var aðeins minning um kulda og vosbúð, eilífa vinnu og lítil laun og gamla konan vildi alls ekki leyfa mér að eiga nokkra hlutdeild í slíkri minningu.
„Hvað gæti hann haldið um slíka konu?“ hugsaði hún ef til vill.

Hafnarfjörður

Ás – plógur.

Hugarfar þetta, sem kom fram hjá gömlu konunni, hef ég orðið var við víðar. Þessu hugarfari verðum við að allt hugarfar sem er byggt á reynslu. Þá reynslu er hins vegar mikilvægt að varðveita fyrir framtíðina og komandi kynslóðir, enda var hún svo mikilvægur hluti af sögu þessarar þjóðar að ef hún glatast fáum við beinlínis ranga hugmynd um fortíðina. Einnig er mikilvægt að sannfæra fólk um að þessi reynsla þeirra og sá veruleiki sem það bjó við er mikilvægur menningararfur en ekki eitthvað persónulegt sem engum gagnast að muna eða þekkja. Ekki held ég að hugmyndin um fátækt liggi ein að baki hugmyndum gömlu konunnar. Nútíminn með öllum sínum tækninýjungum og breyttu hugarfari almennt gerir það sem gamalt er úrelt og skapar nýjar þarfir sem eru bein afleiðing af nýja tímanum. Í því ljósinu virðist hið gamla oft lítils virði og fólki gjarnt á að tengja það vanefnum.
Við verðum að bera virðingu fyrir fortíð okkar, ekki síst fyrir þá sök að við erum það sem við erum einmitt vegna hennar.

Fornleifar og menningin

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ – fyrirmynd góðs frágangs eftir fornleifauppgröft.

Fornleifar eru efnislegar minningar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðimar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Landamerki

Landamerkjavarða á Fremstahöfða.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t.d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur svo sem það að vera Vestfirðingur, Austfirðingur, Eyjamaður, Skagfirðingur, úr Flóanum eða einfaldlega það að vera Íslendingur.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina kom hefð og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna, svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiss konar. Allt þetta er falið í fornleifunum.
Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti.

Húshöfði

Húshöfði – beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól. Eyðilagt vegna vanskráningar.

Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu. Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar. Þá þarf leyfi fornleifanefndar. Í vissum tilfellum þarf ekki mikla rannsókn eða athugun til að komast að því að viðkomandi fornleifa uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru svo að þær njóti ævinlegrar friðunar þjóðminjalaganna. Annars vegar getur verið að minjarnar séu ekki eitt hundrað ára eða eldri og falla þá ekki undir þjóðminjalögin, eða hins vegar að minjagildið sé það lítið að lítil athugun sé nægjanleg áður en þær verði fjarlægðar. Í einstaka tilfellum getur verið að vettvangsathugun ein nægi, en í öðrum tilfellum þarf að rannsaka fornleifarnar mjög ítarlega og gætu slíkar rannsóknir tekið mörg ár.

Skálafell

Tóft í Skálafelli. Líklega fyrrum skáli Ingólfs.

Að síðustu ber að nefna að í nokkrum tilfellum getur verið um fornleifar að ræða sem minjavarslan getur ekki leyft að raskað verði á nokkurn hátt, enda séu þær svo mikilvægur minnisvarði um sögu þjóðarinnar að jaðri beinlínis við ábyrgðarleysi að hleypa nokkrum í þær nema að mikið liggi við.
Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum. Sama má segja um fornleifarannsóknir að vissu marki. Þegar fornleifar eru grafnar eyðileggjast þær og hverfa, en þær hverfa inn í annars konar tilveru og sú tilvera er varðveitt á bókum eða í ritum. Gangi það hins vegar ekki að um þær sé ritað er enginn eðlismunur á beinni eyðileggingu og fornleifauppgreftri, í báðum tilfellum hverfa fornleifarnar að eilífu.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól , enn óskráð.

Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa úti um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Ný lönd verða brotin í þessari þróun og þá munu margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu. Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi – líklega selstaða frá „Húshólmabæjunum“, fyrrum Krýsuvík eftir landnám. Hefur aldrei verið skráð.

Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar. Við getum aldrei gengið út frá því sem vísu að við séum undir allar hugsanlegar fornleifar búin.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning.“

Heimild:
-Sveitarsjórnarmál, 56. árg. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi – upphaf og ástæður – síðari grein; Skyldur okkar gagnvart fortíðinni, Bjarni Einarsson, bls. 112-116.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála – ein af uþ.b. eitt hundrað á Reykjanesskaganum.