Fráfærur og pössun á ám – Jónas B. Bjarnason

Færikvíar

Í ritingu „Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV„, skrifar Jónas B. Bjarnason ( 1866-1965) um „Fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum„:

Jóns B. Bjarnason

Jónas B. Bjarnason (1866 – 1965).

„Í inngangi að sögu Búnaðarfélags Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa hef ég lítils háttar minnzt á fráfærur og pössun á ám, en ég hef orðið þess var, að ungt fólk veit naumast nú, hvað við er átt með orðinu fráfærur. Vil ég því reyna að lýsa þeim nokkru nánar.
Flestir hleyptu til, þ. e. byrjuðu að leiða hrúta til ánna, á þeim tíma vetrar, að þær byrjuðu að bera fyrstu daga eftir fjórðu sumarhelgi. Einstöku bændur bundu sig með það eingöngu við sólarganginn og byrjuðu að hleypa til á vetrarsólstöðum.
Ef vel voraði og snemma kom gróður, torguðu sum lömbin ekki allri mjólkinni úr mæðrum sínum, og þurfti þá að mjólka þær ær. Höfðu því fjárgæzlumenn með sér ílát til að mjólka í og komu heim með mjólkina. Voru stundum búnar til ábrystir úr broddinum.
Þegar ærnar voru bornar, voru þær passaðar og gengið til þeirra daglega, og í 9. sumarvikunni var venjulega farið að stía, sem svo var kallað, en það var þannig gjört, að lambærnar voru reknar á kvöldin inn í stekkinn, en stekkur var nefnd fjárrétt sú, sem notuð var fyrir lambféð að vorinu.
Búsæld og BarningurStekkurinn var víðast töluverðan spöl frá túninu, en í góðu haglendi. Hann var þannig byggður, að í enda hans eða einu horni var lítil kró með háurn veggjum og góðri hurð í dyrum, og var hún nefnd lambakró. Þegar ærnar voru komnar á stekkinn, voru lömbin tekin og látin í lambakróna, en ánum hleypt út og látnar eiga sig til morguns.
Snemma næsta morgun var svo farið á stekkinn, ærnar reknar inn í hann og mjólkað úr þeim. Fyrstu morgnana var lítið mjólkað úr þeim, en eftir 2—3 daga voru þær þurrmjólkaðar. Þó var nokkur mjólk skilin eftir í þeim ánum, sem áttu yngstu lömbin. Var svo ánum og lömbunum hleypt út saman. Þessi mjöltun var gjörð í tvennum tilgangi, fyrst og fremst til að fá mjólkina til manneldis og í öðru lagi til þess að venja lömbin við að halda sig að haganum, svo að þeim brygði minna við, þegar þau voru algjörlega tekin frá ánum.

Hálssel

Hálssel – stekkur.

Eftir 10. sumarhelgi, seint eða snemma í þeirri viku eftir því sem veður og aðrar aðstæður leyfðu, var svo fært frá, en það var þannig gjört, að í stað þess að reka ærnar inn í stekkinn að morgninum voru þær reknar í kvíar heima við tún og mjólkaðar þar. Voru þær svo reknar í haga sem lengst frá stekknum og staðið þar yfir þeim til kvölds. Voru þær þá reknar heim til mjalta í kvíunum.
Kvíarnar voru venjulega hlaðnar úr torfi og grjóti og munu hafa verið rúmlega tveggja metra breiðar, en lengdin eftir þörfum miðað við ærtöluna. Þegar svo ærnar röðuðu sér með báðum hliðveggjum, gátu mjaltakonurnar aðeins gengið fyrir aftan þær á milli raðanna.

Kví

Mjaltarstúlkur í kví.

Mjaltakonan setti svo mjólkurfötuna niður aftan við ána, sem hún ætlaði að mjólka, smeygði svo vinstri hendi milli afturfóta ærinnar fram fyrir júgrið og hélt því aftur og mjólkaði svo með hægri hendinni þannig, að hún kreppti þumalfingur í lófann, tók svo spenann milli vísifingurs og þumalfingurshnúans og strauk svo mjólkina þannig úr spenanum.
Fyrstu árin, sem ég man eftir, voru ærnar tvímjólkaðar á hverju máli, en eftir nokkur ár var því hætt og þá aðeins einmjólkað, en meiri áherzla lögð á að mjólka vel.
Þessar hlöðnu kvíar þurfti að moka daglega. Sumir voru þá farnir að nota færikvíar, er svo voru nefndar. Voru þær búnar til úr grindum, sem gjörðar voru úr borðrenningum. Voru þá notaðar hér um bil tveggja metra langar grindur í gaflana, en lengri grindur til hliðanna og tala þeirra eftir þörfum eftir ærtölunni.

Kví

Kvíar.

Voru grindur þessar bundnar saman á endaokunum. Voru þær reistar upp á þurrum og sléttum bala og venjulega færðar til eftir hverja mjöltun. Ef grasvegur var þar, sem þessar kvíar voru notaðar, spratt þar vel. Venjulega voru þær settar á tún, þegar búið var að slá og hirða heyið, og þurfti þar ekki annan áburð. Notkun færikvía fyrir 100 ær yfir sumarið gátu gefið kýrfóður-töðuauka.
Daginn, sem fært var frá, þegar ærnar voru komnar í haga sem lengst í burtu, var lömbunum hleypt út úr stekknum og þau venjulega pössuð þar 2—4 daga og hýst þar á nóttunni. Hví næst voru þau rekin til afréttar.
Stöku menn ráku lömbin með jarmi, þ. e. ráku þau til afréttar strax sama dag og þau voru tekin frá ánum, en þau lömb voru óspakari í högum og flæktust víðar. Það þótti mikils um vert, að kvíaærnar væru vel passaðar. Var það kallað að sitja hjá, og sá, sem það gjörði, var kallaður smali. Það mátti ekki halda ánum of þétt saman. Var það kallað að hnappsitja. Það mátti heldur ekki láta þær dreifa svo mikið úr sér, ajð smalinn vissi ekki jafnan, hvað þeim leið.

Smali

Smali og mjaltarstúlka við færikvíar.

Á sumum bæjum var það fullorðinn maður, karl eða kona, sem sat hjá ánum. Þegar ég var krakki, var í nágrenni við mig roskinn maður, sem alla ævi sína hafði setið hjá ám að sumrinu, og ég vissi ekki tii, að honum væri ætlað annað verk árið um kring en að passa ærnar, þótt hann kunni stöku sinnum að hafa gripið í önnur störf, sérstaklega að haustinu, þegar góð var tíð. Allvíðast voru þó krakkar eða unglingar látnir sitja hjá ánum. Var þá venjulega einhver fullorðinn maður með þeim fyrstu dagana til að leiðbeina þeim við starfið.

Smalaskáli

Smalabyrgi.

Sumarið 1875 sat ég fyrst hjá kvíaám, og sat ég hjá þeim á næturnar. Ág var þá á 9. árinu, og kveið ég fyrir því starfi, en leiddist það ekki til muna, þegar á reyndi. Ég var líka nokkuð vanur við næturvökur, því að ég hafði vakað yfir túninu þá um vorið. Tún voru þá alls staðar ógirt, og þurfti því að vaka allt vorið til að verja þau ágangi búfjár.
Ærnar voru passaðar og nytkaðar þar þetta sumar. Var ánum haldið að nóttunni í nærliggjandi högum, en á daginn voru notaðir hagar, sem fjær lágu. Fyrstu næturnar var fullorðinn maður með mér til að sýna mér, hvar og hvernig ég skyldi halda ánum til haga, og benda mér á, eftir hverju ég ætti að fara með heimrekstur á morgnana, því að þá voru ekki úr í hvers manns vasa.

Nátthagi

Nátthagi.

Eins og áður getur, voru næturhagarnir nálægt selinu, svo að sjá mátti þangað heim, þegar bjart var. Þegar leið undir morgun fyrstu nóttina, sem við sátum hjá ánum, sagði þessi leiðbeinandi minn: „Nú skulum við hafa glöggar gætur á, hvað gjörist heima í selinu.“
Nokkru seinna sáum við, að fór að rjúka upp úr eldhússtrompinum í selinu. Þegar rokið hafði þar góða stund, hætti að rjúka, og sáum við ekki rjúka neitt nokkra stund, en svo gaus aftur upp mikil reykur. Sagði þá þessi félagi minn, að við skyldum fara að rölta í kringum ærnar og reka þær heim, og sagði mér jafnframt, að eftir þessu mætti ég fara, því að ég mætti fara að reka heim, þegar færi að rjúka í annað sinn í selinu, stúlkurnar mundu þá tilbúnar að mjólka.

Fé

Fjárhópur.

Seinnipart sumars, þegar dimma tók nótt, var hætt að vaka yfir ánum á nóttunni, en þeim hleypt á haga litla stund eftir kvöldmjaltir, svo reknar lieim á túnkragann kringum selið og bældar þar, þ. e. staðið í kringum þær, þar til þær lögðust.
Vakti svo selráðskonan mig, þegar hún fór á fætur. Smalaði ég þá ánum. Voru þær þá venjulega ekki komnar lengra en á sínar venjulegu næturstöðvar.
Sumarið 1876 sat ég hjá ánum á daginn og hélt þeim þá í högum, sem fjær lágu, svo að ekki sá heim að selinu. Varð ég þá að áætla tímann, hvenær hæfilegt væri að reka heim að kvöldinu. Gekk mér það vel, ef til sólar sást. Annars fór ég mikið eftir því, hvernig ærnar höguðu sér.

Sel

Sel.

Sumarið 1877 var hætt að hafa í selinu, en ærnar nytkaðar heima. Ég sat þá enn hjá. Var þá mjög langt í hagana, því að sömu hagar voru notaðir og áður frá selinu. Þá voru 18 hross á heimilinu að meðtöldum hestum kaupamanns. Ég reið þá alltaf heim á kvöldin og hafði hrossið inni yfir nóttina, skipti svo um hross, þegar ég kom í hagann að morgni. Af því að hrossin voru þetta mörg, þurfti ég ekki að nota sama hrossið nema einn dag í hverjum hálfum mánuði.
Þegar hætt var að hafa í selinu, voru strax notaðar færikvíar. Voru ærnar látnar liggja í þeim yfir lágnættið. Var þá bætt að kvöldinu grindum í kvíarnar og þær hafðar kringlóttar, svo að sem rýmst væri fyrir ærnar að liggja.

Selsmatselja

Selsmatselja – Daniel Bruun.

Jafnan voru þær grindur, sem bætt var í að kvöldinu, strigaklæddar utan og þær látnar snúa í veðrið, ef nokkur gola var, svo að dálítið skjól væri fyrir ærnar að liggja.

Þannig sat ég hjá kvíaám, þar til ég var 14 ára, og hef ég ekkert frekar um það að segja nema það, að þegar hætt var að hafa ærnar í selinu á sumrin, var selið leigt húsmennskufólki, sem hafði nokkrar ær, og passaði ég þær með heimaánum, tók þær með mér á morgnana og skildi þær úr á kvöldin, þegar ég fór heim. Heimaærnar voru venjulega 100—110, og eftir að selið var leigt, voru þar 30—40 ær í kvíum.

Þá skal ég lítils háttar minnast á meðferð mjólkurinnar. Þegar mjöltum var lokið á hverju máli, voru mjólkurföturnar bornar heim að bænum og farið með þær í mjólkurhúsið, sem þurfti að vera kalt, en þó loftgott. Var mjólkin þá síuð og síðan hellt í mjólkurtrogin, sem stóðu í röðum á hillum neðarlega á veggjum mjólkurhússins. Var þetta kallað að setja mjólkina.

Mjólkurbytta

Mjólkurbytta.

Var hún venjulega látin standa í trogunum í þrjú dægur. Bezt man ég eftir þessu, meðan ærnar voru hafðar í selinu. Selráðskonan fór á fætur kl. 5 á morgnana. Þegar hún kom ofan, kveikti hún upp eld og setti upp pott með vatni í. Var það kallað búverkavatn. Því næst fór hún í mjólkurhúsið og tók þar trogin, sem staðið höfðu með mjólkinni í þrjú dægur. Strauk hún með fingri rjómann frá trogbörmunum í einu horni trogsins, lagði svo lófa annarrar handar yfir það horn trogsins, hallaði því svo lítið eitt, svo að undanrennan rann úr því í fötu, er hún hafði undir, en hélt við rjómann með lófanum, svo að hann færi ekki með undanrennunni, strauk svo rjómann úr troginu niður í strokkinn. Var þetta kallað að renna.

Mjólkurtrog

Mjólkurtog.

Þegar ég man fyrst eftir, voru eingöngu notuð þessi mjólkurtrog, en nokkru seinna var farið að nota kringlóttar trébyttur, sem voru 5—6 þumlunga djúpar. Var þá gat á einum stafnum niður við botn og tappi hafður í því. Þótti miklu þægilegra að renna úr þeim en trogunum, því að ekki þurfti annað en taka tappann úr og halla svo byttunni, þar til undanrennan var runnin úr og ekki eftir nema rjóminn. Þegar svo ráðskonan hafði rennt úr öllum trogunum, sem renna átti það málið, og látið rjómann í strokkinn, strokkaði hún hann, tók smjörið úr honum og hnoðaði vel úr því alla mjólk, lét það síðan í kalt vatn og hnoðaði það upp aftur og bjó til úr því sköku.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Sömu störf við mjólkina vann selráðskonan einnig á kvöldin, en byrjaði á þeim einni klukkustund seinna en á morgnana. Voru svo smjörskökurnar geymdar á köldum stað, þar til komið var svo mikið, að hæfilegt þótti til að hnoða það upp aftur og búa um það í sérstöku íláti til geymslu.
Þegar selráðskonan hafði tekið af strokknum, fór hún í eldhúsið og tók búverkavatnið, sem þá var sjóðheitt, þvoði úr því trogin og strokkinn. Þau ílát voru svo þurrkuð við eldsglóð eða úti, ef glatt var sólskin. Því næst lagði hún að aftur í hlóðunum og setti upp stóran pott, sem kallaður var flóningarpottur, lét svo í hann undanrennuna og hitaði hana, þar til hún sauð.

Trékolla

Trékolla.

Var henni þá hellt í stóra trékollu og látin kólna, þar til hún þótti hæfilega volg. Var þá látið saman við hana hleypilyf og þétti, hrært lítið eitt í henni, var svo látinn hlemmur yfir og breitt yfir. Var þetta kallað að gera upp. Eftir hæfilega langan tíma var svo tekið ofan af kollunni. Var þá mjólkin hlaupin, og var þá nefnd ósíað skyr. Þegar það hafði staðið hæfilega lengi í kollunni, var það látið á skyrsíuna, sem var gisið léreft eða fínn, gisinn strigi, strengt á trégrind, sem látin var yfir stóra tunnu. Síaðist þá mysan ofan í tunnuna. Þegar hæfilega þótti síað, var skyrið tekið af grindinni og því safnað í tunnur eða sái. Mysunni var einnig safnað í tunnur. Venjulega var mysu safnað í eina tunnu og hún geymd til vors og var þá nefnd sýra. Var henni blandað í vatn og höfð til drykkjar yfir vorið og sumarið.

Súrtunna

Súrtunna.

Að öðru leyti var mysunni safnað í tunnur og höfð til að súrsa í slátur yfir veturinn. Sú sýra var oft notuð að vetrinum saman við drykkjarvatn handa folöldum og lömbum.
Mikið var borðað af nýju skyri á sumrin. Þó voru alltaf til að haustinu mörg ílát full af skyri, sem haft var í hræring saman við graut allan veturinn og oft allt sumarið líka, því að sumum þótti betra súrt skyr en nýtt í hræring.
Stöku sinnum var mjólkin ekki gerð upp, heldur hleypt og gerður úr henni ostur, bæði mjólkurostur og mysuostur. Mjólkurosturinn var látinn í gisinn poka og létt farg látið á hann. Þessi ostur var svo borðaður nýr í stað brauðs með smjöri og mysuosti.
Stundum á meðan verið var í göngum og á milli rétta, var mjólkin ekki sett, heldur látin strax í pott yfir eld og soðin lítið eitt. Varð hún þá eins og súpa. Var það kallað sauðaþykkni. Var það borðað heitt, og þótti mörgum það góður matur.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Hvað ærnar hafi mjólkað mikið yfir sumarið, get ég ekki sagt um með vissu. Þó má gjöra sér nokkra hugmynd um það eftir því, sem ég man frá þeim tíma. Seinasta sumarið, sem ærnar voru hafðar í selinu, átti selráðskonan, sem var í húsmennsku hjá foreldrum mínum, fjórar ær, sem voru í kvíunurn. Nytkaði hún þær sérstaklega og safnaði mjólkinni í tunnu, sem mun hafa verið rétt lagartunna (120 potta). Ætti því hver ær að hafa mjólkað eitthvað yfir 30 potta að meðaltali yfir sumarið.“ –Ritað á sumardaginn fyrsta 1955.

Heimild:
-Búsæld og barningur – svipir og sagnir IV, Jónas B. Bjarnason, „Um fráfærur og pössun á ám, þegar ég var smali fyrir 80 árum“, Húnvetningafélagið 1955, bls. 53-62.

Færikvíar

Færikvíar.