Litla-Mosfellssel

“Tilgangurinn með verki Hitzlers var að koma þekkingunni um seljabúskapinn á Íslandi á fastan grundvöll og varpa ljósi yfir þennan þátt íslenskrar menningarsögu, eins og þegar hafði verið gert í nágrannalöndum okkar í Skandinavíu og reyndar sunnar og austar í Evrópu einnig. Þar hafa mikil verk um þetta efni verið gefin út á öldinni og lætur höfundurinn í ljós undrun á því, að hið sama skuli ekki hafa veriðgert á Íslandi. Hann kennir því um, að hér á landi var seljabúskapurinn að heita má algjörlega horfinn um aldamótin [1900] og farið að fenna í sporin, þegar áhugi á þessu vaknaði í Skandinavíu á millistríðsárunum vegna þess að búskaparhættir þar voru óðum að breytast og selin að týna tölunni.

Egon Hitzler

Egon Hizler og Gísli Sigurðsson.

Það er enginn vafi á því, að seljabúskapur skipti í eina tíð miklu máli hér á landi. Um það vitnar hinn miklu sægur orða í málinu, sem á rætur sínar að rekja til hans, örnefnaforðinn og seljarústir víða um land. Með hjálp þeirra auk margkyns ritaðra heimilda, munnlegra heimilda og vettvangsransókna reynir höfundur að draga upp mynd af þróuninni frá fyrstu tíð og fram á þennan dag.

Helstu ritaðar heimildir frá miðöldum eru máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar í fornbréfasafninu auk Landnámu, Íslendingasagna og lögbókanna. Frá síðari tímum er jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns drýgst. Ferðabækur og Íslandslýsingar frá 18. og 19. öld veita einnig mikinn fróðleik, einkum um lífið og störfin í seljunum, sömuleiðis ritgerðir, sem skrifaðar voru á síðari hluta 18. aldar og um aldamótin 1900 til þess að reyna að blása nýju lífi í seljabúskapinn. Sýslulýsingar byggðar á spurningalistum Bókmenntafélagsins 1839-1873 gefa nokkra innsýn í ástandið á 19. öldinni og svör við spurningalista Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1962 um fráfærur varpa nokkru ljósi yfir síðasta skeið seljabúskapar hér á landi um aldamótin 1900.

Egon Hitzler

Egon Hitzler og Gísli Sigurðsson. Gísli fór með Egoni og sýni honum sel í nágrenni Hafnarfjarðar.

Höfundur leitar heimilda frá fyrstu tíð og er megintilgangurinn að komast að eðli og sérkennum íslensks seljabúskapar. Í síðustu köflunum er hins vegar leitast við að rekja sögu seljabúskaparins og gera grein fyrir útbreiðslu og þýðingu hans. Í þriðja kafla er t.a.m. athyglisverð tilraun til þess að meta vinnuálag í seljunum. Með því að bera saman bússmala (mjólkandi kýr og ær) skv. jarðabókinni á allmörgum bæjum með sel við upplýsingar um búsmala á nokkrum bæjum á síðari hluta 19. aldar fæst sú niðurstaða, að fjöldi áa hefur vaxið mjög miðað við kýr og þar með hefur vinnuálagið vaxið og erfiðleikar og kostnaður í sambandi við hjúahald.

Enn mikilvægari verður jarðabókin í sambandi við rannsóknina á þróun og útbreiðslu seljanna. Þótt höfundur hafi farið yfir alla jarðabókina og reiknað út hlutfallið milli selstaða og býla í þeim sýslum, sem jarðabókin telur yfir (meðaltalið reyndist 23 af hundraði og munurinn á sýslum frá ca. 10 af hundraði í Rangárvalla- og Eyjafjarðarsýslu upp á rúmlega 50 af hundraði í Dalasýslu) þá hefur hann ekki gert nákvæma rannsókn á landinu í heild, heldur valið úr svæði, sýslurnar Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu, til nákvæmrar athugunar og samanburðar við eldri og yngri heimildir (V. kafli). Forsendan fyrir valinu er sú að eftir athugun á öllum gögnum í fornbréfasafninu kemur í ljós að úr þessum sýslum hafa varðveist fleiri skjöl um selstöður en í öðrum sýslum (IV. kafli). Til samanburðar fyrir tímabilið eftir skráningu jarðarbókarinnar þrengir hann enn valið og tekur Sauðadal í Húnavatnssýslu á milli Vatnsdals og Svínadals (VI. kafli).

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Elsta heimild um selstöðu þar er máldagi Hjaltabakkakirkju frá 1318, en skv. heimildarmönnum var síðast haft þar í seli aldamótaárið eða 1904. Fjölmargar seljarústir eru í dalnum og hefur höfundur því getað rakið sögu seljanna frá miðöldum og fram á síðasta áratug, síðasta spottann á göngu um dalinn með staðkunnugum heimildarmönnum og ljósmyndavél sér við öxl.
Með þessari aðferð gefur höfundur hugmynd um umfang seljabúskapar í upphafi 18. aldar, en ekki beinlínis um útbreiðslu hans, gefur dæmi um það hversu langt aftur og fram má rekja sögu sumra selja og sýnir fram á að breytingar hafa átt sér stað á eignaraðild, nýtingarrétti, staðsetningu o.fl. Nokkra hugmynd um útbreiðslu selja gefur hins vegar kortið á bls. 93, sem sýnir bæjarnöfn með nafnliðum sel eftir heimildum frá 19. og 20. öld. Það er þó langt í frá að öll kurl séu komin til grafar þar. Auk þess sem gera má ráð fyrir að eins brot af seljunum hafi orðið að býlum má reikna með að bæjarnöfn séu ekki einhlít vitni [sbr. bæjarnafnið Stardalur). Sel urðu ekki endilega að býlum þar sem þau voru flest heldur þar sem landkostir voru bestir. Á suðurkjálkanum, þar sem sem voru tiltölulega mörg sel, er t.a.m. ekkert bæjarnafn sem vitnar um slíkan uppruna. [Hafa ber þó í huga Straumsel, sbr. framangreint]. Ennfremur má benda á að ekki eru talin býli sem komin voru í eyði um miðja 19. öld.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Hverjar eru niðurstöður höfundar? Miðaldagögnin eru fyrst og fremst skjöl sem kveða á um eignar- eða nýtingarrétt, máldagar, kaup- og gjafabréf og dómar. Þau ná yfir fimm aldir, frá 1140-1570, og sýna að selstöður hafa lotið sömu reglum og hlunnindi, þannig var hægt að selja, gefa eða leigja selstöðu og kom oftast ítak fyrir ítak. Á grundvelli þess er seljunum skipt í fjórar tegundir, þ.e. 1. sel í heimalandi, sem mun vera það upprunalega, 2. sel í sel- eða seljalandi, á eigin jörð, en fjarri heimalandi, 3. réttindi eða ítak í landi annarrar jarðar, 4. leigusel. Fyrsta örugga dæmið um það er frá 16. öld. Máldagar spegla ástand, sem er býsna stöðugt, en hvernig koma aðstæður í upphafi 18. aldar heim og saman við aðstæður á miðöldum? Samanburður sýnir að þótt rekja megi réttindi til selstöðu langt aftur í miðaldir þá hafa þó miklar breytingar átt sér stað. Samanburðurinn við Sauðadal gefur til kynna að sveiflur hafa átt sér stað. Seljabúskapurinn í byrjun 18. aldar er sýnilega í afturför. Af 188 selstöðum sem nefndar eru í sýslunum þremur eru 70 niðurlagðar. [Þessi hlutfallsskipting kemur vel heim og saman við samanburð á heildarfjölda selja á Reykjanesi við Jarðabókina 1703].

Færikvíar

Færikvíar.

Rannsókn Egon Hitzlers staðfestir þá mynd sem menn hafa gert sér um þróun búskaparhátta á Íslandi, að þeir hafi haldist lítt breyttir, en verið undirorpnir nokkrum sveiflum og að yfirleitt hafi heldur sigið á ógæfuhliðina. Þannig virðist seljabúskapur hafa staðið með meiri blóma á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, t.a.m. virðist heyöflun hafa skipt miklu máli og bendir ýmislegt til þess að verulegur hluti heimilsfólks hafi dvalist í seljunum um tíma á sumrin. Hins vegar hefur höfundur ekki fundið dæmi um það að heyjað hafi verið í seljum á 19. öld. Þá getur eyðing skóga hafa átt þátt í samdrætti seljabúskapar vegna þess að eldiviður var forsenda þess að hægt væri að hafa í seli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – óþekkt sel.

Ef horft er til seljanna á Reykjanesi og landshátta þar með hliðsjón af framansögðu er raunhæft að álykta að ekki hafi verið heyjað í seljum þar. Þau eru yfirleitt í hraunum eða utan í þeim og gras er einungis að sjá næst eða í kringum selin eftir áburð búsmalans. Sjaldnast eru um samfelld grassvæði að ræða, nema ef vera skyldi á Selsvöllum og hugsanlega á Baðsvöllum. Þar er þó sagt (sjá meðfylgjandi skrif Guðrúnar Ólafsdóttur) að seljabúskapur hafi lagst af vegna ofbeitar. Líklegast er, miðað við aðstæður, sem eru allólíkar aðstæðum annars staðar á landinu, að einungis hafi verið um sumarbeit að ræða í og við selin á Reykjanesi. Hitt er einnig athugunarvert að eldiviður hafi verið ein forsenda seljabúskaparins. Það gæti að hluta til skýrt hinn mikla fjölda selja á Reykjanesi miðað við aðra landshluta því jafnan var, a.m.k. framan af, næg hrístekja og runnagróður í eldri hraununum á skaganum, s.s. í Almenningum, í Skógarnefi ofan við krosstapana og jafnvel á Selvogsheiðinni. Víða annars staðar á landinu voru “áreiðanlegir” lækir eða jafnvel ár, en víðast hvar á Reykjanesi urðu bændur að treysta á úrkomu til að halda við vatnsbólum og brunnum í hraununum].

Kárastaðasel

Kárastaðasel.

Auk harðanandi veðráttu og rýrnunar landgæða hefur verðlag eflaust haft sín áhrif. Hækkað verð á smjöri og aukin eftirspurn hafa líklega bæði ýtt undir fækkun selja með því að sel voru þá gerð að föstum bylum og fjölgun vegna þess að ný sel hafa verið tekin upp eða gömul tekin upp að nýju. Eftirspurnin eftir vinnufólki hefur eflaust einnig haft áhrif. Í Noregi er yfirleitt talið að kostnaður í sambandi við vinnufólk og skortur á vinnuafli hafi verið ein meginástæðan fyrir því að sel lögðust af. Hér á landi hefur endanlegt hvarf seljabúskapar verið sett í samband við að fráfærur lögðust af enda voru það fyrst og fremst ær, sem hafðar voru í seljum. Kýrnar skiptu minna máli.

Selvogsheiði

Selsminjar í Selvogsheiði.

Í síðasta kaflanum reynir höfundur að setja íslenska seljabúskapinn í alþjóðlegt samhengi. Það kemur víst engum á óvart að hann virðist vera sama eðlis og sá sem í Noregi kallast sæter (seter) bruk, í Þýskalandi Alm-Alp- eða Sennwirtschaft. Helstu einkenni hans eru að búsmalanum er haldið til haga fjarri heimahögum til þess að létta af þeim og tryggja betri beit. Unnið er úr afurðunum í seljunum og þær fluttar til heimabæjar annað hvort að hausti eða við og við. Dæmi eru einnig um að önnur fæðu- eða forðaöflun hafi átt sér stað. Höfundur hefur ekki fundið neitt, sem sérkennir íslensku selin nema hvað helst að yfirleitt er lítill, ef nokkur, hæðarmunur á heimabæ og seli hér á landi, enda staðhættir aðrir en í Noregi og Ölpunum. Á þeirri forsendu hafnar hann líka kenningu Lars Reitons (1946), að hér á Íslandi hafi mátt finna vor-, sumar- og haustsel líkt og sums staðar í Ölpunum og Noregi. Vorselin og haustselin gegndu því hlutverki að létta af heimahögum á meðan fjallagrösin voru ósprottin eða farin að sölna.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Höfundur lýkur bók sinni á þeirri frómu ósk, að hann hafi lagt grundvöll sem nýta megi til framtíðarrannsókna á sérstökum þáttum sem enn þurfi nánari athugunar við og bíði fræðimanna í öðrum greinum og með öðrum aðferðum en fílólógískum og sagnfræðilegum. Vissulega vakna ýmsar spurningar við lestur bókarinnar. Fengur væri að uppgrefti á einhverjum seljarústum. Rannsóknir á örnefnum, þjóðsögum og munnmælum tengdum seljum gætu einnig varpað ljósi yfir þenann þátt menningarsögu okkar. En hvað sem því líður þá verður ekki annað sagt en að Egon Hitzler hafi með bók sinni rennt traustum stoðum undir þær niðurstöður, sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1961) og Þorvaldur Thoroddsen (1908-22) voru búnir að setja fram fyrr á öldinni”.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Hitzler byggir lýsingar sínar og athuganir að meginefni á heimildum úr þremur sýslum norðanlands. Þótt seltíminn og verklag í seljum hafi ekki verið svo ólíkt á milli einstakra landshluta hafa aðstæður á hverjum stað þó áreiðanlega sett mark sitt á hvorutveggja, líkt og var með aðra atvinnuhætti eða jafnvel talað mál. Ekki er því alveg hægt að heimfæra niðurstöður Hitzlers ógagnrýnislaust upp á selbúskapinn á Reykjanesi því aðstæður þar hafa verið ólíkar öðrum hluta landsins þótt ekki væri fyrir annað en hraunin, takmarkað landrými eða beitarmöguleika og heyjanir. Líklegt má þó telja að verklagið sjálft hafi verið svipað um land allt, ef ummerkjum í seljunum að dæma virðist húsakostur yfirleitt hafa verið fremur rýr á Nesinu ef bornar eru t.a.m. saman tóftir í seljum norðanlands.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.