Fremri-Háls – Sauðafell (Sauðafellskot) – Hálssel
Háls; Fremri-Háls er bær í ofanverði Kjós. Einungis Fellsendi er ofar (vestar). FERLIR hafði áður skoðað umhverfi bæjarins. Nú var markmiðið að líta á tóftir og minjar Sauðafells (Sauðfellskots) og nágrennis.
Í heimildum hafði komið fram að Sauðakot væri fornt bæjarhróf í landi Fremra-Háls. Kotið hafi snemma farið í eyði og upp úr því hafi byggst selstaða frá bænum. Þetta þótti grunsamlegt því selstöður frá höfuðbýlum eiga sér langa fortíð. Ástæða þótti því til að skoða nánar tóftir kotsins og umhverfis þess, bæði vegna takmarkaðra upplýsinga í opinberri fornleifaskráningu af svæðinu og mögulegra áður óskráðrar selstöðu á svæðinu.
FERLIRsfélagar gengu að tóftum Sauðafells undir austanverðu Stóra-Sauðafelli. Heimildir eru um að sel frá Fremri-Hálsi, Hálssel, hafi byggst upp úr kotinu sem var komið í eyði fyrir 1705.
Við skoðun á bæjartóftunum kom í ljós að rýmin hafi a.m.k. verið þrjú; baðstofa, eldhús og búr. Garður var norðan við húsin, en gamli Kjósaskarðsvegurinn, fyrsti bílvegurinn upp með Stóra-Sauðafelli að Þingvallavegi, hafði verið lagður í gegnum hann. Engin ummerki eru eftir nýlegri selstöðu í bæjartóftunum.
Ofan við veginn er Sauðhóll. Vestan hans eru tóftir Hálssels; þrjú rými og stekkur. Tvö rýmin eru samstæð; búr og eldhús, og baðstofan stök fast við hólinn. Skammt ofar, upp með Hálsá, er hlaðið gerði. Gerðið er á skjólsælum stað, gæti annað hvort verið stekkur er rúningsrétt.
Eftirfarandi upplýsingar um Fremri-Háls, Sauðafell(skot) og Hálssel má lesa í örnefnalýsingu:
„Eftirfarandi upplýsingar veitti Haraldur Jónsson bóndi á Fremra-Hálsi 25.8.1976. Páll Bjarnason skráði. Til hliðsjónar var höfð örnefnaskrá, án lýsingar, (heimildarmaður ókunnur), sem til er í Örnefnastofnun. Haraldur er fæddur 1930 og hefur alið allan aldur sinn á Fremra-Hálsi. Áður höfðu foreldrar hans búið þar.
Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi [austurendi] fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.
Fyrir vestan Stóra-Sauðafell er Seldalur. Við botn hans eru Tjarnhólar. Þar er tjörn og upptök Hálsár, sem síðan rennur niður Seldal. Laugin er volg uppspretta við Hálsá í Seldal, um 200 m. sunnan við Hrútagil, það gil gengur í boga úr Seldal í suður og síðan í vestur.“
Í örnefnaskrá Stardals í Kjalarneshreppi segir: “Frá Rjúpnagili austur eru flóar með smáhólum og tjörnum. Þetta svæði heitir Tjarnhólar. Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel. Í Selgilið kemur Hrútagil frá vinstri. Seldalur heitir lægðin með gilinu.”
Í „Fornleifaskráningu í Kjósarhreppi II frá 2010 segir um Fremri-Háls:
„12 hdr 1705.
Eyðibýli 1705 er Sauðafell.
JÁM III, 418. 1847: 12 hndr. Bændaeign. JJ, 100.
Hannes Þorsteinsson: Fremri-Háls réttnefni. „Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjanöfnum á Íslandi“ Árbók fornleifafélagsins 1923, 34. 1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð af skriðum og enn hætt við meiri skaða bæði bænum og túnum, mönnum og fjenaði. Engjar öngvar í vissum stað, nema hvað slegið er vítt og dreift í heiðarlandi, og þó ekki í sama stað nema annaðhvört ár. En þær engjar, sem áður voru og nær liggja bænum, eru hartnær eyðilagðar af skiðum og leir. Þverá, sem hjá túninu rennur, er kölluð Hálsá, brýtur túnið og ber grjót á.
Hætt er bænum fyrir snjóflóði, og hefur það oft yfir fallið, so legið hefur við húsbroti.“ JÁM III, 418.
1840: „Heyskapur er erfiður og reytingslegur, en landrými mikið og gott, helzt um sumartímann, vetrarþungt.“ SSGK, 256. Túnakort 1917: Tún 6,8 teigar, að mestu sléttað, garðar 950 m2.
Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Nokkrar umbætur hafa verið gerðar á túni jarðarinnar í Jóns tíð [á tímabilinu 1927-1949] með hjálp dráttarvjelar.“
Um Sauðafell segir í sömu skráningu:
„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi.“ Þar segir einnig: „Saudafell hefur verið hjáleiga í þessarar jarðar landi, bygð í manna minni á fornu eyðibóli, þar sem halda, áður hafi lögbýlisjörð verið, en nær eyðilögð vita menn eigi, og hefur þetta land fyrir hundrað ár Hálsi átölulaust eignað verið. […] Eyðilagðist fyrir þá grein, að bóndanum á Fremrahálsi þótti sú bygð of mjög að sjer og sínum peningi þrengja, og eru nú síðan yfir 40 ár, sem það hefur ekki bygst; þar með er það vetrarríki mesta fyrir fannlögum, og því örvænt að aftur byggjast muni. Er þar nú selstaða frá Hálsi.“ Í örnefnaskrá Fremri-Háls segir svo frá: „Hálsá á upptök sín í Tjarnhólum, rennur eftir Seldal og áfram vestur með hlíðinni, sem síðar er nefnd, rennur skammt austan við bæ og út í Laxá. […]
Upp af Selflóa er Stóra-Sauðafell, sem áður getur. Það afmarkast af Seldal. Vesturendi fellsins er nefndur Sauðafellstagl. Þar hjá eru tóftir gamals eyðibýlis, sem hét Sauðafellskot.“ Í viðbótum við örnefnaskrá segir einnig: „Úr þeim tjörnum kemur Selgil, sem rennur norður í Fremra-Hálsland í Kjós. Þar neðar, austan merkja, eru gamlar tættur eftir sel.“
Sauðafell er um 2,1 km SSA við bæ við sunnanvert mynni Seldals stutt frá austurbakka Hálsár og fast vestan við sléttað tún á Selflóa. Tóftirnar eru í þýfðum lyngi- og grasigrónum móa. Fast vestan við tóft A er gamall malarvegur sem lá upp á Þingvallaveg. Vegurinn var lagaður með jarðýtu í kring um 1958 en þá var hluta af vesturhlið tóftarinnar ýtt út. Þrjár tóftir eru á þessu svæði sem er um 80 m á lengd, um 40 m á breidd og snýr norðaustur-suðvestur. Tóft A er í norðausturenda svæðisins á meðan tóftir B og C eru í suðvesturenda þess. Tóft A er stæðilegasti hóllinn en virðist þó vera yngstur. Tóft A er sigin og um 1 m hár ávalur grashóll. Hóllinn er um 18 m langur, um 15 m á breiður og snýr austur-vestur.
Í hólnum eru fjórar óljósar dældir en vegna þúfnamyndunar og grasgróðurs var erfitt að segja til um lögun hólsins með vissu. Vestan í hólnum eru tvö ógreinileg hólf (dældir). Hólf I er ferkantað og um 4×4 m að stærð. Hólf II er 3 m sunnan við hólf I, ferkantað og um 3 m á lengd og 2 m á breidd, snýr norður-suður. Hólf III er um 4 m austan við hólf I og um 5 m ANA við hólf II. Hólf III er aðeins óljós um 1 m breið og 7 m löng dæld sem liggur norður-suður. Um 1 m austan við dæld III er önnur dæld sem skráð var sem hólf IV. Hólf IV er mjög óreglulegt að lögun (slaufulaga), 2-3 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr einnig norður-suður. Hólf IV er um 3,5 m vestan við austurenda hólsins. Hugsanlegur, 1 m breiður, inngangur inn í hólf IV sést í austurenda hólsins.
Öll hólfin eru grunn eða <0,5 m á dýpt. Aðeins glittir í grjóthleðslur í norðurenda hólfs IV. Tóft B er um 65 m VSV við tóft A sunnan undir náttúrulegum 1,5-2 m háum berghól sem er stakur á austurbakka Hálsár. Tóft B er einföld, um 5 m á breidd, um 7 m á lengd og snýr austur-vestur. Gengið var inn að austan um 0,5 m breiðan inngang. Innanmál tóftar er 2 x 1 m og snýr norður-suður. Norðurveggur tóftar er byggður upp að hólnum og er því aðeins um 1 m á meðan austur-, vestur- og suðurveggir eru um 2 m á breidd. Veggirnir eru um 1 m á hæð og greinilegri að innan en utan. Út frá austurvegg, fast norðan við inngang er 2 m langt og 1 m breitt garðlag sem trúlega hefur átt að koma í veg fyrir að gripir færu upp á hólinn frekar en inn í tóft. Tóftin er öll gróin lyngi og mosa en grasigróin í botninn.
Engar grjóthleðslur eru greinilegar og tóftin virðist eldri en tóft A. Tóft C er um 20 m sunnan við tóft B fast undir um 5 m háum bakka í norðurenda suðausturhlíðar Selgils. Tóft C er tvískipt, um 9 m á lengd, um 5 m á breidd og snýr austur-vestur. Veggir tóftar eru um 2 m á breidd, um 0,5 m á hæð og lyngi- og mosagrónir. Botn tóftar er grasigróinn. Inngangur er á bæði hólf á norðurvegg, við norðvesturhorn hólfa. Þeir eru báðir um 0,5 m á breidd. Hólf I er um 2 m á lengd, um 1 m á breidd og snýr austur-vestur. Hólf II er austan við hólf I, um 1 x 1 m að stærð. Tóftin lítur út fyrir að vera á svipuðum byggingarskeiði og tóft B en tóftir B og C virðast eldri en tóft A. Ekki er ólíklegt að tóftir B og C séu hluti af hinu upprunalega Sauðafelli/Sauðafellskoti en tóft A sé byggð seinna sem sel eftir að Sauðafell/Sauðafellskot er farið í eyði.“
Ekki er minnst á framangreindar selminjar í fornleifaskráningunni.
Sjá meira um Sauðafell HÉR.
Heimildir:
-Fornleifaskráning í Kjósarhreppi II: Reykjavík, 2010.
-Örnefnalýsing fyrir Fremri-Háls; Haraldur Jónsson bóndi á Fremra-Hálsi 25.8.1976.
-Örnefnalýsing fyrir Fellsenda.
-Örnefnalýsing fyrir Stardal.