Fyrstu ár Keflavíkur
Eftirfarandi frásögn frú Mörtu Valgerðar Jónsdóttur um „Fyrstu ár Keflavíkur“ má lesa í Faxa 1947: „Blaðið hefur tryggt sér nokkrar greinar um ýmsan gamlan fróðleik af Suðurnesjum, og birtist fyrsta greinin í þessu blaði. Er það frú Marta V. Jónsdóttir sem þessar greinar ritar. —
Frú Marta Valgerður Jónsdóttir er fædd 10. jan. 1889, að Landakoti á Vatnsleysuströnd. Voru foreldrar hennar Guðrún Hannesdóttir og Jón Jónsson, bæði Rangæingar að ætt, annáluð gáfu og merkishjón. Frú Marta fluttist til Keflavíkru árið 1898 og dvaldist hér með foreldrum sinum þar til hún giftist Birni Þorgrímssyni verzlunarmanni. Þau bjuggu í Keflavík til ársins 1920. — Frú Marta er af kunnugum talin fjölgáfuð kona, og vel menntuð. Hún á mikið og vandað bókasafn, og er víðlesin. Á seinni árum hefur hún lagt mikla stund á íslezkan fróðleik fornan, einkum ættfræði. — Þess má geta að frá Marta stofnaði hér fyrsta kirkjukórinn, og var organisti við kirkjuna frá því að kirkjan var byggð og þangað til skömmu áður en þau hjón fluttust til Reykjavíkur.
V. G.
Í æsku minni heyrði ég gamalt fólk, er alið hafði aldur sinn í Keflavík og mundi langt, rifja upp eitt og annað um hyggð og bæ, er það hafði numið í sinni æsku. Mér er einna minnisstæðast, er ég heyrði, að Keflavík hefði, endur fyrir löngu, verið einn einasti bóndabær og ekkert annað byggt ból alla leið inn í Ytri-Njarðvíkur. Þetta átti að hafa verið um það leyti, er Tyrkir rændu í Grindavík og í tíð séra Hallgríms skálds Péturssonar, en gamla fólkið gleymdi aldrei að minnast þess, að hann hafði eitt sinn dvalið á þessum slóðum. Bærinn Keflavík átti að hafa staðið sunnan á hrygg þeim eða höfða, er reis upp og suður af Grófinni, en næst var Berginu. Var höfðinn hæstur að austanverðu næst sjónum og snarbrattur upp frá sjó, en hallað svo niður aftur að sunnanverðu og myndaði þar aðra gróf. Þar var Keflavíkur vör, átti þar að hafa verið uppsátur frá ómunatíð. Sú vör er ennþá notuð. Þar fyrir sunnan og ofan tók við vítt og mikið land alla leið’ upp til heiða og suður að Nástrandargröf, sem svo var nefnd, er ég heyrði þessar sögur. En þar er nú Tjarnargata. Átti það land að hafa verið grasi vafið, en breyst smátt og smátt í uppblástursland. Um miðbik höfðans, sem fyrr er nefndur, var hóll. Þar sunnan undir hólnum átti bærinn að hafa staðið, en túninu hallaði til suðurs, vesturs og norðurs.
Þegar fyrsta íbúðarhúsið í Keflavík var byggt — Gamla Duushúsið, sem enn stendur —, var það reist nokkru neðar en bærinn, en við sama hólinn. Stóð þá bærinn ennþá og var notaður til íbúðar. Til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, var greint frá því, að þar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldra Duus.
Sögur voru einnig sagðar um landspjöll af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land allt og bakkarnir hrunið að framan smátt og smátt. Landið milli Ytri- og Innri-Njarðvikurjarða var nefnt Fitjar og heitir svo enn. Þaðan voru sögð hvað mest landspjöll af landsigi og sjávarágangi. Þar átti að hafa verið byggt ból endur fyrir löngu og landgæði nóg, en allt það land var talið liggja á sjávarbotni. Þannig sagðist gamla fólkinu frá.
Skal nú vikið að gömlum heimildum um Keflavíkurjörð. Árið 1703, síðari hluta sumars, eftir alþing, ferðuðust þeir Árni Magnússon assessor og Páll Vídalín lögmaður um Suðurnes. Hafði konungur skipað þá árið 1702 til þess að virða upp allar jarðir landsins og lýsa högum bænda og búenda. Fóru þeir um landið árin 1702 til 1707 til þess að gera nýja jarðabók yfir allt landið „og athuga hver að væri meðöl til að afkoma þeim ýmsum ósiðum, er innsmognir væru“ segir Páll Vídalín sjálfur í annál sínum. Erindi þeirra þetta síðsumar um Suðurnes var því að skrá jarðir þessara byggða og kynna sér hagi bænda. Riðu þeir um með fylgdarmönnum og skrifara og höfðu mikinn útbúnað, tjöld og hesta. Þeir lögðu upp frá Bessastöðum þann 12. ágúst, fóru um Hafnarfjörð og þaðan suður hið efra með fjalli til Grindavíkur. Þaðan fóru þeir niður í Hafnir, út á Hvalsnes, til Útskála og svo innúr um Njarðvíkur og Vatnsleysuströnd allt inn til Sunda. Auðséð er af annálum, er skráðir voru þessi ár, að ferðir þeirra um landið hafa vakið athygli og þótt mikill og mestur viðburður í lífi þjóðarinnar.
Þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín settust venjulega um kyrt á prestssetrunum, reistu þar tjöld sín og bjuggu um sig sem bezt. En bændum var gert að skyldu að koma til þeirra heim á prestssetrin. Keflavíkurbóndinn ,sem þá var, hefur því orðið að taka sér ferð á hendur, um miðjan september, út að Útskálum til þess að lýsa jörðinni og högum sínum. Keflavíkurjörð er þannig lýst: „Hér er fyrirsvar ekkert. Jarðardýrleiki óviss. Eigandinn Kongl. Majestat. Ábúandinn Halldór Magnússon. Landskuld XXV álnir betalast I vætt og II fjórðungum fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum. Við til húsabótar leggur ábúandinn. Kúgildi ekkert. Kvaðir eru mannslán, en fellur niður Keflavík 1908. Gömlu Duushúsin sjást fremst á myndinni. fyrir bón kaupmannsins í Keflavík fyrir vöktun búðanna. Kvikfénaður I kýr, I hross, I foli þrevetur. Fóðrast kann I kýr naumlega. Heimilismenn VI. Skóg til kolagerðar hefur jörðin í almenningum. Torfrista og stunga víðsæmandi. Lyngrif í heiðinni nokkuð. Fjörugrastekja nægileg. Eldiviðartak af fjöruþangi hjálplegt. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara varla reiknandi. Skelfiskfjara nokkur. Heimræði er hér árið um kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hér engin. Lending slæm. Engjar öngvar. Utihagar í betra lagi. Vatnsból í allra lakasta lagi sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartíma“.
Af þessari lýsingu Keflavíkurjarðar sjáum við, að Keflavík hefur ekki verið stór jörð, heldur miklu fremur kotbýli, þó er greinilegt, að jarðarlandið hefur verið ólíkt grasgefnara en þekkst hefur um langan aldur.
Torfrista og stunga, sem talin eru viðsæmandi, talar sínu máli. Grasvöxtur hefur þá verið mikilj og er af því auðsætt, að uppblástur hefur eytt jarðvegi og gróðri á þeim 243 árum, sem liðin eru síðan jarðarmatið fór fram. Enda sáust greinilegar leifar af uppblæstri ennþá um síðustu aldamót. Uppi á Melunum fyrir ofan kauptúnið voru þá enn eftir, hingað og þangað, nokkrar torfur, eins og dálitlar eyjar á berum sandmelnum. Á þessum torfum var þéttur grassvörður; af þeim mátti og greinilega sjá jarðlagið og þykkt moldarinnar, er var vel mannhæð. Er vindar blésu og jörð var þurr, mátti sjá mórauða mekki bera víð loft yfir Melunum. Þar voru að hverfa út í veður og vind hinar síðustu leifar gróðurmoldarinnar, er eitt sinn, fyrir ævalöngu, hafði þakið Keflavíkurjörð. En þessar minjar eru nú löngu horfnar. Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímamanna, en svo sem kunnugt er, hafði konungsvaldið eða umboðsmenn þess á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabeztu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira. T. d. voru sumir Innnesjamenn skyldir að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Bátsenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verzlunarskipunum til Danmerkur. Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur veríð laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verzlunarbúða hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur. Njarðvíkurbændur hafa, sem aðrir, yfir mörgu að kvarta. Bóndinn í Innri-Njarðvík kvaðst verða „að gegna gisting þeirra frá Bessastöðum, umboðsmannsins, sýslumanns og þeirra fylgdarmanna, hvenær sem þá aðber“ og hvað fjölmennir sem þeir eru. Segir hann þá hafa „næstu 16 ár með sjálfskyldu þegið“ allan beina fyrir sig og hesta sína, svo lengi, er þeir sjálfir óski. Þar að auki séu þeir, Njarðvíkurbændur, skyldir að fylgja Bessastaðamönnum innan sýslu og margoft utan. Sé allt þetta endurgjaldslaust.
Bóndinn í Ytri-Njarðvík kveðst þurfa að sjá um og flytja farangur vermanna, er þeir komi um hávetur innan frá Bessastöðum og Sundum til sjóróðra á kóngsskipin, er gengu frá Stafnesi. Ef vetur var harður og vermenn treystu ekki hestum sínum lengra en að Sundum, urðu bændur, er bjuggu meðfram veginum til Suðurnesja, að flytja þá bæ frá bæ út að Ytri-Njarðvík. Þar tók bóndinn við og flutti þá ásamt farangri suður yfir heiði, að Stafnesi. Allt var þetta bótalaust.
Sami bóndi segir frá því, að komið hafi verið með bát suður í Ytri-Njarðvík í nafni umboðsmannsins á Hessastöðum „í fyrstu með bón og síðar með skyldu, tveggja manna far, sem ganga skyldi um vertíð, en ábúandinn að vertíðarlokum meðtaka skipsábata, verka hann og vakta til kauptíðar, ábyrgjast að öllu og flytja í kaupstað“.
Þá er að minnast tveggja eyðijarða í Njarðvíkurlandi, sem getið er í Jarðabókinni 1703. Er um þær báðar hið sama að segja, að þá vissi enginn, hve lengi þær hefðu í eyði verið. Önnur jörðin var Hjallatún. Voru þá tún uppblásin í mel, lyng og hrjóstur, en girðingar stóðu þá enn, en jarðarlandið löngu lagt undir Ytri-Njarðvík. Þótt svo langt sé síðan býli þetta lagðist L eyði, að enginn, er var á lífi 1703 kunni skil á hvenær þar hefði byggð verið, hefur nafn þessarar heiðarjarðar aldrei gleymst. Rétt eftir síðustu aldamót voru haldnar skemmtisamkomur í Hjallatúnum nokkur sumur. Var það að tilhlutun Ágústs Jónssonar hreppstjóra í Höskuldarkoti, er ævinlega vildi alla hluti vel gjöra. Mættust þá Njarðvíkingar og Keflvíkingar í Hjallatúnum einn glóbjartan sunnudag, einu sinni á sumri, og gerðu sér þar glaðan dag. Var farið upp eftir með margskonar farangur; vatn í kaffi, kökur og annað góðgæti og mikið af áhöldum og borðbúnaði.
Allir fóru gangandi og bar hver sem betur gat. Gott var að hvílast í grasi grónum brekkunum, er upp eftir var komið. Margt varð til gleði, ræður haldnar og mikið sungið. Svo voru byggðar hlóðir uppi undir klettabeltinu og hitað kaffi, lagt á borð hingað og þangað um lautir og bala, gengið á milli búa og góðgerðir þáðar á víxl.
Þegar leið á daginn fór unga fólkið í leiki og er kvölda tók, var gengið heim. Vegir skiftust og hóparnir héldu niður í Njarðvíkur og út í Keflavík. Í logniblíðu kvöldsins kváðu við léttir söngvar og gleðiómar, allir voru glaðir og ánægðir eftir góðan dag og komu heim í sólskinsskapi löngu eftir sólarlag. Hin eyðijörðin var Fitjakot milli Ytri- og Innri-Njarðvíka. Hefur hún legið að sjó. Þar eru nú Fitjar. Er svo sagt 1703, að lítil merki sjáist þar fornra girðinga, en almenn sögn, að býli hafi verið. Var það mál manna, að jörðin hafi í eyði lagst af örtröð. Hinar tíðu lestaferðir austan- og norðanmanna, er sóttu sér björg í bú til hinna aflasælu verstöðva um Suðurnes, eru taldar drýgsti þáttur í eyðingu jarðarinnar. Þar var ævinlega áð og að vetri munu ferðamenn hafa haft þarna náttstað áður en lagt var suður í Hafnir, út á Nes, Garð, Leiru og Keflavík. Er svo sagt í jarðabókinni, að ferðamenn megi ómögulega missa þennan afangastað. Þá er og greint frá því, að sjór brjóti landið að framanverðu í stórkostlega ósa, en vatnsrásin úr heiðinni flytji fram aur og grjót. Á þessum slóðum eru byrjaðar framkvæmdir að hafnarmannvirkjum, er verður einn liður í fyrirhugaðri landshöfn Keflavíkur og Njarðvíkur.
Ábúendur í Keflavík fyrr á öldum, kann ég fáa að nefna. Í fornum annálum er þess getið, að Grímur Hergsson, bóndi í Keflavík, hafi orðið bráðkvaddur árið 1649. Setbergsannáll kann best skil á þessum atburði, enda var höfundur annálsins Gísli Þorkelsson að móðurætterni af Suðurnesjum, dóttursonur séra Þorsteins Björnssonar, er prestur var á Útskálum 1638—1660. Þar segir svo: „Þann 8. janúar andaðist Grímur Bergsson í Keflavík skyndilega í sinni heytótt á kvöldtíma“. Grímur hafði fyrrum (1632) verið sýslumaður í Kjósarsýslu og síðar lögréttumaður á Suðurnesjum. Hann bjó á Kirkjubóli á Miðnesi, síðar í Ytri-Njarðvík og síðast í Keflavík.
Fyrri kona hans var Matthildur Árnadóttir, dótturdóttir séra Einars, prests á Útskálum (1581—1605) Hallgrímssonar. Seinni kona Gríms var Rósa Ásgeirsdóttir frá Fitjum í Skorradal. Dóttir þeirra var Oddný kona Gísla Bjarnasonar frá Stokkseyri. Þau bjuggu á Skarði á Landi. Frá þeim er komin merk ætt er rekja má til núlifandi manna. Nefni ég hér á eftir nokkra kunna niðja þeirra, en þeir eru ýmist 8. eða 9. maður frá Grími.
Frú Ásdís Rafnar, prestskona á Útskálum, nú á Akureyri, Soffía Guðlaugsdóttir systir hennar, leikkona í Rvík, frú Matthildur Finnsdóttir, kennari í Gerðum í Garði, Finnur Jónsson, faðir hennar, fræðimaður á Kjörseyri, Magnús Jónsson, bróðir hans, bóndi í Junkaragerði í Höfnum, frú Torfhildur Hólm, skáldkona, frú Guðrún Briem, kona Sigurðar Briem póstmeistara, frú Karolína Ísleifsdóttir, kona Guðm. Hannessonar prófessors, og Halldór Kiljan Laxness skáld. Grímur Bergsson hefur verið drengskaparmaður. Það sést bezt, er litið er á þátt þann, er hann átti í því að liðsinna Hallgrími skáldi Péturssyni, er hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár, með konuefni sitt Guðríði Símonardóttur. Komu þau út í Keflavík sagt á verzlunarskipi. Hafði Hallgrímur hætt námi til þess að fylgja Guðríði út til Íslands. Hefur hann án efa vel séð, hver kjör biðu sín hér, er hann kaus þennan kost.
Sýnir hinn fagri ferðasálmur, er hann orti áður en lagt var í haf, hve örugglega hann hefur falið sig Guðs handleiðslu. Grímur bjó þá í Ytri-Njarðvík. Hann tók Guðríði á heimili sitt og fæddi hún þar fyrsta barn þeirra Hallgríms það sama sumar. Reyndist Grímur þeim hinn bezti vinur. Mun Guðríður hafa dvalið í Ytri-Njarðvík í umsjá Gríms og konu hans, þar til hún giftist. En Hallgrímur vann eyrarvinnu hjá Keflavíkurkaupmanni um sumarið.
Grími bónda hefur auðsýnilega verið áhugamál að hjálpa þeim enn betur. Hinn 19. maí 1638 ritaði hann bréf til þess að leita samskota til handa Hallgrími í fjársektina, er hann var fallinn í. Bað hann „góða menn á Suðurnesjum gefa honum 1, 2, 3 fiska eftir því sem Guð blési sérhverjum í brjóst“. Grímur komst í mál út af bréfí þessu vegna þess, að hann hafði ritað, að hirðstjórinn, Pros Mundt, hafi gefið í sitt vald barnssektina og ætlaði að láta nægja 8 vættir fiska í stað 18 vætta. Er Grímur kom fyrir Kálfatjarnarþing hið sama haust, gat hann ekki sannað mál sitt, kvað vitni sigld. Var hann því dæmdur fjölmælismaður og bréfið nefnt lygabréf, „hugðu þó flestir að hann mundi satt mæla“ segir í ævisögu séra Hallgríms. (Gestur Vestfirðingur V. árg.). Mál þetta kom fyrir alþing 1639. Var Grímur þar. dæmdur í 20 dala sekt til fátækra og Kálfatjarnardómur staðfestur. Voru þó margir er lögðu honum líknarorð. Þannig voru launin fyrir að greiða veg þess manns, er átti eftir að verða einn hinn mesti skáldsnillingur Íslendinga og hefur svo löngum farið. Um samskotin í sektargjaldið er ekki vitað, en hitt er víst, að það hefur verið greitt, því annars hefðu þau Hallgrímur og Guðríður ekki getað gifst. Er sennilegt að hinir fátæku bændur á Suðurnesjum hafi lagt þar til sinn skerf. En Grímur bóndi í Njarðvík hefur enn sem fyrr verið þeim hliðhollur. Eftir giftingu þeirra bjuggu þau í Baulufæti (Bolafæti), sem var hjáleiga frá Ytri-Njarðvík og rétt við túnfótinn. Hafa þau eflaust verið þar í skjóli Gríms.
Munnmæli, er lifðu enn syðra um síðustu aldamót heyrði ég um dvöl þeirra í Bolafæti. Áttu þau að hafa búið þar nokkur ár. Sagt var að Hallgrímur hefði á sumrum unnið hjá Keflavíkurkaupmanni, en gengið heim og heiman kvölds og morgna.
Nálega 250 árum síðar bjó niðji þeirra, séra Hallgríms og Guðríðar, í Bolafæti um mörg ár. Það var Magnús smiður Árnason, hinn mesti atorku- og sæmdarmaður, faðir Vigfúsar skipasmiðs í Veghúsum í Keflavík. En Magnús var sjöundi maður frá séra Hallgrími.
Árið 1703, um vorið, var manntal á Íslandi skráð í fyrsta sinn. Þá var heimilisfólk í Keflavík eftirtaldir 6 menn: Halldór Magnússon sem þar býr 52 ára. Hallgerður Árnadóttir kona hans 42 ára. Jakob Halldórsson sonur þeirra 22 ára. Þorbjörg Nikulásdóttir dótturbarn þeirra 8 ára.
Guðríður Þorsteinsdóttir vinnukona 32 ára. Gunnhildur Þorgeirsdóttir tómthúskona 52 ára.
Um ætterni Halldórs er ég ekki fróð, en Hallgerður kona hans hefur án efa verið dóttir Arna bónda á Stóra-Hólmi í Leiru Jakobssonar, (Árni býr þar 1703, 82. ára) en hann var sonur Jakobs bónda á Þorkötlustöðum í Grindavík, Helgasonar. Þorbjörg litla, dótturbarn þeirra Keflavíkurhjóna, var frá Stóru-Vogum. Þar voru foreldrar hennar húshjón (1703) þau Auðbjörg Halldórsdóttir og maður hennar Nikulás Þóroddsson. Þar er einnig skráð Þorbjörg dóttir þeirra, sögð vel 3. ára. Getur hvorttveggja verið að telpan sé sú hin sama og skráð er í Keflavík, eða að dæturnar hafi verið tvær með sama nafni.
Sá siður var algengur fyrrum, að foreldrar létu börn sín, tvö eða þrjú, heita sama nafni. Mun sá siður hafa átt rót sína að rekja til hins mikla og ægilega barnadauða, er þá lá eins og mara á þjóðinni. En áhersla var lögð á það, að þau nöfn ættarinnar lifðu, er mest voru í heiðri höfð.“
Heimild:
-Faxi, 7. árg., 6. tbl., frú Marta Valgerður Jónsdóttir: Fyrstu ár Keflavíkur, bls. 1-4.