Gamli Þingvallavegurinn
Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.
Nýi Þingvallavegurinn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks.
Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.
Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.
Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.
Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar „púkkrás“ þvert í gegnum veginn.
Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.
Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.
Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín.
Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.