Garðakirkja – lágmynd yfir andyri

Garðakirkja

Sævar Tjörvason sendi FERLIR eftirfarandi:

Garðakirkja

Garðakirkja 1966.

„Garðakirkja á sér merka sögu. Byggingarsaga hennar hefur að mestu verið endurgerð en erfitt virðist vera að rekja sögu einstakra muna og myndverka sem tilheyra kirkjunni í dag. Finn t.d. ekkert um veggmyndina (sexæringur) fyrir ofan kirkjuhurð Garðakirkju.

Finn ekkert um hana þegar ég fletti upp ýmsum gögnum um Garðakirkju enda er myndin ekki svo gömul.
Þessi veggmynd vísar til árabátatímabilsins. En höndin og sérstök stelling handar og fingra gefa einhver skilaboð væntanlega til sjómanna fyrri tíma. Þetta verk er því afar symboliskt. Stend alveg á gati fyrir utan að ekkert er að finna um sögu verksins og listamannsins. Væri þér þakklátur ef þú gætir bjargað mér í land.

Kristjana Samper

Kristjana Samper.

PS: Afi minn (f. 1872) ólst upp á Bakka sem landbrotið tók fyrir langa löngu. Í verbúð sem heyrði undir Pálshús. En séra Þórarinn Böðvarsson skólaði hann.
Þessi afi minn varð einn nafntogaðisti sjóari þess tíma. Um ævi hans og síðustu för hans frá Hafnarfirði til Keflavíkur orti Örn Arnarsson kvæðið Stjáni blái.“

Lágmyndin framan á Garðakirkju var gerð í tilefni 30 ára endurvígslu kirkjunnar. Hún er af táknmynd Páls postula eftir listakonuna Kristjönu Samper. Þá var sagt að Garðakirkja væri fullbyggð.

Garðakirkja

Garðakirkja – andyrið og lágmyndin.

Lágmyndin er frá 1996 og var staðsett yfir ytra andyri kirkjunnar. Hún er úr grásteini, kostuð af Kvenfélagi Garðabæjar (kostaði kr. 189.614) og á að tákna, sem fyrr sagði, Pál postula með vísan til atvinnuhátta Garðahverfinga fyrrum þar sem árabáturinn er annars vegar.

Lágmyndarinnar er ekki getið í nýútgefnu veglegu afmælisritverki Hafnarfjarðarkirkju þar sem eitt ritið af þremur fjallar nær einungis um Garðakirkju.

„Kærar þakkir fyrir ómakið. Kem iðulega við þarna vegna tengsla við afa minn sem Þórarinn Böðvarsson hafði mikil áhrif á. Síðast staldraði ég við veggmyndina og sá að hún smellpassaði þarna – rétt áður en áhöfnin, og börn, gestir sóknarinnar ganga inn í kirkjuskipið. Vel til fundið.“ – Sævar

Heimild:
-Rit Kvenfélags Garðabæjar 2023 – 70 ára, Menning og mannúð, Ágrip af sögu Kvenfélags Garðabæjar tímabilið 2003-2023.

Garðakirkja

Garðakirkja – lágmynd ofan við andyrið.