Gerðisstígur – Sveinsskúti
Gengið var um Gerðisstíg, að Neðri-hellum, Vorréttinni og Efri-hellum og síðan yfir Seljahraun að klettasvæði sunnan línuvegarins. Hraunið á því svæði, þegar halla tekur til suðurs, er þarna mjög stórbrotið.
Þá var vent til vesturs inn á Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) (Skógargötu) og stefnan tekin til suðurs. Suðvestan af götunni, áleiðis upp í Óttarsstaðasel, í litlu jarðfalli, er Sveinshellir. Hleðslur eru við innganginn, en fyrir honum eru þéttar birkihríslur, sem fylla jarðfallið og loka hellinum svo til alveg. Óttastaðaselsstígurinn var genginn spölkorn til baka en síðan var beygt út af honum til norðausturs og haldið skáhallt yfir hraunið að línuveginum og yfir hraunkantinn norðan hans þar sem það er þrengst (örfáir metrar). Þaðan var greiður gangur niður að Alfaraleið. Við Þorbjarnastaði var litið á Kápuhelli og Gránuskúta, en fyrir honum eru svolitlar hleðslur.
Við Neðri-hella er hlaðið gerði í hraunkantinum (Kapelluhraun). Hleðsla er innan við hraunkantinn og hlaðið er fyrir breiða sprungu, gróna í botninn sunnan við hellana. Fyrir meginhellinum er hleðsla.
Þessir hellar hafa verið notaðir sem fjárskjól. Sama á við um Efri-hella, sem eru þarna skammt ofar, einnig á grónu svæði næri því utan í hraunkantinum. Falleg hleðsla er fyrir munnanum og einnig í jarðfalli skammt austar. Ofan við hellana gnæfir andlitslaga hraunklettur. Sagan segir að við Efri-hella geti verið mikill draugagangur á köflum, líkt og í Hrauntungum, sem eru þarna skammt ofar. Í þeim er einnig hlaðið fyrir fjárskjól, auk fleiri minja.
Vorréttin er undir Kaplahrauni, fallega hlaðinn. Frá henni er greiður gangur út af Gerðisstígnum upp að Kolbeinshæðaskjóli, enn einu fjárskjólinu á svæðinu.
Að þessu sinni var strikið hins vegar tekið yfir Selhraunið, þvert á Straumsselsstíginn og yfir á Óttarstaðaselstíg (Rauðamelsstíg/Skógargötu) og að Bekkjaskúta. Hann er þar uppi í stóru jarðfalli, einnig fallega hlaðið fyrir.
Austar er Sveinsskúti, en á milli skútanna er hlaðið lítið byrgi, skjól fyrir einn mann. Annars er hraunið þarna einstaklega fallegt, einkum að haustlagi. Ofar er Óttarstaðaselið með Norðurskúta, Tóhólaskúta, Rauðhólsskúta, Nátthaga, stekk, vatnsstæði og öðrum mannvirkjum er prýtt getur eitt sel. Þá er hægt að fylgja Skógargötunni áfram upp í Skógarnef og áfram upp Mosana áleiðis að Trölladyngjusvæðinu.
Gengið var í rólegheitum í gegnum hraunið niður að Þorbjarnarstöðum og kíkt á nafngreinda skúta þar. Þorbjarnastöðum tilheyra mörg mannvirki í Hraununum, s.s. Þorbjarnastaðaborgin, líklega Fornasel í Almenningum og jafnvel Gjáselið, fjárhellir ofan við Brunntorfur, heimaréttin og Þorbjarnastaðréttinn suðaustan við bæinn, svo eitthvað sé nefnt. Allt er þetta innan seilingar fyrir þá, sem vilja og nenna að hreyfa sig svollítið í sagnaríku og fallegu umhverfi.
Veður var bjart, stillt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.