Ginið

Húshellir

Eftirfarandi er tekið af vef Hellarannsóknarfélagsins eftir ferð í Ginið:

Ginið

Ginið.

„Eftir fund Ginsins hafa félagar í HERFÍ iðað í skinninu og beðið þess að berja undrið augum. Af þessu varð í dag.
Föngulegur hópur hellaáhugamanna, undir leiðsögn FERLIRs, þrammaði um Hrútagjárdyngjuna með það eitt að markmiði að skoða 2 „nýja“ hella og einn vel þekktan. Fyrsta stoppið var við sprungu sem liggur rétt sunnan við Dyngjuna sjálfa. Hér er á ferð þröng sprunga (engar bjórvambir leifðar í þessum) sem liggur um 10-15m niður í hraunið. Það merkilega við þessa sprungu er að bráðið hraun hefur fundið sér farveg í sprungunni og myndað fossa, kvikutauma og 8-10cm kvikuhúð um alla sprunguna. Þessi kvikuhúð er sumstaðar laus eða að losna og er því nauðsynlegt að vera með hjálm og passa vel upp á hrun. James, Jakob og Fernando skriðu niður og fullkönnuðu alla afkima hellisins. Hann heldur áfram bæði að ofan og neðan, en vegna þess að við erum allir komnir á gamals aldur og búnir að ná fullri stærð þá tókst okkur ekki að troða ofvöxnum líkömum okkar áfram.

Húshellir

Í Húshelli.

Á leiðinni í Ginið stoppuðum við í Húshelli. Eftir að hafa skoðað hleðslunar í Húshelli og beinin héldum við yfir hraunið og út í auðnina. Hraunið hér er slétt helluhraun, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við okkur og öskraði á okkur „komið niður“. Þó við höfum verið allar að vilja gerðir þá gafst ekki tími til að skoða undrið því við höfðum aðeins 30 mín eftir af dagsbirtu og héldum því fljótlega niður að bílunum. Hellirinn er um 15 m djúpur og snjór er í botninum. Varla sést marka fyrir gjalli eða kleprum á yfirborði og því er hér um að ræða 15 m niðurfall sem birtist í hrauninu eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta op verður næsta viðfangsefni HERFÍ – jafnvel þó að ekkert sé þarna niðri er þetta eflaust „töff“ hellafundur.“

Ginið

Ginið.