Grafningur

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2013 fjallar Guðfinna Ragnarsdóttir um Grafninginn.

Nesjavellir
“Grafningurinn skipar heiðurssess í blaðinu að þessu sinni. Þar segir frá þekktum forfeðrum og ríkum ættartengslum innan þessarar litlu sveitar, svo og sögufrægum bæjum þar sem óleystar gátur leynast í grasigrónum rústum. Í gömlum upptökum frá systkinunum frá Úlfljótsvatni lesum við einnig um hjátrú og kynlega kvisti.

Grafningurinn var lengi nokkuð einangraður. Á aðra hönd er stóráin Sogið, Þingvallavatn framundan á löngum kafla og vestan við eru fjöll og firnindi. Á Soginu voru góðir ferjustaðir þótt vað væri aðeins eitt. Efsti ferjustaðurinn var yfir Þingvallavatn ofan við Dráttarhlíðina, ekki langt frá útfallinu. Hann var mjög hættulegur og varð þar eitt sinn stórslys þegar menn og skepnur soguðust ofan í útfallið. Annar ferjustaður var neðan við Dráttarhlíðina á móts við Kaldárhöfða. Þriðji ferjustaðurinn var við neðanvert Úlfljótsvatn. Sá fjórði var skammt ofan við Ljósafoss og sá fimmti var frá Bíldsfelli gegnt Ásgarði. Eina vaðið á Soginu var um Álftavatn. Botninn er þar góður, harður sandbotn. Venjulega er þar ekki mjög djúpt, víðast litlu meira en í kvið á hesti. Þó segir í Sturlungu um för þeirra Sturlu Sighvatssonar og Gissurar Þorvaldssonar, þegar þeir komu úr Apavatnsför 1238, að þeir „höfðu djúpt“ er þeir riðu yfir Álftavatn.

Grafningshálsinn

Grafningur

Sporin í Grafningi.

Þeir Sturla og Gissur munu einnig hafa riðið gamla alfaraleið frá Álftvatnsvaðinu, yfir Grafninginn, um Grafningsháls á leið sinni að Reykjum í Ölfusi.
Grafningshálsinn var þjóðleið milli Ölfuss og Grafnings. Um hann fóru skreiðarflutningar Skálholtsbiskupsstóls, en Skálholtsmenn létu flytja sér skreið frá Þorlákshöfn allt fram undir lok 18. aldar.
Leiðin lá um svo kallaðan Djúpa-Grafning, sem er gróið dalverpi, sem á kafla er flóraður, þ.e. hellulagður. Farið var upp hjá Litla-Hálsi og komið niður í Ölfusið hjá Hvammi. Sumir telja að nafnið Grafningur sé komið af Djúpa-Grafningi.

Íbúar og hreppatengsl
GrafningurGrafningur tilheyrði Ölfushreppi til ársins 1785. Síðan var hann sérstakur hreppur fram til 1828 þegar hann sameinaðist Þingvallahreppi. Á þessum árum var náin samvinna við Grímsneshrepp. Grafningurinn varð aftur sjálfstæður 1861 og var það í rúma öld. Hann sameinaðist svo Grímsneshreppi 1998.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708, eða þar um bil, er getið ellefu lögbýla og þriggja hjáleiga í Grafningi í Ölfushreppi. Heimilismenn á þessum bújörðum eru samkvæmt manntalinu 1703, 94 að tölu. Þar við bætast „fátækir flakkarar“ og „óráðvandir, latir en vinnufærir“ samtals 31 að tölu í Ölfusi og Grafningi.
Fyrir einni öld voru tólf bæir í Grafningshreppi og íbúarnir rúmlega eitt hundrað, nú er búskapur á um helmingi jarðanna og íbúar undir 50.
Í sveitalýsingu sinni frá 17. öld segir Æri-Tobbi:
“Arra sarra, urra glum
illt þykir mér í Flóanum.
Þagnar magnar þundar klið
þó er enn verra Ölvesið.”
Fátt segir af mannlýsingum forðum en skemmtileg er lýsing Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar í Ferðabók þeirra frá árunum 1755-56. Þar lýsa þeir uppsveitamönnum þannig að þeir séu: …stórir vexti og vel á sig komnir… sjaldnast hraustlegir í andliti en nokkuð fölleitir… Fólkið sem alizt hefir upp í verstöðvunum er yfirleitt ófríðara og verr vaxið en sveitafólkið.

Kirkjur
ÖlfusvatnÞekktir eru fimm kirkjustaðir í Grafningi. Elsta kirkjan var á Ölfusvatni, hennar er getið 1180. Á Úlfljótsvatni er komin kirkja 1220 og einnig á Bíldsfelli. Laust fyrir 1400 er svo reist kirkja á Torfastöðum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir einnig að enn sjáist sýnileg merki kirkjutóftar og kirkjugarðs í Nesjum.
Á 16. öld eru aðeins eftir tvær kirkjur í Grafningnum, á Ölfusvatni og Úlfljótsvatni. og 1706 er aðeins eftir kirkjan á Úlfljótsvatni. Núverandi kirkja er byggð 1863 á gömlu kirkjustæði í útgröfnum kirkjugarði.
Ófeigur Jónsson, bóndi og smiður frá Heiðarbæ, málaði altaristöflu kirkjunnar. Hún sýnir heilaga kvöldmáltíð. Í turninum eru tvær koparklukkur með ártalinu 1744.

Bæir í byggð
Í dag eru sjö bæir í byggð: Torfastaðir II, Úlfljótsvatn, Bíldsfell, þar er tvíbýli, Stóri-Háls, Litli-Háls, Villingavatn og Nesjar. Á Torfastöðum II og LitlaHálsi ólst rithöfundurinn Ólafur Jóhann Sigurðsson upp. Úlfljótsvatn er kirkjustaður. Nafnið er fengið frá Úlfljóti, fyrsta lögsögumanninum, frá 930.
Skátahreyfingin hefur haft aðstöðu á hluta jarðarinnar frá 1944 og 1967 fékk Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar þar land undir orlofshús. Árið 2012 keyptu Skógræktarfélag Íslands Úlfljótsvatn ásamt Bandalagi íslenskra skáta og Skátasambandi Reykjavíkur. Á Úlfljótsvatni bjuggu lengi hjónin Kolbeinn Guðmundsson (1873-1967) og Geirlaug Jóhannsdóttir (1870-1952). Þau hjónin voru systkinabörn, bæði barnabörn Nesjavalla-Gríms og Hallgerðar konu hans. Vilborg dóttir þeirra var lengi kennari á Ljósafossi. Foreldrar Kolbeins voru Guðmundur Jónsson og Katrín Grímsdóttir sem bjuggu í Hlíð í Grafningi. Foreldrar Geirlaugar voru Jóhann Grímsson og Katrín Guðmundsdóttir. Þau bjuggu á Nesjavöllum. Bíldsfell er landsnámsjörðin í Grafningi. Hana nam Þorgrímur bíldur, (bíldur=blóðtökuhnífur). Bíldsfell var talin með bestu jörðum í Árnessýslu. Þar var mikill gróður, góðar slægjur og traust vetrarbeit auk mokveiði af laxi. Bíldsfell er talið fyrsta sveitabýlið á Íslandi sem raflýst er frá vatnsaflsstöð en þar var bæjarlækurinn virkjaður árið 1912.
Á Stóra-Hálsi hefur búið Ársæll Hannesson, ásamt konu sinni Petrínu Sigrúnu Þorsteinsdóttur, og dóttir þeirra Ásdís, en rætur þeirra hafa staðið í Grafningnum í 240 ár. Nú er tekin við búinu Sigrún Jóna Jónsdóttir, dóttir Ásdísar. Á Villingavatni, sem er skilgreind sem fjallajörð í Sunnlenskum byggðum, bjó til skamms tíma Sigurður Hannesson, bróðir Ársæls á Stóra-Hálsi. Hann lést 2012 og leigði Ingólfi Guðmundssyni frá Miðfelli jörð sína og búfé, með óvenjulegum skilmálum, að sögn, til rúmlega 90 ára, og býr Ingólfur, sem er rúmlega fertugur, þar í dag. Við Þingvallavatn, í landi Villingavatns, er fjárhellir sem notaður hefur verið frá ómunatíð. Skinnhúfuhellir er einnig í landi Villingavatns. Í Nesjum, sem er efsti bær í Grafningi, býr Örn Jónasson. Bærinn stendur á vestasta nesinu af þrem sem ganga út í Þingvallavatn vestanvert. Nesey tilheyrir Nesjum. Í Nesjum bjó forðum Þorleifur Guðmundsson, sem bjargaðist í brunanum í Norðurkoti 1773, og þar fæddist Nesjavalla-Grímur.
Bæir í eyði Grafningsbæir sem farnir eru í eyði eru Torfastaðir I, Tunga, Hlíð, Krókur, Hagavík, Ölfusvatn og Nesjavellir. Nesjavellir og Ölfusvatn eru í eigu Orkuveitunnar.
Sel voru frá mörgum bæjum og sjást seljarústir víða. Aðalréttin í Grafningnum er Selflatarétt, byggð 1910. Aðrar réttir voru Nesjavallarétt, en þangað var féð rekið af Mosfellsheiði og Dyrfjöllum, Ölkelduhálsrétt (1908-1930), sem var rúningsrétt, og Tindarétt (1960-1976), einnig rúningsrétt.

Orkugjafar

Ölfus

Ölfusölkelda.

Grafningurinn hefur ekki verið talin sérstök kostasveit í búskaparlegu tilliti, ef frá eru talin veiðihlunnindi í ám og vötnum. En auðæfi hreppsins eru vatnsorkan og jarðhitinn sem í dag eru bæði nýtanleg og nýtt.
Greinar Guðfinnu Ragnarsdóttur um Grafninginn og Grafningsbæina eru unnar upp úr eftirfarandi heimildum: Árbók Ferðafélags Íslands frá 2003, Þingvallavatn, Undraheimur í mótun frá 2002, í ritstjórn Péturs M. Jónassonar og Páls Hersteinssonar, Sunnlenskar Byggðir, III, Grímsnes Búendur og saga frá 2002. Ferlisgreinar af netinu eftir Ómar Smára Ármannsson og ýmsum munnlegum heimildum m.a. frá. Ársæli Hannessyni á Stóra-Hálsi.

Ölfusvatn

Ölfusvatn

Ölfusvatn – bæjarhóll.

Blótsteinar, brunnur, ósnortnar bæjarrústir og aldagamall bæjarhóll, traðir og dularfullt fangamark klappað í stein. Þetta og ótal margt fleira mætir þeim sem leggur leið sína að eyðibýlinu Ölfusvatni í Grafningi.
Ölfusvatn er landnámsjörð og ætla má að þar hafi verið búið óslitið frá landnámsöld. Jarðarinnar er getið í Harðar sögu Grímkelssonar. Þórðar saga kakala í Sturlungu greinir einnig frá því er Símon knútur var veginn á Ölfusvatni árið 1243, en hann var einn þeirra er stóðu að vígi Snorra Sturlusonar. Tumi Sighvatsson, bróðursonur Snorra, kom á Ölfusvatn og lét taka Símon. „Var hann út leiddur og höggvinn“.
Í túni Ölfusvatns eru tvö örnefni sem minna á hinn forna goða, Grímkel. Annars vegar er það Grímkelsgerði, óljós garður, sem liggur í boga suðvestur af bæjarhólnum. Hitt örnefnið er Grímkelsleiði.
Þar er talið að Grímkell hafi verið grafinn. Bæði Grímkelsgerði og Grímkelsleiði eru friðuð.
Sandey tilheyrði áður Ölfusvatni, upphaflega gjöf til Ölfusvatnskirkju. Kona gaf eyna til sáluhjálpar tveim sonum sínum sem hún missti í vatnið. Nú er eyjan talin sameign margra. Þar hefur verið gróðursettur barrskógur og lúpína við mismunndi undirtektir. Heyjað var í eynni fram um 1940 og heyið flutt á ís til lands á vetrum. Veiðibjölluvarp var nýtt til eggjatöku.
Ölfusvatn hefur verið í eyði síðan 1947 og má þar enn sjá húsatóftir og garðleifar. Bæjarstæði Ölfusvatns er einstakur minjastaður og óskaddaður að mestu leyti. Bærinn fór í eyði áður en byrjað var að beita stórvirkum vinnuvélum við sléttun túna og bygginga. Á Ölfusvatni er því óskemmdur bæjarhóll þar sem eru upphlaðnar leifar af bæjarhúsum síðustu 1000 ára og útihúsatóftir gefa hugmynd um forna búskaparhætti.
Bæjarstæðið eða bæjarhóllinn er mjög greinilegur og má enn greina í honum herbergja- og húsaskipan síðasta bæjarins. Enn fremur sjást leifar nokkurra útihúsa í túninu.

Traðir og brunnur
ÖlfusvatnUppbyggð heimreið, traðir, liggja heim að bænum en framan eða austan við þær voru kálgarðar. Inni í bæjarrústunum er djúpur, hlaðinn brunnur með vatni. Sigurður bóndi á Villingavatni taldi þennan brunn vera einn þann elsta í Grafningnum.
Samkvæmt Landnámabók hét Þingvallavatn áður Ölfusvatn. Eftir að Alþingi kom saman á Þingvöllum var heiti vatnsins breytt í Þingvallavatn. Samkvæmt fornum heimildum var Ölfusvatn stórbýli. Jarðirnar Hagavík og Krókur eru gamlar hjáleigur frá Ölfusvatni sem urðu sjálfstæð býli á 10. öld.
Sóknarkirkja var byggð á Ölfusvatni kringum 1200. Kirkjan stóð fram undir 1600 en eftir það lagðist sóknin til Úlfljótsvatnskirkju. Í dag er ekki vitað með vissu hvar Ölfusvatnskirkja stóð, en fast sunnan við bæjarhólinn er sjálfstæð rústabunga sem mögulega er hið forna kirkjustæði. Síðustu merki kirkju og kirkjugarðs sáust enn í byrjun 18. aldar.

Blótsteinn?
Margar merkilegar minjar má finna á Ölfusvatni. Um tveim metrum austan við framhlið bæjarins, á hlaðinu, er að finna stein, svo kallaðan blótstein eða hlautstein. Ekki er vitað með vissu hvert hlutverk þessa steins hefur verið. Fleiri minni blótsteinar hafa fundist við bæinn. Getgátur eru um að hann hafi verið í hofi Grímkels Goða, en hann var sagður blótmaður mikill. Aðrar tilgátur eru um að hann hafi staðið fyrir dyrum hinnar fornu Ölfusvatnskirkju og að í steininum hafi verið vígt vatn. Sagt er frá slíkum steinum í fornum heimildum.
Hof Grímkels var helgað Þorgerði hörgabrúði, en hún var yfirnáttúruleg vera sem víða er getið í fornritum. Engar ótvíræðar hoftóftir sjást á yfirborði en örnefnið Hofkofi gefur þó vísbendingu um hvar menn hafa talið að hofið hafi staðið.

Óleyst gáta?
ÖlfusvatnÍ brekkurótum, beint ofan við bæjarstæðið, er steinn með áletruninni, VES 1736 og á honum er kross. Steinninn er ekki auðfundinn en hjá honum er steinahrúga, sú eina á svæðinu. Þessi steinn var friðlýstur árið 1927. Fróðlegt væri að vita fyrir hvað stafirnir standa. Athugun á Mt 1703 leiddi ekki margt í ljós. Þó fann greinarhöfundur bónda nokkurn sem stafirnir gætu átt við. Það var Valgarður Einarsson, bóndi á Efri-Brú í Grímsnesi, sem er í næsta nágrenni við Ölfusvatn. Hann er sagður 43 ára árið 1703. Stafirnir gætu átt við, V fyrir Valgarður, E fyrir Einar og S fyrir son, en þannig skráðu menn oft fangamark sitt áður og fyrr. Það sem mælir gegn þessum manni er að hann hefði átt að vera nokkuð fullorðinn, eða 76 ára, árið 1736. Hann er þó enn á lífi og enn á Efri-Brú í Mt 1729. Valgarður þessi átti amk tvö börn sem nefnd eru í Mt 1703, Guðbrand þá 8 ára og Guðrúnu 1 árs. Hvort þau bjuggu á Ölfusvatni er ekki gott að vita. „Aldirnar leifðu skörðu“.
En hver svo sem það er sem hefur hoggið fangamarkið sitt í þennan stein er óhætt að mæla með heimsókn að Ölfusvatni í Grafningi. Þar blasir fortíðin við manni.

Átthagatryggð
Sjö kynslóðir í Grafningi
Sigrún Jóna Jónsdóttir er rúmlega þrítugur búfræðingur sem er nýtekin við búi á ættaróðalinu Stóra-Hálsi í Grafningi, þar sem bæði móðir hennar, Ásdís, og afi hennar og amma, Ársæll og Petrína Sigrún, hafa búið. Þegar hún lítur yfir ættarsöguna og Grafninginn getur að líta ótrúleg átthagatengsl, en þar hafa forfeður hennar búið í 240 ár, á átta af tólf jörðum Grafningsins.
Það var árið 1773 sem lítill, munaðarlaus drengur var ferjaður á bátskænu yfir Úlfljótsvatn ásamt vinnukonu sem skömmu áður hafði bjargað honum út úr brennandi bænum í Norðurkoti í Grímsnesi. Þar brunnu foreldrar hans inni. Á Úlfljótsvatni bjó föðurbróðir hans, Halldór Brandsson, og hjá honum ólst drengurinn, Þorleifur Guðmundsson (1770-1836) upp.
Steindór Finnsson sýslumaður ávaxtaði fé Þorleifs og keypti í fyllingu tímans handa honum jörðina Nesjar í Grafningi, þar sem hann reisti bú ásamt konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur frá Efri-Sýrlæk í Flóa. Þeim varð átta barna auðið og var eitt þeirra Grímur, Nesjavalla-Grímur (1799-1867). Guðrún drukknaði þegar hún féll niður um ís við að vitja um net í Þingvallavatni. Þá flutti Þorleifur bæ sinn að Nesjavöllum. Hann þoldi ekki að sjá vatnið sem hafði rænt hann eiginkonunni.

Fimm Grafningsbændur
Á Nesjavöllum bjó síðan Grímur sonur þeirra og á eftir honum Jóhann (1843-1926) sonur Gríms. Margrét (1888-1965) dóttir Jóhanns varð síðar húsfreyja á Stóra-Hálsi og giftist Hannesi Gíslasyni. Fimm börn þeirra urðu bændur í Grafningnum: Sigurður á Villingavatni (1926-2012), Valgerður (1912-2003) húsfreyja á Torfastöðum, Ársæll f. 1929 á Stóra-Hálsi, Dagbjartur (1919-1999) á Úlfljótsvatni og í Hlíð og Kjartan (1920-1979), bóndi á Ingólfshvoli í Ölfusi, hafði stórt fjárbú á Litla-Hálsi á þriðja áratug. Meðal barna Margrétar og Hannesar á Stóra-Hálsi voru einnig Hannes (1913-1984) bóndi á Kringlu í Grímsnesi og Jóhann (1910-1976) trúboði, guðfræðiprófessor og þjóðgarðsvörður.
Gísli Magnússon, (1853-1943) faðir Hannesar, var bóndi og sýslunefndarmaður á Króki í Grafningi. Faðir hans var Magnús Gíslason (1813-1887) bóndi og hreppstjóri á Villingavatni og faðir hans var Gísli Gíslason (1774-1858) einnig bóndi og hreppstjóri á Villingavatni. Kona hans var Þjóðbjörg, ljósmóðir, dóttir Guðna Jónssonar (1716-um 1783) í Reykjakoti, sem Reykjakotsætt er frá talin.

240 ár
Úlfsljótsvatn..Um þessar mundir eru liðin 240 ár frá því að Þorleifur litli Guðmundsson steig fyrst á land í Grafningnum. Ásdís f. 1955, dóttir Ársæls og konu hans Petrínu Sigrúnar Þorteinsdóttur, bjó síðan með foreldrum sínum á Stóra-Hálsi. Hún er gegnum föðurömmu sína 5. ættliður frá litla, munaðarlausa drengnum sem forðum var ferjaður yfir Úlfljótsvatnið ásamt lífgjafa sínum. Nú hefur dóttir hennar, Sigrún Jóna Jóndóttir, f. 1981, tekið við búinu, nýútskrifaður búfræðikandidat frá Hvanneyri. Í Grafningnum bjuggu afkomendur Þorleifs þannig óslitið mann fram af manni og enn býr sem sagt barnabarnabarnabarnabarnabarnið hans, Sigrún Jóna, á einni af þeim sjö jörðum Grafningsins sem í byggð eru.
Og ekki nóg með það. Sigrún Jóna er einnig, gegnum föðurafa móður sinnar, 6. ættliður frá Gísla Gíslasyni, bónda og hreppstjóra á Villingavatni. Forfeður hennar og frændur hafa því byggt Nesjar, Nesjavelli, Stóra-Háls, Litla-Háls, Villingavatn, Úlfljótsvatn, Hlíð og Torfastaði. Traustari rætur er tæpast hægt að hafa í Grafningnum.

Nesjar og Nesjavellir

Nesjavellir

Nesjavellir.

Nesja í Grafningi mun fyrst getið í gjafabréfi frá 1539. Erlendur Þorvarðarson lögmaður gaf Margréti dóttur sinni jörðina ásamt mörgum öðrum til giftumála. Þá er jarðarinnar getið í Gíslamáldögum vegna þess að þaðan var kirkjusókn að Ölfusvatni.
Tvö fornbýli eru talin hafa verið í landi Nesja: Setbergsból og Vatnsbrekkur (Steinröðarstaðir). Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708 er jörðin í Nesjum sögð 20 hundruð. Þá voru enn sýnileg merki kirkjutóftar og kirkjugarðs. En bóndinn bar sig illa við þá Árna og Pál því hvorki voru til net né bátur til þess að veiða þá gnægð silungs sem í vatninu var. Jörðin átti þá nægan skóg til kolagerðar og eldiviðar og enn er mikið birkikjarr í landi Nesja. Engar vatnslindir finnast í landinu.
Nesjaey liggur undan Nesjum. Þar var heyjað um skeið fyrr á öldum en beðið var með heyflutninginn í land þar til vatnið lagði. Þar var einnig veiðibjölluvarp.
Grafningsbændur hlífðu slægjum heima fyrir og höfðu í seli líkt og aðrir bændur á Reykjanesskaganum.
Hér kom það einnig til að bjarga þurfti búsmala á sumrin undan mýbitinu á bökkum Sogs og Þingvallavatns.
Kýr voru af þeim sökum einnig oft hafðar í seli, auk sauðfjárins.
Afrétt áttu Nesjar, að sögn Jarðabókar Árna og Páls, árið 1706, undir Hengli. Þá áttu Nesjar samkvæmt sömu heimild fleiri en eina selstöðu: „Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifasel, Klængsel og Vallasel.“

Nesjavellir

Tóft við Nesjavelli.

Í ritinu Sunnlenskar byggðir, III. bindi, er sérstakur kafli um selstöður í Grafningi. Þar segir meðal annars: „Hálendið upp af bæjunum telst til heimalands jarðanna. Er þar mikið beitiland og var fyrrum mjög notað til selstöðu. Sér þar víða til selrústa.“
Um 1800 bjó í Nesjum Þorleifur Guðmundsson (um 1770-1836). Hann byggði jörðina Nesjavelli úr landi Nesja 1819 eða 1820, þar sem áður stóð Vallasel. Fyrsta bæjarstæðið á Nesjavöllum, þangað sem Þorleifur flutti, er fast við þjóðveginn, nokkur hundruð metrum vestan við Nesjavallaafleggjarann, vatnsmegin við veginn, rétt áður en brekkurnar byrja, þegar ekið er til vesturs.
Þorleifur, sem oft er kallaður faðir Nesjavalla ættarinnar, andaðist á Nesjavöllum 8. janúar 1836. Alls urðu börn Þorleifs 18. Eftir lát Þorleifs tók við búi Grímur, sonur hans og Guðrúnar fyrri konu hans. Hann er ávallt kenndur við bæ sinn og kallaður Nesjavalla-Grímur. Hann byggði bæinn upp á nýjum stað, syðst á Völlunum, skammt þar frá sem hann er nú. Ástæða flutningsins er talin sú að erfitt var með vatnsból enda gropin hraun allt um kring. Nesjavellir voru erfið jörð hvað heyskap varðaði og dugði ekki hey það sem náðist af túni og engjum. Nesjavalla-Grímur lést á Nesjavöllum árið 1867.
Nesjavallabærinn var forðum í þjóðbraut, þá er farinn var hinn forni Dyravegur. Þorvaldur Thoroddsen fór Dyraveginn árið 1883 og segir m.a. „Frá Nesjavöllum fórum við Dyraveg. Hann er mjög brattur að austan. Dyrafjöll ganga norður úr Henglinum.“
Nú er Orkuveita Reykjavíkur eigandi Nesjavalla líkt og fleiri jarða í Grafningi og Ölfusi.

Sigurður á Villingavatni og Orkuveitan
Orkuveitan hefur um langt árabil rennt hýru auga til ýmissa jarða í Grafningnum, m.a. Villingavatns. Jarðhitinn lokkar.
Góð saga er til um samskipti Orkuveitunnar við Sigurð á Villingavatni, etv. örlítið færð í stílinn, eins og allar góðar sögur.
Dag einn buðu þeir Orkuveitumenn Sigurði í kaffi og buðu honum 300 milljónir í jörðina. Ekki sinnti Sigurður því tilboði. Nokkru seinna buðu þeir Sigurði í mat og hækkuðu tilboðið í 600 milljónir. Þeir bættu því við að honum væri velkomið að búa áfram á jörðinni. Árangurinn af þeim samskiptum var klénn. Sigurði varð ekki þokað. Hápunktur ósvífninnar var, fannst honum, að þeir skyldu bjóða sér að búa áfram á hans eigin jörð. Orkuveitumenn sáu að Sigurður mundi reynast þeim erfiður og að hér þyrfti betra boð og aðrar aðferðir. Þeir ákváðu því að bjóða Sigurði í mat suður til Reykjavíkur. Þáði Sigurður það og að málsverði loknum gerðu þeir honum tilboð. 1 milljarður, takk, fyrir Villingavatnið. Ég held ykkur væri nær að gefa Háskólanum þennan milljarð, því ekki fáið þið Villingavatnið, sagði Sigurður og fór aftur heim.
Þar með lauk samskiptum Orkuveitunnar og Sigurðar Hannessonar á Villingavatni.
Þetta er saga sem er þess virði að vera sögð sagði Ingunn Guðmundsdóttir frá Efri- Brú. Hún [sagði með] sanni að enn finnist bændur á Íslandi sem ekki séu tilbúnir að láta lendur og heiðar sauðkindarinnar í hendur Mammons, hvaða verð sem sé í boði.” – Guðfinna Ragnarsdóttir.

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins; Grafningurinn, Guðfinna Ragnarsdóttir, 3 tbl. 01.09.2013, bls. 3-9.
Ættfræðifélagið