Grindavík 1950 – G.Þ.

Grindavík

Í Tímanum 1950 fjallar G.Þ. um Grindavík undir fyrirsögninni „Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju„:

Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju“

Grindavík

Grindavík – bræðslan á fullu.

Í haust getur að líta marga tugi síldarskipa við bryggju í Grindavíkurhópi.
Í Grindavík hefir á fáum árum orðið merkileg atvinnuþróun. Fyrir tíu árum var þar aðeins útgerð lítilla trillubáta, vegna slæmra hafnarskilyrða fyrir stærri báta. Nú eru þar á þessu hausti helztu hafnarbækistöðvar síldarflotans við Suðurland. Síld er söltuð á þremur plönum, myndarlegt frystihús vinnur vetraraflann, en ný hverfi af snotrum íbúðarhúsum teygja sig upp um hraunið. Töfrasproti atvinnubyltingarinnar og tækninnar hefir snert Grindavík.

Gömul verstöð

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1954 – loftmynd.

Grindavík hefur verið fiskiverstöð svo lengi, sem sögur fara af fiskiveiðum á Íslandi. Þar var stutt að róa á fengsæl mið, og fiskur brást sjaldan, ef gæfitir voru. Fyrr á árum var því blómlegt athafnalíf í Grindavík á þeirrar tíðar mælikvarða. Fjöldi manna komu í verið og fóru heim til sín með vænar klyfjar af skreið í vertíðarlok.
Svo varð Grindavík eftir ein og yfirgefin, þegar tæknin kom til sögunnar, og bæirnir risu fyrst þar sem hafnarskilyrðin voru bezt fyrir stærri báta. Blómleg verstöð var ein og yfirgefin að kalla, á móts við það, sem áður var.

Sjósókn fyrir opnu hafi

Grindavík

Grindavík – innsiglingin.

Þó hafa Grindvíkingar allt af stundað sjóinn af harðfengi og dugnaði, enda oft þurft á karlmennskunni að halda í baráttunni við úfinn sjóinn, úti fyrir ströndinni, þar sem úthafsöldur Atlantshafsins skella á hörðum skerjum í allri sinni tign og veldi. Fáum varð því þörf á stærri og betri bátum til Sjósóknar en einmitt Grindvíkingum, er stunduðu sjóinn eingöngu fyrir opnu úthafinu, og áttu oft allt undir því, að lendingin heppnaðist vel.

Höfnin og hraðfrystihúsið

Grindavík

Grindavík 1957 – loftmynd.

Á árunum fyrir styrjöldina var all mikil útgerð opinna trillubáta frá Grindavík. Hafnarskilyrðin leyfðu ekki notkun stærri báta þaðan. En þegar hafnarbæturnar byrjuðu að koma eftir 1940, stækkuðu bátarnir.
Árið 1942 gerður Grindvíkingar myndarlegt átak til að koma á fót frystihúsi og tókst það. Hraðfrystihús Grindavíkur á áreiðanlega sinn mikla þátt í því, auk hafnarbótanna, að Grindavík er það sem hún er. Jafnhliða hafnarbótum varð að sjá fyrir möguleikum til að hagnýta aflann, sem bezt. Þetta mun frystihúsinu líka hafa tekizt undir hagkvæmri stjórn Guðsteins Einarssonar, hreppstjóra í Grindavík. Það annast saltfiskþurrkun, þegar sú verkunaraðferð kallar að, og hefir með höndum um fangsmikla síldarsöltun, þegar síldin veiðist í Grindavíkursjónum.

Sameiginlegt átak Grindvíkinga

Grindavík

Grindavík – hraðfrystihúsið.

Grindvíkingar eiga frystihúsið svo til allir í félagi. Hreppsbúar tóku höndum saman og komu upp þessu atvinnutæki til að skapa sér betri aðstöðu í lísbaráttunni og lögðu hvorki mefra né minna en 100 manns fé af mörkum til að koma því upp. En hafnarmálin hafa verið erfiðust viðureignar fyrir Grindvíkinga, þó að nú horfi orðið vel um þau. Í fyrstu var unnið að bryggjugerð í Járngerðar- og Þórkötlustaðahverfi. En síðan ákveðið var að legja áherzlu á að gera bátahöfn í Hópinu og gera innsiglinguna í það færa stærstu fiskibátum, hefir hin nýja Grindavík einkum risið upp í Járngerðarstaðahverfinu. En skammt er á milli og öll hverfin þrjú eru Grindavík.

„Skipaskurðurinn“ í Grindavík

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Verulegur skriður komst ekki á hafnarframkvæmdir í Grindavík, fyrr en 1945. En síðan hefur þeim miðað ört áfram, og nú er verið að vinna þar að byggingu rúmgóðrar bátbryggju, sem byggð er innan við sjóvarnargarðinn sem er steinsteyptur og traustur. Bryggjan, sem búið var að byggja út frá varnargarðinum, er nú orðin allt of lítil fyrir þá útgerð, sem nú er þegar orðin af stærri bátum frá Grindavík.
En sérstæðasta verkefnið við hafnargerðina í Grindavík er „skipaskurðurinn“, sem gerður hefur verið inn í Hópið. Þessi skurður er að vísu ekki skurður nema um fjöru, því þegar flóð er, flæðir yfir bakkana og klappirnar í kring, en eigi að síður verða bátarnir að sigla þarna eftir skurðinum, þótt flóð sé. Hefur verið komið fyrir háum stöngum á bökkunum, svo að sjómenn geti áttað sig á leiðinni, þegar hátt er í sjó.

Dýpkun innsiglingarinnar

Grindavík

Grindavík – Dýpkunarskipið Grettir annaðist m.a. dýpkun hafnarinnar.

Þessi miklvægu mannvirki er hvergi nærri lokið ennþá.
Í sumar hefir verið unnið að því að dýpka innsiglinguna, svo að hún er nú orðin það djúp, að stærstu bátar geta farið þar út og inn, hvernig sem stendur á sjó.
Næsti áfangi í framfaramálum Grindvíkinga er að auka hafnarbæturnar, svo að millilandaskipin geti komið þar að bryggju til að sækja afurðir til útflutnings og flytja nauðsynjavörur til atvinnurekstursins. Eins og nú er fara flutningarnir fram á landi til næstu útflutningshafnar, Keflavíkur.

Byrjuðu á áraskipum — en enda kannske á togara

Grindavík

Árabátar.

Gömlu mennirnir í Grindavík muna tímana þrenna í atvinnumálum kauptúnsins. Þeir sóttu sjó á áraskipunum gömlu um aldamótin, á opnum trillubátum fram að síðasta stríði og loks nú á stórum vélbátum.

Þróun bátaútvegsins í Grindavík fylgdi framþróun og endurbótum hafnarinnar
Segja má, að bátarnir hafi stækkað eftir því sem innsiglingin í Hópið dýpkaði. Þegar trillubátunum fækkaði komu í staðinn 4—8 smálesta vélbátar, því næst bátar 10—16 lesta og loks bátar 20—80 lesta. Var þannig skipt um bátastærðir þrisvar sinnum í Grindavík á fáum árum, meðan höfnin var að skapast, því að stóru bátarnir gerðu Grindvíkingum það kleyft að stunda sjóinn úti fyrir hinni brimóttu strönd betur en hægt var áður á litlu bátunum. Vel getur svo farið, að áður en mörg ár eru liðin, verði fyrsti Grindavíkurtogarinn kominn þar að bryggju, ef hafnarframkvæmdir verða jafn örar í Grindavík á næstu árum og þær hafa verið upp á síðkastið.

Gamla og nýja Grindavík á sama blettinum

Grindavík

Grindavíkurhöfn 1968 – loftmynd.

Grindavík hefur skipt um svip, Nú þessa dagana má oft sjá þar inn á höfninni 40—60 stóra og sterkbyggða síldarbáta. Þegar maður kemur þjóðveginn ofan úr hrauninu til Grindavíkur, heilsa manni hverfi fallegra íbúðarhúsa og reisulegur nýr barnaskóli. En niður við sjóinn er gamla og nýja Grindavík á svo til sama blettinum. Himinháum tunnustöflum er ekið eftir þröngum stígum milli gamalla, rauðmálaðra húsa.
Á sjávarbakkanum eru grasigrónar rústir gamalla búða, en gamall bátur brotinn og fúinn liggur undir búðarvegg. Hann er fulltrúi sama tímabilsins, og á bezt heima þarna undir búðarveggnum, og heldur sér við vegginn af gamalli tryggð, þó nú séu þar hænsni í kofa.

Sildarstúlkur og síldarstrákar — kokkurinn hleypur til skips

Grindavík

Grindavíkurbátar 1955.

Niðri á Hópinu liggja við bryggjur 40 — 60 stórir og sterklegir síldarbátar, meðan losaður er aflinn, sem fenginn er úr Grindavíkursjó. Síldartunnubreiðunum fjölgar upp við hraunið, og hraðfrystihúsið gnæfir hátt við rústir gamalla verbúða ofan við myndarleg hafnarmannvirki, sem enn eru í smíðum.
Á bryggjum og götum kauptúnsins er líf og fjör, síldarstúlkur og síldarmenn. Strákarnir af síldarbátunum þykir illt að komast ekki að til löndunar, en þeir kunna líka að meta þann frið, sem þeir fá til þess að ganga upp um götur og hraun. Áður en varir kemur kokkurinn kannske hlaupandi fyrir blint horn með ótal pakka í fanginu. Líklega er báturinn hans að leggja frá, og guð má vita nema hann týni einhverjum pakkanum á leiðinni.“ – GÞ.

Heimild:
-Tíminn, 211. tbl. 26.09.1950, Grindavík orðin umsvifamikill útgerðarbær að nýju – G.Þ., bls. 7 og 8.

Grindavík

Grindavík 2021.