Grindavík – fróðleikur

Grindavík

Hér á eftir er fjallað um nokkur áhugaverð atriði er varða Grindavík. Fólk á leið í og um bæinn gæti nýtt sér þennan fróðleik til að upplifa hluta af sögu hans því flest það, sem minnst er á má sjá með berum augum ef vel er að gáð.

Þorbjörn

Þorbjörn.

1. Það er alltaf sól í Grindavík – stundum að vísu á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og svo til ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. FERLIR hefur farið um 1310 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtingu skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á allt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, eitt helsta sérkenni okkar Íslendinga.

Arnarklettur

Arnarklettur.

2. Mikilvægt er fyrir leiðfarendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlega og leitandi að einhverju áður ókunnu. Nægan eldivið fyrir slíkt er að finna í Grindavík og nágrenni.
3. Mörk Grindavíkur að norðanverðu – Í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Seltjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, og ekki síst ströndin, er víðfeðmt.
4. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að aðalútflutnings- og söluvöru landsins og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðirnar á Reykjanesskaganum, ekki síst til að geta brauðfætt áhangendur biskups og skólasveina hans. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiði til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

5. Sagan segir (Landnámabók) að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Afritum Landnámu ber þó ekki saman um fjölda sona Molda-Gnúps – meira um það á eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

6. Njarðvíkursel er sunnan við Selvatn. Rústir má sjá þar glögglega og sennilega er það eitt nærtækasta selið á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 metra frá veginum – þó utan umdæmis Grindavíkur. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
7. Eitt af viðfangsefnum góðra ferðamanna er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbása sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma. Þá tekur Saga Grindavíkur eftir Jón Þ. Þór á flestu hinum markverðasta um sögu og staðhætti í Grindavíkurumdæmi.

Þórkötlustaðanes

Lifrabræðslan á Þórkötlustaðanesi.

8. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærsla byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem örlög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Eimir af því enn þann dag í dag í samskiptum fólksins. Hver landbleðill var nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurfti ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til tímabundinna afnota. Sumir ílengdust. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.

Járngerðarstaðir

Járngerðastaðahverfi í Grindavíkurhreppi – túnakort.

9. Útgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað er áhugavert að fara til að rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði og minjarnar þar er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

10. Á Gíghæð má sjá nokkur hús vegavinnumanna frá því að Grindavíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 – 1918. Vegavinnubúðirnar hafa verið með ca. 500 m millibili. Hestshellir er þar í leiðinni sem og nokkur heilleg og hús. Arnarseturshraunið rann árið 1226. Mörg hraun, stór og smá, eru ofan og utan við byggðina í Grindavík. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi ca 2400 ára.
11. Dollan er um 130 metra hraunhellir – rás, er myndaðist er hraunskelin hrundi undan vegavinnutæki er nota var við vinnu nýja vegarins. Stuttan stiga þarf til að komast niður í hann um jarðfallið. Dæmigerður fyrir u.þ.b. fjöldann af slíkum hraunhellum á Reykjanesskaganum. Stærstir eru þeir í Klofningum, neðan Grindarskarða, ofan Stakkavíkurfjalls, í Bláfjöllum og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir fleiri hellar eru við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir er skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.

Skógfellastígur

Skógfellastígur.

12. Skógfellahraun er eldra en Arnarseturshraun. Hraun á sögulegum tíma eru nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er hins vegar eldra. Það er myndað af gosi í Vatnsheiði, en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.
13. Á Baðsvöllum voru sel Grindvíkinga um tíma, en voru færð á Selsvelli vegna ofbeitar. Þar eru margar tóftir og minjar, djúpt markaðir stígar og vatnsstæði. Hópssel er hins vegar við veginn, visntra megin, rétt áður en komið er að Selhálsi milli Þorbjarnarfells og Svartsengisfjalls.
14. Þorbjarnarfellið er ekki síst merkilegt fyrir misgengið er liggur í gegnum fjallið. Sjá má hvernig miðja fjallsins hefur fallið niður og bergveggir stannda eftir beggja vegna. Sagnir um þjófa er héldu til í fjallinu og herjuðu þaðan á íbúana. Ræningjagja er í fjallinu, en Baðsvellir norðan þess og Gálgaklettar austar. Allir tengjast þessir staðir sögunni.

Hraun

Hraunsvör.

15. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir. En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis. Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök. Fátt er heilsusamlegra en að ganga rekann eða ráfa um fjörurnar í góðu veðri, anda að sér sjávaranganum og skoða aðfallslífið.

Grindavík

Grindavík.

16. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv. sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku er skildi eftir sig dys á Hrauni.
17. Skipsstígur liggur milli Njarðvíkur og Grindavikur, um Rauðamel og áfram þar sem hann klofnar í Árnastíg er liggur niður að Húsatóftum. Við Skipsstíg er m.a. Gíslhellir, skjól eða athvarf einhverra, sem þar vildu dvelja.
18. Sögufrægir staðir eru í umdæminu, s.s. Selatangar og Húshólmi. Á Selatöngum er gamalt útver með öllum þeim minjum, sem þeim fylgja, og í Húshólma eru með merkustu fornleifum landsins, líklega frá upphafi landnáms hér á landi.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

19. Kóngsverslunin var neðan Húsatófta. Þar má í dag m.a. sjá kítarpípur koma undan tóftunum, sem sjóinn er óðum að brjóta iður – Festasker eru utar. Þarna er hin flóraða Staðarvör, bærinn Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914), sem nú er verið að endurgera, og Hvirflarnir, rústir ofan við gömlu bryggjuna í Staðarhverfi. Bjallan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 við Jónssíðubás utan við Húsatóftir er í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Sagt er að á meðan hún stendur mun ekkert illt henta Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
20. Sýlingarfell er mið af sjó. Annars heitir það Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps. Á kolli þess er fallegur gígur.
21. Hópsselið er við veginn skömmu áður en komið er upp á Selháls.

Þorbjarnarfell

Camp Vail á Þorbjarnarfelli.

22. Á Þorbjarnarfelli var um tíma bækistöð Breta. Enn má sjá grunnam hleðslur og vegi uppi á fjallinu sem minjar þessa.
23. Gálgaklettar eru ofan við Hagafell. Þeir tengjast sögunni um ræningjana í Þorbjarnarfelli.
24. Skipsstígur hefur verið endurgerður að hluta utan í Lágafelli –Við hann er Dýfinnuhellir er tengist sögu af samnefndri konu er þangað flúði með börn sín eftir að Tyrkirnir stigu á land í Grindavík.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

25. Fornavör er neðan Járngerðarstaða. Frá bænum lá sjávargatan framhjá Járngerðarleiði, er nú má sjá í eitt hornið af undir veginum gegnt Hliði.
26. Stóra-Bót geymir Virki Jóhanns breiða og samlanda hans og stendur sem minnisvarði um lok ensku aldarinnar hér á landi. Þar er og Junkaragerðið, sem fyrr segir.
27. Einisdalur er fallegur áningastaður vestan Járngerðarstaða.
28. Hóp hefur af sumum verið talið vera landnámsjörð Molda-Gnúps. Hann átti þrjá sonu sbr. Hauksbók, en fjóra sbr. Sturlubók. Þeir hétu a.m.k. Björn (Hafur-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi, sem Þórðarfell er kennt við. Fjórði bróðirinn á að hafa verið Gnúpur er Gnúpshlíðarháls er kenndur við. Talið er jafnvel að landnámið hafi verið þar sem Hóp er nú. Getið er jarðarinnar Hofs í rekamáldaga Skálholtskirkju frá árinu 1270.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Engin jörð við Grindavík hefur borið það nafn á síðari öldum. Um misritun gæti hafa verið að ræða. Hof gæti líka hafa breyst í Hóp eftir að kristni af innleidd. Við Hóp er öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending og mikil fjörugæði. Þar er tóft, sem nefnd er Goðatótt og ekki hefur mátt hrófla við.

Þórkötlustaðanes

Sögusviðið í Þórkötlustaðanesi.

29. Í Þórkötlustaðahverfi má m.a. finna dys Þórkötlu, fiskbyrgi og -garða í Slokahrauni og við Hraun er 14. aldra kapella, Gamlibrunnur, Tyrkjadys, refagildrur og Tyrkjahellir.
30. Þórkötlustaðanesið er lifandi minjasafn um útgerð sjávarþorps á fyrri hluta 20. aldar, semnú er horfið. Eftir standa íshúsin, fiskkofarnir, garðarnir, uppsátrið, rústir lifrabræðslu og grunnar húsa, sem fjarlægð hafa verið og flutt í önnur hverfi – meira lifandi.

Grindavík

Grindavík.