Slaga

Gengið var um Skollahraun í blíðskaparveðri. Vestast í hrauninu eru gamlir fiskigarðar og fiskbyrgi frá árabátaútgerðinni við Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Þarna, líkt og í Strýthólahrauni, Slokahrauni, á Selatöngum og í Herdísarvík eru hundruðir metra af þurrkgörðum er liggja um hraunið. Inni á milli má sjá þurrkbyrgin. Erfitt er að koma auga á sum þeirra vegna þess hversu mosavaxin þau eru orðin. Enn einn verstöðvaminjastaðurinn við strönd Reykjanesskagans. Þessar minjar hafa varðveist vel vegna þess hversu fáir hafa vitað af þeim.
Skoðaður var fjárhellir Skálabúa undir öxlinni er liggur suðvestur úr Slögu og síðan kíkt á vatnslind þeirra undir hlíðinni.

Slaga

Slaga.

Slaga er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Undir henni sunnanverði voru fyrrum sjávarhamranir, en nýrra hraun færði hana utar þar sem hún nú er. Á bak við Slögu að norðanverðu er Drykkjasteinsdalur. Dregur dalurinn nafn sitt af Drykkjarsteininum, sem aldrei á að þrjóta vatn í. Hann er við gömlu þjóðleiðina um dalinn austur til Krýsuvíkur.
Síðan var haldið á Núpshlíðarháls þar sem gengið var eftir eldgígaröðinni og skoðaðar hraunæðar og hraunfarvegir.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Gengið var um Stóra-Hamradal og við norðurenda hans upp á Núpshlíðarhálsinn þar sem útsýni er um bakland Keilis, norður til höfðuborgarsvæðisins og vestur til Grindavíkur. Neðan undir hálsinum kúrði Hraunssel með tóttum og stekkjum. Á bakaleiðinni var gengið að gígunum, sem Ögmundahraun kom úr, dáðst að útsýninu yfir Bleikingsdal og síðan haldið með gígaröðinni til suðurs.
Um var að ræða frábæra göngu í fallegu umhverfi.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.