Grindavík – höfuðborg Reykjanesskagans
Næstu daga á undan og allt fram að þeim tíma voru stöðugt sýndar 3233 ljósmyndir af 2005 slíkum stöðum á svæðinu á daglegum opnunartíma setursins.
Þetta tiltekna kvöld bauðst hins vegar tækifæri til að spyrja nánar um einstaka staði og einstök svæði eða koma með ábendingar, fróðleik eða umsögn um hvorutveggja – og allt þar á milli. Boðið var upp á frjálslegar samræður og skemmtan með kaffi- og piparkökubragði.
Sumir myndu telja að Grindavík væri ekki borg í þeim skilningi, þ.e. þessi vinarlegi bær með u.þ.b. 2700 íbúa, en íbúarnir vita að höfuðborgin er jafnan þar sem maður er hverju sinni. Þannig er Grindavík t.a.m. engu minni í sinni þeirra, sem þar búa, en t.d. íbúa eða gesta Reykjavíkur á meðan þeir dvelja í Grindavík.
Á meðan fólk dvelur við þessa fallegu vík við Suðurströndina, þar sem súrefnið kemur fyrst ferskt og ónotað af hafi, hugsar það ekki einu sinni um víkina með nafni reykjanna í norðri. Og ekki dettur því heldur í hug að hugsa um aðra bæi á Reykjanesskaganum sem höfðuborg hans þá stundina. Hver segir líka að borg þurfi endilega að taka mið af umfangi og fjölda. Af hverju ekki að miða við viðhorf, vit og vitund.
Hér og nú, á þessum stað, er viðeigandi að velta fyrir sér jólasveinunum – jafnvel upplýsa leyndarmál. Þvörusleikir á skv. vísu Jóhannesar úr Kötlum að vera næstur jólasveina að drífa sig í vinnu. Stekkjarstaur, giljagaur og stúfur eiga þegar að hafa látið hendur standa fram úr ermum. Innfæddir Grindvíkingar, hver sem betur getur, vita hvar sveinar þeir hafa vetur- og sumarsetur. Þeir vita að hellar eru hvorki ákjósanlegar né heilsusamlegar vistarverur, jafnvel ekki fyrir jólasveina, þótt aðrir halda að svo sé. Engir þeirra hafa þó nokkru sinni séð rauðklædda karla með hvít skegg og í svörtum stígvélum spássera um á milli hátíða, hvorki í hellum né annars staðar. En hvar dvelja þeir þá frá 6. janúar til 11. desember ár hvert?
Málið er að jólasveinarnir eru einfaldlega meðal annarra Grindvíkinga þennan tíma; þeir klæðast eins og aðrir og eru í útliti ekki ólíkir öðru fólki í þessari litlu höfuðborg Reykjanesskagans. En þegar líða tekur að jólum bregða þeir sér, hver á fætur öðrum, í stígvél og vinnuföt og hverfa hljóðlega út í myrkrið. Grindvíkingar vita – og hafa vitað lengi – að sumir á meðal þeirra sjást þar aldrei í kringum jól og áramót. Þeir hafa sammælst að telja öðrum trú um að þeir fari til annarra landa, sem er að vísu að mörgu leyti rétt. Enginn hefur hins vegar hingað til spurt hvað þeir væru að gera þar.
Einn Grindvíkingurinn tók af allan vafa um framangrein þegar hann þurfti skyndilega að bregða sér í vinnuna, fór afsíðis og klæddist vinnugallanum – jólasveinabúningnum – og hvarf síðan hljóðlaust út í myrkrið.
Eitt stærsta sakamál seinni tíma í Grindavík var „Kjöthvarfið mikla“ – sjá HÉR. Mikið magn af haldlögðu heimaslátruðu kjöti hvarf skyndilega að næturlagi úr frystigámi, sem lögreglan hafði geymt það í, en heimaslátrun varð óheimil þetta árið skv. reglum þótt hún hafi tíðkast þarna allt frá upphafi landnáms. Ekki upplýstist hver eða hverjir tóku kjötið, en eitt er víst; kjötkrókur var lengi á eftir einstaklega vinsæll meðal foreldra hans og bræðra.
Nógu erfitt hefur verið að reyna að sannfæra fólk um að allt það, sem lýst er, sé í rauninni til á Reykjanesskagagnum. Myndirnar af einstökum minjum og náttúrufyrirbærum ættu að taka af allan vafa um að svo sé og undirstrika um leið verðmæti svæðisins, hvort sem er til útivistar, fróðleiks eða ánægju.
Maður er manns gaman – enda var mikið spjallað saman.